Í morgun ákvað ég að sleppa sundinu þótt það væri opið frá klukkan tíu í morgun í Laugardalnum. Ég var alveg komin á fætur og skutlaði unga vinnandi manninum á aukavakt á Shell-stöðina við Birkimel rétt fyrir tíu. Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um klukkustund síðar og hafði m.a. farið með slatta af glerflöskum og krukkum í þar til gerðan gám í millitíðinni. Við Inger vorum nokkuð duglegar í esperantolestrinum og erum nú að byrja að lesa Kontiki. Það á eftir að verða skemmtilegt ævintýri. Um hálfeitt hringdi sá sonurinn sem var heima. Hann vantaði að komast til eins vinar síns í Breiðholti og þar sem ég hafði óvart tekið með mér klinkbudduna ákváðum við Inger að við færum bara í göngutúr á því svæði. Náðum í Davíð Stein og skutluðum honum þangað sem hann vildi fara og lögðum svo bílnum rétt fyrir neðan Stekkjabakka og löbbuðum smá hring um Elliðaárdalinn. Svo skutlaði ég vinkonu minni aftur heim.
Ég var ekki búin að vera mjög lengi heima þegar dyrabjallan hringdi. Á tröppunum stóðu tveir spilafélagar bræðranna. Ég hleypti þeim inn með spiladótið en stuttu síðar fóru þeir og sóttu Davíð Stein svo hægt væri að byrja að spila. Ég sótti Odd um hálfátta og félagarnir fjórir eru enn að spila. Hljóta þó að verða að hætta bráðum þar sem Oddur á aukavakt aftur á Birkimelnum klukkan níu í fyrramálið. Annars var hringt í mig rétt fyrir klukkan átta og ég spurð að því hvort ég væri með gilt vegabréf. Svarið var já og þá fylgdi önnur spurning í kjölfarið sem ég þurfti að fá að melta aðeins áður en ég gaf svar við henni. Framundan er óvænt ferðalag... Meira um það, sennilega eftir rúma viku.