31.1.15

Starfsdagur

Aftur þurfti ég að leita að gleraugunum mínum áður en ég lagði af stað í vinnuna í gærmorgun.  Á síðustu stundu mundi ég að líklega væru þau niðri í þvottahúsi frá því kvöldið áður.  Ég hef reyndar aldrei gleymt þeim þar áður en einu sinni verður allt fyrst.  Fann þau á borðinu við hliðina á þvottavélinni minni og tók þau með mér í strætó.  Notaði þau alla leið í vinnuna en það fyrsta sem ég gerði eftir að ég var komin að skrifborðinu mínu var að leggja þau frá mér undir öðrum tölvuskjánum og þar voru þau allt þar til kominn var tími til að fara heim rúmum átta klukkutímum síðar.  Að þessu sinni ákvað ég að labba hægra megin við Skólavörðuholtið, þ.e. Lækjargötuna og meðfram tjörninni.  Þegar ég kom að Gunnarsbrautarendandum sem er næst Miklubrautinni beygði ég aðeins af leið til að athuga hvort ég gæti ekki fengið eins og eitt vatnsglas heima hjá einum frænda mínum.  Konan hans og tveir synir þeirra voru heima.  Mér var boðið inn en ég ætlaði mér ekki að stoppa að þessu sinni nema örfáar mínútur og varla það.  Vatnsglasið gerði mér afar gott.

30.1.15

Gengið heim úr vinnu

Í gærmorgun fór ég í "neglda" gönguskó áður en ég trítlaði út í strætóskýli.  Var með bakpokann með mér og í honum var m.a. sunddótið mitt.  Gleraugun voru skilin eftir heima, það er að segja ég fann þau ekki áður en ég þurfti að drífa mig af stað.  Það kom alls ekki að sök því ég nota ekki gleraugun nema við akstur og ég skildi lánsbílinn eftir.

Vinnudagurinn var jafn öðruvísi og flestir hinna undanfarið en vinnudagurinn leið hratt.  Það teygðist reyndar aðeins úr honum en bara smá.  Um hálffimm labbaði ég áleiðis heim og kom við í Sundhöll Reykjavíkur.  Synti nokkrar inniferðir, skrapp í útipott og gufu og þegar ég var að þvo mér á eftir bað ég um að konan sem var að spúla gólfið sprautaði köldu vatninu á fæturnar á mér.  Það var afar hressandi og er að spá í að biðja um slíkt aftur og jafnvel yfir mig alla ef færi gefst.

Var komin heim um sex og fór fljótlega að taka til kvöldmatinn því ég var ákveðin í að setjast niður með saumana mína fyrir framan skjáinn um átta leytið.  Það tókst en reyndar saumaði ég aðeins útlínur með einum þræði, gengur eitthvað hægt hjá mér handavinnan þessa dagana.  Davíð Steinn lét mig vita að hann hefði fundið gleraugun mín í stofusófanum og höfðu þau verið það frá því kvöldið áður.

29.1.15

Innisund

Aftur var lánsbíllinn notaður og voru synir mínir ekkert ósáttir með það að fá far í skólann.  Vinnudaguirnn leið hratt en það var í mörg horn að líta hjá mér eins og undanfarið.  Klukkan var að verða hálffimm þegar ég losnaði. Ég var búin að mæla mér mót við manneskju á ákveðnum stað sem miðaðist við að vera komin áður en klukkan yrði fimm.  Það tókst en þá hafði hin steingleymt stefnumótinu og var komin í annan bæjarhluta þegar ég hringdi.  Hún sagðist ælta að snúa við og ég ákvað að best væri að hún kæmi bara við fyrir utan Drápuhlíðina.  Ég var komin á undan þangað og var alveg tilbúin að taka á móti vörunum sem verið var að koma með til mín.

Hafði ekki langan tíma heima þar til kominn var tími til að drífa mig á vikulega kóræfingu.  Að þessu sinni var mæting með besta móti og kórstjórinn bað mig um að syngja þá frekar með sópran.  Það var bara gott og gaman og röddin ekkert þreytt eftir.  Reyndar var ekki verið að syngja lög sem fóru of hátt upp en samt aðeins hærra en alt-röddin þarf sjaldnast að fara.  Annars á ég ekki í miklum erfiðleikum með að syngja niður en það eru líklega sveiflurnar sem fara verst með mig.

Eftir kóræfingu kom ég við í Hagkaup í Skeifunni til að kaupa smá brauð.  Þegar ég kom heim var að byrja spilakvöld hjá strákunum og nokkrum af félögum þeirra.  Seinna um kvöldið hringdi ég í tvíburahálfsystur mína og við töluðum saman í næstum klukkustund sem virkaði samt ekki lengar en tíu mínútur/korter.

28.1.15

Mið vika

Þar sem ég hafði hug á að reka nokkur erindi eftir vinnu og annar strákurinn var volgur fyrir því að taka að sér að sjá um kvöldmatinn þá bauð ég bræðrunum far í skólann í gærmorgun.  Vinnudagurinn var frekar mikið öðruvísi en það náðist að ljúka honum á "hreinu borði" hvað daglega framleiðslu varðar.  Ég slapp út klukkan að verða hálffimm og byrjaði á því að renna við í Sorpu við Granda með fullan poka í Rauða Kross gám og smávegis fleira.  Síðan brunaði ég í Laugardalinn til að synda og gufast í uþb þrjú korter.  Klukkan var að byrja ganga sjö þegar ég kom aftur út í bíl.  Þá hringdi ég í matsvein kvöldsins sem var búinn að fastákveða að sjá um kvöldmatinn þannig að ég skrapp fyrst til Böddu minnar.  Það var kannski eins gott því hún sagði mér að hún væri að fara af sjúkrahúsinu í hvíldarinnlögn daginn eftir.  Ekki það að ég mun örugglega halda áfram að heimsækja hana reglulega.  Maturinn beið mín þegar ég kom heim en bræðurnir voru nýbúnir að borða sjálfir.  Ég tók því að mér að sjá um að ganga frá í eldhúsinu.

27.1.15

Flug á dögunum

Það þarf ekki að kvarta neitt yfir því að tíminn sé lengi að líða þessa dagana og það er aldrei lognmolla í kringum mig nema þegar ég dreg mig markvisst í hlé bara til að íhuga ein með sjálfri mér í stutta stund.   Verst hvað ég gef mér lítinn tíma í handavinnu og lestur þessa dagana en það er eins og mér sé ætlað að minnka það aðeins í bili.  Samt er ég ákveðin í að "tína" þessu ekki niður og ætla að passa að það líði ekki of margir dagar á milli.

Vinnudagslok í gær miðuðust við að ég næði heim og að taka til matinn áður en leikur Íslands og Dana í 16 liða úrslitum hæfist.  Það tókst nokkurn veginn en þegar ég ætlaði að byrja að horfa þá var staðan strax orðin erfið hjá okkar strákum og það enti með því að ég settist ekki niður fyrir framan skjáinn, neitt að ráði, heldur notaði tímann í annað.

26.1.15

"Alltaf í...." ...sundi ;-)

Fyrripartur gærdagsins var ekki nýttur alveg jafn vel og ég hafði ætlað mér.  En rétt fyrir tvö dreif ég mig á lánsbílnum yfir í kirkju óháða safnaðarins og sem almennur kirkjugestur hlustaði ég á og tók þátt í blúsmessu þar sem allri tónlist var stýrt af blússveit Þollýjar.  Það mætti nokkuð margt í kirkju og meiri hlutinn af því fólki var að mæta í fyrsta sinn.

Eftir messu skrapp ég aðeins niður í "neðra" og fékk mér svartbaunaseyði áður en ég dreif mig í Laugardalinn.  Var komin ofan í laugina rúmlega fjögur og synti og synti og synti.  Tapaði tölunni á ferðunum en synti líklega í um 40 mínútur þar sem mig langaði ekki alveg strax upp úr eiginlega vegna rysjótts veðurs.  Þar kom þó að ég fikraði mig þvert yfir laugina og synti næstum því til baka, eða þar til ég kom að tröppunum sem eru á móts við gufuna.

lokum lá leiðin á Borgarspítalann í stutta heimsókn til Böddu minnar, sem enn liggur þar.  Við áttum gott spjall og við kvöddumst hlægjandi yfir einhverju sem ég bullaði út úr mér.  Man bara ekki hvað enda skiptir það minnstu máli.

25.1.15

Þakklæti

Ekki náði ég að skreppa  í sund áður en tími var kominn til að mæta í klippingu í gærmorgun en ég gerði ýmislegt annað.  Mætti á klippistaðinn á slaginu tíu og var ég eini kúnninn og meistarinn minn einn mættur.  Ég man ekki til þess að slíkt hafi komið upp áður.  Tíminn var fljótur að líða, hárið var þynnt og klippt og lagað til og á meðan áttum við gott spjall.  Mikið er ég þakklát fyrir að hafa aðgang að svona góðum hárgreiðslumeistara.

Skrapp aftur heim í stutta stund en einungis til að ná í ýmislegt til að nýta ferðina vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar.  Enn bólar ekkert á "nýjustu" esperanto bókunum og fór því stundin mest í andlega sviðið og krossgátulausnir.  Inger ákvað svo að nýta sér ferðina með mér í Sorpu.  Ég var að losa mig við pappa og blöð og hún ýmislegt annað.  Hún trítlaði svo beint heim til sín aftur en ég fór í Krónuna að kaupa smávegis inn.

Næst lagði ég lánsbílnum stutta stund á neðra planið við vinnustaðinn minn á meðan ég skrapp yfir í Hörpuna til að sækja tvo miða á mömmu nafni á "Lífið er yndislegt" - Eyjatónleikana.  Eftir það fór ég beint heim.  Oddur Smári gekk frá vörunum að venju og ég fór að sýsla við eitt og annað.

Foreldrar mínir voru á leið í bæinn og byrjuðu á því að útrétta smávegis.  Strákarnir voru nýlega farnir með pabba sínum að heimsækja föðurforeldrana þegar mínir foreldrar komu klukkan að ganga sex. Ég var með ofnbakaða bleikju, soðnar kartöflur, rósakál og gula baunir í bræddu smjöri í matinn fyrir okkur þrjú á sjöunda tímanum.  Pabbi skutlaði okkur mömmu í Hörpuna um hálfátta og fékk húslykla hjá mér til að fá að bíða þar á meðan við mamma vorum sannkallaðar grúppíur á fremsta bekk á stórskemmtilegum tónleikum með fullt af flottum atriðum þar sem Páll Magnússon fór á kostum sem kynnir milli atriða.  Þessu hefði ég alls ekki viljað missa af.  Pabbi sótti okkur upp úr ellefu og skutlaði mér heim áður en þau fóru heim.  Mamma hringdi í mig um eitt, enn í gleðivímu, til að láta mig vita að þau hefðu orðið að fara Þrengslin en væru búin að skila sér heim.

24.1.15

"Lífið er yndislegt..." :-)

Í gærmorgun var ég ákveðin í að taka strætó í vinnuna.  Var smá tíma að taka mig til því ég þurfti að hafa meira og annað með mér en venjulega.  Á meðan ég beið í biðskýlinu við Sunnubúð fann ég að ég hefði helst þurft að bera á varirnar.  Stakk hægri hendi í hægri vasa á yfirhöfninni og fann það sem ég hélt fyrst að væri varasalvi.  Uppgötvaði það á síðustu stundu að þetta var varalitur svo ég vandaði mig við að "klína" þessu framan í mig.  Það tókst sem betur fer áfallalaust.  Vinnudagurinn varð ansi skrýtinn og ég hugsa stöðugt um hvað ég hefði geta gert betur.  Mér fannst bæði allt vera með mér og á móti mér en ég stóð fyrst og fremst með sjálfri mér og spilaði úr þessu eins og dyntótt kortavélin leyfði.

Eftir vinnu hitti ég hluta af vinnufélögum mínum á ÚNÓ, ætlaði bara rétt að kíkja á fólkið og fá mér að borða með því en úr varð hið skemmtilegasta kvöld og ég vissi ekki fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu.  Þegar ég fór að hugsa mér til hreyfings var mér boðið far heim og ég beðin um að hinkra smá.  Ég hefði alveg getað tekið strætó eða labbað en ákvað að taka boðinu og var fegin því þegar ég kom út því það var smá hríð, kalt og hálfleiðinlegt veður.

Strákarnir voru hjá pabba sínum og var ég löngu farin að sofa áður en þeir komu heim.

23.1.15

Vinnuvikan liðin

aumur á strákunum mínum og bauð þeim far í skólann í gærmorgun.  Það kom sér annars alveg ágætlega að vera á lánsbílnum því þegar líða tók á vinnudaginn var ég boðuð á fund og gat ég bara farið úr vinnunni á fundinn og þurfti ekki að fara heim aftur. Ég skrapp í smá sund eftir fund og skellti mér svo í smá hitting á einum stað á Laugarvegi.  Þegar ég kom heim voru bræður ekkert farnir að fá sér kvöldmat svo ég tók mig til, fann rabbabara í frystinum og bjó til rabbabaragraut, að ég held í fyrsta skipti.  Hann heppnaðist bara ágætlega og kláraðist. alveg.

22.1.15

Rabbabaragrautur

Stóri guli bíllinn var nýttur í ferðir milli heimilis og vinnu báðar leiðir í gær.  Klukkan var orðin hálffimm þegar ég skilaði mér heim og þá hafði ég tæpa klukkustund áður tími var til að mæta á kóræfingu.  Strákarnir voru á leið til pabba síns svo ég þurfti ekkert að hugsa fyrir mat heldur slakaði aðeins á og undirbjó mig undir æfinguna.  Í fyrrakvöld hafði ég tekið mig til að raðað saman eftir hálfa prógramminu sem kórstjórinn póstaði á okkur.  Fámennt var á æfingu aðeins 1-3 í hverri rödd og kórstjórinn ákvað að rifja upp sönglög úr brúnu bókinni.  Ég æfði í altinum því það mættu þrjár í sópran en við vorum aðeins tvær í alt.  Lögin sem við æfðum kann ég líka flest í altröddinni.

Strax eftir kóræfingu skrapp ég til hennar Böddu minnar og mætti henni á ganginum.  Við settumst inn á og við rúmið "hennar" og um leið var komið að og okkur boðið kaffi og með því ef við vildum.  Ég þáði kaffið.  Las tvær ör-sögur eftir Bjargeyju Ólafsdóttur, úr bókinni Flæðarmál.  Svo spjölluðum við um eitt og annað í rúman klukkutíma eða svo.

21.1.15

Langt liðið á vinnuviku

Í gær féllu niður allir tímar hjá Oddi Smára og hann var heima allan daginn.  Ég átti að mæta á fund út í bæ um níu og hafði ákveðið að fara á bílnum beint á fundinn.  Davíð Steinn fékk far með mér í skólann. Hann var pínu seinn á fætur en ég hafði góðan tíma að koma mér á milli.  Þegar til kom var ég hálf-framhjá mér í umferðinni og fór smá krókaleiðir á fundinn.  Náði þó að mæta á réttum tíma. Á leiðinni á vinnustaðinn, seinna um morguninn, æfði ég mig í að biðja um laust stæði á neðra planinu.  Sennilega hef ég ekki haft fulla trú að að það tækist því það var ekki fyrr en ég var búin að leggja lánsbílnum í gjaldstæði örstutt frá að það losnaði eitt af stæðunum.

Vinnudagurinn leið afar fljótt og ég ákvað að skella mér í sund í Laugardalnum strax eftir vinnu.  Keyrði ákveðið en afar varlega líkt að hinir sem voru á ferðinni um leið og ég.  Synti 450metra og skrapp í gufu í stutta stund áður en ég fór heim.  Þriðji leikur "handbolta strákanna okkar" var nýhafinn er ég kom heim svo ég fór beinustu leið inn í stofu, kveikti á sjónvarpinu og fleygði mér í sófann. Ég var eiginlega hálfsvekkt að leikurinn vannst ekki en strákarnir voru að spila einn sinn besta leik hingað til á mótinu.  Oddur Smári sá um kvöldmatinn og það gekk bara vel hjá honum.  Það var afslappandi og mikið gott að þurfa ekkert að hafa fyrir að taka til matinn.

20.1.15

Mikið að gerast alltaf

Þrátt fyrir að aðeins annar strákurinn minn ætti að mæta í skólann upp úr átta fór ég á lánsbílnum í vinnuna og skutlaði honum í leiðinni.  Um miðjan dag áttu bræðurnir nefnilega tíma hjá tannlækni og ég var ákveðin í að koma þeim á staðinn og borga fyrir eftirlitstímana.  Fór úr vinnu um hálfþrjú og afþví að það var eitt daglegt mál útistandandi ákvað ég að stimpla mig ekki út.  Sótti Odd í skólann og Davíð Stein heim en mánudagsstímarnir hans byrja ekki fyrr en tuttugu mínútur yfir þrjú.  Ég var eitthvað að misskilja þetta með tannlæknatímann/ana, var svo ákveðin í þeir ættu að mæta klukkan þrjú að ég las aldrei nema annað sms-ið sem ég fékk kvöldið áður.  Þar stóð einmitt nafnið á öðrum tvíburanum og að tíminn væri klukkan þrjú.  Hin smáskilaboðin las ég ekki fyrr en í gærkvöldi og það voru skilaboð um að hinn strákurinn ætti að mæta klukkan hálfþrjú.  Við mæðginin mættum því eiginlega of seint því við vorum að mæta ca sjö mínútur í þrjú.  Ég skildi heldur ekkert í því afhverju fjölskyldutannlæknirinn virtist vera að bíða þegar við komum.  En þessi misskilningur minn kom ekki að sök.  Engar holur x2, greiddi 4000x2, bókaðir voru tveir tímar eftir ár, skutlaði Oddi langleiðina heim og Davíð Steini í skólann og fór svo aftur í vinnuna.  Síðarnefndi strákurinn var ekki einu sinni of seinn í tíma.

19.1.15

Líður á mánuðinn

Það er nú meira hvað dagarnir hlaupa frá manni, og gera það hvort sem einhverju er komið í verk eða ekki.  Ég var samt nokkuð ánægð með sjálfa mig og hvað ég afrekaði að framkvæma í gær. Sumt er reyndar ekki frásagnarvert og tilheyrir hefðbundum heimilisstörfum.  Það fór reyndar drjúgur tími í þau verk.  Engu að síður náði ég að skreppa á safnið, skila fimm bókum, næla í eina í staðinn, heimsækja Böddu mína, horfa áleikinn, lesa og sauma.  Davíð Steinn sá um kvöldmatinn, hafði lasanja.  Hann bað mig reyndar aðeins að hjálpa sér með smá undirbúning í upphafi matseldar og það gerði ég með glöðu geði.  Við settumst svo þrjú við matarborðið og náðum ágætis spjalli um eitt og annað mis-merkilegt. Allt merkilegt samt að mínu mati.

18.1.15

Sunnudagur

Gærmorguninn var ekki alveg eins drjúgur og laugardagsmorguninn var en nothæfur samt.  Fór ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir ellefu þegar ég skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar.  Enn hafa "nýjustu" esperantobækurnar ekki komið í ljós svo við helltum okkur í krossgátulausnir og tíminn flaug. Fór beint í Krónuna á eftir og þá var klukkan að byrja að ganga tvö.  Í versluninni hitti ég einn vinnufélaga og gáfum við okkur smá stund til að spjalla.  Ég átti svo ekki nema tíu mínútur ófarnar heim þegar mamma hringdi.  Hún lofaði að hringja aftur þegar ég kæmi heim en ég stóðst ekki mátið og hringdi til baka ca. tíu mínútum seinna og spjölluðum við mamma í rúma klukkustund.  Náði samt að sinna sumu af því sem ég hafði ætlað mér og er bara ánægð með það.  Klukkan var langt gengin í sex þegar ég dreif mig í sund.  Úr sundinu skrapp ég svo í heimsókn til hennar Böddu minnar, og stoppaði hjá henni hátt í klukkutíma, en hún liggur á LHS í Fossvoginum og búin að vera þar í nokkra daga.  Annar strákurinn var löngu farinn í spilasession en hinn var tiltölulega nýkominn úr sundi með vinum þegar ég kom heim.  Hann var byrjaður að græja sér heitt brauð í ofni þar sem hann hafði ekki fundið afganginn af kvöldmatnum frá því á föstudagskvöldið (einhver (bróðir hans) hafði lagt eitthvað ofan á skálina þegar hann gekk frá vörunum úr búðinni).  Ég sá til þess að það yrði haft líka og við skiptum þessu öllu saman á milli okkar.

17.1.15

Helgi

Ég notaði strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Vinnudagurinn var  jafn skemmtilegur og erilsamur og daginn áður en þó var ekki eins mikið hringt.  Erillinn fólst í öðrum verkum sem sum hver voru að ganga bara vel upp og leysast.  Þrátt fyrir yndislegt veður ákvað ég að fara aftur heim með strætó en ég þyrfti að fara að taka mér tak, svona göngutak.  Heima voru bræður búnir að hjálpast að við ákveðið verkefni sem ég hafði sett þeim fyrir og munar um.  Ég sá um kvöldmatinn og horfði svo á leikinn, las og sitthvað fleira sem ekki skiptir máli. Jú, ég setti logandi útikerti út á tröppur, kveikti á einu hvítu kerti og setti stjakann á eldhúsborðið og svo fóru nokkur sprittkerti á ýmsa staði, m.a. herbergisgluggann, stofugluggann og baðherbergisgluggann. Annars var ég komin í rúmið fyrir ellefu og sofnuð fyrir tólf.

16.1.15

HM-handboltinn

Þrátt fyrir að lánsbílinn væri ekki á bílastæði á bak við heilsugæsluna bauð ég bræðrunum far í skólann í gærmorgun.  Bað þá um að senda mér smáskeyti um hálffjögur ef þeir myndu vilja koma með mér í sund eftir vinnu og skóla.  Reyndin varð sú að annar strákurinn sendi skeyti og sagðist ekki mundu ná því á þeim tíma sem ég var að hugsa um og hinn sagði greinilega pass þar sem ég heyrði ekkert frá honum.  Ég dreif mig sjálf strax eftir erilsaman en skemmtilegan vinnudag (þrátt fyrir ógrynni af símsvörunum) og fór í Laugardalslaugina. Synti aðeins 300 metra, settist smástund í sjópottinn og örstutt í gufuklefann en það hefði ég líklega átt að láta vera miðað við það sem ég gerði svo eftir sundferðina.  Ég fór nefnilega beint í blóðbankann við Snorrabraut í 39. heimsóknina. Blóðþrýstingurinn var ekki í nógu góðu lagi í fyrstu mælingu en við "skelltum skuldinni" á hm því við aðra mælingu var þrýstingurinn mun betri.  Það gekk líka mjög vel að finna æð og ná úr henni.

Ég var nýlega komin heim og að láta líða úr mér þegar "föðursystir" mín hafði samband og spurði hvort ég vildi hitta sig og börnin á kjúklingastaðnum í Suðurveri.  Ég sló til og hún ákvað að kippa mér með. Á meðan ég beið eftir að vera sótt hringdi  ein frænka mín og nafna með heldur leiðinleg tíðindi af mömmu sinni sem hún bað mig um að koma á framfæri við foreldra mína.

Strákarnir héldu smá spilakvöld hér í gærkvöldi.  Þeir voru aðeins fjórir og þurftu að bíða í tvo tíma áður en fjórði aðilinn komst hingað.  Ég var háttuð og komin inn í rúm upp úr klukkan tíu.

15.1.15

39

Þar sem ég hafði lagt lánsbílnum fyrir aftan heilsugæsluna eftir sundferðina í fyrrakvöld bauð ég bræðrunum far í skólann.  Þeir voru frekar glaðir með það þótt þeir væru mættir nokkuð vel fyrir fyrsta tíma.  Á leiðinni lagði ég þeim aðeins línurnar því við mæðgin erum í eins konar "dreifa álaginu og klára eitt af öðru" átaki.  Vinnudagurinn  teygðist sem betur fer ekki neitt að ráði og ég náði aðeins að slaka á og taka mig til fyrir kóræfingu og aukahitting strax á eftir.  Mætti upp í kirkju rétt fyrir hálfsex og nú brá svo við að þær voru fleiri í sópran en altinum svo ég söng s-alt.  Rúmum tveimur tímum seinna var æfingin búin og þá dreif ég mig til tvíburahálfsystur minnar.  Hún var að byrja að ganga frá eftir matinn og bauð mér fá mér að borða á meðan sem ég þáði með þökkum.  Spjölluðum á meðan um það sem er framundan en svo hjálpuðu hún og maðurinn hennar mér að tengjast með skilríki á leiðréttingarvefnum og eftir smá vesen tóks loksins hjá mér að undirrita samþykki mitt með skilríkjunum.  Á eftir settumst við "tvíburahálfsystur" inn í stofu með saumana okkar.  Kvöldið leið fljótt en mér tókst að ná heim áður en klukkan varð mikið meira en ellefu.

14.1.15

Nokkrar línur um gærdaginn

Notaði strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Vinnudagurinn teygðist aðeins í annan endann en ég var komin heim aftur um hálfsex.  Þrátt fyrir að hafa ákveðið að setjast ekki niður fyrr en ég væri búin að ljúka einu verki þá byrjaði ég auðvitað á því að setjast niður í stofu og hringja örstutt í pabba.  Annar strákurinn settist líka í sófann.  Hann var þreyttur en samt ákveðinn í að sjá um kvöldmatinn.  En fyrst röbbuðum við svolítið saman.  Á meðan hann sá svo um að útbúa kvöldmatinn tók ég til í tveimur hillum í tölvuskápnum.  Hinn strákurinn sagði mér að það væri spilakvöld í Breiðholtinu klukkan átta og þar sem ég var ákveðin í að skreppa í sund eftir kvöldmat bauðst ég til að skutla honum.  En fyrst borðuðum við kjúklinganagga a la Davíð Steinn öll saman, mjög gott hjá honum.  Oddur Smári tók svo að sér að ganga frá eftir matinn.  Ég var komin ofan í Laugardalslaugina klukkan níu og var búin að synda 500 metra áður en ég vissi af og það tók mig um tuttugu mínútur.  Á eftir gaf ég mér tíma til að flatmaga í sjópottinum og sitja svo í gufubaðinu í smá stund.

13.1.15

Mörg eru hornin

Þar sem ég varð að leggja fyrir aftan heilsugæslustöðina í fyrrakvöld ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun.  Aðeins annar strákurinn gat nýtt sér farið því hinn strákurinn átti ekki að mæta í skólann fyrr en seinni partinn.  Það var reyndar ágætt að fara á lánsbílnum því ég var með smávegis aukalega með mér til að bjóða uppá í tilefni þess að 10. janúar sl. voru liðin heil fimmtán ár síðan ég byrjaði í kortadeildinni.  Erillinn í vinnunni var það mikill að ekki var tími til að setjast öll niður saman um morguninn. Vinnufélagarnir voru búnir í vinnu á mismunandi tímum og þar að auki þurfti ég að fara fyrir þrjú.  Fyrsta erindið sem ég rak eftir að ég kvaddi vinnufélagana var vinnutengt. Því næst skrapp ég í fiskbúð og keypti í soðið og svo fór ég heim.  Setti mig í samband við þau sem voru að vinna til sjö til að taka hjá þeim stöðuna.  Helga systir hringdi til að láta mig vita að ekkert yrði úr borgarferð mæðgnanna um næstu helgi.

Heima náði ég að ljúka einu verkefni sem setið hefur á hakanum, hafa til kvöldmatinn og undirbúa fyrsta saumaklúbb ársins og þegar allt var tilbúið og á meðan beðið var eftir hinum meðlimunum varð eftirfarandi staka til:

Koma bráðum vinur bestu
brátt mun hlátur krauma.
Ef þú spyrð og þetta lestu
Þá ætlum við að sauma

12.1.15

Tólfti

Mánuðurinn er alveg að verða hálfnaður og það lítur út fyrir að hann ætli að hlaupa hratt og verða að minningu á einu augabragði.  Ég var annars nokkuð sátt við gærdaginn og náði að koma heilmiklu í verk.  Vaknaði nú ekki eins snemma og á laugardaginn en byrjaði þó daginn svipað, á því að lesa um stund áður en ég dreif mig á fætur.  Morguninn fór að öðru leyti í ýmis heimilisstörf sem í raun eru hversdagsleg venjulega en vegna baðherbergisframkvæmdanna höfðu sum störfið legið niðri og þá var auðvitað extra mikið að gera, bæði vegna "verkfalls" og "framkvæmdaösku".

Klukkan eitt var ég mætt í kirkjuna til að hita upp fyrir messu með kórfélögum mínum.  Alla fjóra sálmana átti að syngja einraddað en kórstjórinn gaf sér líka tíma til að taka mínikóræfingu og æfa nokkra tesesöngva.  Nú vorum við aðeins tvær í altinum, helmingi færri en sópraninn svo ég var Anna alt ásamt nöfnu minni í þeirri rödd.  Messan var annars óvenju löng því þetta var fyrsta messa ársins og þá er venjan að Stopp-leikhópurinn komi og sýni leikrit í stað predikunnar.  Þau sýndu okkur leikritið um Hans Klaufa og héldu athygli allra, ungra sem aldinna, allan tímann.  Eftir leikritið sagði Pétur nokkur orð og kynnti svo söngatriði þar sem tvö sem hafa "vaknað", samið um það lög og gefið út disk tróðu upp.  Það var allt í lagi í sjálfu sér en aðeins of langt að minu mati, hefði mátt og verið hægt að stytta atriðið um þriðjung.

Eftir messu og smá kaffi skrapp ég örstutta stund í Hagkaup í Skeifunni. Hringdi í foreldra mína er ég kom heim hélt aðeins áfram að sinna hversdagsverkum, hafði steikt slátur og lifrarpylsu með soðnum kartöflum í matinn og eftir fréttir og Landann skellti ég í eina brauðtertu áður en ég skrapp í sund.

11.1.15

Messudagur

Gærdagurinn byrjaði eiginlega of snemma því ég var vöknuð um hálfsex.  Sennilega hafa margvísleg umhugsunarefni leitt til þess og ég gat ekki sofnað aftur.  Þess vegna ákvað ég að nota fyrsta klukkutímann til að lesa og athuga hvort myndi síga á mig þreyta aftur.  Þegar TIL var búin byrjaði ég á bókinni Hlaðhamrar eftir Björn Th Björnsson sem er söguleg skáldsaga og hans sýn á þjóðsögunni um Árna frá Hlaðhömrum.  En það er ekki gott að byrja strax á nýrri bók eftir að hafa lokið við að lesa mergjaða sögu sem leitar á mann.  Samt er ég alveg viss um að sögulega skáldsagan er ekkert síðri en TIL.

Ég dreif mig því bara á fætur.  Tók meðvitaða ákvörðun um að kveikja ekki á tölvunni og náði því að gera ýmislegt sem hefði annars getað tekið mig allan daginn til að framkvæma.  Var komin í Laugardalinn um níu og synti 500 metra.  Pottarnir sem ég hafði hug á því að skreppa í voru allir lokaðir svo ég fór í gufu í tíu mínútur áður en ég dreif mig upp úr.  Svo splæsti ég á mig kaffibolla og tæmdi hann áður en ég skrapp heim aftur.

Um ellefu var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar.  Hún var ekki enn búin að finna bækurnar en bað mig um að hjálpa sér við að klára krossgátu.  Hún er alltaf að verða flinkari og flinkari með þessar íslensku gátur og að læra ný og ný samheitaorð.  Klukkan var orðin hálfeitt þegar ég kvaddi og skrapp í Krónuna.  Þar hitti ég Bjössa tvíbura og fyrrum söngfugl úr sama kór og söngfuglinn minn.
Þegar ég kom heim vakti ég Odd því hann sér alltaf um að ganga frá vörunum ef hann er heima.  Mér fannst líka það langt liðið á daginn að það var alveg tímabært fyrir unga menn að fara að vakna.

Tveimur tímum seinna fórum við mæðgin með tómar flöskur og dósir í Valsheimilið til styrktar unglingastarfinu í knattspyrnu.  Svo skruppum við í A4 þar sem Oddur skilaði inn nokkrum bókum, keypti sér þrjár í staðinn og við fengum borgað smá klink á milli.  Ég skutlaði strákunum svo í Breiðholtið og fór svo beint heim.

Horfði á mestan partinn af leik Dana og Íslendinga og nú var allt annað að sjá til liðsins.

10.1.15

Fimmtán ára starfsafmælisdagurinn minn er í dag

Af því að vorönnin var rétt að byrja hjá tvíburunum, annar skóladagurinn í gær, ákvað ég að bjóða þeim aftur far í skólann.  Þeir voru ekkert leiðir yfir því.  Vinnudagurinn var jafn erilsamur og undanfarið þannig að tíminn leið fljótt.  Enn og aftur var klukkan byrjuð að ganga fimm þegar ég stimplaði mig út.  Þegar ég kom heim ákvað ég að byrja á því að hringja í pabba og einnig klára tvennt áður en ég kveikti á tölvunni.  Það virkaði svo vel að ég ætla mér að halda þessari reglu alla virka daga.  Hafði matinn til um hálfsjö og við mæðgin náðum að sitja örstutta stund saman við matarborðið.  Stundin var svona stutt af því að annar bróðirinn heyrði ekki þegar var kallað í mat og við hin vorum byrjuð áður en ég uppgötvaði að drengurinn  var sofandi.  Hann náði að setjast niður með okkur í smá stund áður en bróðir hans lauk við að borða og stóð upp frá matarborðinu.  Fylgdist svo aðeins með handboltalandsleiknum en fannst þetta lítið að marka þar sem lykilmenn voru hvíldir.  Að vísu finnst mér að það sé kominn tími til að yngri strákar fari að taka við af sumum af eldri "refunum" en það þarf að gerast þannig að styrkleikinn haldist sem mestur.  Eftir leikinn fann ég ekkert sem mig langaði að horfa á í sjónvarpinu svo ég slökkti.  Stuttu seinna slökkti ég líka á tölvunni og fór að lesa í staðinn.

9.1.15

Síðasti einnar tölu dagurinn í mánuðinum

Skólinn hjá strákunum byrjaði aftur í gær og af því tilefni bauð ég bræðrunum far í skólann.  Þeir vöknuðu báðir af sjálfsdáðum og það svo snemma að við gátum borðað morgunmatinn saman við borðstofuborðið í holinu.

Sami erillinn var í vinnunni og dagurinn flaug næstum framhjá mér, klukkan var orðin fjögur þegar ég stimplaði mig út.  Ég fór beint heim því ég átti hálft í hvoru von á foreldrum mínum sem voru í bæjarferð í heimsókn.  Fyrir utan hitti ég leigjandann í risinu og spjallaði stund við hann og hjónin á neðri hæðinni komu rétt á eftir mér og köstuðu á okkur kveðju.

Ég fór að sjálfsögðu beint inn á bað þegar ég kom inn í íbúiðna mína til að skoða spegilskápinn sem ég fjárfesti í daginn áður.  Um sex undirbjó ég kvöldmat og þar sem ég var hvorki farin að heyra í eða sjá foreldra mína hringdi ég í gemsann hans pabba.  Þau voru þá stödd í heimsókn í Kópavogi, alveg á leiðinni yfir.  Bauð þeim að borða með okkur þegar þau komu og voru búin að taka út baðherbergið.

Ég hef nýlokið við að lesa "Milli trjánna" eftir Gyrði Elíasson og er nú að lesa "TIL" eftir Snorra Snorrason.  Gyrðir er magnaður örsöguhöfundur.  Bókin eftir Snorra kom út stuttu fyrir jól og er alveg búin að grípa mig föstum tökum.

8.1.15

"Spegill, spegill..."








Mikið var ég fegin að ekki þurfti að skafa í gærmorgun.  Hringt var úr vinnunni rétt upp úr klukkan sjö og vandamálið sem um ræddi var þess eðlis að það borgaði sig fyrir mig að fara á staðinn og leysa það.  Ég var hvort sem er komin á fætur, hafði ætlað mér að fara í sund en var hætt við það og ætlaði frekar að nota tímann í að setja inn morgunpistil.  Stimplaði mig inn um hálfátta og hugsaði með mér að kannski gæti ég hætt klukkan hálffjögur í staðinn.  Mikill erill var í vinnunni enda flaug tíminn frá mér og áður en ég vissi af var klukkan orðin fjögur.

Úr vinnunni lagði ég leið mína í Tengi og gekk frá kaupum á speglaskáp inn á baðið.  Síðan kom ég við í Mjóddinni til að kaupa mér fleiri strætómiða og svo lá leiðin til tvíburahálfsystur minnar.  Ég ætlaði að nýta mér það að þau eiga tæki sem tekur rafræn skilríki og voru líka búin að setja upp forritið í tölvuna hjá sér.  Hins vegar hafði það alveg farið framhjá mér að til að skrá sig inn í kerfið þarf bara að nota fjóra fyrstu stafina af sex í PIN-inu sem ég valdi mér þegar ég sótti kortið og virkjaði.  Ég gerði 3 misheppnaðar tilraunir og gafst svo upp svo PIN-ið myndi ekki blokkast.  Fékk kaffi og með því, gott spjall og knús en stoppið var ekki lengi að þessu sinni.

Næst lá leiðin í Hagkaup í Skeifunni en í gær var síðasti skiladagur á bókum sem voru keyptar fyrir jólin og ég fékk tvær eins bækur í jólagjöf.  Bjallaði aðeins í pabba og svo Davíð Stein og sendi smáskilaboð til mannsins sem hafði tekið að sér að setja upp speglaskápinn.  Úr Skeifunni lá leiðin í Laugardalinn þar sem ég skrapp í sund, sjópott og gufu og áður en ég fór heim kom ég við í hraðbanka og á einum stað í viðbót.  Klukkan var orðin hálfníu þegar ég skilaði mér loksins heim.

7.1.15

Þrettán tíma fjarvera að heiman í dag

Notaði klink til að borga strætóferðina í vinnuna í gærmorgun því ég ákvað að spara síðasta miðann fyrir heimferðinni.  Töluverður erill var í vinnunni í gær og í mörg horn að líta.  Vinnudagurinn entist mér ekki í að gera allt sem mér fannst þurfa að klára en ég stimplaði mig út rúmlega fjögur og ætlaði mér að koma við á Hlemmi á heimleiðinni til að kaupa mér fleiri strætómiða.  Hins vegar gerðist það sama og á mánudaginn, næsti vagn sem kom að biðskýlinu rétt eftir að ég var komin þangað var leið 13, og ég fór alla leiðini heim án þess að stoppa.

Hringdi í pabba og spjallaði aðeins lengur en vanalega og svo seinna í Helgu systur.  Þ.e. ég endaði á að hringja í símanúmer mágs míns því ég fékk bara strax samband við talhólfsrödd er ég reyndi að hringja í systur mína.  Annar strákurinn skrapp í sund með vinum í "góða veðrinu" og reyndi mikið til þess að fá hinn tvíburann með sér.  Sá nennti ekki með, fór í sund á mánudaginn, heldur vildi hann horfa á Castle með mömmu sinni.

6.1.15

Stóri guli bíllinn

Gærdagurinn var langur í báða enda. Var vöknuð upp úr hálfsex, nokkuð á undan fyrri klukkunni og slökkti þá á henni.  Dreif mig í sturtu, nýju fínu sturtuna mína, og var þetta þriðja "ferðin" mín í hana.  Svo er ég byrjuð á venjulegri morgunrútínu aftur þannig að ég skreið upp í rúm eftir þvottinn eftir að hafa borið á mig.  Seinni klukkan átti ekki að hringja fyrr en um klukkustundu síðar svo ég átti að hafa tíma til að breiða yfir mig sængina og dotta um stund eftir þornun.  Ég var hins vegar glaðvöknuð, kveikti á náttlampanum og las í bókinni með stysta skilafrestin þar til rétt áður en seinni klukkan átti að hringja.  Þá lagði ég frá mér bókina, slökkti á klukkunni, klæddi mig og undirbjó mig undir daginn.

Um hálfátta tók ég strætó í vinnuna.  Morgunvaktafólkið var að sjálfsögðu mætt og búið að vinna í tæpa klukkustund.  Þar sem ég átti svolítið í land með samantekt vegna desembermánaðar ákvað ég að ég tæki að mér það sem snéri að bókhaldinu í daglega starfinu og hinar tvær sem mættu líka klukkan átta myndu leysa af á vélinni.  Á tíunda tímanum hætti prentarinn við framleiðsluvélina að vinna og neitaði hreinlega að hlýða.  Þetta kostaði margra tíma stopp því m.a. þurfti að hreinsa tvo skynjara. Reyndar var hægt að vinna þau verk þar sem prentarinn kemur ekkert við sögu.  Klukkan var farin að halla í fjögur þegar prentarin komst aftur af stað.  Síðdegisvaktin tók að sér að ljúka daglegri framleiðslu og ég vann aðeins legnur og kláraði pökkun og undirbúning undir talningu.

Á sjötta tímanum lagði ég í hann heim.  Ætlaði mér að taka næsta strætó, taka skiptimiða, stoppa á Hlemmi til að útvega mér fleiri strætómiða og ná svo 13 sem stoppar hér á Lönguhlíð milli Mávahlíðar og Drápuhlíðar.  Næsti vagn sem stoppaði við Hörpu rétt eftir að ég kom út í skýli var númer 13 svo ég fór með honum alla leið heim án þess að koma við á Hlemmi.  Skrapp í Sunnubúðina eftir örfáum nauðsynjum, hringdi austur og talaði við mömmu um stund og hafði svo til lifrarrétt í kvöldmatinn. Horfði á seinni vináttulandsleikinn, vafraði aðeins um á netinu og las svo til miðnættis.

5.1.15

Vináttuleikir í handboltanum

Passaði mig á að kúra ekki of lengi í gærmorgun en leyfði mér þó að liggja um stund (amk í klukkustund) og lesa áður en ég fór á fætur og bjó um einhvern tímann á ellefta tímanum.  Um eitt leytið dreif ég mig á Kringlusafnið og skilaði inn átta bókum.  Þrátt fyrir að eiga þrjár jólabækur og tvær bókasafnsbækur ólesnar heima var ég allt í einu komin með níu "nýjar" (mis-nýjar) bækur í hendurnar og ákvað að taka þær allar.  Ein af þessum bókum er með tveggja vikna skilafrest.

Seinna um daginn horfði ég á fyrri vináttulandsleik Íslands og Þýskaland í handbolta karla.  Fyrri helmingurinn af fyrri hálfleik var stórgóður og var allur hálfleikurinn í heildina ásættanlegur.  En það hrundi allt hjá strákunum okkar í seinni hálfleik og leikurinn tapaðist með sjö marka mun.

Rétt fyrir fimm ræsti ég tvíburana svo þeir kæmust báðir í sturtu tímanlega áður en við héldum svo af stað í sex ára afmælismatarboð í Grafarholtinu.  Vorum mætt þangað á slaginu sex og flestir aðrir gestir komu á svipuðum tíma.  Afmælisbarnið átti reyndar afmæli á gamlársdag en það er erfitt að hóa fólki saman akkúrat á þeim degi.  Stuttu eftir að við komum kom sá sex ára aftur inn í stofu og settist smá stund í fangið á Davíð Steini en það var víst alveg óvart og var drengurinn fljótur að standa upp þegar hann uppgötvaði að þetta var ekki mamma hans sem hafði setið þarna stuttu áður. Tvíburarnir voru óvenju feimnir framan af en ég fann "on-takkann" á þeim og þeir gátu spjallað alveg helling við föðursystur afmælisbarnsins.

4.1.15

Smá skrepp

Vekjarinn í gemsanum mínum hringdi eitthvað upp úr átta.  Ég slökkti frekar en að snúsa og kúrði mig lengur.  Komst á fætur áður en klukkan sló tíu.  Stuttu fyrir ellefu sópaði ég af lánsbílnum og fór svo í fyrstu heimsóknina til norsku esperantovinkonu minnar á árinu.  Hún fann reyndar ekki eina af bókunum sem við keyptum í fornbókabúð Braga fyrir nokkru, þessa sem við höfðum ekki séð áður og vorum byrjaðar að glugga í.  Í staðinn réðum við tvær krossgátur, aðra sem var langt komin og hina úr lesbók morgunblaðsins sem einhverra hluta vegna var víst borið í öll hús í gær.

Kom heim aftur um eitt.  Hafði aðeins gert eitt stopp í bakaleiðinni því ég kom við hjá AO við flugvallarveg og fyllti tankinn á lánsbílnum.  Annar tvíburinn var kominn á fætur en ég bankaði hjá hinum ef hann skyldi nú vilja bregða sér í sturtu áður en við héldum af stað út úr bænum um tvö.  Stráksi notaði allan tímann til að kúra en við vorum öll þrjú á leið út úr bænum nokkrum mínútum yfir tvö.  Vorum komin til foreldra minna á Hellu rétt fyrir hálffjögur.  Pabbi var búinn að moka stóran part af planinu eða þannig að hægt væri að leggja og komast frá bílnum án þess að klofa neina skafla. Mamma var að undirbúa pönnuköku gerð og pabbi bað mig um að þýða bréf til einna af dönsku vinahjónum þeirra sem misstu yngstu dóttur sína úr sortuæxliskrabbameini í nóvember sl.  Unga konan var ekki nema 37 ára og lét einnig eftir sig mann og tvö ung börn.  Afar sorglegt.

Á fimmta tímanum var sátum við öll og gæddum okkur á dýrindis kaffiveitingum.  Seinna færðum við okkur um stund yfir í stofuna og spjölluðum um stund en um sjö kvöddum við mæðginin og héldum til baka.  Við vorum rétt komin í bæinn þegar hringt var í Odd og hann beðinn um að koma í spilasession upp í Breiðholt.  Við komum við á tveimur stöðum áður en ég skutlaði honum þangað.

Þegar ég skreið upp í rúm í kringum miðnættið tók ég mér bók í hönd sem ég gat ekki lagt frá mér fyrr en að lestri loknum.  Til allrar hamingju er þetta ekki ein af þessum mörghundruð blaðsíðna bókum heldur er innan við 130 blaðsíður.  Þetta er bókin Mánasteinn - Drengurinn sem aldrei var til eftir Sjón.  Þetta skáldverk er alveg magnað og stíll og uppsetning hrein snilld.

3.1.15

Helgarfrí

Enn og aftur fór ég á lánsbílnum í vinnuna á fyrsta vinnudegi nýja ársins í gærmorgun.  Þurfti nú að hafa aðeins fyrir því, því ég hafði ekki hreyft bílinn síðan ég kom úr kirkjunni á gamársdagskvöld. Það tók smá tíma að skafa og sópa bílinn en ég var mætt til vinnu fyrst af öllum á deildinni en reyndar bara rétt á undan þeim vinnufélaga sem kom næst.  Það náðist að ljúka því sem útaf stóð seinasta dag ársins í tíma sem og næstu daglegu verkefnum.  Um eitt leytið var svo byrjað á debetframleiðslu dagsins og það átti ekki að vera mikið mál því um mun færri kort að ræða heldur en alla aðra daga ársins.  Við vorum líka búin að hlaða inn nýjum, vænum skammti af aukaverkefninu og sáum fram á að geta jafnvel byrjað á því þrátt fyrir að vera að vinna líka að áramótauppgjöri.  En það varð nú ekki raunin því til að gera langa sögu stutta þá endaði þetta með því að kalla þurfti út viðgerðarmenn (sem reyndar voru á leiðinni til okkar með nýjan myndskanna) út af erfiðu sambandsleysi við vélina.  Sem betur fer voru þeir ekki lengi að finna út úr þessu og koma okkur af stað á ný þannig að hægt var að ljúka öllu daglegu fyrir klukkan fjögur.

Strax eftir vinnu skrapp ég í Lyfjaver að leysa út hormónagel og þaðan fór ég í Rúmfatalagerinn í Skeifunni og keypti nokkur lök á rúmdýnur strákanna, nýja ruslafötu á nýja baðherbergið mitt, upphengjanlegar skúffur undir sjampó og sápu í sturtuna og nokkra hluti í viðbót.  Klukkan var farin að halla í sex þegar ég kom heim.

2.1.15

Mánuföstudagur

Ég gleymdi alveg að minnast á það í færslu gærdagsins að ég prófaði nýju sturtuna mína að morgni síðasta dags nýliðins árs.  Er hæst ánægð en stefni nú samt að því að vera dugleg að nota árskortið mitt í laugarnar oft og mikið.

Nýjársdagur var notalegur í alla staði og var ég í hlutlausa gírnum allan daginn. Las mikið og slakaði vel á.  Hafði samskonar mat og kvöldið áður.  Strákarnir eru eiginlega búnir að snúa sólarhringnum á hvolf og ég varð ekkert vör við þá langt frameftir degi.  Um kvöldið skrapp svo annar tvíburinn í bíó, aftur á Hobbitann, með einum vini sínum.

Var komin upp í rúm rétt fyrir ellefu en las í ca. hálftíma áður en ég bjó mig undir svefninn.

1.1.15

Glænýtt ár

Hef ákveðið að vera ekkert að setja mér nein ákveðin markmið eða strengja einhver sérstök heit.  Mun bara halda mínu striki, lifa í núinu og þakka fyrir það daglega hversu heppin ég er. Brosa framan í lífið og njóta þess að vera í samskiptum við mína nánustu vini og samferðafólk.

Þegar ég mætti til vinnu í gærmorgun rétt fyrir átta var framleiðsla í fullum gangi enda hafði ég beðið um að tvær tækju að sér að mæta klukkutíma fyrr svo það væri öruggt að allt daglegt sem lægi fyrir myndi klára fyrir klukkan ellefu.  En það er ekkert öruggt í þessum heimi nema kannski það að það liggur fyrir öllum að deyja einhvern daginn. Debetkortaframleiðsla var komin á fullt þegar prentarinn bilaði upp úr klukkan níu og fljótlega varð ljóst að kalla varð út viðgerðarmann.  Sem betur fer kom sá maður áður en klukkan sló tíu.  Það tók hann rúmlega hálftima að gera við og það þurfti m.a. að skipta um varahlut sem síðast var skipt um fyrir nákvæmlega þremur árum, á gamlársdag 2011.  Hluturinn sem var settur í var reyndar sá sem þá var tekinn úr, notaður semsagt.  Ég var svo heppin að framkvæmdastjórinn lagði leið sína til okkar um það leyti sem viðgerð var að ljúka og hann var sammála mér um að panta þyrfti tvo svona hluti sem fyrst, annan til að nota í staðinn fyrir þennan sem settur var í til bráðabirgða í gær og hinn til að eiga til vara.

Um ellefu varð ljóst að ekki yrði hægt að ljúka debetframleiðslu nema fara framyfir á tíma. Ég ákvað samt að það yrði pakka saman og allir færu heim því ég tel að það verði tími til að ljúka því sem eftir stóð tímanlega á fyrsta virka degi nýs árs.  Klukkan var samt farin að halla í hálftólf áður en ég náði að stimpla mig út.  Fór beint heim og hringdi nær strax í pabba og spjallaði stund við hann.  Kveikti svo á tölvunni, náði einnig í þvottinn og stakk í eina vél í leiðinni.

Rétt fyrir fimm bað ég strákana um að setja upp kartöflur um hálfsjö og leggja á borð. Sjálf fór ég í kirkjuna mína, hitaði upp með kórnum mínum og nokkrum hjálparröddum og tók þátt á aftansöngnum milli sex og sjö.  Klukkan var reyndar ekki alveg orðin sjö þegar ég kom heim og það var ekki búið að leggja á borðið en kartöflurnar voru soðnar og það tók innan við hálftíma að "græja" matinn en ég hafði ákveðið að hafa nokkuð sem ég er afar sjaldan með, nautalund, sem ég skar í hæfilegar sneiðar, kryddaði með pipar og léttsteikti á pönnu.  Með þessu voru soðnar kartöflur, waldorfssallat, rauðkál, rauðrófur, grænar baunir og piparsósa.

lokum ætla ég að hrósa skaupinu því mér fannst það hitta í mark í flestum tilfellum. Að vísu jaðraði við að gengið væri of langt en er það ekki bara eins og með margt í daglega lífinu, það er gengið eins langt og hægt er?