26.1.12

- Saumi, saumi og smá lestur með -

Í fyrrakvöld ákvað ég að leyfa mér að byrja á "nýju" saumaverkefni þrátt fyrir að vera með alveg nokkur verkefni í takinu sem eru á mismunandi stigum. Ég skrifa nýju innan gæsalappa því myndin sem ég ákvað að byrja á er búin að vera til hjá mér síðan snemma árs 2007 (að mig minnir, ætti að geta flett því upp á blogginu mínu) en ég pantaði hana um leið og bláa engilinn m.a. Þetta er eldhúsmynd en það situr líka köttur á hillunni innan um sultukrukkur og eldhúsáhöld. Ég handsaumaði hringinn í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði nokkur spor. Myndin er í grófari jafa en ég sauma oftast í svo notaðir eru þrír þræðir af sex í krosssauminn. Í gærkvöldi hefði ég átt að vera á kóræfingu en hálsinn leyfði það ekki svo ég ákvað að byrja á nýrri saumamynd, smámynd af hvítvínsflösku, vínglasi og smá vínviði. Líkt og kvöldið áður byrjaði ég á að handsauma í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði svo af stað. Þetta er miklu minni mynd í fínlegri jafa, nota tvo þræði af sex. Þegar ég lagði þetta verkefni frá mér tók ég aðeins upp flöskusvuntuna sem ég byrjaði á sl. mánudagskvöld. - Davíð gaf mér eina bók í jólagjöf, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sjálfur fékk hann nýjustu bókina hans Arnaldar. Ég gaf mér ágætan tíma að lesa mína bók. Þessi þunna bók var mun þykkari aflestrar og hygg ég að ég ætti að lesa hana aftur mjög fljótlega til að athuga hvort nokkuð hafi farið framhjá mér. Ég var þó löngu búin með bókina áður en Davíð lauk við sína svo ég þurfti að bíða í næstum þrjár vikur eftir að geta byrjað á Einvíginu. Spurning um að fara að endurnýja bókasafnskortið...

25.1.12

- Hálsbólga -
og sitthvað fleira
Í nokkra daga hefur hálsinn verið mjög sár, söngröddin ónothæf og talröddin léleg. Fann fyrir þessu um miðja síðustu viku. Eins og ég var ánægð með að ég var komin í góðan sundgýr, fór í Sundhöllina eftir vinnu þrjá daga í sl. viku, synti 500m og gaf mér svo góðan tíma í gufunni líka. Hélt mig alveg heima við um helgina og hef ekki þorað að fara í sund í þessari viku. Úða bara í mig sterkum brjóstsykri og heima hef ég drukkið kalt (en soðið) engifervatn með sítrónusafa út í. Passaði mig á að blanda ekki sítrónusafanum út í fyrr en engifervatnið hefur kólnað. Kitlar oft í hálsinn og fæ þá jafnan hóstakast en það er svo undarlegt að ég hef ekki fengið kitl eða kast á nóttunni. Hef heldur ekki fengið neinn hita svo ég hef alveg verið vinnufær. Mamma fékk slæmt kvef upp úr áramótunum sem endaði með því að hún fékk lungnabólgu og öll orkan sem hún náði sér í á Kanaríeyjum í nóvember er horfin. Lyfin eru varla farin að virka á hana og hún þarf að fara mjög, mjög vel með sig næstu vikurnar. - Annars var ég með saumaklúbb hjá mér á mánudagskvöldið var, no. 2 á árinu en ég missti af þeim fyrsta vegna óvæntrar magapestar sem ég fékk að morgni 11. jan. sl. Það mættu þrjár hannyrðakonur til mín og ein af þeim var að ganga í klúbbinn til okkar. Hún smellpassar inn í hópinn sem á það m.a. sameiginlegt að hafa stundað nám í FSu amk 2-3 annir eða lengur (t.d. allt stúdentsnámið). Ég dreif í að klára útlínusaum í rósamynd á flöskusvuntu og byrjaði svo á nýrri. Er með nokkur verkefni í gangi en er einnig nýbúin að klára þrjú verkefni, þar af eitt frekar stórt sem er kínverskt tákn fyrir hamingju. Þ.e. útsaumnum er lokið en svo á eftir að búa til púða úr myndinni. - Í gærmorgun var varla göngufært í vinnuna og líklega valdi ég mér alveg kolranga leið. Það var hvergi búið að moka neinagangstíga á þeirri leið. Ef stutt var út á götuna var þeim mun dýpri snjórinn þar sem ég gekk um enda var ég blaut upp að hnjám er ég mætti í vinnuna og ég hafði ekki verið svo forsjál að taka með mér aukabuxur svo ég varð að biðja Davíð um að skutla til mín þurrum buxum og sokkum. Hann fór á fætur með mér í morgun og skutlaði mér í vinnuna en ég tók eftir því að það var búið að moka e-a göngustíga í morgun. En enn snjóar og snjóar...

17.1.12

- Áfram Ísland -

Já, strákarnir okkar handboltalandsliðinu eru mættir á enn eitt stórmótið, EM í Slóveníu. Ég hafði alveg ágæta tilfinningu fyrir leiknum (Ísland - Króatía, í gærkvöldi) en leist ekki á blikuna þegar fór að líða á leikinn og ekki tókst að slíta sig frá andstæðingunum, og svo fór sem fór. En ég held að fall sé fararheill. Skrýtið annars að sjá liðið án Óla Stefáns og Snorra Steins en það kemur yfirleitt maður í manns stað. Því miður næ ég ekki að horfa á næsta leik í beinni því annað kvöld er fyrsta kóræfing ársins. - Annars missti ég af fyrsta saumaklúbbi ársins, þrátt fyrir að hafa skipulagt hann sjálf. Fannst það alveg upplagt að nota sl. miðvikudag þar sem það var ekki kóræfing. Á ellefta tímanum þann morgun snérist maginn minn á hvolf og ég varð að biðja Davíð um að sækja mig í vinnuna. Rétt náði heim áður en ég þurfti að kasta upp aftur og svo háttaði ég mig, fór beint í rúmið og svaf fram á dag. Fannst ég vera orðin hressari um kvöldið en hélt mig heima við og á fimmtudagsmorguninn kom á daginn að ég var ekki alveg orðin 100%. Var heima þann daginn. - Upp úr hádegi sl. laugardag heimsótti mig ein vinkona mín úr saumaklúbbnum og hafði hún saumana sína með sér svo við settum upp svona "mínísaumaklúbb". Held að við höfum setið og saumað og spjallað í rúma tvo tíma. - Á sunnudaginn skruppum við Davíð að versla eftir hádegið og notuðum tækifærið og fórum með fullt bílskott af ýmsu drasli í Sorpu. Við áttum von á tengdó í heimsókn og ákváðum að bjóða þeim í mat með okkur. Davíð sá um alla eldamennskuna og eldaði dýrindis læri og hafði með sætar kartöflur, sallat, baunir, rauðkál og bernessósu. Mjög ljúffengt allt saman. Með kaffinu eftir matinn buðum við svo upp á karamelluostaköku sem við höfðum kippt með okkur heim úr verslunarferðinni. Góður matur með góðu fólki og stemmingin var mjög notaleg.

11.1.12

- Dagarnir þeytast áfram -

Einn þriðji er liðinn af þessum fyrsta mánuði nýs árs og þótt maður sé ekki kominn í 100 % rútínu þá veit ég varla hvað verður af þessum dögum, og þó... Fór aðeins einu sinni í sund í síðustu viku. Taldi það ekki ráðlegt að fara aftur því ég nældi mér einhvers staðar í slæmt kvef og rétt slapp við að leggjast í rúmið vegna þess. Á laugardagsmorguninn var dreif ég mig í fyrstu esperanto-heimsókn ársins. Við stöllur komumst aðeins í gang og ákváðum að hittast ca hálfsmánaðarlega til að byrja með. Um kvöldið fórum við öll fjölskyldan í veislu sem endaði með balli sem stóð til klukkan að ganga þrjú. Tilefnið var að árgangur 1952 verður sextugur á árinu og var það móðursystir mín (og guðmóðir) sem skipulagði þennan fögnuð. Það voru smá ræðuhöld og upplestur en mest þó söngur úr ýmsum áttum og svo hafði hún beðið bróðurson sinn einn að safna saman strákum til að spila og syngja undir dansi. Davíð bauð tvíburunum að skutla þeim heim um miðnætti en það var bara annar sem þáði það. Hinn tvíburinn skemmti sér of vel til að vilja fara heim enda var jafnaldri hans og frændi okkar sem hefur sams konar áhugamál líka áfram. Þessi sami tvíburi kom svo með mér í messu í óháða klukkan tvö á sunnudaginn þar sem ég mætti sem "óbreyttur kirkjugestur" því kórstjórinn er úti og Raddbandafélag Reykjavíkur sá um að leiða messusönginn. Möguleikhúsið mætti líka á svæðið og sýndi leikrit í staðinn fyrir predikunina. Í gær hélt ég upp á 12 ára starfsafmælið í vinnunni, mætti með brauðtertu, eplaköku og ostaköku. Eftir vinnu dreif ég mig í sund og þangað náði Davíð í mig um hálfsex. Tók loksins fram handavinnuna mína í gærkvöldi, rétt til þess að athuga hvort ég yrði ekki tilbúin í fyrsta saumaklúbb ársins í kvöld...

3.1.12

- Gleðilegt nýtt ár -

Desember var ekki lengi að klárast og allt í einu er árið 2012 mætt á svæðið og bara 355 dagar til næstu jóla. Nýliðin jól voru frekar snubbótt fyrir þá sem þurftu að vinna flesta virka daga, hreinræktuð atvinnuekendajól eða hvað það kallast. Ég fékk kost á því að taka út einn aukafrídag gefins (ekki af orlofinu mínu) í boði vinnunnar og 27. desember varð fyrir valinu. Ég varð líka að taka smá frí frá kirkjusöng, söng bara með við aftanmessur á aðfanga- og gamlársdag en var komin austur á Hellu þegar messað var á jóladag. Mamma og pabbi voru með jóla"brunch"boð fyrir 19 manns (að þeim meðtöldum sem og okkur systrum og okkar fjölskyldum) milli eitt og fjögur. "Litla fjölskyldan" í Danmörku var á landinu, Gerður, Frank og tæplega sjö mánaða sonur þeirra, Elías Frey, voru á landinu 18-27 des og þau komu ma í þetta boð. Yndislega gaman að hitta þau. Foreldra hennar, ömmu, eina frænku mína hennar mann og móður hennar hittum við líka og þetta var hinn allra skemmtilegasti dagur. Helga, Ingvi og dætur eru alltaf fyrir austan á jólunum og oft um áramót. Við Davíð höfum aftur á móti alltaf haldið aðfangadaginn heima hjá okkur sjálfum, alveg frá því við byrjuðum að búa 1990, og það breyttist ekkert eftir að strákarnir fæddust. Okkur var bæði boðið í jólaboðið og hangiket með fjölskyldunni um kvöldið svo við vorum fyrir austan langt fram á kvöld. Tókum því mjög rólega heima næstu tvo daga en skutluðum bræðrunum í heimsókn til föðurforeldrana á þriðjudagskvöldinu milli jóla og nýjárs þar sem þeir voru fram á gamlársdag. Davíð var í fríi frá og með 23. des og alla virku dagana sem eftir voru 2011 og þar að auki "slæddist" 1. virki dagur á nýja árinu með inn í þetta frí. Hann hafði verulega gott af þessu fríi en hann er búin að hafa þetta ca svona nokkuð mörg undanfarin ár því fyrir ekkert svo löngu síðan gat hann ekki tekið lengra sumarfrí að sumri til heldur en uþb tvær vikur. Það er hugsanlega að breytast en ég trúi því samt mátulega fyrr en ég sé það gerast. Fimmtudaginn fyrir áramót hafði snjóað mikið um nóttina og það var eiginlega ófært á köflum. Ég var tíu mínútum lengur að arka í vinnuna enda mátti ég klofa snjóinn sums staðar upp í hné. Ég var samt mætt í vinnuna áður en klukkan sló átta. Eftir vinnu dreif ég mig í Sundhöllina og synti 400m. Var að skila mér heim um hálfsex. Jæja, fyrsti pistill ársins að verða að veruleika, allur í belg og biðu samt. Margt borið á góma en óvíst hvað af því ratar á bloggið. Sjáum bara til með það. Megi árið 2012 fara vel í ykkur og með ykkur. Knús!