20.6.24

Ennþá tæp vika eftir af fríinu

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun og dreif mig fljótlega á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Oddur Smári kom fram ca klukkutíma síðar eða milli hálfátta og átta. Hann átti að mæta á námskeið, þriðji dagur af fimm, klukkan níu. Úti var mikil rigning og ég bauðst til að skutla honum þegar ég færi í sund. Hann þáði það. Ég var komin í kalda pottinn um níu. Fór svo á braut 2, þar sem það var sundleikfimi á brautum 7 og 8, og synti 300metra. Fór þrjár aðrar ferðir í þann kalda. Í gufunni frétti ég að sést hefði til stærðarinnar rottu við sjópottinn fyrr um morguninn. Ég held að tekist hafi að veiða kvikindið, varð amk ekki vör við neitt svoleiðis þessi fimm korter sem ég var í sundi. Eftir sundið fór ég í Krónuna í Skeifunni. Var að setja vörurnar í skottið þegar Oddur hringdi um ellefu. Búið var að fara yfir námskeiðsskammtinn þann daginn. Náði í soninn og hann hjálpaði mér með vörurnar inn. Lánaði honum svo bílinn svo hann gæti farið að versla fyrir sig. Davíð Steinn var greinilega alveg búinn á því eftir síðustu vaktatörn því hann vaknaði ekki fyrr en um miðjan dag. Hann skrapp í verlsunarferð um sex. Horfði annars á alla EM leikina í gær, prjónaði alveg helling og bauð strákunum upp á steikt slátur í matinn, aldrei þessu vant. Þeir þáðu boðið en það er orðið afar sjaldan sem ég elda fyrir okkur öll. Gafst eiginlega upp á því þar sem oftar og oftar kom fyrir að þeir borðuðu lítið sem ekkert af því sem ég var með í matinn. Davíð Steinn er mjög duglegur að sjá um eldamennsku fyrir sig sjálfan. Eldar þá gjarnan þannig að hann geti tekið með nesti á vinnuvaktir. Oddur er mjög lítið fyrir eldamennsku, kaupir sér brauð, flatbrauð og ost og einnig heimsendan skyndibita stöku sinnum.

19.6.24

Komin heim

Ég var nýlega komin á fætur þegar pabbi kom heim úr sundi í fyrra fallinu, milli hálfátta og átta. Hann sagðist þó hafa getað gert flest af sundrútínunni nema farið í rennibraut og gufu. Hann stoppaði alls ekki lengi heima því hann átti tíma hjá augnlækni seinna um morguninn. Morguninn leið mjög hratt hjá mér við svipaða hluti og ég var að gera í fyrradag, leggja kapla, prjóna, vafra á netinu og fleira. Pabbi kom aftur upp úr eitt og um svipað leyti fékk ég skilaboð frá konu sem ég var hjá í sveit um fermingu um að hún væri komin heim eftir skrepp á Selfoss. Fljótlega tók ég mig saman og kvaddi pabba sem var sennilega að fara undirbúa sig undir pönnukökugerð og síðar sultugerð. Ísbíllinn var mættur í sveitina þegar ég kom þar upp úr klukkan tvö. Sá sem var á bílnum var inni að fá sér hressingu. Ég spurði hvort hann væri með sykurlausan ís og keypti af honum einn pakka, áður en hann fór, og fékk að geyma hann í frystikistunni hjá Helgu og Óla á meðan á heimsókn minni stóð. Þetta var fyrsta heimsókn ársins í sveitina, liðið hátt í eitt ár frá því ég kom þar síðast. Ég batt ekki enda á kaffipásuna, bað bara um kalt vatn. Sleppti líka að fá mér af kökunum sem voru á borðum. Fékk mér eina brauðsneið með osti en lét svo vatnið duga. Hafði mestan áhuga á því að spjalla við Helgu og seinna Óla þegar hann og yngsti sonurinn komu inn úr smá girðingavinnu. Tengdadóttirin hafði komið inn aðeins fyrr eftir að hafa sótt börnin tvö, Þorstein og Söru, á leikskólann. Það er alltaf gott að koma í afa og ömmuhús en þau fóru reynda inn í sjónvarpsherbergi, smá feimin við gestinn. Stoppaði í rúma tvo tíma sem liðu alveg ótrúlega hratt. Var komin heim um sex og hjálpaði Oddur mér með dótið úr bílnum. Hann hafði engan áhuga á því að smakka sykurlausa ísinn. Það gerði aftur á móti bróðir hans þegar hann kom heim úr vinnu upp úr klukkan átta.

18.6.24

Ennþá á Hellu

Við pabbi fórum hvorki í skrúðgöngu né yfir höfuð út úr húsi í gær. En það hefði nú verið í frásögur færandi ef við hefðum tekið upp á því. Þess í stað höfðum við það mjög notalegt hér á númer 24. Lagði kapla, vafraði á netinu, gerði æfingar, prjónaði og horfði að fullt af fótbolta. Hafði bleikju handa okkur í hádeginu og það var svo ekki fyrr en ég fór upp í rúm um ellefu að ég leit í bók.

17.6.24

Lýðveldi Íslands 80 ára í dag

Rumskaði upp úr klukkan sex. Snéri mér aðeins á hina hliðina. Um sjö skrapp ég fram á salernið en skreið aftur upp í rúm. Las til klukkan að verða hálfátta. Þá dreif ég mig loksins á fætur. Pabbi hafði aðeins farið á stjá um sex leytið en hann kom svo klæddur fram um níu leytið. Klukkutíma síðar fór hann á rabbabara veiðar hjá nágrönnunum á no 22. Hann var búinn að fá leyfi og það var nóg til. Upp úr hádeginu tók ég að mér að skera niður uppskeruna í ca 9mm bita. Markmiðið hjá pabba var að fylla tvo fimm kílóa poka og frysta. Fyrstu "veiðarnar" mældust rúmlega sjö kíló. Þá var náð í aðeins meira. Seinni pokinn mældist 4,750kg en pabbi ákvað að láta það gott heita. Hann mun svo taka annan pokann úr frysti einhvern tímann í næstu viku og sjóða úr honum sultu. Veðrið var einstaklega gott en við fórum þó inn um fjögur leytið og horfðum á hluta af öðrum leik dagsins á EM í knattspyrnu karla. Horfðum á allan síðasta leikinn eftir kvöldmat. 

16.6.24

Sumarblíða

Dreif mig á fætur um sjö í gærmorgun. Það fóru svo þrjú korter í netvafrið og færsluna eftir morgunverkin á baðherberginu. Tíu mínútum fyrir átta settist ég upp í bíl með sund- og esperantodótið með mér. Var akkúrat að leggja á planinu við Laugardalslaug þegar morgunfréttir fóru í loftið og verið var að opna. Eftir þrjár mínútur í kalda pottinum synti ég 500m á braut átta og amk 200m á bakinu. Eftir næstu þrjár mínútur í kalda sat ég í gufunni í rúmar fimmtán mínútur og gerði æfingar. Næst lá leiðin í sjópottinn eftir kalda sturtu og eftir þriðju og síðustu ferðina í þann kalda settist ég í sólbað við hliðina á einni sundvinkonu minni þar til kominn var tími til að fara upp úr og þvo sér um hárið. Fór beinustu leið úr sundi vestur í bæ í esperantohitting og var komin þangað rúmlega hálfellefu. Stoppaði tæpan klukkutíma að þessu sinni en við lásum samt eina og hálfa blaðsíðu í Kontiki. Erum alltaf jafn hrifnar af þeirri bók. Fljótlega eftir að ég kom heim sendi ég af stað skilaboð í Fossheiðina og dreif mig í að pakka niður fyrir nokkra daga. Davíð Steinn var vaknaður og hjálpaði mér að ferma bílinn. Lenti í smá töfum á Miklubraut milli Lönguhlíðar og Kringlumýrarbrautar vegna framkvæmda við gatnamót. Að öðru leyti gekk ferðalagið vel. Fór Þrengslin og var komin í Fossheiðina upp úr klukkan hálftvö. Þar var vel tekið á móti mér þessa aðra heimsókn á árinu. Stoppaði í rúman klukkutíma og brunaði áfram austur á bókinn. Bruninu lauk þegar ég var nýkomin yfir Þjórsárbrú en það voru vegaframkvæmdir á kaflanum rétt við Holtaafleggjara (stendur Gíslholt á skiltinu) og næstum að Áshól. Umferðin var mikil í báðar áttir og langar raðir mynduðust. Klukkan var  byrjuð að ganga fimm þegar ég kom í Hólavanginn. Pabbi hafði verið að klára að slá og var á spjalli við nágrannann í endahúsinu. Ég kastaði á þá kveðju en fór svo inn til að horfa aðeins á EM og prjóna. 

15.6.24

EM 2024 fór af stað í gær

Byrjaði gærdaginn ósköp svipað og flesta morgna. Eftir morgunverkin á baðherberginu og sopa af turmenik-kanildrykk (fæ mér stundum sítrónuvatn eða eplaedik í vatni) settist ég með fartölvuna í fangið í stofusófanum. Reyndar skrapp ég niður í þvottahús fyrst og setti í vél korter fyrir átta. Vafraði um á netinu og skrásetti fimmtudaginn. Um níu leytið hafði ég samband við kalda potts vinkonu mína og sagðist fara í sund upp úr tíu þegar ég væri búin að hengja upp úr vélinni. Milli hálftíu og tíu greip ég í prjóna og gerði æfingar í framhaldi af nokkrum umferðum. Var mætt í kvennaklefann í Laugardalslaug tuttugu mínútum yfir tíu. Það voru fjórar ferðir í þann kalda, gufa, sjópottur og einn pottur til áður en ég synti 400m. Kom heim um tólf. Hitaði mér afganginn af linsubaunasúpunni. Um hálftvö skrapp ég í klukkutímagöngutúr. Rétt fyrir lokin á þeim göngutúr settist ég á bekk í Eskihlíðinni og hringdi í pabba. Hann var úti í garði að slá. Lét bara þokkalega af sér. Þó kom það fram að hann er nýlega búinn að hitta þvagfærasérfræðinginn og var settur á tvöfaldan og sterkan sýklalyfjakúr. Þótt hann sé hættur að leka og sjái um að tappa af sér sjálfur þá kemur víst alltaf sýking öðru hvoru sem endar með að hann þarf að fá eitthvað við henni til að losna við hana. 

Í dag eru annars áttatíu ár síðan Sigrún mamma æskuvinkonu minnar fæddist en hún dó í október 2006 árið sem hún varð 62. Sigrún kenndi mér handavinnu í grunnskóla var ekki lærð en mjög flink. Síðar náði hún sér í kennararéttindi, útskrifaðist úr kennó sama ár og dóttirin, vorið 1992. 

14.6.24

Osteostrong

Vaknaði snemma í gærmorgun. Var komin á stjá rétt fyrir sjö og hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann dreif sig í vinnu. Um hálfátta heyrði ég í vekjara hins sonarins sem kom fram fljótlega og fór í sturtu. Ég vafraði á netinu til klukkan að verða átta. Þá greip ég í prjónana mína til að liðka mig upp fyrir fyrstu æfingalotu dagsins. Aldrei þessu vant er ég með tvö verkefni á prjónunum. Er að gera tilraun til að prjóna ennisband úr afgangnum af ullinni sem ég keypti á Ullarsetrinu á Hvammstanga þegar ég var á leiðinni norður í síðasta mánuði. Og svo er ég búin að fitja upp og byrjuð á enn einu eldhúshandklæðinu sem hugsanlega fær heimili hjá systur minni síðar meir. Oddur var annars á leiðinni í skyldunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar, fyrsta dag af fimm. Hinir fimm verða virku dagana í næstu viku. Námskeiðið er frá 9-12 og hann rölti af stað niður í Borgartún rétt fyrir hálfníu. Rúmum klukkutíma síðar tók ég sunddótið með mér í bílinn en lagði leiðina fyrst í Hátún 12 í frían prufutíma hjá Osteostrong. Ég var ein mætt í þennan tíma og leið eins og prinsessu þar sem ég fékk óskipta athygli og aðstoð í þessari kynningu. Ferlið frá því ég mætti og þar til ég kvaddi tók rúma klukkustund og til að gera langa sögu stutta þá er ég að hugsa um að fjárfesta í þessu dæmi amk hálft ár. Tímarnir verða einu sinni í viku og ef einhverjar vikur detta út þá er ég ekki að glata þeim, fæ amk 24 tíma hvort sem ég tek þá út í hverri viku eða yfir 6-12 mánaða tímabil. Festi fyrsta tímann mánudaginn 24nk kl 16:20. Það er í sömu viku og ég byrja að vinna aftur eftir sumarfrí, einn af síðustu frídögunum í bili. Það er svo mjög líklegt að ég segi betur frá æfingunum þegar ég verð byrjuð að stunda þær en hver æfingatími á ekki að taka lengri tíma en 20-25 mínútur og það þarf engin sérstök æfingaföt.

Var komin í sund fyrir hálftólf. Ætlaði að byrja á því að synda en hitti fyrir konu frænda míns og þegar ég var búin að spjalla stuttlega við hana sá ég að kalda potts vinkona mín var að fara í þann kalda svo ég rauk til að hitta á hana. Vissi ekkert hvað hún væri búin að vera lengi á svæðinu en í ljós kom að hún var nýkomin og þetta hennar fyrsta ferð í kalda. Saman náðum við fjórum ferðum, hittum eina systur hennar eftir aðra ferð, fórum í gufu eftir þriðju ferð og svo í sjópottinn þar sem systir hennar var búin að koma sér fyrir. Klukkan tólf fórum við allar í nuddpottinn en þar var verið að hella magnesíum flögum út í og fengum við smá í lúkurnar til að dreifa á okkur. Eftir fjórðu ferðina í kalda pottinn synti ég aðeins 200m, þar af ca 75m skriðsund. Kom við í heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim og splæsti á mig próteindrykk. Lagði bílnum á hornstæði við Blönduhlíð þegar ég kom heim. Hugmyndin var svo að skreppa út í göngu síðar um daginn. Ekkert varð úr þeirri áætlun en ég bjó til linsubaunasúpu og notaði hluta af afgangum af fiskinum frá deginum áður út í. Oddur þáði ekki að fá að smakka. Þeim mun meiri afganga á ég fyrir mig. Hringdi annars í einn vinnufélaga, Þórný, sem er að jafna sig eftir að fá nýjan maðmalið. Hún er á Akranesi og verður þar í sumar, ný byrjuð að fara í stuttar göngur. 

13.6.24

Sund og innlit til fyrrum samstarfskonu

Aftur var ég vöknuð alltof snemma og komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Hitti því auðvitað aðeins á N1 soninn áður en hann fór í sína vinnu. Dreif mig ekki í sund fyrr en á tíunda tímanum en synti 500m áður en ég skellti mér fyrri ferðina í kalda pottinn. Gerði æfingar í 42°C pottinum og gufunni eftir seinni kalda potts ferðina. Eftir gufuna sat ég um tíu mínútur í sjópottinum áður en ég tók stutta dýfu í kalda á leiðinni upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsu í soðið. Kom heim rétt fyrir tólf og var maturinn til um hálfeitt. Bauð Oddi að borða með mér en hann afþakkaði. Rétt fyrir tvö hringdi ég í fyrrum samstarfskonu sem býr vestur í bæ til að athuga hvort hún væri heima. Hún sagðist vera heima til klukkan fjögur og ég væri velkomin að kíkja í millitíðinni. Tók prjónana mína með í þessa heimsókn. Stoppaði í ca einn og hálfan tíma sem mér fannst ekki vera meira en rúmt korter. Var komin heim skömmu fyrir fjögur og fór ekkert út aftur. Hringdi í pabba um hálfsex. Helga systir hringdi í mig um sex og spjallaði í rólegheitum í dágóða stund á meðan hún var líka að horfa á kindurnar og lömbin úti á túni. Seinna um kvöldið hringdi nýjasti sumarstarfsmaður Seðlaversins í mig og við spjölluðum í þrjú korter þrátt fyrir að það væru aðeins örfáir dagar síðan við töluðumst síðast við. Hún er með vinnusamning út ágúst þannig að við náum að vinna saman í tvo mánuði eftir að ég kem aftur úr sumarfríi annan fimmtudag. 

12.6.24

Mega rólegheit

Vaknaði alltof snemma í gærmorgun. Var ekkert búin að ákveða hvernig og í hvað ég ætlaði að eyða deginum. Byrjaði morguninn eins og oft áður með því að vafra á netinu, prjóna og gera æfingar. Mér leist satt að segja ekkert á gosmóðuna úti og notaði hana á endanum sem lélega afsökun fyrir að halda mig bara inni við, lesa, horfa á þætti og prjóna. Davíð Steinn skrapp til sýslumanns og pantaði tíma á heilsugæslunni til að fá augnvottorð. Hann fékk tíma í næstu viku og fljótlega eftir það fær hann ökuskírteini sem gildir mun lengur en í eitt ár. Oddur Smári er allur að hressast. Það kom í ljós að nóg var fyrir hann að drekka mikið af vatni og að parodinið sló á verkina sem voru að hrjá hann. Nú er ég bara að vona að hann fari að huga betur að sjálfum sér og heilsunni og fari að lifa lífinu sínu í stað þess að loka sig of mikið inni.

11.6.24

Skutl, sund og tveir göngutúrar

Ég vaknaði upp um sjö í gærmorgun við það að heyra í Oddi kasta upp af kvölum. Ég dreif mig á fætur til að athuga hvort ég gæti hjálpað honum eitthvað. Hann talaði um að ætla að fara á heilsugæsluna um átta. Rúmlega átta ákvað hann þó að biðja mig um að skutlast með sig á bráðamóttökuna í Fossvogi. Ég tók sunddótið með og sagði að hann myndi ekki ná í mig aftur fyrr en upp úr klukkan hálfellefu. Var búin að synda og sóla mig og sest aftur inn í bíl korter fyrir ellefu. Hringdi þá í soninn. Hann var ekki alveg búinn, gat sagt mér að í ljós hefði komið að ekki væri um þvagfærasýkingu að ræða svo hann var tekinn af sýklalyfjunum. Ég var ekki komin heim þegar kom grænt ljós að ég mætti sækja hann. Brunaði því upp í Fossvog og áður en við mæðgin fórum heim skutlaði ég honum í Lyfjaver til að leysa út verkjalyf. Hann hafði ekki fengið að vita hvað væri að hrjá hann. Mátti hætta á sýklalyfjunum og skrifað var upp á parkodin og honum sagt að drekka mikið af vatni. Ég laumaði því að honum að líklega væri líkami hans að gefa honum aðvörun um að hugsa betur um sig. Davíð Steinn var búinn að fara í ökumat og kominn heim aftur þegar við Oddur komum stuttu fyrir tólf. Ég bjó mér til hafragraut. Davíð Steinn skrapp til þess að leysa út pakka fyrir Bríeti. Hann færði henni pakkann í vinnuna hennar áður en hann kom heim aftur. Um hálftvö setti ég bók og les-sólgleraugu í lítinn og léttan bakpoka og labbaði niður í bæ. Heimsótti Lilju á torgið og spjallaði við hana í góða stund áður en ég rölti áleiðis heim aftur. Settist á bekk á Klambratúni og las í korter í einni bókinni af safninu; Stúlka A eftir Abigail Dean. Oddur var allur að koma til þegar ég kom heim um fjögur.

10.6.24

Fjórir mis-langir göngutúrar og gúllasmessa

Klukkan var byrjuð að ganga tíu í gærmorgun þegar ég dreif mig loksins í sund. Synti 400metra, fór nokkrum sinnum í kalda pottinn, gerði æfingar í gufunni og sjópottinum og sat smá stund úti í sólbaði áður en ég fór heim og fékk mér eitthvað að borða. Um hálftvö setti ég bók les-sólgleraugu, buff og ennisband í lítinn bakpoka og skrapp út í smá göngu. Þveraði Öskjuhlíðina og settist á bekk rétt við stíginn hinum meginu skammt frá einu hliðinu úr kirkjugarðinu. Las í ca fimmtán mínútur áður en ég hélt göngu túrnum áfram meðfram hlíðinni, framhjá Valsheimilinu og heim. Klukkan var að nálgast fjögur um það leyti og ég kveikti á sjónvarpinu til að fylgjast með fyrsta leik í átta liða úrslitum í mjólkurbikar karla í fótbolta milli Keflavíkur og Vals. Hætti þegar rúmt korter var eftir af venjulegum leiktíma og staðan 2:2. Rölti upp í kirkju óháða safnaðarins en þar byrjaði síðasta messa fyrir sumarfrí á slaginu sex. Það var alveg slangur af kirkjugestum og gospelkórinn samanstóð af tólf konum. Eftir messuna Fékk ég mér eina skál af gúllassúpu, heilsaði upp á prestinn, messuguttann og formann safnaðarstjórnarinnar áður en ég rölti heim aftur. Bikarleikurinn fór í framlengingu og vító og endaði 5:8 fyrir Val sem voru að spila á útivelli við lið sem er í fyrstu deildinni en það lið var þegar búið að slá m.a. Breiðablik úr keppni. 

9.6.24

Á leið í sund fljótlega

Tók þá ákvörðun, fljótlega eftir að ég kom á fætur um átta í gærmorgun, að sleppa sundferð. Vafraði á netinu, gerði æfingar og var svo mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Á leiðinni þaðan gerði ég tilraun til að hringja í Davíð Stein en hann var á kafi í vinnu og sendi þau skilaboð að hann myndi hringja til baka. Um eitt leytið hringdi ég í Helgu systur. Hún sagði að matarveislunni myndi seinka um klukkustund eða tvær og ég sagði henni þá að við Oddur myndum bíða þar til Davíð Steinn væri laus úr vinnu og við kæmum á einum bíl upp úr klukkan sex. N1 sonurinn hafði ekki hringt til baka þegar þetta var svo ég hringdi aftur og náði þá sambandi við hann, sagði honum að við myndum renna við á Gagnvegi um fimm. Þangað til á horfðum við Oddur á þrjá NCIS þætti. Hann var annars allur að koma til af þvagfærasýkingunni svo þetta er örugglega ekki sveppur eða þaðan af verra. Hann treysti sér alveg til að keyra og við vorum komin á Gagnveg tíu mínútum fyrir fimm. Þurftum ekki að bíða nema eina mínútur eftir Davíð Steini. Við vorum gestir númer þrjú, fjögur og fimm af ellefu en í heildina vorum við 16 þegar allir voru mættir. Þau sem komu síðust voru að koma úr afmælisveislu úr bænum. Þessi fögnuður var mjög vel heppnaður og stór hluti af veislunni var búið til af Bríet. Pabbi hennar sá um að grilla og það var boðið upp á fimm tegundir af kjötmeti, m.a. eitthvað sem var kallað flétta og annað kallað loftbelgur. Bríet þarf að endurtaka tvennt af verklega sveinsprófinu í haust en hún fær örugglega loka skírteinið varðandi sveininn í haust eins og hinir. Hún er annars þegar byrjuð að vinna hjá Krónunni í Garðabæ, þennan mánuðinn og í næsta mánuði verður hún í Krónunni í Hafnarfirði. Við mæðgin kvöddum um tíu í gærkvöldi. Oddur keyrði til baka og hleypti bróður sínum út við bílinn hans rúmlega ellefu. Davíð Steinn varð nokkrum mínútum á undan okkur Oddi heim, fyrstur á salernið og fór svo beinustu leið í háttinn. Enda er hann um það bil að fara að leggja af stað á síðustu vakt þessarar helgar. 

8.6.24

Laugardagur

Þegar ég kom á fætur upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun var N1 sonurinn farinn á vakt og hinn sonurinn inni í stofu fölur og fár. Hann var kominn með sömu einkenni og fyrir fjórum árum þegar hann var greindur með þvagfærasýkingu. Verkirnir voru ekki orðnir eins slæmir en hann hringdi í 1717 og var sagt að leita á heilsugæsluna þegar opnaði. Hann var búinn að taka verkjatöflu, dreif sig í sturtu en klukkan var að verða hálfníu þegar hann rölti yfir í Skógarhlíð. Örlítið lengra að labba heldur en mörg undanfarin ár en það eru komnir nokkrir mánuðir síðar heilsugæsla Hlíða flutti þangað úr Drápuhlíðinni. Rúmum klukkutíma seinna hringdi hann í mig. Var á leiðinni heim en spurði hvort ég gæti skutlast með hann í Lyfjaver. Þar leysti hann út sýkla og verkjalyf. Ef þetta verður ekki orðið betra á morgun, sunnudag, á hann að leysa út sveppapillu og ef þetta versnar á hann að leita á bráðamóttökuna. Hann hafði skilið eftir sig sýnishorn á heilsugæslunni sem verður sent í ræktun. Það fór því þannig að ég fór ekki í sund fyrr en um hálfþrjú. Synti 400m, fór 4x4mínútur í kalda, 15 mínútur í gufu og tíu mínútur í sjópottinn. Eftir sundið fékk ég þá skyndihugdettu að koma við á Saffran í Faxafeni og bjóða mér upp á bleikjurétt. Fyrrum samstarfskona mín og vinkona hafði samband með þær fréttir að hún er búin að fá sumarvinnu í Seðlaverinu og byrjar þar strax eftir helgi. Við munum því vinna saman í amk 2 mánuði eftir að ég kem úr sumarfríi. Það vantaði annars aðeins örlítið upp á að Bríet kláraði verklega sveinsprófið. Hún mun rúlla því upp í haust. Engu að síður ætlum við að fagna með henni á Hellu seinni partinn í dag og kvöld ásamt nokkrum nánustu vinum og fjölskyldu. Vonandi verður Oddur nógu hress til að skreppa þetta. Davíð Steinn kemur í seinna fallinu en hann sleppur sennilega ekki úr vinnu fyrr en um fimm leytið, fær afleysingu síðustu rúmu tvo tímana.

7.6.24

Göngutúr á bókasafnið

Svaf aðeins lengur fram á morguninn í gær heldur en ég hef verið að gera marga aðra daga í sumarfríinu. Var þó komin á fætur um níu leytið. Þetta ruglaði aðeins upp óskipulagða skipulaginu hjá mér og dagurinn varð allt öðruvísi heldur en ég hafði ímyndað mér. Ég "datt" líka í að hámhorfa á íslensku þáttaröðina "Vitjanir" úr sarpinum af RÚV. Var búin að horfa á fyrstu þrjá eða fjóra af átta og horfði á restina í gær. Fór ekkert í sund en ég prófaði nýju strigaskóna og skrapp labbandi í borgarbókasafnið í Kringlunni til að skila þremur bókum sem ég var búin að vera með í 30 daga. Kláraði að lesa síðustu bókina í fyrrakvöld. Fann fjórar bækur til að taka með mér heim. Hefðu reyndar alveg getað orðið sex eða fleiri en ég er með nóg af lesefni heima og ég vildi heldur ekki burðast með of þungan poka. Kom þó einnig við í Söstrene Grene og keypti átta dokkur af bómullargarni. Lítið af deginum fór í það sem helst ekki á að skrifa um en ég prjónaði, las, horfði á þætti og náði skrefamarkmiðunum. 

6.6.24

Sumarfríið hálfnað

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun en gerði bara gott úr því. Klæddi mig og bjó um á sjöunda tímanum. Fékk mér sítrónuvatn, tannburstaði mig og settist svo um stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um níu leytið greip ég aðeins í prjónana til að liðka mig upp fyrir æfingarnar. Kveikti á sjónvarpinu á meðan ég var að ákveða hver yrðu svo næstu skref. Um hálftíu hafði samband smiður sem er á vegum fagmenn.is. Hann kom í hádeginu til að taka út verkefnið. Hann ætlar svo að senda mér tilboð fljótlega. Ég var komin í sund rétt fyrir tvö. Hitti aðeins á kalda potts vinkonu mína og dóttur hennar, náðum einni ferð í þann kalda saman áður en þær fóru í "diskinn". Ég synti annars 500 metra og fór þrjár aðrar ferðir í þann kalda. Sleppti gufunni og heitasta pottinum en fór í hina hringpottana og 15 mínútur í sjópottinn. Áður en ég fór heim eftir sundið lagði ég leið mína í "Fætur toga" og keypti mér nýja strigaskó. 

5.6.24

Morgunhæna

Í gærmorgun fór ég á fætur á svipuðum tíma og á mánudagsmorguninn. Morguninn var þó ekki alveg nákvæmlega eins. Setti ekki í þvottavél né sótti þvottinn. Skrapp yfir til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu og stoppaði í rúma klukkustund. Renndi með bílinn í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð áður en ég skrapp heim aftur. Stoppaði heima í um klukkustund áður en ég dreif mig í sund. Í anddyrinu á Laugardalslaugarbyggingunni kastaði Rangæingur á mig kveðju og ég staldraði aðeins við til að spjalla við hann. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið skömmu síðar. Ég synti 300 metra og hún beið eftir mér í sjópottinum á meðan. Fórum þrisvar sinnum þrjár mínútur í þann kalda, ég fór einu sinni í heitasta pottinn, einu sinni í nuddpottinn og eftir 20 mínútur í gufu og tíu mínútur í sjópottinum skrapp ég í þann kalda í eina mínútu áður en ég fór upp úr. Hringdi í Odd áður en ég lagði af stað í burtu. Ég var á leið í búð og spurði hvort hann þyrfti líka að versla. Svo reyndist vera svo ég kippti honum með í leiðinni. Var tæpt korter að komast til hans því bæði var umferðin að þyngjast og einnig framkvæmdir í gangi og lokað akkúrat þar sem ég er vön að fara um. Hringdi og spjallaði við pabba á leiðinni. Oddi var sama í hvaða Krónu við færum og ég ákvað að fara vestur í bæ. Keypti ekkert svo mikið en var nokkuð lengi að rölta um búðina hálf hissa á sjálfri mér að vera ekki alveg með það á hreinu hvað ég ætlaði að versla. Var semsagt ekki með neinn sérstakan lista en held ekki að ég hafi gleymt neinu né verslað neinn óþarfa. 

4.6.24

Snúningar í bland við rólegheit

Rumskaði um svipað leyti og N1 sonurinn var að fara af stað í vinnu í gærmorgun. Fór þó ekki alveg strax á fætur en mjög fljótlega. Var mjög óákveðin hvernig ég ætti að haga deginum en eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér sopa af þorskalýsi og settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Sendi skilaboð á kalda potts vinkonu mína sem sagðist myndu verða í sundi um tvö. Vafraði á netinu í rúman klukkutíma áður en ég tók til við fyrstu æfingalotu dagsins. Eftir þá lotu setti ég í eina þvottavél og kveikti svo á sjónvarpinu og horfði á einn þátt af 911. Datt ekkert í hug að fitja upp á prjóna eða ná í bók inn í herbergi. Um ellefu leytið bjó ég mér til hafragraut. Gerði tvöfaldan skammt og setti annan skammtinn í ílát inn í ísskáp. Um hálfeitt var ég búin að hengja upp á snúrur þá tók ég sunddótið með mér út úr húsi. Kom fyrst við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og nætursaltaða ýsu í soðið. Næst lá leiðin í bankann þar sem ég fékk hjálp við að setja upp RSA-appið svo ég geti nú greitt reikninga eða millifært úr fyrirtækjabankanum þegar þörf er á og þurfi ekki að nota gamla símann í það. Var byrjuð að synda rétt fyrir hálftvö. Synti 500 metra á tæpum 25 mínútum. Þá var kalda potts vinkonan mætt á svæðið. Við fórum alls fjórar ferðir í þann kalda, ég komst tvær ferðir í heitasta, sátum um fimmtán mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Fórum upp úr á svipuðum tíma, ég þvoði mér um hárið og fór heim hún þurfti að skreppa aftur í vinnuna/skólann. Um hálfsjö bauð ég Oddi með mér upp á nætursaltaða ýsu með soðnum kartöflum. Hann sá því um að ganga frá eftir matinn. 

3.6.24

Heima

Það sem maður verður latur ef ákveðin svefnrútína skolast eitthvað til. Var komin á fætur fyrir níu og settist næstum beint við tölvuna. Dagurinn var rólegur. Pabbi skrapp í búðina eftir rófu um hálfellefu og bauð aftur upp á grásleppu í hádeginu. Ég lagði helling af köplum og horfði á þætti. Hins vegar gerði ég engar markvissar æfingar né fitjaði upp á nýju prjónaverkefni. Tók mig upp og kvaddi pabba um hálfníu leytið í gærkvöldi. Fékk stæði fyrir framan no 7 í götunni og dobblaði syni mína til að koma út og hjálpa mér inn með farangurinn. 

2.6.24

Sunnudagur

Var tiltölulega snemma á fótum í gærmorgun eða um hálfátta leytið. Vaknaði aðeins fyrr en það en tók minn tíma í að koma mér fram úr og klæða mig. Kveikti á tölvunni á leiðinni í að sinna morgunverkunum á baðherberginu. Um hálftíu settist ég inn í stofu og greip í prjónana í smá stund áður en ég tók til við fyrstu æfingalotu dagsins. Dagurinn fór í alls konar innistúss. Var alltaf með það á bak við eyrað að skreppa aðeins út. Pabbi skrapp á kjörstað fyrir klukkan ellefu. Hann bauð svo upp á grásleppu með kartöflum og rófum í hádeginu. Unga fólkið kom aðeins við að sækja dót. Ein tuska "datt" af prjónunum, kaplar voru lagðir og horft á þætti. Vakti yfir kosningasjónvarpi til klukkan langt gengin í tvö, aðeins lengur en pabbi. Las í uþb hálftíma áður en ég fór loksins að sofa. 

1.6.24

Kjördagur

Ég var síðust á fætur í gærmorgun þótt ég væri komin á stjá milli klukkan sjö og hálfátta. Pabbi var farinn í sund rétt fyrir klukkan hálfsjö og ég heyrði í unga fólkinu drífa sig í undirbúning og vinnu stuttu fyrir sjö. Hann á Selfoss og hún Hvolsvöll. Það fyrsta sem ég gerði, þegar ég kom fram, var að kveikja á tölvunni. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég svo fyrir framan skjáinn og var þar næsta klukkutímann eða svo. Pabbi kom úr sundi um hálfníu leytið. Þá var ég komin með prjónana í hendurnar að mýkja mig upp fyrir fyrstu æfingalotu dagsins sem ég gerði skömmu síðar. Fyrst án lóða og svo með 1kg lóðunum. Morguninn leið annars frekar hratt við alls konar dundur og spjall við pabba. Hann bauð mér svo með sér á Kanslarann um hálftólf. Eftir matinn skruppum við í fiskbúðina þar sem hann keypti bleikju, grásleppu og fiskisnakk. Næst lá leiðin í búðina og fékk ég að stinga 1 líter af grískri jógúrt í körfuna hjá pabba. Eftir hádegisfréttir horfði hann með mér á síðustu þrjá þættina af "Grafin leyndarmál", nýjustu þáttaröðinni sem verið er að sýna á RÚV þessar vikurnar en er einnig í RÚV-sarpinum. Bjarki kom að sækja dót um hálfþrjú og Bríet klukkutíma síðar. Þau voru líklega á leið í sveitina hans en verða í leiguíbúðinni í bænum í næstu viku. Sveinsprófið þreytir Bríet í MK seinni part vikunnar. Um fjögur skiptum við pabbi yfir á beina útsendingu af landsleik kvenna í knattspyrnu, Austurríki - Ísland 1:1. Fékk mér gríska jógúrt og smakkaði pylsu sem Bríet hafði búið til um sjö. Eftir fréttir fylgdist ég með báðum hópum af "kappræðum" forsetaframbjóðendanna tólf.