19.4.24

Útskrifuð úr sjúkraþjálfun

Gærdagurinn byrjaði alltof snemma eða um fimm. Greip í bók og las í rúman hálftíma. Var komin á stjá fyrir klukkan sex. Vafraði um á netinu en um sjö leytið ákvað ég að trekkja hendina betur í gang með því að prjóna. Var mætt í Fossvoginn um átta og fékk að fara beint í bjúgdæluna fyrstu tuttugu mínúturnar. Svo lærði ég nokkrar nýjar æfingar. Sjúkraþjálfarinn sagði í lok tímans að nú væri þetta alfarið í mínum höndum. Úthaldið í vinnunni er farið að aukast. Er búin að ákveða að ég geti amk verið 100% en verð að passa að fara ekki mikið fram yfir það. Var annars mætt í vinnu um níu. Byrjaði á því að fara niður í koradeild að hlaða inn nýjustum skrám. Það tók fartölvuna óratíma að opnast þannig að þegar ég var loksins búin að útbúa og vista skiptiblöðin var komin tími til að skreppa í kaffi. Er þó ekki ennþá farin að drekka kaffi aftur. Fyllti bara á vatnsflöskuna og fékk mér heitt vatn í bolla. Verkefnum dagsins lauk frekar snemma og ég var komin í sund upp úr klukkan hálfþrjú. Synti 500 metra. Var komin heim um fjögur leytið. Byrjaði á því að setja í þvottavél og sækja þvott af snúrunum. Fékk mér svo hressingu og horfði á nokkra gamla og nýja þætti af NCIS og FBI með Oddi. N1 sonurinn kom heim úr vinnu um átta leytið. 

18.4.24

Fart á tímanum

Svaf átta tíma í einum dúr í fyrrinótt. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fór fljótlega niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám. Framleiðsla hófst á níunda tímanum. Um hálftíu fórum við upp í kaffi og á fund sem var næstum klukkutíma langur. Kláruðum alla daglega framleiðslu fyrir klukkan tólf og milli klukkan eitt og þrjú endurnýjuðum við uþb fimmtánhundruð kort. Ég hafði semsagt úthald í fullan vinnudag. Var ekki með sunddótið meðferðis svo ég fór beinustu leið heim eitthvað að spá í að gera mér svo ferði í Nauthólsvík síðar um daginn. Þegar til kom fór ég ekkert út aftur. 

17.4.24

Snjókoma í gærkvöldi

Morguninn byrjaði alltof snemma í gærmorgun, eða um fimm leytið. Var því komin á stjá áður en klukkan varð sex. Vafraði aðeins um á netinu en trekkti svo þá hægri betur í gang með smá prjónaskap. Lagði af stað í vinnuna í fyrra fallinu og byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Öskjuhlíð og fylla tankinn. Vinnan var svipuð og á mánudaginn og flestum verkefnum lokið um tvö leytið. Þá stakk ég af í sund. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en það gekk fljótt og vel fyrir sig. Fæ það svo endurgreitt í gegnum íþróttastyrkinn. Synti 400m og fór svo aðeins eina ferð í kalda pottinn en hún stóð yfir í um sjö mínútur. Var tuttugu mínútur í gufunni á eftir, tók þá kalda sturtu áður en ég skrapp í sjópottinn í um tíu mínútur. Þar hitti ég fyrir einn frænda minn sem vinnur sem einkaþjálfari í Laugum. Spurði hann hvar væri best að kaupa sér handlóð. Hann mælti með Hreysti í Skeifunni. Ætlaði mér að athuga málið á leiðinni heim en umferðin var þung og það varð á endanum léleg afsökun til að bíða aðeins með þessi kaup. 

16.4.24

Fallegt veður

Svaf í heila átta tíma í fyrrinótt. Mætti í vinnu tuttugu mínútm fyrir átta. Fyllti á vatnsbrúsann minn og fór svo niður í kortadeild að hlaða inn tölum. Var byrjuð í innleggjum stuttu fyrir klukkan níu. Hægri höndin var alveg að vinna með mér en ég passaði mig á að sitja ekki of lengi við. Um hálftvö var farið að sjá fyrir endann á verkefnum dagsins. Ég stimplaði mig út tæpum hálftíma síðar og fór beint í sund. Hitti kalda potts vinkonu mína og við fórum saman 4 ferðir í kalda áður en ég fór á brautir 7-8 og synti 300 metra. Kom heim um fjögur. Klukkutíma síðar fór ég aftur út. Ætlaði að skreppa í stuttan göngutúr. Kom heim aftur klukkutíma og 4,5km síðar. 

15.4.24

Ný vinnuvika

Var vöknuð um sjö leytið og komin á stjá fljótlega eftir það. Dreif mig í sund um hálftíu leytið. Synti 500m, þar af sennilega um 200m á bakinu. Hitti sjósunds vinkonu mína þegar ég var að klára mínar ferðir og hún að byrja á sínum ferðum. Kalda potts vinkona mín var líka mætt á svæðið og þegar búin með eina ferð í kalda þegar ég fór í mína fyrstu. Eftir þrjár ferðir í kalda fórum við í gufuna og þaðan í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar. Skellti mér svo eina stutta ferð í þann kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Restin af deginum fór í rólegheit heima við. Horfði á leiki í enska boltanum, nokkra þætti, prjónaði og las; Blóðmáni eftir Joe Nesbö. Var komin í rúmið um hálftíu og sofnuð upp úr klukkan tíu. 

14.4.24

Brjóstaskimun, árshátíð og fleira

"Hentist" út úr húsi um hálfníu í gærmorgun og var fimmtán mínútur að labba upp á Eiríksgötu 5. Allt gekk hratt og vel fyrir sig og var ég komin út aftur um níu. Ákvað að taka lengri leiðina heim sem urðu tæplega 4km. Var því búin að ganga næstum áttaþúsund skref fyrir klukkan tíu í gærmorgun. Tíminn milli ellefu og fimm fór í alls konar; lestur, gláp, prjón og heimils störf. Um fimm klæddi ég mig í lopapeysu, gallavesti og ennisband og keyrði mig sjálf að Dalvegi 30. Þar voru margir vinnufélagar mínir og makar að safnast saman á þriðju hæð í Öskju. Milli hálfsex og sex fóru þrjár rútur með okkur að félagsheimilinu Dreng í Kjós þar sem kúreka/lopapeysu árshátíð var haldin. Ég skemmti mér mjög vel en passaði mig vel á því hvað ég lét ofan í mig. Trúbardor var á staðnum til klukkan átta. Svo voru heimatilbúin skemmtiatriði og á tíunda tímanum kom Erpur rappari með fleiri með sér. Fyrsta rúta til baka fór um ellefu og ég tók mér far með henni sem og margir aðrir. M.a. einn samstarfmaður minn til margra ára. Sá býr einnig í Hlíðunum og þáði hann far með mér. Ég var komin heim rétt upp úr miðnætti. Fór beint í bælið en las samt í rúman hálftíma áður en ég fór að sofa. 

13.4.24

Laugardagur

Mætti í vinnuna tuttugu mínútum fyrir átta. Byrjaði á því að senda kvittunina fyrir símakaupunum til þeirra sem sjá m.a. um að borga styrkina. (Styrkurinn var greiddur samdægurs) Fyllti svo vatnsflösku áður en ég fór niður að hlaða inn nýjustu skránum. Það var nóg af fyrirliggjandi verkefnum í framleiðslunni en sum þeirra voru að bíða eftir formum og umslögum. Það skilaði sér í hús um hálftíu leytið svo við gátum bæði klárað allt daglegt og aðra af endurnýjunum sem hafa verið í bið í smá tíma. Gengum frá deildinni um hálfeitt og fórum í mat. Föstudagar eru styttri dagar, helst reynt að vera farin úr húsi fyrir klukkan hálffjögur. Ég stimplaði mig út um hálftvö og fór beint í sund. Synti 400m og fór tvisvar sinnum 3,5 mínútur í kalda pottinn. Sat 15 mínútur í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum. Á leiðinni upp úr hitti ég systurnar sem eru með mér í sjósundshóp. Það er reyndar búið að búa til nýja grúppu en þær sögðu báðar að ég væri velkomin í þá grúppu. Kom heim rétt fyrir fjögur. 

12.4.24

Nýr sími

Það var sjúkraþjálfun í gærmorgun og ég var mætt á staðinn nokkrum mínútum áður en tíminn minn byrjaði. En þar sem sjúkraþjálfarinn minn var líka komin á staðinn bauðst mér aftur að byrja strax í bjúgdælunni sem ég þáði. Eftir rúmar tíu mínútur í dælunni kenndi hún mér nokkur ný trix, nuddaði lófann, úlnliðinn og framhandlegginn vel og með því náði hún að breyta nokkrum stöðumælingum til hins betra. Hún sagði þó að ég yrði að vinna ennþá betur í að styrkja vöðvana í framhandleggnum og teygja vel á sinunum í leiðinni. Fékk tíma á sama tíma að viku liðinni og þá ætlar hún að meta hvort hún geti útskrifað mig. Næst lá leið mín í Kópavog til að fá aðeins að tala við trúnaðarlækni RB sem er akkúrat með tíma á fimmtudögum milli níu og ellefu. Ég var fyrst inn. Ætlaði að fá hjá honum opið vottorð en hann má ekki gefa út svoleiðis. Sagði að hann gæti sent póst á yfirmann og/eða mannauð varðandi vinnuskyldu. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan tíu. Byrjaði á því að fylla vatnsbrúsann minn. Skömmu síðar fór ég niður í kortadeild að hlaða niður nýjum tölum dagsins og skipta þeim upp. Gærdagurinn var annars fyrsti "rólegi" dagurinn í langan tíma sem gæti að hluta til verið vegna þess að það vantaði heldur ekki svo marga til vinnu. Ég tók engin innlegg en var í vinnu til klukkan hálftvö. Á leiðinni í sundið hringdi ég í æskuvinkonu mína. Hún sagði mér þær fréttir að hún væri búin að taka þá erfiðu ákvörðun að hætta vinnu í vor og fara á fulla örorku. Sorglegt. Annars hitti ég kalda potts vinkonu mína í búningsklefanum og við náðum 4 ferðum í þann kalda áður en ég fór að synda og hún aftur í sína vinnu. Á leiðinni frá Laugardalnum eftir sund hringdi ég í pabba. Við töluðum dágóða stund og ég ók alla leið að Elko við Granda þar sem ég keypti mér nýjan síma sem ég lét setja upp fyrir mig. Kom heim um fimm leytið.

11.4.24

Fimmtudagur

Mallakúturinn hefur svolítið verið að stríða mér undanfarið. Hugsanlega er líkaminn í smá áfalli og svo blandast inn í þetta eitthvað sem ég borða og fer ekki nógu vel í mig. Hvað það er veit ég ekki en gruna að ég þurfi að passa mig betur á hádegismatnum í vinnunni. Glaðvaknaði alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur um hálfsex. Mætti í vinnuna stuttu fyrir klukkan átta og fór næstum beint niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu verkefnunum og skrá inn og vista skiptiblöðin. Ákvað svo að vera á móttökuendanum í framleiðslunni. Það var í fínu lagi til að byrja með en kannski ekki svo skynsamlegt að vera allan tímann þar eftir að við fórum að framleiða alla leið á form og í umslög þrátt fyrir að taka ágætis kaffipásu (vegna fundar/námskeiðs á tímaskráningakerfi), þriggja kortera matarhlé og klára daglega framleiðslu um tvö. Þá var ég satt að segja alveg búin á því. Ég sleppti þess vegna sundinu og fór beinustu leið heim eftir vinnu og slakaði á þar. Um fimm leytið tók ég hálftíma kríu. Fljótlega eftir það greip ég loksins í prjónana áður en ég gerði daglegar skylduæfingar. Sú hægri var frekar bólgin og styrð en það lagaðist aðeins bæði eftir hvíldina, prjónaskapinn og æfingarnar.

10.4.24

Vikan uþb hálfnuð

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt alveg í spreng. Skrapp auðvitað á salernið. Steinsofnaði svo strax og ég lagðist upp í rúm aftur. Vissi næst af mér fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Mætti í vinnuna stuttu fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn fór ég með fartölvu niður í kortadeild, skráði mig inn á vélina, hlóð niður nýjum verkefnum og útbjó skiptiblöð fyrir framleiðslu á form og í umslög. Þetta tók mig ekkert svo langan tíma. Ég hafði amk dágóðan tíma til að fara í innlegg eftir að ég kom upp aftur. Skrapp í kaffipásu upp úr klukkan hálftíu. Vann til klukkan að verða hálftólf. Stimplaði mig úr vinnu um hálfeitt og fór beint að Laugardalslaug. Hringdi aðeins í pabba áður en ég fór í sundið. Synti 400m og fór fjórum sinnum í kalda pottinn sem var 6°C og mjög góður í gær. Eftir sundið kom ég við í Fiskbúð Fúsa og Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim.

9.4.24

Hálfir vinnudagar

Er að vinna í því að mæta ekki of snemma í vinnuna en vera samt þokkalega á undan aðal umferðarþunganum. Í gærmorgun var ég vöknuð alltof snemma og komin á fætur fyrir klukkan sex. Mætti í vinnuna korter fyrir átta. Fram að kaffi vann ég í innleggjum og gekk það bara vel. Eftir kaffi gerði ég misheppnaðar tilraunir til að komast inn í excelskjöl í fartölvunni sem núna er notuð í kortadeildinni. Stalst líka til að nota smá tíma til að taka saman útskuldað, innkomur og stöðu á hússjóð fyrir D21. Fór í mat um hálftólf. Eftir mat gerði ég loka atlögu að fartölvumálunum með tæknimann á spjallinu og viti menn, það virtist vera nóg að hafa hann á "línunni" því loksins komst ég inn. Fór úr vinnu um hálfeitt og beinustu leið í sund. Synti 400m og var í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Fór eina auka ferð með henni áður en ég fór upp úr. Kom við í versluninni Útilíf í Kringlunni og keypti mér nýja sundhettu. Var komin heim um þrjú. 

8.4.24

Sjötugasta færsla þessa árs

Svaf næstum því til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Var komin í sund um tíu og fór beinustu leið í þann kalda sem var um 7°C. Hitti strax á kaldapotts vinkonu mína og svo var sjósunds vinkona mín á svæðinu. Fór fjórar ferðir í kalda áður en ég, gufu og þrjá potta áður en ég synti 300m. Var komin heim um hálftólf. Fljótlega upp úr hádegi skrapp ég í hálftíma göngutúr. Var komin heim áður en Liverpool leikurinn byrjaði. Strax á eftir þeim leik skipti ég yfir á RÚV og horfði á íslensku stelpurnar tryggja sér sæti á næsta EM í handbolta með því að sigra færeysku stelpurnar.

7.4.24

Færsla no 3901

Aftur var ég vöknuð alltof snemma, núna rétt upp úr klukkan fimm. Var því komin á fætur upp úr klukkan hálfsex. Mætti samt ekki í sundið fyrr en klukkan að verða hálfníu. Kaldi potturinn var tómur og lokaður. Ég synti 400m og fór beint í gufu í uþb 15 mínútur. Þar gerði ég nokkrar æfingar. Fór í kalda sturtu eftir gufuna og svo í sjópotinn í tíu mínútur, nuddpottinn í 5 mínútur og settist svo á stól í 3 mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Stoppaði heima í tæpan klukkutíma áður en ég dreif mig vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Þar héldum við áfram að fara yfir ýmis esperantogögn og taka til í þeim. Kláruðum þá yfirferð og það fór slatti í poka til að kíkja á og lesa síðar en eitthvað var þó dæmt til förgunar. Skrapp svo með bílinn á bílaþvottastöð áður en ég fór heim. 

6.4.24

Besta deildin að byrja

Gærdagurinn byrjaði nokkuð snemma eða eitthvað upp úr klukkan hálfsex. Var mætt í vinnuna tveimur tímum síðar og byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Fann það fljótlega að ég þyrfti aðeins að passa mig. Fór í pásu um hálftíu. Kláraði skammt eitt stuttu eftir pásuna og skammt tvö um ellefu leytið. Fór í mat um hálftólf og var þá búin að ákveða að kalla þetta gott þennan daginn. Stakk af, með samþykki, áður en komið var að eldhúsverkunum. Fór beint í sund. Synti 400m, þar af helminginn á bakinu. Fór þrisvar sinnum þrjár mínútur í kalda sem var kaldari og betri heldur en á miðvikudaginn var. Hitti kalda potts vinkonu mína stuttu áður en ég fór í þriðja og síðasta skiptið þannig að við náðum einni ferð saman. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Lánaði bræðrunum bílinn svo Oddur gæti skutlast með Davíð Stein að sækja bílinn hans sem átti að fá nýja framrúðu í gær. Ekki var þó skipt um rúðu í gær þar sem ekki var til sú rétta heldur þarf hann að koma aftur með bílinn eftir þrjár vikur. Ég gerði svo lítið annað en að hvíla hægri hendina. Þó greip ég aðeins í prjónana og setti í og hengdi upp úr einni þvottavél. 

5.4.24

Föstudagur

Mætti á 7C í Fossvoginum rétt rúmlega átta. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki orðin tíu mínútum yfir bauð Ásta sjúkraþjálfi mér að fara strax í bjúgdæluna sem ég þáði. Á eftir nuddaði hún mig og mældi. Sumar mælingar komu ágætlega út en ég á samt eitthvað í land. Hún setti einhvers konar "plástur" ofan á úlnliðinn og yfir örið sem ég á að hafa í fimm daga. Þessar græjur eiga að losa eða toga í húðlögin. Eftir tímann bókaði hún mig í næsta tíma á sama tíma eftir viku. Fór beinustu leið í vinnuna. Var mætt þangað korter yfir níu. Byrjaði mjög rólega. Fór eiginlega næstum beint í kaffipásu og byrjaði ekki að vinna innlegg fyrr en um tíu. Tók mér extra langan matartíma, næstum þrjú korter, en um hálfeitt tók ég næstu innleggstörn. Sú törn varði í um tvo tíma því ég fékk "kláruveikina" og hugsaði einnig með mér að ég hefði mætt einum og hálfum tíma seinna heldur en dagana á undan. Eftir vinnu fór ég beint heim og var komin þangað um þrjú. Um hálfsjö sótti fyrrum samstarfskona mín mig og saman fórum við upp í Árbæ til fyrrum fyrirliða þar sem við hittum tvær aðrar fyrrum samstarfskonum. Þetta var hópurinn "Fimm dimmalimm". Ekki hafði náðst í Ingu sem var yfir kortadeild í mörg ár en hún er líklega ekki á landinu því hún var búin að gefa það út að hún vildi vera í sambandi við okkur enda mætti hún í hittinginn í fyrra.

4.4.24

Sjúkraþjálfun eftir klukkustund

Vaknaði heldur snemma í gærmorgun. Fór á fætur upp úr klukkan sex og notaði hluta af tímanum hér heima til að "snúa" hægri hendinni í gang. Mætti í vinnu korter fyrir átta og var byrjuð að vinna innlegg áður en klukkan sló átta. Fattaði í miðju kafi að ég væri að flækja málin of mikið. Í sumum pokunum var nokkura daga innlegg en þótt það væri aðgreint á fylgiskjölum voru seðla og klink ekki aðgreint. Þegar innlegg eru ekki aðskilin á að leggja þau saman og vinna út frá heildarsummunni. Fór í pásu stuttu fyrir tíu og svo hádegismat um tólf. Tók saman og hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Kaldi potturinn var eiginlega helmingi of heitur eða 12°C. Sat í honum í næstum tíu mínútur áður en ég synti 200m. Þá var kalda potts vinkonan mætt á svæðið. Við náðum þremur ferðum í volga pottinn, einni í gufuna og einni í sjópottinn áður en ég kvaddi. Skrapp í Krónuna í Skeifunni á leiðinni heim. Oddur fékk lánaðan bílinn í sorpuferð og ég skrapp í tuttugu mínútna göngu túr um sex leytið. 

3.4.24

Aftur í vinnu

Var vöknuð um sex í gærmorgun. Einum og hálfum tíma síðar lagði ég af stað í vinnuna í fyrsta skipti í tólf vikur. Þetta var þá fjórði vinnudagurinn á árin. Það tók mig klukkutíma að komast í gang. Aðal málið var að fá aðgang aftur og opna viðkomandi vinnuglugga. Var byrjuð að vinna innlegg um níu. Fór í tuttugu mínútna pásu um tíu, hálftíma mat um hálftólf. Hætti vinnu um hálftvö og fór beint í sund. Synti 200metra. Kaldi potturinn var í heitara lagi, um 11°C en ég fór tvivar sinnum í hann, sat korter í gufunni og tíu mínútur í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim.

2.4.24

Morgunstund

Ætlaði að sofa þar til stofugestirnir létu á sér kræla í gærmorgun. Það var hins vegar blaðran sem ýtti við mér um sjö svo ég var fyrst á fætur. Fljótlega komu þó mágur minn og ferfætlingarnir fram og hann skrapp með þá út. Ég hellti upp á kaffi, einn bolla af te og sauð hafragraut. Systir mín fékk sér af grautnum og kaffinu. Mágur minn þáði ekkert nema kaffið. Það var til sviðasulta en hann er búinn að borða svo mikið af henni sl ár að hann er kominn með upp í kok í bili amk. Klukkan var farin að ganga níu þegar gestirnir kvöddu og héldu af stað norður. Þau voru rúma tólf tíma á leiðinni heim til sín. Þurftu að fara Tröllaskagann, keyra í gegnum sjö göng og hlaða bílinn amk sjö sinnum. En heim komust þau.

Ég skrapp í sund milli hálftólf og eitt og hitti á kalda potts vinkonu mína. Var því bara að pottormast og gera æfingar í heitum pottum og gufu. Skrópaði í sundinu sjálfu. Seinni part dags skrapp ég svo í rúmlega hálftíma göngutúr.

1.4.24

Komin heim

Fór á fætur um átta í gærmorgun. Settist við tölvuna hans pabba í rúman hálftíma en færði mig svo inn í eldhús til að leggja nokkra kapla og þjálfa flettifærnina. Um tíu leytið færði ég mig svo inn í stofu og prjónaði tvær umferðir eða uþb sexhundruð lykkjur og fylgdist svo með fyrri partinum að "Njálu á hundavaði" með Hundi í óskilum á RÚV. Skipti yfir á Liverpool leikinn um eitt. Eftir leikinn tók ég mig saman og kvaddi pabba. Var komin heim um hálffimm. Systir mín dormaði á bedda í stofunni. Strákarnir voru hjá pabba sínum og fjölskyldu hans. Mágur minn kom fljótlega en hann hafði skroppið með hundana á svæði við Hádegismóa til að hreyfa þá. Helga hjálpaði mér við að skræla og skera niður sæta kartöflu sem ég setti í sigtipott ásamt brokkolí og gufusauð. Útbjó sallat úr spínati, lárperu, granatepli og svörtum steinlausum ólífum. Svo átti ég tvö bleikjuflök sem ég kryddaði með sítrónupipar, best á flest og laukdufti og snöggsteikti á pönnu og lét liggja smá stund í smá rjóma. Þetta var mjög góður matur. Horfðum á RÚV þar til íslenska myndin var búin en ég var farin inn í rúm um hálfellefu. 

31.3.24

Páskadagur

Ég er enn á Hellu. Systir mín, mágur og hundarnir kvöddu um tíu leytið í gærmorgun. Þau ætluðu að gera ferð í Kringluna og svo var hittingur með vinafólki í bænum í gærkvöldi. Ég tók því mjög rólega í gær fyrir utan smá prjónaskap og nokkrar æfingalotur. Lagði kapla nokkrum sinnum yfir daginn, það er ágætis æfing. Eins og með prjónaskapinn er ekki gott að gera of mikið í einu. Pabbi skrapp í búðina eftir rófu og útbjó handa okkur siginn fisk sem við vorum að borða um tvö leytið. Nennti ekki út fyrir dyr svo það var enginn göngutúr í gær og skrefafjöldi gærdagsins náði ekki þúsund.

30.3.24

Matarboð hjá frændfólki

Fór á fætur um hálfátta í gærmorgun. Mágur minn var kominn á fætur og lokaður af í stofunni með hundunum. Seinna um morguninn skrapp hann með þá í heimsókn til frænku sinnar á Stóruvöllum (þau eru bræðrabörn). Helga systir fór ekki með því hún hafði einsett sér að gera herbergi Bríetar fært fyrir ryksugu og skúringar. Ég skrapp í rúmlega hálftíma göngu um hálfellefu. Ingvi kom til baka um hálftvö. Næstum þremur tímum seinna sameinuðumst við öll í bílinn hann pabba sem keyrði okkur í Löngumýrina til Jónu og Reynis. Helga fór strax að aðstoða við matargerðina. Við pabbi settumst í stofusófann og létum fara vel um okkur. Hundarnir voru ekkert sérlega spenntir fyrir þessari heimsókn og var Vargur frekar vælinn. Það var þó góður plús að hægt var að hleypa þeim út á aflokaðan pall inn á milli. Matur var á borð borinn um átta og ég leyfði mér að smakka á lambalærinu og það tvisvar sinnum. Afþakkaði hvítvín og kaffi en smakkaði á girnilegum eftirréttinum þó þannig að ég tæki sem minnst af súkkulaðinu sem var í botninum en vel af þeytta rjómanum, bláberjunum og jarðaberjunum. Kvöddum gestgjafana upp úr klukkan níu og pabbi keyrði okkur til baka. Ég fékk mér tvö hylki af meltingarensímum og slapp alveg við að fá í magann. 

29.3.24

Á Hellu

Var vöknuð stuttu fyrir sjö í gærmorgun og komin á fætur skömmu síðar. Mágur minn skrapp með út með hundana en aðeins annar þeirra pissaði. Um tíu skruppum við í gönguferð og fórum hálfan Öskjuhlíðarhring. Ugla pissaði loksins í þeirri ferð. Vargur pissaði nokkrum sinnum, m.a. yfir pissið hennar Uglu. Hann fór svo í veiðiham þegar hann varð var við kanínur. Eftir göngutúrinn sótti ég esperantodótið og bíllykilinn inn, kvaddi mág minn og hundana og dreif mig vestur í bæ. Stoppaði hjá esperanto vinkonu minni í um tvo tíma. Stoppaði heima í rúman klukkutíma áður en ég lagði af stað austur. Oddur hjálpaði mér að ferma bílinn. Ég var búin að gera boð á undan mér og stoppaði í Fossheiðinni í klukkustund. Gott að hvíla hendina. Þetta var fyrsta heimsóknin þangað á árinu og ég var leyst út með poka af bókum. Þ.e. fékk að velja mér úr kiljusafni sem Ásdís var að láta frá sér. Tók ekki allan bunkan en 16 bækur samt. Var komin á Hellu um fimm. Systir mín, mágur og hundarnir voru í Landeyjunum en komu fljótlega. Þau ætla að gista hér í tvær nætur. Ég verð kannski þrjár eða fjórar. 

28.3.24

Margt í gangi

Varð vör við það þegar mágur minn fór með hundana út að pissa og sækja bílinn úr hleðslu um sex leytið í gærmorgun. Ég fór þó ekki á fætur fyrr en á áttunda tímanum. Mágur minn hafði lagt sig aftur en kom fram þegar hann varð var við umgang. Ég átti keaskyr með kaffi og vanillu handa honum í ísskápnum og svo hellti ég upp á kaffi hér heima í fyrsta sinn í rúma fimm mánuði ef ekki hálft ár. Kaffið var eingöngu ætlað mági mínum. Oddur kom fram upp úr klukkan átta. Fljótlega eftir það kvaddi Ingvi en skyldi ferfætlingana eftir í pössun hjá okkur. Vargur var ekki sáttur við að vera skilinn eftir en róaðist þó eftir ákveðinn tíma. Um níu leytið vöktum við Davíð Stein til að taka við hundapössuninni á meðan Oddur skutlaðist með mig í sjúkraþjálfun. Ég var mætt upp á 7C tíu mínútum fyrir tímann en sjúkraþjálfinn setti með beinustu leið í bjúgdæluna. Var í henni í hátt í tuttugu mínútur og svo tæpar fimm mínútur í öðru tæki áður en ég settist niður með sjúkraþjálfanum. Mælingarnar komu þokkalega vel út. Hún vill samt sjá mig aftur í næstu viku. Kom heim um hálfellefu. Davíð Steinn hafði lagt sig í stofusófanum en dreif sig í sturtu og skrapp svo aðeins með Oddi í pissuferð með hundana. Svo var bíleigandinn rokinn í burtu til að hjálpa frænku sinni með skólaverkefni. Ég skildi Odd eftir einan með hundana um hálfeitt leytið og dreif mig í sund. Synti 400m þar af 200m á bakinu. Hitti á kalda potts vinkonu mína í fyrstu tveimur ferðunum af fjórum en þá var hún búin með sína rútínu. Kom við í Fiskbúð Fúsa eftir sundið. Klukkutíma eftir að ég kom heim aftur ákvað ég að drífa mig í smá göngutúr. Þá var mágur minn akkúrat að koma til baka. Hann ákvað að drífa sig með mér og hreyfa hundana í leiðinni. Göngutúrinn vatt aðeins upp á sig og taldi amk um 5000 skref. Komum til baka rétt fyrir sex og stuttu síðar bauð ég mági mínum upp á soðna ýsu og spínat. 

27.3.24

Eitt og og annað

Var komin á fætur stuttu áður en N1 sonurinn fór af stað í sína vinnu. Um hálftíu var ég komin í Laugardalslaug. Synti 400 metra á tuttugu mínútum. Kalda potts vinkona mín kom rétt áður en ég var búin að synda og við hittumst í kalda pottinum í okkar fyrstu ferð. Alls fórum við fimm sinnum þrjár mínútur í kalda pottinn. Kom heim um tólf leytið. Um hálftvö skrapp ég í 3,5km göngu sem tók mig þrjú korter. Stoppaði heima í um klukkustund eftir gönguna áður en ég skrapp í heimsókn í blokkaríbúð í Eskihlíðinni. Þar býr yngsta mágkona mömmu heitinnar. Þá góðu konu hitti ég reglulega í sundi en þetta var fyrsta heimsóknin til hennar síðan hún flutti í Eskihlíðina stuttu fyrir Covid-tíma. Þegar ég kom heim aftur horfði ég á nokkra þætti og svo landsleikinn. Mágur minn og ferfætlingarnir Vargur og Ugla komu á ellefta tímanum og hreiðruðu um sig í stofunni eftir að Ingvi var búinn að taka dótið inn úr bílnum, fá Odd með sér (og hundunum) til að setja bílinn í hleðslu, labba til baka með hundana og gefa þeim að borða.

26.3.24

Heimsókn í S15

N1 sonurinn var nýlega farinn í vinnuna þegar ég fór á fætur í gærmorgun upp úr klukkan sjö. Um níu leytið tók ég sunddótið með mér út í bíl en leiðin lá fyrst í smá innlit á vinnustaðinn minn. Þar beið mín stærðarinnar páskaegg frá starfsmannafélaginu. Í kaffistofunni var boðið m.a. upp á vínber, osta, ávexti og melónu. Stoppaði aðeins fram yfir kaffitímann og spjallaði við vinnufélagana áður en ég dreif mig yfir í Laugardalslaugina. Þar var ég búin að synda 200m þegar ég hitti einn frænda minn og konu hans. Spjallaði smá stund við þau áður en ég synti 300m í viðbót. Síðustu 50m synti ég skriðsund. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum, báðar í okkar fyrstu ferð. Fórum fjórar ferðir saman í kalda. Kom heim upp úr klukkan tólf. Tveimur tímum seinna skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóð. 

25.3.24

Dymbilvika

Fór á fætur um sjö leytið. Upp úr klukkan hálftíu var ég mætt í sundið á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Við fórum fjórum sinnum saman í þann kalda, einu sinni í gufu og einu sinni í sjópottinn þar sem við hittum eina systur hennar og yngstu mágkonu mömmu. Þær ferðir sem vinkonan fór í heitasta pottinn fór ég í nuddpottin og þann næst heitasta. Svo tók ég auka ferð í gufuna. Var komin heim um hálftólf leytið og fór ekkert aftur út. 

24.3.24

Pálmasunnudagur

Vaknaði um hálftvö leytið í fyrrinótt og varð andavaka eitthvað fram eftir nóttu. Veit ekki hvenær ég sofnaði loksins en klukkan var nýorðin átta þegar ég vaknaði í gærmorgun. Var komin í sund upp úr klukkan hálfníu. Rútínan tók tæpan einn og hálfan tíma. Kom heim um tíu leytið og var svo mætt til esperanto vinkonu minnar um ellefu. Okkar rútína tók líka um einn og hálfan tíma. Um miðjan dag skrapp ég í tæplega 4km göngum um Öskjuhlíð. Bræðurnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim úr þeirri 50 mínútna göngu. 

23.3.24

Upptalningar

Ætlaði mér að vera í fyrra fallinu í sundið í gærmorgun en ég var ekki farin af stað um tíu þegar önnur úr kortadeildinni hringdi í mig. Hún var aðallega að láta mig vita að ég ætti páskaegg frá starfmannafélaginu. Spjölluðum í amk korter og svo leið góð stund áður en ég dreif mig loksins af stað í sundið. Tók með mér sjampó og höfuðhandklæði. Synti 500 metra, þar af helminginn á bakinu. Fór 2x3 mínútur í kalda, gerði æfingar í nuddpottinum, gufunni og sjópottinum. Kom heim um hálftvö leytið. Seinni partinn skrapp ég svo í hálftíma göngu.

22.3.24

Föstudagur

Það verður að viðurkennast að ég verð stundum dagavillt þessi misserin. Og þegar ég sá að það var kaffi í boði í afgreiðslurýminu í Laugardalslaug í gærmorgun velti ég því fyrir mér hvort það væri kominn föstudagur. Ég hugsaði líka um hvort ég ætti að falla í freistni því kaffimálin voru svo pen. En ég hvarf þó fljótt frá þeirri hugmynd. Er alls ekki búin að ákveða að ég sé alveg hætt að drekka kaffi (og hvítvín). Ákvörðunin er frekar sú að ég er í pásu og hvenær sú pása verður yfirstaðin hef ég ekki alveg ákveðið. Annars synti ég 500m í gær og gerði æfingar í 42°C pottinum, gufunni og sjópottinum. Var í sundi milli tíu og hálftólf. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. Um hálftvö skrapp ég í rúmlega 2km göngutúr. Það var hressandi, smá rigning og ekkert svo mikil ferð á logninu.

21.3.24

Sund, bókasafn og göngutúr

Heyrði í N1 syninum fara út úr húsi um sjö. Ég fór á fætur skömmu síðar. Klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Svipuð rútína og daginn áður nema ég byrjaði á að skella mér í kalda og fór ekki á braut fyrr en eftir 2x3mínútur í kalda og nokkrar mínútur í  nuddpottinum. Eftir 500m skellti ég mér þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu í tíu mínútur, kalda sturtu og sjópottinn í aðrar tíu mínútur og tók svo eina dýfu í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Kom við í bókasafninu og skilaði skammtímalánsbókunum. Tók þrjár bækur með mér heim þrátt fyrir að vera með þrjár heima. Ein af þeim sem kom með mér heim var ljóðabók sem fékk nýlega Tómasar Guðmundssonar verðlaunin; Örverpi eftir Birnu Stefánsdóttur. Las hana strax í gær. Um fimm leytið skrapp ég í stuttan göngutúr.

20.3.24

Áfram gakk

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Tveimur tímum síðar skutlaðist Oddur með mig upp í Fossvog þar sem ég átti þriðja tímann hjá sjúkraþjálfa klukkan hálftíu. Lærði fleiri æfingatrix, mælingar voru betri en í síðustu viku en sjúkraþjálfinn mælti ekki með að ég færi að vinna fyrr en eftir páska. Finn það svo sem alveg sjálf að ég er ekki alveg tilbúinn þótt allt stefni í rétta átt. Fékk nýjan tíma á miðvikudaginn í næstu viku. Á leiðinni heim komum við við í Öskjuhlíðinni til að jafna loftþrýstinginn á dekkjunum. Um hálfeitt leytið dreif ég mig svo í sund. Synti 500m, fór 2x3 mínútur í kalda, eina ferð í nuddpott, gufu og sjópott. Í vatninu og gufunni ganga æfingarnar mun betur, bjúgurinn hverfur og stirðleikinn minnkar. Finn og veit að ég er að styrkjast en þarf enn um sinn að finna þessa línu milli þess að komast að þolmörkum og aðeins lengra en fara ekki yfir strikið. Það verður sjálfsagt svoleiðis næstu vikurnar. Best að halda áfram dag í senn, ekki að hugsa um það sem liðið er og vera bara í núinu.

19.3.24

Snjór

Fór í sund um tíu í gærmorgun. Hitti einn frænda minn og konu hans þegar ég var á leiðinni í kalda pottinn eftir 400m sund. Spjallaði aðeins við þau. Hitti svo frænda minn aftur í sjópottinum þegar ég var búin að fara tvær ferðir í kalda, eina í nudd pottinn og eina í gufuna. Var komin heim um tólf. Einhverra hluta vegna varð svo ekkert af göngutúr í gær en ég prjónaði smávegis. 

18.3.24

Enn lífsmark í nýjasta gosinu

Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Var komin á fætur um hálfátta. Rétt fyrir tíu var ég komin í sund, alveg á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Þegar við vorum í okkar þriðju ferð í kalda mætti ein systir hennar og miðjunafna mín á svæðið. Hittum hana í sjópottinum þegar við vorum búnar að fara í gufu. Þær tvær og ein til sungu afmælissönginn fyrir mig. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fórum við í steina pottinn í smá stund. Svo kvaddi systirin en við Hrafnhildur fórum fimmtu ferðina í þann kalda og aðra ferð í gufuna. Hún kvaddi svo aðeins á undan mér. Ég var komin heim um tólf. Hringdi í pabba um hálftvö. Helga systir hringdi í mig um þrjú leytið og skömmu síðar skrapp ég í smá göngutúr. Um sex leytið eldaði ég mér einfaldan bleikjurétt. Annars vorum við Oddur að horfa á alls konar þætti. Davíð Steinn kom heim úr vinnu rétt fyrir átta. Hann á frívakt í dag og á morgun og næstu helgi.

17.3.24

Afmælisdagurinn sjálfur

Það eru 20.454 dagar síðan ég fæddist eða 56 ár. En aðeins um gærdaginn. Var komin snemma á fætur eða upp úr klukkan sex. Vafraði um á netinu, prjónaði smá og hitti á N1 soninn áður en hann fór í vinnuna. Var mætt í sund um hálfníu leytið. Synti 400m, fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nuddpottinn, einu sinni í sjópottinn og endaði í gufunni. Var komin heim aftur um tíu. Klukkutíma síðar skrapp ég til esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni til klukkan að verða tvö því fljótlega eftir að við vorum búnar að lesa tilbúna tungumálið kom dóttir hennar í heimsókn með dætur sínar tvær. Ég var að hitta yngri stelpuna í fyrsta sinn. Hún var frekar hissa að sjá mig en ég fékk samt bros áður en ég fór. Hinar þrjár mæðgurnar sungu fyrir mig afmælissönginn degi fyrirfram, sú yngsta af þeim varð 4 ára í endaðan október. Og svo fór að gjósa enn og aftur á Sundhnjúkagýga svæðinu í gærkvöldi. 

16.3.24

Afmælishelgi

Var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu og glas af sítrónuvatni settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um sjö og dreif sig skömmu síðar í vinnuna. Eftir netvafrið og smá blogg slökkti ég á tölvunni og færði mig yfir í stólinn. Tók fram prjónana og prjónaði sennilega í uþb 500 lykkjur. Þá var loksins komið að fyrstu æfingalotu dagsins. Það er reyndar alveg ágætis æfing að prjóna. Klukkan var að verða ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Synti 500 metra, þar af um 150m á bakinu. Fór aðeins tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í sjópottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í 42°C pottinn. Gerði æfingar í gufunni og heitu pottunum. Þvoði mér um hárið eftir sundið og kom svo við með bílinn á smurstöð á leiðinni heim. Hann var síðast smurður í janúarlok í fyrra. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim. Var að horfa á alls konar þætti með Oddi en tók fram prjónana öðru hvoru. 

15.3.24

Morgunhæna/fiskur

Rumskaði um fimm leytið í gærmorgun en tókst að sofna aftur eftir að hafa tappað af blöðrunni. Var komin á fætur upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að vafra um á netinu. Tók svo fram prjónana í stutta stund áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Um ellefu var ég mætt í sund. Synti 400m fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í gufu og endaði í smá stund í sjópottinum. Gerði æfingar bæði í nudd pottinum og í gufunni. Þegar höndin er búin að mýkjast upp get ég komið þumlinum aðeins lengra en að rótum löngutangar svo þetta er allt í rétta átt. Bjúgur og bólgur eru smá vandamál, bæði fyrst á morgnana og eins þegar fer að líða á daginn. Það kemur reyndar alltaf far eftir úlnliðshlífina sem ég nota aðeins þegar ég er á ferðinni utandyra (nema að sjálfsögðu í sundinu). Kom heim um hálfeitt og skömmu síðar kom Oddur fram. Rúmum klukkutíma síðar fórum við mæðgin vestur í bæ, á Fiskislóð. Keyptum þvott á bílinn áður en við fórum í Krónuna að versla. Oddur sá um að setja í pokana og bera þá fyrir mig. Ég gekk svo sjálf frá vörunum þegar heim var komið.

14.3.24

Sund og göngutúr

Í fyrrinótt svaf ég í einum dúr í rúma átta tíma, eiginlega tæpa níu. Var sofnuð fyrir ellefu á þriðjudagskvöldið og vissi næst af mér klukkan hálfátta í gærmorgun. Sú hægri er alltaf stirð og bólgin fyrst á morgnana. Byrjaði á netvafri og tölvustund fyrstu þrjú korterin eftir að ég var komin á fætur. Prjónaði svo tvær umferðir, meira en hundrað lykkjur, áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Var eitthvað að gæla við það að skreppa aðeins í sjóinn og bjó mér því til hafragraut um hálfellefu. Skipti svo um skoðun og var komin í Laugardalinn um eitt. Synti 400m á tuttugu mínútum og var í minni annarri ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti óvænt á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, sátum góða stund á stólum og sóluðum okkur og fórum auk þess eina ferð í sjópottinn. Ég fór ekki með henni í heitasta pottinn en fór í staðinn í nuddpottinn, 42°C pottinn og gufuna. Gerði æfingar bæði í heita pottinum og í gufunni. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur þegar ég fór upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim. Um sex leytið skrapp ég svo í smá göngutúr og var langt komin með hringinn sem ég fór þegar ég hitti á hjón sem ég þekki skammt frá húsi blindra félagsins. Þau voru að koma af fundi þaðan. Spjölluðum í amk tíu mínútur og sjálfvirka kerfið í símanum tók saman gönguferðina þar en skráði ekki þann stutta spöl sem eftir var heim. En skrefin skráðust engu að síður og þau fóru yfir 5000 eftir gærdaginn. 

13.3.24

Sjúkraþjálfun og sund

Aftur var ég vöknuð einum of snemma og komin á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann fór í sína vinnu. Oddur kom fram um hálfníu. Hann skutlaði mér upp í Fossvog og fór svo að sinna erindum á meðan ég hitti sjúkraþjálfan um hálftíu. Þurfti ekkert að borga þar sem ég er komin á núllið þennan mánuðinn. Sumar mælingar stóðu í stað og það þótt ég væri búin að vera að gera mínar æfingar í viku. Ég var svolítið bólgin og var sett aftur í bjúgdæluna. Lærði nýjar æfingar, mælingarnar voru betri í lok tímans og ég fékk nýjan tíma í næstu viku. Fór beinustu leið heim eftir tímann og hvíldi mig í hátt í tvo tíma. Um hálftvö leytið lagði ég af stað í sund. Þarf enn að nota vinstri til að setja bílinn í gang. Í sundi synti ég 400m, fór 3x 2-3 mínútur í kalda, 2x í sjópottinn, einu sinni í nuddpottinn og einu sinni í gufuna. Rútínan tók yfir klukkustund og ég var komin heim aftur fyrir klukkan fjögur. Er annars byrjuð að lesa hina skammtímaláns bókina; Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson.

12.3.24

Sundferð og tveir göngutúrar

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsjö leytið. Var búin að gera eina umferð af æfingum þegar ég fór í sund á ellefta tímanum. Synti 300m fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í sjópottinn og gerði aðra lotu af æfingum í gufunni. Kom heim um tólf. Kláraði bókina sem ég skrifaði um í gær og fór í stutta göngu um hálftvö, rétt um kílómetra. Um fimm leytið fór ég í aðeins lengri göngu sem var þó ekki nema 2,2km.

11.3.24

Prófaði bílinn alein og sjálf

Um eitt leytið á föstudaginn var skrapp ég á bílnum í heimsókn til esperanto vinkonu minnar. Þurfti að nota vinstri til að gangsetja bílinn en að öðru leyti gekk allt vel. Við vinkonurnar fengum okkur te og eftir smá spjall ákváðum við að fara í stuttan göngutúr áður en við kíktum í esperanto bækurnar. Heimsóknin varði því í rúma tvo tíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni.

Á laugardaginn hafði ég hugsað mér að skreppa aftur í sund en ekkert varð af því. Í staðinn fór ég í fjörutíu mínútna göngutúr fyrir hádegi en var svo að lesa, horfa á bikarúrslitaleiki og þætti eftir hádegi og fram á kvöld. Í gærmorgun var ég búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína um tíu. Var eitthvað að spá í að mæta aðeins fyrr og synda smá en hvarf svo frá þeirri hugmynd. Aftur þurfti ég að gangsetja bílinn með vinstri. Var mætt í í Laugardalinn rétt fyrir tíu. Hitti sjósunds vinkonu mína í sturtunum á leiðinni út. Hún fór beint að synda en ég í þann kalda. Kalda potts vinkona mín var búin með tvær ferðir. Saman náðum við tveimur ferðum en ég fór ekki með henni í heitasta pottinn. Eftir aðra ferðina mína í kalda pottinn fór ég í sjópottinn þar sem ég hitti yngstu mágkonu mömmu. Synti ekkert í gær en eftir þriðju ferðina í kalda fór ég í gufu áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið.

Tvær af fimm bókum af safninu eru með fjórtán daga skilafresti. Önnur af þeim er Þögli fuglinn eftir Mohlin & Nyström. Nokkuð yfir 500 blaðsíður. Er langt komin með lesturinn á henni enda mjög spennandi og aldrei þessu vant er ég aðeins að lesa eina bók í einu. 

8.3.24

Aftur í sund í gær

Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Á níunda tímanum var hringt í mig frá 7C og mér tilkynnt að sjúkraþjálfunartíminn félli niður vegna veikinda. Ég er skráð í tíma nk þriðjudag og þá reikna ég með að fara í amk einn tíma í viðbót. Upp úr klukkan hálfníu bankaði ég á herbergisdyrnar hjá Oddi og sagði honum að skutlið á LHS félli niður. Hann kom svo fram upp úr hádeginu. Um hálffjögur leytið skutlaðist hann með mér á bókasafnið. Skilaði öllum sjö bókunum og þurfti svo að endurnýja skírteinið áður en ég tók mér fimm bækur í staðinn. Næst lá leiðin í Laugardalinn þar sem sonurinn skildi mig eftir um hálffimm. Var búin að synda 300m (mjög rólega), fara tvisvar sinnum í kalda, einu sinni í 42°C og var í sjópottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Saman náðum við einni ferð í kalda og smá stund í gufunni áður en ég kvaddi. Oddur var kominn aftur að sækja mig þegar ég kom út upp úr klukkan hálfsex. 

6.3.24

Kaldi potturinn í Laugardalslaug heimsóttur í dag

Var vöknuð um fimm leytið í morgun enda var ég sofnuð fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Fór á fætur upp úr klukkan sex. N1 sonurinn fór í vinnu um sjö leytið. Hinn sonurinn kom á fætur um átta og hann skutlaði mér upp á LHS í Fossvogi þar sem ég átti tíma í röntgen á G3 fyrir klukkan níu og viðtalstíma hjá lækni korter yfir níu. Myndirnar komu þokkalega vel út. Fékk samt mánaða framlengingu á veikindavottorði en ég má byrja að vinna innan þess tíma ef ég treysti mér til. Oddur beið í bílnum út á plani þessi þrjú korter sem ég var í fyrrgreindum erindum. Hann skutlaði mér á vinnustaðinn minn og skildi mig eftir þar því ég ætlaði að stoppa eitthvað og var þar að auki með sunddótið meðferðis. Um ellefu leytið labbaði ég yfir í Laugardalslaug. Synti 200 metra bringusund, mjög rólega, fór tvisvar sinnum mínútu í 7°C kalda pottinn, einu sinni nokkrar mínútur í gufuna og nokkrar mínútur í sjópottinn. Var komin upp úr og út úr skiptiklefanum rúmlega tólf. Þá hringdi ég í Odd sem sótti mig skömmu síðar.  

5.3.24

Bjúgsuguvél

Einhvern veginn leið gærdagurinn án þess að ég færi út í labbigöngutúr. Var komin í rúmið um tíu leytið og sofnaði fljótlega. Vaknaði þar af leiðandi alltof snemma en tókst að kúra til klukkan að ganga sjö. Fór í sturtu og var búin að vera á fótum í hátt í tvo tíma þegar Oddur Smári kom fram. Um hálfníu leytið skutlaði hann mér á LHS í Fossvogi þar sem ég fór í minn allra fyrsta sjúkraþjálfunartíma á 7C milli 8:50 og 9:25. M.a. setti ég löskuðu, stirðu og bólgnu hendina í svo kallaða bjúgsuguvél. Sjúkraþjálfarinn bókaði mig svo í tvo tíma í biðbót en eftir þriðja tímann, sem verður í næstu viku, verður metið hvort ég þurfi fleiri tíma. Oddur beið eftir mér í gjaldfrjálsustæði. Skruppum á AO við Sprengisand og í Krónuna í Skeifunni áður en við fórum heim. Fyrirmælin frá sjúkraþjálfaranum voru þau að hvíla hendina í tvo tíma. Bjó mér til hafragraut í hádeginu og skrapp svo í hálftíma göngutúr um tvö leytið. 

4.3.24

Mánudagur

Er alveg hætt að nota spelkuna enda var hún farin að meiða mig. Sef alveg róleg þótt úlnliðurinn sé "nakinn" en ég er alltaf stirð og bólgin þegar ég vakna á morgnana. Það var svo sem líka þegar ég var með spelkuna. Annars tókst mér að fitja upp á það sem kannski verður að sjali og prjóna örfáar umferðir í gær. Fór í góða göngutúra bæði í gær og á laugardaginn. Er meðvitað farin að nota þá hægri mun meira. Get td tannburstað mig með henni en skipti fljótlega yfir í að nota þá vinstri. Þumall á ólaskaðri hendi á að komast að rótum litlafingurs. Ég kemst að rótum löngutangar þeas ef ég er ekki of bólgin og stirð. Það verður fróðlegt að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið og þá er ég einnig spennt að vita hvað kemur út úr röntgenmyndatökunni á miðvikudagsmorguninn.

2.3.24

Klipping

Fór ekki í göngutúr gærdagsins fyrr en um þrjú. Þá kom ég við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í klippingu hjá Nonna. Í fiskbúðinni keypti ég harðfisk, bæði óbarna ýsu og lúðu og 600gr af ýsuflökum. Var svo komin til Nonna í Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon tuttugu mínútum á undan áætlun. Komst að tíu mínútum síðar og bað fyrst um hárþvott. Svo urðum við Nonni sammála um að taka amk 8-10cm af hárinu. Það er samt hægt að taka það upp í snúð. Viðurkenni vel að það var freistandi að láta snoða mig til að létta mér aðeins lífið svona hálf handónýt. En á endanum varð sú hugsun ofan á að það að setja teygju í hárið er ágætis þjálfun. Ég á líka frekar að vera dugleg að nota hendina heldur en að hlífa henni of mikið. Festi næsta klippitíma fyrsta föstudaginn í október og hringdi svo í Odd og bað hann um að sækja mig. 

1.3.24

Nýr mánuður

Í göngutúr gærdagsins kom ég við í apótekinu í Suðurveri og fjárfesti í úlnliðshlíf og kæli/hita geli/sokk. Var með spelkuna á göngunni en tók hana af mér um leið og ég kom heim aftur. Tók tvær æfingalotur fyrir hádegi með rúmlega tveggja tíma millibili. Stuttu fyrir klukkan tvö skutlaði Oddur mér vestur í bæ í minn fyrsta esperantohitting á þessu ári. Lásum tvær og hálfa blaðsíðu, spjölluðum, drukkum te og hún sýndi mér nokkrar myndir af barnabörnunum. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég hringdi aftur í Odd til að sækja mig. Það kom svo í ljós í gærkvöldi að ég er ekki alveg orðin fær um að prjóna strax. Rétt tókst að fitja upp á nokkrum lykkjum en það var enn snúnara að reyna að prjóna. Í staðinn setti ég á mig kælisokkinn utan um úlnliðinn eftir að hafa haft gelpokana í frysti. Og svo var ég dugleg að nudda örið inn á milli. 

29.2.24

Hlaupársdagur

Er ekki búin að taka fram prjónana og fitja upp á einhverju (sennilega enn einni tuskunni til að byrja með) en ég var dugleg að nudda örið í gær. Eftir göngutúr gærdagsins tók ég af mér spelkuna. Setti hana ekki upp aftur fyrr en ég var á leið í háttinn. Þegar til kom reif ég spelkuna aftur af. Líklega er best að fara að fjárfesta í einhverju betra til að vinna á bólgunni þar sem spelkan er farin að pirra mig og meiða. Spelkan er líka einungis til að styðja við og hlífa úlnliðnum inn á milli. Er enn meira meðvituð um að fara að nota hendina meira og sinnti léttari pappírsvinnunni með þeirri hægri á salerninu í morgun, í fyrsta skipti eftir fallið. Tókst líka að setja upp hárið í teygju áður en ég fór í sturtu í morgun. Það er pínu freistandi að láta klippa mig stutt næst þegar ég fer í klippingu en á móti kemur þá er það ágætis æfing að hemja hárið með teygju. Þurfti þrjár tilraunir áður en hárið var komið upp fyrir háls. 

28.2.24

Smá námskeið

Oddur Smári kom á fætur um hálftíu í morgun að minni ósk. Þremur korterum síðar skutlaði hann mér upp í Fossvog. Átti að mæta á 7C. Fann bara A, B og E uppi á sjöundu hæð en ég var samt komin á réttan stað. Um hálfellefu átti að byrja fræðsla um úlnliðsbrot og æfingar til að ná sér. Það var beðið með að byrja í ca tíu mínútur áður en sjúkraþjálfinn vísaði okkur sex af sjö skráðum inn í "kennslustofu". Sjöundu manneskjunni var fylgt inn skömmu síðar. Öll vorum við með úlnliðsbrot, flest á hægri en tveir á vinstri. Þrjú af okkur höfðum verið toguð þar af ein þrítoguð. Hún og hin höfðu sloppið við aðgerð en við vorum tvö sem höfðum þurft að fara í aðgerð. Fengum að sjá tvær stærðir af plötum sem settar eru í úlnlið í aðgerðartilfellum. Ég komst að því að ég hefði alveg mátt taka fram prjónana fyrir nokkrum dögum. Prjónaskapur er góð iðjuþjálfun. Það var líka sagt að það tæki í kringum þrjá mánuði fyrir beinin að gróa en svo veltur það á þjálfuninni hversu fljótur maður nær upp sem mest af fyrri færni. Og ég þarf víst að vera dugleg að nudda örið. Sonurinn sótti mig rúmum klukkutíma síðar. Fékk mér skyr með krækiberjum og horfði á einn og hálfan þátt áður en ég fór út í 40 mínútna göngutúr. 

27.2.24

Alls konar áskoranir

Sum mörk eru ekki mjög skýr og þá er vandinn að feta milliveginn. Á fyrstu vikum úlnliðsbrotsins sem og eftir aðgerðina var markmiðið að nota þá hægri sem allra minnst. Alveg frá upphafi var samt tekið fram að gott væri að hreyfa fingurnar reglulega. Eftir að spelkan var sett á voru fyrirmælin um að taka hana af þrisvar til fjórum sinnum á dag og gera þjálfunaræfingar. Óhætt væri að fara að sársaukamörkum. Mér fannst þetta ganga mjög vel fyrstu dagana. En nú er spelkan stundum farin að meiða mig svo ég er farin að taka hana oftar af og í lengri tíma. Þrátt fyrir nuddsárin eftir spelkuna finnst mér ennþá öryggi í að hafa hana á. Passa mig þá betur. Mörkin milli þess að gera það sem þarf til að þjálfa upp færni og styrk en fara þó ekki yfir strikið, því þá er líklegt að verði bakslag, eru samt alls ekki ljós þótt ég geti yfirleitt miðað við sársaukamörk. 

24.2.24

Síðasta helgin í þessum mánuði

Sú hægri var frekar stirð og bólgin í gær. Tók engu að síður fjórar æfingalotur yfir daginn en hafði þær í léttari kantinum. Upp úr hádeginu skrapp ég í góðan göngutúr með viðkomu í apóteki í Suðurveri þar sem ég leysti út hinn skammtinn af lyfseðlinum sem sendur var í gáttina daginn sem aðgerðin var. Undanfarin kvöld hef ég tekið eina til tvær parkódín áður en ég fer að sofa og ég er ekki frá því að ég hvílist og sofi aðeins betur. Annars var ég að lesa og horfa á þætti í gær. 

23.2.24

Verslunar og bókasafnsferð í gær

Eldri systurdóttir mín varð 24 ára í gær. Hringdi í hana um hádegisbilið. Um eitt leytið kom Oddur fram tilbúinn í að skutlast með mér á safnið og í Krónuna. Skilaði öllum sex bókunum og tók sjö stykki í staðinn. Ein af þeim er um fimmtu systurina, Tiggy, 640 blaðsíður. Er að sjálfsögðu byrjuð að lesa hana. Beint af safninu fórum við í Krónuna við Fiskislóð þar sem ég verslaði fyrir tæpar tuttuguogfjögurþúsund krónur. Ekkert varð af neinum labbitúr í gær, spenningurinn yfir lesefninu varð yfirsterkari. 

22.2.24

Eymsli og bólgur

Var mjög bólgin og stirð í kringum hægri úlnlið og þumal í gær. Gat ekki beygt fingur eins mikið og ég var farin að geta. Þetta var svona langt fram eftir degi. Hugsanlega hef ég eitthvað ofgert mér. En ég tók samt fjórar æfingalotur yfir daginn. Ég tók líka bólgueyðandi. Labbaði líka í Fiskbúð Fúsa eftir harðfiski, ýsu og bleikju. Var nýlega komin til baka þegar Oddur kom fram og spurði hvort ég ætlaði að þvo á morgun. Hann var semsagt að panta þvottadag svo ég skellti sjálf í vél í gær, tók þvott frá Davíð Steini af snúrunni og hengdi sjálf upp þegar vélin var búin að gera sitt. 

21.2.24

Það snjóar

Það var smá áskorun að setja teygju í hárið til að taka það saman upp á höfðinu áður en ég fór í sturtu í gærmorgun. Frá fallinu hafði ég gert mér að góðu að þvo mér með þvottapoka. Sturtuferðin var minna mál heldur en ég hélt. Upp úr hádeginu rölti ég á Hárhornið og fékk hárþvott og fasta fléttu hjá samstarfskonu Lilju. Lilja var með tvö verkefni í gangi en ég komst strax í stólinn hjá samstarfskonunni. Næst skrapp ég í heimsókn til Lilju vinkonu og stoppaði hjá henni í góðan klukkutíma áður en ég rölti aftur heim. Bræðurnir höfðu skroppið saman til ömmu sinnar og þeir voru ekki komnir heim þegar ég fór í háttinn upp úr klukkan hálftíu. 

20.2.24

Hárþvottur, föst flétta og heimsókn

Ekkert varð úr bókasafnsferð í gær og bíður sú ferð betri tíma. Fór í einn hálftíma göngutúr og tók fjórar æfingalotur. Annars var ég bara aðhámhorfa á hina ýmsu þætti.

Spelkan er aðeins farin að meiða mig á köflum. Úlniður og þumall eru þó nokkuð bólgina á morgnana og þegar ég tek spelkuna af fyrir æfingar er ég nokkuð dofin á neðsta hlutanum á lófasvæðinu. Prófaði að taka spelkuna af þegar ég fór að sofa í gærkvöldi. Var sennilega eitthvað smeik við þann gjörning því ég svaf frekar órólega og þegar ég rumskaði um þrjú leytið setti ég spelkuna á mig aftur. Samt finnst mér allt vera í rétta átt, gerist bara á hraða snigilsins.

19.2.24

Bókasafnsferð á döfinni í dag

Var komin á fætur um átta leytið í gærmorgun. Settist fljótlega inn í stofu með fartölvuna í fanginu en var mjög meðvituð að vera ekki of lengi. Stuttu fyrir klukkan níu gerði ég fyrstu æfingalotuna af fjórum yfir daginn. Höndin var stirð og bólgin en lét þokkalega vel að stjórn. Um klukkutíma seinna skrapp ég í hálftíma göngutúr. Fór aftur í göngutúr um tvö leytið og var þá búin að taka tvær æfingalotur í viðbót. Þegar ég tók fjórðu og síðustu æfingalotu dagsins um fjögur leytið var höndin alls ekki eins bólgin og fyrr um daginn. Þumalfingur er "óþekkastur" og liðleikinn í úlnliðnum er langt því frá að vera upp á sitt besta. En engu að síður finnst mér þetta vera í rétta átt og er ákveðin í að vera þolinmóð og dugleg í senn. Í gærkvöldi kláraði ég svo að lesa síðustu bókina af safninu.

18.2.24

Allt í rétta átt

Í gær voru sex vikur frá því ég brotnaði. Vissi reyndar ekki fyrr en á sunnudagskvöldinu að ég væri brotin eftir að hafa farið í fyrstu röntgen myndatökuna G3 fyrir ofan bráðamóttökuna. Ef ekki hefði þurft að toga brotið til eða togunin virkað hefði ég losnað við gipsið á mánudaginn var. En ég ætla svo sem ekkert að vera að velta mér upp úr ef og hefði heldur vinna með það sem er.

Á föstudaginn fór ég í tvo göngutúra, annan um morguninn nákvæmlega 20 mínútna langan og hinn eftir hádegi sem varði í tæpan hálftíma. Samtals voru þetta um 3,5 km. Ég æfði úlnlið og fingur fjórum sinnum 15 skipti yfir daginn. Í gær tók ég líka 4 æfingalotur en fór í einn uþb 40 mínútna göngutúr sem var 3 km langur. Annars var ég að horfa á boltann, þætti eða lesa. N1 sonurinn hringdi um hádegið og bað mig um að senda Odd með verkja og bólgulyf til sín í vinnuna. Lánaði Oddi bílinn bæði í þessa sendiferð og svo áfram í heimsókn til pabba hans og fjölskyldu.  

16.2.24

Þrjár vikur frá aðgerð

Sleppti göngutúrnum í gær. Tók þrjár æfingalotur yfir daginn og þrammaði upp og niður stigana í kringum 15 sinnum. Setti handklæði, tuskur, brækur og þvottapoka í þvottavélina og gat svo hengt upp alveg sjálf. Í gær var liðinn hálfur mánuður síðan Oddur fór með mér á bókasafnið. Er að lesa síðustu bókina af sex; Dularmögn eftir Dean Koontz. Búin með 226 bls. af tæplega 600. Er einnig búin að lesa jólabækurnar svo aldrei þessu vant er ég aðeins að lesa þessa einu bók en ekki þrjár til fjórar. 

15.2.24

Febrúar uþb hálfnaður

Í gær var bæði öskudagur og dagur elskenda. Nágrannakonan í kjallaranum kom fram með þá tillögu að kalla daginn öskutínus og tileinka þeim sem sjá um að hirða fyrir okkur sorpið. Mér fannst það ágætis hugmynd. Æskuvinkona mín átti afmæli og Víkingur Heiðar hélt upp á fertugsafmælið sitt með sannkallaðri tónlistaveislu þegar hann spilaði Goldberg-tilbrigðin í Hörpu í beinni útsendingu á RÚV í gærkvöldi. Annars var ég þokkalega dugleg í öllum æfingum, fjórar æfingalotur, þrammaði stigana allt í allt rúmlega tuttugu sinnum og fór þar að auki í hálftímagöngutúr. 

14.2.24

Mið vika

Ég er aðeins byrjuð að pikka með hægri og í gær prófaði ég að nota tölvumúsina í fyrsta sinn síðan 6. janúar sl. Tók þrjár æfingalotur yfir daginn, sumar upp í 15 skipti, þrammaði stigana nokkrum sinnum og fór út í stuttan göngutúr í gær. Labbaði 1,2 km hring á tæpum 18 mínútum svo ekki hef ég farið mjög hratt yfir. Þarf að yfirstíga þessa hræðslu við að detta, halda mér í formi og þjálfa upp færni í að nota hægri hendina. Verð þó að vera skynsöm. Það eru rétt að verða liðnar þrjár vikur frá aðgerðinni og ég held alls ekki að ég sé alveg gróin. Þetta er allt spurning um gera nóg en ofgera sér samt ekki. Láta þó reyna á mörkin í einhverjum tilvikum. 

13.2.24

Smá leiðangur í gær

Klukkan var langt gengin í átta þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Tók fyrstu æfingalotuna af þremur um hálfníu. Milli níu og tíu komst ég að því að N1 sonurinn var lasinn heima. Hann kom aðeins fram um það leyti sem hann tilkynnti veikindi sín á heilsuveru. Um hálfellefu fór ég með óhreinan þvott af mér í stórum hagkaupspoka niður í þvottahús. Var að miða við að þvottavélin yrði búin um eitt leytið. Um ellefu gerði ég úlnliðs- axla- og fingraæfingarnar aftur. Oddur kom fram skömmu síðar eingöngu til að skreppa á salernið. Ég átti við hann orð sem varð til þess að hann kom aftur fram um hálfeitt. Hann hjálpaði mér að henga upp í þvottahúsinu og svo keyrði hann mig á Hárhornið og beið eftir mér út í bíl á meðan ég fékk hárþvott og fasta fléttu. Komst strax að hjá Lilju og það var ekki liðinn hálftími þegar ég kom aftur út í bíl. Næst lá leiðin í Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti harðfisk, bleikjuflök og 500 gr af ýsu. Áður en við fórum heim aftur komum við við í Bónus í Skeifunni en þar er hægt að fá áburðinn 5KIND. Komum heim um hálfþrjú og klukkutíma síðar tók ég þriðju og síðustu æfingalotu dagsins. Þori ekki að byrja of skart en veit þó að ég verð að vera samviskusöm og dugleg til að ná upp fyrri færni. Þetta er líka spurning um gróandann, byrja að þjálfa en ofgera sér ekki fyrsta kastið.

12.2.24

Æfingar

Nóttina eftir að ég fékk spelkuna svaf ég mjög vel og í heila átta tíma. Var vöknuð rétt fyrir sjö og komin á fætur hálftíma síðar. Þetta var laugardagur og dagurinn sem ég byrjaði að æfa úlnlið og fingur. Bæklingurinn sýnir átta mismunandi æfingar sem mælt er með að gera 3-4 sinnum á dag. 7 af æfingunum á að endurtaka 10-15 sinnum en þá áttundu 2-3 og halda í 5-10 sekúndur. Ég ákvað að byrjar rólega fyrstu dagana og bæði í gær og fyrradag gerði ég þessar 7 þrisvar sinnum 10 skipti. Tvær æfingalotur fyrir hádegi og eina um miðjan dag. Ég má ekki lyfta neinu þungu fyrsta kastið en er það er samt mælt með að nota höndina við daglegar athafnir á sem eðlilegastan hátt. Sumar athafnir eru þó flóknari á meðan ég þarf að vera sem mest í spelkunni. Svo þrammaði ég stigana upp og niður nokkrum sinnum. En annars var ég að lesa eða horfa á þætti og fótbolta. 

10.2.24

Í spelku

Svaf mjög órólega í fyrrinótt. Var bæði spennt og kvíðin fyrir endurkomunni á G3 í Fossvogi. Fór á fætur upp úr klukkan sjö. Oddur kom fram um átta leytið. Hann skutlaði mér á staðinn stuttu fyrir níu og ákvað að leggja bílnum og bíða þar eftir mér. Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir að verða kölluð inn. Á móti mér tók hjúkrunarfræðingurinn Linda sem reyndist mjög tengd þremur fyrrum vinnufélögum sem eru öll komin á áttræðisaldurinn, tveir bræður (annar maðurinn hennar) og kona hins (svilkona). Linda tók af mér umbúðirnar sem voru settar á eftir aðgerðina, skoðaði og hreinsaði sárið. Það þurfti að klippa einhverja sauma en svo setti hún nokkra litla plástra yfir áður en hún útbjó spelku með frönskum rennilás og afhenti mér bækling með leiðbeiningum um úlnliðs og fingræaæfingar. Hún svaraði öllum mínum spurningum en í heildina tók þessi heimsókn ekki nema rúman hálftíma. Á eftir skruppum við Oddur í Hagkaup í Skeifunni en þar fæ ég samskonar frækex og í Heilsuhúsinu. Um kvöldið eldað Davíð Steinn lax handa mér. Hvorugur bræðrana vildi borða af þeim rétti en kokkurinn smakkaði samt aðeins til þess að kanna árangur eldamennskunnar. Ég á þá bara nóg í 2-3 skammta í viðbót sem ég get bjargað mér sjálf um að fá mér af.

8.2.24

Eldgos enn á ný

Aftur svaf ég af mér gosbyrjun við Grindavík. Rumskaði að vísu um þrjú í nótt og eftir að hafa skroppið á salernið greip ég í bók og las til klukkan fjögur. Var örugglega sofnuð aftur um hálffimm. Heyrði þó í N1 syninum fara í vinnu um sjö en þá snéri ég mér á hina hliðina og vissi næst af mér fyrir rétt rúmri klukkustund. Núna ætla ég að horfa á aukafréttatímann sem var klukkan níu og búa mig undir þann sem verður í hádeginu. Pabba dreymdi, fyrir nokkru, sömu rolluna skíta á nokkrum stöðum á þessu svæði. Hann taldi ekki hversu oft en það var oftar en þrisvar sinnum svo það er líklega von á fleiri svona atburðum á þessu svæði. 

6.2.24

Lestrarhestur

 er ég búin að lesa tvær af sex bókunum af safninu, langt komin með þá þriðju og byrjuð á fjórðu bókinni. Það er ekki liðin vika síðan ég sótti þessar bækur á safnið með góðri aðstoð Odds. Svo er komið bókamerki við fyrsta kaflann í síðustu jólabókinni (Arnaldur). Gærdagurinn var annars tekinn frekar snemma. Fór ekkert út en labbaði stigana nokkrum sinnum. Strákarnir voru báðir heima allan daginn. Þeir stefna að því að fara fyrir mig í fiskbúðina í dag. 

4.2.24

Kuldakafli

Enn er ég að passa upp á að nota eingöngu vinstri hendina en þó liðka öxl, olnboga og fingur á hægri. Þarf enn að taka verkjalyf áður en ég fer í háttinn en sleppi þeim annars. Hef ekki farið út aftur en setti í þvottavél í gær, sem Oddur sá um að hengja upp úr, og labbaði upp og niður stigana nokkrum sinnum. Annars var ég að lesa eða horfa á fótbolta og þætti.

2.2.24

Nýr mánuður

Janúar hefur kvatt og stysti mánuður ársins, sem þó er einum degi lengri þetta árið, er farinn að rúlla af stað. Í dag er vika síðan aðgerðin var gerð. Í gær fór ég út í fyrsta sinn eftir þá aðgerð. Fékk Odd til að skutla mér á Hárhornið upp úr hádeginu. Urðum samt fyrst að ræsa Davíð Stein út til að ýta bílnum út úr stæðinu. Oddur beið út í bíl á meðan ég fékk hárþvott og fasta fléttu. Síðan skruppum við á bókasafnið. Öllum sex bókunum var skilað og jafn margar teknar í staðinn. Ein af þeim er fjórða bókin um sjö systur, um perlusysturina Cece. Áður en við fórum heim skrapp ég í Söstrene Grene og keypti handsápur. 

31.1.24

Inniveður

Er ennþá að passa upp á hægri höndina og pikka bara með vinstri. Fimmtidagsmorguninn 25. sl. fékk ég tvær hringingar. Báðar tengdust aðgerðinni sem ég var að bíða eftir að verða kölluð í. Rétt fyrir átta morguninn eftir skutlaði Oddur mér í Fossvoginn. Tekið var á móti mér á A5. Skipti um fatnað, fékk verja lyf, var spurð út úr og svo sagt að pissa milli hálfníu og níu. Fór á salernið korter fyrir níu og þegar ég kom fram aftur var rúmið "mitt" farið en það beið eftir mér manneskja sem klæddi mig í slopp og fylgdi mér svo á skurðstofuna. Hún tók svo sloppinn og skildi mig eftir í umsjón alls konar aðgerðatendra aðila. Ég var látin leggjast með hendurnar út frá líkamanum, spurð meira, æðaleggur settur í vinsra handarbak, þrepin útskýrð, fékk súrefni, deyfi og svefnlyf. Næst man ég eftir mér uppi á vöknun á 6. hæð rúmum klukkutíma síðar. Þá var ég komin í mónitor. Var spurð hvort ég væri verkjuð. Ég fann fyrir þreytu fyrst og fremst en skömmu síðar fann ég fyrir verk og fékk lyf í gegnum brunninn. Þarna var ég í um þrjár klukkustundir. Um eitt leytið var búið að taka mig úr mónitornum og það kom maður sem "keyrði" mig aftur niður á A5. Þar tók hjúkrunarfræðingurinn Edda aftur á móti mér, vökvi settur upp og ég spurð hvort ég vildi samloku eða jógurt. Meðan ég var að hugsa mig um þáði ég orkudrykk. Um hálfþrjú hafði ég loksins valið en sem betur fer var úrvalið búið og ég fékk ristað brauð með osti í staðinn og einnig vatn. Man ekki alveg hvort annar læknirinn sem gerði aðgerðina talaði við mig áður eða eftir að ég var loksins búin að pissa. En ég man amk að klukkan var að verða hálffjögur þegar ég fór loksins á klósettið. Losnaði við brunninn um fjögur og klæddi mig hjálparlaust. Var samt amk 10-15 mínútur að því ég fór mjög rólega að. Davíð Steinn sótti mig upp úr klukkan hálffimm og við komum við í apóteki á leiðinni heim. Hægri hendin var öll dofin og ég var með fyrirmæli um að ég ætti að taka inn verkjalyf um átta leytið. Hringdi í pabba og sat svo fyrir framan imbann langt fram eftir kvöldi.

23.1.24

Smá bakslag

Það kom aðeins á mig við fréttirnar eftir fimmtu röntgenmyndatökuna í gær. Gliðnun það mikil að nú er ég að bíða eftir að verða kölluð inn í aðgerð þar sem plata verður sett inn í úlnliðinn til að styðja við og hjálpa þessu að gróa rétt og betur saman. Sá sonurinn sem sótti mig eftir þessar fréttir fékk svo að skutla mér á Hárhornið til Lilju sem þvoði mér um hárið og fléttaði fasta fléttu. Strákarnir okkar náðu svo sínum bestu úrslitum á EM í handbolta er þeir unnu Króata í fyrsta sinn á stórmóti, 35:30.

21.1.24

Bara örstutt

Það er kominn sunnudagur, tvær vikur síðan ég datt (16. dagurinn). Þótt strákunum okkar hafi ekki gengið vel á EM er búin að vera mikil handboltaveisla og uþb vika eftir af þeirri veislu. Hef einnig horft á alls konar þætti sem og lesið. Það kom í ljós að ein bókin af safninu, þriðja bókin um Fimmtudagsmorðklúbbinn, er með 14 daga skilafresti. Ég er hálfnuð með hana en einnig að lesa tvær aðrar bækur. Aðra af þeim bókum á ég sjálf, nýjasta bókin eftir Lilju Sigurðardóttur. Tíminn líður nokkuð hratt. Á tíma á G3 upp úr hádegi á morgun og á þá vonandi bara eftir að þurfa hafa gipsið í 3 vikur í viðbót. 

18.1.24

Fer líklega ekki út í dag

Undanfarna viku hef ég skroppið út daglega í 10-30 mínútna göngutúra. Síðast liðinn föstudag skráðust reyndar tveir "sprettir" á mig þegar ég skrapp á Hárhornið og fékk hárþvott og fasta flettu hjá Lilju sem er systir Ingva mágs míns. Fór út fyrir hádegi í gær, 2,5 km á 30 mínútum. Var að spá í að fara aftur eftir hádegi en EM náði mér alveg áður. Synir mínir skruppu saman í Sorpu, Krónuna við Fiskislóð og Fiskbúð Fúsa á mínum bíl milli þrjú og hálffimm. Ég eldaði sjálf ofan í mig í gær, ýsu með rósakáli og gulrót. 

16.1.24

Áfram gakk, varlega þó

Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Oddur skutlaði mér að bráðamóttökunni í Fossvogi. Ég fór upp á 3G og skráði mig inn. Fór fyrst í myndatökuröðina. Ferlið gekk ágætlega, smá bið en ekki svo löng. Staðfest var að seinni togunin hafði gert sitt gagn en þarf þó að koma aftur eftir viku. Gipsið var aðeins lagað og ég fékk vottorð um að ég væri óvinnufær. Oddur sótti mig um tíu leytið og hafði bókasafnspokann með sér. Skiluðum fjórum bókum af fimm og ég kom með fimm með mér heim.

14.1.24

Sögulegur dagur

Punktar:

* Eldgos hófst rétt norðan Grindavík um átta í morgun
* Í hádeginu opnaðist sprunga innan varnagarðs
* Hraun hefur náð amk þremur húsum

* Friðrik X tók við krúnunni í Danmörku

* Ísland marði eins marks sigur á Svartfjallalandi á EM í Þýskalandi
* Í gærkvöldi gerðu Færeyingar jafntefti við Norðmenn á sínu fyrsta stórmóti


10.1.24

Starfsafmæli

 í dag eru 24 ár síðan ég hóf störf hjá RB. Smá fúlt að geta ekki verið í vinnu en þýðir lítið að fást um það.

8.1.24

Brotin

Davíð Steinn kom heim úr vinnu um átta í gærkvöldi. Hann gerði smá test á mér varðandi löskuðu höndina og sagði strax að best að láta líta á þetta. Hann skutlaði mér á læknavaktina. Eftir klukkutíma bið komst ég að. Læknirinn var fljótur að ákveða að ég þyrfti að fara á bráðamóttökuna til að láta taka röntgen. Hringdi því í ákveðna soninn sem kom fljótlega og skutlaði mér. Var komin þangað um hálftíu. Þegar ég kom heim aftur um eitt leytið var ég búin að fara í 3 myndatökur, fá verkjalyf, tvær deyfingar, tvær toganir og tvö gips. Seinni togunin og gipsið var gert til þess að ég sleppi mögulega við frekari inngrip. Það mun koma í ljós við endurkomu eftir viku.

7.1.24

Úr leik í bili

Eftir pomms á bossan og hægri hendina, nánast úr kyrrstöðu, á planinu hjá pabba um miðjan dag í gær er ég handlama.  Mjög líklega bara verulega slæm tognun en ég nota amk ekki hægri höndina mjög mikið næstu daga. Pabbi skutlaði mér heim eftir hádegi í dag og Oddur fór með honum austur til að sækja bílinn minn. 

6.1.24

Rífandi stemming í sjónum seinni partinn í gær

Vaknaði um sex, í gærmorgun, eftir samfelldan uþb átta tíma svefn. Morgunrútínan var hefðbundin og eins og oftast áður var ég mætt í vinnu um hálfátta. Korteri síðar var ég byrjuð á innleggjunum. Fyrirliðinn og fyrrum fyrirliði voru í kortaframleiðslu til hádegis en komu svo í innleggin eftir hádegi. Um hálfþrjú fór ég í að bunka upp og hreinsa gullið og sú sem er að sjá um hraðbankamálin kom inn í það verkefni svo við náðum að klára á klukkutíma. Stimplaði mig út um klukkan korter í fjögur og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Var fimm mínútur í 0,2°C sjónum og tæpan hálftíma í heita pottinum áður en ég fór upp út og heim. Hringdi í Odd þegar ég var komin í stæði í götunni. Hann var þá þegar búinn að fara og skipta inniskónum sem ég gaf honum í jólagjöf í tveimur númerum stærra svo hann passaði betur í þá. Pabbi og Davíð Steinn pössuðu báðir í sína skó. Áður en ég fór inn úr bílnum hringdi ég í Lilju vinkonu og spjallaði við hana í dágóða stund.

5.1.24

Er strax að koma helgi?

Tvisvar sinnum þurfti ég á salernið í fyrrinótt. Fyrst um hálftvö og svo aftur tveimur tímum seinna. Svefninn lét eitthvað standa á sér á tíma bili milli ferða og fyrsta limran varð til á þessu bili. Það var samt einhver góð ró yfir mér enda hafði ég ekki neinar áhyggjur af þessu tíma bili. Var komin á fætur um sex og mætt í vinnu um hálfátta. Byrjuð á innleggjum fyrir klukkan átta. Öll kortadeildin vann að innleggjum í gær. Fyrirliðin skrapp þó aðeins niður í kortadeild til að hlaða inn nýjustu tölum og fyrrum fyrirliði undirbjó framleiðsluskjöl. En nú er aðeins framleitt tvisvar í viku, á miðvikudögum og föstudögum. Nóg var að gera í innleggjum alveg til klukkan að ganga þrjú. Þá tóku við önnur verkefni næsta klukkutímann eða svo. Var komin í sund rétt rúmlega fjögur og það hittist svo vel á að kalda potts vinkona mín hafði mætti skömmu áður svo við hittumst í kalda pottinum í okkar fyrstu ferð. Ég fór beinustu leið í þann kalda á meðan hún hafði náð að skreppa aðeins í heitasta pottinn fyrst. Í næstu ferð í kalda pottinn mætti ein systir hennar. Hittum hana í 43°C pottinum. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fórum við í gufu og svo í sjópottinn og svo loka ferðina í þann kalda. Eftir það skildu leiðir. Þær systur fóru í steina pottinn en ég á braut sjö og synti 400m á tæpum tuttugu mínútum. Var komin heim um sex. 

4.1.24

Ákveðni

Vaknaði aftur rétt upp úr klukkan sex. Hafði tíma í netvafr áður en ég dreif mig í vinnuna. Var byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Nóg var að gera alveg til klukkan að verða fjögur. Rúmum klukkutíma áður en ég stimplaði mig út, svona um hálfþrjú leytið, gerði ég smá tilraun. Fékk mér hálfan banana. Um það leyti sem ég var að fara úr vinnu byrjaði að ólga í maganum á mér. Ákvað því að það væri skynsamlegast að fara beinustu leið heim. Heima framlengdi ég skilafresti á einni bók sem annars hefði þurft að skila í vikulokin. Er reyndar búin að lesa þá bók en ég taldi rétt að bíða með bókasafnsferð þar til ég væri amk búin að lesa fleiri bækur af safninu svo ég myndi nú ekki falla í freistni. Póstaði líka á húsfélagsgrúppu okkar húsfélags og lét vita af stöðunni á sjóðnum og hvernig hann skiptist. Var komin í rúmið um hálftíu og kláraði að lesa eina af þremur ólesnum bókum af safninu á um klukkutíma.

3.1.24

Þrír dagar að verða liðnir af 2024

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun, alveg hissa á að komin væri morgun. Mætti í vinnuna um hálfátta. Þessa vikuna er ég bara í innleggjum og ég var byrjuð fyrir klukkan átta. Það var nóg að gera og entist innlagnar verkefnið alveg til klukkan hálffjögur. Þá fórum við tvær í að byrja að hreinsa gullið á meðan stóra peningavélin var enn að japla á innleggjunum. Við náðum að klára að hreinsa yfir hundraðogfjörutíu bunka og vera á undan. Það tók okkur klukkutíma. Ég fór beinustu leið í sund og hitti kalda potts vinkonu mína í minni fyrstu ferð í kalda pottinum þegar hún var að fara í sína fjórðu ferð. Tókum þrjár ferðir áður en við fórum í gufu. Enduðum svo í sjópottinum. Ég synti semsag ekki neitt í gær. Var komin heim rétt upp úr klukkan sex. 

2.1.24

?

Gærdagurinn, taka tvö: Var komin á fætur um átta. Bjó mér til hafragraut á tíunda tímanum. Mætti í Nauthólsvík sjö mínútum fyrir opnum. Var komin í sjóinn sjö mínútm yfir ellefu. Fór tvisvar í -0,5°C sjóinn og gufuna inn á milli. Dýfði mér svo aðeins í lónið áður en ég fór í heita pottinn. Dvaldi ekki lengi og laumaði mér í burtu og heim þegar fólk fór að streyma að fyrir alvöru. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Heima dundaði ég mér við ýmislegt fram eftir degi og fram á kvöld. Var komin í rúmið upp úr klukkan hálftíu.

1.1.24

Tek vel á móti nýju ári

Svaf næstum því átta tíma án þess að rumska neitt við að hlandblaðran vildi láta tæma sig. Hlandblaðran sá þá líka til þess að ég var ekkert að kúra lengi eftir að ég vaknaði. Klukkan var að verða átta og tími til að fara á fætur og huga að því að skreppa í sund. Það tók mig nú rúmlega klukkustund að koma mér af stað í sundið en ég var mætt í Laugardalslaug áður en klukkan sló hálftíu. Fór beinustu leið í kalda pottinn og þegar ég var að fara upp úr honum hitti ég konu sem ég kannast við. Hún var eiginlega á leiðinni upp úr en ákvað að staldra smá stund við til að spjalla. Fórum í næsta pott við hliðina á þeim kalda og 2x2 mínútur í kalda pottinn. Eftir aðra ferðina í 42°C pottinn kvaddi hún. Ég fór mína fjórðu ferð í kalda áður en ég fór á braut 7 og synti 500m, helminginn á bringunni og hinn helminginn á bakinu. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég í gufuna, þaðan í sjópottinn eftir kalda sturtu og svo uþb mínútu í kalda pottinn. Settist smá stund á stól úti áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Sjampóið mitt varð eftir heima en ég notaði sápuna  sem boðið er upp á í laugunum. Eftir sundið skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni. Fór aðallega þangað til þess að athuga hvort ég fyndi vikuna með völvuspánni. Ef hún kom út var blaðið amk ekki til í Hagkaup. Ákvað samt að versla mér grænmeti og smotterí fleira áður en ég fór heim. Klukkan var að verða eitt þegar ég kom heim. Hafði m.a. keypt mér einn pakka af brauði sem heitir Lífskorn og er úr korni og prófaði að fá mér eina sneið með síld sem ég keypti í Fiskbúð Fúsa sl. föstudag. Það virtist fara alveg ágætlega í magann og fylla hann það vel að ég varð ekkert svöng eða langaði að narta í neitt næstu klukkutímana. Dagurinn leið annars frekar hratt við alls konar dundur. Er samt ekkert farin að grípa í prjónana aftur og hef ekki snert þá í amk þrjár vikur eða lengur. Það hlýtur að koma að því að ég fari að velja mér næsta prjónaverkefni en ég er annars með nóg af lesefni sem ég þarf að gera skil líka. Ein bókin af safninu er með skilafrest til 4. janúar. Gæti reyndar framlengt þessum fresti til að forða mér frá því að sækja fleiri bækur heim í bili. Strákarnir fóru annars til pabba síns og fjölskyldu hans seinni part dags. Ég gufusauð mér sæta kartöflu, brokkolí, rauðkál og grænkál og setti laxabita kryddaða með sítrónupipar og cayenne pipar ofan á síðustu tíu mínúturnar. Þetta var skammtur fyrir tvo amk en þá á ég líka afgang. Stuttu áður en skaupið hófst var ég farin að finna fyrir þreytu. Ég tolldi þó fyrir framan skjáinn á meðan skaupið var en fór svo beinustu leið í háttinn. Las í ca hálftíma eða rétt á meðan mestu áramótaflugeldasprengjurnar voru. Held að ég hafi verið sofnuð um hálfeitt leytið.