29.11.08

- Úr fortíð til framtíðar -
skólaleikrit 7HLE

En fyrst smá formáli. Sl. fimmtudag var ég á sprettinum eftir að ég kom heim úr vinnu. Þar sem Davíð var lasinn var bíllinn heima og þegar ég var búin að kanna hvað var til í bakstur og gera lista dreif ég mig í smá verslunarleiðangur. Á heimleiðinni kom ég við í Borgarbókasafninu í Grófinni, skilaði inn þremur af fjórum bókum og kom með heldur fleiri heim í staðinn. Er heim kom fór ég strax að undirbúa kvöldmatinn, steiktar kjúklingabringur og kartöflubáta. Hræði í eina kókosköku með eplum og notaði sama hráefni og tveimur kvöldum áður nema ég notaði gróft spelt í staðinn fyrir fínt speltmjöl. Kakan bakaðist á meðan fjölskyldan borðaði. Eftir kvöldmat og uppvask útbjó ég deig í konfektkúlur og fékk tvíburana til að kúla það upp og velta upp úr kókosmjöli á meðan ég bakaði tvær smákökusortir. Þeir voru reyndar búnir með sitt verk nokkuð á undan mér en ég þurfti líka að bíða eftir ofninum og vaska upp inn á milli.

Í gærkvöldi buðu krakkarnir í sjöunda HLE foreldrum sínum, systkynum og öðrum náskyldum ættingjum á leikritið "Úr fortíð til framtíðar" sem er samið, staðfært og leikstýrt af Sigríði tónmenntakennara í Hlíðaskóla. Davíð Steinn lék m.a. Indriða, smaladreng frá 1850 og las kafla úr framhaldssögunni Bör Börsson í "útvarpið". Einnig var hann forsöngvari í einu laginu sem sungið var í leikritinu en leikritið bauð upp á sögumann, marga stutta leikna kafla, söng og dans. Söngfuglinn minn og hans bekkjarfélagar stóðu sig alveg jafnvel og karatestrákurinn og hans bekkjarfélagar og eins og þrjú undanfarin ár var virkilega skemmtilegt að fá tækifæri til að fara á og bera saman tvær samskonar sýningar.

26.11.08

- Úr fortíð til framtíðar -
Skólaleikrit í 7BH

En fyrst smá um gærdaginn sem var bæði langur og annasamur. Aldrei þessu vant fór ég á bíl í vinnuna. Davíð hefur verið lasinn síðann á sunnudaginn og hann bað mig um að skila inn pappír um riffil sem hann keypti af bróður sínum til að fá hann skráðann á sig. Notaði tækifærið rétt upp úr hádeginu í gær og skrapp fyrst í bankann að leggja inn í kaffisjóð óháða kórsins og eitthvað af kertapeningum áður en ég renndi við í Borgartúni 7B og skilaði inn plagginu fyrir manninn minn. Hann verður svo að sækja það sjálfur þegar hann getur. Kom heim um hálffimm og byrjaði á því að setjast í "húsbóndastólinn" með bók sem ég var að lesa (Jane Austin leshringurinn, mæli með henni...) og láta líða aðeins úr mér. Um hálfsex fór ég að huga að matargerð, var með steiktan karfa með hrísgrjónum og lauk í olíu. Maturinn var tilbúinn um hálfsjö en þá varð ég að setja á "hold" og drífa mig að sækja tvo úr frjálsum. Þeir voru ekkert að flýta sér út og ég var farin að halda að þeir hefðu ekkert farið í tíma. Þeir komu loksins út rúmum tuttugu mínútum eftir að tíminn var búinn. Skutlaði þeim heim og fór svo og sótti karatestrákinn. Ég þurfti líka að bíða góða stund eftir honum því bæði dróst æfingin aðeins á langinn og svo þurfti hann að rökræða aðeins við einn félaga sinn. En við settumst öll að borðum upp úr hálfátta og þótti maturinn góður. Söngfuglinn fékk sér tvisvar á diskinn en það gerist ekki oft, hvað þá þegar er fiskur. Strax eftir matinn hrærði ég í kókosköku með eplum (notaði izio4 í stað smjörlíkis, hrásykur í stað hvíts sykurs og fínt speltmjöl í stað hveitis) og á meðan hún var að bakast vaskaði ég upp með aðstoð mannsins míns. Fljótlega eftir að kakan var bökuð fór ég á keiluæfingu.

Á heimleið í dag keypti ég drykki til að taka með í skólann. Söngfuglinn fór hjólandi á kóræfingu í Hallgrímskirkju en við hin fórum að sjá skólaleikritið hjá bekknum hans Odds Smára. Tengdó og Teddi voru mætt þegar ég kom. Davið kom aðeins á eftir mér því hann var að ganga frá miðum á jólatónleika Módettu kórsins og DKR. Hann var þó kominn áður en leikritið hófst. Krakkarnir í 7BH stóðu sig með miklum sóma. Tvisvar eða þrisvar lentu þau í vandræðum því þau fóru aðeins út af sporinu eða gleymdu næstu línum en þau björguðu sér vel út þessu. Oddur Smári var í mörgum hlutverkum. Hann lék á blokkflautu í hljómsveitinni í upphafsatriðinu, áður en leikritið var kynnt. Hann lék sveitastrák/mann, í lopapeysu, síðan fyrir aldamótin 1900, hann var maður sem ekki vildi kaupa símann þegar sölumaður bankaði upp á, hann lék XXX náunga úr framtíðinni og hann lék nútíma pabba. Öll stóðu krakkarnir sig vel og var þetta skemmtilegt kvöld. Á eftir var "ráðist" á hlaðborðið. Ég rétt kom við heima að sækja nóturnar mínar og fór eiginlega beint á kóræfingu.

24.11.08

- Jólahlaðborð með gistingu -
og kannski smá meira

Svaf aðeins fram á morguninn á laugardaginn var, svo langt að ég varð að hætta við að skreppa til Esperantovinkonu minnar því við fjölskyldan þurftum að taka okkur til og búa okkur undir nótt að heiman. Kvöldið áður fóru feðgarnir og nafnarnir saman á kvöldvöku hjá DKR. Við karatestrákurinn vorum heima og ég var hvorki að taka til neitt flókið í kvöldmatinn né að nenna vaska upp eftir matinn. Höfðum ommilettu með túnfisk, lauk og sætum kartöflum. Þannig að ég átti líka eftir að vaska upp á laugardagsmorguninn. Karatestrákurinn fékkst alveg til að hjálpa mér við það verk.

Lokuðum húsdyrunum á eftir okkur um eitt og brunuðum fyrst á Bakkann. Þar voru bræður skildir eftir, hjá föðurforeldrum sínum. Við hjónin þáðum einn kaffibolla eða tvo áður en við héldum áfram austur á Hvolsvöll. Klukkan var aðeins byrjuð að ganga fjögur er við skráðum okkur inn á hótelið þar, langfyrst af öllum hópnum, vinnufélögum Davíðs og þeirra mökum. Við prófuðum herbergið og létum fara vel um okkur næstu tímana. Á áttunda tímanum fórum við á hótelbarinn og fengum okkur einn fordrykk á meðan við biðum eftir að fleiri úr hópnum mættu á staðinn. Með mökum vorum við tólf og allir mættu. Áður en klukkan sló átta vorum við byrjuð að raða í okkur alls kyns forréttum af hlaðborði. Fleiri hópar voru á staðnum, m.a. stór hópur sem merktur var Latibær. Ekki sáum við samt íþróttaálfinn eða Glanna glæp þar á meðal, né heldur Sollu stirðu, Sigga sæta og hinar persónurnar úr þeim heimsfræga bæ. Ég fór tvær ferðir í forréttina og köldu réttina, eina ferð í heitu réttina og eina ferð í eftir réttina. Maturinn var þokkalegur, margt alveg ágætt en sumt virtist hreinlega ekki vera rétt meðhöndlað. Kannski vorum við svolítið lituð af því hversu hlaðborðið á Hótel Rangá var rosalega gott í fyrra. Enginn virtist vera í mjög miklu ballstuði eftir að hafa kýlt vömbina en við Davíð vorum síðust til að fara inn á herbergi, rétt fyrir miðnætti.

Í gærmorgun kúrðum við langt fram á morgun, svo langt að við slepptum því að mæta í morgunmatinn. Áður en við fórum að sækja strákana skiluðum við af okkur kertum í næstu sveit og stoppuðum þar allgóða stund enda langt síðan við komum þangað síðast.

En aðeins að öðru máli. Um mánaðamótin febrúar/mars sl. skráði ég mig í vinnustaðakeppni í Lífshlaupinu. Keppnin stóð yfir í tíu daga en ég hélt áfram að skrá niður hvers kyns hreyfingu samviskusamlega. Lágmark verður að hreyfa sig í 30 mínútur til að mega skrá hreyfinguna. Nokkrum dögum eftir að ég var búin að skrá hreyfingu í 42 daga, fékk ég sent bronsmerki og viðurkenningarskjal í pósti, mér óskað til hamingju með árangurinn og ég hvött til að halda áfram. Eftir 84 daga skráða hreyfingu fékk ég sent silfurmerki og annað viðurkenningarskjal. Gull
Til að ná gullmerki þarf að skrá a.m.k. 30 mínútna hreyfingu í 252 daga sem er hægt að ná á 9 mánuðum. En ég er einmitt byrjuð að telja niður í gullið sbr. stöðuna eins og hún er eftir skráða hreyfingu dagsins í dag (60 mín. göngu í og úr vinnu eða 2x30 mín):
Anna Sigríður Hjaltadóttir 246 dagar 12.800 mínútur. Þetta eru svona 52 mínútur að meðaltali. Og nú þarf aðeins að skrá sex daga enn og það takmark næst á sunnudaginn, ef ég hreyfi mig á hverjum degi þangað til og líka sunnudaginn sjálfan. Þetta er semsagt alveg að hafast. Oftast hef ég skráð gönguna í og úr vinnu en það hefur komið fyrir að ég hef farið í sund og synt í 30 mín. og þá frekar skráð sundið heldur en gönguna. Einnig skrái ég stundum hreyfingu sem annað en það er blönduð hreyfing innan hús og utan.

21.11.08

- Helgin alveg að skella á -

Á mánudagskvöldið var fór ég með kerti til Lilju vinkonu. Hún keypti 5 pakka af söngfuglinum. Ég tók líka handavinnuna með mér. Ég saumaði út jóladúkinn sem ég er langt komin með en hún prjónaði jólagjafir. Einnig tók ég með mér þau jólakort sem ég var búin að búa til og sýndi henni. Hún sýndi mér þau sem hún hefur verið að búa til og gaf mér alveg nýja hugmynd sem ég nýtti svo á jólakortagerðarkvöldi með tvíburahálfsystur minni í gærkvöldi. Límdi litla límmiða á þykkan pappír. Klippti límmiðann út og setti "þrívíddarpúða" undir og festi á aðeins stærra blað sem ég var búin að líma á jólakortið. Bæði þessi kvöld voru virkilega notaleg og skemmtileg og varð mér ágætlega úr verki, bjó til átta jólakort í gærkvöldi sem flest voru unnin út frá hugmyndinni frá Lilju.
Á þriðjudagskvöldið skutlaðist ég með strákana í Norðurmýrina þar sem þeir seldu nokkra kertapakka á rúmum klukkutíma. Skutlaði þeim heim rétt fyrir tíu og fór sjálf á keiluæfingu.
Kóræfingin á miðvikudaginn var helguð léttmessunni sem verður á sunnudaginn kemur og fyrsta klukkutímann æfðu með okkur strákar sem spiluðu á kontrabassa og trommur. Messan verður án efa mjög létt og skemmtileg en því miður missi ég af henni. Hugsanlega mun ég fara út í þá sálma síðar.
Góða helgi og farið alltaf vel með ykkur!

17.11.08

- Lagt inn í bankann -

Ég fékk bæði SMS og tölvupóst frá blóðbankanum í morgun. Þar að auki var ég einmitt að hugsa um þann banka á leiðinni í vinnuna í morgun og fann það út að það væru að verða fimm mánuðir síðan ég lagði inn síðast. Ég lagði því leið mína í blóðbankann seinni partinn. Við síðustu gjöf kom í ljós að ég var svolítið lág í járni þannig að ég fékk með mér járntöflur heim. Að öðru leyti var allt í fína lagi og ég fór heim ca. hálfu kílói léttari...

16.11.08

- Sunnudagskvöld framundan -

Enn ein helgin er næstum liðin og mér finnst sem hún sé nýbyrjuð. Þegar vinnu lauk sl. föstudag safnaðist stór hluti vinnufélaga minna saman og eftir léttar veitingar var okkur skipt niður í tíu hópa sem voru sendir af stað í ratleik um allan miðbæinn til að finna tíu staði og svara nokkrum spurningum í leiðinni. Fórum af stað með vísbendingu um hvar eina stöðina væri að finna (hver hópur fékk vísbendingu um einhvern af stöðunum tíu, enginn hópur var sendur á sama staðinn í fyrstu). Á hverjum stað var vísbending um hvar næstu stöð væri að finna og einnig þurfti að spreyta sig á og svara nokkrum spurningum. Þetta var bara skemmtilegt og fín hreyfing í leiðinni. Eftir ratleikinn lá leiðin á veitingastaðinn Skólabrú. Þar var hlaðborð, verðlaunaafhending og Bjarni Arason tók nokkur lög. Kvöldið leið mjög fljótt en um miðnætti voru ekki margir eftir. Fór með þeim síðustu yfir á Vínbarinn en staldraði ekki lengi við þar. Var svo heppin að Davíð var enn á fótum þegar ég ákvað að kominn væri tími til að drífa sig heim og hann sótti mig.

Í gær hitti ég esperanto vinkonu mína klukkutíma seinna heldur en venjulega eða um hálftólf. Var komin heim áður en karatestrákurinn var búinn á æfingu. Fljótlega eftir að hann var búinn skelltum við okkur austur á Hellu. Þar voru fyrir Helga systir og hennar fjölskylda. Eftir kaffihressingu trítlaði ég yfir á elliheimilið og hitti bæði föðursystkyni mín sem þar búa, tvær eldri konur sem ég er búin að þekkja síðan um fermingu en þær tengdust sveitinni sem ég var í sumarið 1982 og einnig hitti ég mann sem keyrði mig í skólann frá Heiði, í nokkur skipti árin sem við vorum ekki flutt á Hellu. Heilsaði líka gamalli konu með kossi svo hún yrði ekki útundan en hún var þarna í hópnum. Sú var svo hrifin af kveðju minni að hún þurfti heilmikið að spjalla og spyrja, en það var líka í góðu lagi. Við fjölskyldan horfðum á Spaugstofuna áður en við kvöddum og drifum okkur í bæinn.

Vakti söngfuglinn um hálfníu í morgun og sendi hann í sturtu. Skutlaði honum í kirkjuna klukkutíma síðar og notaði tækifærið og tók fleiri kerti til að selja. Við Davíð þurftum svo að skipta okkur niður hann skutlaði mér í messu en fór svo með karatestráknum á Grand Prixmót í kumite og kata í Seljaskóla. Þeir komu ekki heim fyrr en um fimm. Strákurinn tapaði naumlega í kötunni, það fór 3:2 fyrir hinum sem keppti við hann. Hann tapaði líka kumite keppninni naumlega en þeir voru bara fjórir að keppa og þeir sem töpuðu féllust á að deila frekar þriðja sætinu heldur en keppa um hvor ætti meiri rétt á því. Leiðinlegt annars að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu en eftir að ég kom heim eftir messuna ákvað ég frekar að taka aðeins til hendinni hér heima...

Davíð Steinn annar söngfélagi hans fóru saman í söluherferð á fimmtudagskvöldið var og aftur seinni partinn í dag. Minn strákur seldi 16 kertapakka á fimmtudagskvöldið og átta pakka í dag. Hann er ekki hættur en nú eru eiginlega bara vínrauð og antikhvít kerti eftir. Hann er búinn að setja sér það markmið að selja 100 kertapakka, sem er nokkuð minna heldur en venjulega (ekki mikið minna þó) en hann vantar bara að selja um 20 pakka til að ná markmiðinu. Það ætti alveg að nást því hann hefur frest fram til 5. des. n.k.

12.11.08

- Spilakvöld með 7BH -
-og sitthvað fleira -

Síðast liðið mánudagskvöld var haldið spilakvöld með bekknum hans Odds Smára, eitthvað af foreldrum sem og systkynum. Kennarinn hans lánaði okkur, sem erum í foreldraráði bekkjarins, lykla af skólanum um hálfsjö. Reyndar var skólinn opinn og mjög ásetinn en við fengum matsalinn til umráða. Helltum upp á á kaffistofu kennara og tókum einnig með okkur heitt og kalt vatn. Tvíburarnir voru báðir á æfingum en Davíð sá um að sækja þá og þeir feðgar mættu upp í skóla rétt fyrir hálfátta. Mæting meðal bekkjarins var þokkalega góð en það voru heldur færri foreldrar sem mættu. Engu að síður tókst kvöldið alveg ágætlega. Alls kyns spil voru í gangi; venjuleg spil, parýspil, yatsý. Oddur Smári valdi að taka með og spila krossgátuspilið "scrabble". Davíð Steinn spilaði "mastermind" við einn bekkjabróður Odds en pabbi hins stráksins spilaði "scrabble" við okkur hin í staðinn. Pabbarnir spiluðu seinna saman "mastermind". Samkoman leystist upp laust fyrir klukkan níu.

Í gærkvöldi mætti ég á keiluæfingu með átta vinnufélögum mínum, en það var liðinn næstum því mánuður síðan ég spilaði keilu síðast. Ein æfing féll niður, kvöldið sem RB fór á "Fló á skinni" og svo komst ég ekki síðustu tvo þriðjudaga.

Er á leið á kóræfingu á eftir en í lokin verð ég að minnast á tvær góðar bækur eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. í júní sl. las ég Karítas án titils og nú hef ég nýlokið við sjáfstætt framhald; Óreiða á striga. Þetta eru stórar og miklar bækur en ég varð alveg heilluð af þeim. Stíllinn er mjög skemmtilegur og það var erfitt að leggja bækurnar frá sér. Samt las ég þær í smá skömmtum og það var eiginlega bara fínt því þótt ég hafi oft á tímum verið spennt að "vita meira og meira" og lifði mig gersamlega inn í söguna, þá var gott að stoppa inn á milli og velta sögunni, persónum og atburðum fyrir sér. Mæli 100% með þessum bókum.

9.11.08

- Tæpar tvær vikur síðan síðast -

Mér finnst tíminn líða skuggalega hratt. Ætla rétt að stikla á stóru um atburði undanfarinna daga. Um síðustu helgi var Hulda, systurdóttir mín hjá okkur í tvær nætur. Ég sótti hana rétt fyrir sjö á föstudagskvöldinu. Hún fékk að sofa í rúminu hans Odds fyrri nóttina en hann, sem ætlaði að sofa á dýnu á gólfinu, færði sig í stofusófann. Á laugardagsmorguninn fór Davíð Steinn í æfingabúðir á Laugarvatn með frjálsíþróttafélagi Ármanns. "Þríburinn" fór líka í þá ferð. Rétt fyrir hádegi fór ég svo með Huldu á skautaæfingu upp í Egilshöll. Sú er að verða flink. Æft var á ísnum í um 40 mín. Þá var smá hlé til að næra sig og fara úr skautunum áður en hópurinn fór í þrekæfingasal. Karatestrákurinn var löngu búinn á sinni æfingu þegar við komum til baka. . Seinni nóttina svar snótin í rúminu hans Davíðs Steins. Á sunnudeginum biðum við eftir að Davíð Steinn kæmi heim úr sinni ferð áður en við fórum öll fimm að sjá Mamma mia. Krakkarnir og ég skemmtum okkur hið besta á myndinni, Davíð fannst hún svo sem ágæt en kvartaði yfir því í vikunni að hann væri með tvö lög úr henni á heilanum og væri raulandi í tíma og ótíma.

Gerði tilraun til að steikja kjötbollur í bakaraofni seinni partinn á mánudaginn. Bjó til kjötdeigið úr tæpu kílói af blönduðu kjöti (nauta og grísa), 2 vænum laukum, 3 eggjum, grænmetisteningi leystum upp í könnu af sjóðandi vatni, 12 msk. hveiti, 6 msk. haframjöl, 6 msk byggmjöl, smávegis af grófu speltmjöli og kryddaði með svörtum pipar og cayannepipar. Úr þessu urðu 47 bollur sem allar komust fyrir í einni ofnskúffu. Ég er ákveðin í að nota ofninn aftur næst þegar ég bý til kjötbollur.

Á þriðjudagskvöldið bauð mágur minn mér að nýta boðsmiðann sinn í starfsmannaútsölu Hagkaupa í Smáralindinni. Ég þáði gott boð en það tók verulega á. Þvílíkur fjöldi af fólki og margir voru þarna til þessa að nýta afsláttinn í botn og tóku tvær til þrjár körfur. Mér dugði ein, en ég gaf mér góðan tíma, var með lista yfir það sem ég ætlaði ekki að gleyma og hringsólaði um svæðið í næstum tvo tíma áður en ég fór í langa, langa, langa..... kassabiðröðina. Ég rétt náði heim áður en klukkan sló tólf á miðnætti.

Strax eftir vinnu á miðvikudaginn dreif ég mig heim. Davíð var kominn og ég skutlaði söngfuglinum á kóræfingu og mætti sjálf á stjórnarfund. Þar var m.a. ákveðið að blása æfingabúðirnar af en halda þess í stað kvöldvöku með strákunum kvöldið sem þeir hefðu átt að vera mættir í búðirnar, strákarnir tóku þessum fréttum mjög vel. Hafði smá tíma til að fá mér hressingu, eftir að ég skutlaði söngfuglinum heim, áður en ég fór á kóræfingu.

Það er messa á eftir og framundan er mjög annasöm vika. Með þessu áframhaldi verða komin jól áður en maður veit af....