30.6.22

Tveir vinnudagar í viðbót

Þrátt fyrir að veðrið væri tilvalið til göngu í gærmorgun ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með mér. Ég var á ítroðsluendanum en það var smá basl að koma framleiðsluvélinni í gang. Þurfti að taka hana niður og endurræsa þrisvar sinnum áður en hægt var að hefja framleiðslu. Fyrsti daglegi skammtur var þó tilbúinn rétt rúmlega níu. Byrjuðum á einni tegund í næstu framleiðslu áður en sú sem var í bókhaldinu útbjó fyrstu tölur og talningu. Töldum áður en við fórum í kaffi. Næstu framleiðslu lauk um það bil sem þriðja og síðasta framleiðslan, hádegisskammturinn, skilaði sér til okkar. Daglegri framleiðslu lauk korter yfir tólf. Eftir hádegi kláruðum við að pakka og telja áður en við snérum okkur að endurnýjun. Endurnýjuðum 1000 kort. Hættum framleiðslu rétt fyrir hálffjögur og vorum búnar að taka saman og ganga frá rúmu korteri síðar. Ég átti svo að fá að halda áfram í fríi. Hafði samt eitthvað á tilfinningunni að ég væri ekki alveg laus. Dreif mig í sundhöllina og í klefanum þar vatt sér að mér 3-4 ára stúlkubarn sem sagði að ég væri voða flott kona. Fór beinustu leið í kalda pottinn og ætlaði svo upp í innilaug. Þar var mikið fjör á stóra stökkbrettinu svo ég fór í heitasta pottinn, annan af elstu pottunum, í nokkrar mínútur. Allt var orðið rólegt í innilauginni eftir pottferðina svo ég fór á braut 1 og synti í korter áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Var komin heim um hálfsex. Þá biðu mín skilaboð frá yfirmanni að sú sem var í fríi síðustu vikuna væri komin með covid-19 og var ég spurð hvort ég gæti unnið fram að helgi. Ég samþykkti það og ætti svo að fá að halda áfram með fríið til og með 25. júlí.

29.6.22

Síðasti útkallsdagur

Vaknaði um sex. Sá til þess að vekjarinn myndi ekki hringja á sínum tíma og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu þar til kominn var tími til að labba af stað í vinnuna. Vorum bara tvær í vinnu í gær. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég mætti til að prenta út fyrstu framleiðslutölur var að ein skráin var á núlli. Sendi póst til að kanna málið og þegar leið á morguninn kom í ljós að um bilun hafði verið að ræða. Skráin kom til okkar um tíu. Á meðan unnum við í hinni daglegu skránni. Ég var á móttökuendanum og í bókhaldinu. Það sem venjulega er tilbúið til afhendingar kláraðist um hálftólf. Vorum til klukkan hálfeitt að klára allt daglegt. Eftir hádegi urðum við að afhenda framleiðsluvélina. Við töldum, pökkuðum og gengum frá og ákváðum svo að stinga af um þrjú. Ég fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert út aftur. Aðeins niður í þvottahús að sækja þvott af snúrunum. Er byrjuð að lesa skammtímalánsbókina sem er yfir fimmhundruðogtuttugu blaðsíður. Er búin með fyrstu 140 blaðsíðurnar. 

28.6.22

Þriðjudagur

Sem oftast áður vaknaði ég nokkru áður en vekjaraklukkan átti að ýta við mér. Slökkti á henni og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu þar til kominn var tími til að labba í vinnuna. Ég var á ítroðsluendanum með lánsmanneskjuna með mér á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk um hálfeitt. Eftir hádegi héldum við áfram endurnýjun til klukkan að verða hálffjögur. Sú sem var í bókhaldinu hélt áfram að flokka kennispjöld þegar bókhalds og pökkunarvinnu var lokið. Hún bauð mér far heim eftir vinnu sem ég þáði. Stoppaði heima í tæpa klukkustund en þá tók ég bókasafnspokann og sunddótið með mér. Fór fyrst á safnið og skilaði fjórum bókum. Fann sex aðrar, sem samtals eru yfir tvöþúsundogfjögurhundruð blaðsíður. Hélt að þær væru allar á 30 daga skilafresti því ég fór ekkert í rekkann með nýjustu bókunum. Samt var eina af þessum sex ný og með 14 daga skilafresti. Bók sem er yfir 500 blaðsíður. Af safninu fór ég í Sundhöllina. Settist fyrst í kalda pottinn rétt fyrir hálfsex. Fór svo á braut 1 í innilauginni og synti 300 metra áður en ég fór beint í þann kalda aftur. Svo smá stund í gufu og uþb tvær mínútur á bekk úti áður en ég fór upp úr og heim aftur. 

27.6.22

Mánudagur

Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Vafraði um á netinu í rúman klukkutíma. Rétt áður en ég skutlaðist með Davíð Stein upp á N1 við Gagnveg setti ég uppþvottavélina í gang. Eftir skutlið ákvað ég að fara í sund í Grafarvogslaug. Synti í um 15 mínútur, fór þrisvar sinnum í kalda pottinn, einu sinni í heitan pott og einu sinni í gufu. Var komin heim aftur um ellefu leytið. Uppþvottavélin var búin. Tók til nokkrar óhreinar flíkur og fór með niður í þvottahús. Rúmum tveimur tímum síðar fór ég aftur niður og hengdi upp úr vélinni. Annars er mest lítið að frétta. Er búin að lesa allar bækur sem ég er með af safninu en bókasafnið er lokað á sunnudögum í sumar. Þá kemur sér vel að eiga ólesnar "jóla/afmælisgjafa" bækur. 

26.6.22

Síðasti sunnudagur júnímánaðar

Vaknaði rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Dreif mig á fætur og gaf mér tíma til að vafra um á netinu og setja inn færslu á þessum vettvangi. Davíð Steinn kom fram rúmlega sjö. Ég skutlaði honum upp á Gagnveg og þáði kaffibolla í staðinn. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Ég er skráð með ferðavikur núna en það er meiri afsláttur á ódýrustu stöðunum heldur en á öllum hinum þrátt fyrir afslátt á hinum en ekki á þeim ódýrustu. Næst lá leiðin í Sundhöllina. Lagði á stæði við Austurbæjarskóla líkt og ég geri oftast. Var komin í kalda pottinn rúmlega átta tuttugu og rétt fyrir hálfníu fór ég á braut eitt í innilauginni. 48 mínútum síðar var ég búin að synda 1000 metra, 40x25 og langflestar ferðirnar á bakinu. Synti 6x25 skriðsund og 4x25 bakskriðsund og allar hinar baksund. Semsagt engin bringusundsferð. Settist svo aðeins út í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í þann kalda og svo gufuna. Eftir gufuferðina fór ég í útisturtuna og eina enn ferð í þann kalda. Settist svo smá stund á bekk áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Eftir sundið fór ég á þvottastöðina við Fiskislóð og keypti eina ferð fyrir bílinn. Að lokum kom ég við í Krónunni þar skammt frá og verslaði smávegis inn. Kom heim aftur upp úr klukkan ellefu. Gekk frá vörunum og fitjaði svo upp á nýrri tusku með drekamynstri. 

25.6.22

Á skutlvaktinni

Notaði bílinn til að komast í vinnuna í gærmorgun og hafði sjósundsdótið með mér í skottinu. Ég var í bókhaldinu en um hálftíu þurfti lánsmanneskjan að skreppa aðeins frá svo eftir morgunkaffi og fram að hádegi fór ég á móttökuendann á vélinni. Þegar allt daglegt var búið sáum við til þess að allur póstur væri tilbúinn til afgreiðslu úr húsi áður en við fórum í mat. Lánsmanneskjan var komin aftur þegar við fórum inn eftir mat. Hún og hin fóru því inn á vél að vinna í endurnýjun en ég pakkaði dk-daglegu kortunum í útibú og undirbjó talningu fyrir seinni tvo skápana, hinir tveir voru taldir eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Þegar daglegum verkum bókarans var lokið, talningu og frágangi, fór ég að flokka kennispjöld. Hafði aðeins komist í það um morguninn og allt í allt flokkaði ég úr tveimur kössum, rúmlega þúsund spjöld og þá eru aðeins 14 kassar af óflokkuðum kössum eftir. Hættum vinnu og vorum búnar að ganga frá rétt fyrir klukkan hálffjögur. Þá fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. Það var flóð ég synti og svamlaði út að kaðli og var í 11°C sjónum í uþb tuttugu mínútur.  Kom heim stuttu fyrir fimm. 

24.6.22

Vaknað á undan vekjaraklukkunni

Ég var komin á fætur korter yfir sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofusófa með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna og fór yfir Skólavörðuholtið. Ég vann á ítroðsluendanum á vélinni og með lánsmanneskjuna með mér á hinum endanum. Kláruðum allt daglegt rétt rúmlega tólf og eftir hádegi framleiddum við yfir tólfhundruð kort í endurnýjuninni sem byrjað var á í gær. Fékk far heim úr vinnunni en fór ekkert út aftur. 

23.6.22

Fimmtudagur

Ég var vöknuð áður en vekjarinn átti að hringja og slökkti bara á honum. Hafði ágætan tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég fór á bílnum í vinnuna. Var mætt fyrst á vinnusvæðið mitt og sú sem átti líka að mæta hafði samband rétt fyrir átta, föst í smá morgunumferðarsultu. Yfirmaður okkar mætti svo líka á svæðið og var inni á vél með hinni til rúmlega tíu en þá fengum við lánaða manneskju úr seðlaverinu sem ætlar að vera með okkur næstu vikuna. Ég var í bókhaldinu og fékk að leysa þar úr ýmsum flækjum. Yfirmaðurinn fór um hádegi. Hinar tvær kláruðu daglega framleiðslu fyrir tvö og unnu svo að endurnýjun til klukkan að verða hálffjögur. Ég sá um að pakka eða ganga frá daglegu debetkortunum í póst. Eftir vinnu fór ég beinustu leið í Sundhöllina. Fór tvisvar í kalda pottinn og synti 300 metra. Kom heim upp úr klukkan fimm. 

22.6.22

Frestun á fríi

Þegar ég kom á fætur rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun voru allir heimilisfastir farnir nema hundarnir Vargur og Cara sem voru niðri í kjallara. Ingvi og Aron farnir í vinnuna og Helga og Hulda inn á Akureyri að sinna nauðsynlegum erindum. Ég hellti mér upp á kaffi, vafraði um á netinu, las og prjónaði. Mæðgurnar komu heim um ellefu. Rétt rúmum klukkutíma síðar kvöddum við Oddur eftir að hafa fermt bílinn. Oddur sá um aksturinn. Mágur minn hafði skráð bílnúmerið hjá sér þannig að við gátum keyrt í gegnum Vaðlaheiðargöngin án þess að spá nokkuð í það. Stoppuðum við AO við Baldursnes og fylltum á tankinn. Svo héldum við áfram suður á bóginn. Þegar við nálguðumst Blöndós vorum við búin að ákveða að það væri fínt að halda áfram og stoppa í Staðarskála. Þangað vorum við komin korter fyrir fjögur. Notuðum salernin fyrst en fengum okkur svo rétt dagsins. Vorum ekki lengi að borða og stoppið var uþb hálftími. Við vorum samt ekki komin mjög langt áfram áleiðis heim þegar við þurftum að stoppa í bílaröð og bíða í einn og hálfan tíma þar sem hafði orðið óhapp og hjólhýsi þveraði veginn. Sjúkrabíll kom fyrstu á svæðið, svo tækjabíll frá slökkviliðinu og að lokum lögreglu bíll. Einhverjir í röðinni okkar meginn snéru við en flestir biðu rólegir. Klukkan var langt gengin sex þegar við gátum haldið för áfram og vorum komin heim um átta. Fengum stæði fyrir framan hús og komumst inn með flest allt úr bílnum í einni ferð. Oddur skildi tjaldið sitt eftir og ég sunddótið.

En ástæðan fyrir því að yfirmaður minn hafði samband við mig í fyrradag er sú að ein þeirra sem á ekki að fara í frí fyrr en ég er komin úr fríi þurfti að fara í bráðaaugnaðgerð og má ekki mæta í vinnu næstu tvær vikurnar. Og tvær af hinum þremur eru með skipulagt frí næstu daga svo þá var aðeins orðin ein eftir á vaktinni. Ég er hvort sem er ekki með allt fast planað svo ég sagðist geta frestað fríinu mínu í bili.

21.6.22

Sundferð á Laugar

Rumskaði rétt fyrir sjö þegar mágur minn og systir mín voru að gefa hundunum og fá sér ketókaffi skammtinn. Ég sofnaði aftur en svaf bara í rúma klukkustund. Þá var Ingvi farinn í vinnuna, hundarnir aftur niður og systir mín búin að leggja sig aftur. Fljótlega komst þó hreyfing á hluta af mannskapnum. Vinkonan sem á hundana Ösku og Þrumu kom fram um hálfníu, hellti upp á, nettengdi sig og fjarvann í rúma klukkustund. Önnur vinkona og maður hennar sem voru í hjólhýsi komu inn að fá sér smá kaffi. Vinkonurnar þrjár (systir mín í hópnum) skruppu svo aðeins inn á Akureyri. "Norska" fjölskyldan var þá byrjuð að pakka og fékk sér einnig hressingu. Þau kvöddu um hálftólf, klukkutíma áður en vinkonurnar skiluðu sér frá Akureyri. Um hálftvö voru allir gestir farnir nema við Oddur Smári. Við ákváðum að skreppa í sund inn á Laugar en það eru rétt tæpir 24km þangað frá Árlandi. Ekki fékkst nógu stór skýla á Odd en hann fór í sturtu og beið svo bara rólegur eftir mér. Tveir voru í öðrum heita pottinum þegar ég kom og skellti mér beinustu leið í 4°C kalda pottinn. Hinir fóru upp úr fljótlega en ég synti í 20 mínútur, fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn og eina í heitasta áður en ég fór inn og þvoði á mér hárið. Bauð Oddi upp á snarl í Dalakofanum og svo skruppum við örstutt til Húsavíkur í bakaleiðinni. Vorum þá búin að taka nokkurs konar hring þegar við komum aftur á Árland. Á áttunda tímanum fékk ég facebook skilaboð frá fyrirliðanum úr vinnunni um að næsti yfirmaður okkar væri búin að vera að reyna að ná í mig. Ég hafði ekkert orðið vör við símhringingarnar en hringdi til baka um leið og ég fékk skilaboðin. Meira um það mál á morgun.

20.6.22

Enn í norðlensku sveitinni

Fór á fætur um átta. Aðeins einn átta ára gutti var kominn fram. Ég hellti samt upp á fulla könnu af kaffi ef ske kynni að einhver kaffiþyrstur kæmi fram eða inn fljótlega. Setti kaffið á brúsa og settist inn í stofu með einn bolla. Drakk einn sopa og lagði bollann frá mér í gluggakistuna. Ræsti tölvuna, vafraði aðeins um á netinu og ætlaði svo að taka annan sopa af kaffinu. Þá var drukknuð fluga fljótandi í því. Setti inn eina færslu áður en ég fór inn í eldhús og hellti niður kaffinu, skolaði bollann og fékk mér nýtt. Engin hreyfing var á fólki langt fram eftir morgni. Varð þó vör við að hluti af þeim sem voru í tjaldvögnum eða fellihýsum kæmi aðeins út á blett, sumir til að fá sér "ferskt" loft en hurfu svo aftur inn í sínar vistarverur. Um ellefu var samt allt komið á fullt inni við að undirbúa morgunhádegisverð, egg, beikon og lummuklattar. Rétt upp úr hádeginu kvöddu pabbi, Davíð Steinn, Bríet og Arnar vinur hennar og lögðu af stað suður. Þau lentu í smá ævintýrum á leiðinni og þurftu m.a. að keyra Hvalfjörðinn vegna umferðaróhapps við eða í göngunum. Fleira fólk týndist af svæðinu en það voru ekki allir að fara, sumir skruppu í sund inn á Laugar eða á Akureyri en hluti af því fólki kom aftur. Ég ákvað að vera hundahirðir og taka því rólega. Var að lesa og prjóna megnið af tímanum. 

19.6.22

Leikir og fjör

Dagurinn byrjaði mjög snemma hjá mér. Sex svangir hundar í kjallaranum, fjórir þeirra fylgdu tveimur af gestunum, létu vita að þeir væru svangir og vildu komast út að pissa eitthvað á sjöunda tímanum. Þar að auki var átta ára drengur, nýkominn frá Noregi vaknaður, kominn upp í eldhús og byrjaður að horfa á eitthvað í IPadinum sínum án þess að vera með eitthvað á eyrunum. Kannski var það líka það sem gerði hundana frekar ákveðna um að hætta ekki að væla fyrr en einhver sinnti þeim. Mágur minn tók að sér að sinna hundunum fljótlega, fyrir klukkan sjö held ég örugglega. Ég þurfti hvort sem er að sinna morgun verkunum á baðherberginu og fór á fætur um hálfátta. Annars var fólk að koma á fætur á mismunandi tímum alveg fram að hádegi. Það var svolítið rok en hætt að ringa og þegar leið á daginn reif hann af sér og sólin braust fram. Um þrjú söfnuðust flestir saman á flötinni við húsið. Sú sem bjó til viðburðinn; Árlandsleikar 2022 tók að sér að skipta í fjögur lið og stýra leikjunum. Það náðist í fjögur 4-5 manna lið og keppt var í fimm greinum. Það var mikið fjör og mikið gaman og allir stóðu sig vel. Sú sem stjórnaði sagðist svo þurfa nokkra tíma til að reikna út stig til að finna út hvaða lið hefði unnið. Svo var grafin hola og grilluð nokkur læri sem höfðu verið í marineringu í álpappír frá því kvöldið áður. Með þessu var boðið upp á kartöflulallat, sallat, pikknikk kartöflur og kalda bernessósu. Svo var stuð langt fram á nótt, úti og inni. Ég fór að sofa um eitt en ég veit ekkert hve lengi partýið stóð.

18.6.22

Hundastóð

Það var komin rigning þegar ég fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Eldsnemma voru heimalingar, ungur strákur og hundarnir fjórir að heimta athygli. Einhverjir af tjaldbúunum höfðu flúið inn. Aðrir sváfu á sínu græna þrátt fyrir bleytu. Tjöld sona minna stóðust þó öll próf og þeir sváfu fram eftir morgni. Ég var búin að kveikja á tölvunni um níu og viðmótið mundi eftir innskráningunni á heimanetið í sveitinni frá því í fyrra. Mágur minn færði mér kaffibolla inn í stofu og ég vafraði um á netinu í tæpa klukkustund. Átti svo eftir að logga mig inn aftur í um hálftíma seinni part dags. Synir mínir og eldri systurdóttir skruppu á mínum bíl inn á Akureyri, Davíð Steinn til að hitta vinnufélaga og kíkja á bíladaga. Vinnufélaginn skutlaði honum í sveitina aftur um miðjan dag. Yngri systurdóttir mín og vinur hennar fengu lánaðan sér bíl og fóru líka inn á Akureyri. Um miðjan dag fóru sjö gestanna á tveimur bílum í Skógarböðin við Akureyri og létu vel af þegar þau komu til baka. Ein úr hópnum sagðist þó ekki þurfa að fara þangað aftur. Og svo bættist við og ræktendur Vargs og vinafólk systir minnar og mágs komu með fellihýsi og fjóra hunda, m.a. hundamömmuna. Þegar allir sem skruppu frá voru komnir aftur til baka voru grillaðar risapylsur sem Bríet hafði búið til í SS frá grunni og komið með. Pylsurnar voru svo skornar niður í pylsubrauðastærð og var meira en nóg til handa öllum sem vildu. Ég opnaði hvítvínsbeljuna mína og varð svo að koma henni fyrir í ísskápnum niðri. Hluti af tjaldbúunum fengu að búa um sig inni í húsi, uppi í risi eða niðri í kjallara og ró komst á allt upp úr miðnætti. 

17.6.22

Árlandsleikar

Sundáformin í gærmorgun runnu út í sandinn en um hádegisbilið ákvað ég að skreppa í Eins og fætur toga og kaupa mér nýja strigaskó. Greip í tómt í Kópavoginum en síðan ég var þarna síðast á ferðinni er fyrirtækið alfarið flutt upp á Höfða. Ég fór því þangað en keyrði í leiðinni alls konar krókaleiðir um Kópavog. Fékk skóna, aðeins aðra tegund þó. Átti að fá að velja mér lit en þegar til kom var fjólublár ekki til í minni stærð. Sætti mig við svarta í staðinn og keypti einnig fjögur pör af sokkum. Á leiðinni heim aftur kom ég við í vínbúð og keypti mér einn kassa af hvítvínsbelju. Uppþvottavélin var á fullu þegar ég kom heim og á meðan ég beið eftir því að hún lyki sínu starfi pakkaði ég niður því helsta, m.a. fartölvunni. Upp úr klukkan hálfþrjú vorum við mæðginin búin að ferma bílinn. Davíð Steinn fékk okkur til að koma við í Rúmfatalagernum þar sem hann keypti tvær dýnur. Oddur Smári keypti eitthvað að drekka í Hagkaup handa þeim bræðrum. Næsta stopp var á AO stöðinni við Borgarnes þar sem ég fyllti á tankinn. Ferðavikurnar mínar eru byrjaðar að tikka inn. Ekki þurfti að setja nema 22 lítra á og við hefðum örugglega komist til Akureyrar á því sem fyrir var á tanknum. Hefði líklega verið ódýrarar að nota frekar stöðina í Baldursnesi. Oddur var búinn að fá sér orkudrykk og var eiginlega mál að skila honum. Við keyrðum samt alla leið að Staðarskála áður en við stoppuðum aftur. Þar notaði Davíð Steinn N1 afsláttinn sinn og bauð okkur að borða um hálfsjö. Og þar drakk ég fyrsta og eina kaffibolla dagsins. Stoppuðum ekkert aftur fyrr en við komum í sveitina til systur minnar og mágs. Fórum skarðið en ekki göngin því við vissum ekki að Ingvi væri búinn að skrá bílnúmerið mitt inn í kerfið hjá sér. Klukkan var alveg að verða tíu þegar við mættum á svæðið. Tvö tjöld voru þegar risin upp, strákarnir settu upp sín á milli þeirra og það áttu eftir að rísa þrjú tjöld í viðbót. Pabbi og Bríet komu rétt fyrir miðnætti. Bríet fékk lánaðan annan bílinn hjá foreldrum sínum til að sækja vin sinn inn á Akureyrir. Hann kom þangað með strætó út bænum. Sá er ekki með síma svo þau höfðu enga leið til að ná í hann og bjóða honum að sitja í með sér. Ég velti því fyrir mér hvort það væri öruggt að vinurinn væri að koma, en þau komu tvö til baka og hann var með tjald sem þurfti ekki mörg handtök við að tjalda. Hef hitt þennan strák áður, skemmtilegur fýr. Það var sett upp rúm með sæng og allt fyrir mig í stofunni, stærsta herberginu og pabbi fékk herbergið hennar Bríetar/Brynju (vinkonu systur minnar og mágs). 

16.6.22

Í ferðahug

Gærdagurinn var rólegur framan af og jafnvel allur ef út í það er farið. Dútlaði við ýmislegt framyfir hádegi. Strákarnir skruppu í Sorpuferð um tvöleytið og annar þeirra ryksugaði yfir gólfin þegar þeir komu aftur. Ég skrapp svo í Sports Direct og keypti mér fjóra nýja sundboli. Síðan fór ég langleiðina út að Gróttu en þar rétt hjá er nýlega búið að opna nýtt veitingahús; Ráðagerði. Ég ákvað að bjóða mér upp á kaffi og hálfmána áður en ég fór heim aftur.

Annars verður vegur lagður undir hjól í dag og liggur leiðin norður í land. Ég mun að öllum líkindum taka fartölvuna með mér en það gæti alveg farið svo að skrifin munu liggja niðri að einhverju eða öllu leyti. Það er þó alls ekkert víst. Þetta er orðið svo mikil rútína hjá mér að punkta niður það helsta og það er alltaf best að gera það á meðan atburðir eru sem ferskastir. 

15.6.22

Hundraðsextugastiogsjötti dagur ársins

Í gærmorgun var ég komin á fætur og búin að setja í þvottavél fyrir klukkan átta. Hengdi upp úr vélinni um tíu. Skrapp með tvær bækur og skilaði á bókasafnið. Verið er að taka í notkun nýtt kerfi og á meðan það ferli er í gangi er engin sjálfsafgreiðsla heldur verður maður að fá afgreiðslu. Það gekk vel. Kíkti aðeins í kringum mig en ákvað að láta ekki freistast. Er með fjórar bækur af safninu hér heima. Frá bókasafninu í Kringlunni lá leiðin í Sundhöllina. Þar byrjaði ég að venju á því að setjast í kalda pottinn í uþb fimm mínútur. Síðan fór ég á braut einn, innstu brautina, í innilauginni og synti í fimmtán mínútur. Synti flestar ferðir á bringunni en fór þrjár skriðsundsferðir. Var tæpar tíu mínútur í heitasta pottinum áður en ég fór aftur í þann kalda. Svo tíu mínútur í gufu, sturtu og enn og aftur kalda pottinn. Settist svo á bekk í smá stund áður en ég fór upp úr og heim. Gerði annars mest lítið af mér afganginum af deginum nema setja aftur í þvottavél seinni partinn. 

14.6.22

Rólegheit

Svaf út í gærmorgun og fór ekki á fætur fyrr en um níu. Morguninn var því extra fljótur að líða. Ekki það að mér finnist tíminn vera neitt lengi að líða því það er mun frekar í hina áttina að hann líði alltof hratt. Rétt upp úr hádeginu hringdi ég í fyrrum samstarfskonu mína til að kanna hvort hún væri heima, sem hún var. Ég dreif mig yfir í heimsókn og tók prjónana með. Var komin rétt fyrir tvö  og stoppaði í hátt á aðra klukkustund. Höfðum um margt að spjalla. Fór svo beint heim aftur. Eldaði kjúlingarétt í kvöldmatinn sem við mæðgin borðuðum öll á misjöfnum tímum og stöðum í íbúðinni. 

13.6.22

Virkur sumarfrísdagur no 5

Þegar N1 sonurinn á vakt um helgar þarf hann ekki að mæta fyrr en um hálftíu á sunnudögum. Ég var engu að síður komin á fætur um sjö í gærmorgun og búin að vafra um á netinu, prjóna og lesa þegar Davíð Steinn kom fram um níu. Þegar við lögðum í hann komu skilaboð úr mælaborðinu um að  athuga með þrýstinginn á dekkjunum. Fyrstu svoleiðis skilaboð síðan sumardekkin komu undir. Stoppaði því við loftdæluna þegar við mæðgin komum upp á gagnveg. Dældi 33" í afturdekkin og 32" í framdekkin. Varð svo að endurstilla kerfið því þrátt fyrir að þetta sé uppgefið innan á bílstjórahurðinni hafa þeir á dekkjaverkstæðinu líklega dælt meira í öll dekkinn. Næst lá leiðin í Nauthólsvíkina og var ég mætt þangað amk tíu mínútum áður en opnaði. Það var mikil fjara en sjórinn orðinn 13°C. Óð semsagt hálfa leið yfir í Kópavog og svamlaði svo um í rúmar tuttugu mínútur. Þegar ég kom heim um ellefu leytið hellti ég mér upp á sterkt og gott kaffi. Um hálftvö labbaði ég út á Klambratún og settist á bekk um stund. Fékk svo þá hugmynd um að bjóða mér upp á kaffi og eplakökusneið á Kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum. Fékk líka flösku af vatni á borðið til mín og drakk góðan helming úr henni. Þegar ég var búin að klára og gera upp rölti ég aftur út og settist á annan bekk, aðeins að njóta veðurblíðunnar. Kom heim aftur um fjögur. Restin af deginum fór í ýmislegt dútl. Oddur fann út hvað olli því að þvottavélin kveikti ekki á sér. Nágranninn er nýlega búinn að koma fyrir tveimur dýnum í horninu við hliðina á vélinni. Þegar hann var að koma þeim fyrir höfðu þær rekist í rofann á fjöltenginu sem þvottavélin er tengd við. Svo það þurfti ekki annað en að færa dýnurnar frá, kveikja á rofanum og koma dýnunum varlega fyrir aftur. 

12.6.22

Ennþá á skutlvaktinni

Áður en ég fór að sofa í fyrrakvöld stillti ég vekjarann í símanum á 6:40. Vaknaði rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun, slökkti á vekjaranum og fór á fætur. Fyrsta hálftímann eftir morgunverkin á baðherberginu var ég að vafra um á netinu. Skutlaði Davíð Steini í vinnuna og var hann mættur á N1 við Gagnveg um hálfátta, hálftíma fyrir opnun svo hann hefði smá tíma til að baka og undirbúa. Hann færði mér kaffimál út í bíl. Klukkuna vantaði tíu mínútur í átta þegar ég lagði bílnum á kennarastæði við Austurbæjarskóla. Drakk megnið af kaffinu og sat út í bíl framyfir morgunfréttir klukkan átta. Um átta tuttugu fór ég í fyrstu ferðina í kalda pottinn. Eftir rúmar fimm mínútur þar fór ég beinustu leið upp í innilaugina og synti í rúman hálftíma á braut þrjú. Langflestar ferðirnar synti ég á bakinu en ég synti fimm x 50m skriðsund. Þegar ég fór upp úr var ég búin að synda 750m. Settist smá stund út í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Úr kalda pottinum fór ég í gufuna í tíu mínútur. Skrapp undir útisturtu þegar ég kom úr gufunni til að geta farið í þriðju og síðustu ferðina í kalda pottinn. Svo sat ég um stund á bekk áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég kom aftur heim. Afgangurinn af deginum fór í ýmislegt dútl. Fór m.a. í stuttan göngutúr og settist aðeins á bekk í nágrenninu. Oddur ætlaði að setja í þvottavél en það kviknaði ekki á vélinni. Vorum að spá í hvort það tengdist eitthvað fullt af dóti sem nágranninn er búinn að setja í hornið við hliðina á vélinni. Það hefur svo sem verið geymt alls konar dót þar áður. Nágranninn var ekki heimavið þegar við ætluðum að spyrja hann. Vonandi náum við á hann í dag og gott væri ef hann gæti liðsinnt okkur og fundið út hvað er að og hvort þarf að gera eitthvað róttækt.

11.6.22

Á skutlvaktinni

Vaknaði stuttu fyrir átta og fór strax á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég um stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Morguninn leið hratt og klukkan var að verða tólf þegar ég hellti mér upp á kaffi. Var að velta því fyrir mér að fara gangandi í fiskbúðina einhvern tímann eftir hádegi en þegar til kom ákvað ég frekar að fara á bílnum. Keypti ýsu í soðið og harðfisk. Fór síðan á Löður við Fiskislóð og keypti eina umferð í gegnum bílaþvottastöðina. Fékk mér svo smá bíltúr að Gróttu, um Seltjarnarnes og Ægissíðu. Þurfti að keyra einn hring um Drápulíð, Reykjahlíð, Eskihlíð og Lönguhlíð á meðan losnaði stæði við húsið þar sem ég bý. Labbaði út í Krambúð til að kaupa hrásallat. Klukkan var rúmlega fjögur þegar ég kom heim með aðföngin. Annars fór dagurinn í netvafr, prjónaskap, lestur og þáttaáhorf. 

10.6.22

Lítið að frétta

Um átta leytið í gærmorgun var ég komin á fætur og sest niður í stofu með fartölvuna í fanginu. Tæpum tveimur tímum seinna slökkti ég á tölvunni og færði mig til í stofunni, settist í stólinn, og tók upp prjónana í nokkrar mínútur. Fljótlega stóð ég upp til að hella mér upp á könnuna og fá mér eitthvað í gogginn. Greip í bók með kaffibollanum en á tólfta tímanum kveikti ég á sjónvarpinu. Bræðurnir komu fram eftir hádegi og skruppu saman í eina ferð í Sorpu. Ég ákvað að taka því rólega og gefa skrámunum mínum tækifæri til að jafna sig betur. Skrámurnar á mjöðm, hné og sköflungi eru minniháttar. Skráman á olnboganum er heldur stærri og gæti alveg orðið viðkvæmari ef ég færi að busla mikið í vatni. En þessar skrámur munu ekki stoppa mig lengi af. Gærdagurinn var því allur á svipum nótum; netvafr, prjón, lestur og þáttaáhorf.  

9.6.22

Alltaf að njóta

Rumskaði fyrir klukkan sjö í gærmorgun en kúrði mig niður aftur og fór ekki á fætur fyrr en rétt fyrir átta. Fljótlega eftir að ég kom á fætur var ég sest niður með fartölvuna í fanginu. Um tíu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað að borða. Var komin í Nauthólsvík um hálftólf. Hitti sjósundsvinkonu mína fljótlega en hún tók sér hádegispásu úr vinnunni til að hitta mig í sjónum. Svömluðum í sjónum í hátt í hálftíma og vorum svo amk tuttugu mínútur í heita pottinum. Einhvern veginn tókst mér að detta þegar ég var á leið upp úr pottinum og rispaði á mér hægri sköflun, hné, olnboga og mjöðm. Lét þetta samt ekki á mig fá og kom við í Krónunni við Fiskislóð áður en ég fór heim. Fann aðeins fyrir olnboganum en ekki hinum stöðunum enda var ég ekki á neinni fleygiferð þegar ég "rúllaði" á hægri hliðina. Restin af deginum fór í lestur, prjónaskap, netvafr og þáttaáhorf og aldrei þessu vant fylgdist ég með eldhúsdagsumræðum á alþingi eiginlega alveg óvart. Var komin upp í rúm upp úr klukkan tíu. Er að lesa; Þú sérð mig ekki eftur Evu Björg Ægisdóttur.

8.6.22

Gott að vera í fríi

Þrátt fyrir að í gær væri fyrsti virki sumarfrísdagurinn minn var ég komin á fætur um sjö. Ekki það að ég væri með eitthvað sérstakt á prjónunum (fyrir utan tusku) þá var ég einfaldlega vöknuð. Ekkert varð úr að ég færi í sund. Morguninn notaði ég í netvafr, útprjón, lestur og þáttaáhorf. Fljótlega eftir hádegisfréttir skrapp ég út í göngutúr. Lönguhlíð að Eskihlíð, Eskihlíð að stígnum sem leiðir að Valsheimilinu, yfir brúna við Landsspítalann við Hringbraut, undir brýr á gatnamótum Bústaðavegar, Snorrabrautar og Miklubrautar. Settist á bekk á Klambratúni og slakaði á í nokkrar mínútur áður en ég rölti í gegnum garðinn og heim. Þegar heim var komið var ég búin að "safna" rúmlega fjögurþúsund skrefum. Heima hélt ég áfram að dútla mér við eitt og annað. 

7.6.22

Fyrsti virki sumarfrísdagurinn í dag

Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu. Fékk mér harðsoðið egg og hrísköku með osti. Upp úr klukkan níu var Davíð Steinn, þrælkvefaður þó, tilbúinn að leggja af stað í vinnuna. Ég tók sjósundsdótið með og þáði svo kaffi fyrir skutlið rétt fyrir hálftíu. Kom við á AO við Sprengisand og fyllti á tankinn þrátt fyrir að hann væri ekki orðinn hálfur. Þurfti bara rúma 18 lítra til að fylla. Var komin á planið við Nauthólsvík tæpu korteri áður en opnaði. Sat í bílnum þar til sjósundsvinkona mín mætti á svæðið fimm mínútur í tíu. Eitthvað gekk brösuglega að fylla á heita pottinn en þegar við vorum búnar að vera í hálftíma úti í sjó var hann alveg tilbúinn og við sátum lengur í honum heldur en við vorum í sjónum. Kom heim stuttu fyrir tólf. Hellti mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað að borða. Settist svo með kaffið og prjónana fyrir framan imbann og hlustaði á hádegisfréttir. Eftir þær setti ég handklæði í þvottavélina. Um það leyti sem prógrammið var að klárast, um þrjú, hringdi ég í norsku vinkonu mína. Við urðum sammála um að ég kæmi yfir og við færum í smá göngu meðfram sjónum áleiðis út að Gróttu. Löbbuðum allt í allt um fjóra kílómetra áður en við fórum inn til hennar í smá kaffi og meira spjall. Kom heim klukkan langt gengin í sex. Þá var Davíð Steinn kominn lasinn heim úr vinnunni. Hann fékk sér eitthvað að borða en svo held ég að hann hafi farið að sofa fljótlega, búinn að tilkynna að hann kæmist ekki í vinnu í dag.

6.6.22

Sundferð og rólegheit

Var komin í Sundhöllina rétt rúmlega átta. Að venju byrjaði ég á að setjast í kalda pottinn. Síðan fór ég á innstu og fyrstu brautina í innilauginni og synti í hálftíma. Langflestar ferðirnar synti ég á bakinu. Fjórðu hverju ferð fór ég á bakskrið og skriðsundi til skiptist. Synti þrjár ferðir af hvorri. Var hálfnuð upp í fjórðu ferðina af bakskriðsundi þegar mér fannst kominn tími til að fara upp úr lauginni, eftir 26x25m. Settist smástund í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í þann kalda. Svo tíu mínútur í gufu, smá sturtu og þriðju ferðina í kalda pottinn áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var komin heim aftur um tíu. Restin af deginum fór bara í eitthvað dútl. 

5.6.22

Hvítasunnudagur

Var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Það sem átti aðeins að vera örstutt netvafr og nokkrar línur á þessum vettvangi varð að nokkrum klukkutímum. Slökkti ekki á tölvunni fyrr en klukkan langt gengin í tólf. Fljótlega eftir það kveikti ég á sjónvarpinu og stillti á rás tvö. Hlustaði á hádegisfréttir og prjónaði á meðan. Eftir fréttirnar  fór ég í Premium og RÚV sarpinn og horfði á nokkra þætti. Seinni part dags tók ég út eitt þorskhnakkaflak. Davíð Steinn var að fara í afmælispartý og var ekki með í mat. Ég skipti því flakinu í tvennt, steikti upp úr eggi og krydduðu byggmjöli. Sauð kartöflur með og bauð upp á afgang úr hrásallatdollu. Eftir kvöldmat hélt ég áfram að horfa á þætti.

4.6.22

Hundraðfimmtugastiogfimmti dagur ársins

Var komin á fætur rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Fór aftur á bílnum í vinnuna og að þessu sinni með sjósundsdótið í skottinu. Ég var skráð á móttökuendann en sú sem var skráð á ítroðsluendann spurði hvort ég væri til í að skipta við hana. Hún hafði verið á þeim enda morguninn áður og taldi sig þurfa að hugsa minna ef hún væri á móttökuendanum. Ég var alveg til í að skipta og þar sem við vorum bara þrjár í vinnu vorum við á sömu vinnustöðvum allan daginn. Höfðum smá glugga milli korter fyrir ellefu og hálftólf til að vinna að part að endurnýjun sem við gátum svo sent frá okkur með hádegisframleiðslunni. Í hádeginu biðu okkar hamborgarar frá K2 þar sem við höfðum engin tök á að mæta í grillið á vegum starfsfélagsins. Endurnýjuðum kort frá klukkan eitt til klukkan þrjú og þá voru samt rúmlega tvöþúsund kort eftir í endurnýjun. Eftir frágang á vélinni og deildinni kvaddi sú sem var í bókhaldinu en ég las yfir reikningagerðina sem hin var búin að taka saman. Sem betur fer er alltaf lesið yfir og oftast stemmir allt. Ég gat hins vegar bent á að það vantaði að skrá nokkrar lotur vegna endurnýjunar sem kláraðist fyrir mánaðamót. Ég fór svo úr vinnunni beinustu leið í Nauthólsvík, að byrja sumarfríið mitt. Dokaði við í bílnum á stæðinu til að hlusta á fréttir klukkan fjögur. Korteri síðar óð ég út í rúmlega ellefu gráðu sjóinn. Er alveg hætt að nota sjósundsskóna í bili. Það var fjara og hægt að vaða út að kaðli. Ég svamlaði þetta í rólegtheitunum því þegar ég kom í heita pottinn var liðinn rúmur hálftími frá því ég fór í sjóinn. Fimm mínútum á eftir mér í pottinn kom sjósundshópurinn minn úr sjónum, allar fjórar. Þær höfðu líklega komið korteri á eftir mér. Ég vissi ekki að þær væru á leiðinni en það var mjög gaman að hitta aðeins á þær.

3.6.22

Á bílnum

Ég notaði bílinn til að flytja mig til vinnu í gærmorgun og var með sunddótið í skottinu. Fram að kaffi undirbjó ég pökkun, flokkaði kennispjöld og taldi fyrstu tvo vagnana með bókaranum eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann. Við klárðuðum allt daglegt rétt fyrir hálfeitt. Bókarinn kvaddi um hádegið. Eftir hádegi fór ég á móttöku endann. Til að byrja með gekk allt vel en í stað þess að ná að klára það sem átti bara að taka hálftíma í framleiðslu lentum við í brasi með prentarann. Þegar við gerum svo tilraun til að skipta aðeins um gír kom í ljós að skúffan með forumunum í var ekki stillt fyrir A4 pappír. Um leið og við löguðum það hrökk allt í gang en þá var klukkan að verða hálffjögur svo við hættum og gengum frá. Fór beinustu leið í Sundhöllina. Fór tvisvar í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur, var tíu mínútur í gufunni en sat aðeins í rúma mínútu á bekk áður en ég fór upp úr og heim. 

2.6.22

Styttist í sumarfrí

Var eitthvað að spá í að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun en hætti við og labbaði sömu leið og morguninn á undan, yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Módúlarnir sem vinna við að setja upplýsingar á örgjörva kortanna eru ellefu í vélinni en þeir hafa verið að bila smátt og smátt og í gærmorgun voru aðeins þrír virkir. Ákvað að prófa að virkja aftur tvo af hinum átta og það virkaði ágætlega á meðan við vorum í fyrstu framleiðslu dagsins. En fljótlega eftir að við byrjuðum á næstu framleiðslu varð ég að afvirkja annan aftur en hinn sinnti sínu allan daginn svo við vorum amk með fjóra virka af ellefu. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Við lukum við alla daglega framleiðslu um tólf. Mér var boðið að fara upp í mat sem ég þáði. Eftir mat aðstoðaði ég þá sem var í bókhaldinu við að telja allar tegundir sem voru í framleiðslu dagsins og flokkaði svo kennispjöld til klukkan að ganga fjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Ætlaði svo í Vesturbæjarlaug en af því að Hofsvallagata var lokuð frá Hringbraut skipti ég um skoðun og fór í Sundhöllina. Synti ekki neitt. Fór bara eina ferð í kalda í sjö mínútur, eina ferð í heitasta pottinn í rúmar tíu mínútur en sat svo í um hálftíma á stól úti áður en ég fór upp úr og heim. 

1.6.22

Snemma á fótum

Í gærmorgun labbaði ég upp Eiríksgötuna og niður Skólavörðustíginn í vinnuna. Var í bókhaldinu og byrjaði á því að prenta út fyrstu tölur. Sú sem var með mér í skrifstofurýminu fram að kaffi taldi með mér lagerinn og svo tók hún að sér að taka saman kort sem hætt eru í notkun til að senda aftur til eigenda plastsins. Ég flokkaði kennispjöld. Fljótlega eftir kaffi fór ég með 14 flokkaða kennispjaldakassa inn í geymslu og sótti 15 óflokkaða í staðinn. Þá voru og eru aðeins 8 kassar af óflokkuðum kennispjöldum inni í kennispjaldageymslu. Vinnudegi lauk rétt um hálffjögur. Labbaði sömu leið heim úr vinnunni og fór ekki aftur út úr húsi, aðeins tvær ferðir í þvottahúsið. Aðra til að setja í vél og hina til að hengja upp. 

31.5.22

Síðasti maí dagurinn í ár

Vaknaði upp úr klukkan sex. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu þar til klukkan var að verða sjö. Þá labbaði ég af stað í vinnuna, yfir Klambratúnið og þá leiðina. Fram að kaffi undirbjó ég pökkun og flokkaði kennispjöld. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Lukum við daglega framleiðslu um tólf. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann og við unnum við endurnýjun til klukkan hálfþrjú. Þá tókum við til við að ryksuga vélina. Labbaði heim úr vinnu yfir Skólavörðuholtið. Stoppaði heima við í tæpa klukkustund áður en ég fór og skilaði fimm bókum á safnið. Tók þrjár í staðinn þrátt fyrir að vera með þrjár heima. Næst kom ég við í fiskbúð Fúsa og keypti harðfisk og nætursaltaða ýsu. Síðan lá leiðin í Sundhöllina. Synti ekkert að þessu sinni en fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og smástund í gufu. Síminn taldi yfir 13200 skref í gær og þá eru þau skref ótalin með sem ég trítlaði um á sundhallarsvæðinu. 

30.5.22

Roðnaði undan sólinni

Fór á fætur um níu í gærmorgun. Kveikti strax á einni tölvunni hans pabba og eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu í uþb klukkustund. Svo fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg áður en ég tók til við að leggja nokkra kapla. Pabbi kom fram um hálfellefu. Rúmri klukkustund seinna steikti ég þrjú bleikjuflök krydduð með best á lambið cayanne pipar. Pabbi hafði skroppið í búðina í millitíðinni og keypti sætkartöflumús og hrásallat. Hellti upp á kaffi og fljótlega eftir hádegi settist ég út á pall með einn kaffibolla. Drakk hann og sótti svo bók og prjónanan mína inn. Pabbi kom út stuttu seinna og sátum við úti í sólinni í amk einn og hálfan tíma. Það kom til okkar köttur sem vildi alveg láta klappa sér en helst ekki halda á sér. Ég náði að roðna á bringunni og í framan en varð þó ekkert alveg eldrauð eins og stundum hefur gerst áður. Kannski sat ég ekkert of lengi í sterkri sólinni. Dagurinn leið frekar hratt. Ég stoppaði alveg fram yfir kvöldfréttir áður en ég kvaddi og fór heim. 

29.5.22

Á Hellu

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Klukkutíma seinna þáði ég kaffi út í bíl eftir að hafa skutlað Davíð Steini upp á Gagnveg. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti tankinn. Næst lá leiðin á stæði við Austurbæjarskóla. Þar geymdi ég bílinn á meðan ég fór í Sundhöllina. Þrjár ferðir í kalda, hálftíma sund á braut 4 í innilauginni, smá stund í heitasta pottinum, tíu mínútur í gufunni og smástund á bekk úti áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Fór heim og tók til í tösku. Var eitthvað að dútla mér, kláraði m.a. eina bók áður en ég lagði í hann enda var klukkan farin að ganga eitt þegar ég brunaði úr bænum. Kom við í Fossheiðinni og þáði gúllassúpu og kaffibolla. Þegar ég kom svo í Hólavanginn kom ég að læstum dyrum og tómu húsi. Pabbi hafði skroppið austur í Hvolsvöll á ráðstefnu og kom ekki heim fyrr en um fimm. Ég hleypti sjálfri mér inn og dundaði mér við alls konar; netvafr, prjón, lestur og kapallagnir. Um níu sendi tvíburahálfsystir mín mér sms og spurði hvort ég hefði nokkuð kíkt á Snap-staðsetninguna og séð að við væru í nágrenni hvor við aðra. Þær mæðgur voru á hótel Hellu og búnar að vera þar frá því á föstudagskvöldinu. Við löbbuðum á mót hvor annarri, vinkonurnar og ég kíkti inn á herbergi til þeirra. Sonja labbaði svo með mér til baka rétt til þess að segja hæ við pabba. Staldraði við í nokkrar mínútur áður en hún kvaddi og fékk sér smá göngutúr á hótelið. 

28.5.22

Óvænt innihald í bréfi

Það var alls ekki erfitt að vakna og gíra sig upp í einn vinnudag í gærmorgun. Fór á bílnum og vorum við bara þrjár í vinnu. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni allan daginn. Fram að hádegi sinntum við daglegum skildum og eftir hádegi settum við endurnýjun á fullt og kláruðum þrjá banka af fimm. Að vísu var bara sitthvort kortið til endurnýjunnar í tveimur af þessum bönkum en sá þriðji taldi yfir sextánhundruð kort. Hinir tveir bankarnir sem eftir eru eru með fleiri kort til endurnýjunnar, báðir yfir tvöþúsund. Ég fór beint í sjóinn eftir vinnu. Það var flóð en ég synti, öllu heldur svamlaði, í rólegheitum út að kaðli og kom svo við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Þegar heim kom beið mín bréf frá ensku vinkonu minni. Hún var búin að senda mér skilaboð fyrr í vikunni að það væri á leiðinni en hún undirbjó mig ekki undir það að bréfið var á íslensku. Hún hafði haft fyrir því að nota google translate á allt bréfið. Ekki alveg hundrað prósent rétt málfræði og þannig háttar en kemur öllu frá henni vel til skila.

27.5.22

Föstudagur

Vaknaði um átta. Vafraði um á netinu, las og um hálftíu fékk ég mér eitthvað að borða. Var komin í Nauthólsvík klukkan tíu. Það var fjara og "langt" í sjóinn og á eitthvað dýpi. Svamlaði rólega um, synti smá skriðsund og bringusund og dólaði mér út að kaðli. Var um tuttugu mínútur í sjónum og líklega tvisvar sinnum það í heita pottinum á eftir. Fór beint heim aftur og hélt áfram að lesa. Strákarnir skruppu í Sorpu og stuttu eftir þá ferð fóru Bríet og Davíð Steinn í langa göngutúr. Hún fór svo að hitta vini. Ein tuska kláraðist í gær og önnur fór strax á prjónana. Ég er alls ekki orðin þreytt á þessu tuskuprjóni.  

26.5.22

Uppstigningardagur

Labbaði svipaða leið í vinnuna í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Forritið í símanum sagði samt að ég hefði labbar 200 metrum lengri leið. Vorum allar fimm til vinnu í gær. Við vorum mjög glaðar að sjá að loksins voru límstykkerarnir komnir í hús. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi og í pökkun, talningu og flokkun kennispjalda fram að hádegi. Fengum sent sushi frá K2 í hádeginu. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann á vélinni og við vorum til þrjú að klára visa kreditendurnýjunina, sem við hefðum alls ekki klárað ef við værum enn að framleiða kort og form sér og handlíma, setja í umslög og loka. Fékk far heim úr vinnunni. Davíð Steinn eldaði sér úr hráefni sem hann verslaði sjálfur og bauð frænkunni að borða með sér  um fjögur. Ég eldaði úr hakkinu sem ég hafði tekið úr frysti um morguninn og bauð Oddi að borða með mér um sjö. Þá var frænka mín farin að hitta vini.

25.5.22

Miðvikudagur

Þrátt fyrir að hafa rumskað einhvern tímann á sjötta tímanum í gærmorgun svaf ég svo alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna. Fram að kaffi var ég að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld. Límstykkerarnir eru komnir til landsins en þeir bárust ekki alla leið til okkar í gær svo enn var verklagið að framleiða kort og form sér, lesa saman og handlíma kort á form. Engu að síður ákváðum við að byrja á einni endurnýjuninni þegar daglegri framleiðslu var lokið eftir hádegi. Þannig að þegar við hættum vinnu um þrjú vorum við örugglega búnar að handlíma hátt í áttahundruð kort alls. Ætlaði aftur í Vesturbæjarlaugina en þar var verið að malbika planið fyrir framan og ég nennti ekki að leita að stæði. Fann stæði á góðum stað rétt hjá Sundhöllinni og var byrjuð að synda í innilauginni þar korter fyrir fjögur.

24.5.22

Nota bílinn í dag

Vaknaði upp úr klukkan sex í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að frænka mín hafði skilað sér einhvern tímann eftir að ég fór að sofa. N1 sonurinn kom fram um hálfsjö og var farinn út á undan mér. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö, yfir Klambratúnið, Gunnarsbraut og Laugaveg. Vorum fjórar í vinnu. Límstykkerinn er ekki búinn að skila sér og einhver vandræði með að fá rekstrarvörunar sendar. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og tók svo á móti fram að hádegi. Klárðuðum allt daglegt um tólf og afhentum þá viðgerðarmönnum vélina til yfirferðar. Flokkaði kennispjöld eftir hádegi til klukkan tvö en þá máttum við sem ekki vorum að sitja yfir fara heim. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í um klukkutíma en þá tók ég sunddótið með mér út í bíl. Skrapp samt fyrst í fiskbúðina áður en ég fór í Vesturbæjarlaug. 

23.5.22

Óvæntur hittingur

Var komin á fætur upp úr átta. Tók því rólega fyrst um sinn og vafraði um á netinu. Um tíu, um það bil sem verið var að opna, var ég mætt í Nauthólsvík. Þar hitti ég óvænt fyrir þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum. Systurnar og sjósundsvinkonu mína sem heldur utan um hópinn. Aðra af systrunum hitti ég í Hagkaup fyrir nokkru síðan en annars var þetta í fyrsta skipti á þessu ári sem hópurinn hittist. Þær biðu eftir mér á meðan ég græjaði mig og svo urðum við samferða út í sjó. Fórum ekkert svo langt en vorum tæpar tuttugu mínútur út í og svo annað eins eða jafnvel aðeins lengur í heita pottinum. Þegar ég kom heim aftur byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi. Davíð Steinn var vaknaður og kominn fram en hann fór fljótlega inn í herbergið sitt aftur. Næstur fram var Oddur. Lánaði þeim bræðrum bílinn um miðjan dag. Um svipað leyti fór Bríet í sund. Ég fór hins vegar að fylgjast með enska boltanum og fitja upp á nýrri tusku. Mitt lið, Liverpool, fékk á sig mark strax á fyrstu mínútunum og það tók töluverðan tíma að jafna og hvað þá komast yfir. Lokatölur urðu þó 3:1 fyrir Liverpool. Salah skoraði eitt markanna, Son í Tottenham skoraði 2 og voru þeir jafnir eftir leiktíðina og skiptu með sér gullskónum. Manchester City liðið sem var á toppnum fyrir umferðina lenti 2:0 undir gegn Aston Villa en skoraði svo þrjú mörk seint í seinni hálfleik og sigraði því deildina með eins stigs mun. Allison í marki Liverpool fékk gullhanskann fyrir að fá á sig fæst mörkin. Held að Edison í City liðinu hafi fengið jafnfá mörk á sig en hann spilaði einum leik meira en Allison. Nú er bara að sjá hvernig úrslitaleikurinn í meistaradeildinni fer en þar gæti Liverpool unnið þriðja bikarinn af fjórum mögulegum.

22.5.22

Sunnudagur

Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Lokað var inn í stofu þannig að einhverntímann kom frænka mín heim. Ég var með tölvuna í herberginu mínu og vafraði aðeins um á netinu. Var komin í Sundhöllina rúmlega átta. Byrjaði á kalda pottinum áður en ég fór á innstu braut í innilauginni og synti í hálftíma. Settist smá stund út á svalir í heitari pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn í fimm mínútur. Úr kalda fór ég í gufu og þar á eftir settist ég í nokkrar mínútur út á bekk áður en ég fór og þvoði á mér hárið. Ekkert af heimafólkinu var vaknað þegar ég kom heim rétt rúmlega tíu. Ég hellti mér upp á kaffi og fór með það inn í mitt herbergi, kom mér fyrir upp í rúmi með bók og bolla. Um miðjan dag bauð frænka mín okkur mæðginum á kaffihús, Te&kaffi við Suðurlandsbraut. Stoppuðum þar í hátt í klukkutíma. Eftir kaffihúsaferðina fór frænka mín að hitta vini. Ég kveikti fljótlega á sjónvarpinu og fylgdist aðeins með úrslitaleik meistaradeildarinnar í kvennafótboltanum. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn. 

21.5.22

Á leið í sund

Fór aftur á bílnum til vinnu í gærmorgun og að þessu sinni með sjósundsdótið í skottinu. Ég var í bókhaldinu og drjúgan hluta af morgninum var ég að flokka kennispjöld. Var nýlega byrjuð á fjórða kassanum þegar ég gat loksins farið að hjálpa stelpunum á vélinni að para saman kort og form. Það var aðallega vegna þess að vélin hafði eitthvað verið ósamvinnuþýð og það sem var farið í gegn höfðu þær undan að ganga frá. Daglegri vinnu og allri talningu var ekki lokið fyrr en klukkan var farin að ganga fjögur. Fór beint í Nauthólsvík eftir vinnu og var að vaða út í um fjögur, hálfa leið til Kópavogs eða þannig leið mér, það var svo mikil fjara. Svamlaði aðeins um en synti svo í rólegheitum út að kaðli. Var rúmt korter í sjónum og svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

20.5.22

Föstudagur enn á ný

Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Morguninn svipaður og aðrir virkir vinnumorgnar en svo fór ég á bílnum í vinnuna. Tók með mér bókasafnspoka og sunddót sem ég geymdi í skottinu. Um átta hringdi Bríet í mig og spurði hvort hún mætti gista hjá mér næstu daga. Það var auðsótt mál. Hún var enn fyrir norðan þegar hún hringdi en kom með flugi suður upp úr hádegi. Oddur Smári, sem þá var kominn heim úr atvinnuviðtali og klippingu, opnaði fyrir henni og hjálpaði henni með farangurinn. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Eftir fyrstu framleiðslu, sem eru eingöngu kort, hófst sama starfsaðferð og í fyrradag. Kort framleidd sér og form sér. Síðan parað saman og í DK-inu allt H merkt sett í umslög. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Vorum búnar með þrjá banka af fjórum í debetinu þegar við fórum yfir í hádegisframleiðsluna. Síðasti bankinn var svo kláraður eftir mat. Allt daglegt var búið rétt fyrir tvö og þá tókum við okkur tíma til að flokka kennispjöld til klukkan að ganga fjögur. Úr vinnunni fór ég beint á safnið og skilaði fjórum bókum af sex og tók með mér sex bækur í staðinn. Engin þeirra með skammtímalán og hægt að framlengja um 30 daga eftir 30 daga lán. Af safninu fór ég í Vesturbæjarlaugina. Synti 300 metra, fór eina ferð í kalda pottinn, svo í gufuna. Fór í sturtu eftir eimbaðið, heitan pott og sat svo smá stund úti áður en ég fór upp úr og heim. Það voru bara ummerki um að Bríet hefði komið við, semsagt farangurinn hennar, en hún var ekki komin aftur þegar ég fór að lesa og sofa um tíu.

19.5.22

Öðruvísi vinnubrögð

Labbaði sömu leið í vinnuna í gærmorgun og á þriðjudagsmorguninn. Ég var í skrifstofurýminu fram að kaffi, undirbjó pökkun og flokkaði kennispjöld. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Framleiða varð kort og form sér. Þetta gekk furðanlega vel fyrir sig og kláruðum við daglega framleiðslu um hálfeitt. Eftir hádegi fór ég á móttökuendann á vélinni. Við kláruðum loks endurnýjun frá því í apríl með sama vinnulagi og vorum búnar um hálffjögur. Labbaði heim úr vinnunni og að þessu sinni fór ég Lækjargötu, meðfram tjörninni, yfir Hljómskálagarðinn, Hringbraut og Bústaðaveg framhjá Valsheimilinu og undir brúna þar. Var þrjú korter á leiðinni og mældist þetta vera uþb 4 km. Um kvöldið fylgdist ég með textalýsingu á mbl.is af úrslitaleiknum milli Vals og Tindastóls í körfunni. Valur vann leikinn og titilinn í fyrsta sinn í 39 ár.

18.5.22

Miðvikudagur

Labbaði í vinnu upp Eiríksgötu og yfir Skólavörðuholtið. Var í bókhaldinu í gær og flokkaði einnig slatta af kennispjöldum. Rétt fyrir tvö kláraðist síðasti límstykkerinn í miðri endurnýjunarskrá og við ekki búnar að fá til okkar sem við pöntuðum fyrir nokkrum vikum síðan. Sendingin er vonandi að koma í dag en á meðan þarf að framleiða kort og form sér og handlíma kortin á formin. Labbaði heim sömu leið og ég fór í vinnuna. Klukkan var orðin hálfsex þegar ég dreif mig loksins í sjóinn. Nú er komin sumaropnun og frítt inn. Hitastig sjávar komið yfir átta gráður og ég ákvað að skilja sjósundsskóna eftir heima en nota strandskóna í staðinn. Stutt var út í sjó og enn að flæða að þegar ég skellti mér út í ca korter fyrir sex. Svamlaði um í tíu mínútur og fór svo í gufuna þar sem mér fannst heldur margt fólk í heita pottinum. Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Fiskislóð og verslaði inn. Varð svo að leggja bílnum í næstu götu en Oddur kom út og sótti pokana með vörunum og gekk frá þeim. 

17.5.22

Þriðjudagur

Var vöknuð um sex í gærmorgun og fór strax á fætur. Enginn á fótum nema ég í íbúðinni því N1 sonurinn var á helgarvakt og er á frívakt til miðvikudags. Gaf mér tíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Hafði með mér hádegisnesti, afgang af hakkkássu. Fram að kaffi var ég á móttökuendanum á vélinni. Eftir kaffi var ég smávegis í pökkun en eftirlét þeirri sem var í bókhaldinu í gær það og snéri mér alfarið að flokkun kennispjalda. Vorum bara tvær frammi, fjórar í vinnu, því ein er í fríi næstu vikuna og alveg til og með þriðjudags. Þegar til kom var mér boðið upp í mat og þáði ég það. Eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum og við kláruðum eina endurnýjunina og héldum aðeins áfram með þá síðustu frá því í síðasta mánuði. Þessar endurnýjanir koma til með að ná saman því nú fara að "detta" inn þær endurnýjanir korta sem renna úr gildi mánaðamótin júní/júlí. Hættum vinnu rúmlega þrjú og vorum búnar að ganga frá um hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni. Lauk við að prjóna eina tusku og byrjaði strax á annarri. Á tuskuefni í amk sex tuskur í viðbót.

16.5.22

Maí hálfnaður

Klukkan var orðin tíu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Pabbi var nýlega kominn fram og að fá sér harðsoðið egg. Ég fékk mér eitt svoleiðis líka þegar ég var búin með morgunverkin á baðherberginu og taka lýsi. Síðan lagði ég nokkra kapla. Pabbi spurði hvort við ættum að hafa snarl í hádeginu og vildi helst fá bleikju aftur. Ég tók út þrjú lítil flök úr frysti og setti upp basamí hrísgrjón. Hellti líka upp á könnuna. Kryddaði bleikjuna eins og kvöldið áður og með þessu kláruðum við hrásallatið og drukkum vatn. Dagurinn leið ógnarhratt við lestur, kapallagnir, prjón og netvafr. Tæpum tveimur tímum eftir kaffitímann tók ég mig svo saman, kvaddi pabba og hélt heim á leið.

15.5.22

Bleikja

Ég var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun og hafði tíma til að vafra um á netinu áður en ég skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg. Nú er ekki hægt að keyra alveg upp að stöðinni vegna framkvæmda en sonurinn þurfti ekki að labba mörgum skrefum lengra og færði mér svo kaffimál fullt af kaffi og með loki til að taka með mér. Var komin á bílastæði kennara við Austurbæjarskóla korteri áður en Sundhöllin opnaði. Kláraði kaffið í rólegheitum og hlustaði á morgunfréttir áður en ég dreif mig í sundið. Byrjaði á einni ferð í þann kalda fór svo á innstu brautina í innilauginni og synti í rúmar tuttugu mínútur, aðra hverja ferð á bakinu og amk 4x25m skriðsund. Settist svo smástund í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Á leiðinni þangað fannst mér undarlegt að finna miða á sundbolnum hægra megin eins og ég væri í öfugum bolnum. Það gat samt ekki verið. Endaði í gufubaði og sat svo á bekk úti í um þrjár mínútur áður en ég fór inn. Þá kom í ljós stærðarinnar gat á sundbolnum, ekki á viðkvæmum stað sem betur fer en þar er bolurinn einnig farinn að láta á sjá. Ég nota þennan líklega ekki meir og fer örugglega fljótega að fjárfesta í nýjum sundbolum. Þvoði mér um hárið og skrapp svo á kjörstað áður en ég fór heim. Oddur Smári kom aðeins fram um hálfellefu og ég notaði tækifærið og sagðist vera að fara austur eftir smá. Ég var búin að vera á Hellu í þrjá og hálfan tíma og sat með prjónana í stofunni þegar harður jarðskjálfti reið yfir. Skjálfti sem átti upptök sín við Þrengsli og var á endanum mældur 4,8. Var með bleikju, soðin hýðisgrjón og hrásallat í kvöldmatinn. Mjög, mjög gott, kryddaði með cayanne og best á lambið. Fékk mér hvítvín eftir að söngvakeppnin var byrjuð. Horfði á alla útsendinguna og síðan smávegis af kosningasjónvarpinu. Fyrstu tölur úr Reykjavík voru þó ekki komnar þegar ég ákvað að fara frekar inn í rúm að lesa.

14.5.22

"Bíddu bara"

Fór semsagt aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Var á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi og í pökkun og flokkun kennispjalda fram að hádegi. Kerfisfræðingarnir fengu "lánaða" vélina um stund þannig að framleiðslu daglegra debetkorta lauk ekki fyrr en eftir hádegi. Við höfðum engu að síður tíma til að endurnýja kort áður en við hættum og erum langt komnar með að klára að endurnýja þau kort sem taka gildi um næstu mánaðamót. Fór beinustu leið í Nauthólsvík eftir vinnu og óð út í 8,9°C sjóinn á flóði um fjögur. Var að svamla um í tuttugu mínútur og sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Rétt fyrir átta var ég komin í Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði þar sem ég hitti fyrir samstarfskonur mínar að horfa á sýninguna; Bíddu bara, með Björk Jakobs, Selmu Björns og Sölku Sól. Skemmtum okkur mjög vel og var tíminn mjög fljótur að líða. 

13.5.22

Aftur á bílnum

Kom við í bakaríinu við Skúlagötu á leiðinni í vinnuna í gærmorgun og keypti brauð og kruðerí með "föstudags" kaffinu sem við höfum alltaf á fimmtudögum svo allir geti verið með. Var í bókhaldsverkefnum og flokkunarstörfum í gær. Fór m.a. með 13 flokkaða kassa inn í kennispjaldageymslu og sótti 15 óflokkaða í staðinn. Taldi óflokkuðu kassana sem eftir voru í geymslunni og þeir eru aðeins 30 þannig að það sér fyrir endann á þessu verkefni. Erum búnar að flokka hátt yfir fjögurhundruð þúsund kennispjöld og það eru ekki mörg sem eru í óvissukassanum, óstimpluð. Var boðið með í mat upp í mötuneyti Seðlabankans í hádeginu. Um hálftvö vorum við aðeins þrjár eftir. Hinar tvær voru á vélinni og um þrjú fór vélina að haga sér það illa að fyrirliðinn sá ástæðu til að kalla til viðgerðarmann. Ég kvaddi um hálffjögur og fór beint í Vesturbæjarlaug. Byrjaði á miðlungsheitum potti, svo þrjár mínútur í kalda pottinum áður en ég synti í korter. Svo fór ég beinustu leið heim og fékk stæði fyrir framan. 

12.5.22

Nota bílinn í dag

Í gærmorgun labbaði ég í vinnuna þvert yfir Klambratúnið, Gunnarsbraut, Laugaveg og Klapparstíg. Var í flokkunarstörfum fram að kaffi og á móttökuendanum fram að hádegi. Mér var boðið upp í mat í hádeginu. Einn vinnufélaginn sem er í áskrift er enn í fríi og ég nýt góðs af því. Um tvö kom yfirmaður á fund með okkur og báðum kerfisfræðingunum sem vinna að kortamálum. Fékk far heim úr vinnunni og enn einn daginn nennti ég ekki út aftur. Ég skil ekki hvers konar drifleysi er að hrjá mig en það hlýtur að lagast fljótlega. 

11.5.22

Vikan hálfnuð

Vaknaði stuttu fyrir sex í gærmorgun og fór fljótlega á fætur. Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Kláruðum fyrstu framleiðslu og eina aukaframleiðslu. Sá um pökkun og talningu fram að hádegi og leysti svo aðra sem var á vélinni af upp úr klukkan hálftólf. Skrapp svo upp í mat með hinni. Var á móttökuendanum á vélinni til hálffjögur og vorum við að vinna í að endurnýja debetkort. Labbaði heim, næstum því sömu leið og um morguninn. Kom aðeins við á torginu til að kanna hvort vinkona mín væri í einum sölubásnum. Hún var ekki þar, kannski farin heim enda klukkan um fjögur. Það var þó verið í fjórum básum en í einum af þeim var verið að taka saman. 

10.5.22

Birtir meir og meir

Rumskaði upp úr klukkan fimm í gærmorgun og fannst það heldur snemmt. Fór á fætur klukkutíma síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Var frammi að flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni til hádegis og flokkaði svo fleiri kennispjöld eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni stuttu fyrir fjögur. Fór ekki út aftur en seinni parturinn og kvöldið var frekar fljótt að líða yfir alls konar dútli. 

9.5.22

Glæný vinnuvika

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um átta leytið í gærmorgun var klukkan að verða tólf þegar ég dreif mig loksins í sund. Fór í sundhöllina og byrjaði á því að setjast í kalda pottinn ca korter yfir tólf. Síðan fór ég í innilaugina og synti í tuttugu mínútur á innstu brautinni þrátt fyrir að opið væri í litla stökkbrettið. Strákarnir sem voru að stökkva voru ekkert fyrir mér. Settist svo smá stund út í heitasta pottinn áður en ég fór aftur í þann kalda. Hitti konu sem var með mér í landsbankakórnum. Hún er nýlega hætt að vinna, komin yfir sextugt en ekki þó orðin 67 heldur var hún á 95 ára reglunni. Þvoði á mér hárið á leiðinni upp úr og var komin heim um hálftvö. Kveikti strax á sjónvarpinu og horfði á leik í enska. Var reyndar að skipta aðeins á milli rása því það voru þrír leikir í gangi. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn. Þeir skruppu til pabba síns en systir þeirra  varð átta ára á laugardaginn. Ég var komin upp í rúm þegar þeir komu heim. Davíð Steinn bað mig samt um að koma aðeins fram fyrst ég var ekki farin að sofa. Þeir bræður höfðu keypt handa mér mæðradagsgjöf, nýja hraðsuðukönnu, garn til að prjóna úr og þar að auki höfðu þeir fyllt á tankinn á bílnum. Það sem ég á góða og hugulsama syni.Þakklát fyrir það og þá. 

8.5.22

Bækurnar af safninu

Er búin með þær tvær sem ég skildi eftir heima í síðustu ferð; Hálfgerðar lygasögur með heilagan sannleika í bland eftir Guðberg Bergson og Blaðamaður deyr eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Þær fjórar sem komu heim með mér úr síðustu ferð eru; Dulmál Katharinu eftir Jörn Lier Horst, Meinsemd eftir Kim Faber & Janni Pedersen, Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Tilfinningar eru fyrir aumingja eftir Kamillu Einarsdóttur. Síðastnefndu bókin er ég byrjuð að lesa.

Annars var gærdagurinn afar tíðindalítill. Rumskaði þegar systurdóttir mín fór eldsnemma úr húsi út á flugvöll. Hún er komin í þriggja vikna sumarfrí og fór norður til að komast í sauðburðinn á Árlandi. Ég fór á fætur um átta. Skipti um á rúminu mínu en afrekaði svo ekki mikið meira heldur en að vafra um á netinu, prjóna horfa á þætti og fótboltaleiki og lesa. Oddur skutlaði bróður sínum á árshátíð um sjö leytið og kom við í Saffran á heimleiðinni. Ég nennti semsagt ekki heldur að elda og pantaði mér hamingjuböku og bauð Oddi upp á að panta sér böku líka.

7.5.22

Laugardagur

Var komin á fætur rétt rúmlega sex í gærmorgun. Þrátt fyrir ágætasta gönguveður ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna. Framleiðsludagurinn í debetinu var yfir sextánhundruð kort svo við ákváðum að skipta okkur í kaffi og mat. Vorum bara fjórar þannig að sú sem var í bókhaldinu varð að leysa af í kaffi og matartímum. Vélin gekk og gekk. Við þurftum svo aðeins að lána hana kerfisfræðingum um eitt leytið, tvisvar sinnum en ekki mjög lengi í einu. Framleiðslu lauk samt ekki fyrr en rúmlega fjögur og klukkan var farin að ganga sex þegar öllum frágangi og talningu lauk. Ég ákvað því að sleppa sjósundsferð og fara beint heim. Hugsanlega hefði sjórinn kallað sterkar ef það hefði verið flóð en ekki fjara. Bríet kom um átta að sækja húslykla en hún fékk að gista hér í nótt. Fór fljótlega út aftur að hitta vini. Lánaði bræðrunum bílinn í bíóferð en var sjálf að taka því mjög rólega. Horfði á þætti til klukkan tíu og fór þá upp í rúm að lesa í klukkustund áður en ég fór að sofa. 

6.5.22

Föstudagur

Labbaði svipaða leið í vinnuna í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Ég var að undirbúa pökkun og flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Í hádeginu komu sjö pokar af kortum, yfir tuttugu þúsund kort. Við tvær sem vorum á vélinni til hádegis tókum að okkur að opna pokana og kassana inn í þeim, telja kortin og sortera eftir tegundum. Sem betur fer var hægt að telja kortin í gegnum plastið því það er mjög seinlegt að taka kassana úr plastinu, telja, þræða plastið á aftur og líma fyrir. Þegar búið var að telja öll kortin fór ég í að búa til móttökuskjöl, láta eigendur plastsins vita og taka tappann úr þeim tegundum sem ekki hefur verið hægt að framleiða undanfarna daga. Hin fór í að útbúa límmiða og merkja kortategundirnar. Svo hjálpuðumst við að við að setja þetta upp í hillur inn á kortalager. Rétt fyrir hálffjögur hringdi Oddur Smári í mig. Hann var staddur við Krónuna við Fiskislóð, nýkominn úr Sorpuferð og spurði hvort ég væri búin í vinnunni. Hann sótti mig skömmu síðar. 

5.5.22

Fimmtudagur fimmti

Vaknaði um sex í gærmorgun. Klukkutíma síðar labbaði ég í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi. Lentum í smá brasi en það tafði okkur ekki mjög mikið. Ákváðum að gefa vélinni pásu bæði í kaffi og hádegishléi. Fram að hádegi flokkaði ég kennispjöld. Þáði boð um að borða í mötuneytinu og fékk mjög góðan steiktan hlýra. Eftir hádegi var ég á móttökuendanum á vélinni. Framleiddum þúsund kort af einni endurnýjuninni. Hættum vinnu um hálffjögur. Fékk far heim úr vinnunni og ákvað að skrópa í sund. Vafraði um á netinu, prjónaði, las og horfði á þætti og las svo meira þegar ég var komin upp í um tíu. 

4.5.22

Morgunstund

Vaknaði rétt rúmlega sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég um stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Áður en ég brunaði svo á bílnum í vinnuna fékk ég mér lýsi. Flokkaði kennispjöld, taldi fyrstu framleiðslu með bókaranum og ýmislegt fleira fram að kaffi. Við sem vorum í skrifstofurýminu fórum á undan í kaffi og tvær af okkur leystum svo þær tvær sem voru á vélinni um tíu. Ég fór á ítroðsluendann. Við kláruðum að framleiða dk daginn og framleiddum svo endurnýjun þar til hádegisskammturinn var kominn á vélina. Sú sem var með mér á móttökuendanum var leyst af klukkan tólf en hún var að taka styttingu vinnuvikunnar. Ég var leyst af tíu mínútum síðar. Eftir hádegishléið mitt taldi ég síðasta vagninn með bókaranum og fór svo að flokka kennispjöld. Upp úr klukkan tvö fór ég með 15 flokkaða kassa af kennispjöldum inn í kennispjaldageymslu og sótti 15 óflokkaða í staðinn. Hættum vinnu um hálffjögur og ég fór beinustu leið í Vesturbæjarlaugina. Synti í 15 mínútur, fór eina ferð í kalda pottinn og prófaði sánaklefann. Þarna eru sér klefar, annar fyrir konur og hinn fyrir menn. Fór í sturtu á eftir og svo í 40°C heitan pott í smá stund áður en ég fór upp úr og heim. Davíð Steinn sá um eldamennskuna í gær og töfraði fram fínasta kjúklingarétt. Mjög gott hjá honum.

3.5.22

Stytting vinnuvikunnar

Labbaði af stað í vinnuna um sjö í gærmorgun. Fór þvert yfir Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Njálsgötu, Snorrabraut, Laugaveg, Vitastíg og Skúlagötu. Þegar ég var rétt komin á Skúlagötuna kom vinnufélagi hjólandi að mér og var samferða síðasta spölinn. Hún bauð mér reyndar far en mér leist ekkert á að klöngrast upp á stýrið hjá henni með bakpokann á bakin, enda vorum við bara að fíflast. Ég var í bókhaldinu og mánaðamótaverkefnum fram að hádegi en þá hætti ég vinnu og tók út síðasta hálfa dag einu sinni í mánuði fyrir sumarfrí. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið. Davíð Steinn var kominn á fætur og Oddur kom fram skömmu síðar. Ég stoppaði heimvið í tæpa þrjá tíma en þá skrapp ég á bókasafnið og skilaði þremur bókum af fimm og fékk mér fimm bækur í staðinn. Allar fimm bækurnar með 30 daga skilafresti og möguleikann á að framlengja um aðra 30 daga. Síðan lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Verslaði inn fyrir rúmlega tuttuguogsexþúsund krónur, sumt af því kannski óþarfi. Þegar ég kom heim fékk ég stæði beint fyrir utan. Davíð Steinn kom út að hjálpa mér með pokana inn og gekk hann líka frá vörunum. Sleppti bæði sjó- og sund ferð og hélt mig heima við það sem eftir lifði dags og kvölds. 

2.5.22

Virkur dagur

Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar ég klæddi mig og bjó um. Eftir morgunverkin á baðherberginu fékk ég mér lýsi og eitt harðsoðið egg. Kveikti svo á einni tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í rúma klukkustund. Settist svo smá stund með bók og prjóna inn í stofu. Hellti upp á könnuna og lagði nokkra kapla. Pabbi kom fram um hálfellefu. Hann var þó löngu vaknaður. Um eitt kveiktum við á sjónvarpinu og stilltum á leik í enska boltanum. Prjónaði alveg helling á meðan ég fylgdist með leiknum. Var að spá í að taka mgi saman eftir kaffi en pabbi freistaði mín með því að spyrja hvort við ættum að hafa saltfisk í matinn. Hann fór svo að steikja pönnsur en ég á netflakk. Kvöldmatur var borðaður um hálfsjö og ég kvaddi ekki fyrr en eftir fréttir og veður. Kom heim um níu í gærkvöldi.

1.5.22

Þriggja bókstafa mánuður

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun. Hafði tekið fartölvuna með mér inn í herbergi í fyrrakvöld og nýtti mér það. N1 sonurinn vaknaði ekki við vekjaraklukkuna sína rétt fyrir sjö heldur sms og facebook skilaboð sem ég sendi rétt eftir að vekjaraklukkan hans hætti. Skutlaði honum í vinnuna og þáði kaffi í staðinn. Var komin á bílastæði við Austurbæjarskóla tólf mínútum fyrir átta. Staldraði við í bílnum framyfir morgunfréttir áður en ég fór í sund. Byrjaði á kalda pottinum. Fór svo inn og synti í hálftíma, þar af 125m skriðsund og aðrahvora ferð á bakinu. Settist svo stund í heitari pottinn úti á svölum áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Þaðan fór ég svo í gufu. Þvoðið mér um hárið og var komin heim um tíu. Stoppaði ekki lengi þar. Á meðan ég var að taka mig til fyrir einnar nætur stopp kom Oddur fram til að skreppa á baðherbergið. Ég notaði tækifærið og kvaddi hann. Kom við hjá samstarfskonu minni og fékk eina öskju af þorskhnökkum og þáði hjá henni einn kaffibolla áður en ég hélt för minni áfram. Ákvað að keyra Þrengslin og gat haldið mig á 90km hraða á krúskontról án þess að þurfa að hægja á mér vegna annarrar umferðar. Gerði smá stopp í Fossheiðinni en þorði ekki að stoppa of lengi vegna fisksins sem ég var með í skottinu. Stoppið var líklega ekki nema rétt rúmur hálftími en það var hægt að spjalla á þeim tíma, drekka tvo kaffibolla og borða eina skál af grænmetissúpu. Var komin á Hellu stuttu eftir að hádegisleiknum í enska lauk. Dagurinn fór svo í prjónaskap, fótboltaáhorf, netvafr, kapallagnir, lestur og ýmislegt fleira. Pabbi bauð upp á reykt folaldakjöt í kvöldmatinn og í gærkvöldi fékk ég mér svo smá hvítvín á meðan ég horfði á fjórða þáttinn af Alla leið á RÚV. 

30.4.22

Síðasti apríldagur ársins

Fór aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun og nú með sjósundsdótið með mér í skottinu. Var á mótökuendanum þar til við vorum leysta af rúmlega tíu. Kláruðum fyrstu daglegu framleiðsluna og vorum langt komin með aukaverkefni sem "datt" inn á vélina í fyrradag og lá svolítið á. Skiptum okkur ekki í mat en náðum engu að síður að byrja aðeins á einni af endurnýjununum. Rétt upp úr tvö þurfti ein okkar að fara og tæpum klukkutíma síðar önnur svo þá var framleiðslu sjálfhætt þar sem bara ég og bókarinn vorum eftir. Reyndar var annar kerfisfræðingurinn á svæðinu og hann telst með en við ákváðum engu að síður að ganga frá vélinni og deildinni og fara inn í helgina. Var að vaða út í sjó korter fyrir fjögur og tuttuguogfimm mínútum síðar settist ég í heita pottinn og sat þar í korter. Bríet kom í bæinn og byrjaði á því að skreppa í vinnuna til Davíðs Steins og bíða eftir að hann væri búinn. Ég var að glápa á imbann til klukkan að byrja að ganga tíu en eftirlét svo Bríeti stofuna og fór inn í rúm að lesa. Er langt komin með nýjustu Yrsubókina. 

29.4.22

Föstudagur

Þar sem ég bauðst til að taka að mér yfirsetu vegna yfirferðar á vélinni ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Tók sunddótið með mér og geymdi í skottinu. Flokkaði kennispjöld fram að kaffi. Vegna aukaverkefna á vél sem þurfti að klára fyrir tólf ákváðum við að skipta okkur í kaffi. Þær sem voru inn á vél héldu framleiðslu áfram þar til við tvær sem áttum vaktina eftir kaffi leystum þær af. Ég var á móttökuendanum. Vélin fór að vera með leiðindi fljótlega eftir að við tókum við og tafði okkur aðeins. Komum henni þó af stað fljótlega og kláruðum debetframleiðslu dagsins, tvö aukaverkefni og vorum byrjaðar á loka daglega verkefninu þegar við vorum leystar af. Strákarnir sem sjá um yfirferðina komu sem betur fer ekki alveg á slaginu tólf en þótt þeir hefðu gert það hefðu þeir bara þurft að bíða í uþb tuttugu mínútur eftir að fá vélina afhenta til yfirferðar. Úr eldhúsinu úr K2 voru sendir til okkar hamborgarar, einn á mann hvort sem maður er í mataráskrift eða ekki. Mestan tímann af yfirsetunni flokkaði ég kennispjöld. Stelpurnar tíndust heim ein af annarri. Ein var þó alveg til klukkan að verða hálfþrjú. Kerfisfræðingurinn var hins vegar allan tímann á svæðinu. Í yfirferðarlok hjálpaði hann mér að endurheimta aðgangsorðið mitt á vélinni og ná í kort inn á lager til að testa vélina.

Fór í sundhöll Reykjavíkur beint eftir vinnu og fékk meira að segja stæði fyrir framan. Byrjaði á að sitja rúmar fimm mínútur í kalda pottinum. Síðan fór ég í innilaugina og synti í tuttugu mínútur á innstu brautinni. Settist í heitar pottinn á svölunum og sat þar í rúmar átta mínútur. Færði mig svo niður og út og sat smástund á stól úti áður en ég fór upp úr og heim. Bjó til ommilettu úr fiskafgöngum í kvöldmatinn. 

28.4.22

Stutt í helgi og mánaðamót

Á göngu minni í vinnuna í gærmorgun rakst ég ekki á neitt óvenjulegt og hitti heldur ekki enn einn köttinn. Ég var að flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fékk ég kerfisfræðinginn til að aflæsa aðganginum á framleiðsluvélinni. En lykilorðið sem ég var að skipta um og skráði hjá mér á góðum stað virkaði samt ekki og ég læstist aftur úti. Bauð þeirri sem var inni með mér að skipta um enda en hún "lánaði" mér aðganginn sinn og hélt sig svo á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Fór upp í mat með tveimur af samstarfskonum mínum sem skráðar eru í mat. Ég hef ekki verið skráð í mat í mörg ár, eða ekki síðan þetta áskriftarkerfi komst á, en einn vinnufélagi okkar sem er skráður er í fríi og skv kokkinum í Seðlabankanum er ekki verið að spá í hverjir koma bara að það eru sex skammtar skráðir fyrir RB-inga. Eftir hádegi var ég að flokka kennispjöld til klukkan þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í tæpa klukkustund áður en ég skrapp yfir í Sundhöllina. Fór beint á braut 4 í útilauginni og synti í rúmt korter. Eina ferð í kalda pottinn og endaði á gufubaði.

27.4.22

Sumardekkin undir

Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Hitti aðeins rófulausan kött rétt áður en ég fór yfir á gangbrautarljósunum yfir Miklubraut. Staldraði ekkert við og kötturinn elti mig ekki, sem betur fer. Framleiðsluvélin var með stæla. Þær sem höfðu verið aðeins lengur í gær, alveg til hálfsjö, höfðu ekki klárað það verkefni sem þær ætluðu sér. Ég átti að vera á ítroðsluendanum. Sló nýbreytt aðgangsorðið mitt rangt inn of mörgum sinnum og læstist því úti. Sú sem var í bókhaldinu í gær loggaði sig inn í staðinn og ég gat amk hlaðið inn daglegum verkefnum. Viðgerðarmaður kom á svæðið upp úr klukkan níu. Hluti af vandamálinu var að endurræsa þurfti ákveðinn hugbúnað og sem betur fer voru báðir kerfisfræðingarnir á svæðinu. Framleiðslan komst svo fljótlega í gang. Við sem vorum á vélinni vorum leystar af í kaffi um hálfellefu. Við fórum svo á undan í mat, en ekki fyrr en um tólf þó. Þegar við tókum við aftur var öllum daglegum verkefnum lokið svo við fórum beint í það verkefni sem kláraðist ekki í gær. Að ljúka því tók óvenju langan tíma og mín tilfinning var sú að þetta var bæði vélin og hráefnið sem voru með vesen. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar þessari framleiðslu var lokið. Verkefnunum sem lá á var samt ekki lokið en ég varð að drífa mig heim þar sem einkabílstjórinn svaraði ekki símanum. Kom heim rétt rúmlega fimm og hafði smá stund til að skipta um bol og fá mér smá hressingu áður en ég fór með bílinn á N1 við Fellsmúla til að sækja sumardekkin, láta setja undir og skilja nagladekkin eftir á dekkjahótelinu. Átti pantaðan tíma klukkan hálfsex og sá tími stóðst. Beið í tæpan hálftíma á meðan verið var að skipta um dekk og gat svo notað mér N1 afslátt Davíðs Steins með því að þylja upp kennitöluna hans. Dekkjaskiptin og dekkjahótelið kostaði mig rúmlega tólf þúsund með afslættinum, hefði annars farið yfir fjórtán þúsund. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Hagkaup í Skeifunni. Keypti súsíbakka handa brærunum og nokkrar dokkur af bómullargarni sem þvo má á 60°C, á tilboði.

26.4.22

Vinkonuhittingur

Labbaði í vinnuna í gærmorgun, þvert yfir Klambratún og þá leiðina. Rétt áður en ég beygði inn á Gunnarsbraut af Flókagötunni heilsaði köttur upp á mig sem elti mig svo næstum alla Gunnarsbrautina. Ég var í bókhaldinu í gær. Þegar ég var búin að prenta út og undirbúa fyrstu talningar fór ég með 16 flokkaða kassa af kennispjöldum í kennispjaldageymsluna og kom til baka með 15 óflokkaða kassa. Erum að flokka árin 2010-2011 og eigum því um fimm ár eftir þar til við komum að þeim stað þar sem við byrjuðum að flokka spjöldin eftir bönkum. Fékk skilaboð frá Ellu vinkonu um að hún væri í bænum og ef ég vildi og gæti gætum við hist á Grandhótel seinni partinn. Þegar ég sá skilaboðin sendi ég þumal og sagðist mæta. Tvær af okkur fjórum sem voru að vinna ákváðu að vera í vinnu þar til endurnýjun plasta sem renna út næstu mánaðamót væri lokið. Veit ekki hversu lengi þær þurftu að vera en kannski til klukkan að verða sex. Ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið og var komin rúmlega fjögur. Tæpum klukkutíma seinna skutlaði Oddur mér í vinkonuhittingin. Ella var stödd með nokkrum kennurum úr Egilsstaðaskóla í skólaheimsókn í bænum. Fóru í einn skóla á Suðurnesjunum í gær og fara í Langholtsskóla í dag. Hitti vinkonu mína og þrjá af átta öðrum kennurum í lobbýi hótelsins. Við skruppum á barinn þar sem var  "Happy hour" milli fimm og sjö. Ella bauð mér upp á hvítvínsglas og ég bauð henni næsta umgang. Oddur sótti mig svo aftur um hálfsjö. 

25.4.22

Mánudagur

Þrátt fyrir að hafa farið upp í rúm eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags og lesið í smá stund áður en ég fór að sofa svaf ég bara til klukkan átta í gærmorgun. Fór á fætur mjög fljótlega og eyddi deginum í netvafr, prjón, fótbolta og þáttaáhorf. Kláraði eina tusku og fitjaði upp á annarri. Var með bók við höndina en las svo ekkert fyrr en ég fór í háttinn um tíu. 

24.4.22

Smá lottovinningur annan laugardaginn í röð

Klukkan var rétt að byrja að ganga átta þegar ég var komin á fætur í gærmorgun. Klukkutíma síðar var ég mætt í sundhöll Reykjavíkur. Byrjaði á því að setjast í kalda pottinn í um sjö mínútur. Svo fór ég upp í inni laugina og hafði innstu brautina alveg fyrir mig. Synti í hálftíma. Aðra hverja ferð á bakinu og fjórar ferðir skriðsund og amk 14 ferðir á bringunni. Settist smá stund í heitari pottinn upp á svölunum áður en ég fór aftur í kalda. Eftir stund í gufunni, þriðju ferðina í kalda og smá bekkjarsetu þvoði ég mér hárið áður en ég fór aftur heim og hellti mér upp á kaffi. Var lengi vel á báðum áttum hvort ég ætti að drífa mig austur en það sem hélt helst aftur af mér eru nagladekkin en ég festist líka yfir boltanum. 

23.4.22

Laugardagur

Vaknaði tæpum hálftíma á undan vekjaraklukkunni. Slökkti á henni og dreif mig á fætur. Fór á bílnum í vinnuna. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og þurfti að byrja á því að skipta um lykilorð. Ekki var alveg jafnmikil framleiðsla í daglegu skránum og síðasta vetrardag. En þó var smá slatti í einni tegund þar sem plastbirgðir bárust þá og tappi var tekinn úr svo hægt væri að hleypa framleiðslu í gang. Þetta voru þó ekki nema rúmlega níutíu kort sem safnast höfðu upp á rúmum tveimur vikum. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi var allt talið og unnið í endurnýjun á plasti sem búið er að geyma vegna birgðarstöðunnar. Við fengum semsagt smávegis af birgðum á miðvikudaginn var. Ekki nóg til að klára allt sem bíður en sumt af því þó og svo er von á meira plasti á næstu dögum. Sú sem var í bókhaldinu þurfti að fara um hálfþrjú en af því að það var kerfisfræðingur staddur hjá okkur, m.a. til að stilla af nýtt plast, gátum við framleitt til rúmlega þrjú áður en við gengum frá. Vorum samt ekki alveg búnar þá því þá þurftum við að aðstoða kerfisfræðinginn við breytingarnar. Eftir vinnu fór ég svo beinustu leið í sjóinn. Klukkan var að verða hálffimm þegar ég óð út í næstum hálfa leið til Kópavogs því það var háfjara. Sjórinn sagður 7°C og ég entist rúmar tuttugu mínútur í buslinu. Var bara helminginn af þeim tíma í heita pottinum á eftir. Áður en ég fór heim ætlaði ég að skreppa á Atlantsolíustöðina við Sprengisand en ég kom Bústaðameginn frá og þeim meginn er búið að loka vegna framkvæmda. Ég sá amk ekki í fljótu bragði að hægt væri að beygja til vinstri. Ég fór því alla leið í Hafnafjörð á stöðina við Kaplakrika til að fylla á tankinn. 

22.4.22

Einn virkur dagur

Ég rumskaði upp úr klukkan fimm í gærmorgun. Rétt rúmlega klukkustund síðar ákvað ég að drífa mig bara á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég svo í stofusófann með fartölvuna í fanginu. Davíð Steinn kom á fætur rétt fyrir hálftíu. Hann átti ekki að vera mættur í vinnu fyrr en klukkan tíu. Ég skutlaði honum upp í Grafarvog og hleypti honum út við vinnustaðinn á slaginu tíu. Svo ákvað ég að prófa að fara í Grafarvogslaug. Þrátt fyrir að það séu rúmlega tuttugu ár síðan þessi laug var opnuð hef ég aldrei farið í hana áður. Aðstaðan alveg til fyrirmyndar. Kaldi potturinn kaldur og ágætur og ég byrjaði á því að fara í hann. Síðan synti ég í rétt rúmar tuttugu mínútur áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Eftir þá ferð fór ég í pott sem merktur var 42-44°C. Svo fór ég aftur í kalda áður en ég fór í gufu. Á svæðinu eru bæði eimbað og gufubað og einnig smáhýsi með infrarauðum hitaljósum. Prófaði að setjast þar inn áður en ég fór upp úr og heim. Þegar heim kom skellti ég handklæðum í þvottavél og tók með mér þvott af Oddi af snúrunum með mér upp. Svo hellti ég mér upp á kaffi. Annars var gærdagurinn bara rólegur og góður. Heyrði aðeins í pabba seinni partinn og horfði á nokkra þætti.

21.4.22

Sumardagurinn fyrsti

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni. Fór aftur á bíl í vinnuna. Ég var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Dagleg framleiðsla fór yfir þúsund kort. Svo er að hellast yfir endurnýjun. Það er líka að koma hráefni til að klára þær endurnýjunarskrár sem hafa þurft að bíða. Það er bara spurning hvort það er nóg til að dekka líka daglegt. Var í vinnu til klukkan að ganga fimm. Ákvað þá að fara bara beint heim þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis í skottinu. Var að vafra á netinu og horfa á beinar útsendingar. Sendi Odd Smára að sækja bróður sinn í vinnuna. N1 sonurinn var mjög glaður að verða sóttur án þess að biðja um það. 

20.4.22

Tannlæknaheimsókn

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun með ýmislegt með mér í skottinu. Þar sem að ég þurfti að skreppa frá um tíu var ákveðið að ég væri í bókhaldinu frekar en framleiðslunni. Við vorum þrjár í vinnu og um níu kom svo sá kerfisfræðingur sem mun flytja með kortadeildinni þegar við förum yfir í seðlaverið við Sundaborg seinna á árinu. Þar með máttu hinar tvær halda framleiðslu áfram þegar ég fór til tannlæknisins. Það tók um klukkustund að gera við brotnu framtönnina og fylla aftur rótina á jaxlinum. Þegar ég kom til baka var ekkert stæði á neðra planinu laust svo ég lagði í gjaldstæði á Skúlagötunni móts við bakaríið. Debetframleiðslunni var lokið og stelpurnar voru að pakka. Ég kom mátulega til að prenta út listann fyrir hádegisframleiðsluna. Skrapp upp í mat með þeirri sem er komin í mataráskrift. Borgað er fyrir 6 frá RB í mötuneyti Seðlabankans en amk tveir eru í fríi og þá má nýta sér það. Hættum vinnu um hálfþrjú. Þá skrapp ég á bókasafnið og skilaði öllum fimm bókunum. Fékk mér fimm bækur í staðin og ein af þeim er skammtímalánsbók; Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur. Af safninu ákvað ég að skreppa í Vesturbæjarlaugina. Synti ekki nema í tíu mínútur og fór aðeins einu sinni í kalda pottinn. Áður en ég fór heim kom ég svo við í Fiskbúð Fúsa. 

19.4.22

Stutt en slitin vinnuvika

Ég var vöknuð um átta í gærmorgun. Í stað þess að klæða mig strax fór ég að lesa. Kláraði síðustu bókasafnsbókina og byrjaði svo loksins á einni af jólabókunum; Djúpið eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Klæddi mig ekki fyrr en um tíu leytið. Bríet var enn sofandi í stofunni og hafði talað um að sofa til ellefu. ég hélt mig því bara í herberginu mínu eftir morgunverkin á baðherberginu. Upp úr klukkan hálfellefu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér hressingu með. Skrifaði á fermingakort og setti seðil í umslagið inn í kortinu. Stuttu fyrir eitt urðum við frænkur samferða á mínum bíl yfir í Síðumúla þar sem fermingarveislan var haldin. Fermingarbarnið hafði valið að hafa hamborgaraveislu. Það er uppáhaldsmaturinn hans og er vist orðið nokkuð algengt. Á eftir var boðið upp á kaffi, kransaköku, tertu, sörur og marglitar smákökur. Veislunni lauk um hálffjögur. Frænka mín kom heim með mér og var alveg róleg til klukkan að verða hálfátta en þá kvaddi hún og lagði af stað austur. 

18.4.22

Bíl- og göngutúr með vinum

Var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun. Bríet var búin að skila sér "heim" úr útstáelsi svo það var lokað inn í stofu. Ég vafraði aðeins um á netinu en svo hélt ég áfram að lesa síðustu ólesnu bókina sem er í fórum mínum af bókasafninu; Síðasti naglinn eftir Stefan Ahnheim. Um ellefu hringdi afmælisbarn gærdagsins en við höfðum sammælst um að ég kæmi yfir til þeirra um hálfeitt. Hún var að bjóða mér að koma aðeins fyrr eða upp úr klukkan hálftólf. Þegar þangað kom beið mín smurð flatkaka, kaffi og döðluterta með rjóma. Tæpum klukkutíma síðar lögðum við af stað í bíltúr, þau hjónin og ég. Við fórum á þeirra bíl, hann keyrði en mér var boðið að sitja í farþegasætinu fram í. Leiðin lá til Grindavíkur og þaðan yfir á vinsælustu gönguleiðina að gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Þarna er alltaf eitthvað að fólki en í gær var samt ekkert kraðak. Þúsund krónur kostar að leggja á bílastæðunum. Við löbbuðum alls ekki alla leið þangað sem gýgarnir sáust en alveg upp að hraunjaðri, rúmlega tveggja kílómetra leið frá bílastæðinu. Þegar við komum til baka fengum við okkur hressingu, kaffi og flatköku með hangiketi. Síðan lá leiðin að Reykjanesvita. Stoppuðum aðeins við Gunnuhver en þegar við komum að vitasvæðinu var einnig rukkað þúsund krónu bílastæðagjald þar. Ég var hvort sem er ekki í stuði til að labba meira og alls ekki upp hæðir þar sem var þverhnýpt niður hinum megin. Norsku vinkonu minni var líka orðið mál að pissa. Það varð því úr að ferðinni var haldið áfram til Keflavíkur. Þar komumst við vinkonur á klósett á einni bensínstöðinni. Mér fannst ég svo sem ekki vera í spreng en samt var gott að komast á salernið og tæma blöðruna. Rúntuðum svo aðeins um Keflavík áður en við brunuðum aftur í bæinn. Ég kvaddi þau fyrir utan heima hjá þeim og þegar ég kom heim var Davíð Steinn að elda kvöldmatinn. Bríet var að hitta vin og ætlaði að skutla honum til Keflavíkur. Hún hringdi og spurði hvort hún mætti bjóða honum að borða með okkur. Það var auðsótt mál.

Svo verð ég að segja frá því að þegar ég hringdi í pabba á laugardaginn var sagðist hann hafa skroppið í sund um morguninn. Starfsfólkið varð hissa að sjá hann en tók vel á móti honum.

17.4.22

Páskadagur

Var komin á fætur rúmlega hálfsjö. Tæpum klukkutíma síðar hleypti ég Davíð Steini út við N1 stöðina í Gagnveg í Grafarvogi og beið eftir því að hann færði mér kaffibolla út í bíl. Næst kom ég við í hraðbankanum í Landsbankaútibúinu við Borgartún. Þá lá leiðin upp í Sundhöll. Lagði á stæði við Austurbæjarskóla. Eins og mig grunaði var kominn tími til að endurnýja árskortið í sund. Sú sem afgreiddi mig rétt mér einnig penna til að merkja aftur kortið mitt. Korter yfir átta var ég komin ofan í kalda pottinn. Þar sat ég í rúmar fimm mínútur áður en ég ákvað að prófa gömlu innilaugina. Synti í rúmar tuttugu mínútur, helminginn af 550m á bakinu, 100m (tvær ferðir) skriðsund og afganginn bringusund. Fór svo í gamla heitar pottinn í nokkrar mínútur áður en ég fór aftur niður, út og í kalda pottinn. Endaði í gufubaði. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Næst lá leiðin á bílaþvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var þar um það bil sem var verið að opna og var þriðji bíll dagsins í gegn. Svo kom ég við í Krónunni og gerði stórinnkaup áður en ég fór heim og gekk frá vörunum. Eftir að Bríet kom fram úr stofunni skömmu síðar fór ég þangað inn. Hlustaði á hádegisfréttir, horfði á leiki í enska og landsleikinn í handbolta. Bríet skrapp frá milli hálftvö og hálffimm að reka nokkur erindi og svo fór hún aftur á áttunda tímanum til að sækja frænda sinn úr vinnunni. Seinna um kvöldið skrapp hún út í einhverja heimsókn og var ekki komin aftur þegar ég fór inn í rúm um ellefu.

16.4.22

Á skutlvaktinni

Var komin á fætur um níu, fyrst af öllum í húsinu. Eftir morgunverkin á baðherberginu kveikti ég á einni tölvunni hans pabba og sat þar næsta klukkutímann. Þá fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg. Settist svo aftur við tölvuna. Davíð Steinn og pabbi komu næst á fætur, um hálfellefu og Oddur Smári fljótlega eftir það. Lagði nokkra kapla áður en ég hellti mér upp á smá kaffi. Settist svo með kaffibollann, prjónana og bók inn í stofu. Bríet kom á fætur um hádegið. Þau Davíð Steinn fóru í langan göngutúr milli hálftvö og hálffjögur, komu til baka mátulega í kaffitímann. Oddur Smári gekk frá eftir kaffitímann. Ég var búin að taka þrjú frosin bleikjuflök úr frysti. Um sex setti ég upp hrísgrjón, kryddaði flökin og léttsteikti á pönnu. Davíð Steinn og Bríet gengu frá eftir kvöldmatinn og settu uppþvottavélina í gang. Ég horfði á fréttir, íþróttir og veður áður en við mæðginin þökkuðum fyrir okkur, kvöddum og héldum af stað heim á leið. Oddur sá um aksturinn og ég sat í aftursætinu. Hálftíma á eftir okkur kom Bríet en hún ætlar að fá að gista hérna fram á mánudag.  

15.4.22

Föstudagurinn langi

Var komin á fætur um klukkan hálfníu í gærmorgun. Fór fljótlega niður í þvottahús að sækja þvott á snúruna. Annars var ég að vafra um á netinu til klukkan að verða ellefu. Davíð Steinn kom fram um hálftólf og Oddur rúmum klukkutíma síðar. Þá var ég farin að lesa og kláraði næstsíðustu bókina sem ég er með af safninu. Um hálftvö lögðum við mæðgin af stað austur. Pabbi var að leggja kapal og Bríet nývöknuð þegar við mættum þangað rétt fyrir þrjú. Pabbi skrapp fljótlega út í búð og ég hellti upp á kaffi. Frændsystkynin skruppu labbandi út í búð eftir kaffi. Þá var búið að loka þar. Þau keyptu sér eitthvað hjá Olís en Bríet og Davíð Steinn skruppu svo á hennar bíl austur í Hvolsvöll og keyptu þar páskaegg og malt.

Setti upp blómkál og lauk í gufupottinn um sex. Pabbi kveikti fljótlega upp í grillinu og ég bjó til piparsósu úr tveimur pökkum frá Toro. Maturinn var borðaður um sjö og það var einnig boðið upp á sætkartöflumús, hrásallat og gular baunir með. Pabbi var búinn að kaupa hvítvínsbelju og ég fékk mér í glas eftir matinn.

14.4.22

Annar landsleikur í annarri hópíþróttagrein

Varð mjög hissa þegar ég vaknaði við það að vekjarinn í gemsanum var að hringja. Hafði rumskað aðeins á sjötta tímanum en svo steinsofnað aftur. Ég fór á bílnum í vinnuna. Vorum bara þrjár svo við héldum okkur á sömum svæðum þar til daglegri framleiðslu lauk um hálftólf. Ég var á ítroðsluendanum. Ákvað svo að skreppa upp í mat með annarri hinni. Ég hef ekki verið í mataráskrift í nokkur ár eða eiginlega síðan þetta áskriftarkerfi var sett á. En það eru 6 skráðir í mat frá RB í mötuneyti Seðlabankans og amk tveir af þeim voru í fríi í gær svo mér var frjást að notfæra mér það. Það var mjög góður þorskur í matinn og ýmislegt girnilegt meðlæti sem hægt var að fá sér með. Hættum vinnu um hálfþrjú. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík og svamlaði í sjónum í uþb 15 mínútur. Kom heim um hálffjögur og kveikti fljótlega á sjónvarpinu til að fylgjast með umspili karlalandsliðsins í handbolta við Austuríki á útivelli.

Skólasystir strákanna úr Hlíðaskóla kom í heimsókn til að fá Odd til að hjálpa sér með smá skólaverkefni. Við Davíð Steinn fengum líka að taka þátt. En við áttum að spila BINGO í tölvunni hennar og segja svo hvað okkur fannst um forritið. 

13.4.22

Í efsta sæti

Ég var vöknuð, klædd og komin fram korter yfir sex. Þremur korterum seinna labbaði ég af stað í vinnuna. Mætti fyrst af fjórum. Var frammi í undirbúningi undir pökkun og flokkun kennispjalda fram að kaffi. Taldi einnig með þeirri sem var í bókhaldinu eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Kláruðum dagleg verkefni um hálftólf. Bókarinn fór um hádegi, tók styttingu vinnuviku það sem eftir var af deginum. Ég fór á móttökuendann á vélinni eftir mat og af því að við skiptum um svokallaðan innfylliborða gátum við lokið við það sem hægt var af síðustu endurnýjuninni án þess að eyðileggja fleiri kort. Vorum búnar um tvö og gengum frá. Ein af okkur þremur sem eftir vorum þurfti að fara rétt fyrir tvö og við, tvær síðustu, fórum um hálfþrjú. Fékk far með henni heim. Var því komin heim rúmum hálftíma fyrir landsleikinn við Tékka. Þetta var mikill baráttuleikur og okkar stelpur unnu hann á einu marki skoruðu um miðjan fyrri hálfleik. 

12.4.22

Dymbilvika

Vaknaði um klukkan sex í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og hafði tæpa klukkustund í netvafr áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Vorum fjórar í vinnu, ein í frí næsta hálfa mánuðinn. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi og í pökkun, talningu og fleiru fram að hádegi. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann að vinna að endurnýjun. Fljótlega fór að bera á því að vélin var að henda og eyðileggja kort þegar aðeins var eftir að ljúka við að setja cvc númer, embossa og setja gyllt yfir. Prófuðum að létta á rúllunni sem tekur upp mjóa svarta borðann. Það virkaði bara um stund. Um þrjú ákváðum við að kalla þetta gott og ganga frá. Fékk far heim úr vinnunni og var ekkert að fara aftur að heiman. Restin af deginum og kvöldið var fljótt að líða.

11.4.22

Heildarfærsla no. 3211

Kom mér á fætur rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun. Dagurinn var allur hinn rólegasti fyrir utan tímann þegar "Leikurinn" milli Manchester City og Liverpool var í gangi seinni partinn. Sá leikur endaði 2:2 en mitt lið vann seinni hálfleikinn með því að skora eina löglega mark þess leikhluta og það í upphafi hálfleiksins, varla búin mínúta af leiknum. Enn munar því aðeins einu stigi á milli þessara tveggja liða og það gæti alveg farið svo að eftir síðustu sjö umferðirnar munaði þessu sama stigi. En til þess þurfa bæði liðin að vinna alla sína leiki sem eftir eru.

Ég var nokkuð mikið í tölvunni í gær en líka að prjóna og horfa á fótbolta eða þætti. Horfði t.d. á fjórða þátt hringfarans á mótorhjólinu. Magnaðir þættir þar á ferð. Framundan er stutt vinnuvika enda páskahelgin um næstu helgi.

10.4.22

Hudraðasti dagur ársins

Var komin á fætur upp úr klukkan hálfátta. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Þar sem ég fór ekki í sjóinn á föstudaginn ákvað ég að fara í hádeginu í gær þegar var flóð. Flóðið náði þó aldrei alveg upp að "landganginu/brúnni" en það voru aðeins örfá skrer út í og stutt í dýpið. Sjórinn var innan við fjórar gráður en engu að síður tolldi ég út í í um korter, ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Úr sjónum fór ég í gufuna og þegar ég fór upp úr gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert í aðstöðunni við Nauthólsvík áður. Ég hafði tekið með mér sjampóið og þvoði mér um hárið. Kom heim um hálfeitt. Veit svo að í næsta skipti þegar ég fer í sund þarf ég að endurnýja árskortið mitt. Aðgangurinn að Nauthólsvík endist hins vegar fram í miðjan maí. Horfði á seinni hálfleikinn í hádegisleik enska boltans sem var eini leikur dagsins sem vannst á heimavelli þar sem Everton vann 1:0 sigur á Manchester United. Hinir fjórir leikirnir unnust allir á útivöllum og sumir frekar stórt. Horfði á tvo af þessum fjórum leikjum. Um fjögur hringdi nafna mín og frænka að norðan í mig. Hún var stödd hjá mági sínum og bauð mér að koma að sækja nokkrar myndir af mömmu til hans en konan hans dó fyrir nokkrum misserum (fyrir Covid). Kláraði eina tusku í gær og fitjaði strax upp á annarri. Horfði á Alla leið og nokkra þætti áður en ég fór upp í rúm að lesa og svo sofa um miðnætti.