31.7.08

- Bland í poka -

Yndislegt veðrið þessa dagana og frábært að vera í fríi. Bauð "þríburunum" með mér niður í bæ í gær. Þeir voru alveg til í það. Aðal markmiðið var að ná í myndir úr framköllun, myndirnar sem Davíð Steinn tók í Barcelona. En ég bauð strákunum upp á ís, svo stoppuðum við góða stund við tjörnina. Sáum einfættan máf og mann að leika sér með heimasmíðaðan bát. Komum við í Hljómskálagarðinum í bakaleiðinni þar sem strákarnir klifruðu upp í topp á e-s konar kaðlaklifurgrind. Komum heim rétt fyrir þrjú. Strákarnir útbjuggu sér nesti og fóru niður í Nauthólsvík, annan daginn í röð.

Síðustu helgi tjölduðum við við Hótel Eldborg. Þar var ættarmót Eyrarættar haldið (langamma Davíðs í móðurætt, hennar systkyni og niðjar), vel heppnað, skemmtilegt og gott veður. Auðvitað kom ekki úr öllum greinum en mér skilst að mætingin fari batnandi með hverju móti og næst verður þetta haldið á Austfjörðunum, þar sem þetta hófst allt saman.

Davíð tók sér frí á mánudaginn. Ella vinkona kíkti í kaffi um tíu og Aðalsteinn, maðurinn hennar kom upp úr ellefu en þau eru nýkomin frá Danmörku þar sem þau voru í sumarhúsi í tvær vikur á Jótlandi ásamt fjórum af börnunum. Kaffistundin var notaleg en alltof fljót að líða. Mér datt svo í hug að "draga" manninn með mér í heimsókn til Grindavíkur en við eigum vinafólk þar sem við heimsækjum mjög stopult. Höfum kíkt eftir heimaleiki Grindavík við Val en sá leikur var á sunnudagskvöldið var og við vorum ekki að nenna á leikinn svona beint í kjölfar útilegunnar. En við drifum okkur semsagt seinni partinn á mánudaginn og áttum aðra notalega kaffistund þar.

Æ, hvað maður mætti annars vera duglegri við að rækta vini og ættingja. Mér hefur farið stórlega aftur í þeim efnum og þarf að fara að taka mig á hvað það varðar.

25.7.08

- Enn einn föstudagurinn -

Fyrsta sumarfrísvikan er að klárast. Davíð er ekki kominn í frí en hann tók sér frí sl. miðvikudag, á afmælisdag strákanna. Dagurinn heppnaðist vel. Helga systir kom um fjögur með þrjár stelpur, sínar tvær og eina til sem er alveg jafngömul Huldu. Þríburinn var kominn yfir nokkru fyrir hádegi en hann var næstum stunginn af þegar allt kvenfólkið kom. Sem betur fer gat ég freistað hans með vöfflum, kókosköku með eplum (borin fram volg og með smá ís), flatkökum með hangiketi og ekta heitum súkkilaðidrykk. Davíð sá um tvennt það síðarnefnda. Um kvöldið fórum við fjögur og sáum nýjustu Batmanmyndina. Ég var fyrst í rúmið um kvöldið, klukkan hálftólf. Held að strákarnir hafi ekki sofnað fyrr en vel eftir miðnætti, ánægðir með daginn.

Bræðurnir sváfu svo til ellefu í gærmorgun. Þríburinn kom ekki yfir því hann var hjá pabba sínum svo ég fékk strákana með mér yfir á Eggertsgötuna eftir hádegi. Lögðum í hann rétt upp úr tvö, einn og hjóli og tvö gangandi. Ganga tók uþb 40 mínútur. Ein vinkona mín hefur verið að passa dótturdætur sínar í þessum mánuði á meðan dagmamma yngri stelpunnar er í sumarfríi. Systir vinkonu minnar var stödd í heimsókn með sína stelpu. Annar tvíburinn var mjög duglegur að leika við eldri stelpurnar og atast í þeim. Mamman kom heim úr vinnu rúmlega þrjú svo segja má að ég hafi náð að hitta nokkuð marga í þessari heimsókn. Vindurinn blés sterklega á móti mest alla leiðina heim og fékk ég smá verk í annað eyrað, en það jafnaði sig.

23.7.08

- Tveir tólf ára í dag -

Tíminn lætur ekki hæða að sér. Það eru liðin tólf ár síðan erfðaprinsarnir komu í heiminn. Þ.e.a.s. klukkan 14:20 og 14:25 í dag verða liðin nákvæmlega 12 ár. Þeir voru vaknaðir tiltölulega snemma í morgun, þokkalega spenntir. "Þríburinn" er kominn og verður með þeim í dag. Davíð tók sér frí úr vinnu og framundan er allur dagurinn. Best að snúa sér að því að njóta hans með strákunum.

21.7.08

- Mánuður -

Tíminn
hefur liðið og verið notaður í flest annað heldur en skrif. Að sumu leiti er það sind því um leið þá gleymist sumt af því sem gaman væri að muna. En ég hef bara ekki verið í neinu skrifstuði og er varla komin í það enn. Það er samt ekki meiningin að hætta en mjög líklegt að það verði stopul skrif næstu vikurnar. Ætla ekki að lofa neinu í bili öðru en því að ég er ekki hætt.