27.4.16

Kóræfing fellur niður í dag

Í gær var ég um 29 mínútur að ganga 2,57 km til vinnu og 32 mínútur að ganga 2,93 km heim eftir vinnu. Hringdi í pabba fljótlega eftir að ég kom heim, skipti aðeins um bol fyrst og fór líka eina ferð í þvottahúsið. Eftir að við pabbi höfðum spjallað í rúmt korter dreif ég af smá nauðsynleg heimilisverk. Davíð Steinn bauðst til að taka að sér kvöldmatargerðina óspurður og akkúrat þegar ég var búin að koma bygggrjónum í pott með vatni í og kjúklingakrafti og kveikja undir. Ég þáði samt þetta boð. Vorum búin að borða um sjö og þá dreif ég mig í sund í Laugardalslaugina. Það var betra að fá stæði og nóg pláss í lauginni og þeim tveim pottum sem ég nota hvað mest (kaldi og 42 gráðu). Mér sýndist vera nokkuð stappað í sjópottinum og lét það vera að fara í hann. Var komin heim aftur upp úr hálfníu, hress og endurnærð. En rétt fyrir tíu fór að síga á mig notaleg værð og var ég nógu skynsöm að fara að huga að háttatímanum, vitandi það að ég færi á fætur nokkru fyrir klukkan sex til að hafa góðan tíma til að sinna morgunverkum og ganga svo í vinnuna.

26.4.16

Morgunvakt (7-15) þessa vikuna

Var glaðvöknuð upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun, ekkert svo löngu áður en vekjarinn átti að "hnippa" í mig. Dreif mig á fætur, sinnti hefðbundum morgunverkum, tók mig til fyrir vinnuna, stillti svo á mig gönguforritið og labbaði af stað ca. klukka tuttugu mínútur gengin í í sjö. Var hálftíma á leiðinni. Vinnudagurinn til klukkan þrjú leið afar hratt og klukkan þrjú stillti ég forritið aftur og labbaði heim með viðkomu í Valsheimilinu þar sem ég fjárfesti í árskorti á Valsvöllinn í sumar. Stuttu eftir að ég kom heim hringdi pabbi til að athuga hvar hann myndi finna mig. Hann var hér fyrir utan, alveg nýbúin að veifa á eftir mömmu í síðdegisvélina til Akureyrar. Pabbi kom inn í stutta stund og þáði kaffi, en vildi ekki stoppa fram að kvöldmat. Fljótlega eftir að hann kvaddi og lagði í hann austur dreif ég mig í sund. Erfitt var að fá bílastæði í Laugardalnum, þ.e. það voru reyndar stæði við Laugardalsvöllinn, nær Laugardalshöllinni. Ég safnaði því nokkrum skrefum í viðbót á leiðinni í og úr sundi. Eldaði bleikju þegar ég kom heim og horfði svo á handboltaleikinn á RÚV2 og fylgdist með á netmogganum hvernig gekk í leik í FH og Vals í keppninni meistarar meistaranna (deildar og bikarmeistara í knattspyrnu 2015 að etja kappi). Seinna náði ég í þáttinn "Svikamylla" frá því á sunnudagskvöldið.

25.4.16

Aðeins um nýliðna helgi

Mætti í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um átta og sinnti hefðbundinni sund- og pottarútínu. Kom heim aftur rétt fyrir tíu, gekk frá sunddótinu og fór að huga að því að taka mig til fyrir smá austurskrepp þar sem ég gerði svona frekar ráð fyrir því að gista. Það tók mig smá tíma að koma mér af stað en klukkan var þó bara rétt að byrja að ganga tólf þegar ég kvaddi þann soninn sem var vaknaður og "brunaði af stað" austur. Var með bækur og saumana mína með mér. Las aðeins í einni bókinni en opnaði aldrei handavinnutöskuna. Hins vegar fékk ég að setja lánsbílinni inn í skúr hjá pabba þar sem ég gat ryksugað hann og þvegið að innan. Utandyrahreingerning bíður aðeins lengur.

Í gærmorgun var ég vöknuð fyrir allar aldir eða fyrir klukkan sjö. Fór á fætur um átta og upp úr ellefu fór ég að huga að heimferð. Það var til þess að geta komið við heima og gengið frá dótinu mínu áður en ég mætti í "dixílandmessu" í kirkjuna mína um tvö. Sé ekki eftir að hafa mætt því það var mikil og góð sveifla í gestakórnum og hljómsveitinni sem fylgdi þeim. Mæting almennra kirkjugesta hefði alveg mátt vera betri. Eftir smá maul eftir messuna var aðalfundur safnaðarins haldinn og hann var enn fámennari. En við erum komin með nýjan formann og tvo nýja meðstjórnendur.

Strax eftir fundinn sótti ég einkabílstjórann og hafði hann með mér í Krónuna við Granda. Hann keyrði heim, gekk frá vörunum og skutlaði mér svo á Kryddlegin Hjörtu um sex þar sem ég hitti eina góða vinkonu mína og átti með henni nokkrar góðar klukkustundir. Bræðurnir fengu lánaðan bílinn til að skreppa í heimsókn til pabba síns.

23.4.16

Í sveitinni

Labbaði í vinnuna í gærmorgun. Rétt fyrir hálfellefu fórum við fyrirliðinn í K2 á stuttan, fróðlegan fund með nokkrum öðrum vegna verkefnis sem er að fara í gang. Vorum komnar til baka þremur korterum síðar. Um þrjú hringdi ég í einkabílstjórann og bað hann um að fara með allan pappír sem hafði safnast upp heima í gám og sækja mig svo um fjögur. Bað hann einnig um að taka með sér bókasafnspokann sem ég hafði skilið eftir á rúminu mínu.

Einkabílstjórinn sótti mig á réttum tíma og byrjaði á því að skutla mér á safnið. Skilaði af mér 4 bókum og rétt náði að hemja mig áður en ég féll í freistni. Er enn með fjórar af safninu síðan ég fór síðast og það borgar sig að ljúka við að lesa þær og skila áður en ég tek aðrar bækur af safninu.

Hafði svo rúma tvo tíma heima áður en einkabílstjórinn skutlaði mér í súpukvöld KÓSÍ hjá formanni kórsins. Ég tók 4 litla Faust hvítvínsflöskur með mér. Nánast allur kórinn mætti og var okkur boðið upp á dýrindis kjötsúpu og svo kaffi og marenstertu í eftirrétt. Í þessum hittingi var farið yfir komandi "slútt" en kórinn ætlar að bregða sér í dagsferð um Hvalfjörð og Borgarfjörð einn laugaradaginn í næsta mánuði.

Fékk far heim með annarri nöfnu minni upp úr hálfellefu og kom heim með helminginn af hvítvínsflöskunum.

22.4.16

Framundan er helgi.

Klukkan var rétt að slá átta þegar ég renndi í stæði við Laugardalslaugina í gærmorgun. Synti í um tuttugu mínútur, fór þrisvar í kalda pottinn og eftir seinustu ferðina endaði ég í hálftíma sólbaði í steinapottinum ásamt tveimur spjallvinkonum. Í fyrstu kaldapottsferðinni kastaði á mig kveðju, með nafni, Magnús nokkur Kristinsson. Mæður okkar eru vinkonur, systir hans jafnaldra mín og það er til mynd af þeim og okkur systrum í lautarferð inn við Haukadal er við vorum krakkar. Þau höfðu komið í heimsókn með foreldrum sínum og það var ákveðið að fara í bíltúr að skoða nærumhverfi Heklu m.a. minnir mig.

Kom heim um tíu en var farin aftur út úr húsi rétt fyrir ellefu. Skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar. Við gerðum atlögu að smá esperanto þýðingu og enduðum á rúmlega 4 km göngu meðfram sjónum. Eftir að ég kom heim aftur gerði ég nánast ekki neitt af viti og slapp meira að segja alveg við að elda kvöldmatinn, Davíð Steinn bauðst til að taka það verk að sér og gerði það með ágætum.

21.4.16

Sumardagurinn fyrsti

Var vöknuð nokkuð á undan vekjaraklukkunni um hálfsex í gærmorgun. Sinnti morgunrútínunni, tók mig til fyrir sund og vinnu og var mætt á lánsbílnum í Laugardalinn um það leyti sem opnaði klukkan hálfsjö. Synti í um tuttugumínútur og var í minni áætluðu seinni ferð í kalda pottinum þegar ég varð vör við að Lena var að koma upp úr lauginni. Það varð til þess að ég fór tvær aukaferðir í þann kalda og svo beint upp úr eftir fjórðu ferðina til að vera mætt í vinnuna klukkan átta.

Vinnudagurinn leið afar hratt eins og oftast áður. Fór beint heim þótt ég væri að hugsa um að koma við í snertilausuþvottastöðinni sem og í Valsheimilið. Það var einn bíll í röðinni við þvottastöðina svo ég frestaði þeim gjörningi. Stuttu fyrir hættutíma í vinnunni hafði ég farið inn á knattspyrnuvefinn og skráð hjá mér alla heimaleiki í Pepsídeild karla og kvenna komandi leiktíð. Nú á ég aðeins eftir að kaupa mér árskortið á völlinn. Fyrsta umferð hjá strákunum er 1. maí og það er heimaleikur hjá VAL svo ég hef rétt rúma viku til að verða mér út um aðgöngukortið.

20.4.16

Síðasti dagur vetrar á almanaki

Labbaði báðar leiðir í og úr vinnu í gær. Ekkert útstáelsi var á mér eftir að ég kom heim. Sinnti smá heimilisstörfum og kvöldmatargerð, horfði á Valur - Fram í sjónvarpinu (og var meira að segja með saumatöskuna til hliðar þótt ég opnaði hana nú ekki), vafraði aðeins um á netinu, las og passaði svo upp á að vera komin í ró um hálfellefu. Stutt og laggott að þessu sinni. :-)

19.4.16

Morguninn var gráhvítur

Hann var hálfnapur á göngunni í vinnuna á áttunda tímanum í gærmorgun. Enda fór ég stystu leiðina, 2,5 km og var rétt tæpar tuttuguogníu mínútur á leiðinni. Vinnudagurinn, til fjögur leið jafn hratt og vanalega. Kl. 16:09 ræsti ég gönguforritið aftur og labbaði aðeins aðra leið heim. Samt ekki nema 2,66 km og var ég þrjátíuogeinaoghálfa mínútu. Milli klukkan fimm og sjö gerði ég ýmislegt af mér heima við. Eldaði m.a. dýrindis bleikjurétt upp úr sjálfri mér, þ.e. ég notaði hluta af því grænmeti sem ég átti í ísskápnum í ofnréttinn, rauðkál, brokkolí, gulrætur og sveppi sem ég skar niður og setti í eldfast fat. Bleikjuflökin setti ég ofan á grænmetið með roðið niður og kryddaði svo með hvítlauksdufti, sítrónupipar og myntu. Þetta fór í ofninn á 170 gráður í ca tuttugu mínútur. Með þessu hafði ég hýðisgrjón soðin með smá kjötkrafti út í.

Rétt fyrir átta var ég mætt í Laugardalslaugina og ég var komin ofan í næstum því á slaginu, aðeins rúmlega þó. Fékk alveg eina braut fyrir mig. Synti ekki nema í um tuttugu mínútur, fór tvisvar sinnum 3 mínútur í kalda pottinn, nuddpottinn (40 gráður) á milli og í gufubaðið eftir seinni ferðina. Var komin heim aftur upp úr hálftíu, endurnærð. Náði í "svikamyllu" á frelsinu og horfði á þáttinn frá því á sunnudagskvöldið. Náði einnig að senda tilkynningu í moggann vegna næstu messu og uppfæra heimahöfnina og facebookvegg safnaðarins áður en ég fór í háttinn.

Las aðeins í nokkrar mínútur enda klukkan farin að ganga tólf. Annars er ég með nokkrar bækur í takinu, bæði af safninu og einnig eigin ólesnar bækur. Ég er reyndar ekki byrjuð á þeim öllum en er að lesa tvær og að spá í að byrja á þeirri þriðju. Lestrarhestuinn í mér alveg kominn á fullt. Mikið vildi ég að ég væri jafn dugleg að taka upp saumana mína. Reyndar hefur það komið upp í hugann að fara að grípa í hekl og prjón en það hefur enn ekkert orðið úr því, hvað sem síðar verður.

18.4.16

Enn ein helgin að baki

Hún var ekki lengi að líða blessuð helgin. Báða dagana var ég mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta og kom heim aftur tveimur tímum seinna. Rétt fyrir hádegi á laugardeginum skutlaði einkabílsstjórinn mér yfir í Kópavoginn þar sem mér og fleiri vinnufélögum hafði verið boðið í "brunch". Og hlaðborðið var framúrskarandi fjölbreytilegt, fallegt og gott. Félagsskapurinn var líka alls ekki af verri endanum. Ein úr vinnunni kom með rúmlega ársgamla dóttur sína sem ég hafði frekar gaman af að kjá í og snúllunni virtist ekki leiðast athyglin.

Oddur Smári sótti mig um hálfþrjú og við byrjuðum á því að fara í verslunarleiðangur í Krónuna við Granda. Jamm, smá spölur, þetta er uppáhalds verslunarstaðurinn okkar. Á heimleiðinni hafði Davíð Steinn samband og bað um að verða sóttur upp í skóla. Spilakvöldið sem átti að fara fram í austurhluta Kópavogs var fært heim til okkar og stuttu eftir að búið var að ganga frá verslunarvörunum komu tveir af spilafélögunum. Strákarnir fjórir spiluðu næstum til miðnættis á meðan ég dundaði mér við annað, ýmist inni í stofu eða í fartölvunni inni í herberginu mínu.

Rétt fyrir hádegi í gær, lögðum við einkabílstjórinni af stað austur á Hellu. Davíð Steinn var vakinn en það var vitað að hann þyrfti heldur að nýta tímann í verkefnavinnu í skólanum. Um leið og við Oddur vorum komin austur skipti hann yfir í vinnubuxur sem eru til þar og fór aftur út til að skipta um dekk undir leiðsögn afa síns. Þeir fóru svo út að olísstöð á eftir til að mæla og jafna loftið í heilsársdekkjunum sem sett voru undir. Við mamma bjuggum til stafla af pönnsum, sem voru svo hafðar með kaffinu, á meðan þessu fór fram. Eftir kaffið skrapp ég aðeins á elliheimilið til að heimsækja fyrrum nágranna foreldra minna. Horft var á fréttir fyrir kvöldmat og var klukkan farin að ganga tíu er við Oddur héldum til baka í bæinn, enda þurfti ég að fá mér smá kaffi eftir matinn áður en ég var tilbúinn til að kveðja.

16.4.16

Amk 15533 skref í gær

Enn og aftur vaknaði ég á undan vekjaranum. Hugsaði aðeins um hvort ég ætti að skella mér aftur í morgunsund og þar af leiðandi fara aftur á lánsbílnum í vinnuna. Ákvað þó að fara frekar gangandi í fyrra fallinu og taka aðeins lengri leið en beinustu leið. Gekk þó ekki nema 3,19km á tæpum 35 mínútum og var þar af leiðandi komin í vinnuna heilum tíu mínútum fyrir klukkan átta. Rúmum átta tímum seinna labbaði ég aftur heim, 2,7km á ca hálftíma. Sendi pabba smáskilaboð og hann hringdi til baka og spjallaði við mig í nokkra stund, líklega um korter. Rétt eftir að við höfðu kvatt og lagt á hringdi heimasíminn. Það var norska esperanto vinkona mín. Við ákváðum að hittast á fyrirlestri á vegum Lífsspekifélagsins fljótlega eftir kvöldmat. Hafði mjög einfaldan pastarétt í matinn, pasta, túnfiskur, tómatsósa og krydd.

Í stað þess að labba niður að Ingólfsstræti 22, fór ég á lánsbílnum og lagði honum á bílastæðið sem er þar sem Grænn Kostur var en nú er hamborgarastaðurinn Block Burger. Ein vinkona Inger kom líka á fyrirlesturinn sem var um ævi og störf Jóns Sigurgeirssonar (1909-2003) sem var lengi kennari á Akureyri en einnig mjög virkur á andans málefnum og starfsemi. Eftir fyrirlesturinn fórum við upp á efri hæð og fengum okkur kaffi og meðlæti, þ.e. ég og Sigurrós. Inger fékk sér bara te. Seinna skutlaði ég þeirri síðarnefndu heim og héldum spjallinu áfram í nokkra stund út í bíl fyrir utan heimili hennar. Semsagt, gærdagurinn var langur og góður.

15.4.16

Apríl hálfnaður

Vekjaraklukkan var ekki búinn að hringja þegar ég vaknaði upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun. Slökkti á vekjaranum sem var stilltur á 05:50. Sinnti morgunverkunum og tók mig til fyrir sund og vinnudaginn. Var mætt í Laugardalslaugina um það leyti sem opnaði og byrjuð að synda tuttuguog tveimur mínútum fyrir sjö. Eftir 500 metra "sprett" skellti ég mér í kalda pottinn. Fór þrisvar sinnum í þann pott, tvisvar í 42 gráðu pottinn og endaði svo nokkrar mínútur í sjópottinum áður en ég þurfti að koma mér upp úr og í vinnuna.

Strax eftir vinnu fór ég með bílinn í Frumherja í Skeifunni og "flaug" hann í gegnum skoðunina athugasemdalaust. Þannig að nú er komnir bláir miðar með tölunni 17 á á númeraplöturnar. Kom heim upp úr klukkan fimm en það var ekkert útstáelsi á mér eftir það. Hringdi í pabba og svo í tvíburahálfsystur mína. Hún þurfti reyndar að fá ljúka smá erindum og hringdi svo í mig til baka nokkrum mínútum seinna. Við töluðum saman í nákvæmlega klukkutíma, svo langt er síðan við hittumst og spjölluðum. Bræðurnir tóku að sér ryksugun og ég sá um kvöldmatinn (góð skipti það).

14.4.16

Lánsbíllinn skoðaður athugasemdalaust

Annan daginn í röð fór ég gangandi til vinnu upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Fór stystu leið, beint yfir Skólavörðuholtið og var innan við hálftíma á leiðinni. Vinnudagurinn var nokkuð erilsamur enda leið hann frekar hratt. Klukkan fjögur labbaði ég af stað heim og fór hægra meginn við Skólavörðuholtið (Lækjargötuna, meðfram tjörninni, gömlu Hringbraut). Ég var rennblaut á bakinu er ég kom heim um það bil hálftíma seinna en sem betur fer hafði ég haft vit á því að fara í sama bolnum og í var í á göngunni um morguninn og var með hinn í bakbokanum. Lét pabba vita að ég væri kominn heim en væri á leið á kóræfingu fljótlega. Hann hringdi til baka um hæl og við spjölluðum stuttlega. Á kóræfinguna mættu ellefu auk kórstjóra og þar sem það voru aðeins tvær í alt og við fjórar í sópran "villtist" ég stöku sinnum viljandi yfir í altinn eða alveg þangað til kórstjórinn benti mér á að væri sópran. Æfingin stóð fram að kaffi en afgangurinn af tímanum fór m.a. í að funda um og ákveða hvernig við myndum slútta vetrinum. Segi frá því seinna. Áður en ég fór heim fyllti ég á tankinn á lánsbílnum á atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð.

13.4.16

Gengið til og frá vinnu

Þar sem strætókortið er útrunnið og veðrið í gær var nokkuð gott ákvað ég að fara gangandi að heiman ca korter yfir sjö. Kveikti á gönguforritinu rétt eftir að ég var lögð af stað og labbaði svo eftir Eskihlíðinni undir brýrnar við gatnamótin, yfir göngubrúna við Landsspítalann og Bergstaðastræti og Ingólfsstræti. Þetta voru rúmir tveir kílómetrar og tæpur hálftími. Var sem betur fer með aukabol í bakpokanum. Vinnudagurinn var fljótur að líða en stuttur í annan enda þar sem við í deildinni fórum saman á kaffihús í Þjóðmenningarhúsinu upp úr hálfþrjú og héldum smá deildarfund. Að fundi loknum kveikti ég á gönguforritinu og labbaði beint yfir Skólavörðuholtið og Klambratúnið heim. Hringdi í pabba. Hafði bleikju í kvöldmatinn og skrapp í sund milli klukkan átta og hálftíu.

12.4.16

Sundferð að kvöldi

Í gær var síðasti gildi dagur rauða strætókortsins. Ég var að leysa fyrirliðann af í vinnunni og tók vagninn klukkan hálfátta og var mætt ca korter fyrir átta. Vinnudagurinn leið frekar hratt og teygðist aðeins í annan endann þar sem ég vildi klára ákveðið verkefni frá. Tók þristinn upp á Hlemm stuttu fyrir fimm. Þegar ég steig úr vagninum hitti ég konu (úr sama vagni) sem ég söng með í Landsbankakórnum fyrri part ársins 2003. Hún var að skipta yfir í 11 og það munaði minnstu að ég elti hana upp í þann vagn þegar hann kom því við vorum í miðjum samræðum. Ég ákvað hins vegar að fara heldur heim en þurfti að bíða aðeins lengur á Hlemmi eftir 13. Þegar ég kom heim sendi ég pabba spurningu með smáskilaboðum um hvort hann þyrfti ekki að eyða nokkrum "gemsaskrefum" og uppskar hringingu frá honum innan örfárra mínútna.

Eftir kvöldmat ákvað ég að drífa mig í sund í Laugardalinn. Synti í um tuttugu mínútur og fór tvisvar í þann kalda, eina ferð í 42 gráðu pottinn og endaði í gufubaði áður en ég fór aftur upp úr og heim. Kveikti ekkert á imbanum í gær, heldur vafraði um á netinu, las í einni af safnbókunum og passaði upp á að fara að sofa áður en klukkan sló tólf.

11.4.16

Alls konar um nýliðna helgi

Báða helgidagana var ég mætt í laugina rétt upp úr klukkan átta. Synti í um hálftíma á laugardagsmorguninn en aðeins tæpar tuttugu mínútur í gærmorgun. Sólin var aðeins að stríða mér í annarri hvorri ferð. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan ellefu og stoppaði heldur styttra en oft áður því við vorum búnar að mæla okkur mót aftur um miðjan dag. Kíktum þó aðeins yfir nokkur esperanto orð áður en ég dreif mig í Krónuna. Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom heim og sagði mér í leiðinni að það yrði haldið "spilakvöld" hjá okkur seinna um daginn og aðeins fram á kvöld.

Rétt fyrir þrjú tók ég leið 13 niður á Lækjartorg til að fara í sama hús og kvöldið áður. Þar mættu líka Inger og ein vinkona hennar. Þær stöllur hafa mætt á svona viðburði nokkrum sinnum áður. Hjá Lífspekifélaginu var kyrrðarstund um hálffjögur og fljótlega að henni lokinn farið yfir margar áhugaverðar bækur um lífsspeki, gefnar út alveg frá því um 1900 og til 2015.

Mér lá ekkert á heim og hugsaði sem svo að það væri gaman að láta verða að því að hoppa upp í næsta strætó og fara einn hring með honum. Næsti vagn var númer 11 og ég ákvað að fara úr á Hlemmi og prófa að fara lengra en að Laugardalslauginni með leið 14. Fór alla leið að Glæsibæ því klukkan var orðin sex og mig langaði allt í einu í böku á Saffran. Hringdi í annan soninn til að athuga hvort þeir væru enn að spila og búnir að hugsa fyrir mat. Þeir bræður voru meira en til í að fá sér líka eitthvað frá Saffran. Það varð úr að ég pantaði þrjár bökur til að taka með (hamingjubaka, baka vikunnar og djöflabaka) og Oddur Smári kom og sótti mig.

Eftir sundið í gærmorgun kom ég beint heim, hellti upp á kaffi og slakaði á til hádegis. Þá skipti ég um föt, tók til sálmabók og fleiri nótur og mætti upp í kirkju áður en klukkan varð eitt. Í messunni voru fermd átta ungmenni, þar af tvennir tvíburar og svo var skírður 3 ára ættleiddur drengur frá Ungverjalandi sem var tengdur öðru tvíburaparinu.

Strax eftir messusyngið fór ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði öllum bókunum fjórum sem ég fékk lánaðar fyrir um hálfum mánuði. Hafði reyndar aðeins lokið við að lesa þrjár bókanna en sú fjórða greip mig ekki svo ég ákvað að skila henni. Hins vegar komu átta bækur með mér heim af safninu og ein af þeim með 14 daga skilafresti. Kom við í Lyfju áður en ég fór heim til að leysa út testosteronskammt fyrir Odd.

9.4.16

Sundlaugardagur!

Gærdagurinn var aðeins öðruvísi en til stóð. Við, í minni deild, ætluðum t.d. að vera búin með allt daglegt og hætta vinnu fyrir klukkan þrjú til að skreppa á fund í K2 sem forstjóri fyrirtækisins hafði boðað til með góðum fyrirvara. Skylduverkin létu sum hver  bíða aðeins eftir sér sem varð til þess að við 100% manneskjurnar urðum að standa vaktina til fjögur.

Ég fékk reyndar að fara aðeins fyrir fjögur til að komast upp í Brimborg með strætó fyrir lokun. Það var hringt í mig af verkstæðinu um þrjú til að segja mér að búið væri að laga tvö atriði af þremur. Til þess að geta lagað það þriðja þarf að panta varahlut að utan og bilunin er ekki það alvarleg að það liggi alveg á því (rifa í gúmmílista við bílstjórahurðina). Eftir að hafa gert upp við verkstæðið fór ég beint heim.

Straujaði skyrtu annars sonarins en þeir bræður voru á leið í veislu. Þeir voru sóttir af pabba sínum rétt fyrir sjö. Korteri eftir að strákarnir fóru tók ég leið þrettán niður á Lækjartorg og labbaði upp í húsnæði sem heldur utan um starf Lífsspekifélagsins. Þar hafði ég mælt mér mót við norsku esperantovinkonu mína til að hlusta á fyrirlesut um ágrip af fræðum Jungs. Klukkutíminn var fljótur að líða og mér fannst fyrirlesturinn rétt að komast í gang þegar tímamörkin voru liðin. En á efri hæðinni var hægt að kaupa kaffi og með því og setjast niður og spjalla um fyrirlesturinn og fleira. Klukkan var því langt gengin í ellefu þegar ég kom heim aftur.

8.4.16

Búin að fá lánsbílinn aftur

Vinnudagurinn í gær var töluvert frábrugðinn miðað við vanalega. Engu að síður leið dagurinn frekar fljótt. Um hálffjögur var ég mætt í K2 í starfsmannaviðtal. Þegar því lauk gat ég farið beint heim. Í stað þess að labba alla leiðina, trítlaði ég á Hlemm og tók leið 13 þaðan. Um að gera að nýta strætókortið á meðan það er í gildi. Hefði samt alveg viljað að ég hefði haft hugsun á því að hafa sunddótið mitt í bakpokanum og fara fyrst í sund.

Ég var annars eitthvað hugsi yfir að heyra ekkert frá verkstæðinu og lánsbílnum og hringdi til að kanna málin. Þá var mér tjáð að það yrði farið í þetta mál og klárað fyrir helgi og ég myndi heyra frá þeim á morgun (í dag föstudag).

Eftir að heim kom fór ég ekkert út aftur, heldur sinnti smá húsverkum og fékk ég unga manninn sem var heima við í lið með mér. Hinn ungi maðurinn kom seint heim eftir að hafa verið í skólanum fram á kvöld og skroppið svo í bíó með vini sínum. Ég hafði hakk og spakk í kvöldmatinn og horfði svo á úrslitaþáttinn í íslensku léttavigtarkeppninni og seinna á glæpahneygð.


7.4.16

Dagarnir þjóta áfram

Tók sunddótið með mér í vinnuna í gær. Vinnudagurinn leið bara nokkuð fljótt og ég náði meðal annars að klára hið árlega öryggispróf upp á níu. Klikkaði á einni spurningu af tíu og ég vissi það um leið og ég smellti á senda hnappinn að ég hefði ekki átt að breyta svarinu. En ég þurfti bara að ná sjö til á ná svo ég get verið sátt. Heyrði ekkert frá verkstæðinu vegna lánsbílsins svo ég fór beint í Laugardalinn, með leið 6 upp á Hlemm og 14 þaðan, eftir vinnu. Lauk sundpottagufurútínunni á uþb klukkstund og var komin heim rétt upp úr sex (með leið 14 úr Laugardalnum á Hlemm og leið 13 þaðan).

Oddur Smári var kominn heim og Davíð Steinn kom heim rétt á eftir mér. Á meðan ég hringdi austur setti síðarnefndi sonurinn upp hrísgrjón að minni beiðni. Hann gleymdi reyndar að lækka undir þeim en ég kom í eldhúsverkinn nógu snemma til að bjarga því að grjóninn festust í pottinum. Skar niður ýmis konar grænmeti (hvítkál, rauðkál, sveppi og paprikur) og setti í eldfast mót. Þar ofan á setti ég tvö bleikjuflök sem ég kryddaði með sítrónupipar, hvítlaukskryddi og smá cayannepipar áður en ég stakk þessu inn í 180 gráðu heitan ofn í tuttuguogfimm mínútur. Mmmm, ég fæ vatn í munninn við að rifja þetta upp en er að vísu alls ekki svöng á þessum tímapunkti.

6.4.16

Miðvikudagur

Í gærmorgun vaknaði ég á undan vekjaranum sem reyndar var stilltur á rétt fyrir sjö. Dreif mig á fætur og sinnti hefðbundnum morgunverkum. Ákvað svo að fara með strætó klukkan hálfátta í vinnuna og var mætt ca korteri fyrir heilatímann. Nóg var að gera í vinnunni og svo endaði vinnudagurinn á fundi sem stóð yfir í rúman klukkutíma og þurftu sjövaktin að vera lengur þess vegna. Úr vinnunni fór ég beint á annan fund, mánaðarlegan safnaðarstjórnarfund í kirkju óháða safnaðarins. Þetta var síðasti fundur fyrir aðalfund sem verður haldinn fjórða sunnudaginn í þessum mánuði. Það var boðið upp á rjómatertur, afgang úr erfidrykkju frá því deginum áður. Og ég sem ætlaði að halda mig frá sykri og sætindum í gær, stóðst ekki mátið. Allir fundargestir fengu sér en samt var afgangur sem við vorum beðin um að skipta á milli okkar. Ég var nú ekki á því að fara að trítla með rjómatertubúta undir hendinni þótt ekki væri langt að fara en þá tók sr. Pétur ekki annað í mál en að skutla mér heim, því hann vildi endilega að synir mínir fengju smá sendingu. Bræðurnir tóku vel á móti þessari sendingu og annar þeirra hafði á orði að þetta endaði með því að hann þyrfti að drífa sig í messu því þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég kem með veisluafganga heim.

5.4.16

Jæja!

Mér lætur best að skrifa um brot af mínu eigin daglega lífi og þar með ætla ég að gera smá grein fyrir gærdeginum. Aldrei þessu vant svaf ég alveg þar til vekjarinn fór í gang, þ.e. ég var ekki vöknuð tíu mínútum fyrr til að slökkva á klukkunni. Klukkan var líka stillt á 05:50 þar sem ég hafði hugsað mér að byrja á því að skreppa fyrst í sund áður en ég færi í vinnuna. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr hálfsjö í gærmorgun. Synti 500 metra og var búin að fara tvær ferðir í kalda pottinn og sat í 42 gráðu pottinum þegar Lena kom. Það varð til þess að ég fór tvær aukaferðir í þann kalda eingöngu til þess að geta átt pottormastund með henni því við vorum ekki búnar að hittast í næstum mánuð, og alls óvíst hvenær við hittumst næst. Eftir fjórðu ferðina mína fór ég aðeins í sjópottinn. Þar var ég nokkrum mínútum lengur en ég hafði áætlað þannig að ég varð að drífa mig beint upp úr og sleppa gufu- og smá sólbaðsútisetu. Gaf mér samt tíma til að blása á mér hárið sem er að síkka jafnt og þétt þessi misserin.

Vinnudagurinn frá átta til fjögur leið afar hratt við margvísleg dagleg störf. Um leið og vinnu lauk fór ég með lánsbílinn upp á Bíldshöfða og skráði hann inn í smá lagfæringar hjá Brimborg. Afturhurðina hægra meginn hefur ekki verið hægt að opna lengi, lengi, afturrúðuþurrkan hætti að virka rétt fyrir páska og um helgina tók ég eftir að gúmmílistinn við bílstjórahurðina er rifinn á smá kafla. Eins gott að láta laga og gera við áður en ég athuga hvort bíllinn komist í gegnum skoðun.

Rauða kortið gildir alveg til 11. apríl n.k. og það verður örugglega vel nýtt þessa síðustu gildisdaga. Er jafnvel að spá í að taka auka strætórúnt, einhverja/r leið/ir sem ég hef aldrei prófað eða þurft að nota og fara þá í smá útsýnistúr um höfuðborgarsvæðið áður en kortið rennur úr gildi.

4.4.16

Helgin leið fljótt

Ég var mætt í Laugardalslaugina strax upp úr klukkan átta á laugardagsmorguninn. Kom aðeins heim aftur um tíu til að ganga frá sunddótinu mínu og vafra aðeins um á netinu áður en ég dreif mig yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Ég var með eitthvað af esperantoefni í fórum mínum en það fór svo að við "gleymdum" okkur í annarskonar spjalli á mínu móðurmáli. Hins vegar drifum við okkur út í smá labbitúr svona til að gera eitthvað meira úr hittingnum. Því miður láðist mér að kveikja strax á "göngrekjaranum" í símanum. Við vorum búnar að ganga frá Sólvallagötunni, meðfram sjónum og beygja til vinstri hjá Eiðistorgi áður en ég kveikti. Þá áttum við eftir um tuttugu mínútna labb til að klára hringinn að lánsbílnum við Sólvallagötuna. Með göngufoss á bakinu kvaddi ég Inger og dreif mig í Krónuna við Granda. Úr krónunni fór ég alla leið í Hraðbankann við Háaleitisbraut og skrapp því í Hlíðablóm í leiðinni að kaupa kort og smá hluta í fermingargjöf. Oddur Smári hjálpaði mér inn með vörurnar er ég kom heim og gekk frá þeim. Stuttu seinna lánaði ég honum bílinn til að hitta spilakvöldsfélagana. Davíð Steinn sagðist ekki hafa orku í að fara með honum. Hann hélt sig meira og minna inni í herberginu sínu en kom þó fram um sjö leytið eftir að ég hafði bankað upp á hjá honum og spurt hvort við ættum að græja saman snarl í kvöldmatinn.

Mætti í laugina á svipuðum tíma í gærmorgun og morguninn áður. Var ákveðin í að vera ekkert að neinu drolli. Synti 500 metra, fór aðeins eina ferð í kalda pottinn en dagaði svo uppi í sjópottinum því þar lenti ég í smá kjaftatörn. Á leiðinni upp úr rakst ég á vinkonuhóp í nuddpottinum og ég þekki tvær af þeim svo ég staldraði aðeins við þar. Áður en ég fór heim eftir sundið ákvað ég að koma við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og fylla á tankinn. Heima straujaði ég spariskyrtur bræðranna og skrifaði á fermingarkortið. Einkabílstjórinn fékk bíllyklana í hendurnar rétt fyrir hálfeitt er við mæðgin, öll þrjú, lögðum í hann í fermingarveislu sem haldin var í Northen Light Inn rétt við bláa lónið. Besti vinur minn til margra ára var að ferma eldri dóttur sína. Þetta var afar flott veisla. Hjá okkur mæðginum settist kona með þríburadætur sínar sem eru jafnöldrur og bekkjarsystur fermingarbarnsins. Sannkallað fjölburaborð, en ekki það eina í veislunni því móðir fermingabarnsins á þríburasystkyni sem öll voru mætt með sínar fjölskyldur. Boðið var upp á nokkra heita rétti og meðlæti og svo var hlaðborð af tertum með kaffinu á eftir og niðurskorar 4 tegundir af ávöxtum sem hægt var að baða í súkkulaði úr súkkulaðigosbrunni ef maður vildi. Klukkan var að byrja að ganga sex þegar við mæðgin komum aftur heim.

2.4.16

Rólegheit þannig séð

Eftir að hafa klætt mig í blá föt á sjöunda tímanum í gærmorgun, fengið mér minn hefðbundna morgun mat og gengið frá hádegisnestinu í bakpokann tók ég strætó í vinnuna korteri fyrir heila tímann. Í kaffitímanum freistaðist ég til að fá mér af bláu kökunni sem var í boði fyrirliðans, kannski heldur stóra sneið miðað við að ég á helst að forðast sætindi sem allra mest, en ég lét líka þessa einu sneið duga. Vinnudagurinn leið annars frekar hratt og fyrr en varði varð klukkan þrjú. Fór beint heim og fékk synina í lið með mér við að sinna smá heimilisstörfum. "Margar hendur vinna létt verk". Annar sonurinn hjápaði svo einnig til við að tína til kvöldmatinn sem samanstóð af afgangum af laxi með grænmeti, grjónum og næstumþvíharðsoðnum eggjum. Kvöldinu eyddi ég að mestu fyrir framan imbann að horfa á Skjá1 en ég passaði mig á að vera komin í rúmið fyrir ellefu til að hafa smá tíma til að lesa fyrir svefninn.

1.4.16

Nýr mánuður hafinn

Var mætt í vinnuna á sama tíma og í fyrradag og notaðist ég við strætó líkt og þá. Að þessu sinni var ég með meira með mér í bakpokanum en bara nestið yfir daginn. Fékk að hætta rétt fyrir þrjú, tók næsta strætó upp á Hlemm og leið 14 að Laugardalslauginni. Var byrjuð að synda fyrir klukkan hálffjögur. Veðrið var svolítið napurt en ég synti 500 metra og fór tvisvar sinnum 2 mínútur í kalda pottinn sem mér þótti reyndar óvenju kaldur í gær. Kom heim rétt upp úr fimm og fyrir utan það að sjá um kvöldmatinn og hella upp á smá kaffi gerði ég lítið annað en að vafra um á netinu og glápa á imbann til klukkan að ganga ellefu.

Er byrjuð á annarri bók af safninu "TAPAÐ FUNDIÐ" eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Á von á því að lesa þá bók fljótlega upp til agna því hún er alveg búin að fanga athygli mína.