31.12.18

Gamlársdagur

Enn lifa rúmlega átta og hálfur tími eftir af þessu herrans ári 2018. Undirrituð er komin austur á Hellu þar sem hún ætlar að eyða áramótunum með pabba sínum. Heill mánuður síðan eitthvað var skráð niður á þessum vettvangi og á þessum mánuði hefur ýmislegt verið brallað.

Skrapp nokkrar ferðir hingað en sleppti helginni sem aðventukvöldið var sem og helginni rétt fyrir jól. Hins vegar kíkti ég við í dagsferð þann 15. desember en var komin heim aftur um kvöldið því bæði vildi ég  komast í sund á sunnudagsmorgninum og um fimm leytið þann dag sótti Brynja mig og við fengum okkur að borða á Nings áður en við fórum að sjá "Kvenfólk" með Hundi í óskilum í Borgarleikhúsinu. Afar skemmtleg uppsetning og þar að auki hitti ég þó nokkra fyrir og eftir sýningu sem annað hvort voru á sömu sýningu eða á Ellý.

Akkúrat viku eftir leikhúsferðina sótti Brynja mig aftur um klukkan hálfsex á Þorláksmessu og þá lá leiðin á Pottinn og Pönnuna í skötuhlaðborð þriðja árið í röð. Gáfum okkur góða tvo tíma í át og spjall áður en Brynja skilaði mér aftur heim.

Á aðfangadagsmorgun byrjaði ég á því að skreppa í sund rétt upp úr klukkan átta. Synir mínir vöknuðu upp úr tólf og ekkert mjög löngu síðar vorum við búin að ferma bílinn. Einkabílstjórinn sá um aksturinn og við gerðum stutt stopp í Fossheiðinni, fengum kaffi, knús og með því þar.

Jólin héldum við á Hellu með pabba og Helgu systur og hluta af hennar fjölskyldu. Aðeins kærustuparið var ekki, þar sem þau voru hér í fyrra voru þau hjá mömmu hans og fjölskyldu í ár.

Á annan í jólum skruppum við pabbi í messu í Keldnakirkju um tvö. Kvöddum norðanfólkið áður en tvíburarnir biðu eftir okkur á Hellu. Við mæðgin fengum okkur kaffi áður en við kvöddum og héldum heim á leið.

26.11.18

Síðustu dagar næst síðasta mánaðar ársins

Sem fyrr æðir tíminn áfram og ég leyfi dögunum að líða án þess að punkta niður eitthvað um það sem er að gerast. Ef ég segi gróflega aðeins frá því helsta og byrja á því sem er nýlega búið að vera í gangi þá skrapp ég austur rétt upp úr hádegi í gær og stoppaði fram yfir kvöldmat. Hafði reyndar ætlað mér að fara á laugardaginn og gista eina nótt en aðfaranótt laugardagsins fékk ég gubbupest sem varð til þess að ég fór ekkert á laugardeginu. Svaf fram á dag og tók því svo rólega, aðallega með bók í hönd.

Upp úr klukkan fimm á fimmtudaginn var kom N1 strákurinn minn með mér á dekkjaverkstæðið í Fellsmúla. Þar keypti ég ný nagladekk og lét setja undir og notaði um og yfir 20% afslátt sonarins af vörum og vinnu. Hjólbarðarnir sem voru undir bílnum voru settir aftur í aftursætin. Þegar ég kom heim færði ég tvo af þeim í skottið. Pabbi tók svo við þeim um leið og ég kom austur í gær og ég hjálpaði honum að koma þeim fyrir í einu horninu í bílskúrnum hans. Áður en við fórum inn athugaði pabbi fyrir mig hvort rærnar á nagladekkjunum væru ekki örugglega vel fastar.

Ég fór austur og gisti eina nótt helgina á undan nýliðinni helgi. Var ekki með neitt sérstakt verkefni í gangi líkt og helgina þar á undan en þá útbjó ég 16 jólakort í viðbót við þau fimm sem ég hafði verið búin að búa til. Reyndar hafði ég skrifblokk með mér austur ef ég fengi andann yfir mig til að skrifa eitthvað af þeim þremur jólabréfum sem ég sendi með þeim þremur jólakortum sem fara út fyrir landsteinana. Andinn kom ekki yfir mig.

Á miðvikudagskvöldið var skellti ég í aðra uppáhaldssmákökusortina og að þessu sinni byrjaði ég að sortinni sem er uppáhaldið hans Davíð Steins (eggjahvítu-kornflekskökur með suðusúkkulaði og kókosmjöli). Hin uppáhaldssortin verður líklega ekki bökuð fyrr en á miðvikudagskvöldið kemur, lakkrístoppar.

Fyrir klukkutíma fjárfesti ég í jólagjöfinni minni á heimkaup.is, ný þvottavél sem strákarnir ætla að taka þátt í að gefa mér. Ég fæ gripinn eftir klukkan fimm á miðvikudaginn kemur og sú gamla verður fjarlægð í staðinn.

Að lokum aðeins um tvær af þeim fimm bókum sem ég er með af safninu. Þetta eru ævisögur sem eiga það sameiginlegt að vera um transkonur og nöfnum, konur sem fæddust í karllíkama og eru búnar fara í kynleiðréttingu: Hún er pabbi minn skráð af Bryndísi Júlíusdóttur og Anna: eins og ég er skráð af Guðríði Haraldsdóttur. Mjög vel skrifaðar og forvitnilegar, sérstaklega lýsingar á uppvexti Önnu Kristjánsdóttur.

11.11.18

Tíminn er ekkert að láta bíða eftir sér

Hef ekki verið í neinu skrifstuði undanfarið en það hafa runnið upp nokkur augnablik sem ég er næstum því búin að setjast niður við tölvu, skrá mig inn og punkta eitthvað niður. Núna er ég stödd á Hellu hjá pabba. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni hingað í gær. Fljótlega eftir að ég kom spurði ég pabba hvort ég ætti að "skella í" pönnsur. Honum leist vel á þá hugmynd en bað mig um að nota tilbúið duft í flösku sem hann hafði keypt um daginn. Hann var búinn að kaupa og prófa vöffluduft sjálfur og líkað vel. Pönnsusteikingin gekk ekki alveg eins vel og þegar ég hræri í frá grunni, en það urðu samt til pönnukökur sem við höfðum með í kaffitímanum.

Eftir vinnu á föstudaginn var fór ég með strætó alla leið upp í Kringlu. Fór fyrst á bókasafnið því skírteinið var útrunnið og ég ætlaði aðeins að endurnýja það því ég er enn með fimm bækur heima. Núna eru þær reyndar sex því ég stóðst ekki mátið og greip með mér eina nýja á 14 daga skilafresti. Þriðja og síðasta bókin í þríleiknum Valdamiklir menn: Þriðja morðið eftir Jón Pálsson. Aðal erindið í Kringluna var þó að fara og kaupa mér nýja sundhettu. Ég fann ekki speedo sundhettu fyrir sítt hár en keypti eina sem er merkt Arena og svo aðra til sem ég er reyndar ekki viss um að sé fyrir sítt hár. Prófaði aðra þeirra í sundi í gærmorgun og hún virkaði. Fannst reyndar eins og hún væri að renna af þegar ég setti hana yfir þurrt hárið en hún hélst á þegar ég setti hana yfir rakt hárið.

Um hálffimm á fimmtudaginn var hitti ég Helgu og Petru á kaffihúsi Jóa Fel í Holtagörðum. Flottur staður. Við þrjár vorum ekki búnar að hittast síðan um miðjan september. Tíminn leið hratt en kaffihúsið lokar klukkan sex. Áður en við kvöddumst ákváðum við að skreppa saman í bíó í næstu viku og sjá myndina um Freddy Mercury.

Lánaði Davíð Steini strætókortið á föstudaginn og sagði að hann mætti hafa það um helgina. Hann fór í afleysingu í N1 í Mosfellsbæk milli klukkan sex og ellefu. Sjálf fékk ég mér göngutúr niður að Ingólfsstræti á Lífspekifélagsfyrirlestur.

28.10.18

Á Hellu yfir nótt

Það er jazzmessa í kirkjunni minni núna á eftir. Ég er hins vegar stödd á Hellu. Ætla ekki að vera fram á kvöld en er þó ekki að flýta mér í bæinn til að ná í messu. Ég var komin hingað austur upp úr klukkan tvö í gær eftir að hafa farið í tveggja tíma sundferð, esperanto hitting og smá Krónuferð í gærmorgun áður en ég kom við aftur heima að ganga frá "morgundótinu" og taka mig til fyrir austurferð. Var svo sniðug að taka með mér hluta af jólakortagerðardótinu mínu og eftir að við pabbi vorum búin að drekka kaffi upp úr klukkan hálffjögur lagði ég undir mig eldhúsborðið í tæpa tvo tíma. Skar niður nokkrar arkir í nokkrum litum þannig að ég var komin með rúmlega þrjátíu stk. grunnkort. Á til helling af niðurklipptum jólamyndum, skapalón, liti og fleira og áður en ég tók saman var ég búin að útbúa 5 jólakort. Á kannski eftir að klippa þau örlítið meira til og einnig setja hvít blöð inn í kortin sem ekki eru hvít fyrir. Ég er mjög ánægð með að vera loksins komin í gang og veit að ég þarf ekki að setjast niður nema 2-3 í viðbót til að klára kortin áður en ég fer í að skrifa þau. Ætti að vera tilbúin til að byrja jólakortaskrif í desemberbyrjun. Sem fyrr mun ég skrifa 3 bréf sem fara með jólakortunum sem ég sendi til Danmerkur (2) og Manchester (1).

Ég er búin að lesa skammtímalánsbækurnar og næstum því tvær bækur til. Sú sem ég er alveg að ljúka við heitir Hin svarta útsending eftir kött grá pje/Atla Sigþórsson. Nokkuð skemmtileg bók, margir misstuttir textar á 100 blaðsíðum. Allir textar heita eitthvað og amk í einu tilvikinu er titill textans lengri en sjálfur textinn.

21.10.18

Næturgisting á Hellu

Ég var komin á Hellu fyrir hálffjögur í gær eftir að hafa gert smá stopp í Fossheiðinni á leiðinni austur. Hafði mætt samviskusamlega í sundið upp úr klukkan átta, synt í hálftíma, farið 3 í kalda pottinn, eina ferð í saltpottinn, eina ferð í gufuna og að lokum gefið mér góðan tíma til að sápuþvo á mér hárið og blása á leiðinni upp úr. Úr sundlauginni lá leiðin beint vestur í bæ í espernato hitting til Inger. Áður en ég kom svo við heima til að ganga frá sunddótinu mínu og sækja það sem ég ætlaði að hafa með mér, fyllti ég bílinn á Atlantsolíustoðinni við Öskjuhlíð.

Pabbi var að búa til vöfflur þegar ég mætti á svæðið í gær. Við ákváðum að hafa bleikju í kvöldmatinn og ég spurði í leiðinni hvort ég mætti ekki gera atlögu að innihaldi hvítvínskassans í aukaísskápnum um kvöldið. Það leyfi var auðfengið og náði ég að hálffylla og drekka þrjú glös af víni áður en það kláraðist. Það var líka alveg nóg. Pabbi fékk sér rautt í glas og við spjölluðum nokkuð langt fram á kvöld.

Annars hef ég lokið við að lesa aðra af skammtímalánsbókunum; Sagnaseiður eftir Sally Magnusson þýdd af Urði Snædal og mæli ég alveg 100% með þeirri bók.

19.10.18

Á leið í hús Lífspekifélagsins í kvöld

Um átta verð ég mætt á fyrsta fund/fyrirlestur í vetur. Sl. föstudag var reyndar kynning og hluti af starfsseminni hófst í síðasta mánuði. Held að þetta sé að byrja með seinna móti en áður en ég er þó ekki viss. Gerðist félagi í fyrra og hef aðeins verið viðloðandi þetta félga síðan í hitti fyrra.

 er ég búin að skila formlega af mér gjaldkerastarfi KÓSÍ. Við erum hætt sem kór en höldum hópnum og vinskapnum að sjálfsögðu áfram. Við formaðurinn ákváðum um daginn að afhenda nýlega stofnuðum óháða kórnum kennitöluna og reikninginn með smá upphæð inn á sem gjöf frá KÓSÍ.

Skrapp á bókasafnið fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnunni. Skilaði fimm bókum, öllum sem ég var með í láni af safninu. Kom ekki tómhent heim aftur því 9 bækur "hoppuðu" upp í fang mér, þar af tvær sem eru með 14 daga skilafrest. Og ég sem ætlaði að fara huga alvarlega að jólakortagerð og yfirfara eitthvað af dótinu mínu. Hlýt samt að komast yfir þetta allt. Reyndar freistaðist ég til að kaupa kilju um daginn, glæpasögu, eftir höfund sem hefur náð taki á mér, Angela Marsons. Keypti nýjustu, þýddu bókina og stakk henni svo ofan í skúffu í bili. Ég er líka að glugga í bók sem ég keypti í útgáfuteiti í síðasta mánuði og þar að auki lánaði sr. Pétur mér bókina Brautryðjaninn ævisaga Þórhalls Bjarnasonar 1855-1916 sem er skráð af Óskari Guðmundssyni.

15.10.18

Á Hellu í augnablikinu

Það var verið að eitra fyrir silfurskottum í Drápuhlíð 21 milli klukkan eitt og hálfþrjú í dag. Ekki er ráðlagt að vera heima næstu fjóra tíma á eftir. Strákarnir fóru í eina Sorpuferð upp úr klukkan tólf. Ég var komin heim þar sem ég misskildi tímasetninguna. Kannski var það eins gott því íbúarnir á hæðinni fyrir neðan voru ekki heima og allt harðlæst hjá þeim. Þau gátu bjargað því, ein dóttir þeirra kom rétt fyrir klukkan eitt á sama tíma og sá sem tók verkið að sér. Ég labbaði með honum um allt til að byrja með en svo náði hann í grímu, hanska og eitrunardæmið út í bíl og byrjaði í kjallaranum. Strákarnir komu stuttu síðar og einkabílstjórinn fékk þá góðu hugmynd um að nota tækifærið og skreppa í heimsókn á Hellu. Þangað vorum við komin um þrjú og erum þar enn. Verðum líklega ekki komin heim fyrr en um tíu í kvöld.

Mikið er annars búið að ganga á, síðustu viku, eða frá því var ljóst hvenær yrði eitrað. Kosturinn við svona er sá að maður neyðist til að taka aðeins betur til.

Mætti í sund um átta í gærmorgun og kom svo við og fékk mér kaffi hjá Oddi í Öskjuhliðinni um tíu. Um hálftólf var ég komin upp í kirkju. Þangað mættu allir úr stjórninni til að undirbúa heitu réttina á kór-hlaðiborðið eftir messuna og aðstoða kórinn við að undirbúa salina. Klukkan var að verða fimm þegar ég kom heim og þá fór ég með Davíð Steini niður að undirbúa geymsluna fyrir eitrun en Oddur Smári fór í Sorpuferð og fékk þar með að keyra THM88 í fyrsta skipti. Bíllinn er ennþá á nafni pabba en því verður breytt fljótlega og hann færður yfir á mitt nafn.

11.10.18

Nokkrar línur

Föstudagur á morgun og á sunnudaginn verður galdramessa í óháðu kirkjunni. Mánuðurinn kominn í tveggja stafa tölu svo það styttist í annan enda á árinu. Kortadeildin skrapp yfir í Hörpuna, á kaffifund, upp úr tvö. Hélt að ég væri búin að týna rauðu 66° húfunni minni því ég fann hana ekki þegar ég var að klæða mig í regnkápuna. Var mjög hugsi yfir þessu en sem ég beið eftir strætó á torginu þá þreifaði ég einu sinni enn í hettuna á kápunni og viti menn, þar var húfan. Fjúkkett! Ég tók strætó númer sex og var komin heim um hálffjögur.

10.10.18

Aftur í sjóinn

Sjórinn var 0,3° kaldari í dag en á mánudaginn, eða 4,6°C, en veðrið var gott og ég naut þess að svamla um. Var mætt í Nauthólsvík á slaginu fimm og þá þegar var fólk að fara í sjóinn. Að þessu sinni fór ég tvisvar. Fyrst í 15 mínútur og eftir um það bil tíu mínútur í heita lang-pottinum fór ég aftur og þá í víkina. Þar að sjórinn að vera aðeins heitari en þar sem það var flóð í dag var ekki mikill munur.

Annars tók ég á móti korti no. 3.000.000 sem er framleitt á 12 ára gömlu kortavélina. Það var reyndar svolítið skondið að ég fékk heiðurinn af móttökunni því ég var á vélinni milli átta og hálftíu í morgun og þegar farið var í kaffipásu vantaði aðeins rúmlega 250 stk upp á að ná tölunni. Eftir kaffi fóru aðrar tvær á vélina og þær lentu í smá vandræðum og náðu ekki að framleiða þennan kortafjölda á tveimur tímum. Tímamótin urðu ekki fyrr en eftir hádegi þegar ég var komin aftur á vélina og þá á móttökuhlutann.

Skrapp aðeins upp í kirkju í gærkvöldi til að afhenda einum kórmeðlimi úr nýlega stofnuðum Óháða kórnum plagg sem þau eiga að geta nýtt sér til að yfirtaka kennitölu og reikning KÓSÍ sem er ekki starfræktur lengur. Eftir að hafa afhent plaggið, undirritað af mér og fyrrum formanni skrapp ég í heimsókn upp í Katrínarlind í Grafarholtinu. Þangað hef ég ekki komið nokkuð lengi og áður en ég vissi af voru liðnir tveir tímar.

8.10.18

Svamlað í 4,9°C sjónum

Þar sem fyrir lá smá tölvuverkefni í kvöld ákvað ég að hamra inn nokkrar línur. Var mætt í sund milli klukkan átta og hálfníu í gærmorgun. Gaf mér góðan tíma í rútínuna og fór m.a. þrisvar sinnum í þann kalda, synti í tuttugu mínútur og sat heillengi í gufunni áður en ég fór upp úr. kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Fór ekkert aftur á bílnum en ég samdi við Davíð Stein um að sjá um eldamennskuna um kvöldið og skundaði sjálf í Valsheimilið rétt fyrir sex og horfði á tvo heimaleiki í röð. Stelpurnar tóku á móti Haukum og unnu leikinn 27:20. Klukkan átta hófst leikur strákanna sem tóku á móti ÍR. Staðan þar var jöfn í hálfleik en leikurinn fór 28:22 fyrir Val.

Ég fékk að fara einum og hálfum tíma fyrr úr vinnunni til að sinna bankamálum. Fór fyrst heim með strætó og fór á B-Max í bankann. Þar sinnti ég þremur erindum. Kom heim aftur um fjögur. Hringdi í pabba og spjallaði góða stund við hann. Var svo komin í Nauthólsvíkina um fimm. Svamlaði í sjónum í um 15 mínútur. Var ekkert að fara neitt langt, þurfti þess ekki, það var háflóð og náði sjórinn upp á hálfa brautina og  maður hætti að botna mjög fljótlega eftir að komið var út í.

7.10.18

Tveir dagar í röð

Það hefur ekki gerst nokkuð lengi að ég hafi sest niður, skráð mig inn á bloggið og skrifað eitthvað tvo daga í röð. Ég er enn með fartölvuna hans pabba, hann segist ekki nota hana neitt og ég má hafa hana hjá mér eins lengi og ég vil. Þráðlausa músin mín og netkubburinn virka alveg jafn vel á þessa tölvu og þá sem ég er með inni í tölvuskáp.

Á K1 (í vinnunni) var stofnaður leshringur um daginn. Allir 7 sem vinna í kjallaranum á Seðlabankanum voru skráðir meðlimir en við erum fjögur sem erum virk og 1 dró sína aðild til baka, sagðist ekki vilja vera með og skráð í neinn hóp. Fyrsta bókin sem við tókum fyrir var, Fuglarnir eftir Tarje Vesas norskan höfund. Og bókin sem við erum að lesa núna er, Glerkastalinn eftir Jeannette Walls. Ég fékk hana ekki á íslensku á Kringlusafninu en ákvað að prófa að lesa hana á ensku. Það gekk ágætlega en ein úr hópnum bauð mér svo að lána mér sitt eintak á íslensku og fá í staðinn lánað mitt enska eintak. Ég þáði það með þökkum því ég er miklu fljótari að lesa á móðurmálinu. Sennilega væri samt skynsamlegt að lesa eina og eina bók á ensku eða dönsku. Ég hefði bara gott af því. Við tölum um bækurnar í kaffi eða matarhléum. Erum ekki búin að setjast niður öll fjögur með seinni bókina og heldur ekki að velja næstu bók. Það gæti þó orðið Veröld sem var eftir Stefan Zweig því hin þrjú eru að lesa þá bók og ég hef er ekki frá því að ég sé forvitin um hana eftir að hafa fengið að glugga aðeins í hana hjá einu hinna.

6.10.18

Þvílíkt skrið á tímanum

Sex dagar að verða liðnir af tíunda mánuði ársins. Uþb tveir mánuðir síðan mamma dó. Ég er búin að selja bláa bílinn sem ég kallaði lengi vel lánsbílinn enda var ég með afnot af honum í næstum fimm ár áður en ég "keypti" hann af mömmu á kr. 50.000 í fyrrasumar. Um sama leyti festi hún kaup á 3 ára Ford B-Max, sem aðeins var búið að keyra 3000 km. Sá bíll er kominn tímabundið á pabba nafn en má segja að hann sé móðurarfur minn og fer yfir á mitt nafn fljótlega. Pabbi kom með nagladekkinn undir bláa bílinn þann 21. september og ég fór með honum austur. Á sunnudeginum sótti ég eina vinkonu mína í Hvolsvöll. Hún var að setja húsbílinn sinn í geymslu yfir veturinn fyrir utan hjá mömmu hennar. Vinkona mín borðaði með okkur pabba en kom svo með mér í bæinn og gisti hjá mér í viku. Aðfaranótt sl. sunnudags skutlaði ég henni til Keflavíkur. Hún átti flug til London eldsnemma um morguninn og tveim dögum seinna flaug hún þaðan til Kanaríeyja þar sem hún verður fram á vor.

Þann 23. september fór ég gráa B-Max í vinnuna. Eftir vinnu þann dag fjárfesti ég í 3 mánaða strætókorti sem gildir til og með 24. desember. Í september fjárfesti ég einnig í armbandi sem gildir í sjósund í Nauthólsvík fram að áramótum. Það fékk ég endurgreitt frá vinnunni sem íþróttastyrk. Opið er 6 sinnum í viku en ég reyni yfirleitt að fara eftir klukkan fimm á mánudögum og miðvikudögum. Vikan sem ég var alveg bíllaus, datt út, en þá viku labbaði ég við í Sundhöll Reykjavíkur tvisvar sinnum. Þangað var ég ekki búin að koma síðan eitthvað fyrir breytingar.

Annars fór ég í klippingu í hádeginu í dag og þar sem ég er enn að láta klippa mig sítt verður næsti tími ekki fyrr en eftir áramót. Af því tilefni óskaði hárskerinn minn mér Gleðilegar jóla, he, he. En það fékk mig bæði til að skella upp úr og hugsa út í að það er í raun tímabært að fara að huga að jólakortagerð.

18.9.18

Langt um liðið og varla komin í skrifstuð

Dagarnir og vikurnar þjóta áfram en ég hef ekki verið í neinu skrifstuði í margar vikur, er varla í neinu stuði núna. Hef svo sem um nóg að skrifa en er ekki alveg búin að ákveða hvort eða þá hvernig ég kem því frá mér. Nóg í bili í þetta sinn.

12.7.18

Enn einn "sunnudagurinn" ;-)

Ég skilaði öllu sjö bókunum sem ég fékk á Kringlusafninu fyrir hálfum mánuði á safnið aftur í gær. Hafði lesið þær allar. Það endaði svo með því að það komu sjö aðrar bækur með mér heim í staðinn og er ég reyndar búin að klára eina þeirra. Það er svona að vakna snemma. Á meðan ég er í bænum byrja ég á því að mæta í sund og bæði í gær og í morgun var ég mætt rétt eftir opnun, um hálfsjö, og kom ekki heim aftur fyrr en níu. Og nota bene ég fór ekki labbandi á milli. Synti í hálftíma og fór 4x4-5 mínútur í kalda ásamt því að skreppa í saltpottinn og gufuna. Það er ljúft að vera í fríi og ég skammast mín ekkert fyrir að gera næstum því það sem mér sýnist. Það eina sem skyggir á er hversu alvarlega mamma er orðin veik og það er eiginlega helst þess vegna sem ég fer ekki langt, það er alltaf hægt að skreppa eitthvað lengra síðar. Var fyrir austan frá föstudegi til mánudagskvölds um síðustu helgi og er byrjuð að lesa bók eftir Jón Kalman Stefánsson fyrir mömmu. Bók sem hún fékk í jólagjöf sl. jól og var langt komin með að lesa sjálf en varð svo að hætta þar sem bókin er of þung til að halda á fyrir hana. Þetta er mjög vel skrifuð bók byggð á sannri sögu og það eina sem ég veigra mér við að lesa upphátt eru kynlífslýsingarnar.  :D

29.6.18

Allt í himna lagi

Einhver sagði einhvern tímann að ..."engar fréttir eru góðar fréttir!" Ég er að verða hálfnuð með fríið mitt og batteríin eru heldur betur að hlaðast þrátt fyrir að ég sé ekki að skipuleggja neitt stórt þannig séð. Leyfi mér að haga seglum alveg eftir vindi en læt samt veðrið alls ekki hafa áhrif á mig. Það kom einn mjög góður sumardagur í kringum 20. júní og þá ákvað ég að fara gangandi í Laugardalinn. Hafði með mér klink fyrir fari með strætó til baka því þótt ég treysti mér alveg til að labba heim aftur þá fannst mér tilhugsunin um göngublautt bak ekki góð. Ég fór líka gangandi á bókasafnið fyrir nokkrum dögum. Skilaði öllum 6 bókunum (lesnum) og það komu sjö með mér heim aftur. Fyrir tæpri klukkustund kom ég gangandi heim úr heimsókn frá fyrrum kórsystur. Labbaði af stað til hennar um tvö og var svona ca tuttugu mínútur á leiðinni. Semsagt það er allt í góðu.

18.6.18

Smá lífsmark

Það er spurning hvort uppfærsla á persónuverndarlögum og því öllu muni fæla mig frá því að vera eitthvað að skrásetja hluta af því sem fer fram í kringum mig og um mig? Svo er þetta með andann og löngunina til að skrifa. Auðvitað er hún oftar til staðar heldur en sést amk ef skrif/blogg-árin eru borin saman. Ég ætla ekkert að velta mér frekar upp úr þessu og heldur ekki hafa þetta lengra í dag. Er að lesa svo spennandi bækur, fylgjast með HM, stunda kalda pottinn og laugarnar og rembast við að halda mér í gönguformi líka. Jú, kannski eitt, sl. föstudag fór Davíð Steinn með mér á N1 í Fellsmúla svo ég gat nýtt mér 22% afláttinn hans þegar ég keypti ný sumardekk undir Fordinn og lét setja undir bílinn.

23.5.18

Stiklað á stóru

Ég er mjög dugleg að láta það vera að kveikja á tölvunni. Hef svo sem, hvort eð er, ekki verið í neinu skrifstuði en það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig og stundum mætti ég alveg vera duglegri að skrifa um sumt af þessu svo það gleymist ekki.

Æskuvinkona mín, Ella, var hjá mér í tvær nætur fyrir rétt rúmri viku. Ég hafði vitað af komu hennar í nokkra daga og undirbjó heimsóknina vel. Bauð henni að sofa í herberginu mínu og bjó um mig á beddanum í stofunni sem tvíburahálfsystir mín var nýbúin að skila en ég lánaði henni hann í heila viku undir sænska eða danska stelpur (veit ekki hvor þeirra notaði hann). Degi eftir að Ella vinkona flaug aftur heim til sín gistu mágur minn og yngri systurdóttir mín. Hún var í stofusófanum í eina nótt en hann á beddanum í 3 nætur. Frænka mín flaug nefnilega með föðursystur sinni til London seinni partinn á fimmtudaginn var. Helga systir kom suður á föstudagskvöldið með kærustuparið og hvolpinn. Hinn hundurinn var skilinn eftir í pössun fyrir norðan. Kærustuparið fór heim til mömmu hans en Helga gisti í sófanum í eina nótt. Ég rétt náði að heilsa upp á hana um hálftólf þegar ég kom heim úr kortadeildargrillpartý. En við systur hittumst svo aftur á Hellu seinni partinn á laugardaginn. Ég gisti í eina nótt en þau í tvær.

Klukkan ellefu á mánudagsmorguninn var ég mætt í Dómkirkjuna til að fylgjast með því þegar verið var að vígja einn frænda minn til prests til að taka við Patreksfjarðarprestakalli. Eftir athöfnina heilsaði ég aðeins upp á frændfólkið mitt sem var þarna en dreif mig svo beint í sund. Bræðurnir voru báðir að vinna, annar til klukkan átta og hinn til klukkan tíu (eh). Ég mætti í mína kirkju upp úr klukkan sjö til að undirbúa maulið eftir messuna. Alls mættu 17 ef allir voru taldir með. Ég gaf mér góðan tíma til að sitja og spjalla á eftir messunni og var til klukkan tíu að ganga frá á eftir.

Ég skilaði annars inn 5 bókum á safnið sl. föstudag, þrjár hafði ég klárað en hinar tvær rétt byrjaði ég á og sá að ég mundi ekki nenna að lesa þær. Hefði getað haft þær í 10 daga lengur en ég ákvað að skipta þeim út. Kom með 5 bækur heim í staðinn og er búin að klára tvær af þeim nú þegar. Önnur þeirra var svaðalega spennandi; Týndu stúlkurnar eftir Angelu Marsons þýdd af Ingunni Snædal. Mér skilst að það sé búið að þýða tvær aðrar eftir þennan höfund og ég á örugglega eftir að "þefa" þær uppi og lesa (skrifar sú sem ekkert lyktarskyn hefur).

Þriggja mánaða strætókortið mitt rann úr gildi eftir 18. maí og þar sem það styttist í sumarfrí hef ég ákveðið að labba sem oftast milli heimilis og vinnu. Það var fínt að labba í gærmorgun en leiðinda rok og rigning á móti mér seinni partinn. Komst þó heim, skipti um föt, hringdi aðeins í pabba en fór svo beinustu leið í sund og kalda pottinn. Labbið í morgun og seinni partinn voru fínustu göngutúrar og eftir að hafa hringt austur setti ég bræðrunum fyrir og skrapp svo smá stund í sjóinn. Þegar ég kom til baka var maturinn tilbúinn. Stoppaði ekkert svo lengi heima því það var heimaleikur hjá Val í Pepsídeild kvenna. 2-0 fyrir VAL á móti HK/Víkingi.

5.5.18

Lítið að gerast í skrifunum

Það er það langt síðan að ég skráði mig inn síðast að google sá ástæðu til að spyrja hvort ég ætti örugglega að vera með aðgang að þessari síðu. Fékk sent númer með sms í farsímann til að staðfesta að ég mætti fara hérna inn og nota þessa síðu eftir mínu höfði. Annars er ég stödd á Hellu þessa stundina og verð eitthvað fram á morgundaginn. Esperanto-hittingingi var frestað til næsta fimmtudags svo ég var löt að drífa mig af stað í sund í morgun. Var þó komin ofan í þann kalda upp úr klukkan hálftíu. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Krónuna við Granda og fyrir utan að ég var að gera innkaup fyrir sjálfa mig var ég að leita eftir vöru fyrir pabba og mömmu sem ekki fæst á Hellu í augnablikinu. Fann þetta ekki í Krónunni. Kom við hjá Atlantsolíu við Öskjuhlíð áður en ég fór heim með vörunar, gekk frá þeim og sunddótinu, ýtti aðeins við öðrum stráknum til að láta vita að ég væri að fara austur, tók dót sem ég hafði tekið saman í morgun til að fara með. Fyrsta stopp var í Hagkaup í Skeifunni og eftir smá hringsól og nokkuð mikla leit fann ég nokkrar krukkur af súrsætri sósu frá "Benna frænda". Næsta stopp var í Fossheiðinni og svo var ég komin á áfangastað um hálffjögur.

Fyrsti stjórnarfundur nýkjörinnar safnaðarstjórnar í Óháða söfnuðinum var haldinn í Kirkjubæ milli 17 og 18:30 sl. fimmtudag. Ritari og gjaldkeri höfðu boðað forföll en það var fagnaðarefni að frétta og sjá að það hafði náðst að fullskipa stjórnina, að búið væri að fylla í öll þrjú sætin sem í höfðu setið formaður, varaformaður og einn meðstjórnandi síðustu 2-12 ár. Ég tók að mér að sjá um fundarritun. Náði að hreinskrifa þau skrif í gær og senda á nýkjörinn formann sem fór yfir, bætti við einu atriði og ætlar að senda á alla stjórnina.

Var á leiknum VALUR - Selfoss í Pepsídeild kvenna í gærkvöldi. Svolítið kalt en það voru skoruð átta mörk sem öll voru skoruð í mark gestanna. Valsstelpurnar héldu hreinu. Annars er ég bara góð. :-)

24.4.18

Árskort á Valsvöllinn 2018-19, kort no 68

Já, líkt og í fyrra gildir kortið á alla heimaleiki Vals fram á næsta vor, þ.e. alla deildarleiki. Ég vona bara að ég nýti þetta kort betur næsta vetur heldur en kortið sem var að renna úr gildi. Ég var frekar dugleg að mæta á heimaleikina fyrrasumar, í Pepsídeild bæði karla og kvenna en ég fór aðeins á einn heimaleik í vetur í Olísdeild kvenna. Pepsídeild karla byrjar að rúlla á föstudaginn kemur og það er Valur - KR strax í fyrstu umferð.

Annars var ég að koma heim úr sundi. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan fjögur og fékk gott pláss bæði í pottum og laug. Synti í um 25 mínútur eða 600 metra. Hitti eina nöfnu mína sem var með mér í KÓSÍ kórnum. Við syntum víst eitthvað á svipuðum tíma en ég tók ekki eftir henni fyrr en við vorum báðar farnar að pottormast.

19.4.18

Gleðilegt sumar!

Afar gott að fá svona aukafrídag. Ég leyfði mér samt ekki að sofa út í morgun, en kannski var ég bara útsofin því ég vaknaði löngu áður en vekjarinn átta að hringja eða einhvern tímann milli klukkan hálfsjö og sjö. Var mætt í Laugardalinn um leið og verið var að opna klukkan átta. Byrjaði á því að demba mér í kalda pottinn í fjórar mínútur áður en ég fór í laugina. Reyndar varð lítið úr sundi, þ.e. ég fór aðeins tvær ferðir, 200 metra, því gúmmíið öðru megin á sundgleraugunum datt af þegar ég var að setja þau á mig í upphafi. Þrjóskaðist þessa 200 metra með annað auga lokað. Settist aftur í þann kalda áður en ég fór í heitari potta og hitta hluta af "morgunfólkinu" mínu. Hafi svo engan tíma til að blása á mér hárið því ég var búin að lofast til að skutla N1 syninum í vinnuna og hirða hann upp um hálftíu.

Skrapp í göngu núna seinni partinn, hálfan Öskjuhlíðarhring, og kom við í Valsheimilinu til að athuga með árskortið á völlinn í sumar. Þau koma ekki í sölu fyrr en á morgun. Hefði geta keypt mig inn á leik Vals og ÍBV, ríkjandi bikar og deildameistara en ákvað frekar að ljúka göngunni og fara heim til að þurrka af mér göngufossinn á bakinu.

Er annars nýlega byrjuð á Smásögum eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, AFLEIÐINGAR. Bókin inniheldur sjö smásögur. Er aðeins búin með þá fyrstu en ég gat ekki hætt að lesa fyrr en ég var búin með hana. Ég er enn með 3 bækur af safninu eftir að ég skilaði inn nokkrum bókum  sl. sunnudag án þess að ná mér í aðrar í staðinn.

17.4.18

Soðið slátur í matinn í kvöld

Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég varð fimmtug, þessi mánuður er rúmlega hálfnaður og það fer alveg að líða að því að ég fari í sumarfrí. Ekki alveg tveir mánuðir þangað til en miðað við hvernig tíminn brunar áfram þá er alls ekki langt þangað til. En á meðan ætla ég að njóta hvers dags og hverrar mínútu eins og kostur er.

Síðan ég setti inn færslu hérna síðast er ég m.a. búin að fara nokkrum sinnum í sund, í tvær fermingaveislur, eitt sextugs afmæli, skila nokkrum bókum á safnið, láta taka nagladekkin undan bílnum og eyða sólarhring með stelpunum í kortadeildinni á Hótel Selfossi.

Fór í blóðbankann strax eftir vinnu í gær, 49. heimsóknina og sleppti því sundferð. Hins vegar dreif ég mig í sund upp úr klukkan fjögur eftir að ég hafði sett upp slátur og beðið Davíð Stein um að fylgjast með suðunni sem og setja upp kartöflur um sex.

Kveikti annars á tölvunni í kvöld til þess að senda og setja inn tilkynningar um næstu messu í moggann og á vegg og heimasíðu safnaðarins.

4.4.18

Fiskbúð og sund eftir vinnu í dag

Ég er rúmlega hálfnuð með eina bókina sem ég kom með heim af safninu í gær. smáglæpir eftir Björn Halldórsson hefur að geyma 7 smásögur sem eru frá 12 bls og upp í 24 að lengd. Á aðeins eftir að lesa 3 smásögur. Ætla ekki að segja neitt um sögurnar sem ég hef þegar lesið nema það að ég mæli alveg með þessari bók.

Þegar ég var búin að heyra aðeins í pabba rétt upp úr klukkan fjögur í dag, tók ég til sunddótið, kvaddi og byrjaði á því að stoppa í fiskbúðinni Hafið við Skipholt. Þar keypti ég ýsu í soðið, lax og 1 kg af rauðum kartöflum. Var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir fimm og byrjuð að synda um fimm mínútum síðar. Synti aðeins í rúmt korter eða 400 metra. Þá fór ég aftur í þann kalda í 3 mínútur áður en ég skrapp í nokkrar mínútur í 38°C pott sem ég fer ekki oft í. Eftir nokkrar mínútur þar fór ég þriðju og síðustu ferðina í þann kalda áður en ég endaði í gufunni. Kom heim um hálfsjöleytið og var maturinn tilbúinn ca hálftíma seinna.

3.4.18

Bókasafn og sund eftir vinnu í dag

Vinnudagurinn var ekki lengi að líða enda nóg af verkefnum. Var komin heim upp úr klukkan fjögur. Tók stöðuna á foreldrum mínum og hringdi einnig í esperanto vinkonu mína sem er á leið út í tveggja vikna frí eftir tvo daga. Við höfðum ætlað að veifast á á Facebook en það lítur út fyrir að það sé búið að loka á mig þar. Veit ekki alveg hvað eða hvernig þetta gerðist en ef mér tekst ekki að endurræsa aðganginn minn innan nokkurra daga þá gæti allt eins farið svo að ég láti þann vettvanginn alveg eiga sig. Hver veit nema það hafi þá líka góð áhrif á skrifin mín á þessum vettvangi.

Áður en klukkan varð fimm var ég búin að taka til sunddótið mitt og fjórar lesnar bækur af fimm af Kringlusafninu og búin að kveðja strákana. Fyrst lá leiðin í efnalaugina Snögg þar sem ég "leysti" út jakkaföt strákanna, þ.e. mínus einn jakki. Setti þetta í skottið og fór næst á safnið. Sex bækur komu með mér út af safninu í staðinn fyrir þessar fjórar sem ég skilaði inn. Ein af þessum sex er með tveggja vikna skilafrest en hún og þrjár aðrar af hinum innihalda smásögur. Segi kannski betur frá þessu seinna. Úr safninu lá leiðin í Laugardalslaugina, tvær ferðir í kalda, 400 m sund og næstum tíu mínútur í gufunni. Kom heim aftur um sjö. Strákarnir farnir í heimsókn til pabba síns og ég slapp við að elda þar sem til eru ýmis konar afgangar.

2.4.18

Úti snjóar

Laugardalslaugin er um það bil að opna. Ég er komin á fætur, búin að fá mér eitthvað og allt tilbúið fyrir sundferð. Ég fór ekki í sund í gær þótt það væri opið milli klukkan 10 og 18. Gærdagurinn hófst snemma. Var komin á ról um hálfsjö og mætt upp í kirkju á slaginu sjö. Við vorum 4 úr stjórninni sem hjálpuðumst að við að leggja á borð í efri safnaðarsalnum, hita brauðbollur, smá kaffi, búa til heitt kakó og þeyta rjóma. Það fór svo að aðeins eitt okkar sá sér fært að mæta í messuna. Ég hálfsé því eftir því að hafa ekki drifið mig í kirkju á föstudagskvöldið því nýji kórinn var að syngja þá sem og í gær. Get huggað mig við það að bæði heyrði ég í kórnum þegar hann var að hita upp og svo mun hann syngja aftur í tilraunamessu fjórða sunnudaginn í þessum mánuði. En það mættu ríflega fimmtíu mann í messu í gærmorgun og er það heldur fleira heldur en undanfarna páska. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar öllum frágangi var lokið og þá fór ég beint heim aftur og hélt mig þar. Strákarnir voru báðir heima en þeir komu ekki á fætur fyrr en einhvern tímann eftir hádegi. Í gærkvöldi var ég með steikt hrefnukjöt og bjó til sæta kartöflumús með smá tvisti, hafði hálfa rauðrófu með í litlum bitum út í músinni.

31.3.18

Stutt skrepp út út bænum

Á skírdagsmorgun var ég að sjálfsögðu mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta. Sinnti rútínunni vandlega og fór svo auka ferð í kalda pottinn. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég var búin að blása á mér hárið. Var með esperanto bakpokann í skottinu en ég kom fyrst við hjá Atlantsolíu í Öskjuhlíðinni.

Við Inger kláruðum fimmta kaflann í Kon-Tiki og þóttumst vera afar duglegar. Við munum hins vegar ekki hvenær við byrjuðum að lesa þessa bók en það er amk ár síðan og við erum rúmlega hálfnaðar. Eftir esperanto-hittinginn fór ég heim til að hengja upp sunddótið, setja ofan í tösku og "vekja" tvíburana til þess að kveðja þá. Á austur leiðinni kom ég við í Fossheiðinni.

Hálftíma eftir að ég var kominn á Hellu komu fjórir gestir í heimsókn, 2 af þremur systkynum og makar þeirra. Litla systir þeirra og hennar maki eru í gólfferð á Spáni þessa dagana. Þessi systikyni og mamma eru systkynabörn. Gestirnir höfðu gert boð á undan sér og bannað pabba að hafa fyrir þeim. Hann átti bara að hella upp á þegar þau kæmu. Mamma hafði samt útbúið rækjusallat. Fjórmenningarnir stoppuðu í rúma tvo tíma.

Um kvöldið opnaði ég hvítvínsflöskuna sem Inger og fjölskylda gáfu mér. Mamma þáði aðeins einn sopa en pabbi, sem yfirleitt fær sér frekar rauðvín eða bjór þegar hann fær sér, þáði í glas og þótti þetta gott. Við feðginin kláruðum samt úr flöskunni svo ég tók afganginn með mér í bæinn aftur í gærkvöldi.

26.3.18

Nokkrir ókostir við að draga verulega úr tölvunotkun

Rúmlega tveir mánuðir liðnir síðan ég setti inn síðustu færslu. Á þeim tíma hefur margt og mikið vatn runnið til sjávar. Hef eingöngu kveikt á tölvunni þegar ég þarf að setja inn messutilkynningar. Stundum hefur hvarflað að mér að gefa mér þá tíma á þessum vettvangi í leiðinni en ég hef ekki endilega verið í skrifstuði. Gallinn við að "detta" svona út er að þá á ég það ekki neins staðar skráð það helsta sem á daga mína drífur. Kannski er það bara ágætt eða hvað. Mér finnst nefnilega svo gott að geta flett upp í sjálfri mér en það er eðlilega ekki hægt ef maður er með einhvers konar ritstíflu eða lyklaborðaleti.

Ég er mjög sátt við að hafa dregið úr tölvunotkuninni samt, það fór heldur mikill tími í þetta apparat. Er frekar dugleg við að stunda sundið, fer helst ekki sjaldnar en fjórum sinnum í viku og næ stöku sinnum að fara sjö daga í röð. Meðaltalið er líklega í kringum 5 sinnum í viku. Ætla annars ekkert að reyna að tæpa á því helsta sl. 8-9 vikur, amk ekki í þetta sinnið.

Ein bókin sem heldur mér hugfanginni um þessar mundir er af safninu er Náðarstund eftir Hannah Kent. Mögnuð bók sem ratað loksins til mín. Ég er líka að lesa úrval úr Ganglera, fyrstu 50 árin. Hún var gefin út af Lífspekifélaginu í fyrra en ég tók hana með af safninu um daginn og er að glugga í hana inn á milli. Reyndar meira en að glugga því ég þarf að gefa mér tíma til að melta vel sumt af því sem í þeirri bók er.

17.1.18

Miðvikudagskvöld, mánuðurinn rúmlega hálfnaður

Þessa vikuna höfum við vinnufélagarnir á minni deild látið nægja að skila af okkur átta tímum, mætum korter fyrir átta og hættum korteri fyrir fjögur. En bæði á mánudaginn og gær voru hendur látnar standa vel fram úr ermum og í morgun fór síðasta auka-SPES frá okkur. En þá liggur fyrir að vinda sér í vörutalningu á varahlutalager. Um tvö í dag fékk ég eina með mér í að byrja. Ég var búin að prenta út skrána sem er upp á 14 blaðsíður. Nú á hins vegar bæði að telja og taka út þá hluti sem eru síðan fyrir 2010 og hafa ekkert hreyfst í mörg ár. Margir af þeim tilheyrðu eldri vélinni sem er ekki til lengur svo þetta er löngu tímabært. Við náðum að sitja við þetta verkefni í tæpa klukkustund og vorum strax komnar með rúmlega botnfylli í kassa af úreltum varahlutum en aðeins búnar að fara yfir brotabrot af öllum heildar lagernum. Ætli við fáum svo ekki sérfræðinga til að fara yfir þessa hluti og gefa grænt ljós á förgun. Ég er ekki slíkur sérfræðingur en það segir sig sjálft að sumir gamlir hlutir hljóta að úreldast.

Eftir að ég kom heim úr vinnu á mánudaginn og var búin að taka stöðuna á foreldrum mínum dreif ég mig í sund og verslaði á leiðinni heim. Við Oddur hjálpuðumst svo að við að útbúa kvöldmatinn og við ákváðum að bíða eftir Davíð Steini sem var á leiðinni heim úr vinnu. Við borðuðum því ekki fyrr en rúmlega hálfníu. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim úr vinnu í gær þar sem ég ætlaði mér að fylgjast með strákunum okkar á EM. Leiðinlegt að þeir náðu ekki að vinna þennan leik og enn leiðinlegra að Króatar skyldu liggja fyrir Svíum. Gat þó ekki annað en dáðst að sænska liðinu sem tapaði fyrsta leiknum í riðlinum en komast upp úr honum með 4 stig.

Gef mér alltaf einhvern tíma í lestur og er ég að lesa fjórar bækur í einu. En ég er líka komin á skrið í hundalopapeysuprjóni. Hugsanlega næ ég að ljúka því verkefni á næstu tíu dögum en systurdóttir mín á að keppa á skautum hér í bænum síðasta föstudaginn í þessum mánuði og þá koma amk hún og mamma hennar suður og jafnvel pabbi hennar og hárlausi hundurinn. Cara, labradorinn, verður líklega send í pössun.

14.1.18

Vetrarveður

Ég lét undan leti minni og fór ekki í sund í morgun þrátt fyrir að vera í bænum. Var vöknuð um sjö en ég fór ekki á fætur fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu. Bíllinn er í stæði aftan við heilsugæsluna síðan um hálftvö í gær og ég verð að færa hann þaðan fyrir klukkan átta í fyrramálið.

Strax eftir vinnu á föstudaginn var tók ég 13 alla leið upp í Kringlu, eingöngu til að fara á bókasafnið. Var með fimm bækur sem voru komnar á allra síðasta skiladag. Vel gekk að skila inn bókunum en ég komst ekki út aftur fyrr en ég var komin með sjö bækur í staðinn þrátt fyrir að vera enn að lesa jólabækurnar. Ein af þessum sjö bókum er nýjasta hjólabókin hans Smára um Rangárvallasýslu. Hefði svo vel getað fengið mér smá göngu og labbað heim en ég ákvað að bíða frekar eftir strætó sem stoppar við Sunnubúðina. Heima hafði ég rúmlega eina og hálfa klukkustund áður ég fór að heiman aftur. Þann tíma notaði ég m.a. til að taka stöðuna á foreldrum mínum og ég náði einnig að horfa á næstum allan fyrsta EM-landsleik strákanna okkar. Slökkti á sjónvarpinu þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og öruggt að við vorum að vinna.

Um tíu mínútum fyrir sjö sótti Brynja vinkona mig. Leið okkar lá í Þjóðleikhúsið að sjá Risaeðlurnar og leiddist okkur alls ekki á þeirri sýningu. Vorum uppi á svölum í 20. röð, smá niðurhræddar en það gleymdist þegar sýningin hófst um hálfátta. Þremur tímum seinna færðum við okkur enn nær miðbænum og enduðum á Kebabhúsinu þar sem við fengum okkur að borða og ég eitt hvítvínsglas með matnum. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég kom heim aftur.

Var mætt í sundið korter yfir átta í gærmorgun, náði heim tímanlega til að skutla N1-ungamanninum á aukavakt en hann átti að vera mættur aðeins fyrir klukkan tíu. Klukkan ellefu var ég komin í fyrsta esperantohitting á nýja árinu og þar sem ég var ekki búin að koma síðan á aðfanga dag stoppaði ég í rúma tvo tíma. Ég var ekki búin að vera heima nema í um þrjú korter þegar ég tók strætó niður í bæ til að skreppa á hugleiðslu og fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.

Annars er ég búin að lesa fyrstu bókasafnsbókina, Hótel smásögur eftir Steindór Ívarsson. Mæli með þessari bók en hún gerist í Hótel Fönix og er köflunum skipt upp í herbergisnúmer og tengjast kaflarnir, þ.e. gestunum úr sumum herbergjanna bregður fyrir í hinum köflunum.

Horfði á landsleikinn í Indónesíu í hádeginu og núna eru rúmlega tveir klukkutímar í leik númer 2 hjá EM hópnum í Split.  Áfram Ísland!

10.1.18

18 ára starfsafmæli í dag

Ég kom beint heim úr vinnu einhvern tíman á sjötta tímanum í gær. N1 strákurinn var í vaktafríi og hann var búinn að taka niður jólin og fara með í geymsluna. Ég á reyndar eftir að taka jóladúkinn af borðinu í stofunni, þvo hann og ganga frá og einnig að taka niður jólapóstinn.

Átti til bleikju og fór fljótlega að huga að matargerð. Eftir að hafa sett upp kartöflur og skorið niður grænmeti með bleikjunni og sett í 150° heitan ofn hrærði ég í eina eggjalausa brúnköku og skipti deiginu í tvö velsmurð form. Þegar kvöldmaturinn var tilbúinn hækkaði ég ofninn upp í 175° og setti inn annað formið. Eftir 2x25 mínútur slökkti ég á ofninum og þá stóð til að skreppa í sund og koma koma svo við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim. Það varð ekkert úr þeim áformum því ég hafði kveikt á tölvunni og ætlaði að vera snögg að setja upp og senda út messutilkynningar. Það tók hins vegar nógu langan tíma til að ég ákvað að sleppa sundinu og fór út í Sunnubúð. Eftir að deigið hafði kælst niður ákvað ég að vera ekkert að setja botnana saman. Setti á tvo diska og bjó til krem úr flórsykri, kakói, smjörlíki og smá slettu af heitu vatni og setti yfir þá. Annan diskinn skildi ég svo eftir heima í morgun en hinn tók ég með mér ásamt ostum og smá fleiru þegar ég fór á bílnum í vinnuna upp úr klukkan hálfsjö í morgun.

8.1.18

Gleðilegt nýtt ár 2018

Það er 8. janúar og klukkan byrjuð að ganga ellefu að kveldi dags. Dagarnir eru þegar farnir að þjóta hratt framhjá og munar líklega frekar mikið um aukið vinnuálag. Það er smá törn í gangi og hún er reyndar búin að vera í gangi í um það bil mánuð. Sé ekki alveg fyrir endan á henni í bili því þegar verkefninu, sem er í vinnslu, verður lokið verður að fara í lagertlaningar. Áramótin í þeim talningum hnikast til um einhverjar vikur því það þarf að nota allan auka tíma í SPES-verkefnið.

Eyddi áramótunum og síðustu helgi með foreldrum mínum og um nýliðna helgi byrjaði ég á að prjóna aðra hundapeysu á litla hárlausa hund systur minnar og mágs. Hann passaði fínt í peysuna sem ég prjónaði í október sl. og vill helst vera í henni en það þurfti að taka endurskinsþráðinn úr henni því hann meiðir í frosti.

Föðursystir mín varð níræð á þrettándanum, á laugardaginn 6. janúar. Ég á enn eftir að heyra í henni en hún var ekki heima á afmælisdaginn sinn. Með þessum tímamótum hefur hún farið framúr eldri systikynum sínum heitnum í aldri en til að fara fram úr föðurömmu minni vantar hana rúmlega sjö og hálft ár enn. Ég yrði ekkert svo hissa þótt hún næði því, því þótt hún segist sjálf finna fyrir aldrinum líklamlega lítur hún alls ekki út fyrir að vera mikið eldri en áttræð og varla það.

Vonandi kemst bráðum regla á færslurnar mínar, það er nú lágmark að láta ekki líða of marga daga á milli en stundum fær maður ekkert ráðið við það því annað hvort er tíminn of knappur eða andinn ekki yfir manni.