Það stefnir allt í afar rýrt skrifsumar og ég er ekki viss um hverju ber að þakka það eða kenna um eftir því hvernig á það er litið. Ég er þokkaleg og rúmlega það. Hamast við að njóta augnablikanna og reyni líka að nýta sumt af tímanum skynsamlega í nokkuð sem ég skrifa lítið sem ekkert um enda um venjuleg heimilisverk að ræða. Viðurkenni það alveg að mér gengur betur að eyða tímanum í allt annað en heimilisverkin en þau verða samt aldrei alveg útúndan.
Nú eru rétt rúmlega fimm virkir dagar eftir af aðalsumarfríinu mínu. Ég er ekkert orðin þreytt á því að vera í fríi og sé fram á að ná ekki að komast yfir að gera alveg allt sem var á listanum. En ég er búin að gera alveg helling og ég er ekkert með samviskubit yfir einu eða neinu, til hvers væri það svo sem?
Einkabílstjórinn er búinn að taka fullnaðarprófið eftir að hafa haft ökuréttindi í rúmt ár eða frá því seinni partinn í apríl í fyrra. Hann var að skila inn akstursmatinu til sýslumannsins í Kópavogi og ætlar svo að sækja skírteinið þegar það er tilbúið. Annars hefði hann þurft að skila inn því skírteini sem hann hefur haft sl. ár og fá bráðabirgða skírteini í millitíðinni.
Snemma á þessu ári sagði ég upp áralangri áskrift af kiljuklúbbnum Hrafninum. Síðasta bókin sem kom áður en áskrift var hætt var Fyrirvari eftir Renée Knight. Ég tók þá bók loksins úr blastinu um síðustu helgi og kláraði hana daginn eftir að ég byrjaði á henni. Mjög spennandi og kemur stöðugt á óvart. Spennan hélst út bókina.