29.4.04

- Eitt og annað -

Hún minnuga ég gleymdi að geta þess í fyrradag að þá átti ein af frænkum mínum, Hjördís Rún afmæli. Kannski ég heilsi bara upp á hana í vinnuna fljótlega. Í gær sló ég á þráðinn til afa hennar (sá hinn sami er föðurbróðir minn) og óskaði honum gleðilegs sumars. Fann um leið og ég fór að spjalla við hann að það er orðið alltof langt síðan ég fór síðast austur.

Eldsnemma einn morguninn í vikunni (um fjögur) rumskaði ég við eitthvað hljóð. Davíð gerði nú gott betur en að rumska. Hann hamaðist við að slökkva á gemsanum og þegar hann fann það út að þetta var úrið hans sem lét svona var hann glaðvaknaður. Minn maður fór því á fætur, læddist fram og lokaði dyrunum á eftir sér. Ég steinsofnaði aftur. Á sjöunda tímanum kom Davíð og færði mér kaffi og morgunmat í rúmið, AB-mjólk með musli, rísköku með kæfu og gúrku, jarðaber og rjúkandi kaffibolla. Ósköp var þetta nú notalegt.

Í gær rölti ég yfir á Valssvæðið og sótti tvíburana eftir fótboltaæfingu. Veðrið var hreint yndislegt en skórnir mínir eru enn gráir. Um átta kvaddi ég feðgana og dreif mig á kóræfingu. Til stóð að hafa myndasýningu frá einni sem fór til Kenýa í vetur en vegna misskilnings varð að fresta sýningunni þar til eftir vortónleika. En viti menn, það mættu fjórir tenórar og þrír bassar á æfingu. Einn tenórinn byrjaði aftur í gærkvöld eftir nokkurra mánaða hvíld. Gaman að því.

Og í kvöld fer ég á photoshop-námskeið sem hófst sl. þriðjudagskvöld. Ég hef engan tíma í að láta mér leiðast og lítinn til að lesa og sauma í. Maí mánuður verður nokkuð ásetinn og mér sýnist að sumarið ætli að verða það líka. Ég ætla samt að muna að njóta augnabliksins!!!

28.4.04

Einn góður sem maðurinn minn sagði mér

Tveir giftir sitja á barnum og eru að spjalla saman.
"Ég skil ekkert í þessu, í hvert skiptið sem ég fer heim af barnum þá slekk ég á aðalljósunum á bílnum og læt hann renna hljóðlega inn í innkeyrsluna.
Ég passa að skella ekki hurðinni og læðist á sokkunum upp stigann, fer úr fötunum áður en ég kem inní svefnherbergi og leggst varlega í rúmið.
Samt æpir konan mín á mig að ég eigi ekki að koma svona seint heim því ég veki hana alltaf!"
"Iss" segir hinn. "Þú ert að gera þetta alveg vitlaust.
Þegar ég fer heim þá stilli ég á háu ljósin þegar ég kem inn götuna og skransa inn í bílastæðið og flauta.
Ég skelli hurðinni og hleyp upp stigann, hossa mér uppí rúm, slæ hana á rassinn og segi HVER ER GRAÐUR?"
"Einhvern veginn þá þykist hún alltaf vera sofandi."
- Vikan hálfnuð -

Í dag er fæðingardagur móðurafa míns, Friðgeirs Maríusar Magnúsar Friðrikssonar. Hann var fæddur árið 1919 og hefði því orðið 85 ára í dag. Hann dó rétt fyrir 55 ára afmælið sitt fyrir 30 árum síðan. Ég á samt minningar um hann þótt fáar séu. Ég veit líka að eldri maðurinn á efri hæðinni er 72 í dag.

27.4.04

- Brúðuleikrit -

Fyrir nokkrum árum fór mamma til Noregs. Þegar hún kom þaðan færði hún tvíburunum m.a. tvær handbrúður; gíraffi sem fékk nafnið Geiri og hin api sem fékk nafnið Júlíus (í höfuðið á fyrirmyndinni, frægum apa m.a.s.) Davíð Steinn á Geira og Oddur Smári Júlla. Eftir að Davíð var kominn heim í gær og strákarnir búnir að sinna skólaskyldum og hátta, buðu þeir okkur foreldrunum upp á smá brúðuleikrit, frumsamið á staðnum. Það var ljúf stund. Geiri og Júlli voru tveir vinir, duglegir við að leika sér saman og vera úti og þurftu yfirleitt alltaf að fara í bað á kvöldin eftir "smá óhöpp" í drullupyttunum, eða þannig.

26.4.04

- Helgin liðin -

Síðasta vika apríl mánaðar er komin á skrið. Margt er að gerast í kringum mig þessa dagana og hef ég ákveðið að upplýsa eitthvað af því núna.

Margir vita að íbúðin okkar fór á sölu seinni partinn í mars. Strax eftir páska fengum við tilboð sem við gátum ekki neitað (breyttum aðeins afhendingardeginum) og seinni partinn í dag skrifuðum við undir sölusamning við kaupandann. Íbúðina eigum við að afhenda eigi síðar en 23. júlí (afmælisdagur tvíburanna), fyrr ef hægt er.

Við höfðum gert tilboð í íbúð við Bólstaðarhlíð en þar voru fleiri um hituna og okkur var hún líklega ekki ætluð. Á laugardaginn fyrir viku fengum við á senda strákana til Helgu systur um tvö. við vorum búin að hafa samband við 4 seljendur og mæla okkur mót. Fyrst komum við inn í mjög notalega og þokkalega rúmgóða íbúð við Barmahlíð. Þar sá ég ættartré upp á vegg sem heldur betur tengist föðurfólkinu mínu. Það kom í ljós að faðir þessarar konu og föðurafi minn voru hálfbræður. Ekki er Ísland mjög stórt! Einnig skoðuðum við íbúð við Skipholt og aðra við Stangarholt.

Á sjötta tímanum (þennan sama laugardag) renndum við eftir "Gumma frænda". Á leiðinni til hans sá Davíð skilti sem hann kannaðist við að hafa séð á mynd á fasteignavefnum. Hann langaði skyndilega til að fara og banka upp á en ég var ekki alveg á því. Gummi kom með okkur að skoða íbúð við Hraunteig. Sú íbúð var á margan hátt mjög skemmtileg og stór, yfir 130 fermetra. Og var ég með hugann við hana þegar strákarnir ákváðu að athuga hvort hægt væri að skoða íbúðina sem Davíð hafði rekist á. Ég fór með og var tekið á móti okkur svona fyrirvaralaust. Samt var ég enn með hugann við síðustu skoðun. Þó leist mér mjög vel á allar aðstæður þarna.

Eftir að hafa hugsað málin mjög vel ákváðum við að gera tilboð í þessa síðustu íbúð sem við skoðuðum. Og til að gera langa sögu aðeins styttri þá var tilboðinu tekið og allt fór í gang um helgina. Við fáum líklega afhent um miðjan júní og getum því afhent núverandi íverustað eitthvað fyrr þótt við tökum kannski smá tíma í að mála og fleira.

Þess skal getið að synir voru aldeilis ekki hrifnir af þessu brölti, vildu helst ekki flytja og alls ekki skipta um hverfi. Við sjálf vildum helst vera áfram í 105 hverfinu og ég held að við höfum lent á rétta staðnum...

24.4.04

- Laugardagsmorgunn -

Klukkan er byrjuð að ganga tíu og það er komið vel á annan tíma síðan strákarnir vöknuðu. Að þessu sinni veit ég ekki hvor vaknaði á undan, morgunhaninn (sem er allur að braggast) eða hrausti strákurinn (sem er að lengjast mikið þessa dagana). Kannski vöknuðu þeir líka um sama leyti. Ég var ekki alveg að geta tosað mig framúr til að byrja með (enda í rúminu). Bræðurnir ákváðu að spila eina sjóorustu. Þegar fór að heyrast heldur hærra í þeim ákvað ég að grípa inn í. Bað þá um að lesa smá fyrir lestrarkeppnina á meðan ég væri að koma mér á fætur. Það datt allt í dúnalogn.

En aðeins um seinni partinn í gær. Það var mikil fart á Davíð er hann sótti mig um fjögur. Hann þurfti að bíða smástund eftir mér. Sóttum strákana og svo lá leiðin inn í Hafnarfjörð að sækja viðbót af kaffi fyrir lottómóts-söfnunina. Á baka leiðinni steinsofnaði Oddur Smári. Helga systir var búin að bjóða okkur að borða með þeim mæðgum svo Davíð skilaði okkur beint þangað en svo lá leið hans í Valsheimilið. Ég skrapp í Bónus og keypti bakka af kjúklingavængjum og annan af leggjum, til að bæta í púkkið hjá systur minni. Þar sem krakkarnir gátu ekki látið vera að hamast í stofusófanum, með tilheyrandi hávaða og mikilli hættu á smá hnjaski, sendi ég Davíð Stein upp með Huldu til að lesa fyrir hana. Hann fann reyndar söngbók og söng og söng næsta hálftímann eða svo. Oddur var ekki í neinu stuði, sagðist ætla að lesa textann á Disneymynd kvöldsins.

Davíð kom mátulega í mat um sex. Það var borðað vel en Oddur var samt lystarminni en venjulega. Ég aðstoðaði Helgu við uppvask og frágang og bjó til kaffi handa okkur fullorðna fólkinu.

23.4.04

- "Það er komið sumar" -

Ein frænka mín, Þórhalla náði mér í aldri í dag. Móðurafi hennar er föðurbróðir minn. Annars er hugur minn á fleygiferð út um allt þessa stundina. Get enn sem komið er ekki alveg tjáð mig um það og kannski það fari bara í einkasafnið ef það þá fer niður á blað. Það kemur bara í ljós.

Tónleikarnir í gær tókust bara með miklum ágætum. Margar hjálparhendur voru mættar einum og hálfum tíma fyrir tónleika og var raðað upp stólum fyrir rúmlega 120 manns. Síðan var krökkunum í barnakórnum hjálpað að finna kórkirtlana sína og leik-búninga eftir því sem þau mættu. Aðeins ein stúlka í barnakórnum mætti ekki. Um tvö komu einsöngvarinn, Rannveig Káradóttir og undirleikarinn, Heiðrún Kjartansdóttir og æfðu með kórunum þar til tuttugu mínútur voru í tónleika. Um þrjú var næstum hvert sæti skipað og meira segja setið á öftustu kirkjubekkjunum.

Barnakórinn byrjaði á að syngja, leika og lesa Söngleikinn um Símon Pétur. Ein af einsöngvurunum var svolítið feimin og þegar hún svo ætlaði að byrja ruglaðist hún og fór alveg í kerfi. Hún fékk ekki annað tækifæri og færði sig aðeins á bakvið í nokkra stund. Mikið fann maður til með henni, en ég veit að hún hefur mjög góða rödd. Þrjár stúlkur úr kórnum spiluðu líka undir í sumum atriðunum, ein á gítar, önnur á fiðlu og sú þriðja (sem er dóttir kórbróður míns úr kór FSu) spilaði á flautu. Eftir söngleikinn settust svo yngri krakkarnir niður og stúlkurnar úr eldri hópnum sungu sex lög. Ein úr hópnum söng einsöng í einu laginu og Rannveig söng einsöng með þeim í tveimur síðustu lögunum. Þá var yngri hópurinn kallaður upp aftur og saman sungu kórarnir fjögur lög og Rannveig söng aftur einsöng með í lokalaginu; He´s got the whole world. Þessi klukkutími var ekki lengi að líða.

Helga systir bauð okkur til sín í vöfflur og kaffi. Við mættum rétt fyrir hálffimm, eftir að hafa aðstoðað við frágang eftir tónleikana. Vöfflurnar (og járnið) voru eitthvað óþægar við systur mína og það endaði með því að ég bað Davíð um að sækja okkar járn heim og bakaði ég á það Hulduvænar-vöfflur og svo úr einni Kötlu-blöndu. Við vorum að drekka og borða kaffið á kvöldmatartíma.

Er heim kom leyfði ég strákunum að horfa á leikinn Stjarnan - Valur (27-29). Oddur hvarf stuttu fyrir níu. Ég fann hann steinsofandi í efri kojunni. Hann er sennilega enn að jafna sig eftir veikindin.

Í dag er dagur bókarinnar! Í hádeginu á síðasta vetrardag fór ég í Mál og Menningu og keypti bók handa drengum sem var að bjóða í afmælið sitt. Þar sem það er búið að vera vika bókarninnar fékk ég gefins bókina, 23. apríl með smásögum í eftir ýmsa höfunda. Ég hlakka til að glugga í hana!

22.4.04

- Sumardagurinn fyrsti -

Og þessi frændi minn, sem er skiptinemi á Nýja Sjálandi, er árinu eldri í dag. Hann skemmtir sér vel þarna úti og það er mjög gaman að fylgjast með og lesa um ævintýrin hans.

Hrausti drengurinn minn vaknaði fyrir allar aldir í morgun í spreng og glorhungraður. Hann læddist samt um íbúðina og fékk sér vatn að drekka. Ég fór framúr góðri stundu seinna og þá var klukkan rétt að byrja að ganga átta. Morgunhaninn steinsvaf (sennilega að ná alveg úr sér pestinni). Ég bauð þeim hrausta að koma og kúra smá hjá okkur Davíð og hann sofnaði stund. Um hálfníu drifum við okkur á fætur og þá fyrst rumskaði morgunhaninn. Við fengum okkur morgunverð og síðan samdi ég við þá um að byrja á heimanáminu sem þarf að ljúka við fyrir morgundaginn.

Þeir voru alveg til í að reikna, en þar sem þeir sátu hvor á móti öðrum gátu þeir ekki látið hvorn annan í friði eða látið vera að fíflast. Mér fannst það alveg í lagi til að byrja með. Bjó mér til sterkt og gott kaffi og drakk það við borðendann hjá þeim. Drengirnir voru í stuði til að klára allar fjórar blaðsíðurnar svo mér datt í hug að lesa í Línu Langsokk (allar sögurnar) fyrir þá á meðan. Það virkaði.

Við mætum upp í kirkju í fyrra fallinu (við Davíð buðum okkur fram til aðstoðar) og klukkan verður líklega langt gengin í fimm er við komum heim (eftir frágang) svo það er gott ef strákarnir verða búnir að læra.

Þar sem það er lestrarkeppni milli sjö og átta ára bekkjanna í skólanum er eiginlega skylda að lesa einhverjar mínútur í aukalestri í dag. (Oddur Smári las 225 mín. í gær en hann var líka heima allan daginn). Davíð Steinn kom ekki heim fyrr en um átta í gærkvöld því strax eftir fótboltaæfinguna var öllum í eldri flokknum boðið í átta ára afmæli eins úr flokknum og var það haldið þarna. Oddur var svolítið svekktur yfir að missa af þessu en hann var samt ekki sá eini sem var veikur. Fótboltavinur þeirra af "Pollagötunni" var líka veikur.

Davíð lagði nokkrar gátur fyrir Odd Smára í gærkvöldi:
1. "Þú ert á leiðinni austur á Eyrarbakka. Á leiðinni mætir þú manni. Með manninum eru þrjár konur og hver kona er með þrjú börn. Hvað eru margir á leiðinni á Eyrarbakka?" Stráksi gaf sér tíma til að hugsa um þetta og eftir smá stund hrópaði hann: -"Bara ég sjálfur!"
2. (D.O.) "Segjum svo að ég sé strætisvagnabílstjóri. Ég ek frá Hlemmi og með mér eru 5 farþegar. Á stoppistöð við Háteigsveg fara tveir farþegar út og inn koma 4. Næst þegar vagninn stöðvar fer einn út og inn koma þrír. Í þriðja sinn sem vagninn stöðvar fer enginn út en inn koma tveir. Hvað heitir mamma bílstjórans?" Stráksi gaf sér góðan tíma til að hugsa um þetta og segir svo allt í einu: -"Sigga!" "Ha!, kváði Davíð. -"Þú sagðir að þú værir bílstjórinn og mamma þín heitir Sigga..."
3. (D.O.) "Faðir Jóns á þrjá syni. Þeir heita Rip, Rap og...?" Nú gleymdi Oddur að hugsa og svaraði af bragði -"Rup!" (Svarið er reyndar Jón, er það ekki?)

En endilega þeir sem eru á höfðuborgarsvæðinu og ekki með neinar sérstakar áætlanir: Verið velkomin á tónleika í Hallgrímskirkju klukkan þrjú. Það kostar 1000 kr. fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir 12-18 en frítt fyrir yngri en 12 ára.

21.4.04

- Síðasti vetrardagur -

Þeir feðgar Oddur Smári og Davíð eru saman heima þriðja daginn í röð. Oddur var samt hitalaus í morgun. Ég sagði við Davíð Stein á mánudagsmorguninn að ég gæti farið að kalla hann herra Hraustan. -"Hvað mundir þú þá kalla Odd"? sagði stráksi þá af bragði. Hmm, ég hafði nú ekki hugsað svo langt. En ég hef verið á bílnum þessa vikuna, skutlað hrausta stráknum snemma í skólann en verið sjálf aðeins seinni í vinnuna. Á mánudaginn fékk ég líka að fara fyrr. Sótti strákinn í skólann og fór með hann í göngugreiningu til að fá nýja bæklunarskó og innlegg fyrir hann. Hann er alveg skelfilega skakkur drengurinn, sérstaklega vinstri fóturinn og hann hefur þetta beint frá mér.

Í gær löng lokaæfing fyrir vortónleika barna- og unglingakórsins sem verða í Hallgrímskirkju klukkan þrjú á morgun. Feðgarnir heima eru að frískast svo þeir ættu að geta verið með. Mamma sá um að skutla og sækja. Ég fór því beint á bókasafnið í Grófinni til að skila af mér næstum því öllum bókunum sem ég hef verið með sl. mánuðinn. Aðeins tvær bækur eru eftir heima. Einnig fór ég með tvo fulla poka af kiljum til að gefa safninu. Hitti einn ungan mann (10 ára) sem tengist inn í fjölskylduna. Hann bað um far heim til sín. Það var alveg sjálfsagt en fyrst gaf ég mér smá tíma í að tína nokkrar bækur í körfu (tók aðeins 6 fyrir mig að þessu sinni og 4 fyrir strákana sem eru í lestrarkeppni í skólanum þessa og næstu viku). Farþeganum fannst ég taka margar bækur og spurði hvað væri eiginlega hægt að taka margar bækur heim á fullorðinsbókasafnskírteini...

16.4.04

- Allt á útopnu -

Æ, hvað er gott að það er föstudags-síðdegi. Ég er nýlega komin frá Helgu systur. Hún bað mig um að sækja Huldu á leikskólann og ég þáði hjá henni kaffi því Davíð hafði sagst ætla í bíó klukkan hálfimm. Samt voru strákarnir hérna fyrir utan þegar ég kom heim fyrir bráðum hálftíma. Myndin átti víst að byrja klukkan fjögur. En þeir eru farnir núna feðgarnir á aðra sýningu á Pétri Pan og buðu Birtu með sér. Þetta átti örugglega að fara svona. Þeir verða nú líklega samt komnir heim áður en saumaklúbburinn byrjar. Ef þeir vilja endilega horfa á Disney mynd kvöldsins mega þeir gera það hjá Helgu (eða kannski Birtu?).

Söng með kórnum mínum við jarðaför í morgun. Það var ekki létt verk en lærdómsríkt. Ég var ekki nema rétt rúma tvo tíma í burtu. Fyrir vikið var samt dagurinn skuggalega fljótur að líða og ég rétt gleypti í mig skyr í hádeginu og settist aðeins einu sinni niður í kaffipásu í dag.

Í gærkvöldi sátum við hjónin fyrir framan tölvuskjáinn og tókum saman þær eiginir sem við ætlum að kíkja á næstu daga. Vonandi náum við að skoða nokkrar íbúðir um helgina.

En fyrst saumaklúbbur!

15.4.04

- Mánuðurinn hálfnaður -

Tíminn er ekki lengi að líða. Þýtur frá manni eins og ég veit ekki hvað (...elding...?). Það borgar sig allavega ekkert að reyna að elta hann uppi. Það borgar sig heldur ekki að stressa sig yfir hlutunum. Oftar en ekki gerist það samt. Andrúmsloftið í kringum mann hefur stundum þessi áhrif og áður en við vitum af togumst við inn í hringiðuna. En nóg um það.

Ég hef verið mjög dugleg að lesa undanfarið og mjög mikið í ævisögunum. Ég las til dæmis bókina um Ástu Erlingsdóttur grasalækni. Sú bók er mjög góð að mínu mati. Þar er líka sagt frá Erlingi Filippussyni föður hennar og fleirum. Í bókinni eru líka nokkrar sögum frá þeim sem leituðu til Erlings eða Ástu, þegar að læknar höfðu gefist upp, og fengu bót meina sinna. Einnig las ég bókina um Guðrúnu Óladóttur reikimeistara. Sú bók var um margt lík bókinni um Ástu en samt gjörólík. Sumt heillaði mig upp úr skónum en annað er ég enn að melta með mér. Svo lauk ég loksins við Vetrarferðina. Af öllum þeim bókum sem ég tók í síðasta mánuði á ég eftir þrjár. Er að lesa tvær af þeim og hef sagt frá annarri (Uppvöxtur litla trés) fyrir nokkru. Hin bókin heitir Ísbarnið eftir Elizabeth Mcgregor um unga blaðakonu sem fer að rannsaka hvarf þekkts fornleifafræðings og inn í söguna fléttast bergmál liðins tíma. Ég er ekki komin mjög langt með bókina en ég er farin að hrífast með og að komast inn í söguna. Síðasta bókin sem bíður þess að ég byrji að lesa hana er Lífsjátning Guðmundu Elíasdóttur skráð af Ingólfi Guðbrandssyni. Ég hlakka til að komast í að lesa hana.

En á morgun verður haldinn saumaklúbbur hér eftir nokkuð langt hlé. Klúbburinn verður haldinn í boði hennar. Það er alveg gulltryggt að nú verður 100% mæting. Síðustu forvöð að halda klúbb hér á Hrefnugötunni. Það er orðið ljóst að við munum flytja fljótlega, hvert veit ég ekki en það kemur vonandi í ljós á næstu dögum eða vikum...

13.4.04

- Fljúga dagar -

Þá eru páskar þessa árs liðnir með öllu því sem þeim tilheyra. Undan farnir sex dagar hafa verið eins og bland í poka, oftast eitthvað um að vera en samt rólegheit og leti inn á milli:

Á miðvikudagskvöldið var mætti ég á stutta kóræfingu með organistanum, Sigrúnu Þorsteinsdóttur (sem leysti Pétur af á páskadag). Áður en æfingin var úti sló hún því fram í gríni að hún vildi fá páskaegg númer þrjú frá hverjum og einum þegar við hittumst næst. Ég tilkynnti kórfélögum mínum að ég gæti ekki verið með í kvöldmessunni á föstudaginn langa. Er ég kom heim af æfingu voru mágur minn og kærasta hans komin. Þau fengu gistingu því þau voru að fljúga norður eldsnemma morguninn eftir. Ég skil samt ekki hvernig þau gátu bæði sofið í sófanum því hann er styttri í aðra áttina. Mér skilst samt að þau hafi sofið alveg ágætlega.

Á skírdag þurfti Helga systir að fara í auka skoðun. Þau Ingvi komu með Huldu til okkar rétt fyrir eitt. Sú stutta spurði strax: -"Hvar eru strákarnir mínir?" Þeir voru úti í fótbolta með einum boltavini sínum.
Hulda fór út rétt seinna. Við vorum boðin í kaffi til vinafólks okkar á Guðrúnargötunni. Davíð þurfti að sækja krakkana fyrst og þá kom í ljós að frænka mín var öll orðin blaut og skítug. Ég fann á hana föt af strákunum sem voru í stærra lagi en hún gat samt notað. Helga hafði líka verið svo séð að koma með eitthvað sem Hulda mátti örugglega borða, þar sem við vissum ekki hvað yrði á boðstólum. (Frænka mín má ekki fá neitt með neins konar mjólk í eða jarðhnetum.) Eftir kaffið, fékk hún sleikjó en strákarnir voru látnir leita að smá-páskaeggjum (nr. 1). Síðan skyldum við "stóru strákana" eftir heima og fórum út í labbitúr. Enduðum á Miklatúni og vorum þar góða stund. Hulda var sótt um fimm.

Á föstudaginn langa kom Hulda til okkar um tólf. Að þessu sinni voru foreldrar hennar bara hálftíma í burtu en stoppuðu svo smástund í kaffi hjá okkur er þau komu til baka. Tvíburarnir voru komnir út í fótbolta. Rétt um tvö tókum við fjölskyldan okkur saman, lögðum veg undir dekk og brunuðum austur á Selfoss. Mamma "tvíburahálfsystur" minnar hafði styrkt söfnun fyrir lottómót komandi sumars og vorum við að færa henni vörurnar sem hún pantaði. Eftir gott stopp og "smá strákavesen" lá leiðin á Bakkann þar sem við vorum boðin í mat.

Á laugardag vorum við að mestu heimavið. Strákarnir voru eitthvað úti í fótbolta, Davíð var að tölvast og ég að lesa. Skapið mitt var ekki alveg upp á sitt besta svo ég dreif mig út í langa göngu. Það rigndi allan tímann og þegar ég kom heim tveimur tímum seinna var ég eiginlega gegndrepa. Strákarnir voru komnir inn með félaga sínum og voru að tölvast. Ég dreif mig í heitt og gott bað og fór svo aftur að lesa.

Á páskadagsmorgun fór ég á fætur fyrir hálfsjö. Fékk mér AB-mjólk og faldi þrjú páskaegg nr. 4 áður en ég labbaði svo (með eitt nr. 3 með mér) upp í kirkju. Enginn annar hafði tekið gríninu alvarlega en ég setti eggið á orgelið og sagði að það væri frá okkur öllum. Afleysingaorganistinn, Sigrún varð frekar hissa. Hún fékk málsháttinn: "Ei leyna augu ef ann kona manni!" og breytti því strax í "Ei leyna augu ef ann kona súkkulaði!" Eftir upphitun höfðum við ágætis tíma til að fara í vinnufötin og fá okkur smá kaffisopa áður en messa hófst á slaginu átta. Messuhald gekk vel og á eftir var boðið upp á heitt kakó með rjóma og brauðbollur. Sem betur fer var líka kaffi í boði. Ég hef alveg staðist allar sykurfreistingar þessa dagana, húrra fyrir mér!!! Þegar ég kom heim aftur, um hálftíu, var enn allt með friði og spekkt. Aldrei þessu vant sváfu tvíburarnir út, vöknuðu ekki fyrr en um tíu. Davíð og strákarnir voru ekkert svo lengi að finna eggin sín en þeir fengu allir sama málsháttinn: "Sá kann ekki að stela sem ekki kann að fela"!

Um hádegið
hringdi Helga systir. Við vorum búnar að ákveða að borða páskamáltíðina saman heima hjá henni og hún var að segja að við gætum komið um miðjan dag til að aðstoða Ingva við matseldina. Strákarnir voru úti í fótbolta megnið af tímanum þangað til. Við mágur minn unnum vel saman í eldhúsinu. Hann passaði lærið í ofninum, kartöflurnar á grillinu, lagði á borðið og fleira. Ég setti upp grænmeti og bjó til sallat og sósu. Við vorum búin að borða rétt fyrir sex. Krakkarnir settust þá fyrir framan skjáinn en við hin fengum okkur kaffi. Áður en við kvöddum og fórum heim fengu börnin vatnsmelónu.

Gærdagurinn var rólegur framan af. Ég fékk að sofa út og var svo fært kaffi í rúmið. Eftir hádegi skruppum við í Perluna og kíktum á markaðinn sem er þar. Það hefði alveg verið hægt að setja stórt gat í budduna. Rétt fyrir fimm vorum við mætt upp í Breiðholt í fermingaveislu hjá vinafólki. Veislan var í heimahúsi, mikið af gestum en einhvernveginn rúmaðist ágætlega um alla. Hitti m.a. einn sem ég er búinn að þekkja síðan ég átti heima á Heiði (en þaðan flutti ég alfarið 12 ára).

Í dag var starfsdagur í skóla strákanna og þar sem ég vann tvo af þremur virkum dögum í sl. viku fékk ég frí í dag. Jöfn skipti það!

7.4.04

- Bingó - ...og óvænt ævintýri...

En fyrst tilkynning um afmæli. Örvar frændi minn er árinu eldri í dag. Hann er tíu árum yngri en ég og þeir sem vita hvað ég er ung geta bara reiknað...

Ég hef sjaldan séð manninn minn eins stressaðan og hann var þegar ég kom heim seinni partinn í gær. Hann mátti varla vera að því að knúsa mig hæ. Mest allur dagurinn hjá honum hafði farið í að redda bingóspjöldum fyrir kvöldið og á næsta augnabliki eftir að ég kom heim var hann rokin að ná í spjöld sem honum tókst að redda á síðustu stundu.

Á meðan Davíð var í burtu bjó ég til kaffi og drakk fyrsta bolla dagsins um fimm. Strákarnir fóru út að hjóla og ég sá mér leik á borði og settist stund við tölvuna. Davíð hafði sjálfur orð á því, þegar hann kom heim, að hann hafi verið töluvert stressaður.

Hann hafði smá tíma til að jafna sig en um sex vorum við komin upp í Hliðarenda þar sem við hittum hina úr foreldraráðinu og foreldra eins drengsins sem útveguðu glæsilega vinninga fyrir kvöldið: Slatta af páskaeggjum, M&M karla, sælgætiskörfu, kryddstauka, fimm saman, frá Pottagöldrum, pönnu fulla ýmsu góðgæti til að elda m.a.. Nógir vinningar í margar umferðir. Við hjálpuðumst að við að gera allt klárt og um hálfsjö fór fólk að drífa að. Einhverra hluta vegna tók ég gemsann minn með mér, stillti hann á uss og lagði hann frá mér á borðið. Davíð og annar pabbi til stjórnuðu BINGÓINU. Rétt fyrir sjö var búið að spila 3-4 umferðir og ég var búin að fá aukavinning. (Við vorum tvö um aðalvinning þeirrar umferðar og í stað þess að draga spil bað ég um að drengurinn fengi M&M kallinn, ég fékk páskaegg númer 1). Þá verð ég vör við að gemsinn hefur verið að hringja og ég fæ skilaboð um að hringja til baka um leið og ég get. Ég beið þar til yfirstandandi bingó-umferð var búin.

Fékk samband við mömmu. Hún var stödd á Litlu kaffistofunni með einni vinkonu sinni að austan. Þær höfðu verið í bænum og voru á leið austur aftur. Stoppuðu þarna til að fá sér bensín en mamma var svo óheppin að læsa bíllyklana inni svo þær komust ekki lengra í bili. Ég er með aukalykla af bílnum hennar. Lét Davíð vita að ég þyrfti að sinna SOS neyðarkalli, strákarnir tóku við spjöldunum mínum og svo var ég rokin ("Það var eins gott að hún var ekki komin á Selfoss", hugsaði ég með mér.). Davíð stoppaði bingóið smá stund og skipti drengjunum niður á aðra foreldra þeim til aðstoðar.

Það var ekki liðinn klukkutími, frá því mamma hafði hringt, þegar ég lagði fyrir utan Litlu kaffistofuna. Fann konurnar á spjalli yfir kaffibolla, opnaði bílinn fyrir mömmu, gaf mér tíma til að skoða nokkrar myndir sem hún var að fá úr framköllun og var svo rokin til baka. Ég náði nokkrum síðustu bingó-umferðunum en einhvern tíman á meðan ég var í þessu ævintýri mínu höfðu verið pantaðar pizzur og bingóið aðeins brotið upp með því að fá sér í svanginn. Oddur fékk einn aukavinning og Davíð Steinn og nokkrir krakkar fengu sárabætur fyrir að hafa ekki unnið neitt (páskaegg nr. 1). Davíð sjálfur bingóstjórinn fékk svo að halda einum kryddstaukarpakka fyrir sig...

6.4.04

- Aðeins um gærdaginn - (...og smá um daginn í dag...)

Við Davíð erum nokkurn veginn búin að skipta með okkur páskafríinu. Ég skutlaði honum í vinnuna í gærmorgun og fór svo með strákana í klippingu. Þeir bræður voru orðnir ansi loðnir. Oddur Smári var kátur með það að skottið hans, sem hann er að safna, virkar miklu síðara þegar hárið er orðið svona stutt. Fyrir utan þetta klippidæmi, þá hafði ég ekkert með bílinn að gera. Strákarnir voru úti að hjóla og leika sér við vini sína í allan gær og eftir klukkan tvö var nokkuð um heimsóknir af hugsanlegum kaupendum. Dagurinn fór í það og smá tiltekt, þvott og þrif.

Helga og Hulda komu um fimmleytið og fór sú stutta strax að leika sér við krakkana úti og fannst greinilega gaman að fá að vera með þessu "stóru" krökkum. Helga sótti Davíð fyrir mig á meðan ég sýndi íbúðina eina ferðina enn og fór svo að huga að kvöldmatnum. Hafði plokkfisk í matinn, tók samt frá fyrir Huldu áður en ég setti ostinn út í en steingleymdi að gera slíkt hið sama fyrir Davíð Stein sem þó var búinn að biðja mig sérstaklega um það. Æ, hvað ég get stundum verið utan við mig. Hulda borðaði allan sinn skammt með góðri lyst.

Það voru þreyttir drengir sem fóru upp í koju um átta leytið í gærkvöld.

Davíð tók að sér "húsmóður"-starfið í dag. Held samt að hann hafi eitthvað reynt að vinna smá en það fór líka tími í útréttingar fyrir Val. Í kvöld verður haldið Bingó að Hlíðarenda.

Þegar ég kom heim áðan tók Davíð Steinn á móti mér og sýndi mér skarð í efri góm. Hann var á undan Oddi að missa framtönn í efri góm. Það er ekki langt í að hann missi aðra uppi (hann er búinn að missa tvær niðri). Oddur er hins vegar búinn að missa fjórar tennur í neðri góm og það gerðist á tiltölu lega skömmum tíma sl. haust.
- Minning -

Í dag er fæðingardagur Odds heitins Þorsteinssonar (hann var bróðursonur föður míns). Hugur minn flaug mörg ár aftur í tímann. Oddur var átta árum eldri en ég og hann og Reynir bróðir hans voru frekar duglegir að leika með og við okkur systurnar. Það eru margar minningarnar og gott að geta yljað sér við þær. Mér varð líka hugsað til föðurbróður míns og sló á þráðinn til hans í morgun til að heyra í honum hljóðið.

5.4.04

- Alveg á kafi - (...en ætla samt að skrifa smá...)

Hér er alveg nóg að gerast eins og fyrri daginn. Fyrst langar mig til að segja svolítið frá gærdeginum. Ég var búin að semja við tvíburana um að ekki yrði kveikt á sjónvarpinu og að þeir fengju staðgóðan hafragraut í morgunverð þótt það væri sunnudagur. Þetta var svo sem ekkert mál. Skutlaði þeim svo upp í kirkju rétt fyrir hálftíu. Klukkutíma seinna hringdi ég upp á hjá Helgu systur og tók Huldu frænku gangandi með mér í messu og barnastarf. Magnea djákni fékk Huldu og fleiri krakka til að ganga inn kirkjugólfið með "pálmagrein" (trjágrein) í hendinni í upphafi messu. Eftir inngöngusálminn var skírður einn nokkurra mánaða gamall drengur sem var búið að nefna áður, Oddur og eftir skírnina voru öll 5 ára börn í kirkjunni boðin sérstaklega upp að altari að taka við bókargjöf frá kirkjunni. Yngstu krakkarnir í kórnum sungu með fram að prédikun og fóru svo fram í sunnudagaskólann Ég ákvað að drífa mig í sunnudagaskólann líka, það er svo langt síðan ég hef farið. Þar fengu kórkrakkarnir að kenna okkur hinum eitt lag um hvað við erum öll mikilvæg. Skemmtileg messa og sunnudagaskóli og börnin stóðu sig með sóma. Mjög fljótlega eftir að sunnudagaskólanum lauk skiluðum við Huldu heim. Helga var að taka upp og horfa á formúluna.

Heima setti ég strákana í Davíðs hendur (eða þannig) því ég hafði bara um það bil þrjú korter til að fá mér eitthvað, taka mig til og rölta upp í kirkju Óháða safnaðarins þar sem ég svo hitaði upp og söng með mínum kór fyrir og við fermingamessu. (Svo það sveif heilagur andi yfir mér allan gærdaginn, sem er ekki verra.) Á meðan voru feðgarnir á fótboltaæfingu en þeir voru samt búnir á undan mér og biðu fyrir utan um þrjú.

Skruppum fyrst að versla nauðsynjar en um leið og við komum heim og strákarnir voru búnir að fá hressingu voru þeir farnir út að hljóla og leika sér við krakka úr nágrenninu. Ég bjó til kaffi og stuttu seinna hringdi Helga systir og spurði hvort ég ætti kaffi. Ég hélt nú það og hún kom um leið, enda bara stödd hérna fyrir utan þegar hún hringdi. Endirinn var svo að við ákváðum að fara heim til hennar og elda saman þar. Við stelpurnar fórum á undan og gerðum allt klárt og feðgarnir komu um sjö, næstum beint í matinn. Á eftir hjálpuðumst við systur að við að ganga frá og hún bjó til kaffi og bauð upp á randaköku með. Ég svindlaði á kaffinu (stenst það bara alls ekki) en afþakkaði kökuna.

Þótt ég segi sjálf frá þá hef ég verið mjög dugleg að halda mig frá öllum sykri (hluti af þeim dugnað er oft því að þakka að það eru oft ekki keyptar inn neinar freistingar). Hins vegar mætti ég vera duglegri að passa mig á saltinu og kaffinu (drekka ekki meira en 2-4 bolla á dag) og leggjast ekki í of mikið popp og hnetuát. Það eru ekki allar freistingar til að falla fyrir þeim og ég verð stundum að taka á honum stóra mínum til að henda mér ekki út í "sukk", og það eru að koma páskar. Jæja, ég get þetta samt!

Annars var ég að lesa heil mikið um helgina. M.a. Minn hlátur er sorg um Ástu Sigurðardóttur (1930-1971). Mjög vel skrifuð bók og ég las hana næstum í einum rykk. Einnig las ég skáldsögu eftir W. Somerset Maugham úr sögusafni heimilanna: Hjónaband Bertu og hafði gaman af (líklega vegna þess að ég er mikill bókaormur og alæta á bækurnar, hmm...). Ég er enn að lesa Vetrarferðina og Uppvöxtur Litla Trés og ég var að byrja á Minna, engin venjuleg mamma eftir Helgu Thorberg (um móður sína).

3.4.04

- Heimsókn á opið hús -

"Föðursystir" mín var svo almennileg að láta mig vita að það væri opið hús í leikskólanum Fífuborg milli 10 og 12 í morgun. En þar vann ég frá hausti 94 og fram í júní 96. Þá var þetta þriggja deilda leikskóli. Fljótlega eftir að ég hætti var byggð fjórða deildin við leikskólann. Ég sem sagt dreif mig í heimsókn strax klukkan tíu í morgun. Þarna vinna enn fjórar af þeim sem voru þegar ég var að vinna. Það var tekið mjög vel á móti mér og ég gaf mér góðan tíma til að skoða vinnu vetrarins og spjalla. "Föðursystir" mín er með dóttur sína á yngstu deildinni og ég hitti þær mæðgur (og pabbann í mýflugumynd) og þær sýndu mér m.a. deildina sem stelpan er á.

1.4.04

- Smá vaðall -

Það er búið að vera brjálað að gera undanfarna daga, á öllum vígstöðvum. Og þar fyrir utan hefur rétti skrifandinn ekki verið yfir mér. Ég ætla samt að láta vaða núna.

Á þriðjudagskvöldið bauð Helga systir mér í Borgarleikhúsið á ballettsýningu, nemendasýning frá Ballettskóla Eddu Scheving. Fyrsta atriðið var dýrasyrpa þar sem 4-6 ára (ásamt eldri framhaldsnemum) dönsuðu kisur, bangsa, fiðrildi, mýs og dalmatíuhunda. Hulda frænka var ein af fiðrildunum og stóð sig mjög vel. Á eftir dýrasyrpunni sýndi sami aldurshópur árstíðirnar og síðasta atriðið fyrir hlé voru stjörnur sem 7 ára stúlkur sýndu. Í hléinu sótti Helga Huldu og sat undir henni það sem eftir lifði sýningar. 6-10 ára börn sýndu ljósgeisla. Hulda lifði sig svo inn í atriðið að hún hreinlega dansaði með. Í þessu atriði var eini drengurinn í allri sýningunni. Einhver sagði mér að hann væri búinn að æfa ballett síðan hann var þriggja ára. Næst síðasta atriðið voru sólstafir sem 11-16 ára stúlkur sýndu og loka atriðið var blómagarður sem 5-10 ára dönsuðu. Allt var þetta mjög flott og greinilega mikil vinna sem lá að baki þessari sýningu.

Aðeins af gulu kisu. Sú er aldeilis ákveðin. Það þýðir ekki lengur að henda henni út. Hún kemur alltaf inn um baðgluggann. Í gærmorgun tók hún á móti mér inni á baði. Ég var snögg að loka á eftir mér dyrunum. Á meðan ég tannburstaði mig stökk kisa upp á baðkarsbrún. Þegar burstun var lokið færði hún sig upp á vaskbrún og þaðan skreið hún upp í fangið á mér malandi og kelandi og líklega spyrjandi hvort hún kæmist ekki í náðina og gæti sest að hjá okkur. Í morgun slapp hún víst fram hjá strákunum og í stað þess að fara undir hjónarúm, eins og hún hefur gert í þau skipti sem hún kemst alveg inn, skreið hún undir sófann. Strákarnir reyndu mikið til að ná henni en það var ekki fyrr en Oddur Smári hoppaði ofan á sófanum beint fyrir ofan kisu, að hún skaust undan eins og píla.