17.4.12

- Úr ýmsum áttum -

Sumardagurinn fyrsti er eftir tvo daga. Apríl er rúmlega hálfnaður og dagurinn heldur áfram að lengjast. Ýmislegt er á döfinni og ég hef verið að sýsla við eitt og annað undanfarnar vikur. Las 3 krimma upp til agna, "Englasmiðurinn", "Hugsaðu þér tölu" og "Snjókarlinn", allt mjög spennandi bækur sem ég gat varla lagt frá mér fyrr en þær voru búnar. - Páskafríið leið alltof hratt. Við vorum boðin í mat á skírdagskvöld (öll fjögur) þar sem okkur var boðið upp á verðlaunafiskisúpu. Á föstudaginn langa mætti ég í kirkjuna um sjö eh bæði til að hita upp fyrir árlega kvöldvöku þar sem sálmar eru sungnir milli lestra sem og að æfa fyrir páskadagsmorgun. Seinni partinn á laugardeginum var okkur Davíð boðið í heimagert súsý og einhenti Davíð sér í að hjálpa húsmóðurinni á heimili gestgjafanna til að útbúa alla bitana. Stoppuðum aðeins framyfir miðnætti en ég þorði ekki að vera lengur þar sem ég þurfti að fara á fætur upp úr sex vegna páskadagsmorgunmessusöngs. Á annan í páskum kleif ég megnið af Helgafelli með Davíð. Hann fór auðvitað alla leið og svo beint á Úlfarsfellið á eftir. Seinni partinn þann dag skruppum við svo á Bakkann. - Þessir fjóru virku vinnudagar í síðustu viku liðu afar hratt. Það var að sjálfsögðu kóræfing á miðvikudeginum og á fimmtudagskvöldið skrapp ég yfir til tvíburahálfsystur minnar þar sem ég hitti einnig aðra stúlku frá Selfossi. Á laugardaginn mætti ég á langa kóræfingu í kirkjunni ásamt kórfélögum mínum og kórfólki og tveimur öðrum kórum. Flestir voru mættir fyrir tíu og enginn fór fyrr en klukkan var byrjuð að ganga fjögur. - Sl sunnudagur var notaður í smá þrif, þvotta, innkaup og svo gengum við Davíð á Úlfarsfellið ásamt 4 vinnufélögum hans. Tvíburarnir voru velkomnir með en þeir nenntu ekki þegar til kom. - Í gærkvöldi mætti ég í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar rétt áður en klukkan sló átta. Var svona í fyrra fallinu því ég skutlaði Davíð í pílu um hálfátta. Við vorum þrjár sem mættum og vorum að í tæpa þrjá tíma en skyldum reyndar ekkert í því hvernig tíminn fór að því að æða svona áfram. Okkur fannst við ekki hafa stoppað nema í uþb klst. Já, tíminn flýtir sér enn meir þegar það er gaman og glatt á hjalla. Ég vann að nýjasta verkefninu sem ég byrjaði á um nýliðna helgi. "FRIENDS TOGETHER HERE" eða VINIR HITTAST HÉR eins og ég ætla að sauma út fyrir ofan mynd af tveimur böngsum sem sitja í bókahillu. Erfitt að lýsa þessu betur, en ég mun líklega taka mynd af þessu þegar ég er búin með þetta.