- Alltaf á sprettinum -
ég verð að fara að róa mig aðeins, eða þannig
Ég bauð samstarfsstúlku far eftir vinnu í gær. Hún kom með mér að sækja strákana sem voru að fara í frjálsar. Ég var reyndar svo utan við mig að ég beygði inn einni götu snemma og lagði örstutta stund fyrir framan Mávahlíð 21, áður en ég áttaði mig á því að það myndu engir strákar koma inn í bílinn þarna. Við hlógum mikið að þessu. Eftir að hafa skutlað strákunum og hleypt samstarfsstúlkunni út fór ég í Ís-spor og lét laga merkin (þ.e. nælurnar sem voru bilaðar). Söngfuglinn fór á hjóli á kóræfingu svo ég gat aðeins stoppað heima áður en kominn var tími til að fara á auka-stjórnarfund. Tók silfurmerkin tvö með í leiðinni. Annar silfurhafinn var mættur. Fundurinn hófst um sex og auk stjórnarmeðlima (þ.e. 5 af 6) var cd-nefndin mætt sem og fyrrverandi formaður foreldrafélagsins. Það var nóg að gera því það er alveg að koma að því að senda geisladiskinn út til fjölföldunar. Þegar kóræfingin var búin mættu kórstjóri og undirleikari á svæðið og þá var aðeins farið yfir það sem er framundan, og það er nóg um að vera á næstunni.
Kom heim upp úr hálfátta. Feðgarnir voru að borða afganginn af pizzunum frá því á laugardaginn. Ég fékk afgang af pizzu með rækjum, sveppum og ferskjum án osts, frekar gott!!! Botnarnir voru úr heilhveiti og grófu spelti, lyftidufti frá Sollu, smá hafsalti og sumir hnoðaðir með volgu vatn og aðrir með ab-mjólk.
Svo skellti ég mér til tvíburahálfsystur minnar og byrjaði loksins að föndra jólakortin í ár, þ.e. þau sem ekki eru/verða saumuð og mér tókst að búa til heil sjö stykki, enda fékk ég góða aðstoð frá dóttur hennar. Sú var áhugasöm og á einhvern tímann eftir að verða mjög góð í þessu. Sennilega næ ég að föndra öll kort í tíma þótt ég hafi ekki byrjað á föndrinu seinni partinn í sumar eða í haustbyrjun eins og svo oft áður.