29.12.19

Rólegheit

Tíminn heldur áfram að líða á ofurhraða, sama hvort maður er slakur eða stressaður. Ég var komin austur á Hellu um hálfsex á Þorláksmessu. Síðustu ca 15 km var farið að loga merkið í mælaborðinu um að það væri ójafn þrýstingur á dekkjunum. Það merki hefur ekki komið upp í mjög langan tíma. Staldraði við hjá pumpunni við Olís en hún var eitthvað biluð eða lét amk ekki að minni stjórn.

Við pabbi vorum komin á Kanslarann um sex, hann í annað sinn þennan dag. Ég fékk mér tvisvar á diskinn af skötunni, seinna skiptið til að fá mér meira af sterkari gerðinni. Á aðfangadagsmorgun skruppum við pabbi á pósthúsið. Pabbi átti þar sendingu frá Bríeti en hún hafði bakað hálfmána handa afa sínum. Við feðginin komum líka við í búðinni því ég taldi mig þurfa að fá grænar baunir með jólamatnum. Þegar við komum úr þessum leiðangri sýndi pabbi mér hvernig maður getur notað tæki sem fylgir með bílnum til að pumpa í dekkin. Við pumpuðum í öll dekkin en reyndar ekki nógu mikið eins og seinna kom í ljós, merkið var enn í mælaborðinu þegar ég lagði af stað í bæinn upp úr hádeginu á annan í jólum.

Eldaði lambahrygg handa okkur pabba á aðfangadag sem við borðuðum með öllu tilheyrandi hlustandi á jólamessuna á RÚV. Þrátt fyrir að vera bara tvö voru nokkuð margir pakkar, flestir til mín. Ég fékk m.a. 3 bækur, vöfflujárn, einstakan bolla, flík, reykelsi og gjafabréf með icelandair. Pabbi var ánægður með krossgátubók ársins 2020, tuskurnar og sundhetturnar. Jóladagurinn einkenndist af miklum rólegheitum, lestri og smá prjónaskap. Pabbi hafði soðið hangiket stuttu fyrir jól svo það þurfti aðeins að sjóða kartöflur og útbúa jafning.

Annars fór ég á bókasafnið helgina fyrir jól, skilaði fimm bókum af átta og tók fjórar með mér heim. Er búin að lesa þessar þrjár og eina af hinum. Mæli sérstaklega með eftirfarandi bókum: Gríma eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Þú og ég og allt hitt eftir Catherine Isaac.

Á leiðinni í bæinn á annan í jólum kom ég við hjá Olís vestan við Ölfusá til að pumpa í dekkin á bílnum og fyrst þá losnaði ég við merkið úr mælaborðinu. Var mætt í vinnu korter fyrir átta á föstudaginn var. Kaldavatnslaust var í Seðlabankanum en við vorum fjórar sem stóðum vaktina í kortadeildinni, framleiddum dagsskammtinn og fengum svo að fara heim rétt upp úr hádegi. Þetta var minn síðasta vinnudagur á þessu ári því ég ákvað að taka mér orlofsdag á morgun 30. og er ekki ein af þeim fáu sem þarf að vinna á Gamlársdag.

22.12.19

Vetrarsólstöður

Jæja, nú fer daginn að lengja aftur smátt og smátt. Rétt rúm vika eftir af þessu herrans ári 2019 og 2020 handan við hornið. Ég er í bænum þess helgina, ætla að keyra út síðustu böggla og jólakort núna á eftir og pakka mér svo niður í kvöld þannig að ég verði tilbúinn í að bruna austur á Hellu eftir vinnu á morgun. Strákarnir eru báðir að vinna á morgun og annar þeirra til þrjú á aðfangadag en hinn á annan í jólum. Þeir tóku lokaákvörðum, rétt eftir sl. helgi, um að vera í bænum yfir jólin og fara til pabba síns á aðfangadagskvöld.

Ég fór í sund upp úr klukkan átta í gærmorgun. Fyllti svo á bílinni á Sprengisandi áður en ég fór í esperanto til norsku vinkonu minnar. Við skiptumst á pökkum og jólakortum og ég stoppaði hjá henni í um tvo tíma. Síðan lá leiðin á þvottastöðina Löður við Granda. Þar var biðröð en ég ákvað samt að bílnum veitti ekki af smá afskolun svo ég fór í röðina. Svo fór ég í Krónuna til að kaupa hráefni í jólagraut. Kom heim um hálftvö og skildi ekkert í því að það var ljós í næstum öllum herbergjum. Annar strákurinn var að vinna og hafði farið út á undan mér og það var lokað inn til hins. Sá kom fram stuttu síðar og skýringin á ljósunum var sú að hann hafði einhent sér í það að verka gólfin í holinu, eldhúsinu, stofunni og inni á baðherbergi og var búinn að ryksuga og skúra. Sá fékk nú aldeilis knúsið frá mér því þetta sparaði hellingstíma. Var búin að sjóða 2l af þykkum grjónagraut tæpum tveimur tímum síðar sem ég kólna í pottinum í köldu vatni í eldhúsvaskinum. Ég sauð einnig hangiket og kældi og var þetta allt komið inn í ísskáp í gærkvöldi.

Var mætt í sundið stuttu fyrir klukkan níu í morgun. Synti 600m á 25 mínútum þar af 150m á bakinu. Fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og endaði í gufunni áður en ég fór inn að þvo mér um hárið. Á heimleiðinni kom ég við í Kvikk í Öskjuhlíðinni og fékk mér einn kaffibolla hjá Oddi. Kaffið er reyndar frítt í desember en Oddur hefur alltaf boðið mér upp á kaffi ef ég hef verið á ferðinni þegar hann er á vakt. Oftast er ég líka að "heimsækja" hann gagngert til þess að fá mér kaffi en þó ekki alveg alltaf.

12.12.19

Loksins var sá kaldi opinn

Á eftir að skrifa á 14 jólakort, kaupa 3 jólagjafir og pakka öllum gjöfum inn. En það eru enn 12 dagar til jóla. Þarf aðeins að ljúka við að pakka inn gjöfunum til fjölskyldunnar á Akureyri. Þau koma suður nú um helgina en verða, aldrei þessu vant, heima hjá sér um jólin.

Annar sonurinn er á aukavakt upp í Öskjuhlíð. Hinn er á frívakt í dag og hann fékk far með mér upp í Kringlu þegar ég var á leiðinni í sund seinni partinn. Í sundi synti ég 600 metra, allt á bringunni. Svo var kallað á mig frá potti sem er oftast kallaður ásinn eða númer 1 og var 38°C áður en er nú orðinn kaldi potturinn í Laugardalnum. Hann var semsagt opinn og vel kaldur í dag. Fór þrisvar sinnum 3 mínútur í þann kalda, alveg súper ánægð með að geta kælt mig niður. Endaði reyndar á því að taka snögga kalda sturtu áður en ég fór upp úr og heim.

Kringlufarinn var kominn heim löngu á undan mér og byrjaður að elda.

11.12.19

Lukkugrís

Rétt fyrir klukkan hálfátta í kvöld fékk ég sms frá HHÍ, í annað skiptið á árinu. Fyrir tveimur mánuðum fékk ég skilaboð um 12000kr vinning og í kvöld vann ég 20.000kr. Miðinn kostar 1600kr. á mánuði svo ég er að græða 12.800kr. þetta árið. Ekki slæmt og verður þetta lagt beint inn á viðhalds- og sparireikninginn minn upp úr miðjum mánuðinum.

Þar sem veðurspá gærdagsins var óvenju slæm en ekki alveg vitað hversu mikið yrði úr veðrinu hér á Reykjavíkursvæðinu fengum við þau skilaboð frá framlkvæmdastjóra um að fara heim strax eftir daglega framleiðslu. Ég var komin heim um hálfeitt í gær en stoppaði ekki lengi. Fékk mér að borða og hlustaði á afganginn af hádegisfréttunum áður en ég dreif mig út með sundtöskuna mína. Kom við á tveimur stöðum á leiðinni í Laugardalinn. Fór með buxur af Oddi í viðgerð í Saumsprettuna við Síðumúla og póstlagði eitt bréf og keypti 11 frímerki, 10 innanlands og eitt til evrópu, í leiðinni. Var komin á planið við Laugardalslaug og ákvað að heyra aðeins í pabba áður en ég drifi mig í sundið. Við pabbi spjölluðum í tæpar tíu mínútur. Þegar ég hins vegar kom að inngangi laugarinnar var miði sem á stóð að það yrði lokað klukkan 14 vegna veðurs. Það gaf auga leið að 20 mínútur eru ekki langur tími svo ég frestaði sundför og fór beinustu leið heim.

Heima byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi. Oddur Smári fór í vinnu rétt fyrir þrjú og kom heim aftur rétt fyrir klukkan níu. Davíð Steinn átti að vinna á N1 við gangveg frá 10-22 en það var ákveðið að loka stöðinni um klukkan sjö og fékk hann far heim.

Þegar ég fór á safnið fyrir tæpum hálfum mánuði fór það alveg framhjá mér að ein bókin var á skammtímaláni. Ég fékk skilaboð frá safninu að skiladagur á; Mínus átján gráður eftir Stefan Ahnhem, uþb 500bls. bók sem ég er ekki byrjuð á. Ákvað að athuga hvort ég gæti framlengt skilafrestinum og það gekk eftir. Þarf ekki að skila bókinni fyrr en 27. desember n.k.

Fór í sund á fimmta tímanum í dag. Kaldi potturinn var lokaður og það er búið að hreinsa allan dúk í kringum laugina og standa yfir heilmiklar framkvæmdir. Ég ákvað að nota strandskóna sem ég keypti á Kanarí í janúar til að labba á milli laugar og potta. Synti 500m og skrapp smá stund í tvo heita potta. Var komin heim aftur um sex.

Er búin að skrifa nokkur jólakort í kvöld. Eitt af þeim kortum fær far út á land með vinnufélaga sem ég er búin að þekkja síðan hann var bumbubúi sumarið 1982. Núna held ég að sé best að koma sér í háttinn og byrja á bókinni sem ég gat um áðan. Lofa þó að klára hana ekki í kvöld/nótt.  ;-)

8.12.19

Æðibunugangur á tímanum

Þessa helgina er ég í bænum. Það er aðventukvöld í óháðu kirkjunni í kvöld og ég hafði ætlað mér að mæta á þann viðburð. Nú býðst mér hins vegar að bjóða rúmlega mánaðar gamalli stúlku velkomna í heiminn og óska foreldrum hennar til hamingju í fylgd með móðurömmunni á svipuðum tíma og kirkjustundin hefst.

Það standa yfir framkvæmdir við Laugardalslaug. Lauginni er ekki lokað en það eru tilfæringar daglega svo það liggur við að maður villist á leiðinni út að laug og í pottana. Kaldi potturinn var tæmdur og lokaður á fimmtudaginn var en sá pottur sem hingað til hefur verið 38°C var breytt í þann kalda í staðinn. Byrjað var að dæla köldu vatni inn í hann e-n tímann eftir hádegi og þegar ég var á ferðinni á fimmta tímanum var hann kominn niður í 14°C og fór kólnandi í hverri ferð. Mun betra pláss í þessum potti. Ég fer sjaldan í sund á föstudögum en þegar ég mætti í gærmorgun var kominn lokunarborði á "nýja" kalda pottinn og borðinn var þar enn í morgun. Mánudagar eru sjóbusldagar en það verður fróðlegt að vita hvort sá kaldi verður opinn seinni partinn á þriðjudaginn og hvernig framvinda framkvæmdanna verður orðin.

Sl. sunnudag skrifaði ég fyrsta jólabréfið af þremur og 2 fyrstu jólakortin. Á leiðinni í bæinn kom ég við í Löngumýrinni en Jóna og Reynir verða hjá Gerði og fjölskyldu um jólin og þau ætla að taka jólakveðjurnar með sér út til Danmerkur. Ég hef ekki komist í skrifgírinn síðan um síðustu helgi en gerði heiðarlega tilraun til að byrja á enska jólabréfinu í gær, fékk andann ekki yfir mig því ég festist fyrir framan fótboltarásina frá klukkan þrjú. Og já, ég tók þá ákvörðun að taka heimilispakkann í áskrift til að byrja með þannig að ég verð áfram með aðgang að enska boltanum og sjónvarpi símans premium.

Ég langt komin með að lesa fjórðu bókina af þeim átta sem ég fékk lánaðar af safninu þann 29. nóv. sl. Þrjár bókanna voru eftir sama höfund og ég er nokkuð viss um að ég hef lesið amk tvær af þeim áður. Fjalla allar um sömu persónuna sem í fyrstu bókinni kom til Íslands eftir þriggja ára veru í Danmörku til að leita uppi týnda tvíburahálfsystur sína. Í seinni bókunum tveimur er persónan farin að vinna sem blaðamaður með nef fyrir fréttnæmum atburðum. Bókin sem ég er að lesa núna heitir Týnda systirin eftir B.A.Paris. Eiginlega alltof spennandi. Ég hef þó alveg getað lagt bókina frá mér inn á milli. Á eftir að lesa rúmlega 120 bls. af 308 og fyrst ég gat lagt frá mér bókina til að hella mér upp á kaffi og taka fram tölvuna til að blogga ætti ég að geta beðið með að halda lestri áfram amk þangað til í kvöld.

Á þriðjudagskvöldið var fór ég á dásamlega jólatónleika í Hallgrímskirkju. Fjórir kvennakórar sungu, þar af einn stúlknakór. Dagskráin var metnaðarfull og flott og í upphafi var tekið fram að slökka ætti á öllum símum, bannað að taka myndir og bannað að klappa á milli laga fyrr en dagskráin væri tæmd. Þriðja síðasta lagið var "Nóttin var sú ágæt ein" og þá voru tónleikagestir beðnir um að taka undir sönginn. Þessi einn og hálfi tími var algerlega magnaður.

30.11.19

Bókasafnskortið endurnýjað

Ein nafna mín og frænka hafði hug á því að hafa "laufabrauðshitting" eins og mörg undanfarin ár og vorum við tvær að spá í daginn í dag. Hinn helmingurinn af venjulega hópnum var hins vegar ekki tilbúinn í að fara að skera út og steikja þar sem þau verða ekki á landinu um jólin. Ég var hins vegar búin að fjárfesta í einum kassa af óskornum og ósteiktum laufabrauðskökum frá ömmu bakstri. Ákvað að taka kassann með mér austur í dag og var búin að skera út í allar 20 kökurnar fyrir kaffi. Tók mér pásu og drakk kaffi með pabba en strax á eftir lokaði ég mig af inni í eldhúsi, bræddi 2x500grömm af plamín í potti frá pabba og steikti þessar 20 á ca klst. Gleymdi að taka með mér box, sem ég á undir svona bunka, í bænum og fann aðeins tertudisk og tilheyrandi hjálm úr plasti og bjargaði málunum þannig. Ætla mér að geyma þessar kökur hérna fram að jólum því annars er hætt við að við Oddur Smári freistumst til að smakka of margar.

Fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu í gær dreif ég mig í fiskbúð Fúsa eftir nætursaltaðri ýsu til að hafa í kvöldmatinn. Næst lá leiðin í bókasafnið þar sem ég skilaði öllum fjórum bókunum sem ég var búin að vera með í láni sl. þrjár vikur. Las reyndar aðeins þrjár af þessum en fjórða bókin Geirmundar saga heljarskinns sem Bergsveinn Birgisson bjó til prentunar höfðaði ekki til mín. Las aðeins uþb 20 blaðsíður og ákvað svo að vera ekkert að eyða tíma í þessa sögu. Fann mér átta bækur áður en ég stoppaði mig af og bjóst til að afgreiða mig út með þær. Afgreiðslan gekk ekki upp enda var skírteinið útrunnið. Fékk skírteinið endurnýjað gegn 2500 kr. gjaldi. Lenti samt í vandræðum með að fá eina bókina af þessum átta, þ.e. kerfið sýndi villu en safnvörður sem átti leið hjá sýndi mér að best væri að lyfta bókinni upp og reyna strax aftur og það gekk eftir. Fór því heim með helmingi fleiri bækur heldur en ég skilaði. Þrjár af þessum bókum eru eftir höfund sem heitir Eyrún Ýr Tryggvadóttir, ein eftir Camillu Läckberg, ein eftir Stefan Ahnhem, ein eftir B.A. Paris, ein eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og ein eftir Catherine Isaac. Skrifa kannski um eitthvað af þessum bókum síðar en ég er byrjuð að lesa: Hvar er systir mín? eftir Eyúnu.

Hafði matinn tilbúinn upp úr klukkan sex, en það vorum bara við Oddur sem borðum því Davíð Steinn var á vinnuvakt til klukka tíu í gærkvöldi. Upp úr klukkan sjö tók ég strætó niður í bæ til að hlusta á erindi í Lífsspekifélaginu.

27.11.19

Smá tannviðgerð í dag

Þegar ég fór í hið árlega tanneftirlit í síðasta mánuði mælti tannlæknirinn með að gert yrði við skemmd í tveimur jöxlum hlið við hlið hægra meginn uppi. Vitað hafði verið um þetta svæði og fylgst með því í nokkur misseri. Ég ákvað að fylgja ráðleggingum og bókaði viðgerðartíma sem var sem sagt rétt fyrir klukkan tvö í dag. Var deyfð og svæðið svo einangrað með því að setja dúk yfir svo aðeins þessar tvær tennur voru sýnilegar. Viðgerð tók aðeins uþb hálftíma og kostaði innan við þrjátíu þúsund. Bókaði næstu skoðun í október á næsta ári og labbaði svo beint heim. Deyfingin náði alveg upp í nef og það var skrýtið að drekka kaffið, fannst eins og ég væri ekki að bera bollann rétt upp að vörunum. Ákvað að skrópa í sundi í dag en vera aðeins virkari heima fyrir í staðinn.

Þegar ég fór í sundið í gær, stillti ég mig þannig af að ég væri búin að synda mína 500m um fimm. Fór því beint út í laug ca 16:40 og var í minni fyrstu kalda potts ferð rétt rúmlega fimm þegar kalda potts vinkona mín kom úr ræktinni. Hún fór beint í heitasta pottinn til að hita sig upp og ég elti hana þangað. Þegar við hins vegar komum aftur að kalda pottinum var verið að tæma úr honum og hann aðeins hálfur. Við fengum leyfi til að brölta upp í engu að síður og sátum í honum næstum þar til hann tæmdist. Þetta kallaði á aðrar aðferðir. Eftir næstu ferð í heitasta pottinn fórum við í pott sem er 38°C en svo prófuðum við að setjast á bekk og kæla okkur þannig niður eftir næstu tvær ferðir. Það voru fleiri heldur en við sem voru svekktir yfir að komast ekki í þann kalda.

Annars fór ég austur um síðustu helgi en hafði þá ekki farið síðan fyrstu helgina í mánuðinum. Lauk við framleiðslu jólakorta þetta árið og á nú aðeins eftir að skrifa á kortin sem og 3 jólabréf á þremur tungumálum. Við pabbi skruppum upp í garð eftir hádegi á sunnudeginum og hann skipti um rafhlöður í kertinu sem er á leiði litlu Önnu og mömmu. Þegar við feðginin komum til baka skrapp ég aðeins yfir til nöfnu minnar með tvær bækur í farteskinu. Stoppaði í uþb klukkustund og fór með aðra bókina til baka því hún átti þá bók og hefur lesið mörgum sinnum.

16.11.19

Smákökubakstur í dag

Í gærkvöldi var ég sótt af samstarfskonu og vinkonu rétt fyrir sjö. Nokkrum mínútum síðar vorum við mættar á veitingastaðinn Haust í Fosshótel í Borgartúni þar sem var haldið jólahlaðborð RB. Maturinn var góður og kvöldið heppnaðist mjög vel. Var komin heim aftur upp úr klukkan tíu og plantaði mér fyrir framan sjónvarpið næsta klukkutímann.

Var nokkuð lengi að koma mér á fætur í morgun og var klukkan langt gengin í níu þegar ég mætti í Laugardalslaugina. Þurfti að byrja á því að endurnýja árskortið en ég var byrjuð að synda rúmlega níu og hafði þá byrjað á koma við í kalda pottinum í tvær mínútur.

Um hálfellefu var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar. Við plöstuðum Kon-Tiki og eina aðra bók og þar að auki fundum við til fleiri esperanto kennslubækur og lesefni sem við ætlum að gefa betur gaum. Lásum ekkert í dag en við erum harðákveðnar í að lesa Kon-Tiki aftur.

Kom heim um eitt eftir að hafa komið við í Krónunni við Granda. Hringdi í pabba á meðan Oddur gekk frá vörunum. Um tvö leytið ákvað ég að demba mér í að baka amk aðra uppáhaldssmákökusortina, lakkrístoppa sem Oddur er svo hrifinn af. Klukkan um hálfsex var ég búin að baka rúmlega hundrað lakkrístoppa og var með síðustu plötuna af hinni uppáhaldssortinni í ofninum, eggjahvítukökur (eggjahvítur, sykur, vanilludropar, kornfleks, kókosmjöl og suðusúkkulaði) það urðu þó aðeins um 70 kökur þrátt fyrir að ég fjórfaldaði grunn uppskriftina. En þar að auki var ég langt komin með að finna til kvöldmatinn en við vorum með vefjur með kjúklingafillet, niðurskornu grænmeti, salsasósu, rifnum osti og sýrðum rjóma.

14.11.19

Núll - núll

Þrátt fyrir að landsleikurinn við Tyrki ytra væri sýndur í beinni á RÚV ákvað ég að drífa mig í sund á fimmta tímanum í dag. Ég var hálfpartinn búin að mæla mér mót við eina sem stundar kalda pottinn mun meira en ég. Ég var búin að synda í 400m og fara eina ferð í þann kalda þegar hún kom úr ræktinni og fann mig í 42°C pottinum. Næstu fjórar ferðir mínar í þann kalda urðum við samferða og fórum svo í 44°C (heitasta pottinn) á milli ferða. Eftir fimmtu ferðina mína í kalda pottinn endaði ég gufubaði í ca tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim. Náði að horfa á síðasta hálftímann af leiknum.

Fór í sund eftir vinnu í gær og fyrradag en um fimm á mánudag skellti ég mér í 4,1°C sjóinn. Það var flóð en ekki fjara svo það þurfti ekki að labba langt til að komast á ágætis dýpi. Svamlaði um í ca fimm mínútur og kom svo aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Var í pottinum í meira en tuttugu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.

10.11.19

Rólegheit eða leti

Þrátt fyrir að vera í bænum þessa helgina er ég ekki farin að fara í sund í dag. Ég fór í sund í gærmorgun rétt upp úr klukkan átta og gaf mér góðan tíma, synti meira að segja í hálftíma eða 700m. Það var nú frekar einhæft sund, allt á bringunni. Úr sundi fór ég beint til norsku esperanto vinkonu minnar. Við lukun loksins við að lesa Kon-Tiki, lásum síðustu tvær blaðsíðurnar í gær. Við erum hins vegar ákveðnar í að lesa bókina aftur og sjá hvort við rekumst á eitthvað nýtt og hvort við lesum hana hraðar. Vorum nokkur ár með fyrstu yfirferðina.

Þar sem ég var ekki á leið út úr bænum skrapp í Krónuna á Granda eftir esperantohittinginn. Verslaði m.a. hráefni í kjötsúpu og uppáhaldssmákökusortir sona minna. Ekkert varð þó úr bakstri í gær en það var kjötsúpa í kvöldmatinn og verður líklega aftur á boðstólum í kvöld.

Eftir að ég kom heim úr vinnu seinni partinn á föstudaginn heyrði ég í fyrsta skipti í Helgu systur eftir hún náði þeim áfanga að verða fimmtug 2. nóv. sl. Við systur spjölluðum í hálftíma, m.a. um komandi jól. Hún og við báðar gerum okkur grein fyrir að pabbi vill helst vera heima hjá sér. Helga og fjölskylda munu því koma suður og líklega verðum við flest á Hellu um jólin. Synir mínir eiga enn eftir að ákveða sig hvernig þeir vilja hafa þetta en þetta kemur allt í ljós þegar nær dregur. Það eru jú enn 44 dagar til jóla.

Um síðustu helgi fór ég austur með megnið jólakortagerðardótinu mínu og settist niður við eldhúsborðið eftir kvöldmat og hófst handa við að föndra. Tveimur og hálfum tíma og 2 hvítvínsglösum síðar var ég búin að búa til 20 jólakort. Í vikunni fann ég eitt ónotað jólakort frá því í fyrra og skv. listanum vantar mig þá aðeins uþb 5stk.

Á mánudagskvöldið var fór ég með prjónana mína yfir til tvíburahálfsystur minnar því við vorum búnar að ákveða að hafa saumaklúbb. Þriðji meðlimur klúbbsins er erlendis svo við vorum bara tvær. Tíminn leið alltof hratt en við vorum sammála um að hafa annan saumaklúbbshitting aftur innan þriggja vikna.

Skrapp á bókasafnið í vikunni, skilaði 6 bókum og kom með 4 heim. Er að lesa: Það sem aldrei gerist eftir Anne Holt.

22.10.19

Loksins aftur í sund

Ég fór í sturtu á Hellu á sunnudagsmorguninn var og hef ekki sett umbúðir á þá stóru tá sem aðgerð var gerð á 10. þ.m. Var eitthvað að spá í að skreppa aðeins í sjóinn seinni partinn í gær en ákvað að bíða aðeins með það. Á fimmta tímanum í dag dreif ég mig hins vegar af stað í Laugardalinn með sunddótið meðferðis. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti þrjú bleikjuflök. Í Laugardalnum fór ég beint í þann kalda þegar ég kom út. Stoppaði það í uþb tvær mínútur áður en ég fór í 42°C heita pottinn í fimm mínútur. Þaðan beint aftur í þann kalda í tvær mínútur. Synti aðeins 200 metra og fór síðan aftur í þann kalda í rúmar tvær mínútur. Það var síðasta ferðin í þann pott en ég fór aðeins í heitasta pottinn, sjópottinn og gufuna áður en ég fór upp úr og heim.

20.10.19

Helgi á Hellu

Aðeins af síðustu dögum fyrir helgina. Eftir vinnu á miðvikudaginn og þegar ég var búin að fá mér kaffi heima og smá hressingur, fórum við Davíð Steinn í smá leiðangur. Hann vantaði að komast í búð sem heitir @tt og er í Kópavogi. Þegar hann hafði lokið sínu erindi komum við við í Krónunni þar rétt hjá. Vorum með lista með okkur og sonurinn ætlaði að taka að sér að elda kvöldmatinn og langaði til að hafa pizzu svo við keyptum m.a. einn pizzabotn. Skutlaði syninum heim með vörurnar en skrapp sjál í Laugardalinn aðeins til að fara í sturtu og þvo á mér hárið. Það tók aðeins um rúman hálftíma en mikið var skrýtið að fara ekki lengra heldur en í sturtuklefann.

Á fimmtudaginn var ég komin yfir til norsku esperanto vinkonu minnar um sex. Hún hafði boðið mér í mat á undan leikhúsferð en við vorum mættar í Borgarleikhúsið tíu mínútum fyrir átta til að sjá "Sex í sveit". Hitti frænku mína og nöfnu rétt fyrir sýningu en hún og maðurinn hennar voru hægra meginn í salnum meðan við Inger vorum í efstu röð vinstra meginn. Við skemmtum okkur mjög vel, hlógum mjög mikið. Á eftir skutlaði ég vinkonu minni heim og þrátt fyrir að vera að koma heim á tólfta tímanum fékk ég stæði fyrir framan hús, það beið líklega eftir mér.

Fékk að hætta vinnu um hádegið á föstudaginn. Passaði að skilja strætókortið sem og fjölmiðlamælinn eftir heima þegar ég hlóð bílinn og brunaði af stað austur rétt upp úr klukkan eitt. Pabbi var að ljúka við að búa til vöfflur þegar ég mætti austur. Og ég bjó til pönnukökur rétt seinna. Við fengum okkur aðeins smakk af vöfflunum með kaffi/heitu vatni (pabbi drekkur aðeins kaffi eftir sundferð alla virka morgna). Um sex komu Jóna Mæja og Reynir og við þrjú hjálpuðumst að við að græja kvöldmat. Þau höfðu tekið ferðagrill með sér og Reynir grillaði blandað grænmeti og nokkrar sneiðar af folaldakjöti. Með þessu var boðið upp á sallat, kalda sósu og hvítt eða rautt. Vorum mjög södd svo við tókum okkur smá pásu áður en við fengum okkur pönnukökur og ís í eftirrétt en þessi veisla var í tilefni 85 ára afmæli pabba sem sagði okkur frá því að einn sundfélagi hans hafi komið með heimagerða rjómatertu og boðið upp á með kaffinu eftir sundið í tilefni dagsins.

Helginni hef ég að öðru leyti eitt í, prjónaskap, kapallagnir, lestur og fleira dunderí.  Er að lesa; Þannig er lífið núna eftir Meg Rosoff og lofar sú saga mjög góðu. Bókin lætur ekki mikið yfir sér en ég er búin með 6 kafla og er hissa á því að ég hafi náð að slíta mig frá henni. Það var líklega eingöngu vegna þess að ég ætlaði mér að vera búin að blogga smá áður en kemur að kaffitímanum því ég er að fara í bæinn fljótlega eftir kaffi.

14.10.19

Áfram Ísland!

Man að ég rumskaði einhvern tímann eldsnemma í morgun en var fljót að sofna aftur og þegar vekjarinn fór að hamast og láta öllum illu látum uþb tuttugu mínútum fyrir sjö valdi ég að "snúsa" í fyrsta skipti í margar, margar vikur. Tæpum tíu mínútum seinna skrönglaðist ég á fætur, fann smá fyrir kirkjuþrammi gærdagsins. Tók strætó frá Krambúðinni um hálfátta og var mætt í vinnu korteri síðar. Vorum fjórar mættar af fimm en við fórum létt með að rúlla upp vinnudeginum á langt innan við átta klukkustundum.

Eftir vinnu gerði ég mér ferð út á bókasafnið í Grófinni þar sem ég hafði veður af því að nýjasta þýdda bók eftir Angelu Marsons, Blóðhefnd. Væri á lausu í því safni. Ég fann bókina og aðra til úr öðrum rekka og rétt náði að stoppa mig áður en ég fór að athuga með fleiri bækur. Er byrjuð að lesa eina af fjórum bókum sem ég sótti á Kringlusafnið í síðustu viku; Forsetinn er horfinn eftir Anne Holt, sem er yfir 430 blaðsíður að lengd.

Þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að hella upp á tvo bolla af kaffi og fá mér einhverja hressingu með. Nú þýðir ekkert að spá neitt í sjó eða sundferðir næstu daga svo ég freistaðist til að byrja að lesa spennubókina eftir Marsons sem fylgdi mér heim af safninu í dag. Er þegar búin að lesa 10 kafla og yfir 40 bls. en ég fitjaði líka loksins upp á nýrri tusku og er búin að prjóna nokkrar umferðir.

En nú er það Ísland - Andorra í undankeppni fyrir EM í knattspyrnu karla.

13.10.19

9000 skref komin í dag

Rumskaði einhvern tímann snemma í morgun en náði að kúra mig niður aftur alveg til klukkan að ganga níu. Notaði morguninn m.a. til að ljúka við að lesa mjög spennandi spennubók sem ég fékk frá nöfnu minni á Hellu um síðustu helgi; Ég ferðast aldrei ein eftir Samuel Björk. Útbjó mér dýrindis hafragraut um hálfellefu og korter gengin í tólf trítlaði ég af stað upp í kirkju Óháða safnaðarins. Já, ég fór labbandi þangað og var komin fyrst af öllum boðuðum á réttum tíma, klukkan hálftólf. Kom að læstri kirkju og fyrsti stjórnarmeðlimur sem mætti á svæðið fimm mínútum síðar var ekki með lykil. Fljótlega mætti þó einhver sem var með lykil og opnaði okkur leið inn. Framundan var galdramessa og hlaðborð á efri og neðri til styrktar óháða kórnum sem sá um að koma með veitingar. Hluti af safnaðarstjórninu plús nokkrir sjálfboðaliða (þar á meðal ég) sáu um að raða upp borðum, hellla upp á kaffi, útbúa heita brauðrétti og ýmislegt fleira. Það fór svo að tveir stjórnarmeðlimir og tveir sjálfboðaliðar (ég í síðarnefnda hópnum) fórum aldrei í messuna en við vorum engu að síður talinn með og var heildarfjöldinn í kirkjunni 111 manns. Ég gleymdi alveg að setjast niður nema þá stund sem ég var að sykra og rúlla upp pönnukökum sem ein úr stjórninni lagði í púkk á kaffihlaðborðið. Kaffið og það meðlæti sem ég smakkaði á drakk ég og borðaði standandi einhverra hluta vegna. Öllum frágangi var lokið upp úr klukkan hálffimm og ég fór labbandi heim. Það fyrsta sem ég gerði þegar heim kom var að setjast í stólinn inn í stofunni og hringja austur í pabba.

12.10.19

Heimavið um helgina

Á fimmtudagsmorguninn fór ég á bílnum í vinnuna. Hafði bókasafnspokann með mér og geymdi hann í skottinu. Vorum mættar fjórar af fimm korter fyrir átta en sú fimmta ætlaði að mæta um hádegisbilið því hún hafði tekið það að sér að sitja yfir þeim sem tóku framleiðsluvélina í mánaðarlega yfirferð. Um það leyti sem var að bresta á kaffipása um hálftíu dreif ég mig af stað í tímann til fótaaðgerðarsérfræðingsins sem ég átti pantaðan tíma hjá. Það tók sérfræðingin uþb korter að glíma við nöglina, klippa burtu naglabrotin, sótthreinsa, bera krem á og plástra yfir. Varð að halda mér verulega fast í handtöskuna með hægri, sársaukinn var ólýsandi en ég æmti samt ekki neitt. Með vinstri hélt ég fast við stækkunarglerslampa svo hann væri á réttum stað yfir stórutánni. Fékk svo nafnið á kreminu með mér á miða eftir að ég var búin að gera upp við sérfræðinginn. Þegar ég settist upp í bíl byrjaði ég á að senda fyrirspurnarskilaboð til fyrirliðans á K1 um hvort ég mætti nota afganginn af deginum til að útrétta. Það var auðsótt. Skrapp fyrst og skilaði bókunum á safnið og valdi mér fjórar í staðinn fyrir fimm til að taka með mér heim. Stuttu eftir að ég kom heim var haft samband við mig frá Mílu um hvort ég yrði heima um eitt leytið ef það kæmi maður til að tengja mig við símann. Það var auðsótt. Náunginn kom upp úr klukkan hálfeitt en það varð fljótlega ljóst að hann yrði að fá aðstoð því bora þurfti göt í gegnum veggi og þrjár geymslur til að tengja nýtt box í þvottahúsinu. Þeir voru að til klukkan alveg að verða fimm en rétt fyrir fjögur fékk ég Odd Smára til að taka að sér vaktina því ég skrapp sjálf á síðdegisvaktina á heilsugæslunni, hvar ég þurfti að bíða eftir að komast að hjá lækni í tvo tíma til að fá hann til að skrifa upp á kremið sem fótaaðgerðarsérfræðingurinn hafði mælt með. Um kvöldið horfði ég á tvo þætti af 911 í gegnum sjónvarp símans premium sem ég mun hafa aðgang að næstu tvo mánuðina og kannski lengur ef ég ákveð að taka eitthvað meira en lágmarksáskrift.

Eftir vinnu í gær fór ég og skilaði ýmsu dóti sem tilheyrði vodafone og leysti út kremið í næsta apóteki. Sótthreinsaði, bar á og skipti um umbúðir á tánni fljótlega eftir að ég kom heim. Rétt fyrir klukka sjö skutlaði einkabílstjórinn mér á Nauthól hvar ég hitti flesta af vinnufélögunum úr K1 og 3 af fimm mökum. Ég pantaði mér þríréttað og sitthvort vínglasið með forrétti og aðalrétti. Skemmtum okkur ágætlega þarna í rúma tvo tíma. Var komin heim rétt fyrir klukkan tíu.

Í morgun var ég frekar hissa á að sundlaugin var ekkert að toga í mig, en ég má víst hvorki fara í sund né sjóinn næstu tvær vikurnar eða á meðan táin er að gróa í rólegheitunum. Notaði strætókortið og var mætt í espernato vestur í bæ upp úr klukkan tíu. Kom heim aftur upp úr hádeginu. Hringdi í pabba um hálftvö en hann hitti Helgu og Ingva í Löngumýrinni hjá Jónu og Reyni í gærkvöldi. Helga hringdi í mig seinni partinn í gær til að bjóða mér að koma líka en kvöldmaturinn með vinnufélögunum var löngu ákveðinn. Um miðjan dag bjó ég til lummur úr afgangi af hafragraut, heilhveiti, eggi, rúsínum og mjólk. Lummurnar voru akkúrat tilbúnar þegar Oddur kom heim úr vinnunni upp úr klukkan fjögur.

9.10.19

Hvorki í sund né sjóinn í dag

Þriðja morguninn í röð vakna ég amk fimm mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Dreif mig á fætur og gaf mér góðan tíma í alla morgunrútínu. Þær mínútur sem voru afgangs áður en tímabært var að trítla út á strætóstoppistöð notaði ég til að sitja alveg róleg og reyna að hugsa ekki neitt. Í vinnunni sinnti ég bókhaldsverkefnum. Tvær af okkur fimm dembdu sér í að útbúa vöfflur upp úr klukkan eitt. Ég var enn pakksödd eftir hádegið og ákvað að standast freistinguna en sitja samt frammi með vinnufélögunum. Var með prjónana með mér og áður en ég fór inn á deild aftur var ég búin að fella af tusku no 26, sem ég fitjaði upp á um síðustu helgi. Tuskan á undan var amk 3 vikur á prjónunum, sem er óvanalega langur tími, en um síðustu helgi gekk ég loksins frá endunum á þeirri tusku og tveimur öðrum. Var komin heim rétt fyrir þrjú. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér 3 eldstafi með. Lauk við að lesa síðustu bókina af safninu seinni partinn í dag sem er gott því síðasti skiladagur er á morgun. Reyndar mætti ég framlengja um einn mánuð en ég vona að ég komist frekar safnið á morgun. Var eitthvað að spá í því að skella mér smá stund í sjóinn því ég vissi að amk 4 í sjósundshópnum í vinnunni ætluðu í Nauthólsvíkuna. En síðustu 2-3 vikurnar hef ég verið að glíma við inngróna tánögl og tilheyrandi veseni á stórutá vinstri fótar. Var búin að kíkja á vaktina á heilsugæslunni eftir klukkan fjögur um síðustu mánaðamót. Læknirinn vildi að ég prófaði að fara til fótaaðgerðarkonu fyrst (ef það gengi ekki upp ætti ég að panta tvöfaldan tíma á heilsugæslunni). Gúgglaði fótaaðgerð og valdi eina af handahófi. Þegar ég fékk samband þá var hægt að panta bæði stuttan eða langan tíma. Það var lengri bið eftir að komast í langan tíma svo ég skellti mér á einn stuttan tíma og hann er víst rétt fyrir klukkan tíu í fyrramálið.

8.10.19

Alls konar og ekkert sérstakt

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni bæði í morgun og gærmorgun. Í gærmorgun prófaði ég að gera öndunaræfingarnar strax eftir að ég var búin að klæða mig, áður en ég fékk mér lýsið, vítamínin og morgunhressinguna. Það varð, held ég, til þess að ég steingleymdi að bursta tennurnar sem yfirleitt er það fyrsta sem ég geri á morgnana. Fattaði þetta ekki fyrr en ég var mætt í vinnuna. Sem betur fer var ég með extra tyggjó á mér og það bjargaði öllu. Eftir að ég kom heim úr vinnu í gær, hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Hringdi og spallaði stuttlega við pabba og var svo komin í Nauthólsvík um fimm. Sjórinn var 8,5°C mikil stilla og dásamlegt að svamla um.

Þegar ég kom heim úr vinnu í dag brá svo við að ég sleppti því að hella mér upp á kaffi og var ég þó ekki búin að drekka dropa af slíkum drykk í dag. Ákvað að koma við í fiskbúð og Krónunni í Nóatúni áður en ég hringdi í eina frænku mína og athuga hvort hún væri heima. Var reyndar með sunddótið með mér sem plan B. Frænka mín og nafna var heima og N1 strákurinn tók við vörunum úr fiskbúðinni og Krónunni og lofaði hann að ganga frá þeim og jafnvel elda kvöldmatinn líka. Átti mjög gott spjall, góðan hitting, með frænku minni og þáði ég hjá henni fyrsta og eina kaffibolla dagsins. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn næstum því búinn að elda, steikti ýsuna upp úr hrærðu eggi og heilhveiti krydduðu með pipar og smá hvítlaukssalti. Einnig hafði hann skorið niður smælki og svissað upp úr smjöri. Virkilega vel heppnað hjá honum en þetta var í fyrsta skipti sem hann matreiðir eitthvað úr fiski.

6.10.19

Frábært veður í dag

Í gær lagði ég af stað úr bænum rétt upp úr klukkan tólf og ákvað að keyra Þrengslin. Kom við í Löngumýrinni á Selfossi og stoppaði þar í á aðra klukkustund. Þegar ég kom á Hellu um þrjú þurfti ég að nota lykil til að komast inn. Pabbi var úti í skúr að dútla. Hann kom inn skömmu síðar og þá var ég búin að undirbúa kaffitímann. Eftir kaffi tók ég út silung sem ég hafði svo í kvöldmatinn eftir fréttir á RÚV. Í millitíðinni prjónaði ég, lagði nokkra kapla og spjallaði við pabba, ekki endilega í þessari röð.

Svaf út eða til klukkan hálftíu í morgun. Upp úr hálfellefu fékk ég mér göngutúr upp að Helluvaði en nú brá svo við að föðursystir mín var farin af bæ. Eftir hádegi fór ég með þrjár bækur til nöfnu minnar, stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma og kom með tvær aðrar kiljur með mér til baka. Er að fara að vinna í að útbúa kvöldmat sem ég ætla að borða með pabba áður en ég legg af stað í bæinn. Annars hefur dagurinn farið í kapallagnir, smá lestur, tuskuprjón og svo fitjaði ég upp á enn einu sjalinu eftir nokkurt hlé. Átti garn sem ég hafði hugsað mér í sjalaprjón og er ég búin að prjóna 1. kaflann og þegar ég held áfram byrja ég á 2. kafla sem er endurtekningakaflinn og ég mun líklega endurtaka hann 10-12 sinnum áður en ég skipti yfir í 3. og síðasta munsturkaflann.

5.10.19

Á Hellu um helgina

Upp úr klukkan tvö á fimmtudaginn tókum við, fjórar af fimm, leigubíl frá K1 yfir í K2. Sú fimmta fór á einkabíl á undan okkur hinum. Tilefni þessa ferðalags var fyrri hluti af smá námskeiði sem við höfðum allar skráð okkur á. Við vorum eitthvað á þriðja tuginn sem sóttum þetta námskeið sem byrjaði um hálfþrjú og stóð yfir í góðan einn og hálfan tíma. Framhald á fimmtudag eftir þrjár vikur. Labbaði heim og skráði síminn á mig tuttugu mínútna göngu, sjálfvirkt. Seinni part göngunnar gekk ég nánast við hliðina á strætó sem lendir yfirleitt í umferðarsultu á Lönguhlíðinni á þessum tíma. Skrapp í sund þegar klukkan var að byrja að ganga sex. Kom heim um hálfsjö og hafði lasanja í matinn. Um átta var ég kominn í heimsókn til Lilju vinkonu þar sem ég hitti búlgarska vinkonu hennar sem og vinkonuna sem var með okkur Lilju á Kanaríeyjum. Sú búlgarska og Lilja hafa þekkst síðan 2006 en þetta var fyrsta heimsóknin hennar til Íslands og sagðist hún vera kolfallin fyrir landinu. Það var glatt á hjalla næstu tvo tímana. Töluðum á ensku en sú búlgarska vildi líka hlusta á okkur hinar tala svolítið saman á íslensku, svo við skiptum stundum yfir í móðurmálið.

Í gær lauk vinnu um tvö leytið og þar sem var föstudagur fórum við snemma inn í helgina. Tók strætó upp í Kringlu og rak nokkur erindi. Var samt komin heim um hálffjögur. Komst ekki í neinn sérstakan "gerugír" en vann í því að klára næstsíðustu bókina af fimm sem ég er með af bókasafninu. Kláraði hana fyrir kvöldmat. Hafði plokkfisk í matinn. Fór í háttinn á ellefta tímanum og byrjaði á fimmtu og síðustu bókinni; Svik eftir Lilju Sigurðardóttur.

2.10.19

Örstutt í sjóinn seinni partinn


Aftur vaknaði ég á undan vekjaraklukkunni og var komin á fætur uþb sem hún hefði átt að hringja. Gat gefið mér góðan tíma í morgunrútinuna áður en ég tók strætó í vinnuna um hálfátta í morgun. Var komin heim aftur rétt fyrir fjögur og líkt og í gær var mitt fyrsta verk að hella upp á könnuna og fá mér hressingu. Hringdi í pabba og við spjölluðum í rúmar tíu mínútur. Það er loksins kominn nýr dúkur í sundlaugina á Hellu og gat þá pabbi farið að sinna hefðbundinni sundrútínu og fækkað ferðum í rennibrautirnar úr fjórum aftur niður í tvær.


Um fimm fór ég í Nauthólsvík. Var kominn ofan í sjóinn korter yfir og lék ég mér í ölduganginum í rétt rúmar fimm mínútur. Sat aðrar fimm mínútur í heita pottinum en dreif mig svo upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni og keypti mér kartöflur og ýsu í soðið

1.10.19

Fyrsti októberdagurinn

Þar sem ég er búin að fjárfesta í strætókorti sem gildir frá og með deginum í dag gat ég stillt vekjarann amk korteri seinna en undanfarna mánuði. Ég vaknaði reyndar mun fyrr. Þegar ég labba í vinnuna labba ég yfirleitt af stað í kringum 7:10 til að vera mætt í vinnu korter fyrir átta. Í morgun "hoppaði" ég upp í strætó rétt fyrir klukkan hálfátta og var mætt í vinnu rétt áður en klukkan var korter í. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að plasta nýja, þriggja mánaða strætókortið. Eftir vinnu rölti ég yfir í Austurstræti. Lilja vinkona hafði talað um að ætla að vera "á sínum stað" í síðasta skipti þetta árið einmitt í dag 1. október. Klukkan var korter gengin í fjögur. Fjórir söluaðilar voru að selja sínar vörur en engin Lilja. Hvort hún kom ekkert eða var hætt og farin í dag veit ég ekki. Fyrst ég fann ekki Lilju dreif ég mig heim með leið nr. 13 sem stoppar sem fyrr, á Lönguhlíðinni mitt á milli Mávahlíðar og Drápuhlíðar.

Heima hellti ég mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér hressingu með. Hringdi svo í pabba til að athuga hvernig gangi að koma upp nýju bílsskúrshurðinni sem hann var að kaupa eftir eigin máli um daginn og er að setja upp sjálfur. Mér skilst að nú sé nánast aðeins eftir að tengja apparatið sem á að nota til að opna og loka. Snillingurinn hann pabbi minn. Áður en ég dreif mig í sund hringdi ég í símann en nú er liðinn meira en mánuður síðan var hringt í mig og mér boðið að skipta yfir í þjónustu símans og mílunnar. Ég fékk sent símkort í gemsann sem var virkjað að kvöldi 3. september sl. en síðan hefur ekkert verið að gerast. Sá sem svaraði á þjónustuborðinu sagði að þetta væri allt að fara að smella en hann skildi senda út fyrirspurn og hafa samband við mig á morgun.

Var komin ofan í kalda pottinn korter yfir fimm og sat þar í uþb 4 mínútur áður en synti 500m. Allt í allt fór ég 4 sinnum í þann kalda og endaði svo í 10 mínútna gufubaði áður en ég dreif mig uppúr, í kalda sturtu og heim.

30.9.19

Síðasti septemberdagurinn

Þessi dagur hefur verið nokkuð annasamur fram að þessu og ég er komin með um 7000 skráð skref þrátt fyrir að hafa farið á bílnum í vinnuna í morgun. Yfirgaf vinnuna rétt upp úr klukkan hálftvö og var komin á leitarstöðina tæpu korteri fyrir uppgefinn tíma í brjóstamyndatöku. Það fór svo að ég var að labba út á slaginu klukkan tvö og þá var erindi mínu lokið þar. Næst lá leiðin á Kvikk í Öskjuhlíðinni þar sem ég fékk einn kaffibolla í boði sonarins eftir að ég var búin að athuga með loftþrýstinginn í öllum fjórum hljólbörðunum. Lauk við kaffibollann áður en ég hélt förinni áfram í Kringluna. Það var búið að færa þjónustuborðið upp á aðra hæð en ég fann það eftir að hafa labbað stærri hringinn. Ætlaði mér að kaupa hálfsárs kort í strætó en þarna eru bara seld eins og þriggja mánaða kort. Ég skellti mér á lengra tímabilið og það kort gildir frá og með morgundeginum til og með 31. desember næstkomandi. Kíkti stuttlega inn á tvo staði á sömu hæð áður en ég hélt för minni áfram. Ég fékk bæði sms og e-mail frá blóðbankanum í morgun og auðvitað hlýddi ég kallinu. Gjöfin gekk extra vel. Eini gallinn við að gefa er sá að þar með verð ég að sleppa sjó eða sundferð í dag. Var komin fyrir utan hér heima rétt upp úr klukkan fjögur og ákvað að skreppa yfir á heilsugæsluna, fá viðtal á vaktinni til að senda inn beiðni um að verða kölluð í beinþéttnimælingu. Er búin að vera á leiðinni að láta athuga beinþéttnina í rúm tvö ár. Báðir synirnir eru að vinna en ég er engu að síður að vinna í kvöldmatargerð, er með eitt flak af þorskhnakka í ofninu ásamt ýmsu meðlæti og með smá rjómaskvettu út á. Hlakka til að borða af þeim rétti eftir ekkert svo langa stund.

29.9.19

Sunnudagur í bænum

Ég var komin upp í rúm um hálfellefu í gærkvöldi og ætlaði að lesa til ellefu. Það liðu samt þrjú korter áður en ég lagði frá mér bókina, slökkti ljósið, bað bænirnar mínar og fór að sofa. Var að lesa, og langt komin með; Brestir í Brooklyn eftir Paul Auster. Er búin að vera að lesa þessa með hléum í á aðra viku og  náði loks að ljúka lestrinum um hádegisbil í dag. Í millitíðinni las ég reyndar m.a. bóka; Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Sú saga er byggð á raunverulegum atburðum og ég get svo svarið að það var erfitt að slíta sig frá henni en ég táraðist á köflum. Núna er ég byrjuð á bókinni; Konungsmorðið eftir Hanne Vibeke Holst í þýðingu Halldóru Jónsdóttur. Spennusagan er sjálfstætt framhald af bók sem heitir Krónprinsessan.

En ég var glaðvöknuð upp úr klukkan sjö, slökkti á vekjaranum sem átti að hringja 7:20 og dreif mig fljótlega á fætur. Fékk mér lýsi, vítamín, vatnsglas og eitt harðsoðið egg. Var komin í kalda pottinn í Laugardalnum (6,7°C) ca korter yfir átta. Sat þar í fjórar mínútur áður en ég synti mína 500 metra á uþb tuttugu mínútum, synti 400m bringusund, ca 40m skriðsund og 60m á bakinu áður en ég fór aftur í þann kalda í rúmar tvær mínútur. Síðan lá leiðin í heitasta pottinn í örstutta stund og svo dagaði ég næstum því uppi í sjópottinum á spjalli við eitt af afmælisbörnum morgundagsins. Þegar við ákváðum láta loksins gott heita í heita sjónum fór hún í gufuna en ég enn eina ferðina í þann kalda. Svo sátum við um stund í sólbaði. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég kom heim. Á tólfta tímanum harðsauð ég 7 egg, bjó til hafragraut og hellti upp á könnuna. Hluti af deginum hefur farið í lestur bóka og helgarblaðs og prjónaskap.

28.9.19

Tvær kveðjur

Í gærmorgun fór ég, aldrei þessu vant, á bíl í vinnuna. Vann til hádegis. Hafði fengið leyfi til að hætta vinnu upp úr tólf til að fylgja bekkjarsystur minni úr KHÍ en hún varð bráðkvödd þremur vikum eftir að við fórum saman austur í berjamó með pabba. Valbjörg Jónsdóttir var kölluð mamman í bekknum okkar en hún var fædd seint í október 1942 á Suðureyri við Súgandafjörð. Ég er ekki alveg að ná utan um það að hún sé farin en það fylgdu henni fjöldi manns, ættingjar, vinir og annað samferðafólk. Ég hitti fimm aðra úr bekknum okkar í kirkjunni og erfidrykkjunni. Valla var einstök persóna, þótti góður kennari og var afar dugleg að rækta frænd- og vinagarðinn. Eftir að hún komst á eftirlaunaaldur sinnti hún ýmis konar sjálfboðavinnu. Þessi kona var alltaf brosandi og afar viðræðugóð. Ég er þakklát fyrir að við drifum okkur í berjaleiðangurinn seinni partinn í ágúst sl.

Skilaði bílnum heim um þrjú en stuttu síðar labbaði ég í RB í K2. Þar var haldið kveðjupartý fyrir eina samstarfskonu mína sl. tæpu tuttugu árin en hún ákvað að fara að sinna eigin fyrirtæki ásamt eiginmanni sínum eftir rúmlega 23 ár hjá reiknistofu bankanna. Kveðjuhófið var auglýst frá 16-19 en ég bað Odd um að sækja mig um hálfátta.

Nennti ekki alveg strax á fætur í morgun klukkan átta. Var mætt til esperanto-vinkonu minnar um hálfellefu og tveimur tímum síðar skutlaði ég henni áleiðis í vinnu og dreif mig svo loksins í sund. Rétt gaf mér tíma til að hengja upp sunddótið þegar ég  kom heim og var svo farin strax út aftur til að fylgjast með Valsstrákunum á heimavelli gegn HK í lokaumferð Pepsídeildar karla 2019. Átta mínútur voru liðnar af leiknum er ég mætti á svæðið en ég missti ekki af þeim tveimur mörkum sem mínir menn skoruðu. Leikurinn fór 2:0 fyrir Val en það var Hannesi að þakka að HK-ingar skoruðu ekki. Einu sinni fór þó boltinn í netið en það mark var ekki dæmt vegna rangstöðu.

Oddur átti frí í dag en Davíð Steinn var að vinna hjá N1 í Mosó. Ég ákvað að við skildum fara bæði að sækja hann og bauð strákunum á KFC á heimleiðinni en það gerist ekki oft.

25.9.19

Smá úttekt á deginum í dag

Vaknaði heilum fimm mínútum áður en vekjarinn átti að fara í gang. Labbaði af stað í vinnuna um kl . 7:10. Vinnudagurinn leið frekar hratt. Öllum verkefnum var lokið um tvö og þá var ákveðið að yfirgefa vinnustaðinn. Ég hringdi í fyrrum kórsystur mína úr KÓSÍ um leið og ég var komin út af vinnustaðnum. Þessi kona er jafngömul pabba mínum og býr við Lindagötu. Ég náði sambandi við hana í heimasímann hennar en hefði ekki mátt hringja einni mínútu síðar. Hún var á leiðinni niður í sameiginlega salinn í kaffi. Hún bauð mig velkomna í heimsókn og sagðist myndu bíða eftir mér fyrir framan hús. Ég setti í hærri göngugýr og var mætt til hennar rúmum fimm mínútum síðar. Í salnum var einnig verið að dansa gömlu dansana við undirspil 5 manna hljómsveitar, 3 á harmonikkur, 1 á gítar og 1 á trommur. Við fengum okkur kaffi og hlustuðum á mússíkina og horfðum á þá sem voru að dansa. Það er víst alltaf dans á miðvikudögum og síðasta miðvikudag mánaðarins er svo endað á því að dreifa söngheftum og sungið saman í nokkra stund. Okkur fyrrum kórsysturm leiddist ekkert að syngja saman nokkur þekkt dægurlög. Einn lék undir á nikku.

Var komin í Nauthólsvík klukkan fimm, sjórinn 0,4 gráðum hlýrri en sl. mánudag. Svamlaði um í tuttugu mínútur og fór svo beint í víkina þar sem sjórinn er heitari an þar sem hann er mældur. Að lokum fór ég í heita pottinn og sat þar í korter áður en ég dreif mig upp úr og heim.

24.9.19

Kaldi potturinn

Um fimm leytið í gærdag var ég komin í Nauthólsvík. Hitastig sjávar var komið aftur í 10°. Ég fer alltaf beint út í sjó þegar ég er búin að fara í sundbol, sundhettu, strandskó (bráðum sokka) og hanska. Þarf ekki að fara í sturtu sem ég þyrfti að gera ef ég myndi byrja á því að setjast í heita pottinn. Í gær var fjara og ég grínast oft með það á þá þurfi að vaða áleiðis til Kópavogs áður en maður hættir að botna. Ég gleymdi að taka með mér sundgleraugun en ég var mest í því að svamla um á bakinu, tók þó örfá bringsunds- sem og skriðsundstök í þessu uþb 15 mín. sjóbaði. Sat svo í heita pottinum í næstum tuttugu mínútur áður en ég dreif mig upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Krónunni við Nóatún áður en ég fór heim.

Eftir vinnu seinni partinn í dag kom ég örstutt við á Lækjartorginu og heilsaði aðeins upp á Lilju vinkonu áður en ég trítlaði heim, hellti mér upp á kaffi, fékk mér hressingu með og hringdi í pabba. Var mætt í Laugardalslaug um fimm. Fór 3x í kalda pottinn áður en ég valdi mér braut til að synda mína 500 metra. Strax eftir "sundsprettinn" fór ég í fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr.

 styttist í það að ég fari að fjárfesta í strætókorti og þar með dregur líklega allverulega úr skrefasöfnun og skósólaslitum.

22.9.19

Árgangur 1968 úr Helluskóla

Fyrr á árinu var stofnaður lokaður hópur á Facebook utan um okkur tuttugu sem vorum saman í bekk í grunnskólanum á Hellu. Fimm úr hópnum voru í grunnskóla Þykkvabæjar til 12 ára en komu í unglingadeildina á Hellu í 7. 8. og 9. bekk (sem nú eru 8. 9. og 10. bekkur). Einn úr hópnum er reyndar ekki á neinum samfélagsmiðlum en hann var látinn vita um hópinn og að til stæði að hittast eina helgina seinni partinn í september á þessu ári þegar liðin eru 35 ár síðan við útskrifuðumst úr grunnskóla. Fimmtán af okkur hittumst í gær. Um þrjú skráðu 6 of okkur sig inn á Hótel Stracta við Hellu, sá sjöundi sem líka ætlaði að gista nóttina sameinaðist hópnum um hálfátta í gærkvöldi er hann kom nánast beint úr flugi utan úr heimi. Þrettán af okkur vorum mætt við grunnskólann um fjögur í gær og fengum leiðsögn um hann hjá nýjum skólastjóra, Kristínu Sigfúsdóttur, sem var ráðin í starfið eftir að skólastjóri síðustu 35 ára sagði starfi sínu lausu í vor. Yfirferðin tók um klukkustund og höfðum við gaman að þessu. Frá skólanum lá leiðin upp að Ægisíðu þar sem dóttir eins úr hópnum leiðsagði og sýndi okkur nokkra af hellunum. Sest var að snæðingi í Hótelinu um átta og þá voru allir sem boðuðu ekki afföll mættir. Við skemmtum okkur svo fram á rauða nótt og voru margar skemmtilegar sögur rifjaðar upp. Fimm af okkur sjö sem gistum á hótelinu vorum mætt í morgunmatinn upp úr klukkan níu.

Núna er  ég stödd hjá pabba og ætla að vera framyfir kvöldmat. Í gærmorgun náði ég góðri sundferð í Laugardalslaugina þar sem ég fór m.a. fjórar ferðir í þann kalda. Lagði af stað úr bænum rétt upp úr hádegi og kom við í Fossheiðinni. Hugurinn var reyndar á Valsvellinum bróður partinn úr deginum en ég sá hluta af leik Vals og Keflavíkur í lokaumferð Pepsídeildar kvenna í lobbýinu á hótelinu.

Á föstudagskvöldið sótti Brynja vinkona mig um hálfátta og við fórum saman á kvöldvöku með Jóni Gnarr í Borgarleikhúsinu. Sú kvöldvaka stóð til klukkan að ganga tólf og skemmtum við okkur alveg ágætlega.

18.9.19

Sjórinn

Það var eins gott að ég á góða regnkápu, rigndi frekar mikið á mig á labbinu í vinnuna á áttunda tímanum í morgun. Þyfrti svo annað hvort að fjárfesta í regnbuxum eða taka með mér aukabuxur sem ég gerði ekki í morgun. Buxurnar blotnuðu nokkuð frá hné og niður úr. En þetta var svo sem fljótt að þorna. Eftir hádegi græjuðum við vöfflukaffi í vinnunni og svo tók ég að mér að bíða eftir að mánaðarleg endurnýjun skilaði sér yfir á framleiðsluvélina. Var búin að hlaða henni inn rétt fyrir hálffjögur. Ekki rigndi neitt að ráði á mig á heimleiðinni, aðeins smávegis síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér hressingu, las smávegis, hringdi í pabba og var svo komin í sjóinn við Nauthólsvík upp úr klukkan fimm. Svamlaði um í sjónum í tæpar tíu mínútur og sat svo í heita pottinum í uþb korter áður en ég fór upp úr og heim aftur.

17.9.19

Tíminn

Í gærmorgun labbaði ég af stað í vinnuna með gamlan sundpoka með nokkrum nauðsynjahlutum á bakinu innan undir regnkápunni. Vinnudagurinn varð nokkuð óvenjulegur. Það varð smá óhapp sem varð til þess að framleiðsla tafðist og fyrstu skil voru hálftíma á eftir áætlun. Náðum að vinna þetta upp og klára vinnudaginn innan átta tíma. Labbaði af stað úr vinnunni korter í fjögur og fór beint upp í Perlu til að hitta fyrrum kórfélaga mína í KÓSÍ. Mættum átta af 15. Flestir komu um fjögur, ég kom korter yfir en var alls ekki seinust en þau sem lögðu til þennan hitting komust ekki.

Um sex skrapp ég heim, skipti um föt og slakaði á um stund áður en ég rölti yfir á Valsvöllinn og sá KR tryggja sér titilinn með einu marki geng engu minna manna. Það var svolítið erfitt að horfa upp á þetta en ég sat þó allan leikinn en fór heim mjög fljótlega eftir að leikurinn var flautaður af.

Það var svo sannarlega ekkert regnkápuveður í dag. Það slapp að klæða sig í flíspeysu. Kom heim rétt upp úr klukkan þrjú. Hellti upp á 3 bolla af kaffi, fékk mér smá hressingu með, las smávegis og hringdi svo í pabba stuttu áður en ég skellti mér í sund á fimmta tímanum.

15.9.19

100 dagar til jóla

Var komin í sund rétt upp úr klukkan átta í morgun og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu, eldaði mér hafragraut og hellti upp á kaffi. Nú er ég nýbúin að klára úr þriðja og sennilega síðasta kaffibolla dagsins og síðasta hálftímann hef ég verið að lesa; Saga af nýju ættarnafni eftir Elenu Ferrante, aðra bókina af fjórum í svokölluðum Napólísögum.

Í gærmorgun var ég líka komin í sund fljótlega eftir opnun og gaf mér jafnvel betri tíma í rútínuna heldur en ég gerði svo í morgun og endaði á því að þvo á mér hárið. Kom við í Krónunni við Nóatún, Atlantsolíu við Flugvallarveg og Kvikk í Öskjuhlíð á heimleiðinni. Oddur Smári hafði skilið fjölmiðlamælinn sinn eftir í gluggakistunni inni á baði og hann var að vinna til fjögur í gær. Ég færði honum mælinn og þáði hjá honum hálfan kaffibolla áður en ég fór heim og gekk frá vörunum. Klukkan að verða eitt sótti ég eina fyrrum samstarfskonum mína vestur í bæ og á leiðinni út úr bænum komum við við í austurbænum í Kópavogi og sóttum aðra sem var að vinna með okkur. Leiðin lá fyrst austur í Þorlákshöf þar sem við fengum okkur kaffi á Hendur í höfn. Stoppuðum stuttlega á tveimur stöðum á Selfossi og keyrðum einn rúnt um Þykkvabæinn áður en við heimsóttum pabba um hálffimm. Stoppuðum hjá honum til klukkan langt gengin í átta og um hálfsjö var ég búin að gufusjóða blöndu af blómkáli, lauk, papriku, kartöflu og epli og steikja bleikju. Virkilega vel heppnaður kvöldmatur. Kom heim aftur um hálftíu í gærkvöldi eftir að hafa skilað stelpunum heim.

Af seinni hluta nýliðinnar vinnuviku ber hæst að nefna að um fjögur á fimmtudaginn fóru tvær rútur (og reyndar fjölmargir á einkabílum) út úr bænum í Félagsgarð í Kjós; starfsmannafundum undir yfirskriftinni " Frábær saman". Fram að kvöldmat voru tveir fyrirlestrar og hópmyndataka. Eftir kvöldmat var hópsöngur áður en var alveg frjáls tími. Seinni rútan lagði af stað í bæinn rétt rúmlega tíu.

10.9.19

Ferð á bókasafnið

Vekjarakukkan hringdi upp úr klukkan hálfsjö í morgun. Ég var eiginlega hálfhissa á því að það væri kominn tími til að fara á fætur fyrir utan að ég er undanfarið vaknað amk tíu mínútum á undan vekjaranum. Tíminn í morgunrútínuna var alveg nægur og  ca hálftíma eftir að klukkan hringdi labbaði ég af stað í vinnuna og var mætt þar á slaginu 7:45. Strax eftir hádegið mættu tveir viðgerðarmenn til að sinna mánaðarlegri yfirferð á vélinni. Aðeins einn þarf að sitja yfir alveg til klukkan fimm. Í þetta sinn var það fyrirliðinn sem tók það að sér (hafði samt þurft að mæta í vinnu um leið og við hinar tvær en það er ein í fríi og sú fimmta hefur ekki störf fyrr en eftir næstu helgi). Ég fékk því það frelsi að geta hætt í vinnunni um hálftvö og labbað heim.

Eftir að hafa fengið mér hressingu, tvo bolla af kaffi og hringt í pabba tók ég til sunddótið og ákvað í leiðinni að taka bókasafnspokann og koma við á Kringlusafninu. Reyndi m.a. að skila bók sem var ekki af safninu. Skilaði átta bókum af tíu og tók fimm bækur í staðinn. Var komin fyrstu ferðina af fjórum í kalda pottinn fyrir klukkan hálffimm. Þegar ég var í gufunni eftir síðustu ferðina í þann kalda var ég spurð að því hvort ég væri ekki mamma Odds og Davíðs. Það reyndist vera fyrrum "þríburinn" minn og frændi (langafi hans og föðurafi minn voru hálfbræður, samfeðra).

9.9.19

Svamlað í sjónum

Í gærmorgun var ég vöknuð stuttu fyrir átta en tók þá ákvörðun að taka lífinu með ró. Sleppti því að fara í sund til að leyfa sprungnu blöðrunni á slæma staðnum jafna sig aðeins. Var komin á fætur fyrir klukkan níu og fékk mér morgunhressingu og hellti upp á tvo bolla af kaffi. Var mætt á heimavöllinn klukkan tvö, sleppti kirkjuferð, og horfði á Valsstelpurnar vinna ÍBV 4:0.

Labbaði af stað í vinnuna upp úr klukkan sjö í morgun, fann varla fyrir blöðrunni enda með plástur á henni. Um hálftvöleytið labbaði ég úr K1 yfir í K2 þar sem ég fór á örkynningu. Sú kynning var búin um hálfþrjú og þá labbaði ég heim. Hellti upp á smá kaffi og fékk mér síðdegishressingu. Var komin í sjóinn tíu mínútum fyrir fimm og svamlaði þar um í uþb tuttugu mínútur áður en ég fór í pottinn. Stuttu seinna mætti bekkjarsystir mín úr grunnskóla og ég ákvað að skella mér smá stund í sjóinn með henni eða í rúmlega tíu mínútur. Mjög hressandi. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég lagði af stað frá Nauthólsvík. Umferðarteppan var ekki eins mikil frá HR og milli klukkan fjögur og sex en það var samt smá sulta á hluta af leiðinni.

Sauð nokkrar rauðar kartöflur og steikti eitt flak af þorskhnökkum í fjórum bitum upp úr krydduðu eggi og blöndu af byggmjöli og byggflögum. Báðir synirnir voru í mat. N1 sonurinn tilkynnti sig veikan þegar hann kom úr skólanum, var með höfuðverk, og hinn sonurinn var beðinn um að taka 10-18 vakt vegna forfalla hjá Kvikk í Öskjuhlíðinni. Venjulega á hann að vera á 15-20 vakt mánudaga til miðvikudaga en mér skilst að hann verði aftur á 10-18 vakt á morgun.

8.9.19

Sunnudagur

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun í gærmorgun. Byrjaði á kalda pottinum og var þar í uþb 4 mínútur áður en ég valdi braut 7 af 8 til að synda. Synti í tuttugu mínútur, 350m bringusund, ca 115m baksund og ca 35m skriðsund. Fór svo beint í kalda pottinn aftur og var þar í næstum fimm mínútur áður en ég endaði í sjópottinum þar sem ég spjallaði  dagóða stund við eina af Sigrúnunum sem ég hitti reglulega í sundi. Úr sjópottinum fór ég beint upp úr og gaf mér góðan tíma í hárþvott og smástund í kalda sturtu á eftir áður en ég dreif mig í fötin og fór beinustu leið á Kristu Quest. Var sest í stólinn hjá Nonna, hárgreiðslumeistara mínum til margra ára rétt fyrir klukkan tíu. Nú tekur lengri tíma að þurrka og greiða hárið en hann klippti ca sentimeter af endunum. Keypti mér sjampó um leið og ég gerði upp og endaði á því að óska honum "Gleðilegra jóla!" því það verður kominn febrúar áður en ég sest í stólinn hjá Nonna næst, nema eitthvað mjög sérstakt komi upp á. Er ákveðin í því að klippa mig ekki stutt aftur fyrr en framkvæmdum utanhúss verður lokið og þær framkvæmdir eru ekki einu sinni byrjaðar.

Næst lá leiðin beinustu leið vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Hún bauð mér upp á skál af hafragraut áður en við lásum eina blaðsíðu í Kon Tiki. Eftir lestur, spjall og tvo bolla af kaffi fór ég heim til að ganga frá sunddótinu mínu en brunaði svo beint austur á Hellu með léttan farangur. Ætlaði ekkert að gista að þessu sinni. Var komin austur fyrir klukkan tvö. Eftir kaffið upp úr klukkan hálffjögur, kveikti ég á sjónvarpinu til að horfa á landsleikinn. Prjónaði smávegis, amk langt fram í seinni hálfleik. Strax eftir leikinn fór ég að huga að kvöldmatargerð. Eftir kvöldmat athugaði ég með N1 strákinn sem var á vakt í Stórahjalla til klukkan tíu svo ég ákvað að stilla heimferð þannig að hann gæti orðið samferða heim. Lagði því nokkra kapla áður en ég þakkaði fyrir daginn, kvaddi pabba og lagði af stað í bæinn upp úr klukkan hálfníu.

6.9.19

Vinnuvikulok

N1/skólastrákurinn hefur verið með vaktir hjá N1 hér og þar alla vikuna. Í Mosfellsbæ eftir skóla á mánudaginn, í Borgartúni eftir skóla á þriðjudag og miðvikudag (18-22), í Stórahjalla í gær frá 18-22 og var svo mættur þar í morgun klukkan 7:30 og þá á 12 tíma vakt.

Áður en ég fór í sund eftir vinnu á þriðjudaginn var, kom ég við í Steinari&Waage í Kringlunni og fjárfesti í nýjum inniskóm fyrir vinnuna. Kvittunin sem ég sendi fjármáladeild fyrirtækisins var samþykkt af framkvæmdastjóranum mínum og fékk ég nýju skóna endurgreidda að fullu.

Á miðvikudaginn var fannst mér rigningin það mikil að ég var viss um að verða blaut í fæturnar ef ég arkaði af stað í vinnuna á strigaskónum. Mér fannst ég heldur ekki geta farið í gönguskónum því það var búið að ákveða að kortadeildin færi á kaffihús eftir hádegi. Ég ákvað að fara í ecco-spariskóm sem ég er búin að eiga og nota öðru hvoru í amk tvö-þrjú ár. Það var allt í lagi að labba á þeim í vinnuna en eftir vinnudaginn og kaffihúsið var hægri fóturinn orðinn svo bólginn að skórinn var eiginlega of þröngur og meiddi mig á tveimur stöðum. Hin þrjóska ég labbaði engu að síður lengri leiðina heim (3,3 km) og uppskar slæmar blððrur og rifnaði önnur þeirra þegar ég fór úr skónum heima. Ég hafði hugsað mér að skreppa í sjósund en ákvað að efna fyrst loforð sem ég hafði heitið mér í sumarfríinu og athuga hvort bíllinn kæmist strax að í alþrif. Tók samt til bæði sjósunds- og sunddótið og tók með mér. Brunaði svo upp að Stórhöfða 20 á Bónstofuna og viti menn; bíllinn minn komst næstum því strax að. Var eiginlega settur inn í röðina. Alþrifin voru sögð taka uþb tvær klukkustundir (ég var þar rétt fyrir klukkan fjögur). Var komin í strigaskóna og gekk ágætlega að labba upp á Bíldshöfða 20 þar sem Krónan, bakarí, apótek, Húsgagnahöllin og rúmfatalagerinn eru til húsa. Skoðaði mig aðeins um í síðastnefnda fyrirtækinu en fékk mér svo kaffibolla og hrökkbrauð á kaffihúsinu og sat þar í um klukkustund. Um hálfsex var ég aftur komin á Stórhöfða 20 og þurfti aðeins að bíða í um tíu mínútur áður en ég gerði upp og tók við hreinum og fínum, nýbónuðum bílnum. Á heimleiðinni skellti ég mér í Laugardalslaugina. Fór m.a. 3x í þann kalda og 2x í 42gráðu pottinn en synti svo aðeins 100m. Alltaf sveið í svæðinu þar sem sprungna blaðran var þegar ég steig út í vatnið.

Í gærmórgun fór ég á gönguskónum í vinnuna. Sára blaðran var ekkert að jafna sig, en labba skyldi ég í vinnuna og heim aftur. Frestaði laugarferð um ca 2 klst en var tilbúin með kvöldmat og skutlaði svo Davíð Steini á vakt. Á leiðinni í sundið kom ég við í Lyfju við Lágmúla og keypti mér "second skin" plástur. Í sundi hitti ég þrælskemmtilega og hressa konu sem hefur verið búsett í Danmörku um árabil en er stödd hér á landi til að aðstoða bróður sinn að flytja. Við hittumst í minni annarri ferð í kalda pottinn og hún var að prófa hann í annað eða þriðja sinn. Þetta var mjög hláturmild kona og hláturinn var afar smitandi.

Ég setti á mig plásturinn í morgun áður en ég arkaði af stað í vinnuna. Það var skárra að labba en plásturinn færðist samt aðeins til svo ég setti nýjan áður en ég labbaði aftur heim eftir vinnu.

2.9.19

Nýr mánuður og ný vinnuvika

Veðrið í gær var það gott að við pabbi freistuðumst til að fara í þriðju berjaferðina. Vorum alls ekki lengi en við tíndum rúmlega 11 kíló og mér skilst að pabbi hafi farið aftur eftir hádegi í dag og tínt um fjögur kíló í viðbót. Þar með er krækiberjauppskera þessa árs 51 kíló, rúmlega tveggja ára birgðir. Kvaddi pabba eftir kvöldmat upp úr klukkan átta. Þegar ég kom í bæinn var ekkert stæði í lengjunni minni en ég fann eitt í fyrir framan Drápuhlíð nr. 35, hinum megin við Lönguhlíðina.

Strákarnir kom heim nokkru á eftir mér. Þá var ég búin að horfa á "Veröld sem var" og íslenska myndin Eiðurinn var nýhafin. Ég ætlaði reyndar ekkert að horfa á þá mynd, en festist og fyrir vikið var klukkan farin að nálgast miðnætti þegar ég fór í háttinn. Stóðst samt ekki mátið að lesa nokkra kafla í: Lítil tilraun til betra lífs. Leynilega dagbók Hendriks Groen, 83 1/4 ára þýdd af Rögnu Sigurðardóttur. Byrjaði á þeirri bók um helgina og las m.a. smá brot úr sumum köflum fyrir pabba. Bráðfyndin og mjög mannleg bók.

Þrátt fyrir að hafa farið að sofa rétt eftir miðnættið vaknaði ég á undan vekjaraklukkunnu rétt fyrir hálfsjö í morgun. Var mætt í vinnu korter fyrir átta eftir að hafa labbað nákvæmlega 3km. Nú erum við eftir fjórar á deildinni minni. Tvær sinntu bókhaldi, mánaðamótum og reikningagerð en ég og sú fjórða sáum um daglega framleiðslu sem var lokið um hádegið. Rétt fyrir tvö fóru samstarfsmínir yfir í K2 á öryggisfund. Ég sat eftir með verkefni til klukkan rúmlega tvö en mátti svo fara heim. Labbaði aðeins lengri leið heim eða 3,3km og var komin heim um þrjú. Var komin í sjóinn rétt fyrir fjögur. Fjaran var svo mikið að mér fannst ég hlyti að vera komin yfir í Kópavog áður en það var orðið nógu djúpt til að synda. Svamlaði um í næstum því tuttugu mínútur og flatmagaði í heita pottinum í aðrar tuttugu.

Kom við í Krónunni við Granda. Eftir verslunarleiðangurinn stoppaði ég stuttlega í Kvikk þar sem Oddur var á vakt og bauð mér upp á kaffibolla. Hann er að vinna frá þrjú til átta í dag og næstu tvo daga. Hann var að vinna frá átta til fjögur um helgina og átti síðustu 15-20 vaktina sl. föstudag. Davíð Steinn var í skólanum í dag en mætti svo á vakt kl fimm hjá N1 í Mosfellsbæ. Hans vakt lýkur klukkan hálftólf og hann sem á að mæta í skólann rúmlega átta í fyrramálið.

31.8.19

Út úr bænum yfir helgina

Klukkan var alveg að verða tvö þegar ég ók út úr bænum í dag. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta og þurfti að byrja á því að skila inn sundkortinu mínu til að fá afhent nýtt því það er verið að breyta um kerfi. Sundrútínan tók rúmlega einn og hálfan tíma. Kom við í hraðbanka áður en ég fór heim með sunddótið mitt. Var tilbúin að öðru leyti með "yfirnóttgistidótið" mitt að ég hélt. Var mætt til esperanto vinkonu minnar áður en klukkan varð hálfellefu og stoppaði hjá henni til tólf. Við fórum ekki í göngutúr að þessu sinni en lásum ma 1 blaðsíðu í Kon-Tiki. Eigum aðeins örfáar blaðsíður eftir enda búnar að vera að lesa og lesa eina-fjórar blaðsíður síðustu tvö árin. Það gæti farið svo að við byrjuðum á henni strax aftur þegar við verðum búnar með fyrstu yfirferð.

Fyllti á bílinn hjá AO í Öskjuhlíð og mér sýnist sem einhverra hluta vegna sé ég enn að fá 20 kr. afslátt, en ég valdi mér tvær ferðavikur frá 31. júlí sl. svo ég veit ekki hvaða lán er yfir mér. Kom líka við hjá Oddi í vinnunna til hans aðeins til að kasta á hann kveðju áður en ég færi austur. Kom stuttlega við heima til að skila esperanto dótinu heim og ná mér í frystipoka. Var mætt til Petru og Jóns upp úr klukkan hálfeitt og var ég drifin inn í smá kaffi og bláberjasaftsmakk áður en viðskiptin með þorskhnakkana voru gerð.

Gerði einnig pissu og kaffistopp í Fossheiðinni á leiðinni á Hellu. Þegar ég kom út fyrir Selfoss ákvað ég að telja alla bíla sem ég mætti að Hellu. Mætti 100. bílnum á Þjórsárbrú og mætti 81 í viðbót áður en ég beygði inn í Helluþorp.

30.8.19

Helgi og mánaðamót

Fyrstu heilu vinnuvikunni lokið eftir gott sumarfrí. Seinni partinn á miðvikudaginn var ég komin í Nauthólsvík rétt upp úr hálffimm. Svamlaði í sjónum í um 15 mínútur, hitti nokkrar samstarfskonur mínar úr K2 í RB í heita pottinum á eftir. Þær fóru fljótlega í sjóinn og syntu mun lengra en ég geri, flestar af þeim. Þegar ég kom heim aftur dreif ég í að búa til kjötbollur.

Oddur Smári skutlaði bróður sínum í orkuhúsið við Suðurlandsbraut upp úr hálftvö á miðvikudaginn þar sem Davíð Steinn fór í smá aðgerð á annarri stóru tánni. Hann kom heim með eitt spor og svaka umbúðir um tánna og vinsamlegast beðinn um að taka því rólega um kvöldið og næstu daga. Saumurinn verður tekinn eftir hálfan mánuð en líklega þarf að skipta um umbúðir á næstu dögum.

Í gær var ég búin að taka að mér að sitja yfir, vegna yfirferðar á framleiðsluvélinni. Ég átti því ekki að mæta fyrr en klukkan hálfellefu. Vekjarinn vakti mig rétt fyrir sex en ég ákvað að hvíla mig aðeins lengur. Hafði hugsað mér að mæta í sund við opnun klukkan hálfsjö en mætti hálftíma síðar. Gleymdi sundgleraugunum heima (í sjósundsdótinu) en lét mig hafa það og náði að synda í ca tuttugu mínútur, fyrstu 100 metrarnir voru erfiðastir. Kom heim um hálfníu, hellti mér upp á kaffi, bjó til hafragraut og slakaði svo á til klukkan að verða tíu. Þá labbaði ég af stað í vinnuna, lengri leiðina var eiginlega fimm mínútum of sein þrátt fyrir að hafa labbað extra hratt. Yfirsetan gekk vel og reyndar var henni lokið aðeins fyrr. Reiknaði með að vinna til klukkan fimm en var lögð af stað heim tíu mínútum fyrr. Horfði á landsleikinn í opinni dagskrá í stofunni heima og var svo heppin að Davíð Steinn tók að sér að sjá um kvöldmatinn.

Vinnudagurinn í dag var nýttur alveg frá klukkan 8 til klukkan að verða fjögur. Við vorum fjórar og bæði mánaðamót og endurnýjun í gangi. Heilsaði aðeins upp á Lílju mína á torginu áður en ég labbaði heim.

27.8.19

Plokkfiskur með gulum og grænum baunum

Sem betur fer fór ég í regnkápunni í vinnuna í morgun. Fyrri helminginn af leiðinni var reyndar aðeins úði en sá úði breyttist nánast í hellidembu um hálfátta. Þar sem var yfirferð á vélinni eftir hádegi og ég ekki að sitja yfir var ég laus úr vinnu um hálfþrjú í dag. Þá var hætt að rigna og ég valdi að ganga í gegnum Hljómskálagarðinn, leið sem er rétt rúmlega 3km.

Hellti upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér hressingu með og hringdi í pabba áður en ég dreif mig í sund. Gaf mér góðan tíma í sundrútínuna mína. Fór m.a. 3x3 mínútur í þann kalda, synti 500m og slakaði aðeins á í saltpottinum.

Kom heim upp úr klukkan sex og þá blandaði ég saman tveimur afgöngum og bjó til eins konar plokkfisk í matinn.

Bókin á náttborðinu þessa dagana er af safninu og heitir radíó Selfoss eftir Sölva Björn Sigurðsson. Skemmtileg aflestrar en mér finnst ég vera búin að vera svolítið lengi með hana.

26.8.19

14.698 skref

S-health forritið er búið að skrá á mig 5 göngutúra í dag, alls 7,42km. Byrjaði að telja skrefin fyrir klukkan sjö í morgun en fyrsti göngutúrinn var skráður sjálkrafa frá kl. 07:11, 2,72 km gengnir í vinnuna á 33 mínútum svo ég var mætt korter fyrir átta. Náðum að klára dagleg verk sem og mánaðarlega endurnýjun áður en klukkan varð þrjú. Fyrir vikið fengum við að fara aðeins fyrr heim. Á heimleiðinni skráði forritið á mig tvo göngutúra, fyrst 1,32km í 16 mínútur og svo 1,68 í 21 mínútur. Kom heim korter fyrir fjögur og byrjaði strax á því að hella upp á könnuna, ca 3 bolla. Tilvonandi rafeindavirkinn var kominn heim úr skólanum en fór fljótlega á vinnuvakt hjá N1 í Mosfellsbæ. Hinn sonurinn var ekki að vinna í dag.

Ég var mætt í Nauthólsvík aðeins fyrir fimm. Skyldi símann eftir í skottinu svo hann taldi ekki skrefin næsta rúma hálftímann. Buslaði um í sjónum í uþb tíu mínútur og fór svo í gufu. Nennti ekki að troða mér í heita pottinn en það var óvenju margt samankomið þar enda byrjaði víst "gong-athöfn" um klukkan fimm. Á heimleiðinni kom ég við í fiskbúð Fúsa og fékk mér ýsu í soðið. Strax eftir matinn dreif ég mig á Valsvöllinn til að fylgjast með leik Vals og Stjörnunnar í Pepsídeild karla. Oddur Smári sá um að ganga frá eftir matinn. Skrautlegur leikurinn endaði með jafntefli 2:2.

25.8.19

Um ævintýri gærdagsins og jafnvel meira til

Var mætt fyrir utan aðalinnganginn í Laugardalslaugina rétt áður en opnaði. Byrjaði á að skella mér í þann kalda eins og oftast áður og var ofan í þegar hitastig pottsins var mælt, 5,9°C. Synti 500m áður en ég  fór aftur í kalda pottinn. Eyddi restinni af tímanum sem ég gaf mér í saltpottinum á spjalli við eina sem er 25 árum eldri en ég en hefur orðið ágætis vinkona mín með tímanum. Eftir sundið skrapp ég heim til að ganga frá sunddótinu en var komin upp í Breiðholt að sækja bekkjarsystur mína úr kennó rétt fyrir klukkan tíu. Þáði hjá henni kaffibolla og skonsu áður en við brunuðum austur á Hellu. Fengum okkur hádegishressingu og smá meira kaffi áður en við lögðum af stað í berjaleiðangur í bílnum hans pabba með hann sem bíl- og fararstjóra. Keyrðum ekki langt fyrsta spölinn, á sandana rétt austan við Hellu, hvar við fundum ágætis krækiber. Tíndum þar öll þrjú í góðan hálftíma áður en pabbi ákvað að fara í "aðal berjalandið sitt". Þar voru enn fleiri og heldur stærri ber en fljótlega fór að rigna svo við þoldum ekki við nema svona tæpa klukkustund. Á þessum tíma náði bekkjarsystir mín þó að fylla öll ílátin sem hún var með og við pabbi tíndum líklega rúmlega 10 kíló samanlagt. Komum aftur á Hellu rétt upp úr fjögur og fengum okkur kaffihressingu. Klukkan að byrja að ganga sjö vatt ég mér í að útbúa kvöldmat handa okkur öllum þremur: gufusoðið blómkál, lauk og epli, soðið perlubygg og steikti með þessu flak (í þremur bitum) af marineraðiri bleikju úr fiskbúðinni á Hellu. Borðuðum þetta með bestu lyst á milli fréttatímanna. Horfðum á sjónvarpfréttir á RÚV áður en við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum pabba.

Þegar við vorum að nálgast Selfoss spurði hún mig hvort ég væri nokkuð að flýta mér, hvort ég væri til í að renna með hana í heimsókn til þýskrar konum um áttrætt sem hafði kennt með henni í Tungunum. Sú reyndist vera heima, en tiltölulega nýlega komin heim úr sínum ævintýrum. Hún bauð okkur inn og við stoppuðum hjá henni í góðan klukkutíma. Skilaði Valbjörgu heim að dyrum upp úr hálfellefu í gærkvöldi.

Fór ekki að sofa fyrr en um eitt í nótt en var engu að síður byrjuð að rumska um átta leytið í morgun. Mætti samt ekki í laugina fyrr en um tíu. Kom við í Krónunni á leið heim úr sundi, fékk annan soninn til að ganga frá vörunum á meðan ég hellti mér upp á gott kaffi.

23.8.19

Loksins komin helgi

Mikið er ég ánægð með mig að hafa skipulegt fyrstu vinnudaga eftir sumarfrí þannig að það yrðu aðeins tveir virkir dagar fram að helgi. Gærdagurinn og vinnudagurinn í dag voru svo sem ekkert erfiðir í sjálfu sér. Í dag vann ég í bókhaldinu, ekkert á vélinni og þrátt fyrir að það sé endurnýjuin í gangi fékk tillaga mín um að hætta aðeins fyrr mjög góðan hljómgrunn. Það er nú einu sinni föstudagur. Tókum enga síðdegispásu frekar en í gær en hættum og gengum frá deildinni um þrjú.

Skrapp aftur á torgið til Lilju og stoppaði hjá henni mun lengur heldur en í gær, klukkan var farin að nálgast fjögur þegar ég kvaddi og labbaði heim í gegnum Hljómskálagarðinn, tæplega 3km á ca 38 mínútum. Báðir synirnir eru að vinna, annar til klukkan átta og hinn til klukkan tíu svo það er alveg óþarfi að elda nokkuð í kvöld. Prjónar og bók/bækur á kantinum en stefnan er þó að fara frekar snemma í háttinn, morgundagurinn gæti orðið í lengra lagi.

22.8.19

Byrjuð aftur í sjósundinu

Skrýtið að fjögurra og hálfsvikna sumarfrí sé liðið. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni í morgun. Það tók mig næstum hálftíma að sinna morgunrútínunni og taka mig til fyrir daginn en klukkan var ekki orðin korter yfir sjö þegar ég labbaði af stað í vinnuna. Vinnuplanið mitt yfir daginn var sett hárrétt upp, þ.e. ég þurfti ekki að fara á framleiðsluvélina fyrr en eftir morgunkaffi og gat því róleg notað tímann til að setja mig inn í ýmislegt sem og dútlað við hluta af því sem fram fer í skrifstofurýminu. Vorum öll mætt en sumarstúlkan hætt þannig fyrir hádegi voru þrír frammi og tveir inni á vél. Einn af þessum þremur sinnti bókhaldinu í dag en hinir tveir sem byrjuðu frammi fóru inn á vél eftir morgunkaffi. Ég var semsagt önnur af þessum tveimur og upp úr klukkan tíu fór ég á móttökuendann á vélinni,

Slepptum seinni parts kaffipásunni og hættum örlítið fyrr í staðinn. Kom aðeins við í Lækjargötunni og hitti á Lilju en ég stoppaði ekki lengi, ætla frekar að kíkja aftur á morgun. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég kom heim. Hellti upp á 3 bolla af kaffi (fyrstu og einu bollar dagsins) og fékk mér smá hressingu. Rúmlega klukkustund seinna dreif ég mig loksins í Nauthólsvíkina og keypti mér armband sem gildir í sjóinn til og með 31.12 n.k. á kr. 6700. Þá aura mun ég fá endurgreidda sem hluta af íþróttastyrk RB. Fór aðeins einu sinni í sjóinn en svamlaði um í uþb tíu mínútur. Á heimleiðinni kom ég aðeins við í Kvikk í Öskjuhlíðinni þar sem Oddur Smári var á vakt. Sníkti þó ekki hjá honum kaffi í þetta sinn.

21.8.19

Síðasti frídagurinn í bili

Þegar pabbi var búinn að ganga frá hreinsuðum krækiberjunum rétt upp úr hádegisfréttum skipti hann um föt og ég skrapp með honum í fiskbúðina og Kjarval. Keyptum tvö silungsflök á fyrrnefnda staðnum og nokkra hluti í búðinni. Ég var ákveðin að fara ekki í bæinn fyrr en eftir kvöldmat og var pabbi alveg sáttur við það en sagði jafnframt að sér væri sama þótt kvöldmaturinn yrði í fyrra fallinu miðað við hans rútínu. Annars fór dagurinn fram að kaffi og kvöldmat í lestur, kaplalagnir og tölvu. Maturinn var tilbúinn akkúrat þegar fréttir á Stöð 2 voru búnar og strax á eftir borðhaldinu tíndi ég saman dótið, þakkaði fyrir mig og kvaddi.

Var vöknuð á svipuðum tíma og í gærmorgun en fór ekki út úr húsi fyrr en klukkan var orðin sjö. Synti sundrútínunni í laugardalnum milli klukkan hálfátta og níu. Kom við á tveimur stöðum áður en ég skrapp heim. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Þegar við vorum búnar að lesa eina blaðsíðu af Kon-Tiki skemmtum við okkur við að reyna að ná góðum myndum að hársíddinni okkar. Á leiðinni heim kom ég við á bókasafninu og skilaði 5 bókum. Þá voru 5 bækur eftir ólesnar heima. Auðvitað voru bók 1 og 2 af 4 í Napólí-sögum á lausu svo ég stóðst ekki mátið að taka þær með mér heim, en bara þær svo ég er nú með 7 bækur að láni.

20.8.19

Í morgunsund með pabba

Næstsíðasti sumarfrísdagurinn er runninn upp. Þegar við komum heim úr berjamónum í gær sagðist pabbi ekki ætla gera neitt meira þann daginn. Upp úr klukkan níu í gærkvöldi kom einn "Hellingur" til að spyrja hvort pabbi væri búinn að setja upp berjahreinsivélina, sem hann og var. Sá sem spurði hafði líka verið í berjamó í gær, líklega eins og margir aðrir, en hann var þó ekki með berin með sér. Pabbi bauðst til að hjálpa honum að hreinsa strax í gærkvöldi og það varð úr að Hellingurinn fór og sótti berin. Ég fór ekkert út til að fylgjast með en pabbi kom inn klukkan langt gengin í ellefu og sagði að þetta hefðu verið 37 kíló af krækiberjum. Við tíndum ekki alveg svo mikið en erum að veðja um hvursu nálægt 20 kílóum við náðum að tína.

Ég var ákveðin í að skella mér í sund með pabba í morgun og vissi að ég þyrfti að vera komin fram rétt upp úr klukkan sex. Hafði stillt vekjaraklukkuna á 5:55 er var vöknuð amk korteri fyrr. Þegar ég kom fram fimm mínútum yfir heila tímann var pabbi sestur við eldhúsborðið og var að leggja kapal. Ég náði líka að leggja tvo kapla áður en við renndum af stað. Vorum mætt fyrir framan laug um 6:20 og þurftum að bíða í um fimm mínútur áður en einhver kom að opna enda er opnunartíminn auglýstur frá kl. 6:30. Ekki var búið að láta renna í kalda karið svo við feðginin byrjuðum á því að synda. Ég synti 550 metra á 22 mínútum, þar af 150m á bakinu og 100m skriðsund. Rétt fyrir klukkan sjö fór ég svo fyrstu ferðina af þremur í kalda karið sem var 7,5°C.

19.8.19

Krökkt af krækiberjum

Eftir að hafa gert tilraun til þess að stoppa tímann með því að gera mest lítið á föstudaginn og laugardaginn (reyndar "datt" ég inn í bóklestur svo...já hm) skrapp í sund upp úr klukkan hálftíu í gærmorgun. Kom við í Öskjuhliðinni eftir sundið, eftir að hafa fyllt á bílinn hjá Atlantsolíu og athugað svo með loftþrýstinginn í dekkjunum. Fékk mér kaffi hjá þeim syninum sem vinnur hjá Kvikk. Fór heim og fékk mér smá snarl áður en ég tók mig saman, vakti N1 soninn til að kveðja og lagði af stað austur. Aldrei þessu vant kom ég við í Löngumýrinni. Jóna Mæja var úti að sýsla í garðinu en við fórum inn rétt strax og Reynir frændi kom í miðjum kaffitímanum. Var komin á Hellu rétt fyrir klukkan fimm og tók strax út blokk af þorski til að hafa í kvöldmatinn.

Tók af rúminu í morgun, setti í þvottavél og hengdi út á snúru tveimur tímum seinna. Smurði nesti, (í hádeginu) flatkökusamlokur með sultu og osti og einnig nokkrar með smjöri og hangiketi og setti vatn í brúsa. Pabbi fann til berjatínur og fötur og svo lögðum við í hann um klukkan eitt. Keyrðum í ca tuttugu mínútur áður en við stoppuðum fyrst til að athuga með ber. Og það voru ber. Tíndum til klukkan langt gengin í þrjú. Þá fengum við okkur af nestinu og svo færði pabbi bílinn aðeins innar, kannski svona 3 km. Þar voru líka ber og fullt af þeim, mörg hver alveg ágætlega stór. Tíndum þar til klukkan var alveg að verða fimm og  vorum þá búin að fylla föturnar aftur. Pabbi ætlar að hreinsa og vigta afraksturinn á morgun. Við höldum að þetta sé hátt í tuttugu kíló, eða ársskammturinn eða svo.


16.8.19

Ferð á bókasafnið

Á miðvikudagskvöldið hafði ég boðið N1 syninum að skutla honum á vinnuvakt við Stórahjalla í gærmorgun. Opna átti stöðina klukkan hálfátta en hann stefndi að því að vera mættur upp úr klukkan sjö til að undirbúa sig. Þetta hentaði mér mjög vel því ég fór auðvitað beint í sund eftir skutlið og var komin ofan í kalda pottinn í Laugardalslauginni rétt upp úr klukkan hálfátta. Gaf mér góðan tíma í alla sundrútínu og var klukkan að verða tíu þegar ég kom heim. Þá hitaði ég mér kaffi. Tæpri klukkustund síðar var ég mætt á Klambratúnið á Qi gong æfingu.

Upp úr klukkan tvö ákvað ég að fara í innkaupaleiðangur og þrátt fyrir að hafa enn viku og tvær ólesnar bækur af átta af safninu tók ég þessar lesnu með mér og kom fyrst við í Kringlusafninu til að skila þeim. Þær tvær ólesnu eru 3. og 4. bókin í samnefndum Napólísögum. Er búin að sjá þáttaröðina eftir fyrstu bókinni í RÚV-frelsi en ekki búin að lesa neina af bókunum svo ég var ómeðvitað að athuga hvort nr 1 og 2 væru lausar á viðkomandi safni. Þær voru það ekki og ég ákvað að ég skyldi frekar athuga með þær seinna heldur en að fletta því upp hvort og þá hvar eintök væru á lausu. En auðvitað fór ég ekki tómhent af safninu, átta bækur "eltu mig", takk fyrir. Svo núna er ég með tæplega níu ólesnar bækur af safninu fyrir utan fullt að bókum sem ég þarf ekki að fara eftir neinum skilafresti svo þær lenda því miður aðeins aftar í lesröðina. Ég er semsagt langt komin með að lesa; Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi eftir Elenu Ferrante (dulnefni). Sú bók heldur mér svo föstum tökum að ég er ekki búin að fara út í dag.

Eftir bókasafnsferðina fór ég í Krónuna við Granda og á leiðinni heim kíktí ég stuttlega á Brynju vinkonu. Höfðum aðeins hálftíma áður en hún þurfti að fara að sækja tvíburadætur sínar á reiðnámskeið. En hálftími er nóg fyrir einn kaffibolla og smá spjall, sérstaklega þegar verið er að leggja drög að öðrum hittingi fljótlega.