31.5.13

- Frídagur -

Í dag tek ég út einn af síðustu sumarfrísdögunum frá því í fyrra.  Fínt að lengja helgina svona.  En annars mun ég líklega skrifa um ævintýrin framundan strax eftir helgi.

er ég búin að heimsækja blóðbankann þrjátíuogfimm sinnum síðan ég var tvítug.  Fór þangað í gær beint eftir vinnu.  Reyndar kom í ljós að ég átti ekki að koma fyrr en í kringum áttunda júní n.k. en þar sem ég er með afar gott blóðgildi þá var ákveðið að þyggja frá mér dropa.  Sennilega hef ég mistalið vikurnar 16 og þær ekki verið nema 15 þegar ég setti áminningu á heimsókn í "gsm-dagbókina" mína síðast.  Hvað um það, mér skilst að það verði svo haft samband við mig frá blóðgjafafélaginu og ég boðin formlega á næsta aðalfund þar sem ég mun taka á móti bronsmerki.  Ég er strax búin að setja markið á 50 heimsóknir og ef heilsan verður áfram hin besta eru svona 200 mánuðir í þá heimsókn.

Eftir blóðgjöfina skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði af mér einum fimm bókum.  Tvær bækur eru enn ólesnar hér heima af safninu en nú brá svo við að það kom engin "ný" bók með mér heim af safninu.  Það er í góðu lagi því fyrir utan þessar tvær bækur á ég þrjár nýlegar ólesnar og svo er sennilega stutt í næstu kilju úr krimmabókaklúbbnum.

Hafið það sem allra best um helgina!

30.5.13

- "Öðruvísi" kórhittingur -

Miðvikudagskvöldið fyrir hvítasunnu var síðasta kóræfing í bili.  Enn eru eftir tvær messur áður en skellur á sumarfrí, göngumessa kl. 09:00 þann 8. júní n.k. og gúllasmessa kl. 11:00 þann 23. júní.  Þá fannst okkur alveg tilvalið að reyna að hóa hópnum saman heim til eins meðlims og leggja saman í smá grillpúkk.  Þessi hittingur fór fram í gærkvöldi í Hafnarfirði.  Ég kom við í Hagkaup í Skeifunni og hafði með mér e-s konar bita af lambi til að setja á grillið.  Freistaðist reyndar til að kaupa nýjustu þýddu bókina eftir Lee Child "Rutt úr vegi", en það er allt önnur saga.  Við mættum 8 kórfélagar af 17 heim til þess 9. og kórstjórinn leit við með eldri stelpuna með sér.  Annar bassinn tók að sér að grilla.  Húsráðandi var búinn að leggja á borð og búa til sósu, ferskt sallat og kartöflusallat.  Hann bauð öllum sem vildu smá hvítt í glas.  Þegar kallað var að borðum kom smá babb í bátinn því hver og einn átti að þekkja sinn bita og ég sem hafði ekkert reynt að "kynnast" mínum... ...en þetta bjargaðist allt saman því hinir þekktu sína bita.  ;-) Kvöldið varð annars hið skemmtilegasta og leið auðvitað alltof fljótt.

29.5.13

- Tap á heimavelli -

Já, ég fór á heimaleikinn Valur - Stjarnan 0:2 í kvennaboltanum í gærkvöldi.  Mest allan tímann fannst mér Valsstelpurnar eiga meira í leiknum en maður vinnur ekki nema með því að skora mörk og stelpurnar nýttu ekki færin sín, því miður.  Þá er nokkuð ljóst að stelpurnar verða ekki í toppbaráttunni í sumar.  En hvað um það, ég mun halda áfram að fara á heimaleiki í sumar, nota mér árskortið, þ.e. ef ég er í bænum þegar þeir fara fram.

Ég er mjög dugleg að fara á bókasafnið.  Yfirleitt fæ ég nokkrar bækur að láni í hvert sinn og ein og ein sem er til láns í tvær vikur.  Þannig að þegar þarf að skila skammtímalánsbókum er ég ekki endilega búin að lesa allar bækurnar.  Þá skila ég þeim sem ég hef lesið og svo rata fleiri bækur í pokann til mín og heim.  Er nýbúin að lesa tvær bækur eftir Böðvar Guðmundsson Enn er morgun og Kynjasögur.  Sú fyrrnefnda hélt athygli minni allan tímann í hinni bókinni voru alls kyns skrýtnar smásögur sem voru flestar nokkuð skondnar.

28.5.13

- Síðasta vikan í maí -

Helgin leið hratt og örugglega.  Skrapp til Inger í esperanto um ellefu á laugardagsmorguninn.  Strákarnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim.  Restin af deginum fór í tölvuleiki, lestur, útsaum og svo byrjaði ég að pakka niður dóti frá Davíð.
 
Á sunnudaginn var ég komin á fætur upp úr níu.  Kíkti í tölvuna.  Sótti svo Lilju vinkonu um hálftólf.  Setti bensín á bílinn og svo brunuðum við austur á Hellu.  Vorum komnar það snemma að við byrjuðum á því að kíkja til pabba og mömmu, aðallega til að fá að nota salernið.  Klukkan hálftvö vorum við komnar upp á Helluvaði til að taka þátt í "Halló Helluvað".  Verið var að hleypa út kúnum í fyrsta sinn þetta sumarið og það er alltaf jafn gaman að verða vitni að því.  Það var sko skvett úr klaufunum en stundum vissu kýrnar ekki alveg hvort þær voru að koma eða fara eða hvort allt fólkið væri á staðnum fyrir þær til að horfa á.  Kíktum aðeins í fjárhúsið og fengum okkur svo kaffi, kleinu og ábresti.
 
Næst lá leiðin á Hvolsvöll í heimsókn til mömmu hennar Lilju.  Þar fengum við kaffi og berjatertu með þeyttum rjóma.  Þegar við kvöddum fékk Lilja með sér fullt af efni í föndrið sitt og slatta af kryddjurtum og sallati.  Því næst gerðum við gott stopp hjá pabba og mömmu.  Stoppuðum alveg fram yfir kvöldmat, fréttir og Landann.  Lilja vann eitthvað að þýðingum og ég var með saumana mína með mér. Það var vel þess virði að missa af einum heimaleik í boltanum fyrir svona skemmtilegan dag.  Hefði samt alveg viljað verða á leiknum Valur - Keflavík 4:0 í 5. umferð Pepsídeildar karla.  En það er víst ekki hægt að vera alls staðar.
 
Er búin að gera samgöngusamning við vinnuna mína.  Sá samningur felst í því að nota vistvænar leiðir milli heimilis og vinnu amk þrisvar í viku og tekur í gildi um mánaðamótin.  Ég er samt farin að hjóla í vinnuna.  En í rokinu í gær ákvað ég að fara á bílnum til að geta farið beint að versla eftir vinnu.  Þegar strákarnir eru ekki heima geri ég ekki innkaupin fyrr en eftir helgarnar.  Hringdi í Odd um þrjú og hann féllst á að koma gangandi í vinnuna til mín og fara með mér í búðina. Kom við í Byko og keypti meira lím til að loka kössum.
 
Um átta byrjaði "formlegur" saumaklúbbur hjá mér og var þetta sá síðasti skipulagði í bili.  Ætlum að taka okkur sumarfrí en áskiljum okkur rétt til að hóa í hver aðra ef við erum í saumastuði og allar í bænum. Kvöldið leið alltof hratt.  Er alltaf að vinna í "Lost no more" útsaumsmynd sem Sonja gaf mér í fertugsafmælisgjöf fyrir rúmum fimm árum.  Byrjaði loks að vinna í henni í janúar sl. og gengur verkefnið bara vel.  Ég notaði líka tækifærið og festi tölu á buxur af Davíð Steini.

24.5.13

- Helgin framundan -

Enn á ný er kominn föstudagur.  Það vantar ekki að dagarnir, vikurnar og jafnvel mánuðurnir þjóta áfram og stundum framhjá þrátt fyrir allt og allt.  Um daginn leysti ég út fjölmiðlapunkta og sótti nýjan heimasíma á pósthúsið á þriðjudaginn var.  Þvílíkur munur að geta aftur séð í hvern maður hringir og hver hringir í mann.  Einnig sýnir skjárinn hvað klukkan er og hvaða dagur er.  En hringitónninn er svolítið annarlegur og spurning hvort ég reyni ekki að breyta honum eitthvað.
 
Í gær hafði samband við mig maður hjá skjánum sem sagði að nú færi frí-áskriftinni að ljúka og spurði hvort ég vildi gerast e-s konar pakka-áskrifandi.  Ég bað manninn um að senda mér tilboð í tölvupósti.  Það skoðaði ég í morgun og ákvað í kjölfarið að gerast áskrifandi að blönduðum pakka þar sem ég hef áfram aðgang að DR1 m.a.  Svo sló ég þessu upp í kæruleysi og ákvað að þyggja sumaráskrift af SkjáEinum, þrjá mánuði á verði tveggja.
 
Ákvað líka að skreppa til Ellu vinkonu á Eglisstaði um næstu mánaðamót þrátt fyrir að geta ekki nýtt flugpunktana mína.  Bað um frí þann 31. n.k. og bókaði flug austur um hálfellefu og til baka seinni partinn á sunnudeginum 2. júní.  Lét svo Ellu vita en ég var búin að vara hana við áður að ég væri að pæla í þessu svo það var í góðu lagi að ég upplýsti hana um fyrirhugaða heimsókn eftir að ég var búin að bóka flugið.
 
Og þar sem ég á slatta af eftir af fjölmiðlapunktum lét ég verða af því að biðja um að leysa hluta af þeim út í nýrri myndavél.  Já, ég er góð við sjálfa mig og finnst ég alveg verðskulda það.
 
Góða helgi!  :-)

23.5.13

- Tveir dagar í röð -

Kannski kemst ég eitthvað á skrið ef ég bara set mér að pikka "eitthvað" inn á hverjum degi, hver veit?  Freyr frændi minn er nýbyrjaður að setja inn pistla daglega um allt mögulegt og það er alltaf spennandi að lesa þá pistla.  Þar kennir ýmissa grasa og það liggur við að maður sé ekki tilbúinn í daginn fyrr en að hafa lesið pistil dagsins.  Pistlarnir eru hvorki og stuttir né langir, yfirleitt hnitmiðaðir og oftast hægt að brosa amk út í annað.  En hann skrifar líka á alvarlegri nótunum, fær mann amk til að hugsa um eitt og annað út í þessa tilveru.  Frábært að eiga svona frænda. Þeir eru annars fjórir bræðurnir og allir vel af mönnum gerðir. Sá næstyngsti er í hljómsveitinni "Móses Hightower" og er þar annar af aðal laga- og textahöfunum, og þvílíkir snilldartextar og lög...
 
Annars heimsótti ég Böddu í gærkvöldi og tók saumana mína með.  Stoppaði í rúma tvo tíma og var svo heppin að yngsta dóttir hennar og nafna mín kom líka við, svo ég hitti hana.  :-)

22.5.13

- Smá tilraun -

Ó, já, það er orðið nokkuð langt síðan síðast og á þessari stundu er ég svo sem ekkert viss um að ég komist í neitt skrifstuð á næstunni.  Hugsanlega mun ég skrifa eitthvað inn í einka"dagbókina"bloggið sem enginn veit slóðina á nema ég.  Ekki það að það séu neitt margir að rekast hingað inn núna þar sem ekkert hefur gerst lengi, lengi á þessari síðu...  Sjáum bara til hvað gerist og tökum einn dag í einu.  Yfir og út í bili.  :-)