Ekki tókst mér að sofa lengur en til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Gerði tilraun til að kúra svolítið lengur en var komin á fætur áður en klukkan varð hálfátta þrátt fyrir að eiga ekki að mæta til vinnu. Vann einum virkum degi lengur í mars heldur en samanlagt fyrir janúar og febrúar. Það er komið vaktaáætlun alveg til 16. apríl n.k. og skv. þeirri áætlun vinn ég alla fjóra virku dagana eftir páska og svo 15. og 16. apríl.
Tók því frekar rólega fram að hádegi í gær, setti þó handklæði í þvottavélina og var búin að hengja þau upp eftir þvottinn áður en Oddur Smári kom fram. N1 strákurinn var á vinnuvakt og hafði lagt af stað nokkru fyrir klukkan sjö.
Komst að því að það eru tveir höfundar að bókinni um Þöglu stúlkuna, Michael Hjorth & Hans Rosenfeldt og ég kannast eitthvað við persónurnar í sögunni svo ég hef alla vega lesið eina bók af þeim þremur sem eru komnar út á undan þessari.
Upp úr klukkan eitt lögðum við mæðgin af stað í verslunarleiðangur. Rúntuðum aðeins út að Gróttu á heimleiðinni. Um þrjú fékk ég svo einkabílstjórann til að skutla mér niður í bæ þar sem ég hitti 2 núverandi vinnuvinkonur og eina sem vann með okkur til 2016 á Cafe Aleppo. Ég pantaði mér kaffi með nafni staðarins, eplapæ og litla hvítvínsflösku. Eftir eins og hálfs tíma hitting kvöddumst við. Ég varð samferða einni að Hörpunni og þar sem bíllinn hennar var búinn að vera frá því klukkan korter í átti um morguninn. Hún skutlaði mér svo heim.