31.3.10

- Þrjár myndir fara í innrömmun í dag -

Fleygði mér í smá stund eftir að ég kom heim í gær. Hafði lasanja í matinn og settist svo með saumana mína fyrir framan imbann upp úr sjö. Vann í "Bláa englinum" og komst svolítið áfram með hann. Það er hellingur búið en heilmikið eftir svo ég verð að sitja við og ekki leiða hugann að neinu nýju verkefni, þ.e. ekki stórum myndum (á tvær svoleiðis). Tel það vera í lagi að grípa í merkjamyndirnar og/eða jólakortamyndir inn á milli. Eftir tíu-fréttir í sjónvarpinu skolaði ég úr fermingardrengjunum og kossinum, pressaði og lagði til á handklæði í stofunni. Rúllaði þeim upp á hólk undan eldhúsbréfi í morgun og eftir vinnu í dag ætla ég að fara með þessar myndir í innrömmun. Held það geti verið mjög sniðugt að vera með bæði fermingar- og fæðingar-myndirnar uppivið í veislunni aðra helgi.

30.3.10

- Saumaklúbbur og útbrot -

Nei, nei ég er ekki með ofnæmi fyrir saumaklúbbnum mínum, síður en svo. En ég er öll útsteypt í rauðum upphleyptum bólum og blettum. Fyrir þremur vikum lét ég trúnaðarlækni fyrirtækissins kíkja á einn blett sem var á sköflungnum á hægra fæti og fór sá blettur stækkandi. Læknirinn skrifaði upp á eitthvað krem sem ég átti að bera á daglega til að byrja með. Ég er nýlega farin að taka inn hörfræolíu aftur. Hún hefur aldrei farið illa í mig en núna veit ég ekki hvort útbrotin eru af völdum kremsins, olíunnar eða e-u öðru. Ég er amk hætt að taka inn olíuna og bera á mig kremið. Að auki hætti ég að taka inn vítamínin mín og hef pantað mér tíma hjá húðsjúkdómalækni. Fékk tíma á þriðjudaginn kemur og vona að ég verði ekki dáin úr kláða áður.
En í gærkvöldi var saumaklúbbur upp í Árbæ. Skutlaði manninum í pílu um hálfátta og fannst ekki taka því að fara heim aftur svo ég var mætt fyrir átta. Fékk álit klúbbhaldarans um hvernig ég ætti að sauma fermingardag drengjanna á myndirnar og hún gaf mér einn fjólubláan enda og rúðustrikað blað. Setti dæmið upp á blaðið og saumaði eftir því: 11. apríl 2010 undir nafnið. Setti svo skammstöfun mína og 10 (með úrfellingarmerki fyrir framan) undir ermina með einum þræði af ljósfjólubláum. Þegar þetta var búið tók ég til við að sauma bláa engilinn. Korter fyrir ellefu sagði ég "jæja" og þá hrindi gemsinn. Davíð Steinn og Dagur höfðu farið í sundlaug Kópavogs og vantaði far heim. Ég sótti þá og fékk sá síðarnefndi að gista hjá okkur.

29.3.10

- Eldgos, kirkjuferðir og fleira -

Á laugardagsmorguninn kíkti ég í smá esperantotíma til norsku vinkonu minnar. Vorum báðar búnar að vera duglegar að lesa en samt fór klukkutíminn að mestu leyti í allt annað spjall, og það á íslensku. Um miðjan dag fékk ég loksins Davíð til að fara í bíltúr austur fyrir fjall. Byrjuðum á því að stoppa hjá pabba og mömmu á Hellu en um það leyti sem úrslitaþátturinn í spurningakeppni framhaldsskólanna var að byrja í sjónvarpinu fórum við þrjú, ég, Davíð og nafni hans í bíltúr inn í Fljótshlíð. Það var virkilega gaman að berja eldgosið augum í hæfilegri fjarlægð en mér fannst jafn tilkomumikið að sjá afturljósin á bílalestinni bæði inn Fljótshlíðina og svo aftur á leiðinni í bæinn. Þetta var á tímabili, bíll við bíl og minnti á mjóa hrauná. Oddur beið á Hellu á meðan við vorum í gosbíltúrnum. Hann langaði ekkert til að upplifa gos í beinni.
Í gær vorum við söngfuglinn mætt í Hallgrímskirkju rétt fyrir tíu. Fljótlega var farið niður Skólavörðustíg og stillt sér upp áður en skrúðgangan hélt af stað upp að kirkju aftur þar sem nýju kirkjuhurðarnar voru helgaðar. Í messunni var skírður lítill drengur og altarisganga í restina að venju. Svo mikið fólk var í kirkjunni að athöfnin var ekki búin fyrr en korter yfir tólf en þá tók við stutt opnunarræða dóms- og kirkjumálaráðherra þar sem hún setti kirkjulistahátíð 2010. Ég hafði svo tíu mínútur til að fá mér eitthvað smá og sækja sálmabókina mína áður en ég átti að vera mætt í "mína" kirkju rétt fyrir eitt. Þar fór fram skírnar og fermingarmessa og margt fólk í kirkjunni. Að auki var hópur frá Stöð 2, Jón Ársæll með myndatökumenn. Séra Pétur verður víst í þættinum hans Jóns n.k. sunnudagskvöld. Við í kórnum vorum svolítið mikið myndum en hvað veit maður svo hvað verður notað af því ;-). Alla vega sáumst við söngfuglinn í mynd í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi svo maður er orðinn pínu frægur, eða þannig....

26.3.10

- Út að borða -

Um hálfsjö í gær fóru strákarnir á árshátíð í skólanum. Fögnuðurinn stóð til klukkan ellefu. Þar sem við Davíð náðum ekki að halda upp á brúðkaupsafmælið okkar sl. mánudag bauð hann mér út að borða á Pottinn og pönnuna í gær. Áttum saman notalega stund á staðnum og ég fékk mér eitt hvítvínsglas með matnum. Það rauk auðvitað beint upp í höfuð þótt ég væri nú ekki beint að þamba vínið. Pöntuðum okkur bæði lambakjötsrétti og fengum okkur súpu, sallat og brauð á undan. Það varð því ekkert úr því að ég settist niður með saumana mína í gær því fljótlega eftir að við komum heim horfðum við saman á hina myndina, "Star Trek" sem maðurinn gaf mér í afmælisgjöf. En þótt klukkan væri orðin tólf þegar við fórum í rúmið las ég einn kafla í bókinni sem ég er með á skammtímaláni af safninu.

25.3.10

- Æft fyrir páska- og fermingamessur -

Á kóræfingu í gær æfðum við fyrir páskana og fermingamessurnar. Reyndar æfðum við minnst fyrir fermingarnar því mér skilst að það verði bara sungið einraddað og verði frekar einfalt. Einnig fékk ég úr því skorið að ég þarf og á ekki að syngja með kórnum þegar bræðurnir verða fermdir enda kannski eins gott. Hafði hugsað mér að sauma aðeins eftir að ég kom heim af kóræfingu en það fór þannig að ég fór upp í rúm fyrir klukkan ellefu og las til hálftólf. Í staðinn verð ég bara að vera dugleg við saumana mína í kvöld.

24.3.10

- Vikan hálfnuð -

Þrátt fyrir að sitja við saumana mína hátt í tvo tíma í gærkvöldi þá náði ég ekki að klára að sauma blómaskreytinguna. Kláraði ermina á jakkanum og saumaði þrjú rauð blóm og nokkur laufblöð. Það er ekki mjög mikið eftir en þar sem ég er að fara á kóræfingu í kvöld efast ég um að ég nái að klára þetta þótt ég setjist við um stund upp úr klukkan tíu. Þar að auki á ég eftir að sauma nöfnin og fermingardaginn. Ég er samt ekkert farin að örvænta og hugsa að þetta sleppi allt saman til. Líkt og í fyrrakvöld las ég svo síðasta hálftímann áður en ég fór að sofa í kringum miðnættið.

23.3.10

- Saumað af kappi -

Rétt áður en ég kom heim í gær kom æskuvinkona mín, sem nú býr á Egilsstöðum. Hún var byrjuð að undirbúa uppáhellingu þegar ég kom. Karatestrákurinn var eitthvað þreyttur í gær og ákvað að sleppa því að mæta á æfingu. Maturinn var því til hjá mér um sjö (í stað hálfátta-átta). Hefði örugglega samt haft matinn á þessum tíma því Davíð átti að vera mættur í pílu um hálfátta. Var með lasanja sem mæltist vel fyrir af öllum. Söngfuglinn minn ákvað að fyrst hann var að syngja á tónleikum seinni partinn á sunnudaginn væri örugglega frí á æfingu. Hann fór því heim með vini og þegar ég ætlaði að athuga með hann náði ég ekki í hann í síma. Fyrst hann var ekki heima hélt ég að hann hefði farið í fyrra fallinu á æfinguna. Þegar hann var ekki kominn heim klukkan sjö fór mig að gruna að ekki væri allt alveg með felldu. Loksins náði ég símasambandi við hann og frétti þá að hann hefði farið heim með vini. Eftir að ég var búin að ganga frá í eldhúsinu með matinn settist ég inn í stofu með saumana mína og sat við í drjúga stund með smá hléum. Er alls ekki búin og þarf að sitja við í kvöld og næstu kvöld þar til þetta klárast.

22.3.10

- Brúðkaupsafmæli -

Í dag eru 14 ár síðan við Davíð skruppum til sýslumanns og létum pússa okkur saman. Áttum tíma klukkan þrjú og fulltrúi sýslumanns og önnur til tóku á móti okkur tveimur. Allt gekk vel fyrir sig en reyndar var fundið að því við manninn minn að hann ætlaði að setja giftingarhringinn á baugfingur vinstri handar eftir að hafa rennt mínum upp á baugfingur hægri handar minnar. Hann breytti þessu og var með hringinn á hægri hendi fyrstu árin. Núna er hann búinn að færa hringinn yfir á vinstri hendina. Fljótlega eftir athöfnina ókum við austur yfir fjall og áttum nóttina á Hótel Örk í Hveragerði. Skruppum á Bakkann daginn eftir og svo áfram á Hellu til pabba, þar sem við gistum eina nótt.
Skrópaði ekki í hannyrðunum mínum á föstudaginn. En laugardagurinn fór allur í annað heldur en saumaskap. T.d. fékk ég sms frá bókasafninu um að ég gæti sótt bókina sem ég hafði pantað innan þriggja daga. þetta er hátt í 700 bls. bók og mér leist ekkert á að bíða neitt með að sækja hana svo ég vatt mér strax í málið. Kom við í verslun á heimleiðinni og keypti nammi fyrir bræðurnar og pylsur sem þeir hituðu upp sjálfir þegar við foreldrarnir vorum farin á árshátíð um kvöldið.
Í gær vorum við boðin í 1 árs afmæli. Skruppum öll fjögur í smá stund en stoppuðum örugglega ekki lengur en í klukkutíma því söngfuglinn minn átti að vera mættur í fullum skrúða í Langholtskirkju rétt fyrir fimm. Drengjakórinn söng nokkur lög á tónleikum eldri félaga karlakórs Reykjavíkur. Davíð fór með honum og þeir feðgar björguðu svo kvöldmatnum. Settist svo niður með saumana mína í gærkvöldi og komst þónokkuð áfram þótt ég vildi reyndar helst vera búinn að þessu. Á eftir u.þ.b. helminginn af blómaskrautinu á öðrum fermingardrengnum og svo að merkja nafn og fermingardaga á báðar myndirnar. Þetta er samt allt að koma.

19.3.10

- Lagði inn pöntun -

Eftir vinnu í gær lagði ég leið mína í Aðalsafnið í Grófinni og skilaði inn "Ástandsbarninu". Hafði séð það á gegni.is að það ættu að vera til tvö eintök af : "Loftkastalinn sem hrundi" en þegar til kom hafði þeim bókum verið skilað í öðrum söfnum svo ég brá á það ráð að leggja inn pöntun. Hugaði reyndar um að þetta væri bara ágætt því ég þarf að leggja aðaláherslu á saumana mína næstu daga. Var svo heppin að Davíð tók að sér að sjá um kvöldmatinn, annan daginn í röð. Ég fór því í fyrsta skipti og sótti júdókappann af æfingu. Karatestrákurinn sá um sig sjálfur, labbaði á æfingu og aftur heim eftir æfinguna. Það tók samt sinn tíma. Held að hann hafi farið í smá gufubað eftir karateæfingu. Klukkan var orðin níu þegar ég settist loksins niður með saumana mína en ég hafði það af að klára blómamunstrið á fermingadreng no II. Þar er því bara eftir að sauma nafn og fermingardag. Ætla að byrja á blómamunstrinu á fermingadreng no I í kvöld. Það er þokkalega mikið að gerast um helgina en ég hlýt að fá tíma inn á milli til að sauma. Stefni að því að fara með þrjár útsaumsmyndir í innrömmun í næstu viku.

18.3.10

- Tveggja daga sauma-"verkfall" -

Hef ekki tekið upp saumadótið mitt síðan á mánudagskvöldið. Vona samt að það komi ekki að sök. Davíð fór í tölvubjörgunarleiðangur til eins vinar síns eftir mat á þriðjudagskvöldið og kom ekki heim fyrr en eitthvað eftir miðnætti. Ég festist óvart fyrir framan sjónvarpið og horfði á "Læknamiðstöðina" áður en ég setti í eina brauðtertu. Yfirleitt get ég nú saumað um leið og ég fylgist með e-u í sjónvarpinu, nema um spennuþætti/myndir og gamanmyndir sé að ræða en í fyrrakvöld gleymdi ég bara að taka upp saumana. Þegar bræðurnir voru farnir í rúmið upp úr tíu settist ég við tölvuna. Í gær ákvað ég að prófa hvort ég gæti svarað fyrir allar afmælisóskirnar á FB-veggnum mínum, hverja og eina einustu (urðu uþb 200 allt í allt). Það tókst eiginlega, nema ég svaraði þeim kveðjum sem bárust síðustu tæpu tvær klukkustundirnar fyrir miðnætti í morgun. Við Davíð ákváðum nefnilega að horfa á aðra myndina sem hann gaf mér í afmælisgjöf: "Yes man!" með Jim Carrey. Davíð sá til þess að ég fengi tvíréttaða máltíð í gærkvöldi áður en ég fór á kóræfingu. Hann var með sjávarréttasúpu í forrétt og snitsel og kartöflukratín í aðalrétt. Nýja græjan kom sér mjög vel við að skera niður grænmetið. Þetta var mjög gott hjá honum. Ég þurfti ekki að koma nálægt eldhússtörfunum í gær. Stakk í eina þvottavél og braut saman og tók upp þvottinn sem var á snúrunum, en maðurinn fór svo niður og hengdi upp úr vélinni þegar hún var búin. En í kvöld verð ég að taka upp saumana og sauma í amk í klst. ef ég á að geta farið með fermingadrengina í innrömmun í næstu viku.

17.3.10

- Stelputryppið 42 ára í dag! -
Fór og hitti trúnaðarlækni vinnu minnar með þrjú erindi í gær. Sýndi honum fingurnar og sagði frá "slysinu" sem ég varð fyrir á jóladag. Hann sagði að þetta væri bara mjög slæm tognun og ekkert undarlegt þótt fingurnir væru ekki enn búnir að jafna sig. Ég er líka komin með mjög skrýtin útbrot á sköflunginn á hægra fæti og skrifaði læknirinn upp á krem sem ég á að bera á svæðið daglega og annan til þriðja hvern dag þegar útbrotin fara að mýkjast. Kom því við í apótekinu á leiðinni heim í gær. Einnig "heimsótti" ég fiskbúðina við Freyjugötu 1 og fékk mér ýsu í soðið. Strákarnir fóru báðir á æfingar svo við vorum ekki að borða fyrr en á níunda tímanum. Söngfuglinn og júdókappinn minn hann Davíð Steinn var ekki par hrifinn er hann kom heim sársvangur en hann fékkst þó til að fá sér eitthvað smá. Það varð afgangur sem ég tók til í skál handa mér, gleymdi bara að taka það með mér í vinnuna svo ég borða þetta bara í kvöld eða tek með mér á morgun. Setti í eina brauðtertu sem ég hafði með mér fyrir vinnufélagana í dag.

16.3.10

- Saumaklúbbur -

Eftir nokkuð margra daga gönguhlé til vinnu þá trítlaði ég í vinnunna á nýju skónum mínum í gærmorgun. Arkaði aftur heim, seinni partinn, með viðkomu í bakaríinu þar sem ég verslaði grunn í brauðtertu sem ég ætla að skella í í kvöld og hafa með mér á morgun. Á mánudögum er tölvulaus dagur hjá bræðrunum og þeir voru heima í stofu með tveimur vinum að horfa á sjónvarpið þegar ég kom upp úr hálffimm. Var ekkert að spá neitt meira í þessu en klukkan fimm sagði karatestrákurinn allt í einu við söngfuglinn: "Átt þú ekki að vera mættur á kóræfingu?" Sá síðarnefndi var ekkert að gera mál úr hlutunum en dreif sig samt af stað. Rétt fyrir hálfátta skutlaði ég manninum í pílu, sótti karatestrákinn af æfingu og bauð strákunum að vera í tölvunni um kvöldið þar sem hvorugt okkar foreldranna yrði heima. Ég var komin til "tvíburahálfsystur" minnar upp úr klukkan átta. Vorum bara tvær í saumaklúbbnum en ég nýtti tímann mjög vel og er alveg að verða búin með blómaskreytinguna á fermingardreng no II. Ég er nú orðin sannfærð um að myndirnar muni fara í innrömmun eftir næstu helgi.

15.3.10

- "Önnusöm" helgi liðin -

Var mætt í Kristu til Nonna rétt fyrir tíu á laugardaginn. Lét þvo á mér hárið áður en Nonni tók við og klippti það og þynnti eftir öllum kúnstarinnar reglum. Hann var ekki ánægður þegar ég sagði honum að ég laumaðist stundum til að taka hvít hár úr e-m skallablett bara til að skoða þessi fíngerðu hár. "Þú mátt ekki taka hárin sem eru að koma." Eftir smá umhugsun bætti hann við "Veldu þá amk bara einn blett til að fikta í." Eftir klippinguna fór ég í skóbúðina Steinar Waage og keypti mér nýja skó, alveg eins og þá sem ég hef gengið í sl. 10 mánuði. Gömlu skóna skildi ég eftir því þeir voru eiginlega alveg búnir. Skutluðum tvíburunum í síðasta fermingafræðslutímann í Salahverfi í Kópavogi. Um kvöldið útbjó ég eina brauðtertu og Davíð keypti fyrir mig tvær skyrtertur. Þetta fór ég með alltsaman í kirkjuna um eitt í gær (þ.e. maðurinn skutlaðist með mig). Feðgarnir mættu svo í messubyrjun. Það var galdramessa og Bjargarkaffi eftir messu. Það var full kirkja. Allir sálmar voru sungnir einradda en við stóðum samt saman í röddunum okkar við kórfélagarnir. Við vorum aðeins 3 í altinum tvær Önnur og svo "tvíburahálfsystir" mín og hún stóð á milli okkar nafnanna svo hún var mjög önnum kafin. Skyldumæting hjá fermingabörnunum en fyrri fermingarmessan verður eftir hálfan mánuð. Strax eftir messu var smá fundur með prestinum, fermingarbörnunum og foreldrum. Lagt var á borð í "efra" og "neðra" og einnig á fimm borð í kirkjunni og það var hlaðborð af alls kyns góðgæti á báðum hæðum. Það fór svo þannig að ég tók ekkert upp saumana mína í gærkvöldi en ég saumaði bæði á föstudags- og laugardagskvöldið og ég er komin það langt að ég veit að myndirnar fara í innrömmun í næstu viku. Það er líka saumaklúbbur í kvöld...

12.3.10

- Pottakynning -

Tók mér orlof um klukkan eitt í gær. Á enn eftir nokkra daga af sumarfríinu síðan í fyrra. Byrjaði á því að rölta með skjal yfir á Vesturgötu 1. Þegar ég kom heim setti ég í þvottavél. Tók upp úr uppþvottavélinni. Hóf tiltekt í elhúsinu, ryksugaði og skúraði. Davíð kom heim um fjögur og fór strax að hjálpa mér. Pabbi kom um svipað leyti (og ein vinkona mín sem fékk gistingu hjá mér í tvo daga) en hann fór svo seinna að sækja mömmu. Konan með kynninguna (var að kynna potta frá Salatmaster) kom upp úr klukka sex og upp úr hálfsjö komu síðustu kynningargestirnir. Þá var búið að dúka borð í holinu og setja ný kerti í tvo stjaka á borðið. Kynningin fór samt fram í eldhúsinu og þar varð fólk að standa upp á endann í næstum einn og hálfan tíma. Allt fór vel fram og ég held að allir hafi skemmt sér stór vel. Allir fengu rófu- og gulrótasnakk á meðan kynningunni stóð en þegar maturinn var tilbúinn settust menn við borðið í holinu. Fengum kjúkling, fjórar tegundir af grænmeti og kartöflugratín og í eftir rétt var súkkulaði-grænmetiskaka með rjóma. Allt var yfirstaðið um tíuleytið og klukkutíma síðar fengu maðurinn minn og vinkona þá flugu í höfuðið að leigja mynd "The Hart locker". Ég held að klukkan hafi verið orðin hálftvö áður en ég skreið upp í rúm í nótt. Og framundan er annasöm helgi...

11.3.10

- Kóræfing, útsaumur og lestur -

Já, ég náði að sinna öllum áhugamálunum mínum í gær þrátt fyrir að þurfa á fund strax eftir vinnu og hafa aðeins hálftíma frá fundinum fram að kóræfingu og æfingin stóð yfir frá hálfátta til tíu. Að vísu var smá kaffihlé í millitíðinni en ég var ekki komin heim fyrr en upp úr klukkan tíu. Mamma hafði skutlað mér á æfinguna (en hún stoppaði stund heima áður en hún og söngfuglinn fóru á tónleika í Salnum) og ég fékk far heim með "tvíburahálfsystur" minni. Bað Davíð nefnilega um að sækja eina elstu vinkonu mína út á flugvöll upp úr hálfníu. Þau voru á rökræðum þegar ég kom heim af æfingu. Fljótlega settist ég niður með saumana mína og horfði í leiðinni á hluta af heimildamynd um fjölskyldu sem tók sig alveg upp og ferðaðist um heiminn mánuðum saman. Þegar ég skreið svo upp í rúm skuggalega nálægt miðnætti freistaðist ég til að byrja aðeins á bókinni sem ég fékk af safninu í fyrradag.

10.3.10

- Góð ferð á safnið -

Strax eftir vinnu í gær rölti ég yfir í aðal-borgarbókasafnið í Grófinni. Samkvæmt Gegni.is áttu að vera 2 eintök inni í hillu af bókinni "Ástandsbarnið" eftir Camillu Läckberg. Fann hana ekki í hillunni hjá nýjum og nýlegum bókum svo ég ákvað að spyrja um hana við afgreiðsluborðið. Þegar ég nefndi bókina við þá sem ég spurði snéri hún sér í hálfhring að hillu fyrir innan afgreiðsluborðið, tók bók og rétti mér. Mikið varð ég glöð. Hef 14 daga til að lesa hana og tímdi ekki að byrja strax í gær. Eftir þessa góðu ferð skrapp ég yfir í Eymundsson og keypti tvær svartar sálmabækur. Þá var ég að byrja að blotna á tánum svo ég ákvað að labba ekki mikið meira og settist á næstu biðstöð og beið eftir leið 13. Var eiginlega nýbúin að missa af vagninum og þurfti að bíða í uþb hálftíma eftir næsta en það var í góðu lagi.

Strákarnir fóru báðir á æfingar seinni partinn í gær, annar í karate og labbaði báðar leiðir, og hinn á Júdóæfingu en Davíð skutlaði honum og sótti aftur. Eftir að hafa aðeins setið við tölvuna bjó ég til kjötvars úr hakki, lauk, eggjum, haframjöli, heilhveiti, byggmjöli og kryddað með salti, cayanne og kjötkrafti leystum upp í vatni. Kúlaði þetta upp í ríflega 30 bollur, setti í ofnskúffuna og inn í ofn. Mmmmm, góðar voru þær. Frysti hluta af bollunum en gat líka smá til að hafa með mér í vinnuna í dag.

9.3.10

- Saumað og saumað -

Að vísu settist ég ekki niður með saumana mína fyrr en um tíu í gærkvöldi og sat þá við í rúman klukkutíma. Nú er ég komin af stað með blómaskreytinguna á seinni myndinni og líklega klára ég hana áður en ég held áfram með blómaskreytinguna á fyrri myndinni. Svo eru það bara nöfnin, fermingardagurinn, skammstöfunin mín og ártalið áður en ég mun pressa þetta og fara með í innrömmun. Í leiðinni ætla ég að láta ramma inn myndina "Kossinn" sem ég saumaði 2007. Ég var svo óforsjál að panta ekki rammann með um leið og ég pantaði útsauminn og svo hefur myndin bara legið samanbrotin í saumatöskunni minni. Á svo reyndar nokkar aðra myndir sem ég þarf að fara að vinna í að ramma inn (eða láta ramma inn) fyrir utan nokkur saumaverkefni sem ég á eftir að byrja á. Eftir að ég hef lokið við að sauma fermingadrenginga mun ég ráðast í að klára bláa engilinn og kannski sauma nokkur stjörnumerki. Saumi, saumi, saumi, saumi...... - það er svo gaman! :-)

8.3.10

- N E I ! -

Tvíburarnir skruppu í heimsókn til föðurforeldranna um helgina. Davíð skutlaðist með þá eftir kvöldmat á föstudaginn. Ég var enn hálftuskuleg eftir magapínuna á fimmtudaginn og settist frekar niður með saumana mína og horfði á útsvar í leiðinni. Settist líka niður með saumana mína bæði á laugardag og sunnudag, enda er ég búinn með fermingastrák no II og er þá komin á svipaðar slóðir og með fermingardreng I þ.e. á bara eftir að sauma blómaskreytinguna, nafnið(nöfnin) og fermingardaginn. Ef ég sest niður með saumana í einhverja stund á hverjum degi ætti ég að geta sett báða drengina í innrömmun eftir ca hálfan mánuð.
Útvarpsklukkan fór í gang klukkan sjö á laugardagsmorguninn eins og það væri virkur dagur. Ég rumskaði upp úr því en í stað þess að slökkva á útvarpinu settist ég við tölvuna í ca eina og hálfa klukkustund áður en ég skreið upp í aftur. Það var samt ekki að virka að skríða upp í aftur þótt slökknað hefði á útvarpinu svo ég fór fljótlega á fætur. Það var samt Davíð sem hellti upp á könnuna og útbjó "brunch" handa okkur um tólf. Röltum út í skóla og kusum um tvö leytið og um fimm fórum við að versla.
Gærdagurinn var jafn rólegur og laugardagurinn, ef ekki rólegri. Davíð sá um kvöldmatarmál og tengdapabbi átti leið í bæinn svo hann skutlaði strákunum heim í leiðinni.

5.3.10

- Raddþjálfun og magapest -

Við kórfélagarnir í "óþæga" kórnum rákum upp stór augu er við mættum á æfingu sl. miðvikudagskvöld. Árni var búinn að breytast í konu. Hann fékk kórstjóra Veiranna til að hlaupa í skarðið fyrir sig og taka okkur í raddþjálfun. Og það var sko þjálfun í lagi. Hún lét okkur m.a. galopna munninn áður en við byrjuðum að gefa frá okkur hljóð, leggjast á bakið og anda þannig að mjóhryggurinn snerti gólfið og taka um höfuðið áður en við hófum raddæfingar. Einnig áttum við að stinga tánum undir ofn og gera magaæfingar um leið og raddæfingar, þ.e. við áttum að reisa okkur upp til hálfs og sitja í þeirri stellingu eins lengi og við treystum okkur til á meðan við gerðum raddæfingar. Held að við höfum fengið amk tíu tíma námskeið á tveimur tímum. Hún á svo eftir að koma og tuska okkur til einu sinni enn.
Þegar ég fór á fætur í gærmorgun var ég eitthvað undarleg í maganum. Hélt fyrst að ég væri bara svona svöng og þetta mánaðarlega væri einnig að plaga mig. Ekki lagaðist verkurinn þótt ég fengi mér að borða, hann varð bara verri ef eitthvað var. Settist á klóið og skilaði af mér en samt lagaðist verkurinn ekki heldur varð ennþá verri og ég var að verða smeik um að það væri gos í uppsiglingu. Tilkynnti mig veika, háttaði mig skjálfandi upp í rúm og tókst sem betur fer að sofna fljótlega. Vissi ekki af mér fyrr en um hádegisbil. Þá var verkurinn farinn og mér leið miklu skár. Náði svo að vera sofnuð vel fyrir miðnætti í gærkvöld og vona að ég hafi sofið þessa pest úr mér.
Ákvað að mæta til vinnu í morgun þrátt fyrir að horfa framan í grá-hvíta konu í speglinum í morgun. Það hefur bara gengið vel.

3.3.10

- Tíminn æðir áfram -

Hef ekki enn mætt á keiluæfingar á árinu (sem eru á þriðjudagskvöldum). Eftir "vinnuslysið" í kirkjunni á jóladag eru vísifingur og langatöng hægri handar enn bólgnir og stundum aumir eða dofnir. Get samt saumað út án þess að finna fyrir aukaverkunum en veit að líklega verð ég að passa mig á að sitja ekki of lengi við. Settist niður í gærkvöldi í tæpan klukkutíma. Nú fer ég bráðum að verða búin að ná jafnlangt með fermingardreng no II og ég var komin með fermingardreng no I (bráðum bara eftir blómin, nafn og fermingardagur). Annars erum við búin að senda út næstum því öll boðskortin og undirbúningurinn fer nú að fara á fullt. Sumum finnst ég kannski heldur róleg í tíðinni en það er örugglega svipað með þetta og jólin... þessi stund mun renna upp...

2.3.10

- Mars er lagður af stað -

Helgin leið ótrúlega fljótt við skyldur og leiki í bland. Var mætt á aukakóræfingu í kirkjuna klukkan tíu á laugardagsmorguninn. Hafði passað að fara á fætur amk tveimur tímum fyrir æfingu til að vekja röddina. Svo var bara enginn annar vaknaður svo ég hafði enga ástæðu til að nota röddina fyrr en karatestrákurinn kom á fætur upp úr klukkan níu. Tveir og hálfur tími (meira að segja aðeins lengur en það) liðu undrafljótt enda var mjög gaman á æfingunni. Beið eftir að karatestrákurinn var búinn á sinni æfingu og hafði hann með mér heim. Vorum ekki mjög lengi heima því strákarnir áttu að mæta í fermingafræðslu á Kjalarnesi. Fórum öll saman og við Davíð versluðum inn á heimleiðinni. Sendi hann svo einann að sækja strákana því ég var komin með saumana mína í fangið og dottin í að fylgjast með bikarúrslitaleik karla í handbolta.
Á sunnudaginn skutlaði Davíð mér í kirkjuna rétt fyrir hálfeitt. Kórinn æfði með undirleikurunum (trommuleikara, saxafónleikara, kontrabassaleikara og kórstjórinn spilaði á píanóið). Feðgarnir mættu svo í kirkjuna um tvö. Það var heljarsveifla í messunni og hrikalega gaman.
Strax eftir vinnu í gær fór ég á pósthúsið og keypti mér slatta af frímerkjum. Frímerkti 17 umslög og setti strax í póst en restin af boðskortunum fer í póst í dag. Síðan rölti ég yfir á bókasafnið og skilaði einni bók. Aðra bókasafnsheimsóknina í röð labbaði ég tómhent út (þriðja heimsóknin á stuttum tíma) og nú er ég aðeins með 3 esperantobækur í láni af safninu. En ég er líka byrjuð að lesa jólabækurnar.
Strákarnir björguðu sér báðir á æfingar og heim aftur svo ég ákvað að mæta í saumaklúbbinn eftir að hafa skutlað manninum í pílu. Var því mætt í fyrrafallinu eða rétt fyrir átta og var tæpum klukkutíma á undan "tvíburahálfsystur" minni. Það var mikið saumað, hlegið og þambað kaffi. Stundum vorum við stöllurnar í hláturskasti og stundum svo niðursokknar í verkefnin okkar að það hljóðnaði allt í kringum okkur. Kom heim um hálftólf, á undan manninum, og hafði þá saumað heilt kerti og einnig bætt við fermingarjakkann á fermingardreng II. Hef uþb þrjár vikur enn til að klára og ætla mér helst að setjast eitthvað niður með saumana mína á hverju kvöldi/ hverjum degi.