31.3.05

orðaleikurinn

þau skjótast um í kollinum
vilja að hugsað sé um þau
biða um að þau séu rituð niður
orðin
mörg skemmtilega glettin

þau gera sér að leik
að setja allt á annan endann
og hlægja svo að öllu saman
orðin
sum einfaldlega stríðin

þau geta hrúgast saman
stundum dreifist úr þeim
og ekki er hægt að henda reiður á þeim
orðin
algerlega nauðsynleg

30.3.05

- Skattskil og heimsókn -

Mér tókst að skila inn skattaskýrslunni (í rafrænu formi) í gærkvöldi. Hafði fengið mér frest sem var veittur til 29. mars svo það voru síðustu forvöð í gær. Það var mikill létti að ljúka þessu af. Þetta var heldur flóknara vegna íbúðar- sölu og kaupa en þetta hafðist. Það var eiginlega ágætt að fá þennan frest. Í fyrsta lagi ætlaði ég aldrei að hafa mig í að byrja að fylla þetta út. Loks þegar ég ætlaði að sækja skýrsluna fann ég ekki veflykilinn (fann hann eftir að ég var búin að fá nýjan) og síðast en ekki síst þá var gott að fylla þetta inn og fara yfir málin í skorpum. Skv. villuprófun á netinu fannst engin villa en það er gott að hugsa til þess að hægt er að sækja skýrsluna og leiðrétta og bæta við ef svo ólíklega vildi til að þess þyrfti.

Um níu voru strákarnir að koma sér í ró og ég dreif mig í heimsókn til tvíburahálfsystur minnar. Tók með mér pakkann sem ég sótti í Margaretha um daginn og opnaði hann loksins þar. Mig klæjar í fingurnar að byrja á nýju verkefni en hef heitið mér því að gera það ekki fyrr en ég er búin að ljúka nokkrum verkefnum öðrum áður.

En núna er best að drífa sig á kóræfingu.

29.3.05

- Ekkert páskahret -

Tókuð þið eftir því hvað veðrið var gott amk. hér sunnanlands um páskana? Hreint út sagt yndislegt veður!!!

Nú er bara að koma sér í gírinn aftur, klára þennan mars mánuð og taka vel á móti sumrinu. Ó, já, þá er það að ákveða og skipuleggja sumarfríið sitt. Þarf aðeins að spá í þau mál.

28.3.05

- Annar í páskum -

Tíminn lætur ekki bíða eftir sér. En þetta eru búnir að vera ljúfir frídagars. Á skírdag gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema að slaka á. Á föstudaginn langa gerði ég heldur meira en ekki neitt en það var allt húsverkatengt og lítið spennandi að segja frá því. Nema jú, ég var mætt til að syngja í krikjunni minni upp úr átta.

Á laugardaginn sótti Lilja vinkona mig fyrir hádegi. Hún þáði hjá mér kaffibolla en leið okkar lá svo í Laugardalshöllina þar sem við fylgdumst með þremur handboltaleikjum: Holland - Austurríki U-21, Úkraína - Ísland U-21 og vináttulandsleik milli Íslands og Póllands. Dagurinn var sérdeilis fljótur að líða. Um kvöldið litu tengdó við og færðu mér afmælisgjöf í leiðinni, blómvönd, baðsápu í flottri flösku, smá heilsugotterí og síðast en ekki síst flotta platta "Past times".

Í gærmorgun páskadag var ég komin á fætur fyrir hálfsjö og mætt í kirkjuna á slaginu sjö. Kórstjórinn talaði um að það væri svolítið erfitt að hita raddir okkar upp og vekja þær. Ég fann samt ekki fyrir því. Klukkan átta var messað. Við syngjum upp úr sérstakri hátíðarmessuskrá eða bók og sungum þar að auki fjóra sálma, tvo í röddum og tvö einraddað. Messan tókst vel. Ein úr kórnum treysti sér ekki til að syngja og sat bara og hlustaði á okkur. Hún sagði að það væri góður hljómur í kórnum. Eftir messu var boðið upp á heitt kakó með rjóma og brauðbollur með smjöri og osti.

Upp úr hádegi lögðum við í hann austur á Hellu og vorum þar fram eftir degi.

24.3.05

Grunurinn læddist framhjá
straukst við mig
en stoppaði ekki

hvert er hann að fara?

Ég elti með hálfum huga
óljósan skugga
næstum ósýnilegan

hvert var hann að fara?

Allt í einu var hann horfinn
hafði leysts upp
og orðið gegnsær

hvert fór hann?

Eiginlega langaði mig
ekki að vita það
samt var ég forvitin

22.3.05

- Ásetnir dagar -

Í dag eru níu ár síðan við Davíð skruppum til borgardómara og létum pússa okkur saman. Já, tíminn líður, hann hreinlega flýgur stundum á ljóshraða finnst mér.

Það er búið að vera í nógu að snúast eins og fyrri daginn. Ég gaf sjálfri mér það í afmælisgjöf að sækja pantaðar vörur í Margaretha sl. fimmtudag. Hef samt ekki enn opnað pakkann (og ekki heldur nýjustu bókina hennar Birgittu Halldórsdóttur sem ég keypti mér fyrir nokkur). Ég ætla fyrst að ljúka af fæðingarmynd handa Bríeti frænku.

Á laugardagskvöldið fengum við Kolfinnu til að vera hjá strákunum og bauð ég Davíð með mér á árshátíð sem haldin var á Nordica Hotel. Þetta var mjög vel heppnuð árshátíð í alla staði, góður matur, frábær skemmtiatriði (sérstaklega þessi heimatilbúnu) og fínn veislustjóri, Óskar Jónasson betur þekktur sem Skari skrípó. Hann stóð undir nafni svo ekki sé meira sagt en mér fannst hann aldrei fara yfir strikið.

Á sunnudaginn vorum við öll boðin í fermingarveislu. Ég skrifaði á kortið rétt áður en við fórum og var svo upptekin af að finna rétta heilræðavísu og rita inn í kortið að ég gleymdi að skrifa undir. Setti dagsetningu, ávarpaði fermingarbarnið, merkti umslagið, skrifaði vísuna stakk inn smá aur, setti kortið í umslagið og lokaði. Um kvöldið hringdi frænka mín og spurði hvort það gæti verið að ég/við hefðum gleymt að skrifa undir kveðjuna. Úps, já það gat vel verið.

Stákarnir eru komnir í páskafrí og mamma líka. Helga systir bjargar málunum þessa dagana og ég hjálpa henni á móti seinni partinn.

17.3.05

- Bekkjarkvöld -

Í gærmorgun vöknuðu fjölskyldumeðlimir í öfugri röð miðað við flesta aðra daga. Davíð fór á fætur góðri stundu áður en klukkan mín hringdi. Nafni hans kom fram um hálfsjö (þá var ég búin að stilla á blund tvisvar sinnum) og Oddur Smári kom fram rétt á undan mér sirka korteri á eftir bróður sínum.

En ég ætlaði að segja frá bekkjarkvöldinu. Mæting var um hálfsex (og kom m.a. mamma) og stuttu seinna sýndu Davíð Steinn og Friðrik Örn leikritið um ljónið og músina. Síðan lásu nokkur börn úr bekknum frumsamdar sögur um unga og páska. (Öll höfðu þau samið sögur en það var valið af handahófi hverjir lásu, annað var ekki hægt vegna tímans). Allur bekkurinn spilaði svo og söng "Krummi svaf í klettagjá" og að lokum sungu þau þrjú lög við undirleik tónmenntakennara síns (Á sprengisandi, Hver á sér fegra og Við krossins helga tré). Tónmenntakennarinn gat þess að hún hefði aldrei haft kraftmeiri hóp í tímum hjá sér. Það var líka virkilega gaman að hlusta á krakkana. Strákarnir eru í meiri hluta, 14 á móti fimm stelpum. Eftir að hafa fengið sér af góðgætinu sem allir komu með var sest niður og föndrað.

Við vorum komin heim um átta og þá hafði ég nokkrar mínútur í slökun áður en ég mætti á kóræfingu. Við vorum að æfa fyrir fermingamessu og páskana. Það gekk vel og við vorum svo heppin að hafa raddþjálfarann með okkur sem gat gefið okkur góð ráð. Virkilega gott og skemmtilegt kvöld semsagt!

14.3.05

- Hitt og þetta -

Helgin er bara búin og var hún ekki lengi að skjótast framhjá. Við Davíð Steinn vorum í Valsheimilinu frá hálfþrú til sex á laugardaginn. Fyrst tókur stelpurnar á móti FH og töpuðu naumlega, 22:23, í æsispennandi leiki. Svo tóku strákarnir á móti HK og unnu 30:32, einnig í mjög spennandi leik.

Í gær var svokallað Bjargarkaffi eftir messu í kirkjunni minni. Ég söng við messuna eins og margir úr kórnum en svo stakk ég af, má ekki við því að falla of mikið fyrir freistingunum. Þess í stað fór ég beint að versla. Það var lokað í Bónus svo ég fór í Hagkaup og notaði tækifærið og verslaði sitt hvað úr heilsuhillunum, s.s. bygggrjón sem eru í uppáhaldi á þessu heimili. Fór með vörurnar heim, bað Davíð um að ganga frá þeim fyrir mig/okkur og var svo rokin út aftur.

Skrapp á lokadag bókamarkaðarins í Perlunni. Þótt undarlegt megi virðast þá féll ég ekki fyrir neinum freistinum. Sá samt nokkrar bækur sem mig langar til að lesa. Til þess eru nú bókasöfnin!

Ég hélt Oddi Smára inni alla helgina og bað svo um að hann þyrfti ekki að vera mikið úti í þessum kulda. Strákurinn er með mjög ljótan hósta og lungun eru frekar viðkvæm. Held samt að hann sleppi við að pústa sig að þessu sinni. En ef honum slær niður, þá þarf ég að útvega nýtt astma-púst handa honum. Vona frekar að hann vinni á þessu sjálfur.

11.3.05

- Veikindi -

Oddur Smári náði sér í svæsna kvefpest með hita og tilheyrandi. Í gær svaf hann lungan úr deginum en hann er öllu hressari í dag þótt hann sé ekki alveg hitalaus. Ég var einmitt að ræða við Davið Stein um hversu hraustur hann sjálfur væri búinn að vera í allan vetur, er við röltum heim eftir kóræfingu sl. miðvikudag. Ég hafði beðið um frí fyrir hann næsta miðvikudag og Friðrik sagði að það væri ekkert nema sjálfsagt, strákurinn væri búinn að mæta á allar boðaðar æfingar í vetur, ekki misst úr eina einustu! Davíð Steinn er samt aðeins búinn að vera hósta undanfarið en ekkert meira en það. Þegar kvefið nær tökum á Oddi Smára þá eru lungun hans það viðkvæm að yfirleitt verður hann veikur. Ég get samt ekki kvartað neitt því drengirnir mínir eru mjög hraustir þó Davíð Steinn, hrausti strákurinn minn, sé kannsi heldur hraustari.

Ég er auðvitað búin að nota tækifærið og glugga í bækurnar sem ég er með af safninu. Í gær lauk ég við að lesa: Þegar barn fæðist. Endurminningar Helgu M Níelsdóttur ljósmóður, skráð af Gylfa Gröndal. Ég var ekki lengi að gleypa þá bók í mig og er nú að lesa: Benjamín H. J. Eiríksson Í stormum seinna tíða. Sú bók er skráð af Hannesi H. Gissurasyni. Læsilegar bækur báðar tvær og oft erfitt að slíta sér frá þeim þegar skyldan kallar. Um daginn las ég fyrri bókina um ævi Chaplins. Fann ekki seinni helminginn þegar ég fór í safnið síðast en ég á örugglega eftir að finna hann og lesa seinna.

9.3.05

Stökur

Vinnuvikan hálfnuð er
var þó rétt að byrja.
Allir vita hvernig fer
óþarfi að spyrja

Ótrúlegt hvað tíminn tifar
tilgangslaust að elta.
Það veit sú er þetta skrifar
samt að reyna að melta.

Stundum er betra að bíða
biðja ekki um neitt.
Einhvern tíma láta líða
loksins komast í feitt.

Lengist dagur dálítið
dugar fyrir vorið.
Ekki er það skrýtið
að fá úr því skorið.

Aftur er ég byrjuð að bulla
barnalegt en gaman.
Ættum frekar samt að sulla
syngjandi og saman...

8.3.05

- Bókasafnsferð -

Sl. sunnudag var síðasti skiladagur á þeim bókum sem voru í fórum okkar mæðgina. Upp úr hádeginu tók ég saman allar þær bækur sem við vorum búin að afgreiða og dreif mig á safnið. Þar bað ég um lengri skilafrest á þeim bókum sem eftir voru heima en fór engu að síður með körfu og "lét greipar sópa" um hillurnar. Ofan í körfuna fóru nokkrar barnabækur og slatti af alls konar bókum sem ég hef hugsað mér að sökkvar mér í á næstunni. Í afgreiðslunni fékk ég svo í hendurnar langan strimil með nöfnum þeirra bóka og höfunda sem ég (og strákarnir) verðum með næsta mánuðinn eða svo. Það kemur fram á strimlinum hvenær á að skila (eða biðja um lengri skilafrest). Þetta er langur strimill og hann skiptist alveg í tvennt, 13 bækur hugsaðar fyrir mig og 13 fyrir strákana.

Áður en ég fór heim skrapp ég í búð og verslaði smá nauðsynjar til heimilisins. Eftir það gaf ég sjálfri mér góðan tíma. Strákarnir voru úti að leika sér og Davíð í tölvunni. Mamma hafði séð til þess að allir hópstjórar fengu afganga með sér heim svo ég þurfti ekkert að hugsa fyrir mat.

Í gærkvöldi fór ég svo á fatakynningu. Aðal-markmiðið var að panta buxur og boxer á Davíð. Ég stóðst samt ekki mátið og keypti mér skyrtu og buxur.

7.3.05

- Æfingabúðir -

Davíð safnaði okkur mæðginum seinni partinn á föstudaginn. Heima lukum við Davíð Steinn við að finna okkur til fyrir helgina (drengurinn stóð sig vel í að láta niður sitt dót, þurfti bara að spyrja stöku sinnum til að vera viss um að allt væri með og góða skapið var líka tekið með). Um fimm leytið var Oddi skutlað á karateæfingu en okkur Davíð Steini upp að kirkju þar sem rútan beið og fleiri drengir og eitthvað af foreldrum var að safnast saman.

Leiðin lá í Hlíðardalsskóla, alveg mátulega langt/stutt frá höfuðstaðnum. Mamma var með í för og sá um eldhúsmálin. Hún var með kvöldmat um hálfátta og klukkutíma síðar var kóræfing. Upp úr hálftíu var kvöldhressing. Það spurðist fljótt út að ég ætlaði að vera með sögustund fyrir hópinn minn og náðust við mig samningar um að lesa inni í setustofunni fyrir þá sem vildu. Flestir strákanna 15, nokkrir af hópstjórunum og kórstjórinn komu og hlustuðu á mig lesa fyrstu kaflana í Ævintýraeyjunni eftir Enid Blyton. Sá síðastnefndi steinsofnaði reyndar. Ég las í tæpan hálftíma en um ellefu var allt komið í ró.

Allir voru komnir á fætur um hálfníu á laugardagsmorguninn og var morgunmatur um níu. Fyrsta kóræfingin byrjaði hálftíma síðar og það voru æfingar alveg til fimm með viðeigandi djús-, og matarhléum. Kórstjórinn var mjög ánægður með strákana (16. drengurinn bættist í hópinn þennan dag, hafði ekki komist kvöldið áður). Friðrik kórstjóri hrósaði líka sérstaklega einum drengnum sem var alveg nýbyrjaður í kórnum, sá var aðeins búinn að koma á síðustu æfinguna fyrir æfingabúðirnar og ákvað samt að skella sér með.

Á meðan drengirnir æfðu, sundur og saman, hjálpuðum við hópstjórarnir við frágang og undirbúining í eldhúsinu en ég var líka með handavinnu og bækur með mér (nema hvað). Um fimm stefndum við drengjunum í íþróttahúsið þar sem búið var að setja upp þrautahring. Strákunum var skipað niður í tvö lið og svo var blásið til keppni. Eftir spennandi keppni fengu strákarnir svo að fara í sund sem einnig var á staðnum. Að sundinu loknum var farið að undirbúa kvöldvöku sem var haldin eftir kvöldmat og frágang í eldhúsinu. Kvöldvakan tókst alveg með ágætum. Það voru sagðar gátur og brandarar, leiknir látbragðsleikir og spurðar spurningar (úr trivial). Það var líka tilkynnt um snyrtilegasta herbergið. Að lokum var strákunum tilkynnt um að vegna þess hversu vel þeir höfðu staðið sig í æfingabúðunum ætlaði matráðskonan að verðalauna þá með heitri, nýbakaðri súkkulaðiköku.

Klukkan hálfellefu kom ég mínum hóp í ró. Þeir voru fljótir að sofna og voru langfyrstir inn í draumalandið. Eldri strákarnir reyndu að suða um sögustund en mér fannst orðið of framorðið og líka ósanngjarnt gagnvart þeim sem voru komnir í ró.

Ég vakti hópinn minn um átta. Drengirnir drifu sig í kórfötin og gengu frá dótinu sínu. Fljótlega eftir morgunmat var brunað í bæinn þar sem undirleikarinn átti að spila í messu í Fella- og Hólakirkju og drengirnir að syngja við æskulýðsmessu í Hallgrímskirkju. Á leiðinni í bæinn var tilkynnt um hvaða hópur hefði unnið háttvísiverðlaunin og þótt langflestir strákanna hefðu verið mjög duglegir og þægir þá skar minn hópur sig aðeins úr. Þeir mundu alltaf eftir að þakka fyrir matinn, voru fyrstir að sofna og hlýddu mér í einu og öllu.

Þetta var mjög vel heppnuð helgi og skemmtileg í alla staði.

4.3.05

litagleði

í draumnum var það eðlilegt
brún sólin risi
úr suðri upp á
fjólubláan himininn

fólkið gekk út á hlið
og allir heilsuðust
brosandi

appelsínugult hafið
lék sér við bleika ströndina
grasið var dimmblátt

þegar kvöldaði
settist sólin
í austri
fólk gekk afturábak
inn í húsin sín
og kallaði
"góða nótt!"

3.3.05

- Hamagangur í eldhúsinu -

Á arkinu seinni partinn í gær var ég ákeðin í að láta hendur standa fram úr ermum. Fljótlega eftir að ég kom heim var ég komin í eldhúsið og byrjuð undirbúa kjötbollugerð. Fyrst þurfti ég reyndar að "finna" elhúsið en þegar ég var komin í ham var það ekki lengi gert. Ég blandaði saman svína- og nautahakki til helminga, leysti upp grænmetistening í könnu af sjóðandi vatni og tók fram matvinnsluvélina mína. Fyrir utan laukinn og eggin setti ég hveiti, byggmjöl og smá kartöflumjöl út í farsið og kryddaði svo allt með pipar (hvítum, svörtum og cayanne). Úr 1200 gr. fékk ég 45 bollur.

Um kvöldið var kóræfing og kom raddþjálfari fyrsta hálftímann (hún verður lengur í næstu viku og ætlar þá að taka altinn í gegn). Hún kom til okkar tvisvar sinnum í haust og þetta eru mjög gagnlegir tímar. Eftir að hún var farin æfðum við páskasálma og einnig lög sem við verðum með á vortónleikunum.

Þar sem strákarnir voru á knattspyrnuæfingu til hálfsex arkaði ég lengri leiðina heim. Fékk skyndilega mikla löngun í að fá fisk í matinn og kom við í Fiskbúð Hafliða og keypti mér ýsu.
Kom heim hálftíma seinna en venjulega og dreif mig í húsverkin. Áður en feðgarnir komu heim var ég búin að ryksuga og byrjuð að undirbúa plokkara.

En það er best að hjálpa strákunum að klára að læra. Oddur Smári er eiginlega búinn á því, skilur hvorki upp né niður í stærðfræðinni, líklega orðinn þreyttur!

2.3.05

- Valur - KA -

Já, við tvíburarnir fórum á leikinn í gærkvöldi. Og þvílíkur leikur! "Okkar strákar" voru undir allan fyrri hálfleikinn, samt var Pálmar að verja ágætlega í markinu. Í hléinu lét ég strákana fá 500 kr. og sagði að þeir mættu kaupa sér eitthvað að drekka fyrir þá. Þeir fengu sér báðir Topp og skiluðu mér sínum hundrað kallinum hvor. ) Davíð Steinn var mikið að spá í að kaupa sér bland í poka og Oddur Smári hefur líklega vitað af því og marg sagði bróður sínum að kaupa ekki). Hlynur kom í markið í seinni hálfleik og átti mjög góðan leik. Vörnin fór líka að virka betur og á tuttugu mínútum breyttu Valsara stöðunni úr fimm mörkum undir í fimm mörk yfir. KA-menn náðu samt að minnka munin og þegar 1 sekúnda og aðeins aukakast var eftir af leiknum var staðan jöfn 27:27. Einn KA-maðurinn fékk tvær mínútur en þeir náðu samt að stilla upp mjög háum vegg. En Sigurður Eggertsson náði samt að skora sigurmarkið á alveg ótrúlegan hátt. Hann fann glufu á veggnum og markmaðurinn átti enga möguleika.