30.5.16

Síðasta helgi mánaðarins liðin

Áfram halda dagarnir að æða hratt með tímanum. Ég veit svei mér ekki hver er að elta hvern en tel mig þó stundum standa í miðjunni að rembast við að sogast ekki alveg með í hringiðuna. Föstudagurinn var svipaður og flestir aðrir virkir dagar í vikunni. Byrjaði á því að fara í sund um hálfsjö. Tók hefðbundna rútínu og gaf mér svo tíma til að fá mér kaffi sem er alltaf í boði á föstudagsmorgnum. Morguninn leið hratt og ég lagði einnig af stað gangandi í vinnu í fyrra fallinu til að geta lengt leiðina í vinnuna. Vinnudagurinn leið hratt og var nóg að gera. Við sem vorum á seinni parts vaktinni stoppuðum framleiðslun upp úr klukkan sex til að ryksuga vélina eftir vikuna.

Á laugardagsmorguninn var Davíð Steinn ljúka við að hella upp á könnuna þegar ég kom fram upp úr klukkan sjö. Ég settist niður með honum og spjallaði yfir einum kaffibolla eftir að ég hafði fengið mér morgunmat. Þegar ég var að skottast af stað í sundið rétt fyrir átta sagði sonurinn: "Við verðum að gera þetta oftar, mamma!" Ég dagaði næstum því uppi í sjópottinum eftir hálftímasund og þrjár ferðir í kalda pottinn. Var komin heim aftur um tíu, svona rétt til þess að ganga frá sunddótinu og sækja esperantotöskuna mína. Við Inger gerðum reyndar lítið sem ekkert í að æfa okkur í esperanto, heldur lukum við tvær krossgátur og skruppum svo í rúmlega hálftíma göngu. Kom heim aftur um klukkan eitt og tók mig til fyrir austurferð áður en ég labbaði yfir á Valsvöllinn og sá "stelpurnar mínar" vinna FH 1:0. Fór beinustu leið heim eftir leikinn og hjálpaði Oddur mér að "ferma" bílinn. Þeir bræður urðu eftir heima en ég var komin austur um hálfsex.

Í gær skrapp ég aðeins til föðursystur minnar stuttu fyrir hádegi, hnoðaði í kleinur með mömmu upp úr hálftvö og var búin að steikja þær allar eitthvað yfir 150 stk mátulega fyrir kaffi. Eftir kaffi skruppum við mamma á elliheimilið og kíktum að  nokkra þar, Mamma hafði folaldakjöt í matinn sem var ekki borðaður fyrr en eftir fréttir og þáttinn um eyðibýli en ég var komin heim um hálfellefu í gærkvöldi.

27.5.16

Aftur kominn föstudagur

"Einkabílstjórinn" er kominn með sumarvinnu og hefur undanfarið verið á námskeiðum og í starfsþjálfun. Í gær átti hann að æfa sig í heila tólf tíma vakt á skeljungsstöðinni við Birkimel. Ég skutlaði honum á staðinn rétt fyrir vakt, stuttu fyrir hálfátta. Á leiðinni sagðist sonurinn þurfa að skreppa e-n tímann seinna um morguninn. Hann hafði líka gleymt vettlingunum sem honum höfðu verið skaffaðir, var algallaður að öðru leyti og í nýjum skóm sem hann fær að eiga. Ég sagðist skyldu athuga hvort ég kæmist til hans upp úr klukkan níu eftir sundið og eina heimsókn í bankann og láta vita með smáskilaboðum.

Í fyrrakvöld komu systir mín og yngri dóttir hennar og gistu þær hjá okkur í eina nótt. Bríet var á leið í aðgerð og þar sem það þurfti að svæfa var sú aðgerð framkvæmd hér í bænum fljótlega eftir hádegi í gær. Ég naut þess að hafa þær mæðgur allt miðvikudagskvöldið og fram til klukkan langt gengin í eitt í gær. Ég gleymdi að senda Oddi sms og þegar ég náði sambandi við hann um tíu var hann mættur í Tækniskólann. Úr varð að Helga systir skutlaðist á eftir mér þangað á sínum bíl og ég lánaði Oddi lánsbílinn. Systir mín skutlaði mér líka í vinnuna og ég þáði svo far, hjá þeirri sem var með mér á síðdegisvaktinni, aftur heim eftir vinnu. Engin göngutúr tekinn í gær og skrefamælirinn rétt náði upp í 7000.

Mæðgurnar fóru beint norður eftir að Bríet var vöknuð eftir aðgerðina. Þann tíma sem við áttu hér saman notuðum við m.a. til að kenna mér á snappið í símanum. Ég á langt í land með það námskeið en æfingin skapar meistarann svo það er spurning um hvort ég verð "dugleg í að æfa mig að snappa?"

25.5.16

Síðasti miðvikudagurinn í maí

Í gær og í fyrradag var Laugardalslaug lokuð. Það hvarflaði aðeins að mér að nota tækifærið og prófa aðrar laugar í staðinn, t.d. Vesturbæjarlaug eða Grafarvogslaug. Endirinn varð hins vegar sá að ég "svaf" frekar út, þ.e. fór ekki á fætur fyrr en um átta í stað klukkan sex. Ég labbaði hins vegar í vinnuna báða daga upp úr hádeginu. Sú sem er með mér á seinni parts vaktinni vildi endilega fá að skutla mér heim á eftir vinnu á mánudaginn, sagði að ég væri búin að ganga nóg þann daginn, sem var örugglega rétt hjá henni. Heima var Davíð Steinn langt kominn með að finna til matinn.

Lánaði einkabílstjóranum lánsbílinn í gærmorgun til að fara á eldvarnarnámskeið tengt sumarvinnunni inn í Dugguvog. Hann var kominn heim áður en ég trítlaði af stað í vinnuna. Eftir vinnudaginn skrapp ég aðeins í heimsókn til einnar vinkonu sem leigir við Vesturgötuna. Sendi svo smáskilaboð til einkabílsstjórans og bað hann um að sækja um um níu. Engu að síður labbaði ég um 12000 skref í gær.

23.5.16

Vinnuvikan hefst klukkan eitt í dag

Nýliðin helgi var mjög skemmtileg en alltof fljót að líða. Ég fór ekki í sund á laugardagsmorguninn því ég þurfti að vera mætt við kirkju óháða safnaðarins rétt fyrir níu og sundlaugarnar opna klukkan átta um helgar. Kvöldið áður var ég búin að taka allt til fyrir ferðalagið og hafði ég fullan hug á því að labba þessa stuttu leið. Endirinn var þó sá að ég varð að vekja einkabílstjórann til að skutla mér því ég eyddi dýrmætum tíma í að leita að "KÓSÍ-kór debetkortinu" því ég hafði stungið því á svo góðan stað. Kortið fannst, í hulstrinu hjá myndavélinni ofan í bakpokanum með nótunum og fleiru sem ég hafði tekið til. Einkabílstjórinn hleypti mér út við kirkjuna ca. tíu mínútum fyrir níu og fékk fullt leyfi til að nýta lánsbílinn ef spilakvöldið væri haldið í Kópavoginum.

Fjórtán kórmeðlimir, kórstjói og bílstjóri lögðu af stað úr bænum um níu. Fyrsta stopp var í Vindáshlíð þar sem margir úr hópnum brugðu á leik með fótbolta á meðan beðið var eftir að komið væri með lykilinn að kirkjunni á staðnum, kirkjan sem var flutt frá Saurbæ. Skrúfuðum ekki frá ofnunum og æfðum í ískaldri kirkjunni. Næst lá leiðin að landi Hamra í Kjós hvar sem ein úr hópnum er alin upp og á sér bústað í því landi. Fengum að kíkja á bústaðinn áður en við fórum í fyrrum fjós og hlöðu staðarins sem einnig rekur Kaffi Kjós. Þarna áttum við semsagt pantaða hádegishressingu, dýrindis súpu, meðlæti og kaffi á eftir. Næst var stoppað við Staupastein þar sem við fengum staup af sérstakri varavætingu sem sr. Pétur hafði útvegað. Svo var haldið að safninu á Hlöðum sem "Gaui litli" setti upp. Mjög merkilegt og flott safn og vorum við hvött til að þreyfa á sumum hlutum og jafnvel máta herfrakka og húfur. Fengum góða leiðsögn um safnið. Næsta stopp var í kirkjunni á Saurbæ þar sem var líka haldin æfing. Svo var keyrt að Arnarholti í Borgarfirði þar sem var skellt í kaffi. Tvö úr hópnum eiga hlut í þessum stað. Meðferðis var stór kaffivél til að vera fljótari að hella upp á 16 bolla og nokkrir tóku að sér að smyrja flatkökur með hangiketi og silungi. Fleira gott var í boði. Við höfðum ekki svo langan tíma til að staldra mikið lengur við en í kaffi og ganga frá eftir okkur því við áttum eftir að fara í Reykholt og prófa nýju kirkjuna þar og það hafði fengist leyfi til að vera til korter fyrir sex. Þegar til kom máttum við alveg vera nokkrar mínútur lengur. Þvílíkur hljómburður í þessari kirkju. Mjög gott að syngja þarna. Frá Reykholti lá leiðin á Landnámssýninguna í Borgarnesi þar sem við áttum líka pantaðan þriggja rétta kvöldverð. Þar sem forrétturinn var tilbúinn þegar við mættum var byrjað á því að borða, forrétt, aðalrétt og eftirrétt (svolítið mismunandi útgáfur þar sem við fengum að kjósa um 1-2 útgáfur af öllu þrennu) áður en helmingurinn af hópnum skellti sér á Landnámssýninguna. Komum í bæinn aftur um hálfellefu og ég held að allir hafi verið afar sáttir við daginn, amk var ég mjög ánægð með allt, skipulag, ferðafélaga og þar fram eftir götunum.

Í gærmorgun var ég mætt í sund og byrjuð að synda ca 8:10. Synti í hálftíma, fór þrisvar í kalda pottinn og endaði í sjópottinum eftir síðustu ferðina. Var mætt í kirkjuna rétt fyrir eitt en í gær var jazzmessa og eitt ungmenni fermt í leiðinni. Allt gekk vel og svo gerðist ég nokkuð þaulsetin í maulinu eftir messu. Eftir að hafa skipt aftur um föt þegar ég kom heim dreif ég mig í smá verslunarleiðangur. Hitaði súpu í kvöldmatinn og var mætt á Valsvöllinn upp úr klukkan sjö. "Strákarnir mínir" unnu Þróttara 4:1. Veðrið var geggjað og eftir leikinn fór ég í hálftíma göngu um Öskjuhlíð áður en ég fór heim.

20.5.16

Vinnuvikunni lýkur klukkan sjö í kvöld

Þessi skrifleti hefur bæði sína kosti og galla. Gallarnir eru helst þeir að ég gleymi hreinlega að skrá niður eitthvað af eftirminnilegum atvikum og atburðum sem sífellt eru að gerast í kringum mig. Kostirnir eru kannski þeir helstir að þá er ég ekki eingöngu að skrifa til að fá útrás fyrir skrifþörfina. En hvað veit ég svo sem. Allt er breytingum háð og ég líka. Vil meina að ég sé sífellt að breytast til batnaðar en verð þó að passa mig á að taka mig alls ekki of hátíðlega eða lyfta nefinu of hátt upp í loftið.

Þessa vinnuvikuna er ég að síðdegisvakt í vinnunni. Fékk reyndar eina til að skipta við mig á miðvikudaginn var til að komast á síðustu kóræfingu vetrarins. Á þriðjudagsmorguninn fór ég í sund á fastandi maga en var afar dugleg að þamba vatn milli kl sex og tíu, ekki sundlaugarvatnið þó. Um tíu fór ég út í heilsugæslu til að láta taka blóð til að rannsaka kólestrólið, sem var það eina sem kom illa út í heilsufarsmælingunni um daginn. Um hádegi labbaði ég í vinnuna en einkabílstjórinn sótti mig svo þangað um sjöleytið um kvöldið. Þá byrjuðum við á því að skreppa í búð og kaupa nýja kaffibrúsa og smá nauðsynjar. Þegar við komum heim var hinn sonur minn langt kominn með að elda kvöldmatinn handa okkur. Á níunda tímanum var byrjaður saumaklúbbur hjá mér. Það var 100% mæting en það var liðinn svo langur tími frá síðasta klúbbi að það var meira talað heldur en saumað eða prjónað. Ég náði þó samt að sauma nokkur spor og tvíburahálfsystir mín fitjaði upp á nýrri peysu. Það er helst Lilja vinkona sem var duglegust í handavinnunni. En við vorum allar duglegar við að spjalla og taka stöðuna hver hjá annarri.

Fór á bílnum í vinnuna á miðvikudagsmorguninn þar sem ég var ekki viss um að vera alveg búin um fjögur. Enda kom það á daginn og ég hafði ekki langan tíma heima, seinni partinn, áður en ég fór á kóræfingu. Æfðum til klukkan að verða sjö en svo fékk ég að stinga af, fór heim með bílinn og trítlaði þaðan beinustu leið á Valsvöllinn þar sem var fyrsti heimaleikur í Vals í Pepsídeild kvenna. Þær tóku á móti KR og endaði leikurinn 1:1.

Í gærmorgun var ég mætt í sundið rétt upp úr klukkan hálfsjö. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu og lét það svo eftir mér að fá mér banana, engiferdrykk og kaffi í Laugardalnum áður en ég fór í bankann um níu. Í bankanum ætlaði ég að taka út smá pening, hjá gjaldkera, úr KÓSÍ sjóðnum. Gjaldkerinn sagði mér að ég gæti vel notað hraðbanka í svoleiðis, tekið út allt að 2 millijónum (þ.e. ef þær eru til á reikningnum) og fór með mér að einum inni hraðbankanum og leiðbeindi mér. Hún gaf mér líka umslag undir upphæðina sem ég tók út. Í hraðbankanum sem hægt er að nota þegar bankinn sjálfur er lokaður er hægt að taka út 120þús. Um hádegi labbaði ég í vinnuna. Tíminn til sjö var fljótur að líða enda nóg að gera og gekk vel. Úr vinnunni fór ég beint á vortónleika í Aðventistakirkjunni, hjá kvennahelmingi óperukórs Mosfellsbæjar "Boudoir". Góðir tónleikar það! Var komin heim upp úr klukkan tíu.

16.5.16

Löt að blogga þessa dagana :-/

Tíu dagar liðnir síðan ég skrifaði síðast. Hef aðeins sett inn örfréttir (og myndir) stöku sinnum á FB-vegginn minn en einhvern veginn látið dagana þjóta hjá án þess að halda utan um mitt frábæra líf. Hef verið að sinna rútínunni og farið í sund næstum daglega, nema sl. tvo daga og svo á föstudaginn var. Vinnuvikan í síðustu viku var til að byrja með unnin frá 6 til eitt eh en það lengdist aðeins meir í seinustu tveimur, sérstaklega á föstudeginum, þá mætti ég fyrst rétt fyrir sex og fór síðust ca ellefu tímum síðar eftir að hafa fengið góða hjálp við að koma smá framleiðsluverkefni yfir á vélina.

Eftir sund á laugardaginn skrapp ég til Inger. Við röðuðum esperantobókunum í kringum okkur en réðum eina krossgátu úr Vísi áður og spurðum spilin (hennar Siggu Kling) áður en við ákváðum að fá okkur frekar 50 mínútna göngu meðfram sjónum í áttina að Gróttu og til baka. Ég spurði spilin hvort ég ætti að fara austur seinna um daginn og fékk Nei en  við hvort ég ætti að fara á sunnudeginum. Ég ákvað nú samt að "óhlýðnast" þar sem mér fannst á strákunum að þeir væru ekki alveg tilbúnir að koma með. Þar með fékk ég lengri tíma með foreldrum mínum.

Horfði með þeim á söngvakeppnina á laugardagskvöldið og við mamma skiptum einni hvítvínsflösku á milli okkar. Strax upp úr hádegi í gær réðumst við í kleinubakstur saman. Mamma sagði til um hráefnið og aðstoðaði mig við að setja súrmjólk og síróp eftir að ég var komin með hendurnar í hveitieggjarjóma fjallið og þurfti að passa upp á að ekki færi allt út um allt. Það lak reyndar smávegis niður á gólf en því var bjargað við áður en fór illa. Mamma snéri svo flestum kleinunum við þar sem ég flatti út og skar niður. Svo fékk ég að steikja. Kleinugerð lauk um þrjú og þá var mátulegt að hafa kaffitíma. Strax eftir kaffi labbaði ég rétt rúmlega 2 km hring í þorpinu á ca 25 mínútum.

6.5.16

Tíminn æðir áfram

Sleppti sundferð á þriðjudaginn var en var mætt rétt upp úr klukkan hálfsjö á miðvikudaginn og í gærmorgun var ég byrjuð að synda tuttugu mínútur yfir átta en þá var helgaropnunartími. Miðvikudagsmorguninn leið frekar hratt. Ákvað að lengja aðeins gönguleiðina í vinnuna og lagði af stað korter yfir tólf og var komin í á vinnustaðinn um 35 mínútum síðar. Við sem vorum á síðdegisvaktinni fórum inn á vél á slaginu eitt og náðum að framleiða um tólfhundruð kort áður en viðgerðarmenn komu í sitt mánaðarlega yfirferðartékk. Í staðinn notuðum við stöllur tækifærið og héldum áfram að yfirfara varahlutalagerinn (hálfsársuppgjör nokkuð tímanlega í því).

Fyrir utan sundferðina í gærmorgun brallaði ég ýmislegt hér heimavið. Stuttu fyrir fimm rölti ég svo upp í Háteigskirkju á vortónleika Valskórsins. Andrea Gylfadóttir söng einsöng með kórnum og dagskráin sett upp með svona EM-þema að leiðarljósi. Fínir tónleikar og klukkutíminn var alltof fljótur að líða. Þegar ég kom heim voru þrír vinir komnir og "spilakvöld" komið í gang í holinu. Strákarnir spiluðu til klukkan að ganga tólf en ég hafði afnot af stofunni og var örugglega ekki fyrir ungu mönnunum.

4.5.16

Skipti á vöktum í gær

Rétt fyrir hálfátta í gærmorgun stillti ég á mig gönguforritið og labbaði af stað í vinnuna. Hafði beðið eina úr deildinni að skipta við mig um vakt þar sem ég þurfti að mæta á fund milli fimm og sex. Vinnudagurinn, til klukkan fjögur, var mjög fljótur að líða. Ein hélt upp á tíu ára starfsafmæli og af því tilefni komu tvær í heimsókn í kaffitímanum úr K2.

Korter yfir fjögur stillti ég aftur á mig gönguforritið og labbaði úr vinnunni og að kirkju óháða safnaðarins áður en ég slökkti á því aftur. Hafði smá stund aflögu áður en fundur átti að hefjast og ég notaði þann tíma til að hringja aðeins í mömmu mína sem er stödd í heimsókn fyrir norðan hjá Helgu systur.

Fyrsti fundur eftir aðalfund safnaðarins var mjög góður. Að vísu vantaði tvo en það var fundarfært og nýr formaður hélt vel utanum taumana. Hann var búin að velja nýjan varaformann, þar sem hann var áður í því hlutverki, og skipa niður í helstu nefndir. Allt mjög sanngjarnt og ég hef það á tilfinningunni að næsti vetur verði ekkert síður skemmtilegur heldur en minn fyrsti í safnaðarstjórninni. Eftir fundinn var ég beðin um að taka með mér hluta af veitingum, sem í boði höfðu verið, til strákanna minna. Labbaði með þetta heim og í morgun sá ég að gönguforritið hafði ræst sig sjálft fyrir þessa tíu mínútna göngu.

3.5.16

Á seinni parts vakt

Þar sem ég átti ekki að mæta til vinnu fyrr en klukkan eitt í gær var ég mætt fyrir utan sundlaugina í Laugardalnum rétt um það bil sem var opnað eða um hálfsjö í gærmorgun. Sinnti sundpottarútínunni án þess að vera að flýta mér, sund, kaldur, heitur, kaldur, heitur, kaldur, sjópottur, gufa og sólbað.

Rétt fyrir níu lagði ég lánsbílnum á stæði við Lönguhlíðina rétt ofan við Skipholt og labbaði þaðan í K2. Fór beint upp á fimmtu hæð þar sem ég var skráð í tíma í heilsufarsmætingu korteri síðar. Notaði tímann til að spjalla við þá sem var í móttökunni en hún vann áður í kortadeild RB sl. tíu ár. Heilsufarsmælingin gekk líka svona glimrandi vel og fékk ég hrós fyrir góðan árangur sl. tvö ár. Eina sem sett var spurningamerki við var að kólestrólið mældist hærra en viðmiðunarmörk gefa upp og ég var beðin um að huga að því að fara í betri mælingu til að athuga hvort það væri góða kólestrólið sem væri svona yfirgnæfandi.

Eftir heilsufarsmælinguna labbaði ég að lánsbílnum og skrapp aðeins í VÍS til að athuga hvaða tryggingar væru enn "hangandi" á kennitölunni minni en ég var að skipta alveg yfir í Vörð um daginn eftir að hafa verið hjá VÍS í um tuttugu ár en með líf og sjúkdómatryggingar hjá Verði sennilega í um tíu ár. Ég fékk þau svör að um húseigenda- og bílskúrstryggingu væri að ræða og ég sem seldi skúrinn fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var svo hissa að ég þakkaði bara fyrir upplýsingarnar, kvaddi og fór heim. Setti mig svo í samband við þann sem sá um að tryggja mig fyrir hönd Varðar. Hann sagðist ekki geta sagt upp fyrir mig tryggingu nema ég væri að taka sambærilega tryggingu hjá þeim.

Þar sem ég fékk sms og e-mail frá blóðbankanum ákvað ég að rölta við hjá þeim áður en ég þyrfti að mæta í vinnuna um eitt. Það gekk allt saman vel fyrir sig. Að vísu var ég beðin um að "ota" hægri handleggnum oftar þegar ég kom síðast, sem ég þá gerði í gær en endirinn varð samt sá að það var tekið úr þeim vinstri. Mætti í vinnuna á slaginu eitt. Ekkert bólaði á verkefninu en í staðinn notuðum við tvær sem vorum frá eitt til sjö tækifærið og byrjuðum að telja varahlutalagerinn aftur. Svo kom upp smá mál sem tók smá tíma, fengum aðstoð við en var að setja á smá bið. Í millitíðinni skrifaði ég VÍS og sagði upp þessum tryggingum sem ég minntist á hér að ofan og fékk eiginlega afgreiðslu á núll einni. Það er meira að segja búið að fella út greiðsluseðilinn í einkabankanum mínum.

2.5.16

Hvað varð af apríl

Ja, hérna hér. Það er kominn maí og nokkrir dagar síðan ég setti síðast inn færslu. Eiginlega er ég ekki í skrifstuði en ætla samt að setja hér inn örfáar línur um sl. daga. Fjóra daga af fimm virkum dögum síðustu viku fór ég gangandi í og úr vinnu. Valdi fimmtudaginn til að fara á bílnum og strax eftir vinnu um þrjú (vann 7-15 alla síðustu viku) fór ég beint í Laugardalinn í sund. Eftir að ég kom gangandi heim úr vinnu á föstudaginn fékk ég synina í lið með mér og fórum við með þrjá stóra poka af flöskum á skilagjaldsstöð. Rétt rúmar þrettánhundruð krónur fór beint inn á reikninginn minn og svo bauð ég strákunum á Saffran.

Var mætt í laugina um átta á laugardaginn, til hárskerans míns klukkan tíu og norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Frá henni fór ég í Krónuna við Granda um eitt og verslaði. Fyllti tankinn á lánsbílnum á heimleiðinni. Oddur Smári sá um að ganga frá vörunum en ég henti í tösku og bjó mig undir að skreppa austur á Hellu. Kvaddi strákana upp úr hálfþrjú og var komin austur fimm korterum síðar, næstum því beint í kaffitímann. Pabbi leyfði mér svo að ákveða/velja hvað yrði í kvöldmatinn og það var úr að við höfðum saltkjöt. Fengum okkur smá hvítvín eftir matinn og horfði ég á "Alla leið".

Klukkan var ekki orðin átta þegar ég var komin á fætur á sunnudagsmorguninn. Pabbi var líka kominn á stjá. Seinna um morguninn skrapp ég í heimsókn til föðursystur minnar. Pabbi hafði kaffitímann í fyrrafallinu því ég hafði lofað strákunum að koma heim milli fjögur og fimm og lána þeim bílinn í skreppu í Mosfellsbæinn. Þar að auki var fyrsti heimaleikur minna manna í fyrstu umferð í Pepsí-deild karla. Ekki fór nú sá leikur nógu vel, en vonandi er fall fararheill!