- Mánuföstudagur -
Ég er alveg á því að mér finnist ekki vera föstudagur fyrr en einhvern tímann eftir hádegi í dag. Það er svo sem allt í lagi, amk á meðan ég mæti ekki óvart til vinnu á morgun haldandi það að það sé þriðjudagur.
Gærdagurinn var bara rólegur hjá mér. Hellti upp á könnuna um níu og klukkutíma síðar
fór Davíð í vinnuna og ég sá hann ekki aftur fyrr en um hálfníu um kvöldið. Ég skrapp til norsku vinkonu minnar og lásum við saman esperanto í einn og hálfan tíma. Þegar ég kom heim var
Dagur, vinur strákanna kominn en
Oddur Smári var farinn til einnar bekkjarsystur sinnar. Hann fór svo með henni í Fjölskyldu og húsdýragarðinn og var þar fram eftir degi. Ég spurði
Davíð Stein hvort þeir félagarnir vildu ekki kíkja líka og þegar
Dagur hafði fengið leyfi skutlaði ég þeim. Okkur kom saman um að ég myndi sækja þá um þrjú nema þeir myndu hringja áður. Það var einmitt það sem gerðist,
Davíð Steinn hringdi um hálfþrjú og bað um að þeir yrðu sóttir. Tveim tímum seinna skutlaði ég þeim á frjálsíþróttaæfingu.
Oddur Smári hafði ákveðið að sleppa æfingunni. Hann hitti frændur sína í húsdýragarðinum og slóst í för með þeim.
Ég var heima að mestu og saumaði næstum út í eitt enda er ég næstum búin með
Kossinn. Ég á bara eftir að sauma það hvíta í hvora höku og svo merkja mér myndina. Hvort er það þá
Blái Engillinn eða
þessi næst og svo á ég fullt af ósaumuðum jólakortum líka og þar eru flest munstrin það flott að ég mun sauma þau aftur og aftur og aftur...