- Mars er lagður af stað -
Helgin leið ótrúlega fljótt við skyldur og leiki í bland. Var mætt á aukakóræfingu í kirkjuna klukkan tíu á laugardagsmorguninn. Hafði passað að fara á fætur amk tveimur tímum fyrir æfingu til að vekja röddina. Svo var bara enginn annar vaknaður svo ég hafði enga ástæðu til að nota röddina fyrr en karatestrákurinn kom á fætur upp úr klukkan níu. Tveir og hálfur tími (meira að segja aðeins lengur en það) liðu undrafljótt enda var mjög gaman á æfingunni. Beið eftir að karatestrákurinn var búinn á sinni æfingu og hafði hann með mér heim. Vorum ekki mjög lengi heima því strákarnir áttu að mæta í fermingafræðslu á Kjalarnesi. Fórum öll saman og við Davíð versluðum inn á heimleiðinni. Sendi hann svo einann að sækja strákana því ég var komin með saumana mína í fangið og dottin í að fylgjast með bikarúrslitaleik karla í handbolta.
Á sunnudaginn skutlaði Davíð mér í kirkjuna rétt fyrir hálfeitt. Kórinn æfði með undirleikurunum (trommuleikara, saxafónleikara, kontrabassaleikara og kórstjórinn spilaði á píanóið). Feðgarnir mættu svo í kirkjuna um tvö. Það var heljarsveifla í messunni og hrikalega gaman.
Strax eftir vinnu í gær fór ég á pósthúsið og keypti mér slatta af frímerkjum. Frímerkti 17 umslög og setti strax í póst en restin af boðskortunum fer í póst í dag. Síðan rölti ég yfir á bókasafnið og skilaði einni bók. Aðra bókasafnsheimsóknina í röð labbaði ég tómhent út (þriðja heimsóknin á stuttum tíma) og nú er ég aðeins með 3 esperantobækur í láni af safninu. En ég er líka byrjuð að lesa jólabækurnar.
Strákarnir björguðu sér báðir á æfingar og heim aftur svo ég ákvað að mæta í saumaklúbbinn eftir að hafa skutlað manninum í pílu. Var því mætt í fyrrafallinu eða rétt fyrir átta og var tæpum klukkutíma á undan "tvíburahálfsystur" minni. Það var mikið saumað, hlegið og þambað kaffi. Stundum vorum við stöllurnar í hláturskasti og stundum svo niðursokknar í verkefnin okkar að það hljóðnaði allt í kringum okkur. Kom heim um hálftólf, á undan manninum, og hafði þá saumað heilt kerti og einnig bætt við fermingarjakkann á fermingardreng II. Hef uþb þrjár vikur enn til að klára og ætla mér helst að setjast eitthvað niður með saumana mína á hverju kvöldi/ hverjum degi.