- Einn sjötti liðinn af árinu -
Í gær fór ég í síðustu foreldraviðtölin vegna grunnskólaveru tvíburanna. Þeir eru að pluma sig frábærlega í flestu eins og alltaf áður. Já, strákarnir munu útskrifast úr grunnskóla í vor. Þessir ungu menn verða 16 ára í sumar og byrja væntanlega í framhaldsskóla næsta haust. Í tilefni af foreldradeginum efndi 10. bekkur til kökubazars í fjáröflunarskyni fyrir væntanlegt "útskriftarferðalag" í vor. Hver nemandi í árganginum átti að koma með amk eitthvað tvennt til að selja og voru tveir sölubásar settir upp í skólanum og skiptu krakkarnir með sér deginum og seldist vel. Kvöldinu áður, á þriðjudagskvöldið, kom einn vinur strákanna í árganginum og bakaði með okkur. Það tókst bærilega vel og í gærmorgun fórum við með tvær brúntertur með súkkulaðikremi, tvö lítil haframjölsbrauð, eina hjónabandssælu, 5x4 muffins og 5x6 kornfleksklatta á söluborðin. Verslaði auðvitað við krakkana á báðum stöðunum. - Annars tók ég mér smá vetrarfrí frá og með hádegi sl. fimmtudag og allan mánudaginn með að auki. Fórum út úr bænum rétt upp úr tvö á föstudag og komum við á Bakkanum á leiðinni upp í Brekkubæ, nýjasta sumarbústað RB á Efri-Reykjum. Við Davíð fórum í heita pottinn seint um kvöldið. Það var spilað, lesið, saumað (frúin taldi út), horft á imbann og slakað á. Urðum að vera komin aftur í bæinn fyrir hálfeitt á sunnudag því ég varð að vera mætt í upphitun v/jazzmessu. Feðgarnir "hentu" mér út við kirkjuna uþb 12:40 og svo labbaði ég heim um þrjú. Það var mjög gott að eiga svo mánudaginn. Fór á fætur með manninum og skutlaði honum í vinnuna svo ég gæti haft bílinn. Rak tvö erindi í Mjóddinni og heimsótti svo Böddu. Seinna um daginn heimsótti ég fyrrum nágranna okkar af Hrefnugötunni í fyrsta sinn eftir að þau fluttu á Sléttuveginn.