29.3.07

- Ballettsýningin -

Ég var svo heppin að vera boðið á ballettsýningu sem Hulda systurdóttir mín tók þátt í í fyrrakvöld. Þetta var frábær sýning og kenndi ýmissa grasa. Þarna voru fiðrildi, dúkkur, bansar, kanínur blóm, póníhestar (Hulda dansaði sem einn af hestunum og gerði það virkilega vel) og margt fleira. Helga bauð okkur mömmu þar sem Ingvi mágur er ekki á landinu og hún tók Bríeti með líka. Sú stutta sat í fanginu á mér fram að hléi, alveg grafkyrr og horfði hugfangin á. Eftir hlé átti hún bágt með að sitja lengur kyrr og vildi helst fara upp á svið og taka þátt. Í nokkra stund valsaði hún upp og niður við hliðina á sætaröðunum og lyfti höndum upp yfir höfuð eins og ballerínurnar á sviðinu. Ætli hún byrji ekki í ballett næsta haust, það mætti alveg segja mér það.
Í gærkvöldi var sameiginleg kóræfing í Óháðu kirkjunni. Þar var mikill raki og loftslagið eins og á Kanaríeyjum en aðfaranótt mánudags sl. sprakk heitavatnsrör og skemmdist töluvert. Gólfin í kjallaranum og eldhúsinnréttingin eru líklega alveg ónýt. Æfingin gekk hins vegar mjög vel. Um hálftíu kvaddi Kópavogskirkjukórinn en við hin sátum eftir og héldum æfingum áfram þar til klukkan var farin að ganga ellefu. Adda, afleysingaorganisti, sagði okkur frá því að Pétur Máté, væri búinn að segja upp. Það er búið að biðja hana um að vera áfram en málin skýrast ekki fyrr en einhvern tímann í sumar.

27.3.07

- Heimsókn til "afa" -


"Afi" hafði sett sig samband við mig vegna esperantobóka og möppu og bauð mér í leiðinni að koma með hinn tvíburann til að skoða vinnustaðinn hans. Nú fer hver að verða síðastur til að heimsækja afa í vinnuna, þar sem hann á aðeins eftir að vinna þarna í örfáa daga. Ég var búin snemma og dreif mig með karatestrákinn á fórða tímanum í gær (söngfuglinn var búinn að fara í svona heimsókn). Strákurinn var mjög ánægður með sýningatúrinn og var m.a. svo heppinn að hitta eitt átrúnaðargoð sitt og kasta á það kveðju (nokkuð sem ég hélt að myndi ekki gerast því ég hitti þennan mann í fermingamessunni sl. sunnudag og hafði spurt hann hvort hann yrði á staðnum og fengið neikvætt svar). Við kvöddum afa klukkutíma síðar og var ég þá komin með esperanto-orðabók í möppu, kennslubók í esperanto og fleira í hendurnar. Við mæðgin vorum bæði í sjöunda himni eftir þessa heimsókn!

Var mætt í rope-yoga korter yfir sex í morgun. Svei mér þá ef ég þarf ekki að taka með mér handklæði næst. Því hægar sem ég geri kviðæfingarnar á bakinu því meir bogar svitinn af mér. Ég verð alveg rennandi blaut og ég fann að einu sinni var farið að leka upp í aðra nösina á mér. En það er gott að byrja daginn svona og mér líður mjög vel í líkamanum eftir æfingarnar og langt fram eftir degi. Þetta er fimmta vikan af átta sem er að byrja en líklega verða amk tveimur færri tímar seinni helminginn af námskeiðinu vegna rauðra daga í almanakinu.

26.3.07

- Helgin flogin -

Já, hún staldraði ekki lengi við blessuð helgin. Ég mætti í rope yoga tíma rétt fyrir klukkan níu á laugardagsmorguninn. Kennarinn, Þórdís, lét okkur gera 15 æfingar af hverri æfingu á bakinu og næstum öllum hliðaræfingum líka. Gerðum 10 æfingar af tveimur síðustu hliðaræfingum, blævængnum og sparkinu. Þetta gekk bara vel og nokkuð áreynslulaust fyrir sig. Fór beint heim í sturtu en skrapp svo yfir til norsku esperantovinkonu minnar.
Bekkjarfélagi tvíburanna úr Ískaksskóla, sem fluttur er í Stykkishólm, var í bænum um helgina og bauð bræðrunum með sér í keilu seinni partinn á laugardaginn. Þeir vissu að von var á vininum og þegar þeir vissu að þeim yrði boðið í keilu fóru þeir út og biðu eftir að verða sóttir. Þeir hurfu út um þrjú og ég sá þá ekki aftur fyrr en rétt fyrir sjö.
Í gær var ég mætt á kóræfingu í óháðu kirkjunnu rétt fyrir tólf. Við æfðum fyrir páskana og messu dagsins sem var fermingamessa. Meira hvað fólk mætir últra tímanlega í kirkju ef eitthvað er um að vera. Fyrstu kirkjugestir mættu einumoghálfum tíma fyrir messuna. Fermd voru 13 börn og gekk allt vel fyrir sig, fyrir utan það að rétt fyrir messubyrjun, alveg um tvö, fór brunabjallan í gang með miklum látum. Þetta reyndist ekkert alvarlegt. Presturinn, séra Pétur Þorsteinsson , gerði gott úr þessu og sagði að nauðsynlegt hefði verið að hringja inn eins og í skólunum.
Um fjögur ætlaði ég á handboltaleik, Valur - Stjarnan og var þetta síðasti heimaleikur Vals sem leikinn verður í höllinni. Það var allt lokað þegar ég mætti á svæðið og samt vorum við nokkur sem vorum að tínast að. Starfsmaður opnaði fyrir okkur og sagði að leikurinn væri ekki fyrr en klukkan sex en okkur væri velkomið að bíða. Ég notaði tækifærið og verslaði inn. Þegar ég gerði svo aðra tilraun tókst mér að fá alla feðgana með mér. Þetta var hörku leikur og höllin þétt setin. Stjörnustrákarnir skoruðu fyrsta markið en það var samt aldrei spurning hvernig leikurinn færi. Pálmar var í miklu stuði í markinu og varð m.a. víti, hinn markvörðurinn kom einu sinni inn á til að freista þess að verja víti sem hann og gerði og einnig seinna skotið (því stjörnustrákarnir höfðu náð frákastinu). Heimaliðið vann með sex marka mun.
Davíð skutlaði okkur mæðginum heim og dreif sig svo á skrifstofuna. Hann ætlaði ekki að vera svo lengi en við mættumst á tröppunum rétt fyrir klukkan sex í morgun.

23.3.07

- Aftur komin helgi -

Noh enn ein helgin er að skella á. Nú er að byrja messutörn í Óháðu kirkjunnu. Næstu tvo sunnudaga eru fermingamessur og svo verður messað að kvöldi föstudagsins langa (og þá munum við flytja hluta af "Eine kleini orgelmesse" ásamt kirkjukór Kópavogskirkju) og svo er messa klukkan átta á páskadagsmorgun. Við munum reyndar flumflytja Hayden verkið í Kópavogskirkju strax eftir messu í Kópavogskirkju um hádegisbil á föstudaginn langa. Mjög spennandi allt saman.

Já, vá hvað er stutt í páska. Þetta er bara alveg að skella á.

Sat við saumana mína í gærkvöldi. Var að sauma jólakort með mynd af kirkju á. Rosalega flott en líka mjög smátt. Hluti af saumaskapnum er saumaður með hálfu spori og þakið á kirkjunni er bara saumað sem útlínur. Ég byrjaði á þessu korti á þriðjudagskvöldið og klára það líklega næst þegar ég ákveð að sauma það. Ég er nefnilega að sauma "Kossinn" á fullu líka, alveg búin að sauma þrjá dekkstu litina og er með fjórða litinn (af sjö alls). Dekksti liturinn myndar skugga á milli andlitanna og næst dekkstu litirnir mynda skuggana og varirnar í andlitunum svo það er mjög flott að sjá myndina verða til á jafanum þegar hún er saumuð svona.

Farið vel með ykkur og eigið góða helgi!

22.3.07

- Gamall "vinur" á næstu grösum -

Þegar ég kom heim í gær tók ég eftir mjög kunnuglegum bíl í næsta stæði, Daihatsu Grand Move, meira að segja bílnúmerið var kunnuglegt, ON367. Þetta var "gamli bíllinn" sem við áttum á undan Fíatinum. Mér fannst mjög vinalegt en svolítið skrýtið að sjá hann fyrir utan núverandi heimilið okkar.
Í fyrradag fór ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði þeim bókum sem ég var búin að lesa. Bað um að framlent yrði á allar hinar bækurnar. Ein af þeim man ég samt ekki eftir að hafa séð í fórum mínum og ekki hefur ratast stafur um hana í lestrardagbókina mína. Í gær kíkti ég svo á Gegnir.is og sá þá að það hafði ekki framlengst tíminn á þessa tilteknu bók. Ég sendi fyrirspurn á aðalsafnið í Grófinni og sagði mínar farir ekki sléttar, heldur verulega brugðnar, var alveg eyðilögð yfir að finna ekki þessa bók. Ég fékk svar við fyrirspurninni í morgun og þar var mér tjáð að bókin hefði fundist upp í hillu á safninu og búið væri að taka hana af listanum hjá mér. Mér létti stórum.

20.3.07

- Danssýning 5. BH -
Í gær sýndu, Oddur Smári og krakkarnir í hans bekk foreldrum sínum, systkynum og þeim ættingjum sem einnig var boðið og mættu, nokkra dansa. Við fengum að sjá tvo línudansa, rúmbu, cha,cha,cha, dans ársins 2006 og körfuboltadansinn. Það sem þau voru flott og frábær. Sýningin byrjaði um sex og ég var örlítið stressuð með tímann því Davíð Steinn var með drengjakórnum á upptökuæfingu í Fella- og Hólakirkju og var búinn korter fyrir sjö. Ég var reyndar búin að búa hann undir að þurfa að bíða smá.
UM kvöldið skrapp ég á Friendtex fatakynningu til vinkonu minnar. Auðvitað freistaðist ég smá þótt ég sé ekki alveg í því fatanúmeri sem mér líður best í. En ég stoppaði ekki lengi því ég var á leið í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Passaði mig reyndar á að stoppa ekki of lengi svo ég yrði komin í rúmið vel fyrir miðnættið.
EN aðeins um síðastliðna helgi, afmælishelgina mína. Á laugardagskvöldið fórum við Davíð á árshátíð SRB sem haldin var á Grand Hótel. Veislustjórar voru Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson og voru þeir með undirleikara með sér. Tvær úr kortadeildinni tóku sig til og laumuðu þeim upplýsingum að þeim að það væri afmælisbarn í salnum. Milli forréttar og aðalréttar báðu þeir svo Önnu Sigríði (mig) um að rísa á fætur. Þeir sungu svo afmælislag í óperustíl við frumsamin texta áður en þeir báðu alla viðstadda um að standa á fætur syngja afmælislagið og hrópa svo þrefalt húrra á eftir. Þegar þjónnin sem þjónaði okkar borði vissi að ég ætti afmæli sagði hann að hvítvínsglasið sem ég hafði pantað með matnum væri í sínu boði. Glasið var reyndar nær tveimur glösum að magni hafði fengið vínið inn í karöflu og hafði þjónninn upphaflega sagt að ég fengi bónus þar sem vínið sem ég hafði pantað var volgt. Veislustjórarnir voru frábærir og klappaðir upp nokkrum sinnum þegar þeir voru að klára. Á eftir lék hljómsveitin BUFF fyrir dansi fram á rauða nótt. Við Davíð fórum reyndar heim um eittleytið.
ALLUR sunnudagurinn fór meira og minna í fótboltagláp og útsaum hjá mér. Við skruppum reyndar í Krónuna í Skeifunni og versluðum inn. Vorum heppin að fá allt sem var á listanum því verslunin er að hætta og þar af leiðandi eru þeir hættir að taka inn nýjar vörur. Það er sorglegt að þeir skuli vera að leggja þessa búð niður, ég var farin að versla þarna mjög reglulega og sá að það munaði mig heilmiklu.

17.3.07

Rifa augun reif og kát
raula lítinn brag.
Á mig kemur ekkert fát
ég er þrjátíuogníu í dag.

16.3.07

- Helgin í nánd -

Ósköp líða dagarnir eitthvað hratt. Lífið gengur samt sinn vanagang. Oddur Smári var mjög duglegur í ritgerðavinnu í vikunni. Hann hafði lært af fyrri vinnubrögðum og bætt þau verulega. Hann valdi að skrifa um Akureyri og átti að skila amk einni blaðsíðu, handskrifaðri, í gær. Strákurinn var búinn að skrifa ritgerðina á þriðjudaginn. Aftur á móti var ég mjög hissa á Davíð Steini, hann gerði þetta svo rétt og vel síðast en tveim dögum fyrir skil (skilin voru í dag) var hann ekki einu sinni búinn að velja sér efni. En minn tók sig á og skrifaði ágætis ritgerð um Mývatn í gærkvöldi. Ég benti honum samt á að betra væri að gera þetta eins og hann gerði það síðast, velja sér efni sem fyrst, leita upplýsinga, leyfa málunum að gerjast og eiga þá bara eftir að fínpússa daginn fyrir skil. Svo verður bara að koma í ljós hvort þeir bræður tileinki sér þessa aðferð eða ekki.
Á kóræfingu í fyrrakvöld mætti kirkjukór Kópavogskirkju til okkar og stjórnandi þeirra sem reyndar er að hætta mjög fljótlega. Vel gekk á æfingunni og var mjög gaman. Í kaffinu var boðið upp á afganga frá Bjargarkaffinu um síðustu helgi. Ég lét samt ekki freistast.
Saumaskapurinn gengur bara þokkalega. Ég er jafnvel að spá í að hvíla "kossinn" og sauma eins og eitt stykki jólakort fljótlega.
Farið vel með ykkur og hafið það gott um helgina!

13.3.07

- Örstutt -
1000

Jibbí,
ég er komin með uppþvottavél aftur, og hún virkar fínt. Þetta er uppþvottavélin sem var á Grettisgötunni þar sem systir mín og hennar fjölskylda bjuggu síðast.

Það var nokkur þeytingur á mér í gær. Sótti kórkexið upp í Hallgrímskirkju. Stoppaði stutt heima og kom Oddur Smári með þegar ég skutlaði bróður hans á upptökuæfingu í Fella- og Hólakirkju. Síðan lá leiðin yfir í Veghúsin þar sem mamma var að passa Bríeti. Afhenti henni fermingamyndina og nú hefur hún tæpar þrjár vikur til að ramma hana inn. Við stoppuðum ekki lengi því Oddur Smári gleymdi sundskýlunni sinni í æfingabúðunum og hann er að fara í sundtíma á morgun svo við komum við í Hagkaup áður en ég skutlaði honum á karateæfingu.

Í gærkvöldi lauk ég við
Lukkukettina og merkti mér þá. Skammstöfunin og ártalið kemur samt ekki til með að sjást eftir að ég verð búin að ramma myndirnar inn. Svo byrjaði ég á kossinum, saumaði í kringum jafann og tók miðjuna.

11.3.07

- Annasöm helgi -

Ég hitti mömmu og aðra konu í Bónus við Holtagarða á þriðja tímanum á föstudaginn. Saman fylltum við þrjár körfur að ýmsu matarkyns sem nota átti í kóræfingabúðunum um helgina. Ég kom heim um hálffjögur. Davíð Steinn var búinn að finna sig til alveg sjálfur. Ég fór yfir listann með honum en hann hafði engu gleymt. Rétt fyrir fimm skutlaði ég stráknum upp að Hallgrímskirkju. 33 kórdrengir (þrír voru veikir), tvær eldhúsdömur, átta eða níu hópstjórar, kórstjóri og undirleikari lögðu af stað með rútu til Hlíðardalsskóla nokkru seinna.

Rétt fyrir níu á laugardagsmorguninn var ég mætt í rope yoga tíma númer 6. Náðum að gera allar tíu kviðæfingarnar og svo sjö æfingar á hvorri hlið. Svo voru góðar teygjur og slökun í restina. Ég kom heim rétt á undan Davíð en hann var að koma frá því að skutla Oddi Smára á rútuna sem fór frá Laugardalshöll með 9-11 ára frjálsíþróttakrökka á leið í æfingabúðir á Laugarvatn. Ég dreif mig í sturtu og skrapp svo til Inger í esperanto tíma. Við notuðum tímann til að skrifa niður (á esperanto auðvitað) hvað við ætlum að borða, drekka og spjalla um á esperanto á kaffihúsi saman fljótlega.

Skrapp í Hagkaup eftir að ég fór frá Inger og keypti m.a. efni í brauðtertuhring. Þegar ég kom heim fann ég manninn steinsofandi ennþá. Hann var að hugsa um að drífa sig á skrifstofuna en mér tókst að fá hann fyrst með mér í heimsókn til Helgu systur og Ingva mágs. Hittum frænku okkar systra og hennar mann þar. Eftir heimsóknina skutlaði Davíð mér heim og fór sjálfur á skrifstofuna. Ég skipti um á hjónarúminu, setti í þvottavél og kláraði að sauma fermingamyndina. Um hálfsex skipti ég um föt og var mætt á veitingahúsið Ítalíu þar sem ég hitti þrjár af fjórum samstarfsstúlkum mínum og yfirmanneskjuna. Fjórða samstarfskonan var veik. Þarna áttum við saman tvær skemmtilega stundir yfir mat. Misjafnt var hvað hver pantaði, ein t.d. pantaði bara aðallrétt og gos og kaffi á eftir. Þrjár af okkur (þar á meðal ég) pöntuðum eina hvítvín saman. Ég var líka ein af þremur sem fékk mér forrétt, aðalrétt og eftirrétt og kaffi á eftir. Það eina sem skyggði á þessa góðu stund (fyrir utan að það vantaði eina í hópinn) var að þegar við vorum að borða eftirréttin var klukkan alveg að verða átta og það kom þjónn til okkar og sagði að borðið væri pantað klukkan átta. Sú yngsta í hópnum safnaði okkur saman í bílinn sinn og gerðist leigubílstjóri.

Eftir að ég kom heim bjó ég til brauðtertuhringinn og horfði svo á sjónvarpið fram eftir kvöldi.

Davíð var búinn að lofa að hjálpa til á karatemóti í morgun og átti að vera mættur í Kópavoginn um ellefu. Fyrst skutlaði hann mér samt að ná í Fíatinn sem var enn á Laugaveginum frá því í gærkvöldi. Ég var mætt á kóræfingu um tólf með brauðtertuna með mér því í dag var svokölluð Bjargar-messa og þá selur kvenfélag óháða safnaðarins meðlæti með kaffinu (flestir kórfélagar og kvenfélagskonur leggja eitthvað til veislunnar). Mamma og Davíð Steinn komu við að sækja húslyklana hans um eittleytið. Stráksi vildi frekar fara heim og vera einn þar heldur en að vera í messunni. Ég kom heim um þrjú (sleppti alveg kirkjukaffinu) og Davíð og Oddur Smári rúmum hálftíma síðar.

Núna eru nafnarnir að hjálpast að við að gera enskuverkefni. Mig langar að drífa í að ljúka við að sauma lukkukettina svo ég geti byrjað á nýju saumaverkefni fljótlega. Á nóg af ósaumuðum myndum eins og fram hefur komið áður.

Að lokum langar mig að geta þess að næsta færsla verður tímamótafærsla því hún verður númer 1000. Þessi færsla er semsagt númer 999!

8.3.07

- Danssýning 5HLE -



Við vorum öll mætt í hátíðarsal Hlíðaskóla um fimm í gær. Davíð Steinn og allir hinir í bekknum hans vorum um það bil að fara að sýna okkur nokkra dansa sem þau voru búin að læra. Oddur Smári ákvað að sleppa karateæfingu og koma með. Dansararnir byrjuðu á að sýna okkur tvo línudansa. Næst voru strákarnir beðnir um að bjóða dömunum upp í rúmbu. Þegar allir strákarnir voru komnir með dansfélaga voru þrjár stakar stúlkur eftir. Danskennarinn vissi af Oddi í salnum og spurði hvort hann væri tilbúinn að hjálpa þeim. Og hvort hann var. Hann hjálpaði til í rúmbunni og einnig í næsta dansi sem var cha, cha, cha. Að lokum dönsuðu krakkarnir dans ársins og körfuboltadansinn (sá dans var bónus fyrir hvað þau höfðu staðið sig vel á haustönninni). Á eftir sýningunni fengu allir sér af hlaðborðinu en allir höfðu lagt eitthvað í púkk.

Annars var ég í fimmta rope yoga tímanum í morgun. Það er mjög gott að byrja daginn á þessum æfingum. Vellíðanin er gífurleg og ég get svo svarið það að maður er brosandi allan daginn.

7.3.07

- Keppni og kappleikir -

Strákarnir áttu ekki að mæta fyrr en hálfsex (í stað hálffimm) í Laugardalshöll. Þá var upphitun og svo var keppni í 60m, langstökki, kúluvarpi og 800 m hlaupi milli krakka í yngri aldursflokkunum. Keppendur komu frá öðrum félögum líka. Mínir kepptu í elsta flokknum (11 ára) og gekk svona misvel en voru þó eitthvað að bæta sig miðað við þeirra fyrri árangur. Það voru þrjár greinar á dagskrá hjá þeim í gær, ein greinin, 800 m hlaup, verður háð seinni partinn í dag en þá verða tvíburarnir fjarri góðu gamni (ég held samt að Oddur Smári sé bara fegin því). Um sjö leytið skrapp ég frá til að kaupa fjölskyldutilboð á KFC. Ég kom til baka um hálfátta og þá áttu þeir enn eftir að vera í rúman klukkutíma á svæðinu. Það kom sér einkar vel fyrir mig því ég gat þá horft á fyrri hálfleikinn í leik Liverpool og Barcelona. Þvílíkur hálfleikur, "mínir menn" áttu að skora amk 3 mörk. Markskot hálfleiksins voru tíu á móti einu og voru sumir boltar að sleikja stangir eða slá. Ég hélt að sjálfsögðu með (og held enn, hef gert það lengi) með Liverpool. En ég held líka með Eiði Smára og var bara nokkuð sátt við að hann skyldi skora eina mark leiksins. Og þar sem Liverpoolmenn unnu fyrri leikinn í Barcelona 2:1 þá fóru þeir áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

5.3.07

- Orðabullumbull -
Vindurinn strauk mér svo blítt um kinn
sveifluðust lokkar í allar áttir.
Ég verð þó að bíða enn um sinn
að opnaðar verði allar gáttir.
Glaðlegar hugsanir huga minn fylla
hætt get ég ekki að brosa.
Rétt er sér stundarkorn aðeins að tylla
samt ekki´ á blautan mosa.
Hvað er í gangi, ég bara spyr?
Tíminn hann þýtur hratt.
Niður ég sest og borða mitt skyr
samt var ekkert svo bratt.
Tímabært er þessu rugli að rjúfa
rangla tímanum mót.
Hlusta kannski á lagið ljúfa
láta sig dreyma um bót.

4.3.07

- Sunnudagskvöld -

Strákarnir eru sofnaðir og Davíð er að vinna. Hann fór á skrifstofuna um miðjan dag. Rétt fyrir átta sótti hann okkur Odd Smára og fór með okkur á kvöldvöku í Hallgrímskirkju þar sem Davíð Steinn var að syngja með drengjakórnum, fermingarbörn fluttu helgileik um sköpun ljóssins, ung stúlka spilaði á hörpu, strengjakvartett og tvö klarinett fluttu tvo kafla úr þekktu verki, Pétur Benediktsson flutti tvö lög eftir sjálfan sig og svo var einnig samsöngur, hugvekja og bænastund. Davíð skutlaði okkur mæðginunum heim og fór svo aftur að vinna.

Ungt par er búið að kaupa risíbúðina og er að koma sér fyrir. Í dag bankaði smiður upp á og vildi fá að skoða smá verksummerki eftir sig. Um var að ræða smá gat niður úr loftinu í herbergi tvíburanna. Hann lofaði að spasla í þetta og mála yfir svæðið við tækifæri.

Ég fór í Laugardalshöll og sá Valsara vinna Akureyri í handbolta karla í dag. Hitti tvær frænkur mínar á leiknum sem fór 32:28 fyrir mína menn. Fyrsta markið kom ekki fyrr en á fimmtu mínútu og það voru norðanmenn sem skorðuðu það. Þeir komust í 2:0 en svo skoruðu Valsmenn 7 mörk í röð og eftir það var eiginlega aldrei spurning um hvernig leikurinn myndi fara.

3.3.07

- Ýmislegt -

Enn ein helgin er runnin upp. Á fimmtudaginn beið mín miði frá Margaretha um að varan (jóladúkurinn sem ég sé fyrir mér á stofuborðinu einhver næstu jólin), væri kominn. Ég fór strax eftir vinnu í gær og sótti þetta.

Fermingamyndin er langt komin. Nú á ég aðeins eftir að ljúka við að sauma blómin, kyrtilinn, nafn fermingarbarnsins og fermingardaginn. Og þá verður það líklega bara "Ugla sat á kvisti... Að vísu á ég eftir að klára annan lukkuköttinn (þennan sem er að fylgjast með fiðrildunum) og ramma myndirnar inn. Einnig á ég hálfsaumað jólakort.

Rétt fyrir sex skutlaði ég Oddi Smára á aukaæfingu með sensei Poh Lim (í svokallaðar æfingabúðir). Ég skrapp og setti bensín á Fíatinn en fór svo og fylgdist aðeins með æfingunni. Ég var líka með saumana mína og bók (nema hvað) og saumaði og las á meðan ég beið.

Í morgun dreif ég mig á fætur rétt upp úr átta til að vera vel vöknuð á laugardags rope yoga æfingunni sem hófst rétt fyrir níu. Æfingin var mjög góð. Sumir voru að koma í fyrsta skipti og að þessu sinni var kennarinn með konu til aðstoðar sem kemur til með að vera með laugardagsæfingarnar. Ég finn enn fyrir töluverðum harðsperrum í kviðnum en það er víst bara gott. Guðni sagði að "ég væri með fullan kvið af ánægju".

Davíð ætlar að fara með Oddi Smára í karateæfingabúðir dagsins sem eru á sama tíma og laugardagsæfingarnar hjá stráknum. Þetta er síðasti tíminn sem sensei Poh Lim kennir. Og seinni partinn í dag verður Davíð Steinn sóttur ásamt fjórum öðrum drengjum úr drengjakórnum og farið verður af stað út í óvissuna.

Farið vel með ykkur.

1.3.07

- Nýr mánuður -
og bráðum aftur komin helgi

Ég fór í rope yoga tíma tvö í morgun og að þessu sinni sá ég að það voru tvær sturtur í klefanum. Ákvað samt að halda mig við áætlun mína. Mér tókst að sleppa við harðsperrur í handleggjum en er frekar aum frá bringu og niður á læri. Það á eftir að jafna sig fljótlega. Við gerðum allar tíu kviðæfingarnar (á bakinu) og tvær æfingar að auki á hvorri hlið. Þetta er bara gott og frábært að framundan séu sjö vikur í viðbót plús tíminn á laugardaginn.
Kóræfingin var í Kópavogskirkju í gærkvöldi. Aftur var okkur skipt upp í karla og kvennaraddir og farið vel yfir alla þrjá kaflana (af sex) sem við erum búin að fá í hendurnar. Í lokin sungum við saman yfir tvo af köflunum. Það gekk svona þokkalega. Allt í einu var klukkan orðin hálftíu. Mikið sem tíminn getur hert á sér ef verið er að gera eitthvað skemmtilegt, og nógu hratt fer hann fyrir...