30.6.17

Með sjöunda sjalið á prjónunum

Síðasti dagur sjötta mánuðar ársins er næstum búinn, 181 dagar að verða liðnir og 184 dagar eftir. Er það ekki magnað? Og árið sem er rétt nýhafið. Ég fékk bréf í vikunni frá ensku pennavinkonu minni og jafnöldru. Hún hafði nokkur orð um margt af því sem ég skrifaði henni í jólabréfinu og með hennar bréfi sendi hún einnig tvær myndir af sér. Á annarri myndinni var hún úti að borða með manninum sínum og á hinni var hún með vinkonu sem var að fara í fallhlífarstökk.

Hitti Brynju vinkonu á miðvikudaginn. Hún sótti mig heim um fimm og við skruppum á Gló í Hæðarsmára þar sem við fengum okkur grænmetislasanja og gleymdum tímanum við spjall næstu rúmlega þrjá tímana.

Síðasta messa fyrir sumarfrí var gúllasmessa sl. sunnudagskvöld kl. sex. Ætlum að prófa að hafa hana aftur á sama tíma að ári og sjá svo til hvort við munum halda okkur við þann tíma en fram að þessu voru þessar gúllasmessur, kl.11:00 fh. fjórða sunnudag í júní mánuði. Nú á heimasíðu og útgáfunefndin eftir að taka saman efni í safnaðarfréttirnar og setja í uppsetningu og prentun þannig að blaðið komi út fyrri partinn í ágúst.

Er annars búin að skreppa austur og vera yfir eina nótt allar helgar eftir hvítasunnuhelgina. Laugardaginn 10. júní fylgdi ég fyrrum nágranna foreldra minna, konu sem varð níræð í mars. Eftirlifandi maki hennar verður 97 ára 12 júlí n.k. Þessa sömu helgi var bongóblíða á Hellu. Ég sat um stund með prjónana mína á pallinum sunnan við hús foreldra minna og allt að því brann á bringunni.

Margt annað hefur drifið á daga mína, t.d. skrapp ég í bókasafnið. Kom líklega með heldur margar bækur með mér til baka þótt þær hafi ekki verið eins margar og ég tók hér áður fyrr. Málið er að nú fer miklu, miklu meiri tími í prjónaskap en lestur. Er einnig búin að fara 4 ferðir í sjóinn  en mætti vera duglegri við það. Það fara að nálgast tvær viku síðan ég fór síðast. Mitt mottó er að fara helst þegar er dumbungur, þá er líklegar að mun færri mæti þótt það séu nú alltaf einhverjir að stunda þetta daglega.

28.6.17

Í sjálfskipuðu tölvubindindi sem kemur niður á bloggskrifum í staðinn

Nú er árið rétt að verða hálfnað, þessi mánuður klárast eftir föstudaginn og þetta er aðeins önnur færslan mín í júní. Samt hefur alveg verið nóg að gerast í kringum mig. Ég tók það upp hjá mér að vera ekki að kveikja á tölvunni dags daglega og þá fáu daga sem ég þurfti að kveikja, t.d. til að senda inn tilkynningar um messur þá  notaði ég ekki tækifærið og skráði inn eitthvað af atburðum liðinna stunda. En þetta sést þegar bloggsíðan er opnuð, engar hreyfingar frá því um hvítasunnuna.

Er ekki alveg í stuði til að taka saman það helsta akkúrat í dag en sjáum til hvort á geti mannað mig upp í smá samantekt á morgun eða föstudaginn kemur.

4.6.17

Hvítasunnuhelgi

Tvisvar í síðustu viku kom upp bilun í deildinni minni sem setti strik í reikninginn varðandi vinnslu á daglegum verkefnum. Í fyrra tilfellinu náðum við að klára um níu um kvöldið en í seinna tilfellinu fékk ég að skreppa í sund og koma svo aftur tilbúin í að vinna eins lengi og þörf krefði þegar allt komst í gang aftur. Það kvöldið kom ég heim rétt um miðnættið og mætti því ekki í vinnu aftur fyrr en um hádegið daginn eftir.

Á föstudaginn lánaði ég bræðrunum bílinn til að fara saman í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu. Strákarnir voru nýfarnir þegar ég kom heim úr vinnu. Systir mín og fjölskylda (mínus Cara, annar hundurinn sem var sett í pössun fyrir norðan) voru á leiðinni suður. Þau komu um átta en fóru strax aftur í smá útréttingar. Bríet varð eftir hjá mér og við frænkur áttum góða stund saman. Hulda gisti hjá kærastanum en systir mín, mágur og minni hundurinn komu aftur um ellefu leytið og bjuggu um sig í stofunni.

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur um átta, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og útbjó hafragraut. Tímdi ekki að drífa mig í sundið fyrr en gestirnir drifu sig með allt sitt dót til að sækja eldri dótturina og kærastann og líta við í Costco áður en þau drifu sig austur. Ég kom heim úr sundi um ellefu og þá voru báðir synirnir vaknaðir og annar á leiðinni í sturtu. Við komumst af stað austur tæpum klukkutíma síðar. Hinir fjölskyldan var komin á Hellu á undan okkur. Um kaffileytið bættust þrír í hópinn og nokkru síðar aðrir tveir. Áttum afar skemmtilega stund saman fram eftir kvöldi. Við mæðgin komum í bæinn aftur rétt fyrir miðnætti og þá var búið að teppaleggja sameignina en gamla teppið var rifið af fyrr í vikunni. Það kom málari og lauk við að mála sameignina á tveimur dögum svo nú er sameign risíbúðar og efri hæðar orðin fín.