23.5.18

Stiklað á stóru

Ég er mjög dugleg að láta það vera að kveikja á tölvunni. Hef svo sem, hvort eð er, ekki verið í neinu skrifstuði en það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig og stundum mætti ég alveg vera duglegri að skrifa um sumt af þessu svo það gleymist ekki.

Æskuvinkona mín, Ella, var hjá mér í tvær nætur fyrir rétt rúmri viku. Ég hafði vitað af komu hennar í nokkra daga og undirbjó heimsóknina vel. Bauð henni að sofa í herberginu mínu og bjó um mig á beddanum í stofunni sem tvíburahálfsystir mín var nýbúin að skila en ég lánaði henni hann í heila viku undir sænska eða danska stelpur (veit ekki hvor þeirra notaði hann). Degi eftir að Ella vinkona flaug aftur heim til sín gistu mágur minn og yngri systurdóttir mín. Hún var í stofusófanum í eina nótt en hann á beddanum í 3 nætur. Frænka mín flaug nefnilega með föðursystur sinni til London seinni partinn á fimmtudaginn var. Helga systir kom suður á föstudagskvöldið með kærustuparið og hvolpinn. Hinn hundurinn var skilinn eftir í pössun fyrir norðan. Kærustuparið fór heim til mömmu hans en Helga gisti í sófanum í eina nótt. Ég rétt náði að heilsa upp á hana um hálftólf þegar ég kom heim úr kortadeildargrillpartý. En við systur hittumst svo aftur á Hellu seinni partinn á laugardaginn. Ég gisti í eina nótt en þau í tvær.

Klukkan ellefu á mánudagsmorguninn var ég mætt í Dómkirkjuna til að fylgjast með því þegar verið var að vígja einn frænda minn til prests til að taka við Patreksfjarðarprestakalli. Eftir athöfnina heilsaði ég aðeins upp á frændfólkið mitt sem var þarna en dreif mig svo beint í sund. Bræðurnir voru báðir að vinna, annar til klukkan átta og hinn til klukkan tíu (eh). Ég mætti í mína kirkju upp úr klukkan sjö til að undirbúa maulið eftir messuna. Alls mættu 17 ef allir voru taldir með. Ég gaf mér góðan tíma til að sitja og spjalla á eftir messunni og var til klukkan tíu að ganga frá á eftir.

Ég skilaði annars inn 5 bókum á safnið sl. föstudag, þrjár hafði ég klárað en hinar tvær rétt byrjaði ég á og sá að ég mundi ekki nenna að lesa þær. Hefði getað haft þær í 10 daga lengur en ég ákvað að skipta þeim út. Kom með 5 bækur heim í staðinn og er búin að klára tvær af þeim nú þegar. Önnur þeirra var svaðalega spennandi; Týndu stúlkurnar eftir Angelu Marsons þýdd af Ingunni Snædal. Mér skilst að það sé búið að þýða tvær aðrar eftir þennan höfund og ég á örugglega eftir að "þefa" þær uppi og lesa (skrifar sú sem ekkert lyktarskyn hefur).

Þriggja mánaða strætókortið mitt rann úr gildi eftir 18. maí og þar sem það styttist í sumarfrí hef ég ákveðið að labba sem oftast milli heimilis og vinnu. Það var fínt að labba í gærmorgun en leiðinda rok og rigning á móti mér seinni partinn. Komst þó heim, skipti um föt, hringdi aðeins í pabba en fór svo beinustu leið í sund og kalda pottinn. Labbið í morgun og seinni partinn voru fínustu göngutúrar og eftir að hafa hringt austur setti ég bræðrunum fyrir og skrapp svo smá stund í sjóinn. Þegar ég kom til baka var maturinn tilbúinn. Stoppaði ekkert svo lengi heima því það var heimaleikur hjá Val í Pepsídeild kvenna. 2-0 fyrir VAL á móti HK/Víkingi.

5.5.18

Lítið að gerast í skrifunum

Það er það langt síðan að ég skráði mig inn síðast að google sá ástæðu til að spyrja hvort ég ætti örugglega að vera með aðgang að þessari síðu. Fékk sent númer með sms í farsímann til að staðfesta að ég mætti fara hérna inn og nota þessa síðu eftir mínu höfði. Annars er ég stödd á Hellu þessa stundina og verð eitthvað fram á morgundaginn. Esperanto-hittingingi var frestað til næsta fimmtudags svo ég var löt að drífa mig af stað í sund í morgun. Var þó komin ofan í þann kalda upp úr klukkan hálftíu. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Krónuna við Granda og fyrir utan að ég var að gera innkaup fyrir sjálfa mig var ég að leita eftir vöru fyrir pabba og mömmu sem ekki fæst á Hellu í augnablikinu. Fann þetta ekki í Krónunni. Kom við hjá Atlantsolíu við Öskjuhlíð áður en ég fór heim með vörunar, gekk frá þeim og sunddótinu, ýtti aðeins við öðrum stráknum til að láta vita að ég væri að fara austur, tók dót sem ég hafði tekið saman í morgun til að fara með. Fyrsta stopp var í Hagkaup í Skeifunni og eftir smá hringsól og nokkuð mikla leit fann ég nokkrar krukkur af súrsætri sósu frá "Benna frænda". Næsta stopp var í Fossheiðinni og svo var ég komin á áfangastað um hálffjögur.

Fyrsti stjórnarfundur nýkjörinnar safnaðarstjórnar í Óháða söfnuðinum var haldinn í Kirkjubæ milli 17 og 18:30 sl. fimmtudag. Ritari og gjaldkeri höfðu boðað forföll en það var fagnaðarefni að frétta og sjá að það hafði náðst að fullskipa stjórnina, að búið væri að fylla í öll þrjú sætin sem í höfðu setið formaður, varaformaður og einn meðstjórnandi síðustu 2-12 ár. Ég tók að mér að sjá um fundarritun. Náði að hreinskrifa þau skrif í gær og senda á nýkjörinn formann sem fór yfir, bætti við einu atriði og ætlar að senda á alla stjórnina.

Var á leiknum VALUR - Selfoss í Pepsídeild kvenna í gærkvöldi. Svolítið kalt en það voru skoruð átta mörk sem öll voru skoruð í mark gestanna. Valsstelpurnar héldu hreinu. Annars er ég bara góð. :-)