Ein nafna mín og frænka hafði hug á því að hafa "laufabrauðshitting" eins og mörg undanfarin ár og vorum við tvær að spá í daginn í dag. Hinn helmingurinn af venjulega hópnum var hins vegar ekki tilbúinn í að fara að skera út og steikja þar sem þau verða ekki á landinu um jólin. Ég var hins vegar búin að fjárfesta í einum kassa af óskornum og ósteiktum laufabrauðskökum frá ömmu bakstri. Ákvað að taka kassann með mér austur í dag og var búin að skera út í allar 20 kökurnar fyrir kaffi. Tók mér pásu og drakk kaffi með pabba en strax á eftir lokaði ég mig af inni í eldhúsi, bræddi 2x500grömm af plamín í potti frá pabba og steikti þessar 20 á ca klst. Gleymdi að taka með mér box, sem ég á undir svona bunka, í bænum og fann aðeins tertudisk og tilheyrandi hjálm úr plasti og bjargaði málunum þannig. Ætla mér að geyma þessar kökur hérna fram að jólum því annars er hætt við að við Oddur Smári freistumst til að smakka of margar.
Fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu í gær dreif ég mig í fiskbúð Fúsa eftir nætursaltaðri ýsu til að hafa í kvöldmatinn. Næst lá leiðin í bókasafnið þar sem ég skilaði öllum fjórum bókunum sem ég var búin að vera með í láni sl. þrjár vikur. Las reyndar aðeins þrjár af þessum en fjórða bókin Geirmundar saga heljarskinns sem Bergsveinn Birgisson bjó til prentunar höfðaði ekki til mín. Las aðeins uþb 20 blaðsíður og ákvað svo að vera ekkert að eyða tíma í þessa sögu. Fann mér átta bækur áður en ég stoppaði mig af og bjóst til að afgreiða mig út með þær. Afgreiðslan gekk ekki upp enda var skírteinið útrunnið. Fékk skírteinið endurnýjað gegn 2500 kr. gjaldi. Lenti samt í vandræðum með að fá eina bókina af þessum átta, þ.e. kerfið sýndi villu en safnvörður sem átti leið hjá sýndi mér að best væri að lyfta bókinni upp og reyna strax aftur og það gekk eftir. Fór því heim með helmingi fleiri bækur heldur en ég skilaði. Þrjár af þessum bókum eru eftir höfund sem heitir Eyrún Ýr Tryggvadóttir, ein eftir Camillu Läckberg, ein eftir Stefan Ahnhem, ein eftir B.A. Paris, ein eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og ein eftir Catherine Isaac. Skrifa kannski um eitthvað af þessum bókum síðar en ég er byrjuð að lesa: Hvar er systir mín? eftir Eyúnu.
Hafði matinn tilbúinn upp úr klukkan sex, en það vorum bara við Oddur sem borðum því Davíð Steinn var á vinnuvakt til klukka tíu í gærkvöldi. Upp úr klukkan sjö tók ég strætó niður í bæ til að hlusta á erindi í Lífsspekifélaginu.