Þar sem ég átti að byrja vinnu klukkan átta í gærmorgun ákvað ég að labba þangað. Tók m.a. aukabol með mér því ég vissi sem var að það myndi vera foss á bakinu á mér eftir gönguna. Um hálftíu var hringt í mig frá verkstæðinu í Brimborg og mér tjáð að búið væri að laga bílinn. Einhver mistök höfðu átt sér stað um daginn þegar skipt var um tímareimina þannig að þeir tóku þetta alfarið á sig. Það var mikill léttir að fá að vita að bilunin var þannig séð ekkert svo alvarleg og alls ekki mér að kenna. Þetta hefði örugglega geta farið miklu verr svo ég álít mig vera afar heppna.
Vinnudagurinn til klukkan fjögur var svolítið öðruvísi en vanalega en leið mjög hratt. Rétt rúmlega fjögur náði ég leið 6 frá Hörpu og fór út við Ártún. Fékk afhentan bíllykilinn hjá Ford-verkstæðisafgreiðslunni í Brimborg og brunaði beint heim. Heima stoppaði ég nú ekki lengi við því þrátt fyrir að kóræfingin sjálf hefði verið felld niður höfðum við kórfélagarnir ákveðið að hittast yfir kaffibolla og fara yfir ferðaáætlun saman. Það var góð ákvörðun og nauðsynleg. Gáfum okkur rúmlega einn og hálfan tíma í þessa yfirferð og kaffispjall.
Hafði tekið með mér sunddótið en þegar til kom fór ég í Krónuna við Nóatún því ég vissi að það vantaði m.a. brauð til heimilisins. Fór beint heim með vörurnar, gekk frá þeim og hélt mig heima við það sem eftir lifði kvölds. Horfði m.a. á handboltalandsleikinn og var mjög ánægð með strákana okkar. Það gekk einhvern veginn allt upp hjá þeim. Gæti það verið að tilkoma Ólafs Stefánssonar í þjálfarateymið hafi virkað eins og besta vítamínssprauta?