31.3.21

Í sjóinn í morgun

Ekki tókst mér að sofa lengur en til klukkan að verða sjö í gærmorgun. Gerði tilraun til að kúra svolítið lengur en var komin á fætur áður en klukkan varð hálfátta þrátt fyrir að eiga ekki að mæta til vinnu. Vann einum virkum degi lengur í mars heldur en samanlagt fyrir janúar og febrúar. Það er komið vaktaáætlun alveg til  16. apríl n.k. og skv. þeirri áætlun vinn ég alla fjóra virku dagana eftir páska og svo 15. og 16. apríl.

Tók því frekar rólega fram að hádegi í gær, setti þó handklæði í þvottavélina og var búin að hengja þau upp eftir þvottinn áður en Oddur Smári kom fram. N1 strákurinn var á vinnuvakt og hafði lagt af stað nokkru fyrir klukkan sjö.

Komst að því að það eru tveir höfundar að bókinni um Þöglu stúlkuna, Michael Hjorth & Hans Rosenfeldt og ég kannast eitthvað við persónurnar í sögunni svo ég hef alla vega lesið eina bók af þeim þremur sem eru komnar út á undan þessari.

Upp úr klukkan eitt lögðum við mæðgin af stað í verslunarleiðangur. Rúntuðum aðeins út að Gróttu á heimleiðinni. Um þrjú fékk ég svo einkabílstjórann til að skutla mér niður í bæ þar sem ég hitti 2 núverandi vinnuvinkonur og eina sem vann með okkur til 2016 á Cafe Aleppo. Ég pantaði mér kaffi með nafni staðarins, eplapæ og litla hvítvínsflösku. Eftir eins og hálfs tíma hitting kvöddumst við. Ég varð samferða einni að Hörpunni og þar sem bíllinn hennar var búinn að vera frá því klukkan korter í átti um morguninn. Hún skutlaði mér svo heim.

30.3.21

Heima

Varð svolítið hissa þegar vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Stillti á fimm mínútna blund á meðan ég var að átta mig á þessu. Það tók mig samt aðeins tæpar þrjár mínútur svo ég var búin að slökkva á vekjaranum áður en hann náði að hringja aftur. N1 sonurinn var að undirbúa sig undir vinnuvakt og hann fór út amk tuttugu mínútum á undan mér. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Við þrjár sem máttum mæta í gær voru sömu þrjár og unnu saman aðrahverja viku frá því viku eftir verslunarmannahelgi sl haust. Ég sinnti bókhaldinu en hinar tvær sáu um framleiðslu. Upp úr hádegi var send á okkur síðasta endurnýjun mánaðarins svo það var framleitt alveg til klukkan að verða þrjú. Ég sorteraði gömul kennispjöld á meðan og náði næstum því að klára að sortera úr þremum kössum, nokkur hundruð kennispjöld.

Fékk far heim úr vinnunni. Rétt fyrir fimm sótti sjósundsvinkona mín mig og við pikkuðum einnig upp nöfnu hennar áður en við skelltum okkur í sjóinn í Nauthólsvík, 7 mínútur í 3°C sjónum sem var að flæða að. Var komin heim aftur um hálfsex og fór beint í sturtu. Frestaði hárþvotti þótt það séu komnir tíu dagar síðan ég þvoði hárið síðast. Það sleppur alveg í tvo daga enn.

Er byrjuð á bók sem heitir Þögla stúlkan eftir Hjorth Rosenfeldt. Þetta ku vera fjórða bók höfundar um sálfræðikarakter að nafni Sebastian Bergman. Hef ekki lesið hinar en ef þessi nær til mín mun ég líklega leita hinar bækurnar uppi.

29.3.21

Extra stutt vinnuvika

Ég var komin á fætur rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Dagurinn fór allur í eitthvað dútl hér heima við og yfir 90% af því dútli tengdist áhugamálum og svoleiðis dægradvöl. Hellti mér tvisvar upp á kaffi. Horfði á báða landsleikina. Prjónaði, las og horfði á imbann. Eitt af því fáa sem ég gerði sem ekki tengdist dútlinu var að útbúa kjúklingalæri í ofni í kvöldmatinn. Var á einhverjum tímapunkti að spá í að skreppa aðeins út í göngutúr en það náði ekki lengra en að hugsa það. Bíllinn er búinn að vera kjurr í sama stæðinu síðan ég kom heim úr síðustu sundferð sl. miðvikudag. 

28.3.21

Síðasti sunnudagur marsmánaðar

Ég var glaðvöknuð og komin á fætur rétt fyrir átta í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég beint inn í stofu og kveikti á fartölvunni. Rétt rúmum klukkutíma síðar slökkti ég á tölvunni og snéri mér að því að búa mér til hafragraut. Þegar ég var búin að taka lýsi og borða helminginn af grautnum hafði ég smá tíma til að lesa og byrjaði ég á einni af bókunum sem ég sótti á safnið sl. miðvikudag; Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur. Las þó ekki lengi og upp úr hálftíu græjaði ég mig upp fyrir sjósundsferð. Fór í sundbolinn, setti teygju í hárið og sundhettuna á mig. Klæddi mig í sjósundsskóna, í lopapeysu af mömmu, ullarhúfu og yfirtökuflíkina sem ég var enn með í láni frá sjósundsvinkonu minni. Setti skó, handklæði og sjósundsvettlinga í bláan ikeapoka og húslykla, vettlinga, sokka og síma í stóru vasana á yfirtökuflíkinni. Helga Rún sótti mig stuttu fyrir tíu og svo nöfnu sína áður en við fórum og hittum systurnar á stæðinu við Nauthólsvík. Þær þrjár síðastnefndu klæddu sig upp við húsið en ég og Helga Rún fórum á "okkar staði" í fjörunni sem var hægt því það var að fjara út. Hún byrjaði á því að mæla sjóinn sem reyndist 1,8°C. Vorum allar fimm samferða út í og svömluðum um á svæðinu í uþb fjórar mínútur. Fjórir aðrir höfðu fengið sömu hugmynd, að skella sér í smá sjóbað. Ég var komin heim aftur upp úr klukkan hálfellefu og fór ekkert út aftur í gær, aðeins eina ferð í þvottahúsið að skola sjósundsskó og vettlinga, vinda og hengja til þerris. Hringdi í pabba upp úr ellefu og eftir spjallið við hann hellti ég upp á fyrstu tvo kaffibolla dagsins. Hellti aftur upp á einn bolla á þriðja tímanum. Hafði samband við Ellu vinkonu og Önnu Önfjörð frænku mína. Las, prjónaði og dundaði mér við ýmislegt.

27.3.21

Laugardagsmorgun

Það var nokkuð svalt að labba í vinnuna í gærmorgun. Var ekki í nýju úlpunni en það slapp alveg til, hefði sennilega svitnað miklu meira í henni. Í vinnunni vorum við sömu þrjár og á fimmtudaginn. Skiptum um hlutverk og mitt hlutverk í gær var að taka á móti framleiðslu dagsins og skoða. Eftir hádegi vorum við að flokka kennispjöld til klukkan rúmlega hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert út aftur. Strákarnir voru báðir heima og ég hafði lasanja í kvöldmatinn. Annars var ég að vafra á netinu, prjóna, lesa og glápa á imbann. Ekki allt í einu samt. Áður en ég fór að sofa lauk ég við að lesa bókina sem ég hef verið að lesa undan farna daga. Það kom tilkynning frá bókasafninu um að skiladagur væri í gær en ég gat framlengt um 30 daga og gerði það. 

26.3.21

Helgarfrí

Seinni partinn í fyrradag var ákveðið að aðeins þrjár mættu mæta á vinnustað í einu. Yfirmaður setti upp nokkura daga plan og ég var skráð í vinnu í gær, dag og nk. mánudag og síðan ekki fyrr en fyrsta virka dag í apríl. Þegar við erum þetta fáar í vinnu röðum við okkur niður í framleiðslu og bókhaldsverkefni, ein í bókhaldi, önnur að hlaða inn og troða í vél og sú þriðja að taka á móti og skoða. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið í gær. Ein af okkur fékk að fara fljótlega eftir hádegi en við hinar sátum og flokkuðum kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Þá ákváðum við að segja þetta gott þann daginn. Ég labbaði heim og byrjaði á því að hella mér upp á sterkan kaffibolla. Fór ekkert út úr húsi aftur en fór tvær ferðir í þvottahúsið, eina til að setja í vél og aðra ferð til að hengja upp. Horfði á báða landsleikina, vafraði um á netinu í fartölvunni og las smávegis í seinna bindinu um Hellu. Fór tiltölulega snemma í háttinn eða rétt fyrir tíu og las þá í bókinni; Vatn handa fílum sem er sú bók af safninu sem ég skilaði ekki í fyrradag.

25.3.21

Hertar reglur

Í gærmorgun var ég vöknuð um fimm við fuglasöng. Gerði tilraun til að kúra mig niður en um hálfsex gafst ég upp og fór bara á fætur, tannaði, tók lýsi og settist svo með fartölvuna inn í stofu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Vorum fjórar mættar í vinnu og mitt hlutverk var að sinna bókhaldinu. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið. Eftir hádegið vorum við allar fjórar að flokka niður gömul kennispjöld eftir bönkum. Hættum í fyrra fallinu. Ég fékk far heim úr vinnunni og var komin í þann mund sem bein útsending frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um hertar samgöngur hófst. Ég hafði fengið áminningu frá bókasafninu um að skiladagur væri að nálgast. Ég tók til sunddótið og ákvað að byrja á því að skreppa á safnið og skila öllum bókum nema þeirri síðustu, sem ég er enn að lesa. Þá bók ætla ég að framlengja, ef það þá gerist ekki bara "sjálfkrafa" vegna lokunnar. Fékk fimm bækur að láni í amk mánuð. Af safninu fór ég beint í sund. Fór fjórum sinnum 4-5 mínútur í kalda pottinn, synti 500 metra, fór tvisvar í heitasta pottinn og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr og heim að útbúa ommilettu úr 4 eggjum, rjóma, rifnum osti og afgangi af soðinni ýsu.

24.3.21

Á leið í sund og bókasafn áður en lokar

Vaknaði örfáum mínútum áður en vekjarinn átti að fara af stað í gærmorgun. Slökkti á honum og dreif mig á fætur. Það var ekki lengur strigaskóafæri svo ég reimaði á mig gönguskóna og labbaði í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega. Vorum allar fimm og nú er nóg af aukaverkefnum ef maður er búinn með þau verkefni sem skráð er á mann. Rétt fyrir þrjú kom yfirmaður okkar á staðinn og fundaði með okkur í tæpa klukkustund. Góður fundur og farið yfir eitt og annað. Fékk far heim úr vinnunni. Vorum aðeins lengur á leiðinni því umferðin er þyngri upp úr klukkan fjögur. Stoppaði heima í hátt í klukkustund og hringdi m.a. í pabba. Dreif mig loksins í sund upp úr hálfsex. Fór tvisvar sinnum 5 mínútur í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og synti svo aðeins 100 metra áður en ég fór upp úr og heim aftur. 

23.3.21

Alveg að fara í sund

Vekjaraklukkan vakti mig í gærmorgun. Valdi að "blunda" áfram í fimm mínútur en slökkti svo og fór á fætur þegar hún hringdi aftur. Það var strigaskóagöngufæri í vinnuna. Þurfti reyndar að sneiða framhjá einstaka pollum. Ég átti móttökuvakt á framleiðsluvélinni fram að kaffi. Var í öðrum verkefnum fram að hádegi en eftir hádegi og til rúmlega þrjú var ég á fremri (stjórnar) enda vélarinnar að framleiða endurnýjun. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima til hálffimm en þá skrapp ég í sjóinn við Nauthólsvík. Var komin heim aftur um klukkustund síðar.

Er byrjuð að lesa síðustu bókina af safninu: Vatn handa fílum eftir Sara Gruen. 

22.3.21

Sund- eða sjóferð, erfitt að velja

Mágur minn og hundarnir voru fyrstir á fætur í gærmorgun. Ég kom fram rétt fyrir klukkan átta og þá var að hellast upp á kaffikönnuna. Upp úr klukkan tíu kvöddu systir mín og mágur og fóru með hundana í bæinn. Þau voru á tveimur bílum, mágur minn á vinnubíl því hann verður í verkefnum hér fyrir sunnan til miðvikudags. Leið þeirra hjóna lá í Kostkó áður en þau sóttu yngri dóttlu sína og mættu í fermingaveislu til systursonar Ingva.

Ég stoppaði fyrir austan aðeins fram yfir kaffi og var komin í bæinn rétt fyrir klukkan sex. Kvöldið fór í sjónvarpsgláp.

21.3.21

Hittingur á Hellu

Ég vaknaði við vekjaraklukkuna korter yfir sjö í gærmorgun. Dreif mig fram úr og á fætur. Lokað var inn í stofu sem benti til þess að frænka mín hefði skilað sér í hús einhvern tímann eftir að ég fór að sofa. Um hálfátta bankaði ég upp á hjá N1 syninum og spurði hvort hann þyrfti ekki að mæta í vinnuna klukkan átta. Hann dreif sig á fætur og ég tók til sunddótið mitt. Skutlaði syninum upp á Gagnveg og var hann mættur tvær mínútur fyrir átta. Kom við á Altanstsolíustöðinni við Sprengisand og fyllti á tankinn áður en ég fór í sund. Fámennt en góðmennt var í sundi en það voru samt all nokkrir sem heilsuðu mér með spurningunni; "Hvar hefur þú verið?" Það er svolítið langt síðan ég var í sundi á þessum tíma og undanfarna laugardaga hef ég þar að aukið valið að fara í sjóinn. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn í 4-5 mínútur áður en ég synti 500 metra. Fór þrjár ferðir í viðbót í kalda pottinn, tvær ferðir í heitasta pottinn og endaði á gufubaði áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til klipparans rétt fyrir tíu. Hálft ár síðan ég var þar síðast. Hann klippti um 2cm af hárinu til að laga endana en lengsta tímann tók að þurrka og greiða á mér hárið. Það heldur áfram að þykkna og nú er ekkert verið að þynna það.

Hvorki Oddur né Bríet voru komin á fætur þegar ég kom heim um hálfellefu. Ég bjó mér til hafragraut og kaffi og gluggaði aðeins í helgarblaðið á meðan ég gæddi mér á þessu. Á tólfta tímanum raðaði ég klæðnaði, snyrtisetti og bókum í ferðatösku og tók til handavinnutöskuna og prjónadótið mitt. Bankaði á herbergisdyrnar hjá Oddi til að kveðja hann og brunaði svo beinustu leið á Hellu. Þar voru fyrir systir mín og mágur og báðir hundarnir þeirra og seinni partinn bættust Jóna Mæja og Reynir í hópinn. Grillið var tekið út. Mágur minn gerði bernessósu og hann og Reynir grilluðu lambasneiðar eftir að Helga systir og Jóna voru búnar að útbúa tvenns konar sallat og ofnbakað grænmeti. Þetta var mjög gott. Ég gekk frá eftir matinn og pabbi hellti upp á kaffi og boðið var upp á kleinur, kex og súkkulaði í eftirrétt. Jóna og Reynir kvöddu á ellefta tímanum og fljótlega fóru systir mín, mágur og hundarnir að sofa. Pabbi bauð góða nótt stuttu á eftir þeim. Ég sat við tölvuna til klukkan hálftólf áður en ég slökkti á henni og fór inn í rúm að lesa.

20.3.21

Gos

Þrátt fyrir smá úða og einhverja polla fór ég á strigaskóm og úlpu labbandi í vinnuna í gærmorgun. Á föstudögum erum við fjórar í vinnu því sú fimmta er í 70% stöðu og búin með sína vinnuviku á hádegi á fimmtudögum. Ég byrjaði frammi í skrifstofurými að undirbúa pökkun. Flokkaði svo gömul kennispjöld í um hálftíma þar til hægt var að telja fyrstu tölur. Eftir kaffi fór ég inn á framleiðsluvél að troða í og eftir hádegi fór ég á móttökuendann. Hættum framleiðslu um þrjú og gengum frá. Ég fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði stutt við heima, fann til sunddótið mitt og dreif mig í Laugardalinn. Á heimleiðinni kom ég aðeins við í Krónunni við Nóatún. Ég var nýkomin heim og að setja upp grjónagraut þegar yngri systurdóttir mín kom. Hún þurfti að fara þrjár ferðir til að sækja dótið sem hún var með svo ég spurði auðvitað hvort hún væri flutt til mín. Dótið setti hún inn í stofu enda búin að fá leyfi til að gista þar. Ég fékk samt að sitja yfir imbanum langt fram á kvöld og aðeins inn í nóttina.

Æskuvinkona mín hringdi í mig upp úr tíu og það var hún sem færði mér þau tíðindi að gos væri hafið við Fagradalsfjall á Reykjanesi. Ég var að horfa á nýjasta þátt FBI most wanted, hafði ekki nennt að horfa á allan vikulega þáttinn hans Gísla Marteins en vinkona mín sagði að hann hefði fengið fréttirnar í eyrað undir lok þáttarins. Eftir spjallið við Ellu beið ég eftir því að aukafréttatíminn í sjónvarpinu hæfist og horfði aðeins fram yfir miðnætti. Útsendingu var ekki lokið þegar ég slökkti og dreif mig í háttinn. Rétt hafði úthald til að lesa einn kafla í næstsíðustu bókasafnsbókinni áður en ég fór að sofa í hausinn á mér.

19.3.21

Aftur komin helgi

Labbaði í vinnuna í gærmorgun á strigaskóm í mildu og góðu veðri. Vinnudagurinn leið hratt en hann var ekki búinn fyrr en um hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Aldrei þessu vant hafði ég gleymt að færa húslyklana yfir í bakpokann. Hvorugur sonanna svaraði í síma en annar þeirra hringdi fljótlega til baka og hleypti mér þá inn. Ég stoppaði stutt við heima, rétt til þess að taka til sunddótið. Var mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan fjögur og var að klára mína fyrstu ferð í kalda pottinn þegar kalda potts vinkonan mætti á svæðið. Hún byrjar venjulega á því að fara í heitasta pottinn. Fór fimm ferðir í þann kalda með henni en endaði svo í gufubaði. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og keypti m.a. ýsu í soðið. 

18.3.21

Bráðum verður dagurinn lengri en nóttin

Vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Var mikið að spá í að fara labbandi í vinnuna en í tilefni dagsins ætlaði ég að bjóða samstarsfólki mínu upp á smá veitingar sem voru aðeins meiri en ég treysti mér til að labba með. Það varð úr að ég fór á bílnum í vinnuna í fyrsta skipti á þessu ári. Framleiðsludagurinn fór ekki nógu vel af stað því það höfðu engar skrár skilað sér yfir á vél og við þurftum að hringja á vin til að hjálpa okkur að koma þeim yfir. Og fyrir utan fyrstu tvo daglegu verkin var ein stór endurnýjun með. Sem betur fer gat sá sem kom og hjálpaði okkur sent yfir nokkrar skrár í einu svo það tókst að ná að ljúka við að framleiða fyrsta skammtinn fyrir tímamörkin. Eftir þá framleiðslu fórum við í kaffipásu. Ég bauð m.a. upp á pralín ostatertu, litla gerð af súkkulaðitertu, þrjár tegundir af ostum, vínber og ritzkex. Þetta féll alveg í kramið.

Vinnudegi lauk rétt fyrir hálffjögur. Ég fór heim til að sækja sjósundsdótið mitt og var komin í 3,7°C sjóinn rétt upp úr fjögur. Það var mikil fjara og áður en ég vissi af var ég búin að svamla alla leið út að kaðli. Kom heim aftur um fimm og næsta klukkutímann var í að skoða og svara afmæliskveðjum á veggnum mínum. Helga systir hringdi í mig um þetta leyti.

 Klukkan sex fór ég aftur út og brunaði upp í Hraunbæ, mætti síðust af vinnufélögunum en íbúðareigandinn var akkúrat að byrja að sýna alla króka og kima íbúðarinnar. Svo bauð hún okkur upp á tvær tegundir af súpu, kjúklinga- og sveppasúpu, brauð og fl. Það var svo mikið af súpu að við spurðum tveggja spurninga, hvað hún hefði átt von á mörgum eða hverslu lengi hún vildi að við værum. Ég smakkaði báðar súpurnar og þáði svo kaffi og lítið páskaegg á eftir. Var vel södd eftir þessar veitingar. Um átta leytið kvöddum við gestgjafann. Á leiðinni heim hringdi besti vinur minn í tilefni dagsins. Sá býr í Grindavík og ég spurði strax hvernig þau hefðu það. Hann sagði að þetta væri búið að taka á og nóttin á undan hefði verið sú fyrsta í þrjár vikur sem hann svaf vel og vaknaði úthvíldur.

Þegar heim kom hélt ég áfram að svara öllum kveðjum og fékk einnig þriðja afmælissímtalið og það var frá esperanto vinkonum minni.

17.3.21

Afmælisdagur í dag

Var vöknuð aðeins á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun og kom mér fljótlega á fætur. Sinnti morgunverkunum á baðinu og fékk mér matskeið af lýsi og glas af vatni. Svo settist ég smá stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Labbaði af stað í vinnu um sjö og var mætt um hálfátta. Vorum fjórar af fimm, ein var í orlofi. Vinnudagurinn leið frekar hratt við alls konar hefðbundin sem og nokkur óalgeng störf. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heimavið í uþb klukkustund áður en ég dreif mig í sund. Synti reyndar ekkert en fór 3x4-5 mínútur í kalda pottinn, 2x í heitasta pottinn, 1x í sjópottinn og endaði í gufunni. Kom við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim.

16.3.21

Marsmánuður hálfnaður

Ég vaknaði á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun og fór fljótlega á fætur. N1 sonurinn var kominn fram aðeins á undan mér og fór út úr húsi amk tuttugu mínútum á undan mér. Ég labbaði á strigaskóm í vinnuna sem var alveg í góðu lagi, göngufærið fínt. Sennilega voru það sokkarnir sem urðu til þess að tvær litlar tær á vinstra fæti fóru að nuddast saman á göngunni. Lét það samt ekki stoppa mig. Var á framleiðsluvélinni í móttöku fram að kaffi og í frágangi frammi í skrifstofurými eftir kaffi. Eftir hádegi sat ég sveitt í á þriðja klukkutíma að taka hið árlega öryggispróf, svara 30 spurningum, langflestar með fjórum svarmöguleikum og fyrirmælin voru þau að standast þyrfti með amk 70% rétt til að þurfta ekki að taka prófið strax aftur. Það hafðist og rétt rúmlega það.

Fékk far heim úr vinnunni og var að undirbúa mig að verða sótt af sjósundsvinkonu minni þegar ég sá tilkynningu frá Ylströndinni í Nauthólsvík að loka þyrfti aðstöðunni frá klukkan hálffjögur í gær vegna veikinda starfsmanns. Ég lét því vinkonunan vita að ég ætlaði að skreppa í sund í staðinn. Var mætt þangað rétt fyrir fimm og var búin að fara eina ferð í kalda pottinn þegar kalda potts vinkonana mætti. Við fórum fimm ferðir saman í þann kalda og svo endaði ég á að sitja góða stund í gufunni. Sleppti því alveg að synda í þetta sinn.

Ég var nýkomin upp í rúm um hálfellefu í gærkvöldi þegar stærsti skjálfti gærdagsins reið yfir, rúmlega 4 að stærð. Það kom annar innan við 4 skömmu síðar og fann ég líka fyrir honum. Las í smá stund en var svo örugglega sofnuð einhvern tímann upp úr klukkan ellefu. 

15.3.21

Ný vinnuvika framundan

Í gærmorgun var ég komin á fætur rétt fyrir átta. Til að byrja með fór ég aðeins að vafra um á netinu í fartölvunni sem Davíð Steinn lánaði mér. Áður en klukkan varð níu var ég búin að slökkva. Fékk mér afganginn af hafragrautnum frá því á laugardagsmorguninn. Borðaði hann kaldan með rúsínum og rjóma. Var mætt í laugardalslaugina um hálftíu. Byrjaði á því að synda og var búin með fyrstu ferðina í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín fann mig í heitasta pottinum. Ein systir hennar og nafna mín mætti á svæðið þegar við vorum að koma úr þriðju og fjórðu ferðinni í kalda. Stuttu síðar hittum við sjósunds vinkonu mína og það kom í ljós að þær könnuðust hver við aðra, höfðu alist upp í sama hverfi. Þvoði á mér hárið þegar ég fór upp úr. Var komin heim um tólf og byrjaði á því að hella mér upp á kaffi. Var að hlusta á hádegisfréttirnar og prjóna þegar einn stór skjálfti reið yfir rúmlega hálfeitt.

Rétt fyrir tvö hringdi ég í nöfnu mína og frænku, Önnu Önfjörð, og okkur samdist um að ég kæmi yfir til hennar en við færum saman í kaffihús. Oddur Smári skutlaði mér vestur í bæ og hann notaði ferðina til að fara með flöskur og dósir í endurvinnslu. Rétt eftir að ég hringdi á dyrasímann hjá frænku minni ku næst stærsti skjálftinn í þessari þriggja vikna hrinu hafa riðið yfir, 5,4 og annar um 4 rétt síðar. Ég fann ekki fyrir þeim þarna fyrir utan, hef líklega verið á einhverri hreyfingu á meðan ég beið eftir að nafna mín kæmi niður og út. Það fyrsta sem hún spurði mig að þegar hún svo kom var hvort ég hefði fundið skjálftann. Hún sagði að kisan þeirra hefði í fyrsta skipti farið í spá í hvað væri að gerast, lætin og glamrið í húsgögnum og dóti í skápum var það mikið.

Við frænkur fórum saman á Cafe Aleppo og ég bauð okkur upp á kaffi og kruðerí. Eftir gott spjall og einnig könnun á hversu stórir skjálftarnir voru löbbuðum við aðra leið til baka. Nafna mín bauðst til þess að skutla mér heim og þáði ég það svo hittingur okkar var, smá gönguferð, kaffihúsahittingur og bíltúr að auki.

Er byrjuð að lesa næstsíðustu bókina af safninu: Marrið í stiganum eftir Evu Björg Ægisdóttur.

14.3.21

Fjárfest í sundbolum

Ég var frekar löt að fara framúr í gærmorgun og var klukkan langt gengin í níu áður þegar ég hafði mig loksins framúr. Klukkutíma síðar bjó ég mér til hafragraut og átti ég rjómalögg til að bæta út á hann svo hann var virkilega saðsamur og góður. Rétt rúmlega hálfellefu sótti sjósundsvinkona mín mig. Mættum í röðina við aðstöðuna korter fyrir ellefu. Systurnar komu um svipað leyti. Við vorum allar frekar aftarlega en samt nógu framalega til að fá að fara inn í fyrsta hollinu. Sjávarhitinn var kominn niður í 2,1°C og vindkælingin nokkur. Ég var fyrst út í af fjögurra manna hópnum mínum. Það var fjara svo vaða þurfti hálfa leið til Kópavogs ef maður vildi komast á eitthver dýpi.

Var skilað heim aftur fyrir klukkan hálfeitt. Fékk mér afgang af steiktum fiski frá því í vikunni og hellti mér upp á tvo kaffibolla. Tveimur tímum síðar dreif ég mig í sundbolaleiðangur í Sports Direct. Fann uppáhalds sniðið mitt í minni stærð og keypti mér þrjá. Tveir af þeim þremur sundbolum sem ég hef verið að nota eru orðnir hættulega þunnir á viðkvæmum stöðum svo þeir verða lagði til hliðar og svo í Rauða kross gám fljótlega. 

13.3.21

Í sjóinn á eftir

Labbaði af stað í vinnuna um sjö í gærmorgun, Um það bil sem ég var að komast efst upp á Skólavörðuhæðina ákvað ég að taka niður og slökkva á höfuðljósinu. Það er sennilegt að ég þurfi ekki að setja það upp aftur næstu mánuðina því það er alls ekki eins dimmt á morgnana enda verður jafndægur á vori um næstu helgi. Ég sinnti bókhaldsstörfum í vinnunni og um ellefu tók ég þátt í förgun ónýtra plasta frá því í febrúar. Höfðum þann háttinn á að ég þuldi upp tegundirnar og fjölda og yfirmaður minn var með pappíra til að staðfesta. Fyrirliðinn og ein úr öryggisdeildinni biðu með að farga plastinu þar til búið var að staðfesta öll tæplega hundrað kortin. Síðan var skeiðklukkan sett í gang til að athuga hvað tæki langan tíma fyrir tvo að tæta þessi kort. Niðurstaðan var ein og hálf mínúta. Eftir förgun var stuttur stöðu og upplýsingafundur. Öllum daglegu verkefnum og frágangi var lokið fyrir klukkan hálftvö. Enginn póstur kom klukkan tvö svo við drifum okkur heim í helgina. Ég fékk far heim. Byrjaði á því að hella mér upp á kaffi og fá mér smá hressingu. Tveim tímum seinna dreif ég mig loksins í sund og náði tveimur ferðum í kalda pottinn með kalda potts vinkonu minni. Ég tók svo smá sundsprett áður en ég fór aftur heim og bjó til plokkfisk úr afganginum að ýsunni frá því kvöldið áður.

12.3.21

Föstudagur

Þar sem ég tók að mér að sitja yfir þeim sem sinna yfirferð á framleiðsluvélinni var mér boðið að mæta aðeins seinna til vinnu í gærmorgun. En þótt ég ætti von á því að vera til klukkan fjögur þá var ég vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sjö og ákvað að labba af stað á venjulegum tíma, um sjö. Var í móttökustörfum á vélinni fram að morgunkaffi en pökkun, frágangi og talningu fram að hádegi. Yfirferðarmennirnir voru mættir klukkan tólf. Þá vorum við búnar að læsa alla skápa og bankatöskur inn á lager. 70% manneskjan kvaddi um þetta leyti og óskaði okkur góðrar helgar. Hinar tvær voru farnar um og upp úr klukkan eitt. Ég var með prjónana mína og bækur. Um tvö athugaði ég hvort borist hefði póstur. Pósthólfið var tómt. Yfirferðarmennirnir voru aftur á móti að taka sig saman og hættir. Þeir áttu semsagt aðeins að skila fjórum tímum og þar sem þeir voru tveir deildust tímarnir á þá báða svo þeir voru bara tvo tíma. Ég gat því hætt um leið og þeir voru farnir.

Labbaði heim og var komin nokkru fyrir þrjú. Kalda potts vinkona mín hafði haft samband fyrir klukkan átta og spurt hvort ég kæmi í sund um fjögur. Þá átti ég ekki von á því að komast fyrr en um fimm. Ég var ekkert að breyta tímasetningunni aftur. Mætti þó í sund rétt fyrir fimm, kom við í fiskbúðinni áður. Þá var hún búin að fara eina ferð. Saman fórum við fimm ferðir og fórum svo ýmist í heitasta pottinn, sjó-pottinn (sem loksins er kominn sjór í aftur) og pott no 2 sem er 42°C. Ég tók svo eina loka ferð í þann kalda, mína sjöttu áður en ég fór upp úr og heim. Klukkan var orðin meira en hálfsjö en ég var búin að græja soðna ýsu, með kartöflum og lauksmjöri um sjö leytið.

11.3.21

Labbað báðar leiðir

Fór labbandi á strigaskóm í vinnuna í gærmorgun. Færið var fínt. Við vorum aðeins fjórar í vinnu, sú fimmta hafði tekið sér orlofsdag. Ein af hinum tók svo út styttingu og kvaddi okkur um hádegið. Þá var framleiðslu lokið og átti aðeins eftir að telja síðustu tölur. Fljótlega eftir hádegishlé voru þær afgreiddar og sú sem var í bókhaldinu fór með slatta af dósum og flöskum með sér út stuttu fyrir tvö. Við tvær sem vorum eftir hinkruðum til tvö ef það myndi koma póstbeiðni um að vinna ákveðið verk. Sá póstur kemur aðeins stöku sinnum en hafði komið á slaginu tvö síðustu fjóra virka daga á undan. Í gær kom enginn póstur svo við ákváðum að drífa okkur heim. Ég fékk fínasta meðbyr á göngunni heim en mér fannst pínu fyndið að vera í strigaskóm þar sem það var kominn smá snjór hér og þar. Snjórinn var samt meira að fjúka um.

Þegar heim var komið hellti ég mér upp á tvo bolla af kaffi þrátt fyrir að vera búin að drekka amk fjóra espressó í vinnunni yfir daginn. Var lengi vel að spá í að drífa mig í sund en um fimm tók ég þá ákvörðun að fara ekkert út úr húsi aftur, heldur lesa, prjóna og taka því rólega. 

10.3.21

Smá hret

Ég reimaði á mig gönguskóna rétt fyrir sjö í gærmorgun. Setti ekki broddana undir og það slapp alveg til á göngunni í vinnuna. Þurfti þó að fara extra varlega þegar ég þveraði Klamratúnið, labbaði stundum til hliðar við steypta stíginn. Vann til klukkan tólf því ég var búin að ákveða að taka hálfan dag og skrá sem uppsöfnuð stytting vinnuvikunnar fyrir marsmánuð.

Hafði nefnt það við einkabílstjórann hvort hann myndi fara í Sorpu í fyrra fallinu, sækja mig í vinnunna á leiðinni þangað og hleypa mér út við Krónuna við Granda. Sonurinn var ekki einu sinni lagður af stað þegar ég labbaði út af vinnustaðnum en þegar ég náði loksins í hann samdist okkur um að hann myndi pikka mig upp við Sólfarið. Ég rölti því þangað og þurfti aðeins að bíða í uþb 7 mínútur.

Var búin að skrifa niður innkaupalista svo ég myndi ekki gleyma neinu nauðsynlegu. Komum heim um hálftvö. Þá var hinn sonurinn búinn að taka aðeins til í eldhúsinu. Einkabílstjórinn hjálpaði mér að ganga frá vörunum og svo tókum við okkur saman um að fara aðeins yfir gólfin, með rykmoppu yfir parketi, hrúgurnar svo ryksugaðar upp sem og teppið fram á palli og flísarnar á baðherbergisgólfinu.

Klukkan var langt gengin í fjögur þegar ég tók til sjósundsdótið og brunaði í Nauthólsvík. Það var næstum háflóð, sjórinn 3,2°C og ég svamlaði um í rúmar tíu mínútur. Engin biðröð var við aðstöðuna en þegar ég var á leiðinni heim upp úr klukkan fjögur þá tók það mig aðeins lengri tíma að komast heim en venjulega því það var smá umferðarsulta á Flugvallarvegi upp á Bústaðaveg.

Í gærkvöldi var ég svo með saumaklúbb hjá mér. Það var 100% mæting og sem fyrr fannst okkur við bara búnar að sitja, föndra og spjalla í uþb tíu mínútur þegar klukkan var allt í einu orðin ellefu. 

9.3.21

Stytting

Var í fyrstu ekki alveg viss hvað var að gerast þegar vekjarinn fór í gang í gærmorgun. En ég var tiltölulega fljót að átta mig og dreif mig á fætur. Átti til kaldan hafragraut í ísskápnum síðan á laugardagsmorguninn og ég gæddi mér á honum. Labbaði á strigaskóm í vinnuna. Nú þegar við erum allar fimm þá verðum við að skipta verkunum á milli okkar. Tvær sjá um framleiðsluvélina fram að morgunkaffi, ein sinnir bókhaldinu og önnur af þeim sem tekur við vélinni eftir kaffi undirbýr pökkun. Hin fær þá yfirleitt að aðstoða bókarann við að telja þegar fyrstu tölur eru tilbúnar eftir fyrsta framleiðsluskammtinn. Daglegri framleiðslu lauk fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi ákváðum við að setjast aðeins niður saman í sófanum, tvær af okkur vorum með prjónana. Spjölluðum á léttu nótunum í kannski hálftíma áður en bókarinn fór að undirbúa síðustu talningalotu dagsins. Á slaginu tvö kom póstur sem þurfti að meðhöndla á ákveðinn hátt. Svona póstur kemur stöku sinnum en svo geta liðið dagar á milli. Í gær var þetta þriðji pósturinn í röð frá og með sl. fimmtudegi. Stungum af úr vinnunni rétt fyrir hálfþrjú. Ég fékk far heim.

 Þar sem ég fór ekkert í sund á sunnudaginn og þvoði þar af leiðandi ekki á mér hárið þá þá ákvað ég að drífa mig í sund seinni partinn. Synti að vísu ekki nema 200 metra en fór 4x4-5 mínútur í kalda pottinn, 2x í heitasta pottinn og var svo góða stund í gufunni. Þvoði á mér hárið og var komin heim um sex. Hafði tekið út þorshnakkaflak út í gærmorgun. Setti upp kartöflur, skar flakið í fjóra bita og steikti upp úr eggi og krydduðum byggflögum. Átti svo smá rjómaslettu til að setja út á pönnuna í restina. Mjög gott.

Er byrjuð á enn einni bókasafnsbókinni; Blóðengill: Hilma eftir Óskar Guðmundsson. Er samt enn að lesa Vatnið, gríman og geltið. Þar að auki er ég enn að lesa tvær síðustu jólabækurnar og svo styttist örugglega í að ég opni seinna bindið um Hellu.

8.3.21

Slyddukenndur göngutúr í vinnuna í morgun

Ég vaknaði ekki fyrr en klukkan var að verða hálftíu í gærmorgun, við glampandi sól og afar gott veður. Bíllinn minn var samt hrímaður að utan. Veit ekki hvenær ég sofnaði eftir skjálftann um nóttina en það var amk ekki alveg strax. Pabbi spurði um hvað við ættum að hafa í hádegismat. Sagðist reyndar eiga skyr fyrir sig. Ég tók út eina þorskblokk, sem ég steikti upp úr hrærðu eggi og krydduðu byggmjöli. Sauð kartöflur með og var maturinn tilbúinn rétt fyrir tólf.

Um eitt leytið fékk ég mér göngutúr upp að Helluvaði til að heimsækja föðursystur mína. Þetta er fyrsta heimsóknin mín til hennar á þessu ári en hún er búin að fá báðar sprauturnar. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma.

Annað sem ég gerði á meðan ég var fyrir austan um helgina, fyrir utan að prjóna, lesa og leggja kapla var að fá síðustu upplýsingar í skattframtalið mitt og skila því. Í fyrra var lokagreiðslan á lífeyrissjóðsláni sem pabbi tók og lánaði mér til að fjármagna fyrstu íbúðarkaupin 1995.

Um hálffimm kvaddi ég pabba og brunaði heim í bæinn. Var komin heim um sex, en södd eftir hádegismatinn og tvo kaffitíma. N1 sonurinn var að vinna til hálfátta og hinn fékk sér núðlur um það leyti sem ég var að koma heim. 

7.3.21

Hrökk upp við skjálfta um tvö í nótt

Var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Hálftíma síðar vakti ég N1 soninn og spurði hvort hann ætti ekki að mæta til vinnu um átta. Það var reyndin og bauðst ég til að skutla honum. Hann þáði það, pissaði, tannaði og klæddi sig og með minni aðstoð komst hann í vinnuna rétt áður en klukkan sló átta. Ég fór beint heim aftur. Gekk frá endum á fyrsta barnateppinu sem datt af prjónunum í fyrrakvöld. Fitjaði upp á nýju barnateppi með öðru mynstri. Byrjaði að lesa Vatnið, gríman og geltið eftir Silju Björk Björnsdóttur sem er mágkona mágs míns og er um veikindi hennar sem hún glímdi við um tvítugt. Um hálftíu bjó ég mér til hafragraut og hellti upp á könnuna. Klukkutíma síðar var ég sótt af nöfnunum. Við vorum mættar í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík korter fyrir ellefu, nógu framalega til að ná inn með fyrsta hollinu. Sjórinn var kominn yfir þrjár gráður og tvær af okkur nutum þess að svamla um. Sú þriðja naut þess líka til að byrja með en við vorum kannski of lengi út í fyrir hana, næstum því korter og svo smá stund í lóninu áður en við fórum í heita pottinn. Vorum í pottinum í amk tuttugu mínútur en hún náði ekki í sig hita, ekki fyrr en hún fékk sér te eftir að hún mætti til vinnu upp úr tólf.

Um eitt leytið var ég búin að taka saman farangur amk til einnar nætur, vakti Odd til að kveðja hann og brunaði beint austur á Hellu. Við pabbi fórum í smá kaplakeppni en spilin voru ekki með okkur í liði svo ég settist fljótlega inn í stofu með prjónana mína. Pabbi bauð upp á pönnsur með kaffinu og í kvöldmat fékk ég kjötsúpu. Hann sjálfur er hættur að borða heitan mat á kvöldin, fékk sér kornfleks og lifrapylsusneið. Eftir að kvöldfréttirnar voru byrjaðara fékk ég leyfi til að renna í hvítvínsbeljuna. Horfði á seinni hlutann um Daða og Gagnamagnið og skipti svo yfir á Sjónvarp símans. Ég var komin upp í rúm um ellefu og las bara í stutta stund. Var örugglega sofnuð fyrir miðnættið. Um tvö leytið í nótt var ég nýbúin að snúa mér í rúminu þegar skjálftinn upp á fimm reið yfir og fannst greinilega. Ég ætlaði að halda áfram að sofa en ég varð að byrja á því að skreppa fram á salerni og tæma hlandblöðruna fyrst og það varð líklega til þess að ég glaðvaknaði og gekk illa að sofna aftur í einhvern tíma.

6.3.21

Sjórinn 3,2°C

Að sjálfsögðu labbaði ég í vinnuna fimmta daginn í röð í gærmorgun. Var mætt um hálfátta. Á föstudögum mætum við fjórar af fimm, þ.e. ef engin er í fríi eða lasin. Fram að morgunkaffi var ég inni á framleiðsluvélinni í móttökunni eftir að hafa tekið saman og talið til þær tegundir sem voru í daglegri framleiðslu í fyrstu tveimur daglegur verkefnunum. Eftir kaffið var ég frammi í pökkun, frágangi og einnig föstudagstalningu með bókaranum þegar framleiðsluverkefnum var lokið. Engin auka framleiðsla er í gangi svo það var engin framleiðsla eftir hádegi. Vorum samt í vinnu til klukkan að verða hálfþrjú.

Fékk far heim úr vinnunni. Hellti mér upp á smá kaffi og settist smá stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Var komin í sund klukkan að verða hálffimm. 3x5 mínútur í kalda, 300m sund og endaði í löngu gufubaði. Kom heim aftur um sex. 

5.3.21

Fyrsta heila vinnuvikan mín á árinu liðin

Vaknaði upp við snarpan skjálfta stuttu fyrir sex í gærmorgun, rúmum hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að vekja mig. Fór á fætur skömmu síðar. Labbaði af stað í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega. Valdi aðra leið eftir að ég var komin þvert yfir Klambratún. Fór yfir Snorrabraut, framhjá Domus Medica, upp á milli Tækniskólans og Hallgrímskirkju, Skólavörðustíginn, hluta af Arnarhól og kom Kalkofnsveginn að vinnustaðnum. Ég var í bókhaldi og kom því ekkert nálægt framleiðslunni. Hinar fjórar skiptu með sér verkum, tvær í framleiðslu fram að kaffi og hinar tvær í alls konar undirbúning frammi. Þær síðarnefndu fóru svo í framleiðsluna eftir morgunkaffi. Allri endurnýjun er lokið í bili og daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir klukkan tólf. Nú þegar við erum allar í vinnu saman er ein búin að færa sig aftur í 70%. Hún var því búin með vinnuvikuna sína um hádegið. Við hinar vorum til rúmlega tvö.

Fékk far heim úr vinnunni. Fór í sund um fjögur. Var búin að synda 400metra og sat í minni fyrstu ferð í þeim kalda þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Kom heim aftur um sex. 

4.3.21

Skatturinn

Ég er ekki búin að opna skattframtalið mitt sem á að skila inn á næstu dögum. Er samt alveg róleg yfir þessu og stefni að því að skoða þetta og klára um komandi helgi.

Tuttugastaogþriðja vinnudaginn í röð á árinu labbaði ég í vinnuna upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Framan af morgni höfðum við allar fimm nóg að sýsla. Við þrjár sem vorum frammi til að byrja með, ein í bókhaldi, önnur í að undirbúa pökkun og sú þriðja að sortera og raða saman ónýtu plasti frá því í febrúar, vorum sömu þrjár og unnu saman aðra hverja viku frá verslunarmannahelgi. Tvær af okkur tókum við framleiðslunni inni á vél eftir morgunkaffi. Ég var í að taka á móti. Þegar daglegu framleiðsluverkefni tvö af þremur lauk og það var amk hálftími í það þriðja höfðum við síðustu endurnýjun febrúar úr að moða. Sú endurnýjun var keyrð til okkar og yfir á vél sl. mánudag og það var búið að framleiða eitthvað af henni. Nokkrar misstórar skrár voru þó eftir og framleiddum við allar nema þá stærstu, hún var framleidd eftir hádegið.

Skipt var um vinnutölvur hjá mér og einni annarri eftir hádegi í gær og það var ekki búið fyrr en um fimm. Fékk svo far heim og ákvað að fara ekkert út úr húsi aftur, skrópaði semsagt í sjóinn og fór heldur ekkert í sund. 

3.3.21

Jarðhræringar og gosórói

Jæja, ætli það sé komið að því? Gos kannski að hefjast á stað sem er virkt en hefur ekki gosið öldum saman? Það er mikið lagt á almannavarnir þessi misserin og verkefnin velflest krefjandi. Og margt sem hefur verið að gerast og er í gangi eitthvað sem þarf að fylgjast með, læra af og búa sig undir allt mögulegt. Það væri nú samt alveg ágætt ef maður hætti að hrökkva upp við skjálfta á nóttunni.

En hvað um það, það gerist sem gerist. ÉG er að spá í að reyna bara að halda áfram daglegri rútínu. Ég labbaði í vinnuna á svipuðum tíma og oftast áður í gærmorgun og var mætt á vinnustaðinn rétt upp úr hálfátta. Ég átti fyrstu vakt á vélinni ásamt einni annarri, ég að hlaða inn og setja af stað. Hún að telja til tegundirnar og taka á móti. Sú sem átti að vera í móttökunni eftir kaffi var í krefjandi yfirlestri á verkferlum og handbók og þáði það að ég leysti hana af. Svo það fór þannig að ég kom mér inn á vél allan tímann sem hún var í gangi því eftir hádegi vorum við aftur saman á vélinni sem tókum fyrstu vaktina. Ég að taka á móti og hún að troða í. Hættum framleiðslu rétt fyrir hálffjögur, gengum frá og fórum heim. Fékk far með þeirri sem var tvisvar með mér á vélinni.

Kalda potts vinkona mín lét mig vita að hún kæmist ekki í sund. Ég var mætt í Laugardalslaugina upp úr klukkan fjögur. Fór 3x5 mínútur í kalda, synti 400 metra, fór einu sinni í heitasta pottinn og endaði í gufunni. Kom heim um sex leytið.

Er enn að lesa bókina Pabbastrákur en er rúmlega hálfnuð með hana enda hef ég aðeins verið að lesa í þeirri bók síðustu tvö kvöld.

2.3.21

Annar dagurinn í mars

Labbaði af stað í vinnu í gærmorgun rétt upp úr klukkan sjö og var þriðja af fimm til að mæta til vinnu. Eftir að hafa fyllt á vatnsflöskurnar okkar og setið smá stund frammi á kaffistofu fór tvær að vinna á vélina, ein í bókhaldið og við tvær sem áttum vélarvakt eftir morgunkaffið til hádegis fórum í lagertalningu. Í morgunkaffinu fengum við sendar sérstakar veitingar frá næsta yfirmanni í tilefni þess að þetta var fyrsti vinnudagur okkar allra saman síðan síðast í júlí á síðastliðnu ári. Fyrir utan daglega framleiðslu var enn nokkur endurnýjun eftir. Vélin var gangandi alveg til klukkan að ganga fjögur fyrir utan kaffi og hádegispásur.

Fékk far heim úr vinnunni upp úr hálffjögur. Rúmum klukkutíma síðar sótti sjósundsvinkona mín mig. Við voru aðeins tvær af fimm úr hópnum okkar sem drifum okkur í sjóinn. Vorum rúmar fimm mínútur í 2,2°C sjónum og svo nokkrar mínútur í lóninu sem virkaði næstum eins og heitur pottur. Vorum svo næstum hálftíma í heita pottinum. Mér var skilað aftur heim um sexleytið.

1.3.21

Grímulausar allar fimm saman í vinnu

Fór á fætur um klukkan níu í gærmorgun. Fljótlega hafði kalda potts vinkona mín samband og hún spurði hvort ég myndi mæta í Laugardalslaugina um tíu. Ég kvað svo vera og var akkúrat á planinu fyrir utan laugina þegar klukkan sló tíu. Hrafnhildur var þegar búin að fara eina ferð í kalda pottinn þegar hún hitti mig þar í minni fyrstu ferð. Fyrsta ferðin hjá mér varð þá aðeins lengri en hinar fjórar sem ég fór í viðbót. Eftir fimmtu ferðina mína synti ég 400m áður en ég fór upp úr. Þvoði á mér hárið og á heimleiðinni kom ég við í Krónunni við Nóatún. Restin af deginum var svona svipuð og undanfarna daga. Horfði á Landann og fyrri partinn af heimildamyndinni um flugslysið í Mykinesi 1970. Er ekki búin að klára að lesa bókina. Fór í háttinn um tíu, bæði til að lesa smá og undirbúa mig undir fyrstu heilu vinnuvikuna síðan í fyrra sem og að hitta allar samstarfskonur mínar á deildinni en síðast vorum við allar saman seinni partinn í júlí sl. Varð vör við skjálftana sem voru um hálfeitt í nótt og hrökk svo upp með andfælum klukkutíma síðar þegar sá sem var 4,9 reið yfir.