30.4.09

- Kóræfing og fleira -

Þegar komið var inn í kirkju óháða safnaðarins í gærkvöldi mátti vera ljóst að það þar hefði verið málningaframkvæmdir undan farna daga. Svo virðist sem aðilarnir sem eru að mála fari flestir eða allir úr hlífðargallanum og skilja hann eftir á gólfinu á þeim stað sem þeir fara úr. Nokkuð skondið að geta rakið það hvar hver og einn fór úr vinnugallanum. En málningalyktin ku hafa verið of sterk í kirkjunni í gær svo ákveðið var að hafa kóræfinguna í neðri safnaðarsalnum. Æfðum fyrir kirkjuvíxluhátíðina sem verður þann 10. maí n.k. en um þessar mundir eru 50 ár síðan kirkjan var vígð.
Bekkir tvíburanna hafa verið að vinna að verkefninu: "Reyklaus bekkur". Annar tvíburinn laumaði því út úr sér í gærkvöldi að það ætti að skila af sér í dag. Þeir feðgar sátu báðir við til miðnættis og Davíð áfram til þrjú. Nú á bara eftir að möndla myndbandið inn á síðuna en það verður ráðin bót á því í kvöld.

29.4.09

- Meðbyr á arkinu -

Ég fékk góðan meðbyr á arkinu í morgun. Veðrið var alveg ágætt en þar sem var svona hvasst þorði ég ekki annað en að hafa húfu því eyrun mín eru frekar viðkvæm fyrir roki. Ég er búin að skrá hreyfingu á Lífshlaupssíðunni í 367 daga síðan ég byrjaði að skrá í byrjun febrúar á síðasta ári. Ég skrái aðeins þá daga sem ég næ amk 30 mínútna hreyfingu en flesta virka daga er ég að labba til og frá vinnu og er ég einmitt hálftíma hvora leið.
Fór á keiluæfingu í gærkvöldi. Klukkutímann áður en mætti notaði ég í útsaum fyrir framan imbann en ég var að horfa á "Biggest looser". Keiluæfingin fór vel af stað, náði fellu í fyrsta kasti. Var með þokkalegt skor eftir fyrstu umferð, rétt komst yfir 100 í annarri umferð en náði ekki einu sinni 90 stigum í þriðju umferðinni. En þetta var gaman og það er fyrir mestu.
Gallinn við keiluæfingar er sá að ég er alltaf þónokkra stund að ná mér niður og í gærkvöldi horfðum við Davíð á einn þátt úr annarri seríu 24 með Kiefer Sutherland. Þátturinn var akkúrat búinn rétt upp úr miðnættinu og þá meldaði ég mig inn á Pet Society á fésbókinni og kláraði heimsóknarhringinn og íþróttakeppnirnar. Það tók mig þrjú korter enda telur gæludýrasamfélagið 93 gæludýr með honum Pjakki mínum.
Mamma kíkti í heimsókn seinni partinn í gær og stoppaði góða stund hjá mér. Hún hefur ekki verið í bænum í fleiri en einn dag í eitt og hálft ár.

28.4.09

- Tveir blogg-dagar í röð -
Eftir vinnu í gær náði ég í bílinn til Davíðs, sótti söngfuglinn og við fórum niður á Grensásveg. Hann á kóræfingu, ég á stjórnarfund. Fundahaldið gekk bara vel. Á eftir komum við söngfuglinn við á skrifstofu Davíðs og kipptum honum með heim. Ég fór beint og lagði fyrir utan Þórshamar og gluggaði í bók á meðan ég beið eftir karatestráknum. Davíð sá alveg um kvöldmatinn og gaf svo strákunum leyfi til að geyma uppvaskið til morguns svo þeir gætu farið út. Ég skrapp í heimsókn til einnar vinkonu. Tók með mér handavinnu en opnaði ekki einu sinni töskuna. Sat bara og spjallaði, drakk kaffi og gæddi mér á vatnsmelónu.

27.4.09

- Síðasta vikan í þessum mánuði byrjuð -
Í gær söng ég við fimmtu messuna í þessum mánuði og þá eru aðeins eftir fimm messur fram að sumarfríi og ein til. Kórinn ætlar nefnilega að heimsækja Sólheima í næsta mánuði og m .a. syngja við messu þar þann 17. maí.
Á föstudaginn fór Davíð Steinn í æfingabúðir með glímufélaginu Ármanni (frjálsar). Farið var til Þorlákshafnar og stoppað yfir nótt. Hópurinn kom til baka um sexleytið á laugardeginum. Í rétt rúman sólarhring vorum við semsagt bara þrjú í kotinu.
Eftir arkið í vinnuna í morgun skráði ég hreyfingu á 365. daginn síðan í febrúar í fyrra. Í næstu viku byrjar "hjólað/gengið" í vinnuna og líklega mun ég þá hætta að skrá inn alla hreyfingu inn á Lífshlaupið.
Á laugardaginn trítlaði ég í Kringluna og fékk klippingu um tíu. Hárgreiðslumeistarinn minn fékk áfall því hann fann þrjá skallabletti í höfðinu. Svoleiðisnokkuð er álagstengt en mér er fyrirmunað að skilja undir hvaða álagi ég á að hafa verið. Lét þessar fréttir ekki slá mig út af laginu en lofaði að fylgjast með höfðinu á mér, hvort kæmu fleiri blettir eða þessir stækkuðu. Eftir klippinguna labbaði ég í norðurmýrina til norsku esperantovinkonu minnar. Karatestrákurinn hringdi þangað í mig og bað mig um að koma í Þórshamar eftir esperantotímann og verða samferða honum heim. Ég varð við þeirri beiðni. Um þrjúleytið labbaði ég út í Hlíðaskóla og nýtti mér atkvæðisrétt minn í alþingiskosningunum.

24.4.09

- Gleðilegt sumar! -

Jey, það er komið sumar. Hann var nú ósköp blautur í gær, sumardagurinn fyrsti. Við höfðum hægt um okkur að mestu en við hjónin skruppum þó að versla og ég kom við í bókasafninu í Grófinni í leiðinni og skilaði inn 7 stykki bókum. Þótt ég væri með bækur heima kom ég ekki tómhent út af safninu því það voru 7 bækur sem báðu mig um að taka sig með sér og ég stóðst það auðvitað ekki. Það stytti upp mátulega snemma til þess að hægt væri að grilla í kvöldmatinn.
Söngfuglinn og frjálsíþróttakappinn minn er að fara í æfingabúðir, með Glímufélaginu Ármanni, til Þorlákshafnar seinna í dag og kemur aftur síðdegis á morgun. Það verður pottþétt skemmtileg ferð.
Á sunnudaginn verður síðasta messan í þessum mánuði í óháðu kirkjunni. Sú messa verður með léttara móti en við munum engu að síður koma með smá sýnishorn af því sem við munum syngja við 50 ára kirkjuvíxluafmælið þann 10. maí n.k.

21.4.09

- Ég er ekki hætt að skrifa -

Þótt skrifin mín liggi niðri inn á milli þá er ég alls ekki hætt. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þótt skrifin séu stopul í augnablikinu eigi eftir að verða breyting á einhvern tímann í nálægri eða fjarlægri framtíð. Oft hef ég ekki tök á því að komast í tölvu þegar andinn kemur yfir mig og svo þegar ég sit við tölvuna er andinn hvergi nálægt og mig langar að vera að gera eitthvað allt annað heldur en að blogga.
Messurnar á skírdag, föstudaginn langa og páskadagsmorgun gengu mjög vel fyrir sig. Ég hef hlustað á nokkra kafla úr messunni á skírdag, aðallega kórsönginn, en henni var útvarpað og er því aðgengilega á netinu í augnablikinu. Hljómurinn í kórnum fannst mér góður og skila sér vel á öldum ljósvakans svo ég er sátt. Andrúmsloftið að kvöldi föstudagsins langa var mjög notalegt í kirkjunni. Sú sem las píslarsöguna gerði það mjög vel. Kórinn söng inn á milli kafla og eftir altarisgöngu og eftir að búið var að taka allt af altarinu og slökkva á kertunum sjö kom kórinn sér fyrir uppi á svölum og söng þrjú lög í röddum: Heyr himnasmiður, Stóð við krossinn og Ave verum corpus. Fjórir úr söngskóla Sigurðar Demenz lögðu kórnum lið þetta kvöld og allt small mjög vel saman. Eftir að búið var að setja altarishlutina á sinn stað klukkan átta á páskadagsmorgunn söng kórinn Dona nobis sem forspil. Það var margt fólk í kirkjunni en þó hægt að fá sæti á meðan presturinn predikaði. Það hafði verið auglýst að það yrði ballettjáning en því miður forfallaðist stjórnandinn svo ekkert varð úr sýningunni. Að öðru leyti gekk allt upp og eftir messu var boðið upp á heitt kakó og brauðbollur.
Í gærkvöldi var saumaklúbbur. Við erum orðnar þrjár í klúbbnum. Í gær var næstum farið illa en það var einhver misskilningur um staðsetningu. Ég hafði ekki komið skilaboðunum rétt frá mér. Um hálfníu sendi ég sms til einnar sem ekki var mætt og spurði hvort hún væri nokkuð að villast. Ég fékk svar strax til baka þar sem hún spurði hvort við værum ekki að koma til hennar. Sem betur fer leystist farsællega úr þessu og við náðum tveggja tíma góðum handavinnutíma, spjalli, kaffi og fleiru.

8.4.09

- Páskar á næsta leyti -

Það verður samt ekki 100% frí hjá mér. Það verður messað í óháðu kirkjunni klukkan ellefu í fyrramálið. Messunni verður víst útvarpað. Svo er messa að kvöldi föstudagsins langa og aftur klukkan átta á páskadagsmorgun. Við erum líka boðin í eina fermingaveislu á morgun.
Við norska esperantovinkona mín færðum esperantotímann frá laugardeginum og þar til um hálffimm sl. mánudag. Ég komst ekki til hennar á laugardagsmorguninn vegna bazar DKR í Mjóddinni. Var að koma tertum á staðinn og upp úr hádeginu mættu flestir strákarnir til að syngja nokkur lög. Það tókst vel og bazarinn tókst líka mjög vel, seldum fyrir rúmlega 130. þús.
Á mánudagskvöldið heimsótti ég Lilju vinkonu mína. Hún var búin að bjóðast til að setja upp fyrir mig jóladúkinn. Við gerðum þessa heimsókn að saumaklúbbi í leiðinni og í fyrsta skipti í marga mánuði tók ég fram engilinn og saumaði.
Í gærkvöldi fór ég á keiluæfingu. Ein af okkur úr kortadeildinni kom með "keiluköku" handa einum keilufélaganum sem varð fimmtugur um daginn. Ég náði ágætis árangri í annarri æfingaumferðinni í gær. Byrjaði á fellu og náði svo þremur fellum í röð seinna í leiknum, enda varð enginn hærri en ég að stigum í lok þeirrar umferðar en það var einn með jafnmörg stig (147)

3.4.09

- Bazar og eitt og annað -

Jæja, enn ein vinnuvikan liðin og framundan eru amk fjórar 3-4 daga vinnuvikur svo ég á alveg von á því að það verði kominn maí áður en maður nær að blikka augunum.

Í gærkvöldi var árshátíð í Hlíðaskóla og af því tilefni drifu nokkrar hressar mæður og Davíð sig út á röltið milli hálftíu og miðnættis. Ég var með fyrsta klukkutímann en svo varð ég að fara heim og tæma blöðruna og ákvað að segja þetta gott að sinni. Davíð kom hins vegar ekki heim fyrr en klukkan að verða hálfeitt.

Á morgun stendur foreldrafélag Drengjakórs Reykjavíkur fyrir bazar í mjóddinni og um hálfeitt mæta söngfuglarnir á staðinn og taka nokkur lög. Á bazarnum verður hægt að kaupa kökur og ýmislegt fleira. Ég var að útbúa tvær brauðtertur og svo er kókoskaka með eplum að bakast í ofninum. Í hana hræði ég m.a. hrásykur og gróft spelt. Endilega lítið við í Mjóddina milli ellefu og tvö til þrjú á morgun!

Á sunnudaginn syng ég með kórnum mínum við fermingamessu númer tvö í Óháðu kirkjunni. Þriðja og síðasta fermingamessan þetta árið verður svo um hvítasunnuna.

Annars segi ég bara: Góða helgi!