30.11.13

Nóvembermánuður næstum liðinn

Sennilega skutlaði ég tvíburunum í síðasta sinn í skólann á þessari önn í gærmorgun.  Nú eru bara prófin eftir hjá þeim.  Síðan lá leiðin á fjórðu hæð í turninum við Katrínartún.  Enginn var staddur þar sem ég átti að gefa mig fram en ég fann eitthvað af fókinu í matsalnum og þar var mér uppálagt að byrja á því að fá mér kaffi og með því.  Þessi heimsókn mín var nokkurs konar starfskynning og var ég á fundum eða sat hjá nokkrum af þeim sem vinna á þjónustuborðinu og fylgdist með allan morguninn.  Á einum tímapunkti hittust flestir í matsalnum til að kveðja einn vinnufélagann sem var að hætta eftir 35 ára starf.  Í hádeginu fékk ég að borða og fljótlega eftir það fór ég í starfsmanna viðtal við næstráðandi yfirmann minn og kvaddi svo upp úr hálftvö.

Áður en ég mætti í deildina mína lagði ég leið mína í bankann þar sem ég fékk aðstoð þjónustufulltrúa til að millifæra fyrir mig tæplega 3,6 millijónir inn á reiknings xins til að borga hann út úr íbúðinni samkvæmt samningi.  Hann er ekki enn búinn að taka dótið sitt en ég varð að borga í síðasta lagi 1. desember og þar sem ég hef ekki heimild til að millifæra svo háa eingreiðslu og sá fyrsti ber upp á sunnudag dreif ég í þessu í gær.  Er ég kom í kortadeildina var mitt fyrsta verk að senda lögfræðingnum mínum skilaboð og kvittun þess efnis að ég væri búin að standa við mitt.  Hún svaraði fljótlega að hún myndi framsenda þetta á lögfræðing xins svo gengið yrði frá eignaskiptum.

Strákarnir voru með spilakvöld hér heima annað föstudagskvöldið í röð.  Annar þeirra fór fyrst í smá matarboð til fyrrum bekkjarsystur en hinir lögðu í púkk og pöntuðu sér eitthvað.  Ég lokaði að mér inn í stofu og horfði á imbann og fór langt með að klára 5. útsaumaða jólakortið.  Xið sótti svo strákana stuttu fyrir miðnætti.

29.11.13

Föstudagur sá síðasti í þessum mánuði

Viljug mæti vinnu til
vandvirk störfum sinni.
Þetta´ er svona um það bil
eftir mínu minni.

Enn einn föstudagurinn runninn upp.  Dagarnir eru ákaflega fljótir að líða og maður hefur vart undan að njóta þeirra.  Í gær var ég í vinnu þar til klukkan var langt gengin í fimm en ég var komin heim áður en klukkan sló hálfsex.  Notaði strætó báðar leiðir í gær en byrjaði svo á því að "leita" uppi lánsbílinn og færa hann nær heimilinu.  Þegar ég kom heim af kóræfingu á miðvikudagskvöldið var næsta lausa stæði við hús nr. 11.

Um það bil sem Oddur Smári fór á trommuæfingu fór ég að huga að matargerð.  Steikti sæta kartöflu og kjúklingafille og bætti graskersfræjum, kasjúhnetum og afgangi af bygggrjónum út á pönnuna.  Kryddaði þetta svo með "Best á kjúklinginn".  Annars var gærkvöldið rólegt.  Var aðallega að sauma út fimmta útsaumaða jólakortið en fylgdist líka aðeins með íþróttarásinni og með gangi mála á hinum handboltaleikjum kvöldsins.  Mínir menn voru víst með undirtökin nær allan leikinn í Safamýrinni en töpuðu svo með einu marki.  Frekar fúlt það. 

28.11.13

Fjölmenn kóræfing

Gærdagurinn leið afar hratt og örugglega.  Notaði strætó báðar leiðir til og frá vinnu.  Rétt hitti annan tvíburann en þeir bræður fóru til pabba síns í gærkvöldi.  Um sexleytið kom Lilja vinkona mín og hellti ég upp á smá kaffi handa okkur.  Ég skildi hana svo eina eftir rúmlega klukkutíma seinna.  Fór á extra langa kóræfingu, frá hálfátta til tíu, með extra mörgu söngfólki.  Sönghópurinn Kyrjurnar, sem er kvennakór, ætlar að syngja á aðventukvöldinu með okkur.  Einnig bættist við einn aukatenór en ég held að það bætist við fleiri aukakarlaraddir á næstu tvær æfingar.  Kom heim upp úr tíu og við Lilja horfðum saman á Kiljuna á tímarásinni.  Hún fékk svo afnot af sófanum í nótt og vorum við báðar farnar í háttinn áður en strákarnir komu heim.

27.11.13

Föndurstund

Aðeins annar tvíburinn var samferða mér í gærmorgun.  Hinn þurfti ekki að mæta í skólann í gær.  Rétt fyrir tvö skrapp ég á leitarstöðina í reglulega skoðun sem nú er framkvæmd á fjögurra ára fresti en var áður annað hvert ár.  Allt gekk vel og ég var ekki klukkutíma í burtu.  Á heimleiðinni kom ég við í fiskbúð og hamstraði, keypti bleikju, ýsu og saltfiskflök.  Það síðast nefnda hafði ég í kvöldmatinn en hitt frysti ég.  Um hálfátta var ég mætt á fjórðu hæðina í Katrínartúni.  Þar var mættur hópur af vinnufélögum.  Flestir skreyttu kerti, örfáir voru í fluguhnýtingum og ég var með saumana mína með mér.  Kláraði jólakortið sem ég byrjaði á sl. laugardag og byrjaði á öðru.  Var komin heim um tíu.

26.11.13

Saumaklúbbur

Mamma og pabbi sendu mig með skópar til Davíðs Steins og auglýsingu um 20% afslátt af svipuðu skópari í versluninni Músík og sport við Reykjavíkurveg.  Afslátturinn gilti frá fimmtudegi til mánudags.  Lokað er á sunnudögum svo við Oddur Smári drifum okkur eftir vinnu og skóla í gær.  Því miður voru skórnir ekki til í hans númeri.  Góður fréttirnar eru þó þær að það er von á nýrri sendingu innan tveggja vikna.  Við munum "sitja" fyrir henni þótt afslátturinn gildi ekki þá.  Davíð Steinn smellpassaði í skóna sem hann fékk og fannst þeir svo góðir að hann sagðist ekki ætla úr þeim aftur.

Eftir kvöldmat tók ég handavinnuna mína með mér yfir til tvíburahálfsystur minnar.  Síðasti skipulagði saumaklúbbur ársins var hjá henni í gær.  Reyndar vorum við bara tvær sökum anna hjá þeirri þriðju.  En tíminn flaug afar hratt frá okkur.  Ég kláraði að sauma útlínur á seinni gulu flöskurósinni og hélt svo áfram með jólamyndina sem ég byrjaði á fyrir austan um síðustu helgi.  Fór langt með þá mynd.  Kom heim rétt upp úr ellefu og freistaðist í að horfa strax á næstsíðasta þáttinn um Sögu og Martin í seríu númer tvö um brúna.  Og þrátt fyrir að klukkan var farin að ganga eitt eftir miðnætti þegar ég fór í rúmið las í smá í bókinni  Land þagnarinnar eftir Ara Trausta Guðmundsson.  Ég á ekki mikið eftir af þeirri sögu en það er mesta furða að ég hafi náð að slíta mig frá henni áður en klukkan varð mikið meira en hálfeitt í nótt.

25.11.13

Sungið í messu

Oddur Smári og ég fórum í smá bíltúr stuttu fyrir hádegi í gær, bíltúr sem ekkert kom út úr og verður að endurtakast.  Meira um það á morgun.  Var mætt í kirkjuna korter fyrir eitt í gær, næst á eftir prestinum.  Stuttu seinna mætti afleysingaorganistinn.  Við þekkjum hann nokkuð vel því hann var organisti hjá okkur í tvö ár fyrir nokkrum árum.  Við hituðum upp níu úr kórnum en sú tíunda mætti tímanlega áður en sjálf messan hófst.  Eftir upphitun var okkur boðið upp á smá sérrístaup, kaffi og tertusneið.  Kári spilaði á orgelið í messunni og stundin var öll hin notalegasta.  Fékk mér smá kaffi eftir messu en sótti svo Odd sem kom með mér að versla inn fyrir vikuna.  Í gærkvöldi tók ég mig til og byrjaði að sauma útlínur á seinni gulu rósina sem ég saumaði á flöskusvuntu um daginn.

24.11.13

Skrapp austur

Var mætt til esperanto vinkonu minnar upp úr hálfellefu.  Hafði bara rétt rúman klukkutíma að þessu sinni en við náðum að fara yfir síðasta kafla, lesa næsta kafla þar á eftir og skoða orðin sem tilheyra kaflanum sem við förum í næst.  Aðeins annar tvíbbinn var vaknaður er ég kom heim um tólf.  Það var sá sem ég hafði lofað að skutla upp í Fella- og Hólakirkju fyrir hálfeitt þar sem hann átti að spila með skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts á tónleikum um klukkustund síðar.  Ég tók mig til og svo lögðum við í hann.  Ég skildi stráksa eftir fyrir utan kirkjuna en ég hélt áfram för minni austur á Hellu.  Hinn tvíburinn hafði alveg hugsað sér að kom með en ég leyfði honum að sofa.  Hringdi í hann þegar ég var komin yfir heiðina og var þá að vekja hann.  Stoppaði hjá pabba og mömmu fram á kvöld og hjá þeim byrjaði ég m.a. að sauma "nýja" jólamynd sem fer í jólakort.  Kvaddi foreldra mína þegar klukkan var byrjuð að ganga tíu.  Bensínljós bílsins kviknaði er ég var komin að Hveradölum en ég komst alla leið að bensínstöðinni í Ártúnsbrekku.  Veit ekki hversu langt ég hefði farið á dropunum sem eftir voru því ég ákvað að fylla ekki á tankinn.  Yfirleitt nota ég nefnilega Atlantsolíulykilinn þegar ég fylli á.

23.11.13

Jólahlaðborð

Eins og flesta föstudaga þá fór ég á bílnum í vinnuna í gærmorgun.  Tvíburarnir voru samferða mér upp að Tækniskóla.  Strax eftir vinnu lá leiðin á aðalborgarbókasafnið í Grófinni.  Þar skilaði ég fjórum bókum af fimm og tók aðrar fjórar bækur með mér heim.  Strákarnir áttu von á nokkrum félögum til að spila eitthvað spil sem þeir spila vikulega.  Þeir hafa verið að hittast einhvers staðar niður í bæ undanfarin föstudagskvöld.  Þeir undirbjuggu hittinginn með því að stækka borðið í holinu og skella nokkrum vorrúllum í ofninn.  Ég tók því rólega þar til klukkan var langt gengin í sjö.  Vafraði um á netinu og byrjaði einnig á bókinni sem ég átti ólesna frá síðustu bókasafnsheimsókn.  En rétt fyrir sjö fór ég að hafa mig til.  Klæddi mig í spariföt og setti á mig varalit. Var ákveðin í að smakka ekki vín um kvöldið svo ég fór á bílnum á Hilton Hótel við Suðurlandsbraut.  Þar hitti ég marga vinnuvélaga mína.  Tilefnið var jólahlaðborð.  Borðhaldið hófst upp úr klukkan átta.  Ég fór eina ferð í forréttina, aðra í aðalréttina og tvær í eftirréttina.  Passaði mig á að hlaða ekki um of á diskana og reyndi að velja margt af því sem maður fær sér sjaldan eða aldrei.  Þrátt fyrir að kunna mér hófs í þessar veislu varð ég pakksödd.  Maturinn var góður og ég borðaði hægt og naut hans.  Undir borðum komu söngkona og píanóleikari fram nokkrum sinnum með hléum.  Eyþór Ingi, sá sem vann íslensku söngvakeppnina í ár, bættist í hópinn á ellefta tímanum og um ellefu mættu trommari og bassaleikari einnig á sviðið.  Ég staldraði nú ekki lengi við eftir það en þó eitthvað.

22.11.13

Breyttir skriftímar

Hafa vil ei hátt um það
hve úti er að vetra.
Andann nærði', heitt ég bað
og lífið það varð betra.

Framvegis mun ég annaðhvort skrifa inn daglegu færsluna um sjö virka daga eða eftir klukkan hálffimm.  Ég hef ekki lengur aðgang til að skrá mig inn í vinnunni.  Hugsanlega verður ein tölva með þessum aðgangi en ég mun helst ekki nýta mér það og sennilega bara alls ekki.  

Þegar ég labbaði heim úr vinnunni á miðvikudaginn var fékk ég slæmt hælsæri á annan hælinn.  Ég notaði því strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær.  Og fór á bílnum út að Valsheimili á heimaleik í Olísdeild karla í gærkvöldi.  Þar tóku Valsmenn á móti FH og töpuðu með 23 mörkum geng 25.  Samt var okkar markvörður að verja betur.

21.11.13

Ferðalangarnir komnir heim

Síðustu þrjár vikur voru foreldrar mínir á Tenerife.  Þetta var fyrsta skiptið hans pabba en annað skiptið hjá mömmu.  Hún fór fyrir tveimur árum síðan.  Á þeirri ferð kynnstist hún fólki sem rak verslun þarna úti.  Það fólk tók hana upp á sína arma, fór með hana í skoðunarferðir og fleira.  Hún leitaði þetta fólk uppi þegar þau pabbi voru komin út og það urðu fagnaðarfundir.  Hún færði fólkinu meðal annars prjónaðar peysur á börnin.  En mamma hringdi semsagt í mig upp úr níu í gærkvöldi og þá voru þau nýlent á Keflavíkurflugvelli og ætluðu beint austur.  Þau hringdu reglulega í mig og systur mína á meðan þau voru úti og létu vel af sér.  Mamma hefði auðvitað alveg verið til í að vera að minnsta kosti í þrjár vikur enn en ég held að pabbi hafi alveg verið tilbúinn að koma aftur heim.  Ég var annars á miðri kóræfingu þegar mamma hringdi í gærkvöldi.  Þar vorum við að æfa fyrir aðventukvöldið og einnig fórum við yfir hátíðasöngvana (sr. Bjarna/Bjarnatónið (messa á aðfangadag og messa á jóladag)).

20.11.13

Þeir eru samt "STRÁKARNIR OKKAR"

Ekki vannst sæti á hm í Braselíu næsta sumar.  Ég er samt stolt af íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og alveg viss um að þeir eiga eftir að gera betri hluti og komast lengra í náinni framtíð.  Þeir eru þegar búnir að ná lengra en íslenskt A-karlalandslið í knattspyrnu hefur náð áður.  Auðvitað eru þeir svekktir núna, ekki síst Eiður Smári sem sagðist líklega hafa verið að spila sinn síðasta landsleik í gær enda orðinn 35 ára.  Ég er nú samt viss um að hann gæti alveg átt tvö til þrjú ár enn ef hann heldur sér í formi en kannski er það líka rétt hjá honum að leggja landsliðsskóna á hilluna.  Hann er nú alveg búinn að skila sínu og jafnvel gott betur á þessum 17 árum.  Hugsa sér, hann er eiginlega búinn að vera í landsliðinu helminginn af ævi sinni.  Ég átti annars svolítið erfitt með að horfa á leikinn á köflum svo ég greip til þess ráðs að taka upp saumana mína.  Náði að sauma allar útlínur á annarri gulu flösku-rósinni, og það á þeirri sem er flóknari, í gærkvöldi.

19.11.13

Áfram flýgur tíminn

Ég tók mér far með strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær.  Var komin heim nokkru fyrir hálffimm og fór nær beint í að vafra aðeins um á netinu.  Hafði matinn um hálfsjö, lasanja.  Ég held að báðir bræðurnir hafi fengið sér tvisvar á diskinn.  Það var samt til einn skammtur fyrir mig til að taka með mér í vinnuna í dag.  Færði mig inn í stofu um sjö.  Horfði á fréttir, kastljós, söguna um Heiðu Dís og næstsíðasta þáttinn í annarri seríunni um brúnna.  Notaði tímann líka til að ljúka við að sauma útlínur á þriðja útsaumaða jólakortið og merkja þessi þrjú með skammstöfun og ártali.  Ætla mér svo að taka mynd af þessum jólamyndum fljótlega.

18.11.13

Notalegheit

Ég get ekki að því gert en stundum óska ég þess að um suma hluti væri nóg að hugsa um hvernig maður hagaði þeim til og þá, væri eins og við manninn mælt, verkefninu lokið.  Ég var semsagt að hugsa um að ryksuga yfir íbúðina í gær en notaði daginn aðallega í lestur og netvafr.  Hitt gerist víst ekki að sjálfu sér en það fer heldur ekki neitt.
 
Seinni partinn hafði ég samband við tvíburahálfsystur mína sem og föðursystur mína og við ákváðum að ég myndi ná í þær, aðra í Hafnarfjörðinn en hina við Olísstöðina í Norðlingaholti.  Saman fórum við yfir heiðina til að mæta á kóræfingu fyrrum FSu-kórfélaga.  Jón Ingi sá um æfinguna sem hófst upp úr klukkan hálfníu. "Sofðu unga..., Heyr himnasmiður, Smávinir fagrir, Hallingsvisa..."  og nokkur önnur lög voru rifjuð upp og sungin.  Mér tókst að sannfæra Sonju um að syngja í altinum með mér, annars hefði ég verið ein.  Vorum mætt um tuttugu en vonumst eftir betri mætingu næst.  Ákveðið var að hittast einu sinni í mánuði en þó ekki fyrr en í janúar næst.
 
Ekki tæmdi x-ið skúrinn um helgina svo það stefnir allt í það að ég verði að ýta við honum og fá hann til að tæma í síðasta lagi um það leyti sem ég verð að borga hann út skv. samningi.

17.11.13

Mánuðurinn meira en hálfnaður

Þrátt fyrir kvefið dreif ég mig til esperanto vinkonu minnar  upp úr hálfellefu í gærmorgun.  Var heldur seinni en venjulega því ég hafði ekki litið út um glugga áður en ég fór út og vissi ekki að það þyrfti að sópa og skafa.  Esperantogruflið gekk bara vel.  Næst lá leiðin í Krónuna við Granda þar sem ég versla oftast inn fyrir vikuna.  Inn á milli skrepp ég í Sunnubúðina og stöku sinnum í Hagkaup.  Mér finnst ekkert að því að styrkja kaupmanninn á horninu. Það er afar hentugt að geta hlaupið út eftir ýmsu smálegu ef eitthvað vantar.

Ég var að ganga frá vörunum þegar systir mín hringdi til að athuga hvort ég væri heimavið.  Ég hellti því upp á könnuna fyrir okkur tvær og tók vel á móti henni þegar hún kom.  Sátum afslappaðar í stofunni í hátt á annan tíma.  Við höfðum um margt að spjalla.

Fljótlega eftir að Helga fór hringdi ég svo í nöfnu mína og frænku í Garðabænum og heimsótti hana í kjölfarið.  Það er orðið langt síðan ég leit þar inn síðast.  Hugsanlega gæti ég alveg verið duglegri við að kíkja við til ættingja og vina en ég tel mig þó vera að gera mitt besta í þeim efnum.

Kvöldinu eyddi ég í rólegheitum fyrir framan skjáinn.  Horfði á Merlín á RÚV og Barnaby á SkjáEinum.  Fór tiltölulega snemma í rúmið en las hátt í klukkutíma áður en ég fór að sofa.  Fullkominn dagur!

16.11.13

Allt getur gerst

Það að ekkert mark var skorað í fyrri umspilsleiknum í gær, úrslit 0:0, þýðir að enn er möguleiki á úrslitum okkar strákum í hag.  Króatar verða alltaf að vinna og ef þeir fá á sig eitt mark verða þeir amk að skora 2 til að vinna því útivallarmark telur mikið.  Ef leikurinn úti fer1:1 þá færu okkar strákar á hm í Brasilíu.

Kom við í Hagkaup í Skeifunni að kaupa mér engifer, sítrónur og hálsbrjóstsykur og svo smá snakk með leiknum.  Átti notalega kvöldstund fyrir framan skjáinn.  Þoldi reyndar ekki að horfa alveg á köflum en horfði þó á mest allan leikinn.  Eftir leikinn horfði ég svo á "The voice" á plúsnum á Skjá einum.  Var búin að slökkva á sjónvarpinu fyrir miðnætti og las helling í rúminu áður en ég fór að sofa.

15.11.13

Spenningur

Við Króata um sæti keppum
kannski´ á hm förum.
Vinnist leikir, okkur sleppum,
og þá á allra vörum.

Síðasta klukkutímann í vinnu í gær mætti ég á sviðsfund í Katrínartúni.  Þaðan labbaði ég heim.  Þetta er nú ekkert svo langur spölur, sennilega uþb einn og hálfur kílómetri eða svo.  Sem betur fer var ekki rok en rigningin, maður minn.  Þegar ég kom í Drápuhlíðina fór ég úr úlpunni, settist inn í mömmubíl og skrapp á næstu bensínstöð Atlantsolíu.  14 krónur afsláttur af lítranum svo það borgaði sig að fylla á tankinn.  Fór svo beint heim aftur og skipti um föt.  Hafði matinn um hálfsjö og rétt fyrir átta skutlaði ég bræðrunum og einum vini í fyrirpartý fyrir skólaballið sem var seinna um kvöldið á Rúbín við Keiluhöllina.  Heima fylgdist ég með leiknum Valur - Haukar og var svekkt yfir að valsararnir glutruðu  sex marka forystu niður í jafntefli.  Sem betur fer fengu þeir þó annað stigið.  Þetta hefði líklega geta endað verr.

14.11.13

Nefrennsli og aumur háls

Andinn góður enn um sinn
ég nýta mér það kann.
Á færibandi stökur finn
flink ég er með sann.

Særindi í hálsi komu í veg fyrir að ég færi á kóræfingu í gærkvöldi.  Leiðinlegt að missa af æfingu því við erum byrjuð að æfa fyrir aðventukvöldið en ég vissi það vel að ég átti ekkert erindi.  Ég hefði freistast til að taka þátt og það er öruggt að hálsinn og raddböndin hefðu ekki þolað það og jafnvel verið lengur að komast í lag.  Er ekki með neinn hita með þessu kvefi en samt ekki alveg 100% ég.
 
Steikti slátur handa okkur strákunum og notaði svo kvöldið fyrir framan skjáinn í útsaum.  Er byrjuð á útlínunum í þriðja saumaða jólakortinu.  Af þessum þremur kortum fær mamma að velja sér eitt til að nota.  Það er vel hugsanlegt að ég nái að sauma eitt til tvö jólakort í viðbót en ég ætla samt að láta útlínur á gulu flösku-rósirnar ganga fyrir.  Fór í háttinn um ellefu og las smá stund.  Náði að slíta mig frá bókinni áður en klukkan sló hálftólf og var fljót að sofna.

13.11.13

Þrettán - ellefu - þrettán

Veðrið rysjótt, tíðin rök,
rok og blautir dagar.
Ekki kemur neitt að sök
innivera lagar.


Ég var aðeins að fara yfir skrifin í mánuðinum og komst að því að ég var að bulla feitt á sunnudaginn. Var alveg búin að gleyma sögunni af næstum því týnda bíllyklinum sem ég skráði inn 3. nóvember. Þannig að það leið ekkert langur tími á milli sunnudagsbloggskrifa.
 
Strákarnir urðu samferða mér í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið afar fljótt og ég fór beint heim eftir vinnu.  Vafraði aðeins um á netinu og byrjaði á nýrri bók.  Komst upp með að hafa afganga í matinn og svo notaði ég kvöldið í útsaum.  Er langt komin með jólamyndina sem ég byrjaði á í saumaklúbbnum á mánudagskvöldið.  Ekki svo margir krossar eftir og svo bara útlínur.  Svo var mín bara skynsöm og fór tiltölulega snemma í háttinn.  Las um stund í þykkustu bókinni af safninu en var örugglega sofnuð um ellefu.

12.11.13

Kátt á hjalla í saumaklúbb

Krossa marga kát og hress
í klúbbnum sauma bjó.
Á okkur stöllum ekkert stress
stakk af tíminn þó.

Eins og fram kemur í stökunni var saumaklúbbur í gær.  Ég var mætt til Lilju, sem býr rétt við Úlfarsfell, um átta og Sonja bættist svo í hópinn áður en klukkan sló hálfníu.  Ég var ekki með jólakortaföndrið meðferðis heldur lauk ég við útlínur á jólamynd og byrjaði á annarri sem báðar verða notaðar í jólakort.  Það var mikið spjallað og mikið hlegið en alls ekki slegið slöku við handavinnuna.  Þrír tímar voru alltof fljótir að líða.  En þótt klukkan væri að verða hálftólf er ég skilaði mér heim horfði ég á "Sögu og Martin" úr Brúnni á tímarásinni.  Ekki nóg með það þá las ég nokkra kafla í bókinni hans Pálma áður en ég fór að sofa, sem var frekar seint.  Vonandi kemur það ekki niður á mér þótt ég svæfi innan við sex tíma í nótt.

11.11.13

Ný vinnuvika

Vænt mér þykir orðin um
og nota mörg ég vil.
Ónothæf þó eru sum
örfá varla til.
 
Í gær var kristniboðsdagurinn og þar sem aðeins er messað tvisvar í mánuði alla jafna í kirkju óháða safnaðarins var líka látinna minnst.  Maður frá Gideon-félaginu predikaði eða sagði frá félaginu og reynslusögur og það komu tveir karl-einsöngvarar og sungu fyrir og eftir predikun.  Kórinn söng aðeins þrjá sálma, einraddaða, fyrir utan messusvörin.  Það mættu nokkuð margir og var þetta hin notalegasta stund.
 
Hafði ætlað mér að taka bókasafnspokann með að kirkjunni og geyma í skottinu.  Mundi ekki eftir pokanum fyrr en of seint.  Það gerði þó ekkert til því það er opið á söfnunum til klukkan fimm og ég hafði alveg tíma til að fá mér smá kaffi eftir messu áður en ég fór heim og sótti pokann.  Ákvað að fara á aðalsafnið, í Grófinni, þar sem ég setti allar þrjár bækurnar úr Kringlusafninu á vagninn sem merktur er "FRÁTEKIÐ".  Fann mér fimm bækur til að taka með heim og sú þykkasta er með 14 daga skilafrest.  Samt byrjaði ég ekki strax að lesa skammtímalánsbókina né neina af hinum af safninu.  Er með bókina hans Pálma Gunnarssonar  Gengið með fiskum í láni frá vinnufélaga.  Byrjaði á henni er ég var komin upp í rúm frekar seint og áður en ég vissi af var ég búin að lesa einn fjórða af bókinni, eða eitthvað um 50 síður.

10.11.13

Sunnudagshugvekja

Góða daginn, góða fólk,
geymi ykkur englar.
Í kaffi aldrei nota mjólk
æ, hún bragðið brenglar.

Ó, já, þetta er fyrsti sunnudagurinn í langan tíma sem ég sest niður og rita eitthvað um mitt daglega líf inn á bloggið mitt.  Hluti af því er vegna þessa að ég skoraði á mig að semja eina vísu á dag í sjö daga í röð og svo er svo mikið um að vera hjá mér að það er best að létta á skriftunum með því að skrifa oftar.

Mætti til norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu.  Var mínútu á undan þeim hjónum en þau voru að koma úr morgunleikfimi.  Hún hellti upp á og bjó til hafragraut en svo dembdum við okkur í æfingarnar.  Við erum að mana okkur upp í að fara að tala meira saman á esperanto, því æfingin skapar meistarann.  Frá Inger fór ég í Krónuna á Granda og verslaði inn fyrir vikuna.  Oddur Smári gekk frá vörunum.  Ég stoppaði ekki mjög lengi heima við því það voru tveir heimaleikir í Olísdeildunum hjá Val í gær.  Nú brá svo við að ég fór á bílnum út að Hlíðarenda.  Strákarnir tóku á móti ÍBV.  Fyrstu mínúturnar gekk ekki nógu vel og gestirnir náðu smá forskoti en "mínir strákar" gáfust ekki upp og þrátt fyrir að tveir Valsarar fengju rauða spjaldið þá lönduðu þeir góðum sigri.  Rúmum hálftíma eftir að karlaleiknum lauk var komið að kvennaleiknum.  Stelpurnar tóku á móti efsta liðinu, Stjörnunni og mér sýndust þær alveg ákveðnar í að ná báðum stigunum.  Allt gekk upp fyrstu mínúturnar en svo söxuðu gestirnir á forskotið og þær voru yfir í hálfleik. Leikurinn endaði með jafntefli.

En ástæðan fyrir því að ég fór á bílnum á leikina var sú að ég var búin að ákveða að fara á tónleika klukkan fimm.  Það þýddi að ég varð að sleppa því að fylgjast með seinni hálfleiknum í seinni leiknum.  Dómkórinn var með tónleika í Dómkirkjunni og ásamt nokkrum íslenskum lögum frumfluttu þau verkið Magnificat eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.  Og þótt það væri erfitt að fara af miðjum leik þá sé ég ekki eftir því vegna þess að tónleikarnir voru stórkostlegir, bara gæsahúð og allt.  Ég fékk svo tækifæri til að knúsa tónskáldið takk fyrir.

 

9.11.13

Andagift

Í eina viku ein á dag,
efna kannski get.
Staka kemur skapi´ í lag
set ég vísu met.

Renndi bílnum í gegnum snertilausa þvottastöð á leiðinni heim úr vinnu í gær.  Valdi gullþvottakerfið.  Nú þyrfti ég bara aðeins að snurfusa bílinn að innan.  Hvorugur strákanna var heima þegar ég kom heim en Davíð Steinn kom fljótlega.  Oddur Smári var á hljómsveitaræfingu og svo ætlaði hann að hitta nokkra vini og spila með þeim.  Davíð Steinn fór eftir mat að hitta "spilavinina" svo ég hafði plássið allt fyrir mig.  Kveikti á "saumalampanum" og kom mér fyrir í stofunni.  Það endaði reyndar með því að ég saumaði ekki spor.  Horfði eitthvað á imbann og var svo að vafra á netinu.  Fór tiltölulega snemma í háttinn og lauk við síðustu bókasafnsbókina sem ég er með.

8.11.13

Hraðferð á tímanum

Tíminn eins og stormur stríður
staldrar aldrei lengi við.
Hugurinn er vakur, víður
vafrar gegnum ókunn hlið.

Þessi hér að ofan varð til á staðnum í núinu.  Andinn er greinilega að færast yfir mig aftur og virðist ég geta kallað orðin til mín og raðað þeim upp nær fyrirhafnarlaust.
 
Fékk far áleiðis heim úr vinnu í gær með Sillu og "Frímerkinu" eins og hún kallar bílinn sinn.  Annars var ágætis gönguveður en ég labbaði líklega ekki nema tæpan hálfan kílómetra síðasta spölinn heim.  Ég var komin heim á undan strákunum.  Kveikti fljótlega á tölvu og vafraði aðeins um netheima.
 
Eftir kvöldmat settist ég með saumana inn í stofu og fylgdist aðeins með íþróttarásinni.  Um tíu skipti ég svo yfir á DR1 og horfði á Taggart.  Hélt samt áfram að sauma til að byrja með enda er seinni gula rósin óðum að taka á sig fulla mynd, fyrir utan útlínur sem ég byrja ekki á fyrr en allir krossar hafa verið saumaðir.

7.11.13

Jólalög æfð

Það var mjög freistandi að taka strætó heim úr vinnu seinni partinn í gær.  Stutt er út á stoppistöðina við vinnuna og eiginlega jafnstutt heim frá stoppistöðinni á Lönguhlíðinni milli Mávahlíðar og Drápuhlíðar.  Ég lét samt skynsemina ráða og labbaði heim.  Strákarnir fóru til pabba síns svo ég komst upp með að sleppa því að elda nokkuð.  Setti bara sjóðandi vatn út á haframjöl og smá rúsínur og musli með og hafði það í kvöldmatinn handa mér, mjög saðsamt og gott.
 
Aðeins vantaði eina manneskju á kóræfinguna.  Rifjuðum upp nokkur kunnuleg jólalög og einni tvö ný (ég hef amk ekki sungið þau áður).  Annað lagið var reyndar ekki jólalag en mjög flott og útsetningin svo falleg.  Mér er hins vegar fyrirmunað að muna nöfnin á þessum lögum og er ég ekki með nóturnar við hendina til að athuga málið.
 
Kom heim upp úr hálftíu.  Vafraði um á netheimum þar til Kiljan byrjaði á plúsnum.  Þá settist ég inn í stofu og tók fram saumana mína.  Gul rós er óðum að birtast á flöskusvuntu og ef ég held mig að verki klára ég þetta í síðasta lagi í næstu viku, útlínur og allt.

6.11.13

Dagarnir þjóta áfram

Það er eins gott að reyna að njóta hverrar mínútu svo maður missi ekki af augnablikinu.  Mikið skelfing líður tíminn eitthvað hratt.  Föðursystir mín hafði samband við mig í hádeginu í gær og spurði hvort ég gæti setið hjá börnunum hennar um kvöldið.  Ég taldi mig alveg geta það og sá fyrir mér að ég gæti alveg eins saumað þar eins og heima.  Hafði steiktan fisk í matinn í gærkvöldi og mætti svo með farangur til vinkonu minnar rétt fyrir hálfátta.  Var með saumana í saumatöskunni og bók í bakpokanum.  Eldra barnið kom heim úr afmæli stuttu eftir að foreldrarnir voru farnir og hún ákvað strax að hátta en sat um stund í öðrum stofustólnum.  Hún var farin inn í rúm og sofnuð fyrir hálfníu.  Hins vegar gekk bróður hennar mun verr að sofna og ég held að klukkan hafi verið næstum tíu þegar hann sofnaði í stofustólnum en ekki sófanum.  Ég saumaði svolítið en var svo líka aðeins að vafra á netinu.  Foreldrarnir komu heim fyrir ellefu.  Lilja var komin þegar ég skilaði mér heim og við sátum um stund og spjölluðum í stofunni áður en við fórum í háttinn.

5.11.13

Tvær strætóferðir

Lognið ferðast furðu hratt
fjúka lauf um götur.
Hef það fyrir hreina satt
hirða má í fötur.
 
Ég verð að byrja á því að játa leti mína seinni partinn í gær.  Var búin að taka nokkur skref upp Ingólfstrætið um fjögur leytið þegar ég ákvað að taka mér far með stóra gula bílnum.  Kári var eitthvað að stríða mér og það var alls ekki gott að láta hann næða um andlitið á sér.  Líklega hefði ég getað valið að ganga aðra leið heim en strætó varð semsagt fyrir valinu.  Fyrr um daginn hafði ég smessað á frænku mína í Hryggjarselinu til að athuga hvort hún yrði heima um kvöldið.  Fékk jákvætt svar við því svo ég tilkynnti komu mína um kvöldið og að ég myndi taka saumana mína með.  Var með lifur í kvöldmatinn og bauð strákunum upp á soðnar kartöflur og grænar baunir með.  Síðast þegar ég heimsótti frænku mína villtist ég smá af leið þótt ég rambaði svo á réttan stað á endanum.  Í gærkvöldi var ekkert hik á mér né heldur villtist ég.  Ákvað að byrja á hinni gulu rósinni, þótt ég sé ekki búin að sauma útlínur á þessari sem ég saumaði í síðustu viku, og varð vel ágengt þrátt fyrir að við værum einnig að fylgjast með Brúnni hluta af heimsóknartímanum.

4.11.13

Ný vinnuvika hafin

Seint á laugardagskvöldið barst mér sms frá norsku esperanto vinkonu minni þar sem hún sagðist vera með slæmt kvef og ég mætti ráða hvort ég kæmi til hennar á sunnudeginum.  Ég sendi sms til hennar upp úr níu í gærmorgun þar sem ég sagði að ég kæmi alveg óhrædd.  Var mætt hjá henni upp úr hálfellefu.  Hún sagðist vera skárri til heilsunnar heldur en á laugardeginum og við stóðum okkur ágætlega í esperantogrúskinu.  Frá Inger fór ég í aðra bókabúðina í Kringlunni og keypti afmæliskort, penna, lítinn gjafapoka, sudokublað og tvær jólagjafir.  Skrifaði á kortið úti í bíl og setti það ásamt pennanum og útsaumuðu stjörnumerki af sporðdrekanum merktu afmælisbarninu ofan í gjafapokann.  Síðan lá leiðin í Hátúnið þar sem afmælisbarnið ætlaði að fagna með nánustu vinum heima hjá móður sinni.  Ég afrekaði það að mæta fyrst á staðinn og fékk í staðinn að hjálpa til við að undirbúa frekari gestakomur.  Gestir og gestgafar voru alls 12 og var mjög notalegur andi yfir gleðskapnum.  Ein af gestunum hafði unnið á reiknistofunni á árum áður en hún var hætt nokkru áður en ég byrjaði en ég er ekki frá því að ég hafi heyrt minnst á hana í vinnunni minni.  Ég afrekaði það líka að vera síðust af gestunum til að kveðja.  Kom heim á sjöunda tímanum og uppgötvaði að xið hafði ekki staðið við orð sín um að taka dótið sitt.  Það stefnir því allt í það að ég fái að vera "millijónamæringur" í einhverja daga eða vikur því bankalánið fer að detta inn hjá mér og ég greiði ekki xinu út nema hann taki dótið sitt eða þá í síðasta lagi 1. des. skv. samningnum.

3.11.13

Ástæðulaus panik

Ég gleymdi að segja frá smá fáránlegu stresskasti í gær.  Ég setti á mig kínverska "sjaltrefilinn" frá Önnu frænku, fór í flíspeysu og greip úlpuna með mér út í bíl í gær.  Þótt veðrið væri mjög fallegt í gær var kalt og ég ákvað að fara í úlpuna þegar ég fór úr bílnum við Oddakirkju.  Smeygði mér í úlpuna er ég kom út og renndi henni upp á meðan ég labbaði nær kirkjunni.  Þar sem ég staðnæmdist við kirkjuhornið skammt frá kirkjudyrunum ákvað ég að athuga með bíllykilinn.  Í öðrum úlpuvasanum var græni þykki hálskraginn sem mamma prjónaði og gaf mér, húslyklar og vinnulykilinn.  Í hinum úlpuvasanum var varaliturinn minn og poki af extratyggjói.  En hvernig sem ég þreyfaði og þreyfaði fann ég ekki lykilinn.  Hafði ég ekki tekið hann úr svissinum?  Hafði ég kannski gleymt honum í skránni?  Eða hafði ég misst hann á planið er ég smeygði mér í úlpuna?  Mér datt í hug að labba til baka en lét ekki verða af því.  Skyndilega mundi ég svo að ég hafði auðvitað stungið bíllyklinum í vasann á flíspeysunni sem ég var í innanundir úlpunni.

2.11.13

Afmælisdagur systir minnar í dag

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun eins og flesta föstudaga.  Líkt og á þriðjudaginn var átti ég svo líka erindi að reka.  Var mætt á sýsluskrifstofuna um hálftólf til að skrifa undir skjal svo hægt væri að staðfesta skilnað að borði og sæng.  Hafði víst átt að mæta á mánudaginn en ég hélt að það væri nóg að senda xið með undirskrifað samþykki um skiptasamning og stafina mína á bls eitt og tvö (undirskriftirnar voru á síðu 3).  En þetta bjargaðist alltsaman.

Stuttu fyrir sjö í gærkvöldi hringdi  fððursystir mín, Svala vinkona, í mig og bauð mér með sér á tónleika með kvartet Kristjönu Stefánsdóttur í Dómkirkjunni um hálfníu.  Þrátt fyrir stuttan fyrirvara var ég alveg til og sé alls ekki eftir því.  Klukkustundin var ekki lengi að líða og var hún töfrum þrungin.

Í morgun lagði ég tímanlega af stað austur til að fylgja henni Obbu, Þorbjörgu Hansdóttur móður eins bekkjarbróður míns úr grunnskóla.  Var reyndar aðeins of tímanlega og brá á það ráð að stoppa um stund á leiðinni og lesa nokkra kafla í Paganinisamningum eftir Lars Kepler.  Þykk og mikil bók og afar spennandi.  Var mætt við Oddakirkju fyrir klukkan hálftvö og ákvað að það hlyti að vera full kirkja og einnig safnaðarheimilið, það voru komnir svo margir bílar.  Las því meira þar til klukkan sló tvö.  Þá kveikti ég á FM103,5 og hlustaði á útförina og söng á köflum með.  Einssöngvari var Kristjana Stefánsdóttir en að öðru leyti sá kirkjukór Þykkvabæjar-og Oddakirkju um sönginn.  Um það leyti sem athöfninni var að ljúka streymdi fólk úr mörgum bílanna (þ.e. þeir sem ekki fór eða komust fyrir í kirkju eða safnaðaraheimili) til að krossa yfir kistu þessarar heiðurskonu.  Á eftir var erfidrykkja í íþróttahúsinu á Hellu.

Var á Selfossi um fimmleytið og ákvað að kíkja við í Fossheiðinni þótt ég hefði ekki verið búin að hringja á undan mér.  Húsráðendur voru heima og dvaldi ég hjá þeim í góðu yfirlæti fram yfir fréttatíma.  Kom heim á níunda tímanum og var nokkuð forvitin að vita hvort xið væri búinn að sækja dótið sitt í skúrinn.  Það reyndist ekki vera.

1.11.13

Upphaf og endir

Andinn er greinilega kominn í smá frí en það verður bara að hafa það.  Í dag er fyrsti dagur nýs mánaðar en síðasti dagur vinnuvikunnar.  Kláraði loksins að taka saman síðasta dótið frá exinu og annar tvíbbinn fór fyrir mig tvær ferðir út í skúr með kassa og poka.  Bráðum get ég farið að einbeita mér að því að taka betur til í kringum mig, endurraða hlutum og skipuleggja eitt og annað.  Vonandi verður svo skúrinn tæmdur um helgina eins og lofað var.  Að öðru leyti fór gærkvöldið í að sauma gulu flöskurósina.  Nú á ég bara eftir að sauma allar útlínur svo ég er bjartsýn á að geta bætt við tveimur til þremur enn.  Það væri ekki amalegt að geta gefið mömmu tvær gular í jólagjöf í stíl við þær tvær rauðu sem hún fékk á flöskusvuntum í jólagjöf í fyrra.