17.6.16

Óvæntur ferðaspenningur

Í morgun ákvað ég að sleppa sundinu þótt það væri opið frá klukkan tíu í morgun í Laugardalnum. Ég var alveg komin á fætur og skutlaði unga vinnandi manninum á aukavakt á Shell-stöðina við Birkimel rétt fyrir tíu. Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um klukkustund síðar og hafði m.a. farið með slatta af glerflöskum og krukkum í þar til gerðan gám í millitíðinni. Við Inger vorum nokkuð duglegar í esperantolestrinum og erum nú að byrja að lesa Kontiki. Það á eftir að verða skemmtilegt ævintýri. Um hálfeitt hringdi sá sonurinn sem var heima. Hann vantaði að komast til eins vinar síns í Breiðholti og þar sem ég hafði óvart tekið með mér klinkbudduna ákváðum við Inger að við færum bara í göngutúr á því svæði. Náðum í Davíð Stein og skutluðum honum þangað sem hann vildi fara og lögðum svo bílnum rétt fyrir neðan Stekkjabakka og löbbuðum smá hring um Elliðaárdalinn. Svo skutlaði ég vinkonu minni aftur heim.

Ég var ekki búin að vera mjög lengi heima þegar dyrabjallan hringdi. Á tröppunum stóðu tveir spilafélagar bræðranna. Ég hleypti þeim inn með spiladótið en stuttu síðar fóru þeir og sóttu Davíð Stein svo hægt væri að byrja að spila. Ég sótti Odd um hálfátta og félagarnir fjórir eru enn að spila. Hljóta þó að verða að hætta bráðum þar sem Oddur á aukavakt aftur á Birkimelnum klukkan níu í fyrramálið. Annars var hringt í mig rétt fyrir klukkan átta og ég spurð að því hvort ég væri með gilt vegabréf. Svarið var já og þá fylgdi önnur spurning í kjölfarið sem ég þurfti að fá að melta aðeins áður en ég gaf svar við henni. Framundan er óvænt ferðalag... Meira um það, sennilega eftir rúma viku.

16.6.16

Ljúft að vera í sumarfríi

Alla fjóra virku morgnana í þessari viku hef ég mætt í sund strax klukkan hálfsjö. Oftast hef ég verið vöknuð á undan vekjaraklukkunni en í þetta eina skipti sem klukkan hringdi og vakti mig tíu mínútum fyrir sex var ég nokkuð brött og dugleg að koma mér af stað. Hluti af því sem togar mig í sundið á þessum tíma er "morgunfólkið mitt", t.d. Lene sú sem ég kynntist í kalda pottinum fyrir rúmu ári síðan. Í gær urðum við líka vinkonur á Facebook.

Ungi maðurinn sem er kominn með sumarvinnu átti vakt á mánudaginn, frí á þriðjudaginn og vakt í gær og í dag.  Allt eru þetta 12 tíma vaktir. Þegar hann kemur heim eftir vaktina í dag fær hann þriggja daga frí. Hinn ungi maðurinn hefur verið duglegur að hjálpa mér við ýmis viðvik hér heima, m.a. hefur hann séð um kvöldmatinn í tvö skipti og hann er búinn að taka að sér að sjá um matmálin í kvöld líka þar sem ég er að hugsa um að bregða mér á Valsvöllinn á heimaleik minna manna og FH. Sá leikur er reyndar ekki fyrr en klukkan átta en það vill til að sonurinn hefur gaman af að stússa í eldhúsinu svo ég fæ rýmri tíma til að sinna áhugamálunum mínum. Já, ég veit að ég er heppin og þakka fyrir það daglega.

14.6.16

Sumarfríið byrjað

Endemis skrifleti er þetta. Tilefnin eru til staðar, þ.e. það er nóg að gerast í kringum mig dags daglega en ég er ekki að gefa mér tíma til að skrásetja það helsta. Eins og ég hef áður skrifað þá hefur þetta bæði sína kosti og galla. Kostirnir eru að ég er ekki að skrifa of mikið um það sem er að gerast í kringum mig en gallarnir helst þeir að sumir "mikilvægir atburðir" gætu orðið útundan og aldrei komist á blað. Hvað gerir maður þá þegar maður rennir yfir þetta tímabil seinna meir?

Klukkan þrjú á föstudaginn var, var ég komin í sumarfrí. Ég hafði farið á bílnum í vinnunna og einnig tekið sunddótið mitt með þannig að fyrst lá leiðin í Laugardalslaugina. Náði að synda amk 300 metra og dýfa mér tvisvar sinnum í kalda pottinn en klukkan hálffimm var ég mætt í klippingu til hans Nonna í Kristu Quest. Í stólnum á undan mér var einn úr safnaðarstjórninni. Þar sem ég var á bílnum sleppti ég því að fá mér einn einfaldan wiský af barnum. Hef reyndar aðeins prófað það einu sinni en þessi hugsun hafði komið upp kvöldið áður, að ef ég færi labbandi milli heimilis og vinnu og vinnu og hárgreiðslustofu myndi ég geta fengið mér einn einfaldan. Í staðinn keypti ég mér nýjan sjampóbrúsa og endaði svo á því að versla áður en ég fór heim.

Aldrei þessu vant fór ég ekki í sund á laugardagsmorguninn. En ég var mætt í kirkjuna rétt fyrir níu til að taka þátt í göngumessu. Kórinn hafði ekki verið boðaður en engu að síður voru fimm sálmar ákveðnir. Í kirkjuna komu sjö eða átta aðrir fyrir utan prest og organista. Samt voru það eiginlega bara við þrjú sem sungum sálmana. Seinna um morguninn kíkti ég til norsku esperanto vinkonu minnar og við beindum athyglinni aðeins að tilbúna tungumálinu. Um eitt skruppum við á opin dag félags sem heitir Geysir og er í Skipholtinu. Klukkan var því byrjuð að ganga fimm áður en ég dreif mig af stað austur á Hellu. Fékk þá skyndihugdettu að kíkja aðeins við í Fossheiðinni og var vel tekið á móti mér þar að vanda, þrátt fyrir að ég hafi ekki hringt á undan mér. Rétt eftir að ég skilaði mér alla leið á Hellu hringdi æskuvinkona mín í mig. Hún, sem býr á Egilstöðum, hafði verið á ættarmóti á svæðinu fyrr um daginn og var stödd hjá pabba sínum. Ég fékk að borða kvöldmatinn á undan foreldrum mínum og systurdóttur og trítlaði upp í hæð rétt fyrir klukkan átta. Þar hitti ég bæði vinkonu mína og pabba hennar.

Á sunnudeginum hnoðaði ég í kleinur með mömmu og steikti. Eftir kaffi skrapp ég í heimsókn út á elliheimili, ekki alveg þá heimsókn sem ég lagði af stað í en sú sem var svo heppin að fá mig hafði á orði, þegar ég fór, að ég væri alltaf velkomin aftur. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu um kvöldið þegar ég kvaddi og brunaði í bæinn. Lagði lánsbílnum fyrir aftan heilsugæslustöðina.

Í gærmorgun byrjaði ég svo á því að mæta í sund strax við opnun. Reyndar byrjaði ég allra fyrst á því að útbúa hafragraut handa ungu mönnunum og sá sem var að mæta á vaktina um hálfátta varð glaður með það. Um hádegisbil fékk ég mér göngutúr út í Kringlu til að skila þremur bókum á bókasafnið þar. Um tvöleytið bankaði ég upp á hjá hinum unga manninum og spurði hvort hann ætlaði nokkuð að sofa af sér allan daginn. Síðan bjó ég til smá kaffi og var fyrsti kaffibolli gærdagsins drukkinn um hálfþrjú.

6.6.16

Síðasta vinnuvikan fyrir sumarfrí hafin

Það eru liðir aðeins of margir dagar síðan síðasta færsla var sett inn. Mikið að gerast og í nógu að snúast. Vaktavinnuplanið tekur oft breytingum og það er ekki endilega víst að það sem búið var að ákveða í upphafi viku haldist í sömu skorðum út vikuna. En það er í góðu lagi mín vegna, sennilega vegna þess að það er stutt í að ég byrji í sumarfríinu mínu. Fyrstu þrjá virku dagana í þessum nýbyrjaða mánuði vann ég átta-fjögur vakt. Fór á bílnum á miðvikudeginum og byrjaði á því að fara í sund. Strax eftir vinnu skrapp ég í verslunarleiðangur og eftir að hafa fengið strákana til að sækja vörurnar út í bíl dreif ég mig á safnið, skilaði bókunum sem ég var búin að vera með í næstum tvo mánuði og fékk mér nokkrar aðrar álitlegar í staðin, þar á meðal eina sem er með styttri skilafrest, Týnd í Paradís eftir Mikael Torfason. Það er bók sem er mjög vel skrifuð en svolítið skrýtið að lesa um fólk sem maður hefur þekkt í rúm tuttugu ár. Mæli svo sannarlega með þessari bók.

Allt í einu var svo komin helgi. Ungi maðurinn sem er kominn með sumarvinnu átti "æfingarvakt" á föstudag, laugardag og sunnudag. Byrjaði á misjöfnum tímum en vann alla þessa daga til klukkan hálfátta. Hann varð að labba báðar leiðir á Birkimelinn á laugardeginum því ég vildi komast í sund klukkan átta svo ég gæti sótt yngri systurdóttur mína á flugvöllinn um tíu. Reyndar seinkaði fluginu hennar svo um klukkustund. Davíð Steinn kom með mér á flugvöllinn og svo fórum við þrjú næstum beint austur á Hellu. Við mæðgin stoppuðum aðeins framyfir kvöldmat en vorum komin í bæinn upp úr klukkan tíu um kvöldið.

Í gærmorgun gat ég skutlað Oddi í vinnuna eftir sundið því hann átti ekki að vera mættur fyrr en klukkan tíu. Sjálf var ég að fara að hitta norsku esperanto vinkonu mína um svipað leyti svo þetta var alveg í leiðinni. Við Inger létum þó esperantoið alveg eiga sig en fórum göngutúr með þriðju vinkonunni smá hring á Seltjarnarnesinu. Enduðum göngutúrinn á fótabaði í heitri laug sem er rétt við Gróttu. Davíð Steinn var sóttur um tvö af tveimur spilafélögum. Seinna um daginn fór ég á Valsvöllinn og sá "strákana mína" vinna strákana í Stjörnunni 2:0. Ég sótti Odd í vinnuna og lánaði honum svo bílinn eftir að hann var búinn að skipta um föt og fá sér eitthvað að borða. Þeir bræður komu saman heim af spilakvöldinum um ellefu.

1.6.16

Júnímánuður byrjaður

Á mánudagsmorguninn vorum við Oddur Smári snemma á fótum. Ég bauðst til að útbúa hafragraut handa honum sem hann þáði. Sjálf fékk ég mér AB-mjólk með krækiberjum og smá musli. Rétt fyrir sjö löbbuðum við saman út og uðrum samferða alveg yfir hringtorgið við HÍ. Þar skyldu leiðir. Oddur Smári átti að vera mættur í starfsþjálfun á Shellstöðinni við Birkimel um hálfátta en ég í vinnu um átta. Vinnudagurinn til fjögur var fljótur að líða en ég samþykkti að skipta um vakt við aðra á þriðjudeginum. Svo arkaði ég stystu leið heim yfir Skólavörðuholtið eftir vinnu. Heima slakaði ég á um stund en svo hjálpaði Davíð Steinn mér við eldamennskuna. Við borðuðum rétt fyrir sjö. Þá tók ég til sunddótið en byrjaði þó á því að sækja Odd úr 12 tíma vaktinni og skutla honum heim áður en ég fór í Laugardalinn.

Í gærmorgun bað Oddur mig um að búa aftur til graut en hann þurfti að labba einn í vinnuna að þessu sinni því ég var farin á undan honum á bílnum í sund strax eftir opnun laugar. Var svo heppin að hitta á Lenu svo við gátum pottormast og spjallað saman. Er ég kom heim aftur hellti ég fljótlega á könnuna en leyfði klukkunni að verða tíu áður en ég vakti Davíð Stein. Sagði honum að ég hefði tekið út hakk og bað hann um að notað það í kvöldmatargerðina. Um tólf fór ég með lánsbílinn til Odds og labbaði frá Birkimel í vinnuna. Hitti aðeins á hollensku kórsystur mína sem er í barneignarfríi þessa mánuðina en hún kom með í kórferðalagði um daginn. Vinnudagurinn til klukkan sjö leið afar hratt. Ég fór reyndar ekki úr vinnu fyrr en ca 19:15 en var engu að síður á undan Oddi heim. Heima beið dýrindis kvöldmatur, hakk og spakk. Eftir að bræður voru búnir að borða og Oddur að skipta um föt lánaði ég þeim lánsbílinn á spilakvöld í Kópavog. Kvöldið hjá mér leið alltof fljótt en ég uppfærði m.a.heimasíðu óháða safnadarins.