Um það leiti sem Davíð Steinn var að byrja að undirbúa kvöldmatinn í gær, upp úr klukkan þrjú, dreif ég mig út í gönguferð. Skv. forriti í símanum mínum hóf ég gönguna kl. 15:24 og 68 mín og 5,38km síðar var ég búin að ganga réttsælis í kringum Öskjuhlíðina og komin heim aftur kl. 16:32. Þetta var 0.04km lengra en fimm mínútum hraðar heldur en þegar ég labbaði rangsælis í kringum Öskjuhlíðina sl miðvikudag. Vel gert og klapp á bakið mitt. Kvöldmaturinn var tilbúinn um hálfsex, ofnsteikt purusteik, með steiktum kartöflum, piparsósu, sallati og grænum baunum. Virkilega gott. Ég tók að mér að ganga frá á eftir og var búin að því áður en kvöldfréttir á Stöð2 hófust.
Í morgun var ég vöknuð fyrir klukkan átta og mín biðu skilaboð frá sjósundsvinkonu minni sem ég svaraði. Bjó mér til hafragraut á tíunda tímanum og stuttu fyrir ellefu var ég tilbúin, íklædd sundbol innanundir joggingfötum af mömmu, fjólubláu úlpunni, hárið í teygju undir sundhettu og ullarhúfu og í sjósundssokkum og strandskónum sem ég keypti á Spáni 2016. Var með sokka, gönguskó, sjósundsvettlinga og handklæði með mér í poka. Vinkona mín pikkaði mig upp um ellefu og við fórum beint í Nauthólsvík. Hún lánaði mér stærðar "yfirtökuflík", var sjálf í einni utan yfir sinn sjósundsklæðnað. Ég klæddi mig úr úlpu og joggingfötunum og í yfirtökuflíkina áður en við yfirgáfum bílinn og röltum með handklæðin og vettlingana í poka niður að staðnum þar sem við förum yfirleitt út í sjó við Nauthólsvík. Þar fyrir hittum við eina konu sem var að koma upp úr. Sú skrapp út í aftur í eina mínútu. Við hinar tvær svömluðum um og spjölluðum í um 9 mínútur. Vá, hvað þetta var gott. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu smeik um að vera dottin úr einhverri æfingu þar sem það er mánuður síðan ég fór síðast í sjóinn. En heldur betur ekki. Vinkona mín skutlaði mér svo beint heim aftur og við sammæltumst um að vera í bandi n.k. laugardagsmorgun og fæ ég að hafa yfirtökuflíkina lánaða amk þar til opnað verður aftur fyrir aðstöðuna eftir samkomubann, hvenær sem það verður. Þegar heim kom dreif ég mig í sturtu og skolaði svo vel úr sjósundsbúnaðinum.
Bókin sem ég er að lesa núna er Síðasti hlekkurinn eftir Fredrik T Olsson. Var byrjuð á þessari bók fyrir einhverju síðan og ákvað að byrjað aftur frá byrjun. Er búin með fyrsta hlutann af fjórum og er mest hissa á að ég hafi ekki verið búin að ljúka við að lesa þessa bók fyrir löngu síðan, hún er það spennandi.