Gærdagurinn var notaður í ýmislegt, bæði ýmsar skyldur og sund en að mestu samt í slökun yfir bókum og saumaskap. Var ekkert að rífa mig of snemma upp úr rúminu en var samt komin á fætur löngu á undan ungu mönnunum. Var búið með megnið af skyldunum fyrir hádegi. Malaði Íslands-kaffibaunir og hellti mér upp á gott kaffi um tíu. Um ellefu leytið settist ég inn í stofu með Sögusafn bóksalans eftir Gabrielle Zevin, sem Karl Emil Gunnarsson þýddi. Ég byrjaði á þeirri bók í fyrradag og var búin með fyrstu 100 blaðsíðurnar af 277 og í gær hætti ég ekki að lesa fyrr en ég kláraði bókina. Eftir lesturinn greip ég í saumana mína og hélt áfram að sauma annað bókamerkið sem ég pantaði mér e-n tímann í fyrrasumar. Davíð Steinn sá um að taka til kvöldmatinn rétt fyrir sex. Þeir bræður áttu von á spilahópnum milli sex og sjö svo það var ágætt að vera búin að borða áður. Eftir matinn dreif ég mig fljótlega í sund í Laugardalinn. Synti í tæpan hálftíma og fór tvisvar í gufuna með smá útisetu á milli. Þegar ég kom heim aftur voru strákarnir byrjaði að spila í holinu. Ég fór inn í stofu og horfði á ýmislegt í imbanum fram eftir kvöldi.
31.5.15
30.5.15
Komin í stutt frí
Þar sem ég vaknaði hress og kát af sjálfsdáðum, þ.e. nokkuð á undan stilltum vekjurum, var ég vel á undan áætlun með hefðbundin morgunverk. Ég ákvað því að fara aðeins fyrr af stað og ganga aðeins lengri leið í vinnuna, leið sem ég hjólaði stundum. Ég var uþb 40 mínútur á leiðinni og var að taka af mér ca fimm mínútum fyrir átta. Það var nóg að gera. Þetta var síðasti vinnudagur eins sem var ráðinn tímabundið í septemberbyrjun, ein var í fríi og ein var "send í útlegð" þar sem vantaði mannskap til að vakta svæði sem verið var að vinna á. Hún var í þessu verkefni milli tíu og þrjú með smá hádegishléi og missti því af föstudagsfundi deildarinnar. En á þann fund mættu, yfirmaður, vörustjóri og nýr framkvæmdastjóri. Boðið var upp á "hættuköku" sem yfirmaðurinn hafði bakað, ís með henni og kaffi. Vörustjórinn fór aðeins yfir nýklárað SÉR-framleiðsluverkefni og svo það sem er framundan. Bókhaldarar næstu viku voru ákveðnir og svo fékk nýji framkvæmdastjórinn að "heilsa" upp á framleiðsluvélina og sjá hvernig hún virkar sem og að kíkja inn í það allra heilagasta hjá okkar deild, harðlæstan lagerinn.
Klukkan fjögur var sá lausráðni kvaddur með virktum. Ég hafði hugsað mér að kíkja aðeins upp í Katrínartún á smá fagnað sem var þar því ég var svo á leiðinni í klippingu um hálfsex. Myndnámið var hins vegar ekki alveg búið og ég tók það að mér að sitja yfir því, klára og ganga frá. Ég var því ekki laus fyrr en upp úr hálffimm og fannst ekki taka því að skreppa í Turninn. Hringdi í staðinn í einkabílstjórann og fékk hann til að sækja mig og skutla að Laugavegi 178. Ég var auðvitað mætt alltof snemma þangað en það gerði ekkert til, skellti mér á barinn og pantaði einn einfaldan whisky og settist með drykkinn í sófann. Las í bók sem ég var með meðferðist og náði einnig að sauma nokkur spor í bókamerkis-sauminu mínu. Ég settist svo í stólinn hjá Nonna sjö mínútum fyrr en bókaður tími, sem síðasti kúnni dagsins. Fékk hann til að þynna hárið og klippa það styttra í hnakkanum. Klippingin, sjússinn og diskur með Langa Sela og Skuggunum kostaði mig innan við 9000. Einkabílstjórinn sótti mig rétt fyrir sex. Hefði reyndar alveg geta gengið heim en við mæðgin vorum búin að ákveða þetta.
Hafði rabbarbaragraut í kvöldmatinn og fljótlega eftir mat fór hinn ungi maðurinn einn út í langan og góðan göngutúr. Ég held að hann hafi verið á göngu í á þriðja klukkutíma sem er vel gert.
29.5.15
Nýklippt
Ég fór á lánsbílnum til vinnu í gær. Tíminn til fjögur var erilsamur en mjög fljótur að líða. Fór beint í Laugardalslaugina eftir vinnu, synti 400m, settist um stund í nuddpottinn því þar hitti ég fyrir eina sem vinnur með mér, fór í gufu og sat svo útivið um stund. Kom heim um sex. Ein vinkona bræðranna úr ´96 árganginum úr Hlíðaskóla var í heimsókn. Davíð Steinn hellti sér í matseldina eftir að vinkonan fór og ég hafði alveg tíma til að fá mér að borða áður en ég fór á heimaleik Vals í Pepsídeild kvenna. Var meira að segja mætt á völlinn korteri áður en leikurinn hófst, Valur - Fylkir 3-1. Horfði á tíu fréttir og "Criminal Minds" og las svo í stutta stund áður en ég fór að sofa.
28.5.15
Styttist í stutt frí
Í gærmorgun labbaði ég í vinnuna. Það voru smá dropar í upphafi göngunnar en það varð ekki mikið meira úr því og það var gott að byrja morguninn svona. Eftir vinnu var ég að spá í að labba aftur heim en mér leist verr á bleituna sem kom úr loftinu þá og þó var alls ekki hellidemba. Ég hringdi í einkabílstjórann og mælti mér mót við hann við Sólfarið. Ég var á undan þangað og komin með "tvíburahálfsystur" mína á línuna þegar sjálfrennireiðin renndi upp að mér. Við vinkonurnar tókum ákvörðun um að hittast um kvöldið.
Hafði til kvöldmatinn um sex, skrapp í Laugardalinn í sund strax eftir mat og þegar ég kom upp úr lauginn fór ég beint í heimsóknina sem hafði verið ákveðin með afar skömmu fyrirvara. Var að sjálfsögðu með saumana mína með. Tíminn flaug alltof hratt en ég kvaddi upp úr tíu og keyrði þá til móts við Davíð Stein sem var byrjaður að labba heim eftir hafa farið á uppistand í Hörpuna.
27.5.15
Miðvikudagur
Vikan er rétt nýbyrjuð og strax hálfnuð. Ég var annars einhvern veginn svo ákveðin í að bræðurnir hefðu ekki fengið stæði neins staðar nálægt húsinu þegar þeir komu heim í fyrrakvöld, og jafnvel orðið að leggja fyrir aftan heilsugæsluna, að ég ákvað að fara á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun. Þegar til kom var bíllinn reyndar rétt hjá, nánast fyrir framan húsið. Vinnuvikan er nú orðin "eðlileg" aftur en tíminn milli átta og fjögur leið ótrúlega hratt. Eftir vinnu ákvað ég að drífa mig í Laugardalinn því ég var að sjálfsögðu með sunddótið með mér. Var hvorki að drolla né flýta mér um of en var komin heim upp úr klukkan sex. Eftir kvöldmat settist ég með saumana mína inn í stofu og var þar meira og minna til klukkan að ganga tólf. Horfði á þætti á tímarásinni og einnig á nýja sakamálaþáttinn sem hóf göngu sína eftir tíu fréttir á RÚV.
26.5.15
Lítið eftir af maímánuði
Mikið var nú gott að eiga svona extra helgidag í gær. Ég var samt ekkert að hanga of lengi í rúminu og var komin í sund einhvern tímann á tíunda tímanum í gærmorgun. Gaf mér mun betri tíma í allar "venjulegar aðgerðir" heldur en morguninn áður en var komin heim aftur áður en ungu mennirnir fóru á stjá. Hinn helminginn af morgninum notaði ég í þvottahúsmál, lestur og netvafr.
Þegar bræðurnir bærðu loks á sér kom í ljós að þeir voru að fara saman á "spilakvöld" í annað bæjarfélag, einhvern tímann fyrir þrjú. Ég sá ekki að ég þyrfti að nota lánsbílinn meir í gær og lánaði þeim hann, þó með þeim skilyrðum að ekki yrði farið á rúntinn í þetta skipti.
Rétt eftir að strákarnir voru farnir varð ég vör við að, heimasími, net og sjónvarp virtist vera dottið út. Ég slökkti á tölvunni en reyndi nokkrum sinnum á fá són í heimasímann og einnig mynd í sjónvarpið með því t.d. að endurræsa kerfin. Ekki gekk það hjá mér. Reyndar komst ég að því þegar ég kom heim í dag að ég hafði ekki verið að nota stilla á "réttu" sjónvarpsstillinguna. Ég ákvað að vera ekkert að hafa áhyggjur af þessu í gærdag heldur sinnti nokkrum heimilisstörfum en notaði mest af tímanum í útsaum og lestur.
Um sex borðaði ég afganginn af hátíðarmatnum frá hvítasunnudeginum og klukkutíma síðar var ég mætt á völlinn á heimaleik Vals í Pepsídeild karla. Þeir tóku á móti Fjölni og fyrri hálfleikur var hreint með ólíkindum. Það voru skoruð 6 mörk sem skiptust jafnt á milli liða. Valsmenn komust yfir, Fjölnismenn jöfnuðu og komust yfir 2-1, Valsmenn jöfnuðu og komust svo aftur yfir með 3. markinu. Reyndar stóð 2:3 í nokkrar mínútur á töflunni en seinni talan er fyrir gestina og fyrri talan fyrir heimaliðið svo þetta var svolítið skondið að sjá. Gestirnir náðu svo að jafna áður en hálfleikurinn var liðinn. Ekkert mark var hins vegar skorað í seinni hálfleik.
25.5.15
Rauður mánudagur
Sundbolurinn nýji var prófaður í gærmorgun og virkar hann alveg ágætlega. Gaf mér rétt svo tíma til að synda 300 metra, skreppa örstutt í sjópottinn, 10 mínútur í gufunni og aðrar tíu að "viðra" mig áður en ég fór upp úr og heim aftur. Allt í allt var þetta sennilega um klukkutími frá því ég kom inn í bygginguna og þar til ég labbaði aftur þaðan út. Kannski of mikil hraðferð, ég veit ekki?
Um tólf var ég mætt í kirkjuna mína þar sem var æft fyrir messuna í ca þrjú korter og drukkið saman kaffi og maulað gott með því sem formaður kórsins útvegaði í önnur þrjú korter. Veðmál fór í gang um hversu margir kirkjugestir myndu mæta fyrir utan, kór, organista, skráveifu, meðhjálpara og prest. Og prestur í gær var stóri bróðir organistans, séra Bjarni Karlsson sem séra Pétur hafði beðið um að leysa sig af. Önnur nafna mín í kórnum var mjög bjartsýn og giskaði á að það myndu mæta 11, aðrir sem þóku þátt giskuðu á lægri tölu. Kórinn settist út í kirkju rétt áður en messan byrjaði en við vorum þó ekki talin með og endanleg fjöldatala þeirra sem komu eingöngu í messuna til að njóta hennar og kannski til að hlusta á afleysingaprestinn voru 14. Ég var annars mjög ánægð með þjónustu og predikun séra Bjarna og hlustaði með athygli á hvað hann hafði fram að færa. Það var líka gaman að fylgjast með þeim bræðrum, organistanum og prestinum.
Þegar ég kom heim aftur malaði ég Íslands-kaffibaunir og hellti upp á kaffi. Gekk frá í eldhúsinu og undirbjó eftirrétt kvöldsins, jarðaberjabúðing. Vafraði um á netinu um stund og settist svo með bók inn í stofu þar til kominn var tími til að huga að kvöldmatnum. Mýkti gulrætur á pönnu og steikti svo nokkrar lambalundir upp úr eggi og kryddaðri blöndu af byggflögum og byggmjöli. Sauð bygggrjón og kúlukál og hafði með þessu grænar baunir, hrásallat og kartöflusallat. Þetta mæltist bara mjög vel fyrir. Kvöldið fór í sjónvarpsgláp og útsaum.
24.5.15
Nýr sundbolur
Mikið varð ég hissa þegar ég vaknaði í gærmorgun og sá að klukkan var byrjuð að ganga tíu. Ég hafði farið að sofa fyrir miðnætti, ekki stillt á mig neina klukku en rámaði í að hafa rumskað aðeins upp úr klukkan sex. Þá hafði ég snúið mér á uppáhaldshliðina, steinsofnað aftur og farið að dreyma eitthvað skemmtilegt. Ég var það hissa að ég fór bara á fætur í rólegheitunum, ákveðin í að skreppa í Hagkaup upp úr hádeginu til að athuga með sundbol og fara ekki í sund fyrr en seinni partinn.
Bókaklúbbsbókin greip mig þvílíkum tökum að ég sökkti mér á kaf í hana. Mamma, pabbi, barn eftir Carin Gerhardsen sama höfund og Piparkökuhúsið. Og um sama lögreglulið. Mjög grípandi og spennandi og fléttan trúverðug.
Annar ungi maðurinn var búinn að lofa því að fara á e-a kynningu um eitt leytið og ég ákvað að nota ferðina og skreppa í Hagkaup í Skeifunni og máta sundboli á meðan. Ég mátaði eina fjóra og var sátt við einn af þeim og ákvað að skella mér á þann bol. Svo beið ég eftir einkabílstjóranum og var sem betur fer með bókaklúbbsbókina með mér því kynningin drógst aðeins á langinn. Við mæðgin komum svo við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim.
Einhvern veginn fór það svo að ekkert varð úr því að ég færi í sund í gær. Var með matinn um sex og um það leyti komu nokkrir strákar hingað á spilakvöld. Ég fékk að hafa stofuna alveg útaf fyrir mig. Hafði kveikt á RÚV (flakkaði stundum yfir á RÚV2 og DR1), var með þrjár bækur, sudokublað og saumana mína og notaði þetta allt saman.
23.5.15
Löng helgi framundan
Orðin mörg ég saman set
sum þau ríma ef ég get.
Svo í sund
þvílík stund.
Limra þessi´ er alveg met.
sum þau ríma ef ég get.
Svo í sund
þvílík stund.
Limra þessi´ er alveg met.
Í gær ákvað ég að "lifa ekki hættulega" lengur varðandi sundbolinn minn sem er að verða frekar slitinn á nokkrum stöðum. Það var því engin sundferð í gær því ég gat ekki ákveðið mig hvar ég ætti að verða mér úti um nýjan sundbol, þar fyrir utan eru sumar búðir ekki opnar fyrr en klukkan ellefu. En reyndar ætti ég að geta fengið ágætis sundflík í Hagkaup og líklega mun ég byrja á því að skoða úrvalið þar.
Það var lokaskiladagur á bókasafnsbókunum fjórum sem ég var að lesa síðasta mánuðinn. Ég hefði reyndar getað framlengt frestinum um mánuð en ég var búin að lesa allar bækurnar og meira en tilbúin að verða mér úti um nýtt lesefni. Á að vísu eftir að lesa tvær bækur úr áskriftarklúbbnum sem ég er í, byrjaði á annarri þeirra í fyrrakvöld. Var næstum of róleg í tíðinni í gær fyrst ég fór ekki í sund en það kom ekki að sök því þegar ég dreif mig á Kringlusafnið upp úr hálfellefu kom í ljós að það opnar ekki fyrr en klukkan ellefu á föstudögum. Ég settist aftur út í bíl og hringdi í pabba á meðan ég beið eftir klukkunni. Þegar safnið opnaði skilaði ég öllum fjórum bókunum og valdi mér fimm aðrar í staðinn.
Fór með strætó í vinnuna og var mætt rétt fyrir eitt. Vinnudagurinn minn byrjaði á fundi en milli hálftvö og sex, með tveimur pásum á milli, stóð ég framleiðsluvaktina ásamt hinni eitt-sjö vaktinni. Hættum framleiðslu í fyrra falli til að ganga vel frá og ryksuga vélina. Einkabílstjórinn minn sótti mig um sjö og hinn ungi maðurinn var búinn að elda, bera matinn á borðið og beið með að byrja að borða þar til búið var að sækja mig. Kjúklingapottréttur með soðnum hrísgrjónum, tilraunaréttur en afar góður.
22.5.15
Tvöþúsundasta færslan
Var komin í Laugardalinn um hálfníu í gærmorgun. Synti 400 metra og fór tvisvar í gufu og sat útivið bæði á milli og á eftir. Fór beint heim aftur og sinnti ýmsu þar. Morguninn leið afar fljótt og ég ákvað að drýgja hann enn betur með því að biðja einkabílstjórann um að skutla mér í vinnuna, rétt fyrir eitt, og sagði honum að sækja mig aftur um hálfsjö. Ákvörðun hafði verið tekin um að við á seinnipartsvaktinni mættum hætta aðeins fyrr til að vera komnar heim fyrir sjö. Höfðum alveg nóg að gera og vorum duglegar fyrir allan peninginn alveg til klukkan sex. Þá gengum við frá og fórum vel yfir að allur frágangur væri í lagi. Ég var sótt á umsömdum tíma og hér heima var hinn ungi maðurinn að útbúa kvöldmatinn, lax í ofni, sem ég hafði valið. Hann kryddaði eftir eigin smekk, sauð kartöflur með og skar niður kál. Þetta var mjög, mjög gott hjá honum.
Einn kórfélagi minn skoraði á mig að birta eitt ljóð að facebookveggnum á dag næstu daga. Ég sé það núna á hans ljóðabirtingum að hann er að setja eftir ýmsa höfunda svo það má. En ég birti eftirfarandi ljóð eftir sjálfa mig sem varð til í morgun sem ég er líka búin að setja í ljóðasafnið mitt:
Geislar inn um
gluggann minn
Gula tekur völdin.
Lundin létt og ylinn
finn
les ég oft á kvöldin.
21.5.15
Kórhittingur í heimahúsi
Vinnudagurinn í gær var frá átta til fjögur. Notaði lánsbílinn til að koma mér á milli þannig fékk ég smá stund heima eftir vinnu áður en ég mætti á e-s konar kóræfingu án kórstjóra heim til einnar sem er í kórpásu. Hún bauð okkur til sín og mættum við ellefu um það leyti sem við erum venjulega byrjuð að hita upp á kóræfingum. Á meðan við vorum að tínast inn var okkur boðið upp á snakk, nammerí og vínglas ef við vildum. Ekkert var nú sungið en okkur var boðið upp á mikla veislu þegar boðið var að borðinu, kjúklingasúpu, brauð og hina ýmsu smárétti með. Og á eftir fengum við kaffi, tertusneið með rjóma og meira nammerí. Það var mikið spjallað og mikið hlegið og á einum tímapunkti var aldur kórfélaga lagður saman og meðalaldurinn reiknaður út. Ég ætlaði varla að tíma að fara en kvaddi eftir rúma fjóra tíma sem er tvöfaldur æfingatími. Já, það er alls konar skemmtilegt fólk í kringum mig.
20.5.15
Vinkonuhittingur á Café París
Ég var komin á fætur nokkru fyrir átta í gærmorgun. Byrjaði á því að fá mér morgunmat og vafra svo aðeins um á netinu. Þegar klukkan var byrjuð að ganga níu dreif ég mig í Laugardalinn. Hitti þar fyrir þrjár úr kórnum mínum, þar á meðal aðra nöfnu mína. Fór beint heim eftir sundið og tíminn til hádegis flaug á met hraða að mér virtist. Tók strætó við Sunnubúð korter fyrir eitt og var mætt í vinnuna ca tíu mínútum síðar. Nóg var að gera í vinnunni og tíminn til sjö var ekki lengi að líða.
Úr vinnunni labbaði ég beint yfir á Café París þar sem ég var búin að mæla mér mót við tvær vinkonur mínar, tvíburahálfsystur og "föðursystur". Ég var mætt rétt á undan þeim, var vísað á borð númer 1, (vorum ekki búnar að panta fyrirfram enda þarf það sjaldnast) og pantaði mér hvítvínsglas. Þjónninn var að færa mér glasið þegar vinkonurnar mættu. Við pöntuðum okkur að borða og báðum um vatn á borðið og svo var spjallað, hlustað og hlegið. Nóg var af umræðuefninu enda höfum við ekki hist þrjár í þó nokkurn tíma. Seinna pöntuðum við okkur hver sinn eftirréttinn og kaffi með og gáfum hinum smakk af okkar vali. Ég pantaði heita eplaköku og fékk smakk af franskri súkkulaðiköku og einnig af ostatertusneið. Klukkan var allt í einu orðin hálftíu og þótt umræðuefnið væri hvergi nærri á þrotum ákváðum við að láta gott heita. "Föðursystir" mín bauð mér far heim, sem ég þáði. Við vinkonurnar stefnum að því að láta ekki líða alveg svona langt þar til næsti hittingur verður.
Heima horfði ég á síðasta þáttinn af "Horfinn" á RÚV og las aðeins fram yfir miðnætti.
19.5.15
Sund og fleira
Tilvonandi rafeindavirki átti að mæta í viðtal vegna sumarvinnu klukkan níu í gærmorgun. Ég skutlaði unga manninum á staðinn en fór svo sjálf beint í Laugardalinn. Þar synti ég í um tuttugu mínútur, skrapp í sjópott og gufu og sat svo úti um stund og á meðan ég þornaði. Kom síðan við í Lyfjaveri til að sækja estrogelið sem var ekki til þegar ég ætlaði að leysa það út um daginn. Ungi maðurinn var kominn heim þegar ég kom og með þær fréttir að hann ætti að byrja 1. júní n.k. Hluta af deginum notaði hann svo til að sinna ýmsu hér heima og gerði m.a. við lásinn á hurðinni inn á salerni. Hinn ungi maðurinn var eitthvað að spá í hvenær ökuskírteinið hans myndi skila sér og ætlaði helst að fá lánaðan lánsbílinn og skreppa til sýslumannsins. Ég sagði að það væri betra að byrja á því að hringja. Þegar ég var að leggja af stað gangandi í vinnuna rétt fyrir hálfeitt fann ég umslag til einkabílstjórans frá sýslumanninum. Í því var fyrsta ökuskírteini unga mannsins. Sá varð glaður. Hann fékk svo að sækja mig þegar ég var búin í vinnu um sjö.
18.5.15
Frábær heimasigur minna manna!
Ég var hvorki að flýta mér né drolla neitt að ráði í gærmorgun. Var komin ofan í Laugardalslaugina e-n tímann á tíunda tímanum. Synti í 15 mínútur. Fór í gufu, settist niður útivið á meðan ég þornaði. Fór í smá sturtu sem er við gufuklefann. Skrapp um stund í sjópottinn, svo aftur í gufu og sat svo örugglega í um 15 mínútur útivið áður en ég fór uppúr. Heima lét ég loksins verða af því að taka almennilega til í ísskápnum, þrífa hann að innan og færði skápinn svo til og þreif undir honum áður en ég raðaði vörunum inn í hann aftur. Var búin að þrífa frystinn fyrir nokkru síðan. Hinn helmignurinn af deginum fór í lestur, netvafr og svo skruppum við Oddur Smári í verslunarleiðangur í Krónuna við Nóatún. Hafði kvöldmatinn til upp úr sex og var mætt á völlinn um sjö, korteri áður en leikur Vals og FH hófst. Sá leikur fór 2:0 fyrir Valsarana og var það afar sætur sigur.
Þetta var annars innsetning no 1996 frá upphafi, allir textar og líka myndir ef þær hafa verið settar inn einar og sér. :-)
Þetta var annars innsetning no 1996 frá upphafi, allir textar og líka myndir ef þær hafa verið settar inn einar og sér. :-)
17.5.15
Þjóðhátíðardagur Norðmanna í dag
Var svolítið lengi að koma mér af stað út úr húsi í gærmorgun og var klukkan orðin hálftíu þegar ég byrjaði sundferðirnar mínar. Synti í tuttugu mínútur, fór í gufuna strax á eftir og sat svo nokkra stund úti við á meðan ég þornaði. Úr Laugardalnum fór ég beint á Sólvallagötuna til norsku esperanto vinkonu minnar og stoppaði þar í um tvo tíma. Gerðum ýmislegt af okkur. Meðal annars setti ég óvart saman nýtt orð úr tveimur til þremur þekktum orðum; "Skringluð" og hlógum við mikið að þessu orði. Eftir esperantohittinginn skrapp ég í Byko til að kaupa mér stíflueyði svo ég gæti losað um stífluna í hliðarvaskinum í eldhúsinu. Hitti frænda minn, vinkonu og tengt fólk á staðnum. Gaf þrjú faðmlög, tíma til að spjalla og tók í hendina á einum áður en ég fór aftur í röðina, borgaði fyrir það sem ég var með og dreif mig heim.
Það tókst að losa stífluna en mikið svakalega var þetta sterkt efni sem ég valdi. Kannski setti ég of mikið af því í stíflaða vaskinn því það breyttist liturinn á vaskbotninum. Lagaði það með því að nota stálull á vaskinn á eftir. Vonandi verður þetta til friðs um tíma. Strákarnir fengu að fara saman á lánsbílnum á spilakvöld í annað bæjarfélag eftir kvöldmat. Sá próflausi kom heim um mitt kvöld en stoppaði stutt. Einn vinur hans hafði sótt hann og þeir voru að fara að að gera eitthvað saman. Bræðurnir komu heim einhverntímann í nótt, hvor úr sinni áttinni og ekki á sama tíma. Þetta er ungt og leikur sér. ;-) Ég horfði eitthvað að imbann, kláraði eina af bókasafnsbókunum og ætlaði að sauma eitthvað. Var búin að opna handavinnutöskuna en svo varð ekkert af neinum úttalningum. Kvöldið flaug.
16.5.15
"Skringluð"
Ég held svei mér þá að ég hafi verið að búa til alveg nýtt orð í morgun, sett saman úr amk tveimur þekktum orðum ef ekki þremur.
En aðeins um gærdaginn. Tók strætó í vinnuna upp úr hálfátta. Að þessu sinni sá ég um bókhaldsmálin og þurfti ekkert að koma nálægt framleiðslunni. Tíminn flaug hratt og þrátt fyrir að hafa haft með mér sunddótið ákvað ég að hringja í einkabílstjórann og biðja hann um að sækja mig eftir vinnu. Þannig hafði ég tíma til að stússast í einu og öðru hér heima áður en kominn var tími til að hitta vinnufélagana í kortadeildinni aftur. Einkabílstjórinn skutlaði mér á Roadhouse en þangað var ég að fara í allra fyrsta sinn. Gáfum okkur góðan tíma í að panta, borða og gantast saman. Ég fékk mér hvítvínsglas, smakkaði á "fingraréttunum" fjórum sem við völdum okkur, lax í aðalrétt og kaffi og hálfan bananasplit í eftir rétt. Ég bað reyndar líka um vatn á borðið en það kom aldrei einhverra hluta vegna. En þetta var bara fínn félagsskapur og ágætt að hittast svona einu sinni öll á allt öðrum vettvangi en dags daglega. Mér var boðið far heim sem ég þáði með þökkum. Þar var annar ungi maðurinn búinn að "hertaka" stofuna svo ég vafraði aðeins um á netinu áður en ég háttaði ofan í rúm með góða bók.
15.5.15
Maí uþb hálfnaður
Mikið var gott að fá einn svona rauðan dag í vikuna og nýtti ég mér gærdaginn nokkuð vel. Fór í sund í gærmorgun, var komin ofan í Laugardalslaugina kl. 10:10 og synti ég í tuttugu mínútur. Slakaði á í sjópottinum um stund, sat í gufunni í tíu mínútur og endaði á því að sitja á stól og þurrka mig úti við í skjóli undan regninu. Rúmlega ellefu var ég á leið úr byggingunni en staldraði aðeins við til að fá mér vatn. Þá kölluðu á mig tvær kórsystur mínar og ég ákvað að fá mér kaffi og setjast hjá þeim. Var komin heim fyrir tólf. Hvorugur ungu mannanna var vaknaður. Hrærði í vöfflujafning, setti skálina inn í ísskáp og stillti vöfflujárninu á sinn stað án þess að stinga því í samband. Kveikti á útsendingunni frá "Beint frá burði" um hálfeitt og fylgdist með á milli þess sem ég las í bókasafnsbók.
Rétt fyrir tvö var ég mætt á völlinn að fylgjast með Valsstelpunum keppa við Aftureldingu. Í leikhléi hringdi ég í annan unga manninn og bað hann um að búa til vöfflurnar. Leikurinn fór 3-0 fyrir Val og skoraði Elín Metta Jensen tvö fyrstu mörkin, eitt í hvorum hálfleik. Kom við í Sunnubúð til að kaupa rjóma á vöfflurnar. Annars gerði ég eitt og annað í gær bæði til dundurs og einnig skylduverk. Ég tók m.a. fram saumana mína í gærkvöldi.
14.5.15
Kvennafótboltinn að rúlla af stað í dag
Þessi stutta skriftarpása var ekki ákveðin fyrirfram en ég er á því að hún hafi gert mér gott. Var afar lítið heima allan þriðjudaginn. Fór á lánsbílnum í vinnuna, rak eitt smá erindi á fimmta tímanum og mætti svo á fyrsta stjórnarfundinn hjá óháða söfnuðinum um fimm. Eftir fundinn skrapp ég heim í um klukkutíma áður en ég fór á kaffihúsastemmingu með kórsöng í Víðistaðakirkju. Tveir kórfélagar mínir í KÓSÍ eru líka í kór Víðistaðakirkju. Við mættum fjögur önnur (þar af tvær Önnur að mér meðtaldri) úr KÓSÍ og skemmtum við okkur mjög vel. Mjög vel til fundið að setja þetta svona upp. Stilla upp borðum og leggja á þau kaffibolla, kaffibrúsa og fleira svo hægt væri að sitja saman nokkur, drekka kaffi, maula eitthvað með, hlusta á kórinn og spjalla inn á milli og eftir. Kórinn söng í um klukkustund og svo blönduðu þau geði við gestina.
Um hálftíu kvaddi ég og skrapp til tvíburahálfsystur minnar sem býr ekkert svo langt frá. Var búin að láta hana vita og spyrja hvort það væri í lagi að ég kæmi til hennar í seinna lagi ef ég kæmi því við. Það var í góðu lagi og ég var því með saumatöskuna með mér. Það er greinilega orðið of langt síðan síðast því tíminn leið afar hratt og ég átti frekar erfitt með að hætta spjallinu og hafa mig heim. Saumaði eitthvað smá en klukkan var að verða hálftólf þegar ég loksins dreif mig heim.
Það var því engin sundferð farin á þriðjudaginn. Fór í Laugardalslaugina eftir vinnu á mánudaginn en í gær fór ég með strætó til vinnu og kom við í Sundhöllinni á heimleiðinni. Davíð Steinn sá um kvöldmatinn og hann fékk að bjóða einum vini sínum í mat. Mér var færður diskur og vatnsglas inn í stofu þar sem ég hafði hreiðrað um mig til að lesa, sauma og horfa á fréttir. Opnaði reyndar aldrei saumatöskuna mína. Oddur Smári fékk lánaðan lánsbílinn til að fara á spilakvöld og kvaddi um leið og hann hafði borðað og vinurinn skutlaðist með Davíð Stein í partý sem var haldið e-s staðar í Kópavogi til að fagna því að 1. sveinsstykkið var búið og vorönnin einnig.
11.5.15
Alltaf eitthvað en stundum fátt eitt
Ég var klukkutíma seinna á ferðinni í Laugardalslaugina í gærmorgun heldur en á laugardaginn enda dreif ég mig beint til norsku esperanto vinkonu minnar eftir sundið. Var með allt með mér og á rúmum klukkutíma komumst við vinkonurnar yfir ýmislegt, bæði tengt esperanto og líka annað alveg ótengt efni. Kom heim um hálfeitt, fór nær strax út aftur því ég ákvað að verða við beiðni tilvonandi rafeindavirkja og skutlast með hann í skólann. Rétt fyrir tvö var ég mætt sem almennur kirkjugestur í kirkjuna mína og átti þar notalegar tæpar tvær stundir, fyrst í messunni og svo í kaffinu í neðra. Nokkru eftir að ég kom heim aftur fór hinn ungi maðurinn með strætó að "spilakvöld" í Mosfellsbæ þar sem hann var langt fram á kvöld og fékk far aftur heim. Hinn ungi maðurinn kom heim upp úr klukkan sex ásamt vini og stoppaði heima við til hálfátta en þá fóru þeir í bíó. Ég tók því rólega en opnaði amk saumatöskuna mína og gerði aðeins meira heldur en að loka henni beint aftur. Gaf mér sjálfri leyfi til að byrja á nýju, "litlu" saumaverkefni þrátt fyrir að vera alveg með tvö önnur í takinu.
10.5.15
Garðvinnuferð í foreldrahús
Ég byrjaði sundferðirnar í Laugardalslauginni þegar klukkan sýndi 8:25 í gærmorgun. Synti í 15 mínútur, skrapp í sjópottinn, gufuna og sat upp við bygginguna um stund áður en ég dreif mig upp úr. Hringdi í einkabílsstjórann á meðan ég var að klæða mig og sagði að hann hefði uþb þrjú korter til að vakna, klára verkefni fyrir skólann og gera sig klárann í austurferð. Á meðan gaf ég mér tíma til að fá mér kaffibolla eftir sundið. Ungi maðurinn þurfti, þegar til kom, rétt rúma klukkustund og vorum við að leggja af stað úr bænum um hálfellefu. Hann stýrði bílnum alla leið austur og vandaði sig við aksturinn enda gekk ferðalagið eins og í sögu. Honum fannst hann reyndar vera mjög fljótur en það gæti komið til vegna þess að við mæðgin spjölluðum saman alla leiðina og þannig líður tíminn extra hratt.
Komum á Hellu rétt fyrir tólf og byrjuðum á því að fá okkur hádegishressingu. Síðan fóru pabbi minn og sonur minn út í garð. Pabbi var byrjaður að saga niður tré og búta niður og hann hélt því áfram á meðan hann fékk unga manninn til að fara með bútana og henda á kerru. Þegar búið var að hreinsa það mesta fyrir aftan hús bað pabbi mig um að raka saman lauf og greinar. Á meðan ég var að því steikti mamma pönnukökufjall á tveimur pönnukökupönnum og setti upp kaffið. Ég gekk frá eftir kaffið en pabbi og Oddur Smári fóru aftur út til að klára að saga niður tréð sem brotnaði af í vonda veðrinu, búta það niður og enda upp í kerru ásamt eitthvað af laufgreinahrúgunum eftir mig. Þeir komu inn rétt fyrir sjö en þá sagði afinn að þetta væri nóg vinna í dag. Við horfðum á fréttirnar áður en það var borðaður kvöldmatur. Ég keyrði aftur í bæinn og vorum við að koma heim aftur um ellefu.
Hinn ungi maðurinn hafði ætlað sér að sinna fyrsta sveinsprófsverkefninu upp í Tækniskóla og svo var hann búinn að lofa sér í fjölskylduafmælisveislu hjá litlu systur þeirra bræðra en hún varð eins árs í síðustu viku. Hann var ekki kominn heim þegar ég fór að sofa rétt fyrir miðnætti en ég heyrði hann koma stuttu síðar. Þá var hann reyndar ekki að koma úr afmælinu heldur hafði skroppið eitthvað með einum vini þeirra bræðra.
9.5.15
Aftur á Hellu
Sunddótið mitt var í bakpokanum mínum með ýmsu öðru, t.d. afgangurinn af bleikjuréttinum, þegar ég fór með strætó í vinnuna rétt fyrir sjö. Það var það mikið að gera í vinnunni að við létum vélina ganga alveg frá klukkan sjö til klukkan rétt rúmlega tólf. Skiptum okkur niður í kaffi en fórum svo öll í mat á sama tíma. Strax eftir matinn var smá stöðufundur bæði til að fara aðeins yfir vikuna og skipuleggja vinnulag í næstu viku. Rétt fyrir tvö bauðst mér að taka þátt í Illy-kaffistund en sú stund er aðeins einu sinni í viku. Ég þáði boðið því ég vissi sem var að ég þyrfti hvort sem er að vera örlítið lengur til að ganga frá ýmsum málum á vinnustöðinni minni. Klukkan var þó ekki nema hálfþrjú þegar ég stimplaði mig út. Reyndi að ná í einkabílstjórann minn en þar sem hann svaraði ekki labbaði ég alla leiðina heim og kom aðeins við á einum stað sem þó var ekki Sundhöllin. Nei, ég ákvað nefnilega sleppa sundferðinni í gær. Það var heldur ekki neitt útstáelsi á mér eftir að ég kom heim, sinnti bara ýmsum málum og hugðarefnum heimafyrir og lánaði bræðrunum lánsbílinn til að fara í áttabíó í Egilshöllina eftir kvöldmat.
8.5.15
Föstudagur
Tíminn æðir áfram og það er eiginlega fullt starf að njóta hvers augnabliks en þessa dagana finnst mér ég vera að takast það alveg ágætlega. En annars á pistill dagsins að vera aðeins um gærdaginn að venju. Fór með strætó í vinnuna og var mætt rétt fyrir sjö. Nóg var að gera og tíminn flaug. Ég stimplaði mig úr vinnu rétt rúmlega tvö og trítlaði þá yfir á Borgarbókasafnið í Grófinni til að skila þeim þremur bókum úr Kringlusafninu sem voru á síðasta lánsdegi. Hafði náð að lesa þær allar og þar sem hér heima eru enn fimm bókasafnsbækur ákvað ég að líta ekki einu sinni í kringum mig á safninu heldur labbaði alla leið heim. Var reyndar líka með sunddótið í bakpokanum en ég hafði haft samband við skipuleggjanda kórferðarinnar þar sem ég vissi að hann væri með tvo ógreidda reikninga og það vildi svo vel til að hann gat átt leið um hverfið mitt um hálffjögur. Eftir að hann var búinn að koma til mín reikningnunum og þegar ég hafði greitt þá fór ég á lánsbílnum í Laugardalslaugina. Tók reyndar út eitt bleikjuflak sem ég átti í frysti áður en ég fór því strákarnir voru að fara í mat til pabba síns.Gaf mér góðan tíma í lauginni, bæði til að synda, gufast og "sóla" mig áður en ég fór aftur heim og útbjó mér gómsætan bleikjurétt sem ekki var eftir neinni sérstakri uppskrift. Borðaði helminginn og tók hinn helminginn frá til að hafa með í vinnuna. Horfði á sjónvarpið til klukkan að verða tíu en þá ákvað ég að vera skynsöm og koma mér i ró. Las reyndar í stutta stund en ég held að ég hafi örugglega verið sofnuð áður en klukkan varð hálfellefu.
7.5.15
Skemmtilega óvænt útstáelsi
Fór með strætó í vinnuna í gær. Eftir vinnu, upp úr tvö, labbaði ég í Sundhöllina. Synti líklega ekki nema 10x25m en ég sat dágóða stund úti í sólinni og fór tvisvar í gufu í millitíðinni. Þegar ég kom upp úr hringdi ég í einkabílstjórann minn og bað hann um að taka með sér pappír og flöskur og hitta mig við gámana við Kjarvalsstaði. Ungi maðurinn lét ekki segja sér þetta tvivar, greip með sér allt í pokum og kom á staðinn á bílnum um svipað leyti og ég á tveimur jafnfljótum. Hann hafði hins vegar ekki haft fyrir því að taka með blöðin sem ekki voru komin ofan í blaðapokann. Síðan renndum við við í Krónuna við Nóatún.
Stuttu eftir heimkomuna hringdi ein vinkona mín í mig og spurði hvort ég vildi koma með sér á útgáfutónleika Belleville á Café Rosenberg um kvöldið. Ég var alveg til í það og þar sem ég vissi að ég hafði fengið Facebook boð á viðburðinn dreif ég mig inn á þá síðu og smellti á viðeigandi hnapp. Oddur Smári sá um kvöldmatinn og ég lét líða úr mér fyrir framan imbann, með bók sem ég ætlaði mér að klára.
Brynja kom og sótti mig stuttu fyrir níu, kíkti aðeins inn, skoðaði heimilið og heilsaði upp á strákana. Davíð Steinn var í gestgjafastuði og labbaði um íbúðina með okkur og tók þátt í samræðunum. Svo drifum við jafnöldrurnar og tvíburamömmurnar okkur á viðburðinn og munum sennilega seint sjá eftir því. Það var góð stemming og mússíkin hans Eyva var alveg að selja sig. Brynja keypti einn disk strax og við komum og ég ákvað að smella mér á eitt stykki eftir tónleikana. Saman fengum við svo Eyva til að árita gripina og okkur skilst að hann hafi verið að gera svoleiðis í fyrsta skipti.
6.5.15
Nóg að stússast
Ég fór aftur á lánsbílnum til vinnu í gærmorgun. Tíminn til tvö var nokkuð erilssamur en að sama skapi mjög fljótur að líða. Fór ekki með sunddótið með mér því þrátt fyrir að það væru ekki alveg liðnir fullir fjórir mánuðir síðan ég heimsótti Blóðbankann síðast ákvað ég að athuga hvort það væri ekki í lagi. Dagsetning í gær var nefnilega svo ágæt og þetta var þar að auki fertugasta heimsóknin mín. Í kerfinu hjá blóðbankanum stóð að senda ætti mér áminningu í kringum 14. maí n.k. en mér var ekkert hent út aftur heldur tekið vel á móti mér. Allt gekk svona glimrandi vel. Það er helst að ég þurfi aðeins að passa upp á efri mörkin á þrýstingnum en ég gæti líka hafa mælst í hærra lagi vegna þess að við vorum að tala svo mikið saman undir þessum mælingum og mælirinn er sagður viðkvæmur fyrir því.
Um átta um kvöldið var ég mætt í Háteigskirkju á vortónleika Valskórsins. Ég var svo heppin að fá boðsmiða. Gestasöngvari með þeim var Gissur Páll, undirleikari Jónas Þórir og stjórnandi Bára Grímsdóttir. Þarna var tímanum mjög vel varið því mér fundust þetta alveg dásamlegir tónleikar.
5.5.15
40 heimsóknir í blóðbankann
Þessa vikuna vinn ég frá klukkan sjö á morgnana og til tvö eftir hádegi. Fór á bíl til vinnu í gær og var mætt rétt fyrir sjö. Það er alltaf nóg að gera og sérstaklega um mánaðamótin en leið vinnudagurinn alveg extra hratt í gær. Rétt áður en ég var búinn hafði annar strákurinn samband við mig og bað mig um að skutlast með sig í bankann. Sótti unga manninn í skólann og á meðan ég beið eftir honum fyrir utan bankann hringdi ég í hinn unga manninn sem átti að mæta í viðtal út af sumaratvinnu um tíu í gærmorgun. Ég var forvitin að vita hvernig hafði gengið. Hann komst ekki einu sinni í viðtalið, en var kominn langleiðina á staðinn, þegar hringt var í hann og hann spurður að því hvort hann gæti ekki bara byrjaði daginn eftir. Samið var um að hann mætti ljúka verkefnum og prófum úr skólanum og byrja síðan í vinnu eftir uþb tvær vikur. Aldeilis góðar fréttir það. Nú er bara að vona að hinn ungi maðurinn fái líka sumarvinnu fljótlega.
4.5.15
Ný vinnuvika hafin
Stillti ekki á mig neina klukku í gærmorgun er var samt vöknuð upp úr átta og komin ofan í Laugardalslaugina rétt rúmlega níu. Hitti eina kórsystur mína sem var með í ferðalaginu þegar ég var á leiðinni í sjópottinn eftir að hafa synt nokkrar ferðir. Spjölluðum örstutt saman því hún var á leið upp úr og ég átti eftir að fara í pottinn og gufuna. Hafði tíma til að skreppa heim og ganga frá sunddótinu áður en ég fór yfir til norsku esperanto vinkonu minnar en dótið sem ég tók með til hennar var tilbúið í bílnum. Var mætt til Inger fyrir klukkan ellefu og við ákváðum að geyma krossgáturnar þar til síðast. Lásum eina smásögu á esperanto og þýddum jafnóðum. Áður en ég fór heim aftur fór ég í Sunnubúðina þar sem ég vissi að það vantaði m.a. brauð heima.
Heima hrærði ég í fulla uppskrift af vöfflum og bjó til vöfflur úr því öllu, þeytti rjóma með og höfðu strákarnir tíma til að fá sér tvær hvor áður en þeir fóru að hitta föðurforeldra sína. Ég hringdi örstutt í eina vinkonu, horfði á næstum allan handboltaleikinn við Serba, fékk mér snarl og trítlaði á fyrsta heimaleiks Valsstrákanna í fyrstu umferð mótsins um sjö í gærkvöldi. Gestirnir, Leiknir, nýliðar í deildinni, unnu þessa viðureign með þremur mörkum gegn engu.
3.5.15
KÓSÍ seinni hluti ferðasögunnar
Aftur vaknaði ég með ferðafiðring og tilhlökkun í kroppnum, löngu á undan klukkunni. Við herbergisfélagi minn höfðum ákveðið að láta vekjarann hringja tuttugu mínútum fyrir átta svo við yrðum mættar í morgunmatinn fljótlega eftir að hann var í boði á heila tímanum (milli 8-10 fh). Morgunverðurinn var jafn glæsilegur og kvöldverðurinn og það var gott að geta gefið sér smá tíma til að njóta. En dagskrá gærdagsins var nokkuð þétt en afar spennandi og ég fullyrði að allir ferðalangar voru mjög sáttir í lokin. Tékkuðum okkur út um níu og fengum með okkur nesti. Kórsjóður borgaði, gistingu, kvöldmat og nesti (morgunmaturinn var líka inn í þessum pakka). Það var heiðskír himinn og ekki skýkorn á fjalladrottningunni og eldfjallinu Heklu.
Fyrsti áfangastaður dagsins var Oddakirkja. Séra Guðbjörg tók mjög vel á móti okkur og svaraði öllum okkar spurningum og við fengum að hita upp og syngja uppi á kirkjulofti. Kórstjórinn, sem þekkir alveg aðstæður, spilaði undir á kirkjuorgelið, opus no 7, smíðað af Björgvini Tómassyni 1991. Næst stoppuðum við aðeins við Urriðafoss áður en við héldum sem leið lá að á safnið á Forsæti III. Þar fengum við líka góðar móttökur og afar fróðlega mola um ýmislegt á safninu. Við fengum líka að prófa að syngja þar inni. Nestið var borðað við bekki og búakofa úti á túni áður en ferðinni var framhaldið.
Áfram var haldið og keyrt um sveitina. Næst var áð við Rjómabúið þar sem tekið var á móti okkur og okkur sýnt og sagt frá. Gott að það er haldið utan um þessar sögulegu mynjar. Næsta stopp var á Stokkseyri hjá fyrrnefndum Björgvin og tók hann sjálfur á móti okkur og leiddi okkur í gegnum smiðjuna sína og fræddi okkur um mjög margt þar inni. Árni Heiðar fékk á prófa að spila á afar gamalt fótstigið orgel eftir að Björgvin hafði spilað fyrir okkur og svo á annað nýlega smíðað og óselt og þá tókum við kórinn lagið.
Næst lá leiðin yfir Óseyrarbrú, beygðum til hægri og svo aftur til hægri á krossgötunum og keyrðum alla leið í Hveragerði. Þar var næsta stopp hjá heiðurshjónunum Jóhanni og Eddu sem vel að merkja þekkja hluta af kórnum, þar á meðal þann sem skipulagði ferðina og sá um fararstjórnina í rútunni. Okkur voru boðnar léttar veitingar og svo sagði Jóhann okkur frá orgelinu sem var eitt af stofustássunum og hann hafði smíðað alveg sjálfur. Kórstjóri vor fékkst að sjálfsögðu til að spila á gripinn, kórinn tók lagið og orgelsmiðurinn fékk að taka allt saman upp.
Síðasti áfanginn í ferðinni var svo í Fákasel. Þar átti kórinn pantað þriggja rétta máltíð og aðgang að sýngunni klukkan sjö. Kórsjóðurinn borgaði matinn og miðana. Við héldum að tæpir tveir tímar væru nóg í borðhaldið en við vorum að fá eftirréttinn um tíu mínútum fyrir sjö og þar að auki vorum við eiginlega orðin pakksödd. Okkur var sagt að hafa ekki áhyggjur af tímanum, sýningin myndi ekki byrja án okkar. En þvílík sýning og svo fengum við að klappa tveimur hestum og hundinum sem var í tveimur atriðum og einu myndatriði áður en okkur var boðið að heilsa upp á alla hestana í hesthúsinu.
Þetta var vel skipulögð og skemmtileg ferð og tímasetningar stóðust flestar mjög vel. Til að mynda "lentum" við aftur við kirkjuna okkar á slaginu níu í gærkvöldið, södd og sæl með þetta ferðalag og samveru.
Aftur á móti fannst mér leiðinlegt að heyra að ekki er gert ráð fyrir að hittast á hefðbundnum miðvikudagskóræfingum og að næsti hittingur er áætlaður tveim tímum fyrir hvítasunnumessuna eftir þrjár vikur. Ég veit ekki hvort ég held það út að hitta ekki þetta frábæra fólk í allan þennan tíma. Þar fyrir utan komust ekki allir kórmeðlimir í kórferðina. Ég veit að sumir eru uppteknari en aðrir og fagna því að fá smá pásu en ætli ég sé ein um það að leiðast það hversu langt er í næsta skipulagða hitting? Kannski ætti að spyrja hópinn að þessu með einum rafrænum fyrirspurnarskilaboðum og/eða skrifa á sameiginlegan vegg kórsins?!?
2.5.15
KÓSÍ ferðalag fyrri hluti
Það var smá ferðafiðringur í mér þegar ég vaknaði í gærmorgun enda runninn upp dagurinn sem kórinn minn ætlaði að leggja af stað í smá ferðalag út úr borginni og austur yfir fjall. Reyndar var áætlaður brottfarartími ekki fyrr en um fjögur eftir hádegi því það var 1. maí og amk einn kórfélagi bundinn í ákveðnu verkefni og nokkrir sem ætluðu að taka þátt í deginum með einum eða öðrum hætti. Ég skrapp í sund upp úr klukkan níu og gaf mér tíma til að setjast niður með kaffibolla áður en ég fór heim. Heima stússaðist í ýmsu en það var ekki fyrr en klukkan var farin að ganga þrjú sem ég fór að pakka niður nótum, tannbursta og ýmsum nauðsynjahlutum sem gott er að hafa með sér ef á að bregða sér af bæ.
Oddur Smári skutlaði mér upp í kirkju rétt fyrir fjögur og þar beið 19 manna rúta ásamt bílstjóra. Allir voru mættir á réttum tíma en einn sópraninn heltist úr lestinni á síðustu stundu svo í ferðina fóru auk bílstjóra, tveir tenórar, þrír bassar, þrjár sóprönnur (þar af tvær Önnur) og fimm altir (þar af ein Annan enn). Gert var örstutt stopp í Hveragerði þar sem e-r þurftu að næra sig en svo lá leiðin í kirkjuna á Sólheimum í Grímsnesi. Þangað vorum við komin upp úr fimm og byrjuðum við fljótlega að hita upp og æfa. Áður en klukkan varð sex fór að drífa að heimafólk sem hafði verið látið vita að æfingin yrði opin og allir velkomnir. Séra Birgir og frú mættu líka og úr varð hin skemmtilegasta stund. Næst lá leiðin þangað sem við ætluðum borða kvöldmat og gista um nóttina, á Hellu, mínar heimaslóðir. Við bókuðum okkur inn og þeir sem vildu höfðu tíma til að skreppa aðeins í pottinn því við höfðum pantað pláss við hlaðborðið klukkan níu. Ég og herbergisfélagi minn, ein úr altinum, fórum ekki í pottinn en slökuðum aðeins á og skiptum um föt fyrir borðhaldið. Mættum upp í matsal rétt rúmlega níu. Þar fékk hópurinn langborð við glugga sem snéru að þorpinu og í austur. Maturinn var góður og við gáfum okkur góðan tíma til að njóta hans og félagsskaparins. Sann-Kristinn var með nokkra brandara og ég las upp lýsingar við ákveðna afmælisdaga, úr afmælisdagabók sem ég á, leyfði fólki að giska á hver ætti hvaða lýsingu og fékk svo undirskrift allra og bílstjórans líka. Lýsingarnar áttu kannski ekki alltaf nógu vel við en þetta var samt bara nokkuð skemmtilegt.
1.5.15
Nýr mánuður
Í gær var vinnuskyldan mín milli klukkan eitt og sjö eftir hádegi. Var nú samt komin á fætur um sjö, skutlaði rafeindavirkjanum tilvonandi í Tækniskólann, fyllti lánsbílinn með bensíni frá Atlantsolíu við Flugvallarveg og fór í sund í Laugardalslaugina. Þar synti ég í uþb tuttugu mínútur. Sjópotturinn var ekki í boði því verið er að vinna eitthvað við hann en ég fór í gufu og "sólbað" áður en ég fór upp úr aftur og heim. Leikjatölvunarfræðingurinn tilvonandi, sem er búinn að vera með bílpróf í viku, þurfti ekkert að mæta í skólann í gær og ég ákvað að leyfa honum að þjálfa ökuleiknina á lánsbílnum. Upp úr tólf bað ég hann um að skutla mér í vinnuna með viðkomu í Valsheimilinu þar sem ég fjárfesti í árskorti á heimaleiki Vals í Pepsídeildinni. Kortið kostar 15000 og gildir eins og áður á alla heimileiki í karla og kvennaflokki og er fyrsti heimaleikur karla strax í fyrstu umferðinni sem byrjar á sunnudaginn. Fyrsti umferðin hjá konunum er rétt um miðjan mánuðinn og þar eiga Valsstúlkur heimaleikjarétt. Að vera árskorthafi þýðir líka að hægt er að fá sér kaffi í leikhléum.
Stuttu fyrir eitt skyldi Oddur mig eftir rétt við vinnustaðinn minn og brunaði svo aftur heim að sinna nokkrum skyldum þar. Vinnudagurinn leið jafnhratt og áður en það gekk ekki alveg eins vel og ég óskaði mér. En svona er þetta bara. Stundum gengur extra vel og stundum gengur allt á afturfótunum og allt þar á milli eins og í lífinu sjálfu. Oddur var mættur aftur til að sækja mig rétt fyrir sjö og þurfti að bíða í smá stund. Hann skutlaði mér heim en fékk svo að fara næstum strax aftur á ökutækinu til að fara á tónleika hjá vinkonu sinni. Davíð Steinn var e-s staðar með vini svo ég fékk mér snarl og settist síðan fyrir framan imbann.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)