28.2.21

Síðasti febrúardagurinn

Gærdagurinn var bara alveg ágætur. Var vöknuð en ekki komin framúr rúmi þegar næst stærsti skjálftinn, af öllum skjálftum síðan þetta hófst á miðvikudaginn var, reið yfir. Ákvað í kjölfarið að koma mér á fætur. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég fyrst um sinn inn í stofu. Um hálftíu bjó ég mér til hafragraut og rétt rúmum klukkutíma síðar var ég mætt, langfyrst, í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík. Þetta var ca tuttuguogfimm mínútum fyrir opnun. Reyndar kannski ekki nema tuttugu mínútum því það var byrjað að hleypa inn nokkrum mínútum áður en klukkan varð ellefu. Hinar fjórar í hópnum mínum voru aftar í röðinni og komust samt inn með fyrsta hollinu. Sjórinn var 2°C, nokkur ferð á logninu og mikill og skemmtilegur öldugangur. Við vorum út í sjó í uþb fimm mínútur áður en við fórum í heita pottinn. Ég kom heim aftur um tólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Fór aðeins einu sinni út úr íbúðinni eftir þetta. Þá lá leiðin í þvottahúsið að sækja þvott af snúrunum. Annars var ég að prjóna, vafra á netinu og lesa. Kláraði að lesa þriðju bókina af safninu og fyrra bindið um Hellu. Í gærkvöldi byrjaði ég svo á fjórðu bókinni af safninu, Illvirki. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn en þeir voru boðnir í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans.

27.2.21

Þetta er nú meiri hristingurinn

Það var með seinni skipunum sem ég fór á fætur í gærmorgun. Hafði að vísu rumskað um fimm sem kannski er ekkert óeðlilegt því ég var sofnuð fyrir klukkan hálfellefu. En mér tókst semsagt að bæla mig niður aftur án þess að fara framúr og var klukkan rétt að byrja að ganga tíu þegar ég fór á fætur. Framan af morgni stóð til að skreppa aðeins í sund en bókin illvirki ríghélt mér og um hádegisbil þegar skjálftahrinan var komin á skrið aftur var ég búin að ákveða að skrópa í sundið. Aftur á móti skrapp ég í þriggja kortera göngutúr milli þrjú og fjögur og áður en ég fór í háttinn í gærkvöldi var ég búin að ná skrefa markmiðum dagsins sem eru 6000 skref. Strákarnir voru báðir heima í gær og dobblaði ég þá til að skila af okkur sameigninni, þ.e. ryksuga og skúra frá þvottahúsið, ganginn og stigann upp að íbúðinni fyrir neðan okkur. 

26.2.21

Rigning og logn

Gærdagurinn var ósköp rólegur en leið samt frekar hratt. Lauk við að lesa smásögurnar sem voru fimm talsins og las einnig áfram í fyrra bindi um Hellu. Maður getur alveg gleymt sér við að skoða myndirnar í þeirri bók. Er búin að rekast nokkrum sinnum á nafnið hans afa míns. Ég tók líka fram prjónana mína. Kalda potts vinkona mín hafði samband og sagðist myndu mæta í sund um fjögur. Ég fór því ekkert út fyrr en um þrjú. Byrjaði á því að fara á atlantsolíustöðina við Sprengisand og fylla á tankinn. Það gekk eins og í sögu. Var byrjuð að synda um hálffjögur og synti 500 metra á rétt rúmum tuttugu mínútum. Klukkan var ekki alveg orðin fjögur þegar ég fór fyrstu ferðina í kalda pottinn. Sat þar í fjórar mínútur áður en ég fór nokkrar mínútur í heitasta pottinn. Enn bólaði ekkert á vinkonu minni svo ég settist smá stund á bekk. Ákvað svo að taka aðrar fjórar mínútur í kalda pottinum. Ég var búin að sitja nokkrar mínútur í heitasta pottinum þegar vinkonan mætti. Fór fimm ferðir með henni í kalda pottinn. Vorum yfirleitt um þrjár mínútur í hvert skipti. Kom heim rétt fyrir sex.

Í gærkvöldi byrjaði ég svo á þriðju bókinni af safninu: Illvirki eftir Emelie Schepp. Þetta er þriðja bók höfundar og eru sömu aðalpersónur og í hinum tveimur. Var að skila bók númer tvö í síðustu ferð og í þeirri ferð tók ég einni fjórðu bókina eftir sama höfund, Pabbastrákur. 

25.2.21

Bókasafnsferð

Þrátt fyrir að ég ætti ekki að mæta til vinnu í gær var ég komin á fætur hálfri stundu fyrir átta. Eftir að hafa sinnt morgunverkunum á baðherberginu settist ég inn í stofu. Hafði fimm bækur með mér, þrjár úr eigin safni og eina frá pabba. Ég byrjaði þó á að setjast með fartölvuna í fangið og gleymdi mér alveg næsta einn og hálfa tímann eða svo. Þegar ég loksins slökkti aftur á tölvunni fór ég fram í eldhús bjó mér til hafragraut og hellti upp á kaffi. Ég var að skola skálina og ná mér í fyrsta kaffi bollann þegar ísskápurinn byrjar að vera með óskiljanleg læti í smá stund. Fattaði það ekki fyrr en lætin byrjuðu aftur örskömmu síðar að þetta hefðu líklega verið jarðskjálftar. Fann svo fyrir öllum stærri skjálftum en 3,5 á rikter þegar ég sat í stofustólnum að lesa eða prjóna. Frestaði sjósundsferð þar til eftir hádegið til að geta fylgst með aukafréttatímanum klukkan tólf.

Ég fékk áminningu frá bókasafninu um að skiladagur væri að nálgast. Það varð til þess að ég greip líka með mér bókasafnspokann ásamt sjósundsdótinu. Byrjaði á því að skreppa á safnið og skilaði öllum sex bókunum. Á skammri stundu var ég komin með átta aðrar bækur í fangið. Ein af þeim er ljóðabókin Rof eftir Bubba Morthens og önnur er smásögusafnið Fílahirðirinn eftir Stefán Sigurðsson.

Áður en ég dreif mig í smá sjósundsferð ætlaði ég að fylla á tankinn hjá Atlantsolíu við Sprengisand. Þegar ég komst að dælu þá virkaði ekki lesarinn eða lykillinn svo ég ákvað að fresta þessu aðeins. Var komin ofan í sjóinn rétt upp úr klukkan tvö og ég gaf mér klukkutíma í allt í þessa dásemd. Kom við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór aftur heim.

24.2.21

Síðustu heimadagarnir framundan

Í gær var ég komin á fætur og búin að slökkva á vekjaraklukkunni fimm mínútum áður en hún hringdi. Hafði auka fimmtán mínútur til að kveikja á tölvunni og vafra aðeins um áður en kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Tuttugasti "mæta á vinnustað" dagurinn á árinu og tuttuguasti göngutúrinn til vinnu á árinu. Hlóð höfuðljósið í fyrrakvöld og birtan frá því mikil og skær á göngunni í gærmorgun. Ég sá um bókhaldið í gær en leysti líka aðeins af á vélinni því við vorum allar í starfssamtali við yfirmann í gærmorgun. Hún mætti til okkar rétt fyrir hálftíu og ég var fyrst í samtalsröðinni. Hinar tvær fóru fram í kaffi á meðan og önnur þeirra tók smá auka kaffi með mér en við vorum þó byrjaðar að framleiða aftur áður en kom að henni. Samtalið við yfirmanninn gekk að ég held ágætlega. Þetta var okkar fyrsta samtal maður á mann við þennan yfirmann og mér fannst amk mjög auðvelt að vera ég sjálf í samtalinu. Fyrsta formlega spurning var um líðan mína á vinnustað. Ég var ágætlega undirbúin því sú spurning og þrjár aðrar voru í fundarbeiðninni þegar boðað var til þessa samtals fyrir viku síðan. Annars lauk vinnudegi ekki fyrr en upp úr hálffjögur, þrátt fyrir að engin síðdegispása væri tekin en stundum standa sum vinnumál þannig að ekki er hægt að fara fyrr en búið er að leysa þau.

Fékk far heim úr vinnunni en stoppaði ekkert heima. Tók bara saman sunddótið mitt og var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan fjögur. Kalda potts vinkona mín var mætt og búin að fara eina ferð í kalda. Saman fórum við sex ferðir í viðbót. Ég sleppti því að synda en gaf mér góðan tíma í gufunni eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Kom heim um sex og setti upp grjónagraut. Næst má ég mæta í vinnuna á mánudaginn kemur, 1. mars og þá megum við mæta allar fimm í fyrsta skipti síðan síðast í júlí á síðasta ári. Einhverjar af hinum eiga enn inni meira en 10 orlofsdaga frá síðasta orlofsári og þær eru hvattar til að taka alla daga framyfir 10 út fyrir 1. maí. Ég á 7 daga svo ég slepp en á næsta ári mega þeir ekki vera meira en fimm eftir. Ég er búin að setja fram orlofsósk upp á 28 virka daga frá því seinni partinn í júlí og út ágúst.

23.2.21

Breytingar framundan

Þrátt fyrir að sofa alveg þar til vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun hafði ég tíu auka mínútur til að kveikja aðeins á tölvunni áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Höfuðljósið var með daufara móti enda hef ég aldrei hlaðið það. Engu að síður slokknaði ekki alveg á ljósinu fyrr en rétt áður en ég mætti til vinnu. Þessa dagana erum við með fullt af endurnýjun í gangi svo vélin var látin ganga frá rúmlega átta til rétt rúmlega þrjú. Aðeins voru gerðar pásur vegna talninga, morgunkaffis og hádegishlés. Fékk far heim úr vinnunni og hafði þá einn og hálfan tíma þar til sjósundsvinkona mín sótti mig. Mættum allar fimm úr hópnum í Nauthólsvík rétt fyrir hálfsex og þurftum að bíða í röð í ca tíu mínútur áður en okkur var hleypt í búningaaðstöðuna. Systurnar voru á leið í matarboð um sex en þær náðu öllum fjórum mínútum með okkur í 1,7°C sjónum og smá stund í heita pottinum áður en þær drifu sig upp úr. Ég kom heim um hálfsjö.

22.2.21

Styttri vinnuvikan hálfnuð

Ég var komin á fætur rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun og hafði einn og hálfan tíma til að vafra um á netinu. Skutlaði N1 syninum á vinnuvakt upp á Gagnveg og mætti hann á slaginu klukkan tíu. Svo fór ég beint í laugardalinn. Kalda potts vinkona mín var mætt og búin að fara eina ferð í þann kalda. Saman fórum við sex ferðir og oftast í þann heitasta á milli en einu sinni í pott tvö og í annað skiptið í "sjópottinn". Það var eftir að systir hennar mætti á svæðið en sú fer ekkert í kalda pottinn. Eftir sjöttu kaldapotts ferðina synti ég 300 metra áður en ég fór upp úr og þvoði á mér  hárið. Var komin heim rétt upp úr tólf. Hlustaði á hádegisfréttir og prjónaði á meðan. Fljótlega eftir fréttir hellti ég mér upp á fyrstu tvo kaffibolla dagsins. Til stóð að nafna mín og frænka kæmi til mín um miðjan dag en þegar klukkan var að verða hálffjögur og ekkert bólaði á henni, hringdi ég. Í ljós kom að hún var lasin og bað hún mig margsinnis fyrirgefningar á að hafa ekki látið mig vita. Við spjölluðum saman í þrjú korter og ákváðum m.a. næsta hitting. Ég fór ekkert út aftur og bjó mér heldur ekki til meira kaffi. Átti samt ekki í neinum vandræðum með að eyða tímanum fram að háttatíma. 

21.2.21

Á leið í sund eftir skutl

Var glaðvöknuð fyrir klukkan sjö í gærmorgun og fór því fljótlega á fætur. Bauðst því til að skutla N1-syninum í vinnuna svo hann var mættur rétt fyrir átta, á réttum tíma. Þegar hann þarf að taka strætó á laugardagsvaktirnar er hann alltaf að mæta milli átta og hálfníu þótt hann taki fyrstu ferð. Fór beint heim aftur og lauk við að lesa síðustu bókina sem af safninu. Las líka í fyrra bindinu um Hellu sem pabbi lánaði mér um daginn og er ég rúmlega hálfnuð með það. Bjó mér til hafragraut og hellti upp á kaffi um níu leytið. Greip svo eitthvað í prjónana mína.

Upp úr klukkan hálfellefu var ég mætt no 3 í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík. Þrjár aðrar úr sjósundshópnum mínum mættu tíu mínútum seinna og lentu mun aftar í röðinni en komust sem betur fer inn í fyrsta hollinu. Þeir hleypa inn rúmlega 50 manns í einu svo það myndast líka smá raðir fyrir framan klefana. En þetta gengur þokkalega fljótt fyrir sig. Það var að flæða að svo við þurftum ekki að fara langt út í 1,3°C heitan sjóinn. Vorum hátt í fjórar mínútur í sjónum.

Þegar  ég var komin alveg upp úr eftir 15 mínútur í heita pottinum ákvað ég að renna við í Sports Direct til að kaupa mér nýja sundboli. Verslunin var opin en ég fann ekki þá tegund sem ég nota, amk ekki í minni stærð svo ég ákvað að snúa frá í bili. Á sem betur fer tvo vel nothæfa sundboli en annar þeirra er að farin að láta aðeins á sjá. 

20.2.21

Helgarfrí

Var mætt á vinnustað um hálfátta í gærmorgun eftir hálftíma labbitúr. Fimm mínútum síðar mætti sú næsta sem var á vinnuvakt í gær og það var eins gott því það þarf tvo til að opna inn á lager og sækja m.a. bankatöskurnar með útibúakortunum sem framleidd voru daginn áður. Fyrsta taska dagsins var sótt óvenju snemma eða þegar klukkuna vantaði tuttuguogþrjár mínútur í átta. Vinnudagurinn var annars fljótur að líða enda nóg að gera. Framleiddum til klukkan að ganga þrjú, með viðeigandi hádegis og kaffipásum. Á föstudögum leyfum við okkur að hætta í fyrra fallinu sama hvernig verkefnastaðan er, þ.e. svo framalega sem búið sé að framleiða daglega skammtinn. Klukkan var samt að verða hálffjögur þegar við yfirgáfum vinnustaðinn allar þrjár.

Ég fékk far heim og stoppaði þar í um klukkustund áður en ég skrapp í Laugardalinn. Annan daginn í röð fór ég í sund án þess að synda. Hefði kannski synt 200 metra ef uppáhalds brautirnar mínar hefðu ekki verið svona ásetnar eins og þær voru milli fimm og sex í gær. En það gerði helling fyrir mig að komast nokkrum sinnum í kalda pottinn og þann heitasta á milli og svo endaði ég á góðri gufuferð. 

19.2.21

Átjánda vinnudegi ársins lokið

Slökkti á vekjaraklukkunni fimmtán mínútum áður en hún átti að hringja í gærmorgun. Dreif mig fljótlega á fætur og hafði korter til að gera það sem ég geri mjög sjaldan en gerði í gær, kveikti á tölvunni og vafraði á netinu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Ég var í bókhaldi í gær og hinar tvær sáu um daglega framleiðslu til hádegis og endurnýjun til klukkan þrjú eftir hádegi. Þegar hefðbundnum daglegur bókarastörfum var lokið dundaði ég mér við að halda áfram að vinna að tengingum sem tengjast mánaðamótauppgjöri með góðfúslegu leyfi þeirrar sem heldur utan um reikningagerðina. Vinnudagurinn leið afar hratt.

Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim upp úr klukkan hálffjögur. Mætti í laugardals laugina rétt rúmlega fjögur. Kalda potts vinkona mín var að ljúka sinni fyrstu ferð í þann kalda þegar ég mætti. Hún beið eftir mér í heitasta pottinum og við náðum svo að mana hvor aðra í 6x3mínútna kalda potts ferðir. Ég endaði svo á því að fara í gufu.

Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og hann hafði á orði að ég væri seint á ferð. Það var samt alveg rúmur hálftími eftir af opnunartímanum hjá honum. Heima ákvað ég að setja ýsuflakið inn í ísskáp í dallinum sem ég hafði haft meðferðis í fiskbúðina. Setti upp nokkrar litlar kartöflur og skar niður lifrarpylsu- og blóðmörssneiðar og steikti á pönnu. Hafði keypt sinn hvort soðna keppinn í verslunarferðinni eftir vinnu á miðvikudaginn. 

18.2.21

Á leið í sund eftir smá

Var sem oftast fyrr vöknuð á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun. Spáin hafði gert ráð fyrir rigningadembu og ég hafði verið að velta því fyrir mér að fara á bílnum í vinnuna svona einu sinni og þá fyrsta skiptið á þessu ári. En þegar til kom þá labbaði ég af stað um sjö. Það var einhver smá úrkoma en frekar lítil því ég varð sama og ekkert blaut á þessari hálftíma göngu í vinnuna. Nóg var að gera í vinnunni en önnur af samstarfskonum mínum hafði ákveðið að að taka orlof eftir hádegi. Ég fékk að hætta upp úr klukkan hálfþrjú. Fékk einkabílstjórann til að sækja mig og notaði tækifærið og skrapp í smá verslunarleiðangur á heimleiðinni. Rétt fyrir fimm hitti ég svo nöfnuna (ekki mína) úr sjósundshópnum og við skelltum okkur í 0,8°C sjóinn í amk fimm mínútur. Pössuðum okkur á því að verða ekki að "rúsínum" í heita pottinum á eftir og það hjálpaði að reka á eftir manni upp úr þegar við tókum eftir því að það var að myndast biðröð í að komast í aðstöðuna. 

17.2.21

Næstum 12000 skref í gær

Var búin að slökkva á vekjaraklukkunni og komin á fætur um það leyti sem hún átti að hringja. Labbaði af stað í vinnuna um sjö, á strigaskóm. Það slapp til og tafði mig ekki að ráði. Framleiðslu lauk um hálftólf og fljótlega eftir mat var ein af okkur þremur farin í orlof. Við hinar gengum frá í deildinni og ákváðum að yfirgefa svæðið áður en klukkan varð tvö. Ég labbaði heim á leið, upp Skólavörðustíginn. Þegar ég var að koma að Hallgrímskirkju heyri ég sagt "Ég sé að Anna Sigga er að koma, ætla að kasta á hana kveðju, heyri í þér síðar!" Þarna sat fyrrum vinnufélagi með hundinn sinn að tala við einhvern í gemsa. Ég staldraði við og spjallaði við hann í nokkra stund áður en ég hélt för minni áfram. Þetta varð til þess að það voru skráðir alls 3 göngutúrar í gær. Fékk mér smá hressingu eftir að ég kom heim. Var mætt í sund upp úr klukkan hálffjögur og hitti á eina sem hefur ekki komist í sund lengi. Hún var að koma úr sturtu, segist mega fara að mæta bráðum aftur en hún var í hnjáskiptiaðgerð í síðasta mánuði. Var komin heim aftur um hálfsex. Oddur Smári fékk bílinn lánaðann tæpum tveimur tímum síðar að sækja bróður sinn í vinnuna. Það var verið að sækja mig í saumaklúbb akkúrat þegar þeir bræður voru að koma heim. Klúbburinn var á Grettisgötunni og við tvíburahálfsysturnar vorum mættar þar rétt upp úr átta. Að venju voru þrír tímar uþb tíu mínútur að líða. Kvöldið gersamlega þaut hjá. 

16.2.21

Sprengidagur

Það var hálfgerður sunnudagur hjá mér í gær. Rétt náði að koma mér á fætur áður en klukkan varð níu. Var eitthvað að spá í hvort ég ætti að skreppa í sjóinn í hádeginu en ég kom mér ekki út úr húsi fyrr en seinni part dags. Meiri parturinn af tímanum fór í þáttaáhorf, kláraði 3 síðustu þættina úr danskri seríu af RÚV sem heitir Ulven kommer. Fyrsta kaffibolla gærdagsins drakk ég ekki fyrr en upp úr hádeginu. Hafði notað stóran part af morgninum í netvafr, leiki og blogg og einhverra hluta vegna var ekkert sem kallaði á að ég ætti endilega að fara að fá mér eitthvað annan en lýsi, hvorki maginn né hausinn. Ekki fyrr en upp úr klukkan tólf.

Um hálffjögur tók ég sjósundsdótið með mér út í bíl en byrjaði á því að skreppa í garnbúð við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Fyrsta skipti sem ég heimsæki þessa búð og ég keypti garn í amk tvö ungbarnateppi. Var komin í Nauthólsvíkina um hálffimm og aftur heim rúmlega fimm. Fitjaði upp á nýju teppi í gærkvöldi og er því bæði með tusku og teppi á prjónum. 

15.2.21

Bolludagur

Var ekki komin á fætur fyrr en um níu í gærmorgun. Eins og oft áður settist ég inn í stofu með fartölvuna á lærunum stax eftir morgunverkin. Missti því að kaldapottsferðum með kaldapotts vinkonu minni því hún var búin að fara þegar ég mætti í sund upp úr klukkan hálftólf. Heitasti potturinn er ennþá lokaður. Ég fór fimm mínútur í þann kalda áður en ég synti 500m og svo aftur fimm mínútur í þann kalda áður en ég endaði í gufubaðinu. Þvoði á mér hárið og stóð svo í smá stund undir ískaldri sturtubunu áður en ég þurrkaði mér og fór upp úr. Kom við í bakaríi og keypti 6 tilbúnar vatnsdeigsbollur. Bjó mér til kaffi um leið og ég kom heim, hrærði einnig í vöfflusoppu og bjó til vöfflufjall. Annars fór dagurinn í tölvuleiki og sjónvarpsgláp. Greip ekki í bók fyrr en ég fór upp í rúm um hálftíu. Þá las ég smá í fjórum bókum. Er byrjuð á síðustu bókasafnsbókinni sem ég er með í láni; Stigið á strik eftir Ingva Þór Kormáksson. 

14.2.21

Skrapp á Hellu yfir nótt

Ég sótti þinglýst afrit af lóðaleigusamningnum til sýslumann um tíu á föstudagsmorguninn. Þaðan fór ég beint í sund. Heitasti potturinn var enn lokaður en ég fór 3x4 mínútur í þann kalda, synti 500 metra, fór í 43°C pottinn og endaði í gufunni. Kom heim um tólf. Ákvað að hlusta á hádegisfréttir áður en ég tæki mig saman og legði af stað austur. Klukkan var því byrjuð að ganga tvö áður en ég ýtti aðeins við þeim syninum sem var heima, bara til að kveðja. Hinn sonurinn hafði farið í heimsókn til tannlæknisins stuttu áður en ég kom heim úr sundi og var ekki kominn aftur. Hringdi í pabba þegar ég var að leggja í hann, sagðist vera á leiðinni en ég myndi koma við á einum stað á leiðinni. Gerði gott stopp í Fossheiðinni. Var komin til pabba um fjögur. Að venju fórum við í smá kaplakeppni en ég var líka að prjóna, lesa og vafra um á netinu. Pabbi var líka að vafra um á netinu og lesa en hann er með bókina Vonaskarð í láni frá einum sundfélaganum. Horfði á Gettu betur og Vikuna á föstudagskvöldið. Stoppaði hjá pabba yfir nótt og alveg framyfir kvöldmat og sjónvarpsfréttir. Var komin í bæinn um níu í gærkvöldi. 

12.2.21

Lengi í gang í gær

Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég loksins hafði mig framúr rúmi og á fætur í gærmogun. Morguninn fór í alls konar og ekkert sérstakt. Það sem var að þvælast fyrir mér var að þurfa að hringja í þann sem verður milliliður á milli verktakans sem gerði tilboð í verkefnið fyrir Drápuhlíð 19-21 til að athuga hvort pósturinn sem ég sendi í síðustu viku hafi skilað sér og staðfesta beiðni um að gera og senda okkur samning til yfirlestrar og undirritunnar. Rúmlega tvö lét ég svo loks verða að því að slá á þráðinn. Hringingunni var ekki svarað og ég var í óða önn að senda smá essemmess skeyti þegar hringt var til baka. Samtalið var mun léttara heldur en ég hafði ímyndað mér og nú líður ekki á löngu áður en eitthvað fer að gerast fyrir alvöru. Hef smá neikvæða tilfinningu um að einhver í húsinu muni halda áfram að "draga" lappirnar en þetta má ekki bíða mikið lengur því þá verður þetta bara verra.

Hringdi í tvær kunningjakonur og á meðan ég var að tala við aðra þeirra kom fyrirspurn frá kaldapotts vinkonu minni um hvort ég væri í bænum eða farin austur. Þegar ég sá skilaboðin spurði ég á móti hvenær hún ætlaði í sund. Ég frestaði því að sækja lóðaleigusamninginn úr þinglýsingu og var komin á stæðið við Laugardalslaugina þegar vinkonan svaraði og sagðist mæta um fimm, var að fara í göngutúr fyrst. Þar sem ég var ekki komin inn ákvað ég að fresta sundferð um rúma klukkustund til að hitta aðeins á vinkonuna og vera búin að synda áður en hún kæmi. Fór með bílinn í smurningu. Það tók alls ekki langan tíma. Skrapp svo á N1 við Gagnveg þar sem Davíð Steinn var á vakt og fékk hann til að skipta um eina rúðuþurrku. Að lokum kom ég við hjá Atlantsolíu við Sprengisand og fyllti á bílinn áður en ég dreif mig í sund. Var búin að synda 200 metra um hálffimm þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið svo það varð ekkert meira um sund en við fórum sjö ferðir í þann kalda. Heitasti potturinn er enn lokaður og það er pínu bagalegt því þá er erfiðara að komast í þann næstheitasta á milli vegna fjöldatakmaranna. En það er skárra að einn heitur pottur sé lokaður heldur en að sá kaldi sé það.

Er annars byrjuð að lesa næstsíðustu jólabókina, hina bókina sem Oddur gaf mér: Martröð í Mykinesi. 

11.2.21

Aðeins um gærdaginn

Ég var komin á fætur fyrir klukkan hálfátta í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér matskeið af lýsi og vatnsglas áður en ég settist inn í stofu og kveikti á fartövlunni. Um níu leytið bjó ég mér til hafragraut og kaffi. Passaði einnig upp á það að fá mér vatn reglulega. Ég fékk staðfestingu með essemmessi og rafrænum pósti um að ég ætti tíma í blóðbankanum klukkan 14:20 snemma í gærmorgun.

Korter yfir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig og þegar við vorum að fara út í -1°C sjóinn rúmu korteri síðar mættum við forsetanum og var hann greinilega að koma til að bregða sér í sjóinn. Það var  háfjara og við stöllur óðum mjög langt út í en botnuðum alltaf. Vorum rúmar fimm mínútur í sjónum og við mættum forsetanum á leið ofan í þegar við vorum á leiðinni upp úr og í heita pottinn. Sjósundsvinkona mín var reyndar ekkert að spá í mannaferðir og vissi ekkert að Guðni var á staðnum fyrr en við vorum að fara til baka og hún sá forsetabílinn í stæðinu við hliðina á hennar bíl.

Borðaði afgang af kjúklingarétti í hádeginu og var dugleg að drekka vatn. Korter fyrir tvö, sjálfsagt amk tíu mínútum of snemma, labbaði ég af stað í Blóðbankann. Var ekki nema 15 mínútur á leiðinni. En ég þurfti bara að bíða aðeins eftir að það losnaði bekkur. Blóðþrýstingurinn var í mjög góðu lagi. Gerði þau mistök að nefna það að ég hefði skroppið í sjóinn í hádeginu því hjúkrunarfræðingurinn sem sinnti mér átti í vandræðum með að finna æð, skoðaði báða handleggi og vildi helst senda mig heim og fá mig aftur þegar ég væri ekki búin að fara í heitan pott skömmu áður. En hún féllst á að gera tilraun og valdi handlegginn sem sjaldnar hefur verið stungið í og viti menn hún hitti á æðina og rennslið var með besta móti, tók innan við þrjár mínútur að fylla á pokann. Þetta var fimmtugastaogsjöunda heimsóknin í besta bankann og ef ég má halda áfram að gefa á fjögurra mánaða fresti verð ég líklega í minni sextugustu heimsókn eftir uþb ár.

10.2.21

Allt orðið hvítt úti

Labbaði af stað í vinnuna á svipuðum tíma og oftast íklædd sömu yfirflíkum með höfuðljósið og í strigaskóm eins og í fyrradag. Veðrið og færðin voru einstaklega góð. Eftir labbið, þegar ég var mætt í vinnu, tilkynnti gönguforritið jafnlanga gönguferð og á mánudagsmorguninn en ég var alveg mínútu lengur á leiðinni í gær. Var frekar hissa á því vegna þess að mér fannst ég labba hraðar í gærmorgun. Ég var í bókhaldinu. Framleiðslutölur voru ívið hærri en á mánudaginn en engin aukaframleiðsla og þrátt fyrir að taka okkur extra góðan kaffitíma um miðjan morgun var framleiðslu lokið fyrir klukkan tólf. Aftur á móti beið kortasending opnunar, skoðunar, talningar og skráningar og þar að auki komu tvö annars konar aukaverkefni en plastframleiðsla svo klukkan var að verða þrjú þegar við vorum búnar að afgreiða þessi verk. Ég stillti vinnupóstinn minn á "out of office" því ég á ekki að mæta aftur fyrr en nk þriðjudag.

Fékk far heim úr vinnunni. Kalda potts vinkona mín hafði sagst ekki komast í "sund" í gær svo það var undir mér sjálfri komið hvenær ég mætti í sund seinni partinn. Lagði af stað rétt upp úr fjögur. Bíllinn var í Drápuhlíð hinum megin við Lönguhlíð síðan á sunnudaginn. Byrjaði á því að koma við í Fiskbúð Fúsa að versla mér ýsu í soðið og harðfisk, óbarða ýsu. Fór aðeins tvær ferðir í kalda pottinn, 4 mínútur hvor ferð og synti 300metra á milli. Eftir seinni ferðina í þann kalda fór ég beint í gufu því heitasti potturinn var tómur. Kom heim rétt fyrir sex og var tilbúin með kvöldmat um hálfsjö, soðna ýsu með gufusoðnu blómkáli. Bauð aðeins upp á smjör útá með.

Besti bankinn, blóðbankinn sendi mér mail og sms í gær um hvort ég gæti komið og gefið blóð í dag, 10. febrúar. Hvatti mig til að bóka mér tíma ef svarið mitt um að mæta væri jákvætt. Sendi inn beiðni eftir fjögur í gær og fékk svar um átta í morgun að ég má mæta innan þess tímaramma sem ég óskaði mér eftir klukkan tvö í dag. Held að það sé 57. heimsóknin mín. Best að vera dugleg að drekka vatn næstu tímana svo það verði léttara að finna og hitta á æð.

9.2.21

Þessi vinnuvika búin

Ég fór labbandi í vinnuna í gærmorgun um sjö íklædd fjólubláu úlpunni, strigaskóm, rauðri húfu og með höfuðljósið. Sú sem vinnur alla mánudaga í mánuðinum mætti í gær fyrsta daginn sinn af sex. Við þrjár sem vorum á vaktinni unnum saman aðra hverja viku frá því viku eftir verslunarmannahelgi og fram að áramótum. Núna hittumst við tvo daga hálfsmánaðalega. Gerðum með okkur samning um að þegar við erum að vinna saman þá megum við vera "allsberar" í framan, þ.e. þurfum ekki að setja upp grímu. Vinnudagurinn gekk fljótt og vel fyrir sig. Frekar fá dagleg kort og eina aukaframleiðslan var 200 gjafakort í hádeginu.

Fékk far heim úr vinnunni og ákvað að hella mér upp á smá kaffi fyrst ég var komin heim fyrir klukkan þrjú. Korter yfir fimm sótti sjósundsvinkona mín mig og fyrir utan hana sjálfa var nafna hennar og einnig yngri sonur. Systurnar mættu líka þannig að við vorum sex. Systurnar og sonurinn voru út í sjónum í tvær mínútur enda frekar langt síðan þau voru á svamlinu síðast. Við hinar entumst í rúmar fimm mínútur í -1,3°C sjónum og slökuðum svo vel á í heita pottinum á eftir þar sem við hittum hin fyrir sem voru styttra í sjónum. Sólin var að setjast og himininn logaði. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn akkúrat að leggja matinn á borðið og aldrei þessu vant settumst við mæðginin þrjú saman að snæðingi. 

8.2.21

Stutta vinnuvikan hálfnuð

Ég var vöknuð og komin á fætur löngu fyrir klukkan átta í gærmorgun. Vissi að N1-sonurinn ætti að mæta í vinnu um tíu en hann hafði þó ekki spurt mig hvort hann fengi skutl í vinnu. Ég tók því samt rólega til að byrja með hérna heima. Vinnandi sonurinn kom fram um níu en sagðist vera búinn að redda sér fari, yrði sóttur vonbráðar. Ég hélt því áfram að taka því rólega þar til klukkan var langt gengin í tíu. Þá dreif ég mig loksins í sund. Kláraði sund og pottarútínu á uþb klukkutíma og var stödd í gufunni þegar inn kemur manneskja sem hrópar upp yfir sig: "Þarna ertu, Anna Sigríður, maðurinn minn sagðist hafa séð þig tilsýndar og ég fór að leita!" Þetta var sjósundsvinkona mín. Hennar vegna lengdi ég sundferðina um hálftíma og tók m.a. aukaferð í þann kalda.

Rétt fyrir þrjú í gær ók ég vestur í bæ að hitta nöfnu mína og frænku. Afhenti henni "kisuteppi" handa Pixí en svo drifum við okkur út í stuttan göngutúr, 1,5 km á 18 mínútum. Þegar við komum til baka fengum við okkur sódavatnsglas áður en hún hellti upp á kaffi. Stoppaði til klukkan að verða fimm. Áður en ég kvaddi ákváðum við frænkur næsta gönguhitting eftir hálfan mánuð í mínu hverfi.

Eina af bókasafnsbókunum hef ég lesið áður; Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Það var alls ekki leiðinlegt að lesa hana aftur. Hef nú lokið við að lesa fjórar af sex safnbókum. Er byrjuð á fimmtu bókinni; Ég veit hvar þú átt heima eftir Unni Lindell. En ég er líka komin vel af stað að lesa fyrra bindið af; Hella þorp í þjóðbraut. En ég á enn eftir að byrja á síðustu tveimur jólabókunum. Allt hefur sinn tíma. En ég var líka að byrja að horfa á danska þætti af RÚV sem heita Ulven kommer.

7.2.21

Frænkunöfnuhittingur í dag

Ég var komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Skipti um á rúminu mínu, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér lýsi og settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um hálftíu bjó ég mér til hafragraut og hellti líka upp á kaffi. Korter fyrir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig. Þrátt fyrir að vera mætta í Nauthólsvík tíu mínútum fyrir opnun var komin löng röð fyrir utan. En við vorum meðal fyrstu 30 og komumst inn í fyrsta hollinu. Sjórinn var -1,5°C en einhvern veginn náðum við samt að svamla um í fjórar mínútur. Vorum svo annað eins í lóninu áður en við fórum í heita pottinn. Ég var komin heim aftur um tólf.

Upp úr hádeginu eða um hálftvö fór ég með pappír og plast í gáma við Kjarvalsstaði. Ákvað svo að renna bílnum í gegnum þvottastöðina rétt hjá Krónunni við Granda. Þar var löng röð og það leið rúmur hálftími áður en ég komst að. Þegar ég var að keyra frá þvottastöðinni eftir bílþvottinn taldi ég bílana sem voru í röðinni áður en beygt er að húsinu. Þeir voru tuttugu en ég veit ekki hvað vorum margir bílar í röðinni sem lá meðfram húsinu, að lúgunni þar sem greitt er fyrir þvottinn og áfram þangað sem maður keyrir inn í þvottastöðina.

Kom við í Krónunni til að versla helstu nauðsynjar og þar hitti ég á fyrrum sveitunga minn og þekkti hann þrátt fyrir grímu. 

6.2.21

Skrepp aðeins í sjóinn á eftir

Tólfta vinnu daginn á árinu labbaði ég í vinnuna upp úr sjö í gærmorgun. Fyrirliðinn var mættur í afleysingar. Við tókum að okkur vélina og framleiðsluna meðan sú þriðja sá um bókhaldið. Þar sem allri framleiðslu var lokið um hádegi gat fyrirliðinn farið heim. Við hinar tvær sáum um frágang á deildinni eftir hádegi og við ryksuguðum framleiðsluvélina og teljarana m.a. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Var að bræða það með mér hvort ég ætti að skrópa í sundferð en á endanum skrapp ég í Laugardalslaugina milli klukkan hálffimm og sex. Það var sundmót í gangi og hluti af klefum, sturtum og sundbrautum stúkað af fyrir keppendur. Ég ákvað því að láta 200 metra sund nægja en fór 3x fjórar mínútur í þann kalda og endaði á að vera 15 mínútur í gufunni áður en ég fór upp úr. Hitti aðeins á eina frænku mína (móðurömmur okkar voru systur) úti á bílaplani en hún var að sækja annan tvíburann sinn sem var að keppa í sundi.

5.2.21

Föstudagur

Labbaði af stað í vinnu rétt rúmlega sjö í gærmorgun. Rak í rogastans þegar ég mætti og hitti fyrir fyrirliðann í deildinni. Hennar vinnuplan er frá miðvikudegi til miðvikudags svo hún var að mæta sjöunda virka vinnudaginn í röð. Hún sagðist vera að hlaupa í skarðið fyrir aðra af hinum sem áttu skráða vinnuvakt ásamt mér. Vissum ekki þá hvort þetta væru bara nokkrir klukkutímar í afleysingu, heill vinnudagur eða jafnvel tveir. Fyrirliðinn var byrjuð að vinna sem bókari en ég benti henni á að það væri komið að mér að sinna þeim verkefnum. Við sóttum vagna og töskur inn á lager og skruppum svo fram á kaffistofu að fylla á vatnsbrúsa og taka því rólega þar til við værum orðnar þrjár. Vinnudagurinn leið hratt, ekkert óvænt kom upp á.

Fékk far heim úr vinnunni. Rétt fyrir fjögur var ég mætt í Laugardalinn. Var að spá í hvort ég næði að synda nokkrar ferðir áður en kalda potts vinkona mín mætti en hún mætti áður en ég var búin að klæða mig í sundbolinn. Ég "skrópaði" því í sundinu en við vinkonurnar fórum sjö ferðir sinnum þrjár mínútur í kalda pottinn og heitt á milli. Ég kom heim um sex en var þá svo dösuð að ég tilkynnti Davíð Steini að hann mætti elda ef hann vildi ég var ekkert svo svöng og í engu matarstússstuði. Það var ekkert brasað í eldhúsinu í gærkvöldi en það var svo sem til nóg af afgöngum í ísskápnum. 

4.2.21

Labbað í vinnu

Ég var að ganga eftir Skúlagötunni á áttunda tímanum í gærmorgun þegar ég þurfti að staldra aðeins við og reima aftur  vinstri skóinn. Átti svo enn eftir smá spöl í vinnuna þegar ég þurfti að reima aftur. Var samt komin í vinnu rétt upp úr hálfátta. Aðeins færri kort voru í framleiðslu í gær heldur en í fyrradag. Ég var að taka á móti og skoða og ferlið gekk svo hratt og vel fyrir sig að við vorum búnar með fyrri tvo skammtana hálftíma áður en við fengum hádegis skammtinn og það þrátt fyrir að við tækjum okkur extra langan kaffitíma. Framleiðslu lauk nokkru fyrir tólf. Eftir hádegi var verið að sinna ýmsum frágangi og mánaðamótauppgjöri. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú. Fékk mér smá hressingu og kveikti um stund á fartölvunni en um hálffimm var ég mætt í Nauthólsvík. Það var fjara, 2°C lofthiti en sjórinn -1,8°C. Óð þónokkuð langt út í, botnaði alltaf, og svamlaði um í ca tvær mínútur. Fór svo í lónið sem var alveg stúkað af og því nokkrum gráðum yfir núllið útaf uppsprettunni. Endaði á því að sitja í heita pottinum í korter áður en ég fór upp úr og beint heim aftur. Bjó til grjónagraut í kvöldmatinn og bauð upp á kalda lifrapylsu með.

Horfði á Kiljuna um kvöldið og aðeins á Púllaraleikinn en ég var komin upp í fyrir tíu og las til klukkan hálfellefu. 

3.2.21

Mið vika

Ég vaknaði amk korter áður en vekjaraklukkan átti að hringja í gærmorgun. Dreif mig strax á fætur. Hitti aðeins á N1 soninn en hann var farinn út á undan mér. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö í vetrarúlpunni, gönguskóm og með höfuðljósið. Var mætt í vinnu um hálfátta og hitti fyrir fyriliða hópsins sem ég hef ekki hitt í hálft ár. Hún var í hinum hópnum og að saxa niður orlofsdaga frá í fyrra í sl. mánuði. Nú vinnur hún frá miðvikudegi til og með miðvikudags og hún mætti sl. miðvikudag, fyrsta virka daginn minn í ekki mæta á vinnustað, eftir 6 daga vinnutörn. Sú sem kom síðust af okkur þremur sem vorum skráðar á vinnuvakt var einnig í hinum hópnum en ég var búin að hitta hana nokkra daga í janúar. Hún vinnur frá föstudegi til og með föstudags. Sú síðarnefnda og ég tókum að okkur framleiðsluna og hún leyfði mér að velja á hvorum endanum ég væri. Ég valdi að hlaða inn og troða í. Dagleg framleiðsla gærdagsins var með meira móti og við vorum til hálftvö að ljúka framleiðslu með kaffi- og hádegispásum og smá aukatöfum.

Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim um þrjú. Klukkutíma síðar var ég mætt í sund. Kalda potts vinkona mín gat ekki mætt á sama tíma svo ég fækkaði ferðum í þann kalda niður um helming en var 3-5 mínútur ofan í í hvert sinn. Var komin heim aftur rétt fyrir sex.

2.2.21

Fyrsti vinnudagur af tólf í febrúar

Fór á fætur um átta í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi áður en ég settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um hálfellefu bjó ég mér til hafragraut og meiningin var að drífa sig svo í sjóinn. Frestaði sjóferð um hálfa klukkustund því ég ákvað að horfa á upplýsingafundinn fyrst. Var komin út í -1,7°C kaldan sjóinn um tólf. Veit ekki hversu lengi ég svamlaði um en það var frekar stutt. Held þó að ég hafi verið uþb tvær mínútur áður en ég fór aðeins yfir í lónið. Endaði svo í heita pottinum í korter. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og keypti nætursaltað ýsuflak, hrogn og harðfisk. Setti handklæði í þvottavél þegar ég kom heim. Að öðru leyti fór dagurinn í svipaða hluti og aðrir virki "ekki-vinnudagar", lestur, prjón, netvafr og þáttagláp. Var komin upp í rúm fyrir klukkan tíu. Er byrjuð að lesa fyrra bindið af bókunum um Hellu en ég er líka byrjuð á einni af safninu; Köld slóð eftir Emelie Schepp. Þetta er önnur bók höfundar en ég er nýlega búin að lesa fyrstu bókina. 

1.2.21

Nýr mánuður

Það er mánudagur, en eiginlega ekki hjá mér þannig séð því ég er ekki að vinna í dag. Næstu sex virku daga, frá og með morgundeginum, má ég mæta á vinnustað.

Í gærmorgun var klukkan langt gengin í níu áður en ég fór á fætur. Um hálftíu fór ég út með sunddótið mitt og þurfti að byrja á því að skafa af bílnum sem enn var fyrir aftan heilsugæsluna síðan við Oddur komum heim á föstudagskvöldið. Var komin fyrstu ferðina ofan í kalda pottinn í Laugardalnum um tíu. Ætlaði að vera 2-3 mínútur en þegar þau tímamörk voru að nálgast kom náungi ofan í pottinn sem fór að spjalla sem varð til þess að ég kældi mig í rúmlega sex mínútur áður en ég fór að synda. Eftir tuttugu mínútur og 500m fór ég aftur í kalda pottinn. Þremur mínútum seinna fór ég í heitasta pottinn og stuttu síðar hitti ég konu sem stjórnaði barnakór Hallgrímskirkju þegar strákarnir mínir voru báðir í kór. Við spjölluðum í dágóða stund og urðum svo samferða í gufuna þar sem við héldum áfram að spjalla.

Kom heim aftur um hálftólf. Lagði bílnum í Blönduhlíð. Borðaði afganginn af hafragrautnum frá í fyrradag kaldan og bjó mér til tvo bolla af kaffi. Mikið af deginum fór svo í lestur, prjónaskap, íþróttaáhorf sem og þáttagláp. Lánaði strákunum bílinn um miðjan dag og fram á kvöld til að skreppa í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans.

Pabbi lánaði mér bækurnar; Hella þorp í þjóðbraut eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur. Þær komu út í fyrra og er almenn ánægja með þær. Pabbi er búinn að lesa þær tvisvar. Ég er að fara að byrja að lesa þær núna á eftir en er líka með bókasafns og jólabækur á kantinum. Alltaf hægt að finna sér eitthvað til að lesa og gera.