22.10.19

Loksins aftur í sund

Ég fór í sturtu á Hellu á sunnudagsmorguninn var og hef ekki sett umbúðir á þá stóru tá sem aðgerð var gerð á 10. þ.m. Var eitthvað að spá í að skreppa aðeins í sjóinn seinni partinn í gær en ákvað að bíða aðeins með það. Á fimmta tímanum í dag dreif ég mig hins vegar af stað í Laugardalinn með sunddótið meðferðis. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti þrjú bleikjuflök. Í Laugardalnum fór ég beint í þann kalda þegar ég kom út. Stoppaði það í uþb tvær mínútur áður en ég fór í 42°C heita pottinn í fimm mínútur. Þaðan beint aftur í þann kalda í tvær mínútur. Synti aðeins 200 metra og fór síðan aftur í þann kalda í rúmar tvær mínútur. Það var síðasta ferðin í þann pott en ég fór aðeins í heitasta pottinn, sjópottinn og gufuna áður en ég fór upp úr og heim.

20.10.19

Helgi á Hellu

Aðeins af síðustu dögum fyrir helgina. Eftir vinnu á miðvikudaginn og þegar ég var búin að fá mér kaffi heima og smá hressingur, fórum við Davíð Steinn í smá leiðangur. Hann vantaði að komast í búð sem heitir @tt og er í Kópavogi. Þegar hann hafði lokið sínu erindi komum við við í Krónunni þar rétt hjá. Vorum með lista með okkur og sonurinn ætlaði að taka að sér að elda kvöldmatinn og langaði til að hafa pizzu svo við keyptum m.a. einn pizzabotn. Skutlaði syninum heim með vörurnar en skrapp sjál í Laugardalinn aðeins til að fara í sturtu og þvo á mér hárið. Það tók aðeins um rúman hálftíma en mikið var skrýtið að fara ekki lengra heldur en í sturtuklefann.

Á fimmtudaginn var ég komin yfir til norsku esperanto vinkonu minnar um sex. Hún hafði boðið mér í mat á undan leikhúsferð en við vorum mættar í Borgarleikhúsið tíu mínútum fyrir átta til að sjá "Sex í sveit". Hitti frænku mína og nöfnu rétt fyrir sýningu en hún og maðurinn hennar voru hægra meginn í salnum meðan við Inger vorum í efstu röð vinstra meginn. Við skemmtum okkur mjög vel, hlógum mjög mikið. Á eftir skutlaði ég vinkonu minni heim og þrátt fyrir að vera að koma heim á tólfta tímanum fékk ég stæði fyrir framan hús, það beið líklega eftir mér.

Fékk að hætta vinnu um hádegið á föstudaginn. Passaði að skilja strætókortið sem og fjölmiðlamælinn eftir heima þegar ég hlóð bílinn og brunaði af stað austur rétt upp úr klukkan eitt. Pabbi var að ljúka við að búa til vöfflur þegar ég mætti austur. Og ég bjó til pönnukökur rétt seinna. Við fengum okkur aðeins smakk af vöfflunum með kaffi/heitu vatni (pabbi drekkur aðeins kaffi eftir sundferð alla virka morgna). Um sex komu Jóna Mæja og Reynir og við þrjú hjálpuðumst að við að græja kvöldmat. Þau höfðu tekið ferðagrill með sér og Reynir grillaði blandað grænmeti og nokkrar sneiðar af folaldakjöti. Með þessu var boðið upp á sallat, kalda sósu og hvítt eða rautt. Vorum mjög södd svo við tókum okkur smá pásu áður en við fengum okkur pönnukökur og ís í eftirrétt en þessi veisla var í tilefni 85 ára afmæli pabba sem sagði okkur frá því að einn sundfélagi hans hafi komið með heimagerða rjómatertu og boðið upp á með kaffinu eftir sundið í tilefni dagsins.

Helginni hef ég að öðru leyti eitt í, prjónaskap, kapallagnir, lestur og fleira dunderí.  Er að lesa; Þannig er lífið núna eftir Meg Rosoff og lofar sú saga mjög góðu. Bókin lætur ekki mikið yfir sér en ég er búin með 6 kafla og er hissa á því að ég hafi náð að slíta mig frá henni. Það var líklega eingöngu vegna þess að ég ætlaði mér að vera búin að blogga smá áður en kemur að kaffitímanum því ég er að fara í bæinn fljótlega eftir kaffi.

14.10.19

Áfram Ísland!

Man að ég rumskaði einhvern tímann eldsnemma í morgun en var fljót að sofna aftur og þegar vekjarinn fór að hamast og láta öllum illu látum uþb tuttugu mínútum fyrir sjö valdi ég að "snúsa" í fyrsta skipti í margar, margar vikur. Tæpum tíu mínútum seinna skrönglaðist ég á fætur, fann smá fyrir kirkjuþrammi gærdagsins. Tók strætó frá Krambúðinni um hálfátta og var mætt í vinnu korteri síðar. Vorum fjórar mættar af fimm en við fórum létt með að rúlla upp vinnudeginum á langt innan við átta klukkustundum.

Eftir vinnu gerði ég mér ferð út á bókasafnið í Grófinni þar sem ég hafði veður af því að nýjasta þýdda bók eftir Angelu Marsons, Blóðhefnd. Væri á lausu í því safni. Ég fann bókina og aðra til úr öðrum rekka og rétt náði að stoppa mig áður en ég fór að athuga með fleiri bækur. Er byrjuð að lesa eina af fjórum bókum sem ég sótti á Kringlusafnið í síðustu viku; Forsetinn er horfinn eftir Anne Holt, sem er yfir 430 blaðsíður að lengd.

Þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að hella upp á tvo bolla af kaffi og fá mér einhverja hressingu með. Nú þýðir ekkert að spá neitt í sjó eða sundferðir næstu daga svo ég freistaðist til að byrja að lesa spennubókina eftir Marsons sem fylgdi mér heim af safninu í dag. Er þegar búin að lesa 10 kafla og yfir 40 bls. en ég fitjaði líka loksins upp á nýrri tusku og er búin að prjóna nokkrar umferðir.

En nú er það Ísland - Andorra í undankeppni fyrir EM í knattspyrnu karla.

13.10.19

9000 skref komin í dag

Rumskaði einhvern tímann snemma í morgun en náði að kúra mig niður aftur alveg til klukkan að ganga níu. Notaði morguninn m.a. til að ljúka við að lesa mjög spennandi spennubók sem ég fékk frá nöfnu minni á Hellu um síðustu helgi; Ég ferðast aldrei ein eftir Samuel Björk. Útbjó mér dýrindis hafragraut um hálfellefu og korter gengin í tólf trítlaði ég af stað upp í kirkju Óháða safnaðarins. Já, ég fór labbandi þangað og var komin fyrst af öllum boðuðum á réttum tíma, klukkan hálftólf. Kom að læstri kirkju og fyrsti stjórnarmeðlimur sem mætti á svæðið fimm mínútum síðar var ekki með lykil. Fljótlega mætti þó einhver sem var með lykil og opnaði okkur leið inn. Framundan var galdramessa og hlaðborð á efri og neðri til styrktar óháða kórnum sem sá um að koma með veitingar. Hluti af safnaðarstjórninu plús nokkrir sjálfboðaliða (þar á meðal ég) sáu um að raða upp borðum, hellla upp á kaffi, útbúa heita brauðrétti og ýmislegt fleira. Það fór svo að tveir stjórnarmeðlimir og tveir sjálfboðaliðar (ég í síðarnefnda hópnum) fórum aldrei í messuna en við vorum engu að síður talinn með og var heildarfjöldinn í kirkjunni 111 manns. Ég gleymdi alveg að setjast niður nema þá stund sem ég var að sykra og rúlla upp pönnukökum sem ein úr stjórninni lagði í púkk á kaffihlaðborðið. Kaffið og það meðlæti sem ég smakkaði á drakk ég og borðaði standandi einhverra hluta vegna. Öllum frágangi var lokið upp úr klukkan hálffimm og ég fór labbandi heim. Það fyrsta sem ég gerði þegar heim kom var að setjast í stólinn inn í stofunni og hringja austur í pabba.

12.10.19

Heimavið um helgina

Á fimmtudagsmorguninn fór ég á bílnum í vinnuna. Hafði bókasafnspokann með mér og geymdi hann í skottinu. Vorum mættar fjórar af fimm korter fyrir átta en sú fimmta ætlaði að mæta um hádegisbilið því hún hafði tekið það að sér að sitja yfir þeim sem tóku framleiðsluvélina í mánaðarlega yfirferð. Um það leyti sem var að bresta á kaffipása um hálftíu dreif ég mig af stað í tímann til fótaaðgerðarsérfræðingsins sem ég átti pantaðan tíma hjá. Það tók sérfræðingin uþb korter að glíma við nöglina, klippa burtu naglabrotin, sótthreinsa, bera krem á og plástra yfir. Varð að halda mér verulega fast í handtöskuna með hægri, sársaukinn var ólýsandi en ég æmti samt ekki neitt. Með vinstri hélt ég fast við stækkunarglerslampa svo hann væri á réttum stað yfir stórutánni. Fékk svo nafnið á kreminu með mér á miða eftir að ég var búin að gera upp við sérfræðinginn. Þegar ég settist upp í bíl byrjaði ég á að senda fyrirspurnarskilaboð til fyrirliðans á K1 um hvort ég mætti nota afganginn af deginum til að útrétta. Það var auðsótt. Skrapp fyrst og skilaði bókunum á safnið og valdi mér fjórar í staðinn fyrir fimm til að taka með mér heim. Stuttu eftir að ég kom heim var haft samband við mig frá Mílu um hvort ég yrði heima um eitt leytið ef það kæmi maður til að tengja mig við símann. Það var auðsótt. Náunginn kom upp úr klukkan hálfeitt en það varð fljótlega ljóst að hann yrði að fá aðstoð því bora þurfti göt í gegnum veggi og þrjár geymslur til að tengja nýtt box í þvottahúsinu. Þeir voru að til klukkan alveg að verða fimm en rétt fyrir fjögur fékk ég Odd Smára til að taka að sér vaktina því ég skrapp sjálf á síðdegisvaktina á heilsugæslunni, hvar ég þurfti að bíða eftir að komast að hjá lækni í tvo tíma til að fá hann til að skrifa upp á kremið sem fótaaðgerðarsérfræðingurinn hafði mælt með. Um kvöldið horfði ég á tvo þætti af 911 í gegnum sjónvarp símans premium sem ég mun hafa aðgang að næstu tvo mánuðina og kannski lengur ef ég ákveð að taka eitthvað meira en lágmarksáskrift.

Eftir vinnu í gær fór ég og skilaði ýmsu dóti sem tilheyrði vodafone og leysti út kremið í næsta apóteki. Sótthreinsaði, bar á og skipti um umbúðir á tánni fljótlega eftir að ég kom heim. Rétt fyrir klukka sjö skutlaði einkabílstjórinn mér á Nauthól hvar ég hitti flesta af vinnufélögunum úr K1 og 3 af fimm mökum. Ég pantaði mér þríréttað og sitthvort vínglasið með forrétti og aðalrétti. Skemmtum okkur ágætlega þarna í rúma tvo tíma. Var komin heim rétt fyrir klukkan tíu.

Í morgun var ég frekar hissa á að sundlaugin var ekkert að toga í mig, en ég má víst hvorki fara í sund né sjóinn næstu tvær vikurnar eða á meðan táin er að gróa í rólegheitunum. Notaði strætókortið og var mætt í espernato vestur í bæ upp úr klukkan tíu. Kom heim aftur upp úr hádeginu. Hringdi í pabba um hálftvö en hann hitti Helgu og Ingva í Löngumýrinni hjá Jónu og Reyni í gærkvöldi. Helga hringdi í mig seinni partinn í gær til að bjóða mér að koma líka en kvöldmaturinn með vinnufélögunum var löngu ákveðinn. Um miðjan dag bjó ég til lummur úr afgangi af hafragraut, heilhveiti, eggi, rúsínum og mjólk. Lummurnar voru akkúrat tilbúnar þegar Oddur kom heim úr vinnunni upp úr klukkan fjögur.

9.10.19

Hvorki í sund né sjóinn í dag

Þriðja morguninn í röð vakna ég amk fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Dreif mig á fætur og gaf mér góðan tíma í alla morgunrútínu. Þær mínútur sem voru afgangs áður en tímabært var að trítla út á strætóstoppistöð notaði ég til að sitja alveg róleg og reyna að hugsa ekki neitt. Í vinnunni sinnti ég bókhaldsverkefnum. Tvær af okkur fimm dembdu sér í að útbúa vöfflur upp úr klukkan eitt. Ég var enn pakksödd eftir hádegið og ákvað að standast freistinguna en sitja samt frammi með vinnufélögunum. Var með prjónana með mér og áður en ég fór inn á deild aftur var ég búin að fella af tusku no 26, sem ég fitjaði upp á um síðustu helgi. Tuskan á undan var amk 3 vikur á prjónunum, sem er óvanalega langur tími, en um síðustu helgi gekk ég loksins frá endunum á þeirri tusku og tveimur öðrum. Var komin heim rétt fyrir þrjú. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér 3 eldstafi með. Lauk við að lesa síðustu bókina af safninu seinni partinn í dag sem er gott því síðasti skiladagur er á morgun. Reyndar mætti ég framlengja um einn mánuð en ég vona að ég komist frekar safnið á morgun. Var eitthvað að spá í því að skella mér smá stund í sjóinn því ég vissi að amk 4 í sjósundshópnum í vinnunni ætluðu í Nauthólsvíkuna. En síðustu 2-3 vikurnar hef ég verið að glíma við inngróna tánögl og tilheyrandi veseni á stórutá vinstri fótar. Var búin að kíkja á vaktina á heilsugæslunni eftir klukkan fjögur um síðustu mánaðamót. Læknirinn vildi að ég prófaði að fara til fótaaðgerðarkonu fyrst (ef það gengi ekki upp ætti ég að panta tvöfaldan tíma á heilsugæslunni). Gúgglaði fótaaðgerð og valdi eina af handahófi. Þegar ég fékk samband þá var hægt að panta bæði stuttan eða langan tíma. Það var lengri bið eftir að komast í langan tíma svo ég skellti mér á einn stuttan tíma og hann er víst rétt fyrir klukkan tíu í fyrramálið.

8.10.19

Alls konar og ekkert sérstakt

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni bæði í morgun og gærmorgun. Í gærmorgun prófaði ég að gera öndunaræfingarnar strax eftir að ég var búin að klæða mig, áður en ég fékk mér lýsið, vítamínin og morgunhressinguna. Það varð, held ég, til þess að ég steingleymdi að bursta tennurnar sem yfirleitt er það fyrsta sem ég geri á morgnana. Fattaði þetta ekki fyrr en ég var mætt í vinnuna. Sem betur fer var ég með extra tyggjó á mér og það bjargaði öllu. Eftir að ég kom heim úr vinnu í gær, hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Hringdi og spallaði stuttlega við pabba og var svo komin í Nauthólsvík um fimm. Sjórinn var 8,5°C mikil stilla og dásamlegt að svamla um.

Þegar ég kom heim úr vinnu í dag brá svo við að ég sleppti því að hella mér upp á kaffi og var ég þó ekki búin að drekka dropa af slíkum drykk í dag. Ákvað að koma við í fiskbúð og Krónunni í Nóatúni áður en ég hringdi í eina frænku mína og athuga hvort hún væri heima. Var reyndar með sunddótið með mér sem plan B. Frænka mín og nafna var heima og N1 strákurinn tók við vörunum úr fiskbúðinni og Krónunni og lofaði hann að ganga frá þeim og jafnvel elda kvöldmatinn líka. Átti mjög gott spjall, góðan hitting, með frænku minni og þáði ég hjá henni fyrsta og eina kaffibolla dagsins. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn næstum því búinn að elda, steikti ýsuna upp úr hrærðu eggi og heilhveiti krydduðu með pipar og smá hvítlaukssalti. Einnig hafði hann skorið niður smælki og svissað upp úr smjöri. Virkilega vel heppnað hjá honum en þetta var í fyrsta skipti sem hann matreiðir eitthvað úr fiski.

6.10.19

Frábært veður í dag

Í gær lagði ég af stað úr bænum rétt upp úr klukkan tólf og ákvað að keyra Þrengslin. Kom við í Löngumýrinni á Selfossi og stoppaði þar í á aðra klukkustund. Þegar ég kom á Hellu um þrjú þurfti ég að nota lykil til að komast inn. Pabbi var úti í skúr að dútla. Hann kom inn skömmu síðar og þá var ég búin að undirbúa kaffitímann. Eftir kaffi tók ég út silung sem ég hafði svo í kvöldmatinn eftir fréttir á RÚV. Í millitíðinni prjónaði ég, lagði nokkra kapla og spjallaði við pabba, ekki endilega í þessari röð.

Svaf út eða til klukkan hálftíu í morgun. Upp úr hálfellefu fékk ég mér göngutúr upp að Helluvaði en nú brá svo við að föðursystir mín var farin af bæ. Eftir hádegi fór ég með þrjár bækur til nöfnu minnar, stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma og kom með tvær aðrar kiljur með mér til baka. Er að fara að vinna í að útbúa kvöldmat sem ég ætla að borða með pabba áður en ég legg af stað í bæinn. Annars hefur dagurinn farið í kapallagnir, smá lestur, tuskuprjón og svo fitjaði ég upp á enn einu sjalinu eftir nokkurt hlé. Átti garn sem ég hafði hugsað mér í sjalaprjón og er ég búin að prjóna 1. kaflann og þegar ég held áfram byrja ég á 2. kafla sem er endurtekningakaflinn og ég mun líklega endurtaka hann 10-12 sinnum áður en ég skipti yfir í 3. og síðasta munsturkaflann.

5.10.19

Á Hellu um helgina

Upp úr klukkan tvö á fimmtudaginn tókum við, fjórar af fimm, leigubíl frá K1 yfir í K2. Sú fimmta fór á einkabíl á undan okkur hinum. Tilefni þessa ferðalags var fyrri hluti af smá námskeiði sem við höfðum allar skráð okkur á. Við vorum eitthvað á þriðja tuginn sem sóttum þetta námskeið sem byrjaði um hálfþrjú og stóð yfir í góðan einn og hálfan tíma. Framhald á fimmtudag eftir þrjár vikur. Labbaði heim og skráði síminn á mig tuttugu mínútna göngu, sjálfvirkt. Seinni part göngunnar gekk ég nánast við hliðina á strætó sem lendir yfirleitt í umferðarsultu á Lönguhlíðinni á þessum tíma. Skrapp í sund þegar klukkan var að byrja að ganga sex. Kom heim um hálfsjö og hafði lasanja í matinn. Um átta var ég kominn í heimsókn til Lilju vinkonu þar sem ég hitti búlgarska vinkonu hennar sem og vinkonuna sem var með okkur Lilju á Kanaríeyjum. Sú búlgarska og Lilja hafa þekkst síðan 2006 en þetta var fyrsta heimsóknin hennar til Íslands og sagðist hún vera kolfallin fyrir landinu. Það var glatt á hjalla næstu tvo tímana. Töluðum á ensku en sú búlgarska vildi líka hlusta á okkur hinar tala svolítið saman á íslensku, svo við skiptum stundum yfir í móðurmálið.

Í gær lauk vinnu um tvö leytið og þar sem var föstudagur fórum við snemma inn í helgina. Tók strætó upp í Kringlu og rak nokkur erindi. Var samt komin heim um hálffjögur. Komst ekki í neinn sérstakan "gerugír" en vann í því að klára næstsíðustu bókina af fimm sem ég er með af bókasafninu. Kláraði hana fyrir kvöldmat. Hafði plokkfisk í matinn. Fór í háttinn á ellefta tímanum og byrjaði á fimmtu og síðustu bókinni; Svik eftir Lilju Sigurðardóttur.

2.10.19

Örstutt í sjóinn seinni partinn


Aftur vaknaði ég á undan vekjaraklukkunni og var komin á fætur uþb sem hún hefði átt að hringja. Gat gefið mér góðan tíma í morgunrútinuna áður en ég tók strætó í vinnuna um hálfátta í morgun. Var komin heim aftur rétt fyrir fjögur og líkt og í gær var mitt fyrsta verk að hella upp á könnuna og fá mér hressingu. Hringdi í pabba og við spjölluðum í rúmar tíu mínútur. Það er loksins kominn nýr dúkur í sundlaugina á Hellu og gat þá pabbi farið að sinna hefðbundinni sundrútínu og fækkað ferðum í rennibrautirnar úr fjórum aftur niður í tvær.


Um fimm fór ég í Nauthólsvík. Var kominn ofan í sjóinn korter yfir og lék ég mér í ölduganginum í rétt rúmar fimm mínútur. Sat aðrar fimm mínútur í heita pottinum en dreif mig svo upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni og keypti mér kartöflur og ýsu í soðið

1.10.19

Fyrsti októberdagurinn

Þar sem ég er búin að fjárfesta í strætókorti sem gildir frá og með deginum í dag gat ég stillt vekjarann amk korteri seinna en undanfarna mánuði. Ég vaknaði reyndar mun fyrr. Þegar ég labba í vinnuna labba ég yfirleitt af stað í kringum 7:10 til að vera mætt í vinnu korter fyrir átta. Í morgun "hoppaði" ég upp í strætó rétt fyrir klukkan hálfátta og var mætt í vinnu rétt áður en klukkan var korter í. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að plasta nýja, þriggja mánaða strætókortið. Eftir vinnu rölti ég yfir í Austurstræti. Lilja vinkona hafði talað um að ætla að vera "á sínum stað" í síðasta skipti þetta árið einmitt í dag 1. október. Klukkan var korter gengin í fjögur. Fjórir söluaðilar voru að selja sínar vörur en engin Lilja. Hvort hún kom ekkert eða var hætt og farin í dag veit ég ekki. Fyrst ég fann ekki Lilju dreif ég mig heim með leið nr. 13 sem stoppar sem fyrr, á Lönguhlíðinni mitt á milli Mávahlíðar og Drápuhlíðar.

Heima hellti ég mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér hressingu með. Hringdi svo í pabba til að athuga hvernig gangi að koma upp nýju bílsskúrshurðinni sem hann var að kaupa eftir eigin máli um daginn og er að setja upp sjálfur. Mér skilst að nú sé nánast aðeins eftir að tengja apparatið sem á að nota til að opna og loka. Snillingurinn hann pabbi minn. Áður en ég dreif mig í sund hringdi ég í símann en nú er liðinn meira en mánuður síðan var hringt í mig og mér boðið að skipta yfir í þjónustu símans og mílunnar. Ég fékk sent símkort í gemsann sem var virkjað að kvöldi 3. september sl. en síðan hefur ekkert verið að gerast. Sá sem svaraði á þjónustuborðinu sagði að þetta væri allt að fara að smella en hann skildi senda út fyrirspurn og hafa samband við mig á morgun.

Var komin ofan í kalda pottinn korter yfir fimm og sat þar í uþb 4 mínútur áður en synti 500m. Allt í allt fór ég 4 sinnum í þann kalda og endaði svo í 10 mínútna gufubaði áður en ég dreif mig uppúr, í kalda sturtu og heim.