31.12.13

Síðasti dagurinn á þessu ári

Ég verð að játa það að ég er eiginlega fegin að þetta ár er að kveðja en jafnframt er ég afar hissa á hversu hratt það leið þrátt fyrir allt og allt.  Ég stökk upp í strætó rétt upp úr hálfátta í gærmorgun og byrjaði á því að senda mér sms.  Vinnudagurinn leið hratt en það teygðist örlítið á honum.  Hringdi í annan tvíburann upp úr þrjú til að kanna hvort þeir bræður yrðu í mat.  Þá voru þeir eiginlega rétt ófarnir til pabba síns svo ég hitti þá ekkert.  Ég kom heim rétt fyrir fimm og byrjaði á því að kveikja á tölvunni.  Slapp við alla eldamennsku því ég átti afgang af túnfiskpastarétti frá því á sunnudaginn.  Horfði á fréttir og Dicte en fór svo í rúmið í fyrra fallinu.  Las um stund en var búin að slökkva á náttlampanum um ellefu.

30.12.13

Fyrsta limran mín

Ég vildi´ ég gæti limru samið
og andann yfir orðum tamið.
Það væri ei leitt,
ég kæmist í feitt.
Ég gæti mig alls ekki hamið.

Þessi  varð til þegar ég beið eftir strætó í morgun.  Um leið og ég var sest upp í vagninn pikkaði ég hana upp og sendi mér sms-skilaboð til að gleyma henni ekki.  Annars ætlaði ég nú bara að skrifa nokkur orð um gærdaginn.  Svaf ekki eins lengi frameftir og á laugardaginn en byrjaði daginn þó eins, á því að lesa.  Strákarnir lögðu stofuna og playtation tölvuna undir sig fram eftir degi.  Ég dundaði við ýmislegt annað, mest var ég þó í tölvuleikjum sjálf.  Var með matinn upp úr fimm og yfirtók svo sjónvarpið um sjö.  Sat fyrir framan skjáinn alveg til klukkan að ganga tólf. Ekki hafði ég rænu á að taka upp saumana mína þótt það hefði vel verið hægt amk yfir fréttum og "Orðbragði".

29.12.13

Síðasti sunnudagur ársins

Það sem ég gat sofið í gær og þegar ég vaknaði loksins byrjaði ég á því að taka mér bók í hönd, lá áfram upp í rúmi og las og las.  Ég held að klukkan hafi verið orðin tólf áður en ég skreið framúr, klæddi mig og bjó um.  Fljótlega var svo kveikt á tölvunni.  Um tvöleytið skutlaði ég Oddi í Hallarmúla tvö og beið eftir honum á meðan hann fór að sinna erindum í Tölvutek ehf.  Það var greinilega nóg að gera því það liðu þrjú korter áður en strákurinn kom aftur.  Dagurinn leið afar hratt.  Kannski ekkert skrýtið þegar hann byrjar svona seint hjá manni.  Tvíburarnir voru búnir að bjóða nokkrum vinum sínum með sér í bíó um kvöldið og lögðu frekar snemma í hann með þeim.  Ætlunin var að sjá þríviddarútgáfu af Hobbitanum í Egilshöllinni um tíu en þar var uppselt.  Þeir enduðu í Laugarásbíó á sýningu sem ekki var í þrívídd.  Ég horfði á fréttir og útsendingu frá kjöri íþróttamanni ársins 2013 og var mjög ósátt við úrslitin því mér fannst sú sem lenti í öðru sæti hafa skarað algerlega framúr og verið með bestan árangurinn.  Var hún of ung til að hljóta tiltilinn?  Var hún ekki af réttu kyni?  Var hún ekki í réttu íþróttagreininni?  Var það svo ekki Alfreð sem setti markamet í efstu deild? Og hvað með heimsmeistarann í spjótkasti?  Allir sem talað var við fyrir útnefninguna minntust á Anítu og hennar árangur.  Nei ég er ósátt við þessi úrslit og ekki svo viss um að ég muni fylgjast aftur með þessari seremoníu.  Ég er handviss um að ef það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla þá myndi þessi bráefnilega hlaupakona vinna, og hana nú.

28.12.13

Komin heim í bili

Bræðurnir voru búnir að biðja mig um að fara degi fyrr en ég hafði áætlað.  Þeir eru á leiðinni í bíó með nokkrum vinum sínum í kvöld og vildu hafa rýmri tíma til að skipuleggja það út í æsar.  Annar tvíburinn var líklega samt búin að sætta sig við að við færum heim í dag, laugardag.  Það var samt sá strákurinn sem vaknaði á undan.  Ég vakti hinn um eitt í gær og sagðist vildu fara fljótlega í bæinn þ.e. ef við ættum að fara fyrr á annað borð.  Endirinn varð sá að við kvöddum foreldra mína um hálfþrjú og vorum komin í bæinn um fjögur.  Strákarnir voru ekki fyrr komnir heim er þeir stormuðu út í Kringlu og svo þaðan til eins vinar síns.  Ég sá þá ekki aftur fyrr en seint í gærkvöldi.  Ég skrapp í Sunnubúð og keypti mjólk og brauð.  Ekki tók ég upp saumana mína og ég kveikti heldur ekki á tölvunni en dagurinn leið engu að síður við annars konar dundur, mestmegnis fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

27.12.13

Frídagur

Borðuðum öll saman fyrir klukkan eitt í gær.  Sumir voru búnir að borða fyrr um morguninn en aðrir voru nývaknaðir.  Eftir fráganginn kenndi pabbi okkur bingó með spilum en eftir nokkrar umferðir fóru systir mín og fjölskylda í eina jólaheimsókn.  Við mæðgin héldum eitthvað áfram og pabbi bingóstjóri sem fyrr.  Dagurinn leið annars afar hratt.  Ég er með saumana mína með mér en hef ekkert snert á þeim, aðeins lesið, vafrað um á neti, spilað netleiki, drukkið kaffi og spjallað.

26.12.13

Annar í jólum

Birtan undurfalleg er
ég dáleidd horfi á.
Tímanum ég viljug ver
við lestur svei mér þá.
 
Eins gott að pabbi var búinn að taka það fram að ég mætti kveikja á tölvunni þegar ég vildi.  Andinn kom nefnilega yfir mig og ég er með slökkt á gemsanum svo ekki get ég sent mér sms með andagiftinni.  Gærdagurinn leið afar hratt.  Vorum með brunch um hálftvö.  Mamma setti upp hangiket um þrjú þar sem hún ætlaði bæði að vera með heitt og kalt.  Ég sá um kartöflurnar og uppstúfinn og Helga um að leggja á borð með krökkunum.  Gestirnir komu um hálffimm og það var borðað um sex.  Eftir matinn voru sýndir nokkrir skautadansar með frænkum mínum og fleirum þar sem þær tóku þátt í hópsýningum.  Svo var boðið upp á möndluís og var það Hulda sem fékk möndluna.  Á einum tímapunkti voru sú elsta og yngsta að ræða mikið saman og það var yndislegt að fylgjast með þeim samskiptum.

25.12.13

Gleðilega hátíð!

Auðvitað stóðst ég ekki mátið að setja inn nokkrar línur í dag en fyrst og fremst ætla ég að deila eldhúsmyndinni sem ég saumaði handa mömmu í vor.  Gærdagurinn var annars afar notalegur og skemmtilegur í alla staði.  Það var svolítið erfitt fyrir þá allra yngstu að bíða eftir að hægt væri að opna pakkana, svo erfitt að hún hafði ekki mikla matarlyst.  En mágur minn var búinn að standa vaktina í eldhúsinu í marga klukkutíma (rjúpur, tveir hryggir og tvenns konar sósur og fl.) og við systur útbjugum epla og perusallatið svo við eldri kynslóðin vildum njóta þess að borða.  Systurnar fengu að opna einn pakka hvor frá öðrum tvíburanum en svo fékkst sú stutta til að fara inn í herbergi og horfa á eitthvað með pabba sínum á meðan við feðgin gengum frá eftir matinn.  Pakkarnir voru á annað hundrað og fékk sú stutta mest eða 25 pakka.  Það tók næstum þrjá tíma að lesa á, útdeila og opna pakkana enda opnaði oftast bara einn í einu, stundum tveir eða tvær ef viðkomandi voru að fá mjög svipað.  Á eftir var hellt upp á kaffi og jólakortin lesin.

24.12.13

Gleðileg jól

Var ekki viss hversu mikið verk yrði að sópa og skafa af lánsbílnum í gærmorgun svo ég fór út úr húsi áður en klukkan sló hálfátta.  Ég var nú ekki lengi að hreinsa bílinn og því komin langfyrst í vinnuna eða tuttugu mínútum fyrir átta.  Hlóð inn fyrstu framleiðslu dagsins en svo kom sú sem var með það hlutverk að troða í.  Ég var í móttökunni fram að kaffi.  Í hádeginu fór ég upp í mötuneyti seðlabankans og fékk mér skötubita.  Tók svo við að troða í vélina til klukkan hálftvö en þá var ég búin að fá frí.  Kom við og fyllti á bílinn á AO-stöðinni við Flugvallarveg.  Strákarnir voru tilbúnir svo við hlóðum bílinn og lögðum af stað.  Komum við á einum stað í Grafarvogi að taka pakka sem við skiluðum af okkur í Fossheiðinni á Selfossi.  Svo stoppuðum við um klst. á öðrum stað í Fossheiðinni og afhentum kort og smápakka.  Vorum komin á Hellu um fimm.  Tveimur tímum seinna fórum við öll mæðginin með pabba og Ingva mági og fengum okkur skötu í Kanslaranum.
 
Ég sendi mínar allra bestu jólakveðjur til minna tryggu lesenda.  Á þessari stundu er ekki vitað hvort um einhverra daga blogghlé verður að ræða eða hvort ég setji inn pistil strax á morgun.  Farið vel með ykkur.  Knús!

23.12.13

Þorláksmessa

Og svo bara nokkrir punktar um gærdaginn.  Var aftur snemma á fótum.  Náði að afkasta heilmiklu og líka að slaka vel á.  Skrapp aðeins í Hagkaup í Skeifunni því mig vantaði nokkra hluti og svo var pabbi búinn að biðja mig um að kaupa stærri gerðina af danskri lifrarkæfu.  Dagurinn leið afar hratt en ég náði samt í rúmið fyrir miðnætti.  Aftur á móti las ég aðeins lengur en til tólf.

22.12.13

Nú fer daginn að lengja aftur

Ég var tiltölulega snemma á fótum í gærmorgun, komin framúr fyrir níu en vöknuð löngu fyrr.  Lauk við að ganga frá og skrifa í síðustu tvö saumuðu jólakortin og skrifaði kveðju á esperanto inn í það þriðja og allra síðasta.  Allt í allt skrifaði ég 39 jólakort.  Pakkaði einnig inn þremur smápökkum sem fylgja eiga jólakortunum.  Um hálfellefu renndi ég við með eitt jólakort til Nonna og starfsfólks hans í Kristu Quest.  Þaðan fór ég svo beint til esperanto vinkonu minnar.  Hún hafði hringt í mig kvöldið áður og beðið um að ég kæmi ekki með bækurnar, gætum frekar notað þær sem eru hjá henni.  Þegar til kom kíktum við ekkert í bækur.  Uppeldisfaðir mannsins hennar var í heimsókn.  Fengum okkur graut og kaffi og spjölluðum.  Ég stoppaði í tæpan klukkutíma.  Þá fór ég aftur heim, óþarfi að versla inn þar sem strákarnir voru að fara til pabba síns og við mæðginin förum austur eftir hádegi á mánudaginn.  Bræðurnir voru ekki farnir heldur léku sér í tölvunni inn í stofu.  Ég fór aftur um hálftvö til að skila af mér þremur kortum og tveimur smágjöfum.  Fór fyrst til nöfnu minnar og frænku í Garðabænum.  Hún var að undirbúa sörubakstur.  Stoppaði samt stund hjá henni og fékk kaffi og smakk af nokkrum smákökusortum.  Ég stoppaði líka smá stund á næsta viðkomustað en á þeim þriðja og síðasta var enginn heima svo kortið fór bara í lúguna og ég heim.  Þá var klukkan að byrja að ganga fimm og strákarnir ekki farnir.  Þeir voru samt að gera sig klára og voru sóttir rétt strax.  Ég fór fljótlega í það að pakka inn öllum jólagjöfum, utan eina en ég fann bara helminginn af henni, var víst ekki búin að kaupa hinn helminginn.  Seinna um kvöldið horfði ég á Barnaby á DR1 og var svo skynsöm að koma mér í rúmið fyrir ellefu.  Las að vísu smá en ég var örugglega sofnuð fyrir miðnætti.

21.12.13

Tek því nokkuð rólega

Var á bílnum í vinnunni í gær eins og flesta föstudaga.  Skrapp í K2 rétt upp úr hádegi í smá viðtal.  Stæðin á neðra planinu voru auðvitað öll full er ég kom til bara svo ég lagði í gjaldstæði.  Fyrir 200 kr. mátti bíllinn vera þar alveg til klukkan langt gengin í sex.  Ég fór þó strax upp úr fjögur enda vinnudagurinn búinn þá.  Hirti Odd Smára upp heima fyrir hálffimm og hann kom út með bókasafnspokann.  Hafði aðeins tvær bækur til að skila en skilafresturinn á annarri var að renna út og í stað þess að endurnýja útlánið um mánuð kom ég við í Kringlusafninu fyrst það var tími til þess.  Skilaði Oddi af mér í Mjóddinni og notaði tímann á meðan hann var að spila með skólalúðrahljómsveit Árbæjar og Breiðholts til að renna upp í efri byggðir með kort til einnar vinkonum minnar sem líka er í saumaklúbbnum.  Stoppaði hjá henni í rúman hálftíma.  Sótti Odd aftur um sex og kom einn vinur strákanna með okkur þar sem þeir ætluðu þrír að panta sér pizzur saman og hafa gaman hér heima um kvöldið.  Strákarnir lögðu stofuna undir sig svo ég vafraði bara um á netinu og spilaði ýmsa netleiki.

20.12.13

Alltaf eitthvað

Strætóbílstjórinn í gærmorgun var mjög röskur.  Hann var aðeins á undan áætlun svo ég þurfti ekki að bíða mjög lengi á stoppistöðinni fyrir utnan Sunnubúð.  Bílstjórinn beið í mínútu við Kjarvalsstaði og aðra á Hlemmi en samt var ég að stimpla mig amk þremur mínúturm fyrr inn en oftast þegar ég tek strætó til vinnu.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega.  Vikan leið eiginlega svo hratt að mér fannst endilega að það væri kominn föstudagur á tímabili í gær. Ein sem vinnur með mér hafði komið með þá hugmynd að hafa einhvers konar morgun "brunch" og við hinar komum flestar með eitthvað í púkkið.  Amerískar pönnukökur steiktar á staðnum, beikon, sveppi, egg, sýróp og nýkreystur appelsínusafi.  Vélin ákvað að ganga í lið með okkur og var eitthvað ósamvinnuþýð þegar byrja átti debetframleiðslu dagsins um hálftíu.  Á meðan hópstýran okkar reyndi að tjónka við vélina gátum við hinar fimm borðað morgunmatinn saman.

Stökk upp í næsta strætó og bað um skiptimiða þegar vinnu lauk.  Fór úr á Hlemmi og skrapp yfir í Hárhornið með nokkrar vikur, eitt jólakort og síðast en ekki síst afmælisknús á tengdapabba systur minnar, Torfa.  Þurfti svo bara að bíða í um hálfa mínútu eftir 13 til að komast heim.

Þegar heim kom lagði ég frá mér bakpokann og setti seðlaveskið mitt í handtöskuna mína.  Tilkynnti strákunum að ég ætlaði að heimsækja Blóðbankann.  Ég fékk semsagt annað sms-ið á viku og hugsaði sem svo að þá hlyti ég að mega gefa.  Ætlunin var reyndar að mæta fljótlega á nýju ári en úr því verið var að "kalla" á mig ákvað ég að svara því kalli.  Blóðbankinn er sextugur í ár og í kaffistofunni var þessi líka fína afmælisterta.  Ég fékk mér reyndar bara djús, kleinu og rúsínur, var mjög södd þrátt fyrir að hafa ekki borðað síðan um eitt.  Hjúkrunarfræðingurinn sem tók hjá mér blóðið sagði að ég mætti enn bara gefa á fimm mánaða fresti en ég er viss um að það breytist eftir 2-3 gjafir enn.  Á leiðinni heim eftir blóðgjöfina kom ég í við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg því það var 12 kr. afláttur.  Á einni viku var ég samt ekki búin að nota nema rúmlega 8 lítra síðan ég fyllti síðast á lánsbílinn.

19.12.13

Það styttist til jóla

Ég er alveg róleg þótt tíminn sé eitthvað að "hlaupa" hraðar.  Ég er nefnilega næstum búin að skrifa á öll jólakort og senda í póst þau sem ég kem ekki sjálf út.  Kíkti á Hlíbbu mína í gærkvöldi með jólakortið til hennar og dóttur hennar og mannsins hennar.  Gaf mér góðan tíma með gömlu konunni og stoppaði alveg í tvo tíma.  Höfðum um margt að spjalla og horfðum svo saman á Kiljuna.  Áður en ég fór heim kom ég við í Hagkaup í Skeifunni að kaupa meiri jólapappír og öráa hluti sem mig vantaði.  Held ég hafi meira að segja verið að kaupa síðustu jólagjafirnar.  En í Hakaup hitti ég konu sem ég kynntist í gegnum DKR starfið.  Hef ekki hitt hana í meira en ár en hún var búin að frétta um breytingarnar í mínu lífi og hún gaf mér svo gott knús en sagði jafnframt að ég liti bara vel út.  Hún eins og svo margir aðrir höfðu á orði hversu vel ég tæki á hlutunum.  Það var gott að fá þetta knús og hrós, það hjálpar alveg helling.

18.12.13

Hundraðsextugastaogníunda færslan á árinu

Orðin nota til að tjá mig
táknað margt þau geta.
Að æfing geti borgað sig
aðrir verða´ að meta.


ÉG gleymdi alveg að segja frá því í gær að ég skrifaði utan á öll umslög fyrir þau kort sem ég ætlaði og átti eftir að skrifa í fyrrakvöld.  Það er svo mikið frá þegar búið er að merkja umslög með nöfnum, heimilisföngum og póstnúmeri.  En eftir nokkuð annasaman vinnudag í gær lá leiðin á pósthúsið í Síðumúla því ég var á bíl eins og flesta þriðjudaga.  Keypti þrjú frímerki til evrópu og svo slatta af frímerkjum á jólapóst innanlands, eiginlega aðeins of mörg því ég set ekki öll kort í póst og er þar að auki búin að grisja listann.  Þegar ég kom heim beið Helga systir fyrir utan.  Ég vissi að hún væri á leiðinni en strákarnir voru ekki heima og hún kom rétt á undan mér.  Hún gaf sér tíma til að drekka með mér smá kaffi.  Þegar hún fór setti ég upp bygggrjón, hrærði í hina uppáhaldssmákökuuppskriftina en byrjaði á því að setja kjúklingabringur í ofninn.  Einn vinur strákanna kom í heimsókn þegar smákökuplata tvö af þremur var í ofninum og hann hafði á orði að það væri góð lykt í eldhúsinu.  "Já, það var kjúklingur í matinn", sagði annar tvíburinn.  "Nei, það er svona bökunarlykt sem ég finn", sagði þá vinurinn.

Um áttaleytið skrapp ég í Kringluna og kláraði smá innkaup, eða fór mjög langt með þau.  Kom heim upp úr hálftíu og hugsaði mér að ég ætti að geta skrifað slatta af kortum á rúmum klukkutíma.  Sá klukkutími fór þó út um gluggann því ég byrjaði ekki að skrifa fyrr en um ellefu.  Náði að skrifa hátt í tíu kort á þremur korterum.  Setti líka frímerki á öll umslögin sem fara í póst.  Enn og aftur var klukkan orðin meira en tólf þegar ég skreið upp úr rúm og auðvitað las ég í smástund áður en ég bað bænirnar mínar og fór að sofa.

17.12.13

Reyni að komast í smá jólakortaskrifgír

Nóg var að gera í vinnunni næstum alveg til fjögur í gær.  Notaði strætó báðar leiðir, upp úr hálfátta um morguninn og rétt rúmlega fjögur heim seinni partinn.  Byrjaði á því að hella upp á könnuna því ég átti von á móðursystur minni.  Hún kom reyndar ekki fyrr en stuttu fyrir sjö um það leyti sem spilafélagar tvíburanna voru að mæta á ca vikulegt spilakvöld hingað.  Þeir lögðu undir sig holið en við Gunný sátum yfir kaffibollum og spjalli í stofunni auk þess sem við fylgdumst með fréttum, Kastljósi og Nigellu.  Þegar frænka mín fór horfði ég á Dicte, settist aðeins við tölvuna og las svo í smá stund eftir að ég skreið í koju þótt klukkan væri um miðnætti.

16.12.13

Hádegispásan notuð vel

Ég held að klukkan hafi verið byrjuð að ganga ellefu þegar ég drattaðist loksins framúr í gærmorgun. Reyndar var ég þá búin að fara í sturtu og smyrja á mig gel.  En svo gaf ég í.  Lauk við þriðja og síðasta jólabréfið, á bara eftir að skrifa kortin með þeim og utan á umslög, skrifaði fimm jólakort og bakaði eina smákökusort, lakkrístoppa.  Upp úr hálffjögur vorum við mæðginin mætt til móðursystur minnar sem býr í vesturbænum þegar hún er á Íslandi.  Við vorum fyrst á staðinn og ég bauð fram aðstoð og fékk að smyrja nokkrar flatkökur.  Tveir bræður mömmu, börn þeirra, önnur mágkonan og tveir bróðursynir mömmu, annar með mömmu sinni (jafngamall tvíburunum) og hinn með alla þrjá syni sína mættu líka.  Þarna afhenti ég öll fimm jólakortin sem ég var búin að skrifa.  Glatt var á hjalla og tíminn var ekkert að láta bíða eftir sér.  Við strákarnir komum heim rétt fyrir sjö.  Oddur Smári og ég gerðumst tímaflakkarar á DR1-stöðinni og horfðum á "Inspector Morse".  Svo horfði ég á Downtown Abbey áður en Oddur kom aftur og horfði með mér á Law and order, special victims unit.  Að þessu loknu settist ég of lengi við tölvuna en þótt klukkan væri um hálfeitt þegar ég skreið upp í rúm þá las ég örugglega í einar fimmtán mínútur í bók sem heitir "Skipafréttir".  Áhugaverð skáldsaga af safninu.

15.12.13

Gaman, gaman!

Var komin á fætur upp úr níu í gærmorgun.  Lauk við fyrsta jólabréfið og byrjaði á öðru.  Skrapp til esperanto vinkonu minnar um ellefu og stoppaði þar í á annan tíma.  Vorum duglegar að lesa.  Fórum yfir þá kafla sem við lásum síðast og lásum tvo í biðbót.  Seinni kafli dagsins var reyndar tveggja erinda ljóð um hvíta máva sem fljúga hátt yfir sjónum.  Áður en ég fór aftur heim kom ég við í Krónunni úti á Granda og verslaði inn.  Var með bakstur í huga en engan sérstakan lista.  Davíð Steinn hellti upp á kaffi fljótlega eftir að ég kom heim og færði mér í bolla merktum: "Til bestu mömmu í heimi!"  Kaffið var sterkt og gott og hugulsemin iljaði mér.

Um átta var ég mætt í hús eitt í Fossvoginum þar sem ég hitti marga af kórfélögum mínum.  Smakkaði aðeins á jólaglögginni en þar sem ég var á bíl drakk ég bara uþb hálfan bolla og hélt mig svo við vatnið það sem eftir lifði kvölds.  Ekki var lagið tekið þótt við værum þarna í öllum röddum en það klikkaði ekki að Kristinn var með pistilinn sinn góða sem alltaf byrjar á nokkrum fimmaurabröndurum áður en hann fer yfir það helsta sem búið er að gerast á árinu með kórnum á æfingum og í messum.  Tíminn flaug og um miðnætti kvaddi ég og mér sýndist þá koma hreyfing á flesta aðra gesti.  Einkar notaleg og skemmtileg kvöldstund með frábæru fólki.

14.12.13

Jólasnjórinn kominn?

Á tímabili í gær leit út fyrir að ég yrði að sinna deildinni minni ein milli tvö og fjögur í gær.  En sem betur fer þá ákvað hópstjórinn minn að koma aftur eftir nokkur erindi.  Hún hafði verið að spá í að koma ekkert aftur en þar sem það er nóg af verkefnum þessa dagana, og vélin gengur allan daginn þá verða eiginlega að vera tvær að vinna.  Tvær af hinum hætta klukkan tvö á föstudögum og önnur hinna var lasin og hin varð að sinna félagsstörfum í K2.  En strax eftir vinnu fór ég með lánsbílinn og lét smyrja hann á olíssmurstöðinni við Klöpp.  Bað þá um að yfirfara allt, einnig nota tækifærið og setja á hann rúðupiss og athuga með viftureimina.  Svo skrapp ég inn í verslunina og fékk mér kaffi.  Ég hafði rétt náð að drekka svona fimm sopa þegar mér var tjáð að bíllinn væri tilbúinn.  Var látin vita að viftureimin væri að komast á tíma eins og mig og pabba hafði grunað.  Næst lá leiðin að Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg.  Hafði fengið sms-tilkynningu um að það væri 13 kr. afsláttur af lítranum.  Það komust ekki nema 15 lítrar á bílinn.  Þá var tankurinn fullur en allt telur þetta.  Síðan fór ég heim.  Byrjaði að skrifa fyrsta jólabréfið, það bréfið sem er á ensku.  Ákvað að handskrifa það.  Komst á nokkuð flug en kláraði þó ekki.  Þrátt fyrir að hafa séð "Legally blond" og "Die hard" áður þá festist ég yfir þessum tveimur myndum í gærkvöldi.

13.12.13

Kaffihlé

Lista´ upp það sem gera þarf
þetta verður æði.
Á kortin skrifa, mikið starf
sinna mun í næði.

Enn gríp ég tækifærið, ein í kaffipásu í vinnunni.  Þegar ég var á leiðinni heim úr vinnu í gær hringdi ein vinkona mín (föðursystir) í migm sem ég var búin að lofa að passa fyrir og sagði að það væri leiðinleg færð í efri byggðunum.  Hún sagðist því ætla að láta sækja mig og skutla mér svo aftur heim eftir passið.  Ég þáði það auðvitað með þökkum.  Hafði tæpa tvo tíma heima sem ég notaði mest megnis í tölvuleiki.  Davíð Steinn hafði skroppið á KFC með vinum sínum en ég sauð kartöflur og steikti slátur handa okkur Oddi um hálfsex. Ég var sótt rúmum hálftíma seinna og fékk trommarinn far með að Hilton Hóteli þar sem hann átti að spila með skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts.

Börnin tóku fagnandi á móti mér.  Nú eru þau bæði steinhætt að vera feimin við mig.  Strákurinn sem verður fimm ára á gamlársdag er mikill pælari og þarf orðið mikið að segja mér sem er bara yndislegt.  Svo þarf ég ekki annað en að segja þeim að nú sé tími til að tanna og fara í rúmið og þau hlýða því á stundinni. Strákurinn bað mig um að lesa stafakarlana áður en hann fór að sofa en ég þurfti bara að breiða yfir systur hans.  Var með bók með mér en fór líka á netið.  Tíminn leið afar hratt.  Mér var skutlað heim aftur rétt fyrir hálfellefu.

12.12.13

Fljúga dagar

Ég var að alveg til klukkan fjögur í vinnunni í gær, með kaffi og matarpásum þó.  Stökk svo beint upp í strætó númer 13 sem stoppar hér á horninu milli Máva- og Drápuhlíðar.  Strákarnir voru að fara að fagna próf og annarlokum með pabba sínum svo ég slapp við alla eldamennsku.  Fór út að sópa af bílnum upp úr sjö og var mætt á kóræfingu upp í kirkju áður en klukkan varð hálfátta.  Við æfðum "Bjarnatónið", Messu á aðvangadagskvöld og messu á jóladag.  Einnig sungum við tvo sálma í röddum, "Í dag er glatt" og "Heims um ból".  Á æfinguna mætti ein sem tók sér pásu eftir sextán ára veru í kórnum sl. vor.  Hún ákvað að taka þátt í jólamessunum með kórnum en ætlar sér samt ekki að byrja aftur.  Kom heim upp úr hálftíu, rétt á eftir strákunum.  Einhverju seinna horfði ég á Kiljuna á tímarásinni.  Klukkan var orðin meira en tólf er ég skreið upp í rúm.  Las samt nokkra kafla í bókasafnsbók áður en ég sveif inn í draumalandið.

11.12.13

Ellefu, tólf, þrettán

Já, í dag er ellefti dagur tólfta mánaðar árið tvöþúsundogþrettán.  Var fólk örugglega ekki að fylgjast með þegar klukkan var fjórtán fimmtán?  Eftir vinnu í gær kom ég við á aðalborgarbókasafninu í Grófinni.  Skilaði fjórum bókum og tók örugglega sex bækur í staðinn.  Annars frestaði ég jólabakstrinum til næstu viku.  Davíð Steinn var að læra undir síðasta prófið í gær og gærkvöldi svo ég sat með saumana mína fyrir framan íþróttarásina.  Fylgdist með bikarleik karla milli efstu deildar liðsins Fram og fyrstu deildar liðsins Aftureldingar og lauk við að sauma sjötta jólakortið.  Á reyndar eftir að strauja myndirnar og festa inn í kortin.  Þau verða reyndar sennilega bara fimm því ég gaf mömmu eitt.  En það er ekki útséð með að ég saumi líka áttunda kortið, þriðja jólaálfinn því ég er ekkert svo lengi með eina svona krúttlega mynd.  Annars fóru handboltaleikar þannig að Afturelding hafði sigur á fram.  Aldrei þessu vant var ég svo komin í rúmið rétt upp úr ellefu og var hætt að lesa nokkru fyrir miðnætti.

10.12.13

Nógur tími

Annar sonur minn tók síðasta prófið á önninni í gær en hann þurfti heldur ekki að taka nema tvö núna í desember.  Hinn fer í fimmta og síðasta prófið sitt á morgun.  Það kom sér vel að hafa gripið tækifærið í kaffipásunni seinni partinn í gær.  Ég var beðin um að vera lengur og vann til klukkan að verða átta.  Þá tók ég strætó heim.  Vafraði aðeins um á netinu áður en ég settist fyrir framan imbann um níu með popp sem Oddur hafði poppað fyrir mig.  Um tíu hætti ég sjónvarpsglápi og hellti mér upp á smá kaffi.  Drakk amk þrjá bolla og vafraði um á netinu til miðnættist.  Þá skreið ég upp í og las nokkra kafla í seinustu ólesnu bókinni af safninu.

9.12.13

Í nógu að snúast

Aftur nota ég tækifærið og set inn daglega færslu í kaffipásu á vinnutíma.  Mikið var að gera í gær.  Var komin á fætur milli níu og tíu og dútlaði ýmislegt framundir hádegi.  Rétt fyrir eitt setti ég pakka af óskornu og ósteiktu laufabrauði, tvo hnífa, ostaköku, bretti og svuntu í poka og hélt af stað í Garðabæinn til einnar frænku minnar og nöfnu.  Ég var rétt ókomin til hennar er hún náði sambandi við mig og bað mig um að koma við í verslun og kaupa feiti.  Þrátt fyrir þennan smákrók var ég fyrst á staðinn og við frænkur vorum byrjaðar að skera áður en bróðir hennar, mágkona og móðir mættu.  Ég var ekki lengi að skera í 20 kökur.  Fékk reyndar smá hjálp frá elsta meðlimnum, konu sem komin er á nítugasta og annað árið.  Þegar ég var búin með mínar kökur skar ég í nokkrar fyrir frænku mína.  Minn stafli og einn til voru svo steiktir fyrstir áður en sest var niður og fengið sér kaffi og með því.

Ég kom heim upp úr hálffimm, tæpum klukkutíma áður en ég átti að vera mætt í kirkjuna.  Setti nóturnar, sem ég var búin að raða inn í rétta röð, í svarta möppu, skipti um föt og tók með mér spariskóna.  Kyrjurnar voru að hita upp og æfa þegar ég mætti í kirkju óháða safnaðarins rétt fyrir hálfsex.  Kórstjóri Kyrjanna hitaði okkur svo upp áður en við renndum yfir lög kvöldsins.  Klukkan sjö var pása og um klukkustund síðar byrjaði aðventukvöldið.  Árni Heiðar var að vísu búin að spila nokkur lög á nýjan flygil í uþb korter áður en dagskrá hófst.  Kirkjan var alveg full og það þurfti að bæta við stólum.  Kyrjurnar byrjuðu og sungu þrjú lög.  Þegar við hin bættumst í hópinn var kveikt á tveimur kertum á aðventukransinum og sungin viðeigandi erindi með.  Eftir þrjú lög dró allur kórinn sig í hlé og Gissur Páll söng.  Þá var komið að Andra Snæ Magnasyni að vera með smá hugvekju.  Síðan söng kórinn Ave María (Kaldalóns) með Gissuri Páli og Vögguljóð Maríu (án tenórsins) við undirleik Árna og undir stjórn stjórnanda Kyrjanna.  Gissur Páll söng svo eitt lag áður en fermingabörnin söfnðuðust fyrir framan gráturnar í smá bæn þar sem þau fengu svo ljós á kertin sín, gengu út í kirkju og gáfu kirkjugestum og okkur kórfélögum ljós áður en risið var á fætur og endað með því að syngja "Heims um ból".  Afar notaleg kvöldstund og svo var hægt að fá sér kaffi eða öl og smákökur í báðum sölunum á eftir.

8.12.13

Daglega færslan

Ég var komin tiltölululega snemma á fætur í gærmorgun.  Bloggaði og vafraði svo um á netinu þar til klukkan var um hálfellefu.  Þá tók ég til esperantobækurnar mínar og lagði í hann til norsku esperanto-vinkonu minnar.  Nú brá svo við að hún var ekki komin heim.  Dóttir hennar vaknaði við dyrasímann og hleypti mér inn.  Það leið nokkur stund áður en Inger kom heim en Hinni hafði þurft að reka smá erindi eftir morgunleikfimina áður en hann keyrði konu sína heim.  Ég beið bara róleg eftir henni og dóttir hennar hélt mér selskap á meðan.  Þegar Inger kom svo byrjaði hún á því að setja upp graut og hella á könnuna.  Við vorum svo nokkuð duglegar í esperantogrúskinu.  Fórum yfir það sem við lásum síðast.  Lásum tvo kafla og renndum einnig yfir orðin sem tilheyra kaflanum sem við lesum næst.

Fór og verslaði í Krónunni eftir esperantolesturinn.  Oddur Smári gekk frá vörunum.  Svo fór dagurinn í ýmislegt annað heldur en ég var búin að hugsa mér.  Hafði ætlað mér að skrifa nokkur jólakort og jafnvel eitt til tvö af þremum árlegum jólabréfum.  En ég fékk mig ekki til að setjast niður við þessi verk.  Það er heldur ekkert hundrað í hættunni þótt ég byrji ekki á þessu alveg strax.  Endaði daginn á því að horfa á Barnaby á DR1 og lesa svo nokkra kafla í Reisubók Guðríðar.

7.12.13

Á jólatónleikum í Salnum

Lánsbíllinn fór í gang í annarri tilraun í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið afar hratt enda var ég að alveg frá klukkan rétt fyrir átta og þar til klukkan fjögur fyrir utan matar og kaffipásur.  Fór beint heim eftir vinnu.  Strákarnir voru að undirbúa vikulegt spilakvöld svo ég þurfti ekki að hugsa fyrir mat.  Um hálfátta klæddi ég mig í sparilegri föt og dreif mig svo yfir í Salinn í Kópavogi.  Þar voru Gissur Páll Gissurarson og Árni Heiðar Karlson með jólatónleika og gestur þeirra Valgerður Guðnadóttir var gestur þeirra og söng nokkur lög með Gissuri og nokkur lög ein.  Gissur og Árni Heiðar byrjuðu mjög formlega en eftir fyrsta lagið var Gissur með mjög líflegar kynningar á milli laga og Vala kynnti sín lög einnig mjög skemmtilega.  Það er skemmst frá því að segja að tíminn flaug.  Ég var heilluð af söngnum og fannst mér lagavalið mjög skemmtilegt og á milli laga hló ég stundum svo mikið að ég fékk verk í magann.  Og þrátt fyrir að vera á móti fjöldasöng þá bauð Gissur öllum gestum sem gátu að standa upp eftir uppklappið og syngja með þeim "Nóttin var sú ágæt ein".  Þeir félagar hafa unnið saman síðan 2008 og þetta eru ekki fyrstu jólatónleikarnir þeirra.  Og þeir sögðust hlakka til að hitta okkur árlega næstu tæplega áttatíu árin.

6.12.13

33:25

Allar stundir einset mér
að horfa fram á veginn.
Eins ég botna stökur hér
og andinn verður feginn.

Enn ein vinnuvikan liðin og framundan annasöm helgi, amk sunnudagurinn.  Var svo heppin í gær að fá far heim eftir vinnu.  Hafði hakk og spakk í kvöldmatinn en það er nokkuð langt síðan ég hafði svoleiðis síðast.
Um sjöleytið labbaði ég af stað á heimaleik í olísdeild karla í handbolta.  Lánsbíllinn var fyrir utan hús númer 1 í götunni og ég ákvað að fara á honum og reyna að fá stæði nær eftir leikinn.  Bíllinn fór hins vegar ekki í gang svo ég labbaði á leikinn.  Framan af leik leist mér ekkert á blikuna en það munaði þó ekki nema einu marki gestaliðinu ÍR í lið þegar flautað var til hálfleiks.  Seinni hálfleikur var mun betur spilaður af Valsstrákunum og þeir náðu fljótlega undirtökunum. jöfnuðu og sigu framúr.  Átta marka sigur var staðreynd þegar lokaflautan gall.  Reyndi aftur að ræsa lánsbílinn á leið heim frá leiknum og það tókst í fjórðu eða fimmtu tilraun.  Ekkert stæði var nálægt húsinu mínu svo ég stalst til að leggja fyrir aftan heilsugæsluna vitandi það að ég yrði búin að fjarlægja bílinn þaðan fyrir átta í morgun. 

5.12.13

Æft með Gissuri Páli

Vinnudagurinn í gær leið afar hratt.  Mest var að gera í gærmorgun og aðeins framyfir hádegi.  Var komin heim fyrir hálffimm og fór beint í að vafra aðeins um á netinu.  Strákarnir fóru til pabba síns svo ég slapp við að elda.  Fékk mér bara sjóðandi vatn út á haframjöl með rúsínum, musli, kasjuhnetum og kanil útá.  Lagði af stað á kóræfingu í fyrrafallinu.  Þurfti að sópa smá snjó af hluta af lánsbílnum og skafa framrúðuna að utan og innan.  Svo var svo kalt að það tók nokkrar tilraunir að fá bílinn í gang og til að ganga.  Kyrjurnar voru mættar og byrjaðar að æfa sín lög.  Stjórnandi þeirra hitaði okkur hin upp áður en við byrjuðum svo að æfa rétt upp úr hálfátta.  Eftir eina og hálfa klukkustund fórum við í smá kaffipásu.  Við vorum nýbyrjuð aftur þegar Gissur Páll mætti og fór tvisvar yfir lagið sem við ætlum að syngja með honum,  Ave María í útletningu Sigvalda Kaldalóns.  Kom heim aftur upp úr tíu og fékk ekkert stæði nema í hinum endanum á götunni við hús númer 1.  Lagði bílnum þar.  Fljótlega eftir að ég kom inn horfði ég á Kiljuna á tímarásinni, gleymdi mér svo aðeins á netinu og var því að lesa til klukkan hálfeitt eftir að ég fór upp í rúm um miðnætti.

4.12.13

Greip tækifærið

Er ein í mat, búin að borða, með kaffi í bolla og uþb tuttugu mínútur þar til matartíminn minn er búinn. Auðvitað greip ég tækifærið fyrst það er komin tölva í kaffistofuna með aðeins meiri aðgang að ýmsum hlutum heldur en tölvan á skrifborðinu mínu, og nýti mér tímann og einveruna til að punkta niður smávegis um gærdaginn.

Notaði lánsbílinn í ferðirnar milli heimilis og vinnu í gær.  Ætla mér að halda mig við þriðjudaga og föstudaga sem bíladaga út árið nema eitthvað komi uppá.  Hvorugur strákurinn var í prófi í gær og þeir voru ekki komnir fram er ég fór á stjá í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega.  Erum að bíða eftir ákveðnu verefni sem við ættum að vera að vinna að alla seinni parta á þessu tímapunkti.  Verkefnið kom ekki í gær en við notuðum tímann til að jólaskreyta hjá okkur.  Um hálfþrjú vorum við aðeins orðnar tvær eftir en það kom ekki neitt að sök.

Það var glaður drengur sem sveif út úr herberginu sínu í gærkvöldi og tilkynnti að hann væri með 10 í áfanga sem skammstafaður er TNT.  Hann fékk víst 9,5 á prófinu og hefur verið að gera góða hluti alla önnina svo hann var námundaður upp í 10.

En ég fékk líka leiðinlegar fréttir í gegnum mömmu í gær.  Ungur frændi okkar fyrir norðan, aðeins 6 ára, var að greinast með bráðahvítblæði.  Það er því barátta framundan hjá honum og hans fjölkyldu og ég ætla mér að muna eftir þeim í bænum mínum á kvöldin.

Kláraði fimmta jólakortið í gær og byrjaði á því sjötta.  Þ.e. ég er búin að sauma 5 myndir í kort (og gefa 1) en á reyndar eftir að klára að útbúa sjálf kortin.  Þarf að útvega mér nýtt og gott lím áður en ég dembi mér í þetta.

3.12.13

Morgunblogg um gærdaginn

Líkt og flesta mánudaga undanfarnar nokkrar vikur notaði ég strætó á milli heimilis og vinnu.  Vinnudagurinn var ekki lengi að líða, verkefnin sáu til þess.  Þung hurð rakst aðeins í annan fótinn minn, mest á tána við hliðina á stóru tánni svo ég ákvað að vera ekkert að haltra heim.  Þetta er svo sem ekkert alvarlegt en nöglin er blá og táin aum.  Hafði lifur í rjómalagaðri tómatpúrresósu, með steiktum lauk og soðnum kartöflum í kvöldmatinn.  Mjög, mjög gott og það er meira að segja afgangur til að taka með mér í vinnuna.  Annars fór kvöldið í netvafr og imbagláp.

Er að lesa Reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur, ekki komin mjög langt en afar hrifin og spennt.  Verð að beita mig hörðu við að leggja frá mér bókina áður en klukkan verður alltof margt.

2.12.13

Helgin leið hratt

Mætti til norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu í gæmorgun, degi seinna en venjulega vegna anna á laugardeginum.  Við byrjuðum á því að fá okkur hafragraut með kanel og agavesýrópi og tókum svo kaffibollana með okkur yfir í sófann þar sem við grúskum í esperantofræðunum.  Fórum yfir orðin og leskaflann sem við lásum í síðustu viku. Síðan fórum við yfir orðin í næsta kafla og lásum þann kafla og þýddum og enduðum á því að skoða orðin sem tilheyra kaflanum sem við lesum um næstu helgi.

Eftir esperantogrúskið lá leið mín í Krónuna við Granda þar sem ég verslaði inn fyrir vikuna.  Hugsaði reyndar alls ekki út í það að strákarnir verða mikið meira heimavið þar sem prófin eru byrjuð en ég held að ég hafi samt verslað mjög skynsamlega inn.  Þegar ég var búin að ganga frá vörunum heima og vafra aðeins á netinu dreif ég í að setja upp jólaklukkustrenginn.  Pakkaði 48 súkkulaðibitum inn í álpappír og festi á alla hringinga (48, 2 hringir við hvert númer).

Um þrjú hringdi ég í gamla konu til að athuga hvernig ég sækti að.  Tengdadóttirin svaraði og sagði að sú gamla væri lasin en ég mætti alveg kíkja stutta stund.  Hún og maðurinn hennar voru að setja upp jólin fyrir gömlu konuna.  Ég dreif mig í heimsókn og hitti þau öll.  Stoppaði í rúman klukkutíma og ég get svo svarið það að xið hafði komið og tekið næstum allt sitt hafurtask þessa stuttu stund sem ég brá mér frá.  Það er bara frábært nema hann ætlar mér líklega að sjá um að ganga frá og/eða henda afgangnum af dótinu.

1.12.13

Aðventa og nýtt kirkjuár

Ég var mætt á kóræfingu í kirkjuna mína rétt fyrir tíu í gærmorgun.  Þrír tímar liðu undrahratt og nú er aðeins ein æfing eftir fyrir aðventukvöldið.  Að vísu eigum við víst að mæta frekar snemma eða rúmum þremur tímum áður en stundin hefst n.k. sunnudagskvöld.  Æfingin í gær gekk vel fyrir sig og ég held að kórstjórinn hafi bara verið nokkuð ánægður með okkur.  Að minnsta kosti sagði hann að við værum farin að hljóma eins og kór.

Samkvæmt skipulagi átti ég víst tíma í klippingu klukkan tíu í gærmorgun en ég var svo heppin, þegar ég hringdi til að breyta tímanum vegna árekstrar við æfinguna, að fá tíma klukkan hálftvö í staðinn.  Svolítið skrýtið að mæta á þessum tíma en afar gott að losna við lubbann.

Fljótlega eftir að ég kom heim, upp úr tvö, varð ég vör við að að xið væri að vinna í að tæma skúrinn.  Hann gerði ekki vart við sig svo ég var ekkert að fara út og "heilsa" upp á hann.  Var bara fegin að hann væri loksins að gera eitthvað í þessu með dótið sitt.  Sá reyndar aldrei neinn flutningabíl eða kerru þannig að mig grunar að hann hafi bara tekið kassa og poka í gær en að stóru mublurnar séu eftir.

Um hálfníu í gærkvöldi bankaði ég upp á íbúð við Hagamel 50.  Séra Pétur var búinn að bjóða mér á svona "tilhleypinga" kvöld þar sem einungis makalausir eru gjaldgengir fyrir utan eina (2) undantekningu.  Það mæta til hans hjón úr kirkjustarfinu sem sjá um að hita kaffi og vaska upp.  Þetta var hin skemmtilegasta samkoma og ég kvaddi ekki fyrr en upp úr miðnætti þegar búið var að skjóta upp gamla kirkjuárinu, með míni-rakettum.