- Saumi, saumi og smá lestur með -
Í fyrrakvöld ákvað ég að leyfa mér að byrja á "nýju" saumaverkefni þrátt fyrir að vera með alveg nokkur verkefni í takinu sem eru á mismunandi stigum. Ég skrifa nýju innan gæsalappa því myndin sem ég ákvað að byrja á er búin að vera til hjá mér síðan snemma árs 2007 (að mig minnir, ætti að geta flett því upp á blogginu mínu) en ég pantaði hana um leið og bláa engilinn m.a. Þetta er eldhúsmynd en það situr líka köttur á hillunni innan um sultukrukkur og eldhúsáhöld. Ég handsaumaði hringinn í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði nokkur spor. Myndin er í grófari jafa en ég sauma oftast í svo notaðir eru þrír þræðir af sex í krosssauminn. Í gærkvöldi hefði ég átt að vera á kóræfingu en hálsinn leyfði það ekki svo ég ákvað að byrja á nýrri saumamynd, smámynd af hvítvínsflösku, vínglasi og smá vínviði. Líkt og kvöldið áður byrjaði ég á að handsauma í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði svo af stað. Þetta er miklu minni mynd í fínlegri jafa, nota tvo þræði af sex. Þegar ég lagði þetta verkefni frá mér tók ég aðeins upp flöskusvuntuna sem ég byrjaði á sl. mánudagskvöld. - Davíð gaf mér eina bók í jólagjöf, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sjálfur fékk hann nýjustu bókina hans Arnaldar. Ég gaf mér ágætan tíma að lesa mína bók. Þessi þunna bók var mun þykkari aflestrar og hygg ég að ég ætti að lesa hana aftur mjög fljótlega til að athuga hvort nokkuð hafi farið framhjá mér. Ég var þó löngu búin með bókina áður en Davíð lauk við sína svo ég þurfti að bíða í næstum þrjár vikur eftir að geta byrjað á Einvíginu. Spurning um að fara að endurnýja bókasafnskortið...