Tvíburahálfsystir mín skilaði mér heim að dyrum á laugardagskvöldið var eftir viku útilegu þar sem gist var í tjaldi í fimm nætur af sjö. Gærdagurinn fór í slökun, lestur, prjón og smá imbagláp. Lánaði Oddi bílinn um miðjan dag og var hann kominn heim aftur um hálftíu leytið. Sjálf fór ég ekki út úr húsi, ekki einu sinni í stutta göngu. Hellti upp á kaffi og fékk mér hressingu um tólf leytið og fékk mér snarl um kvöldmatar leytið. Sonja skráði ferðasöguna ásamt nokkrum mögnuðum myndum og merkti mig inn á facebook. Ferðalagið var ákveðið með stuttum fyrirvara enda átti það aðeins að vera prufutúr í eina til þrjá nætur. Þegar við hins vegar vorum komnar af stað leiddi eitt af öðru og til að gera langa sögu mjög stutta þá endaðuðum við á því að fara hringinn með viðkomu á mörgum fjörðum og stöðum á austur og norðurlandi.
Eftir sundferð, hárþvott og esperantohitting laugardaginn 22. júlí sl. lauk ég við að pakka niður um hádegisbil og þóttist tilbúin. Sonja sótti mig um eitt leytið. Foreldrar hennar voru ekki heimavið svo við keyrðum í gegnum Selfoss og beinustu leið á Hellu í heimsókn til pabba míns. Þar fengum við kaffi og pönnsur og stoppuðum í rúmlega klukkustund eða svo áður en við héldum för áfram austur á bóginn. Þegar við vorum komnar vel austur fyrir Hvolsvöll sló því niður í kollinn á mér að svefnpokinn minn hafði ekki komið með í þetta ferðalag. Ég vildi hins vegar ekki snúa við og fá lánaðan poka hjá pabba svo við ákváðum að stoppa í Vík. Þar var keyptur svefnpoki sem fer ótrúlega lítið fyrir. Héldum svo för áfram að Kirkjubæjarklaustri. Ákváðum að kaupa eina gistinótt þar og sjá svo til. Sonja sá um kvöldmatinn og bauð upp á fínasta pastarétt með pepperóní og sósu og þar að auki var hún með bæði rautt og hvítt með. Þurftum að ákveða framhaldið fyrir klukkan tólf á sunnudeginum eða taka okkur upp fyrir klukkan eitt.
Þrátt fyrir mikla veðurblíðu á Klaustri ákváðum við að taka upp tjaldið og halda ferð áfram austur á bóginn, eftir að hafa fyrst fengið okkur kaffi og morgunhressingu. Vorum komnar á Höfn um miðjan dag. Fengum okkur að borða í N1 áður en við héldum áfram. Vorum ekki með neinn ákveðin gististað í huga en stuttu fyrir sjö vorum við komnar í Fossárdal við Djúpavog, rétt að skoða okkur um. Okkur leist vel á staðinn og mótökurnar voru meiri hátta svo við ákváðum að setja tjaldið niður þar. Fengum lánað millistykki og þegar kom í ljós að undirrituð hafði gleymt að taka gaurinn sem tengis við rafmagnssnúruna úr rafmagnsboxinu á Klausti fengum við lánað svoleiðis millistykki. Skáluðum og kláruðum úr vínflöskunum sem við höfðum opnað kvöldið áður, tókum upp handavinnu og sátum og spjölluðum í fortjaldinu fram eftir kvöldi.
Þegar við vorum búnar að fá okkur kaffi og morgunhressingu á mánudeginum tókum við upp rakt tjaldið og skiluðum lánshlutunum í kassa sem var merktur "staff only" rétt fyrir eitt. Héldum svo för áfram austur á bóginn með viðkomu og mislöngum stoppum í fjörðunum. Á Fáskrúðsfirði var verslað í matvöruversluninni. Á N1 í Reyðarfirði fundum við millistykki til að tengjast rafmagnsboxi og við komum einnig við í vínbúðinni þar og endurnýjuðum vínbirgðirnar. Keyrðum um Eskifjörð og nýju gönginn inn á Neskaupsstað áður en við snerum við og keyrðum inn á Egilsstaði. Þar fengum við okkur að borða mjög góðar speltpizzur á staðnum Askur Pizzeria áður en við keyrðum áfram og fundum okkur tjaldstæði í Höfðavík í Hallormsstaðaskógi.
Eftir kaffimorgunhressingu á þriðjudagsmorgninum keyrðum við inn á Egilsstaði. Stoppuðum við í Húsasmiðjunni þar sem keypt var fjöltengi áður en við fórum í sundlaugina. Klukkan var farin að ganga tvö þegar við bönkuðum upp á hjá Ellu vinkonu. Þar hittum við líka aðeins á Einar Bjarna son hennar. Fengum kaffi, gott spjall í hátt á aðra klukkustund áður en við héldum för áfram inn á Seyðisfjörð. Þar skoðuðum við Tæknimynjasafnið og löbbuðum einnig aðeins um bæinn. Vorum sammála um að Borgarfjörður Eystri yrði að bíða aðeins lengur eftir heimsókn frá okkur. Vorum komnar aftur á Egilsstaði klukkan að ganga sjö. Fengum okkur að borða á Salt áður en við fórum aftur "heim" í tjald.
Á miðvikudeginum tókum við upp tjaldið um hádegisbil eftir að hafa fengið okkur kaffi og hressingu. Síðan lá leiðin á Skriðuklaustur. Smári og Nina, sem búa á Ísafirði, voru búin að vera með listamannaíbúðina í tæpar þrjár vikur. Nína var með sýningu í einu herbergi á neðri hæð hússins og Smári hafði verið að vinna að efni í næstu hjólabók. Þau voru hins vegar bæði á staðnum þegar við tvíburarhálfsysturnar mættum og buðu okkur inn til sín í kaffi og spjall eftir að við vorum búnar að skoða safnið. Þegar við kvöddum og héldum áfram ókum við meðfram Lagarfljótinu vestan meginn og fórum stystu leið heim til systur minnar og mágs. Stoppuðum ekkert á þeirri leið nema að einum stað skammt frá Mývatni þar sem verið var að laga veginn og bíða þurfti eftir að leiðsögubíll kæmi og keyrði á undan röðinni aðeins aðra áttina í einu. Vorum komnar á Árland um hálfátta og hittum þar fyrir pabba minn. Helga systir bauð upp á dýrindis kjötsúpu.
Fimmtudagsferðalagið varð ansi langt en líklega má þakka smá þokusúld á víð og dreif um svæðið. Byrjuðum þó á því að heilsa upp á hænurnar og pabba og Ingva inni í fjárhúsum og hlöðu áður en við lögðum af stað. Keyrðum aðeins innar í Kinnarnar áður en við snerum við og ókum í gegnum Húsavík og alla leið inn að Ásbyrgi. Þar gengum við inn að Botnstjörn. Í baka leiðinni úr Ásbyrgi skoðuðum við handverksverslunina Heimöx. Þar verslaði ég rúgbrauð, pönnsur og hnetublöndu allt merkt og gert af heimafólki af svæðinu. Sonja keypti sér m.a. "görn". Fengum okkur síðan að borða í verslun örskammt frá. Héldum för áfram um hálftvö. Kíktum næst á Kópasker. Stoppuðum stutt en tókum myndir af hluta af þeim flottu fígúrum sem eru rétt fyrir utan þorpið og í kringum eina tjörn. Héldum för ótrauðar áfram og heimsóttum flesta þéttbýliskjarna en stoppuðum stutt við, tókum þó ýmist myndir eða snöpp af svæðunum. Þegar við vorum uþb hálfnaðar með ákveðin hring varð ljóst að hvort sem við héldum áfram eða snerum við yrðum við ekki komnar til systur minnar fyrr en einhvern tímann eftir klukkan átta. Ákváðum að klára hringinn og vorum mun nær Egilsstöðum heldur en Akureyri þegar við beygðum inn á þjóðveg eitt af vegi númer 85. Þess ber að geta að sveitabær systur minnar og mágs er í nokkurra mínútna akstur við hinn endann á vegi 85. Þrátt fyrir að vera nokkuð seint á ferð eða klukkan langt gengin í níu voru húsráðendur og gestir, Davíð Steinn var búinn að bætast í hópinn, nýlega sestir að borðum. Okkur var boðið upp á Hangiket af kind með nafni sem ég man ekki hvað var og meðlæti.
Ég var komin fram um átta á föstudagsmorguninn. Systir mín var löngu farin í vinnuna. Mágur minn hafði vaknað með henni en lagt sig aftur. Fljótlega hellti ég upp á könnuna og mágur minn og pabbi bættust í hópinn stuttu fyrir níu áður en þeir fóru út að hlöðu þar sem verið var að vinna í að setja upp rafmagnsbílsskúrshurð. Sonja kom fram stuttu eftir að þeir voru farnir út. Við fengum okkur kaffi og hressingu. Davíð Steinn bættist í hópinn skömmu síðar og fékk sér að borða með okkur. Áður en við tíndum dótið saman hittum við aðeins á Aron og Huldu. Báðum þau um að skila kveðjum en Hulda og Davíð Steinn ætluðu að skreppa í veiðitúr á Ljósavatn með smá krók inn á Akureyri til að kaupa sér nesti. Við Sonja keyrðum inn að Grenivík og þaðan á Akureyri. Fórum fyrst í jólahúsið en þegar við snerum við komum við fórum við í sund, skruppum svo í rúmfatalagerinn og Bónus áður en við héldum för áfram. Vorum eitthvað að spá í að setja niður tjaldið í Hauganesi en okkur fannst heldur dýr nóttin, 2000 kr. fyrir persónuna og sama fyrir rafmagn. Semsagt 6000 krónur fyrir okkur. Hættum við en fengum okkur að borða á góðum stað við höfnina. Ég fékk mér fiskisúpu, skammt af frönskum og hvítvínsglas. Góð þjónusta og mjög góður matur. Síðan héldum við för um Tröllaskaga áfram. Keyrðum í gegnum Dalvík og Siglufjörð. Það var búið að bjóða okkur að setja niður tjaldið fríkeypis við bæinn Haganes í fljótunum en þrátt fyrir gott veður leist mér ekkert á að tjalda þar m.a. vegna þess að þessa helgina var heilt ættarmót í gangi á svæðinu. Á Hofsósi var ekki hægt að komast í rafmagn. Kíktum á aðstæður á tjaldstæðinu við Hóla í Hjaltadal en þar var ekki rafmagn í boði og þar að auki fullt af fólki. Fundum blett á tjaldstæðinu við Sauðárkrók en ákváðum að kíkja einnig inn í Varmahlíð. Á síðarnefnda staðnum var ekkert laust svo við snérum við. Klukkan var um ellefu þegar við komum aftur á Krókinn. Verið var að tjalda á blettinum sem við höfðum í huga en það var nóg pláss á flötinni og snúran hennar Sonju er það löng að það var létt að tengjast rafmagninu. Ég var orðin ansi lúin, stirð og ferðaþreytt svo það tók mig nokkrar mínútur að staulast úr bílnum og hjálpa til við að tjalda. Eftir að hafa skroppið á salerni skreið ég beint ofan í pokann.
Klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég skreyddist út úr tjaldinu á laugardeginum. Meðan ég fór að pissa og tanna hellti Sonja upp á en hún var aldrei þessu vant mun fyrr á fótum heldur en ég, hafði samt farið miklu seinna inn í tjald. Við vorum sammála um að þrátt fyrir mikla leti í mér að taka okkur upp og halda heim á leið. Keyrðum af stað um tólf leytið, inn fallegan dal sem lá m.a. til Blöndóss. Ókum malbikaða kaflann og þegar við komum að gatnamótum beygðum við fyrst til hægri og gerðum stuttan túr inn á Skagaströnd. Kíktum aðeins inn í spákonusetrið og var okkur leyft að skoða okkur smá stund um án þess að borga aðgang. En það er hægt að fá fjörutíu mínútna leiðsögn og einnig kaupa sér alls konar spá; lófalestur, tarrot, lestur í bolla og örugglega eina eða fleiri í viðbót. Það verður kannski gert síðar. Næsta stopp var ekki fyrr en um hálffimm í sumarbústað við Selborgir stutt frá Borgarnesi. Þar var okkur boðið í kaffi og með því og einnig grillað lambalæri með tilheyrandi bökunarkartöflum, fersku sallati og bernessósu. Stoppið stóð því rúma tvo tíma en það var mjög gott að fá svona móttökur og láta ferðaþreytuna aðeins líða úr sér áður en síðasta spölurinn í bæinn var ekinn.