16.5.24

Ferðadagur framundan

Vinnudagurinn í gær varð aðeins lengri en ég hafði áætlað en ég skildi þó við tiltölulega hreint borð þegar ég fór úr húsi klukkan að nálgast hálffimm. Það var framleiðsludagur. "Daglegu" skrárnar kláruðust stuttu eftir kaffi og fundarpásu og þá tók við endurnýjun upp á tæplega þrjúþúsund. Sendum ellefu fulla póstkassa upp með lyftu 1 rétt fyrir fjögur og vorum þá búnar með þessa nokkuð stóru endurnýjun. Þá átti ég bara eftir að bóka, útbúa fylgiskjal með póstinum, stimpla mig út og senda vinnuvikuna til samþykktar ásamt því að haka í alla 28 virku frídagana framundan. Fór svo bjartsýn út í þunga umferðina og náði að komast upp í Grafarholt rétt fyrir lokun hjá Margt Smátt. Þangað sem ég sótti bolla með forsetaframbjóðandanum Baldri og maka hans Felix. Gat bara alls ekki skilið Felix eftir úttundan enda sýnist mér hann styðja mjög vel við bakið á Baldri. Ætlunin var svo að skreppa í sund en ég hvarf frá því. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk. Kom heim klukkan langt gengin í sex og klukkan sjö mætti ég á húsfund niður á næstu hæð. Eftir fundinn kom ég við í þvottahúsinu til að sækja þvott en restin af kvöldinu fór í FBI-þáttaáhorf með Oddi. Var komin upp í rúm um tíu leytið.

 er ég alveg óviss hvernig næstu dagar verða. Er að fara að pakka niður fyrir ferðalag norður í land. Verð hjá systir minni í amk viku og þá er mjög líklegt að ég haldi áfram austur á bóginn og stoppi í nokkra daga hjá æskuvinkonu minni. Fartölvan fer með í ferðalagið og ef ég þekki mig rétt reyni ég að punkta niður það helsta reglulega.

15.5.24

Vinningur á HHÍ miðann minn í gær

Í morgunæfingunum skiptist ég nú á að nota 2 x kíló og 2 x 1,5 kíló í hvorri hönd. Í gærmorgun voru það léttari lóðin. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Það var einfaldlega klikkað að gera í vinnunni og ég var ekki búin fyrr en klukkan að verða hálfsex. Eins og ég hefði nú haft gott af því að skella mér beint í sund og kaldan pott þá skrópaði ég og fór beint heim. Hringdi í pabba áður en ég fór inn úr bílnum. Gleymdi að segja honum að yngri dótturdóttir hans er að útskrifast með sveinspróf í kjötiðn aðra helgi. Dugnaðarforkurinn hún Bríet sem verður tvítug í næsta mánuði. 

14.5.24

Blár himinn

Morgunrútínan gekk ágætlega að venju í gærmorgun. Notaði 1,5kg lóðin við æfingarnar og vandaði mig við að gera alls konar. Held að ég hafi "tekið" á því í uþb fimmtán mínútur. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Stimplaði mig inn og byrjaði fljótlega að taka saman tölur og prenta út skjöl vegna korta áður en ég byrjaði í innleggjunum. Fyrirliðinn fór niður að hlaða inn skránum og útbúa skiptiblöð. Tvær sumarstúlkur byrjuðu í gær. Önnur var með okkur í fyrra sumar og kom líka í jóla og páskafríinu. Hin var að koma í fyrsta skipti. Vinnu lauk ekki fyrr en um fjögur. Þá dreif ég mig beint í sund. Synti reyndar ekkert en fór fjórar ferðir í kalda með kalda potts vinkonu minni. Fór upp úr um fimm leytið og ætlaði mér að ná í vörur sem ég var að panta um helgina hjá Margt Smátt. Hélt að það væri opið til klukkan sex en það lokar klukkan fimm svo ég kom að læstum dyrum og verð að gera mér aðra ferð. Kom heim um hálfsjö. 

13.5.24

Þrír vinnudagar í þessari viku

Svaf mun betur í fyrrinótt og vaknaði hress og endurnærð um sjö leytið. Klukkan var samt farin að ganga ellefu áður en ég lagði af stað í sund. Laugardalslaugin var opnuð aftur á laugardaginn. Ég byrjaði á kalda pottinum sem var þó í heitara lagi eða rúmlega 9°C. Synti 400 metra, ca helminginn á bakinu. Aftur í kalda, þá gufu, kalda sturtu, nuddpottinn, sjópottinn og endaði svo á kalda pottinum og smá "sólbaði" áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið. Kom heim upp úr klukkan tólf. N1 sonurinn var á vakt en þegar hinn sonurinn rumskaði fékk ég hann í lið með mér í þau verk sem sjaldnast er skrifað um. Hringdi í Önnu frænku, pabba og Ellu vinkonu. Hún var að fara að horfa á sama leik í enska og við Oddur; Man. Utd - Arsenal sem fór á besta veg fyrir gestaliðið sem á möguleika á að vinna deildina en aðeins ef Man. City tapar stigum í frestuðum leik í vikunni. 

12.5.24

Letidagur í gær

Vaknaði alltof snemma eða svaf of lítið. Held að ég hafi ekki sofnað neitt aftur eftir að ég rumskaði fyrir fimm í gærmorgun. Var komin á fætur um sexleytið. Vafraði um á netinu, gerði æfingar og horfði á þætti. Fór ekkert í sund en skrapp til esperanto vinkonu minnar milli hálfellefu og tólf. Fór ekki í göngutúr en horfði á landsleik, þætti og gerði æfingar. Var komin í rúmið fyrir klukkan hálftíu. Leysti sudoku og las til klukkan tíu. Man ekki hvenær ég sofnaði en svaf amk miklu betur í nótt þrátt fyrir samviskubitið yfir letinni. 

11.5.24

Einn þriðji búinn af maímánuði

Í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma vakti vekjaraklukkan mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Hafði samt góðan tíma fyrir alla morgunrútínu og var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnbrúsann og fengið mér bolla af heitu vatni fór ég niður að hlaða inn nýjum skrám og undirbúa framleiðslu. Daglegri framleiðslu lauk um hálftíu. Endurnýjuðum rúmlega átjánhundruð kort. Gengum frá kortadeildinni rúmlega hálfþrjú. Var komin í Nauthólsvík um hálffjögur og heim klukkutíma síðar. 

10.5.24

Stakur vinnudagur

Var ekkert að drífa mig á fætur í gærmorgun en var þó komin á stjá um átta. Notaði 1,5 kg lóðin í fyrsta skipti í morgunæfingunum. Um hálfellefu dreif ég mig út í göngutúr. Hann var um þrjár lotur og eitthvað á sjötta kílómeter og rúmur klukkutími í heildina. Var samt ekki komin heim aftur fyrr en rúmlega tólf. Um eitt leytið bankaði nágranninn í risinu og spurði hvort hann mætti mála veggina meðfram stiganum upp til hans. Það var sjálfsagt mál. Hann spurði meira að segja um lit. Ég sagði að mín vegna mætti hann alveg ráða því. Hann var reyndar bara með hvítan í huga en seinna um daginn þegar hann var búinn að undirbúa og byrjaður að mála og ég var á leiðinni í þvottahúsið spurði ég í gríni hvort hann hafi ekki verið að hugsa um bleikan. Hann svaraði af bragði "Nei, en kannski næst....". Held samt ekki. 

9.5.24

Hundraðastaogfyrsta færsla ársins

Morgunrútína gærdagsins var svipuð og aðra virka daga. Tók sjósundsdótið með í bílinn. Mætti í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Í gær var framleiðsludagur. Daglegri framleiðslu lauk um hálftólf. Eftir hádegi endurnýjuðum við tólfhundruð kort. Stimplaði mig út um fjögur. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og ýsu- og bleikjuflök. Sá að það myndi eiginlega ekki gefast tími til að skreppa í Nauthólsvík og fór heim. Bar á skóna mína og slakaði á til klukkan að ganga sex. Þá pússaði ég skóna, klæddi ég mig aðeins upp, fór í kápu og rölti yfir á Finnson í Kringlunni. Þar hitti ég marga af vinnufélögum mínum í Seðlaverinu en samkoman var í tilefni þess að einn vinnufélaginn var að hætta um daginn. Við vorum semsagt að kveðja hann með því að fara með honum út að borða og á eftir fórum við á litla sviðið í Borgarleikhúsinu á sýninguna "Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar". Á Finnson fengum við súpu í forrétt og ég var ein af þremur sem fékk mér þorskhnakka. Það var einnig boðið upp á vín eða gos með matnum og kaffi á eftir en ég sleppti því og var einungis í hversdags hvítvíninu, vatninu. Sýningin var mjög skemmtileg, mikið hlegið. Ég rölti svo heim aftur og var komin heim skömmu fyrir klukkan ellefu.

8.5.24

Laugardalslaug biluð

Ég var byrjuð á morgunæfingunum upp úr klukkan sex í gærmorgun og var í fyrsta skipti með lóð í báðum höndum. Er enn aðeins að vinna með eins kílóa lóðin en það styttist nú í að ég prófi að nota næstu lóð fyrir ofan, 1,5kg. Var mætt í vinnu um hálfátta. Fór fljótlega niður að hlaða inn nýjustu skrám. Ein mappan var þó galtóm. Tæknimaðurinn þurfti að "handflytja" hana yfir um tíu leytið. Annars var mjög mikið að gera í innleggjunum og ég var að vinna að þeim alveg til klukkan að ganga fjögur. Vinnudeginum mínum lauk klukkan að verða hálffimm. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardagslaug. Þegar ég kom svo þangað voru margar tilkynningar um að loka þyrfti fyrir almenning milli áttunda og tíunda maí og að einungis pottar og gufa væru opið þann daginn. Laugin var að tæmast og það þarf að gera við einhvern galla áður en hægt verður að fylla hana á ný og opna fyrir almenning. Ég synti því ekkert í gær en náði þremur ferðum í kalda pottinn með kalda potts vinkonu minni, einni í gufuna og einni í sjópottinn. Kom við á bóka safninu á leiðinni heim. Skilaði öllum sex bókunum. Eina hafði ég ekki náð að klára þótt ég hafi framlengt frestinum sem hefði verið að renna út í dag áttunda. Tók þrjár bækur með mér mér heim og passaði upp á að þær væru ekki skammtímalánsbækur. Ein af þeim er smásögusafn eftir Nesbö. 

7.5.24

Búin að kjósa

Vaknaði rúmum hálftíma áður en klukkan átti að ýta við mér. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég fyrstu æfingalotu dagsins áður en ég settist svo í sófann með fartölvuna í fanginu. Mætti í vinnu rúmlega hálfátta. Eftir að hafa stimplað mig inn, fyllt á vatnsbrúsann og fengið mér bolla af heitu vatni fór ég niður í kortadeild til að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Var byrjuð að vinna innlegg upp úr klukkan hálfníu. Klukkutíma síðar skrapp ég í smá kaffipásu. Er ekki enn farin að drekka kaffi aftur en það er eitthvað sem segir mér að það breytist kannski fljótlega eftir að ég fer í sumarfrí. Var annars að vinna til klukkan fjögur. Þá skrapp ég yfir í Holtagarða til að kjósa utan kjörfundar í komandi forsetakosningum. Það gekk nokkuð fljótt og vel fyrir sig. Var komin í kalda pottinn um hálffimm. Náði tveimur ferðum með kalda potts vinkonu minni en hún þurfti að fara um fimm. Þá fór ég eina ferð í gufuna og synti svo aðeins 200 metra. Eftir sundið lá leiðin í Skeifuna. Keypti alls 6,5kg af handlóðum í Hreysti, 1x1kg, 1x1,5kg og 2x2kg. Verslaði svo í Krónunni fyrir rúmlega tólfþúsund. Fékk stæði fyrir framan no. 15 í götunni. Þurfti að hafa fyrir því að ná sambandi við Odd en það tókst og hann kom og sótti flesta pinklana. Ég var að spjalla við tvíburahálfsystur mína í rúman hálftíma áður en ég fór inn. Eina sem Oddur tók ekki með inn var pokinn með lóðunum og ég spaugaði við hann um að hann hefði skilið eftir þyngsta pokann fyrir mig. Davíð Steinn var annars lasinn í gær, með leiðinda hálsbólgu. Hann er sennilega ekki að fara til vinnu í dag heldur. 

6.5.24

Fjögurra daga vinnuvika framundan

Sunnudagurinn hófst mun fyrr en áætlað var, eða um fimm leytið. Hugsanlega náði ég aðeins að gleyma mér aftur en ég heyrði amk stofuklukkuna slá á heila og hálfa tímanum. Fór á fætur um hálfátta. Var að vafra um á netinu í einn og hálfan tíma en þá tók ég loksins til við fyrstu æfingalotu dagsins. Prjónaði smá, lagði kapla og var með bók á kantinum. Las samt lítið sem ekki neitt. Pabbi kom klæddur fram á ellefta tímanum. Ég hafði þó heyrt í honum um sexleytið en þá kom hann fram til að taka niður tölur og fá sér ávöxt og harðsoðið egg áður en hann lagði sig aftur. Ég var eitthvað að spá í að skreppa út í göngutúr en það varð ekkert úr því. Kláruðum signa fiskinn í hádeginu, spjölluðum, fórum í smá kaplakeppni og svo horfðum við á fyrri hálfleikinn í leik Liverpool og Tottenham. Ég tók mig saman og kvaddi um hálffimm leytið og var komin heim um sex.

5.5.24

Siginn fiskur

Gærdagurinn byrjaði rétt fyrir sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég æfingar í korter áður en ég settist í sófann með fartölvuna í fanginu. Klukkan langt gengin í níu var ég komin á braut 7 í Laugardalslaug og synti þar 500m á 25 mínútum, ca aðra hverja ferð á bakinu. Fór tvisvar sinnum fimm-sex mínútur í kalda pottinn, 15 mínútur í gufu, 10 mínútur í sjópottinn og smá sólbað. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var komin vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu leytið. Vorum reyndar lítið stemmdar fyrir esperantolestri en fórum þó yfir glósurnar frá því 1. maí. Kom heim um hálfeitt. Klukkutíma síðar brunaði ég af stað austur. Kom við hjá Jónu Mæju og Reyni. Stoppaði þar dágóða stund og var klukkan byrjuð að ganga fimm þegar ég kom á Hellu. Fljótlega eftir að ég kom bauð pabbi mér í bíltúr upp að Heiði. Keyrðum reyndar smá hring og komum niður vestan við á, afleggjarann að Bjargi, Heiðarbrún, Árbakka og fleiri góðum bæjum. Pabbi var svo með siginn fisk í matinn og ég sá um uppvaskið. 

4.5.24

Hætt að rigna í bili

Vaknaði snemma í gærmorgun og var viljandi mætt í vinnuna rétt upp úr klukkan sjö. Þetta var eini kortaframleiðsludagur vikunnar. Vélin var reyndar alls ekki mjög samvinnuþýð fyrsta klukkutímann en þegar hún fór loksins að hlýða náðum við að klára skammtinn sem þurfti að vera tilbúinn síðar um morguninn stuttu fyrir níu. Þá þurfti ég að skreppa frá í tæpan klukkutíma. Átti tíma hjá skurðlækninum sem gerði aðgerðina á hægri úlnliðnum. Var mætt mínútu fyrir settan tíma en þurfti að bíða aðeins. Lækninum leist vel á framfarirnar en hann vill samt fylgja mér eftir. Urðum ásátt um að næsta skoðun verði í endaðan janúar eða byrjun febrúar þegar ár verður liðið frá aðgerð. Var komin aftur í vinnuna tíu mínútum fyrir tíu. Fór í smá kaffipásu og fyllti á vatnsbrúsann. Kláruðum dk daginn á tveimur tímum fórum þá í mat. Daglegri framleiðslu lauk um hálftvö. Svo kláruðum við að endurnýja tæplega sexhundruð kort. Gengum frá kortadeildinni um þrjú en það tók mig rúman hálftíma að ganga frá bókhaldi og póstsendingum þrátt fyrir að hafa verið búin að klára sumt af því í hádeginu. Skrapp beinustu leið í 7,4°C sjóinn eftir vinnu. Fór tvær ferðir ofan í og eftir seinni ferðina fór ég upp úr án þess að fara í sturtu. Rétt skolaði af fótunum og skolaði úr sundbolnum og af strandskónum. 

3.5.24

65 heimsóknir í blóðbankann

Var vöknuð nokkru á undan vekjaraklukkunni eins og oftast áður. Eftir morgunverkin á baðherberginu gerði ég æfingar með og án lóða í rúmar tíu mínútur. Er enn eingöngu að nota eitt eins kílóa lóð. Hugsa að ég fari að huga að því að fjárfesta í öðru eins svo ég geti gert æfingar með lóð í báðum höndum. Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Stimplaði mig inn, fyllti á vatnsbrúsann og fékk mér bolla af heitu vatni. Fram til hádegis, með smá kaffipásu, var ég svo að vinna að mánaðamótauppgjöri kortadeildar. Eftir hádegi fór ég svo í innlegg og yfirferðir. Stimplaði mig út mínútu áður en átta tímar "duttu" á klukkuna. Hringdi í nöfnu mína og frænku Baldvinsdóttur (pabbi hennar var bróðir móðurömmu minnar) og spjallaði við hana á meðan ég keyrði að blóðbankanum við Snorrabraut. Hún hafði verið í vinnuferð og gist á Stracta hótel við Hellu fyrr í vikunni og notað tækifærið og heimsótt pabba. Ég var annars svo ljómandi heppin að fá stæði við blóðbankann hálftíma áður en ég átti tíma. Það gaf mér tíma til að fá mér eitthvað í svanginn og drekka meira vatn. Sú sem sótti mig á kaffistofuna er frá USA en talar smávegis í íslensku og vill æfa sig í henni. Hún fékk að velja hvorn handlegginn hún vildi stinga í og valdi vinstri.  Hitti í fyrsta og var rennslið gott. Pokinn fylltist á ca sjö mínútum. Fékk glas/box af járntöflum með mér heim af því að ég bað um það. Mun taka smá kúr næstu daga og svo eftir rúma þrjá mánuði til að undirbúa mig undir næstu heimsókn, þ.e. ef ég fæ ekki skilaboð um að hvíla í auka mánuð. Horfði á nokkra NCIS þætti með Oddi en fór snemma í háttinn, eða milli níu og hálftíu. 

2.5.24

Baráttudagur

Ég var komin alltof snemma á stjá miðað við að það var rauður dagur í gær. Gerði æfingarnar mínar,  vafraði um á netinu, prjónaði og horfði á einn þátt. Upp úr klukkan tíu tók ég esperantodótið mitt og skrapp vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Komst heim aftur áður en götulokanir vegna Sniglanna tóku gildi. Um tvö leytið skrapp ég í góðan göngutúr um Öskjuhlíðina og Fossvogskirkjugarð. Í heildina urðu það um 4km. Hitti kött, sá kanínu og faðmaði tré. Kláraði að horfa á þriðju seríuna af Babýlon Berlín. Fór snemma í háttinn en las til klukkan að verða tíu.

1.5.24

Aftur smá yfirvinna

Vaknaði upp úr klukkan sex nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Tæpum einum og hálfum tíma síðar var ég mætt í vinnu. Fleiri hendur voru á dekki í gær en í fyrradag sem betur fer því það var nóg að gera. Sá sem er í afgreiðslunni sagðist ekki muna eftir jafn stórum degi í innlögnum og oft hafa þeir verið stórir. Síðasta innleggið var klárað upp úr þrjú. Þá var samt vinnunni alls ekki lokið. Ég snéri mér reyndar að því að undirbúa mánaðamótin fyrir kortadeildina og sinnti þeim málum þar til flest annað var að klárast. Þegar ég stimplaði mig út var ég búin að vera á staðnum í níu tíma. Hringdi í pabba á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Spjölluðum aðeins stutta stund því það var gestur hjá honum. Fékk samt að vita að Helga systir hafði líka hringt í hann í gær. Hafði notað tímann þegar hún var á leiðinni heim úr vinnu. Ég synti 400m, fór 2x5 mínútur í kalda pottinn og 15 mínútur í gufuna. Var komin heim um hálfsjö.