23.8.10

- 23.08.1890 -
Ættarmót í Heiðarættinni

Í dag eru 120 ár síðan föðuramma mín heitin, Vilborg Helga Þorsteinsdóttir frá Berustöðum, fæddist. Pabbi minn er "örverpið" hennar og Odds Oddssonar, frá Heiði á Rangárvöllum. Hann, pabbi minn alltsvo, hefur alltaf verið duglegur að taka myndir af ýmsu og ýmsum og á orðið þónokkuð safn sem hann hefur haldið vel utan um í gegnum tíðina. Systkynabörn hans hafa lengi þrýst á um að haldin yrði myndasýning. Pabbi taldi að myndasýningin ein og sér myndi nú ekki taka neitt svo langan tíma og vildi gera meira úr þessu. Það var samþykkt fyrir nokkru, ákveðið að blása m.a. til ættarmóts í kringum 120 ára fæðingarafmæli ömmu minnar og nefnd sett á laggirnar. Pabbi sá um að taka saman allskyns fróðleik um það hvernig "Heiðarættin" er tilkomin enda á hann til ómetanlegan fróðleik í sínum fórum (gömul skjöl og sendibréf) og ákvað að tileinka hann ömmu sinni, Guðbjörgu Filippusdóttur (1855-1918), enda má alveg segja að hún sé upphafið af tilurð okkar sem kennum okkur við Heiði.

Stóri dagurinn rann upp á laugardaginn var. Um eitt leytið var hist á Keldum og blessað yfir leiði ættingjanna. Næst var haldið að Gunnarsholti þar sem fenginn hafði verið fundarsalur fóðurkögglaverksmiðjunnar. Sveinn Runólfsson landgræðslu-stjóri, bauð fólk velkomið þegar klukkan var nýbyrjuð að ganga þrjú. Og svo tók pabbi við með fróðlegan fyrirlestur um upphafið. Eldri tengdasonur hans sá um sýningarvélina og las einnig minningarorð og ljóðabálka um langömmu mína, undirrituð las upp nokkur gömul bréf (það elsta frá árinu 1903) og fyrsta tengdabarnabarn ömmu og afa sagði m.a. frá sinni fyrstu reynslu af kynnum sínum af Heiðarættinni. Myndasýningin kom svo í kjölfarið. Að lokum var hist á Helluvaði (þar sem amma heitin átti sín síðustu ár hjá yngstu dóttur sinni). Helluvaðsfjölskyldan hafði skipulagt skemmtilega þrauta- og ratleiki sem farið var í á meðan aðrir í sömu fjölskyldu sáu um að elda ofan í mannskapinn. Það var sungið, leikið og spjallað fram eftir kvöldi. Þótt auðvitað hafi ekki öll ættin komist í þennan gleðskap trúi ég því að ástvinir okkar sem kvatt hafa þennan heim hafi verið með okkur í anda þennan skemmtilega laugardag.

23.4.10

- Gleðilegt sumar! -

Sóttum Helgu systur um hálftvö í gær. Mágur minn og stelpurnar þeirra voru á "sumargleði" í Húsaskóla en Helga tók hluta af myndavélagræjunum sínum og við fórum í Þingvelli. Nánar tiltekið að Öxarárfossi þar sem systir mín tók myndir af þeim bræðrum og eitthvað af okkur fjölskyldunni. Er við komum í bæinn aftur klæddu strákarnir sig í jakkafötin og tilheyrandi og Helga tók af þeim myndir bæði saman og sitt í hvoru lagi. Alls tók hún 108 myndir og sumar koma mjög vel út.

21.4.10

- Síðasti vetrardagur -

Seinni partinn í gær kom ég við hjá fyrrum nágrönnum mínum í Norðurmýrinni. Á það til að droppan þangað inn öðru hverju, enda alveg í leiðinni heim. Og í gær var eitthvað sem togaði mig þangað. Stoppa aldrei mjög lengi en fæ mér þó kaffisopa og gott spjall. Davíð var heima þegar ég kom svo heim. Hann var eitthvað slappur svo ég tók að mér að skutla og sækja á æfingar. Karatestrákurinn labbaði nú á sína æfingu en ekki heim og Judóstrákurinn æfir í Þróttaraheimilinu og það er heldur langt fyrir hann að labba á milli. Kannski mun hann hjóla þetta þegar hann hefur fengið sér hjól. Uppgötvaði það svo í gærkvöldi að ég hef ekki sest niður með saumana mína sl. 4-5 daga. Verð að bæta úr því.

20.4.10

- Bráðum kemur sumar -

Það eru góðar fréttir, ef rétt er, að vetur og sumar eigi að frjósa saman. Samt er hæpið að ástandið fyrir austan verði neitt eðlilegt næstu misserin. Það er hræðilegt að sjá mynd af stöðunum sem hafa orðið verst úti vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli. Ég hef mikla samúð með fólkinu sem býr þarna og vona að það "lifi" þessar hörmungar af, þ.e. að byggð leggist ekki alveg í eyði. Kíki alltaf reglulega í gegnum vefmyndavélarnar á milu.is og stari heilluð en þó með ákveðnum hryllingi ef útsýnið er gott á gufu- og öskustrókana.

19.4.10

- Mánuðurinn rúmlega hálfnaður -

Eins og svo oft áður þá æðir tíminn áfram eins og hann sé á akkorði. Hafði það mjög rólegt um helgina. Fékk aukaklukkutíma með Ellu vinkonu en það var ekki flogið austur á Egilsstaði fyrr en á laugardagsmorguninn. Síðustu nóttina gat hún sofið í rúmi því söngfuglinn fór í kóræfingabúðir seinni partinn á föstudaginn og kom ekki heim fyrr en í hádeginu í gær. Nokkru eftir að ég skutlaði Ellu á flugvöllinn fór ég til norsku esperanto vinkonu minnar. Hún átti afmæli og ég færði henni útsaumað hrútsmerki með nafninu hennar undir. Þegar ég kom heim voru feðgarnir, Davíð og karatestrákurinn, farnir á karatemót sem haldið var í Mosfellsbæ. Þeir komu ekki heim fyrr en milli fimm og sex. Davíð sá um að sækja söngfuglinn í hádeginu í gær og hann sá einnig um kvöldmatinn í gærkvöldi.

16.4.10

- Sögulegir tímar -

Já, við erum heldur betur að upplifa sögulega tíma. Fyrst fengum við flott ferðamannagos á Fimmvörðuhálsi. Núna gýs í Eyjafjallajökli, sem hefur ekki gosið í um 200 ár og ég er mjög hrædd um að áður en langt um líður taki Katla við. Það er rétt eins og verið sé að þjálfa björgunarsveitirnar sem og fólkið sem býr á svæðinu fyrir það sem koma skal. Rýmingaráætlunin sem framkvæma þurftir aðfaranótt miðvikudags gekk mjög vel. Menn halda vöku sinni, gera ráð fyrir hinu versta en vona að besta. Og nú er litla Ísland nafli alheimsins þar sem gosið takmarkar flugsamgöngur vegna öskunnar (sem ku vera stórhættuleg hreyflum flugvélanna). Pabba var búið að dreyma fyrir þessum gosum og fyrst hluti af draumnum/unum er komið fram getur maður alveg búist við að hinn hlutinn rætist; Miklu, miklu, stærra gos líklega í Kötlu eða á því svæði.
Annars eru tvíburarnir fermdir og tókust bæði athöfn og veisla með eindæmum vel. Fékk reyndar ekki að fara tvisvar til altaris en það var í góðu lagi. Bræðurnir tóku sig vel út bæði í kyrtlunum sem og nýju jakkafötunum sínum. Veislan var í sal Lionsklúbbsins Lundar í Auðbrekku í Kópavogi og mættu tæplega 70 gestir, ættingjar og vinir. Strákarnir voru ljúfir og kurteisir og fyndnir en þegar fór að líða á veisluna voru þeir með uppistand og reittu af sér brandarana við góðar undirtektir. Það var gott að eiga frí eftir þetta. Strákarnir fengu frí í skólanum á mánudaginn var og ég mætti ekki til vinnu fyrr en í gærmorgun, en nú er ég líka búin með sumarfríið mitt síðan í fyrra.

7.4.10

- Stutt í tvöfalda fermingu -

Eftir vinnudaginn í dag tek ég mér fimm (virka) daga frí. Mestur hlutinn af þessu fríi er afgangurinn af sumarfríinu síðan í fyrra. Á sunnudaginn kemur munu tvíburarnir fermast í kirkju óháða safnaðarins. Allt er að verða klárt. Feðgarnir búnir að fá á sig spariföt, kerti og servíettur verða tilbúnar á föstudaginn og á morgun næ ég í "fermingadrengina" úr innrömmun. Við eigum von á ríflega 70 manns (+/- 10 eða svo) til að fagna þessum áfanga drengjanna með þeim og okkur. Það verður örugglega gott að eiga nokkra daga heima eftir veisluhöldin.
Hef lítið saumað sl. daga, samt aðeins í bláa englinum og svo er ég byrjuð að sauma hrútsmerkið. Ætla mér að klára hann fyrir 17. apríl n.k. og gefa norsku esperantovinkonu minni í 49 ára afmælisgjöf þann sama dag (170410).
Fór og hitti húðlækni í gær. Fékk í raun engin svör við útaf hverju ég er með þessi útbrot en læknirinn skrifaði upp á 100 gr af sterakremi og hálfsmánaðar skammt af "kláða-"töflum. Á að bera á mig og taka inn eina töflu á kvöldin ca. klst. áður en ég fer að sofa.
Páskarnir gengu vel fyrir sig. Séra Pétur hafði samband við mig á skírdag og spurði mig hvort ég gæti ekki fengið tvíburana með í athöfnina á föstudaginn langa. Þeir áttu að fara í fermingarkyrtla og annar þeirra að halda á kertastjaka með sjö logandi kertum og hinn að slökkva á einu og einu kerti eftir því sem presturinn las upp síðustu orð Jésú. Þetta var auðsótt mál. Eftir upplestur, sálmasöng og altarisgöngu komu bræðurnir inn. Oddur hélt á stjakanum og Davíð Steinn sá um að slökkva á kertunum með e-s konar kertakveiksklípu. Á fjórða kertinu kleip hann ekki alveg nógu fast svo það slökknaði ekki á kertinu í fyrstu tilraun. Þá hvíslaði Oddur (en samt þannig að það heyrðist um alla kirkju): "Þú hittir ekki!"
Á laugardagsmorguninn var auka kóræfing milli klukkan tíu og tólf. Mættum svo rétt fyrir sjö á páskadagsmorgunn. Leyfði tvíburunum að sofa út en strangt til tekið áttu öll fermingabörnin að ganga inn með altarismunina. Tvö fermingabörn mættu af fimmtán, 4 dansarar og nokkrir kórfélagar sáu um að bera inn á altarið og kveikja á tveimur kertum. Já, ég nefndi dansara en rétt á undan predikuninni var sýndur ballettdans sem átti að túlka sköpunina. Mögnuð túlkun og flottur dans.

31.3.10

- Þrjár myndir fara í innrömmun í dag -

Fleygði mér í smá stund eftir að ég kom heim í gær. Hafði lasanja í matinn og settist svo með saumana mína fyrir framan imbann upp úr sjö. Vann í "Bláa englinum" og komst svolítið áfram með hann. Það er hellingur búið en heilmikið eftir svo ég verð að sitja við og ekki leiða hugann að neinu nýju verkefni, þ.e. ekki stórum myndum (á tvær svoleiðis). Tel það vera í lagi að grípa í merkjamyndirnar og/eða jólakortamyndir inn á milli. Eftir tíu-fréttir í sjónvarpinu skolaði ég úr fermingardrengjunum og kossinum, pressaði og lagði til á handklæði í stofunni. Rúllaði þeim upp á hólk undan eldhúsbréfi í morgun og eftir vinnu í dag ætla ég að fara með þessar myndir í innrömmun. Held það geti verið mjög sniðugt að vera með bæði fermingar- og fæðingar-myndirnar uppivið í veislunni aðra helgi.

30.3.10

- Saumaklúbbur og útbrot -

Nei, nei ég er ekki með ofnæmi fyrir saumaklúbbnum mínum, síður en svo. En ég er öll útsteypt í rauðum upphleyptum bólum og blettum. Fyrir þremur vikum lét ég trúnaðarlækni fyrirtækissins kíkja á einn blett sem var á sköflungnum á hægra fæti og fór sá blettur stækkandi. Læknirinn skrifaði upp á eitthvað krem sem ég átti að bera á daglega til að byrja með. Ég er nýlega farin að taka inn hörfræolíu aftur. Hún hefur aldrei farið illa í mig en núna veit ég ekki hvort útbrotin eru af völdum kremsins, olíunnar eða e-u öðru. Ég er amk hætt að taka inn olíuna og bera á mig kremið. Að auki hætti ég að taka inn vítamínin mín og hef pantað mér tíma hjá húðsjúkdómalækni. Fékk tíma á þriðjudaginn kemur og vona að ég verði ekki dáin úr kláða áður.
En í gærkvöldi var saumaklúbbur upp í Árbæ. Skutlaði manninum í pílu um hálfátta og fannst ekki taka því að fara heim aftur svo ég var mætt fyrir átta. Fékk álit klúbbhaldarans um hvernig ég ætti að sauma fermingardag drengjanna á myndirnar og hún gaf mér einn fjólubláan enda og rúðustrikað blað. Setti dæmið upp á blaðið og saumaði eftir því: 11. apríl 2010 undir nafnið. Setti svo skammstöfun mína og 10 (með úrfellingarmerki fyrir framan) undir ermina með einum þræði af ljósfjólubláum. Þegar þetta var búið tók ég til við að sauma bláa engilinn. Korter fyrir ellefu sagði ég "jæja" og þá hrindi gemsinn. Davíð Steinn og Dagur höfðu farið í sundlaug Kópavogs og vantaði far heim. Ég sótti þá og fékk sá síðarnefndi að gista hjá okkur.

29.3.10

- Eldgos, kirkjuferðir og fleira -

Á laugardagsmorguninn kíkti ég í smá esperantotíma til norsku vinkonu minnar. Vorum báðar búnar að vera duglegar að lesa en samt fór klukkutíminn að mestu leyti í allt annað spjall, og það á íslensku. Um miðjan dag fékk ég loksins Davíð til að fara í bíltúr austur fyrir fjall. Byrjuðum á því að stoppa hjá pabba og mömmu á Hellu en um það leyti sem úrslitaþátturinn í spurningakeppni framhaldsskólanna var að byrja í sjónvarpinu fórum við þrjú, ég, Davíð og nafni hans í bíltúr inn í Fljótshlíð. Það var virkilega gaman að berja eldgosið augum í hæfilegri fjarlægð en mér fannst jafn tilkomumikið að sjá afturljósin á bílalestinni bæði inn Fljótshlíðina og svo aftur á leiðinni í bæinn. Þetta var á tímabili, bíll við bíl og minnti á mjóa hrauná. Oddur beið á Hellu á meðan við vorum í gosbíltúrnum. Hann langaði ekkert til að upplifa gos í beinni.
Í gær vorum við söngfuglinn mætt í Hallgrímskirkju rétt fyrir tíu. Fljótlega var farið niður Skólavörðustíg og stillt sér upp áður en skrúðgangan hélt af stað upp að kirkju aftur þar sem nýju kirkjuhurðarnar voru helgaðar. Í messunni var skírður lítill drengur og altarisganga í restina að venju. Svo mikið fólk var í kirkjunni að athöfnin var ekki búin fyrr en korter yfir tólf en þá tók við stutt opnunarræða dóms- og kirkjumálaráðherra þar sem hún setti kirkjulistahátíð 2010. Ég hafði svo tíu mínútur til að fá mér eitthvað smá og sækja sálmabókina mína áður en ég átti að vera mætt í "mína" kirkju rétt fyrir eitt. Þar fór fram skírnar og fermingarmessa og margt fólk í kirkjunni. Að auki var hópur frá Stöð 2, Jón Ársæll með myndatökumenn. Séra Pétur verður víst í þættinum hans Jóns n.k. sunnudagskvöld. Við í kórnum vorum svolítið mikið myndum en hvað veit maður svo hvað verður notað af því ;-). Alla vega sáumst við söngfuglinn í mynd í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi svo maður er orðinn pínu frægur, eða þannig....

26.3.10

- Út að borða -

Um hálfsjö í gær fóru strákarnir á árshátíð í skólanum. Fögnuðurinn stóð til klukkan ellefu. Þar sem við Davíð náðum ekki að halda upp á brúðkaupsafmælið okkar sl. mánudag bauð hann mér út að borða á Pottinn og pönnuna í gær. Áttum saman notalega stund á staðnum og ég fékk mér eitt hvítvínsglas með matnum. Það rauk auðvitað beint upp í höfuð þótt ég væri nú ekki beint að þamba vínið. Pöntuðum okkur bæði lambakjötsrétti og fengum okkur súpu, sallat og brauð á undan. Það varð því ekkert úr því að ég settist niður með saumana mína í gær því fljótlega eftir að við komum heim horfðum við saman á hina myndina, "Star Trek" sem maðurinn gaf mér í afmælisgjöf. En þótt klukkan væri orðin tólf þegar við fórum í rúmið las ég einn kafla í bókinni sem ég er með á skammtímaláni af safninu.

25.3.10

- Æft fyrir páska- og fermingamessur -

Á kóræfingu í gær æfðum við fyrir páskana og fermingamessurnar. Reyndar æfðum við minnst fyrir fermingarnar því mér skilst að það verði bara sungið einraddað og verði frekar einfalt. Einnig fékk ég úr því skorið að ég þarf og á ekki að syngja með kórnum þegar bræðurnir verða fermdir enda kannski eins gott. Hafði hugsað mér að sauma aðeins eftir að ég kom heim af kóræfingu en það fór þannig að ég fór upp í rúm fyrir klukkan ellefu og las til hálftólf. Í staðinn verð ég bara að vera dugleg við saumana mína í kvöld.

24.3.10

- Vikan hálfnuð -

Þrátt fyrir að sitja við saumana mína hátt í tvo tíma í gærkvöldi þá náði ég ekki að klára að sauma blómaskreytinguna. Kláraði ermina á jakkanum og saumaði þrjú rauð blóm og nokkur laufblöð. Það er ekki mjög mikið eftir en þar sem ég er að fara á kóræfingu í kvöld efast ég um að ég nái að klára þetta þótt ég setjist við um stund upp úr klukkan tíu. Þar að auki á ég eftir að sauma nöfnin og fermingardaginn. Ég er samt ekkert farin að örvænta og hugsa að þetta sleppi allt saman til. Líkt og í fyrrakvöld las ég svo síðasta hálftímann áður en ég fór að sofa í kringum miðnættið.

23.3.10

- Saumað af kappi -

Rétt áður en ég kom heim í gær kom æskuvinkona mín, sem nú býr á Egilsstöðum. Hún var byrjuð að undirbúa uppáhellingu þegar ég kom. Karatestrákurinn var eitthvað þreyttur í gær og ákvað að sleppa því að mæta á æfingu. Maturinn var því til hjá mér um sjö (í stað hálfátta-átta). Hefði örugglega samt haft matinn á þessum tíma því Davíð átti að vera mættur í pílu um hálfátta. Var með lasanja sem mæltist vel fyrir af öllum. Söngfuglinn minn ákvað að fyrst hann var að syngja á tónleikum seinni partinn á sunnudaginn væri örugglega frí á æfingu. Hann fór því heim með vini og þegar ég ætlaði að athuga með hann náði ég ekki í hann í síma. Fyrst hann var ekki heima hélt ég að hann hefði farið í fyrra fallinu á æfinguna. Þegar hann var ekki kominn heim klukkan sjö fór mig að gruna að ekki væri allt alveg með felldu. Loksins náði ég símasambandi við hann og frétti þá að hann hefði farið heim með vini. Eftir að ég var búin að ganga frá í eldhúsinu með matinn settist ég inn í stofu með saumana mína og sat við í drjúga stund með smá hléum. Er alls ekki búin og þarf að sitja við í kvöld og næstu kvöld þar til þetta klárast.

22.3.10

- Brúðkaupsafmæli -

Í dag eru 14 ár síðan við Davíð skruppum til sýslumanns og létum pússa okkur saman. Áttum tíma klukkan þrjú og fulltrúi sýslumanns og önnur til tóku á móti okkur tveimur. Allt gekk vel fyrir sig en reyndar var fundið að því við manninn minn að hann ætlaði að setja giftingarhringinn á baugfingur vinstri handar eftir að hafa rennt mínum upp á baugfingur hægri handar minnar. Hann breytti þessu og var með hringinn á hægri hendi fyrstu árin. Núna er hann búinn að færa hringinn yfir á vinstri hendina. Fljótlega eftir athöfnina ókum við austur yfir fjall og áttum nóttina á Hótel Örk í Hveragerði. Skruppum á Bakkann daginn eftir og svo áfram á Hellu til pabba, þar sem við gistum eina nótt.
Skrópaði ekki í hannyrðunum mínum á föstudaginn. En laugardagurinn fór allur í annað heldur en saumaskap. T.d. fékk ég sms frá bókasafninu um að ég gæti sótt bókina sem ég hafði pantað innan þriggja daga. þetta er hátt í 700 bls. bók og mér leist ekkert á að bíða neitt með að sækja hana svo ég vatt mér strax í málið. Kom við í verslun á heimleiðinni og keypti nammi fyrir bræðurnar og pylsur sem þeir hituðu upp sjálfir þegar við foreldrarnir vorum farin á árshátíð um kvöldið.
Í gær vorum við boðin í 1 árs afmæli. Skruppum öll fjögur í smá stund en stoppuðum örugglega ekki lengur en í klukkutíma því söngfuglinn minn átti að vera mættur í fullum skrúða í Langholtskirkju rétt fyrir fimm. Drengjakórinn söng nokkur lög á tónleikum eldri félaga karlakórs Reykjavíkur. Davíð fór með honum og þeir feðgar björguðu svo kvöldmatnum. Settist svo niður með saumana mína í gærkvöldi og komst þónokkuð áfram þótt ég vildi reyndar helst vera búinn að þessu. Á eftir u.þ.b. helminginn af blómaskrautinu á öðrum fermingardrengnum og svo að merkja nafn og fermingardaga á báðar myndirnar. Þetta er samt allt að koma.

19.3.10

- Lagði inn pöntun -

Eftir vinnu í gær lagði ég leið mína í Aðalsafnið í Grófinni og skilaði inn "Ástandsbarninu". Hafði séð það á gegni.is að það ættu að vera til tvö eintök af : "Loftkastalinn sem hrundi" en þegar til kom hafði þeim bókum verið skilað í öðrum söfnum svo ég brá á það ráð að leggja inn pöntun. Hugaði reyndar um að þetta væri bara ágætt því ég þarf að leggja aðaláherslu á saumana mína næstu daga. Var svo heppin að Davíð tók að sér að sjá um kvöldmatinn, annan daginn í röð. Ég fór því í fyrsta skipti og sótti júdókappann af æfingu. Karatestrákurinn sá um sig sjálfur, labbaði á æfingu og aftur heim eftir æfinguna. Það tók samt sinn tíma. Held að hann hafi farið í smá gufubað eftir karateæfingu. Klukkan var orðin níu þegar ég settist loksins niður með saumana mína en ég hafði það af að klára blómamunstrið á fermingadreng no II. Þar er því bara eftir að sauma nafn og fermingardag. Ætla að byrja á blómamunstrinu á fermingadreng no I í kvöld. Það er þokkalega mikið að gerast um helgina en ég hlýt að fá tíma inn á milli til að sauma. Stefni að því að fara með þrjár útsaumsmyndir í innrömmun í næstu viku.

18.3.10

- Tveggja daga sauma-"verkfall" -

Hef ekki tekið upp saumadótið mitt síðan á mánudagskvöldið. Vona samt að það komi ekki að sök. Davíð fór í tölvubjörgunarleiðangur til eins vinar síns eftir mat á þriðjudagskvöldið og kom ekki heim fyrr en eitthvað eftir miðnætti. Ég festist óvart fyrir framan sjónvarpið og horfði á "Læknamiðstöðina" áður en ég setti í eina brauðtertu. Yfirleitt get ég nú saumað um leið og ég fylgist með e-u í sjónvarpinu, nema um spennuþætti/myndir og gamanmyndir sé að ræða en í fyrrakvöld gleymdi ég bara að taka upp saumana. Þegar bræðurnir voru farnir í rúmið upp úr tíu settist ég við tölvuna. Í gær ákvað ég að prófa hvort ég gæti svarað fyrir allar afmælisóskirnar á FB-veggnum mínum, hverja og eina einustu (urðu uþb 200 allt í allt). Það tókst eiginlega, nema ég svaraði þeim kveðjum sem bárust síðustu tæpu tvær klukkustundirnar fyrir miðnætti í morgun. Við Davíð ákváðum nefnilega að horfa á aðra myndina sem hann gaf mér í afmælisgjöf: "Yes man!" með Jim Carrey. Davíð sá til þess að ég fengi tvíréttaða máltíð í gærkvöldi áður en ég fór á kóræfingu. Hann var með sjávarréttasúpu í forrétt og snitsel og kartöflukratín í aðalrétt. Nýja græjan kom sér mjög vel við að skera niður grænmetið. Þetta var mjög gott hjá honum. Ég þurfti ekki að koma nálægt eldhússtörfunum í gær. Stakk í eina þvottavél og braut saman og tók upp þvottinn sem var á snúrunum, en maðurinn fór svo niður og hengdi upp úr vélinni þegar hún var búin. En í kvöld verð ég að taka upp saumana og sauma í amk í klst. ef ég á að geta farið með fermingadrengina í innrömmun í næstu viku.

17.3.10

- Stelputryppið 42 ára í dag! -
Fór og hitti trúnaðarlækni vinnu minnar með þrjú erindi í gær. Sýndi honum fingurnar og sagði frá "slysinu" sem ég varð fyrir á jóladag. Hann sagði að þetta væri bara mjög slæm tognun og ekkert undarlegt þótt fingurnir væru ekki enn búnir að jafna sig. Ég er líka komin með mjög skrýtin útbrot á sköflunginn á hægra fæti og skrifaði læknirinn upp á krem sem ég á að bera á svæðið daglega og annan til þriðja hvern dag þegar útbrotin fara að mýkjast. Kom því við í apótekinu á leiðinni heim í gær. Einnig "heimsótti" ég fiskbúðina við Freyjugötu 1 og fékk mér ýsu í soðið. Strákarnir fóru báðir á æfingar svo við vorum ekki að borða fyrr en á níunda tímanum. Söngfuglinn og júdókappinn minn hann Davíð Steinn var ekki par hrifinn er hann kom heim sársvangur en hann fékkst þó til að fá sér eitthvað smá. Það varð afgangur sem ég tók til í skál handa mér, gleymdi bara að taka það með mér í vinnuna svo ég borða þetta bara í kvöld eða tek með mér á morgun. Setti í eina brauðtertu sem ég hafði með mér fyrir vinnufélagana í dag.

16.3.10

- Saumaklúbbur -

Eftir nokkuð margra daga gönguhlé til vinnu þá trítlaði ég í vinnunna á nýju skónum mínum í gærmorgun. Arkaði aftur heim, seinni partinn, með viðkomu í bakaríinu þar sem ég verslaði grunn í brauðtertu sem ég ætla að skella í í kvöld og hafa með mér á morgun. Á mánudögum er tölvulaus dagur hjá bræðrunum og þeir voru heima í stofu með tveimur vinum að horfa á sjónvarpið þegar ég kom upp úr hálffimm. Var ekkert að spá neitt meira í þessu en klukkan fimm sagði karatestrákurinn allt í einu við söngfuglinn: "Átt þú ekki að vera mættur á kóræfingu?" Sá síðarnefndi var ekkert að gera mál úr hlutunum en dreif sig samt af stað. Rétt fyrir hálfátta skutlaði ég manninum í pílu, sótti karatestrákinn af æfingu og bauð strákunum að vera í tölvunni um kvöldið þar sem hvorugt okkar foreldranna yrði heima. Ég var komin til "tvíburahálfsystur" minnar upp úr klukkan átta. Vorum bara tvær í saumaklúbbnum en ég nýtti tímann mjög vel og er alveg að verða búin með blómaskreytinguna á fermingardreng no II. Ég er nú orðin sannfærð um að myndirnar muni fara í innrömmun eftir næstu helgi.

15.3.10

- "Önnusöm" helgi liðin -

Var mætt í Kristu til Nonna rétt fyrir tíu á laugardaginn. Lét þvo á mér hárið áður en Nonni tók við og klippti það og þynnti eftir öllum kúnstarinnar reglum. Hann var ekki ánægður þegar ég sagði honum að ég laumaðist stundum til að taka hvít hár úr e-m skallablett bara til að skoða þessi fíngerðu hár. "Þú mátt ekki taka hárin sem eru að koma." Eftir smá umhugsun bætti hann við "Veldu þá amk bara einn blett til að fikta í." Eftir klippinguna fór ég í skóbúðina Steinar Waage og keypti mér nýja skó, alveg eins og þá sem ég hef gengið í sl. 10 mánuði. Gömlu skóna skildi ég eftir því þeir voru eiginlega alveg búnir. Skutluðum tvíburunum í síðasta fermingafræðslutímann í Salahverfi í Kópavogi. Um kvöldið útbjó ég eina brauðtertu og Davíð keypti fyrir mig tvær skyrtertur. Þetta fór ég með alltsaman í kirkjuna um eitt í gær (þ.e. maðurinn skutlaðist með mig). Feðgarnir mættu svo í messubyrjun. Það var galdramessa og Bjargarkaffi eftir messu. Það var full kirkja. Allir sálmar voru sungnir einradda en við stóðum samt saman í röddunum okkar við kórfélagarnir. Við vorum aðeins 3 í altinum tvær Önnur og svo "tvíburahálfsystir" mín og hún stóð á milli okkar nafnanna svo hún var mjög önnum kafin. Skyldumæting hjá fermingabörnunum en fyrri fermingarmessan verður eftir hálfan mánuð. Strax eftir messu var smá fundur með prestinum, fermingarbörnunum og foreldrum. Lagt var á borð í "efra" og "neðra" og einnig á fimm borð í kirkjunni og það var hlaðborð af alls kyns góðgæti á báðum hæðum. Það fór svo þannig að ég tók ekkert upp saumana mína í gærkvöldi en ég saumaði bæði á föstudags- og laugardagskvöldið og ég er komin það langt að ég veit að myndirnar fara í innrömmun í næstu viku. Það er líka saumaklúbbur í kvöld...

12.3.10

- Pottakynning -

Tók mér orlof um klukkan eitt í gær. Á enn eftir nokkra daga af sumarfríinu síðan í fyrra. Byrjaði á því að rölta með skjal yfir á Vesturgötu 1. Þegar ég kom heim setti ég í þvottavél. Tók upp úr uppþvottavélinni. Hóf tiltekt í elhúsinu, ryksugaði og skúraði. Davíð kom heim um fjögur og fór strax að hjálpa mér. Pabbi kom um svipað leyti (og ein vinkona mín sem fékk gistingu hjá mér í tvo daga) en hann fór svo seinna að sækja mömmu. Konan með kynninguna (var að kynna potta frá Salatmaster) kom upp úr klukka sex og upp úr hálfsjö komu síðustu kynningargestirnir. Þá var búið að dúka borð í holinu og setja ný kerti í tvo stjaka á borðið. Kynningin fór samt fram í eldhúsinu og þar varð fólk að standa upp á endann í næstum einn og hálfan tíma. Allt fór vel fram og ég held að allir hafi skemmt sér stór vel. Allir fengu rófu- og gulrótasnakk á meðan kynningunni stóð en þegar maturinn var tilbúinn settust menn við borðið í holinu. Fengum kjúkling, fjórar tegundir af grænmeti og kartöflugratín og í eftir rétt var súkkulaði-grænmetiskaka með rjóma. Allt var yfirstaðið um tíuleytið og klukkutíma síðar fengu maðurinn minn og vinkona þá flugu í höfuðið að leigja mynd "The Hart locker". Ég held að klukkan hafi verið orðin hálftvö áður en ég skreið upp í rúm í nótt. Og framundan er annasöm helgi...

11.3.10

- Kóræfing, útsaumur og lestur -

Já, ég náði að sinna öllum áhugamálunum mínum í gær þrátt fyrir að þurfa á fund strax eftir vinnu og hafa aðeins hálftíma frá fundinum fram að kóræfingu og æfingin stóð yfir frá hálfátta til tíu. Að vísu var smá kaffihlé í millitíðinni en ég var ekki komin heim fyrr en upp úr klukkan tíu. Mamma hafði skutlað mér á æfinguna (en hún stoppaði stund heima áður en hún og söngfuglinn fóru á tónleika í Salnum) og ég fékk far heim með "tvíburahálfsystur" minni. Bað Davíð nefnilega um að sækja eina elstu vinkonu mína út á flugvöll upp úr hálfníu. Þau voru á rökræðum þegar ég kom heim af æfingu. Fljótlega settist ég niður með saumana mína og horfði í leiðinni á hluta af heimildamynd um fjölskyldu sem tók sig alveg upp og ferðaðist um heiminn mánuðum saman. Þegar ég skreið svo upp í rúm skuggalega nálægt miðnætti freistaðist ég til að byrja aðeins á bókinni sem ég fékk af safninu í fyrradag.

10.3.10

- Góð ferð á safnið -

Strax eftir vinnu í gær rölti ég yfir í aðal-borgarbókasafnið í Grófinni. Samkvæmt Gegni.is áttu að vera 2 eintök inni í hillu af bókinni "Ástandsbarnið" eftir Camillu Läckberg. Fann hana ekki í hillunni hjá nýjum og nýlegum bókum svo ég ákvað að spyrja um hana við afgreiðsluborðið. Þegar ég nefndi bókina við þá sem ég spurði snéri hún sér í hálfhring að hillu fyrir innan afgreiðsluborðið, tók bók og rétti mér. Mikið varð ég glöð. Hef 14 daga til að lesa hana og tímdi ekki að byrja strax í gær. Eftir þessa góðu ferð skrapp ég yfir í Eymundsson og keypti tvær svartar sálmabækur. Þá var ég að byrja að blotna á tánum svo ég ákvað að labba ekki mikið meira og settist á næstu biðstöð og beið eftir leið 13. Var eiginlega nýbúin að missa af vagninum og þurfti að bíða í uþb hálftíma eftir næsta en það var í góðu lagi.

Strákarnir fóru báðir á æfingar seinni partinn í gær, annar í karate og labbaði báðar leiðir, og hinn á Júdóæfingu en Davíð skutlaði honum og sótti aftur. Eftir að hafa aðeins setið við tölvuna bjó ég til kjötvars úr hakki, lauk, eggjum, haframjöli, heilhveiti, byggmjöli og kryddað með salti, cayanne og kjötkrafti leystum upp í vatni. Kúlaði þetta upp í ríflega 30 bollur, setti í ofnskúffuna og inn í ofn. Mmmmm, góðar voru þær. Frysti hluta af bollunum en gat líka smá til að hafa með mér í vinnuna í dag.

9.3.10

- Saumað og saumað -

Að vísu settist ég ekki niður með saumana mína fyrr en um tíu í gærkvöldi og sat þá við í rúman klukkutíma. Nú er ég komin af stað með blómaskreytinguna á seinni myndinni og líklega klára ég hana áður en ég held áfram með blómaskreytinguna á fyrri myndinni. Svo eru það bara nöfnin, fermingardagurinn, skammstöfunin mín og ártalið áður en ég mun pressa þetta og fara með í innrömmun. Í leiðinni ætla ég að láta ramma inn myndina "Kossinn" sem ég saumaði 2007. Ég var svo óforsjál að panta ekki rammann með um leið og ég pantaði útsauminn og svo hefur myndin bara legið samanbrotin í saumatöskunni minni. Á svo reyndar nokkar aðra myndir sem ég þarf að fara að vinna í að ramma inn (eða láta ramma inn) fyrir utan nokkur saumaverkefni sem ég á eftir að byrja á. Eftir að ég hef lokið við að sauma fermingadrenginga mun ég ráðast í að klára bláa engilinn og kannski sauma nokkur stjörnumerki. Saumi, saumi, saumi, saumi...... - það er svo gaman! :-)

8.3.10

- N E I ! -

Tvíburarnir skruppu í heimsókn til föðurforeldranna um helgina. Davíð skutlaðist með þá eftir kvöldmat á föstudaginn. Ég var enn hálftuskuleg eftir magapínuna á fimmtudaginn og settist frekar niður með saumana mína og horfði á útsvar í leiðinni. Settist líka niður með saumana mína bæði á laugardag og sunnudag, enda er ég búinn með fermingastrák no II og er þá komin á svipaðar slóðir og með fermingardreng I þ.e. á bara eftir að sauma blómaskreytinguna, nafnið(nöfnin) og fermingardaginn. Ef ég sest niður með saumana í einhverja stund á hverjum degi ætti ég að geta sett báða drengina í innrömmun eftir ca hálfan mánuð.
Útvarpsklukkan fór í gang klukkan sjö á laugardagsmorguninn eins og það væri virkur dagur. Ég rumskaði upp úr því en í stað þess að slökkva á útvarpinu settist ég við tölvuna í ca eina og hálfa klukkustund áður en ég skreið upp í aftur. Það var samt ekki að virka að skríða upp í aftur þótt slökknað hefði á útvarpinu svo ég fór fljótlega á fætur. Það var samt Davíð sem hellti upp á könnuna og útbjó "brunch" handa okkur um tólf. Röltum út í skóla og kusum um tvö leytið og um fimm fórum við að versla.
Gærdagurinn var jafn rólegur og laugardagurinn, ef ekki rólegri. Davíð sá um kvöldmatarmál og tengdapabbi átti leið í bæinn svo hann skutlaði strákunum heim í leiðinni.

5.3.10

- Raddþjálfun og magapest -

Við kórfélagarnir í "óþæga" kórnum rákum upp stór augu er við mættum á æfingu sl. miðvikudagskvöld. Árni var búinn að breytast í konu. Hann fékk kórstjóra Veiranna til að hlaupa í skarðið fyrir sig og taka okkur í raddþjálfun. Og það var sko þjálfun í lagi. Hún lét okkur m.a. galopna munninn áður en við byrjuðum að gefa frá okkur hljóð, leggjast á bakið og anda þannig að mjóhryggurinn snerti gólfið og taka um höfuðið áður en við hófum raddæfingar. Einnig áttum við að stinga tánum undir ofn og gera magaæfingar um leið og raddæfingar, þ.e. við áttum að reisa okkur upp til hálfs og sitja í þeirri stellingu eins lengi og við treystum okkur til á meðan við gerðum raddæfingar. Held að við höfum fengið amk tíu tíma námskeið á tveimur tímum. Hún á svo eftir að koma og tuska okkur til einu sinni enn.
Þegar ég fór á fætur í gærmorgun var ég eitthvað undarleg í maganum. Hélt fyrst að ég væri bara svona svöng og þetta mánaðarlega væri einnig að plaga mig. Ekki lagaðist verkurinn þótt ég fengi mér að borða, hann varð bara verri ef eitthvað var. Settist á klóið og skilaði af mér en samt lagaðist verkurinn ekki heldur varð ennþá verri og ég var að verða smeik um að það væri gos í uppsiglingu. Tilkynnti mig veika, háttaði mig skjálfandi upp í rúm og tókst sem betur fer að sofna fljótlega. Vissi ekki af mér fyrr en um hádegisbil. Þá var verkurinn farinn og mér leið miklu skár. Náði svo að vera sofnuð vel fyrir miðnætti í gærkvöld og vona að ég hafi sofið þessa pest úr mér.
Ákvað að mæta til vinnu í morgun þrátt fyrir að horfa framan í grá-hvíta konu í speglinum í morgun. Það hefur bara gengið vel.

3.3.10

- Tíminn æðir áfram -

Hef ekki enn mætt á keiluæfingar á árinu (sem eru á þriðjudagskvöldum). Eftir "vinnuslysið" í kirkjunni á jóladag eru vísifingur og langatöng hægri handar enn bólgnir og stundum aumir eða dofnir. Get samt saumað út án þess að finna fyrir aukaverkunum en veit að líklega verð ég að passa mig á að sitja ekki of lengi við. Settist niður í gærkvöldi í tæpan klukkutíma. Nú fer ég bráðum að verða búin að ná jafnlangt með fermingardreng no II og ég var komin með fermingardreng no I (bráðum bara eftir blómin, nafn og fermingardagur). Annars erum við búin að senda út næstum því öll boðskortin og undirbúningurinn fer nú að fara á fullt. Sumum finnst ég kannski heldur róleg í tíðinni en það er örugglega svipað með þetta og jólin... þessi stund mun renna upp...

2.3.10

- Mars er lagður af stað -

Helgin leið ótrúlega fljótt við skyldur og leiki í bland. Var mætt á aukakóræfingu í kirkjuna klukkan tíu á laugardagsmorguninn. Hafði passað að fara á fætur amk tveimur tímum fyrir æfingu til að vekja röddina. Svo var bara enginn annar vaknaður svo ég hafði enga ástæðu til að nota röddina fyrr en karatestrákurinn kom á fætur upp úr klukkan níu. Tveir og hálfur tími (meira að segja aðeins lengur en það) liðu undrafljótt enda var mjög gaman á æfingunni. Beið eftir að karatestrákurinn var búinn á sinni æfingu og hafði hann með mér heim. Vorum ekki mjög lengi heima því strákarnir áttu að mæta í fermingafræðslu á Kjalarnesi. Fórum öll saman og við Davíð versluðum inn á heimleiðinni. Sendi hann svo einann að sækja strákana því ég var komin með saumana mína í fangið og dottin í að fylgjast með bikarúrslitaleik karla í handbolta.
Á sunnudaginn skutlaði Davíð mér í kirkjuna rétt fyrir hálfeitt. Kórinn æfði með undirleikurunum (trommuleikara, saxafónleikara, kontrabassaleikara og kórstjórinn spilaði á píanóið). Feðgarnir mættu svo í kirkjuna um tvö. Það var heljarsveifla í messunni og hrikalega gaman.
Strax eftir vinnu í gær fór ég á pósthúsið og keypti mér slatta af frímerkjum. Frímerkti 17 umslög og setti strax í póst en restin af boðskortunum fer í póst í dag. Síðan rölti ég yfir á bókasafnið og skilaði einni bók. Aðra bókasafnsheimsóknina í röð labbaði ég tómhent út (þriðja heimsóknin á stuttum tíma) og nú er ég aðeins með 3 esperantobækur í láni af safninu. En ég er líka byrjuð að lesa jólabækurnar.
Strákarnir björguðu sér báðir á æfingar og heim aftur svo ég ákvað að mæta í saumaklúbbinn eftir að hafa skutlað manninum í pílu. Var því mætt í fyrrafallinu eða rétt fyrir átta og var tæpum klukkutíma á undan "tvíburahálfsystur" minni. Það var mikið saumað, hlegið og þambað kaffi. Stundum vorum við stöllurnar í hláturskasti og stundum svo niðursokknar í verkefnin okkar að það hljóðnaði allt í kringum okkur. Kom heim um hálftólf, á undan manninum, og hafði þá saumað heilt kerti og einnig bætt við fermingarjakkann á fermingardreng II. Hef uþb þrjár vikur enn til að klára og ætla mér helst að setjast eitthvað niður með saumana mína á hverju kvöldi/ hverjum degi.

26.2.10

- Vinnuvikan alveg að klárast -

Það er kominn föstudagur enn á ný og bara nokkrir klukkutímar og helgin eftir af febrúarmánuði. Hef ekki sest með saumana mína síðan á þriðjudagskvöldið. Hafði ætlað mér að sauma amk í klukkustund í gærkvöldi en mest kvöldið fór svo í lestur. Kláraði bókina "Óheillakráka" eftir Camillu Läckberg og nú bíð ég spennt eftir að komast yfir "Ástandsbarnið" eftir sama höfund sem og "Lofkastalann sem hrundi" eftir Stieg Larsson. En ég á líka alveg eftir að lesa allar jólabækurnar enn svo ég er ekkert að flýta mér að reyna að nálgast þessar bækur. Þær eru mjög vinsælar og enn á skammtímalánum, nema í bókasafninu á Hellu. Þar eru þær til í kilju uppi í hillu og á 30 daga skilafresti (sem örugglega mætti framlengja um mánuð).

25.2.10

- Syngjandi fjör -

Æfðum fyrir jazzmessuna n.k. sunnudag á kóræfingu í gærkvöldi. Það var mikið fjör og mikið gaman. Við munum líklega syngja flest lögin/sálmana í röddum. Þótt vel hafi gengið í gær var ákveðin aukaæfing á laugardagsmorguninn kemur. "Drottinn er minn hirðir", "Ég er hjá þér, ó, Guð", Ó, leið mig þá leið", "Þú ert mitt athvarf, Guð" og "Leitið hans ríkis" er m.a. það sem kórinn mun syngja. Það verða líka trommuleikari og saxafónleikari sem munu spila undir með Árna. Ég hlakka til messunnar og á alveg von á því að það verði mikil sveifla.

24.2.10

- Vikan hálfnuð -

Marsmánuður er handan við næstu helgi. Ekki var skrifað á umslög í gærkvöldi. Davíð sagðist vilja taka saman heimilsföng og póstlista á alla fyrst og strákarnir fengu að verða í pc-tölvunum til tíu og þá vorum við dottin í að horfa á skíðakrosskeppni alveg til hálfellefu að við skiptum yfir á "The las enemy". Strákarnir hafa beðið um að fá að bjóða tveimur af vinum sínum í veisluna. Annar af þessum tveimur ætlar ekki að láta ferma sig en hinn ætlar að bjóða tvíburunum í sína veislu sem verður hálfum mánuði fyrir þeirra veislu. Náði þó að sauma í eins og hálftíma í gærkvöldi. Fermingadrengur no II er alltaf að koma meira og meira í ljós.

23.2.10

- Þriðjudagur -

Kom við í Sunnubúð á leið heim í gær og keypti bjúgu, kartöflur og grænar baunir en Davíð hafði lagt það til um morguninn er ég spurði hann hvað ég ætti að hafa í matinn um kvöldið. Hitti söngfuglinn þegar ég var að ljúka við innkaupin en hann var að leggja í hann á kóræfingu. Ég vissi ekki betur en við hjónin yrðum bæði að heiman um kvöldið svo ég ákvað að koma strákunum á óvart. Mánudagar eru að öllu jöfnu tölvulausir dagar en ég sagði strákunum að þeir mættu vera í tölvunni í tvo tíma um kvöldið ef þeir tækju nú til á gólfinu inni hjá sér. Söngfuglinn var kominn heim á undan karatestráknum af æfingu og frétti þetta þá. Hann var svo glaður að hann fór strax í tiltektarmálin eftir að hafa borðað og skildi ekkert mjög mikið eftir handa bróður sínum. Davíð lenti í smá linsuvandamálum þannig að það endað með að hann var heima um kvöldið. Strákarnir fengu samt sína tölvustund. Ég fór í heimsókn til vinkonu minnar sem býr í Árbænum og tók saumana mína með. Höfðum svona míní-saumaklúbb en ein af okkur komst ekki vegna veikinda svo við ákváðum eiginlega að fresta saumaklúbbnum um viku en hittast samt tvær. Ég náði að ljúka við að sauma hendurnar og halda aðeins áfram með jakkann og skyrtuna á fermingadreng no II. Vona að ég geti sest niður smá stund með saumana í kvöld en megnið af kvöldinu fer örugglega í að skrifa utan á umslög og loka boðskort í tvíburafermingu inni í þeim.

22.2.10

- Hulda 10 ára -

Systurdóttir mín er tíu ára í dag. Mikið sem tíminn flýgur. Hittumst öll hjá pabba og mömmu seinni partinn á laugardaginn og vorum með smá þorrablót í bláendann á þorranum. Bríet er búin að missa fyrstu tönnina sína. Davíð fór eitthvað að gantast í henni og spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir, afhverju hún væri búin að missa tönn. Það stóð ekki á svarinu hjá þeirri stuttu: "Pabbi minn reif úr mér tönnina!" Hið rétta er að tönnin var orðin svo laus að foreldrarnir voru hrædd um að barnið myndi gleypa hana einn daginn. Ingvi fékk að skoða tönnina, rétt kom við hana og tönnin datt úr.
Um morguninn höfðum við Davíð fylgt karatestráknum á hóp- og einstaklingskeppni í kata sem var haldið í íþróttahúsinum Fjörgyn í Grafarvogi. Maður sér alveg framfarir hjá stráknum en í báðum keppnunum lentu þeir/hann á móti besta liðinu/einstaklingnum og töpuðu. En það gengur bara betur næst.
Annars fór ég á bókasafnið strax eftir vinnu á föstudaginn var og skilaði tveimur bókum. Önnur bókanna var með tveggja vikna skilafrest sem var að renna út svo það var ekki seinna að vænna. Labbaði einn hring en fann ekkert sem vakti áhuga minn og í annað skiptið á stuttum tíma fór ég tómhent út úr safninu. En ég er með eina eftir sem ég er að lesa og einnig nokkrar esperantobækur. Svo á ég líka alveg eftir að lesa jólabækurnar. Nú ég þarf líka að vera dugleg að setjast niður með saumana mína....

19.2.10

- Vikan að klárast -

Enn einn föstudagurinn runninn upp, sá næstsíðasti í þessum mánuði. Í tvo daga í röð hef ég ekki tekið upp saumana mína. Ég vona að það þýði ekki að ég lendi í tímahraki um miðjan næsta mánuð. Tvíburarnir voru báðir heldur betur eftir sig eftir öskudaginn og fóru hvorugir á æfingu í gær. Ég var samt eitthvað svo innstill á það að það þyrfti ekki að vera tilbúinn matur fyrr en upp úr hálfátta svo ég var ekkert farin að hugsa út í matarmálin þegar Davíð kom heim um hálfsjö. Ég græddi nú heldur betur á því, því hann tók að sér að sjá um matarmálin. Karatestrákurinn fór snemma í rúmið en júdókappinn og söngfuglinn minn var á fótum þar til klukkan var byrjuð að ganga ellefu. En um það leyti sem hann fór að sofa leygðum við Davíð okkur myndina: "Stúlkan sem lék sér að eldinum"
Framundan er karatekeppni hjá Oddi og svo ætlum við að halda smá þorrablót með pabba, mömmu, systir minni og hennar fjölskyldu. Ekki seinna að vænna þar sem góan byrjar um helgina.

18.2.10

- Fjör á kóræfingu -

Tvisvar lagði ég af stað heim eftir vinnu í gær. Var hálfnuð upp götuna þegar ég uppgötvaði að ég var með vinnusímann í vasanum en ekki gemsann. Snéri við á punktinum. Leið mín lá fyrst í Eymundsson að kaupa línustrikuð blöð og 0.5 mm blý fyrir strákana. Þegar ég kom heim byrjaði ég á því að hengja upp úr þvottavélinni. Fjórir strákar voru í heimsókn hjá bræðrunum og allir voru þeir að leika sér í tölvunum. Ég kastaði kveðju á strákana og ákvað að leggja mig í uþb hálftíma. Var tilbúin með matinn (ofnbakaða bleikju með grjónum og lauksmjöri) upp úr klukkan hálfsjö og kom Davíð heim einmitt um það leyti. Klukkutíma síðar var ég mætt á kóræfingu. Við byrjuðum m.a. að æfa fyrir jazzmessuna sem verður þann 28. n.k; "Ó, leið mig þá leið" Og nú er ég með það lag á heilanum. Æfðum einnig "Maríukvæði" "Heyr himnasmiður" og fleiri. Við sungum líka yfir "Ísland ögrum skorið" og "Hærra minn Guð til þín". Inn á milli æfðum við alltaf frasa úr fyrst nefnda laginu svo það er kannski ekkert skrýtið þótt það haldi áfram að hljóma og laumist fram á varirnar inn á milli.

17.2.10

- Saumað í -

Settist niður með saumana mína um níu í gærkvöld og sat með þá í góðan klukkutíma. Lauk við andlitið á fermingarstráknum sem ég er að sauma núna og byrjaði á jakkanum. Vonandi næ ég svo að setjast niður við saumana eftir kóræfingu í kvöld.
Karatestrákurinn sagði frá því um það leiti sem hann var að leggja af stað á æfingu að hann ætti að mæta á aukaæfingu klukkan korter yfir átta. Við Davíð settum upp plan. Hann skutlaði júdókappanum á æfingu upp úr sex. Kom heim með hinn í mat rúmlega sjö og skutlaði honum aftur í Þórshamar stuttu áður en hann þurfti að sækja hinn. Karatestrákurinn kom svo labbandi heim rétt fyrir tíu.
Þeir bræður rifu sig á fætur upp úr klukkan sjö í morgun. Von var á hluta af vinum þeirra rétt fyrir hálfníu og þeir ætluð í strætó saman til eins vinarins og vera saman sem hópur í dag. Davíð Steinn gat notað búninginn sinn frá því í fyrra og Oddur Smári ætlaði að vera í karategallanum sem þýðir að ég verð að setja hann í þvottavélina í kvöld því það er æfing hjá kappanum á morgun.

16.2.10

- Fundir og útsaumur -

Strax eftir vinnu í gær lá leið mín í Pfaffhúsið á Grensásveginum. Á meðan söngfuglarnir æfðu hittumst við flestar í stjórninni og fórum í gegnum umsækjendur í hópstjórastöður í fyrirhugaða utanferð næsta sumar og skiptum strákunum upp í átta hópa. Eins og sumir voru búnir að kvíða fyrir þessu þá gekk þetta bara mjög vel og ég held að allir verði nokkurn veginn sáttir. Auðvitað gátu ekki allir umsækjendur fengið stöður en það fara átta út og voru valdi tveir til vara ef það verða forföll.
Ég ætlaði mér að vera dugleg að sauma seinni fermingadrenginn í gærkvöldi en klukkan var að verða tíu þegar ég settist loksins niður. Náði samt að sauma slatta á meðan ég fylgdist með seinni fréttum sjónvarpsins og ólympíuleikunum á eftir. Andlitið er því sem næst búið (hárið kláraðist um helgina) og næst er það jakkinn. Ég stefni að því að vera búin með báða drengina eftir 4-5 vikur (í kringum 20. mars).
Annars vorum við Davíð að koma úr foreldraviðtölum við kennara drengjanna. Þeir voru einnig viðstaddir, söngfuglinn í fyrri tímanum og karatedrengurinn í þeim seinni. Sá fyrrnefndi er að standa sig aðdáunarlega vel á meðan hinn hefur dalað og virðist ekki nenna að hafa fyrir hlutunum. Hann lofaði samt að taka sig á og breyta þessu.

15.2.10

- Helgin liðin -

Febrúar er hálfnaður og verður sjálfsagt liðinn áður en maður veit af. Sótti Helgu systur um hálfníu á laugardaginn. Við brunuðum á Hellu til pabba og mömmu og voru svo samferða þeim á Keldur eftir að hafa þegið smá kaffi. Útför föðursystur minnar hófst klukkan hálftólf hálftíma fyrir voru spiluð allskyns lög á orgelið. 10 félagar úr fóstbræðrum sungu og prestur var séra Guðbjörg Arnardóttir. Athöfnin var látlaus og falleg. Á eftir bauð fjölskyldan til erfidrykkju á Laugandi þar sem íþróttahús Hellu var upptekið vegna þorrablóts seinna um daginn. Boðið var upp á hangiket, flatkökur, baunir, rauðkál og kartöflur í jafningi og svo kaffi og pönnsur á eftir. Stoppuðum á eftir smá stund hjá pabba og mömmu þar sem ég fékk að smakka bollu. Tvíburarnir þurftu að labba í fermingafræðslu því ég var ekki komin aftur í bæinn fyrr en rúmlega fjögur. Fræðslan var e-s staðar í Suður-Hlíðunum svo þetta var ekkert svo langt labb. Engu að síður sótti Davíð strákana um fimm.
Í gær hélt óháði söfnuðurinn upp á 60 ára afmælið sitt með flottri afmælismessu. Forsetanum, tveimur fyrrverandi prestum og fleirum var m.a. boðið. Árni Heiðar fékk mann sem lék á kontrabassa til að spila með í messunni og Kristjana Stefánsdóttir söng. Hún söng forspilið og svo eitt lag fyrir predikun. Ómar Ragnarsson var með stólræðuna og fór á kostum eins og honum er einum lagið. Ég fann ekkert fyrir því þótt predikunin varði í meira ein tuttugu mínútur. Eftir ræðuna, söng og bundið mál söng kórinn "Ísland ögrum skorið" án undirleiks og strax á eftir sungum við fyrsta erindið í sálminum "Hærra minn Guð til þín". Kristjana söng næts erindi og ú-uðum við raddirnar (allar nema sópran undir) kórinn tók svo aftur undir í síðasta erindinu sem var sungið. Eftir messu kom Ómar til okkar og þakkaði okkur fyrir sönginn og sagði að Hærra minn... hefði verið einstaklega vel fluttur hjá okkur. Kona eins tenórsins sagði að hún hefði orðið svo hrærð yfir vel fluttum söng að hún táraðist og sagðist ekki hafa verið ein um það. Eftir messu var lagt á borð í kirkjunni en það voru líka dúkuð og dekkuð borð í "efra" og "neðra". Ég ákvað samt að drífa mig heim.
Davíð var að leggja síðustu hönd á boðskortið í ferminguna og svo skrifuðum við upp alla þá sem verður boðið. Fórum að versla á sjötta tímanum. Maturinn var ekki fyrr en um átta en það kom ekki að sök.
Í gær lauk ég við lestur bókarinnar sem ég er með í skammtímaláni. Settist líka aðeins við saumana mína í gærkvöldi.

12.2.10

- Föstudagur enn á ný -

Davíð skutlaði mér í vinnuna í morgun. Seinni partinn í gær var ég líka svo heppin að þegar ég var ca. hálfnuð heim var kallað í mig og mér boðið skutl heim. Þáði það með þökkum.
Tvíburarnir fóru báðir á æfingu (eða segir maður æfingar þar sem þeir voru að æfa hvor sína greinina), annar í karate og hinn í júdó. Feðgarnir fengu steikt slátur og soðnar kartöflur er þeir komu heim.
Að þessu sinni sinnti ég bæði saumaskap, lestri og FB en horfði ekkert á sjónvarp í gærkvöldi. Davíð var fyrir framan skjáinn að "leika" sér í ýmsum íþróttahreyfileikjum í ví-tölvunni og var rennsveittur eftir.
Framundan er jarðaför á morgun og söngur í 60 ára safnaðarafmælismessu á sunnudaginn.

11.2.10

- Fékk far í vinnuna í morgun -

Jæja, sólinn undir skónum á hægra fæti er orðinn lélegur svo ég þarf að drífa í því að kaupa mér nýja skó. Fann það er ég kom heim af kóræfingu í gærkvöldi að sokkurinn á hægra fæti var rakur svo ég ákvað að vekja Davíð tímanlega í morgun og biðja hann um að skutla mér. Það var ekkert mál. Ég labba svo örugglega heim eftir vinnu í dag, hvort sem jörð er blaut eða þurr.
Annars var mjög gaman á kóræfingu í gærkvöldi. Æfðum "Hærra minn Guð til þín" í röddum, tvö lög upp úr söngvasveig, og tvö önnur. Kórstjórinn ætlar svo að senda okkur númerin á sálmunum sem sungnir verða í messunni n.k. sunnudag.
Ekki settist ég við saumana mína í gær, en ég var bæði á FB og las einnig nokkra kafla í bókinni: "Stúlkan sem lék sér að eldinum" Þarf að klára þá bók og skila í síðasta lagi þann 19. Það á alveg að ganga upp en ég þarf líka að vera iðin við saumana mína.

10.2.10

- Rólegheit -

Í morgun labbaði ég til vinnu í fyrsta sinn í vikunni. Davíð skutlaði mér bæði í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Seinni partinn á mánudaginn tók ég strætó upp á Grensásveg og þangað kom Davíð og sótti mig upp úr klukkan hálfsjö. Labbaði heim í gær og kom við í kirkjuhúsinu. Var að spyrjast fyrir um minningarkort en söngkonan Rut L. Magnússon er fallin frá og fjölskyldan vill að drengjakórinn fái að njóta þess. Reikningsnúmer kórsins var birt með tilkynningunni í blöðunum í morgun og svei mér þá ef það er ekki farið að koma eitthvað inn vegna þess.
Söngfuglinn átti að mæta á sína aðra júdóæfingu í gær en það var að hellast í hann heiftarlegt kvef svo hann sleppti æfingunni. Davíð kom fyrir vikið fyrr heim og tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Ég lék lausum hala á FB (fésbókinni) á meðan. Maðurinn hellti einnig upp á könnuna, fann það alveg upp hjá sjálfum sér þessi elska. Hann var svo að vinna frameftir og eitthvað að leika sér í nótt svo ég var ekkert að raska ró hans í morgun.
Hefði geta mætt á tónleika í Óháðu kirkjunni í gærkvöldi en ég var frekar löt og hummaði það fram af mér. Ætlaði líka að sauma smá en nú þarf ég helst að setjast með saumana á hverju kvöldi til að klára fermingadrengina fyrir ca. 20. mars n.k. svo þeir verði komnir úr innrömmun fyrir 11. apríl.

9.2.10

- "Ekki fundur" og saumaklúbbur -

Mér fannst endilega sem búið væri að boða til stjórnarfundar á kóræfingatíma í gær og ég var ekki ein um það. Við mættum þrjár af sex úr stjórninni en fundurinn er víst ekki fyrr en n.k. mánudag. Við gerðum bara gott úr þessum misskilningi en fundurinn varð samt ekki svo langur.
Eftir að hafa skutlað Davíð í pílu og sótt karatestrákinn af æfingu dreif ég mig í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Þriðjið fiskurinn í saumaklúbbnum var mætt rétt á undan mér stuttu fyrir hálfníu. Það var spjallað og hlegið mikið en inn á milli fengum við okkur kaffi og sukkum niður í saumana. Klukkutíma seinna, að mér fannst, leit ég á klukkuna og þá var hún byrjuð að ganga tólf. Hvernig getur tíminn flogið svona hratt?
Kíkti aðeins inn á fésbókina þegar ég kom heim en las svo tvo kafla í; "Stúlkan sem lék sér að eldinum" áður en ég fór að sofa.

8.2.10

- Ferð á bókasafnið og fleira -

Rétt upp úr klukkan hálffimm á föstudaginn var, skutlaði ég einni vinkonu minni á flugvöllinn. Ég notaði tækifærið í og skrapp á bókasafnið. Var með þrjár bækur til að skila og ætlaði mér svo aðeins að taka esperantobækur með mér heim því ég á enn eftir að lesa jólabækurnar. Ég tók þrjár esperantobækur og svo sá ég tvær af bókunum sem ég hef verið að athuga með undanfarið. Stóðst auðvitað ekki mátið og tók þær báðar þótt önnur væri 600 bls. og aðeins með 14 daga skilafrest. Þrátt fyrir þetta lagðist ég nú ekki í neinn maraþon lestur um helgina.
Skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar á laugardagsmorguninn og við fórum og lærðum saman á Kjarvalsstöðum. Um tvö var ég kominn upp í Þórshamar því karatestrákurinn minn var að taka sjúkragráðun. Sé mest eftir því að hafa ekki labbað á staðinn. Því Oddur byrjaði ekki fyrr en rétt um þrjú og söngfuglinn átti að vera mættur í Ráðhúsið klukkan hálffjögur. Ég missti því af seinni hluta prófsins hans Odds en hann náði og er kominn með hálft fjólublátt belti.
Upp úr klukkan sex kom tvíburahálfsystir mín og hennar maður með dóttur þeirra og pizzu til okkar. Strákarnir ætluðu að hafa ofan af fyrir stelpunni á meðan við hin fórum á árshátíð. Maður vinkonum minnar fór af hátíðinni í fyrra fallinu og sótti stelpuna til okkar. Passið gekk vel og árshátíðin sem við fórum á var mega-skemmtileg. Maturinn var góður og skemmtiatriðin heppnuðust öll vel. Óháði kórinn minn söng "Vísur Vatnsenda-Rósu" og "Alparós". Við komum ekkert svo seint heim. Klukkan var aðeins byrjuð að ganga eitt.

5.2.10

- Blóðbankinn heimsóttur -

Ég fékk bæði SMS og e-mail, frá blóðbankanum í gær, um hvort ég gæti komið við hjá þeim og gefið. Hef bara mátt gefa á fimm mánaða fresti og ég var síðast í bankanum 10. september. Hafði því sett í áminningu í gsm-inn minn að heimsækja blóðbankann 11. febrúar n.k. En ég fékk beiðni um að mæta í gær og varð við henni. Sú sem meðhöndlaði mig sagðist ætla að láta mæla járnið í blóðinu og ég get svo hringt eftir tvær vikur til að athuga hvort ég má gefa aftur eftir fjóra eða fimm mánuði. Gjöfin gekk annars mjög vel. Þetta var sú tuttugastaogfjórða en á spjaldinu stendur reyndar 25 en fyrir tveimur árum mistókst að stinga í æð svo ég varð að fara án þess að gefa í það skiptið. Engu að síður var það skráð sem heimsókn því blóðþrýstingurinn og púlsinn var mældur og tölurnar skráðar inn.

3.2.10

- Skór -

Það fer að líða að því að ég þurfi að skóa mig upp aftur. Á bara eitt par af götu-gönguskóm (sem ég keypti í fyrravor) og hef haft það á bak við eyrað um tíma að kaupa mér annað par til skiptanna. Það lítur samt út fyrir að ég þurfi fyrst að endurnýja parið sem ég á því sólarnir eru að verða lélegir. Kannski engin furða þar sem ég geng allt upp í 30km á viku, amk 100km á mánuði.
Þorði ekki að skreppa á keiluæfingu í gærkvöldi. Fingurnir tveir eru langt því frá að verða góðir, bólgnir og dofna oft upp hvort sem ég er að gera eitthvað eða ekki. Gat þó setið og saumað í rúman klukkutíma í gærkvöldi án þess að finna fyrir dofa. Eins gott því ég þarf að klára að sauma tvo fermingardrengi fyrir miðjan mars svo þeir verði komnir úr innrömmun áður en tvíburarnir fermast.

1.2.10

- Minning -
Ingigerður Oddsdóttir 28.03.1923-31.01.2010
Inga, föðursystir mín, fædd á Heiði á Rangárvöllum en kennd við Hróarslæk frá því hún byrjaði að búa, féll frá núna um helgina. Þá eru þau aðeins tvö systkynin eftir. Ég er sannfærð um að frænka mín var tilbúin að fá hvíldina, hefði orðið 87 ára í mars en talaði um það þegar elsti bróðirinn dó í desember 2008 að hún væri næst. Ég man eftir að það var fastur punktur í tilverunni eftir (Reyðarvatns-) réttir á haustin að enda daginn í smá kaffi á Hróarslæk. Pabbi var ekkert mikið fyrir að flækjast í heimsóknir en hann ákvað þó aleinn og sjálfur að skreppa með mig og tvíburana til systur sinnar þegar þeir voru bara á öðru árinu. Frænka mín var mjög hógvær og látlaus kona og með létta lund. Síðustu árin sín var hún á elliheimilinu Lundi á Hellu. Ég kíkti oft á hana þá sjaldan að ég var stödd á Hellu en alls ekki alltaf og sl. ár fór ég ekki mjög oft þannig að ég var ekki búin að heimsækja Ingu sennilega síðan sl. haust. Blessuð sé minning hennar!

27.1.10

- Janúar alveg að verða búinn -

Jæja, maður er svo mikið inn á FB og hinn helmingurinn af frítímanum fer í lestur, saumaskap og ýmislegt annað heldur en bloggarskrif. Tíminn æðir áfram og mér finnst hálffáranlegt að það verði kominn febrúar n.k. mánudag.
Í gærkvöldi fórum við öll á spilakvöld með 8. bekkjunum í Hlíðaskóla. Spilaðar voru 7 umferðir á ellefu borðum og verðlaun veitt fyrir fjögur efstu sætin í karla og kvennaflokkum og tvö neðstu sætin í sömu flokkum. Komið var með góðgæti á hlaðborð og voru bekkjarfulltrúar búnir að hella upp á kaffi, blanda djús og kæla vatn. Almenn ánægja var með kvöldið. Það togaði smá að sýna átti seinni hálfleikinn í leik Dana og Norðmanna en það var samt aldrei spurning um að mæta ekki á svona uppákomu enda sé ég alls ekki eftir þessum tíma.
Á jóladag meiddist ég á tveimur fingrum á hægri hendi, vísifingri og löngutöng. Sló þeim í tröppur, hafði rekið tærnar í en rétt náði að grípa í handriðið og gat afstýrt því að lenda á andlitinu. Fingurnir eru enn bólgnir og þeir eiga það til að dofna upp. Það gerist stundum ef ég sest við saumana og sauma lengur en í eina klukkustund eða svo.
N.k. laugardag verður söngfuglinn minn sóttur fyrir klukkan ellefu. Farið verður með hann og sjö aðra stráka í óvissuferð fyrir góða kertasölu. Sá strákur sem seldi mest seldi meira en 200 pakka af kertum. Einn strákurinn í undirbúningsdeildinni seldi yfir 50 pakka og fer með í óvissuferðina fyrir vikið því strákarnir sem ekki eru komnir í aðalkórinn eru ekki skyldugir til að selja neitt. Þessi strákur er reyndar kominn í kórinn núna en hann var í undirbúningsdeildinni fram að áramótum.