30.11.14

Í tilhleypingateiti hjá séranum eða "Pete-dating"

Vaknaði afar snemma í gærmorgun en eftir ákveðin morgunverk tókst mér að kúra til klukkan að ganga níu.  Þá greip í bók og kláraði að lesa.  Var hjá norsku esperanto-vinkonu minni á slaginu ellefu og stoppaði hjá henni í um tvo tíma áður en ég fór að versla.  Oddur gekk frá vörunum að venju er ég kom heim en nennti ekki með mér í sund.  Davíð Steinn kom með mér en við stoppuðum ekki lengi.  Ég synti aðeins 200 m og fór svo í 38°C heitan pott ásamt syninum sem ekkert synti en hafði byrjað á því að fara í 42°C heita pottinn.  Fljótlega eftir að við komum heim sá hann um að útbúa lasanja í kvöldmatinn.

Rétt upp úr átta var ég mætt á Hagamelinn til séra Péturs.  Fór í samskonar teiti hjá honum í fyrra en verið var að halda upp á kirkjuáramótin.  Ég minnist þess að hafa skemmt mér ágætlega í fyrra og þessi veisla var ekkert síðri nema síður sé.  Hitti fullt af áhugaverðu fólki og þekkti eða kannaðist við sumt af því.  Það var mikið spjallað og hlegið.  Pétur bauð upp á svartbaunaseyði og seytján sortir (en það var svarið hans er ég spurði hversu margar sortir hann hefði bakað fyrir jólin) og svo komu amk tvær konur færandi henni með skyrtertu og annað bakkelsi. Var í teitinu alveg þar til kirkjuárinu hafði verið skotið upp um miðnætti.

29.11.14

Aðventan að byrja á morgun

"Heyrði ég rétt" hugsaði ég með mér og var glaðvöknuð á augabragði þótt klukkan væri ekki nema tæplega sex að morgni í gærmorgun.  Mér heyrðist ég heyra dropa skella á plasti.  Við nánari athugun virtist dropa úr loftinu við hornið við útvegginn.  Eitthvað sagði mér að þetta tengdist ekki rigningunni úti heldur leka á baðherberginu uppi.  Ég færði frá dótið sem þarna var og setti handklæði á gólfið. Var svo bara svo köld að drífa mig bara á fætur fá mér eitthvað í gogginn og leggja af stað í vinnuna.  Ég var mætt þangað korter fyrir sjö til að leysa aðra vaktmanneskjuna af.  Um hádegisbil hringdi svo leigjandinn í risinu í mig og sagði að það læki hjá honum rör í baðherberginu.  Um það leiti kom líka í ljós að ég þyrfti að standa vaktina lengur því önnur manneskja á "kvöldvaktinni" (13-19) hringdi og tilkynnti veikindi.  Sem betur fer var verkefnið langt komið og kláraðist á fimmta tímanum.  Ég notaði þá tímann með hinni vaktmanneskjunni til að telja kortalagerinn.  Klukkan korter yfir fimm sagði ég þetta gott.  Gaf samstarfsmanni mínu leyfi til að hætta fyrr og skutlaði honum meira að segja áleiðis heim til sín.

Þegar heim kom var verið að reyna að stoppa lekann uppi og búið að loka fyrir vatnið.  Ég bauð strákunum með mér út að borða á pítuna en að öðru leyti var kvöldið bara rólegt og endaði fyrir miðnætti hjá mér.

28.11.14

Sá síðasti virki í nóvember

Fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Tæmdi samt fyrst út úr yfirhafna og skóskápnum í holinu.  Skórnir voru reyndar komnir fram í gang á skórgrindinni fyrir nokkru og ég leyfði því sem var á hillunni að vera þar áfram.  En allt sem var á herðatrjám á slánni fór ég með inn á rúm í herðatrjánum. Skildi svo skáphurðina eftir galopna svo iðnaðarmennirnir sæu að það hafði kvarnast smá úr vegnum vegna framkvæmdanna inni á baði.  Vinnudagurinn lengdist annars aðeins í annan endann og var klukkan orðin hálffimm þegar ég stimplaði mig út.  Tók strætó aftur heim.  Hafði pastarétt í kvöldmatinn um sex.  Skutlaði Oddi upp í Breiðholt á spilakvöld rétt fyrir sjö og fór svo beint í laugina í Laugardalnum.  Horfði á síðari helming seinni hálfleiks í handbolta karla milli ÍR og FH þegar ég kom heim aftur eftir sundið.  Rétt fyrir tíu hringdi Davíð Steinn í mig og spurði hvort ég gæti sótt sig en hann hafði líka skroppið í sund með vini og höfðu þeir farið með strætó.  Ég sótti strákinn og náði tímanlega heim aftur fyrir "Criminal minds" á rauntíma.  Fljótlega eftir það fór ég í háttinn og þorði ekki að lesa neitt þar sem ég þurfti að fara fyrr á fætur í morgun  en venjulega.

27.11.14

Sópran

Strákarnir fengu far í skólann með mér í gærmorgun.  Ég fór svo næstum beint inn á vél ásamt nýjasta starfskraftinum.  Við leystum þær sem staðið höfðu vaktina fyrsta klukkutímann.  Tæpum klukkutíma síðar varð að leysa mig af í smá stund þar sem ég þurti að aðstoða kerfisfræðing við ákveðið verk.  Hann stoppaði við í um tuttugu mínútur og þá fór ég aftur inn á vél til.  Um hálfellefu varð ég að skreppa frá í einn og hálfan tíma til að sinna smá erindum.  Engin ljós stoppuðu mig af bæinn á enda og aðeins örfá á bakaleiðinni.  Og það sem meira er að þá voru fjögur laus stæði á neðra planinu við Seðlabankann þegar ég kom til baka svo ég þurfti ekki að leggja í gjaldstæði.  Vinnudagurinn leið annars hratt og örugglega og teygðist smá stund úr honum.  Það kom sending til okkar upp úr hédeginu en það vannst enginn tími til að sinna þeim málum í gær.  Kerfisfræðingurinn mætti aftur á svæðið um eitt og fékk afnot af tölvunni minni til rúmlega fjögur.  Þá var hann líka búinn að gera sitt til að hægt yrði að byrja á verkefni sem staðið hefur til að byrja á, í á annan mánuð.  Enn vantaði þó rétt form svo það var hægt að nota tímann til að vinna á mánaðarlegri endurnýjun.

Mætti á kóræfingu um hálfsex og fékk skýringu og rökstuðning fyrir því hvers vegna stjórinn vill að ég syngi með sópran.  Ég er víst með svo sterka og bjarta rödd sem hljómar miklu betur með sóprönnunum.  Fengum annars liðstyrk í bassa og sópran, tvö sem ætla að vera með okkur á aðventukvöldinu og á næstu æfingu fær altinn eina til sín.  Æfingin gekk annars mjög vel og fengum við hrós frá Árna kórstjóra sem var afar ánægður með okkur.

Byrjaði á nýrri bók "Það kemur alltaf nýr dagur" eftir Unni Birnu Karlsdóttur (f.´64) áður en ég fór að sofa í gærkvöldið og ég ætlaði ekki að geta lagt bókina frá mér.  Las miklu lengur en ég hafði hugsað mér og var klukkan byrjuð að ganga eitt þegar ég náði lokst að leggja frá mér bókina, slökkva á lampanum, biðja bænirnar og svífa inn í draumalandið.

26.11.14

"Bleiku skórnir mínir"


Örstutt um gærdaginn

Notaði strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu.  Í nógu var að snúast í vinnunni og þessa dagana er framleiðsla byrjuð strax upp úr sjö og stendur uþb 12 tíma.  Þ.e. ef ekkert kemur upp á.  Eftir kvöldmat bauð ég strákunum að koma með mér í sund.  Annar þekktist boðið en hinn sagðist vera þreyttur.  Ég synti 450 m á bringunni og 50m á bakinu.  Catle var byrjaður þegar við komum heim en þá horfðum við bara á hann á tímarásinni.  Var komin upp í fyrir ellefu og kláraði bókina um Mensalder Mensalderson.

25.11.14

Saumaklúbbur

Á mánudögum fer ég oftast á lánsbílnum til vinnu og tvíburarnir fá far upp í Tækniskóla í leiðinni. Það var engin undantekning á þessu í gærmorgun.  Ég mætti til vinnu stuttu fyrir átta og hitti fyrir tvær sem voru búnar að vinna síðan klukkan sjö.  Ég samdi við þær um að halda áfram á vélinni til tíu. Þær komu svo með fína tillögu um hvernig þetta gæti verið eftirleiðis, þ.e. að e-r tveir af þeim þremur sem mættu klukkan átta færu þá á vélina og þær eða þau sem væru á vélinni frá sjö til átta tækju aftur við um klukkan tíu.  Klukkan níu kom nýr starfsmaður til okkar.  Fyrsti vinnudagur þess aðila var til klukkan eitt.  Viðkomandi var "hent beint út í djúpu laugina" og mun eftir fyrstu vikuna taka þátt í vaktaplaninu. Um svipað leyti og nýji starfskrafturinn, sem er ráðinn tímabundið í tvo til þrjá mánuði, kom mætti einn af þeim sem var ráðinn inn tímabundið fram í mars og byrjaði hjá okkur í septemberbyrjun.  Viðkomandi var hjá okkur part úr sumrinu en er aðeins í 50% stöðu og mætir ýmist um níu eða tíu. Klukkan eitt mættu síðustu tvö til vinnu, önnur búin að vinna á deildinni í nokkur ár og hinn síðan í september.  Þau stóðu vaktina til sjö.  Fljótlega eftir að allt daglegt var búið kom í ljós að vélin var alls ekki samvinnuþýð við að setja kort á formum í umslög. Viðgerðarmaður var kallaður út og var hann að fram á kvöld en náði ekki á ljúka verkinu.  Svo heppilega vildi til að það var annars konar endurnýjun í gangi heldur en sú sem fer á form og í umslög.

Kom heim upp úr fjögur.  Kveikti á tölvu og vafraði um þar til tími var kominn til að huga að kvöldmatargerð.  Var tilbúin með ofnbakaða bleikju, soðnar kartöflur og gular baunir í heitu bræddu smjöri um sex.  Annar tvíburinn var ekki einu sinni kominn heim úr skólanum en kom svo fljótlega. Um hálfátta sótti ég Lilju vinkonu og saman brunuðum við til tvíburahálfsystur minnar í saumaklúbb, sennilega síðasta saumaklúbbinn á árinu.  Ég vann í að ljúka við útlínusaum á nýjasta verkefninu og á nú aðeins hálfa mynd eftir af sex.  Tíminn flaug og við gleymdum okkur alveg í spjalli, kaffidrykkju og handavinnu.  Skilaði Lilju heim upp úr ellefu og var komin heim um hálftólf.  Vafraði smá stund um á netinu og háttaði mig svo upp í rúm með bókina Mensalder eftir Bjarna Harðarson.

24.11.14

Síðast vika nóvember hafin

Um hugann þungir þankar nú,
því reyni ekki´ að neita.
Held að spurning helst sé sú
hvar svara er að leita?

Ég byrjaði morguninn á að lesa í um klukkutíma, milli átta og níu, áður en ég fór á fætur.  Morguninn leið nokkuð hratt og fyrr en varði komið hádegi.  Var mætt upp í kirkju á aukaæfingu um tólf.  Þar byrjuðum við á því að renna yfir jólalögin áður en við fórum svo yfir sálmana sem syngja átti í messunni.  Að messu lokinni var boðið upp á "bráðabrauð í neðra"  (vöfflur í neðri safnaðarsalnum) og settist ég niður um stund með eitthvað af kórfélögunum og fékk mér kaffi og vöfflu. Áður en ég fór heim kíkti ég á lokadag tónlistar- og myndbandamarkaðarins í Perlunni.  Strákarnir fóru í sund með vini sínum eftir kvöldmat en ég greip í saumana mína og horfði á RÚV frá sjö til klukkan að ganga tíu.  Endaði svo kvöldið eins og ég byrjaði daginn, með því að lesa um stund upp í rúmi.

23.11.14

Messudagur

Þrátt fyrir að það félli niður esperantohittingur og að ekkert sérstakt væri á dagskránni var ég komin á fætur upp úr átta.  Það var samt ekki fyrr en á ellefta tímanum sem ég fór að gera eitthvað af viti og stakk í eina þvottavél.  Klukkan að ganga tvö var ég búin að hengja þvottinn upp og skrapp þá á safnið að skila bókum og gefa bækur.  Ég skilaði einum sex bókum, þar af tveimur sem voru alveg að komast á tíma.  Þrátt fyrir að aðrar sex bækur af safninu væru enn heima ólesnar tók ég tvær að láni.  Næst lá leiðin í Krónuna út á Granda þar sem ég verslaði aðeins ofan í tvo poka.  Áður en ég fór heim lét ég snertilausu þvottastöðina, Löður, við Skúlagötu skola utan af lánsbílnum.  Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom með þær heim og svo fórum við öll mæðginin í Laugardalslaugina.  Ég synti 500m og skrapp bæði í sjópott og gufu.  Lét svo bræðurnar fá 1000kr. upp í pylsu og kók í pylsuvagninum en fékk mér sjálf aðeins kaffibolla.  Oddur bað mig svo um að skutla sér á Hlemm þar sem hann ætlaði að kaupa sér strætómiða eftir innlögn frá pabba sínum og skreppa svo til hans.  Davíð Steinn hafði líka fengið innlögn en hann átti stefnumót um kvöldið.  Upp úr sex setti ég upp kartöflur og steikti lifrarpylsu og slátursneiðar handa okkur.  Hellti líka upp á kaffi.  Tók svo fram saumana mína og settist fyrir framan skjáinn eftir mat.  Horfði á imbann til hálfeitt en ég saumaði nú alls ekki svo lengi.  Er byrjuð á útlínum á nýjasta verkefninu og náði að klára eina af sex og byrja á annarri.

22.11.14

Óraunveruleiki

Í gærmorgun ákvað ég að fara á lánsbílnum til vinnu í þriðja skiptið í vikunni.  Hluti ástæðunnar er sú að annar tvíburinn snéri á sér hnéð í sundi í á miðvikudagskvöldið og ég ákvað að gott væri að hann gæti hlíft því sem mest í nokkra daga.  Vinnudagurinn leið einhvern veginn og þá sennilega helst vegna þess að í nógu var að snúast.  Fékk t.d. verkefni í hendurnar sem ég hef ekki þurft að leysa alein og sjálf áður en með góðum skriflegum leiðbeiningum og minni frá því fylgdist með svipuðu verk í haust þá leysti ég málið á korteri.

Til stóð að strákarnir kæmu með mér í sund eftir vinnu.  Annan sótti ég í skólann og sá var á leið í spilasession og taldi sig ekki hafa tíma til að skreppa í laugina.  Hinn bróðirinn hafði fengið far heim úr skólanum en þótt hann væri ekki að fara á spilakvöld langaði hann ekki með fyrst bróðir hans ætlaði ekki.  Ég dreif mig því ein í Laugardalinn.  Synti mína 500 metra, fór í42°C pottinn, svo í sjópottinn og að lokum í gufu áður en fór upp úr.  Spilastrákurinn var farinn þegar ég kom heim við hin létum okkur nægja að fá okkur afganga í kvöldmatinn.

Horfði aðeins á Skjá1 um kvöldið allan tíman að hugsa um að taka upp saumana mína en endaði í staðinn í tölvuleik þar til ég ákvað að hátta mig, skríða upp í rúm og lesa um stund upp úr miðnætti.

21.11.14

Smávegis um gærdaginn

Aftur bauð ég tvíburunum far í skólann því annar þeirra snéri sig á hné í sundi í fyrrakvöld.  Í nógu var að snúast í vinnunni milli átta og fjögur.  Stimplaði mig út nánast á slaginu og sótti strákana upp í skóla.  Skilaði þeim heim og skrapp svo í fiskbúð að kaupa mér ýsu í soðið og kom einnig við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og fyllti á bílinn áður en ég fór heim.  Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi ég austur.  Pabbi svaraði í fyrstu hringingu og við spjölluðum í tuttugu mínútur en vorum við aðeins búin að heyrast einu sinni í viku síðustu fjórar vikurnar en ekki daglega.  Mamma var þreytt eftir ferðalagið en ég held að þau hafi verið sátt við að vera komin heim.  Og ekki tók nú kuldaboli á móti þeim þótt hitastigið sé kannski heldur lægra en á Tenerife.

20.11.14

Það er alltaf eitthvað

Ég bauð tvíbururnum far í skólann í gærmorgunn.  Var búin að fá leyfi til að fara í smá útréttingar eftir hádegi.  Sótti um nýtt vegabréf hjá sýslumanninum í Kópavogi á þriðja tímanum.  Þaðan fór á lögreglustöðina við Grensásveg til að tilkynna hjólastuldinn og fylla út skýrslu.  Með afrit af þeirri skýrslu sem og útprentunina úr GÁP fór ég í tryggingafélagið mitt.  Þurfti að skreppa í vinnuna aftur í smá stund.  Kom heim upp úr hálffimm.  Við mæðginin sammæltumst um að skreppa saman í sund eftir kóræfingu.

Raddbandatemjarinn, Guðbjörg Tryggvadóttir, stjórnandi sönghópsins "Veirurnar" mætti til okkar í kirkjuna um hálfsex.  Kórstjórinn var semsagt eitthvað vant við látinn.  Það var í góðu lagi því við lærum alltaf helling af Guðbjörgu og undir lok æfingarinnar vorum við farin að hljóma eins og 50 manna kór og hún fékk gæsahúð.  Ég hitaði annars upp sem sópran en söng með altinum fram að kaffi því aldrei þessu vant var góð mæting í sópranröddinni.  Guðbjörg bað mig svo um að syngja með sópran eftir hlé og hún vildi meina að ég ætti heima þar.  Áður en æfingunni lauk fékk ég skilaboð frá tvíburunum um að þeir færu í sund með vini sínum.

Ég fór því beint í Laugardalslaugina að æfingu lokinni.  synti 500m á bringunni, fór í sjópottinn og svo í gufubað áður en ég fór uppúr.  Hitti strákana aðeins en þeir komu heim löngu á eftir mér.  Ég var komin heim tímanlega áður en Kiljan hófst.  Og nú eru pabbi og mamma komin heim úr fjögurra vikna dvöl á Tenerife.  Á eftir að heyra í þeim hljóðið.

19.11.14

Ferðalangar á heimleið

Annan daginn í röð tók ég strætó í vinnuna (í gærmorgun).  Vinnudagurinn leið nokkuð hratt og ég ákvað að nota strætó aftur í heimferðina.  Fór þó ekki beint inn heldur settist inn í lánsbílinn og fór í GÁP til að fá útprentað fyrir mig söluupplýsingarnar um hjólið mitt.  Var með kennitölu fyrirtækis xins og það tók ekki langan tíma að fletta þessu upp og prenta út.  Næst lá leiðin í hraðbanka og svo sló ég á þráðinn til aseamannsins.  Síminn hans hringdi sem benti að hann væri í landi en hann var líklega upptekinn svo ég fór heim að svo stöddu.  Ég var nýbúin að leggja fyrir utan heima þegar hringt var til baka.  Við sammæltumst um að ég skryppi yfir  fljótlega og fengi bæði október og nóvember kassana með mér heim.  Annars var kvöldið nokkuð rólegt.  Var að spá í að skreppa í sund eftir kvöldmat en ákvað svo að fresta því.  Horfði á Castle með Oddi, vafraði um á netinu, var komin í háttinn fyrir ellefu og las um stund.  Er enn að skrá inn á allirlesa.is síðuna.  Fínt að geta haldið utan um allan lesturinn þar.  Inn á gegni er einungis hægt að sjá 100 síðustu útlán sem breytast um leið og maður tekur fleiri bækur.

18.11.14

Hjólið mitt er horfið :-(

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég kom úr Sorpuferð rúmlega fimm og sá ekki hjólið mitt sem átti að vera læst við grindverkið í innkeyrslunni nær húsinu heldur en bílastæðunum fyrir framan. Gat ekki munað hvort það hafi verið þarna þegar ég kom gangandi heim úr vinnu tæpri klukkustund áður en það var örugglega þarna í gærmorgun um hálfátta þegar ég trítlaði út í strætóskýli við Sunnubúðina. Ég sem var nýbúin að fá nágrannann á neðri til að taka hjólið og geyma fyrir mig í kjallarageymslunni í kringum næstu mánaðamót og fram í mars/apríl.  Það er greinilegt að það fara einhverjir um hverfin með klippur á lofti.  Það varð enginn var við neitt en líklegast er að þetta hafi gerst á meðan fáir eða engir voru heima.  Þetta er grátlegt en ég er eiginlega alveg öskureið.

Hafði matinn, ofnbökuð laxaflök með soðnum kartöflum, gulum baunum og hrásallati, á sjöunda tímanum.  Bauð svo strákunum að koma með mér í sund.  Aðeins annar þeirra þekktist boðið.  Hinn var eitthvað þreyttur og illa fyrir kallaður.  Synti 500m og allt á bringunni.  Oddur Smári var að koma upp úr 42°C pottinum þegar ég kom þar að og ég plataði hann með mér í sjópottinn.  Svo fórum við í gufuna í smá stund áður en við fórum upp úr og aftur heim.

17.11.14

Mánudagur

Ég var vöknuð um og upp úr klukkan átta en fór ekki á fætur fyrr en á tíunda tímanum því ég ákvað að lesa upp í rúmi.  Önnur bókin, Haustvika eftir Áslaugu Ragnars stenst alveg tímans tönn. Nokkuð spennandi og fær mann jafnvel aðeins til að spá í ýmsa hluti.  Hin bókin er úr bókaklúbbnum, Buzz, og er hörkuspennandi krimmi.  Dagurinn leið í rólegheitum og smá stússi.  Um miðjan dag hringdi ég í frænku mína og nöfnu.  Hún var heima og bað mig um að kippa með mér rjóma úr búðinni áður en ég kæmi því hún ákvað að skella í vöffludeig.  Þegar ég mætti til hennar sagðist hún vera bíllaus en maðurinn hennar, sem er bifvélavirki, var að gera við bremsurnar á bílnum hennar.  Þegar við frænkur vorum búnar að drekka kaffi, úða í okkur vöfflum og spjalla um hitt og þetta hringdi maðurinn hennar til að tilkynna henni að bíllinn væri orðinn ökufær aftur.  Ég skutlaði frænku minni til að sækja bílinn og svo elti ég hana upp í Hraunbæ til að kíkja á íbúð eldri sonar hennar sem feðgarnir eru að standsetja.  Seinna skutlaði ég svo bræðrunum á spilakvöld í Grafarvoginn.  Þeir fengu svo far með einum vini sínum til baka í gærkvöldi.

16.11.14

Sorpuferðir

Ég dreif mig á fætur á níunda tímanum í gærmorgun.  Kveikti á tölvunni og vafraði um á netinu, bloggaði og lét tímann líða svona í rúma tvo tíma.  Um ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð mér upp á hafragraut og kaffi áður en við settumst niður í græna sófann í forstofunni og kíktum á það sem við keyptum saman á fornbókasölunni um daginn.  Þrjár af bókunum þekktum við, leskafla og málfræði sem meistari Þórbergur Þórðarson tók saman.  Þessar bækur voru gefnar út árin 1937 og 1939.  Elsta bókin var ekki eftir Þórberg. Hún var gefin út árið 1930 og fjallar um land, þjóð og menningu þess tíma.  Við byrjuðum á einum kaflanum lásum til skiptist milli punkta og þýddum jafnóðum.  Þetta fannst okkur gaman.  Við skildum innihaldið nokkurn veginn en erum ákveðnar í að lesa þetta yfir aftur og pikka út erfiðustu orðin og kíkja í orðabók (esperanto-íslenska) sem við eigum.

Klukkan var langt gengin í eitt þegar ég kvaddi.  Þá lá leiðin í Sorpu með dótið sem hlaðið var í bílinn eftir sorpuferðina á fimmtudaginn var.  Þegar ég kom heim um hálftvö byrjaði ég á því að vekja Odd. Þegar hann var tilbúinn hlóðum við bílinn aftur og erum nú nánast búin að taka allt sem sett var út í innkeyrsluna úr geymslunni þegar verið var að undirbúa skottulækningu á þriðjudagskvöldið var. Aðeins snjóþotur og einn plastdótakassi eru eftir.  Þoturnar verða gefnar og kassinn fer líklega aftur inn í geymslu þegar búið er að laga aðeins betur til í henni.  Oddur kom með mér í Sorpu og eftir að hafa tæmt bílinn fórum við í Krónuna.

Þegar við komum aftur heim rétt fyrir hálffjögur gekk sonurinn frá vörunum en ég vakti hinn soninn og bauð honum að koma með okkur í sund.  Ég synti 500metra að þessu sinni þar af 50metra á bakinu.  Fór í 42°C heitan pott í tíu mínútur, sat svo á bekk í aðrar tíu áður en ég fór í gufu og svo upp úr.  Við vorum komin heim upp úr sex.

15.11.14

Björgunarleiðangur

Ég notaði víst minn síðasta strætómiða, af þeim miðum sem ég keypti mér í vor, í heimferðina úr vinnu á fimmtudaginn.  Því varð ég að nota klink (350kr) í gærmorgun.  Það gerði svo sem lítið til því ég á nóg af klinki þótt ég grisji reglulega með því að setja í kórkrukkuna sem mitt kaffiframlag.  Ég er enn svona "aukahjól" ef það er ekkert óvenjulegt á seyði í vinnunni en finn mér oftast eitthvað sem hægt er að gera og leysi líka af ef þarf.  Bókari gærdagsins valdi svo mig til að telja með sér föstudagstalninguna í á öllum tegundunum í öllum vögnum eftir framleiðslu í gær.

Rétt fyrir ellefu hringdi píparinn í mig.  Hann hafði læst sig úti úr íbúiðinni og allir lyklarnir hans, þar með talinn bíllykillinn, voru í peysunni hans fyrir innan læsta hurð.  Það var ekki von á strákunum heim alveg strax svo ég samdi bæði við fyrirliða deildarinnar og einnar sem vinnur með mér um að sú síðarnefnda myndi skutla mér heim til að opna fyrir píparanum.  Sá leiðangur tók aðeins um tuttugu mínútur.

Klukkan hálfþrjú voru sjö af okkur átta mætt á sviðsfund í Ásinn í K2 (Turninum). Tvær voru á bíl og buðu tveimur með en sá sjöundi notar hjólastól og hefur þar af leiðandi aðgang að "einkabíl" sem hann notar milli staða.  Fundurinn tók einn og hálfan tíma og eftir hann rölti ég niður á Hlemm til að kaupa mér 3x9 miða strætókort.  Notaði einn miðann til að komast heim.  Ef ég væri ekki með blöðru á öðrum hælnum hefði ég örugglega labbað og jafnvel verið komin á undan vagninum sem ég notaði því ég þurfti að bíða dágóða stund eftir honum.

Píparinn var enn á staðnum þegar ég kom heim en klukkan var heldur ekki alveg orðin fimm.  Eftir kvöldmat skutlaði ég Oddi til vinar síns í neðra Breiðholti og lét hann hafa 350kr. til að geta tekið strætó heim.  Hann hefur svo líklega fengið far því hann kom heim stuttu eftir miðnætti.

14.11.14

Komin í helgarfrí

Ég notaði strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær.  Kom heim fyrir hálffimm og þá var pípari að vinna á fullu við að setja upp nýja klósettið og var hann að vinna við það alveg til klukkan að ganga sjö  Ég fékk Odd til að koma og hjálpa mér að hlaða bílinn af dóti sem mátti farga eða fara í söfnunargáma og hann kom svo með mér í Sorpu.  Hlóðum bílinn aftur en það var búið að loka svo líklega fer það dót í Sorpu fyrr en á morgun, laugardag, er orðin heldur sein með það í dag.  Hafði bjúgu, soðnar kartöflur og grænar baunir í kvöldmatinn um hálfsjö og svo skruppum við Oddur Smári í sund.  Davíð Steinn hafði farið í Sundhöllina strax eftir skóla.  Kannski eins gott því annars hefðum við orðið að taka eitthvað af dótinu úr bílnum.  Synti mína 300m en var allan tímann að hugsa um hvort ég ætti að bæta 100 eða 200 metrum við.  Slepptí því í þetta sinn og fór í 42 gráðu heitan pott þar sem ég hitti Odd og við skruppum svo í smá gufu áður en við fórum upp úr.  Það var akkúrat kominn hálfleikur í handboltaleik Vals og ÍR á RÚV-íþróttir og ég horfði að sjálfsögðu á seinni hálfleikinn.  Ég keypti mér ekki árskort á heimaleikina í handboltanum að þessu sinni svo ég fagna því auðvitað þegar sýnt er frá leikjum minna manna og kvenna á RÚV-íþróttum.

13.11.14

"Skottulæknir" á svæðið

Bræðurnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun.  Ég skrapp svo heim rétt fyrir tólf og tók á móti meindýraeyðinum.  Að þessu sinni gat hann unnið sína vinnu og eitrað númer 21 hátt og lágt. Ég skildi við hann þegar hann var nýbúinn að bora í sökkulinn í eldhúsinu mínu og var að fara að byrja í risinu og vinna sig niður.  Ég var búin að fullvissa mig um að hægt væri að komast inn í kjallaraíbúðina en strákarnir þar skyldu meira að segja hurðina út/inn á þvottahúsganginn opna.  Ég vissi að von var á eigandanum á neðri hæðinni í tíma.

Strax eftir vinnu kom ég við í Sorpu og fór svo heim, ekki til að fara inn alveg strax, heldur til að sækja meira rusl.  Áttaði mig á því að ég hefði nægan tíma til að fara með það í grenndargám áður en ég mætti svo á kóræfingu.  Æfði með sópran eins og undanfarið annars hefðu þær aðeins verið tvær á móti fimm.  Æfingin gekk vel og kórstjórinn var ánægður með árangurinn sem vannst.  Þegar ég kom heim hélt ég aðeins áfram að sortera dótið sem var úti í innkeyrslu.  Sumt fór inn en annað bíður þess að vera ferjað í Sorpu.

12.11.14

Aftur í sund

Notaði strætó til vinnu í gærmorgun en labbaði svo heim seinni partinn.  Fékk syni mína til að samþykkja að koma með mér í sund og þurfti að sækja annan upp í skóla en hann var ekki búinn þar fyrr en á sjötta tímanum.  Synti 300metra, fór í heitan pott og gufu og svo upp úr aftur.  Bauð strákunum á Pítuna og hjálpuðumst við að klára undirbúning fyrir eitrun.  Fór með mikið af dótinu úr geymslunni út í innkeyrslu og mér sýnist margt af því muni ekkert fara inn aftur.  Það verða einhverjar ferðir farnir í Sorpu á næstu dögum.  Annar tvíburinn undirbjó sitt herbergi það vel að hann ákvað að sofa í sófanum í stofunni.

11.11.14

Erfið að reikna út

Við mæðginin lögðum mun fyrr af stað á lánsbílnum en venjulega.  Áður hafði ég kveikt aðeins á tölvunni og lagt inn á kort strákanna svo þeir gætu keypt sér 20 miðakort í sund.  Hleypti þeim út við Sundhöll Reykjavíkur rétt fyrir hálfátta og var svo auðvitað mætt amk tuttugu mínútum of snemma í vinnuna.  Vinnudagurinn leið hratt eins og oftast.  Ég fékk svo að fara fyrr til að taka á móti meindýraeyði.  Maðurinn kom en það hafði orðið mikill misskilningur, sem ég tek alfarið á mig, því sumir íbúanna voru ekki heima og alls ekki hægt að komast inn hjá þeim.  Það gengur víst ekki að eitra bara hluta svo meindýraeyðirinn bað mig um að leysa úr misskilningnum, taka betur frá veggjum og boða hann svo aftur á staðinn.  Nágrannarnir á neðri hæðinni voru rétt ókomin frá útlöndum

Ég brá því á það ráð að skreppa í sund.  Synti 300 metra, fór í sjópottinn og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr.  Þegar ég kom heim voru allir grannar komnir heim svo ég gekk á röðina til að samræma hentugastan tíma fyrir "betra" útkall og vonaði bara að það hentaði meindýraeyðinum líka.  Síðan sótti ég Davíð Stein í skólann af því ég hafði sagst ætla að gera það þegar ég hélt að ekki mætti vera í íbúðinni framan af kvöldi vegna eitrunar.

10.11.14

Ný vinnuvika

Var mun fyrr á fótum í gærmorgun heldur en á laugardaginn.  Klukkan rúmlega tólf kom ég við í Hlíðarblóm og keypti fallegan vönd til að leggja á altarið í kirkjunni.  Mætti í kirkjuna um hálfeitt korteri fyrir boðaðan tíma.  Þegar allir voru komnir hituðum við upp fyrir messuna og æfðum einnig jólalög.  Vorum þrjár í sópran en það kom reyndar ekki til raddskiptina í messunni sjálfri.  Þegar kom að því að minnast látinna heiðraði ég minninguna hennar Hlíbbu minnar.

Eftir að hafa fengið mér smá kaffi að messu lokinni lá leiðin í Krónuna við Granda.  Stillti matarkörfunni í hóf og vörurnar komust fyrir í þremur pokum.  Þegar heim kom gekk Oddur frá vörunum og þá kom á daginn að ég þyrfti ekki að elda um kvöldið frekar en ég vildi því bræðurnir voru á leiðinni til pabba síns.

Hafði það svo notalegt fyrir framan skjáinn og horfði að mestu á RÚV um kvöldið, fyrir utan Law and Order SVU á Skjá einum.

9.11.14

Gott af mínum högumFljúga dagar furðu hratt
fækkar ársins dögum.
Allt í fína alveg satt
og gott af mínum högum.

Vaknaði fyrst frekar snemma eða milli sex og sjö.  Gelið sem ég smyr á mig á hverjum morgni er komið alla leið inn í herbergi þar sem það er ekki hægt að hafa það inn á baðherberginu í augnablikinu af augljósum ástæðum.  Ég smurði mig því þarna í morgunsárið.  Eftir að ég var orðin þurr skrapp ég á salernið en skreið svo aftur upp í og steinsofnaði aftur í nokkra klukkutíma.  Rétt náði á fætur áður en klukkan sló tólf á hádegi.  Fyrir vikið varð lítið úr deginum framan af og ég hélt áfram að vera löt næstu stundirnar.  Lauk samt við að lesa Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur og um fjögur ákvað ég að það væri skynsamlegt að skila henni og fimm öðrum lesnum bókum á safnið svo ég dreif mig í það. Einnig tók ég með mér handklæði og sundbol.  

Byrjaði á því að skila þessum sex bókum í Kringlusafnið og nældi mér í tíu aðrar í staðinn.  Svo lá leiðini í Laugardalslaugina þar sem ég endurnýjaði árskortið mitt í sund.  Það er akkúrat ár um þessar mundir síðan það rann út en það þurfti baðherbergisframkvæmdir á heimilinu til að endurnýja kortið.  Ég var kominn inn í kvennaklefann þegar ég uppgötvaði að ég hefði þurft að fá sérstakt armbandi til að geta notað skápana.  Skrapp fram aftur og náði mér í svoleiðis.  Var komin ofan í laugina rétt fyrir fimm og synti 300metra.  Fór svo í heitan pott sem átti að vera 40 gráður en var örugglega kaldari en það og að lokum smellti ég mér í gufuna í nokkrar mínútur.  Kom heim um sex, hafði fiskibollur með soðnum kartöflum og gulum baunum í matinn.  Horfði á Óskalögin og "Konan í búrinu" á RÚV og las svo í um klukkutíma áður en ég fór að sofa.

8.11.14

Fljúga dagar furðu hratt

Í gærmorgun fór ég með strætó í vinnuna.  Það var leiðinda rok og sumir vinnufélagar mínir kvörtuðu yfir því hve "Kári" var erfiður.  Ef ég hefði farið á lánsbílnum hefði hann fengið á sig töluvert af sjávarseltu.  Vinnudagurinn leið hratt og þótt rokið væri heldur minna um fjögur ákvað ég að taka strætó heim aftur í stað þess að labba.  Heim var baðherbergið nakið fyrir utan dúkinn á gólfinu og salernisskálina.  Tengiliðurninn hafði haft samband við mig fyrr um daginn og sagði að bíllinn sem þeir nota til að flytja drasið burt væri í viðgerð en þeir myndu fjarlægja draslið strax eftir helgi.  Hann sagðist líka vilja fá að kalla til meindýraeyði á staðinn því þeir hefuð orðið varir við slifurskottur.  Gott mál það og ég ætla að athuga hvort formaður húsfélagsins samþykkir ekki að húsfélagið borgi því ef það eru skottur hjá mér eru þær um allt hús og gott ef ég hef ekki rekist á eina og eina í þvottahúsinu.

Um sex skruppum við mæðginin á Saffran og sóttum okkur þrjár bökur á góðu tilboði, 1.090kr bakan. Það hefði verið skynsamlegt af mér að hringja og panta þetta fyrst því biðin var nokkuð löng, sögð um 35 mín. en var í raun um 50 mín.  Seinna um kvöldið fóru svo bræður út í afmælispartý en ég hafði það kósí, fyrst yfir sjónvarpinu og svo yfir bók.

7.11.14

"Einmana salernisskál"

Það var alveg bráðnauðsynlegt að fara á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun.  Tvíburarnir voru ánægðir með að fá far í skólann og þegar ég mætti til vinnu byrjaði ég á að tilkynna um smá skreppu áður en klukkan yrði tíu.  Áður en að skreppunni kom náðist að koma reikningagerðinni alveg heim og saman og skila henni af sér.  Var mætt heima aftur stuttu fyrir tíu og nokkru síðar kom sá sem gerði mér tilboðið í baðherbergið með sýnishorn af flísum með sér.  Ég var nokkuð fljót að velja og lofa að "úvarpa" mynd af flísunum þegar þær verða komnar á sinn stað.  Ég afhenti manninum húslykla og sýndi honum aðeins niður í þvottahús áður en hann kvaddi.  Svo mundi ég eftir að smella af nokkrum myndum áður en ég dreif mig í vinnuna aftur.

Um leið og klukkan sló fjögur lagði ég leið mína í Tengi með útprentað tilboð af baðherbergisinnréttingum.  Þeir áttu allt nema klósettkassann og að höfðu samráði við einn hjá fyrirtækinu sem ætlar að sjá um verkið var sá liður tekinn út,  Aðallagnir munu sjálfir sjá um að útvega þetta.  Um var að ræða þá kassann, festingar og þrýstispjald.  Ég gerði upp reikninginn og mér var sagt að þeir myndu geyma þetta hjá sér og verktakinn mætti ráða því hvort þeir sæktu allt í einu eða bara eftir því hvenær hlutirnir ættu að fara upp.  Þegar ég kom heim var búið að rífa niður allar flísar og fylla baðkarið af þeim og vaskurinn og smá annað dót var komið út í innkeyrslu.  Að sjálfsögðu tók ég myndir.

Steikti slátur og lifrarpylsu í kvöldmat og sauð kartöflur með.  Stuttu fyrir átta dreif ég mig af stað í saumaklúbb til Lilju.  Ætlaði að stytta mér leið og var búin að gleyma mússíkhátíðinni.  Lenti í langri röð á Laugaveginum og þar sem ég ætlaði að beygja til að komast á Hverfisgötuna var lokað.  Gat ekki beygt fyrr en ég kom að Inólfsstræti.  Það var heldur ekkert auðhlaupið að því að fá stæði og það endaði með því að ég lagði við Vitatorg, Lindagötu 20.  Það var örstutt þaðan á Vatnsstíginn.  Fyrri hlutann af kvöldinu fékk ég að nota pappírshnífinn hennar Lilju og skar niður helling af þykkari rauðum og grænum A4 pappír.  Seinni hlutann notaði ég til að klára síðustu jólamyndina af sex á tilvonandi jólaservíettuhringi sem ég ætla að gefa mömmu í jólagjöf.  Nú á ég bara eftir að sauma útlínur, pressa flíselínið á bakhliðina og sauma saman í hring.  Kvöldið leið alltof hratt enda alltaf skemmtilegt hjá okkur þremur.

6.11.14

Allt komið í gang

Þar sem ég var hugsanlega búin að mæla mér mót við einn úr baðherbergisliðinu fljótlega upp úr fjögur í gær fór ég á lánsbílnum í vinnuna.  Þessa vikuna hef ég dregið mig út úr hefðbundinni hringrás og verið að vinna við mánaðalega reikningagerð ásamt "fyrirliða" deildarinnar.  Það er nóg af mannskap til að dekka allar venjulegar stöður og voða gott að geta einbeitt sér að reikningagerðinni.  Við áttum ekki mikið eftir í gærmorgun en ein afstemmingin var hálfgert spaghettí.  Á þriðjudagskvöldið var kom stór sending af kortum og var ég búin að fá einn úr innri endurskoðun til að koma til okkar í gærmorgun og opna og staðfesta með okkur.  Í millitíðinni komu tvær sendingar í viðbót.  Innri endurskoðandinn kom rétt fyrir tíu og þrjú (ég, fyrirliðinn og hann) vorum í þrjá tíma að opna kassa og telja kort, innsigla og kvitta enda voru þetta vel á annaðhundraðþúsund kort.

Fór beinustu leið heim klukkan fjögur en um klukkutíma síðar hringdi tengiliðurinn minn við Aðallagnir og sagðist ekki ná að komast til mín fyrir hálfsex.  Hann vissi semsagt af því að ég ætti að vera mætt á kóræfingu þá.  Við ákváðum að ég myndi hitta hann í morgun í staðinn og segi betur frá því á morgun. Var mætt á kóræfingu á réttum tíma og æfði með sópran líkt og undanfarnar vikur því annars hefðum við verið fimm á móti tveimur þar sem tvær sóprönnur komust ekki á æfingu.  Horfði svo á Neyðarvaktina og Kiljuna á RÚV, vafraði á netinu og las smávegis líka þegar ég kom aftur heim.

5.11.14

Draumur að fara að rætast

Þegar ég skrapp fram og kíkti á g-mail-einkapóstinn minn rétt fyrir hálftíu sá ég að komin voru skilaboð frá þeim sem kom og tók út baðið og gerði mér svo tilboð.  Hann sagði að þeir ættu að geta byrjað seinni partinn í vikunni, nánar til tekið á fimmtudag (sem er á morgun).  Þar sem viðkomandi lét gemsanúmerið fylgja hringdi ég strax til baka (rétt um klst. síðan viðkomandi hafði skrifað og sent póstinn) og sagðist hafa verið að frá góðu fréttirnar.  Okkur talaðist svo um að hann myndi reyna að koma við hjá mér fyrir hálfsex í dag með sýnishorn af flísum og til að fá hjá mér lykla.  Vííí, ég reikna semsagt með að ég verði komin með nýtt baðherbergi í síðasta lagi ca viku fyrir jól.  Ég er ekkert smá spennt.

Annars fór ég með strætó í vinnuna í gærmorgun og labbaði svo heim seinni partinn.  Varð að passa mig að ganga með lokaðan munninn en þrátt fyrir að vera ekkert á spani þá náði mengunin aðeins að trufla mig og einu sinni hreinlega kúgaðist ég.  Slapp samt við að æla og komst heim á rúmum hálftíma. Hér var vinur hjá öðrum tvíburanum og fljótlega bættist annar við í hópinn þeir voru þó farnir fyrir mat. Hafði lasanja í kvöldmatinn og útbjó það sjálf fyrst sá sem eldað hefur þann rétt síðustu þrjú skipti var upptekinn.

4.11.14

Spenningur

Þar sem mánudagar eru oftast lánsbílsdagar milli heimilis og vinnu ákvað ég að nota tækifærið og sinna smá málum strax eftir vinnu, annað tengist bílnum alveg beint.  Ég byrjaði reyndar á því að skreppa með amk 10 stk af tímaritinu Vikunni á Hárhornið til tengdapabba systur minna.  Rétt skaust inn því ég lagði "ólöglega", þ.e. hafði ekki sett í gjaldmælinn.  Næst lá leiðin á Olísstöðina rétt við Kringlumýrarbraut þar sem ég lét smyrja lánsbílinn.  Hann var síðast smurður í desember í fyrra og það var alveg að "detta" í viðmiðunar kílómetrafjöldann.  Strákarnir voru nokkuð fljótir að afgreiða bílinn því ég náði ekki einu sinni að klára úr kaffibollanum sem boðið er upp á frammi í það sem nú virðist vera á vegum tíu/ellefu en var bensínstöð og sjoppa (þar sem Næturvaktin var tekin upp).

Var komin heim rétt upp úr hálffimm.  Kveikti næstum strax á tölvunni.  Um það leyti sem ég fór að hugsa um kvöldmatinn, rétt fyrir sex, hellti ég upp á ca 6 bolla af kaffi.  Í matinn hafði ég ofnsteikta bleikju, soðnar kartöflur, gular baunir í bræddu smjöri og hrásallat.  Fljótlega eftir matinn hringdi ég í afmælisbarn gærdagsins, konu eins frænda míns.  Mér finnst svo stutt síðan hún hélt upp á sextugsafmælið sitt hjá mömmu sinni heitinni hér í bænum fyrir sléttu ári síðan.

3.11.14

Fyrsti virki dagurinn í nóvember

Mér fannst ég vera óskaplega dugleg að vera komin á fætur um níu á sunnudagsmorgni, þ.e. í gærmogun.  Það stóð svo sem ekkert sérstakt til nema að skutla og sækja Oddi í Ökuskóla 1 með tæplega fimm tíma millibili.  Ég gerði mest lítið nema vafra um í tölvunni, lesa og svo glápa á sjónvarpið um kvöldið.  Reyndar hringdi ég í afmælisbarn gærdagsins, systur mína, og spjallaði stutta stund en hún var að fara að horfa á stelpurnar keppa í innanfélagsmóti á skautunum.  Slapp við alla eldamennsku því það var spilakvöld hjá strákunum.Nú brá svo við að það var spilað heima hjá einum spilafélaganum sem á heima í Grafarvogi.  Tvíburarnir komu heim upp úr tíu.  Ég náði að slökkva á tölvunni áður en hún varð mikið meira en ellefu, kannski fimm mínútur yfir eða svo, og las svo í tæpan klukkutíma.

2.11.14

Afmælisdagur systur minnar í dag

Ég fór fyrst fram úr um sjö í gærmorgun og svo alveg komin á fætur á níunda tímanum.  Klukkan tíu var ég mætt með kollinn minn til hans Nonna í Kristu Quest.  Eins og alltaf var hárið búið að þykkjast alveg helling og gott að fá klippingu.  Var komin heim fyrir hálfellefu en stoppaði ekki lengi því ég var búin að lofa að skutla Oddi í ökuskóla 1 sem átti að hefjast klukkan ellefu í Ármúla 10.  Bað strákinn um að senda mér skilaboð um hvenær hann yrði búinn en það var víst ekki fyrr en korter fyrir fjögur. Fljótlega eftir að ég kom heim aftur vaknaði Davíð Steinn og upp úr hádeginu bað hann mig um að skutla sér til eins vinar síns í Grafarvogi.  Ég notaði tækifærið og skrapp til Böddu minnar eftir skutlið því þegar ég hringdi í hana var hún nokkuð hress og alveg til í að fá heimsókn.  Var hjá henni þar til kominn var tími til að ná í Odd. Að öðru leyti var dagurinn bara tíðindalítill.

1.11.14

Nýklippt

Mér fannst veðrið í gærmorgun frekar leiðinlegt svo ég ákvað að bjóða tvíburunum far í skólann. Þeir voru alveg sáttir við það.  Ég vil meina að ég hafi ekkert verið að svindla á samgöngusamningnum með því að fara á bíl þriðja daginn í vikunni þar sem tveir aðrir gátu nýtt sér farið.  Annars geri ég þetta voða sjaldan.  Nota lánsbílinn yfirleitt bara tvisvar sinnum í hverri vinnuviku og strákarnir geta líka oftast nýtt sér farið.

Ég sá um allt bókhald, keyrslur og talningu í gær og kom ekki nálægt neinni framleiðslu. Um tíu komu tvær úr K2 og hóuðu okkur saman til að fara yfir niðurstöðu úr könnun sem var gerð í vor. Þar sem við vorum bara fimm á þeim tíma mátti ekki taka saman gögn bara yfir okkur heldur voru þær settar saman við tvo aðra hópa sem eru eiginlega frekar ólíkir okkur.  Niðurstöðutölur miðuðu þá við svör 25 einstaklinga.

Renndi lánsbílnum í gegnum snertilausu þvottastöðina við Skúlagötu áður en ég fór heim upp úr fjögur. Þurfti ekkert að hafa fyrir því að elda því við áttum til afganga, þrátt fyrir að ég hafi farið með mér afganga alla dagana, sem við þurftum að klára.  Greip svo í saumana mína um kvöldið á meðan ég horfði með "hinu auganu" á Skjá einn.