31.12.06

- Lokadagur 2006 -

Mér
finnst alls ekki svo langt síðan þetta ár byrjaði. Og nú er það senn á enda. Við erum búin að hafa það gott yfir hátíðarnar. Ég skildi feðgana eftir heima um fimm á aðfangadag og fór í kirkju. Það var mjög notaleg stund og allt gekk vel. Ég kom heim rétt fyrir sjö og þá hafði eitthvað klikkað í sambandi við kartöflurnar þannig að klukkan var eitthvað um átta þegar við settumst niður. Seinna um kvöldið fréttum við að kartöflurnar hefðu klikkað á fleiri stöðum og valdið seinkun, bæði hjá foreldrum Davíðs og yngsta bróður hans. Ég var búin að segja strákunum að þeir mættu vaka eins lengi og þeir vildu og að það mætti ekki fara í tölvur daginn eftir fyrr en klukkan væri örugglega orðin tíu.

Um hálftíu á aðfangadagskvöld vorum við öll komin inn í stofu. Strákarnir sáu um að lesa á og dreifa pökkunum. Við urðum stundum að bremsa þá af svo þetta gengi ekki of fljótt fyrir sig. Tæpum tveimur tímum seinna var búið að opna alla pakka fyrir utan einn stóran sem Davíð átti. Um miðnætti varð Oddi Smára litið á klukkuna. Hann hnippti í bróður sinn og sagði: -"Davíð, klukkan er orðin tólf við verðum að fara að hátta og sofa!" Ekkert löngu seinna komum við hjónin okkur fyrir uppi í rúmi með öll jólakortin, opnuðum þau og lásum saman.

Á jóladag mætti ég upp í kirkju um eitt og var næst á eftir prestinum. Messan klukkutíma seinna fór vel fram. Petra formaður kvenfélagsins var ræðumaður og fórst henni það vel úr hendi. Tommi og Hugborg komu til okkar um kvöldið. Þau lögðu til kalda hlutann af hangiketinu á meðan við buðum upp á okkar heitt. Kvöldið varð notalegt, letilegt og skemmtilegt.

Á annan í jólum fórum við fjölskyldan í fjölskyldumessu í Hallgrímskirkju. Davíð Steinn söng með drengjakórnum við messuna, það var skírður hálf norskur og hálf íslenskur drengur (Tindur) og önnur dóttir kórstjórans söng einsöng hluta af messunni.

Davíð var í fríi á milli jóla og nýjars. Hann þurfti aðeins að fara með bílinn í skoðun og reyndar að mæta á einn fund. Annars fór vel um feðgana hér heima og var mikið spilað í tölvunni.

Í gær skruppum við til tengdó á Bakkann. Tommi, Hugborg, Teddi og Skotta komu líka. Við stoppuðum frameftir öllu.

Það er aftansöngur klukkan sex og svo ætlum við að hittast hjá Tomma og borða saman. Á morgun skreppum við svo á Hellu og þar fá strákarnir að vera fram á miðvikudag.

Takk fyrir allar heimsóknir og athugasemdir á árinu sem er að líða. Ég vona að framundan sé skemmtilegt og gefandi nýtt ár fyrir alla. Umfram allt; Farið vel með ykkur! "Sjáumst hress og kát á nýju ári!"

24.12.06

- Gleðileg jól -

Það eru um það bil átta tíma þar til klukkurnar syngja. Þá verð ég stödd í kirkju óháða safnaðarins. Mér hefur ekki tekist að sannfæra feðgana um að koma í kirkju þannig að þeir verða heima og leggja loka hönd á undirbúninginn. Kannski tekst mér að fá þá í kirkju á morgun. Ég mun amk mæta þegar Davíð Steinn syngur með drengjakórnum í Hallgrímskirkju á annan í jólum.

Á fimmtudagskvöldið var keyptum við Davíð síðustu jólagjafirnar og vorum að pakka inn langt fram eftir. Ég til þrjú og hann til hálffimm. Helga systir og Bríet komu um hálffimm á föstudag með pakkana til okkar og þegar þær fóru tóku þær pakkana til þeirra og pabba og mömmu. Seinna um kvöldið komu tengdó að skila af sér og eftir kaffibolla og skemmtilega stund tóku þau sína pakka með sér til baka.

Í gær átti eftir að keyra út örfáa pakka og nokkur jólakort. Við byrjuðum samt á því að taka til hér heima. Strákarnir skiptu um á rúmunum hjá sér, ég ætla að skipta um á okkar rúmi á eftir. Seint í gærkvöldi eldaði ég jólagrautinn. Festist nefnilega yfir "Sleepless in Seattle" og "Instinct".

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Óska lesendum mínum gleðilegra og friðsamra jóla. Hafið það sem allra best.

19.12.06

- Hugskeyti? -

Ég stóð mig að því að hugsa til Blóðbankans í gær enda um fjórir mánuðir síðan ég gaf síðast. Nokkru eftir að ég var að hugsa þetta barst mér sms sem var akkúrat frá umræddum banka. Og ekki nóg með það heldur fékk ég líka tölvupóst frá blóðbankanum. Ég ákvað því að fara og leggja inn seinni partinn í gær. Ég notaði tækifærið og spurði hversu mikið mætti vanta upp á fulla fjóra mánuði og fékk svarið vika til tíu dagar. Þannig að ég er búin að reikna það út að ég get gefið 20. gjöfina mína á fertugsafmælisdaginn minn, þann 17. mars 2008 og ég ætla mér að stefna að því markmiði. Annars var mjög létt yfir mér í blóðgjöfinni. Bað um að það yrði frekar tekið úr vinstri handlegg þar sem ég ætlaði að skrifa jólakortin um kvöldið. Sú vinstri er reyndar mun betri en eitthvað var streymið letilegt í gær og var ég beðin um að pumpa og pumpa. Ég var orðin svo pumpuþreytt í restina að ég spurði hvort ég mætti ekki pumba með hinni... he, he!

18.12.06

- Laufabrauð -

Davíð skrapp á skrifstofuna milli klukkan tíu og eitt í gær. Þegar hann kom aftur fórum við öll fjögur til frænku minnar. Mamma hennar, bróðir og mágkona voru þegar mætt. Tvíburarnir og yngri sonur frænku minnar settust gallvaskir við skurðarbrettin og skáru út mismargar áður en þeir gáfust upp og fóru frekar í tölvuleiki. Við fullorðna fólkið skárum áfram af kappi. Þegar við vorum langt komin fóru tveir af mömmunum (minn og frænku minnar) til við að steikja og pressa. Þegar upp var staðið voru 100 stykki laufabrauð í þremur myndarlegum bunkum og á þeim hin margvíslegustu mynstur. Þetta var hin besta skemmtun.

17.12.06

- Árlegt jólaglögg "óþæga kórsins" -

Á föstudagskvöldið var, hittist óháði kórinn allur heima hjá einni úr kórnum. Einnig komu Pétur Máté (kórstjórinn sem er í leyfi), séra Pétur og örfáir makar. Núverandi kórstjóri fékk far með okkur Davíð. Þegar við vorum að koma á staðinn fékk ég símtal frá tvíburahálfsystur minni. "Hvað er hún að hringja í mig núna þegar ég er að fara í kórpartý...? hugsaði ég með mér en hló svo með sjálfri mér því hún var auðvitað að fara í sama teiti og var að leita að götunni.

Fljótlega eftir að allir voru mættir stóð Kristinn Þorsteins upp, setti upp gleraugun, tók upp nokkur blöð úr jakkavasanum og las okkur pistilinn. Hann klikkaði ekki frekar en venjulega og af og til komu einhverjir með smá innskot sem hittu alveg í mark. Hann byrjaði að lesa nokkra fimmaura brandara og ég bara verð að láta tvo af þeim flakka hér:

Kona nokkur hitti lækni og kvartaði undan því að hún ætti svo erfitt með svefn.
-"Hefurðu prófað að liggja á bakinu"?
-"Þá kemur Kalli".
-"En geturðu legið á hliðinni"?
-"Þá kemur Kalli líka".
-"Hmm, hvernig væri þá að sofa á maganum"?
-"Það er greinilegt að þú þekkir ekki hann Kalla minn..."

Gamall maður sem hafði búið alla sína ævi á eyju einni í Breiðafirði og lifað af því sem land og sjór gaf var kominn í land og á elliheimili. Honum fannst ekkert varið í matinn og kvartaði oft. Dag einn kemur ein vinnustúlkan til hans og segir að hann fái nú gott að borða í kvöld.
-"Hvað verður í matinn"?
-"Snitsel"!
-"Hann hef ég aldrei smakkað en ég hef borðað bæði landsel og útsel..."

Eftir pistilinn leið ekki á löngu uns Adda settist við píanóið og sagði: -"Þetta virkar svona; þið segið mér hvað þið ætlið að syngja og ég spila undir." Það var nánast sama hvaða lag var nefnt allt gat hún spilað. Kvöldið leið hratt enda held ég að allir hafi skemmt sér hið besta. A.m.k. skemmti ég mér afar vel.

14.12.06

- Lítið eftir af 2006 -

Það eru aðeins sextán dagar eftir af þessu ári. Og mér sem finnst það nýbyrjað. Ég er furðulega róleg yfir hlutunum, finnst enn eins og það sé nægur tími til alls sem mig langar til að ljúka fyrir jólin. Ég er aðeins byrjuð að kaupa jólagjafir og spá í hvað hægt sé að gefa hinum sem ég er ekki búin að finna jólagjöf fyrir. Ég á enn eftir að setjast niður við kortaskriftir en ef ég skrifa nú 15-20 kort á dag á næstunni tekur það mig bara 3-5 daga eða svo. Ég hefði reyndar átt að vera búin að skrifa á jólakortin sem ég sendi út fyrir landsteinana, en það verður bara að hafa það þótt þó berist kannski ekki fyrr en milli jóla og nýjárs.

Oddur Smári er næstum því þegjandi hás. Hann fór samt í skólann í dag en treysti sér ekki til að mæta í síðasta frjálsíþróttatímann fyrir jól. Ég skutlaðist hins vegar með Davíð Stein og Dag. Síðan skrapp ég í fiskbúð og Pennann að kaupa lax og umslög. Kannski byrja ég á kortaskrifum í kvöld en ekki fyrr en ég hef lokið við að þýða bréf fyrir pabba. Það er eitt af því sem ég lít á sem undirbúning fyrir jólin. Ég er búin að gera þetta í svo mörg ár að ég myndi sakna þess ef þetta væri ekki gert einhverra hluta vegna fyrir einhver jólin...

12.12.06

- Þeytingur -

Í gær var árlegt boð hjá kórstjóra drengjakórsins. Strákarnir mættu til hans um fimm. Ég fékk Odd Smára til að labba á karateæfingu en skutlaði Davíð Steini til kórstjórans. Síðan dreif ég mig í Þórshamar til að sjá hvernig karatestrákurinn tæki sig út með rauða beltið. Ég gat ekki stoppað lengi því ég hafði tekið að mér að sjá til þess að söngfuglarnir fengju pizzur og gos um sex. Ég stoppaði smá stund til að aðstoða við að hella í glös en svo varð ég að drífa mig að sækja Odd Smára. Síðan fórum við saman að sækja Davíð Stein. Seinni partur gærdagsins var semsagt svona jó-jó-dæmi.

Kom heim um tvö í dag og lagði mig (enda fór ég frekar snemma á fætur). Rúmlega fjögur skutlaði ég "þríburunum" (Oddi Smára, Davíð Steini og Degi) á frjálsíþróttaæfingu. Skrapp svo og hitti norsku esperanto vinkonu mína og sýndi henni það sem afi gaf mér. Það á eftir að koma að góðum notum. Hún vildi endilega gefa mér úr sem hún sagðist ekki geta notað, þetta væri svona esperanto gjöf. Vá, það er langt síðan ég hef gengið með úr. Ég þakkaði auðvitað fyrir mig er núna tíðlitið á vinstri úlnliðinn á mér. En þegar ég ætlaði að gá að tímanum nokkru seinna tók ég upp gemsann og athugaði hvað klukkan á honum sagði.

Mamma kom við áðan með myndirnar sem voru teknar af strákunum. Þetta voru þrjár myndir, hver annarri betri. Ég var samt nokkuð fljót að ákveða hvaða mynd skyldi fjölfölduð fyrir jólakortin. Já, ég er enn ekki byrjuð að skrifa jólakortin, bara tilbúin með tvö jólabréf sem fara hvort með sínu kortinu. Skrapp í gærkvöld til "tvíburahálfsystur" minnar bæði með nótur og saumana mína. Þetta varð hið notalegasta kvöld og við uppgötvuðum að við myndum hittast annað hvert kvöld í vikunni. Meira um það seinna.

9.12.06

- Hótel Rangá -

Tommi mágur sótti tvíburana til mín um sex í gær. Um svipað leyti lögðum við hjónin af stað austur. Leiðin lá alla leið austur að Hótel Rangá. Vinna mannsins míns bauð starfsmönnum og mökum þangað í jólahlaðborð og gistingu með morgunverði innifalinn. Við vorum komin austur um hálfátta. Klukkustund síðar voru allir komnir og hófst þá hin mesta veisla. Hlaðborðið var fullt af alls konar kræsingum, mörgum tegundum og vel útilátnum. Ég komst fimm ferðir (passaði mig að taka ekki of mikið í hvert sinn og síðasta ferðin var í eftirréttina) en þá var ég líka svo pakksödd að mig langaði helst til að fara inn á herbergi að sofa. Ég lét það samt ekki eftir mér fyrr en klukkan var farin að halla í miðnætti. Davíð skrallaði eitthvað áfram og ég náði að horfa á eina mynd á Stöð tvö áður en hann kom.

Í morgun fór ég í nudd-bombubað um níu og slakaði virkilega vel á. Við mættum í morgunverðinn um níu og vorum mjög ánægð með hve fjölbreyttur hann var. Komum í bæinn upp úr hádeginu og okkar fyrsta verk var að skutla Davíð Steini í afmælisboð til eins bekkjarbróður síns. Oddur Smári fékk að vera lengur hjá frænda sínum og kom ekki heim fyrr en um tvö.

8.12.06

- Kjötbollur -

Ég leyfði Davíð Steini að sleppa við að mæta á frjálsíþróttaæfingu en skutlaðist með Odd og Dag. Skrapp heim í millitíðinni og velti vöngum yfir því hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn. Hafði tekið út hakkrúllu og var hreint ekki viss hvernig ég ætti að meðhöndla hana. Ákvað því bara að lesa þar til kominn væri tími til að sækja Odd. Við mæðgin komum heim um sex og þá ákvað ég að demba mér út í kjötbollugerð. Það er orðið frekar langt síðan ég gerði kjötbollur síðast og núna átti ég ekki alveg allt til alls. En ég átti nóg og þegar til kom urðu þetta hinar bestu bollur sem strákarnir átu með góðri lyst.

7.12.06

- Verkefni drengjakórsins v/Frostrósa lokið -

Það voru langir og strangir dagar hjá strákunum í drengjakór Reykjavíkur í gær og fyrradag. Davíð Steinn fékk frí úr skólanum á hádegi á mánudag. Hann bjargaði sér sjálfur og mætti á réttum tíma á æfingu í Ýmishúsinu. Eftir æfinguna fór hann beint í afmælisboð til eins bekkjarbróður síns. Ég tók mér frí úr vinnunni á þriðjudaginn og í gær. Um tíuleytið á þriðjudagsmorgun kíktum við í vinnuna hans afa. Hann hafði sett sig í samband við mig og bauð mér að sækja til sín esperanto-orðabækur sem ég þáði með þökkum. Við fengum leiðsögn um vinnustað afa og höfðum við mjög gaman að. Takk, enn og aftur afi!

Um hálftólf var ég mætt í Laugardalshöllina með drenginn. Staldraði við í næstum hálftíma en skrapp svo frá. Var komin aftur um hálftvö að sækja strákinn en æfingunni seinkaði aðeins og lauk ekki fyrr en rúmlega tvö. Skrapp með strákinn á Hárhornið í klippingu en svo fórum við heim og höfðum það rólegt. Þegar Oddur Smári kom úr skólanum sagði ég að frjálsíþróttirnar myndu örugglega falla niður þar sem búið var að stilla upp fyrir tónleikana í salnum þar sem æfingin fer fram. Oddur fór því yfir til vinar síns. Ég sá til þess að söngfuglinn mætti ekki svangur á alvöruna seinnipartinn. Skilaði honum af mér rúmlega fimm og var hann í höllinni næstu sex tímana. Það var þreyttur drengur sem sofnaði strax og hann lagðist útaf upp úr klukkan hálftólf þetta kvöld.

Í gærmorgun rumskaði Davíð Steinn um níu, opnaði pakkann við númer 6 á klukkustrengnum, skrapp á salernið og kom svo upp í til mín. Hann steinsofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en tveimur tímum seinna. Að þessu sinni átti hann að mæta um hálfeitt í Hallgrímskirkju. Ég var á svæðinu til að byrja með en skrapp svo í bankann og á bókasafnið (einni bókanna sem ég náði í síðast átti að skila fyrir 9. des.). Oddur og Dagur vinur hans komu saman heim úr skólanum um tvöleytið. Ég bauð Degi að leika sér í tölvunni og bíða eftir okkur og fékk Odd með mér í Hárlausnir. Strákurinn komst strax að. Þegar við komum til baka var pabbi kominn. Ég var búin að bjóða honum á sjónvarpstónleikana og biðja hann um að kippa mér með upp í kirkju. Við mættum þangað fyrir fjögur, og hittum eina vinkonu mína sem ég var líka búin að bjóða, en upptökutónleikarnir áttu að hefjast um hálffimm. Klukkan var reyndar farin að ganga sex þegar allt fór í gang. Rétt áður söng karlakórinn eitt lag því þeir voru búnir að bíða uppi á pöllunum í rúmar tuttugu mínútur. Það er ekki oft sem maður fær aukalagið á undan. Næstu tvo tímana fengum við magnaða tónleika. Tvö laganna þurfti að endurtaka aftur vegna mistaka hjá söngfólkinu en strákarnir klikkuðu aldrei.

Á meðan þessu fór fram tók Oddur Smári gráðu upp í hálft rautt belti og gerði það með glans. Eftir tónleikana fór ég næstum beint á kóræfingu (kom við heima til að skipta um föt og kippa með mér kórmöppunni (tók reyndar vitlausan poka með mér en það kom ekki að sök)). Um leið og ég var laus af kóræfingu fór ég upp í kirkju. Strákarnir voru samt ekki búnir fyrr en um hálfellefu. Minn var alveg búinn á því, hafði þurft að berjast við að hósta ekki síðustu mínúturnar og þegar allt var búið barst hann í grát. En strákarnir eiga hrós og rós í hnappagatið skilið fyrir frammistöðu sína undan farna daga.

3.12.06

- Desember kominn á skrið -

Fyrsta jólakortið er komið inn um lúguna og setti ég það beint í jólapóstpokann. Það borgaði sig að setja hann upp snemma. Sjálf er ég ekki farin að skrifa á nein kort. Er að velta fyrir mér hvernig mynd af strákunum ég eigi að senda með í ár.

Törnin er byrjuð hjá Davíð Steini. Ég keyrði hann í Langholtskirkju seinni partinn í gær þar sem hann tók þátt í útgáfu tónleikum Björgu Þórhallsdóttur, ásamt flestum strákunum úr kórnum og fleira fólki sem kemur að diskinum. Hann var mættur um hálffjögur og þegar ég sótti hann upp úr hálfsex voru strákarnir að syngja síðasta lagið fyrir hlé.

Á meðan strákurinn var í kirkjunni skrapp ég að heilsa upp á konu sem ég vann með í Árbæjarskóla fyrir 14-15 árum síðan. Hún var ekki heima við. Maðurinn hennar tjáði mér að hún væri á sjúkrahótelinu við Rauðarárstíg, tiltók herbergisnúmerið og bað mig fyrir kveðju til hennar. Það eru liðin ár og dagar (amk 2-3 ár) síðan ég heimsótti þessa konum en nú var eitthvað sem ýtti mér til hennar. Hún tók vel á móti mér, var þó steinhissa að sjá mig þar sem það er svona langt síðan. Við röbbuðum heilmikið saman og tíminn leið eins og örskot.

Þegar ég sótti Davíð Stein sagði ég honum frá heimsókninni. Og hann sagði: "Þú ert mjög góð mamma að heimsækja svona gamalt og veikt fólk!" Reyndar er hún Steinunn ekki beint veik heldur var verið að skipta um lið í öðru hnénu á henni.

Núna um tíu er Davíð Steinn svo að fara upp í Ýmishús á æfingu. Hann kemur ekki heim fyrr en upp úr hálftvö. Á morgun kemur hann heim úr skólanum á hádegi og mætir aftur á æfingu í Ýmishúsið milli hálftvö og fimm. Þaðan fer hann svo beint í afmælisboð.

Bóndinn sem ég var hjá í sveit fermingarsumarið mitt er sextugur í dag. Ég sendi honum svohljóðandi skeyti:

Til hamingju Óli með tugina sex
tókst að ná áfanga stórum.
Vonum þú náir næstu sex
nú allavega fjórum.

28.11.06

- Jólaklukkustrengurinn kominn upp -

Við strákarnir settum upp klukkustrenginn, þar sem þeir telja niður dagana til jóla, upp í gærkvöldi. Það eru tveir hringir við hverja tölu, alls 48 hringir og í hvern hring hengdum við upp "álpappírsfiðrildi" (band bundið um smá álpappír og svo fest í hringinn. Það verður bara gaman að hafa þetta fullt af "fiðrildum" til föstudags. Á fimmtudagskvöldið, eftir að strákarnir eru sofnaðir, mun ég svo taka niður "fiðrildin" úr hringjunum fyrir neðan 1 og setja smá pakka í staðinn. Hefðin hefur verið sú að þeir fái blöðrur í fyrsta pakkanum en ég veit ekki hvort ég bregð út af vananum í þetta sinn.

Ég setti líka upp jólapóstavasann í gærkvöldi. Það er kominn tími til að fara að skrifa á jólakortin í ár. Ég sendi kortin yfirleitt ekki fyrr en eftir 15, nema ég sé að senda þau út, en ég er oft búin að fá einhver jólakort eftir fyrstu vikuna í desember. Jamm, það eru jól handan við hornið.

27.11.06

- Þjóðlagamessa -

Í gær var þjóðlagamessa í Óháðu kirkjunni. Þá er mikið sungið og spilað undir á flygilinn en ekki orgelið. Messan tókst með ágætum en ég hef grun um að afleysingakórstjórinn hafi verið nett stressaður. Hún hafði aldrei spilað undir eða verið við svona messu áður. En hún var búin að æfa sig vel.

Seinni part dagsins skrapp ég til norsku esperanto vinkonu minnar og lásum við yfir þrjár æfingar og vorum ekki nema ca þrjú korter að því. Þetta er smám saman að koma hjá okkur. Sumt hefur festst ágætlega í minninu en það eru líka orð eða orðasambönd sem við erum alltaf að flétta upp. Tíminn er ekki mjög lengi að líða þegar maður er að grúska í þessu máli.

26.11.06

- Ferð á bókasafnið -

Davíð var farinn fyrir hádegi í gær, fyrst í ræktina og svo á skrifstofu Habilis. Þar var hann langt fram á kvöld. Ég leyfði tvíburunum að leika sér í tölvuleikjum næstum fram að hádegi. Þá fengum við okkur eitthvað og svo hjálpuðumst við að skipta um á öllum rúmum. Þeir tóku svo næstum allt dót af gólfinu inni hjá sér.

Um eitt skrapp ég á aðalsafnið með 18 bækur af 20 með mér. Ég var búin að lesa, eða glugga í allar þessar bækur. Eina af þeim, esperanto orðabókina, fékk ég lánaða strax aftur og skilafresturinn á þeim tveim bókum sem voru eftir hér heima var framlengdur um mánuð. Aðeins eina af öllum þessum bókum náði ég ekki takti við og lauk aldrei við að lesa hana; Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn. Kannski reyni ég að gera annað áhlaup seinna. Ég kom heim um tvö með 16 bækur fyrir utan orðabókina (svo nú er ég með samtals 19 bækur í láni næsta mánuðinn). Tvær af bókunum eru ætlaðar strákunum; Dagbók Berts og Frank og Jói finna fjársjóð. Ég byrjaði einmitt að lesa þá fyrrnefndu fyrir strákana í gærkvöldi.

Eina bókina, Heljarslóðarhatturinn eftir Richard Brautigan hef ég bara í hálfan mánuð og mér fannst við hæfi að byrja á henni þrátt fyrir að vera að lesa aðra af bókunum sem var hér heima (ég les nú stundum 2-3 bækur í einu). Það var eitthvað við þessa bók sem hélt mér fanginni alveg til enda. Hún er ekki nema 137 bls. og kaflarnir allir stuttir, sumir ekki nema hálf blaðsíða. Í raun voru þetta þrjár sögur í einni, mis fyrirferðamiklar. Gamanrithöfundur með enga kímnigáfu byrjar að skrifa sögu um hatt sem féll ofan af himnum. Hann er ekki ánægður með það sem hann skrifar, rífur blaðsíðuna og hendir henni í ruslið. Þar heldur saga hattsins áfram án vitundar rithöfundarins sem er í ástarsorg og veltir sér upp úr henni. Stöku sinnum víkur sögunni að japönsku konunni, sem bjó með honum í tvö ár, þar sem hún liggur sofandi heima hjá sér og dreymir drauma í takt við malið á kettinum sínum. Ég mæli með þessari bók, hún er fyndin og öðruvísi og hún hélt mér við efnið allan tímann.

25.11.06

- Kardimommubærinn II -

Við Oddur Smári mættum upp í skóla fyrir hálfsex til að ná borði. Hittum tengdó fyrir utan og þegar við komum inn í sal voru pabbi, mamma og Bríet þegar komin (Hulda var í afmælisboði) og sest við eitt borðið. Við settumst öll hjá þeim. Davíð kom rétt seinna með pizzur á hlaðborðið. Sýningin hófst korter fyrir sex. Davíð Steinn lék Tóbías í turninum og þegar hann söng veðurvísurnar hríslaðist léttur hrollur niður eftir bakinu á mér. Það skilar sér svo sannarlega kórþjálfunin. Annars stóðu krakkarnir sig öll mjög vel og var ég sérlega hrifin af frammistöðu bæjarstjórans í ljósi þess að drengurinn sem lék hann var sárlasinn. Sá sem lék Sörensen rakara söng líka mjög skýrt og fallega. Ósjálfrátt bar maður sýningarnar saman í huganum. Sumt var betra í þessari en sumt var líka betra í sýningu Odds bekkjar. En það er reyndar alveg eðlilegt. Aðalatriðið var að ég skemmti mér vel á þeim báðum og dáðist að hvernig krakkarnir leystu hlutverk sín.

24.11.06

ég sit alveg kyrr
og hugsa eitthvað
skemmtilegt

bleikur himinn yfir mér
svo flottur
en svo annarlegur

um hugann vafra
góðar minningar
og ég brosi út í annað

veröldin er á yfirsnúning
en ég held mig vel
fyrir utan

það er ekki við hæfi
að vera stressaður
á svona bleikum degi

23.11.06

- Kardimommubærinn I -

Ég varð að kíkja á stjórnarfund um leið og ég skutlaði Davíð Steini á kóræfingu. Ég var búin að semja um að fá að vera stutt og tala við eina kórmömmuna um að skutla stráknum heim eftir æfingu. Var komin upp í Hlíðaskóla um hálfsex og stuttu seinna hófst sýningin. Oddur Smári var sögu maður í fyrri hluta og að hluta til í seinni hluta, auk þess sem hann lék hund Tóbíasar í turninum. Hlutverkum sínum skilaði hann með sóma. Mamma eins bekkjarfélaga hans kom sérstaklega að máli við mig á eftir til að tala um hversu skemmtilega drengurinn hefði leiklesið. Tengdó, pabbi, mamma, Hulda og Bríet voru á svæðinu og skemmtu sér mjög vel. Þetta var mjög vel gert hjá krökkunum. Einu sinni ruglaðist ein stúlkan er hún var að byrja að syngja, hún lét það ekki slá sig út af laginu heldur byrjaði bara upp á nýtt. Það verður svo fróðlegt að sjá útgáfu Davíðs Steins bekkjar af þessu verki.

Strax eftir leikritið og smá kaffisopa dreif ég mig á kóræfingu. Við vorum að æfa fyrir þjólagamessuna n.k. sunnudag og aðventukvöldið 3. des. Það gekk alveg ágætlega. Í kaffinu deildi ég nokkrum bröndurum með kórfélögum mínum. M.a. þessum:

Nonni: Við fáum afa og ömmu í kvöldmat.
Siggi: Þið eruð heppin við fáum bara saltfisk.

22.11.06

- Þrjátíu og tveir dagar til jóla -

Það eru bara átta dagar eftir af þessum mánuði. Mér finnst ekkert svo langt síðan árið byrjaði og bráðum verður komið 2007. Í kvöld (seinni partinn 17:30) er ég að fara á bekkjarkvöld með bekknum hans Odds Smára. Krakkarnir ætla að sýna okkur Kardimommubæinn. Oddur Smári er sögumaður og leikur líka hundinn hans Tobíasar í turninum. Ég hlakka til. Bekkurinn hans Davíðs Steins er með sína skemmtun á föstudaginn. Davíð Steinn leikur Tobías í turninum.

21.11.06

- Bilerí -

Ég var heppin að sofa ekki yfir mig í morgun. Ég missti gemsann minn fyrir utan Þórshamar í gær og hann fór í nokkra parta. Setti hann snarlega saman og stillti hann upp á nýtt, hélt ég. Áður en ég fór að sofa seint í gærkvöld stillti ég vekjarann á gemsanum á hálfsjö. Næsta sem ég vissi var að gemsinn hans Davíðs hringdi. "Afhverju hringir hans gemsi á undan mínum, hans er oftast stilltur á hálfátta?" hugsaði ég með mér. Þegar ég skoðaði gemsann minn sá ég hvers kyns var, Þar sýndi klukkan 23:53 og þegar ég athugaði dagsetninguna var hún enn á 20. nóvember. Það var eins gott að ég var ekki á sexvakt!

20.11.06

- Tíminn hleypur frá mér -

Á föstudaginn var hitti ég mömmu í Bónus í Holtagörðum rúmlega tvö. Hún var þegar búin að fylla fyrstu körfuna. Stuttu á eftir mér kom hjálparkokkurinn með aðstoðarmann með sér. Saman fylltum við þrjár körfur í viðbót. Ég borgaði svo fyrir vörurnar sem gjaldkeri foreldrafélags drengjakórsins. Á heimleiðinni setti ég nokkur keðjubréf fyrir Odd Smára í póst. Mamma kom til mín og var hjá mér til hálffimm. Ég hjálpaði Davíð Steini að taka sig til fyrir æfingabúðirnar. Við mættum við Hallgrímskirkju korter fyrir fimm. Rútan var komin og þeir sem voru mættir hjálpuðu mömmu að millifæra matvörurnar úr hennar bíl yfir í rútuna.

Á laugardagsmorguninn fórum við Davíð með Oddi Smára í Laugardalshöllina á silfurleika ÍR í frjálsum. Drengurinn tók þátt í langstökki, kúluvarpi og 60 m en sleppti 600 m. Vorum fjóra tíma á staðnum. Skruppum á Pítuna og fengum okkur að borða áður en við fórum heim. Fljótlega eftir að við komum heim fórum við Oddur Smári í kertasöluherferð. Vorum að í tvo tíma og seldum 15 pakka. Það á enn eftir að fara í eina götu, við eigum aðeins um 15 pakka eftir og þá verðum við búin að selja allt í allt hátt í 130 pakka. Ég tel því að drengurinn eigi góða möguleika á að verða einn af 5 söluhæstu drengjunum og fara í enn eina óvissuferðina.

Ég trúði varla mínum eigin augum er ég leit út í gærmorgunn. Þvílíkur snjór. Ég varð að ryðja af jeppanum áður en ég komst af stað í kirkju. Drengjakórinn söng við messu ásamt barna og unglinakór Austubæjarskóla og Hallgrímskirkju. Það var verið að skíra eitt barn, svartan dreng sem fékk nafnið Jonh Junior. Á meðan messan stóð yfir reyndi foreldri eins piltanna að hafa samband við mig. Ég hringdi til baka eftir messuna og var þá beðin að kippa drengnum með þar sem fjölskyldubíllinn var fastur í skafli. Það var ekkert mál.

Seinni part dags skruppum við Davíð að versla inn og ákváðum að hafa læri í matinn um kvöldið. Þegar við komum úr búðinni var strax kominn tími til að undirbúa kvöldmatinn. Það var borðað vel af steikinni.

Snjórinn setti mig svo út af laginu að ég steingleymdi að hafa samband við norsku esperantovinkonu mína.

15.11.06

óljóst efni

óljós hugmynd
að bæra á sér
í kollinum

djúpt í hugsununum
leynist ein
vandlega falin

og ég hugsa
var það eitthvað
sem ég ætlaði
að muna
eða gera?

14.11.06

- Stórt verkefni framundan hjá DKR -

Eins og kom fram í síðustu færslu varð Drengjakór Reykjavíkur að hætta við að taka þátt í aðventutónleikum með kirkjukór óháða safnaðarins. Þeir urðu reyndar líka að hætta við að halda sína eigin jólatónleika en þetta er vegna þess að þeim bauðst einstakt tækifæri eins og lesa má hér að neðan. Fékk eftirfarandi texta að láni úr bréfi frá formanni foreldrafélagsins:

"Drengjakór Reykjavíkur (DKR) hefur verið boðið að taka þátt í jólatónleikum Frostrósa ásamt evrópskum söngdívum. Haldnir verða þrennir tónleikar dagana 5. og 6. desember í Laugardalshöll og Hallgrímskirkju. Tónleikarnir verða teknir upp fyrir sjónvarp og stefnt er að því að þetta verði ein stærsta sjónvarútsending sem framkvæmd hefur verið hér á landi. Gert er ráð fyrir að sýna tónleikana í tólf löndum í Evrópu um jólin. Þá verða tónleikarnir gefnir út á geisla- og mynddisk fyrir jólin 2007."

Það er annasamur tími framundan. Næstu helgi fer drengjakórinn í æfingabúðir og syngur við messu í Hallgrímskirkju n.k. sunnudag um leið og þeir koma heim úr æfingabúðunum. En það á allt að vera búið í kringum 11. desember og þá fá drengirnir frí til annan dags jóla er þeir syngja við messu klukkan tvö.

13.11.06

- Og þá tók daglegt líf U-beygju -

Kannski varð mér svona mikið um þegar ég frétti á foreldrafundi DKR að drengjakórinn væri hættur við að syngja á aðventukvöldi með okkur í óháða kórnum. En þótt það væri áfall í sjálfu sér þá er líklegra að ég hafi bara smitast af slæmri gubbupest. Aðfaranótt fimmtudagsins var lá ég hríðskjálfandi undir sænginni og botnaði ekkert í því afhverju mér hitnaði ekki. Á fjórða tímanum um nóttina skrapp ég fram á salerni og þá hvolfdist maginn á mér við. Ég sofnaði ekki fyrr en um það leyti sem feðgarnir voru að fara í vinnu og skóla og ég svaf meira og minna allan daginn. Maginn var aumur, tómur en ég gat ekki borðað neitt fyrr en á tíunda tímanum um kvöldið. Þá var verkurinn farinn en ég var enn með hita.

Davíð vann fram eftir næstu nóttu þannig að ég græjaði strákana í skólann á föstudagsmorguninn. Var enn með nokkrar kommur svo ég fór beint upp í rúm aftur og svaf fram að hádegi. Hélt mig í rúminu þann daginn en eftir hádegi las ég Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur spjaldanna á milli. Spennan hélt mér alveg við efnið og var ég nokkuð ánægð með þessa bók.

Ég hélt mér innandyra á laugardeginum en klæddi mig og tók til við að sýsla við þvott og fleira. En ég byrjaði líka að sauma út jólakort. Myndin er af bangsa með jólahúfu sem situr með fullan poka af jólagjöfum. Mjög svo krúttaralegt.

Tvíburarnir byrjuðu að ganga í hús um helgina að selja kaffi og kerti. 6 ára frændi þeirra var með þeim á laugardaginn og gekk salan mjög vel, það seldust alls 20 pakkningar í tveimur götum. Á sunnudeginum var bekkjarbróðir Davíðs Steins með þeim. Þeir fóru í tvær götur og seldu hátt í 10 pakkningar. Enn er nóg eftir af götum og húsum og markmiðið er að selja amk 120 einingar en það er þegar búið að seljast yfir 80.

8.11.06

- Erill -

Skutlaði tvíburunum á frálsíþróttaæfingu seinni partinn í gær. Vini þeirra var boðið í afmæli svo ég sagði þeim að ég myndi sækja þá líka. Fór beint til norsku-Esperanto vinkonu minnar. Hún var reyndar ekki heima akkúrat þá en hringdi í mig nokkru eftir að ég kom heim. Ákvað að drífa mig þótt við hefðum aðeins rúman hálftíma. Lásum saman um föt sem karlmenn klæðast á norðurslóðum. Greinilegt var að það er langt síðan þessi kafli var skrifaður því það var talað um sokkabönd. Bókin er líka skrifuð 1939.

Seinni partinn er almennur foreldrafundur í foreldrafélagi DKR og svo er kóræfing í kvöld. Vikan verður búin áður en ég veit af...

6.11.06

- Söluferð fyrir austan -

Davíð fór á pílumót í Keflavík með tveimur vinum og vinnufélögum um hádegisbil á laugardag. Ég sinnti smá heimilisstörfum en tók svo þá ákvörðun, í samráði við tvíburana, að renna austur á Hellu m.a. með það í huga að selja eitthvað af kertum. Klukkan var orðin hálffjögur þegar við komum á áfangastað og þrátt fyrir rigningu vorum við mæðgin byrjuð að ganga á milli húsa í Nestúninu upp úr fjögur. Það seldist ágætlega. Á einum stað vorum við svo drifin inn í kaffi og spjall. Söluherferðin varði samt samtals í svona tvo mjög blauta tíma.

Um kvöldið bauð ég mömmu með í heimsókn til frænda míns og konu hans en þau eru áskrifendur af kertum. Þau keyptu af okkur eina kaffi einingu, sex poka af kertum og sex kerti aukalega á samtals 5000 kr. Ég gat þess að við þyrftum líklega ekki að spyrja þau að ári, en jú, jú það eigum við einmitt að gera.

Á sunnudagsmorguninn skrapp ég yfir til til föðurbróður míns í smá spjall. En um eitt lögðum við mæðginin af stað í aðra söluherferð. Að þessu sinni upp í hæð. Gengum í öll hús í Heiðvanginum og nokkur hús í tveimur öðrum götum. Alls seldum við rúmlega 30 kertapakka þessa helgi. Við eigum svo eftir að ganga í hús okkar megin í Hlíðunum (vestan megin við Lönguhlíð) svo ég taldi vissara að ná mér í fleiri kerti þegar ég skutlaði Davíð Steini á æfingu í dag. Við vorum líka næstum því búin með einn litinn en við erum bara með þrjá liti í ár: rauð, vínrauð og fílabeinshvít.

Annars var ég að koma úr kortagerð núna áðan. Var ekki alveg viss í hvernig stuði ég var þegar ég lagði í hann og tók með mér bæði föndur og útsaum. Þegar til kom föndraði ég 14 kort á tveimur tímum og á nú 69 föndruð kort tilbúin plús eitt saumað og er næstum búin að sauma annað til. Ég held reyndar að það séu bara um 65 á jólakortalistanum okkar Davíðs þannig að ég er eiginlega farin að vinna upp í næsta ár og get nú farið að byrja að skrifa á jólakortin, þegar vel liggur á mér.

Ég er líka búin að lesa nokkrar bækur undanfarna daga. Sú sem ég er að lesa núna er eftir Árna Þórarinsson og heitir Tími nornarinnar. En bókin sem ég lauk við á undan henni heitir Leyndarmál og er eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur. Sú bók fjallar um fjölskyldu sem býr í Grjótaþorpinu og það má segja að ekki er alveg allt með felldu í því fjölskyldulífi. Bókin greip mig heljartökum og ég gat varla lagt hana frá mér. Það ætlar reyndar að vera sama sagan með bókina sem ég er að lesa núna. Að lokum langar mig að segja frá einni sannri sögu: Þeir tóku allt - meira að segja nafnið mitt; frá heljarslóð í Tyrklandi til nýrra heimkynna. Ég mæli með þeirri bók en hún er mjög átakanleg á köflum og virkar enn sterkar á mann þar sem hún er sönn.

2.11.06

- Mýrin og kóræfing -

Við Davíð fórum í bíó á þriðjudagskvöldið var og sáum Mýrina. Ég var stórhrifin og mæli eindregið með myndinni. Við fórum um það leyti sem strákarnir voru að fara í ró. Það eina sem fór í taugarnar á mér voru allar auglýsingarnar á undan og í hléinu. Raunar væri mér alveg sama þótt aldrei væri hlé á sýningum.

Á kóræfingu í gærkvöldi vorum við að æfa jólalög fyrir aðventukvöldið sem sett er 3. desember n.k. Drengjakór Reykjavíkur mun einnig koma og syngja bæði einir og með okkur og ég á von á því að kvöldið verði mjög hátíðlegt.

31.10.06

- Hitt og þetta -

Dagarnir
streyma áfram. Nú eru bara tveir mánuðir eftir af árinu og þeir verða liðnir áður en við vitum af. Á meðan ég fór austur í jarðaför sl. laugardag fóru feðgarnir að hjálpa til við hina árlegu kertapökkun á vegum DKR í Hallgrímskirkju. Ég er semsagt með kerti til sölu líkt og sl. tvö ár og þar að auki er hægt að fá hjá mér tvær tegundir af kaffi frá kaffitári. Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga: anna@habil.is

Í síðustu viku tók ég á mig auknar skyldur og lengdist vinnuvikan hjá mér um amk 12 tíma. Samt hafði ég nú tíma til að mæta á kóræfingu, skreppa á bókasafnið og fylgjast með tvíburunum ná sér í tölur í þremur frjálsíþróttagreinum, 60 m, kúluvarpi og langstökki með atrennu. Ég kom með 20 bækur heim af safninu, tvær tengdar esperanto. Heima voru aðrar tvær esperantotengdar bækur og bað ég um að skilafresturinn á þeim yrði framlengdur. Ég var svo að komast að því seinni partinn að það hefði ekki verið gert og nú eru 2x40 skuld á mér við bókasafnið. Ég er ekki viss um að ég vilji borga þetta lítiræði þar sem ég man að ég tók það sérstaklega fram að ég vildi framlengja bókunum sem væru heima. Hélt að þær væru þrjár en ein bókin laumaði sér með bókunum sem ég var að skila. Sú bók kom heim með mér aftur.

Eftir að hafa keyrt strákana á frjálsíþróttaæfingu seinni partinn í dag lá leið mín í Norðurmýrina að hitta norsku esperanto vinkonu mína. Við lásum saman 4 fjóra stutta og létta leskafla sem Þórbergur Þórðarson tók saman fyrir allmörgum árum. Þetta var skemmtilegt. Við ætlum að reyna að hittast tvivar í viku næsta mánuðinn, taka þetta með trukki. Og hver veit nema við skellum okkur fljótlega á esperantofund í félaginu aftur.

29.10.06

- Kveðja -

Á mánudaginn var hringdi æskuvinkona mín í mig og sagði mér að mamma hennar væri dáin. Ég vissi alveg að Sigrún væri búin að vera mikið veik og það væri sennilega ekki langt eftir hjá henni en ég var engan veginn tilbúin að fá þessar fréttir. Mér fannst tíminn stoppa og margar minningar streymdu um huga minn. Einnig fór ég ósjálfrátt að hugsa um marga af þeim sem hafa þegar kvatt þetta líf. Sigrún kenndi mér handavinnu í grunnskóla. Á hverju hausti var hún tilbúin með skyldustykki fyrir hvern árgang, 1-3 stykki, minnir mig. Vettlinga- eða sokkaprjón, unnið úr tágum, leðurvinna, sniðið og saumað á saumavélar og margt, margt fleira. Mér fannst geta allt þessi kona. Hún gat meira að segja sýnt örvhentu nemendunum hvernig þeir gátu best unnið verkin því hún var jafnvíg á báðar hendur. Við dóttir hennar náðum saman í þriðja bekk grunnskólans, þá níu ára, og sátum saman alltaf eftir það. Níu ára gömul var ég flutt með annan fótinn á Hellu. Á tímabili vorum við vinkonurnar mikið saman. Alltaf var mér tekið opnum örmum heima hjá henni, hvort sem ég dvaldi stutt eða yfir nótt. Ég ætlaði nú ekki að vera margorð en tvennt verð ég að minnast á enn. Á fyrstu önninni í fjölbraut fóru kennarar í verkfall í mánuð. Á sama tíma var saumastofan á Hellu að hætta rekstri og var með útsölu í því tilefni. Sigrún tók að sér að skipuleggja það og hjálpuðum við henni, við dóttir hennar. Í laun fengum við að velja okkur eftir sem Sigrún sneið og saumaði tvennar buxur og eitt vesti á okkur og fengum við vinkonurnar alveg eins. Eftir verkfall mættum við eins klæddar í skólann, alveg eins og tvíburar. Hitt er hversu gaman var að hlusta á Sigrúnu þenja nikkuna og í sumum handavinnu tímum greip hún í gítarinn enda kenndi hún tónmennt við grunskólann eftir að hafa náð sér í kennararréttindi. Glaðvær, listræn og dugleg kona er gengin við sem eftir erum minnumst hennar með þakklæti og vonum að nú sé hún laus við allar þrautir.

21.10.06

- Fyrsti vetrardagur -

Í dag er systir mín að flytja úr 101 í 112 á kunnuglegar slóðir, í Veghúsin, stutt frá þar sem við Davíð leigðum ´91-´95. Aldrei hefði mér dottið í hug að systir mín ætti eftir að flytja úr 101 og mér finnst allt eins líklegt að þangað eigi hún eftir að snúa aftur einhvern tíman seinna (en hver veit?).

Besti vinur tvíburanna fór heim á áttunda tímanum í gær og gat þess að hann gæti líklega ekki leikið um helgina. Hann hringdi bjöllunni áðan og er kominn. Þeir eru svo góðir saman félagarnir. Ef eitthvað slettist upp á vinskapinn er það yfirleitt á milli bræðranna.

Ég þyrfti að vera dugleg heima hjá mér í dag því morgundagurinn fer líklega mest allur fram í Hallgrímskirkju og Óháðu kirkjunni, amk stór hluti af honum.

20.10.06

- Engar holur -

Ég fór til tannlæknis í mína árlegu skoðun í gær. Hann fann ekkert athugavert. Ég var í mesta lagi í tíu mínútur í stólnum. Og um leið og ég gerði upp heimsóknina bókaði ég tíma að ári.

Svo notaði ég tækifærið og fór með nótur vegna gómanna í tryggingastofnun. Fékk aðeins meira endurgreitt en ég reiknaði með og var ánægð með það.

Við hjónin leigðum okkur mynd í gær og fórum að sofa á sama tíma í fyrsta skipti í tæpa viku. Davíð vildi reyndar meina að hann yrði að trappa sig niður af þessum næturvökum en ég veit ekki betur en hann hafi verið fljótur að sofna og var ekki tilbúinn að fara á fætur um sjö í morgun.

Framundan er mikil messuhelgi.

Farið vel með ykkur!

19.10.06

- Annasamur miðvikudagur -

Gærdagurinn var nokkuð langur en mjög skemmtilegur. Þar sem ég er komin á bíl aftur náði ég að skreppa aðeins heim á milli klukkan fjögur og fimm. Davíð er búinn að vera að vinna mikið undanfarna sólarhringa og sofið 2-5 tíma að meðaltali. Hann er að vinna heima og var nýbúinn að hella upp á þegar ég kom heim í gær. Rétt fyrir fimm fórum við Davíð Steinn upp í Hallgrímskirkju, hann á æfingu og ég á stjórnarfund. Á heimleiðinni kipptum við Oddi Smára með okkur en hann var á karateæfingu. Ég hafði rétt svo tíma til að fá mér eitthvað og bað Davíð um að sjá um að þeir feðgar fengju einhvern kvöldmat. Og svo var ég rokin á kóræfingu. Tíminn leið ótrúlega fljótt, held stundum að klukkan gangi extra hratt þegar það eru kóræfingar. Kom heim rétt upp úr hálftíu og þá vöskuðum við hjónin upp í sameiningu og horfðum svo á uppgjörið í enska boltanum um síðustu helgi með Snorra Má, Willum Þór og Guðmundi.

18.10.06


Þessar eru gerðar fyrir hálfum mánuði, líkt og kortin á myndinni hér að neðan, hluti af 20 kortum sem ég bjó til þá. Í gærkvöldi bættust við 15 kort svo ég er langt komin með framleiðsluna þetta árið.

Pabbi: Til hamingju með daginn!

16.10.06

- Helgin komin og farin -

Skyldan var búin snemma á föstudaginn var. Þá lá leiðin í bankann að leggja inn kaffisjóð sem hefur safnast upp á undanförnum kóræfingum. Því næst skrapp ég í Bifreiðaskoðun í Skeifuna til að athuga hvort bíllinn kæmist að í skoðun. Það var einhver bið en ég þurfti hvort sem er að skreppa heim til að nálgast félagsskírteinið í FÍB. Heima beið mín tilkynning frá Margaretha um að vörurnar sem ég pantaði á netinu um daginn væru komnar. Lukkukettir, jólakort, fleiri jólakort, og enn fleiri jólakort, og jólakort. Ég sótti vörurnar á leiðinni í skoðunina. Nóg af útsaum. Ekki fékk Fíatinn fulla skoðun. Bíllinn er nýbúinn að vera á verkstæði en það láðist að biðja um að hann yrði yfirfarinn sérstaklega með tilliti til skoðunar.

Æskuvinkona mín kíkti til mín á föstudagskvöldið og áttum við mjög notalega stund saman. Alltaf svo gott að hittast.

Seinni partinn á laugardaginn skutlaði ég Davíð Steini í Laugarneskirkju þar sem fram fór upptaka á þremur jólalögum. Í millitíðinni skrapp ég á leik í Höllinni, Valur-Stjarnan. Mikill spennuleikur. Svo beið ég eftir stráknum en hann var ekki laus fyrr en hálfátta. Svaka törn.

Í gær skrapp ég í heimsókn til góðrar vinkonu minnar. Hún er bara heima hjá sér um helgar. Ég fékk að nota pappírskerann hjá henni og er búin að skera niður pappír í tilvonandi jólakort fyrir þessi jól og þau næstu. Tveir tímar liðu fljótt.

13.10.06

- Verður laus við góminn á mettíma -

Strákarnir áttu tíma hjá tannfræðingnum í hádeginu. Davíð fór með þá en ég var svo spennt að fá fréttir að ég hringdi strax upp úr hálfeitt til að heyra í feðgunum. Davíð Steinn fékk tíma næst seinni partinn í apríl. Nú erum við hætt að trekkja en hann þarf að vera með góminn næstu sex mánuði. En Oddur Smári var víst að slá met. Nú þarf hann bara að sofa með góminn í tvær vikur og svo er hann alveg laus við hann. Samtals verða það þá uþb fimm vikur en ekki tveir-þrír mánuðir eins og var áætlað.

12.10.06

slökun

í bollanum kaffi
sterkt og gott
við höndina góð bók
ef hugurinn ranglar
eitthvað burt
má alltaf grípa
í sauma
eða dagleg verk

á göngu er gott að slaka á
grufla, pæla, hugsa
eða loka fyrir
orðstöðvarnar
skyldi það annars vera hægt?

í heitu froðubaði
er gott að hvíla sig
láta hugann hverfa
frá daglegu amstri

eina regla er
að flýta sér mjög, mjög hægt

11.10.06

- Ónýtur geymir og sambandsleysi í rafkerfinu -

Fyrir allmörgum vikum síðan (uþb tveimur mánuðum) hætti Fíatinn að vilja fara í gang. Ég bað manninn minn að láta athuga málið. Ekkert gerðist lengi vel. Oft var mikið að gera hjá Davíð en stundum gleymdi hann þessu hreinlega. Upp á síðkastið hef ég verið dugleg að minna hann á. Við vorum að spjalla á MSN-inu aðeins í dag og þar sagði ég meðal annars að það væri gott að geta verið á bíl þó ekki væri nema öðru hvoru. Þegar skyldunni var lokið var ég að bræða það með mér hvort ég ætti að taka strætó heim eða ganga. Ég varð nauðsynlega að koma við í apóteki því hálsinn er eitthvað aumur svo það varð úr að ég fór heim á tveimur jafnfljótum. Reyndar kom ég við á öðrum stað líka, hannyrðaverslun við Laugaveginn og kolféll þar fyrir nokkrum litlum jólamyndum til útsaums, bæði í kort og ramma.

Strákarnir voru báðir að fara á æfingar (kór og karate) svo ég var ekkert að flýta mér. Klukkan var því farin að ganga sex þegar ég kom heim að innkeyrslu. Og viti menn, fyrir framan hliðið stóð NK 968, Fíatinn. Hann er víst orðinn gangfær aftur og nú á bara eftir að fara með hann í skoðun. Vona samt að ég verði dugleg að ganga inn á milli, nú þegar ég er hætt að finna fyrir stóru tánni, þeirri sem nöglinn er að fara af.

10.10.06

- Í nokkur horn að líta -

Seinni partinn í gær fór ég í BÓNUS að kaupa kex handa strákunum í drengjakór Reykjavíkur. Tölti með tvo fulla poka upp í Hallgrímskirkju og kom þessu fyrir á sínum stað. Sat svo góða stund við borð eitt og tók á móti kórgjöldum. Úr kirkjunni labbaði ég Þórshamarsheimilið til að fylgjast með Oddi Smára á karateæfingu. Það var erlendur kennari, japanskur í útliti með hópinn. Oddur kallar hann sensei og er þessi maður með svarta beltið. Hann er búinn að kenna þeim í nokkur skipti. Ég hafði mjög gaman af að fylgjast með æfingunni. Tíminn leið mjög hratt. Strákurinn minn kom beint fram til mín eftir æfinguna að spjalla við mig. Þá var bankað í glerið. Var það kennarinn. Þegar hann hafði náð athygli minni benti hann á Odd og setti svo þumalinn upp. Oddur sagði mér að kennarinn segði stundum við hann: -"Oddur, the strongest boy in Reykjavík!" Ég var amk mjög stolt af drengnum mínum.

9.10.06

- Notaleg helgi að baki -

Við vorum tilbúin að leggja í hann rúmlega hálfníu á föstudagskvöldið var. Byrjuðum á að fá okkur eitthvað í svanginn, komum við í 10-11 eftir nauðsynjum, tókum bensín og brunuðum svo af stað austur í sumarbústað. Vorum komin í bústað langt gengin í ellefu. Þá uppgötvaðist að við hefðum gleymt að kaupa kaffi. Sem betur fer var til smávegis í bústaðnum. Það er einmitt það eina sem ég passa að skilja eitthvað eftir af, kaffi! Settum utan á sængur og strákarnir fóru fljótlega að sofa. Við Davíð fengum okkur kaffi og spjölluðum saman. Ákváðum að vera ekkert að kveikja á sjónvarpinu og komum okkur snemma í ró, svona miðað við að það var föstudagskvöld.

Um hádegisbil daginn eftir, þegar Davíð var nýkomin úr smá verslunarleiðangri frá Laugavatni, komu foreldrar mínir að sækja lykla af bústað í grenndinni. Þau þáðu kaffi (sem Davíð hafði næstum gleymt að kaupa) áður en þau fóru yfir í sinn bústað. Helga systir og hennar fjölskylda komu til þeirra stuttu seinna og hreiðruðu um sig. Stelpurnar komu og fóru í heita pottinn okkar með tvíburunum.

Helgin var notuð í algert afslappelsi. Mamma og pabbi buðu öllum í mat á laugardagskvöldið. Ég las, saumaði út, fór í pottinn, svaf, sinnti frænkum mínum og strákunum eitthvað smávegis og hafði það í alla staði mjög, mjög gott. Svona ætti maður að gera oftar Þegar strákarnir vissu það á miðvikudagskvöldinu að ég hefði fengið úthlutað í bústað um helgina var það bara eitt stórt JESSS!

Við vorum ekkert að flýta okkur í bæinn í gær. Gengum ekki frá fyrr en milli sex og hálfátta. Það tók töluverðan tíma að láta renna úr heita pottinum og bíða eftir uppþvottavélinni en okkur var alveg sama.

Til að enda góða helgi leigðum við okkur "Lucky number Slevin" er við komum heim í gærkvöldi. Ágætis mynd.

5.10.06

- Þokkalega -

Eiginlega ætlaði ég að vera búin að taka myndir af þeim 20 kortum (í viðbót við þau frá því í síðustu viku) sem ég föndraði sl. þriðjudagskvöld og smella þeim hérna inn. Hvort ég taki yfirleitt myndir af þessum kortum og komi því í verka að setja þær hérna inn verður að koma í ljós.

Annars bíð ég spennt eftir næstu helgi en ætla ekki að tjá mig frekar um hana fyrir fram, segi eitthvað frá henni að henni lokinni.

Emma, kisan sem átti heima í risinu kemur alltaf aftur og aftur hingað. Hún er ótrúlega lunkinn við að smeygja sér innfyrir þegar einhver er á ferðinni. Hún virðist þó vita að hún geti ekki "bankað" eða mjálmað fyrir utan dyrnar í risinu en hún er dugleg við að reyna að komast inn til okkar. Hitti Emmu úti áðan og var hún alveg ótrúlega skítug. Spurði hana hvort hún hefði farið í litun því hvítu loppurnar hennar voru næstum svartar. Í hverju lenti kötturinn eiginlega?

Oddur Smári var boðin í afmæli seinni partinn í dag og er boðinn í annað afmæli seinni partinn á morgun.

3.10.06

spuni

stundum horfi ég
upp í skýin
og ímynda mér
að ég liggi þar
líði um í loftinu
með lokuð augun
og láti mig dreyma
þegar ég opna
augun og ætla að
kíkja niður
blasir eitthvað óvænt
við mér

stundum horfi ég
út á sjóinn
og ímynda mér
að ég liggi í
bátkænu
og öldurnar
vagga mér mjúklega
ég hef augun lokuð
og læt mig dreyma
þegar ég opna augun
til að horfa á sjóinn
er allt svo kunnuglegt
í kringum mig

stundum horfi ég
yfir túnið
og ímynda mér
að ég liggi í grasinu
horfi upp í himininn
og búi til sögur úr
skýjunum
lokuð augun opnast
og ég sé að ég er
heima hjá mér
- Svaka törn -

Um ellefu sl. sunnudagsmorgun fór Davíð í vinnu. Hann vann og vann, allan daginn og alla nóttina. Um hálfátta í gærmorgun hringdi hann og sagðist vera á leiðinni að skutla mér í vinnuna (annars er táin öll að koma til). Að skutlinu loknu fór hann beint aftur í vinnuna. Hann hringdi heim langt gengin í átta í gærkvöldi og sagðist vera á leiðinni. Þegar hann kom var það fyrsta sem hann spurði um hvort ég hefði búið til kaffi. Ég hafði reyndar ekki gert það, hélt að maðurinn myndi fara nær strax að sofa. Ég bjó til smá kaffi og maðurinn minn gafst ekki upp fyrir Óla Lokbrá fyrr en um tíu í gærkvöldi. Ég vona bara að vinnutörninni sé lokið í bili!

1.10.06

- Skroppið "heim" í sveitina -

Davíð var að vinna í gær, og er reyndar að vinna í dag líka. Mamma var búin að bjóða okkur austur að kíkja á afrakstur fjölskyldumyndatökunnar um daginn. Helga systir og fjölskylda ætluðu líka að koma austur en hún læstist í bakinu í orðsins fyllstu og komst ekki einu sinni sjálf á salerni, hvað þá austur. Við mæðginin vorum hins vegar komin um tvö leytið. Mamma var með tilbúið á könnunni og ég settist strax með kaffibolla og skoðaði allar myndirnar. Þær eru langflestar mjög góðar. Heppnuðust þvílíkt vel að mamma er í skýjunum. Það voru teknar myndir af stelpunum, krökkunum fjórum, Helgu fjölskyldu, minni fjölskyldu, öllum, fullorðna flólkinu saman og pabba og mömmu. Það gleymdist að taka sér mynd af tvíburunum saman en það gerir ekkert til.

Skrapp með allar myndirnar yfir til Steina föðurbróður og þangað komu, stuttu á eftir mér, sonur hans og tengdadóttir, næstum því beint frá Danmörku. Þau fengu því líka að sjá myndir.

Það er alltaf notalegt að koma austur, geri bara alltof lítið af því. Við mæðgin dvöldum fram eftir kvöldi í góðu yfirlæti. Komum heim aftur rétt upp úr miðnætti með krækiber, svið, slátur (afgangur frá sláturgerðinni í fyrra) og krækiberjasaft í farteskinu.

30.9.06


Bræður að vaska upp. Það tókst að setja inn myndina í annarri tilraun. Þeir taka sig vel út strákarnir, Davíð Steinn með burstann og Oddur Smári með þurrkustykkið.
- Síðasti septemberdagurinn -

Ég ætlaði að smella inn mynd af bræðrunum að vaska upp en það gekk ekki upp í þetta sinn, kannski næst. Sit hér fyrir framan skjáinn í smá letikasti, nenni ekki neinu í augnablikinu en langar til að segja aðeins frá bók sem ég er að lesa núna. LITLA BLÓM eftir Margréti Hjálmtýsdóttur. Þetta er skáldsaga um stúlku sem er skilin eftir hjá eldri hjónum. Móðir stúlkunnar neitaði að feðra barnið og stakk svo af stuttu eftir fæðingu þess. Gömlu hjónin höfðu misst einkason sinn í sjóslysi. Þau tóku barnið að sér. Einhvern veginn kemst faðir barnsins að tilvist þess, sá ku vera fyrirmaður í þjóðfélaginu og giftur að auki. Hann ræður lögfræðing sem milligöngumann um að greiða með barninu. Örfáum árum seinna er kveikt í húsi hjónanna af einskærri vangá (þroskaheftur maður að leika sér með eldspýtur). Litla stúlkan er sú eina sem bjargast. Vinkona hjónanna tekur hana að sér en nokkru seinna er telpunni komið fyrir á sveitaheimili. Það er borgað áfram með henni en eftir því sem árin líða er hún líka látin vinna fyrir sér. Hún þráir að komast í skóla og læra en er neitað um það. Eftir að hún er fermd er hætt að borga með henni og þá telur hún sig lausa allra mála, yfirgefur sveitina og fer til Reykjavíkur. Hún finnur son og tengdadóttur konunnar sem tók hana að sér eftir brunann og þau hjálpa henni að finna vist á heimili. Sagan er vel skrifuð og erfitt að leggja bókina frá sér eftir að maður er byrjaður á henni. Ég á samt eftir að lesa seinni helminginn og ríflega það og hlakka til þeirra stundar.

Farið vel með ykkur og eigið góða helgi.

29.9.06



Hinn helmingurinn


Helmingurinn af jólakortunum sem ég er búin að búa til. Myndirnar eru ekki sérlega vel teknar, því miður, ég geri aðra tilraun fljótlega.

28.9.06

- Langur miðvikudagur -

Davíð var að koma upp í rúm stuttu áður en kominn var fótaferðatími hjá mér. Hann hafði verið að vinna alla nóttina. Ég ákvað því að nappa bílnum. Strax klukkan fjögur dreif ég mig á bókasafnið, skilaði bókum og náði mér í nýjar. M.a. tók ég enn og aftur esperanto-efni. Við ætlum að fara að hella okkur aftur út í slíkar pælingar, ég og norska vinkona mín.

Frá bókasafninu lá leiðin upp í Hallgrímskirkju þar sem ég sat í rúman hálftíma ef einhverjir foreldrar vildu gera upp kórgjöldin. Kom heim upp úr hálfsex. Þá dreif Davíð sig í ræktina og skildi mig eftir með hálfklárað uppvask. Reddaði því og hafði tilbúin mat er strákarnir komu heim af æfingum.

Tvíburahálfsystir mín kom við rétt fyrir hálfátta og varð ég samferða henni á kóræfingu. Hún var semsagt að máta "óþæga kórinn" og leist held ég bara vel á. Eftir tveggja tíma æfingu kom ég heim til að nappa bílnum aftur og skrapp á Friendtex fatakynningu.

Annars vorum við tvíburahálfsysturnar að byrja í jólakortaföndrinu í síðustu viku. Þá gerði ég ekkert annað en að klippa til myndir. Í fyrrakvöld var ég svo mætt hjá henni aftur upp úr átta og byrjaði á því að klippa niður litað karton í hæfilega stór kort. Andinn var yfir mér og þegar ég byrjaði á föndrinu var ég varla búin með eitt kort þegar ég var farin að sjá fyrir mér hvernig næsta kort ætti að vera. Á innan við tveimur tímum bjó ég til 20 stykki kort. Mottóið við kortagerðina mína er: Einfalt en lekkert. Ég kem til með að smella inn nokkrum myndum af afrakstrinum fljótlega.

24.9.06

- Kaflaskiptur dagur -

ÉG fékk Davíð til að smyrja nokkrar flatkökur með hangikjöti, til að taka með í kirkjuna í morgun. Skutlaði Davíð Steini á upphitun um tíu og fór síðan að redda blómvendi handa einni sem er að hætta í stjórn foreldrafélagsins. Sótti feðgana og flatkökurnar heim og við vorum komin í kirkju rétt fyrir ellefu.

Messan gekk vel fyrir sig. Ung stúlka lét skíra sig og hljómurinn í söngstrákanna var virkilega góður. Eftir messu var smá einkaathöfn fyrir drengina og aðstandendur þeirra. Formaðurinn las upp smá pistil og kallaði svo upp sjö stráka sem eru að byrja sitt þriðja starfsár í kórnum, Davíð Steinn var einn af þeim. Í þá var nælt bronsmerki. Næst voru kallaðir til þrír drengir, tveir af þeim fengu silfurmerki og einn gull. Að lokum voru kallaðir til þrír piltar sem fengu afhenta áletraða bikara fyrir fimm ára starf með Drengjakór Reykjavíkur reyndar er einn af þeim að hefja sitt sjöunda starfsár.

Fljótlega eftir þessa athöfn fékk ég Davíð til að skulta mér í mína kirkju. Klukkan var um eitt og félagar mínir voru búin að æfa og hita upp í um það bil hálftíma. Messuhald í Óháðu kirkjunni gekk mjög vel. Á eftir fékk ég mér smá kaffisopa áður en ég labbaði heim. Sem betur fer var ég með sandalana mína með mér, þeir eru góðir til gangs sérstaklega ef maður er aumur í tá.

Í dag eru 40 ár síðan foreldrum mínum fæddist frumburður sinn, stúlka sem þau skírðu Önnu. Hún lifði aðeins í tæpa fimm mánuði, dó í febrúar 1967 rúmu ári áður en ég fæddist. Ef hún hefði lifað væri ég kannski ekki til í dag, amk héti ég alls ekki Anna, heldur Helga og ef við værum þrjár systurnar héti Helga systir "eitthvað út í loftið" eins og mamma orðaði það.

Tommi mágur er 27 í dag. Til hamingju með það! Það styttist í þriðja tuginn en við Davíð verðum búin að ná þeim fjórða áður en það gerist.

23.9.06

- Nóg framundan -

Í dag eru 45 ár síðan foreldrar mínir gengu í það heilaga. Til hamingju með daginn pabbi og mamma! Þetta eru merkileg tímamót.

Var að koma heim úr smá reddingum fyrir DKR. Á morgun syngja strákarnir við messu og eftir messuna á að hafa smá samverustund og veita m.a. viðurkenningar fyrir störf með kórnum. Sjö drengir eru að hefja sitt þriðja starfsár og fá bronsmerki, tveir drengir fá silfurmerki, einn drengur fær gullmerki og þrír drengir fá áletraðan bikar. Ég þarf svo að helst að vera mætt í Óháðu kirkjuna um hálfeitt til að undirbúa messu þar með organistanum og kórfélögum mínum.

En hvernig ætli loka umferð Landsbankadeildarinnar fari í dag? Það er mikil spenna amk á botninum og Valur tekur á móti KR og verður að vinna til að tryggja annað sætið.

Semsagt nóg framundan, sem er gott.

22.9.06

- Fjölskyldumyndataka -

Merkilegt hvað ein lítil stóratá getur sett mann út af laginu. Ég er ekki vel gangfær þessa dagana. Davíð varð að skutla mér í morgun. Hann sótti mig svo snemma í dag, eða klukkan tvö, því við vorum öll á leið í myndatöku í Ljósmyndastofu Kópavogs. Hittum pabba og mömmu þar fyrir utan rétt fyrir þrjú. Helga systir og hennar fjölskylda voru að verða búin. Næst voru teknar myndir af öllum krökkunum saman. Svo var okkur öllum tíu stillt upp. Því næst var vorum það við fjögur og að lokum létu pabbi og mamma mynda sig. Þar að auki var búið að fara áður með Bríeti. Klukkan var orðin fimm þegar við komum heim aftur, með tvo stóra poka af krækiberjum frá pabba.

Í gærkvöldi var mér boðið í heimahús á Míranda snyrtivörukynningu. Alltaf gaman að fara á kynningu en mér er frekar illa við að nota krem í andlitið á mér svo margt af svona vörum heillar mig ekkert. Ég er búin að prófa nokkrum sinnum að meðhöndla andlitið á mér en ef húðin er þurrskellótt virkar ólífuolían best á mig. Ég virðist þola hana ágætlega.

21.9.06

- Undarlegt óhapp og flottir tónleikar -

Það datt á aðra stóru tána mína hluti af "sturtudyrunum" í gærmorgun. Það sem að blæddi og það sem táin er ljót úúúúú. Ég skipti þrisvar um umbúðir og það var alltaf að vætla í gegn. Það hjálpaði ekki til að ég þurfti aðeins að vera á ferðinni og seinni partinn labbaði ég frá Bónus á Laugavegi í Ráðhúsblóm og þaðan upp í Hallgrímskirkju.

Aðalfundur foreldrafélags DKR var haldinn seinni partinn í gær og tókst hann með ágætum. Framundan er spennandi starfsár og hefur drengjahópurinn aldrei verið stærri og flottari. Það hættu fimm í vor en byrjuðu 12 nýjir í haust. Rétt áður en fundurinn var búinn hringdi Oddur Smári í mig. Hann var frekar lítill í sér og spurði hvort hann þyrfti nokkuð að vera lengur með góminn, því hann meiddi og hann hefði ekkert geta/viljað borðað síðan um morguninn. Drengurinn á að taka góminn út úr sér þegar hann borðar, tannar og les upphátt en þess á milli á hann alltaf að hafa hann, næstu 2-3 mánuðina eða svo.

Annars fór ég á frábæra píanótónleika með Pétri Máté í Salnum í gærkvöld. Þeir byrjuðu klukkan átta, hlé var gert þegar dagskráin var uþb hálfnuð og hann lauk við að spila aukalagið um tíu. Hann spilaði allt nótulaust nema verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson. Efniskráin var mjög spennandi og þessir tveir tímar liðu undrafljótt.

19.9.06

- Strákarnir "gómaðir" -

Davíð fór með tvíburana til tannsérfræðingsins í hádeginu. Gómarnir voru tilbúnir og fékk Oddur Smári má box undir sinn til að geyma góminn ef hann er að borða, tanna, lesa upphátt eða syngja. Gómur Davíðs Steins var hinsvegar festur upp í hann og verður þar næstu sjö mánuðina. Þriðjudagarnir eru lengstu dagarnir í skólanum hjá öðrum tvíburanum og ég bað um frí fyrir þá frá hádegi, taldi að þeir hefðu gott af því að taka því rólega fyrst eftir að vera komnir með gómana.

Pabbi er búinn að tína slatta af krækiberjum undanfarið og sendi okkur slatta. Það eru veislutímar framundan...

18.9.06

- Jólakortagerðarundirbúningur -

Ég leit við í Föndurstofuna á laugardaginn var. Búðin er í Síðumúla og komin á jarðhæð. Ég fann margt sniðugt og lét það eftir mér að verða mér út um sumt af því. Nú er komið að því að huga að jólakortagerð, kannski í seinna lagi miðað við í fyrra. Við tvíburahálfsystir mín vorum byrjaðar í júní í fyrra að klippa út þrívíddarmyndir. Ég ætla að hafa þetta allt miklu einfaldara í ár. Mottóið hjá mér er að búa til kort handa öllum á listanum okkar Davíðs, en lenda samt ekki í neinu stressi með það. Það verður spennandi að vita hvernig gengur. Suma daga er maður afkastamikill en aðra ekki. Sjáum bara til!

16.9.06


Ein úr ferðasafninu. Á meðan strákarnir skiptust á að reyna að veiða í Breiðdalsánni þá var ég í berjamó. Fyllti tvær hálfslítra flöskur af krækiberjum með smá aðstoð frá bræðrunum.
- Aftur komin helgi -

Mánuðurinn er hálfnaður og tíminn æðir áfram á ljóshraða, eða það finnst mér. Sl. fimmtudag áttum við, öll fjölskyldan mín (pabbi, mamma, við og Helgu fjölsk.), tíma í myndatöku. Það varð að fresta þessu því Davíð læstist í bakinu og rétt að byrja að jafna sig núna. Maðurinn er nýbyrjaður í ræktinni og hefur líklega tekið aðeins of mikið á því, ef ég þekki hann rétt.

Það er nóg að gera og framundan eru spennandi tímar. Kórinn minn verður ekki með tónleika í vetur en afleysingakórstjórinn er samt með fullt að nýjum og spennandi hlutum sem hún ætlar að prófa á okkur. Það er líka gaman að segja frá því að allt í einu eru bassarnir orðnir fimm talsins, þeir sem oftast voru bara tveir. Við gætum alveg þegið fleiri raddir í alt og sópran. Ég get lofað skemmtilegum æfingum einu sinni í viku (miðvikudaga kl. 19:30-ca 21:30). Á miðvikudaginn kemur ætlum við reyndar að fjölmenna á einleikstónleikana hans Péturs Mate í Salnum í Kópavogi.

Njótið helgarinnar og farið vel með ykkur!

14.9.06

- Langur dagur -

Davíð skutlaði mér í vinnuna í gærmorgun. Við vorum örlítið sein því Oddur Smári opnaði ísskápinn svo vel að hurðin datt af. Það tók nokkra stund að festa hurðina á aftur því það þurfti ma að taka hurðina af frystinum af á meðan.

Undanfarið ár hef ég verið að draga labbirnar með að hitta kvensjúkdómalækninn minn. Í gær rann samt upp fundardagur. Til að gera langa sögu stutta þá lét ég hann telja mig á að byrja aftur að taka inn hormónana. Hann sagði að ég yrði að vera á þeim til fimmtugs og lofaði mér að við myndum í sammeiningu finna réttu tegundina handa mér. OK, aðeins uþb tólf ár eftir.

Um fimm var ég mætt upp í Hallgrímskirkju á stjórnarfund foreldrafélags DKR. Fundurinn stóð í tæpa tvo tíma svo ég labbaði beint yfir í Óháðu kirkjuna á kóræfingu. Eftir skemmtilega æfingu labbaði ég heim. Þangað var ég kominn stuttu fyrir tíu og fann ég alla feðgana steinsofandi. Ég fór bara að dæmi þeirra...

12.9.06

- Andleysi -

Ég hef ekki verið í neinu skrifstuði undan farna daga. Samt er ýmislegt að gerast í kringum mig. Í síðustu viku var á gangi á Rauðarárstígnum, hafði valið óhefðbundna gönguleið heim. Rétt við strætóskýlið stoppai bíll og ég velti því fyrir mér hversvegna bíllinn væri að leggja alveg við skýlið. Þegar ég kom nær færðist bíllinn nokkra metra áfram, stoppaði aftur, drap á sér og sú sem sat í farþegasætinu skrúfaði niður. Þarna voru mæðgur á ferð, amman, mamman og þriggja ára trítla. Amman tók á sínum tíma á móti mér og tvíburunum á mömmumorgnum í Hallgrímskirkju. Þetta voru fagnaðarfundir og við spjölluðum örugglega í um tuttugu mínútur áður en við héldum ferðum okkar áfram.

Á föstudaginn var dreif ég í að láta klippa og snyrta á mér hárið. Kollurinn var orðinn frekar loðinn og allar línur horfnar úr hárinu. Það er allt annað að sjá mig núna. Í gær lét ég klippa strákana og nú vona ég að Davíð muni eftir að láta klippa sig fyrir fimmtudaginn. Það stendur nefnilega til að fara í allsherjar fjölskyldumyndatöku. Okkar fjölskylda, fjölskylda systur minnar og svo við öll með pabba og mömmu. Mér finnst þetta hálfgert vesen en það verður gaman að eiga svona myndir.

Það er búið að helluleggja fyrir framan og allt lítur ljómandi vel út núna. Ég ætti eiginlega að taka mynd af þessu núna til að geta borið saman fyrir framkvæmdir og eftir.

Ég náði myndum af strákunum í síðustu viku þar sem þeir voru að vaska upp. Þetta eru duglegir ungir menn sem ég er að ala upp. Þeir fá að vísu stundum svolítið "vondar" hugmyndir sem þeir framkvæma en hver hefur svo sem ekki gert skammarstrik?

Þetta var svona það helsta í bili. Vona að andinn hverfi ekki frá mér í aðra 10 daga.

4.9.06

- Helgin liðin -

Það var verið að helluleggja fyrir framan húsið í gær. Ekki náðist að ljúka verkinu þar sem efnið kláraðist. Davíð fór út þegar allt var komið í gang, fylgdist með um stund og sá að það var alveg pláss fyrir hann að taka þátt. Hann vatt sér því í verkefnið og taldi þetta lítið mál. Reyndar kom í ljós, rétt seinna, að hann var ekki að snúa "hellunum" rétt. Það var lagað með hraði og á klukkutíma kláruðu þrír menn það sem hægt var að gera. Það er ekkert svo mikið eftir en nú er stóra spurningin hvort það sér til akkúrat svona efni til að klára?

Þegar ég var rétt að komast heim seinni partinn í dag hringdi Oddur Smári og spurði hvenær hann ætti að leggja af stað í karate. Það var semsagt fyrsta æfing vetrarins í dag. Drengurinn var með allt klárt og ég þurfti bara að skipta um yfirhöfn og þurrka gleraugun mín áður en við gengum af stað yfir í Þórshamar. Vorum mjög tímanlega og komum á staðinn um leið og húsið opnaði. Keypti nýjan búning á strákinn, sá gamli var orðinn of lítill og þröngur. Var með bók með mér: Svartur á leik eftir Stefán Mána. Las mest allan tímann en stóð þó aðeins upp til að fylgjast um stund með æfingunni. Þau voru ekki mörg mætt, taldi bara níu en greinilegt var að þau höfðu engu gleymt þótt þau væru búin að vera í fríi í allt sumar (síðan í byrjun maí). Oddur Smári fór að sjálfsögðu í sturtu á eftir og gaf sér góðan tíma. við komum heim nokkru fyrir sjö, á undan hinum tvíburanum sem var úti að leika sér, en Davíð var kominn heim og búinn að hella sér í eldhúsverki.

2.9.06

- Nýr mánuður -

Hmm, hvað varð um ágúst? Reyndar voru fyrstu þrjár vikurnar af honum extra yndislegar þar sem ég var í sumarfríi. Engu að síður trúi ég því varla að það sé kominn september. Stend mig að því að grandskoða dagatalið. Og þegar það kemur svona veður eins og var í dag þá gæti maður haldið að það sé jafnvel hásumar ennþá, júlí eða eitthvað.

Allir voru komnir á fætur fyrir tíu. Davíð þurfti að skreppa smá stund á skrifsofuna og við mæðginin notuðum tækifæri og ryksuguðum yfir íbúðina. Davíð Steinn lenti í smá sandslag í gærkvöldi og það var sandur út um allt, en ekki lengur! :o)

Við skruppum í sund um hádegisbil. Þrátt fyrir þetta frábæra veður voru ekkert svo margir í sundi. Ég hafði amk nóg pláss í lauginni og synti 400m á bringunni og 100 á bakinu. Fylgdist um stund með feðgunum í boltaleik áður en ég skrapp í 40°C nuddpottinn.

Tvíburarnir voru boðnir í afmæli til "þríbura-"vinar síns, sem varð 10 ára í gær, seinni partinn og við hjónin skruppum í heimahús í Hafnarfirði þar sem Davíð hafði verið beðinn að kíkja á fartölvu.

Farið vel með ykkur og njótið hvers dags!

31.8.06

- Æfingar byrjaðar -

Það var fyrsta kóræfingin undir stjórn afleysingakórstjórans í gærkvöldi. Mestur tíminn fór reyndar í spjall. Þegar nokkuð var liðið á æfinguna bað Arngerður okkur um að kynna okkur. Við í alt og sópran byrjuðum, þar sem við sátum í fremri röð. Þegar kom að aftari röðinni kynnti bassinn sig: -"Ég heiti Kristinn, stundum kallaður Kiddi" sá sem var næstur hefur til þessa sungið tenór en er að færast yfir í bassann. Hann sagði: -"Ég heiti Kristinn..." Hann komst ekki lengra því sá fyrrnefndi greip fram í fyrir honum: -"Ég var búinn að segja það, þú mátt ekki segja eins og herma eftir mér." Við sprungum auðvitað úr hlátri en sá síðarnefndi heitir líka Kristinn og er oftast kallaður Kiddi.

29.8.06

- Tannréttingar framundan -

Einhverra hluta vegna skolaðist tíminn sem strákarnir áttu hjá tanngómssérfræðingnum til í dagbókinni hjá mér og ég sendi feðgana degi fyrr, í gærmorgun. Í morgun fékk ég að hafa bílinn, sótti strákana í skólann upp úr níu og var mætt með þá á réttum tíma og réttum degi til sérfræðingssins. Til að gera langa sögu stutta þurfa báðir strákarnir að fá góma. Það var tekið mót af þeim í morgun. Annar strákurinn fær lausan góm og þarf að mæta vikulega til til að herða á fjöðrum. Hann þarf samt ekki að hafa góminn nema í 3-4 mánuði. Hinn fær góm sem er skrúfaður fastur upp í hann og eigum við foreldrarnir að hreyfa skrúfu um eitt smá bil daglega í þrjár vikur. Gómurinn verður ekki tekinn burt fyrr en að sjö mánuðum liðnum.

Á svo ekki að kjósa Magna aftur og aftur og aftur og aftur eftir keppnina í nótt?

27.8.06

- Ein í smá stuði -

Hluta af gærdeginum hjálpaði Davíð mér að taka saman tölur fyrir ársskýrslu foreldrafélags DKR. Þetta er smá handavinna. Við erum ekki alveg búin að leggja saman allar tölur því það fór töluverður tími í að sortera þær í gær. Aðalfundurinn er ekki fyrr en seinni partinn í september en það er stjórnarfundur á morgun og þá langar mig til að leggja fram drög að ársskýrslu. Það er gott að geta leitað til Davíðs með þessi mál og hann telur það ekkert eftir sér. Ég hef reyndar ekki oft þurft að leita til hans vegna gjaldgeramála f. DKR sl. vetur, en samt amk einu sinni áður.

Þessi ætti að heita "Tindurinn eini" eða eitthvað í þá áttina. Annars er þessi staður í alfaraleið, átti bara ekki mynd af honum.

Strákarnir fjórir sem ég gat um hér að neðan: Ólafur Þór, Oddur Smári, Davíð Steinn og Einar Ólafur.

- Ein úr ferðalagssafninu -

Frá vinstri: Davíð Steinn, Jónína Freyja, Dagbjört Nótt, Oddur Smári og Einar Ólafur.

Við fengum gistingu í Kelduhverfinu síðustu nóttina okkar í ferðalaginu hjá frændfólki feðganna. Þetta var skemmtilegur sólarhringur. Tvíburarnir kynntust þarna tveimur drengjum á sínu reki og þeir náðu strax svo vel saman að maður vissi ekki af þeim allan tímann. Þeir spiluðu saman um kvöldið og hlógu mikið og voru úti að leika morguninn eftir.

24.8.06

þau vilja ekki
láta nota sig
fela sig
fyrir mér
orðin
það var eitthvað
sem ég ætlaði
að segja
það verður
að bíða
þangað til mun
ég hugsa
lesa sauma
eða
eitthvað

23.8.06

- Ýmislegt -

Það vill brenna við að drengirnir á heimilinu gleymi að loka hurðinni fram í hol á eftir sér þegar þeir fara út og þar að auki skilja þeir yfirleitt playstation-tölvuna eftir í gangi ef þeir hafa fengið að leika sér í henni. Þegar ég kom heim seinni partinn á mánudag var einmitt opið fram á gang og tölvan í gangi. Ég áminnti strákana og bað þá um að bæta úr þessu í framtíðinni (og það ekki í 1. skipti). Þegar ég kom heim um hálffimm í gær var opið fram á gang og tölvan í gangi. Hvernig í ósköpunum get ég fengið strákana til að muna eftir þessum atriðum?

Á mánudagskvöldið þurrkaði Oddur Smári upp með pabba sínum. Í gær vildi drengurinn fá að þvo upp leirtauið og bað mig um að þurrka með sér. Ég gat þá séð til þess að hann þvæði ekki upp úr ísköldu vatni. Ég var ekki búin að þurrka upp nema nokkra hluti þegar Davíð Steinn kom og bað um að fá að taka við af mér. Nú sé ég mest eftir því að hafa ekki munað eftir að mynda þennan tímamótaatburð; "bræður saman í uppvaski"!

Það var skólasetning í gær og strákarnir komu heim með lista yfir gögn og bækur sem nota á í vetur. Ég dreif mig í "Office one" í Borgatúni og fékk næstum allt sem var á listanum. Það vantaði eiginlega bara eitt: Skólakompa 2, hún var uppseld. Ég kíkti þá í Mál og Menningu við Laugaveg og fann tvö síðustu eintökin (hélt ég). Svo sögðu bræðurnir mér í dag að þetta hefðu ekki verið réttar bækur.

Skólinn hófst samkvæmt stundartöflu í morgun. Davíð Steinn og hans bekkur eru með nýjan kennara og fluttu þar að auki í nýja skólastofu. Þrír eru hættir í bekknum en þrír komnir í staðinn. Oddur Smári og hans bekkur eru með sama kennara og í sömu skólastofu. Tveir komu nýjir í bekkinn en einn er hættur. Stundartöflurnar eru svolítið ólíkar og þeir eru ekki endilega búnir á sama tíma í skólanum dags daglega. Það verður spennandi að sjá hvernig komandi vetur verður.

21.8.06

- Húrra fyrir mér -

Mér tókst að klára brúðarmyndina um helgina og á bara eftir að pressa jafann ramma inn myndina og hengja hana upp á góðum stað. Það er bara stutt síðan ég sá fyrir mér hvar myndin á að vera. Nú er smá spennufall hjá mér, ekkert stórt saumaverkefni í gangi, en reyndar er alveg kominn tími til að fara að huga að jólakortagerð og ég á meira að segja efni í nokkur til að sauma.

Annars var ég á röltinu heim á leið um fjögur leytið. Leiðin lá framhjá Blóðbankanum og mér datt í huga að droppa þar við og gefa smá. Þetta er í 15. sinn sem ég gef en það er rúmt ár síðan síðast. (og ég sem ætlaði að ná 20 skiptum fyrir fertugt).

19.8.06

- Enski boltinn að byrja aftur, landsleikur of fleira -

Liðið mitt, Liverpool, á fyrsta leikinn og spilar útileik við Sheffield United sem kom upp í úrvalsdeild sl. vor. Flestir leikir umferðarinnar verða spilaðir milli tvö og fjögur en Man. Utd og Chelsea spila sína leiki á morgun. Klukkan fjögur er svo landsleikur í kvennaboltanum, Ísland - Tyrkland. Það er bein útsending en líka frítt á völlinn. Þar að auki er menningarnæturhátíðin í allan dag og fram eftir. Göngugarpurinn lýkur göngu sinni um strandvegi landsins í dag. Sá er búinn að standa sig frábærlega.

Seinni partinn í gær skruppum við mæðginin á Grettisgötuna. Ég á tveimur jafnfljótum og þeir á hjólum. Við systur skruppum í Bónus til að útvega hressingu og náðum í Bríet í leikskólann á heimleiðinni. Já, sú stutta er byrjuð á Njálsborg og líkar lífið þar vel. Eftir að krakkarnir voru búnir að fá eitthvað í gogginn fóru þau út aftur. Við strákarnir kvöddum um hálfsex og þegar við vorum komin langleiðina heim spurðu þeir hvort þeir mættu heimsækja vinkonu sína síðan úr leikskóla en hún býr e-s staðar í norðurmýrinni. Ég bað þá bara um að vera komna heim um sjö. Þeir komu reyndar miklu fyrr því vinkonan var ekki heima.

En næsta hálftímann eða svo ætla ég að sauma smá. Ég er langt komin með myndina þótt ég hafi tekið mér pásur inn á milli. Tók hana meira að segja með í ferðalagið um daginn og greip í hana amk 3 sinnum.

Eigið góða helgi og farið vel með ykkur!

18.8.06


-Haldið upp á 2x10 -

Seinni partinn í gær buðu tvíburarnir bekkjabræðrum sínum með sér í keilu til að halda upp á það að þeir urðu tíu ára í sl. mánuði. Strákarnir fengu nokkra spilapeninga á meðan beðið var eftir að allir mættu. Davíð var með blað og skráði og skipti strákunum niður á brautir. Það var spiluð ein umferð á þremur brautum og notuðu drengirnir ýmsar aðferðir. Einhver uppgötvaði líka að það væri betra að vera í keiluskóm því strax eftir að hann var kominn í skó náði hann fellu. Í miðri keppni ákvað Davíð að þeir sem næðu fellu fengju 100 kr í verðlaun einnig verðlaunaði hann fyrir bestu taktana. Þetta hleypti ennþá meira fjöri í leikinn og það sem sumum datt í hug að prófa... Á eftir fengu allir gosglas (nema tveir sem vildu heldur vatn) og pizzusneiðar og nokkra spilapeninga í viðbót. Um hálfníu voru flestir farnir. Aðeins tvíburarnir, sem voru á hjólum, og tveir drengir, sem ætluðu að ganga heim og voru að spila "pool" voru eftir þegar við Davíð kvöddum.

Rétt fyrir níu komu strákarnir heim og var annar þeirra hágrátandi og allur í skrámum. Hann hafði látið sig vaða niður brekkuna frá Keiluhöllinni og kastaðist svo af hjólinu þegar hann reyndi að bremsa á of mikilli ferð í lausamöl. Grey strákurinn verður sennilega eitthvað stirður næstu daga.

17.8.06


- Fjölskylduferð í Viðey -

Í gærkvöldi fórum við út í Viðey með óháða söfnuðinum. Allir tóku með sér nesti, t.d. samlokur eða eitthvað á grillið og svo bauð séra Pétur upp á kúmen-svartbaunaseyði, mjög gott, mmmmmm! Krakkarnir léku sér í fjörunni og fundu ýmislegt þar, kuðunga, krabba og snigla. Í restina voru sungin nokkur lög saman og spilaði Pétur undir á gítar. Veðrið var ekki dónalegt og ferðafélagarnir frábærir. Viðeyjarferð er árviss atburður í óháða en þetta er í fyrsta sinn og ég er nokkuð viss um að við eigum eftir að fara aftur og aftur...

16.8.06

- Ferðasaga, annar kafli -

Að kvöldi annars dags ferðalagsins tjölduðum við rétt við Klaustur. Svo stutt var niður á klöpp að stinga varð hælunum lárétt niður. Á fimmtudagsmorguninn skelltum við okkur í sund á Klaustri áður en haldið var áfram. Gáfum okkur góðan tíma og skoðuðum nokkra fossa og fleiri fyrirbæri á leiðinni austur. Klukkan tíu um kvöldið vorum við komin á Egilsstaði. Eftir smá umhugsun ákváðum við að tjalda á Skipalæk við Fellabæ þar sem við höfðum bækistöðvar næstu dagana.

Morguninn eftir fórum við í kaffi til vinkonu minnar sem er nýflutt þangað austur. Hún sýndi okkur húsið og garðinn. Í einu grenitrjánna tók ég eftir allstóru geitungabúi sem vinkona mín hafði ekki vitað af. Gáfum okkur góðan tíma í kaffiþamb og spjall og áður en við kvöddum bauð hún okkur að koma aftur um kvöldið og grilla með þeim og fleiri gestum. Við keyrðum hring um Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Ætlun Davíðs var að fara með okkur í göngutúr aðeins upp með Breiðdalsá og sýna okkur helli sem hann lék sér stundum í með einum frænda sínum heitnum þegar þeir voru pattar. Veðrið var hins vegar ekkert spes, þokusuddi, svo við frestuðum þessu. Enginn var inni við á bænum þar sem tengdapabbi ólst upp svo við ákváðum að þyggja grillboðið og drifum okkur í Bónus á Egilsstöðum. Kvöldið var mjög skemmtilegt.

Á laugardeginum gerðum við aðra tilraun inn á Reyðarfjörð. Nú var veðrið með besta móti. Það var tekið vel á móti okkur í Þernunesi. Dóttursonur bóndans og báðir hundarnir á bænum fóru með okkur í göngutúrinn upp með ánni. Ævintýralega skemmtileg ferð þar sem var frekar fyndið að fylgjast með tilburðum tvíburanna þegar þurfti að vaða yfir. Þeim fannst kalt og óþægilegt að vaða og þegar þeir misstu skóna sína út í sagði ég þeim að fara í þá aftur. Þá gekk þeim betur að vaða. Hellirinn fannst en heldur þótti Davíð hann hafa minnkað. Þegar við komum til baka fengu tvíburarnir að sjá þegar eina kýrin var mjólkuð. Reyndar fengu þeir að prófa að tutla hana líka. -"Hvernig fannst þér það"? spurði ég Davíð Stein og það stóð ekki á svarinu: - "Svolítið eins og að koma við typpið á sér!" Okkur var boðin gisting sem við þáðum og sunnudeginum fengu strákarnir lánaða veiðistöng til að prófa að renna í einn hylinn fyrir neðan neðsta fossinn í ánni. Dóttursonur bóndans fylgdi okkur aftur. Ég tók með mér tvær tómar hálfslítra gosflöskur og fyllti þær af krækiberjum. Þetta var yndislegur tími og þegar okkur var boðið að vera áfram langaði okkur helst til að þyggja það. En við kvöddum seinni partinn á sunnudeginum og fórum að huga að tjaldinu.

15.8.06


- Í garðinum hjá tengdó -

Fyrsta stopp ferðalagsins, eftir að höfuðborgin hafið verið kvödd, var hjá tengdó. Þau voru búin að bjóða okkur í grillveislu og var veðrið svo gott að það var hægt að borða úti. Við vorum mætt um fimm og vorum ekkert að flýta okkur. Rúmum þremur tímum seinna héldum við ferð okkar áfram. Gerðum orstutt stopp á Selfossi til að strákarnir gætu þakkað fyrir afmælisgjöfina. Því næst ætluðum við að fá lánaðan svefnpoka á Hellu. Við fengum pokann lánaðan en pabbi bauðst líka til að tjalda tjaldvagninum í heimkeyrslunni og það varð úr að við þáðum það. Afinn svaf svo þar með tvíburunum og eldri dótturdóttur sinni en við Davíð fengum að sofa inni. Við fórum reyndar mjög seint að sofa því við notuðum tækifærið og horfðum á Rock Star Super Nova ásamt Helgu systur. Davíð kaus líka Magna nokkrum sinnum. Daginn eftir komu gestir til foreldra minna, suma gestanna hafði ég ekki hitt lengi þannig að við vorum ekkert að flýta okkur af stað. Kvöddum ekki Hellu fyrr en um miðjan dag.

Stoppuðum að sálfsögðu við Seljalandsfoss og kíktum bak við hann. Við fórum líka út í Dyrhólaey og sáum "Lunda" og "Skunda" m.a.

Feðgarnir á bak við Seljalandsfoss

14.8.06

- Erfitt að komast í gírinn -

Það er svolítið skrýtið að vera komin heim aftur. Við lögðum af stað í hringferð með áherslu á austfirðina þann 1. ágúst sl. Vorum fyrstu nóttina á Hellu, næstu nótt tjölduðum við rétt við Klaustur og fimm næstu nætur var tjaldið á Skipalæk við Fellabæ. Svo vorum við eina nótt á Raufarhöfn og þá síðustu í Kelduhverfinu, (Garði II). Seinasti dagurinn á ferðalaginu varð nokkuð langur, kvöddum frændfólk feðganna um hádegisbil, stoppuðum nokkrum sinnum á leiðinni og skoðuðum ýmislegt eða fengum okkur hressingu svo klukkan var að verða tvö eftir miðnætti þegar við komum heim.

Föstudagurinn var bara letidagur. Ég tók dótið mitt úr bílnum en feðgarnir fóru á ættarmót á laugardeginum og voru fram á sunnudag. Ég fór ekki með því ég hafði verið beðin um nokkuð sem ekki var hægt að neita. Flaug austur á Egilstaði um miðjan dag á laugardag og var svaramaður æskuvinkonu minnar er hún gekk í það heilaga síðdegis sama dag. Fámenn, látlaus og notaleg athöfn og grillveisla í heimahúsi fyrir rétt rúmlega tuttugu manns á eftir. Ég og foreldrar brúðarinnar fengum svo að gista í sumarhúsi tengdamömmunnar. Þetta var bara yndislegt allt saman!

Aðeins aftur að ferðalaginu. Við tókum yfir tvöhundruð myndir, sumarhverjar nokkuð skemmtilegar og það er aldrei að vita nema ég birti eina og eina mynd og segi svolítið meira frá ferðalaginu í leiðinni.

Í gærkvöldi var svo fyrsta messa eftir sumarfrí. Það vantaði aðeins 6 (þar af eru líklega 2 að taka sér pásu fram yfir áramót) í kórinn (vorum 11) því við vorum öll svo spennt yfir að hitta afleysingaorganistann. Arngerður María, eða Adda eins og séra Pétur kallaði hana, var mjög ánægð með mætinguna. Hún er búin að leysa af í tveimur kirkjum í sumar og kallaði það bara gott ef það mættu 5 til að syngja í kórum þeirra kirkna. Messuhaldið gekk vel og það var gott að byrja aftur.

Ég er á leiðinni á fyrsta fund vetrarins með stjórn foreldrafélags DKR. Áður en ég veit af verður allt komið á fullt aftur...