Allt í einu er vinnuvikan liðin og komin helgi. Ég var með strætókortið á miðvikudag og fimmtudag. Var mætt nokkru fyrir átta þann 1. mars og samdi um að fá að fara heim klukkutíma fyrr þannig að ég var komin heim fyrir hálffjögur. Dreif mig næstum beint í að ryksuga og skúra sameignina frá þvottahúsi og upp að flísunum við útidyrnar hjá mér og risíbúðinni. Kvittaði fyrir mig og þarf lítið að hugsa um þetta næstu þrjá mánuðina eða svo. Oddur Smári kom fyrr heim úr skólanum en til stóð, þ.e. síðasti tíminn féll niður svo hann slapp við að vera í skólanum alveg til hálfsex. Við mæðgin vorum boðin yfir á Sólvallagötuna í eftirveislu vegna útskriftar Fransisku úr sálfræði úr HÍ á dögunum. Ég hefði reynda líka geta verið að fara í hitting með KÓSÍ félögum en maður getur víst ekki verið alls staðar. Ég ákvað amk að mæta vestur í bæ, gefa mér góðan tíma með góðum vinum og fékk einkabílstjórinn að keyra báðar leiðir. Svo merkilegt sem það er að þá var það ég sem ákvað að kalla þetta gott um tíu. Bræðurnir voru ekkert að reka á eftir mér og enn síður þau sem buðu okkur heim. Reyndar fór nýútskrifaður sálfræðingur í annan hitting upp úr níu. Þetta var hið skemmtilegasta og notalegasta kvöld.
Um fjögur á fimmtudaginn tók ég leið 11 niður á Hlemm og labbaði þaðan í Katrínartúnið á starfsmannafund hjá RB. Sá fundur var afar fróðlegur og var m.a. farið í gegnum sl. ár og það sem af er þessu ári. Fékk far heim upp úr sex. Um ellefu leitið komu systir mín og dætur hennar og fengu þær að hreiðra um sig í stofunni eftir að hafa verið marg-faðmaðar.
Ég var fyrst á fætur í gærmorgun, um hálfsex og mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um hálfsjö. Kaldi potturinn var lokaður og tómur en ég synti í um tuttugu mínútur og fór bæði í sjópott og þann 42° heita. Mætti í vinnuna rétt fyrir klukkan átta. Vinnudagurinn leið hratt að venju en þau tíðindi gerðust að forstjóri RB mætti í heimsókn ásamt framkvæmdastjóranum okkar og höfðu þeir tvær tertur meðferðis, epla- og súkkulaðitertur.
N1 strákurinn var að vinna en við Oddur Smári fengum okkur af baunasúpunni um hálfsex áður en ég skutlaði honum á spilakvöld í Kópavogi svo ég gæti haft bílinn áfram. Ekkert löngu eftir að ég kom til baka komu Helga og Bríet við að sækja dót fyrir Huldu sem ætlaði að gista hjá vinkonu og svo voru þær fyrrnefndu á leið í aðra heimsókn. Ég var mætt í Lífsspekifélagið nokkru fyrir klukkan átta og var með bók með mér á meðan ég beið. Davíð Steinn hringdi og sagðist vera orðinn lasinn og ekki treysta sér heim með strætó, ef hann skyldi nú kasta upp á leiðinni. Ég sagði honum að ég skyldi splæsa á hann leigubíl. Það fór þó þannig að einn vinur hans var á ferðinni og gaf honum far. Sá þurfti að stoppa einu sinni á leiðinni og hleypa þeim lasna aðeins út. Esperanto vinkona mín mætti á fyrirlesturinn sem breyttist. Fyrirlesarinn sem átti að vera mætti ekki og það náðist ekki í hann en við fengum engu að síður áhugaverðar pælingar og punkta m.a. um hug, vitund og fleiri tengd orð áður en farið var í kaffi upp á efri hæðina. Ég var að fara að huga að því að fara heim þegar Oddur Smári hringdi og sagðist vera farlaus, hvort ég nennti að sækja sig. Það snérist upp í smá ævintýri. Samþykkti að skutla einum spilafélaganum en skreppa fyrst með þá í ísleiðangur. Spilafélaginn reyndist eiga heima lengst upp í Grafarvogi svo klukkan var rétt byrjuð að ganga tólf þegar við mæðgin komum heim. Þá voru allir komnir í ró sem voru hér heima.
Kílómetramælirinn náði upp í 100000 í gærkvöldi og ég þarf að fara að huga að því að láta smyrja lánsbílinn.