Tíminn heldur áfram að líða á ofurhraða, sama hvort maður er slakur eða stressaður. Ég var komin austur á Hellu um hálfsex á Þorláksmessu. Síðustu ca 15 km var farið að loga merkið í mælaborðinu um að það væri ójafn þrýstingur á dekkjunum. Það merki hefur ekki komið upp í mjög langan tíma. Staldraði við hjá pumpunni við Olís en hún var eitthvað biluð eða lét amk ekki að minni stjórn.
Við pabbi vorum komin á Kanslarann um sex, hann í annað sinn þennan dag. Ég fékk mér tvisvar á diskinn af skötunni, seinna skiptið til að fá mér meira af sterkari gerðinni. Á aðfangadagsmorgun skruppum við pabbi á pósthúsið. Pabbi átti þar sendingu frá Bríeti en hún hafði bakað hálfmána handa afa sínum. Við feðginin komum líka við í búðinni því ég taldi mig þurfa að fá grænar baunir með jólamatnum. Þegar við komum úr þessum leiðangri sýndi pabbi mér hvernig maður getur notað tæki sem fylgir með bílnum til að pumpa í dekkin. Við pumpuðum í öll dekkin en reyndar ekki nógu mikið eins og seinna kom í ljós, merkið var enn í mælaborðinu þegar ég lagði af stað í bæinn upp úr hádeginu á annan í jólum.
Eldaði lambahrygg handa okkur pabba á aðfangadag sem við borðuðum með öllu tilheyrandi hlustandi á jólamessuna á RÚV. Þrátt fyrir að vera bara tvö voru nokkuð margir pakkar, flestir til mín. Ég fékk m.a. 3 bækur, vöfflujárn, einstakan bolla, flík, reykelsi og gjafabréf með icelandair. Pabbi var ánægður með krossgátubók ársins 2020, tuskurnar og sundhetturnar. Jóladagurinn einkenndist af miklum rólegheitum, lestri og smá prjónaskap. Pabbi hafði soðið hangiket stuttu fyrir jól svo það þurfti aðeins að sjóða kartöflur og útbúa jafning.
Annars fór ég á bókasafnið helgina fyrir jól, skilaði fimm bókum af átta og tók fjórar með mér heim. Er búin að lesa þessar þrjár og eina af hinum. Mæli sérstaklega með eftirfarandi bókum: Gríma eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Þú og ég og allt hitt eftir Catherine Isaac.
Á leiðinni í bæinn á annan í jólum kom ég við hjá Olís vestan við Ölfusá til að pumpa í dekkin á bílnum og fyrst þá losnaði ég við merkið úr mælaborðinu. Var mætt í vinnu korter fyrir átta á föstudaginn var. Kaldavatnslaust var í Seðlabankanum en við vorum fjórar sem stóðum vaktina í kortadeildinni, framleiddum dagsskammtinn og fengum svo að fara heim rétt upp úr hádegi. Þetta var minn síðasta vinnudagur á þessu ári því ég ákvað að taka mér orlofsdag á morgun 30. og er ekki ein af þeim fáu sem þarf að vinna á Gamlársdag.