31.8.08

- Ágúst er næstum liðinn -

Í fyrramálið leggja 7. bekkir Hlíðaskóla af stað í viku skólaferðalag. Krakkarnir verða á Reykjum við Hrútafjörð til föstudags. Stjórnendur cav. og pac. sýndu söngfuglinum skilning og verður hann afsakaður frá æfingum í óperunni í vikunni. Fjórði söngfuglinn er kominn inn í dæmið enda örugglega brýnt að hafa einhvern til að leysa af ef einhver af hinum þremur skyldi forfallast. Davíð Steinn hlakkar til ferðalagsins en honum finnst samt leiðinlegt að missa af því sem er að gerast í óperunni. En svona er þetta bara, það er ekki hægt að vera á tveimur stöðum í einu (hvað þá fleirum, þótt maður hafi stundum gert heiðarlegar tilraunir til að reyna það...).

Vegna æfinga hjá söngfuglinum og námskeiðs hjá manninum í nýliðinni viku hélt ég að ég þyrfti að fresta 1. saumaklúbbshitting haustsins. Hringdi í "tvíburahálfsystur mína" á miðvikudag og ætlaði að tilkynna henni forföll. En sem ég var að spjalla við hana mundi ég eftir því að miðvikudagskvöldið var laust svo við ákváðum auðvitað "hitting". Á leiðinni til hennar um kvöldið hlustaði ég á athöfnina á Bessastöðum. En fljótlega eftir að ég mætti til vinkonu minnar vorum við komnar á kaf í spjall og saumaskap og það var greinilegt að langt var síðan síðasti saumaklúbbur var. Tíminn flaug frá okkur. Áður en við vissum af var klukkan orðin hálfellefu og fór að huga að heimferð. Spjölluðum að mér fannst bara í nokkrar mínútur í viðbót á meðan við saumuðum aðeins meira, en þessar nokkrar mínútur voru amk. sextíu. Kom heim um miðnætti, létt og kát, eftir stórskemmtilegt kvöld.

Á fimmtudaginn fékk ég Davíð til að sækja mig í vinnuna svo ég gæti haft bílinn og skutlað söngfuglinum á æfingu. Námskeiðið hjá Davíð byrjaði um sex og átti að standa til tíu en æfingin hjá Davíð Steini var frá sjö til tíu og það er orðið svo dimmt um tíu leytið að ég vildi ekki leggja það á strákinn að fara á hjólinu.
Oddur Smári hjálpaði mér við uppvaskið um kvöldið. Hann er ótrúlega bóngóður pilturinn og segir oftast strax já. Hef samið við hann um að vera duglegur að hjálpa til á heimilinu næstu vikurnar og í staðinn ætlum við foreldrarnir að auka aðeins við hann vasapeninginn. Þríburinn kom yfir og ég ákvað að skreppa í smástund yfir á Háskólasvæðið. Taldi mig hafa góðan klukkutíma og var komin til hennar stuttu fyrir níu. Hálftíma seinna hringdi Davíð og sagði námskeiðið búið svo ég varð að rjúka í burtu en eins og Esther sagði; "Stutt stopp er betra en engin heimsókn!"

Davíð fór að heiman um níuleytið í gærmorgun. Að þessu sinni lá leiðin upp á skotsvæði þar sem fram fór síðasti hluti námskeiðsins v/byssuleyfisins og veiðikortsins. Ekki var hópurinn mjög heppinn með veður. Við mæðgin lögðum í hann hálftíma síðar. Söngfuglinn hjólaði á æfingu og við Oddur Smári fórum á Hárhornið við Hlemm, hann hjólandi en ég tók smá kraftgöngu. Eftir smá bið komst stráksi að í stólinn og fékk þessa fínu klippingu. Skottið sem hann er með var líka snyrt. Hann hjólaði svo beint heim en ég kom við hjá norsku esperanto vinkonu minni. Var samt komin heim á undan nöfnunum. Fljótlega eftir að allir voru komnir heim fórum við og nýttum okkur tilboðið í Hagkaup. Keypti þrennar buxur á Odd Smára, slatta af brókum og sokkum á bræðurna og svo keyptum við tvær afmælisgjafir og hluta af innflutningsgjöf. Ein gjöfin var til þríburans, hann verður 12 ára á morgun en hélt upp á afmælið sitt í gær.

Strákarnir komu heim úr afmælinu um kvöldmatarleytið. Á tíunda tímanum kvöddum við þá og fórum í innflutningspartý til æskuvinar og bekkjabróður Davíðs. Það er reyndar örugglega meira en ár síðan vinurinn og fjölskylda hans fluttu en betra er seint en aldrei að halda smá teiti.

26.8.08

- Enn og aftur líða dagarnir hraðar en ég get skilið -

Klukkan er rétt orðin níu á þriðjudagskvöldi. Ég er ein heima í augnablikinu. Davíð er að á námskeiði að verða sér út um byssuleyfi og kemur ekki heim fyrr en á tólfta tímanum. Nafni hans, Davíð Steinn, hjólaði á æfingu í óperuna eftir kvöldmat rúmlega sex. Hann átti að vera mættur klukkan hálfsjö og verður á æfingu til klukkan tíu. Þetta verður með svipuðu sniði hjá söngfuglinum annað kvöld. Oddur Smári fór út og spurði eftir þríburanum eftir að hafa hjálpað mér við uppvaskið og lesið smávegis.

Í gær skruppu "þríburarnir" enn eina ferðina í Nauthólsvík og létu þeir kaldan sjóinn ekkert aftra sér. Það voru ekki margir á svæðinu en svo gaman var hjá vinunum að þeir gleymdu alveg tímanum og komu ekki heim fyrr en klukkan var farin að ganga níu.

Það var kvöldmessa í óháðu kirkjunni sl. sunnudag. Var mætt í upphitun um sjö en messan byrjaði klukkutíma síðar. Sönghópurinn Veirurnar sungu í stað forspils og sungu einnig bæði fyrir og eftir predikun. Við kórfélagarnir fengum að sitja á meðal kirkjugesta eins og síðast og var kvöldið mjög notalegt. Séra Pétur var með fyrirbænir og innti kirkjugesti eftir bænarefnum. Þegar hann byrjaði að flytja bænirnar spilaði Kári, kórstjóri og organisti, undir ljúfa hljóma á píanóið. Ég laut höfði, lokaði augunum og hreyfst með þessu samspili. Áður en bænastundin var liðin hvíslaði ein úr kórnum að mér og bað mig um að horfa á birtuna á altarinu. Um þá birtu á ég bara eitt orð, mögnuð!

Á laugardagsmorguninn var ég komin til esperantovinkonum minnar um hálfellefu. Drakk hjá henni bolla af kaffi en svo skunduðum við niður að Höfða og fengum (ásamt fleirum) leiðsögn um húsið. Eftir skoðunina datt okkur stöllum í hug að labba Laugaveginn og létum við það eftir okkur. Komum svo upp Skólavörðustíg til baka og stöldruðum stuttlega við í Hallgrímskirkju þar sem verið var að æfa á fullu fyrir ýmsa atburði sem átti að flytja eftir hádegi.

16.8.08

- Alger dekurdagur -

Ég lét dekra við mig í allan dag. Rétt fyrir tíu trítlaði ég í Kringluna og hitti hármeistarann minn sem þynnti og stytti á mér hárið og var snöggur að því þrátt fyrir að ég væri komin með smá lubba.
Þegar ég kom heim gaf ég mér tíma til að ryksuga yfir gólfin, taka af rúminu og setja í þvottavél (á tíma). Þetta hafðist allt á þremur korterum.

Rétt fyrir tólf skutlaði Davíð mér í Kópavoginn þar sem ég átti tíma í GULLMEÐFERÐ í Mecca Spa (afmælisgjöf frá feðgunum). Mér var afhentur sloppur, handklæði og inniskór og vísað í kvennabúningsaðstöðuna. Valdi skáp númer 17 þar sem ég geymdi föt mín og dót. Fyrst
voru fæturnir teknir fyrir. Fékk fótabað, snyrtingu, fótanudd og það voru meira að segja lakkaðar á mér táneglurnar en það hef ég aldrei gert áður. Næst var það andlitssnyrtingin. Hún fór fram í öðru herbergi og þar var ég fyrst beðin um að leggjast á magann á bekk undir lak í engu nema brók. Sú sama og snyrti á mér fæturnar byrjaði á því að nudda mig og ég hélt á tímabili að ég hefði misheyrt það að andlitssnyrtingin væri á undan heilnuddinu. En svo var ekki. Ég hef aldrei áður farið í svona andlitssnyrtingu en mikið rosalega var þetta gott og slakandi, fyrir utan það þegar voru vaxaðar á mér augabrýrnar. Að snyrtingu lokinni fékk ég lánaðann sundbol og fékk að skreppa ofan í heitan bott í nokkrar mínútur eða þar til var kallað á mig í heilnuddið. Ég hef heldur ekki prufað svoleiðis nokkurn tímann áður. Mér var boðið upp á slökunar- eða djúpnudd og valdi það fyrrnefnda. Tókst alveg að gleyma því að það var ungur myndarlegur maður að nudda mig. Slakaði bara vel á og naut nuddsins í botn. Var nudduð í tæpan klukkutíma (held ég) og fékk svo að slaka á, ein inni, í nokkrar mínútur. Davíð sótti mig svo um fimm og hann fékk stórt knús fyrir þessa afmælisgjöf.

En aðeins að öðrum fréttum. Davíð Steinn var spurður hvort hann vildi taka þátt í fyrstu sýningu íslensku óperunnar í haust og ákvað að slá til. Þeir eru þrír, allir úr DKR sem taka þátt og hann fór á fyrstu söngæfingarnar á fimmtudag og föstudag og var svo á leikæfingu undir stjórn Sveins Einarssonar milli 10 og 13 í morgun. Það lítur því út að haustið hefjist með látum og annríki því í mínum kór stendur til að taka upp mörg af lögunum sem við æfðum sl. vetur og gefa út á disk.


Farið vel með ykkur!

12.8.08

- Sumarfríið búið -

Já, allt tekur enda um síðir. Búin með 22 daga af 27 af fríinu þetta orlofsárið og er búin að festa þrjá af þessum fimm dögum. Fæstir af þessum nýliðnu frídögum voru mjög skipulagðir en ég komst í gegnum ótrúlega breiða flóru af ýmsu sem ég hef gaman af að gera í bland við ákveðna hluti sem ég komst ekki hjá að gera. Ég gekk í nýja bókaklúbb, Hrafninn, sem er spennukiljuklúbbur hjá eddu, og las þrjár bækur úr honum og nokkrar af bókasafninu. Ég hef verið iðin að grípa í saumana mína og er með nokkur verkefni í takinu. Ætla loksins að láta verða af því að láta ramma inn þær myndir sem ég hef lokið við sl. fimm ár, þ.e. þær sem ég átti ekki ramma fyrir, fyrir. Fór á tvö ættarmót (reyndar búin að segja frá öðru), einhverja bíltúra, passaði upp á að missa ekki hreyfinguna niður. Ég labbaði t.d. í Fiskisögu við Háaleitisbraut um daginn og frétti þar að Fiskbúðin í Skipholti verður ekki opnuð aftur. Einnig skruppum við fjölskyldan í heimsókn í bústaðinn til tvíburahálfsystur minnar og hennar fjölskyldu. Áttum mjög notalegar og skemmtilegar stundir þar. Ég datt aðeins í kaffiþamb þessa vikur og missteig mig aðeins í mataræðinu. Og þetta er bara brot af heildinni. Maður týnir alveg helling niður ef maður skrásetur ekki reglulega svo líklega verð ég að setja mér þau markmið að setjast niður fyrir framan skjáinn lágmark annan hvern dag. Sjáum til hvernig það gengur...