31.12.24

Innlegg

Vaknaði alltof snemma í gærmorgun og ákvað að grípa aðeins í bók áður en ég fór á fætur. Las í tæpan hálftíma en um sex lagði ég frá mér bókina, klæddi mig, bjó um og gerði svo nokkrar æfingar með 2kg lóðum áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Davíð Steinn kom fram um sjö og var aðeins á undan mér út en hann var enn að sópa af bílnum sínum þegar ég kom út. Ég var mætt í vinnu rúmlega hálfátta. Lagði aldrei þessu vant norðan megin við vinnustaðinn. Nóg var að gera en við vorum heldur fleiri heldur en á föstudaginn. Innlagnar vinnu lauk um þrjú leytið. Ég stakk af um fjögur en þá var verið að fara yfir síðustu skjölin. Mætti í síðasta osteostrong tíma ársins korter yfir fjögur. Bætti mig á einu tæki. Ákvað svo að drífa mig aðeins í sund á eftir. Synti þó aðeins 200m áður en ég fór í kalda pottinn í 4 mínútur. Næst lá leiðin í gufuna og þar fann ég kalda potts vinkonu mína. Við fórum reyndar aðeins stutt saman í þann kalda að þessu sinni en áttu nokkrar mínútur saman bæði í gufu og sjópottinum. Var komin heim um sex. 

30.12.24

Ekki mikið eftir af árinu

Svaf til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Gerði æfingar með lóðum um leið og ég var búin að klæða mig. Vafraði um á netinu í dágóða stund og setti inn færslu áður en ég tók til sunddótið mitt, esperanto dótið, bókasafnsbækurnar og bókina sem ég ætlaði að skipta. Var byrjuð að synda uþb korter yfir níu, 500m á braut 8, síðustu 50 á skriði. Fór þrisvar sinnum þrjár mínútur í kalda, tuttugu mínútur í gufu og rúmar tíu í sjópottinn. Klukkan var nýorðin ellefu þegar ég mætti til esperanto vinkonu minnar. Hún bauð upp á graut og te á eftir sem við tókum með okkur á aðal esperanto staðinn. Lásum tvær og hálfa blaðsíðu. Kvaddi Inger stuttu fyrir klukkan eitt og lagði næst leið mína í Kringluna. Skilaði öllum fjórum bókunum á safnið og tók tvær bækur að láni. Rölti einn hring í Kringlunni áður en ég fór í Eymundsson og skipti út Hallgrími Helgasyni fyrir Yrsu Sigurðardóttur. Kom heim um tvö leytið og dundaði mér við ýmislegt fram eftir degi. Klukkan var að verða tíu þegar ég skreið upp í rúm. Las í rúman hálftíma. Er með bókamerki í nokkrum bókum m.a. Ferðalok eftir Arnald Indriðason. Sú bók er vel upp sett og grípandi lesning. 

29.12.24

Tíminn að flýta sér

Vaknaði alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur og búin að gera æfingar fyrir klukkan hálfsjö. Klukkan var samt að verða níu þegar ég dreif mig loksins í sundið. Synti 700m á brautum 7 og 8. Flestar ferðir á bakinu en líka skrið- og bringusund. Fór tvær ferðir í þann kalda og eina dýfu í lokin eftir að hafa farið í sjópott og gufu. Þvoði mér um hárið og var komin heim um ellefu. Þegar Davíð Steinn kom á fætur spurði ég hann um hans plön og þar sem hann var ekkert að plana neitt útstáelsi spurði ég hvort hann vildi elda úr úrbeinuðum kjúklingalærum sem ég keypti af dætrum besta vinar míns til styrktar körfuboltanum. Davíð Steinn tók vel í þessa hugmynd. Oddur kom fram skömmu síðar og við spurðum hann hvort hann vantaði eitthvað úr búðinni og eða hvort hann vildi koma með í verslunarleiðangur. Oddi vantaði ekki neitt. Við Davíð skruppum saman í Krónuna við Fiskislóð um miðjan dag. Fórum á hans bíl og rifjuðum upp þá tíma þegar hann var í æfingaakstri fyrir tæpum tveimur árum. Yfirleitt þegar ég fer að versla fer á afgreiðslukassa en Davíð Steinn notar sjálfsafgreiðsluna svo við fórum á svoleiðis bás. Hann kláraði sínar vörur af á undan og hjálpaði mér svo með að skanna mínar og notaði afsláttarkortið sitt áður en ég borgaði fyrir vörurnar. Hjálpuðumst svo að við að koma þeim í tvo poka sem ég var með meðferðis. Komum úr verslunarleiðangrinum um fjögur. Helga systir hringdi þegar ég var að stíga út úr bílnum fyrir framan hús. Greip einn af pokunum með inn en Davíð Steinn sá um að ganga frá vörunum þar sem við systur vorum að spjalla saman á meðan hún var að keyra heim úr vinnunni sinni, Krónunni á Akureyri. Davíð Steinn græjaði matinn um kvöldið. Lenti í smá veseni með rafmagnið því ein hellan er eitthvað að klikka. Hann var samt bara að nota tvær hellur af fjórum en varð að hætta við að nota þessa "klikkuðu" því rafmagninu sló ítrekað út. Maturinn kom á borð á níunda tímanum og var góður. 

28.12.24

Síðasta helgin á þessu ári

Vaknaði einhvern tímann á sjötta tímanum í gærmorgun. Var komin á fætur og búin að gera æfingar með lóðum áður en klukkan varð sex. Hafði svo ágætis tíma í netvafr og bloggskrif. Tók sjósundsdótið með í vinnuna og geymdi í skápnum sem ég hef afnot af. Var byrjuð að vinna innlegg fyrir klukkan átta. Vorum 10 sem kepptumst við að vinna niður "fjallið" sem var stærra en stór þriðjudagur. Rétt fyrir fjögur var ákveðið að hætta innlögnum, geyma rest framyfir helgi. Næsta klukkutímann vorum við að fara yfir dagskjölin á meðan þau sem voru á stóru vélunum voru að klára að renna innleggjunum í gegnum þær. Samtals unnum við rétt tæp átjánhundruð innlegg. Vinnudagurinn minn varði í tæpa tíu tíma og ég ákvað að fara bara beinustu leið heim þannig að ég hef farið mína síðustu ferð í sjóinn á þessu ári en stefnan er að fara á nýjársdagsmorgun klukkan ellefu, miðvikudaginn kemur. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni heim. Bríet og Bjarki komu heim að norðan á fimmtudagskvöldið. Ég var nýkomin heim þegar Jóna Mæja hringdi í mig. Áttum mjög gott spjall. 

27.12.24

Fössari

Svaf alveg ágætlega, hafði farið að sofa um miðnætti og var samt vöknuð um sjö leytið. Dreif mig fljótlega á fætur. Pabbi kom klæddur fram upp úr klukkan átta en hann var pottþétt búinn að koma fram fyrr um morguninn til að fá sér eitthvað og taka niður helstu tölur. Bræðurnir komu fram fyrir klukkan níu. Annar þeirra hafði ekkert sofið. Um svipað leyti klæddi pabbi sig í snjógallann, góða skó og setti upp hanska og fór út að blása snjó í burtu af stéttinni og fyrir framan skúrinn. Snjórinn var blautur enda hitastigið næstum þrjár gráður. Um hádegið fengum við pabbi okkur skyr en strákarnir fengu sér af jólagrautnum sem var í lítersdós undan grískri jógúrt. Kláruðu ekki svo ég tók restina með mér þegar við lögðum af stað í bæinn um eitt leytið.  Ekki þurfti að sópa eða skafa af bílunum því nánast allt var runnið af. Ég lagði af stað aðeins á undan en strákarnir tóku tvisvar fram úr mér, fyrst skammt frá Landvegamótum og svo aftur stuttu eftir að við komum upp Kambana. Þeir höfðu stoppað aðeins á bensínstöðinni vestan Ölfusár til að senda skilaboð. Þeir voru komnir heim fimm mínútum á undan mér og voru að byrja að ferja dót úr bílnum. Oddur hjálpaði mér með hluta af mínu dóti. Fljótlega fóru svo bræðurnir í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu hans en ég hafði það náðugt með prjónana, fótbolta- og þáttaáhorf. 

26.12.24

Annar í jólum

Rumskaði á svipuðum tíma og á aðfangadag. Fór á fætur um hálfátta. Pabbi var kominn fram en hafði verið á leiðinni aftur inn í rúm að leggja sig. Hann sat þó í góða stund áfram inn í eldhúsi og við fórum í smá kaplakeppni. Hann lagði sig svo aðeins milli níu og tíu. Um hálfeitt leytið setti ég upp kartöflur og útbjó jafning. Pabbi skar niður hangikjöt og afganginn af léttreykta lambinu og við ræstum tvíburana um eitt. Þegar fór að líða á daginn kom í ljós að það væri betra fyrir strákana að vera rólegir áfram á svæðinu. Pabbi átti bleikjuflök í frysti og lauk, rófu og sæta kartöflu. afhýddi og skar niður grænmetið um fimm leytið. Gufusauð rófuna, mýkti laukinn smá stund í potti en skellti honum svo á pönnuna með bleikjunni. Ég var mjög sátt með þennan kvöldmat og strákarnir kvörtuðu amk ekki og þetta nánast kláraðist. Annars er það helst að frétta að ég kláraði að lesa síðustu bókasafnsbókina. Þvílíkt ævintýri sem sögurnar um og kringum sjö systurnar eru og ég hlakka til að ná mér í bókina um Pa Salt og lesa. 

25.12.24

Hátíð í þorpi

Ég rumskaði um það leyti sem pabbi fór af stað í sundið skömmu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Sofnaði ekki aftur en kúrði upp í rúmi til klukkan að ganga átta. Pabbi kom heim um níu leytið, gekk frá sunddótinu og fór úr íþróttagallanum í önnur föt. Hann sleppti því alveg að leggja sig. Um hálftíu leytið tókum við fram lambahrygginn, krydduðum og settum á eldfastfat í stóran ofnpott inn í ofn á 100 gráðu hita. Þetta var látið malla fram eftir degi og vökvað stöku sinnum. Bræðurnir komu fram í kringum hádegið. Um hálffimm tók Davíð Steinn að sér að skera niður nokkrar kartöflur, og eina sæta, krydda og steikja. Ég bjó til sósu úr soðinu og pabbi lagði á borð. Ekki var sest að borðum fyrr en um hálfsjö þar sem sumir áttu eftir að fara í sturtu rétt fyrir sex. Okkur fannst hryggurinn heldur dökkur og undarlega bleikur inn í. Hann var samt alveg tilbúinn og mjög góður en þegar við grömsuðum eftir umbúðunum í plastruslinu og lásum á kom í ljós að þetta var léttreyktur lambahryggur og hefði líklega átt að meðhöndla allt öðru vísi en við gerðum. En hann var ætur og flestir sáttir. Pabbi og strákarnir hjálpuðust að við að ganga frá. Settumst inn í stofu en geymdum okkur að opna gjafirnar þar til við vorum búin að fá okkur graut um hálfníu leytið. Ég fékk fjórar bækur, þar af tvær frá Davíð Steini. Önnur af þeim er Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason. Veit að þetta er góð bók en hef bara lesið fyrstu bókina sem ég tók af safninu fyrir nokkrum misserum. Er að íhuga að skipta þessari bók út fyrir nýjustu Yrsu bókina. Hinum bókunum ætla ég að halda, segi frá þeim seinna. Er enn að lesa um týndu systurina, rúmlega hálfnuð og hef þá von um að klára hana fyrir áramótin og þá geta skilað henni á safnið án þess að framlengja frestinn. Nú er bara spurnin hvort strákarnir leggja í bæinn seinni partinn eða verða eina auka nótt. Það fer eftir veðri vindum og hvort það verði opnað yfir heiðina.

24.12.24

Aðfangadagur

Vaknaði um hálfsex leytið. Mætti í vinnu tveimur tímum síðar og var byrjuð að vinna innlegg korter fyrir átta. Vinnudagurinn varð akkúrat átta tíma langur. Þá fór ég heim, pakkaði niður, fór tvær ferðir með dótið út í bíl og kvaddi svo nágrannana á neðri hæðinni áður en ég lagði af stað austur. Bræðurnir höfðu farið af stað um tvö leytið og tóku með sér grautinn svo hann myndi nú örugglega ekki gleymast. Fór Hellisheiðina í stað Þrengsla, aldrei þessu vant. Var komin í Löngumýrina milli fimm og hálfsex og stoppaði í rúman hálftíma. Næst lá leiðin í Fossheiðina til tvíburahálfforeldranna. Nokkrum mínútum á eftir mér mætti tvíburahálfsystir mín á svæðið. Þá var búið að leggja á borð fyrir fjóra og ég boðin með í skötuveislu. Ég þáði boðið og lét pabba vita því hann hafði sagt mér, þegar ég lét hann vita að ég væri lögð af stað úr bænum, að ef ég kæmi á Hellu fyrir átta myndi hann bjóða mér á Kanslarann í skötu þrátt fyrir að hann hafi farið þangað í hádeginu. Ég var reyndar komin á Hellu fyrir átta en alveg pakksödd og sæl eftir veisluna í Fossheiðinni. Strákarnir voru komnir um klukkustund á undan mér.

23.12.24

Þorláksmessa

Var vöknuð og komin á fætur milli sex og hálfsjö í gærmorgun. Klukkan var svo rétt að byrja að ganga tíu þegar ég fór á brautir 7-8 í Laugardalslauginni og synti 400m, þar af 100m skriðsund. Kaldi potturinn var því miður lokaður en ég fór í gufu og sjópottinn áður en ég fór upp úr og vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Var komin þangað um hálfellefu og stoppaði í uþb einn og hálfan tíma. Lásum eina bls. í Kon-Tíki eftir að hafa skiptst á jólakortum, fengið okkur graut, hrökkbrauð með síldarsallati, muffins úr möndlumjöli með lítið af sætuefni og te. Var komin heim upp úr klukkan tólf. Restin af deginu fór í alls konar dundur. M.a. þeytti ég rjóma og blandaði við grautinn sem ég bjó til á laugardaginn. Oddur Smári fékk að smakka hann til og ég setti í skál fyrir Davíð Stein. Megnið af grautnum skipti ég í tvær líters fötur undan grískri jógúrt. Auðvitað horfði ég líka á fótbolta. Nú er það bara vinnudagur framundan og svo þarf ég að koma aðeins við hér heima, klára að pakka og bruna svo austur með viðkomu á tveimur stöðum á Selfossi.

22.12.24

4160

Titillinn er talan á þessari færslu, fjögurþúsundeitthundraðastaogsextugasta færslan frá upphafi. Það eru bráðum liðin 22 ár frá því ég byrjaði á þessum vettvangi. Sum árin eru þó ansi rýr meðan önnur eru með færslur upp á hvern einasta dag. En aðeins að gærdeginum. Var vöknuð um sex leytið og þar sem það gekk ekkert að kúra sig niður aftur fór ég á fætur. Klukkan var samt orðin meira en hálfníu þegar ég fór loksins í sund. Synti 700m, aðallega á braut átta. Fór eina fimm mínútna ferð í þann kalda á eftir, 20 mínútur í gufuna og næstum annað eins í sjópottinn. Dýfði mér svo í þann kalda í ca 45sek. áður en ég fór upp úr til að þvo mér um hárið. Skrapp aðeins í Hagkaup og keypti mér frækex og vikuna með völvuspánni. Kom svo við í Álftamýrinni hjá móðurbróður mínum og fjölskyldu hans og færði þeim jólakortið. Þá var klukkan að verða ellefu. Það var tekið mjög vel tekið á móti mér og stoppaði ég við í tæpa klukkustund, var amk komin heim um tólf leytið. Var með það á bak við eyrað að gera mér ferð á Selfoss en í staðinn var ég að sýsla heima við í rólegheitum, bjó til graut úr grautargrjónum og mjólk og á eftir að þeyta rjóma til að bæta við. Held að synir mínir verði glaðir með þetta ef vel tekst til. Lánaði Oddi bílinn um miðjan dag í smá skreppu. Annars var ég að lesa, prjóna, horfa á fótbolta og þætti. Er búin með aðra að þremur bókum sem ég tók síðast af safninu; Grátvíðir eftir Fífu Larsen 

21.12.24

Vetrarsólstöður

Allur vinnudagurinn í gær fór í innlagnir og skjalayfirferð. Sennilega var þetta fyrsti virki föstudagurinn á árinu sem ekki var kortaframleiðsla. Grínuðumst með það í fyrradag að við ættum að telja stöðu plasta á vagni í vikulokin eins og hefð var fyrir en þar sem það var aðeins hreyfing á einni tegund sem við kláruðum alveg sl. miðvikudag var það alveg óþarfi. Munum sennilega telja næst þegar plastinu sem eftir er verður "mokað" út. Vinnudegi lauk um hálfþrjú. Ég var með sunddótið meðferðist en ákvað að byrja á því að reka nokkur erindi fyrst. Hringdi í pabba rétt áður en ég ók frá vinnustað. Hann var staddur á Selfossi að reka einhver erindi. Spjölluðum á meðan ég lagði leið mína í Skipholtið en kvaddi pabba rétt áður en ég keyrði framhjá Fiskbúð Fúsa. Þar virtist vera smá örtröð svo ég ákvað að byrja á því að fara í rúmfatalagerinn í Skeifunni fyrst. Þar fann ég allra síðustu jólagjafirnar. Gerði svo aðra atlögu að Fiskbúð Fúsa og ákvað að leggja bílnum milli Háteigsskóla og kirkju óháða safnaðarin og labba þaðan. Keypti slatta af harðfiski og uþb 400gr af nætursöltuðum gellum. Þegar ég kom í bílinn aftur ákvað ég að kalla þetta gott og skrópa í sundið og fór heim. Þetta var líklega mjög góð ákvörðun því fljótlega eftir að ég kom heim hófst ég handa við að skrifa á síðustu jólakortin og pakka inn jólagjöfunum. Var búin að þessu um sex leytið og slakaði á eftir það. Gellurnar mun ég hafa í matinn annað hvort í kvöld eða á morgun því ég átti chia-graut í ísskápnum sem var nóg í kvöldmatinn fyrir mig. 

20.12.24

Heimsókn no. 67

Það ætlar að rætast spá mín um að síðasta kort í kortadeild RB hafi verið framleitt fyrir jól. Reyndar gætu enn komið upp einhvers konar neyðar aðstæður þannig að grípa þurfi til framleiðslu en mér finnst það ólíklegt. Engu að síður verður kortavélin tilbúin í verkefni, ef upp koma, næstu sex vikurnar. Engar beiðnir voru um "nýja" framleiðslu í póstinum í gær og vinnudagurinn minn fór í að vinna innlegg og fara yfir skjöl. Vorum búin um þrjú. Átti pantaðan tíma í heimsókn í blóðbankann rétt fyrir fjögur. Lagði bílnum við Austurbæjarskóla og rölti þaðan og var mætt um hálffjögur. Átti jafnvel von á því að ég fengi ekki að gefa þar sem ég var kvefuð í síðustu viku. Sú sem kallaði mig inn var ung kona, íslensk í aðra ættina og frönsk í hina. Hún hefur verið búsett erlendis meiri hlutann af æfinni en er komin til hingað m.a. til að læra að tala íslensku. Hún fór vel yfir allar upplýsingar og tók m.a. eftir því að ég var á undan áætlun, þ.e. í þeirra skrám verða fjórir mánuðir frá síðust gjöf liðnir 26. n.k. Það munar samt aðeins um viku. Niðurstaðan varð samt sú að ég mætti gefa. Otaði að henni vinstri hendinni en hún fékk líka að þreyfa á þeirri hægri. Hélt sig samt við þá vinstri. Lenti í smá erfiðleikum með að hitta æðina en fékk hjálp og allt gekk að óskum svo ég lagði inn jólablóðgjöf í besta bankann í gær. Kom heim um hálffimm. Davíð Steinn var að pakka inn jólagjöfum og var að því fram eftir kvöldi. Annars kom rafvirki í gærmorgun og var til klukkan að ganga þrjú að draga nýtt í úr nýju töflunni í sameigninni upp í töfluna í íbúðinni minni. Hann var líka að endurnýja rofa. 

19.12.24

Sjóbusl í gær

Losaði svefn um fimm leytið í gærmorgun, en bara örstutt því svo hrökk ég upp við vekjarann um klukkustund síðar. Hafði samt ágætan tíma í alla morgunrútínu. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Upp úr klukkan átta vorum við fyrrum fyrirliði byrjaðar á framleiðsluverkefni dagsins, sennilega því allra síðasta þótt kortadeildinni verði ekki lokað fyrr en í byrjun febrúar. Fjórir jafnir skammtar af gjafakortum og náðum við að framleiða fyrstu 701 kortin fyrir kaffi. Tókum okkur tíma til að útbúa alls 12 kassa undir kortin, þrjá kassa fyrir hvern skammt. Eftir kaffi og fram að hádegi framleiddum við 2x701 kort. Ákváðum sem betur fer að bíða með að framleiða síðasta skammtinn þar til eftir hádegi því þegar við komum upp rúmlega hálftólf voru fjórir vinnufélagar úr D30 að syngja fyrra lagið af tveimur jólalögum. Vinnudegi lauk annars um þrjú leytið og þá fór ég beint í Nauthólsvík. Þar hitti ég eina úr hópnum sem ég var í og var mjög virkur í nokkur misseri fyrir nokkrum misserum. Kom heim um fimm leytið. 

18.12.24

Mið vika og stutt í helgi, jól og áramót

 Vaknaði stuttu fyrir sex í gærmorgun. Hafði að vísu rumskað um fjögur leytið og skroppið á salernið. Það tók mig smá tíma að kúra mig niður aftur en hafðist. Morgunrútínan var svipuð, aðeins færri teygjuæfingar í rúminu áður en ég fór á fætur. Nokkrar mínútur í æfingar með 2x2kg lóð og smá netvafr. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Nú biðu fjórar jafnstórar gjafakortaskrár eftir að verða hlaðnar inn á framleiðsluvélina þannig að ég byrjaði á því að afgreiða það verkefni. Mjög líklegt er að þetta verði síðustu kortin sem við framleiðum á eftir. Innlagnardagurinn var annars þokkalega stór og var ég til rúmlega hálfþrjú í þeim verkefnum og svo í yfirferðum skjala í þrjú korter þar á eftir. Var komin í sund rétt fyrir fjögur og byrjuð að synda á slaginu fjögur. Þá var kalda potts vinkona mín búin að synda 350m. Hún synti annað eins á meðan ég synti 300m, þar af 100m skriðsund. Fórum þrjár ferðir í þann kalda, vorum amk 20 mínútur í gufunni og voru í sjópottinum þegar ein systir hennar mætti á svæðið. Ég tók eina loka 30sek dýfu í þann kalda áður en ég fór upp úr. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn. Það hefur greinilega tekist að uppfæra kortaupplýsingar á lyklinum. Nú á ég bara eftir að virkja nýja kreditkortið sjálft með því að nota örgjörvann og slá inn pinnið. Er ekki að nota þetta kort svo mikið eiginlega ekki neitt nema fyrir AO-lykilinn og örfáar fastar greiðslur en það er þó alveg möguleiki á að ég virkji það fyrr en síðar, pinnið á því er það skemmtilegt og gott að það væri vel þess virði að fá að slá því inn amk einu sinni.

17.12.24

Tvær vikur eftir af árinu

Gærdagurinn var alveg ágætur. Hafði góðan tíma í alla morgunrútínu og fór þó út í fyrra fallinu til að sópa af bílnum. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Engar kortagerðarskrár voru til framleiðslu. Mjög líklegt er að við höfum framleitt síðustu debet og kreditkortin en við eigum von á að fá gjafakortaskrár í vikunni. Ég fór því beint í innlagnir. Vinnudegi lauk upp úr klukkan þrjú. Skrapp með sjö stk. jólakort á pósthúsið. Hitti einn úr safnaðarstjór Óháða í þeirri vegferð. Komst að í osteostrong tíma korter fyrir fjögur. Bætti mig á tveimur tækjum og var frekar hissa þar sem ég er búin að vera kvefuð. Hef þó ekki verið neitt lin. Á einn tíma eftir af hálfa árinu og mæti í hann milli jóla og nýárs, daginn fyrir gamlársdag. Var mætt í sund um hálffimm. Synti 400m, flesta á bakinu. Fór tvær ferðir í kalda pottinn, rúmt korter í gufu, tíu mínútur í sjópottinn og dýfði mér um hálfa mínútu í þann kalda á leiðinni upp úr. Þvoði mér um hárið og kom svo við í Krónunni í Skeifunni áður en ég fór heim. Var ekki komin heim fyrr en rétt fyrir sjö. 

16.12.24

Fátt að frétta

Það fór svo að ég hélt mig inni í gær líka. Fór á fætur um hálfátta og einhvernveginn brunaði sunnudagurinn í gegn án þess að ég væri að gera nokkuð merkilegt eða sem er í frásögur færandi. Strákarnir voru báðir heima við en fóru mun seinna á fætur. Manjú sonurinn kom fram heilum klukkutíma áður en leikur City og United hófst. Hann gafst upp nokkrum mínútum fyrir leikslok þegar Manjú var nýbúið að jafna og missti því af sigurmarkinu þeirra. Ég horfði bæði á hand- og fótbolta og hefði svo sem einnig getað fylgst með sundkeppni. Ánægð með að Þórir endaði síðasta leik sinn sem þjálfari norska kvennalands liðsins með því að sigra Dani í úrslitaleiknum á EM kvenna. 

15.12.24

Innipúki í gær

Vaknaði um sex leytið í gær. Skrapp fram á salernið en svo beinustu leið í rúmið aftur, að lesa. Kláraði eina af bókasafnsbókunum; Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur. Klukkan var því að verða níu þegar ég klæddi mig loksins. Næsta einn og hálfa tímann var ég að vafra á netinu. Skrifaði 7 jólakort sem öll fara í póst eftir helgi. Á enn þrjú frímerki en nota kannski ekki nema eitt eða tvö af þeim. Á þó eftir að skrifa 3-4 jólakort í viðbót. Annars var ég að prjóna, horfa á þætti og fótbolta. Bræðurnir komu á fætur upp úr hádeginu. Davíð Steinn pakkaði inn amk tveimur pökkum en svo fóru þeir bræður í heimsókn til pabba síns og fjölkyldu hans. Ég sauð mér ýsu í gær sem ég hafði keypt í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim úr vinnu á föstudaginn. Með ýsunni hafði ég súrkál og svartar ólífur. 

14.12.24

Nefrennsli og eymsli í hálsi en enginn hiti

Í gærmorgun fór ég ekki með neitt sund- eða sjótengt með mér í vinnuna. Framleiddum heil sex kort og tókum niður upplýsingar um 14 kort sem ekki var hægt að framleiða vegna hráefnisskorts. Var komin í innleggin fyrir klukkan níu. Vinnudegi lauk upp úr klukkan þrjú. Hringdi í esperanto vinkonu mína þegar ég var á leiðinni heim. Mæltum okkur mót við Dómkirkjuna um sjö leytið. Ég tók því rólega fram að því. Fékk Odd til að skutla mér á staðinn. Um hálfátta hófust tónleikar með Sycameore Tree, mjög ljúfir og skemmtilegir. Inger bauð okkur Helgu, einni úr Viðeyjargenginu, og var þetta jólagjöfin hennar til okkar. Tónleikarnir vörðu í rétt rúma klukkustund sem var mjög fljót að líða. Hitti eina frænku mína og einn "Helling" til en þær voru á þessum sömu tónleikum. Hringdi í Odd og bað hann um að sækja mig. Hefði líklega labbað heim ef hálsinn hefði ekki verið að angra mig. Var komin heim um níu leytið. 

13.12.24

Strax kominn föstudagur aftur

Það var ánægjulegt að sjá að allar skrár skiluðu sér á vélina í gærmorgun. Getum reyndar ekki framleitt allar pantanir þar sem hráefnið er alveg á þrotum en það er önnur saga. Annars var ég aðallega í innlögnum í gær. Allt gekk vel og vorum við búin stuttu fyrir þrjú. Ég fór beint í sund og synti 600m. Kalda potts vinkonan kom þegar ég var að klára sundið og hún ákvað að geyma sitt sund þar til við værum búnar með pottadýfingarnar. Ég kom heim rétt upp úr klukkan fimm. 

12.12.24

Þriðja jólakortið fer af stað í dag, til Danmerkur

Samkvæmt kortagerðarpóstinum áttu að koma heil sjö kort til framleiðslu til viðbótar við það sem búið var að hlaða inn á mánudag og þriðjudag. Þetta skilaði sér hins vegar ekki yfir á vélina. Ef þetta hefur ekki skilað sér í dag verður málið kannað betur en við getum líklega ekki framleitt nema fjögur af þessum kortum því hráefnið er búið og það tekur því ekki að fá sent meira því það tekur tíma og að fá það hráefni og kortaframleiðsla er alveg að leggjast af. Framleiddum samt 155 kort í gærmorgun, þar af 150 gjafakort. Var komin í innleggin um níu leytið. Vinnudeginum lauk upp úr klukkan þrjú. Fór beint í Nauthólsvík og hoppaði um í öldunum í 1,5°C sjónum í um tíu mínútur. Var komin heim um fimm leytið. 

11.12.24

Verða síðustu kortin framleidd í dag?

Þrátt fyrir að fara ekki að sofa fyrr en á tólfta tímanum í fyrrakvöld var ég vöknuð upp úr klukkan fimm. Ekki dugði að fara fram, pissa og fá sér lýsi svo um hálfsex leytið var ég byrjuð á að gera alls konar teygjuæfingar upp í rúmi. Klæddi mig og bjó um korter fyrir sex og gerði þá nokkrar æfingar með 2kg lóðum. Var mætt í vinnu um hálfátta og samkvæmt kortagerðarpóstinum voru komnar nýjar skrár á vélina. Fór niður og hlóð inn 3 debetkortum og einu kreditkorti, það var allt og sumt. Annars fór dagurinn í innlagnir. Allt var búið um hálffjögur. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Var komin á braut 6 stuttu fyrir fjögur og synti 600m, þar af 150m skriðsund. Fór eina ferð í kalda og beið svo í sjópottinum eftir kalda potts vinkonu minni. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, tvær í þann heitasta, eina góða gufuferð og svo smástund í sjópottinn. Hún ætlaði að fara að synda um það leyti sem ég var á leið upp úr en þá mætti hún systur sinni, frestaði sundinu en skrapp eina ferð í þann kalda áður en hún fór aftur í sjópottinn. Hvort hún synti eftir að systir hennar fór frétti ég af í sundi með henni eftir vinnu á morgun. Var komin heim um hálfsex. Fór upp í rúm að lesa fyrir klukkan hálftíu og var líklega steinsofnuð rétt upp úr klukkan tíu. 

10.12.24

Þrjár vikur eftir af árinu

Rumskaði um fimm í gærmorgun. Skrapp fram á salerni, tæmdi "blaðrið" og gerði svo vel heppnaða tilraun til að kúra mig niður aftur. Vissi næst af mér þegar vekjarinn vakti mig. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Skv. kortapóstinum voru 1 debetkort og 150 gjafakort í pöntun svo ég fór fljótlega niður og hlóð þessum verkefnum inn. Annars var ég í innlögnum sem kláruðust ekki fyrr en klukkan var langt gengin í þrjú. Öllum verkefnum var þó lokið rétt fyrir klukkan hálffjögur. Var mætt í osteostrong tíma tíu mínútum fyrir fjögur og í sund og byrjuð að synda tæpum klukkutíma síðar. Synti ekki nema 300 metra en helminginn af þeirri vegalengd synti ég skriðsund. Var komin heim um sex leytið. Nágranninn á neðri hæðinni kom upp á áttunda tímanum til að gefa mér upp netfang rafvirkjans sem er að setja upp nýja rafmagnstöflu niðri í ganginum fyrir framan þvottahúsið. Ég sendi svo póst á viðkomandi til að biðja um að kíkja á töfluna inni hjá mér sem og laga útiljós og dyrabjöllur fyrir mína íbúð og risið. Aldrei þessu vant fór ég ekki upp í fyrr en rétt fyrir ellefu. Var að klára eitt jólabréf og glápa á imbann, bæði línulega dagskrá á RÚV sem og einn þátt. Las svo til klukkan að verða hálftólf.

9.12.24

Aðventukvöld í óháða í gær

Rumskaði um þrjú leytið í fyrrinótt og sofnaði ekki aftur fyrr en á fimmta tímanum. Klukkan var svo næstum orðin tíu þegar ég vaknaði aftur. Pabbi var búinn að vera á fótum síðan um sex leytið. Um ellefu leytið fór hann að huga að því að setja upp matinn, hrossa-bjúga frá "Villa pylsu" sem er einn af sundfélögum hans. Með þessu hafði hann kartöflur, rófum og hálfa sæta kartöflu, allt soðið saman í einum potti en bjúgað þó helmingi lengur en hitt. Buðum unga fólkinu að borða með okkur en þau þáðu það ekki svo pabbi sendi mig með afganginn í bæinn. Hann var mjög áfram um það að ég væri ekkert að drolla í sveitinni, skyldi drífa mig í bæinn ef veðrið skyldi verða verra. Ég hafði haft hug á því að fara í innsetningarmessu í Breiðabólsstað en hún var klukkan tvö. Um það leyti var ég komin heim. Ég hélt mig heima til klukkan langt gengin í átta en þá fór ég á bílnum í Óháðu kirkjuna, lagði ekki í að labba í rokinu og rigningunni. Það var aðventukvöld og ég hitti nokkra af fyrrum KÓSÍ félögum mínum og einnig fólk sem var með mér í stjórninni á sínum tíma og er enn í stjórn. Þetta var notalegasta stund. Á eftir var boðið upp á svartbaunaseyði, gos, vatn og smákökusmakk. Ég fékk mér aðeins vatnið, maginn hefði mótmælt flestu af hinu. Veit reyndar ekki með kaffið en ég er enn í pásu og bíð aðeins lengur með að aflétta þeirri pásu. 

8.12.24

Komin í bæinn aftur

Pabbi var búinn að vera á fótum í rúma tvo tíma þegar ég kom fram um hálfníu í gærmorgun. Fljótlega komu Bríet og Bjarki fram en þau voru á leiðinni í bæinn í jólagjafaleiðangur og voru farin um níu leytið. Morguninn leið frekar hratt. Við pabbi fengum okkur skyr í hádeginu, hann 500gr en ég 150gr. Um eitt leytið vorum við búin að "skvera" okkur upp og lögðum af stað á Keldur. Það var bjart, kalt og falleg fjallasýn. Pabbi taldi að við værum of snemma á ferðinni en það voru margir komnir á undan okkur. Hann keyrði bílinn inn fyrir hliðið svo það væri stutt að fara. Ætluðum samt að vera í bílnum og hlusta þaðan en skiptum um skoðun þegar útfararstjórinn kom og sagði að það væri alveg nóg pláss í kirkjunni. Fengum meira að segja sæti á öðrum bekk fyrir aftan ekkilinn, systur hans og næstelstu dóttlunnar og hennar maka. Elsta systirin var á fremsta bekk hinum meginn við ganginn og yngri systkynin fyrir innan, til hliðar við altarið því þau voru í hópnum sem báru kistuna eftir athöfnina. Prestur var frændi minn, sr. Kristján Arason, sem sá um athöfn ömmu sinnar föstudag fyrir verslunarmannahelgi. Organistinn var einnig frændi minn, Guðjón Halldór Óskarsson. Öðlingarnir sáu um sönginn en ég held að það hafi verið annar tengdasonurinn sem sá um einsöng í tveimur lögum fyrir og eftir minningar orð. Allar systurnar voru í upphlutum og sum af barnabörnunum eða mökum þeirra. Mörg af þessum nánustu voru líka klædd í fallegar prjónaflíkur prjónaðar af þeirri sem við vorum að fylgja. Athöfnin var virkilega falleg og það voru margir sem fylgdu. Ómögulegt var að telja alla bílana, helst væri að spyrja þær sem sáu um að afhenda sálmaskrárnar hversu margir bílar voru eða hversu margar sálmaskrár voru afhentar. Kosturinn við að vera í kirkjunni svona nálægt nánustu aðstandendum var að við vorum eiginlega fyrst á eftir þeim út og vorum með þeim fyrstu sem blessuðum yfir kistuna áður en við settumst upp í bíl. Þurftum því ekki að standa lengi úti í kuldanum. Vorum líka með þeim fyrstu sem mættum í erfidrykkjuna í íþróttahúsið á Hellu þar sem kvenfélagið Unnur sá um að hella upp á og bera á hlaðborð. Fékk mér vatnsglas, flatköku með hangiketi bakaða af systkynunum og smá bita af brauðtertu. Langaði í kleinu og pönnsu en lét það ekki eftir mér og sleppti líka marengstertunni, það hefði sett magan á hvolf. En ég gaf og fékk ófá knúsin og var glöð yfir hversu pabbi var rólegur því við vorum líklega hátt í tvo tíma eða amk einn og hálfan því klukkan var um hálfsex þegar við komum til baka í Hólavanginn.

7.12.24

Fylgi frænku minni í dag

Það er að verða mjög greinilegt að íslensk bankakorta framleiðsla er við það að líða undir lok. Í gær framleiddum við einungis átta kort, mestur tíminn fór í að telja kortategundirnar í vagninum. Það er aðeins ein óframleidd smá endurnýjun sem liggur fyrir, 10 stk, en þar sem aðeins eru til 7 plöst látum við daglegar pantanir ganga fyrir. Ef ekki koma neinar beiðnir í næstu viku munum við framleiða sjö af þessum tíu og láta viðkomandi bankastofnun vita hverjir verðar útundan. Kannski verður kveikt í síðasta sinn á framleiðsluvélinni í næstu viku en við erum þó með opið fyrir beiðnir út janúar ef eitthvað kemur uppá varðandi þær framleiðsluleiðir sem nú hafa og eru að taka við. Var komin í innleggs vinnu upp úr klukkan níu. Öllum verkefnum var lokið einhvern tímann á þriðja tímanum. Fór beint heim eftir vinnu. Það tók mig um klukkustund að pakka og taka mig til. Lagði svo af stað út í þunga umferðina þegar klukkan var að byrja að ganga fimm. Var komin austur til pabba milli hálfsex og sex. Þar voru fyrir systurdóttir mín og kærastinn hennar. Hún kom ekki fram úr herberginu og vissi greinilega ekki af mér. Bjarki heilsaði upp á mig einhvern tímann í gærkvöldi og spurði mig svo hvort ég vissi hvar brauðristin á heimilinu væri geymd. Hann hélt að Bríet vissi að ég væri komin og ég hélt að hann hefði minnst á mig við hana. Ég var ekkert að trufla unga fólkið en frænka mín var virkilega hissa þegar hún rakst á mig í morgun. Þau skötuhjúin voru frekar snemma á fótum miðað við að það er laugardagur en þau voru farin af stað í leiðangur til Reykjavíkur rúmlega níu.

6.12.24

Aftur kominn föstudagur

Í fyrrakvöld var ég sofnuð upp úr klukkan tíu. Rumskaði einhvern tímann á fjórða tímanum þá um nóttina, sennilega alltof margt að fara í gegnum kollinn á mér og svo var blaðran aðeins að þrýsta á mig. Fór þó ekki á pisseríið fyrr en eftir að hafa reynt að kúra mig niður og dormað í uþb klukkustund. Sofnaði loksins aftur einhvern tímann á fimmta tímanum. Vaknaði svo úthvíld á undan klukkunni upp úr klukkan sex. Fór í pilsi og jólapeysu í vinnuna. Um hálfníu kom tæknimaður í hús til að hjálpa okkur í kortadeildinni að uppfylla beiðni þar sem var beðið um nokkur kortalogo sem prentast á ákveðin kort við framleiðslu. Hann var frekar snöggur að afgreiða málið þrátt fyrir að þurfa að rifja ýmislegt upp en rétt eftir að hann var farinn kom í ljós að það vantaði amk eitt logo til. Ég hafði fylgst með honum og gerði velheppnaða tilraun til þess að "bjarga" málunum. Þ.e. ég náði þessu logoi af framleiðsluvélinni yfir á usb-lykill og svo var önnur sem afritaði logoið af lyklinum yfir í beiðnina. Líklega hefði ég líka getað gert það en það er fyrir mestu að okkur tókst að gera þetta án þess að þurfa að kalla tækninmanninn aftur í hús. Í hádeginu fengum við jólamat frá Múlakaffi og það komu tveir vinnufélagar, annar sem hætti í vor og hinn er í veikindaleyfi en er að hætta fljótlega á nýja árinu, og borðuðu með okkur. Það vantaði fjóra í hópinn okkar en maturinn og félagsskapurinn var samt mjög góður. Verkefnum mínum var lokið á fjórða tímanum. Fór beint í sund en hringdi þó í pabba áður en ég fór inn og hitti kaldapotts vinkonu mína sem var nýlega mætt. Fórum á brautir 7 og 8 og ég synti fimm hringi, langflesta á bakinu. Fórum þrjár ferðir í þann kalda, góða gufuferð og smástund í sjópottinn. Þvoði mér um hárið þar sem ég fer líklega ekki aftur í sund fyrr en eftir helgi. 

5.12.24

Hraðskrið á tímanum

Enn og aftur var ég vöknuð alltof snemma, eða um fimm leytið. Gerði teygjuæfingar þegar ljóst varð að ég var ekki að sofna aftur og greip svo smástund í bók áður en ég fór á fætur. Klæddi mig um sex og gerði nokkrar æfingar með 1,5kg lóðum. Var mætt í vinnu rétt rúmlega hálfátta. Það var framleiðsludagur en framleiðslan er eðlilega að minnka mikið. Svo virðist sem kreditkortin fyrir síðasta stóra bankann, sem við erum enn að þjónusta, séu um það bil að detta út. Fengum einn skammt á mánudaginn sem við framleiddum í gær en ekkert komið síðan þá. Þeir vilja samt halda því opnu að geta leitað til okkar næstu 4-8 vikurnar ef upp koma einhver vandræði. Ég var byrjuð að vinna í innleggjum á ellefta tímanum. Verkefnum mínum lauk upp úr klukkan hálffjögur. Fór beint í Nauthólsvík og skellti mér í -0,5°C sjóinn í uþb tíu mínútur. Kom við hjá ÓB í Öskjuhlíð og notaði kreditkortið sem er að renna úr gildi. Það var í rúmlega níuþúsund króna plús og ég dældi á tankinn fyrir áttaþúsund. Fékk stæði beint fyrir utan, við hliðina á innkeyrslunni, þegar ég kom heim um hálfsex. 

4.12.24

Vikan um það bil hálfnuð

Ég vaknaði ekki alveg eins snemma í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Var þó vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sex. Sleppti teygjuæfingunum en greip í 1,5kg lóðin þegar ég var búin að klæða mig. Morgunrútínan var svo ósköp svipuð og flesta virka morgna. Það var svolítið hált úti í gærmorgun og ég þurfta að skafa og sópa af framrúðunni og annarri hliðinni á bílnum. Mætti í vinnu um hálfátta leytið. Byrjaði á að vinna í kortamálum, bæði að hlaða inn og undirbúa framleiðslublöð en annars var ég í innlögnum til klukkan að verða tvö og yfirferð á skjölum síðasta klukkutímann. Stimplaði mig út milli þrjú og hálffjögur. Byrjaði á því að skreppa á pósthús. Póstlagði smá sendingu til ensku vinkonu minnar og fjárfesti í tólf frímerkjum, þar af tveimur til norðurlandanna. Var mætt í Laugardalslaug rétt fyrir fjögur. Kalda potts vinkona mín var mætt, ekki með sundhettuna og í sinni annarri ferð í kalda pottinum. Saman náðum við þremur ferðum en hún kvaddi svo eftir smástund í gufunni. Ég fór í sjópottinn, eina ferð í kalda, synti aðeins 200m og tók eina dýfu í kalda pottinum í lokin. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim. Þar fæ ég frækexið sem einnig fæst í Heilsuhúsinu. Ætlaði líka að kaupa meiri beltisþara en fann hann ekki að þessu sinni og var ekkert að leita eftir aðstoð við að finna hann. Tók hvorki upp penna né prjóna í gærkvöldi en horfði á hluta af handboltaleiknum og tvo þætti úr séríu í sjónvarpi símans sem er að fara að "detta" út úr sarpinum. 

3.12.24

Vetur og kuldi

Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun og var komin á fætur um hálfsex. Hafði þeim mun meiri tíma í allar teygjur, æfingar og netvafr áður en ég fór í vinnuna. Það var hörkufrost úti. Ekki er búið að laga ofna- og þrýstikerfið í vinnunni en það á að klárast í dag. Sem betur fer erum við enn með hitablásarana í láni. Ég var reyndar með lopapeysu og ullarsokka meðferðis til öryggis. Það slapp þó til en rétt svo. Verkefnum mínum lauk stuttu fyrir klukkan hálffjögur. Þá dreif ég mig beint í vikulegan osteostrong tíma. Var mætt rúmum hálftíma fyrir "fasta" tímann minn og komst strax að. Bætti mig á einu tæki og var alls ekki langt frá mínu besta á hinum þremur tækjunum. Nú eru þrír tímar eftir af þessum 26, hálfa ári, sem ég fjárfesti í og fékk svo niðurgreidda um helling. Síðasti tíminn verður á Þorláksmessu en það verður svo sannarlega alls ekki síðasti tíminn því ég er ákveðin í að fjárfesta í árskorti næst, 52 tímum sem eru þá innan við sjöþúsund kr. hver en samt minna en það því ég fæ sjúkraþjálfunarstyrki upp í allt að 30 tíma á ári. Ég finn verulegan mun á bæði styrk og jafnvægi hjá mér og veit að það á bara eftir að verða betra ef ég held mig við þessa leið. Annars fór ég beint heim eftir tímann þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis. Heima skrifaði ég á fyrsta jólakortið sem fer með bréfinu sem ég lauk við í fyrradag. Kannski kem ég þessu í póst í dag.

2.12.24

Ný vinnuvika

Þrátt fyrir að hafa farið frekar seint að sofa aðfaranótt gærdagsins var ég vöknuð um sjö leytið í gærmorgun. Gerði nokkrar tilraunir til að kúra mig niður aftur en það tókst ekki svo ég var komin á fætur fyrir klukkan átta. Pabbi kom klæddur fram á tíunda tímanum. Hann hafði líka komið fram um sex leytið að venju, til að taka niður og skrá helstu tölur og fá sér morgunmat. Þegar fór að birta ákvað pabbi að skreppa upp að Keldum til að skipta um rafhlöður í ljósinu á leiðinu hjá litlu Önnu og mömmu. Ég ákvað að drífa mig með honum. Það var tíu gráðu frost en bjart og lítil ferð á logninu. Vorum komin til baka um hálftólf. Gufusauð hálfa sæta kartöflu og steikt þrjú lítil bleikjuflök handa okkur pabba í hádeginu. Fljótlega eftir hádegi fór pabbi að setja upp jólaóróana en ég ákvað að drífa mig af stað í bæinn. Var komin til Reykjavíkur upp úr klukkan þrjú og kom við í bókasafninu. Skilaði þremur bókum af fjórum og freistaðist til að taka þrjár með mér heim og það þótt ég sé bara búin með rúmlega einn þriðja af fjórðu bókinni. Ein af þessum þremur bókum er sagan um tíndu systurina. Hún er þykk og mikil en ekki samt jafn margar blaðsíður og sú sem ég er að lesa. Ég verð mjög líklega að lesa mikið um jólin en þarf örugglega að framlengja skilafrestum. Horfði á leik Liverpool og Man. Cyty 2:0 og svo EM leikinn í handbolta kvenna þar sem okkar stelpur unnu Úkraínustelpurnar.  

1.12.24

Fyrsti í aðventu

Svaf til klukkan að verða hálfátta. Gaf mér samt tíma í alla rútínu áður en ég fór í sund. Synti 600m, flesta á bakinu þó smá skriðsund líka en ekkert bringusund. Fór svo eiginlega bara eina ferð í þann kalda en dýfði mér þó rétt sem snöggvast í uþb mínútu þegar ég var á leiðinni inn að þvo mér um hárið eftir góða gufuferð og tíu mínútur í sjópottinum. Var mætt til esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu og stoppaði í tæpan einn og hálfan tíma. Lásum m.a. 2 bls. í Kon-Tiki. Fór beint í að pakka þegar ég kom heim og lagði af stað austur um hálfeitt leytið. Pabbi var að setja ljós og stjörnur í eldhús- og stofugluggana. Lagði aðeins einn kapal, fór ekkert í tölvuna en kláraði bréfið sem ég byrjaði á um síðustu helgi. Horfði á kosningasjónvarp til klukkan langt gengin í tvö. Pabbi fór í háttinn stuttu áður og ég ákvað fljótlega að fylgja hans fordæmi en las þó um stund um Electru. Er búin með um 300bls af rúmlega áttahundruð.

30.11.24

Sjórinn -1,6°C í gær

Suma morgna rumska ég allt, alltof snemma. Gærmorguninn var einn af þeim. Losaði svefn um fimm. Gerði heiðarlega tilraun til að kúra mig niður aftur en um hálfsex var ég byrjuð að gera alls konar teygjuæfingar í rúminu og þegar ég var búin að klæða mig uþb korteri síðar greip ég í 2kg lóðin og gerði nokkrar styrktaræfingar. Síðan var alveg nægur tími fyrir morgunverkin á baðherberginu og netvafrið áður en kominn var tími til að leggja af stað í vinnuna. Það var framleiðsludagur í gær. Vélin ætlaði að vera með eitthvað vesen. Það er líklega að bila skynjari við takkann sem ræsir vélina sjálfa. Það "lifnaði" yfir vélinni í fimmtu tilraun og kom ekki til þess að ræsa þurfti út viðgerðarmenn. Framleiddum fyrst 250 gjafakort, síðan daglegu visakortin sem voru örfá. Þegar við ætluðum að byrja á debetinu endaði það með því að við þurftum að taka vélina alla leið niður. Það kviknaði á henni í annarri tilraun og eftir það gekk hún þokkalega vel. Kláruðum allt daglegt fyrir kaffi og endurnýjunina á tólfta tímanum. Ég gekk frá öllu bókhaldi og fylgimiðum með póstinum áður en ég fór í mat. Eftir mat tók ég að mér að undirbúa desember bókhaldið. Það tók um klukkustund. Þá voru öll innlegg búin eða einhverjir voru að vinna síðustu pokana svo ég fór í að fara yfir skjöl. Var búin í vinnu um þrjú og fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Ekki var búið að uppfæra hitatölur á vefnum frá því á fimmtudag en ég var alveg viss um að hann væri amk kominn í -1°C. Það var hann svo sannarlega og -0,6°C meira og hafði því hitastigið lækkað um heila gráðu. Það var flóð og sjórinn spegilsléttur. Svamlaði um í uþb 7 mínútur, fór smástund í pottinn. Þaðan í gufu í 10mínútur. Aftur í sjóinn, þá hanskalaus, í tæpa mínútur og endaði svo dágóða stund í pottinum áður en ég fór upp úr og heim eftir verulega hressandi og endurnærandi stund eins og alltaf. 

29.11.24

Föstudagur og mánaðamót um helgina

Einhverra hluta vegna tókst mér alls ekki að skrá mig inn á bloggsvæðið mitt í gærmorgun. Þegar kom smá pása í innlagnardæmið í vinnunni í gær ákvað ég að nota tækifærið og prófa hvort ég gæti skráð mig inn. Það tókst. Þurfti reyndar að sannreyna að það væri ég sem væri að skrá mig inn úr þessari tilteknu tölvu (vinnutölvunni "minni"). Annars var ég að vinna til rétt rúmlega þrjú. Hringdi í pabba þegar ég var á leiðinni í sund. Var byrjuð að synda korter í fjögur. Synti aðeins 400m og var kalda potts vinkona mín nýkomin á svæðið, ekki með sundhettu, og búin með eina ferð í þann kalda. Saman náðum við þremur ferðum. Ég var svo komin heim upp úr klukkan fimm. 

28.11.24

Gat ekki skráð mig inn í morgun

Er að stelast til að setja inn færslu í vinnunni á vinnutíma svo kannski verður textinn eitthvað snubbóttur. Fréttum það í gær að vegfarandinn sem varð fyrir bíl í fyrrakvöld er vinnufélagi okkar. Hann er út lífshættu en ennþá á gjörgæslu. Hugurinn er því búinn að vera hjá vinnufélaganum og fjölskyldu hans. Annars fór ég í sjóinn eftir vinnu í gær, 0,6°C en virkaði pínu kaldari þar sem það var einhver ferð á logninu. Engu að síður tolldi ég út í í uþb tíu mínútur. Og besti vinur minn kom í heimsókn í gærkvöldi. Hann var að afhenda mér vörur sem ég var að kaupa til að styrkja dætur hans og körfuboltalið ÍR. Önnur dóttirin var á æfingu og hin að keppa og mamma þeirra var á keppninni. Kjartan þáði kaffi og ég virðist alveg kunna að hella upp á þótt ég sé sjálf í kaffipásu. Eftir klukkutíma stopp og gott spjall kvaddi hann og fór til að sækja þá dóttur sem var á æfingu.

27.11.24

Nýtt kreditkort komið í hús alla leið frá útlöndum

Gærdagurinn byrjaði ósköp svipað og mánudagsmorguninn. Teygjuæfingar upp í rúmi um hálfsex leytið og nokkrar æfingar með tveggja kílóa lóðum þegar ég var búin að klæða mig. Fékk mér lýsi, sopa af engifer og kanildrykk, vatnsglas og kalktöflu. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Fyrsta korterið fór í að safna saman framleiðslutölum og bókhaldsvinnu fyrir kortadeildina. Annars vann ég í innlögnum frá ca átta til klukkan tvö. Eftir tvö var ég að fara yfir dagleg skjöl frá öðrum. Þrátt fyrir nokkuð stóran dag vorum við búin um þrjú. Ég fór beint í sund og var búin að synda 350m þegar kalda potts vinkona mín kom. Synti 350m í viðbót á meðan hún var að synda 400m. Hún hélt því reyndar fram að hún hefði náð að synda 500m. Ef svo er getur verið að ég hafi mistalið mínar ferðir og synt 800m. Held samt ekki því ég er um fimm mínútur að synda hundrað metra og synti í 35 mínútur í gær. Flestar ferðirnar voru á bringunni en ég synti uþb 200m skriðsund. Fórum svo fjórar ferðir í þann kalda, tvær í heitasta pottinn, eina í 42°C pottinn, 15mínútur í gufu og tæpar 15mínútur í sjópottinn. Þá varð mér orðið mál að pissa. Í heildina tók þessi sundferð um tvo tíma, meðtalinn sá tími sem ég var í búnings- og sturtuherbergjunum. Var komin heim upp úr klukkan fimm. Bræðurnir höfðu skroppið í heimsókn til afa síns. Fórum af stað um tíu í gærmorgun og komu heim á níunda tímanum í gærkvöldi.

26.11.24

Þriðjudagur

Klukkan var rétt að byrja að ganga sex þegar ég vaknaði í gærmorgun. Mér fannst það heldur snemmt en það virkaði ekki að reyna að kúra eitthvað áfram svo fljótlega byrjaði ég á teygjuæfingum í rúminu. Var klædd og komin á ról um hálfsex leytið. Gerði nokkrar æfingar með tveggja kílóa lóðum eftir að hafa sinnt morgunverkefnunum á baðherberginu. Svo hafði ég nægan tíma í smá netvafr. Sá tími var reyndar frekar fljótur að líða. Mætti í vinnu um hálfátta. Byrjaði á því að taka saman framleiðslutölur fyrir kortadeild, munar svo miklu á tíma að safna þeim jafnóðum heldur en að vinna í þeim á framleiðsludaginn sjálfan. Þetta tók mig um korter og svo fór ég beint í innlegg. Ég var búin með öll mín verkefni um þrjú. Fannst of snemmt að athuga hvort ég kæmist að í osteostron svona "löngu" fyrir minn fasta tíma. Hringdi í Ellu vinkonu og spjallaði við hana meðan ég fór aðeins á rúntinn. Lagði svo við Hátún 12 ca korter fyrir fjögur rúmum hálftíma fyrir fasta tímann. Þurfti ekki að bíða nema ca 3 mínútur svo ég var búin með prógrammið um það leyti sem ég hefði átt að vera að byrja. Fór svo beinustu leið í sund. Kalda potts vinkonan hafði sagst ætla að hitta mig korter yfir fimm svo ég byrjaði á því að synda 400m. Klukkan var rétt rúmlega fimm þegar ég fór í fyrstu ferðina í þann kalda, og viti menn, þar var kalda potts vinkonan í sinni annarri ferð. Tíminn hennar í Laugum hafði fallið niður. Við náðum þremur ferðum saman í kalda, góðri gufuferð og hittum svo eina systur hennar í sjópottinum í lokin. Ég var komin heim á sjöunda tímanum. 

25.11.24

Mánudagur

Vaknaði um átta leytið en klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu kveikti ég á tölvunni hans pabba og var að vafra á netinu næsta einn og hálfa tímann. Eftir það fór ég inn í eldhús og lagði nokkra kapla. Pabbi kom fram rétt fyrir ellefu. Hann hafði reyndar verið búinn að koma fram eldsnemma eins og hann gerir flesta morgna, til að taka niður helstu tölur og fá sér morgunmat. Ég gufusauð sætakartöflu í bitum ásamt lauk og steikti bleikju í hádegismatinn. Eftir mat settist ég inn í stofu og byrjaði á fyrsta jólabréfi þessa árs. Bréfin verða kannski ekki nema tvö, annað á ensku en hitt á dönsku. Það er þó ekki útilokað að ég skrifi eitt bréf á íslensku og sendi með jólakorti til einnar frænku minnar sem býr í Noregi. Hún er búin að panta jólakort og mun amk fá jólakortið. Um tvö byrjaði leikur Southamton og Liverpool 2:3. Þá lagði ég frá mér pennann en greip í prjónana í staðinn á meðan ég fylgdist með leiknum. Í hálfleik hringdi besti vinur minn í mig til að athuga hvort ég væri heimavið. Ég var að styrkja dætur hans og hann ætlaði að koma til mín vörunum. Ég lofaði að láta hann vita ef ég væri komin tiltölulega snemma heim úr vinnu sundi eða sjónum í vikunni. Ég kvaddi ekki pabba fyrr en um hálffimm leytið og var komin heim um sex. 

24.11.24

Á Hellu

Ekkert löngu eftir að ég kom heim úr vinnu, sjósunds- og Kringluferð á föstudaginn hringdi pabbi í mig til að tilkynna mér að ein systurdóttir hans hefði orðið bráðkvödd fyrr um daginn. Mig setti hljóða, var einhvern veginn ekki alveg að ná þessu enda þessi frænka mín ekki orðin áttræð. Í gær setti yngsta dóttir hennar tilkynningu um andlátið á lokaðan hóp sem tengist Heiðarfólkinu og seinna um daginn á vegginn hjá sér þar sem hún merkti systikynin sín þrjú og pabba sinn. Sjálfsagt og örugglega er best að fá að fara svona snögglega en þetta er áfall fyrir nánustu aðstandendur. Auðvitað er þetta gangur lífsins og vitað má að við eigum öll eftir að deyja en sem betur fer vitum við ekki í hvaða röð og hvernig.

Annars byrjaði ég gærdaginn á smá netvafri og setti í þvottavél áður en ég fór í sund um hálfníu. Synti 500m, flesta á bakinu og eftir tvær ferðir í þann kalda, eina í gufuna og aðra í sjópottinn þvoði ég mér um hárið og fór svo beinustu leið vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minna. Stoppaði þar í einn og hálfan tíma. Kom við á AO- við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn á leiðinni heim. Hengdi upp á snúrur og pakkaði svo niður fljótlega. Klukkan var samt að verða hálftvö þegar ég lagði af stað úr bænum. Kom við í Löngumýrinni hjá Reyni og Jónu Mæju og stoppaði þar í um klukkustund. Klukkan var um fjögur þegar ég kom til pabba. Hann hafði skellt í pönnsur um hádegisbilið. Staflinn var flottur en ég er ekki komin þangað ennþá og óvíst hvort ég borði nokkurn tíman svona aftur. Ég er amk að verða ákveðnari og ákveðnari í því að reyna eftir fremsta megni að forðast sykur það sem eftir er. Í staðinn fékk ég mér harðsoðið egg og blóðbergste. Við pabbi fórum í smá kapla keppni en svo ætluðum við að kíka á síðasta leik dagsins í enska boltanum Man. City - Tottenham 0:4. Myndlykillinn fór hins vegar að vera með vesen og það tók smá tíma að laga það vesen. Fylgdist bara með leiknum á mbl.is. Pabbi er með annað sjónvarp og annan myndlykil í herberginu sínu. Hann skipti á myndlyklum og tókst að laga vandamálið þannig að báðir lyklar virkuðu. Þá var klukkan að verða hálfsjö og komið að fyrstu sjónvarpsfréttum.

23.11.24

Frekar stutt eftir af árinu, um 40 dagar þó

Vaknaði upp úr klukkan hálfsex og hafði því mjög góðan tíma í allar teygju- og lóðaæfingar sem og vafrið á netinu. Var mætt í vinnu um hálfátta. Byrjuðum á því að framleiða gjafakort um átta leytið en þegar við ætluðum að byrja á daglegu framleiðslunni gekk hún ekki sem skildi. Hafði samband við tæknimann sem ákvað að koma svæðið þar sem ekki var nóg að endurræsa framleiðsluvélina sjálfa. Hann var fljótur á vettvang og fann það fljótlega út að endurræsa þurfti kerfið sem "talar" við örgjörvamódúl vélarinna. Endurræsing tók nokkra stund en við gátum byrjað á framleiðslunni stuttu fyrir hálftíu og klárað þau kort sem eru sótt til okkar um tíu. Kláruðum afganginn af deginum eftir smá kaffipásu. Vorum búnar niðri um ellefu og ég fór beint í innlegg eftir það. Verkefnum lauk um tvö leytið og ég var komin í sjóinn fyrir klukkan þrjú. Hann var -0,8°C og ég var um fimm mínútur út í áður en ég fór í gufuna og svo aðeins í pottinn. Skrapp svo aðeins í Kringlu-leiðangur áður en ég fór heim. 

22.11.24

Næstum því komin helgi

Vaknaði rétt fyrir klukkan sex. Tuttugu mínútum seinna las ég um það á netinu að enn eitt gosið hefði farið af stað á tólfta tímanum á miðvikudagskvöldið. Það gos er víst heldur minna en tvö síðustu gos en engu að síður hefur það valdið smá usla. Rann t.d. yfir bílastæðin við Bláa lónið. Ef ekki væru þessir varnargarðar væri nú ýmislegt meira farið undir hrauni bæði í þessu og hinum fyrri gosum. Var mætt í vinnu um hálfátta. Hitastigið á sumum stöðum í vinnurýminu er ekki enn orðið gott og eru hitablásarar enn á staðnum. Gat reyndar farið úr lopapeysuni í innlagnavinnunni en var áfram í flíspeysu og fór einnig í ullarsokka. Verkefnum lauk um hálfþrjú og ég fór beint í sund. Synti 700m, þar af 150m skriðsund. Fór eina ferð í kalda pottinn og var búin að sitja tæpar tíu mínútur í sjópottinum þegar kalda potts vinkonan mætti á svæðið. Saman náðum við þremur ferðum í þann kalda og góðri gufuferð. Var komin heim einhvern tímann á sjötta tímanum. 

21.11.24

Svaf af mér gosbyrjun

Í gærmorgun var ég vöknuð um hálfsex. Byrjaði á því að gera teygjuæfingar sem og að kreppa hnefana, aðallega þann hægri. Þegar ég var svo búin að klæða mig og búa um gerði ég nokkrar æfingar með tveggja kílóa lóðum. Framhaldið var einnig ósköp svipað og á þriðjudagsmorguninn. Var mætt í vinnu um hálfátta. Enn er frekar kalt í sumum vinnurýmum en það var ágætis hiti í kortadeildinni og þar var ég að vinna fram að hádegi. Var fljótlega komin á stuttermabolinn og þegar við fórum í kaffipásu fór ég upp með flís- og lopapeysurnar og skildi eftir á skrifborðsstólnum við vinnuaðstöðuna mína uppi. Vorum til rúmlega hálftólf að klára daglegt, smá endurnýjun, talningu og frágang í kortadeildinni. Uppskeran var þrír bakkar sem við fengum að senda upp með lyftu í skúr 2. Á leiðinni til baka úr skúr tvö komumst við ekki lengra en rýmið fyrir innan kortagerðarganginn. Komumst aðeins aftur í skúr tvö en ekki skúr eitt, aftur inn á "okkar" gang eða inn í myntsalinn. Hægt var að opna innan frá úr myntsalnum en þar var mun kaldara. Það var líka svolítið kalt á svæðinu sem við vorum fastar á og ískalt í skúr tvö. Þarna vorum við líklega fastar (föst því það voru fimm í myntsalnum, tveir viðgerðarmenn, elsti sonur annars þeirra og tveir samstarfsmenn) í tæpan hálftíma áður en tókst að opna fyrir okkur inn á kortagerðarganginn. Þaðan var leiðin upp greiðfær þótt við þyrftum að fara út um tveggja dyra slússu. Það tók aðeins lengri tíma að gera við bilunina sem olli þessari lokun. Hurðin inn í skúr eitt var skökk og neðri segullinn á henni náði ekki að tengja. Þarna er kerfið þannig að ef ein dyr lokast ekki er ekki hægt að opna hinar. Þannig að það var pínu skrítið að hægt væri að opna skúr tvö. En eftir hádegi fór ég í innlegg. Verkefnum var lokið upp úr klukkan þrjú og ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Sjórinn var 0,6°C, mikil fjara en mjög hressandi að skella sér út í. Hægt var að vaða út að kaðli. Ég gerði það þó ekki en svamlaði um í uþb fimm mínútur. Kom svo við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim. Keypti mér harðfisk og smávegis af gellum og kinnum sem ég hafði í kvöldmatinn minn ásamt soðinni sætri kartöflu.

20.11.24

Sjósundsdagur í dag

Var vöknuð stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Byrjaði á því að gera einhverskonar teygjuæfingar upp í rúmi áður en ég klæddi mig og bjó um. Þá tók ég fram 2kg lóðin og gerði nokkrar styrktar- og lyftuæfingar. Næst lá leiðin inn í eldhús þar sem ég fékk mér glas af vatnsblönduðum sítrónusafa úr hálfri sítrónu. Svo sinnti ég morgunverkunum á baðherberginu. Settist svo inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Var mætt í vinnu um hálfátta. Var í lopapeysu og hafði meðferðis ullarsokka ef mér yrði kalt á tánum. Fór næstum beint niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skránum. Niðri var hlýtt og gott. Uppi var sum staðar skárra "kuldastig" heldur en á mánudaginn. Búið var að setja af stað hitablásarana og ég gat byrjað strax á því að vinna innlegg og bóka. Það var öllu kaldara hjá þeim sem voru á stóru kópru-vélunum. Þrátt fyrir að það væri hitablásari í rýminu hjá þeim þurftu þau á tímabili að vera í úlpum og með húfur. Ég fór úr lopapeysunni upp úr hádeginu en um það leyti sem við vorum að klára allar bókanir var byrjað að kólna aftur. Þrátt fyrir stóran dag og vesen með hitastigið var öllum verkefnum lokið fyrir klukkan hálffjögur. Ég fór beint í sund og á braut átta og var búin að synda rúma hundrað metra þegar kaldapotts vinkona mín kom. Hún synti 500 og ég 600 í heildina. Eftir þrjár ferðir í kalda, góða gufuferð og tuttugu mínútur í sjópottinum fór ég upp úr. Ákvað að skreppa upp á Gagnveg á vinnustað N1 sonarins sem var á vakt. Stuttu áður en ég kom þangað fór mælaborðið að gera athugasemd varðandi þrýstinginn á dekkjunum svo ég byrjaði á því að leggja framan við loft-dæmið og jafna hann sjálf. Það var smá bras en hafðist alveg. Lagði svo bílinn við þjónustudælu til að fá áfyllingu á rúðupissið. Starfsmaður á plani kom fyrst að en rétt á eftir sonur minn sem tók verkið að sér og vildi ekkert taka fyrir það. Var komin heim stuttu fyrir klukkan hálfsjö. 

19.11.24

Innikuldi á vinnustað

Var vöknuð um sex, á undan vekjaranum. Gaf mér góðan tíma í alla morgunrútínu en var samt mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Inni var mjög kalt, þó ekki frost eins og út en samt þannig kalt að það var eiginlega ekki hægt að vinna við þessar aðstæður. Ég fór þó niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám og útbúa skiptiblöð. Það virkaði ekki alveg jafn kalt þar. Þegar ég kom upp aftur gerði ég eins og margir af vinnufélögunum sótti úlpuna því þrátt fyrir að vera í ullarvesti var það ekki nóg. Það var heldur skárra inni í kaffistofu en ef maður sat of lengi og var ekki með teppi yfir sér sótti kuldinn á. Einhverjir voru frammi í sal að "reyna" að vinna en við vorum nokkur sem bara gátum ekki hugsað okkur að vinna fyrr en hitastigið yrði aðeins lagað svo við værum ekki með loppnar fingur og tær og eldrauð nef. Menn fá hitastýringu voru fengnir á staðinn en það voru líka leigðir nokkrir hitablásarar og dreyfðir um salinn. Nokkru eftir að þeir voru komnir í gang, svona um tíu leytið, ákvað ég að prófa að vinna. Færði borðið ofar og vann standandi til að geta verið á smá hreyfingu. Hádegismaturinn kom í seinna lagi en yfirleitt kemur hann alltof snemma. Eftir mat prófaði ég að sitja við að bóka innlagnir og það slapp alveg til. Þrátt fyrir að við værum nokkur sem byrjuðum ekki að bóka fyrr en eftir dúk og disk og þar að auki eru nokkrir aðrir frá vegna veikinda þá vorum við búin með verkefni dagsins áður en ég var búin að vera átta tíma á svæðinu. Það munaði þó ekki nema uþb tíu mínútum. Var mætt í osteostrong rúmum hálftíma fyrir fasta tímann og komst beint að. Var því komin í sund um hálffimm. Synti 600m, fór í þann kalda í rúmar þrjár mínútur og beið svo í sjópottinum þar til kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Saman náðum við tveimur ferðum í þann kalda og góðri gufuferð en þá var ég komin í spreng og kvaddi. Var komin heim á sjöunda tímanum. Hringdi annars í pabba þegar ég var á leiðinni í osteostrong. Hann svaraði úr sínum bíl og var staddur á Ölfusárbrúnni. Hafði skroppið í kaupstað að versla og notaði tækifærið til að fylla á bílinn hjá Atlantsolíu.

18.11.24

Ný vinnuvika

Var komin í sund um hálftíu leytið. Byrjaði á 4 mínútum í kalda pottinum áður en ég fór á braut 6 og synti 500 metra, þar af tæpan helminginn skriðsund. Síðan fór ég aftur í þann kalda og hitti á kalda potts vinkonu mína. Fórum þrjár ferðir saman, tvær í þann heitasta, eina góða ferð í gufu og eina í 42°C pottinn. Sjópotturinn var lokaður. Ég var með skammtímaláns bókina meðferðis í bílnum en bókasafnið opnar ekki fyrr en klukkan tólf á sunnudögum og ég var komin heim um hálftólf. Ákvað að framlengja skilafrestinum um hálfan mánuð og verð þá vonandi búin með tvær af hinum þremur bókunum og get skilað þeim í leiðinni. Skammtímalánsbókin er annars; Súkkulaðileikur eftir Hlyn Níels Grímsson og er alveg ágætis afþreying. 

17.11.24

Rétt rúmar sex vikur eftir af þessu ári

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt, þurfti og fór fram á salerni að tæma blöðruna. Er hreint ekki viss hvenær ég sofnaði aftur en vissi svo næst af mér um klukkan hálfátta. Tók mér rúman hálftíma í morgunverkin og netvafrið en var mætt í Laugardalslaugina á braut sex korter fyrir níu. Synti 500 metra, flesta á bakinu en smá skrið- og bringusund með. Þvoði mér um hárið þegar ég var á leiðinni upp úr um tíu. Næst lá leiðin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Við lásum þrjár blaðsíður í Kon-Tiki. Um tólf renndi ég svo bílnum í gegnum bílaþvottastöðina Löður við Fiskislóð. Á eftir kom ég við í Krónunni áður en ég fór heim.

Annars gleymdi ég að geta þess að ég kom við í Holtagörðum eftir vinnu á föstudaginn til að kjósa utan kjörfundar. Það var aðallega til þess að nýta vegabréfið áður en það rennur úr gildi í næstu viku. Mér var reyndar tjáð að það væri alveg tekið mark á útrunnum skilríkjum. Mér var líka sagt að ég mætti kjósa eins oft og ég vildi utankjörfundar. Það er skráður tími á umslagið utan um atkvæðið og það nýjasta gildir. Það er annars ágætt að að vita að ég get kosið aftur ef mér snýst hugur og líka gott að vita að ég get kosið á kjördag, þó bara einu sinni, einnig ef ég verð komin að annarri niðurstöðu um hver eða hvort einhver eigi skilið mitt atkvæði.

16.11.24

Dagur íslenskrar tungu í dag

Var vöknuð alltof snemma í gærmorgun. Gerði smá teygju- og styrktaræfingar í rúminu og þegar ég var komin á fætur og búin að búa um gerði ég æfingar með 2kg lóð í hvorri hönd í nokkrar mínútur. Samt var klukkan ekki orðin sex þegar ég fór fram fékk mér lýsi og kalk, sopa af rauðrófu safa og hálft vatnsglas og sinnti morgun verkunum á baðherberginu. Mætti í vinnu rétt fyrir hálfátta. Sú lausráðna hafði ætlað að vera í fríi í gær og fara með fyrstu vél til Akureyrar. Það var hins vegar ekkert flogið norður í gær og hún ákvað að koma bara í vinnuna. Það er annars búið að framlengja vinnusamningnum hennar til ágústloka 2025 en staðan verður tekin aftur næsta sumar. Vonandi verða aðstæður þá orðnar þannig að hægt verði að fastráða hana. Við rúlluðum upp korta framleiðslunni á tæpri klukkustund. Ég var korteri lengur að ganga frá bókhaldi og póstmálum en fór svo beint í innlegg eftir það. Verkefnum var lokið rétt upp úr klukkan tvö. Ég ætlaði að koma við í Fiskbúð Fúsa en kom að lokuðum dyrum vegna árshátíðaferðar. Var komin í Nauthólsvík rétt fyrir þrjú. Hringdi eitt símtal áður en ég yfirgaf bílinn. Sjórinn hafði mælst 7°C á fimmtudaginn en var kominn niður í 4,4°C. Það var að flæða að. Ég svamlaði um í korter, sat annað eins í gufunni áður en ég fór aftur smástund út í, berhent. Var líklega rúmlega eina mínútu áður en ég fór í pottinn. Eftir sjósundsferðina gerði ég mér ferð í Hagkaup í Skeifunni. Yfirleitt líður lengra á milli ferða þangað en í síðustu ferð á sunnudagskvöldið var keypti ég tvær dokkur af fjólublá þykku bómullargarni og þær eru ekki að duga fyrir stykkið sem ég er með á prjónunum. Þarf amk eina dokku til. Auðvitað rataði ýmislegt annað í körfuna í leiðinni en vörurnar komust þó vel fyrir í einum margnota hagkaupspoka af minni gerðinni. Svona poka sem inn á milli er geymdur í litlum samlitum poka og fer mjög lítið fyrir.  

15.11.24

Föstudagur enn á ný

Í gærmorgun var það vekjarinn sem ýtti við mér korter yfir sex. Hafði þó rumskað um fimm leytið en sofnaði sem betur fer aftur. Morgunverkin gengu vel fyrir sig en ég sleppti þó æfingunum sem kannski er ekki til eftirbreytni. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fyrsta korterið fór í að taka saman kortatölur og vinna í bókhaldi fyrir kortadeildina. Svo skipti ég yfir í innlagnir. Þeim verkefnum lauk um hálftvö. Þá var komið að skjala yfirferðum. Þeim var lokið rúmlega tvö. Sendi skilaboð til kalda potts vinkonu minnar og við hittumst í sundi korter fyrir þrjú. Fórum beint á brautir fimm og sex og syntum 500m, þar af synti ég rétt tæpa 150m skriðsund. Eftir sundið var komið að pottaferðum og gufu. Ég var komin heim upp úr klukkan hálffimm. 

14.11.24

Greip í tómt

Í gær var framleiðsludagur í vinnunni. Vorum ekki búnar þegar við gerðum pásu rétt fyrir níu til að skreppa upp á fund. Vanalega er fundurinn klukkan hálftíu en hann var færður fram í gær og stóð yfir í tæpa klukkustund. Verið var að fara yfir könnun og svo gera aðra óformlega könnun. Vorum komnar niður í kortadeild um tíu leytið og vorum innan við klukkutíma að klára rest og ganga frá deildinni. Ég var svo auka korter að vinna í bókhaldi og undirbúa póstsendingar áður en ég skipti yfir í innleggin. Mínum verkefnum var lokið stuttu fyrir þrjú. Fór beinustu leið í Nauthólsvík. Það var háflóð, sjórinn rétt innan við sex gráður og ég var að vaða út í rétt fyrir hálffjögur. Svamlaði um í rúmt korter áður en ég fór í gufuna í annað korter. Eftir smá dipp í lónið og ca tíu mínútur í pottinum dreif ég mig upp úr. Hugmyndin var að skreppa á Landakot að heimsækja nöfnu mína sem var í KÓSÍ kórnum síðustu árin sem hann var starfandi. Ég lagði bílnum við Bræðraborgarstíg og rölti þaðan. Það var vissulega Anna K. upp á þriðju hæð en ekki sú sem ég ætlaði að heimsækja. Í ljós kom að fyrst hafði hún verið færð upp á fjórðu hæð en svo hafði hún fengið varanlegt pláss á öðrum stað, mjög líklega hjúkrunarheimili sem hefur deild fyrir þá sem eru komnir með alzheimer. Ég mun að öllum líkindum hafa samband við manninn hennar sem líka var í kórnum og spyrja hann hvar hún er og hvort ég megi heimsækja hana þangað. Hann sagði okkur, sem hittumst þann 18. okt. sl, frá stöðunni að hún myndi ekki eiga afturkvæmt heim. Ég spurði hann þá hvort ég mætti heimsækja hana og svarið var jákvætt. Ég var hins vegar of sein í þetta skipti enda er Landakot sjúkrahús en ekki hjúkrunarheimili. 

13.11.24

Vikan hálfnuð og bráðum mánuðurinn

Það voru engin svefn vandræði í fyrrinótt en ég var vöknuð korter fyrir sex og klædd og komin á ról um sex eftir að hafa gert smá styrktaræfingar og teygjur. Gerði svo æfingar með tvö tveggja kílóa lóð áður en ég fór fram í eldhús og fékk mér lýsi, smá rauðrófusafa, vítamín og vatnsglas. Sinnti svo morgunverkunum á baðherberginu áður en ég settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Mætti í vinnu um hálfátta. Það var stór dagur en mun færri hendur á dekki. Engu að síður vorum við innan við níu klukkutíma að klára allt sem þurfti að klára. Fá ef nokkur vandræði komu upp og ég stimplaði mig út áður en klukkan varð hálffimm. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni í sund. Í miðju samtali var reynt að hringja í mig. Þekkti ekki númerið en þegar ég var búin að spjalla við pabba leit ég á símann og þá var þetta esperanto vinkona mín. Hafði ætlað að hringja í hana eftir að ég kæmi heim úr sundi en þar sem hún var búin að reyna að ná í mig hringdi ég strax til baka. Var komin í kalda pottinn um fimm leytið. Kalda potts vinkona mín var búin að synda 300m. Við fórum tvær ferðir í þann kalda og hún synti aðra 300m með mér. Fórum svo aðrar tvær ferðir í þann kalda, gufuna, heitasta pottinn og sjópottinn. Ég var komin heim um hálfsjö. 

12.11.24

Dimmir meir og meir

Það varð eitthvað smá rask á svefninum í fyrrinótt. Rumskaði stuttu fyrir eitt, þurfti þó ekki og fór ekki framúr en ég er ekki viss hve lengi ég var að sofna aftur. Sofnaði samt alveg örugglega aftur því ég vaknaði rúmlega sex, á undan vekjaranum en eiginlega alveg til í að sofa svolítið áfram. Dreif mig nú samt á fætur og sinnti morgunverkunum. Tók þó engar lóða æfingar og greip ekkert í prjónana. Greip þá bara með mér þegar ég fór í vinnuna. Í vinnunni var nóg að gera og aðeins færri hendur á dekki. Allt var þó búið stuttu áður en átta tímarnir voru liðnir. Úr vinnunni fór ég beint í osteostrong. Var mætt hálftíma fyrir "fastan" tíma en þurfti ekki að bíða lengi eftir að komast að. Bætti mig á einu tæki og jafnaði á öðru. Eftir tímann og hvíldina fékk ég mér vatnsglas, kastaði kveðju á þær sem voru að vinna þarna og fór beint í sund. Var komin tæpum hálftíma á undan kalda potts vinkonu minni. Fór eina ferð í kalda pottinn, synti 300m á braut átta og beið svo í 42°C pottinum eftir að Hrafnhildur kæmi af æfingu úr Laugum. Fórum þrisvar í þann kalda. Klukkan var að byrja að ganga sjö þegar ég fór upp úr og heim. Upp úr klukkan átta hringdi besti vinur minn sem varð sextugur í síðustu viku. Við spjölluðum í uþb hálftíma. Hann og hans fjölskylda eru ein af þeim sem eru búin að tæma húsið sitt og afhenda/selja, hafa öruggt húsnæði á Reykjavíkursvæðinu en eru ekki búin að ákveða næstu skref. Dæturnar eru í Háskólanum, vinnan hans í Tollhúsinu en konan hans vinnur á Hótelinu rétt utan við Grindavík. Óvissan er aldrei góð en mér heyrðist samt hljóðið í honum vera nokkuð gott. 

11.11.24

Osteostrong í dag

Ég var frekar hissa þegar ég vaknaði í gærmorgun og uppgötvaði að klukkan var langt gengin í níu. Mig rámar í að hafa aðeins rumskað einhverjum klukkutímum áður á hálfa tímanum. Dreif mig á fætur, tók utan af dýnu sæng og koddum og setti í þvottavél ásamt óhreinum handklæðum og þvottastykkjum sem ég fann á bak við hurð á baðherberginu. Það kom sér vel að ég hafði keypt tyggjó af Davíð Steini hjá N1 við Gagnveg áður en ég fór út úr bænum á laugardaginn því aldrei þessu vant gleymdi ég að taka með mér tannbursta. Vafraði annars um á netinu í smá tíma en ég var komin inn í eldhús að leggja kapal þegar pabbi kom fram um tíu leytið. Á tólfta tímanum matreiddi ég fisk með lauk, kartöflum og rófubitum. Kryddaði fiskinn með cayenne pipar og best á lambið og steikti á pönnu sauð kartöflur og rófu saman, mýkti líka niðurskorinn laukinn í potti áður en ég setti yfir fiskinn á pönnunni. Þetta var mjög gott en sennilega matur fyrir þrjá til fjóra sem við pabbi kláruðum bara tvö. Eftir hádegi settistumst við feðgin inn í stofu og kveiktum fljótlega á sjónvarpinu. Ég greip í prjónana mína og kláraði nýjasta eldhúshandklæðið á meðan ég fylgdist einnig með landsleiknum í handbolta. Eftir landsleikinn fékk ég mér te áður en ég tók mig saman, kvaddi pabba og brunaði í bæinn. Kom við í Hagkaup í Skeifunni til að kaupa mér frækex eins og fæst einnig í heilsuhúsinu. Oddur hjálpaði mér inn með dótið þegar ég kom heim um sex leytið.

10.11.24

Jólakortagerð á Hellu í gær

Vaknaði snemma í gærmorgun, upp úr klukkan sex. Lagði af stað í sund rétt rúmlega átta. Fór eina ferð í kalda áður en ég fór út í laug. Synti alls 800m á brautum 6-8. Meiri hlutann synti ég á bakinu. Eftir næstu ferð í þann kalda fór ég í gufu í uþb tíu mínútur. Var á leið í sjópottinn þegar ég sá sjósundsvinkonu mína í nuddpottinum og tók að sjálfsögðu stefnuna í þann pott. Við höfðum um margt að spjalla og það var maðurinn hennar sem sá til þess að við döguðum ekki uppi í pottinum, eltum hann í sjópottinn þar sem við héldum áfram að spjalla. Og þegar hann ákvað að kalla þetta gott og fara upp úr fórum við tvær saman í kalda pottinn í fjórar mínútur áður en við fórum upp úr. Þvoði mér um hárið og brunaði svo beinustu leið til esperanto vinkonu minnar. Lásum þrjár bls. í Kon-Tiki. Kom við á AO við Öskjuhlíð á leiðinni heim stuttu fyrir klukkan hálfeitt. Gekk frá sunddótinu og fór mjög fljótlega að huga að því að pakka niður. Bankaði á herbergisdyrnar hjá Oddi bæði til að kveðja og setja honum fyrir ákveðið verkefni. Þegar ég var búin að ferma bílinn og búin að setja hann í gang hringdi ég í pabba til að tilkynna honum að ég væri á leiðinni í heimsókn með kortagerðardótið meðferðis. Kom fyrst aðeins við í N1 við Gagnveg til að láta Davíð Stein vita, kveðja hann og versla smávegis eins og t.d. tyggjó. Það var rok og rigning í Þrengslunum kviðurnar upp í 16m á sekúndu. Næsta stopp var í Fossheiðinni á Selfossi. Þar var einnig verið að undirbúa kortagerð. Stoppaði í tæpan klukkutíma og var komin á Hellu um hálffjögur. Settist smá stund inn í stofu með prjónana mína en á fimmta tímanum tók ég fram kortagerðardótið og settist með það við eldhúsborðið. Pabbi var byrjaður á pönnukökugerð. Hann gerði tvöfalda uppskrift og steikti á tveimur pönnum og var búinn fyrir klukkan sex. Ég tók ekki saman mitt dót fyrr en um hálfátta. Þá var ég búin að búa til 14 kort en ég fann 6 tilbúin frá í fyrra og þar sem ég er að skera niður af listanum er ég örugglega komin með kvótann fyrir þetta árið. Fékk mér skyr með chia fræum og rúsínum í kvöldmat og horfði svo á leik Liverpool og Aston Villa 2:0. 

9.11.24

Rok

Það varð smá truflun á svefninum í fyrrinótt. Rumskaði stuttu fyrir eitt, þurfti og fór á salernið. Var ekki að kveikja nein ljós en ég var ekki mjög fljót að sofna aftur. Veit ekki hvenær ég sofnaði en ég svaf amk til klukkan rúmlega sex. Vaknaði nokkrum mínútum á undan vekjaraklukkunni. Í vinnunni var framleiðsludagur. Vorum búnar að framleiða allt fyrirliggjandi rétt fyrir níu en þá fórum við á fund sem framkvæmdastjórinn hafði boðað með nokkurra daga fyrirvara. Yfirleitt eru þessir fundir á miðvikudögum en þá var yfirmaðurinn í öðrum mikilvægum verkefnum. Á fundinn mætti líka forstjóri RB en verið var að fara yfir alls konar mánaðamótatölur úr deildinni okkar. Eftir fundinn fórum við niður aftur, kláruðum að pakka, ganga frá vélinni og telja. Ég var byrjuð í innleggjum um hálfellefu leytið. Öllum verkefnum var lokið um hálfþrjú og ég var komin í Nauthólsvík og út í sjó klukkan þrjú. Sjórinn var aftur kominn yfir fimm gráður. Svamlaði um í korter og hitti svo einn frænda minn í pottinum. Sleppti gufuferð í gær og var komin heim um hálffimm. 

8.11.24

Föstudagur enn á ný

Klukkan var rétt að verða hálfsex þegar ég vaknaði í gærmorgun. Hafði morgunrútínuna mjög líka og dagana áður. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fór niður í kortadeild korter fyrir átta. Uppfærði skiptiblöðin vegna framleiðslu daganna 4.-6. nóv og hlóð einnig inn nýjustu tölum. Petra kom niður korter yfir átta með næstum því öll gögn. Það vantaði eitt skjalið svo hún þurfti að skreppa upp aftur til að prenta það út. Vorum samt byrjaðar að framleiða um hálfníu. Framleiddum fyrst kortin sem ekki fara á form, þau voru eitthvað á annan tuginn. Þegar ég ætlaði svo að setja af stað skrá með kortum sem fara á form og í umslög uppgötvaði ég að það var slökkt á prentaranum. Hann var smá stund að koma upp en mér telst til að hann hafi farið á villumeldingu amk sex sinnum í framleiðsluferlinu í gær. Þannig villumeldingu að þegar hún kom upp þá var það eina í stöðunni að slökkva á honum og kveikja aftur til að fá hann til að halda áfram. Þrátt fyrir þessar tafir lukum við framleiðslu þessara þriggja daga og framleiddum þar að auki síðustu óframleiddu skrána úr nýjustu endurnýjunni og vorum búnar að ganga frá kortadeildinni upp úr klukkan ellefu. Sendum tíu póstbakka upp með lyftunni í skúr eitt. Einn af þeim bökkum var með daglegu kortunum en hinir níu með endurnýjuninni. Restin af vinnudeginum var ég í innlögnum. Öllum mínum verkefnum var lokið um rúmlega hálfþrjú. Var komin á braut átta í Laugardalslaug rétt fyrir þrjú og synti 500m. Var líka búin með eina ferð í þann kalda og nýlega komin í sjópottinn þegar kalda potts vinkona mín kom. Fórum þrjár ferðir saman í kalda, tvær ferðir í þann heitasta og sátum svo góða stund í gufunni. Eftir gufuferðina varð ég að drífa mig upp úr því ég var komin í spreng og yfirleitt klæði ég mig ekki aftur í sundbolinn aftur eftir salernisferðir. Það hefur þó alveg hent sig. En í gær var ég eiginlega búin með rútínuna og þar að auki búin að vera meira en einn og hálfan tíma í sundi. Var komin heim upp úr klukkan fimm. 

7.11.24

Æðibunugangur á tímanum

Var komin á fætur stuttu fyrir klukkan sex og líkt og á þriðjudaginn gerði ég æfingar með lóð áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Mætti í vinnu um hálfátta. Fyllti á vatnsbrúsann, fékk mér heitt vatn í bolla, greip í prjónana mína og spjallaði aðeins við þá vinnufélaga sem sátu á kaffistofunni. Korter fyrir átta fór ég niður í kortadeild en þar var ekkert hægt að gera því það hafði gefið sig eitthvað nauðsynlegt í tölvunni sem stýrir allri vélinni. Þetta hafði gerst daginn áður. Það var maður í yfirferð á svæðinu þá og þar sem þetta var í tölvunni sjálfri var líklegt að til væri varahlutur á landinu. Hann gat hins vegar ekki komið fyrr en eftir hádegi í gær og á meðan var ekkert hægt að framleiða eða gera í kortadeildinni. Við sem áttum að vera þar fórum þá í staðinn í innleggin. Það var auðvitað allt að verða búið uppi þegar viðgerðarmaðurinn mætti með varahlutinn upp úr klukkan þrjú. Ég tók að mér að vera eftir. Viðgerðin tók innan við hálftíma og það var gengið úr skugga um að það kviknaði á allri vélinni. Hleypti viðgerðarmanninum út og var þá orðin ein eftir. Fékk einn samstarfsmann minn, sem hægt er að leita til varðandi tæknimál á vélinni, til að senda yfir nýjustu skrárnar. Spjallaði við hann í gegnum TEAMS. Hlóð skránum inn þegar þær skiluðu sér í möppur skömmu síðar en ég mun svo vinna í skiptiblöðum á eftir. Ég gerði mig svo klára til að fara áður en ég setti öll kerfi á og dreif mig út og beinustu leið í Nauthólsvík. Var komin út í sjó um hálffimm.

6.11.24

Nokkur stór afmæli í dag

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex. Klæddi mig, bjó um og gerði nokkrar lóðaæfingar áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Fékk mér lýsi, rauðrófusafa, kalk og glas af vatni. Settist svo inn í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Vafraði á netinu og setti inn færslu. Stuttu fyrir sjö slökkti ég á tölvunni, færði mig yfir í stofustólinn og greip í prjónana í smá stund. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fyllti á vatnsflöskuna áður en ég fór niður í kortadeild að hlaða inn nýjustu skrám og uppfæra skiptiblöðin. Byrjaði í innleggjunum um átta. Verkefnum dagsins lauk upp úr klukkan þrjú. Var komin á braut átta í Laugardalslauginni um hálffjögur. Synti 500m áður en ég fór fyrri ferðina í kalda pottinn. Sat lengst í sjópottinum enda hitti ég á konu sem stjórnaði barnakór Hallgrímskirkju þegar tvíburarnir voru sex ára og báðir í kór. Við spjölluðum í dágóða stund. Á heimleiðinni kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og 250gr af nætursöltuðum gellum. Þegar heim kom skar ég niður og gufusauð sæta kartöflu til að hafa með gellunum. Hluti af kartöflunni fór reyndar í box og inn í ísskáp. Yfirleitt borða ég ekki heitan mat á virkum kvöldum þar sem ég fæ heitan mat í hádeginu í vinnunni. En ég gerði undantekningu í gær og var bara mjög sátt. Aldrei þessu vant horfði ég svo á Torgið eftir fréttir. Mikið sem þetta unga fólk, sem stóðu fyrir svörum, eru góðar fyrirmyndir.

Annars þekki ég tvö sem eru sextug í dag og eina sem er níræð.

5.11.24

Bókasafn, osteostrong og sund eftir vinnu í gær

Það var vekjarinn sem ýtti við mér klukkan korter yfir sex í gærmorgun. Náði nú samt að sinna flest allri morgunrútínunni á fyrsta virka degi nýrrar vinnuviku. Sleppti aðeins lóðaæfingum. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fyrstu tuttugu mínúturnar fóru í kortadeildarmál en annars var ég í innlögnum í gær. Þegar mínum vinnuverkefnum lauk vantaði aðeins um tólf mínútur upp á átta tímana. Þá var klukkan ekki orðin hálffjögur og ég sá fram á að ég hefði ágætis tíma til að skreppa á bókasafnið í Kringlunni og ég yrði samt ekki sein í vikulegan styrktartíma hjá Osteostrong í Hátúni. Skilaði öllum fimm bókunum, meira að segja Kon-Tiki. Hefði nú samt verið fróðlegt hvort ég hefði fengið samið um að hafa hana í láni aðeins lengur. En ég get örugglega nálgast hana aftur fljótlega. Tók fjórar bækur í staðinn. Ein er ný og er með tveggja vikna skilafrest og önnur er mjög þykk; bók eftir Lucindu Riley, Sólarsystir. Var mætt í Hátún 12 um fjögur. Fasti tíminn er tuttugu mínútum yfir en ég komst að aðeins fyrr en það. Það var annar eigandinn af staðnum sem fór hrysti-æfinga-jafnvægis hringinn með mér og pakkaði mér svo inn í teppi á einum af sex það sem ég vil kalla; hengirúmsbekk. Var komin í sund og á braut 8 stuttu fyrir fimm. Synti 300m, þar af tæplega helminginn á bakinu. Var svo að koma úr fyrstu kaldapottsferðinni af fjórum þegar vinkona mín mætti úr ræktartíma úr Laugum. Klukkan var langt gengin í sjö þegar ég kom heim með hreint og rakt hárið. 

4.11.24

Ný vinnuvika

Færsla dagsins um gærdaginn verður líklega enn styttri en færsla gærdagsins. Dagurinn var semsagt mjög rólegur og tíðindalaus. Fór hvorki í sund né göngutúr. Var komin á fætur fyrir átta. Prjónaði mikið, horfði á bolta og þætti, vafraði á netinu. Dagurinn leið frekar hratt. 

3.11.24

Sunnudagur

Ósköp fátt að frétta af gærdeginum. Var komin á fætur um sjö. Fyrstu þrír klukkutímarnir fóru í morgunrútínu, æfingar, netvafr, prjón og þáttaáhorf. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu leytið. Lásum tvær blaðsíður í Kon-Tiki. Var komin heim aftur upp úr klukkan tólf. Fór ekkert út aftur þannig að já, ég fór hvorki í sund né göngutúr. Gerði líka heldur lítið af því sem ekki má skrifa um. Horfði á fótbolta og þætti, prjónaði og las. Útbjó mér bleikju í kvöldmatinn og var skriðin upp í rúm um tíu. 

2.11.24

Nýr mánuður og aftur komin helgi

Í dag 2. nóvember er afmælisdagur Helgu systur og líkt og ég gat í heilt ár til 17. mars sl, getur hún nú lesið aldurinn afturábak og áfram án þess að nokkuð breytist. Hún er nú sjálfsagt ekkert að spá í þessu sjálf, bara tölu- og afmælisdaganördinn ég. Annars aðeins að gærdeginum. Var mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Sjö tíma og korters vinnudagur fór allur í kortadeildina og kortamál. Fórum langleiðina með nýjustu endurnýjunina. Tókum á móti tæknimanni sem setti logo á eina plasttegund svo hægt væri að klára 20 kort af endurnýjun sem kom fyrir nokkrum vikum. Nú fer framleiðsludögum ört fækkandi og ég veðja á að allri framleiðslu verði lokið fyrir jól. Það verður verulega skrýtið. Aðlögunin hefur þó verið ágæt því það var fyrst mjög skrýtið í upphafi árs að hugsa til þess að það yrðu einungis tveir framleiðsludagar í viku. Ég kom reyndar ekki að kortaframleiðslu þetta árið fyrr en nokkru eftir að ég komst í vinnu aftur eftir úlnliðsbrotið, einhvern tímann um og eftir miðjan apríl. Eftir vinnu í gær fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni þangað. Var komin í sjóinn fyrir hálffjögur. Hann var 2,2°C og ansi kalt að reka andlitið ofan í. Samt ætlaði ég ekki að tíma að fara upp úr, svamlaði að mestu um á bakinu í rúmar tíu mínútur. Fór beint í gufuna og þar var ég næsta rúma korterið. Stakk mér örstutt aftur í sjóinn, hanskalaus og sat svo uþb tuttugu mínútur í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Mjög hressandi og endurnærandi sjósundsferð. 

1.11.24

Kom að lokuðum dyrum

Var komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun og byrjaði á nokkrum æfingum með lóðum áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Mætti í vinnu rúmlega hálfátta. Kláraði fyrsta innlagnarskammtinn á rúmum klukkutíma. Ætlaði svo að skipta yfir í "hefðbundið" kortabókhald en þegar ég ætlaði að færa inn fyrstu tölur á einum stað var staðan á 31.10 nákæmlega sú sama og þann sextánda okt. sl. Ekkert breyttist þótt ég endurræsti tölvuna og ég veit að það voru settar inn endurnýjunartölur og bókhald "lagað" á miðvikudaginn var. Breytingarnar skiluðu sér samt ekki á "sameiginlega" svæðið því ég og sumarliðinn sáum ekki nýjustu tölur. Ég gat fært inn debet og visa en sú sem hafði fært inn og lagað bókhaldið á miðvikudaginn varð að laga mc bókhaldið. Hún sneri sér svo fljótlega að reikningagerðinni. Verkefnum mínum lauk milli tvö og hálfþrjú og þá ætlaði ég svo sannarlega að hitta kaldapotts vinkonu mína í Laugardalslauginni. Vorum þar um hálfþrjú en þá hafði lauginni verið lokað milli hálfeitt og sex vegna sturtu vandræða. Ég var ekki í stuði til að leita á önnur mið og fór bara heim. Skrapp samt í örstuttan göngutúr með poka í texstíl gáminn um fimm leytið. Það kom skrefunum amk að lokum yfir fjögurþúsundogfimmhundruð. 

31.10.24

Sjórinn 4°C og mjög hressandi í gær

Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex. Byrjaði á nokkrum lóðalyftum áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. N1 sonurinn kom á fætur um sjö og var farinn af stað í sína vinnu á undan mér. Skömmu eftir að hann fór heyrði ég að ruslabíllinn var í götunni svo ég var ekkert að flýta mér af stað. Stimplaði mig inn í vinnu uþb tíu mínútum síðar en ég geri oftast en samt vel fyrir klukkan átta. Fljótlega byrjaði ég á innleggjum, létt fyrrum fyrirliða og "sumarliðann" um kortaframleiðsluna. Vinnudegi lauk áður en átta tímarnir voru liðnir. Var komin í Nauthólsvík um hálffjögur. Hringdi í pabba en hann var á fullu í pönnukökubakstri svo við ákváðum á ég hringdi aftur þegar ég kæmi upp úr sjónum. Synti smá hring og var að busla í sjónum í uþb 15 mínútur. Fór beint í gufu og sat þar í annað korter. Stakk mér smá stund í lónið og lenti svo á smá spjalli í heita pottinum. Það var liðinn rúmur klukkutími þegar ég hringdi í pabba aftur. Pönnukökustaflinn klár og hann sagði mér að Ingvi og Hulda hefðu komið kvöldið áður, væru í Friðheimum og ætluðu að gista aðra nótt á Hellu. Ég skrapp í Krónuna við Granda. Kom flestu fyrir í einum stórum krónupoka. Fór með kerruna alveg út að bíl og setti það sem ekki komst í pokann efst í sjósundspokann. Var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu. Á lítið eftir af síðustu bókasafnsbókinni en kláraði ekki í gærkvöldi. Skiladagur er fljótlega í nóvember en þá verð ég búin að vera með fimm bækur í tvo mánuði. 

30.10.24

Mið vika og örstutt í mánaðamót

Vaknaði rétt rúmlega sex, nokkuð á undan vekjaranum. Gaf mér góðan tíma í morgunrútínuna en var þó helst til lengi að vafra um á netinu. Mætti í vinnu um hálfátta. Ákvað að leyfa fyrrum fyrirliða að ákveða hvort ég ætti að taka strax við kortabókhaldinu eða fara beint í innleggin. Það síðara varð ofan á. Engu að síður fór ég þrjár ferðir niður í kortadeild í gær. Það var ekki framleiðsludagur en yfirferð á vélinni og tvö af þremur skiptunum var ég að hleypa yfirferðarmanninum inn í kortarýmið. Í þriðja skiptið kom ég niður til að athuga hvort næstsíðasta kreditendurnýjuninn frá síðasta stóra bankanum hefði skilað sér í rétta möppu. Stimplaði mig út úr vinnu eftir akkúrat átta tíma, um hálffjögur. Var komin á braut 7 tæpum hálftíma síðar. Færði mig yfir á braut sex eftir 100m og á braut 5 eftir 300m á 6 og synti síðustu 300 á fimmtu brautinni. Alls 700m ár ca 35 mínútum. Fór í kalda pottinn í fjórar mínútur en beið svo eftir kaldapotts vinkonunni í sjópottinum. Hún kom um fimm og ein systir hennar skömmu síðar svo við sátum aðeins áfram í sjópottinum. Fórum tvær ferðir saman í þann kalda og eina góða gufuferð en þá var ég búin að vera um tvo tíma í sundi, mál að pissa og mál að koma sér heim. 

29.10.24

Á leið í vinnuna fljótlega

Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun og dreif mig strax á fætur. Oddur kom fram um átta leytið og fór í sturtu. Hann var á leið í skyldunámskeið í Hafnarfirði og var farinn úr húsi um níu leytið. Esperanto hittingur gekk ekki upp í gær en við stefnum á laugardaginn. Skömmu fyrir hádegi dreif ég mig loksins niður í þvottahús, bæði til að setja í vél og taka niður af snúrunum. Bjó mér svo til hafragraut í hádeginu. Davíð Steinn var nýlega kominn á fætur þegar Oddur kom af námskeiðinu um tólf leytið. Þeir bræður ákváðu að skreppa í flösku leiðangur og fengu lánaðan bílinn minn í það verkefni. Ég fékk mér göngutúr að grenndargámunum og var með "dót" í þrjá af þeim; málm-, gler- og textílgáminn. um hálffjögur leytið lagði ég af stað í osteostrong tíma. Fór á bílnum þar sem ég ætlaði beint í sund á eftir. Var svolítið á undan áætlun og að þessu sinni þurfti ég að bíða alveg þar til kom að mínum tíma tuttugu mínútum yfir. Það var alveg í góðu lagi því það voru fleiri að og ég átti þarna skemmtilegt spjall við tvær manneskjur. Kallað var í aðra þeirra á undan mér og hina rétt á eftir mér. Kalda potts vinkona mín var mætt í sundið þegar ég kom þangað um fimm. Fórum á potta og gufurúnt en svo synti ég 100m á bringunni í restina. Þvoði mér um hárið þótt ég hafi ekkert synt á bakinu. Hárið var svo enn smá rakt þegar ég fór í háttinn um hálftíu leytið. 

28.10.24

Síðasti orlofsdagurinn í bili

Rumskaði um fjögur í fyrrinótt. Hefði helst þurft að fara og tæma blöðruna en ég fór ekki fram úr og á fætur fyrr en á áttunda tímanum. Pabbi kom klæddur fram stuttu fyrir klukkan tíu. Hafði að sjálfsögðu komið fram fyrst um sex leytið til að taka niður tölur og fá sér eina klementínu og egg. Hann lagði nokkra kapla en skrapp svo út í skúr að huga að bílnum. Bíllinn fór í gang en samt ákvað pabbi að hlaða geyminn betur og var hann með hann tengdan fram eftir degi. Ég fór að huga að heimferð fljótlega eftir hádegið og kvaddi um hálfþrjú leytið. Var komin í bæinn um fjögur. Fékk Odd til að koma út og sækja ferðatöskuna. Horfði á fótbolta og fleira en var líka að prjóna. Er komin með enn eina tuskuna á prjónana en hef ekki prjónað þetta mynstur áður sem heitir; Togari.

27.10.24

Grill og góður bíltúr

Vaknaði stuttu fyrir klukkan átta og dreif mig strax á fætur. Pabbi var búinn að koma fram en farinn inn í rúm aftur. Hann kom á fætur á ellefta tímanum og sagði að það væri ágætis grillveður. Við ákváðum að ég myndi undirbúa meðlætið upp úr klukkan ellefu og hann grilla. Vorum búin að borða um tólf leytið. Fljótlega eftir hádegisfréttir stefndum við að því að skreppa í bíltúr. Pabbi hafði bakkað bílnum inn í skúr þegar hann kom heim úr bankanum og auka ferðinni úr búðinni á föstudaginn. Þegar hann ætlaði að setja bílinn í gang í gær reyndist hann vera rafmagnslaus. Pabbi á hleðslutæki og það tók um klukkutíma að hlaða bílinn nóg til að koma honum í gang og keyra af stað. Þannig að klukkan var byrjuð að ganga þrjú þegar við lögðum í hann. Fórum upp Næfurholtsveg, Gunnarsholts megin og prófuðum "nýja" veginn frá Heiði að Svínhaga. Héldum áfram upp Rangárvelli, framhjá Næfurholti yfir Rangá og niður Landveg að Landvegamótum þar sem við beygðum inn á þjóðveg 1 og kláruðum hringinn. Bíltúrinn tók okkur uþb einn og hálfan tíma. Restin af deginum fór í allskonar og ekki neitt þannig séð. 

26.10.24

Laugardagur

Varð vör við það þegar pabbi fór af stað í sundið í gærmorgun. Augun voru límd aftur en fljótlega fór blaðran að ýta við mér. Klukkan var samt farin að ganga átta þegar ég fór á fætur. Pabbi kom heim um hálfníu leytið. Þá var ég búin að sitja góða stund fyrir framan tölvuskjáinn. Færði mig inn í eldhús, fékk mér eitt egg og vítamín og lagði nokkra kapla áður en ég færði mig inn í stofu og greip í prjónana. Um tíu útbjó ég mér blóðbergste. Pabbi bauð mér aftur á Kanslarann í hádeginu. Hægt var að velja um plokkfisk, kjötpottrétt, pizzur og sveppasúpu. Fékk mér súpu í forrétt en aðallega plokkfisk og smá smakk af pottréttinum. Pabbi lenti aftur í vandræðum með annað kortið sitt en hitt virkaði. Komum við í búðinni á leiðinni til baka og það var sama vandamál með annað kortið. Þannig að um eitt leytið skrapp pabbi í bankann til að fá aðstoð varðandi "óþæga" kortið. Á meðan ætlaði ég að athuga hvort ég gæti fært myndir af pabba úr símanum yfir í tölvuna hans. Var ekki með rétta snúru og tölvan slökkti á sér og ég gat ekki fengið hana í gang aftur, hélt að ég væri nú búin að eyðileggja hana. Pabbi hringdi og spurði hvort eitthvað vantaði meira úr búðinni, hann þyrfti að nota kortið til að virkja það aftur. Ég sagði honum frá tölvumálunum og bað hann um að kaupa gulrætur og epli. Hringdi í mág minn og spurði út í tölvumálin. Hann kom með góðar leiðbeiningar en meðan við vorum að spjalla var sennilega reynt að hringja dyrabjöllunni því það var líka reynt að opna og fljótlega bankað á hinar útidyrnar. Kvaddi Ingva og opnaði fyrir Ara frænda mínum sem var að koma með sendingu og í heimsókn til pabba og sagði að Oddur bróðir sinn væri líka á leiðinni. Pabbi kom úr bankanum og búðinni fljótlega og Oddur kom með honum inn. Ég var búin að setja á könnuna. Ég taldi mig aldeilis heppna að vera í vetrarfríi og hitta á þessa tvo frændur mína, systursyni pabba. Annar þeirra var að spá í að fara í bíltúr með pabba en þar sem veðrið var ekki að spila með ákváðu þeir að sá bíltúr yrði þegar væri um betri fjallasýn að ræða. Ég gerði ekki mikið meira af mér í gær nema prjóna og horfa á eitthvað í imbanum, vafra stöku sinnum á netinu og leggja kapla.

25.10.24

Um ævintýri gærdagsins

Rumskaði aðeins um það leyti sem pabbi fór af stað í sitt morgunsund korter yfir sex í gærmorgun. Steinsofnaði aftur en glaðvaknaði svo tæpum tveimur tímum síðar. Var því komin á fætur og búin að kveikja á tölvunni hans pabba áður en hann kom heim úr sundi. Morguninn leið hratt og um hálftólf bauð pabbi mér með sér á Kanslarann. Eftir að við komum heim aftur hafði pabbi orð á því að hann vildi leggja af stað í bæinn í fyrra fallinu til að reka amk eitt eða tvö erindi áður en aðal dagskráin byrjaði. Þurftum samt ekkert að vera að huga að bæjarferð alveg strax. Líkt og um morguninn var ég ýmist að prjóna, vafra á netinu eða leggja kapla. Um þrjú leytið skiptum við pabbi yfir í spariföt og um hálffjögur lögðum við af stað í bæinn. Vorum komin á bílaþvottastöðina við Krókháls rúmum klukkutíma síðar. Næst lá leiðin í Dressman í Kringlunni þar sem pabbi keypti sér einar buxur og eina skyrtu. Pinnið á kortinu hans var hins vegar að stríða honum eða hvort hann hitti ekki á takkana á posanum svo ég bauðst til að greiða fyrir vörurnar. Hann þáði það eftir þriðju misheppnuðu tilraunina. Svo bað hann mig um að keyra okkur í Garðabæinn til frænku minnar sem var búin að bjóða okkur í innlit og var það fyrsta heimsókn pabba til hennar eftir að hún flutti úr Bæjargilinu yfir í Fögruhæð fyrir um sex árum síðan. Hún var nýkomin heim úr vinnu en var samt búin að leggja á borð fyrir fjóra og var að hita upp kjúklingasúpu og skera niður brauð. Maðurinn hennar kom fljótlega úr sinni vinnu og við pabbi stoppuðum þarna í eitthvað á annan tíma. Þegar við kvöddum bað pabbi mig aftur um að setjast undir stýri. Fengum sérmerkt stæði í kjallaranum Borgarleikhúsmeginn í Kringlunni. Gátum notað lyftuna við bókasafnið (ekki þó eftir sýningu því þá var búið að loka Kringlunni). Vorum mætt mjög tímanlega eða tuttugu mínútum fyrir. Fann sæti fyrir pabbi við hliðina á konu sem reyndist líka vera að fara á Ellý. Hún var ein á ferð, búsett á Akureyri, og hafði loksins getað nýtt sér ferðina suður til að sjá þetta verk. Var ekki búin að fara áður. Sætin okkar pabba voru no 1 og 2 í 18 og öftustu röð. Þótt margir væru á sýningunni voru nokkur laus sæti í okkar röð og röðinni fyrir framan. Held að pabbi hafi skemmt sér ágætlega. Honum fannst samt aðeins of mikill "vitleysisgangur" fyrir hlé. Ég er nú samt nokkuð viss um að þessi ár sem þá var fjallað um hafi verið frekar skrautleg og ekkert gert of mikið úr þeim þætti. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar sýningu lauk og ég fékk að keyra okkur alla leið austur aftur. Vorum komin á Hellu rétt upp úr miðnætti. 

24.10.24

Komin austur aftur

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Fór strax á fætur og sinnti morgunverkunum. Upp úr klukkan tíu fékk ég mér chia graut með bláberjum og kasew hnetum. Rétt fyrir ellefu tók ég svo til sjósundsdótið og brunaði í Nauthólsvíkina. Það var háflóð, sjórinn innan við 5°C, lítil ferð á logninu og ekki komið svo mikið af fólki. Þó voru einhverjir þegar komnir út í og þegar ég var búin að skipta yfir í sundbol, sundhettu, skó og hanska og var á leiðinni út í mætti ég Guðna Th. Jóhannessyni. Hann virðist viðhalda þeirri venju að fara í sjóinn í hádeginu á miðvikudögum. Ég svamlaði um í uþb tuttugu mínútur, fór beint í gufu í rúmar tíu og þaðan ca mínútu í lónið. Sat svo í heita pottinum í nokkrar mínútur áður en ég fór upp úr. Kom við á AO við Öskjuhlíð og fyllti á tankinn, það var pláss fyrir 18 lítra. Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að huga að því að pakka niður. Klukkan var samt að verða tvö þegar Oddur hjálpaði mér með töskuna út í bíl. Strákarnir voru báðir heima við en Davíð Steinn hafði skroppið í búðina. Hann var að skila sér til baka stuttu áður en Oddur kom með töskuna út í bíl svo ég gat kvatt þá báða. Brunaði beint austur á Hellu. Það var gestur hjá pabba, Árni Sigurjónsson smiður á eftirlaunum. Hann hafði skellt sér í hjólatúr og heimsótti pabba í leiðinni. Var að drekka kaffi, gæða sér á pönnsum og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar eins og sagt er. Eftir að hann var farinn fórum við feðgin í smá kapla keppni áður en ég settist smá stund við tölvuna hans pabba. Sat ekki lengi við heldur færði mig fljótlega inn í stofu og fitjaði upp á bleikri tusku og prjóna eftir munstir sem heitir klifurgrind, erfiðasta mynstrið úr fyrstu tuskubókinni minni. Hef aðeins prjónað það einu sinni áður.