30.11.19

Bókasafnskortið endurnýjað

Ein nafna mín og frænka hafði hug á því að hafa "laufabrauðshitting" eins og mörg undanfarin ár og vorum við tvær að spá í daginn í dag. Hinn helmingurinn af venjulega hópnum var hins vegar ekki tilbúinn í að fara að skera út og steikja þar sem þau verða ekki á landinu um jólin. Ég var hins vegar búin að fjárfesta í einum kassa af óskornum og ósteiktum laufabrauðskökum frá ömmu bakstri. Ákvað að taka kassann með mér austur í dag og var búin að skera út í allar 20 kökurnar fyrir kaffi. Tók mér pásu og drakk kaffi með pabba en strax á eftir lokaði ég mig af inni í eldhúsi, bræddi 2x500grömm af plamín í potti frá pabba og steikti þessar 20 á ca klst. Gleymdi að taka með mér box, sem ég á undir svona bunka, í bænum og fann aðeins tertudisk og tilheyrandi hjálm úr plasti og bjargaði málunum þannig. Ætla mér að geyma þessar kökur hérna fram að jólum því annars er hætt við að við Oddur Smári freistumst til að smakka of margar.

Fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu í gær dreif ég mig í fiskbúð Fúsa eftir nætursaltaðri ýsu til að hafa í kvöldmatinn. Næst lá leiðin í bókasafnið þar sem ég skilaði öllum fjórum bókunum sem ég var búin að vera með í láni sl. þrjár vikur. Las reyndar aðeins þrjár af þessum en fjórða bókin Geirmundar saga heljarskinns sem Bergsveinn Birgisson bjó til prentunar höfðaði ekki til mín. Las aðeins uþb 20 blaðsíður og ákvað svo að vera ekkert að eyða tíma í þessa sögu. Fann mér átta bækur áður en ég stoppaði mig af og bjóst til að afgreiða mig út með þær. Afgreiðslan gekk ekki upp enda var skírteinið útrunnið. Fékk skírteinið endurnýjað gegn 2500 kr. gjaldi. Lenti samt í vandræðum með að fá eina bókina af þessum átta, þ.e. kerfið sýndi villu en safnvörður sem átti leið hjá sýndi mér að best væri að lyfta bókinni upp og reyna strax aftur og það gekk eftir. Fór því heim með helmingi fleiri bækur heldur en ég skilaði. Þrjár af þessum bókum eru eftir höfund sem heitir Eyrún Ýr Tryggvadóttir, ein eftir Camillu Läckberg, ein eftir Stefan Ahnhem, ein eftir B.A. Paris, ein eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og ein eftir Catherine Isaac. Skrifa kannski um eitthvað af þessum bókum síðar en ég er byrjuð að lesa: Hvar er systir mín? eftir Eyúnu.

Hafði matinn tilbúinn upp úr klukkan sex, en það vorum bara við Oddur sem borðum því Davíð Steinn var á vinnuvakt til klukka tíu í gærkvöldi. Upp úr klukkan sjö tók ég strætó niður í bæ til að hlusta á erindi í Lífsspekifélaginu.

27.11.19

Smá tannviðgerð í dag

Þegar ég fór í hið árlega tanneftirlit í síðasta mánuði mælti tannlæknirinn með að gert yrði við skemmd í tveimur jöxlum hlið við hlið hægra meginn uppi. Vitað hafði verið um þetta svæði og fylgst með því í nokkur misseri. Ég ákvað að fylgja ráðleggingum og bókaði viðgerðartíma sem var sem sagt rétt fyrir klukkan tvö í dag. Var deyfð og svæðið svo einangrað með því að setja dúk yfir svo aðeins þessar tvær tennur voru sýnilegar. Viðgerð tók aðeins uþb hálftíma og kostaði innan við þrjátíu þúsund. Bókaði næstu skoðun í október á næsta ári og labbaði svo beint heim. Deyfingin náði alveg upp í nef og það var skrýtið að drekka kaffið, fannst eins og ég væri ekki að bera bollann rétt upp að vörunum. Ákvað að skrópa í sundi í dag en vera aðeins virkari heima fyrir í staðinn.

Þegar ég fór í sundið í gær, stillti ég mig þannig af að ég væri búin að synda mína 500m um fimm. Fór því beint út í laug ca 16:40 og var í minni fyrstu kalda potts ferð rétt rúmlega fimm þegar kalda potts vinkona mín kom úr ræktinni. Hún fór beint í heitasta pottinn til að hita sig upp og ég elti hana þangað. Þegar við hins vegar komum aftur að kalda pottinum var verið að tæma úr honum og hann aðeins hálfur. Við fengum leyfi til að brölta upp í engu að síður og sátum í honum næstum þar til hann tæmdist. Þetta kallaði á aðrar aðferðir. Eftir næstu ferð í heitasta pottinn fórum við í pott sem er 38°C en svo prófuðum við að setjast á bekk og kæla okkur þannig niður eftir næstu tvær ferðir. Það voru fleiri heldur en við sem voru svekktir yfir að komast ekki í þann kalda.

Annars fór ég austur um síðustu helgi en hafði þá ekki farið síðan fyrstu helgina í mánuðinum. Lauk við framleiðslu jólakorta þetta árið og á nú aðeins eftir að skrifa á kortin sem og 3 jólabréf á þremur tungumálum. Við pabbi skruppum upp í garð eftir hádegi á sunnudeginum og hann skipti um rafhlöður í kertinu sem er á leiði litlu Önnu og mömmu. Þegar við feðginin komum til baka skrapp ég aðeins yfir til nöfnu minnar með tvær bækur í farteskinu. Stoppaði í uþb klukkustund og fór með aðra bókina til baka því hún átti þá bók og hefur lesið mörgum sinnum.

16.11.19

Smákökubakstur í dag

Í gærkvöldi var ég sótt af samstarfskonu og vinkonu rétt fyrir sjö. Nokkrum mínútum síðar vorum við mættar á veitingastaðinn Haust í Fosshótel í Borgartúni þar sem var haldið jólahlaðborð RB. Maturinn var góður og kvöldið heppnaðist mjög vel. Var komin heim aftur upp úr klukkan tíu og plantaði mér fyrir framan sjónvarpið næsta klukkutímann.

Var nokkuð lengi að koma mér á fætur í morgun og var klukkan langt gengin í níu þegar ég mætti í Laugardalslaugina. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en ég var byrjuð að synda rúmlega níu og hafði þá byrjað á koma við í kalda pottinum í tvær mínútur.

Um hálfellefu var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar. Við plöstuðum Kon-Tiki og eina aðra bók og þar að auki fundum við til fleiri esperanto kennslubækur og lesefni sem við ætlum að gefa betur gaum. Lásum ekkert í dag en við erum harðákveðnar í að lesa Kon-Tiki aftur.

Kom heim um eitt eftir að hafa komið við í Krónunni við Granda. Hringdi í pabba á meðan Oddur gekk frá vörunum. Um tvö leytið ákvað ég að demba mér í að baka amk aðra uppáhaldssmákökusortina, lakkrístoppa sem Oddur er svo hrifinn af. Klukkan um hálfsex var ég búin að baka rúmlega hundrað lakkrístoppa og var með síðustu plötuna af hinni uppáhaldssortinni í ofninum, eggjahvítukökur (eggjahvítur, sykur, vanilludropar, kornfleks, kókosmjöl og suðusúkkulaði) það urðu þó aðeins um 70 kökur þrátt fyrir að ég fjórfaldaði grunn uppskriftina. En þar að auki var ég langt komin með að finna til kvöldmatinn en við vorum með vefjur með kjúklingafillet, niðurskornu grænmeti, salsasósu, rifnum osti og sýrðum rjóma.

14.11.19

Núll - núll

Þrátt fyrir að landsleikurinn við Tyrki ytra væri sýndur í beinni á RÚV ákvað ég að drífa mig í sund á fimmta tímanum í dag. Ég var hálfpartinn búin að mæla mér mót við eina sem stundar kalda pottinn mun meira en ég. Ég var búin að synda í 400m og fara eina ferð í þann kalda þegar hún kom úr ræktinni og fann mig í 42°C pottinum. Næstu fjórar ferðir mínar í þann kalda urðum við samferða og fórum svo í 44°C (heitasta pottinn) á milli ferða. Eftir fimmtu ferðina mína í kalda pottinn endaði ég gufubaði í ca tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Náði að horfa á síðasta hálftímann af leiknum.

Fór í sund eftir vinnu í gær og fyrradag en um fimm á mánudag skellti ég mér í 4,1°C sjóinn. Það var flóð en ekki fjara svo það þurfti ekki að labba langt til að komast á ágætis dýpi. Svamlaði um í ca fimm mínútur og kom svo aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Var í pottinum í meira en tuttugu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.

10.11.19

Rólegheit eða leti

Þrátt fyrir að vera í bænum þessa helgina er ég ekki farin að fara í sund í dag. Ég fór í sund í gærmorgun rétt upp úr klukkan átta og gaf mér góðan tíma, synti meira að segja í hálftíma eða 700m. Það var nú frekar einhæft sund, allt á bringunni. Úr sundi fór ég beint til norsku esperanto vinkonu minnar. Við lukun loksins við að lesa Kon-Tiki, lásum síðustu tvær blaðsíðurnar í gær. Við erum hins vegar ákveðnar í að lesa bókina aftur og sjá hvort við rekumst á eitthvað nýtt og hvort við lesum hana hraðar. Vorum nokkur ár með fyrstu yfirferðina.

Þar sem ég var ekki á leið út úr bænum skrapp í Krónuna á Granda eftir esperantohittinginn. Verslaði m.a. hráefni í kjötsúpu og uppáhaldssmákökusortir sona minna. Ekkert varð þó úr bakstri í gær en það var kjötsúpa í kvöldmatinn og verður líklega aftur á boðstólum í kvöld.

Eftir að ég kom heim úr vinnu seinni partinn á föstudaginn heyrði ég í fyrsta skipti í Helgu systur eftir hún náði þeim áfanga að verða fimmtug 2. nóv. sl. Við systur spjölluðum í hálftíma, m.a. um komandi jól. Hún og við báðar gerum okkur grein fyrir að pabbi vill helst vera heima hjá sér. Helga og fjölskylda munu því koma suður og líklega verðum við flest á Hellu um jólin. Synir mínir eiga enn eftir að ákveða sig hvernig þeir vilja hafa þetta en þetta kemur allt í ljós þegar nær dregur. Það eru jú enn 44 dagar til jóla.

Um síðustu helgi fór ég austur með megnið jólakortagerðardótinu mínu og settist niður við eldhúsborðið eftir kvöldmat og hófst handa við að föndra. Tveimur og hálfum tíma og 2 hvítvínsglösum síðar var ég búin að búa til 20 jólakort. Í vikunni fann ég eitt ónotað jólakort frá því í fyrra og skv. listanum vantar mig þá aðeins uþb 5stk.

Á mánudagskvöldið var fór ég með prjónana mína yfir til tvíburahálfsystur minnar því við vorum búnar að ákveða að hafa saumaklúbb. Þriðji meðlimur klúbbsins er erlendis svo við vorum bara tvær. Tíminn leið alltof hratt en við vorum sammála um að hafa annan saumaklúbbshitting aftur innan þriggja vikna.

Skrapp á bókasafnið í vikunni, skilaði 6 bókum og kom með 4 heim. Er að lesa: Það sem aldrei gerist eftir Anne Holt.