Sennilega skutlaði ég tvíburunum í síðasta sinn í skólann á þessari önn í gærmorgun. Nú eru bara prófin eftir hjá þeim. Síðan lá leiðin á fjórðu hæð í turninum við Katrínartún. Enginn var staddur þar sem ég átti að gefa mig fram en ég fann eitthvað af fókinu í matsalnum og þar var mér uppálagt að byrja á því að fá mér kaffi og með því. Þessi heimsókn mín var nokkurs konar starfskynning og var ég á fundum eða sat hjá nokkrum af þeim sem vinna á þjónustuborðinu og fylgdist með allan morguninn. Á einum tímapunkti hittust flestir í matsalnum til að kveðja einn vinnufélagann sem var að hætta eftir 35 ára starf. Í hádeginu fékk ég að borða og fljótlega eftir það fór ég í starfsmanna viðtal við næstráðandi yfirmann minn og kvaddi svo upp úr hálftvö.
Áður en ég mætti í deildina mína lagði ég leið mína í bankann þar sem ég fékk aðstoð þjónustufulltrúa til að millifæra fyrir mig tæplega 3,6 millijónir inn á reiknings xins til að borga hann út úr íbúðinni samkvæmt samningi. Hann er ekki enn búinn að taka dótið sitt en ég varð að borga í síðasta lagi 1. desember og þar sem ég hef ekki heimild til að millifæra svo háa eingreiðslu og sá fyrsti ber upp á sunnudag dreif ég í þessu í gær. Er ég kom í kortadeildina var mitt fyrsta verk að senda lögfræðingnum mínum skilaboð og kvittun þess efnis að ég væri búin að standa við mitt. Hún svaraði fljótlega að hún myndi framsenda þetta á lögfræðing xins svo gengið yrði frá eignaskiptum.
Strákarnir voru með spilakvöld hér heima annað föstudagskvöldið í röð. Annar þeirra fór fyrst í smá matarboð til fyrrum bekkjarsystur en hinir lögðu í púkk og pöntuðu sér eitthvað. Ég lokaði að mér inn í stofu og horfði á imbann og fór langt með að klára 5. útsaumaða jólakortið. Xið sótti svo strákana stuttu fyrir miðnætti.