- Síðasta vikan í maí -
Helgin leið hratt og örugglega. Skrapp til Inger í esperanto um ellefu á laugardagsmorguninn. Strákarnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim. Restin af deginum fór í tölvuleiki, lestur, útsaum og svo byrjaði ég að pakka niður dóti frá Davíð.
Á sunnudaginn var ég komin á fætur upp úr níu. Kíkti í tölvuna. Sótti svo Lilju vinkonu um hálftólf. Setti bensín á bílinn og svo brunuðum við austur á Hellu. Vorum komnar það snemma að við byrjuðum á því að kíkja til pabba og mömmu, aðallega til að fá að nota salernið. Klukkan hálftvö vorum við komnar upp á Helluvaði til að taka þátt í "Halló Helluvað". Verið var að hleypa út kúnum í fyrsta sinn þetta sumarið og það er alltaf jafn gaman að verða vitni að því. Það var sko skvett úr klaufunum en stundum vissu kýrnar ekki alveg hvort þær voru að koma eða fara eða hvort allt fólkið væri á staðnum fyrir þær til að horfa á. Kíktum aðeins í fjárhúsið og fengum okkur svo kaffi, kleinu og ábresti.
Næst lá leiðin á Hvolsvöll í heimsókn til mömmu hennar Lilju. Þar fengum við kaffi og berjatertu með þeyttum rjóma. Þegar við kvöddum fékk Lilja með sér fullt af efni í föndrið sitt og slatta af kryddjurtum og sallati. Því næst gerðum við gott stopp hjá pabba og mömmu. Stoppuðum alveg fram yfir kvöldmat, fréttir og Landann. Lilja vann eitthvað að þýðingum og ég var með saumana mína með mér. Það var vel þess virði að missa af einum heimaleik í boltanum fyrir svona skemmtilegan dag. Hefði samt alveg viljað verða á leiknum Valur - Keflavík 4:0 í 5. umferð Pepsídeildar karla. En það er víst ekki hægt að vera alls staðar.
Er búin að gera samgöngusamning við vinnuna mína. Sá samningur felst í því að nota vistvænar leiðir milli heimilis og vinnu amk þrisvar í viku og tekur í gildi um mánaðamótin. Ég er samt farin að hjóla í vinnuna. En í rokinu í gær ákvað ég að fara á bílnum til að geta farið beint að versla eftir vinnu. Þegar strákarnir eru ekki heima geri ég ekki innkaupin fyrr en eftir helgarnar. Hringdi í Odd um þrjú og hann féllst á að koma gangandi í vinnuna til mín og fara með mér í búðina. Kom við í Byko og keypti meira lím til að loka kössum.
Um átta byrjaði "formlegur" saumaklúbbur hjá mér og var þetta sá síðasti skipulagði í bili. Ætlum að taka okkur sumarfrí en áskiljum okkur rétt til að hóa í hver aðra ef við erum í saumastuði og allar í bænum. Kvöldið leið alltof hratt. Er alltaf að vinna í "Lost no more" útsaumsmynd sem Sonja gaf mér í fertugsafmælisgjöf fyrir rúmum fimm árum. Byrjaði loks að vinna í henni í janúar sl. og gengur verkefnið bara vel. Ég notaði líka tækifærið og festi tölu á buxur af Davíð Steini.