31.5.14

Bláendinn á maí

Þar sem ég þurfti nauðsynlega að reka eitt til tvö erindi strax eftir vinnu og vera mætt á ákveðinn stað um sex síðdegis fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun.  Ég sá um bókhaldið og afleysingar í mat og kaffi.  Einnig sá ég um að ljúka við að skanna inn myndir og undirskriftir.  Dagurinn leið afar fljótt og var gott að hugsa til þess að það væri helgi framundan.  Ákvað að bíða með að þvo lánsbílinn og brunaði beint í bókasafnið í Kringlunni þar sem ég skilaði inn fimm bókum.  Hljóp svo út með tóman poka.  Er með átta bækur af safninu, lauk við eina þeirra seint í gærkvöldi og byrjaði aðeins að glugga í þá bók sem þarf að skila næsta föstudag.  Einnig er ég með tvær einkabækur ólesnar.  Aðra úr bókaklúbbnum og hin er önnur bókanna sem ég gaf mér í jólagjöf.

Kom heim um hálffimm og stoppaði við í rúmlega klukkustund.  Snurfusaði mig aðeins til áður en ég lagði í hann.  Lagði lánsbílnum við Baldursgötuna og labbaði svo að Kalda-Bar þar sem ég hitti kórstjórann og megnið af kórfélögunum.  Mættum alls tólf þangað en þegar við vorum komin sjö var Bjarni samt aftastur í stafrófinu.  Af okkur hinum sex vorum við þrjár nöfnur, Arndís, Arnlaugur og Árni.  Svo bættust, Ella, Inga Helga, Majrika og Valgerður í hópinn.  Við sátum úti í bakgarði mest af tímanum en Árni kórstjóri skrapp inn og spilaði nokkur lög á píanó staðarins ásamt Ólafi Stolzenwald sem spilaði með á bassa.  Um hálfátta röltum við yfir á Gallerý Holt þar sem við hittum þrjú til úr kórnum, Kristnana tvo og Gullu.  Á holtinu fengum við góða þjónustu og gott að borða.  Ég, gjaldkeri kórsins, borgaði fyrir matinn, en svo borguðum við drykkina hvert og eitt.  Ég fékk mér eitt hvítvínsglas með kjötréttinum sem ég hafði valið fyrirfram, en við borðið mitt voru tvö sem fengu sér rauðvínsglas með fiskréttinum sínum.  Þetta var afar skemmtileg og notaleg kvöldstund í góðum hópi.  Kvöldið leið auðvitað alltof fljótt.

30.5.14

Skiladagur nálgast

Var komin á fætur upp úr níu í gærmorgun.  Gærdagurinn var rólegheitadagur.  Strákarnir sváfu frameftir. Annar kom fram um hálfeitt þegar ég var að hella á könnuna en hinn þurfti ég að vekja um þrjú.  Var ýmist í tölvunni eða að lesa og nennti ekki neinu öðru.  Er búin með aðra af skammtímalánsbókunum, "Blóð hraustra manna" eftir Óttar Norðfjörð og er þetta sjálfstætt framhald Borgríkis.  Tvær af bókunum eiga að skilast 2. júní n.k. en ég er búin með þær líka og svo þrjár aðrar vasabækur.

Hafði kjúklingalærakjöt í ofni, ásamt hýðisgrjónum, gulum baunum og rósakáli í kvöldmatinn í gær.  Það varð afgangur af grjónum, baunum og káli og setti ég það allt saman og hellti soðinu yfir það.  Hvað ég geri svo við það hef ég ekki ákveðið enn.

29.5.14

Uppstigningardagur

Notaði hjólið mitt til að komast milli heimilis og vinnu í gær.  Tók á móti og skoðaði kortin sem ein önnur hlóð í vélina.  Eftir kaffipásu fór ég óvænt aftur á vélina til að leysa eina af sem var að fara á fund.  Hún hafði komið á hinn endann á vélinni, þ.e. að segja var að "troða" í, rétt fyrir tíu.  Ég stóð vaktina fyrir hana í ca einn og hálfan tíma en fór þá í mat.  Eftir mat hélt ég áfram að "troða í" allt þar til að það kom viðgerðarmaður milli hálftvö og tvö til að stilla vélina betur.  Þá fór ég að taka kennispjöd upp úr umslögum, raða þeim í kennitöluröð og skanna inn myndirnar og undirskriftirnar.  Bunkinn var með stærra móti og ég komst ekki í kaffipásu fyrr en upp úr þrjú en það var nú í alveg í lagi, vantaði reyndar alveg félagsskap því allir aðrir voru búnir í kaffi.

Hjólaði aðeins aðra leið heim úr vinnunni og lengdi leiðina um tíu mínútur eða svo.  Hafði bæði gott og gaman af en var eldrauð og sveitt í framan eftir.  Hafði lifur í kvöldmatinn.  Nú er komið sumarfrí frá kóræfingum.  Það eru aðeins tvær messur eftir, hvítasunnumessan og gúllasmessan, annan og fjórða sunnudaginn í júní.  Ég var því bara heima í rólegheitum í gærkvöldi.

28.5.14

Frídagur á morgun

Í gær fór ég á lánsbílnum í vinnuna þar sem ég  ætlaði að koma við á tveimur stöðum á leiðinni heim.  Vinnudagurinn leið hratt að venju.  Hann byrjaði reyndar á dýrindis morgunverði sem yfirmaður okkar lét senda í tilefni hversu flutningarnir eru að ganga vel.  Dagleg framleiðsla gekk vel og við fórum langt með að ljúka einni endurnýjun, framleiddum öll kort en vantaði uþb þrjátíu bankamerkt umslög til að setja punktinn yfir i-ið.  Komið var með skrifborð handa mér, fyrirliðanum og undir myndnámið í nýja skrifstofurýmið en það var ekki búið að flytja tölvurnar okkar yfir þegar ég fór.

Strax eftir vinnu skrapp ég upp á Landakot að heimsækja hana Böddu mína.  Kom víst eins og kölluð og gat hjálpað henni með gemsann sem hún var í einhverjum vandræðum með.  Stoppaði í ca klukkutíma og skrapp svo að sækja nýja sendingu af asea áður en ég kom heim rétt fyrir sex.

Var með ofnbakaða bleikju í matinn með kartöflum og gulum baunum í bræddu smjöri.  Bjó líka svo vel að eiga eina dós af stjörnusallati.

27.5.14

Líður á mánuðinn

Hjólandi ferðaðist ég milli heimilis og vinnu í gær og hafði bæði gott og gaman af.  Framleiðsluvélin var komin á nýja staðinn sinn og virkaði bara vel.  Framleiddum alla daglega framleiðslu og smávegis af endurnýjun áður en viðgerðarmennirnir komu aftur um tvö að ljúka alveg við uppsetninguna.  Smám saman var verið að flytja úr hinu rýminu yfir í nýja skrifstofurýmið en til þess að hægt væri að flytja tölvurnar okkar fyrirliðans vantaði borð á staðinn.  Þau komu ekki í gær svo við vorum ekki fluttar í gær.  Fór beint heim eftir vinnu.  Vindurinn Kári var svolítið á móti mér á Miklubrautinni og ég var vel rjóð og sveitt er ég kom heim.

Hér heima stóð til að yrði spilasessinon en það gátu víst ekki allir mætt svo krakkarnir sem mættu breyttu þessu í "mynda-chill".  Ég var að vafra um á netinu um fimm leytið þegar "föðursystir mín hringdi til að athuga hvort ég gæti litið eftir börnunum á meðan þau hjónin skryppu í bíó.  Það gat ég vel.  Var mætt um hálfátta.  Strákurinn, sem byrjar í grunnskóla í haust, tók skælbrosandi á móti mér í dyrunum með foreldrum sínum íklæddur náttfötum.  Stóra systir hans var í fyrstu inn í herbergi en hún kom fljótlega fram og var mjög áhugasöm um að gefa mér kaffi.  Stuttu seinna var bróðir hennar kominn í köngulóarbúninginn.  Ég ákvað að leyfa honum að vera í búningnum um stund.  Hann hlýddi svo systur sinni rétt fyrir níu er hún sagði honum að fara aftur í náttfötin.  Ég bað svo snáðann um að velja sér bók til að lesa fyrir svefninn og hann rétti mér matreiðslubók Latabæjar.  Las fyrir hann um íslest og einnig pönnukökur bæjarstjórans.  Börnin voru bæði löngu sofnuð þegar foreldrarnir komu heim.

Á heimleiðinni ætlaði ég mér að koma við í Hagkaup í Skeifunni en ég hafði gleymt að taka peningaveskið með mér og var heldur ekki með krítarkortið.  Bjargaði þessu með því að biðja Odd Smára um að koma út til mín með peningaveskið þegar ég renndi við heima.  Stráksi gerði meira en það, hann ákvað að koma með mér í búðina og gerast burðarmaður.  Hann gekk svo frá vörunum úr pokanum er við komum heim.  Ég fór beint í bælið en fór ekki alveg beint að sofa heldur las um stund.

26.5.14

Fæðingardagur móðurömmu minnar í dag

Ég var vöknuð bara nokkuð snemma í gærmorgun.  Skrapp aðeins upp í aftur rétt fyrir níu og steinsofnaði.  Var þó komin á fætur upp úr hálftíu.  Dagurinn leið alltof hratt.  Lék mér í tölvuleikjum, saumaði aðeins í stóru myndinni, skrapp í örstuttan göngutúr og las í tveimur bókum.  Um kvöldið hjálpaði ég mömmu að taka til kvöldmatinn.  Það var reykt foladakjöt í matinn með soðnum kartöflum.  Fékk mér einn kaffibolla kíkti aðeins aftur í tölvuna en lagði ekki svo seint í hann heim á leið.  Var komin í bæinn um hálftíu.  Bræðurnir voru ekki heima og rétt hitti ég á annan þeirra er hann skilaði sér í kingum hálftólf.  Hinn hitti ég um hálffjögur í morgun er ég þurfti nauðsynlega að tæma hlandblöðruna.  Þá varð ég vör við mannamál í herberginu hans.  Hann var auðvitað að spila og bað ég hann vinsamlegast um að hætta því sem fyrst og fara að sofa í hausinn á sér.
 
hef ég lokið við að lesa báðar bækurnar sem eru með skilafrest til 1. júní.  Önnur bókin heitir glansmyndasafnararnir og er skáldsaga eftir færeyskan höfund, Jóanes Nilsen.  Þar skrifar hann um nokkra stráka úr árgangi ´52, aðallega um þá sem féllu frá alltof snemma.  Vel skrifuð bók og maður lagði hana ekki svo glatt frá sér.  Hin bókin heitir Endimörk náðarinnar og er glæpaskáldsaga eftir Tom Egeland.  Þar er sagt frá tveimur óhugnanlegum sakamálum, annars vegar í safni í Richmond og hins vegar í safni í Þrándheimi.  Í ljós kemur að um sama morðingja er að ræða.  Einnig er sagt frá nokkrum brotum sem áttu að hafa gerst á 16. öldinni.  Nú er bara að fara að opna skammtímalánsbækurnar og hugsanlega ljúka við lestur a.m.k annarar þeirrar fyrir 1. júni n.k.

25.5.14

Sunnudagur í sveitinni

Mín var komin á fætur um átta í gærmorgun og mætt í kirkjuna klukkan hálfníu.  Reyndar var frjáls mæting kórfélaga í göngumessuna sem byrjaði um níu og engin upphitun fyrir.  Mættum eitt í hverja rödd.  Sópraninn sá um að afhenda sálmabækur í anddyrinu en við hin þrjú sátum á fremsta bekk og vorum nokkurs konar meðhjálparar, stýrðum upprisunum.  Messan tók ekki nema rúmlega hálftíma.  Fór heim, tók mig til, slökkti á tölvunni sem ég hafði kveikt á um morguninn og upp úr tíu lagði ég af stað austur á Hellu.  Strákarnir sváfu á því græna þegar ég fór, höfðu verið að spila í tölvunum fram eftir öllu.  Þeir voru líka eitthvað uppteknir um helgina og gátu því ekki farið með mér.

Fljótlega eftir að ég kom skrapp pabbi í smá móttöku sem hann var boðinn í í tilefni fjörutíu ára samstarfsverkefnis um uppgræðslu lands.  Hann hafði tekið mynd fyrir fjörutíu árum á ákveðnum stað upp á Rangárvöllum sem búið var að "grafa" upp.  Mamma lá mest fyrir en um þrjú bað hún mig um að finna til kaffið handa okkur tveimur.  Við höfðum nýlokið við síðdegiskaffið þegar pabbi kom aftur.  Ég hafði tekið með mér nokkrar bækur í sveitina, þar á meðal þessar tvær sem þarf að skila um mánaðamótin.  Lauk við aðra bókina og byrjaði á hinni.

Um sex bað mamma mig um að búa til kjötbollur.  Hún hafði samt umsjón með því verki og kryddaði m.a. hakkblönduna.  Kúlaði þetta upp á tvær ofnplötur og lét bakaraofninn sjá um afganginn.  Settum líka upp kartöflur.  Úr varð dýrindis kvöldmatur sem einnig var borinn fram með sultu.  Strax eftir matinn hringdi ég í frænda minn og hans konu sem búa í Brekkugerði fyrir ofan Gunnarsholt.  Þau voru heima svo ég skellti mér í heimsókn.  Kvöldið leið afar hratt og var mikið helgið.  Var búin að sitja við eldhúsborðið nokkra stund er ég varð vör við smá hreyfingu útundan mér.  Í ljós kom að uppáhaldsstaður eins af köttum þeirra (eiga tvo og hálfan, þ.e. nágrannakötturinn er oft hjá þeim) er á ofninum undir eldhúsglugganum við eldhúsborðið.  Mér láðist að taka mynd af þessu fyrirbæri en ég var samt með myndavélina í veskinu.

24.5.14

Það er komin helgi

Fór á lánsbílnum í vinnuna í gær því ég var búin að ákveða að reka nokkur erindi strax eftir vinnu.  Nóg var að gera langmest af tímanum.  Daglegri framleiðslu lauk upp úr hálfeitt en þá var unnið að endurnýjun þar til tveir viðgerðarmenn mættu á svæðið tæpri klukkustund síðar.  Þeirra verk var að taka vélina í sundur, færa hana yfir í nýtt rými og setja hana aftur saman þar.  Við stelpurnar lukum við að pakka debetframleiðslunni og telja allar kortategundir í vögnunum.  Nokkurð rólegt var síðasta hálftímann en þó var alveg hægt að finna sér eitthvað vinnutengt að gera.
Strax eftir vinnu fór ég á Borgarbókasafnið í Kringlunni.  Skilaði sjö bókum af níu.  Er rúmlega hálfnuð með aðra af tveimur bókunum en þeim þarf ég að skila 1. júní nema ég framlengi um mánuð.  En þrátt fyrir að ég hafi þessar tvær og svo tvær aðar heima var ég allt í einu komin með bunka af bókum undir hendina.  Þetta voru ellefu bækur og tvær af þeim hef ég aðeins í tvær vikur.  Ég veit alveg hvað ég verð að gera mikið af á næstunni og leiðist það ekki.

Næst lá leiðin á Atlantsolíustöðina við Flugvallarveg þar sem ég fyllti á lánsbílinn þrátt fyrir að tankurinn væri uþb hálfur og engin skilaboð um aukaafslátt með dælulykli hefðu borist.  Svo ætlaði ég mér eiginlega að sækja kassann með með asea-vatninu en sá sem afhendir mér sendinguna var ekki viðlátinn.  Þetta á alveg að sleppa fram yfir helgi.

Hafði ofnbakaðar kjúklingabringur með gulum baunum og hýðisgrjónum í kvöldmatinn um sjö leytið þegar Oddur var kominn af trommuæfingu.  Eftir fréttir horfðum við á Criminal Minds og Castle úr leigunni en svo slökkti ég á sjónvarpinu.  Strákarnir fóru að spila við einhvern í tölvunni og ég vafraði um á netinu og lék í einkatölvuleikjum til klukkan að ganga ellefu.  Þá háttaði ég, skreið upp í rúm og las alltof lengi...

23.5.14

Aftur á hjóli

, tvo daga í röð notaði ég hjólið milli heimils og vinnu, á miðvikudaginn og í gær.  Þegar ég kom svo heim nokkru fyrir hálffimm í gær biðu mín skilaboð frá einni frænku minni og nöfnu.  Mamma hennar er tímabundið á Landakoti og verður þar virku dagana (og næturnar) í tvær vikur í viðbót.  Ég fékk að vita á hvaða hæð og í hvaða herbergi.  Ég kastaði mæðinni í smá stund, hringdi í pabba og kveikti á tölvunni áður en ég skellti mér í heimsókn.  Var komin rétt áður en kallað var í kvöldmat.  Við Badda náðum að sitja og spjalla saman á ganginum í nokkrar mínútur áður en tilkynningin um að maturinn væri til kom.  Á meðan gamla konan borðaði settist í inn við rúmið hennar og las í bók á meðan ég beið eftir henni.  Stoppaði alveg til klukkan að verða sjö enda höfðum við um margt að spjalla.  Það var spilakvöld hjá strákunum svo ég þurfti ekki að elda, þeir redduðu sér.  Þá gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert síðan á afmælinu mínu í fyrra.  Ég skrapp á Saffran og pantaði mér pizzu vikunnar og tók með mér heim.  Holið var fullt af krökkum og svo var einn að spila á play statinon tölvuna í stofunni svo ég varð að taka matinn með mér inn í herbergið mitt því það gekk ekki upp að borða í eldhúsinu þar sem hvorki eru borð né stólar hvað þá á salerninu...

22.5.14

Hjólað í vinnuna

Hjólið mitt var alveg tilbúið tuttugu mínútum fyrir klukkan átta í gærmorgun og var ég u.þ.b. fimmtán mínútur að koma mér í vinnuna.  Vinnudagurinn leið hratt að vanda en rétt fyrir hálffjögur fraus framleiðsluvélin sem varð til þess að ég komst ekki úr vinnunni fyrr en tuttugu mínútum yfir fjögur. Ég var svo sem ekkert upptekin en ég fæ ekki laun fyrir umframtíma því stimpilklukkan telur bara frá klukkan átta til fjögur jafnvel þótt maður stimpli sig oft inn mun fyrr og alveg þar til í byrjun þessarar viku var ég yfirleitt byrjuð að vinna áður en klukkan sló áttu.  Ein er þetta að stimpilklukkan segir bara átta tímar þótt maður stimpli sig út eitthvað eftir fjögur.  Hjólaði aftur heim, kastaði aðeins mæðinni og hringdi á meðan í pabba minn.  Síðan fór ég á lánsbílnum í fiskbúðina við Sundlaugarveg og keypti ýsu í soðið og Klausturbleikju í frystinn.  Næst lá leiðin í Lyfjaver við Suðurlandsbraut þar sem ég leysti út tvö hormónatengd lyf úr lyfjagáttinni, gel og primolut.  Eftir að hafa lagt fyrir utan heima skrapp ég aðeins í Sunnubúðina eftir nokkrum nauðsynjum, m.a. grískri jógúrt og gulum baunum, áður en ég fór inn með allt sem ég var að ná í.

21.5.14

Sjö núll í Egilshöll

Ég notaði þrjá strætómiða í gær.  Tók semsagt 13 fyrir utan Sunnubúð um hálfátta í gærmorgun.  Um hálfþrjú tók ég ásinn upp á Hlemm frá Hörpu.  Þaðan labbaði ég í Katrínartúnið til að sitja öryggisnámskeið ásamt einni úr minni deild sem var samferða þessa leið og nokkrum öðrum.  Um fjögur löbbuðum við aftur á Hlemm, ég til að kaupa mér þrjú strætókort (27 miða) og hin til að taka strætó.  Ég ákvað svo að nota síðasta miðann af gamla strætókortinu í strætó heim.

Fljótlega eftir að ég kom heim kom Oddur Smári með mér í verlsunarleiðangur.  Ákváðum í leiðinni að strákarnir gætu fengið pylsur í kvöldmatinn.  Þegar við komum til baka var nágranninn á neðri hæðinni að slá blettinn með lánssláttuvél.  Ég mundi þá loksins eftir að biðja hann um að taka hjólið mitt út úr geymlsunni hans undir tröppunum þar sem það er búið að vera síðan hann fékk fullan aðgang að mínum, bráðum fyrrverandi helming, af skúrnum.  Við litum inn í geymsluna og svo sagðist hann fara í þetta eftir sláttinn.

Þegar komið var að því að leggja í hann á fyrsta heimaleik Valsstelpnanna í fótboltanum var hjólið komið út.  Hins vegar voru dekkin frekar lin.  Ég bað Odd um að fara með hjólið upp á bensínstöð og pumpa í dekkin.  Svo dreif ég mig á bílnum því heimaleikurinn var spilaður í Egilshöll.  Fyrri hálfleikur vannst 3-0 og sá seinni 4-0, alls 7-0 sigur minna stelpna.  Þegar ég kom heim varð ég mjög glöð með að hjólið mitt var tilbúið til notkunar.  Læsti því við grindverkið og knúsaði strákinn fyrir hjálpina.

20.5.14

Fimm upprisur á Hlíðarenda

Lánsbíllinn var kosturinn sem ég valdi til að ferðast milli heimilis og vinnu í gær.  Ég átti jafnvel von á því að haft yrði samband og ég beðin um að koma og skrifa undir sölu á bílskúrnum.  Það varð nú ekkert að því í gær því það er víst ekki hægt að ganga frá þessu fyrr en það er tilbúinn nýr eignaskiptasamningur.  Það er verið að vinna í þessum málum.  Í staðinn kom ég við í blóðbankanum við Snorrabraut og fékk að gefa.  Þrýstingurinn var heldur hár en innan marka.  Nú verð ég að fara að taka mig á í hreyfingu og mataræði.  Finnst ég alveg vera stálhraust en verð að taka mark á merkjunum.

Ekkert varð úr spilakvöldi hjá strákunum en það var ekki vitað fyrr en milli fimm og sex.  Ég sagði strákunum að hita sér vorrúllur og slapp við að elda.  Nágranninn á neðri hæðinni kallaði á mig um sex.  Ég skrifaði undir kvittun fyrir móttöku greiðslu á helmingi skúrverðsins skv. kauptilboði rétt eftir að nágranninn hafði millifært á mig að mér ásjáandi.  Hinn helmingurinn verður borgaður í haust og þá verður örugglega búið að ganga frá eignaskiptasamningi og skrifa undir kaup/sölu samning og þinglýsa.

Rétt upp úr hálfátta trítlaði ég af stað á Valsvöllinn.  Hitti kunningjakonu mína á göngustígnum við Eskihlíð og urðum við samferða þaðan og héldum hópinn allan tímann.  Til að gera langa sögu stutta þá unnu Valsstrákarnir Frammara 3-2 í fyrri hálfleik og 2-1 í þeim seinni, alls 5-3 og ég rauk upp og fagnaði fimm sinnum í leiknum.

19.5.14

37. heimsóknin í blóðbankann

Ég var komin á fætur rétt fyrir níu í gærmorgun.  Pabbi var þá víst nýbúinn að borða morgunmatinn sinn en sat inn í eldhúsi og var að leggja kapal.  Ég byrjaði á því að fá mér asea-drykk og spjallaði svo við pabba í góðar tíu mínútur áður en ég fékk mér nokkuð annað.  Mér tókst svo að klára berin úr ílátinu í ísskápnum út á ab-mjólkina mína en það er alveg nóg til í frysti og ílátið var bara skolað áður en fyllt var á.  Síðan fékk ég mér kaffi og kveikti á tölvunni.  Strákarnir komu fram um ellefu og hafði annar þeirra ekki farið að sofa fyrr en á fjórða tímanum um nóttina.

Systir mín, mágur og dætur komu rétt fyrir tólf.  Hjónin gáfu sér tíma til að fá sér kaffisopa en um hálfeitt lögðum við sjö af stað gangandi upp að Helluvaði, systir mín með nokkuð stóra myndavél meðferðis.  Held að að þetta hafi verið fjórtánda "Halló Helluvað-hátíðin" og það hafa aldrei mætt eins margir enda veðrið afar gott.  Alls mættu eitthvað á bilinu 800-1000 manns og fylgdust með því þegar kúnum var hleypt út í vorið, kíktu á nýborin lömb í fjárhúsinu, skoðuðu hænur og stálpaða hænuunga, komu við hjá kálfum og nautgripum sem enn voru inni og gátu svo smakkað ábrystir og fengið sér kaffi og góðgæti með því.  Þetta var í fyrsta skiptið sem fjölskylda systur minnar mætti á þennan atburð því yfirleitt hefur eitthvað verið um að vera í skautunum á sama tíma.  Helga myndaði kýrnar löngu eftir að allir aðrir áhorfendur voru farnir að gera eitthvað annað.  Og ein af þessum myndum rataði á forsíðu morgunblaðsins í dag.

Allir sem ég varð samferða fóru á undan mér til baka en ég rataði svo sem alveg ein til baka og skilaði mér um þrjúleitið.  Fengum okkur aðeins kaffi en svo borðuðum við öll saman um sex.  Það var auðvitað fylgst vel með fréttum stöðvar tvö um kvöldið því við sáum Magnús Hlyn á staðnum, bæði að taka viðtal og mynda hlaupandi kýr með halann upp í loftið.  Systir mín og fjölskylda kvöddu svo um sjö en við mæðginin ekki fyrr en rúmum klukkutíma seinna.

18.5.14

Íslandsmeistarar í sextánda sinn

Ég vaknaði í fyrra fallinu miðað við að það var helgidagur í gærmorgun.  Fór í sturtu, bar á mig hormónagelið, skreið aftur upp í á meðan það þornaði og las um stund.  Var svo klædd og komin á ról upp úr níu.  Klukkan tíu mætti ég í klippingu til Nonna í Kristu Quest við Laugaveg.  Að þessu sinni bað ég hann um að klippa hárið miklu, miklu, miklu styttra og stuttklippt er ég nú fyrir.  Hann notaði samt ekki hár/skegg-snyrtivél en útkoman er glæsileg.  Ég held ég hafi ekki verið með svona stutt ár síðan á fyrstu árum ævi minnar en ég var reyndar nánast sköllótt fyrstu tvö árin.  Það er líka alveg hugsanlegt að ég eigi eftir að ganga enn lengra næst eða seinna og fá mér alveg hálfs sentimetra kívíklippingu.  Keypti mér smá hárgel áður en ég kvaddi og gekk út í sumarið.  Skrapp heim í smá stund áður en ég var svo mætt til norsku esperanto-vinkonu minnar um ellefu.  Esperanto grúskið breyttist reyndar í YOU-TUBE tónleika, allt frá Conchitu úr söngvakeppninni í ýmis lög frá ýmsum tímum í x-factor og talent show.  Við gleymdum okkur alveg við þetta og endirinn varð sá að þegar ég kom heim var úrslitaleikurinn í handbolta kvenna byrjaður svo ég settist bara fyrir framan skjáinn og horfði á hann heima.  Ég er svo stolt af stelpunum.  Þær leiddu megnið af leiknum og voru komnar með þriggja marka forystu fyrir leikhlé.  Svo skoruðu þær ekkert fyrstu næstum átta mínúturnar í seinni hálfleik og lentu þremur mörkum undir um miðbik seinni hálfleiks.  En þær náðu að snúa dæminu aftur sér í vil og uppskáru sigur í lokin, án þess að það þyrfti að framlengja eins og í leikjum tvö og fjögur.

Fljótlega eftir leikinn tókum við mæðgin okkur til og lögðum svo í hann austur yfir fjall og alla leið á Hellu. Komum þangað um fimm og var tekið vel á móti okkur.  Seinni parturinn og kvöldið leið jafn hratt og fyrri helmingur dagsins.  Ég skreið upp í rúm rétt upp úr miðnætti.  Fór reyndar ekki að sofa alveg strax heldur kíkti aðeins á sudokugátu og las svo smá stund.

17.5.14

Sumarklipping

Ég steingleymdi að biðja nágrannann um að taka út hjólið mitt í fyrrakvöld en hann hefur geymt það í geymslu undir útitröppunum síðan ég afhenti honum skúrinn minn óformlega.  Þess vegna notaði ég strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Nóg var að gera allan daginn í gær.  Við fimm tókum samt hálftíma um morguninn til að setjast aðeins niður saman og funda.  Eftir daglega framleiðslu tók við endurnýjun og svo var klukkan allt í einu orðin fjögur.

Það var ekki spilakvöld hjá strákunum í gær.  Þeir höfðu haft rænu á því að borða afgang af kvöldmatnum kvöldið áður en ég hafði ekki haft hugsun á því að taka neitt út úr frysti.  Það var ákveðið að strákarnir fengju sér vorrúllur í kvöldmatinn.  Strax eftir fréttir fylgdist ég með beinni útsendingu frá úrslitunum í skólahreysti og hafði gaman af.  En svo horfði ég ekki meir á imbann heldur sat við tölvuna til klukkan að ganga tólf.

16.5.14

Hálfnaður maí

Notaði lánsbílinn milli heimilis og vinnu í gær.  Við vorum með aukamanneskjuna hjá okkur á deildinni og munaði alveg um hjálparhendurnar.  Ég var að vinna á framleiðsluvélinni.  Hlaða inn skrám og setja tegundirnar af stað fram að kaffi.  Reyndar var mér kippt í smá kennsluverkefni stuttu áður en kaffitímar byrjuðu svo ég fór í fyrra kaffið.  Eftir kaffi skipti ég um enda og settist við þann endann sem skilar af sér framleiðslunni og skoðaði ég hvert og eitt einasta kort.  Á leiðinni heim úr vinnu kom ég við með nokkur vikublöð á Hárhornið til tengdapabba systur minnar.  Lagði svo bílnum fyrir utan hér heima og trítlaði út í Sunnubúð eftir mjólk og nokkrum nauðsynjum.  Horfði á úrslitaleik karla í handboltanum.  Þvílíkt sem þetta var spennandi leikur.  Ákvað að standa aðeins upp fimm mínútutum fyrir leikhlé og tala aðeins við nágrannann niðri um skúrmálin, en ég er að selja honum skúrinn.  Allt er í réttum farvegi og skrifum við líklegast undir kaup/sölu-samning fljótlega eftir helgi.

15.5.14

Stutt í helgina

Fór með strætó til vinnu í gærmorgun og aftur heim seinni partinn.  Í millitíðinni var ég m.a. að vinna í keyrslum, bókhaldi og talningu.  Á tímabili var ég ein á deildinni milli hálftvö og hálfþrjú.  Var að skanna inn myndir og undirskriftir þegar limran sem ég setti inn í gær varð til.

Rétt fyrir hálfátta í gærkvöldi ákvað ég að "skrópa" á kóræfingu og trítlaði í staðinn út í Valsheimili.  Hitti kunningjakonu mína á leiðinni.  Leikurinn var æsispennandi.  Florentína, stöng og stangir marks andstæðinganna voru okkur erfið en stelpurnar misstu Stjörnuna aldrei langt fram úr og náðu svo að jafna stuttu fyrir lok venjulegs leiktíma og knýja fram framlengingu sem vannst, afar sannfærandi.  Það verður semsagt oddaleikur um titilinn í Mýrinni n.k. laugardag.

14.5.14

Barátta í boltanum

Andans verkfall er orðið svo langt.
Eitthvað við það finnst mér rangt.
Verð ekki rög
set á það lög.
Er það kannski helst til strangt?

Í gær vorum við með aðstoðarmanneskju með okkur allan daginn og er hún að læra inn á starfið.  Til að byrja með á hún að koma á þriðjudögum og fimmtudögum og okkur hinum finnst það furðulegur tími því þá erum við hinar allar fimm til fjögur.  Dagleg störf gengu vel.  Strax upp úr hádeginu kom maður úr innri endurskoðun að taka upp kortasendingu og beint á eftir fór hann í að farga ónýtum kortum með okkur Ingu og þeirri sem "stýrir" deildinni.  Að förguninni lokinni var framhaldsfundur um okkur og störfin okkar í kortadeildinni.  Það er mat stjórnenda að við ráðum alveg við að sinna okkar verkum hvort sem við eru þrjár, fjórar eða fimm mættar og það virðist alveg vera sama hvað við segjum um það sjálfar.
Notaði annars strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Var eitthvað að spá í að ganga heim en það byrjaði að rigna upp úr klukkan fjögur og það ekkert smá.  Kom hellidemba og um leið var logn sem er yfirleitt ekki algengt þannig að regnið streymdi beint niður.  Fylgdist með fjórða leik í úrslitakeppni handbolta karla, ÍBV-Haukar og þeir fyrrnefndu náðu sigri og að jafna rimmuna.  Úrslitaleikurinn fer því fram í Hafnarfirði annað kvöld.

13.5.14

Saumaklúbbur hjá Sonju

Þrátt fyrir að hvorugur strákanna væri á leið í skólann strax um átta í gærmorgun fór ég á lánsbílnum í vinnuna.  Skólinn er búinn og aðeins annar tvíburinn þurfti að skreppa í skólann en þó ekki mjög snemma.  Var svo komin heim aftur upp úr klukkan fjögur.  Steikti rauðsprettu upp úr krydduðum byggflögum, sauð kartöflur og bræddi smjör sem ég bætti svo gulum baunum út í.  Afganginn af "raspi" og eggi hræri ég alltaf og steiki með og það þykir strákunum afar gott.

Um átta var ég mætt til tvíburahálfsystur minnar og vorum við Lilja að renna að alveg á sama tíma.  Það var svo sannarlega kominn tími á saumaklúbb og hitting.  Meira en mánuður síðan var saumaklúbbur síðast.  Lilja prjónaði en við tvíburahálfsysturnar töldum út.  Ég saumaði smá í stóru myndinni og smá í "nýjasta" verkefninu, myndina af gamaldags símanum.  Kom heim fyrir ellefu og gleymdi mér aðeins í tölvunni.

12.5.14

Ný vinnuvika

Ég var komin á fætur upp úr átta í gærmorgun eða amk áður en klukkan sló níu.  Við norska esperanto vinkona mín höfðum fært hittingin á þennan morgunn þar sem ég var í afmælissönggiggnu með fyrrum kórfélögum FSu fyrir fyrrum kórstjóra.  Var mætt vestur í bæ á slaginu ellefu.  Inger byrjaði á því að bjóða mér upp á hægeldaðan hafragraut og kaffi.  Síðan settumst við í esperantohornið.  Þegar til kom vorum við ekki í svo miklu stuði.  Tíminn fór að mestu í almennt spjall.  Stoppaði engu að síður í einn og hálfan tíma.

Stoppaði ekki lengi heimavið eða uþb klukkustund.  Var mætt sem almennur kirkjugestur í óháðu kirkjuna rétt fyrir tvö.  Karlakórinn Stefnir sá um að leiða messusönginn og söng þar að auki tvö lög að þeirra prógrammi en þeir eru með þrenna kórtónleika í þessari viku.  Eftir messuna settist ég stund niður og fékk mér kaffi og rjómaköku.  Aðalfundur safnaðarins var haldinn í gær en ég skrópaði á hann.  Dreif mig heim upp úr þrjú og undirbjó mig undir að fylgjast með þriðju viðureign Stjörnunnar og Vals í úrslitakeppni kvenna í handbolta í sjónvarpinu.  Sá leikur tapaðist með þremur mörkum.  Seinna um kvöldið fylgdist ég reglulega með uppfærslu mbl.is af leik Fjölnis og Vals í þriðju umferð knattspyrnu karla.  Sá leikur fór 1-1 og voru Valsmenn á undan að skora seint í seinni hálfleik en heimaliðið jafnaði nokkrum mínútum síðar.

Horfði svo á fréttir, Landann, Law and Order, Leverage og frímyndina á Skjá frelsi.  Klukkan var líka byrjuð að ganga eitt áður en ég skreið upp í.  Freistaðist ekki til að lesa neitt fyrir svefninn.

11.5.14

Conchita

Ég var frekar snemma á fótum í gærmorgun.  Klædd og komin á ról um átta (fh ;-)) og þá búin að fara í sturtu, bera á mig gelið og láta það þorna (tekur e-ð um 20-30 mín að þorna).  Kveikti á tölvunni og vafraði smá stund um á netinu á meðan ég borðaði morgunmatinn minn, létt-abmjólk með krækiberjum og muslí út á þar sem gríska jógúrtín var búin.  C.a. korter gengin í tíu lagði ég bílnum á stæði við bensínstöðina við Rauðavatn. Þvílík rjómablíða annars. Tíu mínútum seinna kom tvíburahálfsystir mín og lagði bílnum rétt hjá. Hún skrapp inn að fá sér eitthvað að borða, hafði alveg gleymt að fá sér morgunmat.  Þegar hún var að klára hringdi "föðursystir" mín í hana og sagðist vera á leiðinni.  Bað um að fá kaffi og bauð sú fyrrnefnda okkur hinum upp á kaffi og keypti púkahlaup handa syni föðursystur minnar.  Við vorum komnar á Selfoss korter yfir tíu og byrjuðum á því að fara með drenginn heim til afa síns og konu hans.  Þar var okkur boðið upp á kaffi og pönnsur.  Við stoppuðum þó bara stutt því við áttum að vera mættar í fjölbrautaskólann korter fyrir ellefu. Þar hittust um tuttugu manns, fyrrum kórfélagar til að hita upp og renna yfir afmælissöng og tvö lög.  Kolbrún nokkur Grétarsdóttir stjórnaði okkur og gerði það vel.  Rétt fyrir tólf söfnuðumst við svo fyrir framan Tryggvaskála þar sem nokkrir bættust í hópinn.  Okkur var laumað inn og upp á loft.  Þar var gangur og tvö herbergi, fengum tóninn og gengum inn ganginn syngjandi afmælissönginn fyrir Jón Inga sem varð áttræður á fimmtudaginn var og var að borða brunch með fjölskyldunni.  Beint úr afmælissöngnum sem við stoppuðum á í (á undan dag) sungum við Berhöfðaður burt ég fer.  Síðan tók Gestur Guðjónsson til máls og færði afmælisbarninu eplatré og óskaði honum og syninum sem varð 39 ára í gær til hamingju.  Simmi og Selma Jónsbörn bættust svo í kórhópinn og sungu með okkur Smávinir fagrir en þau voru hluti af þessum hóp á sínum tíma og tóku líka þátt í æfingum vetur og vor og gigginu á Þórs-þinginu.

Var komin heim aftur rétt fyrir hálftvö og stuttu seinna kom Oddur með mér í verslunarleiðangur í Krónuna við Granda. Hann gekk frá vörunum er við komum heim.  Dagurinn leið annars afar hratt.  Sá til þess að strákarnir gætu sjálfir bjargað sér með matinn, horfði á söngvakeppnina, las og tölvaðist.

10.5.14

Helgarfrí og margt í gangi

Fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun. Strákarnir þurftu ekki að mæta strax svo ég var ein á ferð. Hjálparhellan mætti aftur og vann hjá okkur til hádegis.  Nóg var að gera í vinnunni allan daginn en við kláruðum að framleiða alla endurnýjun og erum langt komnar með að pakka þeirri framleiðslu.  Kom við á snertilausu þvottastöðinni við Skúlagötu eftir vinnu og renndi lánsbílnum í gegn.  Heima voru bræður farnir að huga að spilakvöldi.  Ég hafði samt lifur í kvöldmatinn og einn af spilafélögunum fékk sér að borða með okkur.  Um hálfátta rölti ég út í Valsheimili þar sem ég fylgdist með æsispennandi leik í úrslitakeppni handbolta kvenna.  Þetta var leikur tvö og hafði fyrsti leikurinn tapast með tveggja marka mun í Mýrinni í Garðabæ tveimkvöldum áður.  Stjörnustelpur komust í 4-9 en staðan var jöfn 10-10 í hálfleik.  Þegar venjulegur leiktími rann út var staðan enn jöfn 19-19 svo það þurfti að framlengja um 2x5 mínútur.  Enn var jafnt eftir þá framlengingu, 23-23 svo það var að framlengja aftur um 2x5 mínútur.  Valsstelpur skoruðu eitt mar í fyrri helmingi þeirrar framlengingar en Berglind varði og varði í markinu.  Valsstelpurnar náðu líka að skora eitt mar í seinni hluta framlengingarinnar en Berglind hélt áfram að verja, varði alls um 21 skot.  Svo leikar enduðu 25-23 og staðan í einvíginu er því 1-1.  Vinna þarf þrjá leiki til að taka titilinn.

9.5.14

Var að koma heim af mögnuðum handboltaleik

Þriðja daginn í röð notaði ég strætó til að komast milli heimilis og vinnu í gær.  Fyrirliði deildarinnar og ein til voru í fríi en við fengum liðsauka úr K2 sem var með okkur allan daginn.  Hún er ekki vön en það var alveg hægt að nota hana í "léttari" verkin og það munaði svo sannarlega um hana.  Vorum að framleiða alveg til klukkan að verða fjögur því það var fimmti virki dagur mánaðarins sem þýðir að kvöldið áður var debetendurnýjunin keyrð.  Ég sá um bókhaldið í gær og leysti einnig af í mat og kaffi á vélinni.  Fór þá bara í móttökuna svo ég væri ekki ólögleg í bókhaldinu.

Kom heim fyrir fimm.  Byrjaði að sjálfsögðu á því að kveikja á tölvunni.  Var með pastarétt með rækjum, túnfiski, gulrótum, sætum kartöflum, ananas og graskersfræjum í kvöldmatinn.  Horfði á fréttir í sjónvarpinu og fylgdist aðeins með seinni undanúrslitariðlinum í söngvakeppninni.  En klukkan hálfníu var ég mætt á gervigrasið í Laugardalnum.  Það var heimaleikur hjá Valsstrákunum og gilti árskortið mitt inn á svæðið.  Strákarnir tóku á móti liði Keflavíkur.  Gestirnir hófu leikinn en Valsmenn voru fljótir að vinna boltann eftir miðjuna og voru betri svona fyrstu fimm mínúturnar.  Eftir það komust Keflvíkingar meira og meira inn í leikinn og uppskáru mark stuttu fyrir leikhlé, gott ef þetta var ekki á þessari frægu marka mínútu.  Og var þetta eina skotið sem þeir áttu á Valsmarkið allan leikinn.  Valsmenn áttu átta skot á og að marki Keflvíkinga og hittu fjögur þeirra á rammann en voru varinn.  Niðurstaðan varð því miður 0-1 tap.

8.5.14

Fer á völlinn í kvöld

Strætó flutti mig milli heimilis og vinnu í gær.  Fyrst í vinnuna upp úr klukkan hálfátta og svo heim rúmlega fjögur.  Ákvað að bjóða strákunum að bjarga sér sjálfum með afganga í kvöldmatinn.  Þeim leist ágætlega á það.  Þegar til kom fór annar þeirra á Subway með vini sínum og hinn fékk sér afgang af bygggrjónum en ekki af hakkréttinum.  Ég fór á næstsíðustu kóræfingu "vetrarins" rétt fyrir hálfsjö og kom heim aftur eftir klukkan hálftíu.  Horfði ekkert á sjónvarp í gær en bæði "tölvaðist" og las.  Enn og aftur var klukkan orðin hálfeitt eftir miðnætti áður en ég slökkti á lampanum, bað bænirnar mínar og fór að sofa.

7.5.14

Upp úr tíunda umslaginu enn og aftur

Það var leið þrettán sem sá um að koma mér milli heimilis og vinnu í gær.  Veðrið var nú samt þannig að ég ætti að fara að taka hjólið út eða jafnvel labba stundum á milli.  Nóg var að gera í vinnunni í gær og tókst okkur að skila af okkur apríl-tölum upp úr hádeginu, bara degi seinna en óskað var eftir.  Um þrjúleitið var allt í einu allt orðið rólegt.  Skrapp í Sunnubúðina áður en ég fór heim og keypti m.a. hakk sem ég hafði í kvöldmatinn.  Strákarnir fóru með pabba sínum í bíó en ég horfði á söngvakeppnina og ætlaði varla að trúa því að enn eina ferðina var íslenska lagið kynnt síðast upp úr undan riðlinum.  Hélt að Portugalir færu frekar upp en mér fannst íslenski fáninn afar flott útfærður hjá Pollapönki og flutningur þeirra á sviðinu fínn.  Strax eftir keppnina horfði ég á hinn unga Morse á DR1 og þar á eftir "Hit and miss" á RÚV.  Fór "aðeins" í tölvuna eftir sjónvarpsglápið og var að skriða upp í rúm um miðnætti.  Ekki til að fara sofa heldur las ég í rúma hálftíma.

6.5.14

"Vinnuslys"

Strákarnir voru samferða mér í gærmorgun.  Í vinnunni vorum við þrjár til hádegis, en þá mætti sú fjórða úr stuttu fríi, og ég bað um að fá að sinna bókhaldinu, keyrslum og þannig háttar verkum svo ég gæti líka sinnt mánaðamótauppgjörinu.  Leysti af á framleiðsluvélinni milli 9:40 og 10:20 og tók á móti og skoðaði kortin.  Sá líka um að pakka debetframleiðslunni og náði að skera mig tvisvar í sama fingur á pappír.  Kom við í Valsheimilinu á leiðinni heim eftir vinnu og keypti mér árskort á alla heimaleiki í fótboltanum í sumar.  Næsti heimaleikur fer þó ekki fram á vellinum sjálfum heldur á sama stað og valsstrákarnir spiluðu "útileikinn" í fyrstu umferðinni, á gerfigrasinu í Laugardal.  Árskortið á samt að gilda á þann leik.  Fyrstu heimaleikir karla og kvenna á valsvellinum sjálfum verða spilaðir 19. og 20. maí n.k. í fjórðu og annarri umferð.

5.5.14

Gleymdi að fara út :-/

Klukkan var ekki orðin níu í gærmorgun þegar ég var klædd og komin á ról.  Svo flaug dagurinn með undraverðum hraða.  Gleymdi mér við næstum því allt sem ég tók mér fyrir hendur en mér tókst líka að mana mig og manna mig upp í að verka nokkur gólf og þvo smá þvott.  Vafraði að sjálfsögðu um á netinu og spilaði nokkra netleiki.  Las heila spennusögu, "Kallaðu mig prinsessu", eftir Söru Blædel, greip meira að segja aðeins í saumana og horfði á fréttir, Landann, Law and Order og Leverage.  Einnig fylgdist ég með fyrstu leikjunum í fyrstu umferð karla í pepsídeildinni í knattpyrnu og hefði betur bara skroppið á völlinn og séð mína menn vinna KR á "útivelli" 1-2.  Það sló mig nefnilega allt í einu er ég var að skríða upp í rúm um ellefu að ég hafði bara ekkert farið út í góða veðrið allan daginn.

4.5.14

Pepsídeildin rúllar af stað í dag

Vaknaði tiltölulega snemma í gærmorgun og var komin á fætur á níunda tímanum.  Tók því nokkuð rólega og það eina sem var á planinu var heimsókn til norsku esperanto vinkonu minnar.  Þangað var ég mætt um ellefu og stoppaði til hálftvö.  Við vorum að gera tilraun til að búa til krossgátu með esperanto orðum sem tengdust fæðu.  Þetta gekk svona la, la, en við ætlum ekki að gefast upp á þessari tilraun. Áður en ég fór heim kom ég við í Elko í Skeifunni og keypti mér þráðlausa mús.  Prófaði músina um leið og ég kom heim og var ánægð með notagildið.  Svo snéri ég mér að bókunum.  Var langt komin með aðra bókina sem er frá næstsíðustu heimsókn á safnið þegar síminn hringdi.  Það var ein frænka mín og nafna að segja mér að mamma hennar, sem var gifti ömmubróður mínum, væri komin á sjúkrahús.  Gamla konan, sem verður 92 ára í sumar, var búin að vera á "borgarspítalanum" frá því um miðja viku.  Rétt fyrir sjö dreif ég mig í seinni heimsóknartíma dagsins og stoppaði í tæpa klukkustund. Gamla konan var þokkalega hress en vissi ekki alveg mikið um framhaldið.  Hún hafði farið í myndatöku á mjöðm fyrr um daginn en ekki var búið að lesa úr myndunum og túlka.  Þegar ég kom heim aftur var þátturinn "Alla leið" akkúrat að byrja.  Horfði á þann þátt og fyrstu myndina áður en ég slökkti aftur á imbanum.

3.5.14

Morgunstund

Ég vaknaði á undan fyrri vekjaraklukkunni í gærmorgun eða aðeins fyrir klukkan sex.  Vekjarinn er stilltur á tuttugu mínútur yfir sex og svo er gsm-vekjarinn stilltur á fimm í sjö.  Þetta er allt með ráðum gert því eitt af fyrstu morgunverkum mínum er að bera á mig hormónagelið og það þarf að þorna.  Ég skríð sem sagt alltaf aftur upp í og þá er gott að stilla á sig auka vekjara ef maður skyldi gleyma sér og skreppa aftur í draumalandið.  Strákarnir þurftu hvorugir í skólann í gær.  Ég fór samt á bílnum þar sem ég var ákveðin í að reka smá erindi strax eftir vinnu.  Við vorum bara þrjár á deildinni og þegar ég skoðaði orlofsplanið sýnist mér sem það gæti farið svo að við verðum bara þrjár alla næstu viku líka. Kannski eins gott að venja sig við að vera með lágmarksmannskap á háannatíma.  Vinnudagurinn leið hratt líkt og venjulega.  Öll framleiðsla var búin um eitt en það var í nógu að snúast í reikningagerðinni sem og daglegum frágangi.

Stimplaði mig út á slaginu fjögur og fór beint í bókasafnið í Kringlunni. Skilaði níu bókum af ellefu og hafði lesið átta og hálfa bók á ellefu dögum.  Ég segi hálfa bók því þegar til kom nennti ég ekki að lesa um pólitíkina í bókinni um og eftir Ragnar skjálfta.  Í staðinn fyrir þessar níu bækur tók ég sjö aðrar.  Allar bækurnar eru með 30 daga skilafrest og þessar tvær sem voru heim get ég haft í uþb þrjár vikur enn.  Hugsanlega tekst mér að lesa allar þessar níu bækur á þeim þremur vikum.  Annars er hætt við því að ég fari í sama far og fyrir nokkrum árum.  Nái bara að skila hluta af bókunum en fái mér samt fleiri í staðinn.  Það er svo sem ekkert að því, og svo er alltaf hægt að framlengja skilafrestinum um einn auka mánuð.

Kom heim rétt fyrir fimm og byrjaði á því að hringja í pabba og spjalla um stund við hann.  Það var ekki spilakvöld hjá strákunum en þeir voru samt ekkert að flýta sér til pabba síns.  Ég tók því til eitthvað snarl í kvöldmatinn handa okkur.  Horfði á skólahreysti og útsvar en fór svo að leika mér í tölvunni til miðnættis.  Þá skreið ég upp í og las i um klukkustund.  Strákarnir kvöddu um ellefu og sé ég þá líklega ekki aftur fyrr en annað kvöld.

2.5.14

Frídagur í gær

Ég var komin á fætur fyrir klukkan níu í gærmorgun.  Kveikti þá á tölvunni og ætlaði aðeins að "fara hringinn" og einnig leika mér smá.  Endirinn varð sá að ég fór ekki út úr herberginu fyrr en tæpum þremur tímum seinna.  Fékk mér eitthvað í gogginn og hellti svo upp á könnuna, fullan brúsa.  Báðir bræðurnir fengu sér af þessari uppáhellingu.  Oddur Smári kom með mér að versla.  Ég ákvað að fara í Hagkaup í Skeifunni að þessu sinni.  Gerði innkaup fyrir því sem næst alla vikuna en karfan fór samt ekki upp fyrir 18 þúsund.  Oddur gekk frá vörunum er við komum heim.  Dagurinn leið ósköp hratt við ýmislegt dundur.  Hafði lasanja í matinn og bætti út í það gulrótum, graskersfræjum, gulum baunum, ananas og sveppum.  Einn vinur strákanna kom með tölvuna sína eftir kvöldmat og þegar ég var búin að horfa á fréttir settust þeir allir þrír inn í stofu, hver með sína tölvu og spiluðu einhvern leik.  Fjórði vinurinn "hitti" þá á netinu.  Ég komi aftur inn í stofu rétt fyrir hálfellefu til að horfa á glæpahneigð.  Strákarnir létu það ekki trufla sig neitt og þá ekki ég.

1.5.14

Færsta nr 1617 frá upphafi bloggs

Notaði mér strætó milli heimilis og vinnu aftur í gær.  Vorum aðeins tvær fyrsta klukkutímann á deildinni í gær.  Sú þriðja skilaði sér um níu en hinar tvær eru í frii.  Við tvær sem mættum fyrst tókum vaktina á vélinni og þar sem ég var í "móttökunni" á vélinni hljóp ég inn á milli í önnur verk sem þurfti að sinna strax.  Fljótlega eftir að þriðja manneskjan mætti leysti hún mig af í kaffi.  Síðan leysti ég af þá sem hafði byrjað með mér á vélinni.  Náðum að klára allt daglegt, fyrir utan talningar, um hálfeitt og þá fórum við allar í mat.  Vinnudagurinn leið afar hratt og við náðum að sinna hluta af mánaðamótauppgjöri áður en klukkan sló fjögur.  Kláruðum líka alla auka-framleiðslu.

Það var sko ekki tómur vagn sem hleypti mér með við Hörpu upp úr klukkan fjögur. M.a. var sennilega heil leikskóladeild sem fór út á Hlemmi.  Um leið og ég kom í Hlíðarnar settist ég upp í lánsbílinn og skrapp í fiskbúðina við Sundlaugarveg.  Keypti bleikju og ýmislegt fleira.  Bleikjuna var ég með ofnabakaða í kvöldmatinn.  Bakaði nokkrar niðurskornar gulrætur með og notaði afgang af bygggrjónum og gulum baunum sem ég setti með á fatið.  Þetta var afar gott.  Bygggrjónin voru vætt með soðinu af kjúklingarétti sem ég var með fyrr í vikunni en bleikjuna kryddaði ég með "Best á fiskinn".

Kóræfingin byrjaði klukkan sjö og var til korter í níu með smá kaffihléi inn á milli.  Vorum ekki svo mörg á æfingunni og það vantaði einhvern í allar raddir.  En við sem mættum stóðum okkur vel og skemmtum okkur alveg ágætlega.  Það var svo ekki ónýtt að eiga eftir megnið af kvöldinu er heim kom.  Þrátt fyrir að það væri rauður dagur daginn eftir fór ég að sofa áður en það var komið miðnætti eftir að hafa lesið um stund.