30.9.08

- September á síðasta degi -

Enn og aftur hafa dagarnir hlaupið frá mér án þess að ég fái nokkuð að gert. Hér verður gerð tilraun til að rekja helstu atburði afturábak...

Í gær fékk ég að fara aðeins fyrr heim úr vinnu til að ná í bankann fyrir lokun og sækja nýja debetkortið mitt. Það gamla hefði hætt að virka um leið og þessi mánuður er liðinn. Að þessu erindi loknu labbaði ég á skrifstofun til Davíðs og sótti hjá honum bílinn til að geta skutlað söngfuglinum á æfingu og sótt bikar og barmmerki fyrir DKR. Sótti manninn upp úr fimm en á heimleiðinni mundi ég eftir að skilafrestur bókasafnsbókanna þrettán væri um það bil að renna út. Hafði ekki getað framlengt skilafrestinum í Gegni því skírteinið mitt rann út fyrr í mánuðinum. Eftir stutt stopp heima ákvað ég því að fara og ganga frá þessum málum. Skilaði níu bókum, endurnýjaði skírteinið og labbaði út úr safninu með fjórar nýjar bækur (hinar fjórar af þrettán voru eftir heima og gat ég framlengt þeim um mánuð í gærkvöldi).

Af bókasafninu fór ég og sótti söngfuglinn og skutlaði honum heim. Lagði svo fyrir utan Þórshamar og hringdi og spjallaði við mömmu á meðan ég beið eftir að karatestrákurinn kæmi af æfingu. Eftir mat vöskuðum við karatestrákurinn upp saman, hann þvoði og ég þurrkaði. Svo lá leið mín til "tvíburahálfsystur minnar" en hittingurinn hjá okkur var þríþættur. Gengum alveg frá ársskýrslu og efnahags reikningi fyrir DKR með því að skrifa undir. Föndruðum svo nokkur kort á meðan við létum hugann reika sem fulltrúar í ferðanefnd óháða kórsins.

Á sunnudaginn var tónlistamessa í Óháðu kirkjunni. Af því tilefni var heldur minna að gera hjá okkur kórfélögunum en oft áður. Seinni partinn voru tvíburarnir boðnir í afmæli til fyrrum bekkjarfélaga síns úr Ísaksskóla. Fór með er þeim var skutlað og bað svo Davíð um að keyra út að Gróttu. Þar stoppuðum við í fjörunni góða stund.

Laugardagurinn fór í þramm milli heimilis, Kringlu, esperantovinkonu og Þórshamars. Fór að heiman um hálftíu og lokaði hringnum um hálftvö. Síðan var verslað. Um kvöldið skrapp Davíð við fjórða mann að hitta þann fimmtan rétt vestan við Selfoss til að spila smá póker. Við Oddur Smári skutluðum Davíð Steini í óperuna og skruppum svo í heimsókn til einnar vinkonu minnar sem var að passa dótturdætur sínar. Oddur lék við og las fyrir eldri stelpuna.

Föstudagurinn var þokkalega rólegur. Á fimmtudagskvöldið skutlaði ég söngfuglinum í óperuna og skrapp í heimsókn upp í Grafarholt. Stoppaði í næstum tvo tíma enda var langt síðan ég leit við síðast...

22.9.08

- Smá annríki -

Í gær lánaði ég systur minni manninn minn í nokkra klukkutíma. Hann var að hjálpa henni við að setja upp heimasíðu. Í þakklætisskyni fyrir lánið bauð hún okkur öllum í mat. Í millitíðinni skrapp ég yfir á Vífilsstaði og heimsótti Jónas ömmubróður minn. Til hans hef ég ekki komið síðan í janúar og er það heldur langur tími sem hefur liðið á milli. Ónýtur "frúrarbíll" er alls engin afsökun fyrir öllum þessum mánuðum. Fann frænda minn í kaffistofunni og drakk með honum einn kaffibolla. Síðan settumst við inn í herbergið hans fyrir framan Stöð tvö sport og horfðum á fyrri hálfleikinn í leik Bolton og Arsenal. Þótt ég sé yfirlýstur Púllari þá hafði ég gaman að því að fylgjast með þessum leik.

Skundaði af stað í vinnuna tuttugu mínútum yfir átta í morgun, með fullt af brons-, silfur- og gull- heiðursmerkjum í bakpokanum. Eftir vinnu var ég svo heppin að ein samstarfsstúlka mín var á leið á Suðurlandsbrautina að sækja mömmu sína úr vinnu. Ég fékk að sitja í og þar sem ég hoppaði úr var stutt labb yfir á skrifstofuna til Davíðs. Hann afhenti mér bíllyklana og ég byrjaði á því að leysa út tvo pakka á pósthúsinu. Því næst sótti ég söngfuglinn minn og skutlaði honum á kóræfingu. Þá loks fór ég með fyrrnefnd merki í Ísspor og valdi í leiðinni bikar fyrir þann pilt sem er að byrja sinn sjötta vetur í DKR. Þeir í Ísspor ætla að grafa fyrir mig í bikarinn, festa merkin og nælurnar saman og athuga í leiðinni hvort festingar og nælur séu í lagi.

Föndurstofan er rétt hjá Ísspor og ég kom aðeins við þar. Sl. fimmtudagskvöld fór ég með ársreikninga DKR til tvíburahálfsystur minnar til endurskoðunar og við tókum smá jólakortakvöld þá. Ég átti til niðurklippt kort og myndir og það eina sem ég þurfti að gera var að setja þetta saman. Náði að gera 10 stk. mjög einföld kort þetta kvöld. Ég á annars örugglega alveg til nóg í kortagerð þessa árs en það er alltaf hægt að bæta við og ég fór ekki tómhent út úr föndurbúðinni í dag.

Um sex var ég mætt á æfingu hjá DKR, alveg tilbúin til að tala við foreldra drengjanna og taka á móti kórgjöldum þessarar annar. Ekki kom nú til þess. Þegar æfingu var lokið fórum við söngfuglinn í Þórshamar og sáum síðustu mínúturnar af æfingu karatedrengsins. Keypti nýjan og stærri búning á strákinn eftir æfingu. Stráksi hefur stækkað heilmikið sl. mánuði. Þegar hann var búinn í sturtu sóttum við Davíð. Þá var klukkan orðin hálfátta og enginn búinn að taka til matinn handa okkur heima (hmm, enda enginn heima til þess að sjá um það...) svo við ákváðum að borða á Pítunni.

21.9.08

- Skotist út á land -

Söngfuglinn kom heim langt gengin í tólf eftir frumsýninguna á föstudaginn var. Hann var glaður og ánægður og þurfti aðeins að fá að segja frá áður en hann fór að sofa. Þótt hann færi svona seint að sofa var hann vaknaður fyrstur í gærmorgun. Fann hann fyrir framan sjónvarspskjáinn um níu en hann sagðist hafa vaknað um átta. Rétt fyrir ellefu skrapp ég yfir til esperanto vinkonu minnar og þegar ég kom heim rúmum klukkutíma síðar var karatestrákurinn farinn á æfingu. Davíð þurfti að skreppa og vinna á skrifstofunni í einhverja tíma í gær en hugur minn vildi ólmur komast austur til pabba og mömmu. Karaterstrákurinn var alveg til í að koma með en söngfuglinn var ekki alveg jafn tilbúinn til að fara. Það er líklega að renna upp sá tími sem strákarnir vilja frekar vera heima með vinum eða í sínu stússi heldur en að koma með okkur foreldrunum.

Við mæðginin fórum samt öll þrjú, að vísu var annar tvíburanna ósáttur lengi vel. Það rjátlaðist þó af honum þegar leið á heimsóknina. Hann slakaði það vel á að það helltist yfir hann mikil þreyta og hann svaf hátt í tvo tíma (spennufall!). Ég skrapp út á elliheimili og heimsótti nokkra þar. Föðurbróðir minn var nýkominn heim úr réttunum svo ég bankaði síðast uppá hjá honum. Þetta voru þriðju réttirnar sem hann fer í og hann á eftir að fara í minnsta kosti einar til.

Það að hitta þessar persónur, sem og pabba og mömmu, og sjá að mömmu er að batna og öxlin sem brotnaði að lagast, róaði huga minn mikið. E
n ef ég þekki mig rétt veit ég samt að ekki líður á löngu þar til ég bara verð að drífa mig aftur og helst að heilsa upp á alla...

19.9.08

- Ég var víst klukkuð -

Sigurrós frænka
og Guðbjörg frænka klukkuðu mig og ég ætla að drífa í að svara "könnuninni":

Fjögur störf sem ég hef unnið:
Skattrannsakari, Heilsdagskólinn (móttaka 6-9 ára barna fyrir og eftir skóla), Grunnskólakennari og Leikskólakennari

Fjórar bíómyndir
:
Naked Gun, Leathal Weapon, Pretty Woman og Harry Potter (ekkert endilega í þessari röð)

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Heiði á Rangárvöllum, Hella, Grafarvogur og Norðurmýrin

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líka:
Robin Hood, Law and Order, CSI og Charmed

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

Mbl.is, Vedur.is, Textavarp.is og Capacent.is

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Borgarfjörður, Landmannalaugar, Egilsstaðir og Reykir (rétt við Laugarvatn)

Fjórir uppáhalds réttir (úr eldhúsinu):
Steiktur fiskur, soðinn fiskur, ofnbakaður fiskur og ofnbakaðar kjúklingabringur

Fjórar bækur:
Kapitola, allar bækurnar hans Arnalds, hennar Yrsu og Mary-Higgins Clark

Fjórir óskastaðir akkúrat núna:
Rúmið mitt, Reykir, æskuslóðir og Skorradalur

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:
Ellu vinkonu, Árný Láru frænku, Guðrúnu Völu og Esther

17.9.08

- Spenningur -

Ég hlakka mikið til kvöldsins. Það er forsýning í óperunni, allir strákarnir fjórir fá að sýna með en á sýningunum eru bara þrír. Búið er að raða piltunum niður á sýningarnar og þeir sýna allir á sex sýningum. Söngfuglinn minn verður á frumsýningunni, þann 19. n.k. en líka 21. 25. og 27. september sem og 5. og 10. október. Hann fær frí 4. og 12. október nema ef einhver hinna þriggja forfallast. Sýningin í kvöld byrjar klukkan sjö en hann á að vera mættur klukkan sex. Ég þarf því að vera búin að gefa honum að borða um hálfsex og pabbi hans að vera kominn tímanlega til að skutla drengnum. Að skutlinu loknu þarf Davíð að sækja hinn tvíburann og bekkjarsystur hans í Háteigskirkju og skutla þeim heim.

Margt var um að vera um síðustu helgi. Mágur minn sótti stóra bróður sinn á föstudagskvöldið og tók hann með sér á spilakvöld. Á laugardaginn var æfing hjá Davíð Steini í óperunni þar sem m.a. var verið að æfa í búningum og með sminki. Um leið og stráksi var búinn skruppum við öll fjögur í heimsókn til Helgu systur og fjölskyldu. Stoppuðum þar í góðan klukkutíma og fórum svo beint þaðan í Kringlubíó að sjá myndina með Anítu Briem og Brendan Fraser. Allan tímann var strákurinn með farðann framan í sér. Eftir kvöldmat skruppum við hjónin yfir í Norðurmýrina til esperanto vinkonu minnar og mannsins hennar, en hann og maðurinn minn hafa þekkst lengi, lengi. Ég dreif mig heim upp úr miðnætti en Davíð staldraði aðeins lengur við.

Á sunnudaginn var ég mætt í kirkjuna rétt fyrir klukkan eitt. Smá stress var í gangi með forsöngslagið en allt var klappað og klárt eftir upphitunina og messan sjálf og kórsöngur tókst bara mjög vel. Einn strákur var vatni ausinn og Stopp leikhúsið sýndi leikritið um ósýnilega vininn (í stað predikunar). Strax eftir messu sótti ég feðgana og við skruppum í heimsókn í Garðabæinn.

En nú er best að fara að huga að öðru.

10.9.08

- Nýjir skór -

Skórnir sem ég keypti í Minneapolis í mars fyrir tveimur árum voru orðnir slitnir, lekir og lélegir. Kom við í Ecco á Laugavegi seinni partinn í gær. Náði ekki þangað á þurrum fótum svo þegar ég fann hentuga skó, keypti ég þá, bað um að gömlu skónum yrði hent fyrir mig og skokkaði heim á nýju skónum sem eru léttir og liprir, reimaðir, smart gönguskór.

Þríburarnir voru farnir á frjálsíþróttaæfingu þegar ég kom heim. Gaf mér góða stund áður en ég fór að huga að matnum en hann var samt tilbúinn þegar Davíð kom heim með strákana. Var meira að segja búin að hella upp á, en hefði eiginlega átt að hella upp á helmingi minna magn (4-5 bolla í stað 8-10) en það er allt önnur saga. Milli átta og hálftíu skrapp ég heim til einnar kórsysturminnar og skoðaði hjá henni nýjasta Friendtex fatalistann og mátaði nokkrar flíkur. Seinna um kvöldið settumst við hjónin fyrir framan skjáinn og héldum áfram að vinna í ársreikningum DKR. Erum alls ekki búinn en á góðu róli með það.

8.9.08

- Annasamur tími framundan -

Nú er komið að æfingatörn í óperunni. Davíð Steinn gaf sér samt tíma til að mæta á sína fyrstu kóræfingu, en hann var á Reykjum þegar æfingar hófust í síðustu viku. Davíð skutlaði syni sínum og hinkraði eftir honum. Skrapp reyndar aðeins í Bónus til að kaupa kex fyrir söngfuglana svo þeir gætu fengið sér eitthvað í hléinu. Karatestrákurinn labbaði á sína æfingu og lagði mjög tímanlega af stað, eða tæpum klukkutíma fyrir æfingu. Nafnarnir komu við um hálfsjö og þá var ég tilbúin með mat handa þeim áður en haldið var á næstu æfingu. Það þurfti að mæta aðeins fyrir sjö í óperuna til að máta búningana. Svo verður æft til klukkan tíu. Á morgun þarf Davíð Steinn ekki að mæta í óperuna en svo þarf hann að mæta þrjú kvöld í röð og einnig nokkra klukkutíma á laugardaginn. Það styttist í frumsýningu.

Geri ráð fyrir að "þríburarnir" fari allir í frjálsar á morgun en svo verður söngfuglinn að segja pass í bili. Það er ekki hægt að gera alveg allt í einu, sérstaklega þegar það er æft er kvöld eftir kvöld til tíu.

Kórinn minn byrjaði að æfa á miðvikudagskvöldið var. Það var mjög gaman og notalegt að vera komin í gang aftur. Við vorum reyndar bara níu, tíu með kórstjóranum. Tvær þær elstu eru sagðar hættar sem mér finnst mjög leiðinlegt. Sú eldri söng í sópran og það var ekki að heyra á röddinni að hún væri komin yfir sjötugt, aldeilis ekki.

Á föstudagskvöldið var bauð ég nöfnu minni og frænku með mér á píanótónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í salnum í Kópavogi. Bauð henni fyrst heim í steiktan fisk með miklum lauk og nýlegum kartöflum og svo smá kaffisopa á eftir. Ég skemmti mér svo mjög vel á tónleikunum, efnisskráin var bæði fjölbreytt og áhugaverð og snillingurinn sýndi allan skalann, var bæði með tæknilega erfið verk sem og mjög tilfinningaþrunginn.

Skruppum á Bakkann seinni partinn í gær og stoppuðum fram á kvöld. Á milli staða las ég Aðgerð Pólstjarna sem er skrifuð af Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamanni. Frásögnin af þessu máli hélt mér alveg við efnið.
.

7.9.08

- Sunnudagsmorgunn -

Ég vaknaði klukkan sjö en tókst að kúra í uþb klst. Feðgarnir sofa og vakna líklega ekki alveg strax. Þá er lag fyrir mig að blogga smá.

Tvíburarnir komu heim seinni partinn á föstudaginn. Davíð hafði ætlað að sækja þá en var ekki alveg viss á komu tímanum svo þeir bræður komu sér sjálfir heim, Oddur Smári heldur fyrr en Davíð Steinn ekkert svo löngu seinna. Þeir voru með eina tösku hvort og svefnpoka. Það eru ekki hjól á þessum töskum svo þær sigu verulega í. Sem betur fer er mjög stutt á milli heimilisins og skólans.

Söngfuglinn fór hjólandi á æfingu í gærmorgunn. Við karatestrákurinn komumst að því að æfingar voru byrjaðar í Þórshamri og hefur ein æfingin af þremur færst til í töflunni frá því síðast. Æfingin hefur færst frá miðvikudögum yfir á föstudaga svo við hefðum skoðað heimasíðu Þórshamars á föstudaginn hefði stráksi líklega farið þá. Samt held ég ekki því hann var nær alveg raddlaus og þreyttur eftir undangenga viku. Ég skrapp í esperanto tíma um ellefu og ákvað svo að kíkja á karateæfinguna á eftir. Þegar ég kom að var æfingin hálfnuð og allir krakkarnir vel sveittir. Það var samt ekkert slakað á. Við komum heim upp úr hálftvö, rétt á eftir söngfuglinum, og þá var mál að fá sér smá hressingu.

Hef lesið þrjár af þeim þrettán bókum sem ég náði mér í af safninu um síðustu helgi: Breiðavíkurdrengur - brotasaga Páls Rúnars Elíssonar skrifuð af honum sjálfum og Bárði Ragnari Jónssyni, Gátt hrafnsins eftir Anthony Horowitz og Hula þagnarinnar - myndbrot úr Íslandsferð eftir Frank Schroeder. Hver annarri ólíkari en allar héldu þær mér við efnið.

2.9.08

- Ferð á bókasafnið og fleira -

Á sunnudaginn dreif ég mig á aðalbókasafnið í Grófinni og var mætt rétt eftir opnun, um eitt. Skilaði sjö bókum og áður en ég vissi af var ég komin með fjórtán bækur í körfuna. Ein af þeim var reyndar ekki til útláns, mátti ekki fara út af safninu, en hafði verið merkt eins og hver önnur lánsbók fyrir misskilning. Tölvukerfið hafði þó vit á að stoppa útlánið af svo ég snéri aftur heim með þrettán bækur. Sú var tíðin, að ég fór létt með að lesa yfir þrjátíu bækur á mánuði. Nú grunar mig að ég verði sennilega að framlengja e-ð af þessum bókum þegar þar að kemur. Las samt eina upp til agna á milli Reykjavíkur og Hellu, báðar leiðir, á sunnudaginn.

Í gær veifaði ég á eftir tvíburunum mínum og eiginlega öllum árganginum þeirra úr Hlíðaskóla. Þau eru nú á Reykjum í Hrútafirði og verða þar, ásamt 7.b Glerárskóla, fram að hádegi á föstudag. Mér skilst að allt gangi vel. Ekki mátti fara með farsíma, sem mér finnst bara hið besta mál, en þau máttu hafa með sér tí-kalla í svoleiðis síma. Fréttir herma þó að tí-kalla símarnir séu eitthvað bilaðir. Hópurinn virðist ætla að verða sérlega heppinn með veður og ég á ekki von á öðru en að vikan verði þeim hið mesta ævintýri.

Þar sem ég vissi að ég myndi koma heim að tómum kofanum seinni partinn í dag, lagði ég leið mína í Norðurmýrina og heimsótti fyrrum nágranna mína. Þó tóku vel á móti mér og ég stoppaði við í góðan klukkutíma. Var samt komin heim á undan Davíð. Reyndar er hann ekki kominn heim ennþá því einn skólabróðir hans úr grunnskóla hafði samband við hann síðdegis og bauð honum með sér á kaffihús eftir vinnu. Þeir hafa væntanlega um margt að spjalla saman svo ég á ekki von á manninum fyrr en seint í kvöld. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég ætla að lesa eða taka upp saumana mína. Reyndar gæti ég líka haldið áfram að taka saman ársreikninga DKR...