30.6.15

Síðasta færslan í þessum mánuði

Glaðvaknaði amk hálftíma áður en vekjarinn í gemsanum átti að fara í gang, rétt um sex í gærmorgun minnir mig.. Ákvað mjög fljótlega að afstilla/slökkva á vekjaranum og fara að sinna morgunverkunum. Þar sem sundferðir liggja niðri þessa vikuna notaði ég nýju græjurnar á baðherberginu sem eru orðnað hálfs árs. Hef verið mun duglegri við að drífa mig í sund heldur en að nota sturtuna heima. Morgunstundin varð drjúg. Ég kveikti á tölvu og setti inn færslu gærdagsins þegar ég var búin að fá mér eitthvað í gogginn og taka mig til fyrir vinnuna. Slökkti aftur á tölvunni eftir að hafa opinberað færsluna og stökk svo af stað í vinnuna, stystu leið, beint yfir Skólavörðuholtið. Þegar ég mætti í vinnuna varð ég að byrja á því að skipta um bol því það ég var rennblaut á bakinu.

Vinnudagurinn leið hratt að venju og teygðist aðeins yfir fjögur hjá mér. Ákvað því að láta það eftir mér að hringja á einkabílstjórann sem kom strax og sótti mig. Heima fór ég fljótlega að undirbúa kvöldmat og sumarsaumaklúbbshitting. Kvöldmaturinn var rabbarbaragrautur að upplagi en ég bætti nokkrum rifsberjum út í pottinn og þótti grauturinn góður.

Það var 100% mæting í saumaklúbbinn og auðvitað leið kvöldið alltof hratt. Tvær af okkur töldum út og ein var með prjónana sína. Að venju var mikið spjallað og hlegið en við ákváðum að láta það ráðast hvenær næsti saumaklúbbshittingur verður.

29.6.15

Árið að verða hálfnað

Vaknaði útsofin upp úr hálfátta í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og fram. Lokað var inn í til beggja bræðra enda alltof snemmt fyrir ungu mennina svona á sunnudagsmorgni. Ég notaði næstu tæpu tvo tíma til að vafra um á netinu, setja inn pistil og fleira. Þegar ég mætti upp í kirkju til að hita upp með kór og afleysingaorganista rétt fyrir tíu var fólk að byrja að safnast saman fyrir utan. Presturinn var ekki kominn og enginn með lykil, ekki einu sinni meðhjálparinn en hún á því ekki að venjast að vera komin á undan öðrum með lyklavöld á messudögum. Formaður KÓSÍ sem einnig er í stjórn óháðasafnaðarins kom á slaginu tíu og hún var með lykil. Kórinn byrjaði fljótlega að hita upp með Sólveigu Önnu sem hefur leyst Árna Heiðar einu sinni af áður. Sungum yfir alla fimm sálmana, einraddað, messusvörin með prestinum og "Mildu höndina" í röddum til að syngja í altarisgöngunni. Ég æfði altinn þar sem aðeins ein af þeim var mætt en við vorum þrjár í sópran. Þegar messan byrjaði klukkan ellefu mætti ein önnur úr altinum, kom inn aðaldyrameginn en kom sem betur fer og stillti sér upp með okkur. Á einum tímapunkti í messunni kom hópur af fólki frá Filippseyjum í skrautlegum og flottum búningum og sýndi okkur flottan dans um kristilega hátíð. Hluti af þeim kom svo aftur eftir að presturinn var búinn að segja nokkur orð og sýndi nokkru salsaspor. Í altarisgöngunni söng ég eitt erindi með altinum en seinni tvö með sópran. Eftir messu var hin árlega gúllassúpa borin fram, einungis 1000 krónur á manninn, 500 fyrir börn yngri en 12 ára og inni í verðinu voru ótakmarkaðar áfyllingar á meðan eitthvað var til.  Hitti eina konu sem ég er búin að þekka í um 17 ár, er systir tvíburamömmu sem ég kynntist þegar börnin okkar voru að verða tveggja. Systirin hafði séð auglýsinguna á Facebook-veggnum og fékk eina vinkonu með sér til að kynna sér gúllasmessu í óhóðu kirkjunni.

Oddur Smári var kominn fram þegar ég kom heim um eitt. Þremur tímum seinna bankaði ég upp á hjá hinum syninum til að láta hann vita að til væru vöfflur. Strákurinn reyndist ekki vera í herberginu sínu, hafði ekki komið heim um nóttina og ekki látið mig vita. Hann svaraði strax og ég hringdi í hann, hafði fundist of seint að láta mig vita þegar hann ákvað að fá að gista hjá vini og var svo kominn á fullt að hjálpa vininum við bílamál. Frekar óþægilegt að uppgötva tómt herbergi og hafa enga vitnesku um hvort ekki væri alveg allt í lagi. Ungi maðurinn kom ekki heim fyrr en um hálfsjö, rétt áður en ég trítlaði af stað á heimavöllinn til að fylgjast með Valur - ÍA 4:2 í Pepsídeild karla. Var annars með kjötbollur og sæta kartöflumús í kvöldmatinn.  Ár og dagur síðan ég útbjó kjötbollur síðast.

28.6.15

Á leið í gúllasguðsþjónustu

Gærdagurinn var tekinn með trompi. Var komin á fætur upp úr átta en eins og mig grunaði þá er komið að nokkurra daga sundfríi í bili, vonandi bara viku pása. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar stuttu fyrir ellefu og notuðum við þessa einu og hálfu klukkustund sem ég var hjá henni afar vel. Síðan lá leið mín í Krónuna við Granda þar sem ég heilsaði aðeins upp á Bjössa og verslaði smávegis inn. Kom heim rétt upp úr klukkan eitt. Bræðurnir voru ekki komnir framúr.

Rétt fyrir tvö trítlaði ég yfir á Vodafone-völlinn til að horfa á Valsstelpurnar taka á móti og keppa við stelpurnar í ÍBV. "Mínar" stelpur lentu tvisvar undir en náðu að jafna og skora sigurmarkið áður en flautað var til leiksloka, 3:2 fyrir heimaliðið.

Ég horfði heldur ekkert á imbann í gær en saumaði ekki neitt heldur. Stóð mig best í að sinna lestraráhugamálinu og lauk við eina bók af safninu og er þá búin að klára þrjár af þeim sjö sem ég fékk lánaðar fyrir rétt tæpum tveimur vikum. Ekki svo slæmur afrakstur en miðað við það að ég las bókina sem þarf að skila n.k. þriðjudag á um tveimur dögum þá er þetta ekkert sérstakur árangur. Reyndar lauk ég við að lesa eina bók úr bókaklúbbnum sem ég er í á þessu tímabili. Hjólabókina um 14 hringleiðir á Vestfjörðum skoðaði ég vel og las jafnt og þétt á viku.

27.6.15

Ekkert imbagláp í gær

Fór leiðina sem ég nota oftast þegar ég labbaði í vinnuna í gærmorgun. Ekkert óvænt kom upp í vinnunni en síðustu tvo tímana vorum við aðeins þrjú eftir, með nóg af verkefnum. Eftir síðdegiskaffipásu sem tekin var í seinna lagi ákvað ég að nýta síðasta hálftímann í að ryksuga vélina og blása skynjara. Við vorum tvær við þetta verk og á eftir gengum við frá deildinni, fylltum pappír á prentarana, læstum kortalagernum og gengum úr skugga um að allt væri snyrtilegt. Þrátt fyrir stóran kennispjaldabunka náði sá sem sér oftast um að skanna inn myndirnar að klára bunkann rétt fyrir fjögur. Mér tókst að komast úr vinnu tíu mínútum seinna, kannski ekki búin með allt sem er/var fyrirliggjandi en það sem ekki náðist að ljúka við má bíða næstu viku.

Þegar ég rölti af stað úr vinnunni hringdi ég í fyrrum kórsystur mína úr kirkjukórnum. Hún býr við Lindagötu og reyndist heimavið svo ég ákvað að koma við hjá henni. Stoppaði þar nokkra stund, þáði kaffi og við áttum gott spjall um ýmislegt. Klukkan var langt gengin í sex þegar ég skilaði mér heim. Oddur Smári hafði búið til kaffi stuttu áður og ég fékk mér einn bolla um leið og ég kom heim, þrátt fyrir að vera nýbúin að drekka tvo bolla í heimsókninni. Ég er svo mikið fyrir kaffið eitthvað  ;-)!

Slapp við að þurfa að hafa fyrir kvöldmat því hér var spilakvöld. Sinnti tölvu og þvottahúsmálum og skrapp svo aðeins í sund í Laugardalslaugina en það voru síðustu forvöð því ég verð forfölluð næstu vikuna eða svo. Þegar ég kom heim aftur settist ég um stund inn í stofu, með saumatöskuna og bók við hendina. Hringdi fyrst í einn frænda minn og greip svo til bókarinnar.  Ekkert varð úr saumaskap og ég kveikti heldur aldrei á sjónvarpinu. Hafði nú samt verið að spá í að horfa á "Hreimsins besti" og "Útsvars-framhaldsskóla" blönduna en það er hægt að nálgast þetta í sarpinum svo ég ákvað að nota afganginn af kvöldinu í netvafr og tölvuleiki.

26.6.15

Föstudagur

Í gærmorgun labbaði ég allt aðra leið í vinnuna heldur en ég labba oftast. Beygði til vinstri út á Lönguhlíð, eins og þegar ég geri þegar ég fer með strætó. Þveraði Klambratúnið á ská, gekk eftir Flókagötunni og fór upp hjá ÓB og Domus Medica og þaðan beint yfir holtið. Það var eins gott að ég tók auka bol með mér í bakpokanum því það var foss á bakinu á mér þegar ég mætti í vinnuna rétt fyrir átta. Við lentum í leiðinilegu veseni sem tafði okkur um amk tvo tíma og eyðilagði alltof mikið af plasti, en það var vegna þess að skráin sem á að keyrast til RB kom mun seinna heldur en keyrslan sem sendir hana af stað yfir á vélina.  Annars ætla ég ekkert að segja meira um þetta allt saman.

Eftir vinnu kom ég við í Sundhöllinni í fyrsta skipti í nokkrar vikur. Synti nokkrar ferðir en sennilega ekki nema 200-250 metra, skrapp í gufu og sat svo úti um stund þrátt fyrir að sólin væri að hverfa fyrir hornið á byggingunni.

25.6.15

Sól og sumar

Mikið varð ég hissa hvaða leið 13 varð að fara í gærmorgun og hvað það tók mig langan tíma að komast í vinnuna með strætó. Það er kominn sumartími og vagninn er að fara á hálftíma fresti. Korter yfr heila tímann er alltof fljótt fyrir mig nema ég labbi alla leiðina að heiman. Korter fyrir heila tímann á að vera nóg og það sem meira er ég ætti að vera mætt á vinnustaðinn einhverjum mínútum fyrr. Í gær gær tók vagnferðin um tuttugu mínútur. Það er kannski ekki hundrað í hættunni þótt maður mæti ekki alveg alltaf á slaginu, nú þegar hætt er að fylgjast með stimpilklukkunni. En í gær var ég búin að lofa því að leyfa þeirri sem er nýjust í starfi að æfa sig í bókhaldi og keyrslum og vera henni innan handar og það starf er gott að byrji á slaginu. Þetta bjargaðist nú allt saman, mér fannst þetta bara dálítið óþægilegt. Annars er ég lítið að nota strætó þessa dagana, fínt að fá sér göngutúr á morgnana nú eða byrja á því að fá sér sundsprett þá daga sem maður þarf hvort eð er að nota bílinn vegna annarra útréttinga sem reyndar kemur ekki svo oft fyrir.

Vinnudagurinn leið hratt og að venju í mörg horn að líta. Gærdagurinn var óvenjulegur að því leyti að búið var að boða okkur sem tök höfðum á á fund úti í bæ síðasta klukkutímann af vinnudeginum. Lögðum allt kapp á klára allt daglegt og gátum meira að segja sinn eitthvað af þeim aukaverkefnum sem bíða á vélinni áður en við pökkuðum saman og gengum frá. Einnig hjálpuðumst við þrjú að við myndnámið enda bunkinn óvenju stór.  Vorum búin að ganga frá nokkrum mínútum fyrir þrjú. Fundarstaðurinn var stutt frá Laugardalnum svo ég sá mér leik á borði að skreppa í sund upp úr klukkan fjögur því ég hafði verið svo forsjál að taka með mér sunddótið í vinnuna. Rétt áður en ég fór í klefann sá ég til þess að ég yrði sótt um fimm svo ég slyppi nú við að labba heim.

Kvöldið var svipað og undanfarin þrjú fjögur kvöld.

24.6.15

Líður á mánuðinn

Vó, hvað tíminn ferðast alltaf svo hratt. Ég reyni að nýta hann sem best og inn í því skipulagi geri ég ráð fyrir rólegum stundum. Ég er kannski fullróleg hvað heimilisþrif varðar, þ.e. þau eru oftast ekki inn á topp tíu listanum. Sem betur fer eru mun fleiri atriði en tíu á listanum og þetta kemst allt þarna fyrir, fær bara mismikið pláss í tilverunni.

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur rétt um sex og var mætt í Laugardalinn rétt fyrir hálfsjö, rétt áður en opnaði, svo ég var ein af þeim sem "hékk á húninum". Synti 400m, sat um stund í sjópottinum, skrapp í gufu og gaf mér líka tíma til að setjast niður útivið áður en ég fór upp úr og beint í vinnu. Já, ég var á lánsbílnum og hefði sennilega alveg haft tíma til að skjótast heim með sunddótið. En mér fannst líka ágætt að vera mætt aðeins fyrir átta og byrja að undirbúa daginn. Sem fyrr var í nógu að snúast. Settumst samt örstutt niður um hálftvö til að taka stöðuna, spjalla og forgangsraða. Ég var búin að steingleyma því að yfirmaðurinn og mannauðsstjórinn væru á leiðinni til að fara yfir niðurstöður könnunar sem gerð var í vor. Þær mættu um þrjú og fundurinn stóð yfir í rúman klukkutíma. Þá tók ég að mér að ljúka við smá frágangi á deildinni.

Á heimleiðinni kom ég við hjá skóaranum í Kringlunni til að athuga hvort hann gæti lagfært gönguskóna og undirbúið fyrir næsta vetur og eða toppatrítl. Mér var bent á að fara með skóna til skósmiðs sem er á Grettisgötunni og það mun ég gera fljótlega. Kom heim rétt upp úr fimm og byrjaði næstum strax á að undirbúa kvöldmatinn sem var tilbúinn um sex leytið.

Tilvonandi rafeindavirki sem var kominn með vinnu þar sem fagið nýttist honum í byrjun mánaðarins er kominn með aðra vinnu þar sem hann þarf ekki bílpróf við. Hann ætlar að auka á reynslu sína og vinna fyrir kaupmanninn á horninu, í Sunnubúð amk í sumar og þá kannski eitthvað með skólanum ef hann má og hefur tök á. Ég held að hann sé að hugsa um að leita leiða til að verða sér úti um bílpróf á næstu misserum. En fyrsti vinnudagurinn á nýja staðnum var milli fimm og tíu í gær.

Kvöldið notaði ég í útsaum, netvafr og imbagláp.

23.6.15

Umferðin á "Halló Helluvað" 31. maí sl.


Myndin er tekin rétt um eitt.  Bíll við bíl við bíl, enda mættu líklega um 1000 manns.

Yngri systurdóttir mín ellefu ára í dag

Ég fór gangandi í vinnuna á áttunda tímanum í gærmorgun, undirbúin undir það að koma kannski við í Sundhöllinni á heimleiðinni. Samkvæmt skipulagi átti ég fyrstu vakt á ítroðsluendann á vélinni og var eiginlega fegin því. Það gekk allt nokkuð vel framan af en um leið og byrja átti að setja framleiðsluna á form, hvað þá í umslög þá voru nýji prentarinn og umslagavélin með smá uppsteit. Það tók smá tíma, en tókst sem betur fer, að koma þessu af stað á endanum. Ekki tókst að hafa hefðbundinn mánudagsfund, framleiðsla, frágangur, og fleira nauðsynlegt var látið ganga fyrir. Klukkan varð fjögur fyrr en varði en þá átti ég smávegis ógert sem ekki var hægt að láta bíða.  

Klukkan var orðin hálffimm þegar ég gat lagt af stað heim. Þá var letin orðin svo mikil að ég nennti hvorki að labba heim, hvað þá skreppa í sund eða bíða eftir næsta strætó. Ég brá því á það ráð að hringja í einkabílstjórann minn og biðja hann um að renna eftir mér. Það var kannski eins ágætt því bræðurnir voru á leið á spilakvöld upp úr sex en ég hafði tíma til að græja kvöldmatinn og þeir að borða áður. Lánaði þeim lánsbílinn yfir í Hafnarfjörð en hafði það sjálf notalegt hér heima. Hringdi í vinkonur, straujaði skyrtu af öðrum stráknum og pressaði ný og nýleg útsaums verk. Saumaði út, glápti á imbann (Dicte og Flashpoint), samdi og birti texta um næstu messu á heimahöfn sem og vegg óháða safnaðarins á skjáskræðunni og náði líka að lesa áður en ég fór í háttinn á tólfta tímanum. Vel gert!

22.6.15

Bókamerkin mín!


Ný vinnuvika

Vissi fyrst af mér alltof snemma eða um klukkan 04:34 í gærmorgun. Sem betur fer náði ég að gleyma mér aftur í smá stund. Rétt fyrir sex ákvað ég að lesa smávegis og hálftíma síðar náði ég að bæla mig niður aftur í rúma klukkustund.  Ég var þó ekki að lesa neinn leiðinlegan texta. Þrátt fyrir að vera komin á fætur upp úr átta var klukkan langt gengin í tíu áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Synti 300, skrapp í gufu og sat svo úti í góða stund.

Á heimleiðinni kom ég við í Krónunni við Nóatún. Um tvö fékk ég þá hugmynd að athuga hvort ein nafna mín og frænka væri heima. Sló á þráðinn til hennar og fékk jákvæð viðbrögð við hugmyndinni. Tók saumadótið mitt með því sólin og góða veðrið var óspart notað. Stoppaði í eitthvað á annan tíma áður en ég dreif mig heim aftur og fór að undirbúa mig undir að mæta á völlinn, Valur - ÍBV 1:1.  Glatað að tapa þessum stigum en sem betur fer var þó eitt stig á hvort lið fyrir jafnteflið.

21.6.15

Sumarsólstöður

Ég varð svolítið hissa þegar ég vaknaði og leit á klukkuna í gærmorgun. Mig rámaði reyndar í það að ég rumskaði fyrst um sex en þarna var klukkan orðin hálfníu. Þótt ég hafi ætlað að vera komin í laugina á þessum tímapunkti gaf ég mér fyrst tíma til að skipta um á rúminu, setja í þvottavél og fá mér eitthvað að borða áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Þrjár mínútur fyrir tíu var ég að byrja að synda. Valdi mér bringusundsbraut sem engin var á það augnablikið. Eftir fyrstu 50 metrana varð ég vör við að það kom ein kona á bakinu í kjölfarið svo ég gaf í og ég held að ég hafi aldrei verið jafn fljót að synda 400 metrana. Góð áreynsla það. Skrapp svo í sjópottinn um stund áður en ég fór upp úr og heim aftur.

Oddur Smári vaknaði rétt fyrir tólf og hélt að ég væri farin af stað austur án þeirra bræðra. Ég vakti Davíð Stein korteri seinna til að tilkynna honum að við myndum leggja í hann um eitt. Það gaf mér líka smá tíma til að ganga frá þvotthúsmálunum. Einkabílstjórinn fékk að keyra austur. Eftir kaffi fóru strákarnir út og ryksuguðu og þrifu lánsbílinn að innan. Þeir fóru saman út en annar þeirra kom inn áður en þeir voru búnir. Báðir voru þeir líklega frekar þreyttir en sá sem varð eftir úti lauk verkinu einn. Ég var með bækur og saumana mína með mér og gaf mér tíma til að lesa og sauma aðeins út. Hjálpaði svo mömmu að útbúa kvöldmatinn, blómkálssúpu með sveppum og tvær pizzur með allskonar á tvo tilbúna botna.  Þetta mæltist mjög vel fyrir hjá öllum. Klukkan var að verða tíu þegar við mægðin kvöddum loksins og drifum okkur heim. Að þessu sinni keyrði ég. Komum heim á tólfta tímanum og ég fór fljótlega í rúmið og las um stund.

20.6.15

Dagarnir á þeysispretti

Rétt upp úr sjö í gærmorgun lagði ég af stað gangandi í vinnuna. Fór stystu leið, nokkurn veginn beint yfir Skólavörðuholtið. Þetta tók mig um það bil tuttugu og fimm mínútur og var ég mætt, fyrst af minni deild til að undirbúa og reyna að flýta fyrir. Til stóð að reyna að ljúka daglegri framleiðslu og frágangi upp úr hádegi til að geta farið aðeins fyrr í tilefni dagsins. Dagurinn fór þó aðeins öðruvísi en til stóð en engu að síður gat ég leyft flestum að fara upp úr klukkan hálfþrjú. Þá vorum við tvö eftir, ég og sá sem hefur séð um að skanna inn kennispjöldin undanfarna mánuði. Ég vissi að hann hafði hug á því að ljúka dagsverkinu og ég gat einnig notað tímann til að sinna ýmsum málum. Við skruppum í smá kaffipásu rétt fyrir þrjú og hann náði að klára skannið áður en klukkan varð fjögur. Ég sótti myndnámsbunkann en sá sem sér um að skanna hefur ekki aðgang að kerfinu sem nota þarf til að sækja bunkann, kannski vegna þess að hann er bara ráðinn tímabundið en þegar ég fer að hugsa út í það þá man ég ekki til þess að það hafi komið til tals hvort það mætti sækja um aðgang fyrir hann. Þetta þarf ég að athuga betur.

Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég hætti loks að vinna og fór. Var eitthvað að spá í að koma við þar sem hátíðahöldin vegna dagsins voru haldin en ekkert varð úr því, labbaði bara lengri leið heim, þ.e. Lækjargötuna, meðfram tjörninni og hægra meginn við Skólavörðuhæðina (úr miðbænum séð). Hringdi eitt símtal á leiðinni til einnar sem ég hef ekki hitt eða heyrt í um nokkurt skeið þar sem ég mundi skyndilega að mamma hennar átti afmæli í gær. En reyndar kemur fyrir að ég hringi án þess að tilefnið sé neitt annað en að heyra aðeins hljóðið í þessari konum sem ég hitti mjög reglulega á virkum dögum í næstum fimmtán ár. Þegar heim kom hringdi ég austur og talaði aðeins við pabba minn.

Það var spilakvöld hér en Davíð Steinn sem stundum er með þeim hóp var búinn að ákveða að skreppa til pabba síns og ég gaf grænt ljós á að Oddur mætti skutla bróður sínum. Spilafélagarnir voru mætti og Oddur fékk það hlutverk að sækja tvennutilboð handa hópnum í leiðinni, það var hans hlutur í púkkið. Mér var svo boðið á fá mér að borða með þeim og þáði ég eina litla sneið þótt ég væri búin að borða afganginn af lifrarréttinum frá því á fimmtudagskvöldið. Ekkert varð um útsaum hjá mér í gærkvöldi, bara lestur, imbagláp og netvafr.

19.6.15

Aftur komin helgi

Þar sem ég var glaðvöknuð um sex leytið í gærmorgun ákvað ég að skella mér í smá morgunsund. Mig minnti endilega að laugin opnaði ca korter fyrir sjö og mætti því í Laugardalinn rétt fyrir sjö. Opnunartíminn á virkum dögum er víst frá klukkan hálfsjö.  Ég náði nú samt að synda 300 metra og skreppa í smá gufu áður en ég fór upp úr. Var meira að segja mætt í vinnuna korter fyrir átta og hefði sennilega getað rennt við heima með sunddótið.

Vinnudagurinn í gær var svolítið öðruvísi og hvað mig varðar lengdist hann aðeins í hina áttina líka því klukkan var að verða hálffimm þegar ég hætti. Fór beint heim og ég gerði mér ýmislegt til dundurs fyrir utan eldhús og þvottahússtörf.  Las, vafraði um á netinu, saumaði út og horfði á imbann.

18.6.15

Smávegis um gærdaginn

Ég tók að mér fyrstu vakt og yfirsetu vegna uppfærslu og framleiðsluvélinni. Verið var að skipta út prentara og umslagavél. Maðurinn sem sér um þetta kemur frá Spáni. Hann byrjaði á þessu verki upp úr hádegi á þriðjudag og er einungis á landinu fram á laugardag. Gærdagurinn fyrir honum var bara venjulegur miðvikudagur. Ég var mætt rétt fyrir níu og Spánverjinn og íslenskur viðgerðarmaður komu rétt upp úr níu.  Yfirsetan var tiltölulega auðveld og tveir tímar fljótir að líða en ég var leyst af um ellefu.

Þá lá leið mín vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar þar sem ég var í tæpa tvo tíma. Við komumst í gang með esperantolestur og vorum bara nokkuð duglegar. Oddur Smári fékk svo lánaðan bílinn fljótlega eftir að ég kom heim. Hann fór á spilakvöld í heimahús í Kópavogi í nokkra tíma, spilakvöld með nokkrum úr Hlíðaskólaárgangi ´96 og tveimur auka. Davíð Steinn fór ekki með í þetta sinn.

Lauk við að lesa Stellu Blómkvist reyfarann og byrjaði á nýlegri bók eftir stúlku sem var um tíma í KÓSÍ, Leið eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga en hún hefur áður gefið út ljóðabækur, greinar og fleira. Ég varð stórhrifin af þessari, hún lætur ekki mikið yfir sér en greip mig fljótt heljartökum.

Hafði til kvöldmat fyrir sex. Oddur kom heim um svipað leyti og þeir bræður voru svo með spilakvöld hér heima. Ég hafði stofuna útaf fyrir mig, las, saumaði út og horfði á imbann.

17.6.15

Þjóðhátíðardagurinn

Í gær hafði ég tekið að mér að vinna eitthvað fram á kvöld en þurfti í staðinn ekki að mæta til vinnu fyrr en upp úr hádegi. Ég nýtti morguninn afar vel að eigin mati. Fór ekki fram úr fyrr en á áttunda tímanum og svo tók það mig rúma klukkustund að koma mér út úr húsi og í sund í fyrsta skipti í tvær vikur. Var pínu óörugg um hvort ég væri að gera rétt og hvort þetta mundi verða til þess að hálsbólgan blossaði upp aftur en mikið var þetta hressandi og gott. Synti ekki nema 250 metra, skrapp í sjópottinn og gufuna og fór svo næstum því beint inn í klefa aftur. Settist aðeins örstutta stund niður áður eða í tæpar fimm mínútur.

Eftir sundferðina fór ég beint á bókasafnið í Kringlunni. Skilaði öllum fimm bókunum sem ég tók í síðasta mánuði og fór heim með sjö aðrar í staðinn.  Ein af þeim er ný, með tveggja vikna skilafrest, Morðin í Skálholti um Stellu Blómkvist sögð skrifuð af Stellu Blómkvist sem er dulnefni einn eða fleiri höfunda. Þetta er áttunda bókin um Stellu og hún er jafn grípandi, spennandi og skemmtileg og hinar. Einnig rataði í bókapokann Hjólabókin, Dagleiðir í hring á hjóli. 1. bók: Vestfirðir eftir Ómar Smára Kristinsson sem ég hef þekkt í vel yfir 30 ár.

Einkabílstjórinn skutlaði mér í vinnuna upp úr tólf, þ.e. ég var mætt um hálfeitt í vinnu. Þegar til kom þurfti ég bara að vera til rúmlega sex. Það var nóg að gera en um miðjan dag fékk ég áminningu um heimaleik Vals í Pepsídeild kvenna svo ég ákvað að biðja Odd um að sækja mig aftur um hálfsjö. Náði að fá mér smá snarl áður en ég labbaði á leikinn sem ekki fór nú vel fyrir mínar stelpur töpuðu 0:6 fyrir Breiðabliki sem nota bene er spáð titlinum í ár og hefur ekki tapað leik á tímabilinu en þó gert eitt jafntefli. "Stelpurnar mínar" eru búnar að vinna 3 leiki og tapa þremur.

16.6.15

Í sund og á safnið

Veðrið var svo ljómandi gott  til göngu í gærmorgun að ég fór á tveimur jafnfljótum, sennilega aðeins of snemma af stað. Labbaði stystu leið yfir Skólavörðuholtið og var mætt korteri fyrr en ég þurfti. Það var nú kannski eins gott því ég þurfti að byrja á að sinna máli sem kemur stundum upp á. Um átta kom stúlka úr K2 í starfskynningu og hafði ég hana með mér á vélina. Ég náði ekki að ljúka við málið sem ég þurfti að byrja á en var svo heppin að geta komið því af mér á aðra í deildinni sem er reyndar alls ekki vön að kljást við svona mál. Hún stóð sig samt og náði að klára þetta með aðstoð annars starfsfélaga okkar úr K2. Við héldum vélinni gangandi alveg til klukkan eitt, þurftum að skipta okkur bæði í kaffi og mat. Eftir morgunkaffið bað ég þann sem sér um myndnámið sína þeirri sem var í starfskynningu hvernig við förum að. Sú sem var í kynningunni gat einnig fylgst með öðrum daglegum störfum en hún þurfti svo að fara upp úr tólf. Klukkan var að verða hálftvö þegar við gátum sest niður á vikulega mánudagsfund. Rétt seinna kom yfirmaður okkar því framundan eru öðruvísi og kaflaskiptir dagar og það skiptir máli að skipuleggja þá vel og að hún sé inni í þeirri skipulagningu og þeim ákvörðunum.

Einkabílstjórinn sótti mig um fjögur og við skruppum í Krónuna við Granda áður en við fórum aftur heim. Ég lét svo bræðurnar um að taka til kvöldmat handa sér því ég dreif mig út rétt fyrir sex til að geta tekið þátt í hreinsunarstörfum fyrir utan óháðu kirkjuna.  Nokkrir voru þegar mættir og byrjaðir. Rétt á eftir mér mætti ein sem er komin í pásu frá stjórnarstörfum og ég var svo heppin að hún gat lánað mér hanska og auka hrífu til að klóra upp arfa, gras og fífla upp úr beðunum.  Upp úr hálfátta var tekin matarpása en við héldum svo smá stund áfram.  Ég hætti um níu og horfði á Dicte og CSI- cyber áður en ég skreið upp í og las um stund í næst-nýjustu bókaklúbbsbókinni.

15.6.15

Garðsnyrting við kirkjuna

Ég svaf alla aðfaranótt sunnudags án þess að rumska eða fá hóstakast.  Fór fyrst framúr og inn á bað rétt rúmlega átta í gærmorgun. Þegar ég heyrði að pabbi var kominn fram í eldhús rétt fyrir níu dreif ég mig á fætur enda var ég glaðvöknuð og hafði notað hálftíma til að lesa. Þegar við feðgin höfðum fengið okkur morgunverð og gengið frá eftir okkur settumst við bæði inn í stofu, ég með saumana mína og pabbi með krossgátur. Ég tók fyrst fram "Lost nomore" myndina og saumað með 2x 2 þráðum, hvor sinn liturinn í nokkra fleti í síðustu trjákrónunni sem ekki er lokið enn. Þetta er spurning um að grípa reglulega í þetta verkefni svo það fari nú að sjá fyrir endann á því. Lauk við að sauma bæði bókamerkin og á ég nú bara eftir að pressa þau en ég er enn að ákveða hvort ég set eitthvað á bakhliðina. Líklega mun ég sleppa því svo þau verði ekki of þykk.

Upphaflega ætlaði ég að drífa mig í bæinn fljótlega upp úr hádeginu á sunnudeginum en það endaði með því að ég fór ekki heim fyrr en upp úr klukkan átta eftir að hafa þegið bæði kaffiveitingar í kaffitímanum og grillveiteingar í kvöldmatnum sem og horft á karlalandsliðið vinna topp sætið í sínum undanriðli fyrir EM-2016.  Strákarnir höfðu skilað sér heim úr bústaðnum um miðjan dag.

14.6.15

ÓLE...

Það var sennilega heldur of stórt tapið úti hjá handboltastelpunum okkar til að vinna upp hér heima og þrátt fyrir að Florentína væri með mun betri vörslu en stalla hennar hjá andstæðingunum þá var niðurstaðan jafntefli.

Davíð Steinn var nokkuð snemma á fótum í gærmorgun miðað við hvaða dagur var. Stuttu eftir að ég fór til norsku esperanto vinkonu minnar fóru bræðurnir og sjö aðrir strákar úr ´96 árganingum úr Hlíðaskóla í smá verslunarleiðangur og svo út úr borginni og í sumarbústað e-s staðar í Grímsnesinu.Við Inger gerðum allt annað heldur en að einbeita okkur að esperanto en ákváðum að sinna því miklu betur í næsta hittingi. Á leiðinni til baka stakk ég pósti frá fyrrum leigjanda í risinu inn um lúguna á þeim stað sem hann býr núna. Heima gekk ég einn hring, lokaði gluggum, tók farangur fyrir amk eina nótt, skellti millihurðinni í lás og brunaði alla leið austur á Hellu.

Var mætt í foreldrahús um hálfþrjú og átti afar góðan dag og gott kvöld með þeim. Við pabbi spjölluðum mikið saman, mamma heldur þreyttari en hún ákvað samt að sjá um kvöldmatinn og bauð upp á hvítvín með matnum. Pabbi vildi heldur opna rauðvínsflösku sem hann fékk í afmælisgjöf sl. haust frá nágrannanum og af því að mamma vildi bara rétt smakka á vínunum með matnum endaði það með því að við feðginin kláruðum hvort sína flöskuna, en það tók okkur þó á þriðja tíma. Pabbi bauð mér svo að skola munninn upp úr whiský fyrir svefninn og það varð til þess að ég slapp við að hósta í nótt.  Það er samt ennþá smá kláði og þurrkur í hálsinum sem nær enn lengra ofan í. Þótt ég hafi ekki hóstað neitt að ráði í dag fer þetta alveg að vera spurning um að láta kíkja á sig.

13.6.15

Út úr borginni

Óle, óle, óle, óle... Já, þetta var sætur á Tékkum. Við ættum alveg að fara að trúa því að við séum komin með hörkugott karlalandslið í knattpyrnu.  Það var mjög gaman að fylgjast með spilamennskunni og svo hvernig hún breyttist eftir að Tékkar komust yfir. Þá kom meiri ákveðni. Trúin á að þeir gætu klárað þetta verkefni var alltaf til staðar en það var samt ákveðin varfærni í spilamennsku beggja þjóða framan af leik.

Annars var dagurinn alveg ágætur í alla staði. Strákarnir höfðu lagt lánsbílnum fyrir aftan heilsugæsluna þegar þeir komu frá pabba sínum í fyrrakvöld og þegar ég uppgötvaði það var of seint fyrir mig að færa bílinn í stæði í götunni og ná strætó svo ég fór á bílnum í vinnuna.  Að þessu sinni var ekkert um framleiðslustopp, heldur náðum við bæði að klára daglega framleiðslu og afganginn af endurnýjuninni sem var í gangi nokkru áður en klukkan varð fjögur.  Ég þurfti að vera örlítið lengur því það kom einn kerfisfræðingur í heimsókn með verkefni sem ég varð að hjálpa til við. Það var nú lítið mál, þessi kerfisfræðingur er ekki svo ósjaldan búinn að koma deildinni minni til hjálpar fyrir utan það að þetta verkefni tengdist deildinni beint.

Fór beint heim eftir vinnu, kveikti á tölvunni en á sjötta tímanum settist ég með saumana mína inn í stofu.  Davíð Steinn sá um að elda kvöldmatinn og fór svo í sund eftir mat.  Tveir og einum spilahóps Odds, sem Davíð Steinn er líka stundum í, komu og voru þeir þrír að spila rétt fram yfir miðnætti.

12.6.15

Landsleikjaspenningur

Mikið er nú gott að þessi vinnuvika er búin. Fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun og var að vona að dagurinn gengi nokkurn veginn smurt fyrir sig. Það byrjaði alveg ágætlega en svo lentum við í smá brasi, töpuðum smá tíma og það endaði með því að ég ákvað að allt daglegt og frágangur yrði látið ganga fyrir og það sem var auka varð að bíða.  Það tókst að klára daglegu verkefnin aðeins fyrir fjögur og ég fór beint heim upp úr klukkan fjögur. Strákarnir ætluðu til pabba síns og ég lánaði þeim bílinni þegar ákveðinn brottfarartími þeirra rann upp.  Ég hafði það ágætt heima og gerði lítið sem ekki neitt nema vafra um á netinu, glápa á imbann og lesa smávegis. Heyrði reyndar aðeins í mömmu og tvivar í norsku esperanto vinkonu minni. Ég hringdi fyrst í mömmu og svo þá síðar nefndu og svo hringdi Inger aftur í mig nokkru seinna.

11.6.15

Saumaklúbbur

Fór með strætó í vinnuna í gærmorgun og var mætt rétt fyrir átta. Það var í mörg horn að líta í vinnunni að venju og dagurinn leið hratt. Fékk Odd til að sækja mig upp úr fjögur og við fórum beint heim til að undirbúa saumaklúbbsmóttöku um kvöldið. Bræðurnir lögðu sitt af mörkum svo ég slapp tiltölulega vel.  Ég hlakkaði mikið til að fá hina fiskana til mín og þær mættu með ca tuttugu mínútuna millibili um átta leytið.  Áður en tvíburahálfsystir mín mætti bankaði nágranni minn á neðri hæðinni upp á.  Við vorum búin að taka ákvörðun um að kaupa garðsláttuvél fyrir húsfélagið og hann var að afhenda mér reikning og nótu.

Það var kátt á hjalla í saumaklúbbnum.  Mikið spjallað, aðeins minna saumað eða prjónað en þó eitthvað. Við vorum ekki búnar að hittast allar saman síðan um miðjan mars. Kvöldið leið alltof, alltof fljótt því áður en við vissum af var klukkan að byrja að ganga tólf. Næsti saumaklúbbshittingur var ekki fastákveðinn en við ætlum helst ekki að láta líðan of langan tíma þar til næst. Ég virðist vera komin í ágætis útsaumsgír aftur og mun væntanlega nota mér það eitthvað á næstunni, ein og með öðrum.

10.6.15

Engin sundferð í rúma viku :-/

Enn er ég að glíma við smá hálsbólgu, hósta og hæsi en er bara nokkuð hress að öðru leyti. Strætó er kominn á sumartímaáætlun svo ég mætti heldur of snemma út í gær, um hálfátta, og aðeins of seint til þess að labba alla leið í vinnuna. Ég brá þá á það ráð að labba að stoppistöðinni sem merkt sem Flókagata en er á Lönguhlíðinni við Flókagötu. Þar hirti vagninn mig upp uþb þrettán mínútum fyrir átta.

Var mætt á vinnustaðinn tíu mínútum seinna. Þar beið ærið verkefni sem við teymið leystum heldur betur vel úr, svo vel að þegar öllum daglegum störfum og frágangi var lokið rétt fyrir hálffjögur ákvað ég að leyfa duglega fólkinu að fara. Sjálf stóð ég símavaktina til fjögur og hafði svo sem alveg nóg annað að sýsla.

Upp úr klukkan fjögur rölti ég af stað í hina áttina frá heimilinu mínu eða vestur í bæ. Hringdi í pabba og eina tvíburamömmu-vinkonu mína í leiðinni og settist um stund niður á bekk ekkert langt frá Frostaskjólinu til að vera ekki of snemma á ferðinni á minn annan safnaðarfund í óháðu kirkjunni en jafnframt þann síðasta fyrir sumarfrí.  Þessi vorfundur er alltaf haldinn á prestsetrinu og séra Pétur býður í mat, soðið slátur, kartöflur, rófustöppu og útálegg. Bílstjórabjór fyrir þá sem vilja og kaffi og tertu í eftirrétt. Fundarstörf voru afgreidd, bæði fyrir og eftir mat. Ég fékk far heim á eftir með ritaranum í stjórninni en hún var að fara þessa leið. Heima var annar sonurinn að elda ofan í þá bræður og átti hann von á því að einn vinur hans kæmi við líka.

9.6.15

Fundir dag eftir dag

Það var meðvituð ákvörðun hjá mér að fara á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun. Gat ekki dæmt sjálfa mig til að taka einn veikindadag úr vinnu því ég var alveg hitalaus og nokkuð hress þrátt fyrir hálsbólgu og hæsi.  Ein er búin að skipuleggja niðurröðun á helstu dagleg störf vikunnar alveg fram á haust. Þar er tekið með í reikninginn þegar einn eða fleiri eru í sumarfríi. Ég sá um bókhald, keyrslur og afstemmingar og var þar að auki að svara nokkrum fyrirspurnum og einnig finna út úr ýmsum málum sem þurfa að komast á hreint.  Um eitt héldum við stuttan fund.  Þá var allri daglegri framleiðslu lokið en eftir fundinn var farið að vinna að mánaðarlegri endurnýjun dk.

Klukkan fjögur lagði ég leið mína í Krónuna við Nóatún og verslaði inn nauðsynjar. Skutlaðist með þær heim og fékk Odd til að sækja pokana tvo út í bíl. Hringdi í pabba og skrapp svo örstutt inn áður en ég fór á fund í messunefnd óháðasafnaðarins í kirkjunni okkar um hálfsex.

Davíð Steinn var nokkurnveginn tilbúinn með kvöldmatinn þegar ég kom heim aftur. Útsaumur og sjónvarpsgláp til tíu var svo það helsta sem ég sinnti í gærkvöldi.

8.6.15

Færsla númer 2015

Ég hélt áfram að fara vel með mig í gær, fór ekkert út og gerði lítið annað en að slaka vel á og sinna helstu áhugamálunum, telja út og lesa.  Ég var ekki með hita, nefrennsli eða hausverk og mér fannst eins og það væri að byrja að losna um í hálsi og lungum.  Reyndar fann ég fyrir smá kaffileysisfráhvarfseinkennum en ég hellti mér upp á tvo bolla, drakk þá og þar með voru þau einkenni úr sögunni.  Röddin var eitthvað takmörkuð en ég þurfti nú ekki að nota hana mjög mikið í gær. Synirnir komu seint á fætur, fóru til pabba síns seinni partinn og hittu vini í gærkvöldi.  Mér fannst leiðinlegast að neita mér um að nýta árskortið mitt á fótboltavöllinn og missa af leik Vals og KR en ég ákvað að vera skynsöm og halda mig inni. Í staðinn glápti ég á imbann frá ca sjö til klukkan að ganga ellefu.

7.6.15

Örstuttu "verkfalli" lokið í bili

Eins og mér finnst ég oftast hafa eitthvað að segja og gaman að setja inn texta daglega þá er ég ekkert að streða við að setja neitt inn ef tíminn eða skrifstuðið hleypur eitthvað frá mér.  Það teygðist aðeins úr fyrsta vinnudeginum eftir örstutta fríið í nýliðinni viku. Dagurinn endaði á því að mér var boðið út að borða á Gló upp úr klukkan átta um kvöldið og ég svo keyrð heim um níu. Ungu mennirnir voru ekki heima en skiluðu sér þó fyrir miðnætti.

Föstudagurinn var afar ásetinn. Var í vinnunni til klukkan langt gengin í fimm. Þá kom "einkabílstjórinn" og millifærði mig og aðra til yfir á Veiðimessu í Katrínartúninu.  Messan var auglýst frá klukkan fimm til sjö en þegar við tvær þurftum að fara af stað á næsta stað var rúsínan í pylsuendanum alveg eftir, þ.e. smá sýnishorn um spaugileg atvik í veiðimessunni. Oddur Smári kom aftur og millifærði okkur yfir í heimahús í Garðabæ þar sem var haldið kortadeildarpartý. Ég veit ekki alveg hvaða lýsingaorð er best að nota yfir þetta glæsilega heimboð en mér er óhætt að segja að það sló í gegn og ekkert ólíklegt að ég eigi eftir að pósta nokkrum myndum úr boðinu seinna. Ætla bara rétt að hafa beint eftir einni eftirfarandi setningu;  "Það er eins og ég hafi verið spurð að því hvernig matseðil ég myndi vilja hafa!" Þetta var bæði flott og látlaust, gott og glæsilegt, nasl (fyrir og eftir), aðalréttur og kaffi og tvær tertur í eftirrétt. Ég kom með litla hvítvínsflösku með mér, sem ég keypti í fyrstu ferðinni með "einkabílstjóranum". Hafði drukkið eitt hvítvínsglas í veiðimessunni (það var ekki af mínum birgðum) og þegar mitt hvítvín kláraðist var fyllt á 2x. Drakk þetta allt saman á það löngum tíma að ég varð mér ekkert til skammar.  ;-) Fljótlega eftir eftirréttinn var sest aftur í stofuna. Við vorum 9 í heildina með þeirri sem bauð okkur og mörg af okkur sátum alveg fram að miðnætti. Spjölluðum, hlógum, spurðum spilin hennar Siggu Kling og "Bókina með svörin". Tíminn leið bara alltof hratt. Ég var svo svo heppina að bjóðast far heim í lokin.

En ég vaknaði hálfraddlaus í gær, með örfáar kommur en leið sæmilega að öðru leyti. Ákvað því að taka því mjög rólega yfir helgina því mig langar ekkert til að leggjast í nein veikindi. Fáránlegt samt að þurfa að halda sig inni í svona góðu veðri eins og var í gær og það verður súrt að missa af Valur - KR í Pepsídeild karla í kvöld.

4.6.15

Fríið búið í bili

"Einkabílstjórinn" fékk að keyra "vinnumanninn", bróður sinn á vinnustaðinn hans í gærmorgun. Ég var komin á fætur en það var Oddur Smári líka svo ég ákvað að þetta væri best fyrir alla. Ég fór í staðinn í þvottahúsið og þegar ég sá að þvottavél og þurrkari fyrir risíbúðina höfðu verið fjarlægð ákvað ég að nota tækifærið og fara niður með ryksugu. Hitti nýjan eiganda íbúðarinnar örstutt en hún er að flytja inn og koma sér fyrir. Seinna bað ég Odd um að skúra yfir þvottahúsgólfið. Annars fór dagurinn í lestur, netvafr, sjónvarpsgláp og saumaskap.  Kveikti reyndar ekki á sjónvarpinu fyrr en langt var liðið á daginn.

Við Oddur skruppum í stutta sundferð upp úr hádeginu en vorum aðeins um klukkutíma og var það það eina sem ég fór út í gær. Davíð Steinn hringdi áður en vinnudeginum hans var lokið og tilkynnti að hann kæmi ekki beint heim og yrði ekki í mat.  Þá var ágætt að eiga afgang af steiktum þorski síðan á þriðjudagskvöldið.

3.6.15

Smá kverkaskítur, gat nú verið :-/

Þegar til kom var það alveg ágætt að ég skyldi halda mig heima megnið af gærdeginum. Rétt skutlaðist með "vinnumanninn" í Árbæinn upp úr hálfníu í gærmorgun en í stað þess að fara í sund fór ég beint heim aftur og hélt mig þar. Las og saumaði á meðan ég beið eftir því að hinn ungi maðurinn vaknaði. Það endaði reyndar með því að ég vakti piltinn þegar klukkan var að byrja að ganga tvö. Einum og hálfum tíma síðar fól ég honum það verkefni að búa til vöfflur úr hálfri vöffluuppskrift sem ég nota yfirleitt þegar ég geri vöfflur. Við mæðginin fengum okkur tvær hvort með sultu, plús eina smakkvöfflu en geymdum hinar sjö. Stuttu seinna hringdi "tvíburahálfsystir" mín í mig og spurði hvort ég væri heima og hvort hún mætti gera innrás.  Það mátti hún svo sannarlega og ég dreif mig strax í að hella á könnuna. Ég var ekki búin að græja kaffimálin þegar vinkona mín kom en við byrjuðum bara að spjalla í eldhúsinu og færðum okkur svo inn í stofu þegar allt var klárt. Bauð m.a. upp á vöfflur. Tíminn hvarf. Þegar "vinnumaðurinn" kom heim rétt fyrir fimm blandaði hann geði við okkur í stofunni. Hann fékk sér vöfflu og kaffi og það endaði með því að hann sat og spjallaði við okkur alveg þar til vinkona mín fór. Hinn ungi maðurinn hafði þá einnig bæst í hópinn og það sem var hlegið og mikið spjallað. Rúmir tveir tímar virtust vera einungis tíu mínútur, í hæsta lagi korter. "Þannig týnist tíminn".  Ég vona svo bara að kverkaskíturinn hafi náð hámarki og hamli mér ekkert frekar. En ég saumaði og las alveg helling í gær og komst líka yfir e-r skyldur.

2.6.15

Örstutt sumarfrí rúmlega hálfnað

Í gær var fyrsti vinnudagur tilvonandi rafeindavirkjans. Ég var komin á fætur fyrir sjö því mig minnti að ungi maðurinn hafi ætlað að fara á fætur fljótlega upp úr sjö til að gefa sér góðan tíma til að taka sig til.  Hann á reyndar ekki að mæta fyrr en klukkan níu og ég var búin að ákveða að skutla honum en þegar klukkan var að verða hálfátta og ég enn ein á fótum ákvað ég að athuga hvort hann væri nokkuð að sofa yfir sig. Svo reyndist ekki vera heldur hafði hann miðað við uþb hálfátta og var búinn að setja vekjarann á "snús".

Strax eftir að ég hafði komið syninum næstum alla leið á áfangastað (hann bað sjálfur um að fá að labba allra síðasta spölinn þar sem klukkuna vantaði enn tíu mínútur í níu) lagði ég leið mína í Laugardalslaugina. Synti ca 325 metra, skrapp í sjópottinn og gufuna og sat svo úti um stund á meðan ég þornaði.

Þegar einkabílstjórinn kom á fætur setti ég hann í alls konar verkefni með mér.  Við enduðum svo á því að skreppa með ýmislegt í gámana við Kjarvalsstaði (flöskur, gler og pappír) áður en við ákváðum að fara út á Granda og versla í Krónunni þar, mest til að hitta aðeins á Bjössa og óska honum til hamingju með stúdentinn úr MR.  Á leiðinni heim komum við við við AO-stöðina við Flugvallarveg. Oddur Smári gekk frá vörunum og þegar Davíð Steinn hringdi úr Kópavogi í lok vinnudags fór hann og sótti bróður sinn.

1.6.15

Fór í sveitina í gær

Sleppti sundinu í gær og tók því bara rólega til að byrja með. Náði að hitta annan unga manninn aðeins áður en ég lagði land undir fjögur lánsbílshjól rétt fyrir ellefu.  Tók m.a. með mér myndavél, bók og saumana mína. Var kominn í foreldrahús rétt fyrir hádegisfréttir. Þáði einn kaffibolla og stoppaði í svo sem eins og hálftíma áður en ég reimaði á mig gönguskóna og rölti upp á Helluvað

Þangað lá straumurinn af bílum því nú átti að hleypa kúnum út í fyrsta sinn þetta árið og allir velkomnir að fylgjast með. Þetta var í 15. sinn sem bændurnir buðu á viðburðinn "Halló Helluvað" en þetta var sennilega í fimmta sinn sem ég mætti. Þetta er alltaf jafn gaman og langbest er að hitta og faðma það frændfólk sem einnig mætir á þennan viðburð. Ég var kannski ekki mjög skynsöm með staðarvalið sem ég valdi til að fylgjast með kátum kúnum því það var smá hraðferð á loginu og það komst veruleg hreyfing á sand og ryk sem fauk allt yfir okkur sem vorum fyrir neðan fjós. En ég lét þetta ekki á mig fá, naut þess bara að fylgjast með og spjalla við frændfólk. Á leiðinni í fjárhúsið á eftir hitti ég föðursystur mína og spjallaði ég um stund við hana. Sláturhúsið sá um að grilla ofan í mannskapinn en var líka með kaldar tungur. Einnig var boðið upp á ábresti, kaffi og kókómjólk. Mér skilst að það hafi mætt yfir 800 manns á þennan einstaklega skemmtilega viðburð. Ég ætlaði varla að tíma því að fara.

Kom aftur í foreldrahús tveimur tímum eftir að ég labbaði þaðan og dvaldi þarna fram á kvöld. Saumaði út megnið af tímanum og náði næstum því að klára bókamerkið. Klukkan var að verða tíu þegar ég kvaddi loksins. Ég kom heim rétt á undan bræðrunum sem höfðu heimsótt pabba sinn.