- Ég er ekki hætt að skrifa -
Þótt skrifin mín liggi niðri inn á milli þá er ég alls ekki hætt. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þótt skrifin séu stopul í augnablikinu eigi eftir að verða breyting á einhvern tímann í nálægri eða fjarlægri framtíð. Oft hef ég ekki tök á því að komast í tölvu þegar andinn kemur yfir mig og svo þegar ég sit við tölvuna er andinn hvergi nálægt og mig langar að vera að gera eitthvað allt annað heldur en að blogga.
Messurnar á skírdag, föstudaginn langa og páskadagsmorgun gengu mjög vel fyrir sig. Ég hef hlustað á nokkra kafla úr messunni á skírdag, aðallega kórsönginn, en henni var útvarpað og er því aðgengilega á netinu í augnablikinu. Hljómurinn í kórnum fannst mér góður og skila sér vel á öldum ljósvakans svo ég er sátt. Andrúmsloftið að kvöldi föstudagsins langa var mjög notalegt í kirkjunni. Sú sem las píslarsöguna gerði það mjög vel. Kórinn söng inn á milli kafla og eftir altarisgöngu og eftir að búið var að taka allt af altarinu og slökkva á kertunum sjö kom kórinn sér fyrir uppi á svölum og söng þrjú lög í röddum: Heyr himnasmiður, Stóð við krossinn og Ave verum corpus. Fjórir úr söngskóla Sigurðar Demenz lögðu kórnum lið þetta kvöld og allt small mjög vel saman. Eftir að búið var að setja altarishlutina á sinn stað klukkan átta á páskadagsmorgunn söng kórinn Dona nobis sem forspil. Það var margt fólk í kirkjunni en þó hægt að fá sæti á meðan presturinn predikaði. Það hafði verið auglýst að það yrði ballettjáning en því miður forfallaðist stjórnandinn svo ekkert varð úr sýningunni. Að öðru leyti gekk allt upp og eftir messu var boðið upp á heitt kakó og brauðbollur.
Í gærkvöldi var saumaklúbbur. Við erum orðnar þrjár í klúbbnum. Í gær var næstum farið illa en það var einhver misskilningur um staðsetningu. Ég hafði ekki komið skilaboðunum rétt frá mér. Um hálfníu sendi ég sms til einnar sem ekki var mætt og spurði hvort hún væri nokkuð að villast. Ég fékk svar strax til baka þar sem hún spurði hvort við værum ekki að koma til hennar. Sem betur fer leystist farsællega úr þessu og við náðum tveggja tíma góðum handavinnutíma, spjalli, kaffi og fleiru.