31.10.21

Síðasti októberdagurinn

Þetta er færsla númer þrjúhundruðogeitt á þessu ári. Sextíu og einn dagur eftir þar til nýtt ár rennur upp og þetta ár sem er tiltölulega ný byrjað að manni finnst. Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Á meðan ég beið eftir að N1 sonurinn vaknaði vafraði ég um á netinu. Davíð Steinn var mættur í vinnu um hálfátta og færði mér kaffibolla út í bíl í staðinn fyrir skutlið. Ég var komin á bílaplanið við Laugardalslaugina tíu mínútum fyrir átta. Kláraði að drekka kaffið mitt og hlustaði líka á átta fréttir áður en ég dreif mig í sundið. Sundrútínan tók mig um tvo tíma og svo þvoði ég mér um hárið á leiðinni upp úr. Skrapp að versla á leiðinni heim og keyrði bílinn einnig í gegnum bílaþvottastöð og bað um að felgurnar yrðu þvegnar sérstaklega. Kom heim um ellefu leytið. Gærdagurinn fór svo að öðru leyti í ýmislegt dútl. 

30.10.21

Á skutl vaktinni

Við vorum aðeins þrjár í vinnu í gær, ein í frii og önnur aldrei að vinna á föstudögum nema í "sumarfrísafleysingum".  Þrjár kláruðum við daginn og það sem eftir var af endurnýjun en okkur vannst ekki tími til að byrja að telja lagerinn vegna mánaðamóta. Það var í lagi því við verðum fimm eftir helgi og tvær af okkur getum farið beint í talningu. Þessa talningu þarf að gera áður en mánaðamótin eru "fryst". Ein af okkur þremur þurfti að fara um hálfþrjú í gær. Við hinar vorum að spá í að fara fljótlega en þá kom beiðni um að nettengja tölvuna inni í hvelfingu svo hægt væri að uppfæra hana. Það þarf tvær til að komast inn í hvelfinguna en þó það þurfi aðeins eina til að komast út fannst okkur betra að vera tvær þar til uppfærslan var búin og hægt var að taka netsnúruna úr sambandi. Ég var komin heim rétt fyrir fjögur. Upp úr klukkan hálffimm tók ég til sjósundsdótið og bókasafnspokann. Fór fyrst á safnið og skilaði þremur bókum af átta og tók tvær í staðinn. Tuttugu mínútum yfir fimm var ég komin út í 4,9°C sjóinn. Svalaði um og synti í hringi í um tuttugu mínútur. Skrapp svo aðeins í gufuna áður en ég fór upp úr og heim aftur. Var með steikt slátur í kvöldmatinn.

29.10.21

Stutt í næsta mánuð

 þegar ég er komin með strætókort gengur verr að safna skrefum. Rétt náði 6000 skrefum í fyrradag og komst ekki einu sinni alveg upp í 5000 skref í gær. Labba frá Þjóðleikhúsinu og tek svo vagninn fyrir utan MR heim. Var í bókhaldinu í gær. Rétt fyrir tólf komu forstjóri, framkvæmdastjóri míns sviðs og yfirmaður í heimsókn til okkar. Vorum bara þrjár því ein var í fríi og önnur nýfarin í helgarfrí. Gestirnir fengu m.a. að fylgjast með hádegisframleiðslunni. Kom heim um þrjú í gær og var komin í sundum hálffimm. Fór beint út í laug á brautir 7-8 (enginn kaðall á milli þeirra brauta). Við vorum þrjú á brautinni en þegar ég var að klára fyrstu ferðina bættust fjórir aðrir í hópinn svo ég eiginlega hrökklaðist upp úr. Fór þá í kalda pottinn sem var jafn "heitur" og í fyrradag eða um ellefu gráður. Átti von á því að kalda potts vinkona mín færi að koma en eitthvað hefur komið upp á hjá henni. Hún var ekki komin þegar ég fór upp úr rétt fyrir sex. 

28.10.21

Útskrifuð

Ég þarf að byrja á að leiðrétta smá "sögufölsun" vegna þriðjudagsins. Skrapp nefnilega aðeins aftur út eftir að ég kom heim og skilaði af mér bakpokanum. Setti handtöskuna í skottið svo ég væri með ökuskírteinið, brunaði út í Kringlu og fjárfesti í þriggja mánaða strætókorti sem gilti frá 27. sl. og til 26. janúar n.k. Það eru um 21 mánuður síðan ég fjárfesti síðast í slíku korti.

Notaði semsagt strætó í og úr vinnu í gær. Ég var skráð á vélina no 1. en sú sem var með mér á fyrstu vaktinni var í fríi á mánudaginn og skráð eitt þá og síðustu tvær vikur og næstu viku vorum við og erum skráðar ég 1 og hún 2. Svo ég skipti um enda við hana. Þegar kom að hádegis framleiðslunni vorum við þrjár inni og til að flýta fyrir voru öll kort aðeins sett á form og þau sem áttu að fara í umslög voru handsett í umslögin. Svoleiðis vorum við fljótari og gátum framleitt fleiri kort í einu.

Klukkan tólf vorum við komnar í Þjóleikhúskjallarann. Fengum sætkartöflusúpu og korter yfir byrjaði leiksýningin "Út að borða með Esther" með Sigga Sigurjóns og Guðrúnu Gísladóttur. Þetta var mjög skemmtilegt. Leikritið var í hálftíma og við vorum komnar aftur á vinnustað um eitt. Þar beið okkar seinni endurnýjun og neyðarframleiðsla á einu korti.

Mætti í sund um hálffimm. Synti 300 metra og var í minni þriðju ferð í tæplega 12° kalda pottinum (helmingi of heitur) þegar kalda potts vinkona mín mætti. Fór aðrar þrjár ferðir með henni og svo í gufuna áður en ég fór heim aftur.

27.10.21

Góður bati

Labbaði í vinnuna um Eiríksgötu og Skólavörðustíg í gærmorgun. Ég var frammi í skrifstofurými fram að kaffi, undirbjó dk pökkun, flokkaði kennispjöld og taldi svo með bókaranum þegar fyrstu tölur voru tilbúnar upp úr níu. Ein af okkur fimm átti tíma hjá lækni í gærmorgun. Hún mætti til vinnu upp úr hálfellefu. Þá var önnur af þeim sem voru á vélinni  fyrir kaffi inni með mér að leysa hana af. Hún kom inn um ellefu. Vorum í vinnu til rúmlega tvö. Þá fórum við þrjár af fimm á kaffihúsið Garðurinn við Klapparstíg að hitta þá fjórðu sem vann einu sinni með okkur. Það var ekki búinn að vera hittingur í heila sjö mánuði og löngu kominn tími til. Stuttu fyrir fjögur labbaði ég áleiðis heim. Kom við hjá Bríeti. Stoppaði frekar stutt. Hjúkrunarfræðingur benti mér á að heimsóknartími byrjaði ekki fyrr en hálffimm þegar ég spurðist fyrir á hvaða stofu frænka mín hafði verið flutt. Ég sagðist vera að koma labbandi beint úr vinnunni og ekki ætla að stoppa lengi. Bríet var eini sjúklingurinn á stofunni og ein inni þegar ég kom. Hún var laus við næringuna úr æð og sagðist hafa labbað án þess að nota göngugrind og komist í sturtu. Bataferlið gengi svo vel að hún yrði líklega útskrifuð fyrir vikulok. Frænka mín var þreytt og sagðist fljótlega þurfa að fá sér smá blund svo ég kvaddi eftir að hafa stoppaði hjá henni í ca tíu mínútur. Var komin heim upp úr fimm. Fór ekkert út aftur, aðeins að vafra um í netheimum, horfði á fréttir klukkan sex og svo kvennalandsleikinn Ísland - Kýpur 5:0.

26.10.21

Vetrardekkin undir

Ætlaði að labba í vinnuna í gærmorgun en hætti við vegna regns. Í staðinn tók ég bæði sund- og sjósundsdót með mér í bílinn og geymdi í skottinu. Ein var í fríi í gær og var hún skráð á ítroðsluendann ég ákvað sjálf að "leysa" hana af og var því á vélinni no. 1 fram að kaffi og no. 2 (móttökuendanum) eftir kaffi. Daglegri framleiðslu lauk fyrir tólf en svo kom smá endurnýjuð sem var kláruð á innan við klukkustund eftir hádegi. Ég flokkaði kennispjöld til rúmlega tvö. Fékk að hætta upp úr klukkan hálfþrjú og fór beinustu leið í sjóinn. Var að vaða út í 5,6°C rétt rúmlega þrjú og svamlaði um í uþb tíu mínútur. Rétt fyrir fjögur var ég komin með bílinn á dekkjaverkstæði N1 við Fellsmúla. Átti pantaðan tíma og komst strax að. Með afslætti N1-sonarins kostaði breytingin og geymslan á sumardekkjunum til næsta vors innan við fjórtán þúsund. Var komin heim um hálffimm. 

25.10.21

Rúst

Svaf til klukkan að verða níu í gærmorgun. Tveimur tímum seinna fengum við Davíð Steinn okkur göngutúr upp á barnaspítala og heimsóttum Bríeti. Davíð Steinn færði henni tvo eplasafa og sódavatn. Hún mátti aðeins drekka aðra fernuna, hægt, í gær. Helga systir fékk að nota tækifærið og fara og fá sér eitthvað að borða. Tengdamamma hennar hafði lánað henni bílinn sinn. Davíð Steinn stoppaði í klukkutíma en ég beið alveg þar til Helga kom aftur, um tvö. Kom heim aftur upp úr klukkan hálfþrjú. Setti upp slátur, einn kepp af hvoru. Rétt rúmlega hálffjögur settumst við Oddur fyrir framan fótboltaskjáinn. Liðin okkar voru að keppa, sex mínútur liðnar af leiknum og mitt lið strax búið að skora. "Mínir menn" áttu eftir að bæta við fjórum mörkum áður en leiknum lauk. Mark sem Ronaldo skoraði var dæmt af vegna rangstöðu og varamaðurinn Pogba fékk rauða spjaldið fimmtán mínútum eftir að hann kom inn á. 

24.10.21

Bríet nagli

Síminn hringdi í fyrrakvöld þegar ég var á kafi að uppfæra lifrarmauk í keppi og vinkonur mínar að sauma fyrir. Eftir að hafa lokið þessu verkefni og skolað af mér athugaði ég frá hverjum ég var að missa af símtali. Það hafði verið systir mín. Hún svaraði ekki þegar ég hringdi til baka svo ég sendi henni sms-skilaboð um að ég væri í sláturgerð. Helga náði svo í mig þegar ég var að koma heim úr sundi á tófta tímanum í gærmorgun. Ástæða hringinganna var sú að hún vildi láta mig vita að Bríet hafði lent í vinnuslysi á sínum síðasta degi í sláturtíðinni á Selfossi. Hnífur hafði hrokkið til í hendi hennar og stungist inn í magann. Því miður var hún ekki í öryggissvuntu. Það blæddi hins vegar ekkert mikið og hún gerði lítið úr þessu við vinnufélaganna. Hins vegar fékk hún krampa og kvíðakast þegar hún var komin út í bíl. Sem betur fer ákvað hún að láta kíkja á sig. Keyrði sig sjálf á Sjúkrahús Selfoss og gerði vart við sig strax. Henni var strax sinnt og innan hálftíma var hún á leið í sjúkrabíl í bæinn í myndatöku. Þar kom í ljós að hnífurinn hafði farið ca cm í lifrina en ekki garnirnar sem betur fer, nógu slæmt var þetta samt. Hún þurfti að fara í aðgerð og var kviðarholið opnað. Hún var svo á gjörgæslu til klukkan tvö í gær en á var hún flutt yfir á Barnaspítala Hringsins og þar þarf hún líklega að vera í amk eina og hálfa viku. Systurdóttir mín hafði líka haft hugsun á því að hringja í konu frænda okkar á Selfossi (þar hafði hún fengið að gista næstum alla vikuna svo hún þyrfti ekki að keyra á milli). Bað hana um að koma til sín með hluta af dótinu sínu. Hvort hún bað hana líka um að hafa samband við kæró eða gerði það sjálf svo hann væri ekki að taka rútuna á Selfoss. Það var svo kona frænda okkar sem hringdi í mömmuna, Helgu systur. Ingvi mágur fékk símtal frá lækni eða hjúkrunarfræðingi í gærmorgun þar sem var kvartað yfir því að enginn aðstandandi væri kominn og seinna um daginn flaug systir mín suður eftir fréttir um að annars gæti þetta orðið að barnaverndarmáli.

Við Davíð Steinn skruppum austur á Hellu eftir hádegi í gær. Oddur komst ekki með því hann er að glíma við slæmt kvef. Vorum komin um þrjú og þá var pabbi að koma gangandi alla leið úr búðinni. Stoppuðum hjá honum framyfir kvöldmat og fréttir. Vorum komin aftur í bæinn um níu. 

23.10.21

Sláturgerð

Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Vorum fjórar í vinnu, bókarinn kom aðeins seinna því hún þurfti að koma við á einum stað fyrst. Við tvær sem byrjuðum á vélinni, ég no 1 og hin no 2, kláruðum fyrstu tvö verkefni dagsins á einum og hálfum tíma. Samt þurftum við að hafa samband við "vin" þar sem tvær tegundir skiluðu sér ekki yfir. Eftir morgunkaffi fór ég á móttökuendann á vélinni að taka á móti kreditendurnýjun þar til hádegisskammturinn kom. Eftir hádegi kláruðu þær tvær sem voru á vélarvaktinni endurnýjunina. Hætti vinnu um þrjú og labbaði sömu leið heim og ég labbaði í vinnu. Það var smá raki í loftinu og þegar heim kom ákvað ég að taka því aðeins rólega, sleppa sjóferð í þetta sinnið.

Um hálfsex sótti ég Lilju vinkonu og við vorum komnar til Sonju rúmu korteri seinna. Hún byrjaði á bjóða okkur að borða mér sér og kaffi á eftir. En um sjö settum við allt á fullt og byrjuðum í sláturgerðinni. Tókum sex slátur saman og vorum um þrjár klukkustundir að undirbúa, (skera mör, hakka lifur og hræra í) og afraksturinn varð 17 keppir af lifrarpylsu og 13 keppir af blóðmör. 30 keppir sem við skiptum á milli okkar. Lilja tók fimm af lifrarpylsu og fjóra af blóðmör. Ég tók sex af lifrarpylsu og fjóra af blóðmör og Sonja tók sex af lifrarpylsu og fimm af blóðmör. Skilaði Lilju heim um hálfellefu. Þegar ég kom sjálf heim setti ég minn hlut í frysti og háttaði mig svo upp í rúm og fór að lesa til miðnættis.

22.10.21

Bleikur tannbursti

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna. Það var ekkert að gönguveðrinu en ég átti tíma í tanneftirlit fljótlega eftir hádegi. Var skráð á vélarvakt eftir kaffi en önnur þeirra sem átti vaktina fram að kaffi svaf yfir sig. Sú sem átti vaktina með henni bauð mér og hinni sem var skráð með mér að skipta. Við tvær sem vorum skráðar saman í gær erum einhverra hluta vegna sjaldan skráðar saman inn á vél og vildum þess vegna halda hópinn. Þáðum því þetta boð. Framleiðslan gekk ágætlega. Ég var í móttökunni þótt ég væri eiginlega skráð á hinn endan en þar sem ég var skráð á þann enda síðast þegar við unnum saman bauð ég samstarfskonu minni að skipta því næst þegar við erum skráðar saman á vélina erum við enn einu sinni skráðar þannig að ég er á ítroðsluendanum og hún í móttökunni. Í kaffinu fengum við brauð og bakkelsi úr bakaríi sem sú sem var í bókhaldinu sá um að kaupa og koma með. Við höfum "föstudagskaffið" á fimmtudögum því ein af okkur er ekki að vinna á föstudögum. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld. Þær sem fóru á vélina eftir kaffi voru alveg til klukkan eitt því þær ákváðu að klára eina endurnýjun upp á rúmlega fimmhundruð kort svo þær byrjuðu ekki á hádegisframleiðslunni fyrr en rúmlega tólf. Þær fóru svo aftur inn á vél eftir hádegi því ég þurfti að fara um tvö.

Er komin með nýjan tannlækni. Átti tíma í tanneftirlit þann 19. sl. en í síðustu viku var hringt í mig og mér tjáð að sú sem ég hef verið hjá undanfarin ár væri komin í leyfi og flutt erlendis. Mér var boðið að fá tíma hjá öðrum á stofunni sem ég þáði. Sá tími var í gær. Tannlæknirinn tók tvær myndir, hreinsaði og skoðaði. Ekkert fannst frekar en oftast áður. Aðeins einn staður sem gæti verið að byrja að skemmast og á skoðast betur þegar ég kem næst, eftir ár.

Fór beint í sund eftir tannnlæknatímann og synti 300 metra. Fór 2 x fimm mínútur í kalda og tíu mínútur í sjópottinn. Eftir að ég var komin upp úr aftur kom ég við á AO-við Sprengisand og fyllti á bílinn og einnig í Hagkaup í Skefunni áður en ég fór heim. 

21.10.21

Svei mér þá

Labbaði sömu leið í vinnuna í gærmorgun og morgnana tvo á undan. Fyrsta vakt var á móttökuenda framleiðsluvélarinnar. Þar með var ég líka að telja og taka til tegundirnar á meðan sú sem var á ítroðsluendanum var að hlaða inn fyrstu tveimur verkefnum dagsins. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og eftir hádegi fór ég aftur á vélina að vinna í endurnýjun og þá skiptum við um enda. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú leytið. Klukkan var byrjuð að ganga sex þegar ég dreif mig í sundið en ástæðan var aðallega sú að ég hafði hitt kalda potts vinkonu mína í mýflugumynd á þriðjudaginn og hún sagðist myndu vera í sundi um hálfsex. Það stóðst líka hún kom í kalda pottinn í sína fyrstu ferð þegar ég var búin að sitja þar í um tvær mínútur. Fórum fjórar aðrar ferðir og enduðum í gufubaði. Þar sat ég amk fimm mínútum lengur en hún og sat hún þó ekki stutt. Það fór svo þannig að ég synti ekkert í gær, til þess hefði ég líklega þurft að mæta korteri fyrr því þótt ég syndi stundum í restina þá er það frekar sjaldgæft.

Er loksins búin að lesa bókina Feilspor og byrjuð á bókinni; Meistari Jakob. Sú bók er um þrjúhundruðognítíu blaðsíður og er ég búin að lesa um einn sjötta af henni. Lofar góðu.

20.10.21

Vikan hálfnuð

Vaknaði um sex í gærmorgun. Slökkti á vekjaranum svo hann færi ekki að væla um hálfsjö, klæddi mig og gaf mér góðan tíma til að vafra um á netinu áður en ég fékk mér lýsi og labbaði af stað í vinnuna. Fór sömu leið og morguninn áður. Forritið í símanum skráði á mig 2,9km göngu. Fram að kaffi var ég að sortera kennispjöld og eftir kaffi á móttökuendanum á vélinni. Þær sem byrjuðu daginn á vélinni fóru aftur inn á vél eftir hádegi, skiptu bara um enda. Ég sorteraði fleiri kennispjöld. Labbaði af stað heim upp úr klukkan þrjú, líka sömu leið og eftir vinnu á mánudaginn. Klukkan var svo að verða fimm þegar ég dreif mig loksins af stað í sundið. Hitti aðeins á kalda potts vinkonu mína en hún var að klára. Hitti líka á eina bekkjarsystur mína úr grunnskóla sem og einn frænda minn. Kom heim rétt fyrir hálfsjö og fór beint í að búa til eitthvað úr foleldagúllasinu sem ég tók út úr frysti um morguninn. 

19.10.21

Labbað báðar leiðir

Labbaði Lönguhlíð, Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Njálsgötu, Snorrabraut og Skúlagötu í vinnuna í gærmorgun. Ég var komin fyrst og fór beinustu leið í að sinna mínum bókhaldsverkefnum, þ.e. prenta út fyrstu framleiðslutölur. Fyrirliðinn mætti rétt á eftir mér og við hjálpuðumst að við að sækja vagna og töskur inn í hvelfingu. Næst lá leiðin inn á kaffistofu til að fylla á vatnsflöskuna, fá sér smá kaffi og prjóna nokkrar lykkjur. Daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir eitt. Þá átti bara eftir að stemma af hádegisframleiðsluna. Við fórum í mat og um hálftvö kom yfirmaður okkar á fyrsta skipulagða reglulegan fund sem eftirleiðis verður hálfsmánðarlega. Fundurinn var rétt rúman klukkutíma. Eftir hann var klárað að telja og ganga frá. Ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Meðan ég var að kasta mæðinni eftir gönguna settist ég inn í stofu með fartölvuna og vafraði svolítið um á netinu. Um fimm var ég mætt í Nauthólsvík. Sjórinn 6,5°C, flóð og ég svamlaði um í uþb korter. Gaf mér fimm mínútur í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim aftur. Svo bauð ég strákunum með mér á pítuna. Einkabílstjórinn fékk að keyra og ég fékk mér hvítvínsglas með minni pöntun, fiski í orlydeigi.
Annars gaf ég upp ranga blaðsíðutölu á bókinni sem ég er að lesa, hún er 474 síður og ég á eftir uþb hundar blaðsíður.

18.10.21

Pabbi 87 ára í dag

Var vöknuð fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Var með fartölvuna í herberginu og "skrapp" á netið til að byrja með. Unga parið var í stofunni. Um tíu var ég komin í Laugardalinn. Var langmest í kalda pottinum en ég synti 200 metra og fór einu sinni í heitasta pottinn, einu sinni í gufuna og einu sinni í sjópottinn. Eftir sundferðina fór ég í Krónuna, alveg búin að steingleyma því að ég hafði ætlað að hringja í Odd og spyrja hann hvort hann vildi koma með. Ég kom heim upp úr klukkan tólf og var búin að ganga frá vörunum áður en Oddur kom á fætur. Fékk að fara inn í stofu upp úr klukkan eitt. Unga parið var samt áfram hjá mér fram eftir degi en seinni partinn þurfti Mundi að fara að vinna og Bríet skutlaði honum þangað og ætlaði svo í eina heimsókn áður en hún drifi sig austur.

Ég er ekki byrjuð að lesa skammtímalánsbækurnar; Meistari Jakob og Níu líf eftir Emelie Schepp. Ætla fyrst að klára Feilspor, mjög spennandi bók upp á rúmlega þrjúhundruðogfjörutíu síður. Á aðeins eftir tæpar sjötíu bls. Skilafresturinn á skammtímalánsbókunum rennur út eftir annan föstudag og ef ég les þær næst, sem er ætlunin, ætti ég að vera búin með þær fyrir þann tíma. Gæti jafnvel klárað amk eina af hinum fimm bókunum sem ég er líka með í láni fyrir utan þessar þrjár.

17.10.21

Sunnudagur

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun. Korter yfir sjö varð ég svo að banka á dyrnar hjá N1 syni mínum sem hafði sofnað aftur en átti að vera mættur í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Hann var fljótur á fætur og uþb tuttugu mínútum síðar setti ég hann út við N1 við Gagnveg í Grafarvogi. Hann færði mér bolla af kaffi út í bíl og svo fór ég beinustu leið í Laugardalinn. Þurfti að bíða smá stund á bílaplaninu og ákvað því að hlusta á morgunfréttir áður en ég færi í sundið. Fór beinustu leið í kalda pottinn, svo sjó pottinn, aftur í kalda, synti 400, þar af 250 á bakinu, aftur í kalda, gufubað, kalda sturtu og smástund aftur í sjópottinn. Þvoði mér um hárið og var komin heim aftur um tíu. Restin af deginum fór að mestu í lestur, fótboltagláp og þáttaáhorf. 

16.10.21

Frænkuheimsókn

Í gærmorgun fór ég á bílnum í vinnuna. Var með sjósundsdótið, bókasafnspoka með þremur bókum og dall með mér í skottinu. Inn í vinnu tók ég prjónadótið og súpubréf með mér. Vorum þrjár í vinnu sem virkar þá þannig að hver og ein er bara á einni starfsstöð yfir daginn, ekki bara bókarinn. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Þessa dagana er aðeins um daglega framleiðslu að ræða en það styttist í að endurnýjanir fyrir kort sem renna út eftir næsta mánuð skili sér til okkar. Það ferli byrjar strax eftir helgi. Vélin var með smá leiðindi og vesen og í einu slíku veseniskasti þurftum við að hringja á viðgerðarmann. Hann gat liðsinnt okkur í gegnum símann og við gátum klárað alla framleiðslu fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi sorteraði ég kennispjöld. Hættum vinnu fyrir klukkan þrjú. Ég fór beint á safnið að skila bókunum. Þrátt fyrir að það væru enn þrjár bækur heima stóðst ég ekki mátið og valdi fimm aðrar til að taka með mér heim. Tvær af þeim eru skammtímalánsbækur með fjórtán daga skilafresti. Næst lá leiðin í Nauthólsvík. Sjórinn 6°C og flóð. Ég svamlaði um í korter og var svo annað eins í heita pottinum. Áður en ég fór heim kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér nætursaltaða ýsu og harðfisk, óbarða ýsu. Um níu komu Bríet og Mundi en Bríet var búin að hringja í mig fyrr um daginn til að spyrja hvort hún mætti gista í stofunni minni um helgina. 

15.10.21

Alveg að koma helgi

Það var vekjaraklukkan sem vakti mig aldrei þessu vant í gærmorgun. Jú, það kemur fyrir að ég sef alveg þar til innstilltur tími virkra daga rennur upp. Þrátt fyrir þetta hafði ég smá tíma til að vafra á netinu áður en ég labbaði í vinnuna, yfir Skólavörðuholtið fjórða daginn í röð. Fram að kaffi flokkaði ég kennispjöld. Eftir kaffi var ég númer eitt á framleiðsluvélinni, að mata hana. Daglegum verkum lauk upp úr klukkan hálftólf. Þá átti reyndar aðeins eftir að framleiða eitt dk-kort. Það kort beið eftir tæknimanni til að setja það upp eins og bankinn óskaði eftir. Tæknimaður mætti um eitt og í tíundu tilraun tókst að framleiða kortið með textum, nafni og tölum á réttum stað.

Fékk far heim úr vinnunni. Strákarnir voru rétt ókmnir heim um þrjú úr sorpuferð. Það var allt í lagi mín vegna ætlaði hvorki í sund né sjóinn. Um fjögur skipti ég um föt og fljótlega eftir það fékk ég einkabílstjórann til að skutla mér að Snorrabraut 37. Staðsetningin var í göngufjarlægð en samt það langt að það hefði komið foss á bakið á mér við göngu þangað. Á Bullseye hitti ég níu aðra af vinnufélögum mínum sem eru með sama yfirmann. Hún var inni í þessari tölu en það vantaði þrjá úr hópnum. Við skiptum okkur í tvö fimm manna lið og kepptum í pílu í um klukkustund. Svo löbbuðum við yfir á Jörgensen sem er staðsett við Hlemm í húsi þar sem arionbanki var með útibú áður. Fengum okkur að borða þar og spjölluðum saman til klukkan níu. Þá fóru flestir að huga að heimferð en einhverjir urðu eftir amk einhverja stund lengur. Ég fékk far heim og horfði á FBI-most wanted áður en ég fór upp í rúm að lesa til ellefu. 

14.10.21

Tæpur hálfur mánuður

Hef alltaf smá tíma á morgnana til þess að vafra aðeins um á netinu og stundum næ ég að setja inn færslu dagsins um gærdaginn. Labba svo af stað í vinnuna um sjö. Þessa vikuna fer ég yfir gönguljósin á Miklubraut, undir brúna við Snorrabraut og upp Eiríksgötu. Svo er misjafnt hversu langt niður Skólavörðustíginn ég geng, stundum alla leið en stundum labba ég Klapparstíginn eða einhvern anna stíg þar í grenndinni. Í gær var ég á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi. Tók til í framleiðslutegundir í þremur vögnum af fjórum. Það er ekki fyrr en upp úr ellefu sem vitað er hvaða tegundir eru til framleiðslu í fjórða vagninum. Eftir morgunkaffi flokkaði ég kennispjöld og einnig eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú leytið. Var svo næstum tvo tíma að koma mér af stað í sund. En það hafðist á endanum. Fór 2x5 mínútur í kalda og synti 300 metra. Þegar ég kom heim um hálfsjö var Davíð Steinn byrjaður að undirbúa og elda kvöldmatinn. Ég hafði tekið hakkrúllu úr frysti um morguninn og hann bjó til kjötbollur og kartöflubáta. Mjög gott hjá honum.

13.10.21

Mið vika

Var mætt fyrst á vinnustað af kortadeildinni í gærmorgun. Var í bókhaldinu. Daglegum verkum var lokið um eitt. Flokkaði kennispjöld eftir það. Um tvö kom beiðnapóstur sem tók um tuttugu mínútur að afgreiða. Að því loknu fórum við allar saman á kaffihúsafund á Kjarvalsstaði. Þar hitti ég fyrir eina sem ég hitti oft í sundi. Við fengum okkur 3 cappucino, 1 swiss mokka og 1 venjulegan kaffi, 2 ostatertusneiðar, eina gulrótar-, eina súkkulaði og eina eplakökusneið. Var komin heim upp úr hálffjögur. Tók til sunddótið og fór beinustu leið í Laugardalslaugina. Þar hitti ég aftur þá sem ég hitti á Kjarvalsstöðum. Fór 3x5 mínútur í kalda, synti 300 metra og var góða stund í gufunni áður en ég fór upp úr og heim. 

12.10.21

Snemmt

Þar sem ég er enn ekki búin að fjárfesta í strætókorti labbaði ég í vinnuna í gærmorgun. Fór yfir Skólavörðuholtið og safnaði uþb 4000 skrefum í leiðinni. Ég var frammi fyrsta kastið, undirbjó pökkun, flokkaði kennispjöld og þegar fyrstu tölur voru tilbúnar taldi ég vagnana með þeirri sem var í bókhaldinu. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Hádegisframleiðslan breyttist í gær. Nú erum við farnar að setja flest kort á form og í umslög en fram að þessu hafa kortin aðeins verið framleidd og send til viðkomandi fyrirtækis. Til að byrja með höldum við áfram að senda kortin til fyrirtækisins en áður en langt um líður munum við fara að senda þau í póst. Þessi breyting gekk annars vel fyrir sig. Eftir hádegi fór ég með 17 flokkaða kassa af kennispjöldum inn í kennispjaldageymslu og kom með 15 óflokkaða kassa til baka. Flokkaði svo kenni spjöld þar til við ákváðum að hætta upp úr klukkan hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni og skellti mér svo í sjóinn um fimm. 

11.10.21

Mánudagur

Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Fyrsta klukkutímann notaði ég í netvafr. Mætti í Laugardalslaugina rétt fyrir tíu. Fór 3 sinnum í kalda, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópottinn og synti 300 metra áður en ég fór upp úr og heim aftur. Vakti einkabílstjórann um hálftvö. Hann ætlaði að skreppa með mér í skottúr austur á Hellu. Hinn sonurinn sagðist ekki komast í þetta sinn, sagðist þurfa að vera kominn aftur í bæinn fyrir klukkan sex og var ekki viss um að það mundi standast. Við Oddur vorum komin austur um hálffjögur. Pabbi varð mjög hissa og glaður yfir þessari óvæntu innrás en svekktur út í sjálfan sig fyrir að eiga ekki pönnsur með kaffinu. Okkur fannst það í góðu lagi. Stoppuðum framyfir kvöldmat og fréttir. Vorum komin aftur í bæinn fyrir klukkan níu. 

10.10.21

Sunnudagur

Klukkan var næstum orðin níu þegar ég var loksins komin í Laugardalinn í gærmorgun. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn, svo þann heitasta og aftur kalda. Svo sat ég góða stund í sjópottinum. Það var ekki fyrr en eftir þriðju ferðina í kalda pottinn að ég fór loks á braut 6 og synti 400 metra, fyrstu þrjá á bakinu. Var komin heim aftur um ellefu. Las aðeins í skammtímalánsbókinni; Hylurinn eftir  Gróu Finnsdóttur. Hellti mér upp á kaffi áður en klukkan varð tólf. Prjónaði á meðan ég hlustaði á hádegisfréttir og svo horfði ég á nokkra þætti úr sjónvarpi símans. Lánaði strákunum bílinn seinni partinn og þeir voru ekki komnir heim aftur þegar ég fór upp í um tíu og kláraði skammtímalánsbókina. Er líka búin með bókina Úr myrkrinu eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Og þær fjórar sem ég á eftir af safninu eru; Silkiormurinn eftir Robert Galbraith, Sonur Lúsífers eftir Kristinu Ohlsson, Hælið eftir Johan Theorin og Feilspor eftir Mariu Adolfsson.

9.10.21

Á leið í sund og hárþvott

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Tók með mér sjósundsdótið og geymdi það í skottinu. Ég var í bókhaldinu í gær og líka eitthvað að flokka kennispjöld. Allri framleiðslu var lokið fyrir tólf og síðasti skápurinn var talinn um eitt. Enginn beiðnapóstur kom um tvö og fékk ég að fara fljótlega eftir það. Skrapp fyrst í Krónuna og með vörurnar heim. Fékk Odd til að sækja pokana tvo til mín í skottið. Hringdi í pabba úr bílnum á bílastæðinu við Nauthólsvík og spjallaði smástund við hann. Klukkan var samt ekki orðin hálffjögur þegar ég var komin í sjóinn. Svamlaði um í uþb korter. Var eitthvað að spá í að synda út að kaðli en nennti því ekki. Tók bara nokkur sundtök, bringu og skrið en svamlaði mest um á bakinu. Kom heim upp úr klukkan fjögur. N1 sonurinn var á aukavakt í Mosfellsbæ til klukkan átta svo ég ákvað að við Oddur myndum borða afganga í matinn. Hafði ætlað að bjóða þeim bræðrum á Pítuna en það verður að bíð'a betri tíma. Horfði á landsleikinn að mestu en ekki allan þó. Sá jöfnunarmarkið. Við erum með nægan efnivið og einnig góða reynslubolta. Það sem hann Birkir Már er enn fljótur kominn nokku "norður" fyrir þrítugt eins og íþróttafréttamaðurinn Einar Örn orðaði það í síðdegisútvarpinu.

8.10.21

Það er komin helgi

Í gærmorgun labbaði ég yfir Skólavörðuholtið í vinnuna, upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg. Ég var fyrst á svæðið en það leið ekki á löngu áður en fleiri mættu. Fram að morgunkaffi flokkaði ég kennispjöld en svo fór ég á ítroðsluendann á vélinni þar til daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Eftir hádegi flokkaði ég fleiri kennispjöld. Erum búnar að flokka í yfir 200 kassa og það eru ca ellefuhundruð spjöld í hverjum kassa. Erum að vinna í að flokka spjöld sem komu og voru skönnuð árið 1999 en fyrstu kennispjöldin voru skönnuð 1993. Um þrjú fórum við þrjár af okkur yfir í K2 en þar var verið að fagna því að forstjórinn verður fimmtug á morgun. Fékk mér eitt freyðivínsglas, áfengt, og stoppaði í rúman hálftíma. Fékk far heim með annarri af þeim tveimur sem voru þarna úr kortadeildinni. Var samferða hinni á staðinn frá K1 en hún ætlaði að prófa RB-kórinn sem var með æfingu seinni partinn í gær. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim rétt fyrir fjögur í gær. 

7.10.21

Morgunstund

Gærdagurinn var svipaður og dagurinn á undan. Fram að morgunkaffi flokkaði ég kennispjöld og milli tíu og tólf var ég á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Eftir hádegi settumst við allar fimm niður í kósíhorninu í skrifstofurýminu og fórum yfir nokkur mál. Hættum vinnu um hálfþrú. Ég fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í um klukkustund áður en ég dreif mig í sund. Að þessu sinni sleppti ég sundinu ekki alveg en synti þó bara eina ferð, 100 metra. Fór þrisvar í kalda pottinn í fimm mínútur í senn. Endaði í gufubaði. Var komin heim aftur um hálfsex. Fjólubláa kaðla-barnateppið er dottið af prjónunum og einnig nýtt eldhúshandklæði. Er búin að fitja upp á nýju stykki sem verður líklega enn eitt eldhúshandklæðið og að þessu sinni nota ég munstur úr teppabókinni. 

6.10.21

Líður á vikuna

Labbaði af stað í vinnuna um sjö í gærmorgun. Ég var aftur inni á vél fram að morgunkaffi, núna á móttökuendanum. Eftir kaffi fór ég í að sortera kennispjöld. Erum komnar að árinu 1999, semsagt búnar að sortera kennispjöld fyrstu fimm ára. Eftir hádegi hélt ég áfram að flokka kennispjöld til klukkan langt gengin í þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Bræðurnir voru í sorpuferð svo ég settist niður í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Klukkan var byrjuð að ganga sex þegar ég fór loksins í sund og það ekki til þess að synda. Það amk æxlaðist þannig að ég fór bara í potta og gufu. Eftir kvöldmat og fram að háttatíma sat ég fyrir framan imbann. 

5.10.21

Ferð á safnið

Slökkti á vekjaraklukkunni korteri áður en hún átti að hringja í gærmorgun. Rétt fyrir sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Fór þvert í gegnum Klambratúnið, Gunnarsbraut, Laugaveg, Klapparstíg og Skúlagötu að Kalkofnsvegi. Ég var að hlaða inn verkefnum og senda af stað fram að kaffi í gærmorgun. Þrjár tegundir út fyrsta verkefninu skiluðu sér ekki yfir og það varð að hringja á vin. Hann gat aðeins sent eina tegundina yfir með því að klippa úr og laga skrána. Það er eiginlega bannað og er þetta vonandi með síðustu skiptunum sem það verður gert. Ef skrár skila sér ekki til okkar verða aðilar sem eru að senda þær til okkar að yfirfara og panta upp á nýtt. Það er mjög leiðinlegt að eitt ranglega pantað kort stoppar af öll hin kortin í tegundinni hvort sem skráin telur 2 eða fleiri. Eftir hádegi sóttum við óflokkuð kennispjöld og hálffulla flokkaða kassa eftir bönkum og sparisjóðum. Það er búið að vera lokað inni í geymslu í rúma viku þar sem það var heimsókn frá eftirlitsaðila í síðustu viku. Hættum vinnu rétt fyrir þrjú og fékk ég far heim. Sú sem skutlaði mér spurði ekki hvort búið væri að bjóða mér far heldur sagði yfir alla að hún ætlaði að keyra mig því það væri orðið svo langt síðan síðast.

Strákarnir voru búnir að sinna heimilisþrifunum. Ég tók til sjósundsdótið mitt og sjö af átta bókasafnsbókum. Fór fyrst á Kringlusafnið að skila bókunum og fékk mér fimm aðrar í staðinn. Ein af þeim bókum er á skammtímaláni. Næst lá leiðin í Nauthólsvíkina. Sjórinn var 6,7°C og ég fór í sjósundsskóna í fyrsta sinn síðan einhvern tímann í apríl eða maí. Það var flóð og ég svamlaði um rétt fyrir utan í rúmar tíu mínútur. Stoppaði svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr. Svo gerði ég ferð á Atlantsolíustöðina við Sprengisand og fyllti á tankinn. 

4.10.21

Ný vinnuvika

Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Fyrsta rúmlega klukkutímann notaði ég í netvafr. Skutlaði N1 syninum í vinnu þannig að hann var mættur klukkan hálftíu. Fór svo beint í sund. Hitti þannig á að kalda potts vinkona mín var að fara fyrstu ferðina í þann kalda þegar ég kom út. Mér finnst langbest að byrja á því að fara beint í kalda en hún byrjar yfirleitt á því að fara í heitasta pottinn fyrst. Fórum sex ferðir í kalda, þann heitasta á milli og svo í gufuna. Ég sat aðeins lengur í gufunni en hún, fór svo í kalda sturtu fyrir utan gufubaðsklefann. Á leiðinni upp úr sá ég frænda minn í kalda pottinum og ég notaði tækifærið til að spjalla aðeins við hann og fór í mína sjöundu ferð í kalda pottinn í leiðinni. Kom heim um hálftólf leytið. Setti handklæði í þvottavél og hellti mér upp á kaffi. Dagurinn leið og var notaður í ýmislegt dútl. M.a. datt eldhúshandklæði/tuska í stærra lagi af prjónunum. 

3.10.21

Sunnudagur

Ég vaknaði við vekjaraklukkuna stuttu fyrir klukkan sjö. Var á undan N1-syninum á fætur og hafði smá tíma til að vafra um á netinu áður en ég skutlaði honum upp á Gagnveg. Vorum komin þangað um hálfátta og sonurinn gaf mömmu sinni kaffi til að taka með fyrir skutlið. Ég fór  beint í Laugardalinn og þurfti að bíða í uþb korter áður en opnaði í sundlauginni. Kláraði kaffið á meðan og reyndar fór ég ekki inn fyrr en ég var búin að hlusta á morgunfréttir í útvarpinu. Sund og potta rútína tók mig eina og hálfa klukkustund. Fór þrisvar í þann kalda, einu sinni í sjópottinn, synti 400 metra, helminginn á bakinu, korter í gufu og sat svo stund úti á stól áður en ég fór inn og þvoði á mér hárið. Hlustaði á tíu fréttir í útvarpinu á leiðinni heim. Restin af deginum fór í alls konar dútl og rólegheit, aðallega netvafr og íþrótta- og þáttagláp. 

2.10.21

Sjóbað í gær

Aldrei þessu vant svaf ég þangað til vekjarinn gaf til kynna að kominn væri tími á fótaferð. Engu að síður hafði ég smá tíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Fyrirliðinn var í fríi í gær svo ég var fyrst á staðinn. Við vorum bara þrjár og ákváðum að halda okkur við sömu vinnustaðina. Það á alltaf við þá sem er í bókhaldinu nema hún þurfi að skreppa eða fara áður en allt er búið. Ég var semsagt á móttökuendanum á vélinni í gær og taldi í og tók til þær tegundir sem voru í framleiðslu. Endurnýjun er lokið og ekki hafin í þessum mánuði, verður ekki fyrr en um miðjan, svo við vorum búnar að framleiða upp úr klukkan hálftólf. Það var bara fínt því milli tólf og tvö voru viðgerðarmenn að yfirfara vélina, nokkuð sem gerist um það bil einu sinni í mánuði. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim milli þrjú og hálffjögur. Klukkan fimm var ég komin í Nauthólsvík. Það er meira en vika síðan ég var síðast í sjónum, hann var mældur 7,4°C í gærmorgun. Ég fór á strandskónum og eftir tíu mínútna busl var ég farin að finna kuldasviða í tánum. Líklega þarf ég að fara að nota sjósundsskóna. Eftir sjóbaðið skrapp ég aðeins í gufubað. Mér fannst of margir í heita pottinum. Á heimleiðinni kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið og harðfisk. 

1.10.21

Vinnuvikan liðin

Vaknaði  áður en vekjaraklukkan hringdi, slökkti á apparatinu og dreif mig á fætur. Hafði smá tíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna. Ég var skráð á framleiðsluvél eftir morgunkaffi en undirbjó pökkun og taldi lagerinn með þeirri sem var í bókhaldinu í gær. Allri framleiðslu var lokið stuttu fyrir tólf. Þá átti bara eftir að telja og fyrirliðinn að svara fleiri spurningum hjá úttektaraðilanum. Labbaði heim rétt fyrir þrjú og var komin í sund um fjögur. Var að klára aðra ferðina í kalda pottinum þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Fór fimm ferðir með henni, fjórar í þann heitasta og svo enduðum við á góðu gufubaði. Ég synti semsagt ekkert í gær heldur. Slapp líka við að elda, heimilisfólk bjargaði sér sjálft með þau mál.