29.3.19

Vinnuvikulok og bráðum mánaðamót

Ég er tiltölulega nýkomin heim úr Lífspekifélaginu. Þar hélt Þórarinn Friðriksson fyrirlestur sem bar yfirskriftina: Í minningu vinar og gelísk áhrif. Efnið var mjög áhugavert og vel flutt. Þórarinn sagði svo frá því að það væri að koma út bók sem hann tók saman um gelísk orð í íslenskunni. Eftir erindið skrapp ég aðeins upp á efri hæðina, fékk mér kaffibolla og kleinu og spjallaði við nöfnu mína sem var með erindi um spring forest qi gong í félaginu fyrir nokkrum vikum.

28.3.19

Snjór

Það var snjókoma úti þegar ég trítlaði út á strætóstoppistöð á leið í vinnuna um hálfátta í morgun. Þétt snjókoma á köflum. Kom heim aftur úr vinnu rétt fyrir fjögur með strætó í ágætisveðri. Staldraði stutt við heima. Hringdi í pabba og tók svo til sunddótið, dall undir fisk og kúst til að sópa af bílnum. Eftir að hafa sópað af bílnum lá leiðin í Fiskbúð Fúsa og keypti mér nætursaltaða ýsu í soðið. Síðan lá leiðin í Laugardalinn og tók uþb klukkutíma rútínu í þann kalda, laugina og gufuna.

27.3.19

Kiljan

Kom við heima eftir vinnu til að sækja sunddótið mitt og ákvað að skila tveimur bókum á safnið í leiðinni. Flýtti mér út af safninu eftir að hafa skilað bókunum. Er enn með fjórar bækur af safninu og það er nóg næstu tvær til sex vikurnar.

Var komin fyrstu ferðina í kalda pottinn klukkan hálffimm, var búin að synda 500 metra áður en klukkan var orðin fimm og komin aftur í pottinn. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu. Lét þetta svo gott heita en gaf mér góðan tíma í hárþvott og hárblástur á eftir.

Kom heim um sex og var búin að finna til kvöldmatinn áður en klukkan varð hálfsjö. Gekk frá öllum endum í appelsínugula sjalinu sem datt endanlega af prjónunum í hádegishléinu. Fitjaði jafnfram upp á nýju sjali í nýjum lit. 

26.3.19

Appelsínugult sjal alveg að verða tilbúið

Þegar ég kom heim úr vinnunni núna seinni partinn var einkabílstjórinn rétt ókominn úr Sorpuferð og einkaerundum á bílnum. Ég hringdi í pabba til að heyra í honum hljóðið og deila með honum sögum. Spallaði svo stuttlega við Odd þegar hann kom heim áður en ég dreif mig í sund og kalda pottinn í Laugardalnum. Þar sinnti ég nokkurn veginn hefðbundinni sundpottarútínu. Var komin heim um sex og dreif mig í að útbúa kvöldmatinn, ofnbakaða laxabita kryddaða með "best á flest" og sítrónupipar. Með í ofnin fóru smávegis af hvítkáli, rauðkáili, uþb 1 epli og ein lítil rauðrófa. Sauð einnig örfáar kartöflur. Þetta var mjög gott.

Um daginn fékk ég lánaða bókina Leyndarmál systranna eftir Diane Chamberlain íslenskuð af Magdalenu Kristjánsdóttur. Fékk þessa bók lánaða þrátt fyrir að vera nýbúin að sækja mér nokkrar bækur á safnið, þar af eina sem er með 14 daga skilafresti og þar að auki á ég enn eftir að lesa eina jólabókina. En allt um það ég fékk þessa bók lánaða daginn fyrir afmælið mitt, byrjaði að lesa hana það kvöld og kláraði á mánudeginum eftir að ég kom heim úr vinnu. Mjög spennandi bók, það komst fátt annað að á meðan ég var að lesa hana. Áðan var ég svo að ljúka við að lesa eina af bókasafnsbókunum. Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar sem kom út 2016 en fyrir síðustu jól kom út Hið heilaga orð eftir sama höfund. Þá bók fékk ég lánaða frá vinnufélaga seinni partinn í janúar og eftir lesturinn ákvað ég að verða mér úti um fyrstu bókina sem fyrst.

25.3.19

Kundalini

Fór ekkert út úr bænum nýliðna helgi en ég fór í sund báða morgnana, esperanto-hitting strax eftir sundið á laugardagsmorguninn og kom við í Krónunni á Granda áður en ég fór heim. 

Strax eftir vinnu í dag tók ég leið 13 vestur í bæ. Var komin til Inger um fjögur. Við höfðum rúman tíma svo við ákváðum að lesa smá í Kon-Tiki. Lásum fjórar blaðsíður og við erum staddar á mjög spennandi stað í leiðangrinum. En korter fyrir fimm röltum við með teppi og kodda yfir á Aflagranda þar sem Inger mátti bjóða með sér gesti á kynningaræfingu í kundalini jóga. Hef aldrei prófað svoleiðis áður og það kom mér á óvart hversu misvel mér gekk að gera æfingarnar. Það er aldrei að vita nema ég ákveði að fara að stunda þetta. Sjáum samt aðeins til með það,

23.3.19

Dagarnir æða áfram en það er svo sem ekki nýtt

Rúmar þrjár vikur síðan ég skrifaði eitthvað á þessum vettvangi síðast. Er svo sem heldur ekkert svo dugleg að uppfæra stöðuna á FB-veggnum mínum. Tíminn virðist fara í eitthvað allt annað sem er kannski bara ágætt. En samt, eins og ég hef sagt/skrifað áður þá er smá eftirsjá í því að skrifa ekki reglulega um það helsta sem er í gangi. Þótt ég segi sjálf frá þá hef ég mjög gaman að því að rifja upp eldri skrif og þykir mér að stundum hafi mér tekist ágætlega upp. Búin að blogga reglulega óreglulega í rúm 16 ár og það er í raun fjársjóður að geta leitað í þessar minninar, amk fjársjóður fyrir mig.

Um síðustu helgi komst ég loksins austur eftir akkúrat mánaðahlé. Var ekki búin að fara síðan Hellublótið var, helgina 16.-17. febrúar sl. Helgina eftir það var tvíburahálfsystir mín að útskrifast úr HÍ og halda upp á það. Ég þáði boð í þann fagnað, var mætt með þeim fyrstu og fór með þeim síðustur. Einkabílstjórinn bæði skutlaði mér og sótti aftur.

Fyrsta helgin í mars byrjaði á því að það var samverustund í kirkju óháða safnaðarins vegna alþjóðlegs bænadags kvenna. Ég var mætt klukkutíma fyrir stundina til að aðstoða við undirbúning vegna mauls á eftir og fór ekki fyrr en búið var að ganga frá öllu á eftir. Kvöldið eftir var árshátíð safnaðarstjórnar haldin og á sunnudeginum dreif ég mig loksins til æsku vinkonu og jafnöldru mömmu, til Keflavíkur og færði henni m.a. sálmaskrá.

Þann 10. mars var galdramessa og Bjargar-kaffi á eftir og þá þarf stjórnin að undirbúa báða sali og hlaðborð af ýmsu góðgæti á báðum hæðum og ganga svo frá á eftir. Þann 13. mars kom Lilja vinkona heim frá Spáni. Hún fékk að gista hjá mér í nokkrar nætur en varð svo samferða mér austur sl. laugardag til að sækja húsbílinn sinn til mömmu sinnar, hvar hann var búinn að vera í heimkeyrslunni síðan seinni partinn í september.

5.3.19

Saltkkjöt og "jóla"-baunir

Eftir vinnu í gær kom ég heim, náði í sunddótið og dreif mig í Laugardalslaugina. Þegar ég kom heim bjó ég til kjötbollur og skolaði gular baunir og lagði í bleyti. Í dag kom ég heim um fjögur. Hafði tæpan klukkutíma áður en ég varð að trítla af stað á safnaðarstjórnarfund upp í kirkju. Notaði þann tíma til að hella af baununum, setja þær í stærri botn, tæplega 3 lítra af vatni og sjóða upp á þeim. Kom heim af fundinum upp úr klukkan sjö. Setti saltkjötsbita út í baunapottinn og restina af rúmlega kílói af kjöti í annan pott með vatni. Kveikti á hellunum undir báðum pottum og skar niður kartöflur, rófu, gulrætur, lauk, hnúðkál og rauðkál. Grænmetið setti ég út í baunapottinn þegar þær voru búnar að malla með kjötbitanum í í rúman hálftíma. Klukkan var alveg að verða níu þegar maturinn var tilbúinn en það var alveg þess virði að bíða eftir honum. Og það var meðvituð ákvörðun að nota rauðkálið. En enginn tími var til að skreppa í sund í dag.

3.3.19

Engin austurferð um helgina en ýmislegt brallað

Á föstudaginn var mætti ég í kirkjuna mína rétt fyrir klukkan fimm. Ég var fyrst á staðinn en ég er með lykil sem gengur bæði að útidyrum Háteigsmeginn sem og eldhúsinu. Veit ekki hvort lykillinn gengur líka að aðal-kirkjudyrunum þar sem ég hef ekki prófað, en mér þykir það þó líklegt. Það var alþjólegi bænadagur kvenna og sameiginlega helgistundin byrjaði klukkan sex. Upphaflega átti stundin að byrja klukkan átta en til að organistinn í óháða gæti komið að verkefninu varð að færa til því hann var upptekinn klukkan átta. Ég var mætt svona snemma til að hjálpa til við undirbúning undir samfélagið/maulið eftir stundina. Við vorum nokkrar sem hjálpuðumst að og allt var til reiðu fyrir klukkan sex svo ég gat tekið þátt í mjög skemmtilegri stund. Það kom okkur á óvart hversu margir mættu og voru allir ánægðir með tímann.

Mætti í Laugardalslaugina um hálfníu í gærmorgun. Bílastæðin laugarmeginn voru öll upptekin en það var nóg af stæðum við völlinn. Strax eftir sundrútínuna fór ég í esperantohitting og áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni úti á Granda og keypti þvott á bíllinn hjá Löðri. Ákvað að sleppa því að mæta í Lífsspekifélagið, dútla heldur heima við þar til kominn var tími til að mæta á árshátíð óháða safnaðarins, þeirra sem vinna fyrir kirkjuna velflestir í sjálfboðavinnu. Smá forföll voru á þeim sem þekkst höfðu boðið en við vorum um 35. Grillvagninn kom og sá um aðalréttinn fyrir okkur en við vorum búin að hella upp á kaffi, setja skreytingar og glös á borðin og keypt hafði verið konfekt og súkkulaðikaka sem var boðið upp á á eftir. Organistinn og nokkrir kórfélagar sungu tvö lög og það var einnig fjöldasöngur. Mjög skemmtilega kvöldstund.

Var komin í laugina klukkan að ganga tíu. Lagði bílnum á sama stað og í gær. Þegar ég kom heim þeytti ég rjóma, hellti upp á kaffi og festi tölu á buxur fyrir Odd m.a. Um hálftvö lét ég loksins verða að því að skreppa til elstu vinkonu mömmu sem býr suður með sjó og færa henni sálmaskrána frá útförinni. Þær vinkonur voru jafngamlar aðeins um þrjár vikur á milli þeirra og þær voru búnar að þekkjast í yfir 70 ár. Stoppaði hjá vinkonunni í tvo tíma og margt spjallað. Hún spurði út í ýmislegt og rifjaði líka upp ýmislegt frá því þær mamma voru litlast skottur og næstu nágrannar. Var komin heim aftur upp úr fimm.