31.3.22

Stutt í helgina

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sex. Labbaði í vinnuna gegnum Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut Laugaveg, Vatnsstíg og Skúlagötu. Var mætt fyrst á svæðið. Þegar hinar voru komnar og við búnar að kveikja á vélinni og taka út framleiðsluvagnana fórum við að venju inn á kaffistofu. Ég byrjaði á því að skipta um bol inn á einu baðherberginu. Fyllti svo vatnsflöskuna mína og fékk mér kaffi. Við vorum að fara að huga að því að fara inn að vinna "pínulítið" þegar yfirmaður strákanna frammi birtist með fullt af brauði og bakkelsi og við boðnar að fá okkur af þeim. Við sátum því sem fastast til klukkan hálfníu og fengum okkur af veitingunum með strákunum og yfirmanni þeirra. Þegar við fórum loksins inn fór ég á móttökuendann á vélinni en byrjaði á því að telja í allar visa og debettegeundir sem voru til framleiðslu. Fórum í kaffi korter fyrir tíu. Eftir þann kaffitíma flokkaði ég kennispjöld fram að hádegi. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann á vélinni og við sem vorum í framleiðslunni unnum að endurnýjun til klukkan að verða hálffjögur. Þá gengum við frá og "háttuðum" vélina. Fékk far heim úr vinnunni. Var að spá í að skreppa í sjóinn enda háflóð að nálgast en svo ákvað ég að vera ekkert að hreyfa við bílnum. Oddur hafði skroppið í Sorpu fyrr um daginn og fengið þetta fína bílastæði fyrir framan.

30.3.22

Síðustu mars-dagarnir

Mikið varð ég undrandi þegar ég vaknaði við lætin í vekjaranum í gærmorgun. Hafði rumskað tvisvar fyrr um morguninn en þó of snemma til að fara á fætur og svo var ég í miðjum draumi þegar vekjarinn fór í gang. N1 sonurinn varð á undan á baðherbergið svo ég byrjaði á því að setjast inn í stofu með fartölvuna í fanginu í uþb tuttugu mínútur áður en ég sinnti morgunverkunum á baðinu, fékk mér lýsi og labbaði af stað í vinnuna. Aftur var ég frammi að flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Ákváðum að skipta okkur í mat og við sem vorum inni frá kaffi hættum ekki fyrr en hinar voru búnar í mat og tóku við af okkur stuttu fyrir klukkan hálfeitt. Eftir hádegi flokkaði ég fleiri kennispjöld. Sú sem hafði verið á móttökuendanum með mér og sú sem var í bókhaldinu fóru með 14 flokkaða kassa inn í kennispjaldageymslu og komu með 15 óflokkaða kassa til baka. Framleitt var til klukkan rúmlega hálffjögur. Þá fórum við heim, fjórar af fimm. Sú fimmta varð eftir með einum tæknimanni að setja upp fyrir nýrri tegund af plasti. Ég fékk far heim úr vinnunni og kom heim rúmlega fjögur. Klukkutíma síðar tók ég sunddótið með mér og skrapp í sund í Vesturbæjarlaugina. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn sem er sagður 8-12°C. Synti svo ekki nema 150 metra. Var á brautinni næst barnalauginni og þótt það væri ekki alveg eins opið á milli og var í Laugardalslauginni þá voru samt feðgin að "leika" sér í djúpa endanum á brautinni. Einnig var önnur að synda á þessari braut, þannig að ég fór ekki nema 6 ferðir í 25 metra lauginni. Sat góða stund í heitum potti og þvoði mér svo um hárið á leiðinni upp úr og heim. Oddur sótti bróður sinn í vinnuna um átta. 

29.3.22

Vorlegt

Vaknaði rétt rúmlega sex og dreif mig bara á fætur. Ákvað að vera ekkert að reima á mig gönguskóna enda allt orðið nokkurn veginn autt. Var frammi að flokka kennispjöld fram að kaffi og á móttökuendanum á framleiðsluvélinni eftir kaffi og til hádegis. Eftir hádegi taldi ég síðasta skammtinn með þeirri sem var í bókhaldinu og fór svo aftur að flokka kennispjöld. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim stuttu fyrir fjögur. Rúmum klukkutíma seinna skrapp ég aðeins í 3,25°C sjóinn í uþb tíu til tólf mínútur og svo strax í gufuna. Sleppti alveg heita pottinum í þetta sinnið. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni við Fiskislóð og verslaði inn. 

28.3.22

Mánudagur

Ég rumskaði fyrst um sjö í gærmorgun en var fljót að kúra mig niður aftur. Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég fór loks á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í eldhús og lagði nokkra kapla. Pabbi var að fá sér harðsoðið egg. Ég fékk mér svoleiðis um ellefu og settist svo inn í stofu með prjónana mína. Um hádegið hellti ég upp á kaffi og fékk mér nokkrar rúsínur. Dagurinn leið frekar hratt. Vafraði aðeins um á netinu, las, prjónaði og lagði kapla. Kaffitíminn var um hálffjögur og uþb klukkutíma síðar tók ég mig saman og kvaddi pabba og Bríeti. Var komin í bæinn upp úr klukkan hálfsex. Rúmum klukkutíma síðar tók Oddur að sér að skreppa í KFC eftir tilboði handa okkur mæðginum. Bræðurnir voru ánægðir með þessa hugmynd.

27.3.22

Út úr bænum

Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. Fyrsta klukkutímann, eftir morgunverkin á baðherberginu, notaði ég í alls konar netvafr. Næsta klukkutímann þar á eftir lauk ég við að lesa bókina eftir Vivecu Steen. Um tíu tók ég saman föggur mínar, lét Odd vita að ég væri að fara austur, og brunaði svo af stað. Stoppaði við í Fossheiðinni í fyrsta sinn á þessu ári en þetta er einungis þriðja ferðin austur fyrir fjall. Hinar tvær voru skrepp innan dagsins. Var komin á Hellu upp úr klukkan hálfeitt. Pabbi var að leggja kapal en fór fljótlega að búa til pönnukökufjall úr tvöfaldri uppskrift. Hann sagði að Bríet væri búin að panta fisk í kvöldmatinn og þegar við fórum að kanna birgðastöðuna var ekki nóg til svo pabbi varð að skreppa út í búð. Hann kom til baka með frosin bleikjuflök, nýja ófrosna ýsu og hrásallat. Kaffitíminn var hafður um hálffjögur. Um sex leytið setti ég blómkál í bitum og skorinn lauk í gufupottinn. Steikti svo ýsuna upp úr eggi, krydduðum byggflögum og hveiti. Frænka mín var mjög ánægð með matinn og hún tók svo að sér að ganga frá. 

26.3.22

Helgarfrí

Bíllinn var notaður aftur til að koma mér milli heimilis og vinnu í gærmorgun. Í þetta sinn tók ég sjósundsdótið og dós með loki með mér og geymdi í skottinu á meðan á vinnu stóð. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum fram að hádegi. Ekki var framleitt neitt eftir hádegi því tvær fóru á fund og þá vorum við aðeins tvær eftir og það er regla (sem stundum er gerð undantekning á) að vera ekki að framleiða ef aðeins tvær eru eftir á deildinni. Það vantaði hvort sem er form, umslög og hráefni til að ljúka við það sem mest liggur á. Við tvær sem vorum eftir töldum síðustu vaganana, gengum frá ryksuguðum vélina og flokkuðum kennispjöld til klukkan að verða tvö. Þá höfðum við leyfi til að stinga snemma af stað inn í helgina. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Sjórinn um 3°C, mikill öldugangur og skemmtilegt að svamla um í sjónum. Ég var út í í tíu mínútur og svo annað eins og rúmlega það í heita pottinum. Kom við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim. Þegar heim kom sá ég að ég hafði misst af símtali við Helgu systur. Hringdi til baka og hún sagði að þau hjónin væru á leið með flugi í bæinn seinni partinn og spurði hvort ég gæti sótt þau á völlinn og skutlað þeim á Grand Hótel þar sem þau verða um helgina. Það var alveg sjálfsagt. Var mætt út á flugvöll korter fyrir sex, fimm mínútum áður en flugvélin þeirra lenti. Hitti tvær frá Hellu sem voru að tékka sig inn og ætluðu með sömu flugvél norður. Einnig hitti ég útskriftarbróður úr FSu sem var að koma með sama flugi og systir mín og mágur. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálfsjö og skellti þá kartöflum í pott og sauð upp á ýsuflakinu. 

25.3.22

Síðasti föstudagur marsmánaðar

Ég notaði bílinn til að komast í vinnu í gærmorgun og var með sunddótið í skottinu. Vorum allar mættar, fimm af fimm. Ein átti tíma hjá augnlækni upp úr klukkan tíu. Hún var á vélinni ásamt annarri fram að kaffi og hafði svo smá tíma til að fá sér "föstudagskaffi" á fimmtudagsmorgni með okkur. Hún tilkynnti það líka að hún ætlaði beinustu leið heim eftir augnlæknatímann, væri ekki orðin 100% hress. Ég fór á ítroðsluendann eftir kaffi og fyrirliðinn á móttökuendann. Við kláruðum allt daglegt upp úr klukkan hálftólf. Vorum loksins komin með nóg hráefni í að framleiða aðra af tegundunum sem hafa beðið síðan úr febrúarendurnýjuninni. Gátum klárað rúmlega helminginn en þá urðum við að stoppa þar sem formin voru búin. Hættum vinnu um hálffjögur. Ég lagði leiðina í Sundhöll Reykjavíkur. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn sem er 10-12°C. Synti í 10 mínútur, fór aftur í kalda pottinn og svo í gufubað áður en ég fór upp úr og heim. Heima hafði Oddur Smári ætlað að fara í Sorpuferð og var búinn að taka til allt dótið þegar hann uppgötvaði að ég væri líklega á bílnum. Hann frestaði ferðinni fram yfir helgi.

24.3.22

Ætla á bílnum

Sem oftast áður vaknaði ég nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Slökkti á henni og dreif mig á fætur, bæði til að vera á undan N1-syninum inn á baðherbergi og einnig til að hafa tíma til að vafra aðeins um á netinu. Áður en ég labbaði af stað í vinnuna tók ég mannbroddana undan gönguskónum. Broddarnir hafa skilað sínu og mér sýnist þeir ekki verða notaðir aftur, orðnir mjög eyddir. Það var samt smá skrýtið að labba án broddanna en leiðin sem ég labba þessa dagana er næstum því greið. Vorum fjórar í vinnu, ein lasin. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Í kaffinu kom vinnufélagi okkar með bakkelsi í tilefni afmælis síns. Hann er frekar ósáttur við að eldast og kallaði afmæliskaffið erfidrykkju. Þessi náungi er ári yngri en ég. Skil ekki alveg svona hugsunarhátt. Það eru forréttindi að fá að eldast og í góðu lagi að safna upp afmælisdögum ef heilsan er góð. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Eftir hádegi var ég aðallega í að flokka kennispjöld. Markmiðið er að vera búin að sortera spjöldin og koma þeim af okkur áður en deildin flytur og við erum komin á árin 2008-2009 og eigum eftir að flokka 6-7 ár áður en við komum að þeim tíma sem við byrjuðum að flokka. Hjá okkur liggja kennispjöld frá árunum 1992 til miðs árs 2018 en þá breyttust persónuverndarlögin og öll spjöld eftir þann tíma voru send til baka eftir að hafa verið skönnuð. Fékk far heim úr vinnunni og þangað komin rétt fyrir fjögur. Klukkutíma seinna var ég komin í Nauthólsvík. Það var fjara svo vaða þurfti hálfa leið til Kópavogs áður en maður komst á eitthvað dýpi. Ég fór nú kannski ekki alveg svo langt en ég var út í sjónum í tæpt korter og svo annað eins í heita pottinum á eftir. Kom heim aftur rétt fyrir sex.

23.3.22

Birtir fyrr og fyrr

Var komin á fætur og sest með fartölvuna í fanginu inni í stofu um hálfsjö í gærmorgun. Þegar ég undirbjó mig að labba af stað í vinnuna setti ég aukabol, súpubréf, húslykla og tvennt annað í gamlan sundpoka. Setti pokann á bakið áður en ég fór í regnkápuna. Var enn með mannbroddana undir gönguskónum en það fer lílega að verða óhætt að taka þá af. Var mætt fyrst á vinnustað. Sú sem átti að vera í bókhaldinu var í fríi og ég ákvað að skipta við hana, taka að mér bókhaldið í gær og eftirláta henni bókhaldið í dag. Aðeins var unnið að hinu daglega en það kláraðist um hálfeitt. Töldum, gengum frá deildinni og fengum okkur að borða. Stuttu fyrir tvö fórum við yfir í Katrínartún á annan vinnufund með þeim tveimur sem munu taka á móti okkur og verða næstu yfirmenn þegar kortadeildin flytur í seðlaverið. Fundurinn stóð yfir í rúma tvo tíma. Fékk þá far heim og vitandi það að framkvæmdir eru að hefjast í Laugardalslaug og búið að loka kalda pottinum og útilauginni þá hélt ég mig bara heima við. Hvað maður gerir svo næstu vikur og mánuði, fer oftar í sjóinn eða hvaða laug maður finnur sér til að synda í, það verður að koma í ljós.

22.3.22

Tiki

Vaknaði tíu mínútum áður en vekjaraklukkan átti að hringja í gærmorgun. Dreif mig á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég um stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Rétt áður en ég labbaði af stað í vinnuna fékk ég mér lýsi, járn og ostbita. Vorum fjórar af fimm í vinnu, ein í fríi. Ég var frammi í skrifstofurými fram að kaffi að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld. Eftir kaffi og til tólf fór ég á ítroðsluendann á framleiðsluvélinni. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi fór ég í starfsmannasamtal við næsta yfirmann, þá sem er búin að vera yfur okkur síðustu misserin. Þegar kortadeildin flytur í haust eða árslok fáum við nýjan yfirmann. Samtalið fór fram í kósýhorninu í skristofurýminu, allir aðrir voru frammi í kaffistofu á meðan. Eftir spjallið fórum tvær af okkur að telja síðustu vagnana. Hinar tvær, yfirmaðurinn og ein úr öryggisdeildinni voru að farga ónýtum kortum á meðan. Eftir þetta var nokkurs konar skipulagsfundur með yfirmanni. Farið yfir síðustu þrjá mánuði og markmið sett næstu þrjá mánuði. Fékk far heim úr vinnunni upp úr klukkan hálffjögur. Rúmlega fimm var ég mætt í Laugardalslaug. Sat fimm mínútur í kalda, synti 300 metra og í næstu kaldapottsferð hitti ég kaldapotts vinkonu mína. Fórum tvisvar enn í kalda, heitasta pottin á milli og vorum svo samferða einnig í gufuna. Kalda potts vinkona mín tók eina auka ferð í kalda en ég sat í gufunni í korter. Fljótlega eftir að ég kom heim úr sundi hafði norska esperanto vinkona mín samband. Þau voru með Viaplay á leigu í einhverja daga og þar var hægt að leigja myndina um Kon Tiki. Hún var þar að auki búin að skella í eina gulrótarköku og var að bjóða mér yfir í smá veislu. Ég var komin þangað innan við tuttugu mínútum síðar. Þáði smá tómatsúpu en svo settumst við niður í stofu að horfa á mynda og fá okkur af kökunni. Eftir myndina sýndu þau mér nýjasta bardagann með Gunnari Nelson en hann er tilvonandi tengdasonur þeirra. Það var fátt um stæði þegar ég kom til baka um ellefu. Varð að leggja í Blönduhlíðinni, en fékk þó amk stæði þar. Las aðeins áður en ég fór að sofa og var klukkan ískyggilega nálægt miðnætti þegar ég fór loksins að sofa, vantaði held ég aðeins korter í

21.3.22

Ný vinnuvika

Klukkan var um hálfníu þegar ég dreif mig á fætur. Einum og hálfum tíma síðar var ég komin í kalda pottinn. Fljótlega kom kaldapotts vinkona mín í sína þriðju ferð svo við stilltum okkur af. Fórum í heitasta pottinn, aftur í kalda og hittum svo systur hennar í sjópottinum. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fórum við í gufuna. Ég sat þar inni aðeins lengur en hún. Fór svo í kalda sturtu á eftir. Systurnar voru í potti tvö og kom kaldapotts vinkonan með mér í sína sjöttu ferð í kalda áður en ég fór að synda aðeins. Kom heim um hálftólf og byrjaði á því að mala kaffibaunir og hella upp á könnuna. Lauk við að lesa bókina hennar Auði Jónsdóttur. Rétt fyrir tvö skutlaði ég Davíð Steini í skírnarveilsu í Kópavog og fór svo beinustu leið á bókasafnið í Kringlunni og skilaði af mér fjórum bókum. Tók þrjár í staðinn, allar með 30 daga skilafresti og möguleika á að framlengja svo um aðra 30 daga. Þannig að allar fimm bækurnar sem ég er með í láni af safninu eru með skilafresti í apríl og fjórar af þeim með möguleikann á að framlengja fram í maí. Davíð Steinn kom heim um sex og tók að sér að elda, gerði eins konar kjúklingasúpu sem var virkilega góð hjá honum. 

20.3.22

Sjötugastiogníundi dagur ársins

Var komin á fætur um hálfsjö. N1 sonurinn kom fram rúmum hálftíma seinna og ég skutlaði honum í vinnuna. Hleypti honum út við N1 við Gagnveg á slaginu hálfátta og fór ekki fyrr en hann hafði fært mér kaffibolla í bílinn. Var komin á planið við Laugardalslaug þrettán mínútum áður en opnaði. Kláraði að drekka kaffið í rólegheitum og hlustaði á morgunfréttir áður en ég fór inn. Byrjaði á því að synda í hálftíma, 600 metra á brautum 6-8. Synti 200 metra af þeim á bakinu. Fór svo beint í þann kalda og sat þar í fimm mínútur. Þá fór ég í sjó pottinn og sat þar sennilega í tæpt korter áður en ég fór aftur í þann kalda og svo gufuna að lokum áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var komin heim upp úr klukkan tíu. Dagurinn fór svo í alls konar dútl. Lauk við að lesa bókina; Stúlkan með snjóinn í hárinu eftir Ninni Sculman. Byrjaði á bókinni; Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur. Þá á ég eftir  að lesa tvær aðrar bækur af safninu; Í leyndri gröf eftir Vivecu Steen og Kaldaslóð eftir Kim Faber & Janni Pedersen. Sú síðarnefnda var með skiladaginn 23. n.k. en ég framlengdi þeim fresti um mánuð rétt áðan. Skammtímalánsbókinn þarf að skila í síðasta lagi á morgun en ég fer líklega með hana og tvær aðrar og skila á safnið í dag. Vona að það freisti mín ekki of margar bækur til að taka með heim í staðinn því ég hef nú hug á því að fara að glugga loksins í jólabækurnar.

19.3.22

Morgunstund

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu "skrapp" ég í netheima í dágóða stund. Stuttu fyrir hálfátta tók ég bakpokann, handtöskuna og sjósundsdótið með mér út í bíl. Tvennt það síðastnefnda setti ég í skottið en bakpokann setti ég í framsætið. Mættum þrjár í vinnu, ein vinnur aldrei á föstudögum nema upp komi sérstakar aðstæðru og önnur var í fríi. Ég var á móttökuendanum á vélinni á meðan á framleiðslu stóð. Hádegissendingin var sein til okkar og þegar hún loksins kom og við keyrðum gömlu leiðina þá virkaði ekki að framleiða kortin. Fyrst prófuðum við að biðja tæknideildina okkar að athuga hvort hægt væri að setja "sjálfvirku" keyrsluna aftur af stað. En það virkaði ekki þar sem við vorum búnar að keyra í millitíðinni. Þá þurfti að hafa samband við þá aðila sem sendu okkur keyrsluna og biðja um að senda aftur. Það sem við erum vanalega búnar með milli tólf og eitt kláraðist korter yfir tvö. Hætti vinnu rétt fyrir fjögur og fór beinustu leið í 1°C sjóinn. Var út í í uþb tíu mínútur og svo korter í heita pottinum á eftir. Kom heim um fimm. Restin af deginum og kvöldinu fór í netvafr, prjónaskap, sjónvarpsgláp og lestur.

18.3.22

Stutt í helgina

Ég var vöknuð rétt rúmlega sex í gærmorgun. Hafði tímann fyrir mér því ég var ákveðin að fara á bílnum í vinnuna. Ég var nefnilega klyfjuð meira en bakpokanum. Var með auka poka með vínberjum, ostum, ostaköku og saltstöngum með mér. Mætti í vinnu á sama tíma og sú sem var í bókhaldinu og bakarísferðinni. Við lögðum báðar á neðra planinu. Undirbjó pökkun fram að kaffi. Fyrrum vinnufélagi mætti í kaffi. Held hann hafi nú ekki endilega munað að það var afmæli en hann veit að það eru kaffiveitingar á fimmtudögum og kemur stöku sinnum. Hann hætti vinnu sl. haust eftir 42 ára starf enda orðinn 67 ára. Hann fær að mæta á árshátíð RB sem haldin verður í Hörpu á morgun. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Við kláruðum að framleiða allt daglegt rétt fyrir tólf. Þá tók ég út styttingu vinnuvikunnar, hálfan dag einu sinni í mánuði, og fór beinustu leið heim. Um tvö skutlaði Oddur mér í blóðbankann og fór í Sorpu í leiðinni. Sú sem afgreiddi mig í afgreiðslunni óskaði mér til hamingju með daginn. Stuttu síðar "sótti" hjúkrunarfræðingur af erlendu bergi broti mig. Hún sagðist tala smá íslensku en spurði hvort það væri í lagi að við töluðum á ensku. Ég samþykkti það og bætti við að hún mætti tala á ensku ég gæti kannski svarað á íslensku. Þegar ég var búin að þvo mér, spritta, sest inn og hafði lokað að okkur, sagðist hún þurfa að tala við mig um eitthvað sem ekki tengdist blóðgjöfinni. Svo brast hún í söng og söng afmælissönginn fyrir mig á ensku. Þegar ég var búin að koma mér fyrir á einum bekknum frammi leyfði ég henni að velja úr hvorum handleggnum hún ætlaði að taka. Eftir að hafa þreifað á þeim báðum góða stund valdi hún þann vinstri. Hélt í augnablik að það yrði vesen en allt gekk vel, svo vel að æðin vildi helst halda áfram að gefa eftir að búið var að fylla á pokann. Það tók góða stund að stoppa og loka fyrir. Fékk mér kaffi og hafraköku áður en ég hringdi í Odd aftur til að sækja mig. Heima fór ég að lesa, prjóna og svara kveðjum. Mágur minn hringdi um hálftíu. Hann er kominn með pestina. Yngri dóttlan hans hringdi í mig í hádegispásunni sinni. Hún er orðin hress eftir pestina. Um miðjan dag hringdi kona eins frænda míns. Hún er með pestina. Um hálfsjö skruppum við mæðgin á Pítuna. Ég borgaði fyrir okkur en Davíð Steinn ákvað að endurgreiða mér. Þegar við vorum að koma heim aftur hringdi æskuvinkona mín í mig. Hún er enn að jafna sig eftir veirusýkinguna. Og um hálfníu hringdi besti vinur minn í mig en það er hefð okkar á milli að hringja í hvort annað þegar hitt á afmæli. 

17.3.22

Afmælisdagur

Var vöknuð um sex. Hafði og gaf mér tíma til að skreppa aðeins í netheima eftir morgunverkin á baðherberginu og áður en ég labbaði í vinnuna. Vorum allar mættar í gær en tvær fóru svo á hádegi, önnur að taka styttingu vinnuvikunnar en hin var enn smá lasin og búin með kraftana þennan daginn. Hún er samt ekki að jafna sig eftir Covid-19, er ein af þremur (af fimm) sem ekki er búin að fá þá veiru. Ég var að flokka kennispjöld fram að kaffi og fór á móttökuendann eftir kaffi. Eftir hádegi tók ég við bókhaldinu og hélt svo áfram að flokka kennispjöld. Á einum tímapunkti leysti ég aðeins af inn á framleiðsluvél til að þær sem stóðu vaktina þar gætu skroppið á prívatið, önnur í einu því það þurfa alltaf að vera tvær þegar framleiðsluvélin er í gangi. Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir fjögur. Um hálfsex var ég loksins mætt í sund eftir að hafa slakað smástund á heima og komið við í fiskbúðinni. Keypti bleikjuflök og harðfisk. Hitti kaldapotts vinkonu mína í sundi og það varð úr að ég var einungis að rölta á milli kalda og heitasta og endaði svo í gufunni. Synti semsagt ekkert. Áður en ég fór heim kom ég við í Hagkaup í Skeifunni til að kaupa vínber og osta til að bjóða upp á í vinnunni. Steikti bleikjuna og gufusauð blómkál í kvöldmatinn. Var svo að horfa á íþróttir, smá körfubolta, en aðallega leik "minna manna" í Liverpool á móti Arsenal. Kláraði enn eina tuskuna.

16.3.22

Miðvikudagur

Vaknaði rétt áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Hafði rumskað fyrst um fimm enda var ég sofnuð fyrir klukkan hálfellefu í fyrrakvöld. En ég var ekki lengi að sofna aftur og "grjótrotaðist". Labbaði sömu leið í vinnu og undan farna daga og er sú leið uþb 300 metrum styttri og ég fljótari eftir því. Sú sem átti að vera í bókhaldinu í gær var enn lasin. Ég tók að mér að sjá um bókhaldið í staðinn. Lenti í smá brasi með að prenta út. Prentarinn var eitthvað tregur. Fyrirliðinn gat lagað það og allt annað gekk vel. Eftir hádegi sorteraði ég kennispjöld og við fórum tvær, sem vorum frammi, og skiluðum 14 sorteruðum kössum og sóttum 15 aðra í staðinn. Er líka byrjuð að vinna á óvissubunkanum, þau spjöld sem flest eru óstimpluð. Það verður líklega ekki hægt að finna út úr öllum en mjög mörgum samt. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima við í um klukkustund áður en ég fór í sund. Tvær ferðir í kalda, 300m og gott gufubað áður en ég fór heima aftur. Stuttu fyrir átta sótti ég Lilju vinkonu og vorum við mættar í saumaklúbb hjá Sonju á slaginu átta. Kvöldið leið alltof hratt. Var komin heim aftur rétt rúmlega ellefu en ég las samt í smá stund áður en ég fór að sofa. 

15.3.22

Þriðjudagur

Hafði meðbyr með mér á göngunni í vinnuna í gærmorgun. Ekki orðið of hvasst þó og slapp við alla úrkomu. Vorum fjórar í vinnu, ein lasin. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum fram að hádegi. Eftir hádegi flokkaði ég kennispjöld en ég settist líka smá stund í sófann með bók og prjóna. Fékk far heim úr vinnunni. Þá var grenjandi rigning svo ég var fegin að sleppa því að labba. Hefði líklega hringt í einkabílstjórann ef ég hefði ekki fengið farið. 

14.3.22

Mánudagur

Var á fótum á svipuðum tíma og á laugardagsmorguninn. Klukkan var svo að verða hálfellefu þegar ég mætti í sund. Byrjaði á fimm mínútum í kalda, synti 500 metra, aftur fimm mínútur í kalda, gufubað, kalda sturtu, sjópottinn, kalda pottinn og sat svo smá stund í sólbaði áður en ég fór upp úr og heim aftur. Hellti upp á kaffi. Hlustaði á hádegisfréttir. Prjónaði, vafraði um í netheimum, horfði á leiki í enska og einhverja þætti. Svo var dagurinn var allt í einu liðinn. Fór upp í fyrir klukkan tíu. Réð smá sudoku og las svo í smá stund.

13.3.22

Sunnudagur

Ég var vöknuð fyrir klukkan átta í gærmorgun en kom mér ekki fram úr fyrr en korter yfir. Eftir morgunverkin á baðherberginu "skrapp" ég í netheima í rúma klukkustund. Upp úr klukkan hálftíu tók ég til sunddótið. Skrapp fyrst á AO við Bústaðaveg og fyllti á bílinn en var komin í sund um tíu. Fimm mínútur í kalda pottinum, tíu mínútur í sjópottinum og svo synti ég 500 metra. Þar af 200 metra á bakinu. Var komin heim aftur um hálftólf. Setti handklæði í þvottavél og hellti svo upp á könnuna. Horfði á einn og hálfan leik í enska, og báða bikarleikina í handbolta og einnig þrjá þætti úr sarpinum. Fitjaði upp á nýrri tusku og þegar ég var komin upp í um ellefu byrjaði ég á skammtímalánsbókinni; Úti eftir Ragnar Jónasson.

12.3.22

Aftur í sjóinn

Þrátt fyrir að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun mældi síminn tæp fimmþúsund skref í gær. Annars var ég aftur á ítroðsluendanum fram að kaffi, á móttökuendanum fram að hádegi og enn og aftur á ítroðsluendanum eftir hádegi til klukkan þrjú. Þessi uppstilling endaði svona vegna þess að ein af okkur fjórum tók styttingu vinnuvikunnar og var farin inn í helgina um hádegið. Framleiðsla gekk annars afar vel og erum við loksins byrjaðar á síðustu endurnýjuninni. Gátum reyndar ekki lokið framleiðslu á einni endurnýjun vegna hráefnisskorts. Vonandi kemur það hráefni fljótlega því kortin sem á eftir að framleiða eiga taka við af kortum sem renna út næstu mánaðamót. Eftir vinnu fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Var komin í 2°C sjóinn rúmlega hálffjögur og þrátt fyrir að hafa ekki farið í tvo mánuði var ég tæpar níu mínútur út í og svo annað eins í heita pottinum. Eftir hressandi sjóferðina fór ég í Krónuna við Fiskislóð og verslaði inn. Ákvað að kaupa súsíbakka handa okkur mæðginum í matinn. Strákarnir voru ekkert smá glaðir. Oddur kom út að hjálpa mér inn með vörurnar og gekk frá þeim líka. Ég slapp semsagt mjög létt frá allri eldamennsku í gærkvöldi. 

11.3.22

Hraðferð á tímanum

Ég labbaði aðeins aðra leið til vinnu í gær, út götuna, Reykjahlíð og yfir Miklubraut á gönguljósunum. Eftir það fór ég í "fótsporin" mín frá því í fyrradag, undir brúna við Snorrabraut/Bústaðaveg, upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg og Inólfsstræti. Ég fór á ítroðsluendann á vélinni fram að kaffi og á móttökuendann eftir kaffi og flokkaði kennispjöld eftir kaffi. Hættum vinnu stuttu fyrir fjögur og fékk ég far heim. Það var meiningin að skreppa svo í sund en það endaði með því að ég ílengdist heima. Horfði m.a. á brot úr kvennaundanúrslitunum í handboltanum. Bæði lið Vals eru komin í úrslit og það verður nóg að gera hjá aðstoðaþjálfara liðanna, Óskari Bjarna Óskarssyni á úrslitadaginn.

10.3.22

Vinnufundur

Labbaði í vinnuna í gærmorgun en sleppti því að þvera Klambratúnið. Sums staðar varð ég þó að fara extra varlega. Var rúmum þremur mínútum lengur á leiðinni heldur en á mánudagsmorguninn og var þetta þó ekkert lengri leið sem ég fór. Vorum fjórar af fimm í vinnu. Ég byrjaði frammi í að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Lukum við daglega framleiðslu suttu fyrir tólf. Eftir hádegi og til ca korter í tvö var ég á móttökuendanum á vélinni. Þá gengum við frá en "afhentum" sérfræðingunum vélina í testframleiðslu. Sjálfar fórum við yfir í K2 og fékk ég far með einni þangað. Hittum tilvonandi næsta yfirmann og aðra til frá Seðlaverinu í fundarherberginu Hamar. Annar sérfræðingurinn mætti á svæðið klukkutíma síðar. Vorum að fara yfir skrefin okkar í daglegri framleiðslu og velta upp í leiðinni hvort hægt væri að einfalda einhverja þætti og hvernig eða hvaða verkfæri þyrfti til þess. Þegar þessum vinnufundi var slitið rétt fyrir fimm átti alveg eftir að fara yfir bókhaldið og nokkra aðra þætti svo það verður boðaður nýr fundur. Fékk far heim og fór ekkert út aftur. Fylgdist aðeins með bikarundanúrslita leikjunum í handbolta karla. Horfði ekki á nema brot af leikjunum en þó stærra brot úr fyrri leiknum þar sem Valsstrákarnir tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum komandi helgi með því að vinna FH. 

9.3.22

Vikan hálfnuð

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun og hafði sunddótið með mér í skottinu. Ég var í bókhaldinu í gær og kom því ekkert að framleiðslu. Vorum bara þrjár áfram og því nóg að gera frammi í pökkun líka. Flokkaði einnig kennispjöld. Hættum vinnu um hálffjögur og þá fór ég beinustu leið í sund. Byrjaði á því að sitja í fimm mínútur í kalda pottinum áður en ég synti í rúmt korter, 400 metra. Var svo í minni annarri ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkonan kom í sína þriðju eða fjórðu ferð. Hún kom víst á svæðið á svipuðum tíma og ég en var sennilega í gufunni þegar ég var í fyrstu ferðinni. Fórum tvær ferðir í viðbót í kalda, sátum góða stund í gufunni á eftir og enduðum í sjópottinum eftir að hafa tekið sturtu. Þar hitti systir hennar okkur. Ég kom heim upp úr klukkan hálfsex. Davíð Steinn sá um kvöldmatinn svo ég gat bara slakað á fyrir framan imbann á meðan og á eftir.

8.3.22

Þrjár í vinnu, tvær lasnar

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Labbaði af stað í vinnuna um sjö. Ég var á móttökuendanum og hélt mig þar. Daglegum verkefnum lauk um tólf. Framleiddum rúmlega áttahundruð kort og kláruðum alveg eina af endurnýjununum. Hættum vinnu rétt fyrir þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Um hálffimm skrapp ég og skilaði tveimur bókum af þremur á safnið. Tók þrjár bækur í staðinn. Það er komið nýtt sjálfsafgreiðslukerfi en eftir sem áður er hægt að senda útlánin til sín í tölvupósti. Kom svo við í fiskbúðinni áður en ég fór heim aftur. Annar sonurinn var búinn að panta sér pizzu en hann var að keppa í einhverjum tölvuleik og vissi ekki hvenær hann yrði laus. 

7.3.22

Ný vinnuvika

Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Rúmum klukkutíma síðar bankaði ég á herbergisdyrnar hjá Davíð Steini og spurði hvort hann ætlaði ekki að mæta til vinnu og vera mættur um hálftíu. Hann kom fram skömmu síðar og við hjálpuðumst að við að sópa af bílnum áður en við lögðum í hann. Hleypti honum út hjá vinnunni sinni á slaginu hálftíu og fór svo beint í sund. Það endaði þó með því að ég synti ekkert. fór tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í sjópottinn, einu sinni í gufuna og sat á stól í fimm mínútur áður en ég fór upp úr og heim rétt fyrir tólf. Í seinni ferðinni í sjópottinum hitti ég yngstu mágkonu mömmu heitinnar og spjölluðum við í góða stund. Heima byrjaði ég á því að hlusta á hádegisfréttir og horfa á einn þátt áður en ég hellti upp á fyrstu kaffibolla dagsins. Það voru þrír bollar af sterku kaffi en ég hellti ekki aftur upp á. Lauk við afgangatuskuna og fitjaði upp á nýrri. Hringdi í pabba en hann og Bríet eru búin að ná sér í pestina, C-19 náði að klukka þau. Eins er ein samstarfskona mín með þetta. Vonandi munu þau ná sér fljótt og vel. Þetta er örugglega bara spurning um hvenær eða ekki hvort maður verði klukkaður nema maður verði einn af undantekningunum. 

6.3.22

Sunnudagur

Var komin á fætur um hálfsjö. Klukkutíma síðar hleypti ég Davíð Steini út við N1 við Gagnveg og þáði kaffi í lokuðu máli út í bíl áður en ég fór í Laugardalinn. Byrjaði á kalda, synti 400 fór aftur í kalda og smá stund í gufu. Var mætt á vinnustað á slaginu níu, önnur af þremur. Sú þriðja kom skömmu síðar og þá gat framleiðsla hafist. Tókum smá pásu um hálfellefu. Ég var í bókhaldinu og pökkun fyrsta "hringinn" af þremur á meðan hinar tvær framleiddu það sem átti að framleiða 2. mars sl. Yfirmaður okkar færði okkur mat um hádegið. Ég var á ítroðsluendanum þegar næsti hringur, 3. mars var framleiddur. Hinar tvær voru eitthvað að spá í hvort við ættum að mæta aftur í vinnu í dag en ég vildi klára og fór á móttökuendann þegar 4. mars var framleiddur. Síðan var allt talið áður en gengið var frá. Klukkan var líka um hálfsjö þegar ég kom heim. Ég er fegin að við kláruðum þessa törn í gær og eiga frí í dag. Á mánudaginn er allt tilbúið fyrir fyrstu tvö daglegu verkefnin, voru hlaðin inn í gærmorgun og talið í tegundirnar um leið og við vorum að telja vagnana.

5.3.22

Vinnutörn

Ég var komin á fætur upp úr klukkan hálfátta. Eftir morgunverkin á baðherberginu setti ég handklæði og brækur í þvott og braut saman og tók með mér þvott Davíðs Steins upp úr þvottahúsinu. Svo vafraði ég um á netinu til klukkan tíu. Um það leyti sem ég var nýbúin að hengja upp þvottinn hringdi fyrirliðinn í mig og sagði að von væri á varahlutnum um hádegið og ég gæti mætt um eitt í vinnuna. Fram að þeim tíma var ég að lesa í bókinni; Hnífurinn eftir Jo Nesbö. Fór á bílnum um hálfeitt og varð að leggja honum á sama stæði og tveimur dögum fyrr. Passaði mig núna að borga bara til rúmlega fjögur en ekki einn sólarhring og sex tíma. Það munaði 800 kr. Varahluturinn kom ekki fyrr en rúmlega eitt og þá átti eftir að setja hann í vélina og keyra hana upp. Flokkaði kennispjöld þar til viðgerðarmaðurinn sagði "go" um tvö. Ég fór á móttökuendann að taka á móti framleiðslunni sem átti að framleiða þann 1. mars. Vorum rúmlega hálfnaðar með þann dag þegar tvær af okkur þremur þurftum að skreppa frá rétt fyrir fjögur. Fyrirliðinn til að sækja son sinn í vinnuna og skutla á æfingu og ég í viðhaldsklippingu. Ég kom til baka rúmlega hálffimm. Fengum okkur smá kaffi og fylltum á vatnsflöskurnar áður en við héldum áfram það sem frá var horfið. Þegar við vorum búnar að klára framleiðslu frá 1. var klukkan að verða sex og þá urðum við að hætta þar sem ein af okkur þremur átti von á gestum. En við ætlum að mæta aftur um níu í dag og klára framleiðslu frá 2.-4. mars og jafnvel það sem var sent á vélina klukkan hálfsjö og níu í gærkvöldi. Það verður örugglega amk átta tíma törn.

4.3.22

Föstudagur

Fór á fætur um átta í gærmorgun. Framan af degi var ég að væflast í netheimum, prjóna og lesa. Hellti mér ekki upp á kaffi fyrr en á tólfta tímanum. Oddur Smári kom fram um hálftvö og klukkutíma síðar skrapp hann í sorpuferð. Þegar hann kom til baka fór ég loksins í sund. Var mætt í Laugardalinn á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Við fórum tvær ferðir í kalda en svo synti ég 500 metra en hún hitti aðra vinkonu sína í sjópottinum. Eftir sundsprettinn hittumst við aftur þrjár ferðir í kalda og tvær í þann heitasta. Hún endaði að heitasta pottinum á meðan ég fór í gott gufubað áður en ég fór upp úr og heim aftur. Strákarnir voru báðir heima og ég eldaði hakkpottrétt í kvöldmatinn. Horfði á kvöldfréttir og nokkra þætti áður en ég fór upp í rúm að lesa rétt fyrir tíu.

3.3.22

Engin vinna í dag

Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Þegar klukkan nálgaðist níu ákvað ég að ég færi ekki gangandi í vinnuna heldur á bílnum. Vissi að þar með yrði ég mjög líklega að borga í stöðumæli en held samt að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun. Um hálftíu tók ég með mér bakpokann, handtöskuna og sundpokann út í bíl. Tvennt það síðarnefnda setti ég í skottið. Bíllinn var við Drápuhlíð 1. Það var eins og mig grunaði, þau fáu stæði sem eru á neðra plani voru full og ég kunni ekki við að setja bílinn í eina stæðið sem merkt er RB. Lagði á gjaldstæði móts við bakaríið við Skúlagötu þannig að það var smá spölur að labba í vinnuna. Ekkert langt en hluta af leiðinni varð ég að fara extra varlega þar sem ég var ekki á gönguskónum með mannbroddunum. Sennilega hefði ég samt þurft að fara jafn varlega á þeim. Tvær aðrar voru mættar til vinnu þegar ég kom stuttu fyrir tíu. Sú fjórða var orðin lasin og sú fimmta er í fríi. Við byrjuðum á því að fá okkur kaffi og hlusta á erindi á TEAMS um svefn. Síðan hlóð ég inn fyrirliggjandi, daglegur verkefnum á framleiðsluvélina. Flokkaði kennispjöld í hálftíma. Fékk mér súpu í hádeginu og aðeins meira kaffi og svo máttum við fara og það með þeim skilaboðum að við þyrftum ekki að mæta í vinnu næsta dag. Ein af okkur þremur ætlaði samt að mæta til að hlaða inn verkefnunum sem safnast upp og sinna reikningagerðinni og mánaðamótauppgjörinu.

Fór beinustu leið í Laugardalinn og byrjaði á því að synda 500 metra, 350 af þeim á bakinu. Fór tvisvar sinnum 5 mínútur í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og endaði á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Fljótlega eftir að ég kom heim kom N1 sonurinn fram. Hann er í vaktafríi til föstudags. Ég spurði hann hvort hann ætlaði að setja í vél og hann játti því og fór fljótlega niður. Þegar hann kom upp úr aftur sagði hann að einhver væri búinn að setja þvott í vélina en hún hefði ekki farið af stað þar sem ekki var skrúfað frá krananum. Hann hélt að ég ætti þennan þvott sem var ekki. Ég hafði spurt hann hvort hann ætlaði að þvo og ætlaði niður með þvott ef hann hefði sagt nei. Líklegast hafa leigendur risíbúðar ruglast á vél. Þessu var kippt í liðinn og Davíð Steinn gat því þvegið af sér þrátt fyrir allt. 

2.3.22

Allt í steik

Göngufærið í vinnuna í gærmorgun var alveg sæmilegt. Þurfti að passa mig á einum stað á Klambratúninu en annars sóttist ganga ágætlega. Langbest að hafa mannbroddana bara undir skónum áfram. Nú brá svo við að framleiðsluvélin vildi ekki vinna vinnuna sína, fór í verkfall. Kalla varð út viðgerðarmann en allt kom fyrir ekki. Sennilega er farinn varahlutur sem þarf að panta að utan. Vorum á staðnum til fimm, flestar af okkur fjórum. Þá fékk ég far heim með einni en ein tók að sér að sitja áfram yfir á meðan viðgerðarmaður lauk við að bilanagreina. Upp úr klukkan sex bauð ég Oddi að koma með mér í IKEA og fá okkur saltkjöt og baunir. Röðin var löng en nóg til og það sem meira var að við fundum strax borð til að borða við. Eftir átið passaði það svo vel að ná í Davíð Stein úr vinnunni, hann var búinn um átta. Gleymdi því annan daginn í röð að hringja í norsku esperantovinkonu mína. Fyrirliðinn hringdi í mig fljótlega eftir að ég kom heim til að segja að mæting í vinnu væri ekki fyrr en klukkan tíu. Ekkert hægt að gera nema, hlaða inn skrám og flokka kennispjöld. Jú svo er reyndar hægt að punkta niður ýmislegt sem tengist tilvonandi flutningum. Svo frétti ég það að æskuvinkona mín og maður hennar eru komin með veiruna. Vonandi fara þau ekki illa út úr henni. Líklega er þetta nú ekki spurning um hvort heldur hvenær veira hittir mann fyrir. 

1.3.22

Tveir af tólf búnir

Vaknaði rúmlega sex. Labbaði af stað í vinnuna um sjö. Gönguleiðin var að mestu greið, smá torfærur á einum stað á Klamratúninu. Seinni hluta göngunnar var smá hagl að "ráðast" á augun mín. Vorum þrjár í vinnu, tvær í fríi. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Límið til að líma kortin á formin var ekki komið svo enn einn daginn þurftum við að handlíma. Daglegri framleiðslu lauk um tólf og þá mættu þeir sem sjá um reglulegt viðhald á vélinni. Tvær af okkur hættu vinnu rúmlega tvö og fékk ég far með hinni heim. Sú þriðja tók að sér að sitja yfir yfirferðarmönnunum til fjögur. Ég var ekkert að fara neitt að heiman aftur. Hringdi í pabba, vafraði um á netinu, prjónaði og horfði á nokkra þætti. Steingleymdi hins vegar að hafa samband við norsku vinkonu mína eins og ég var búin að lofa um helgina.