28.2.05

- Það helsta frá sunnudeginum -

Vekjarinn á gemsanum mínum hringdi rétt fyrir átta. Ég stillti á blund og dormaði áfram. Rétt áður en vekjarinn hringdi aftur læddist Oddur Smári inn og spurði í lágum hljóðum:
-"Mamma, ertu nokkuð búin að gleyma fótboltanum?" Nei, ég var ekki búin að gleyma honum. Davíð Steinn vaknaði um leið og ég fór fram. Ég bað strákana um að klæða sig á meðan ég finndi til vítamín og setti morgunmatinn á borðið.

Bræðurnir trítluðu svo af stað á æfingu upp úr hálfníu. Ég notaði tækifærið og lagði mig aftur. Var svo komin á fætur þegar strákarnir komu heim aftur rúmum tveimur tímum seinna. Með þeim kom einn fótboltafélaginn. Hann stoppaði stutt, var sóttur um hálftíma síðar en við vorum líka að fara í afmæli til Huldu frænku.

-"Afhverju komið þið svona snemma?" spurði mágur minn. Helga og Hulda voru í kirkju og ekki var von á þeim alveg strax. Pabbi og mamma komu stuttu á eftir okkur mæðginunum. Pabbi var búinn að smíða stærðar dúkkuhús handa dótturdóttur sinni og mamma hafði séð um að kaupa eitthvað í það. Farið var með húsið upp á efri hæðina og teppi breytt yfir það. Hulda var ekkert smá ánægð með gripinn. Þegar hún var svo spurð að því hvað væri í pökkunum sem fylgdu með (eftir að hafa opnað þá) svaraði hún strax: -"Húsverk"

Ég fékk að skilja tvíburana eftir í afmælinu frá eitt til þrjú og skrapp og söng við messu. Við mættum næstum öll, kórfélagarnir, og sungum við messuna. Það vantaði eiginlega bara einn (kannski tvo en ein tenórinn hefur ekki mætt á æfingar eða í messur frá áramótum svo hann er líklega hættur að syngja með okkur).

27.2.05

- Annasöm helgi -

Það hefði verið ágætt að geta verið á nokkrum stöðum í einum nú um helgina. Stundum tókst það svona hér um bil. Davíð og strákarnir pikkuðu mig upp við 10-11 við Skúlagötu um hálffimm sl. föstudag. Við fórum heim en stoppuðum ekki lengi við þar. Davíð tók pc-tölvuna og setti í skottið. Skyldum Davíð Stein eftir heima í Play-staion, skutluðum Oddi á karateæfinu og svo skutlaði ég manninum í Kópavoginn, Digraness, en þar fór fram Skjálfti nú um helgina. Níu, tíu manna, lið tóku þátt.

Hafði nokkrar mínútur heima áður en ég sótti Odd og skyldi Davíð Stein aftur eftir. Oddur var að labba út úr búningsklefanum þegar ég kom. Ég skutlaði honum heim en fór svo yfir Lækinn að sækja Guðjón, barnapíuna mína. Hann fékk þau fyrirmæli að strákarnir mættu vaka til tíu, ég kvaddi synina og svo var ég rokin. Það var matarboð í kirkjunni. Kvöldið var frábært í alla staði og sé ég ekki eftir að hafa skellt mér. Maturinn var fjölbreyttur og góður, Ómar Ragnarsson fór að venju með gamanmál og kórfélagi okkar Kristinn Þorsteinsson fór með kór annál og Sikileyjarhugleiðingar. Virkilega skemmtilegt allt saman. Ég var komin heim aftur upp úr ellefu og að þessu sinni var Guðjón sóttur til mín.

Bræðurnir voru komnir á stjá um átta morguninn eftir. Davíð hafði fengið skutl heim e-n tímann um nóttina. Ég fór framúr um níu og fann til morgunmat og vítamín handa okkur strákunum. Renndi svo í könnuna og vakti Davíð um tíu. Það kom í ljós að hann ætlaði sér einmitt að vakna um þetta leyti og hafa smá tíma með okkur áður en hann færi aftur til keppni um hádegi. Ég skutlaðist með hann til að hafa bílinn.

Um tvö vorum við mæðgin kominn í Hafnarfjörð til tvíburahálfsystur minnar en þau hjónin höfðu boðið okkur og fleirum til skírnarveilsu. Séra Pálmi Matthíasson skírði dömuna þeirra til. Þá veit maður loks hvað litla frænka heitir þeim fallegu nöfnum; Elísa Ásdís. Það var notaleg stund sem við áttum með fjölskydunni og vinum. Strákarnir voru eiginlega ekkert á því að koma heim.

Frá sunnudeginum segi ég síðar.

25.2.05

- Andríki -

Núna kom andinn yfir mig
og það ætla ég að nýta.
Ætli það muni borga sig
sýnum draumum að flýta?

Föstudagur enn á ný
og tíminn flýtir sér
Á himni eru engin ský
ég er að dunda mér.

Hvað skyldi vera tveir og tveir
tuttuguogtveir eða fjórir?
Hugsa ég alltaf meir og meir
mínir þankar eru stórir.

Núna er ég farin að bulla og bulla
ballið er rétt að byrja.
Kannski er betra að sulla og sulla
hvern á ég að spyrja?

Á arkinu hugurinn vinnur mikið
ég rífst oft við sjálfa mig.
Hvernig væri fyrir vikið
virkilega að hlusta á sig?

Ja hérna hugsa ég núna
halelúja eða hvað.
Tel mig vera alveg búna
og mun færast úr stað.

24.2.05

- Á léttu nótunum -

Það var kóræfing í gærkvöldi. Í síðustu viku var ákveðið að það væri alltaf einhver sem sæi um að koma með brandara til að lesa eða segja í kaffipásunni. Það var líka ákveðið að byrja fremst í stafrófinu þannig og var ég tilbúin með nokkra góða í gærkvöldi. Þar á meðal þennan sem ég þýddi og staðfærði:

Heiða var komin á steypirinn og ein heima ásamt þriggja ára dóttur sinni, Kötu. Það er leiðinda veður þegar hún fær hríðir. Hún hringir í 112 og fljótlega kom sjúkraliði, einn einhverra hluta vegna. Rafmagnið var farið og Heiða var byrjuð að rembast á fullu. Sjúkraliðinn varð að biðja Kötu litlu að lýsa sér með ljóskastara sem hann var með. Þetta tók einhvern tíma en að lokum fæddist drengur. Sjúkraliðinn klippti á naflastrenginn, tók piltinn upp og danglaði í bossann á honum. Þá gall við í Kötu litlu: -"Já, gott hjá þér! Rassskelltu hann aftur því hann átti ekkert að vera að skríða þarna inn..."

23.2.05

- Handavinnuverkefni -

Ég afrekaði það í gær að taka upp kassann með handavinnudótinu mínu. Fljótlega þarf ég að fara að byrja á fæðingarmynd fyrir Bríet. Ég á munstrið til og slatta af garni en mig vantar jafann. Svo á ég nokkur verkefni sem ég gæti farið að dunda mér við að sauma. Annars lét ég það eftir mér að panta mér úr nýjasta Margarethabæklingnum í síðustu viku og bíð ég spennt eftir þeim pakka. Þess vegna er um að gera að drífa sig í að sauma eitthvað óklárað svo það liggi ekki óklárað lengur þegar nýju verkefnin koma í hús.

22.2.05

- Þoka -

Það var hálf draugalegt á arkinu í morgun og stundum erfitt að átta sig á fjarlægðum. Að öðru leyti var samt gott að ganga. Færið með besta móti og enginn vindur og engin úrkoma.


Hulda frænka er fimm ára í dag. Mikið flýgur tíminn ógnarhratt. Vinkonurnar eru boðnar í afmæli seinni partinn í dag en svo verður fjölskylduafmæli n.k. sunnudag.

Í gærkvöldi komu til mín vörurnar sem ég pantaði hjá New Skin, einn kassi af vítamínum og annar af snyrtivörum. Ég keypti krem fyrir Helgu systur og "rollon" handa Davíð en handa mér heilt tannburstasett. Í töskunni eru tvær tegundir af tannkremi, tannþráður, munnskol, munnsprey og þrír tannburstar.

20.2.05

- Konudagur -

Allar konur til hamingju með daginn! Ég ætla aðeins að "gera upp" gærdaginn. Það voru spenntir bræður sem vöknuðu fyrir hálfátta í gærmorgun þrátt fyrir að hafa fengið að horfa á Disney-myndina kvöldið áður. Spenningurinn hjá Davíð Steini var tvöfaldur því eftir hádegi var hann á leið í óvissuferð. Ég fékk strákana til að kúra sig aðeins niður aftur en bara til átta þá tipluðu þeir fram í stofu og kveiktu á sjónvarpinu. Stuttu seinna komu þeir og spurðu hvort þeir mættu fara í play-station. Ég fór fljótlega á fætur og bjó til kaffi og hafragraut.

Stuttu fyrir ellefu vorum við mætt á Leiknissvæðið þar sem Valsarar spiluðu æfingaleik við Leiknisstráka. A-liðið hafði verið að spila milli 10 og 11 en ég veit ekkert hvernig gekk hjá þeim. Það rétt náðist í tvö (B og C ) lið, það var svo tæpt að það var enginn drengur afgangs til að skipta inn á og hvíla. Davíð Steinn stóð í markinu fyrir sitt til og Ármann bekkjarbróðir tvíburanna (sem er nýkomin úr Fram yfir í Val) stóð í markinu fyrir hitt liðið. Ármann fékk víst aðeins 4 skot á sig, var með öfluga vörn fyrir framan sig, og varði tvö af skotunum. Davíð Steinn fékk amk 15 skot á sig (þótt vörnin væri oftast að standa sig) og varði hann mörg skot alveg stórglæsilega. Leikurinn hjá honum og hans liði endaði 7-2 fyrir Leikni en það var alveg öfugt hjá hinu liðinu. Við Davíð og fleiri foreldrar vorum á hliðarlínunni og var Davíð duglegur að hrópa hvatningarorðum og leiðbeiningum til strákanna. Eitt sinn var einn drengurinn búinn að ná boltanum af andstæðingnum þá hrópaði Davíð: "Hlauptu aðeins framar með boltann þú þarft ekki að skjóta standandi.....uh kyrr!" Ég sprakk úr hlátri og sagði að þetta yrði munað

Klukkan tvö var ég mætt með Davíð Stein við Hallgrímskirkju og skildi ég hann þar eftir í umsjón hjóna sem ætluðu með hann og fjóra aðra út í óvissuna. Ferðin tók alveg fjóra tíma. M.a. var farið í Víðidal á hestbak. Davíð Steinn datt víst aðeins af baki en hann þurfti bara að jafna sig smá og svo fór hann óhræddur á bak aftur. Ferðin endaði svo á Hróa Hetti þar sem þeir fengu sér að borða.

Davíð sótti Guðjón Örn barnapíuna okkar á sjöunda tímanum. Síðan fórum við hjónakornin heim til "föðursystur minnar" þar sem okkur og tvíburahálfsystur minni og hennar fjölskyldu var boðið í mat. Við áttum saman frábæra kvöldstund yfir þriggja rétta máltíð og góðu spjalli á meðan og á eftir. Það var boðið upp á rautt og hvítt með matnum og var ég sú eina sem var í þessu hvíta. Ég var skemmtilega létt á mér þegar við kvöddum um miðnætti.

Rétt áðan var ég að senda Odd af stað á fótboltaæfingu. Davíð Steinn á svo að vera mættur upp í kirkju um hálftíu en drengjakórinn á að syngja við messu klukkan ellefu. Það er best að fara að finna til sparifötin á drenginn.

18.2.05

- Músin og ljónið -

Davíð Steinn spurði mig um sjö í m0rgun hvort ég kæmi ekki í skólann til að sjá sig og Friðrik bekkjarbróðir hans leika "Ljónið og músin. Sem betur fer gat ég fengið leyfi með svona stuttum fyrirvara. Við fórum því öll fjögur saman í skólann rétt fyrir hálfníu. Ég fór inn í stofu með Davíð Steini og hjálpaði honum í músarbúninginn. Kennarinn hans var mjög fegin að sjá okkur og sagði að strákurinn stæði sig virkilega vel, hún væri viss um að hann væri efni í leikara. Þegar ég var svo að hjálpa strákunum kom annar kennari að og hún sagði næstum því það sama svo ég var orðin mjög spennt að sjá leikritið. Þegar drengirnir voru tilbúnir fórum við fram og gáfum kennaranum bendingu. Allir bekkir byrja fyrsta tímann á föstudögum frammi í sal og syngja saman og stundum sýna þau líka leikrit. Það var alveg rétt hjá kennaranum leikritið heppnaðist mjög vel og mér fannst báðir strákarnir standa sig með sóma. Við Davíð dokuðum svo við eftir leikritið og hlustuðum að barnahópinn syngja nokkur lög af ýmsum toga.
Það var ein að springa úr stolti þegar hún mætti til vinnu rétt rúmlega klukkutíma of "seint".

17.2.05

- Haustið er búið -

Loksins er ég búin að sauma allar árstíðamyndirnar mínar. Nú er bara eftir að ramma þær inn og koma þeim upp á vegg. Tók síðustu sporin í haustmyndina í gær. Á núna bara eftir að setja inn skammstafina mína og ártalið. Er einhver sem getur bent mér á sniðugan innrömmunarstað? Hinar myndirnar, sumarið, veturinn og vorið kláraði ég 2002 og 2003. Núna þarf ég bara að finna mér nýtt saumverkefni. Þótt ég hafi verið nokkuð lengi að klára þetta síðasta verkefni veit ég að ég verð ekki lengi svona handavinnu-verkefnalaus. Það er svo róandi að telja út og sitja með saumana sína.

16.2.05

- Leigubílafílingur -

Í gær fékk ég smá innsýn í það hvernig dagarnir eru hjá mömmu. Bíllinn hennar var rafmagnslaus. Davíð tók reyndar að sér að skutla tvíburunum og Víði "öðrum tvíburanum hennar mömmu" á knattspyrnuæfingu, svo strákarnir yrðu ekki seinir. Síðan tók ég við bílnum og skutlaði manninum aftur í vinnuna. Á heimleiðinni hringdi mamma og þegar ég sá mér fært að hringja aftur í hana bað hún mig um að sækja Kolfinnu í fimleikana. Fór heim með töskur strákana og þá var kominn tími til að millifæra Odd Smára úr boltanum yfir í karate. Kvaddi drenginn fyrir utan Þórshamar og fór beint að fimleikahúsi Ármanns. Davíð Steinn ætlaði heim með bekkjarbróður sínum að æfa sig fyrir leikrit sem þeir eiga að sýna í skólanum á föstudagsmorguninn. En ég varð auðvitað að sækja Víði, hann og tvíburabróðir hans voru á leið á skátafund stuttu seinna en ég þurfti ekki að skutla þeim.

Fór strax að huga að matnum er heim kom heim. Það var samt stutt stopp heima áður en kominn var tími til að sækja Odd af æfingu og Davíð í vinnuna. Davíð Steinn hringdi um sjö og spurði hvort hann mætti borða hjá skólabróður sínum. Hann kom svo heim rétt fyrir átta.

En smá að öðru. Ég er að lesa Sá er úlfinn óttast eftir Karin Fossum. Þetta er spennandi sakamálasaga sem er mjög ljóðræn á köflum. Mér finnst gaman að henni og er engan veginn búin að leysa ráðgátuna...

15.2.05

- Drengjakórsmál og blóðbankinn -

Það var eitthvað sem dró mig að blóðbankanum seinni partinn í gær. Ég átti klukkutíma aflögu og ákvað að athuga hvort það væri nokkuð mikið að gera. Ég komst strax að. Að þessu sinni lét ég stinga í hægri handlegginn til að vita hvort það væri jafn erfitt og það var fyrir einhverjum árum síðan. Þetta gekk bara mjög vel og það passaði fínt eftir gjöfin og smá kaffisopa að tölta upp í Hallgrímskirkju á foreldrafund drengjakórsins.

Fundurinn var ekki nógu vel sóttur, kannski vegna tímans, en það kom einn faðir rétt eftir að fundi var slitið um hálfsjö og sagðist alltaf vera á stjórnarfundi á þessum tíma. N.k. laugardag eiga þrír söluhæstu drengirnir að fara í óvissuferð og á sunnudaginn syngur kórinn við messu. Framundan eru líka æfingabúðir í byrjun mars og svo var verið að tala um og segja frá því sem er framundan alveg fram að jólum.

Mamma vissi ekki að ég var ekki á bíl og þegar kóræfingin hjá strákunum var búin hurfu hún og Bjössi áður en ég náði að biðja um far fyrir okkur Davíð Stein. En ég var með símann og hringdi bara heim í Davíð.

Strákarnir báðu aðra parnapíuna um að lesa fyrir sig sl. laugardagskvöld og ég ákvað að koma lestrarsiðnum aftur í fastar skorður. Bað Davíð um að lesa fyrir strákana á sunnudagskvöldið og þeir báðu pabba sinn aftur í gær. Og getið þið nú hvaða bók er verið að lesa. Harrý Potter, bókin sem ég ætlaði að skila í síðustu safnferð...

14.2.05

- Eftir helgina -

Hvernig fer tíminn að því að æða svona hratt frá manni? Eftir daginn í dag þessi mánuður hálfnaður og þá verða búnir 45 dagar af árinu. Sko, það verða komin jól aftur áður en maður veit af.

Í hádeginu sl. föstudag fór Davíð aftur með strákana til tanna. Verið var að loka nýjustu jöxlunum og flúorbursta drengina. Það gekk allt saman mjög vel. Síðan fóru strákarnir til Helgu systur og Davíð kom með bílinn til mín. Er ég sótti strákana dokaði ég við um stund svo Helga gæti skroppið í búðina. Bríet æfði lungun og raddböndin svolítið vel á meðan.

Klukkan var orðin fimm er við kvöddum. Fór með Odd í karatetíma. Davíð Steinn vildi ekki koma inn og horfa svo við skruppum í fiskbúðina og svo heim. Var búin að finna til matinn áður en ég sótti feðgana, af æfingu og úr vinnu.

Um kvöldið fór ég til vinkonu minnar á New-Skin kynningu. Mjög áhugaverð kynning. Pantaði mér nú engar snyrtivörur en ákvað að prófa Life-Pak vitamínið.

Davíð er loksins að verða sæmilega góður í öxlinni og hann tók að sér að versla á laugardaginn. Ég var öll í boltanum en það fór þó einhver tími í tiltekt. Á áttunda tímanum sótti Davíð barnapíuna okkar, yfir lækinn. Stráksi kom með systur sína með sér (hún var reyndar barnapían okkar áður og tók þá stundum bróður sinn með sér). Síðan fórum við hjónin yfir til vinafólks okkar sem var búið að bjóða okkur í tölvudinner. Davíð er búinn að vera að hjálpa vini sínum að kaupa sér tölvu sl. 12-18 mánuði og það er loksins komin niðurstaða og talvan komin í hús.

Í gær söng ég í messu. Til stóð að það kæmi kristniboði í stólinn en sá sem átti að koma hafði misskilið dagsetninguna og var kominn norður í land. Séra Pétur sagðist aldrei hafa fengið jafn stuttan tíma til að undirbúa sig (frétti þetta með kristniboðann tvær mínútur fyrir messu). Engu að síður sagðist hann amk hafa eitt mál til að tala yfir hausamótunum á okkur og fórst honum það bara vel úr hendi, svona blaðlaus og óundirbúinn.

10.2.05

- Afmæli -

Í dag ætla ég að hugsa til Helgu frænku minnar, hún er árinu eldri.

Strákarnir voru mjög ánægðir með öskudaginn. Það komu tilmæli frá skólanum að vopn væru óæskileg svo Oddur Smári tók þá ákvörðun að skilja sverðið og skjöldinn eftir heima. Skynsamur piltur! Davíð Steinn gerði það gott í keilunni með kórfélögum sínum og skemmti sér mjög vel.

9.2.05

- Öskudagur -

Strákarnir eru búnir að bíða spenntir eftir þessum degi og loksins er hann runninn upp. Þegar þessi orð eru skrifuð er fjörið byrjað í skólanum. Davíð Steinn er klæddur í Harrý Potter-búning, Oddur Smári er kóngur og maðurinn minn er draugur. Þar sem Davíð er í foreldraráði er hann einn af þeim sem sér um skemmtunina. Hann ætlar að vera í fríi eftir hádegi þannig að þeir feðgar verða komnir heim um hálfþrjú.

Drengjakórinn ætlar að hittast í keiluhöllinni í Öskjuhlíð á æfingatímanum í dag, taka eina eða tvær umferðir í keilu og fá sér pizzu og gos á eftir. Davíð Steinn fær að fara í búningnum sínum og ég á von á því að fleiri strákar geri það líka.

Núna er ég byrjuð að lesa Í leiftri daganna eftir Agnar Þórðarson. Þetta er framhald af endurminningum hans. Eitt af því besta við þessar bækur eru allar þær bækur sem hann segir frá og hefur lesið. Maðurinn segir líka mjög skemmtilega frá bæði frá því sem hann lendir sjálfur í og það sem hann hefur eftir öðrum.

7.2.05

- Eftir helgina -

Mig rak í rogastans í hádeginu sl. föstudag. Davíð hafði séð um að fara með strákana til tannlæknis og var búinn að koma þeim svo til Helgu systur. Þarna var hann að eftirláta mér bílinn því það var fyrsti föstudagur í mánuði og því eitthvað um að vera eftir vinnu á skrifstofunni. Hann sat þarna undir stýri íklæddur jakkafötunum sínum. -"Vá, en fínn! Hvað er í gangi?" spurði ég. -"Það er fyrsti föstudagur í mánuði og þemað er glæpaforingjar. Í dag er ég don Davíð" sagði maðurinn minn hásri, ógnandi röddu.

Ég sótti strákana upp úr fjögur og gaf mér tíma fyrir einn tebolla. Oddur átti karatetíma rétt fyrir hálfsex. Það var ekki viðlit að fá Davíð Stein til að koma með, hvorki í Þórshamar né á bókasafnið. Ég ákvað samt að fara á bókasafnið (ætlaði m.a. loksins að skila Harrý Potter og Fönixreglunni). Davíð Steinn fékk leyfi til að vera heima og leika sér í tölvunni. Hleypti Oddi út fyrir framan karateheimilið og dreif mig á safnið. Þar kom í ljós að Harrý Potter var ekki með í skilabókabunkanum. Korter í sex var ég búin að safna að mér tveimur pokum af bókum, framlengja þeim bókum sem voru heima og komin út í bíl. Hringdi heim og spurði litla tölvukarlinn hvort það væri ekki í lagi að ég færi og horfði á restina af karateæfingunni. Það var auðsótt mál. Raunar fannst honum við hafa verið frekar stutt í burtu þegar við komum heim eftir næstum tveggja tíma fjarveru.

Á laugardaginn hafði ég orð á því við strákana að það væri frekar erfitt að ryksuga eða skúra hjá þeim gólfið þegar það sæist varla í það fyrir dóti. Það var Davíð Steinn sem ýtti svo í bróður sinn og spurði hvort hann vildi ekki hjálpa sér að taka saman dótið. Þeir byrjuðu strax og luku verkinu í gær, ryksuguðu meira að segja alveg sjálfir. Sjálf komst í nokkra tilekt og þrif þrátt fyrir að horfa á bæði handbolta og fótboltaleiki báða helgidagana.

Davíð fór með strákunum í búningaleit á laugardaginn. Það tók smá tíma en feðgarnir komu allir glaðir heim úr þeim útréttingum. Segi betur frá því á öskudaginn.

Þessa dagana er ég að lesa Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason og Í vagni tímans fyrri minningabók Agnars Þórðarsonar. Svo bíða á náttborðinu margar spennandi bækur sem ég hlakka til að lesa.

4.2.05

orðaréttin

mig dreymdi
að ég mætti fullt af orðum
þau voru þarna í flokkum

ég ákvað
að reka þau í almenninginn
og flokka þau

þetta voru alls konar orð
af öllum stærðum
og gerðum

það mátti skipta þeim niður
á marga staði
fyrir orð sem aldrei á að nota
fyrir orð sem bara skal hugsa
fyrir orð til að halda upp á

sum orð þyrfti að
flétta upp í orðabók
önnur ættu helst
að vera þurrkuð út
að eilífu

þetta var stórt
og viðamikið
verkefni

og þá
vaknaði ég

2.2.05

- Aðeins af kappleikjum -

Ég verð að tjá mig aðeins um HM í Túnis. Þar finnst mér Norðmenn vera að standa sig mjög vel og vona svo sannarlega að þeir nái að leggja Spánverjana í kvöld (fyrst þeir lögðu Króata og Svía ættu þeim að vera allir vegir færir). Áfram Noregur! Ég held að þeir verði meðal fjögurra efstu liða, aldrei neðar en í 5-6 sæti.

Þar sem það eru foreldradagar í skólanum í dag og á morgun leyfði ég tvíburunum að horfa með mér á leik Arsenal og Man. Utd. sem sýndur var beint á Skjá einum í gærkvöldi. Davíð Steinn er Arsenal maður og Oddur Smári heldur með Manjú. Þetta var hinn fjögrugasti leikur og mikið skorað. En þess skal getið að ég held með Liverpool sem líka var að leika (við Íslendingaliðið Charlton) í gær og komust í hann krappann.

Strákarnir komu með að hitta kennarann sinn í morgun og talaði hún aðallega við þá. Davíð Steinn byrjaði og á meðan beið Oddur Smári frammi. Snjólaug fór yfir könnunarpróf í skrift, stafsetningu, íslensku og stærðfræði með strákunum og var í heildina mjög ánægð með þá. Þeir eru yfirleitt að standa sig mjög vel. Í íslenskuprófinu átti m.a. að setja sagnir yfir í þátíð og Oddur féll í sömu gildru og margir úr bekknum í einu orðinu sagði sögnina að lemja vera lam í þátíð (einhver hafði lemjaði). Davíð Steinn féll ekki í þessa gildru. En við Davíð getum semsagt verið stolt af strákunum okkar. Það var ákveðið í samráði við Davíð Stein að hann myndi alfarið vera með öðrum hópnum í öllum tímum þar sem bekkurinn skiptist í tvennt (myndmenn, tónmennt, tölvur).

1.2.05

- Sá þriðji -

Eitthvað hef ég verið mikið hugsi á arkinu seinni partinn í gær því ég var bara allt í einu komin heim. Oddur Smári kom heim rétt seinna með báðar skólatöskurnar. Mamma hringdi upp úr fimm og lét mig vita að sennilega kæmi Davíð Steinn í seinna lagi heim af æfingu. Davíð tilkynnti seinkun líka. Þeir nafnar komu um svipað leyti, sá yngri aðeins fyrir hálfsjö og sá eldri rúmlega hálf. Nú er búið að gera upp kertasöluna í drengjakórnum. Stráksi kom heim með þúsund krónur fyrir að selja 50 pakka, gjafabréf fyrir að hafa náð að selja 80 pakka og með þær fréttir að auki að hann hafi verið þriðji söluhæsti drengurinn (með alls 106 selda kertapakka) og hans byði því óvissuferð á næstunni ásamt þeim drengjum sem lentu í 1. - 5. sæti. "Tvíburinn hennar mömmu" náði takmarkinu líka, hann var í öðru sæti. Hann hafði selt um 120 pakka. Sá sem var í fyrsta sæti seldi aðeins nokkrum pökkum meira en það.

Það var svo fundur hjá foreldraráði Ísaksskóla í gærkvöldi vegna öskudagsins sem er í næstu viku. Davíð kom aftur heim um tíu og við ákváðum að leigja mynd Dodgeball eða brennó. Gamanmynd með Ben Stiller í aðalhlutverki, alveg mátulega vitlaus og mjög léttgeggjuð.

Síðast liðna helgi las ég eina bók (á einu bretti) eftir Agöthu Christie, Tönn fyrir tönn. Í þeirri sögu rannsakar Hercule Poiroit dauða tannlæknis síns. Fín saga, hélt mér amk við efnið.