31.8.04

- Lítið um pásur -

Um miðjan dag í gær tók ég við bílnum. Skutlaði Davíð á skrifstofuna, lauk minni skyldu og sótti því næst tvíburana til mömmu. Fyrst fórum við heim með skólatöskurnar og til að skipta um föt því um fimm áttu þeir að vera mætti í Veröldina Okkar í afmælisveislu til vinar þeirra, bekkjarbróður og fótboltafélaga. Þjálfarinn var einmitt nýbúinn að færa æfingatímann til klukkan fimm þannig að það var bara "skrópað" á æfingu þar sem ekki var hægt að vera á tveimur stöðum í einu.

Á meðan þeir voru í afmælinu fór ég heim að sinna eitthvað af heimilisstörfunum sem fyrir láu. En ég stal mér líka smá tíma til að lesa. Fyrir sex vikum náði ég mér í fyrstu þrjár Harrý Potter bækurnar og í síðustu viku í nr. 4 og 5. Ég er semsagt hálfnuð með Fönixregluna. Magnaðar bækur og ég er ákveðin í að lesa þær e-n tímann á móðurmálinu sínu, ensku.

Sótti tvíburana rétt fyrir sjö. Þeir voru ekki tilbúnir til að koma. En við vorum búin að lofa Helgu Vilborgu, sem stjórnaði barnakórnum í fyrravetur, að hitta hana og flesta þá sem hún hafði unnið með og sungið með í KFUMogK húsinu við Holtaveg. Strákarnir misstu af upphituninni en það gerði ekkert til. Um átta byrjuðu svo tónleikar þar sem kenndi ýmissa grasa, m.a. sálmavinafélagið, gospelkór Reykjavíkur, barna og unglingakórar Hallgrimskirkju og fleiri og fleiri. Það var ekki að heyra á barnakórnum að þau væru búin að vera í sumarfríi síðan í maí og þegar gospelkórinn setti allt í fullan gír hríslaðist um mann góð tilfinning. Helga Vilborg var potturinn og pannan í þessu prógrammi enda hugsaði hún þetta sem kveðjutónleika áður en hún, maðurinn hennar og tvö börn fara til Norgegs í trúboðsundirbúning.

Það voru þreyttir bræður sem skriðu upp í kojur rétt rúmlega tíu.

30.8.04

- Skroppið út úr bænum -

Ég fékk skyndihugdettu í gærmorgun og hringdi í pabba fyrir klukkan tíu. Eftir að hafa talað við hann varð ég ákveðnari í að skella mér austur. Skutlaði Davíð og
bróður hans í Kópavoginn og svo brunuðum við mæðginin beinustu leið austur. Pabbi heilsaði tvíburunum kumpánlega og sagði: "-...langt síðan við höfum sést!" Oddur Smári svaraði um hæl: "-Æ, láttu ekki svona afi!".

Þeir bræður fóru beint inn í og hlömmuðu sér fyrir framan sjónvarpið. Ég lét þá eiga sig til að byrja með en eftir að hafa fundið til handa þeim hádegishressingu sagði ég þeim að fara út og nota góða veðrið. Það tók smá stund en þeir voru farnir fyrir hálftvö, til vinar síns upp í hæð og komu ekki aftur fyrr en um hálfátta, léku sér víst úti allan þennan tíma - enda var veðrið til þess. Við vorum boðin í mat og drifum okkur strax í bæinn eftir snæðinginn. Samt var klukkan að slá tíu er þeir komust í rúmið og það sem er svo mikið að gera í dag og fram á kvöld....

29.8.04

- Burtflognir dagar -

Tíminn er ekkert að láta bíða eftir sér þessa dagana frekar en endranær. Skólinn fór hægt af stað og var ekkert heimanám í vikunni. Mamma bauð strákunum að koma í Skaftahlíðina eftir skóla og skutlaði þeim á æfingar fyrstu tvo dagana og sendi þá heim á góðum tíma á föstudag. Við mæðginin hittumst fyrir utan hliðið og sýndi Davíð Steinn mér hróðugur sjöttu barnatönnina sem hann hafði rifið úr sér fyrr um daginn.

Það var ljúft að hitta aftur velflesta kórfélagana sína sl. miðvikudagskvöl og tvö (alt, og tenór) mættu til prufu (og verða mjög líklega með í vetur). Á fimmtudagskvöld-ið var mikilvæg keppni í tímafrekaleiknum svo ég notaði tækifærið og skrapp í heimsókn í annað bæjarfélag.

Fljótlega eftir að við mæðgin komum heim á föstudaginn kom vinkona mín frá London. Eftir að hafa fengið okkur hressingu og spjallað drifum við okkur á Valur - Breiðablik 6:1, strákarnir hjólandi og við tvær gangandi. Það var allt annað að sjá til Vals í þessum leik nema kannski að einn af nýliðunum, Garðar Gunnlaugsson var óheppin að nýta ekki færin sem hann fékk í leiknum. Held að piltinn vanti bara smá sjálfstraust. En sæti í efstu deild að ári er svo gott sem tryggt og eins og staðan er eftir 16 umferðir af 18 lítur út fyrir að Þróttarar fylgi þeim aftur upp en HK á góða möguleika og jafnvel önnur þrjú önnur lið þótt það sé mun fjarlægara hjá þeim. Allt getur gerst!

Er við komum aftur heim var Davíð búinn að sækja tölvuna og farinn á Skjálftamót nr. 2 á og þriðju helgarkeppnina á árinu. Vinkona mín stoppaði aðeins lengur. Strákarnir fengu að horfa á fyrri bíómynd kvöldsins, Rauðu skóna, og fóru því heldur seint að sofa.

Um tíu í gærmorgun ýtti Davíð við mér því ég hafði eitthvað minnst á það að ég vildi hafa bílinn. Oddur Smári vaknaði um svipað leiti en fór bara inn í stofu að lesa Harry Potter og eldbikarinn á meðan ég skutlaði elsta unglingnum upp í Digranes. Davíð Steinn var að rumska er ég kom til baka. Á leiknum kvöldið áður höfðu heyrst raddir um að hafa hátíð á Valssvæðinu frá hádegi. Ég sendi strákana gallaða og hjólandi þangað og tók svo fram ryksuguna. Ég var rétt búin að ryksuga inni í hjónaherbergi þegar þeir bræður komu til baka. Ég bað því Odd um að ryksuga inn í þeirra herbergi og þá spurði Davíð Steinn hvað hann ætti að ryksuga. Það varð úr að þeir skiptu á milli sín þeim gólfsvæðum sem eftir voru í íbúðinni, nema stofunni og frammi á gangi.

Um hálftvö tókum við okkur til og fórum á bílnum áleiðis á Valssvæðið. Afsökunin var sú að strax eftir Valur - Breiðablik 3:0 ætluðum við að verlsa inn. Það var frábært að sjá hversu margir komu á leikinn og fylgdust með stelpunum tryggja sér Deildar-titilinn. Þær spiluðu líka oft á tíðum eins og sannir meistarar þótt þær hafi kannski ekki nýtt öll sín þrjátíuogeitthvað færi í leiknum.


25.8.04

- Grunnskólinn og kirkjukórinn -

Tvíburarnir hófu sinn síðasta vetur í skólanum í morgun. Þeir áttu að mæta í nýja stofu og bekkurinn þeirra heitir 8 ára Þ. Þeir voru orðnir nokkuð spenntir, með nýjar skólatöskur og kveðjur til kennarans frá mér. Ég er ekki í nokkrum vafa að framundan er skemmtilegur og spennandi vetur.

Og í kvöld byrja aftur kóræfingar.

22.8.04

- Sameiginlegur afmælisfagnaður -

Mamma lagði mikið upp úr því að við værum komin austur í síðasta lagi um hádegi í gær. Það tókst svona hérumbil. Gerðum stutt stopp á Selfossi. Sótti rabbarbara til mömmu tvíburahálfsystur og þáðum kaffi og með því í leiðinni.

Það var Hulda frænka sem tók fyrst á móti okkur á Hellu. Hún hljóp beint upp í fangið á mér og gaf mér gott frænkuknús svo hjálpaði hún okkur að afferma og ferma (strákadót) bílinn.

Rétt fyrir tvö var Helga nýbúin að sleppa orðunum: -"Það koma engir gestir fyrr en eftir þrjú!", þegar fyrstu gestirnir renndu í hlað. Ég stakk af í smá stund og kíkti yfir til föðurbróður míns sem var að gera upp gamalt skrifborð í skúrnum hjá sér. En síðan dembdi ég mér í að búa til kaffi. Ég var í sömu fötunum og ég mætti í í skírnarveislu Bríetar og út í bíl var ég með "kaffilituðu fötin" með mér til öryggis. Sem betur fer þurfti ekkert á þeim að halda. Helga systir sá um að tína fram allt sem mamma var búin að baka síðustu daga og það var ekki smá. Næstu gestir komu ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Alls komu 20 gestir en tilefnið var 60 ár mömmu (15. júlí sl.) og það að pabbi fyllir 70 árin í október. Það var búinn til pottréttur í súrsætri sósu, grillað naut, skorið niður í sallat, búin til piparsósa og fyrirfram var mamma búin að búa til tvenns konar kartöflusallöt. Yngstu krakkarnir fengu líka grillaðar pylsur ef þau vildu það frekar. Þetta var hin fínasta veisla og gaman að hitta allt þetta fólk, fjölskyldu og vini. Veðrið var líka alveg ágætt og hægt að vera úti að verönd. Þegar kvöldaði og kulaði var gashitarinn settur í gang.

Um ellefu þökkuðu strákarnir afa, ömmu, Helgu, Ingva, Huldu og Bríeti fyrir vikuna og komu með okkur heim. Þeir eru svo sannarlega búnir að hafa það gott undanfarnar tvær vikur.

21.8.04

- Aftur í bíó -

Fékk Davíð til að sækja mig seinni partinn í gær þar sem ég var með fangið fullt af ómótstæðilegum kössum. Jú, jú, ég er flutt og að pakka upp í rólegheitunum en þessir kassar henta svo vel undir strákadót eða föndurdót. Þegar ég opnaði farangursrýmið á bílnum uppgötvaði ég að þar var enn dót sem var á leiðinni í Sorpu fyrir meira en viku. Skruppum þangað en svo varð Davíð að fara aftur í vinnuna. Ég tók bílinn traustataki og sinnti nokkrum erindum.

Fyrst lá leiðin í Rúmfatalagerinn til að kaupa dúkaklemmur fyrir mömmu. Á meðan ég var að svipast um eftir þeim fann ég ýmislegt annað; litla krúttlega saumavél, blandaða tvinna og sokka á tvíburana og Huldu. Næst fór ég heim að sækja bækur til að skila á bókasafnið. Endurnýjaði bókasafnsskírteinið og fann mér svo fulla körfu af bókum (sumar af þeim reyndar hugsaðar fyrir strákana). Skilaði dvd-myndinni frá kvöldinu áður og fór loks heim. Gat staðist mátið að byrja að lesa en festist við tölvuna þar til kominn var tími til að sækja Davíð.

Við prentuðum út afmæliskort (handa mömmu) áður en við fórum af skrifstofunni. Freistuðumst til að fá okkur kjúklingasallat á American Style og fórum svo að sjá réttu myndina, The village í bíó og að þessu sinni var hún sýnd í Kringlubíó. Mynd sem kom á óvart en þarf ekki endilega að sjá á stóru tjaldi.

Menningarnóttin er í allan dag og fram á nótt. Ég upplifði hana í fyrsta skipti í fyrra (því hún hittist alltaf á sömu helgina og Töðugjöldin á Hellu) og ætlaði mér svo sannarlega að vera með núna. En fyrr í sumar varð ljóst að ég yrði bara að hlakka til næsta árs...

Þangað til næst: FARIÐ VEL MEÐ YKKUR ÖLL!

20.8.04

- Hvert ruku dagarnir? -

Það er kominn föstudagur enn á ný. Þegar ég arkaði af stað seinni partinn í gær var ég með áætlanir um að sækja nokkra kassa úr skúrnum, setja í þvottavél og fleira og fleira. En svo gerði ég lykkju á leið mína og stoppaði í klukkutíma í bankanum en þangað hef ég ekki komið í tvö ár. Þetta var 12. innlögnin mín á 16 árum.

Eftir blóðgjöf er betra að reyna ekki um of á handlegginn næstu tímana svo þar fór áætlunin um kassana út um gluggann í bili. Settist bara við tölvuna og fór að spjalla á msn-inu.

Davíð kom heim á sjöundatímanum. Vorum búin að ákveða að fara ekki á Þróttur - Valur 2:1 og hann ákvað líka að sleppa æfingu í tímafreka leiknum. Í staðinn fórum við bæði í bíó (á "vitlausa mynd", ætluðum að sjá "The village" en hún var bara ekki sýnd í Kringlubíó eins og ég þóttist hafa lesið á kvikmyndavefnum) og leigðum okkur svo dvd-disk strax á eftir. Myndin sem við sáum var The Chronicles of Riddick en hin The whole ten yards. Báðar ágætar en ég hafði samt ekki úthald í að horfa á alla seinni myndina.

Í morgun sá ég svo megnið af tapleik Íslendinganna gegn Kóreumönnum. Ég hafði það svo á tilfinningunni mestan partinn af leiknum að þetta væri alveg að smella og ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur. En það fór sem fór. Nú er bara að vona að strákarnir okkar láti þetta ekki of mikið á sig fá og leggi Rússana á sunnudaginn.

19.8.04

- Uppselt -
- ÍSLAND - ÍTALÍA 2:0 -

Við vinkona mín, sú sem er nýkomin frá London, urðum frá að hverfa hálftíma fyrir leik. Mig grunaði þetta reyndar og var ekkert svo svekkt þar sem ég var alltof lengi að taka ákvörðun. Í staðinn fórum við heim til mín og vorum í ágætu stúkusæti fyrir framan skjáinn. Davíð sá um matinn, kjúkling frá Kentucky, og horfði svo á leikinn með okkur. Hann var sestur fyrir framan skjáinn áður en mörkin komu. Þvílíkur leikur. Það var unun að fylgjast með strákunum okkar, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Reykjavík fékk góða afmæligjöf og Ítalirnir vissu aldrei hvaðan á þá stóð veðrið. Mér fannst strákarnir detta alltof aftarlega í seinni hálfleik en þetta bjargaðist allt. Líklega fór eiginlega allt púðrið í fyrri hálfleik. Og mér fannst ekki leiðinlegt að lesa það sem Buffon lét hafa eftir sér að jafnvel í sínu allra besta formi hefðu þeir átt í erfiðleikum með Íslendingana!

18.8.04

- Kassavinna -

Seinni partinn í gær kom ég við hjá norsku vinkonu minni. Stoppaði góða stund hjá henni en svo kom hún með mér yfir til mín og hjálpaði mér í smá kassa málum. Við fluttum nokkra kassa úr bílskúrnum yfir í geymsluna, aðallega jóladót, og fórum svo upp í íbúð með bókakassa, geisladiskakassa og spólukassa og tæmdum þá á hugsanlega framtíðarstaði. Þetta gekk alveg ágætlega og eftir tæplega klukkutíma törn sögðum við þetta gott. Það er svolítið þreytandi að fara margar ferðir með þunga kassa alla þessa stiga. Engu að síður fannst mér við hafa verið mjög duglegar. Það er gott að eiga góða að. Ég er búin að fá góða aðstoð við ýmislegt úr ýmsum áttum og er ég mjög þakklát fyrir.

17.8.04

- Skrautleg og skemmtileg helgi -

Ég var ákveðin í að fara á fætur í fyrra fallinu en leyfa Davíð að sofa út sl. laugardagsmorgun. Framundan var innflutningspartý. Endirinn varrð samt sá að við sváfum bæði til klukkan að ganga ellefu og fljótlega eftir að ég fór á fætur kveikti ég á SkjáEinum til að fylgjast með upphitun fyrir fyrsta leikinn í ensku deildinni (Everton - Liverpool 1:1).

Eftir hádegi fór Davíð í verslunarleiðangur en ég í tiltektina (hann hjálpaði svo til er hann kom til baka). Fyrstu gestir komu um miðjan dag, vinkona mín og maðurinn hennar. Um sama leyti kom norska vinkona mín en ég hafði þáð tilboði hennar um aðstoð við þrif og tiltekt. Hún sagði mér bara að sinna gestunum róleg og var svo eins og stormsveipur um alla íbúð næstu tvo tímana. Þá kvaddi hún í bili. Hinir gestirnir stoppuðu eitthvað lengur en þau ætluðu að fara á kvöldvökuna á Töðugjöldunum á Hellu og voru farin vel áður en fyrstu gestir mættu.

Vinkona mín sem er nýkomin frá London kom langfyrst en hún var líka búin að bjóða fram aðstoð við veisluundirbúning og skar niður grænmeti með mér í snakk og pastarétt (buðum líka upp á pizzur, bjór, gos og snakk). Fyrstu gestir komu á áttunda tímanum og það voru að tínast inn og út gestir allt kvöldið. Sumir voru að koma úr öðru boði, aðrir að fara í annað boð og einstaka gestur kom og fór og kom aftur. (Margir voru líka búnir að borða þannig að það var heilmikill afgangur af öllu). Þegar sem flestir voru komnir skiptist samkoman eiginlega upp í tvö partý, svalapartý þar sem var geðveikt "hávaða" stuð og stofupartý þar sem var heldur rólegra, meira talað og mússíkinni stillt í hóf. Davíð gerði reyndar nokkrar heiðarlegar tilraunir til að fá upp stuðið í stofunni, hækkaði í græjunum og tók jafnvel sporið fyrir okkur við mikinn fögnuð sumra. Samt var alltaf lækkaði í mússíkinni þegar hann fór aftur yfir í svalapartýið. Síðustu gestir fóru um hálfþrjú nema næturgesturinn
mágur minn.

Í gær vorum við komin á ról fyrir hádegi. Týndum saman það mesta og ég renndi yfir gólfin með rakri tusku. Seinni partinn sóttum við tvíburana Bakkann og fórum með þá á Hellu þar sem þeir verða fram að næstu helgi. Skringilega tómlegt en tíminn nýttur vel.

Á arkinu seinni partinn hringdi ég í vinkonu mína (sem er nýkomin frá London) og spurði hvort ég mætti sækja hana og bjóða með mér á Valur - Fjölnir (6:0) í kvöld. Það var auðsótt mál. Davíð var kominn heim þegar ég kom um hálffimm. Hann var á leiðinni á fund um sex svo ég sótti vinkonu mína strax. Við löbbuðum á völlinn vel fyrir sjö og skemmtum okkur stórvel á leiknum. Nú eru bara tvær umferðir eftir í Landsbankadeild kvenna. Í næstu viku taka Valsstelpurnar á móti Breiðablik og ef þær vinna þann leik er alveg sama hvernig úrslitin verða í lokaumferðinni þegar þær fara til Eyja. En í millitíðinni (eftir næsta deildarleik en fyrir lokaleikinn í deildinni) spila þær líka undanúrslitaleik í Bikarkeppninni og taka á móti KR.

12.8.04

- Ég fór á ról í dag -

Arkaði af stað rétt fyrir hálfátta í morgun. Veðrið yndislegt, leiðin skemmtileg, en mikið hugsað og pælt á leiðinni. Alveg frá átta til fjögur var enginn tími til að hugleiða og spá. Er ég var lögð af stað heimleiðis seinni partinn datt mér í hug að kíkja á Súfistann þar sem tvær frænkur mínar vinna. Þær voru nýbúnar að opna staðinn aftur eftir nokkra tíma "siestu". Kom líka við í apótekinu til að fá mér eitthvað mýkjandi í hálsinn, hann er enn aumur og þarf ég að fara extra vel með hann. Eins gott að það eru ekki byrjaðar kóræfingar. Nú þarf ég að láta hendur standa fram úr ermum. Það hefur safnast upp þvottur og ég hef lítið gert í að koma hlutunum fyrir síðustu daga. En mig langar svo á leikinn FH - DUNFERMILINE, ætti ég að fara.....?
- Hugleiðingar um mistök og fyrirgefningu -

Stundum verður okkur á í mannlegum samskiptum eða daglegu amstri. Er ekki sagt að "mistökin séu til að læra af þeim?". Við erum öll mannleg geri ég ráð fyrir og það er mannlegt að gera mistök. Stundum er verið að tala tæpitungulaust og þá falla kannski óheppileg og vanhugsuð orð. Sem betur fer sér fólk að sér fyrr eða síðar og þá er langbest að ræða út um hlutina og biðjast fyrirgefningar. Gott mál það. Yfirleitt sættast aðilar á eitt, málið er afgreitt og lagt til hliðar - aldrei þarf að tala neikvætt um málin og rifja þau upp eftir sættir. Eða það finnst mér. Mér líður amk eins og ég fái spark í magann sé velt upp gömlum málum sem ég hef gert hreint fyrir mínum dyrum en skammast mín samt fyrir. Líður eins og ég hafi ekki fengið fyrirgefningu og þurfi því að upplifa leiðindin aftur og aftur. Og þá spyr maður tilhvers að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa ef maður getur ekki sleppt taki á hlutunum og hætt að velta þeim upp?

11.8.04

- Veikindi og innivera í veðurblíðu -

Ég er að hjarna við eftir að hafa farið beint að sofa er ég kom heim seinni partinn á mánudaginn og sofið af mér allan gærdaginn. Hálsinn er enn nokkuð aumur en höfuðverkurinn horfinn. Ég er að vona að ég komist á beinu brautina á morgun. Davíð sótti mig í vinnuna og við renndum við í Píluna og pöntuðum okkur myrkratjöld fyrir gluggana í hjónaherberginu. Við getum líklega sótt þau á föstudaginn.

En þessi veikindi höfðu þó eitt gott með sér. Ég gat passað Bríeti í um klukkustund á meðan Helga systir sinnti brýnum erindum í bænum. Ingvi og Hulda biðu fyrir austan. Hulda hringdi þó í mig og spurði hvort hún mætti koma líka en svo ákvað hún að passa frekar pabba sinn svo honum leiddist ekki aleinum þar sem afi og amma eru á smá ferðalagi. Passið gekk þokkalega og hún gerði allt hjá mér, svaf, spjallaði, orgaði og prumpaði. Við eigum eftir að ná enn betur saman í framtíðinni. Það er ég viss um!

8.8.04

- Skírnarveisla, lestur, söngur og fleira -

Strákarnir fóru á kvennaleikinn Valur - Stjarnan 7:0 í gær. Við Davíð vorum heima að tína upp úr kössum og koma dótinu fyrir. Sóttum samt enga kassa inn úr skúrnum. Það er alltaf að koma meiri og meiri mynd á heimilið og það fer loks að líða að því að við mátum myndir á veggina. Allt tekur þó sinn tíma.

Í dag vorum við svo boðin í skírnar veislu í Drápuhlíð 11. Stúlkan fékk nafnið Guðbjörg Lísa Guðmundsdóttir Johnsen og var svo eftir sig eftir skírnina að hún svaf næstum alla veisluna sína af sér.

Mitt í öllum flutningunum og látunum sem þeim fylgdi og fylgir hef ég alltaf gefið mér tíma til að lesa öðru hvoru. Ég hef nýlokið við bók sem Sigfús Daðason setti saman: MAÐURINN OG SKÁLDIÐ STEINN STEINARR. Þessi bók var gefin út 1987 en þá voru tæp þrjátíu ár frá því Aðalsteinn Kristmundsson lést. Ég mæli með þessari bók hún er vel saman sett og í henni er líka að finna margar perlur eftir Stein Steinarr.

Feðgarnir skutluðu mér í kirkjuna rétt fyrir átta í kvöld en brunuðu svo austur á Bakka þar sem þeir bræður verða næstu vikuna. Ég tók hins vega þátt í fyrstu messu eftir sumarfrí og var mjög gaman að hitta þá kórfélaga sem mættu. N.k fimmtudagskvöld verða píanótónleikar í kirkjunni og svo verður einn kórfélagi minn, Ari og bræðrabandið með tónleika á laugardaginn klukkan þrjú.

7.8.04

- Morgunstund -

Ég hef nýlokið við að skrifa enskri vinkonu minni, Janis, emil en hún sendi mér tilkynningu um breytt netfang og ég skrifaði henni um hæl.

Tvíburarnir vöknuðu löngu fyrir níu en þar sem ég fór að sofa fyrir miðnætti þá var ég eiginlega útsofin. Ákvað að leyfa Davíð að sofa aðeins lengur (ekki mikið lengur samt...), útbjó hafragraut handa strákunum og þegar ég uppgötvaði að kveikt var á tölvunni ákvað ég að setjast stund við hana.

Sá einhver "Út að grilla með Kára og Villa" sl. fimmtudagskvöld? Þeir fengu Ólaf Ragnar og Davíð Oddsson í þáttinn til sín, boðuðu þá upp að Perlu. Þátturinn var tekinn upp daginn sem Bríet var skírð (25. júlí). Þetta voru semsagt kokkurinn Ólafur Ragnar og tölvunarfræðingurinn og maðurinn minn Davíð Oddsson. Sá smá brot úr þættinum og fannst frekar fyndið að þeir bræður tóku á móti kumpánum í jakkafötum með bindi á meðan gestirnir mættu frjálslega klæddir. Davíð hafði reyndar spurt hvort klæðnaður skipti máli og hafði fengið neikvætt svar.

En stundin sem ég ætlaði mér í tölvuna er nokkurnvegin liðinn. Mín bíða ótal verk en sennilega byrja á að renna í könnuna. Það er ekkert eins gott og að skipuleggja verkefnin yfir fyrsta kaffibolla dagsins.

6.8.04

- Fjölgun og fleira -

Í gær frétti ég að dótturdóttir ömmusystur minnar væri búin að eignast eineggja tvíburasyni. Þeir voru teknir með keisara í gær og vógu 9 merkur og voru 46 og 47 cm langir. Það verður gaman að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Ég veit núna hvað ég á að gera við sum ungbarnafötin sem ég "fann" í flutningunum.

Hulda frænka svaraði í símann er ég hringdi austur í dag.
Ég: -"Halló Hulda frænka! Hvað segirðu gott?"
Hún: -"Gott og vel. En Anna frænka ég get ekki komið til þín afþví ég er í sveitinni. Pabbi minn er að fara í afmæli og ég er að fara að gráta. Vilt þú koma til mín?"
Ég sagðist vera í vinnunni en sú stutta sagði að ég gæti komið strax eftir vinnu. Stuttu seinna heyrði ég í Helgu systur. Hulda ku vera búin að suða stanslaust um að fara og heimsækja Önnu Siggu (hún er nýbyjuð að kalla mig þetta, oftast er ég Anna frænka). Annars er sú stutta búin að hitta flest afasystkyni sín og spáir mikið í ellina. Hún fann það út að ein systir hans pabba væri gömul afþví hún var með krumpaðar hendur. Aftur á móti var maður hennar ekki með krumpaðar hendur og gat því ekki verið gamall. Þegar hann sagðist samt vera gamall spurði hún: -"Og, hvar er þá stafurinn þinn?"

5.8.04

- Gleymska -

Í gær gleymdu feðgarnir fótboltaæfingu og rúmlega tíu í morgun hringdi tannlæknir tvíburanna í mig og spurði hvar Davíð Steinn væri. Ég hringdi heim og kannaði málið. Í ljós kom að þeir voru allir steinsofandi...

4.8.04

- Meira labb og fleira -

Veðrið var svo gott í gærkvöldi að ég dró alla strákana mína með mér í smá göngutúr upp í Öskjuhlíð. Leiðin lá að vísu nokkuð beint upp í Perlu þar sem sumir fengu ís (mér bauðst nú líka en afþakkaði).

Í morgun tók ég blaðapokann með mér og kom við hjá nýuppgötvuðum blaðagám á arkinu. Ég var ekkert lengur á leiðinni samt. Seinni partinn tók ég svo á mig smá krók og kom við í tveimur fiskbúðum. Keypti lax í Fiskbúð Hafliða við Hlemm og fiskibollur í Fiskbúð Einars.

Davíð var búinn að hella upp á er ég kom heim. Ákváðum að hafa bollurnar í matinn og drifum okkur svo á bikarleik.

HK - Valur 1:0 - jamm, Valsararnir eru dottnir út úr bikarnum (það eru KR-ingarnir nú líka eftir tap gegn FH JIBBÍ fyrir FH) og lítið við því að gera svo sem. Vona bara að þeir haldi haus og haldi 1. sætinu fyrstu í deildinni svo þeir spili í Landsbankadeildinni að ári. Það eru sex umferðir eftir og HK, Fjölnir og fleiri lið eiga möguleika á að vinna og eða ná 2. sætinu.

3.8.04

- Í mörg horn að líta - (...og bæði aftur og fram á við...)

Arkaði af stað tuttugu mínútum yfir sjö í morgun þar eð ég vissi ekki hvað ég yrði lengi á milli staða héðan. Ég var ekkert svo lengi, tæpan hálftíma (og annan hálftíma á leiðinni heim seinni partinn) en nógu lengi samt til þess að hugsanir mínar komust nokkra hringi. Það er bara ágætt.

Davíð og strákarnir voru heima í dag, hann að reyna að ljúka e-u verkefni til að komast í nokkurra daga frí og þeir að lesa Harry Potter (II, leyniklefinn og III, fanginn frá Azkaban). Þegar ég kom heim vakti ég athygli þeirra á því að það væri fínasta veður úti. Þeir létu ekki segja sér það tvisvar (að vísu var pabbi þeirra búinn að spyrja þá í dag hvort þeir vildu ekki fara út...)

Þann 25. júlí sl. var systurdóttir mín skírð. Presturinn sem gaf systur mína og mág saman fyrir sex árum síðan, séra Pálmi Matthíasson, kom á Grettisgötuna rúmlega eitt þennan sunnudag. Allir boðsgestir voru komnir. Ég tók að mér að vera meðhjálpari og dreifði litlum ritum svo allir gætu tekið þátt í athöfninni. Fyrst var sunginn skírnarsálmurinn, Ó blíði Jésú... eftir ritningalestur, ræðu, trúarjátningu og faðir vorið var stúlkan ausin og þá fengum við loksins að vita nafnið Bríet. Hulda skammaði prestinn fyrir að koma við litlu systur sína svona blautur um hendurnar. Að lokum sungum við mæðgin tvö fyrstu erindin af Snert hörpu mína... Þetta var látlaus og falleg athöfn. Ég tók að mér að sjá um kaffimálin. Það varð hálf slysalegt. Systir mín á hvorki kaffikönnu né hraðsuðukönnu. Ég hafði komið með trekt, kaffipoka og nokkra brúsa með mér en gleymdi hraðsuðukönnunni minni svo ég setti upp vatn í stóran pott. Undirbjó trektina og ákvað að flýta fyrir með því að nota pressukönnu systur minnar. Þegar vatnið sauð hellti ég í trektina og svo pressukönnuna fulla. Var rétt byrjuð að pressa þegar kannan sprakk og þótt ég væri með svuntu sluppu ljósu fötin, sem ég var í, ekki. Að öðru leyti slapp ég mjög vel, brenndist aðeins undir annarri hendinni en það er til aloavera planta á Grettisgötunni og mamma braut strax af henni og bar á mig. Ég varð semsagt að fara heim og skipta um föt og hafði orð á því þegar ég kom aftur í brúnu gallapilsi og brúnni skyrtu að ég hefði auðvitað átt að hafa vit á því að mæta til veislunnar í kaffilituðu fötunum.

Eins og fyrr segir er Davíð ekki alveg kominn í frí. Hann vann samt ekkert um helgina eins og hann hafði hugsað sér heldur notuðum við part úr laugardeginum til að halda áfram að koma okkur fyrir. Á sunnudaginn skruppum við á Bakkann og í gær lá leiðin á Hellu. Það eru annars margir að spyrja hvernig okkur gangi að koma okkur fyrir og sumir sjálfsagt hneykslaðir á því hversu hægt það gengur. En okkur finnst betra að rasa ekki um ráð fram, gefa okkur góðan tíma en passa samt að gera eitthvað á hverjum degi (amk ekki láta líða of marga daga á milli svo ástandið venjist ekki og verði viðvarandi). Eitt af því sem við eigum eftir að gera er að panta okkur gluggatjöld fyrir hjónaherbergisgluggann, svalahurðina og baðherbergisgluggann. Á baðinu límdi Davíð láréttar og lóðréttar rendur með málningateypi en í herberginu okkar límdi hann jólagjafapappír og smá maskínupappír. Er það nokkuð furða þótt við vöknum "alltaf" í jólaskapi?