- Vó, það er föstudagur á morgun -
Hvert er tíminn eiginlega að æða? Ég held það séu bara þrír dagar í vikunni; mánudagar, föstudagar og sunnudagar. Það er í nógu að snúast hjá mér þessa dagana og þykir mér alveg nóg um þegar ég hef ekki einn einasta auka tíma til að lesa eða sauma út. Að vísu kemur alltaf smá tími á kvöldin en þrátt fyrir að eyða þeim tíma ekki fyrir framan imbann þá fer hann bara í annað. Undan farnar vikur hefur mér fundist sem ég sé mjög tvístígandi, annars vegar fiskurinn sem berst með straumnum og hins vegar fiskurinn sem syndir á móti. Þetta hefur bæði sína kosti og galla. Þeir sem þekkja mig ágætlega vita að ég á það til að gera of mikið úr hlutunum stundum og veit ég stundum ekki í hvorn fótinn ég á að stíga varðandi ýmislegt (bæði stórt og smátt). Svo komar tímar þar sem ég tek af skarið, ákveð mig varðandi eitthvað og þá verður mér ekki haggað. Sl. sólarhring er ég búin að afreka það að sækja varahluti í Fíatinn, glitauga og felgu sem ég lét setja undir hann í dag. Í leiðinni var gert við aðra felgu og sett ný slanga í dekkið utan um þá felgu. Í heimleiðinni kom ég við í Lágmúlanum og keypti mér eitt stykki nýja þvottavél. Gamla Eumenia Sparmester vélin er búin að skila sínu og vel það en við fengum hana jólin 1991. Þessi sem ég fæ á morgun er 1200 snúninga og tekur helmingi meiri þvott og en er lengur að þvo. Ég get ekki beðið eftir að prófa hana en þvottafjallið sem er búið að safnast upp sl fjóra daga verður líklega ekki lengi að hverfa.